Hæstiréttur íslands

Mál nr. 177/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Innsetningargerð


                                     

Föstudaginn 21. mars 2014.

Nr. 177/2014.

 

Norðurtak ehf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

Lýsingu hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

 

Kærumál. Innsetningargerð.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem L hf. var heimilað með beinni aðfarargerð að fá nánar tiltekna muni tekna úr umráðum N ehf.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 20. febrúar 2014, þar sem varnaraðila var heimilað með beinni aðfarargerð að fá nánar tiltekna muni tekna úr umráðum sóknaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um innsetningargerð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Norðurtak ehf., greiði varnaraðila, Lýsingu hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 20. febrúar 2014.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 23. janúar sl., barst dóminum 26. júní 2013.

Gerðarbeiðandi er Lýsing hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Gerðarþoli er Norðurtak ehf., Dalatúni 14, Sauðárkróki.

Dómkröfur

Gerðarbeiðandi krefst dómsúrskurðar um að eftirtalin tæki og bifreiðar verði með beinni aðfarargerð tekin úr vörslum gerðarþola og fengin Ólafi Hvanndal Ólafssyni héraðsdómslögmanni fyrir hönd gerðarbeiðanda:

Langendorf SKS malarvagn, fastanúmer ZJ-987, árgerð 2006, Hitachi ZX350 beltagrafa, fastanúmer EB-1119, árgerð 2005, Man 33.680 TGX 6x4 BLS vörubifreið 820, fastanúmer AE-E18, árgerð 2007, Hitachi ZX470 beltagrafa, fastanúmer EB-1494, árgerð 2007, Hitachi ZX350 beltagrafa, fastanúmer EB-0938, árgerð 2005 og Volvo FM12 vörubifreið, fastanúmer MY-999, árgerð 2005. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi gerðarþola að mati dómsins. Við munnlegan flutning málsins andmælti gerðarbeiðandi kröfu gerðarþola þess efnis að réttarverkunum úrskurðarins yrði frestað þar til dómur Hæstaréttar lægi fyrir.

Gerðarþoli krefst þess að kröfum gerðarbeiðanda verði hafnað. Hann krefst og málskostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda. Loks krefst hann þess, verði kröfur gerðarbeiðanda teknar til greina, að réttarverkunum úrskurðarins verði frestað þar til Hæstiréttur hefur dæmt í málinu.

II

Atvik máls

Gerðarbeiðandi, sem er fjármálafyrirtæki í skilningi laga nr. 161/2002, og gerðarþoli, sem er verktakafyrirtæki, hafa átt í allnokkrum viðskiptum frá árinu 1998. Frá þeim tíma hafa þeir gert með sér tugi eignar- og eignaleigusamninga. Samningum þeim sem lauk fyrir hrun íslensks efnahagslífs á árinu 2008 lauk ýmist með því að gerðarþoli greiddi þá upp og fékk afsal frá gerðarbeiðanda eða þá að nýir samningar voru gerði um nýtt lausafé, sem hið eldra hefur gegnið upp í kaupverðið á. Frá hausti 2008 hafa aðilar gengið frá uppgjöri samninga m.a. með því að gerðarþoli hefur selt tæki til erlendra aðila og greitt gerðarbeiðanda andvirði þeirra. Þá hefur gerðarbeiðandi í nokkrum tilfellum afsalað sjálfum sér tækum með samþykki gerðarþola gegn greiðslu kaupverðs þeirra.

Krafa gerðarbeiðanda er reist á þremur fjármögnunarleigusamningum sem allir gerðu ráð fyrir að leiga, sem gerðarþola bæri að greiða fyrir afnota af tækjunum, tæki mið af erlendum myntum í ákveðnum hlutföllum. Í fyrsta lagi er samningur nr. 135862-864, gerður 16. ágúst 2006, en hann tekur til Hitachi ZX350 beltagröfu með fastanúmerinu EB-1119. Í öðru lagi samningur nr. 137809-811, gerður 27. nóvember 2006, sem tekur til Langendorf SKS malarvagns með fastanúmerinu ZJ-978. Í þriðja lagi samningur nr. 148285-289, gerður 19. júní 2008, og tekur til Man 33.680 TGX 6x4 BLS vörubifreiðar með fastanúmerið AE-E18. Krafa gerðarbeiðanda er einnig reist á kaupleigusamningi nr. 817281-284 sem dagsettur er 30. mars 2012 og tekur til Hitachi ZX470 beltagröfu, fastanúmer EB-1494, árgerð 2007, Hitachi ZX350 beltagröfu, fastanúmer EB-0938, árgerð 2005, og Volvo FM12 vörubifreiðar, fastanúmer MY-999, árgerð 2005. Leigugreiðslur samkvæmt þessum síðastgreinda samningi voru óverðtryggðar og áttu að greiðast mánaðarlega í íslenskum krónum.

Með símskeyti 21. janúar 2013 rifti gerðarbeiðandi framangreindum samningum og krafðist greiðslu á ógreiddri leigu auk þess sem hann krafðist þess að leigumunum yrði skilað.

III

Málsástæður og lagarök

Gerðarbeiðandi reisir kröfur sínar á því að samkvæmt fjármögnunar-leigusamningunum hafi gerðarþoli átt að greiða gerðarbeiðanda tiltekið leigugjald út grunnleigutíma samninganna eins og mælt sé fyrir um í 4. og 5. gr. samninganna. Að þeim tíma loknum hafi gerðarþoli átt að greiða tiltekið framhaldsleigugjald í samræmi við 6. gr. samninganna. Í samningunum hafi síðan verði mælt fyrir um að leigugrunnur hafi verið samsettur af svokallaðri myntkörfu og fjárhæðir þeirra bundnar erlendum myntum í þeim hlutföllum sem greinir í hverjum samningi fyrir sig.

Gerðarbeiðandi heldur því fram að fjármögnunarleigusamningar aðila séu leigusamningar. Því til stuðnings vísar hann til IAS 17, alþjóðlegs reikningsskila-staðals sem hafi lagagildi hér á landi. Þá heldur hann því fram að 13. og 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 um bann við gengistryggingu stangist á við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt samningi um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 40. gr. samningsins um frjálst flæði fjármagns. Í þessu sambandi bendir gerðarbeiðandi á rökstutt álit Eftirlitsstofnunar EFTA frá 22. maí 2013.

Gerðarbeiðandi rökstyður kröfur sína einnig með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011. Í þeim dómi hafi verið dæmt um sambærilegan samning og þá sem í þessu máli eru með gengistryggingu. Rétturinn hafi staðfest að fjármögnunarleigusamningur væri leigusamningur eins og heiti hans bar með sér og því hafi ákvæði laga nr. 38/2001 ekki staðið í vegi fyrir því að aðilum þess máls hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra tæki mið af breytingum erlendra gjaldmiðla.

Gerðarbeiðandi byggir á því, varðandi tæki þau sem getið er í kaupleigusamningi aðila, að gerðarþola hafi borið að greiða ákveðna leigufjárhæð í hverjum mánuði í tiltekinn tíma. Samkvæmt 2. gr. samningsins hafi leigufjárhæðir verið óverðtryggðar.

Gerðarþoli hafi vanrækt að greiða leigugjaldið samkvæmt samningunum en elstu vanskil hans séu frá því í júlí 2010. Hinn 4. apríl 2013 hafi vanskil gerðarþola vegna samnings nr. 137809-811 numið 2.597.153 krónum, vegna samnings nr. 135862-864 6.041.741 krónu, vegna samnings nr. 148285-286 5.086.586 krónum og vegna samnings nr. 817281-284 626.876 krónum eða samtals 14.252.355 krónum að meðtöldum vöxtum og kostnaði en án lögfræðikostnaðar.

Gerðarbeiðandi segir gerðarþola ekki hafa orðið við ítrekuðum tilmælum um að greiða vanskilin og því hafi samningunum, með heimild í 28. grein þeirra, verði rift hinn 21. janúar 2013. Gerðarþoli hafi neitað að afhenda gerðarbeiðanda eignir sínar og því sé, með vísan til 78. gr. laga um aðför nr. 90/1989, gerð krafa um að gerðarbeiðanda verði fengin umráð tækjanna.

Gerðarþoli reisir kröfur sínar á því að réttur sóknaraðila sé svo óljós að úr honum verði ekki skorið með þeim gögnum sem unnt er að byggja á í innsetningarmáli og þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfum gerðarbeiðanda. Telur gerðarþoli að leita verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins til að fá svar við þeirri spurningu hvort 13. og 14. gr. laga um vexti og verðtryggingu standist ákvæði samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Séu ákvæði 13. og 14. gr. nefndra laga andstæð skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum skipti ekki máli hvort eignaleigusamningarnir, sem gerðarbeiðandi kallar fjármögnunarleigusamninga, séu lána- eða leigusamningar, þar sem gengistrygging allra tegunda eignarleigusamninga hafi ávallt verið heimil.

Gerðarþoli reisir kröfur sínar einnig á því að lánssamningar þeir sem gerðarbeiðandi reisir kröfur sínar á séu í raun lánssamningar en ekki hefðbundnir leigusamningar þar sem eignarréttur og skyldur tengdar honum haldist hjá leigusala en leigutaki greiði leigugjald fyrir afnot hins leigða. Hann bendir á að ítarlega sé fjallað um eðli þess, sem þá hét eignarleigusamningar, í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga um eignarleigustarfsemi, sem lagt var fram á Alþingi 1988. Í athugasemdunum segi m.a. að hugtakið eignarleiga sé nýtt í íslensku lagamáli og þýðing á enska orðinu „leasing“. Hugtakið eignarleiga verði ekki lagt að jöfnu við hefðbundinn skilning orðsins leiga heldur verði að afmarka eignarleigu frá leigu í sérstakri löggjöf. Lög um eignarleigustarfsemi nr. 19/1989 hafi síðan tekið gildi 4. apríl og hafi gerðarbeiðandi fallið undir þau. Í 1. gr. laganna hafi hugtökin eignarleiga, fjármögnunarleiga, kaupleiga og rekstrarleiga verið skilgreind. Samkvæmt lögunum hafi eignarleiga verið samheiti fyrir hugtök þau sem nefnd eru hér að framan. Í 2. gr. laganna hafi síðan eignarleigustarfsemi verið skilgreind sem starfsemi sem felst í því að veita, hafa milligöngu um eða bjóða fram lánveitingar og ábyrgðir á skuldum vegna fjármögnunar annarra. Eignarleigufyrirtæki hafi því frá upphafi verið skilgreind sem lánafyrirtæki. Í dag séu slík fyrirtæki skilgreind sem fjármálafyrirtæki. Eignarleigufyrirtækjum hafi borið að gæta þess að viðskiptamenn þeirra nytu jafnræðis varðandi upplýsingar um verð og önnur viðskiptakjör. Þau hafi einnig, að teknu tilliti til hags og þekkingar viðskiptamanna, átt að veita greinargóðar upplýsingar um kosti og kjör sem voru í boði. Þá hafi þau átt að þekkja viðskiptavini sína.

Með lögum nr. 123/1993 hafi lög nr. 19/1989 verði felld úr gildi. Í hinum nýju lögum hafi verið haldið við þá skipan að eignarleigufyrirtæki væru lánafyrirtæki, þ.e. félög sem hefðu það að meginverkefni að veita lán í eigin nafni. Eignarleigufélög höfðu hins vegar rýmri heimildir en aðrar lánastofnanir til að afla sér fjár til að endurlána og hafi gerðarbeiðandi m.a. sótt sér fé til þýskra banka sem hann seldi fyrir íslenskar krónur sem hann síðan lánaði viðskiptavinum sínum með gengistryggingu. Eignarleigufyrirtæki hafi í lögunum verið skilgreind með sama hætti og fyrr, þ.e. lánastofnun sem hefði eignarleigu að meginstarfsemi, óháð því hvernig sú starfsemi væri fjármögnuð. Þá var hugtakið eignarleiga skilgreind með sama hætti og í eldri lögum en talið óþarft að skilgreina ýmsa flokka eignarleigulánasamninga.

Með lögum nr. 161/2002 voru lög nr. 123/1993 felld úr gildi og náðu nýju lögin yfir starfsemi fjármálafyrirtækja sem starfa hér á landi og eignaleiga skilgreind í 3. tl.1. mgr. 3. gr. laganna. Í athugasemdum við þetta ákvæði í frumvarpi til laganna er tekið fram að eignaleiga verði áfram starfsleyfisskyld starfsemi. Þá er tekið fram að þrjú fyrirtæki skilgreini starfsemi sína nú sem eignafjármögnunarstarfsemi (e. asset based financing) Úr skilgreiningunni á eignaleigu sé fellt brott ákvæði um skilmála eignar- og afnotaréttar að lágmarkstíma liðnum þar sem í sumum formum eignaleiga skuli skila hinu leigða skilyrðislaust í lok leigutíma. Eignaleigu sé gjarnan skipt í þrennt: fjármögnunarleigu, kaupleigu og rekstrarleigu. Í fjármögnunarleigu haldist eignarréttur hjá leigusala. Í kaupleigu er leigutaka veittur réttur til að eignast hið leigða í lok leigutíma. Rekstrarleiga sé eignaleiga sem hvorki teljist fjármögnunar- eða kaupleiga. Í frumvarpinu er síðan lagt til að starfsemin nefnist eignaleiga í stað eignarleigu. Eignarleiga sé ekki réttnefni fyrir þá starfsemi sem orðið eigi að lýsa. Eignarleiga merki leigu á einhverju sem leigutaki eignist síðan. Eignaleiga merki hins vegar leigu á eign, óháð því hvort leigutaki eignist hið leigða í lok leigutíma.

Gerðarþoli segir að að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið sjáist að löggjafinn hafi allt frá árinu 1989 litið á eignar- og síðar eignaleigufyrirtæki sem útlánafyrirtæki – lánastofnanir, fjármálafyrirtæki. Fjármálafyrirtæki sem veiti sérstök og mjög áhættusöm lán, auk annarra og hefðbundinna lána, svo sem bíla- og tækjalána með veði. Löggjafinn hafi litið á samninga, eins og gerðarbeiðandi reisi rétt sinn á í máli þessu, sem lánssamninga sérstaks eðlis. Hafi gerðarbeiðandi litið á samningsform þau, sem hann samdi einhliða, með mismunandi hætti eftir heiti þeirra hafi honum borið að upplýsa viðskiptavini sína sérstaklega um mismunandi eðli samninganna og hvaða afleiðingar það gæti haft að velja fjármögnunarleigu í stað kaupleigu eða öfugt. Það hafi hann ekki gert heldur haldið því fram, m.a. við gerðarþola, að enginn eðlismunur væri á kaupleigu- og fjármögnunarleigusamningum, hvort tveggja væri lán. Gerðarbeiðandi hafi enda fært samninga án tillits til heitis þeirra í bókhald sitt sem lán. Vísar gerðarþoli í þessu efni til IAS, hins alþjóðlega reikningsskilastaðals, en þar segi m.a. um upphafsfærslu fjármögnunarleigu „leigusalar skulu færa eignir, sem þeir hafa í útleigu samkvæmt fjármögnunarleigu, í efnahagsreikning sinn og tilgreina þær sem kröfur með fjárhæð sem er jafnvirði hreinnar fjárfestingar í leigusamningnum.“ Samkvæmt þessu skipti andlag samningsins, sem kallað er hið leigða, engu fyrir efnahag gerðarbeiðanda heldur aðeins það fé sem í andlaginu var fest og tengja má öflun þess. Þá segi í 37. gr. nefnds staðals að við fjármögnunarleigu afsali leigusali sér að verulegu leyti allri áhættu og ávinningi sem fylgja kann lagalegu eignarhaldi og þess vegna fari leigusali með leigukröfuna eins og endurgreiðslu á höfuðstól og fjármagnstekjur sem hann fær sem endurgreiðslu og ávinning fyrir fjárfestingu sína og þjónustu.

Gerðarþoli byggir á því að gerðarbeiðanda hafi, með vísan til ákvæða laga um vexti og verðtryggingu, verið óheimilt að gengistryggja eignarleigusamningana eins og Hæstiréttur hafi ítrekað dæmt. Þrír af fjórum samningum sem eru til umfjöllunar í máli þessu séu gengistryggðir fjármögnunarleigusamningar. Gerðarbeiðandi hafi ekki viljað endurreikna þessa samninga frekar en eldri samninga aðila sem eru uppgerðir þrátt fyrir ólögmæta gengistryggingu þeirra. Heldur gerðarþoli því fram að gerðarbeiðanda hafi, strax eftir gildistöku laga nr. 151/2010, borið að endurreikna samningana. Lög nr. 151/2010 hafi verið sett vegna óvissu sem skapaðist í kjölfar dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, 153/2010 og 471/2010, sem allir tóku á ólögmæti gengistryggingar lánssamninga gerðarbeiðanda. Sama niðurstaða hafi fengist í dómi Hæstaréttar í máli nr. 282/2011 sem varðaði eignarleigustarfsemi Íslandsbanka hf. Í þeim dómi segi m.a. „Þegar framangreind atriði eru virt í heild verður að telja að þótt umræddur samningur 16. ágúst 2007 sé nefndur fjármögnunarleigusamningur sé það heiti nafnið tómt.“

Gerðarþoli heldur því fram að í síðastgreindum dómi Hæstaréttar hafi aðeins verið horft á efni samningsins og það talið óljóst. Um eðli þeirra eignaleigusamninga sem gerðarbeiðandi byggir rétt sinn á verði að horfa á efni samninganna annars vegar og hins vegar stöðu, hlutverk og heimildir gerðarbeiðanda, sem lánastofnunar, fjármálafyrirtækis. Hið síðargreinda vegi þyngra en form samninga sem gerðarbeiðandi hefur samið einhliða og varð að samrýmast heimildum hans. Gerðarbeiðandi hafi allt frá árinu 1989 haft víðtækari heimildir en aðrar lánastofnanir/fjármálafyrirtæki til að afla sér fjár til að endurlána með mikilli áhættu. Gerðarbeiðandi sé ekki leigusali lausafjár eða fasteigna í skilningi þess orðs, heldur lánveitandi sem færir kröfur samkvæmt eignaleigusamningum sem lán í bækur sínar. Lán sé heimilt að verðtryggja, að uppfylltum skilyrðum en þau megi ekki gengistryggja. Þetta hafi gerðarbeiðanda verið eða mátt vera kunnugt þegar hann útbjó hina umdeildu samninga. Hann hafi hins vegar ákveðið að hafa að engu bann við gengistryggingu lána í starfsemi sinni. Gerðarbeiðandi verði að bera hallann af allri ólögmætri starfsemi sinni eins og því að hafa ekki upplýst viðskiptavini sína um að hann liti stundum á sig sem leigjanda tækja, eins og hann geri nú þegar hann heimtar greiðslu samkvæmt samningum sem hann kaus að nefna fjármögnunarleigusamninga. Þannig hagi gerðarbeiðandi seglum eftir vindi og er ýmist fjármálafyrirtæki eða tækjaleiga allt eftir því samningsformi sem hann ber fyrir sig hverju sinni. Væri gerðarbeiðandi í raun tækjaleiga þyrfti hann ekki sérstakt starfsleyfi og liti ekki eftirliti Fjármálaeftirlitsins.

Gerðarþoli heldur því fram að dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 652/2011 hafi ekkert fordæmisgildi við úrlausn máls þessa. Eignar- og eignaleiga í hvaða mynd sem er sé og hafi ávallt verið lánastarfsemi að íslenskum rétti. Breyti engu þótt notuð séu hugtökin leigutaki og leigusali um samningsaðila eignar- eða eignaleigusamninga. Hugtökin séu bein þýðing úr ensk-amerísku lagamáli á orðunum lessor og lessee, sem eigi ekkert sameiginlegt við hugtökin leigusali og leigutaki að íslenskum leigurétti.

Gerðarþoli vísar til þess að gerðarbeiðandi hafi einhliða samið þá stöðluðu samninga sem hann reisir rétt sinn á. Við skýringu samninganna verði að horfa til þess að gerðarbeiðandi er stórfyrirtæki með fjölda sérfræðinga í vinnu, m.a. lögfræðinga sem komið hafi að gerð samninganna. Óumdeilt sé að gerðarbeiðandi hafi kosið að hafa samningana gengistryggða. Gerðarbeiðandi hafi við samningsgerðina gert greiðsluáætlun fyrir hvern samning. Áætlunin hafi spáð fyrir um þróun hinna gengistryggðu lána á lánstímanum og greiðslubyrði gerðarþola af þeim. Skoraði gerðarþoli á gerðarbeiðanda að leggja þessi gögn fram í málinu.

Gerðarþoli byggir einnig á því að gerðarbeiðandi eigi ekki né hafi nokkru sinni átt lögvarða kröfu til þess að gerðarþoli greiddi þá hækkun afborgana sem leiddu af gengistryggingu lánssamninganna en gerðarþoli hafi greitt af samningunum allt til gjalddaga 10. júlí 2010. Auk þess hafi gerðarþoli gert upp ýmsa aðra lánssamninga við gerðarbeiðanda, þar sem krafist var greiðslu á gengistryggðum höfuðstól. Af þessum sökum eigi gerðarþoli inni fé hjá gerðarbeiðanda. Meðan endurútreikningur gerðarbeiðanda á kröfum hans á hendur varnaraðila liggi ekki fyrir eigi hann enga kröfur á gerðarþola sem geti orðið grundvöllur að riftun lánssamninga þeirra á milli. Skilyrði riftunar samkvæmt 28. gr. samninganna hafi því ekki verið fyrir hendi þegar gerðarbeiðandi lýsti yfir riftun.

Gerðarþoli bendir á að gerðarbeiðandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sanni að hann sé í vanskilum eða hafi verið í vanskilum með lögmætar afborganir lánanna. Skuldin sem gerðarbeiðandi tilgreini í aðfararbeiðni sinni byggist á því að gengistrygging lánssamninga aðila hafi verið lögmæt. Gerðarþoli heldur því fram að af framangreindu sé ljóst að hann aftri ekki gerðarbeiðanda með ólögmætum hætti að neyta réttar síns samkvæmt lánssamningunum enda óljóst hver réttur gerðarbeiðanda samkvæmt samningum þessum sé.

Gerðarþoli vísar enn fremur til þess að dómstólum beri að hafna kröfu um innsetningu þegar varhugavert er talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra gagna sem heimilt er að afla í innsetningarmálum. Hér liggi fyrir að framlagðir samningar eru ólögmætir að efni til. Vegna ólögmæts verðtryggingarákvæðis eigi gerðarþoli kröfu á gerðarbeiðanda um endurgreiðslu þess fjár sem ofgreitt hefur verið, bæði af þeim samningum sem hér er deilt um og eins öðrum uppgerðum samningum. Þá kröfu megi hann nota til skuldajöfnunar við kröfu gerðarbeiðanda samkvæmt þeim þremur lánssamningum sem gerðarbeiðandi byggir rétt sinn á í þessu máli. Engin vanskil séu af hálfu gerðarþola á greiðslum samkvæmt þeim lánssamningi sem gerðarbeiðandi nefnir kaupleigusamning. Í öllum lánssamningunum sé sérstakt uppgjörsákvæði sem gerðarbeiðandi verði að fara eftir. Verði krafa gerðarbeiðanda tekin til greina verði gerðarþoli verr settur gagnvart honum og geti þurft að höfða mál til endurheimtu oftekinna greiðslna sem alger óvissa sé um að gerðarbeiðandi geti nokkru sinni innt af hendi vegna bágrar fjárhagsstöðu sinnar.

Gerðarþoli bendir á að í máli verktakafyrirtækisins Suðurverks ehf. gegn gerðarbeiðanda, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. september sl., hafi sama álitamál og hér er uppi verið til úrlausnar. Þar hafi dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að Suðurverk ehf. hafi haft kauprétt en ekki kaupskyldu að leigutíma liðum. Því hafi Suðurverk ehf. ekki eignfært hið leigða í bókhaldi sínu og ársreikningum heldur gjaldfært leigugreiðslurnar sem báru virðisaukaskatt. Hins vegar hafi dómurinn ekki vikið að því hvernig gerðarbeiðandi færði samninginn í bókum sínum. Síðan hafi dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að skilyrt réttindi Suðurverks ehf. til að kaupa hið leigða í lok leigutíma breytti ekki eðli umræddra samninga, sem hafi geymt öll megineinkenni fjármögnunarleigu eins og þau hafa verið skilgreind í lögum hér á landi í samræmi við almennt viðurkennd sjónarmið á sviði eignarleigu. Gerðarþoli bendir á að í dómi Hæstaréttar Íslands í máli 652/2011, sem sóknaraðili vísi til kröfum sínum til stuðnings, var talið ósannað að viðsemjandi gerðarbeiðanda hefði kauprétt í lok leigutíma. Því sé niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í nefndu máli röng og í andstöðu við niðurstöðuna í hæstaréttarmálinu nr. 652/2011. Telur gerðarþoli víst að Hæstiréttur Íslands muni dæma Suðurverki ehf. í vil verði því máli áfrýjað til réttarins. Hið sama eigi við um réttarsamband aðila máls þessa.

Af hálfu gerðarþola er vísað til þess að í hæstaréttarmáli nr. 652/2011 hafi ekkert verið fjallað um hvaða starfsemi gerðarbeiðandi hafi leyfi til að reka og hvernig hann hafi fjármagnað starfsemi sína og hvernig hann hafi bókað kröfur sínar. Af þeim sökum hafi dómurinn ekkert fordæmisgildi fyrir úrlausn máls þessa. Rétturinn hafi lagt ofuráherslu á að gerðarbeiðandi sé nefndur leigusali og að í samningi sé talað um leigu. Málflutningur í málinu hafi verið takmarkaður og ekkert horft til eðlis starfsemi gerðarbeiðanda. Síðan sé dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, sem áður er nefndur, í andstöðu við dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 282/2011, sem sé eini dómur réttarins þar sem beinlínis er fjallað um efni fjármögnunarleigusamninga. Heldur gerðarþoli því fram að fjármögnunarleigusamningar séu lánssamningar í búningi leigusamninga. Meðan Hæstiréttur Íslands hafi ekki kveðið upp endanlegan dóm um gildi gengistryggingarákvæða í samningum sambærilegum þeim sem gerðarbeiðandi byggir rétt sinn á í máli þessu eigi héraðsdómur ekki að heimila innsetningu, nema að undangenginni málsmeðferð eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála. Gerðarbeiðandi eigi ekki að komast framhjá samnings- og lögbundnu uppgjöri við gerðarþola með því einu að ætla að nota sér réttarfarshagræði og krefjast innsetningar í meinta leigumuni.

Gerðarþoli rökstyður kröfu sína um að aðför verði frestað þar til dómur Hæstaréttar Íslands liggi fyrir með því að ekkert spillist fyrir gerðarbeiðanda þótt hann þurfi að bíða innsetningar, fái hann hana á annað borð.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu krefst gerðarbeiðandi innsetningar í áðurgreind tæki sem eru í umráðum gerðarþola. Aðallega með þeim rökum að hann sé eigandi tækjanna sem gerðarþoli hafi haft á leigu. Gerðarþoli hafi ekki staðið skil á umsömdu leigugjaldi og því hafi samningunum verið rift. Gerðarþoli heldur því hins vegar fram að þeir samningar sem taka mið af gengi erlendra gjaldmiðla séu í andstöðu við ákvæði laga um vexti og verðtryggingu og því beri gerðarbeiðanda skylda til að endurreikna þá ásamt tugum eldri uppgerðra samninga. Telur hann að eftir slíkan endurútreikning komi í ljós að hann skuldi gerðarbeiðanda ekkert. Að minnsta kosti sé verulegur vafi á því hver staða aðila sé eftir slíkan endurútreikning þannig að hafna beri kröfu gerðarbeiðanda.

Áður hefur komið fram að krafa gerðarbeiðanda er reist á fjórum samningum. Þrír þeirra, sem allir bera heitið fjármögnunarleigusamningur, gera ráð fyrir að leigugrunnur sé tengdur gengi erlendra gjaldmiðla, en myntirnar og vægi hverrar þeirra um sig er mismunandi eftir samningum. Fjórði samningurinn er hins vegar kaupleigusamningur í íslenskum krónum.

Hæstiréttur Íslands kvað hinn 24. mars 2012 upp dóm í máli nr. 652/2011. Í þeim dómi var til umfjöllunar samningur milli Lýsingar hf., gerðarbeiðanda máls þessa og Smákrana ehf. Afrit þess samnings er meðal gagna málsins og má sjá að fjármögnunarleigusamningar þeir sem hér er um deilt eru efnislega samhljóða samningnum sem deilt var um í nefndum dómi um annað en sérákvæði um leigutaka, fjárhæðir, leigutíma og leiguandlag. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að samningurinn sem málið varðar sé í ýmsum atriðum frábrugðinn samningum sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 282/2011. Þannig séu stöðluð ákvæði samningsins skýr og eigi eingöngu við um fjármögnunarleigusamninga. Samningurinn fjalli um leigu og sé gerðarbeiðandi máls þessa ítrekað nefndur leigusali. Hins vegar séu nokkur ákvæði í samningnum hliðstæð þeim samningi sem fjallað var um í máli nr. 282/2011. Þannig hafi gerðarbeiðanda verið heimilt að reikna leigugjald til samræmis við breytingar sem kynnu að verða á millibankavöxtum erlendra gjaldmiðla. Smákranar ehf. beri sem leigutaki áhættu af því að hið leigða farist, skemmist eða rýrni og honum að auki skylt að greiða fjárhæð, sem svarar til leigu til loka samningstíma að frádregnu matsverði hins leigða, ef samningnum er rift. Þá segir í dóminum: „Milli þessara tilvika skilur þó um það meginatriði að gagnstætt því, sem var í máli nr. 282/2011, er ósannað í máli þessu að samið hafi verið um að stefndi myndi eignast hið leigða gegn ákveðinni greiðslu við lok leigutímans og liggur því ekki annað fyrir en að á því tímamarki stofnist ótímabundinn leigumáli gegn verulega lægra gjaldi, sem stefnda er heimilt að segja upp með eins mánaðar fyrirvara ásamt því að skila hinu leigða, svo sem nánar er mælt fyrir um í samningi aðilanna. Að þessu athuguðu er ekki annað leitt í ljós en samningurinn sé um fjármögnunarleigu, eins og heiti hans bendir til. Af þessum sökum girða ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki fyrir að aðilunum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra taki mið af breytingum á gengi erlendra gjaldmiðla.“ Í hæstaréttarmálinu nr. 627/2013 var til úrlausnar krafa gerðarbeiðanda máls þessa um innsetningu í ákveðin tæki. Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að umbeðin aðfarargerð skyldi fram ganga með þeim rökum að fjármögnunarleigusamningar sem málið tæki til væru að öllu leyti sambærilegir þeim samningi sem fjallað var um í dæmi Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 625/2011. Því girði ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu ekki fyrir að aðilum hafi verið heimilt að semja um að leigugjald í viðskiptum þeirra taki mið af breytingum á gegni erlendra gjaldmiðla.

Hér liggja því fyrir skýr fordæmi Hæstaréttar þess efnis að fjármögnunarleigusamningur sem er samhljóða fjármögnunarleigusamningum þeim sem gerðarbeiðandi byggir rétt sinn á sé leigusamningur og því hafi verið heimilt að semja um að leigugjald tæki mið af breytingum erlendra gjaldmiðla. Þegar af þeirri ástæðu bar gerðarbeiðanda ekki að endurreikna samningana og eldri uppgerða samninga miðað við að þeir geymdu ólögmætt ákvæði um gengistryggingu. Málsástæður gerðarbeiðanda sem reistar eru á því að óljóst sé hvort hann skuldi gerðarbeiðanda nokkuð yfir höfðu verða því ekki teknar til greina. Gerðarþoli hefur ekki byggt á því að útreikningar gerðarbeiðanda, sem miðast við gengistryggingu leigugreiðslna, séu rangir. Verður því fallist á kröfur gerðarbeiðanda sem reistar eru á nefndum fjármögnunarleigusamningunum enda þeim rift á sannanlegan hátt vegna vanskila og þá bera gögn málsins með sér að gerðarbeiðandi er óumdeilanlega eigandi tækjanna sem samningarnir taka til. Málsástæður gerðarþola sem raktar eru hér að framan, varðandi þróun á lagaumhverfi eignar- og síðar eignaleigufyrirtækja, færslu fjármögnunarleigusamninga í bókhaldi aðila, hvernig gerðarbeiðandi fjármagnar rekstur sinn, hvernig opinberu eftirliti er háttað með gerðarþola, stöðu, hlutverk og heimildir gerðarþola sem fjármálafyrirtækis, standa þessari niðurstöðu ekki í vegi. Þá hélt gerðarþoli því fram við munnlegan flutning málsins að venja hefði skapast í samskiptum aðila í þá veru að gerðarþoli eignaðist tækin gegn greiðslu eða þá að þau gengu sem greiðsla upp í nýjan samning. Hann hefur hins vegar engin gögn lagt fram í þessa veru. Verður krafa gerðarbeiðanda um innsetningu í tæki þau sem fjármögnunarleigusamningar aðila taka til því tekin til greina eins og í úrskurðarorði greinir.

Gerðarþoli byggir á því varðandi kaupleigusamning aðila nr. 817281-284 að greiðslur samkvæmt þeim samningi séu ekki í vanskilum. Skilja verður málsástæðu þessa þannig að óheimilt hafi verið að rifta samningnum. Af yfirliti sem stafar frá gerðarbeiðanda má ráða að gjalddagi samningsins sem var 20. apríl 2013 hafi verið ógreiddur hinn 4. apríl 2013 þegar yfirlitið var prentað út. Gjalddagi kröfunnar var því á þeim tíma ekki kominn. Gerðarbeiðandi hefur ekki lagt fram nein göng sem benda til þess að kaupleigusamningurinn hafi nokkru sinni verið í vanskilum. Gerðarbeiðandi rifti öllum fjórum samningum aðila sem um er deilt í máli þessu með sama símskeyti hinn 21. janúar 2013. Í símskeytinu er ástæða riftunarinnar sögð vera „vanskil á leigugreiðslum og/eða öðrum greiðslum sem leigutaki skuldbatt sig til að greiða skv. ákvæðum samningsins.“ Í greinargerð sinni byggir gerðarbeiðandi á því að riftunin hafi farið eftir ákvæðum 28. gr. samninganna. Varðandi kaupleigusamninginn vísaði gerðarbeiðandi til þess, í málflutningi sínum, að honum hafi verið rift vegna vanskila á greiðslum samkvæmt öðrum samningum gerðarþola en heimild til þess sé að finna í 28. gr. allra samninganna sem mál þetta tekur til.

Hér háttar svo til að kaupleigusamningur aðila var gerður 30. mars 2012 en þá var liðið vel á annað ár frá því að fjármögnunarleigusamningarnir fóru í vanskil og lá vanefnd sú sem gerðarbeiðandi ber fyrir sig í þessu máli því fyrir þegar samningurinn var gerður. Þrátt fyrir þetta gerði gerðarbeiðandi kaupleigusamning við gerðarþola. Gat gerðarbeiðandi því, ef honum sýndist svo vegna annarra vanskila gerðarþola, rift kaupleigusamningnum sama dag og hann var gerður með því að vísa til 28. gr. samningsins. Að mati dómsins er óvarlegt, án frekari sönnunarfærslu, að fallast á með gerðarbeiðanda að honum hafi verið heimilt að rifta kaupleigusamningi aðila vegna vanefnda gerðarþola á öðrum samningum aðila sem lágu fyrir á samningsdegi. Í þessu sambandi verður að horfa til þess að samningur aðila er staðlaður og saminn einhliða af gerðarbeiðanda. Eru skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 því ekki uppfyllt varðandi þau tæki sem tilgreind eru í títtnefndum kaupleigusamningi aðila og kröfu gerðarbeiðanda um innsetningu í þau hafnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Gerðarþoli krefst þess að gerðinni verði frestað þar til niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir, sbr. 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Ákvæðið á einkum við þegar hagsmunir gerðarþola eru ófjárhagslegs eðlis og tjón hans yrði ekki bætt með fégreiðslu, en það á ekki við í máli þessu. Er kröfu gerðarbeiðanda um frestun aðfarargerðarinnar því hafnað.

Að fenginni þessari niðurstöðu verður þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu gerðarbeiðanda flutti málið Heimir Fannar Hallgrímsson héraðsdómslögmaður en af hálfu gerðarþola Gestur Gunnarsson héraðsdómslögmaður.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Gerðarbeiðanda, Lýsingu hf., er heimilt með beinni aðfarargerð að fá Langendorf SKS malarvagn, fastanúmer ZJ-987, árgerð 2006, Hitachi ZX350 beltagröfu, fastanúmer EB-1119, árgerð 2005, Man 33.680 TGX 6x4 BLS vörubifreið, fastanúmer AE-E18, árgerð 2007, tekin úr umráðum gerðarþola, Norðurtaks ehf.

Kröfu gerðarbeiðanda, þess efnis að Hitachi ZX470 beltagrafa, fastanúmer EB-1494, árgerð 2007, Hitachi ZX350 beltagrafa, fastanúmer EB-0938, árgerð 2005 og Volvo FM12 vörubifreið, fastanúmer MY-999, árgerð 2005 verði tekin úr umráðum gerðarþola, er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.

Málsskot úrskurðarins til Hæstaréttar frestar ekki aðfarargerðinni.