Hæstiréttur íslands

Mál nr. 334/2008


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 4. desember 2008.

Nr. 334/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, settur vararíkissaksóknari)

gegn

Guðmundi Jónssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

(Sigurður Sigurjónsson hrl.

 Sveinn Andri Sveinsson hrl. réttargæslumenn)

 

Kynferðisbrot. Skaðabætur.

G var ákærður fyrir brot gegn 197. gr. og 1. mgr. 198. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa sem forstöðumaður, meðferðarráðgjafi og stjórnandi kristilegra samkoma á vímuefnameðferðar- og endurhæfingarheimili haft samræði og önnur kynferðismök við fjórar konur sem voru vistmenn þar og sóttu meðferðarviðtöl hjá honum og misnotað þannig freklega þá aðstöðu að konurnar voru honum háðar sem skjólstæðingar hans í trúnaðarsambandi. Talið var að 197. gr. hegningarlaga tæmdi sök gagnvart 1. mgr. 198. gr. sem gæti því einungis tekið til þeirra brota sem framin hefðu verið utan þeirra tímabila sem konurnar töldust vistmenn á heimilinu. Var G sakfelldur fyrir hluta þeirrar háttsemi sem honum var gefin að sök og framin var á meðan konurnar voru vistmenn á meðferðarheimilinu, sbr. 197. gr. hegningarlaga. Hins vegar var G sýknaður af ákæru vegna brota eftir að konurnar töldust ekki lengur vistmenn þar sem ekki þótti sýnt fram á hvernig þær hefðu verið skjólstæðingar G í trúnaðarsambandi í skilningi 1. mgr. 198. gr. Við ákvörðun refsingar G var litið til ungs aldurs eins brotaþolans og þess að brotin beindust að konum sem höfðu leitað í brýnni neyð eftir meðferð vegna vímuefnaneyslu og ákærði hefði fært sér það í nyt með ófyrirleitni. Var refsing G ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Bótakröfu A var vísað frá dómi þar sem G var sýknaður af þeirri háttsemi sem talin var beinast að henni, sbr. 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en G þótti með háttsemi sinni hafa bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta til B, C og D sem voru ákveðnar á bilinu 800.000 til 1.000.000 krónur.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. júní 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst að refsing ákærða samkvæmt hinum áfrýjaða dómi verði þyngd og honum gert að greiða A, B og C hverri um sig 2.500.000 krónur og D 1.000.000 krónur, í öllum tilvikum „auk vaxta eins og greinir í ákæru.“

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til dómsálagningar á ný. Að þessu frágengnu krefst hann sýknu, en ella að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að framangreindum fjárkröfum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þær verði lækkaðar.

I

Mál þetta var höfðað með ákæru 28. janúar 2008, þar sem ákærða voru gefin að sök kynferðisbrot með því að hafa sem forstöðumaður, meðferðarráðgjafi og stjórnandi kristilegra samkoma á vímuefnameðferðar- og endurhæfingarheimilinu Byrginu, kristilegu líknarfélagi, að Efri-Brú í Grímsnesi haft samræði og önnur kynferðismök við A, B, C og D, sem hafi verið vistmenn þar og sótt meðferðarviðtöl hjá honum, og misnotað þannig freklega þá aðstöðu að konurnar hafi verið honum háðar sem skjólstæðingar hans í trúnaðarsambandi. Í ákærunni var gerð nánari grein fyrir sakargiftum á hendur ákærða í sérstökum liðum varðandi hverja af þessum fjórum konum, en ætluð brot hans þóttu varða við 197. gr. og 1. mgr. 198. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og þeim hefur verið breytt með 5. gr. og 6. gr. laga nr. 40/1992 og 6. gr. og 7. gr. laga nr. 61/2007. Þá voru teknar upp í ákærunni skaðabótakröfur á hendur ákærða, sem þessu tengdust, en þær A og B gerðu hvor fyrir sig kröfu um greiðslu á 2.500.000 krónum, C 3.000.000 krónum og D 2.000.000 krónum. Varðandi þær þrjár fyrstnefndu var að auki gerð krafa um vexti „frá því að hið bótaskylda tilvik átti sér stað í samræmi við II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og dráttarvaxta skv. III. kafla sömu laga frá því að mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar“, en ekki var krafist vaxta af kröfu þeirrar síðastnefndu.

Samkvæmt hinum áfrýjaða dómi voru af hálfu ákæruvaldsins gerðar breytingar við flutning málsins í héraði á nánar tilteknum atriðum í verknaðarlýsingu í ákæru. Eins og málið liggur fyrir í Hæstarétti verður ekki séð að bókað hafi verið um þessar breytingar í þingbók, svo sem borið hefði að gera, en við málflutning hér fyrir dómi voru ekki gerðar athugasemdir af hálfu ákæruvaldsins við að réttilega væri frá þessu greint í héraðsdóminum. Með honum var ákærði í flestum atriðum sakfelldur samkvæmt ákæru eins og henni hafði verið breytt, en brot hans þóttu rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni, þar sem þau voru talin varða í senn við 197. gr. og 1. mgr. 198. gr. almennra hegningarlaga. Þá var ákærða gert að greiða A og B 1.500.000 krónur hvorri og C 2.000.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum, en D 1.000.000 krónur án vaxta.

Fyrir Hæstarétti unir ákæruvaldið við niðurstöður héraðsdóms um sakfellingu ákærða, þar með talið í tilvikum, þar sem hann var sýknaður af sakargiftum, en af hálfu þess var á hinn bóginn áfrýjað til að fá refsingu hans þyngda. Eins og ráðið verður af fyrrgreindum dómkröfum ákæruvaldsins var héraðsdómi jafnframt áfrýjað til hækkunar á skaðabótum til A, B og C í 2.500.000 krónur handa hverri, en varðandi D var gerð krafa um sömu fjárhæð og henni var dæmd í héraði. Ætlaðir brotaþolar eru bundnir af þeirri ráðstöfun sakarefnisins, sem felst í dómkröfum í áfrýjunarstefnu, og geta þær því ekki komið að fyrir Hæstarétti kröfum um greiðslu hærri fjárhæða en hér var getið. Með því að ekki var krafist í ákæru vaxta af bótakröfu D verður kröfu um þá heldur ekki komið að hér fyrir dómi.

II

Aðalkrafa ákærða um að málinu verði vísað frá héraðsdómi er reist á því að í ákæru sé ekki nægilega tilgreint hvar og þó sérstaklega hvenær einstök brot, sem honum eru gefin að sök, eigi að hafa verið framin. Framburður ætlaðra brotaþola sé jafnframt nokkuð á reiki í þessum efnum. Þetta skipti miklu um heimfærslu ætlaðra brota til refsiákvæða, þar sem 197. gr. almennra hegningarlaga, sem hafi að geyma önnur skilyrði til refsiáfalls en 1. mgr. 198. gr. laganna, verði ekki beitt nema fyrir liggi að brot hafi beinst að þeim, sem á viðkomandi tíma hafi verið vistmaður á stofnun í skilningi fyrrnefnda ákvæðisins.

Um þessar röksemdir fyrir aðalkröfu ákærða er til þess að líta að í einstökum liðum ákæru er afmarkað nægilega hvar ætluð brot hans eiga að hafa verið framin, en á hinn bóginn skortir nokkuð á að svo sé gert um tímasetningu þeirra. Að því leyti, sem þetta kynni einhverju að varða við úrlausn málsins, yrði ákæruvaldið að bera hallann af því ef ekki teldist sannað að brot hafi verið framið á tímaskeiði, sem verknaðarlýsing 197. gr. almennra hegningarlaga gæti tekið til. Þetta getur því ekki talist annmarki á ákæru, sem valdið getur frávísun málsins frá héraðsdómi.

Ekki verður fallist á með ákærða að slíkir hnökrar séu á röksemdafærslu fyrir niðurstöðum hins áfrýjaða dóms að varðað geti ómerkingu hans. Samkvæmt því, sem nú hefur verið greint, verður hafnað aðalkröfu ákærða og fyrstu varakröfu fyrir Hæstarétti.

III

Fyrir liggur í málinu að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands gaf út 15. júlí 2003 starfsleyfi á nafni Byrgisins ses., Ljósafossi í Grímsnesi, til fjögurra ára. Þar var ákærða getið sem starfsleyfishafa vegna vímuefnameðferðarheimilis og væri leyfið veitt „í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, lög um matvæli nr. 93/1995 og reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002.“ Ekki hefur komið fram í málinu að annarra leyfa eða heimilda hafi verið þörf vegna þeirrar starfsemi, sem ákærði eða fyrrnefnd sjálfseignarstofnun hafði með höndum.

Í framlögðum upplýsingabæklingi, sem mun hafa verið gerður um starfsemi Byrgisins, segir að það sé kristilegt líknarfélag, sem hafi verið stofnað 1996. Það reki meðferðarheimili og endurhæfingarsambýli „fyrir vímuefnaneytendur, oftast heimilislaust fólk“ og bjóði þeim „mjög öfluga endurhæfingarmeðferð“. Í skýrslu fyrir héraðsdómi lýsti ákærði, sem kvaðst vera menntaður sem kjötiðnaðarmaður, múrari og matreiðslumaður, Byrginu sem kristilegu líknarfélagi, sem hafi rekið „stað fyrir útigistandi fólk.“ Þetta fólk hafi átt við vímuefnavanda að stríða, einkum vegna annarra efna en áfengis, og hafi þetta verið „erfiðari meðferð, erfiðari skjólstæðingar.“ Meðferðin hafi meðal annars verið fólgin í „almennum meðferðarviðtölum“, sem ákærði hafi annast einn frá árinu 2004, en ásamt öðrum fram að því. Hann lýsti því svo að almennt hafi meðferð verið lokið eftir sex mánuði, en eftir það hafi þó verið auðsótt að vera lengur ef vistmaður bæði um það og „treysti sér ekki út á götu“. Vistmenn hafi að meðaltali verið á bilinu frá 30 til 35 eftir að starfsemi Byrgisins var flutt úr Sandgerði að Efri-Brú á árinu 2003. Þeir hafi greitt fyrir dvöl sína, ýmist af fé, sem þeir hafi sjálfir fengið frá Tryggingastofnun ríkisins, eða með því að Byrginu hafi borist greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar sveitarfélaga við vistmennina. Í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst Ólafur Ólafsson, fyrrum landlæknir, hafa meðal annarra veitt læknisþjónustu í Byrginu og komið þangað í því skyni á viku til tíu daga fresti. Af framburði hans verður ráðið að þeir, sem þangað hafi leitað eftir meðferð, hafi almennt verið útigangsmenn eða annars í þeirri aðstöðu að fullreynt væri að þeir fengju ekki vist á sjúkrahúsum eða öðrum stofnunum.

Samkvæmt 197. gr. almennra hegningarlaga, eins og hún hljóðaði á tímabilinu sem einstakir liðir ákæru taka til, varðaði það umsjónarmann eða starfsmann í fangelsi, geðsjúkrahúsi, vistheimili, uppeldisstofnun eða annarri slíkri stofnun allt að fjögurra ára fangelsi að hafa samræði eða önnur kynferðismök við vistmann á stofnuninni. Ákvæði þetta getur eftir orðanna hljóðan tekið til slíkrar háttsemi gagnvart manni, sem sviptur er frelsi til vistar í fangelsi eða annarri stofnun, en jafnframt er þó ljóst að það verður ekki bundið við þau tilvik ein, þar sem maður sætir frelsisskerðingu, enda er það hvorki tekið fram í ákvæðinu né verður það ályktað af þeirri talningu á stofnunum, sem þar er. Þótt fyrir liggi í gögnum málsins að meðal vistmanna í Byrginu hafi bæði mátt finna fanga, sem afplánuðu þar refsivist, og ungmenni, sem voru ósjálfráða sökum æsku, svo sem átti við um D, verður ekki annað séð en að vistmenn hafi flestir verið bærir að lögum til að ákveða sjálfir hvort þeir vildu halda þar kyrru fyrir. Fram hjá því verður á hinn bóginn ekki litið að í ljósi þess, sem áður greinir, verður að leggja til grundvallar að slíkir vistmenn hafi að öðru jöfnu verið þannig settir að hafa ekki í annað hús að venda meðan á vímuefnameðferð þeirra í Byrginu stóð. Vegna þeirrar aðstöðu, sem vistmennirnir bjuggu við í reynd þótt þeir hafi ekki allir lögum samkvæmt verið sviptir frelsi, verður að telja Byrgið hafa verið meðal þeirra stofnana, sem lagðar voru að jöfnu við fangelsi, geðsjúkrahús, vistheimili og uppeldisstofnanir í þágildandi ákvæði 197. gr. almennra hegningarlaga.

Í 1. mgr. 198. gr. almennra hegningarlaga, eins og hún hljóðaði á þeim tíma sem ákæra í málinu varðar, var mælt svo fyrir að hver sá, sem hefði samræði eða önnur kynferðismök við mann utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar með því að misnota freklega þá aðstöðu að sá maður væri háður honum fjárhagslega, í atvinnu eða sem skjólstæðingur í trúnaðarsambandi, skyldi sæta fangelsi allt að þremur árum, en þó allt að sex árum væri viðkomandi maður yngri en 18 ára. Um tengsl þessa ákvæðis við þágildandi 197. gr. almennra hegningarlaga verður að líta til þess að í síðastnefndri lagagrein var kveðið á um refsinæmi þess að umsjónarmaður eða starfsmaður við tilteknar stofnanir hefði kynferðismök við vistmann og var ekki áskilið að þeim hafi verið komið fram með því að sá brotlegi hafi beitt í því skyni misneytingu, gagnstætt því að samkvæmt 1. mgr. 198. gr. varð brot að leiða af freklegri misnotkun aðstöðu. Af þessu er ljóst að við þær aðstæður, sem getið var í 197. gr., tæmdi það ákvæði sök gagnvart 1. mgr. 198. gr. og getur þar engu breytt að löggjafinn hafi kosið að hafa hámarksrefsingu samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu við tilteknar aðstæður þyngri en eftir því fyrrnefnda. Af þessum sökum getur 1. mgr. 198. gr. almennra hegningarlaga ekki tekið til annarra ætlaðra brota ákærða en þeirra, sem hann er sakaður um að hafa framið utan þeirra tímabila, þar sem konurnar, sem í ákæru greinir, geta hafa talist til vistmanna í Byrginu.

Sem fyrr segir eru ætluð brot ákærða heimfærð í ákæru jöfnum höndum til 197. gr. og 1. mgr. 198. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að tækt sé að beita á þennan hátt báðum þessum lagaákvæðum í senn. Ekki verður þó af þeirri ástæðu litið svo á að annmarkar séu á málinu, enda hefur vörn ákærða ekki orðið áfátt vegna þessa.

IV

Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti er ákærði í I. lið ákæru borinn sökum um að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við A, sem fædd er 1971, þegar hún hafi verið vistmaður í Byrginu og sótt þar stuðningsmeðferð, annars vegar í nokkur skipti haustið 2003 á heimili hennar að Y í Hveragerði og hins vegar í sjö eða átta skipti sumarið 2006 í sumarhúsi við Laugarvatn, í skóglendi í Hagavík við Þingvallavatn, á útivistarsvæði við Álfaskeið í Hrunamannahreppi og í Byrginu.

Samkvæmt gögnum, sem lögregla aflaði frá landlækni við rannsókn málsins, var A skráð þar sem vistmaður í Byrginu á tímabilinu 1. desember 1997 til 1. september 2000, 1. janúar til 30. júní 2003, 7. til 14. september sama ár og 26. maí til 17. júlí 2006.

Í framburði A fyrir héraðsdómi kom meðal annars fram að hún hafi verið langt leidd af neyslu fíkniefna þegar kom til dvalar í Byrginu í fyrsta sinn á árinu 1997, auk þess sem hún hafi átt við andlega vanheilsu að stríða. Maður hennar hafi einnig verið þar á þeim tíma. Sumarið 2001 hafi hún byrjað að eiga kynferðisleg samskipti við ákærða og þau þrívegis haft mök heima hjá henni og í Byrginu, en þangað hafi hún leitað í meðferðarviðtöl til hans. Hún hafi orðið þunguð af völdum ákærða, en fóstri verið eytt í nóvember 2001. Nokkru eftir það hafi hún aftur orðið þunguð, í það sinn eftir mann sinn, og eignast barn í september 2002. Frá sumrinu 2001 hafi hún ekki átt í kynferðissambandi við ákærða fyrr en á árinu 2003. Byrgið hafi þá skömmu áður hafið starfsemi í Grímsnesi og hún verið að flytja til Hveragerðis ásamt manni sínum, en hann hafi orðið mjög erfiður í skapi og hún leitað af þeim sökum í Byrgið, þar sem hún hafi dvalist í tvær vikur haustið 2003 og talið sig þá vera í meðferð. Viðtöl, sem hún hafi þá sótt hjá ákærða, hafi farið að snúast um kynferðisleg efni og ástarjátningar. Hann hafi byrjað að færa í tal við hana svokallað BDSM kynlíf, en eftir gögnum málsins mun þetta heiti vera dregið af skammstöfun ensku orðanna „bondage, discipline, domination, submission, sadism, masochism“. Með þessum aðdraganda hafi hún á fyrrnefndu tveggja vikna tímabili byrjað aftur að hafa kynmök við ákærða. Það hafi gerst á nánar tilteknum stöðum, sem verknaðarlýsing í ákæru nær ekki til, en hún hafi ekki getað hugsað sér að gera slíkt í Byrginu, sem hafi verið „heilagur staður.“ Hún hafi svo farið úr Byrginu á nýtt heimili sitt í Hveragerði og hafi ákærði heimsótt hana þar. Í framburði sínum lýsti A einni slíkri heimsókn, þar á meðal í einstökum atriðum kynmökum, sem hún hafi þá átt við ákærða. Hún bætti því við að það hafi verið „nokkrar svona heimsóknir“, sem hún greindi þó ekki nánar frá. Hún kvað hlé síðan aftur hafa orðið á slíkum samskiptum við ákærða frá því í mars 2004 allt þar til á árinu 2006, en þá um vorið hafi allt ástand heima hjá henni versnað, sem og andleg líðan hennar. Hún hafi því leitað á ný í Byrgið og meðan á dvöl hennar þar stóð í það sinn hafi hún farið í sumarbústað við Laugarvatn með ákærða, eiginkonu hans og börnum þeirra. Meðan börnin hafi sofið hafi þau þrjú átt í kynlífsathöfnum, sem hún lýsti nánar, og einnig síðar í húsi, sem ákærði gisti í að Efri-Brú, en alls virðist hún með þessu hafa greint frá þremur tilvikum. Hún lýsti því jafnframt að hún hafi við annað tækifæri farið í ökuferð seint að kvöldi með ákærða og eiginkonu hans og komið þá við í skógi, þar sem hann hafi sagst hafa sætt kynferðislegri misnotkun í æsku af hendi þriggja kvenna. Þar hafi hún haft kynmök við ákærða og eiginkonu hans. Loks hafi hún enn eitt skipti haft kynmök með ákærða einum í öðrum skógi skammt frá Efri-Brú. Við rannsókn málsins fór A með lögreglu á þá tvo staði, sem þessi lýsing hennar varðaði, og mun í fyrrnefnda skiptið hafa verið um að ræða útivistarsvæði við Álfaskeið í Hrunamannahreppi og í það síðarnefnda skóglendi í Hagavík við Þingvallavatn.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði neitað með öllu að hafa átt í kynferðislegum samskiptum við A og það hefur eiginkona hans jafnframt gert. Önnur vitni hafa ekki lýst vitneskju um slíka háttsemi ákærða. Fyrir héraðsdómi staðfesti á hinn bóginn nafngreindur geðlæknir vottorð sitt frá 26. september 2007, sem hann hafði látið í té við rannsókn málsins, en þar var þess meðal annars getið að á árinu 2001 hafi A greint honum frá sambandi sínu við ákærða, svo og að hún hafi orðið þunguð af hans völdum og fengið fóstri eytt. Í hinum áfrýjaða dómi er jafnframt greint frá tölvupósti, sem ákæruvaldið staðhæfir að farið hafi milli ákærða og A í apríl og október til desember 2003 og febrúar og mars 2006, en þau samskipti, sem ákærði neitar að hafa átt hlut að, lúta í verulegum atriðum að kynferðislegum málefnum. Þá liggur fyrir að á árunum 2001 til 2006 hafi ákærði og að nokkru félög um rekstur Byrgisins lagt samtals 741.000 krónur á bankareikning A, þar af samtals 567.000 krónur á árinu 2003 og 35.000 krónur 2006. Verður að fallast á að öll þessi gögn styðji mjög frásögn hennar um kynferðislegt samband hennar við ákærða.

Til þess verður á hinn bóginn að líta að samkvæmt fyrrgreindum framburði A stóð þetta samband hennar við ákærða yfir í meira en fimm ár frá árinu 2001, en með allnokkrum hléum. Í skýrslu hennar fyrir dómi lýsti hún aðeins einu slíku atviki á heimili sínu haustið 2003 og kom skýrlega fram að það hafi gerst eftir að hún var farin úr vist í Byrginu í september á því ári. Þá lýsti hún að virðist fimm slíkum atvikum sumarið 2006, sem hún tengdi við tímabil þegar hún var vistmaður þar. Engin frekari gögn liggja fyrir í málinu um þessi sex tilvik, sem A er þannig ein til frásagnar um. Er því ekki fært, hvað sem öðru líður, að telja sannað að neitt þessara tilvika hafi gerst á tímabilunum 7. til 14. september 2003 eða 26. maí til 17. júlí 2006, þegar líta má svo á að A hafi verið vistmaður í Byrginu í skilningi þágildandi 197. gr. almennra hegningarlaga. Þegar haft er að öðru leyti í huga þau langvarandi samskipti, sem hún kveðst hafa átt við ákærða á umræddu árabili, svo og að lítið sem ekkert liggur fyrir um það trúnaðarsamband, sem byggt er á í ákæru að staðið hafi milli hennar og ákærða vegna dvalar eða annarrar meðferðar, sem hún hafi sótt til hans, er heldur ekki sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn þágildandi 1. mgr. 198. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sýknaður af þeim sökum, sem hann er borinn í I. lið ákæru, en samkvæmt 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber af þeirri ástæðu að vísa kröfu A um skaðabætur frá héraðsdómi.

V

Í II. lið ákæru er ákærða gefið að sök að hafa á tímabilinu frá apríl 2004 til maí 2005 oft haft samræði og önnur kynferðismök við B, fædda 1976, þegar hún hafi verið vistmaður í Byrginu og sótt þar meðferð vegna vímuefnanotkunar. Þessi kynferðismök hafi í fjögur skipti átt sér stað á Hótel Loftleiðum, nokkur skipti á Hótel Nordica og eitt skipti á gistihúsi að Laugavegi 18 í Reykjavík, en að öðru leyti í Byrginu.

Samkvæmt gögnum, sem lögregla aflaði frá landlækni, var B vistmaður í Byrginu frá 2. febrúar til 25. maí og frá 4. júní til 30. júlí 1999 og aftur frá 18. ágúst 2003 til 7. maí 2005. Ákærði staðfesti fyrir dómi að í gögnum þessum væri réttilega greint frá vist B í Byrginu á síðastnefndu tímabili frá 2003 til 2005.

Í vitnaskýrslu B fyrir héraðsdómi kvaðst hún hafa verið djúpt sokkin í neyslu fíkniefna í mörg ár áður en hún leitaði í Byrgið á árinu 2003. Hún hafi byrjað að sækja viðtöl hjá ákærða eftir tveggja eða þriggja mánaða vist og hafi þau fljótlega orðið dagleg. Framan af hafi ekkert verið óeðlilegt við þessi viðtöl og hafi hún treyst ákærða fyrir ýmsu, sem hún hafi aldrei sagt öðrum frá, en þegar á leið hafi ákærði farið að ræða um kynlíf við hana. Eitt skipti, sem hún hafi verið í viðtali hjá ákærða, hafi hann síðan sagt henni að leggjast og farið að fróa henni utan klæða. Eftir þetta atvik hafi hún hugleitt að fara úr Byrginu, en ekki hafi orðið af því, enda hafi hún ekki haft annan stað til vera á og hafi einu kostirnir þannig verið að halda kyrru fyrir eða fara aftur í neyslu. Í framhaldi af þessu hafi hún og ákærði haft kynmök á gistihúsum, í fyrsta sinn um líkt leyti og sonur ákærða hafi fæðst í apríl 2004. Með þessu hafi verið „brotinn ísinn“ og þau farið að hafa kynmök oft í viku, yfirleitt í Byrginu, en jafnframt meðal annars á heimili ákærða, þar sem eiginkona hans hafi verið með þeim nokkur skipti. Meðan á þessu stóð hafi ákærði oft gefið henni peninga, meðal annars til að kaupa fatnað, og tvívegis keypt fyrir hana bifreið. Dvöl hennar í Byrginu hafi lokið í maí 2005 og hún þá flutt á Selfoss og síðan til Reykjavíkur, en hún hafi áfram átt í kynlífssambandi við ákærða allt þar til síðla árs 2006.

Ákærði neitaði fyrir dómi að hafa nokkru sinni átt í kynferðislegum samskiptum við B á þeim tíma, sem um ræðir í ákæru. Þá neitaði eiginkona hans að hafa átt slík samskipti við B, sem áður er getið.

Fyrir héraðsdómi greindi vinkona B, Q, frá því að sú fyrrnefnda hafi margsinnis sagt henni í trúnaði frá kynferðissambandi sínu við ákærða á meðan hún dvaldi í Byrginu. H, sem starfaði þar á umræddum tíma, bar fyrir dómi að ákærði hafi varið miklum tíma með B og hafi hún oft verið hjá honum að næturlagi. H kvaðst eitt sinn hafa séð inn í herbergi ákærða þegar hann gekk þaðan út og hafi B þá legið þar í rúmi. K kvaðst fyrir dómi hafa verið vistmaður í Byrginu um tíu mánaða skeið frá apríl 2004. Hún greindi frá mikilli samveru ákærða við B, svo og að rætt hafi verið þar um samband þeirra, og kvaðst hún nokkrum sinnum hafa séð B koma út úr herbergi ákærða að morgni til. C greindi jafnframt frá því að ákærði hafi átt í kynlífssambandi við B áður en sú fyrrnefnda hafi tekið upp slíkt samband við hann síðari hluta árs 2004.

Meðal gagna málsins eru reikningar á hendur B frá Hótel Loftleiðum vegna gistingar annars vegar 8. apríl 2004 og hins vegar 14. og 15. sama mánaðar, en á reikningi vegna síðastnefndu daganna kemur fram að ákærði hafi pantað þá gistingu. Jafnframt er reikningur á nafni B vegna gistingar aðfaranótt 21. maí 2005, en sá reikningur ber ekki með sér frá hverjum hann stafar. Þá liggur fyrir að ákærði lagði samtals 280.500 krónur inn á bankareikning B með fjölmörgum færslum á árunum 2004 til 2006, en af þeirri fjárhæð voru 40.000 krónur lagðar á reikninginn á tímabilinu, sem þessi liður ákærunnar lýtur að.

Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá vitnisburði og öðrum gögnum um kynferðislegt samband ákærða við B eftir það tímabil, sem þessi liður ákæru tekur til. Þar er jafnframt lagt mat á trúverðugleika skýrslu ákærða og framburðar vitna. Að því virtu eru ekki efni til annars en að leggja til grundvallar framburð B, sem fær stoð í áðurgreindum gögnum. Verður ákærði því sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 197. gr. almennra hegningarlaga með þeirri háttsemi, sem greinir í þessum lið ákærunnar, að frátöldu því að ekki liggur nægilega fyrir að hann hafi átt kynferðismök við B á gistihúsum, sem getið er í ákærunni, utan tveggja skipta á Hótel Loftleiðum.

VI

Í III. lið ákæru er ákærði borinn sökum um að hafa frá hausti 2004 til apríl 2005 í tvö til fjögur skipti í viku haft samræði og önnur kynferðismök við C, fædda 1982, þegar hún hafi verið vistmaður í Byrginu til meðferðar vegna vímuefnanotkunar, en kynmökin hafi átt sér stað nokkur skipti í sumarhúsi í Ölfusborgum, eitt skipti í herbergi í kjallara á heimili ákærða að Háholti 11 í Hafnarfirði og að öðru leyti í Byrginu. Þá er ákærða enn fremur gefið að sök að hafa frá apríl 2005 til nóvember 2006 haft samræði og önnur kynferðismök við C á heimili hennar að X í Reykjavík, en á því tímabili hafi hún sótt kristilegar samkomur og meðferð í Byrginu, þar á meðal viðtalsmeðferð hjá ákærða.

Í gögnum, sem aflað var við lögreglurannsókn frá landlækni, kemur fram að C hafi verið vistmaður í Byrginu frá 10. apríl til 31. maí 2004 og frá 10. júní sama ár til 1. nóvember 2006. Fyrir dómi kvaðst C hafa dvalið í Byrginu frá apríl 2004 til júní 2005, en þá hafi hún flutt í íbúð að X í Reykjavík. Ákærði greindi á sama hátt frá tímabilinu, sem hún var vistmaður í Byrginu, en þó þannig að hann taldi hana hafa flutt þaðan í maí 2005.

Fyrir héraðsdómi kvaðst C hafa neytt mikilla fíknaefna áður en hún fór í Byrgið vorið 2004, en fyrstu fjóra til sex mánuðina eftir það hafi hún ekki verið í viðtalsmeðferð hjá ákærða. Í annað skiptið, sem hún fór í slíkt viðtal, hafi ákærði farið að ræða við hana um kynlíf og hafi þau nokkru síðar í fyrsta sinn haft samfarir í viðtalsherbergi. Hafi þetta fljótlega þróast þannig að þau hafi verið samvistum alla daga og nætur og haft kynmök tvisvar til fimm sinnum í viku, bæði í Byrginu og á gistihúsum, svo og í íbúð í Reykjavík, í herbergi í kjallara á heimili ákærða í Hafnarfirði og jafnframt í eitt skipti í sumarhúsi í Ölfusborgum, þar sem eiginkona hans hafi einnig átt hlut að máli. Eftir að C flutti til Reykjavíkur vorið 2005 hafi hún komið nánast daglega í Byrgið og unnið ýmis verkefni fyrir ákærða, meðal annars við þátttöku í kristilegum samkomum, þýðingu fyrirlestra og útgáfu blaðs þar á staðnum, en þetta hafi verið endurhæfing eða starfsþjálfun. Á þessu tímabili og allt fram í nóvember 2006 hafi sambandi hennar við ákærða verið fram haldið á sama hátt og áður og hafi þau meðal annars tekið myndir af kynlífsathöfnum sínum. Þá hafi hún gengist undir brjóstastækkun hjá lýtalækni og hafi ákærði borið kostnað af aðgerðinni.

Ákærði neitaði í skýrslu fyrir héraðsdómi að hafa átt í kynferðislegu sambandi við C. Þau hafi aðeins í eitt skipti haft kynmök, en það hafi gerst með því að hún hafi byrlað honum smjörsýru á heimili hennar í byrjun október 2006 með þeim afleiðingum að hann myndi ekki eftir atvikum í framhaldinu og hafi hún tekið athafnir þeirra upp á myndband. Eiginkona ákærða neitaði fyrir dómi að hafa tekið þátt í kynferðislegum athöfnum með honum og C.

Móðir C, Í, bar fyrir dómi að nokkru eftir að sú fyrrnefnda hafi farið í vist í Byrginu hafi hegðun hennar tekið að breytast og hún meðal annars byrjað að ganga í mjög dýrum fötum. Hafi C þá sagt sér frá því að hún ætti í sambandi við ákærða og þegar frá leið eða sumarið 2006 hafi hún greint frá því að hann vildi að þau gengju í hjúskap. Í kvaðst af nánar tilteknum ástæðum oft hafa orðið vör við að C og ákærði væru samvistum eftir að C var flutt til Reykjavíkur, auk þess sem henni væri kunnugt um að hann hafi greitt fyrir lýtaaðgerð, sem C hafi gengist undir, og gefið henni húsgögn og heimilistæki. Vitnið P greindi frá því fyrir dómi að ákærði hafi eitt sinn á árinu 2005 eða 2006 hringt í sig og beðið hann um að koma á heimili C að X, en þar hafi þau öll saman átt í kynlífsathöfnum og þeir meðal annars báðir haft samfarir við hana.

Í gögnum málsins er verulegt magn myndefnis, sem sýnir meðal annars fólk í kynlífsathöfnum. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi var þar komist að þeirri niðurstöðu að mikið af þessu myndefni sýni ýmist C, ákærða eða þau bæði í senn. Ekki verður séð að unnt sé að ráða af því, sem liggur fyrir í málinu, frá hvaða tíma þetta myndefni er í einstökum atriðum, en að nokkru hefur C lýst því að það hafi verið tekið upp á heimili hennar að X. Þá liggur fyrir vottorð nafngreinds lýtalæknis, sem hann staðfesti fyrir dómi, þar sem fram kemur að C hafi gengist undir aðgerð hjá honum í september 2005 og hafi kostnaður af því verið 230.000 krónur, en af þeirri fjárhæð hafi 150.000 krónur verið greiddar með raðgreiðslum af greiðslukorti. Í málinu hefur verið lögð fram skuldaviðurkenning útgefin af ákærða 5. september 2005 vegna þessara raðgreiðslna.

Myndefni og önnur gögn, sem áður var getið, taka af öll tvímæli um að ákærði hafi átt í kynlífssambandi við C, þótt ekki verði sem fyrr segir slegið föstu hvort eða að hvaða marki þetta myndefni kunni að stafa frá tímabilinu, sem hún var vistmaður í Byrginu. Fyrir dómi lýsti hún því að þetta samband hafi staðið allt frá hausti 2004. Í hinum áfrýjaða dómi var vitnisburður C metinn mjög trúverðugur, en um síðastgreint atriði sækir hann nokkurn stuðning í vætti móður hennar. Að því virtu verður að telja sannað að ákærði hafi tvö eða fleiri skipti í viku haft samræði og önnur kynferðismök við C á tímabilinu frá nóvember 2004 til apríl 2005, en með því að framburður hennar fyrir dómi var ekki ljós um tilvik, þar sem slíkt kann að hafa gerst utan Byrgisins, verður að leggja til grundvallar að þessi háttsemi hafi ekki verið viðhöfð á öðrum stöðum en þar. Með því að C var á þessu tímabili vistmaður í Byrginu hefur ákærði með þessu brotið gegn 197. gr. almennra hegningarlaga. Í ákæru er hann jafnframt borinn sökum um refsiverða háttsemi með því að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við C allt að fimm sinnum í viku á heimili hennar að X frá apríl 2005 til nóvember 2006, en á því tímabili hafi hún sótt kristilegar samkomur og meðferð í Byrginu, þar á meðal meðferðarviðtöl hjá ákærða. Af gögnum málsins er ljóst að ákærði átti í kynlífssambandi við C á þessu tímabili þegar vist hennar í Byrginu var lokið. Af framburði hennar verður á hinn bóginn ekki ráðið að hún hafi verið þar í meðferð á þessum tíma, heldur lýsti hún því að hún hafi komið þangað nær daglega til að sinna tilteknum störfum. Ekkert liggur að öðru leyti fyrir til stuðnings því að C hafi verið háð ákærða sem skjólstæðingur hans í trúnaðarsambandi í þeim skilningi, sem um ræddi í þágildandi 1. mgr. 198. gr. almennra hegningarlaga. Er því óhjákvæmilegt að sýkna ákærða af þeim sökum, sem hann er borinn að þessu leyti.

VII

Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti er ákærða í IV. lið ákæru gefið að sök að hafa frá sumri 2004 til febrúar 2005, þegar D, fædd [...] 1987, var vistmaður í Byrginu og gekkst þar undir meðferð vegna vímuefnanotkunar, og eftir að hún flutti þaðan og fram á vor 2005, þegar hún sótti kristilegar samkomur og meðferð í Byrginu, meðal annars meðferðarviðtöl hjá ákærða, haft í fjögur skipti við hana önnur kynferðismök en samræði á heimili ákærða að Háholti 11 í Hafnarfirði, í sumarbústað við Laugarvatn og á YY í Ölfusi.

Samkvæmt gögnum, sem aflað var við lögreglurannsókn frá landlækni, var D skráð sem vistmaður í Byrginu frá 1. október 2003 til 28. febrúar 2005, en einnig frá 25. september til 1. október 2005 og 7. til 19. júlí, 24. til 29. júlí og 26. september til 26. október 2006. Ákærði staðfesti fyrir dómi að þessar upplýsingar væru réttar að því leyti, sem hér skiptir máli.

Í vitnaskýrslu fyrir héraðsdómi greindi D frá því að henni hafi verið komið í vist í Byrginu með samþykki barnaverndaryfirvalda í september 2003 eftir að hafa verið í langvarandi fíkniefnaneyslu. Hún hafi byrjað að sækja viðtöl hjá ákærða í febrúar 2004, en þá um sumarið hafi þau farið að hittast utan slíkra viðtala, því hann hafi viljað vera vinur hennar. Á því tímabili hafi hann farið að ræða mikið um kynlíf við hana, meðal annars um svokallað BDSM kynlíf, en hann hafi sagst hafa rætt um það við Guð, sem hafi ekki talið neitt rangt við það. Ákærði hafi jafnframt sagt henni frá stúlku, sem hafi verið í meðferð hjá sér og líkst mjög D, meðal annars vegna þunglyndis sem hafi hrjáð þær báðar, en sú stúlka hafi farið í BDSM þjálfun og fengið af því mikla bót. D hafi því byrjað í verklegri þjálfun hjá ákærða haustið 2004 eftir að hafa fyllt út eyðublað með spurningum varðandi ýmislegt í sambandi við BDSM kynlíf og hafi þau hist til þessarar þjálfunar heima hjá honum, bæði í íbúð og kjallaraherbergi, og í sumarbústað við Laugarvatn, alls þrjú skipti. Hafi eiginkona ákærða í öllum þessum tilvikum verið með þeim. D lýsti þessari þjálfun nánar, meðal annars með því að þátttakendur hafi verið bundnir, svipum beitt og alls konar hjálpartækjum, sem sett hafi verið í leggöng og endaþarm. Eftir að hún var farin úr vist í Byrginu hafi ákærði og eiginkona hans komið sumarið 2005 til dvalar í gistihúsi í Ölfusi, þar sem D hafi þá starfað, og hafi þau öll ásamt þáverandi kærasta hennar, P, átt í slíkum kynlífsathöfnum. Hún kvaðst hafa flutt úr Byrginu í febrúar 2005, en haldið áfram að sækja þar kristilegar samkomur og fyrirlestra, auk þess sem hún hafi átt að byrja í eftirmeðferð. Úr þeirri eftirmeðferð hafi lítið eða ekkert orðið, því henni hafi gengið illa að ná í ákærða og þegar það hafi þó tekist hafi samtöl beinst að öðru, meðal annars kynlífi. Þá greindi hún jafnframt frá því að ákærði hafi keypt fyrir hana bifreið þegar hún var vistmaður í Byrginu, en móðir hennar hafi gefið út skuldabréf fyrir hluta kaupverðsins, sem ákærði hafi ætlað að greiða af.

Ákærði neitaði fyrir dómi að hafa átt í kynferðislegu sambandi við D og það gerði jafnframt eiginkona hans í vitnaskýrslu sinni. Ákærði kvað D hafa komið eftir að vist hennar í Byrginu lauk til sín tvívegis vegna erfiðleika í sambandi hennar við áðurnefndan P, sem ákærði hafi svo rætt við í framhaldinu, þar á meðal í eitt skipti með henni. Hún hafi á hinn bóginn ekki verið í meðferðarviðtölum eða sótt eftirmeðferð í Byrginu eftir að hún fór úr vist þar. Ákærði kannaðist við að hafa átt hlut að því að D keypti bifreið, en vegna kaupanna hafi hann ætlað að láta af hendi til móður hennar hluta af því fé, sem greitt hafi verið til Byrgisins vegna hennar frá því opinbera.

P greindi frá því fyrir dómi að ákærði og eiginkona hans hafi gist eitt sinn á vinnustað D, YY í Ölfusi, og hafi þau öll fjögur farið í „leik“, þar sem þau hafi verið léttklædd og svipum verið beitt, auk þess sem kynlífstæki hafi verið notað á eiginkonu ákærða.

Í hinum áfrýjaða dómi var framburður D metinn trúverðugur. Hún bar sem fyrr segir meðal annars um að ákærði hafi afhent sér spurningalista vegna BDSM kynlífs á eyðublaði. Fyrir liggur í málinu að ákærði hafði slíkan spurningalista vistaðan í tölvu. Þá hefur D eins og áður greinir borið um kynlífsathafnir sínar með ákærða, eiginkonu hans og P, sem sá síðastnefndi hefur jafnframt borið um fyrir dómi. Að þessu virtu þykir mega leggja til grundvallar vætti D um þau atriði, sem greinir í þessum lið ákæru, eins og honum hefur verið breytt undir rekstri málsins. Á tímabilinu, sem hún var vistmaður í Byrginu, hafði ákærði samkvæmt þessu tvívegis við hana önnur kynferðismök en samræði á heimili hans í Hafnarfirði og eitt skipti í sumarbústað við Laugarvatn. Sú háttsemi varðaði við þágildandi 197. gr. almennra hegningarlaga. Um það atvik, sem um ræðir í ákæru og gerðist á YY í Ölfusi sumarið 2005, eftir að D var farin úr vist í Byrginu, er þess að gæta að eftir framburði hennar var hún þar ekki til vímuefnameðferðar á því tímaskeiði, heldur leitaði hún þangað á kristilegar samkomur og fyrirlestra. Ekki verður ráðið af gögnum málsins hvernig hún geti á því tímabili hafa talist háð ákærða sem skjólstæðingur hans í trúnaðarsambandi í skilningi þágildandi 1. mgr. 198. gr. almennra hegningarlaga. Verður því að sýkna ákærða af sökum, sem varða kynferðismök við D á umræddu gistihúsi.

VIII

Samkvæmt því, sem að framan greinir, telst ákærði sannur að því að hafa ítrekað haft kynferðismök við B, C og D á þeim tíma, sem þær voru vistmenn í Byrginu til vímuefnameðferðar, en sem forstöðumaður þeirrar stofnunar braut ákærði með þessu gegn ákvæði 197. gr. almennra hegningarlaga eins og það hljóðaði á þeim tíma, sem ákæra tekur til. Við ákvörðun refsingar verður meðal annars að líta til þess að D var 17 ára að aldri á þeim tíma, sem ákærði braut gegn henni, en í öllum tilvikum beindust brot hans að konum, sem höfðu leitað í brýnni neyð eftir meðferð vegna vímuefnaneyslu. Ákærði færði sér þetta með ófyrirleitni í nyt og á hann sér engar málsbætur. Við ákvörðun refsingar verður að líta til ákvæða 1., 2., 3., 5. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga, en jafnframt að gæta að þeirri hámarksrefsingu, sem háttsemi sem þessi varðar að lögum. Að því virtu verður ákærða gert að sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá röksemdum, sem brotaþolar hafa fært fram fyrir kröfum sínum um miskabætur. Að þeim virtum og atvikum málsins að öðru leyti er hæfilegt að ákærða verði gert að greiða B og C hvorri um sig 1.000.000 krónur í miskabætur, en D 800.000 krónur. Af þeim ástæðum, sem áður greinir, verða D ekki dæmdir vextir af kröfu sinni, en um vexti af kröfum B og C fer samkvæmt því, sem nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest um annað en skyldu ákærða til að greiða þóknun réttargæslumanns A, sem greiðist úr ríkissjóði, en að teknu tilliti til þess fer um heildarfjárhæð sakarkostnaðarins samkvæmt því, sem nánar segir í dómsorði. Þóknun réttargæslumanns A fyrir Hæstarétti greiðist jafnframt úr ríkissjóði, en ákærða verður gert að greiða allan annan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna annarra brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Guðmundur Jónsson, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

Fjárkröfu A er vísað frá héraðsdómi.

Ákærði greiði B 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. maí 2005 til 12. febrúar 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði C 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júní 2005 til 12. febrúar 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði D 800.000 krónur.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð að öðru leyti en því að þóknun skipaðs réttargæslumanns A, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði og greiði ákærði því samtals 3.736.758 krónur í sakarkostnað í héraði.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns A fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 62.250 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði greiði allan annan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.852.387 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 1.245.000 krónur, þóknun skipaðs réttargæslumanns B og C, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, alls 186.750 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns D, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 9. maí 2008.

Mál þetta, sem þingfest var þann 12. febrúar 2008 og dómtekið 18. mars sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 28. janúar 2008, á hendur Guðmundi Jónssyni, kt. 191158-4669, Háholti 11, Hafnarfirði,

„fyrir kynferðisbrot með því að hafa sem forstöðumaður, meðferðarráðgjafi og stjórnandi kristilegra samkoma á vímuefnameðferðar- og endurhæfingarheimilinu Byrginu, kristilegu líknarfélagi, Efri-Brú, Grímsnesi, haft samræði og önnur kynferðismök við fjórar konur, sem voru vistmenn í Byrginu og sóttu meðferðarviðtöl hjá ákærða, og með því að hafa misnotað freklega þá aðstöðu sína að konurnar voru honum háðar sem skjólstæðingar hans í trúnaðarsambandi:

I

með því að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við A, þegar hún var vistmaður í Byrginu og sótti þar stuðningsmeðferð:

a)             Í nokkur skipti haustið 2003 á heimili A að [...], Hveragerði og í Byrginu.

b)            Í sjö eða átta skipti sumarið 2006 í sumarhúsi við Laugarvatn, í skóglendi í Hagavík við Þingvallavatn, á útivistarsvæði við Álfaskeið í Hrunamannahreppi, á vegi við Búrfell í Grímsnesi og í Byrginu.

II

Á tímabilinu frá apríl 2004 til maí 2005, nánast á hverjum degi, haft samræði og önnur kynferðismök við B þegar hún var vistmaður í Byrginu og

sótti þar meðferð vegna vímuefnamisnotkunar. Kynferðismökin áttu sér oftast stað í Byrginu en einnig á hótelum í Reykjavík, þar á meðal í fjögur skipti á Hótel Loftleiðum, í nokkur skipti á Hótel Nordica og í eitt skipti á hóteli við Laugaveg 18.

III

a)             Á tímabilinu frá hausti 2004 til aprílmánaðar 2005, í tvö til fjögur skipti í viku, haft samræði og önnur kynferðismök við C þegar hún var vistmaður í Byrginu og sótti þar meðferð vegna vímuefnamisnotkunar. Kynmökin áttu sér oftast stað í Byrginu en einnig í nokkur skipti í sumarhúsi í Ölfusborgum og í eitt skipti í kjallaraherbergi á heimili ákærða að Háholti 11, Hafnarfirði.

b)            Frá apríl 2005 til nóvember 2006, eftir að C flutti úr Byrginu, allt að fimm sinnum í viku, haft samræði og önnur kynferðismök við C á heimili hennar að X, Reykjavík, en á þessum tíma sótti C kristilegar samkomur og meðferð, þar á meðal meðferðarviðtöl hjá ákærða í Byrginu.

IV

Á tímabilinu frá sumri 2004 til febrúarmánaðar 2005, þegar D, þá 17 ára gömul, var vistmaður í Byrginu og sótti þar meðferð vegna vímuefnamisnotkunar, og eftir að hún flutti úr Byrginu í febrúar 2005 og fram á árið 2006, en á þeim tíma sótti D kristilegar samkomur og meðferð, þar á meðal meðferðarviðtöl hjá ákærða í Byrginu, í allt að tíu skipti, haft við hana samræði og önnur kynferðismök í Byrginu, á Hótel Ingólfi í Ölfusi, á heimili ákærða að Háholti 11, Hafnarfirði og í sumarbústað á Laugarvatni.

Framangreind háttsemi ákærða telst varða við 197. og 1. mgr. 198. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 40/1992 og 6. og 7. gr. laga nr. 61/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Einkaréttarkröfur:

1)             A, kennitala [...], krefst bóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 2.500.000 auk vaxta frá því að hið bótaskylda tilvik átti sér stað í samræmi við II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og dráttarvaxta skv. III. kafla sömu laga frá því að mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar.

2)             B, kennitala [...], krefst bóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 2.500.000 auk vaxta frá því að hið bótaskylda tilvik átti sér stað í samræmi við II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og dráttarvaxta skv. III. kafla sömu laga frá því að mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar.

3)             C, kennitala [...], krefst bóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 2.500.000 auk vaxta frá því að hið bótaskylda tilvik átti sér stað í samræmi við II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 og dráttarvaxta skv. III. kafla sömu laga frá því að mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar.

4)             D, kennitala [...], krefst bóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 2.000.000.“

Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins þann 12. febrúar sl. og neitaði sök. Þá hafnaði hann jafnframt bótakröfunum. Hófst aðalmeðferð þann 14. mars sl. og var framhaldið þann 17. og 18. mars sl. Af hálfu verjanda ákærða er krafist sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krafðist hann þess að öllum bótakröfum yrði vísað frá dómi, til vara að ákærði yrði sýknaður af þeim og til þrautavara að þær yrðu verulega lækkaðar. Auk þess er krafist málsvarnarlauna að mati dómsins úr ríkissjóði. Að loknum skýrslutökum af vitnum óskaði sækjandi eftir leiðréttingu á ákærulið I þannig að í lið a) væri háttseminni lýst svo: „Í nokkur skipti haustið 2003 á heimili A að Y, Hveragerði og á vegi við Búrfell í Grímsnesi“. Liður b) breyttist þannig: „Í sjö eða átta skipti sumarið 2006 í sumarhúsi við Laugarvatn, í skóglendi í Hagavík við Þingvallavatn, á útivistarsvæði við Álfaskeið í Hrunamannahreppi og í Byrginu.“ Þá gerði sækjandi þá breytingu á II. lið ákærunnar að í stað þess að segja „nánast á hverjum degi“ stæði „oft“.

I.

Málsatvik.

Upphaf máls þessa er að þann 22. desember 2006 kom C til lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða. Kvaðst hún hafa leitað til Byrgisins í apríl 2004 þar sem hún hafi verið búin að vera í gríðarlega harðri fíkniefnaneyslu og hafi meðal annars sprautað sig með fíkniefnum. Hafi hún verið í meðferðarviðtölum hjá ákærða sem hafi prédikað sem prestur eða pastor. Hafi ákærði í meðferðarviðtölunum byrjað að ræða um kynlíf og kynnt henni BDSM-kynlíf. Hafi hún átt í kynlífssambandi við ákærða frá því haustið 2004 allt til haustsins 2006. Deginum áður kom C fram í þættinum Kompás hjá sjónvarpsstöðinni Stöð 2 og sagði frá reynslu sinni.

Þann 15. janúar 2007 kom B til lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gegn henni sem áttu sér stað á meðan hún var vistmaður í Byrginu á tímabilinu frá apríl 2004 fram til júní/júlí 2005.

Þann 25. janúar 2007 lagði D fram kæru á hendur ákærða vegna kynferðisbrots er átti sér stað þegar hún var vistmaður í Byrginu á tímabilinu frá september 2003 til febrúar 2004 og einnig eftir þann tíma er hún var starfsmaður og á sama tíma í meðferð hjá ákærða fram til september 2005. Þann 26. janúar 2007 lagði svo A fram kæru hjá lögreglu á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot sem átti sér stað frá ágúst 2001 til loka ágústmánaðar 2006.

II.

Vímuefnameðferðar- og endurhæfingarheimilið Byrgið, kristilegt líknarfélag.

Því hefur verið mótmælt af hálfu verjanda ákærða að rekstur Byrgisins eigi undir hugtakið „aðra slíka stofnun“ eins og segir í 197. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Fyrir liggur í gögnum málsins umsókn um starfsleyfi fyrir Líknarfélagið Byrgið ses., kennitala 440703-3210, að Ljósafossi, Grímsnesi. Nafn eiganda/forráðamanns á umsókninni er skráð Guðmundur Jónsson, kennitala 191158-4669, með heimili að Háholti 11, Hafnarfirði. Kemur fram í umsókninni að starfsemin hafi hafist 15. maí 2003. Er umsóknin dagsett 28. maí 2003. Þann 15. júní 2003 gaf Heilbrigðiseftirlit Suðurlands út starfsleyfi fyrir Byrgið ses., með aðsetur að Ljósafossi í Grímsnesi. Í starfsleyfinu kemur fram að það sé veitt starfsleyfishafa Guðmundi Jónssyni, kt. 191158-4669, Háholti 11, 220 Hafnarfirði, vegna vímuefnameðferðarheimilis. Gilti starfsleyfið í fjögur ár. Í málinu liggur frammi upplýsingabæklingur Byrgisins þar sem kemur fram að Byrgið sé kristilegt líknarfélag og endurhæfingarsambýli. Í inngangi bæklingsins segir: „Velkominn í Byrgið. Þú ert um það bil að ganga inn í áætlun sem gæti breytt lífi þínu, sem mun breyta lífi þínu. Ef þú vilt. Áætlun sem er sú besta sem til er: Áætlun Guðs með líf þitt.“ Síðan eru upplýsingar um það hvernig skjólstæðingar Byrgisins geti náð tökum á lífi sínu með því að gefa sig Guði á vald. Þá segir enn fremur að heimilið sé starfrækt sem meðferðar- og endurhæfingarsambýli fyrir vímuefnaneytendur, sem ekki eigi sér hliðstæðu hér á landi, meðferðarúrræði sem byggt sé á trú á Jesú Kristi. Upplýsingasíða er í bæklingnum þar sem kemur fram að vaktmenn séu á svæðinu, ráðgjafi og læknir. Þá séu ráðgjafaviðtöl og útiráðgjafi sjái um bókun viðtala við ráðgjafa ef þess sé óskað utan fastra viðtala. Þá er boðið upp á viðtalstíma við lögfræðing. Reglur á meðferðarheimilinu fylgja bæklingnum þar sem kemur fram m.a. að öll neysla áfengis og lyfja sé bönnuð og varði brottrekstri án tafar. Vistmönnum sé óheimill aðgangur að starfsmannaskálum, og dragi fólk sig saman til kynlífsathafna varði það brottrekstri. Þá segir að vinnuaðlögun, sem sé hluti meðferðar, hefjist virka daga klukkan 15.00 til 17.30. Hjá Byrginu starfaði læknir og kom þar vikulega til að sinna vistmönnum þess.

Áður en ákærði hóf rekstur meðferðarheimilis að Efri-Brú við Ljósafoss rak hann meðferðarheimilið Byrgið í Rockville í Sandgerði. Ákærði lýsti því svo fyrir dóminum að starfsemi Byrgisins hafi verið þannig háttað að starfsmenn Byrgisins hefðu ýmist sótt fólk eða hringt hefði verið úr heimahúsum og beðið um  meðferðarpláss. Í Byrginu hafi farið fram daglegt prógram frá klukkan sjö á morgnana til fast að hálftíu á kvöldin. Það hafi verið fyrirlestrar og viðtöl. Viðtölin hafi farið þannig fram að skjólstæðingar hafi beðið um þau; þeir hafi ekki verið kallaðir í viðtölin. Tveir starfsmenn hafi annast viðtölin, jafnvel þrír, eftir því hvers eðlis þau voru. E hafi séð um þau mál sem sneru að félagslega geiranum, eins og að athuga með tannréttingar, tannviðgerðir eða húsnæðismál, F hafi séð um allt sem tilheyrði Tryggingastofnun og félagsþjónustu og ákærði hafi séð um gerð allra fyrirlestra, haldið fyrirlestra og tekið persónuleg meðferðarviðtöl. Eftir árið 2004 kvaðst ákærði hafa einn séð um öll viðtöl en vaktmenn hefðu séð um minni háttar mál sem komu upp innanhúss. Ákærði kvað Byrgið hafa verið meðferðarheimili fyrir fólk sem hafi átt við áfengis- og vímuefnavanda að stríða svo og erfiðari mál. Þá kvaðst ákærði hafa gefið út bækling þar sem reglur sambýlisins kæmu fram og hefði Byrgið verið kynnt sem kristilegt líknarfélag, endurhæfingarsambýli og vímuefnameðferðarheimili. Kvað hann suma vistmenn varla hafa kunnað að halda á penna eða sjóða kartöflu þegar þeir komu í Byrgið og væri dæmi þess að vistmaður hafi verið í tíu ár í Byrginu. Því hefði fólk þörf fyrir endurhæfingu. Ákærði kvað engum blöðum um það að fletta að hann hafi verið forstöðumaður, meðferðarráðgjafi og stjórnandi kristilegra samkoma á vímuefnameðferðar- og endurhæfingarheimilinu Byrginu, kristilegu líknarfélagi og veitt mjög persónuleg meðferðarviðtöl við einstaklinga utan þess sem hann taldi sálfræðinga eða lækna þurfa að koma til. 

G, kt. [...], starfsmaður hjá Byrginu, kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa komið í Byrgið 12. júlí 2004 og unnið í eldhúsinu, verið í lofgjörðum og verið auk þess vaktmaður. Í því hefði falist að hafa eftirlit með fólki og daglegri starfsemi. Kvað hann lofgjörðina hafa verið hljómsveit sem söng á samkomum. Kvaðst hann hafa verið í daglegum samskiptum við ákærða vegna starfa sinna. Kvað hann ákærða hafa verið forstöðumann Byrgisins, sett allar reglur og séð um alla dagskrá Byrgisins sem unnið hafi verið eftir. Hafi F verið helsti aðstoðarmaður ákærða. G kvaðst kannast við bækling sem hafi verið útbúinn af ákærða og þar hafi meðal annars komið fram sú regla að það varðaði brottrekstri drægi fólk sig saman til kynlífsathafna.

H, kt. [...], [heimilisf.], Reykjavík, fyrrverandi starfsmaður í Byrginu, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið starfsmaður á Efri-Brú árin 2003 til 2006 og átt að sjá til þess að það væri friður á svæðinu og síðan innheimta húsaleiguna mánaðarlega fyrir Byrgið. Kvað H allar ákvarðanatökur hafa verið á snærum ákærða varðandi rekstur Byrgisins. H kvað hið daglega starf í Byrginu í sambandi við meðferð og annað hafa gjarna byrjað með bænastund á morgnana, síðan hafi verið prógramm og þá hádegismatur. Yfirleitt hafi verið prógramm eftir hádegi og svo kaffi. Síðan átti að vera vinnuaðlögun sem allir vistmenn áttu kost á. Hafi vinnuaðlögun falist í vinnu í þvottahúsi og hafi það verið fastur þáttur.

I, kt. [...], fyrrverandi starfsmaður í Byrginu, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað þar frá árinu 2003 og séð um tölvu- og tæknimál.  Hafi hann séð um að setja upp útvarpsstöð á svæðinu og haldið utan um hana. Þá hafi hann meðal annars aðstoðað Ólaf lækni þegar hann kom á staðinn og hafi þá annast um lyfjamál. Kvað I ákærða hafa verið forstöðumann Byrgisins sem þýddi að hann fór fyrir starfinu og oftast hafi ákvarðanir verið bornar fyrst undir ákærða. Þá hefði ákærði verið prédikari á staðnum en einnig hefðu komið gestaprédikarar svo og hefðu aðrir starfsmenn séð um það prógramm sem var í gangi. Ákærði hefði séð um meðferðarviðtöl og einkaviðtöl en aðrir hefðu veitt viðtöl sem voru ekki á andlega sviðinu eins og viðtöl ákærða. 

Fyrst kemur til skoðunar hvort Byrgið falli undir skilgreiningu 197. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 40/1992, en því var mótmælt af verjanda ákærða eins og áður segir. 197. gr. laganna var breytt með 5. gr. laga nr. 40/1992 en þar segir að ef umsjónarmaður eða starfsmaður í fangelsi, geðsjúkrahúsi, vistheimili, uppeldisstofnun eða annarri slíkri stofnun hefur samræði eða önnur kynferðismök við vistmann á stofnuninni varðar það fangelsi allt að 4 árum. Í greinargerð með 5. gr. laganna segir að ákvæðið sé að mestu óbreytt efnislega þótt stofnananöfn séu færð í nútímahorf. Með 6. gr. laganna voru þær breytingar gerðar á 198. gr. hegningarlaga að refsimörk voru þyngd og aldursmark lækkað. Í nefndaráliti allsherjarnefndar með lögum nr. 6/2007 kemur fram að í umfjöllun um 197. og 198. gr. almennra hegningarlaga sé bent á það að upptalning stofnana í ákvæðinu sé ekki tæmandi og erfitt sé að telja upp á tæmandi hátt allar stofnanir sem nú séu starfræktar og komi til álita eða kunna síðar að verða settar á fót. Því sé gert ráð fyrir í ákvæðinu að aðrar sambærilegar stofnanir geti fallið undir það, sbr. orðalagið „annarri slíkri stofnun“, og við mat á því hvort ýmiss konar þjónustu- og meðferðarstofnanir geti verið slíkar stofnanir, þurfi að kanna hversu sambærileg viðkomandi stofnun sé við þær stofnanir sem eru taldar upp í ákvæðinu. Í því sambandi telur nefndin mestu skipta að stofnunin sé þess eðlis að kynferðislegt samband starfsmanns við vistmann sé óheppilegt og óeðlilegt miðað við aðstæður, þar sem starfsmaður og vistmaður séu ekki jafnsettir, með þeim sé ekki jafnræði og hætta sé því á beinni eða óbeinni misnotkun valds og áhrifa gagnvart vistmanni. Þetta geti einnig átt við um meðferðarstofnanir fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga á vegum einkaaðila. Eins og rakið er í kaflanum „málsatvik“ fékk Byrgið starfsleyfi fyrir rekstri á líknar- og meðferðarheimili.

Ákærði sagði svo fyrir dóminum að starfseminni hefði verið þannig háttað að fólk hafi ýmist verið sótt utan að eða hafi verið beðið um meðferðarpláss frá einstaklingum. Þá hafi verið daglegt prógramm frá klukkan sjö á morgnana til fast að hálftíu á kvöldin, bæði fyrirlestrar og meðferðarviðtöl.  Meðferðarviðtölin hafi verið persónuleg en vistmenn hefðu þurft að sækjast eftir þeim sjálfir þar sem sjálfsbjargarviðleitnin væri liður í batanum. Tilgangur meðferðar í Byrginu hafi verið að hjálpa illa stöddu fólki að komast út í lífið aftur. Hluti meðferðarinnar var einnig falinn í starfsþjálfun vistmanna þannig að þeir fengu hlutverk í Byrginu sem starfsmenn og hafi þannig lært smátt og smátt að standa á eigin fótum. Ákærði kvað starfsleyfið hafa verið gefið út á sig persónulega en það hafi verið starfsleyfi fyrir vímuefnameðferðarheimili og líknarfélag fyrir þá sem eigi erfitt en ekki leyfi fyrir stofnun. Ákærði kvaðst hafa samið bækling þar sem komi fram að um kristilegt líknarfélag væri að ræða, endurhæfingarsambýli og vímuefnameðferð. Oft sé um að ræða fólk sem sé svo illa farið að það kunni ekki að sjóða kartöflur eða að halda á penna. Þá kvaðst ákærði hafa verið forstöðumaður fyrir starfseminni. Fær sú fullyrðing hans stoð í vitnisburði vitna sem öll hafa sagt ákærða hafa verið forstöðumann Byrgisins og stjórnanda. Þá hefði Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, verið með viðtöl í Byrginu auk Magnúsar Skúlasonar geðlæknis. Í framburði ákærða og vitna fyrir dóminum, sem fær stuðning í gögnum málsins, var rekstur Byrgisins að miklu leyti háður greiðslum frá hinu opinbera, þ.e. fé  frá Tryggingastofnun ríkisins og félagsmálayfirvöldum.

Samkvæmt öllu framansögðu er það mat dómsins að sá rekstur sem fór fram í Byrginu og lýst hefur verið hér að framan, falli skýlaust undir „aðra slíka stofnun“ eins og kemur fram í 197. gr. almennra hegningarlaga nr.19/1940.

Verður nú rakinn hver liður ákærunnar fyrir sig.

III.

Ákæruliður I. Brot gegn A.

Skýrsla  ákærða og vitna fyrir lögreglu og dómi.

A sagði fyrir lögreglu þann 26. janúar 2007 að hún hefði upphaflega verið skjólstæðingur Byrgisins þegar það var að Vesturgötu 18 í Hafnarfirði og síðan í Rockville á Suðurnesjum en þar hefði hún verið í meðferð vegna neyslu á áfengi og fíkniefnum. Hún hefði dvalið þar ásamt eiginmanni sínum en þau hefðu einnig verið með íbúð að Z í Hafnarfirði. Maður hennar hefði séð um uppbyggingu á íþróttaaðstöðu í Rockville og unnið langan vinnudag. Hún hafi hins vegar verið dugleg að sækja samkomur á vegum Byrgisins en einnig verið í viðtalsmeðferð undir handleiðslu ákærða sem pastors og ráðgjafa. Hefði hún rætt margvísleg persónuleg mál sín við ákærða og hafi hún fundið fyrir stuðningi og samkennd og fljótlega treyst honum. Hefðu allir fjármunir manns hennar farið í uppbygginguna í íþróttaaðstöðunni og ákærði því látið hana hafa peninga ef hún hefði þurft á þeim að halda. Hefði ákærði m.a. greitt leigu á íbúðinni að Z og hefði ákærði kallað það „blessun“ þegar hann greiddi húsaleiguna. Hefði því farið svo að hún fór  að upplifa það að hún væri háð honum, bæði fjárhagslega og tilfinningalega og fundist ákærði veita henni öryggi. Í meðferðarviðtölunum kvaðst A hafa trúað ákærða fyrir sínum innstu málefnum og rætt kynlífsvandamál hennar og eiginmannsins við hann en á þeim tíma hefði lítið kynlíf verið á milli þeirra hjóna. Hefði henni liðið mjög illa vegna þessa og hún rætt það við ákærða í lok júlí 2000. Ákærði hefði sýnt henni skilning og fljótlega eftir það farið að senda henni smáskilaboð þar sem hann hefði sagt henni hversu falleg hún væri og í einum skilaboðunum sagt henni að hann væri hrifinn af henni. Þá hefði ákærði farið að tjá henni tilfinningar sínar í viðtölum og jafnframt sagt henni að eiginmaður hennar væri ekki hrifinn af henni heldur væri eingöngu um væntumþykju að ræða og skýrði það áhugaleysi hans á kynlífi með henni. Á þessum tíma kvaðst A hafa verið farin að upplifa sig sem einhvers virði í augum ákærða og ekki síst í sínum eigin augum. Í framhaldi hafi ákærði tjáð henni að hann hefði dreymt kynlífsdraum um hana sem hefði verið á þann veg að hann hefði komið inn í eldhús í Z þar sem hún hefði legið nakin á borðinu og hún verið þakin olíu, sem væri tákn um heilagan anda Guðs, og að þau ættu kynlíf saman sem væri andleg og líkamleg lækning fyrir hana og það skipti máli að sæði hans færi inn í hana og því hefði hann haft við hana samfarir á borðinu í þessum draumi. Hefði A fundist þessi orð ákærða heillandi, sérstaklega þar sem hann var hennar pastor og ráðgjafi. Kvaðst hún hafa spurt ákærða að því hvernig stæði á því að þetta gæti verið Guðs vilji, að hún hefði kynlíf með ákærða, þar sem hún væri gift en hann hefði svarað því til að það væri Guðsáætlun. Guð væri að nota hann til að lækna hana og sameinuð yrðu þau svo sterk í andanum. Á þessum tíma hefði ákærði látið hana vinna verkefni í meðferðaráætlun hennar í íbúðinni í Z en jafnframt séð til þess að maður hennar hefði næg verkefni í Rockville. Hefði ákærði á þeim tíma farið að fjölga komum sínum til hennar í íbúðina með þeim orðum að hann þyrfti að aðstoða hana í verkefnavinnu og kenna henni betur á tölvu hennar. Einnig hefði ákærði farið að kalla á hana í viðtöl í Rockville. Í eitt sinn hefði ákærði farið að kyssa hana og þau gert það í viðtölum í Rockville og í Z og hefði ákærði sagt henni að hann hefði sérþekkingu á líkama konunnar. Konan væri með marga punkta og það þyrfti að virkja þá alla. Hefði hann sýnt henni hvar þessir punktar væru á líkama hennar og farið að strjúka henni á þessum stöðum, svo sem á mjóbaki, undir höndum og niður líkama hennar að framanverðu. Á meðan hann hafi verið að strjúka henni hefði hann lýst því fyrir henni hvernig hann fullnægði J. Seinna hefði ákærði sagt henni að punkturinn neðarlega í mjóbaki væri BDSM-punktur. Kvaðst A hafa verið orðin hrifin af ákærða á þessum tíma en verið í mikilli togstreitu gagnvart eiginmanni sínum. Að auki hafi hún haft áhyggjur gagnvart Guði vegna syndarinnar að kyssa ákærða. A kvað strokurnar og kossana hafa breyst í kynlíf í byrjun október og þau haft mök í stofunni í Z. Kvaðst A hafa haft samfarir við ákærða í þrjú skipti í október í Z. Hún kvaðst hafa haft áhyggjur vegna þess að hún hefði ekki verið með neinar getnaðarvarnir en ákærði sagt henni að Guð hefði gefið honum þá gáfu að hann vissi hvenær konur hefðu egglos. Kvað hún afleiðingar samfara þeirra hafa verið þær að hún varð ófrísk eftir ákærða. Hún hefði sagt ákærða frá því en ekki eiginmanni sínum. Kvað hún ákærða hafa sagt sér að það myndi skaða of marga ef hún fæddi barnið. Á þessum tíma hefði hún gengið til Garðars Sigursteinssonar geðlæknis og tjáð honum að hún væri ófrísk eftir ákærða. Kvaðst hún hafa farið í fóstureyðingu í framhaldi en tjáð félagsráðgjafa á Landspítalanum eftir hvern hún væri ófrísk. Við hafi tekið djúpt þunglyndi og hún farið í lás gagnvart ákærða. Svo hafi farið að hún hafi orðið aftur ófrísk í janúar 2002. Hún hefði þá skrifað ákærða bréf þar sem hún kvaðst hafa viljað slíta öll samskipti við hann en hann þá strax komið til hennar og haldið áfram að tjá henni ást sína og minnt hana á að eiginmaðurinn væri ekki frelsaður. Þrátt fyrir þetta hefði hún farið að hitta ákærða aftur og kyssa hann en vildi ekki eiga kynlíf með honum. Þá hefði hún fundið ákveðið öryggi hjá ákærða, þar sem hún hafi verið fjárhagslega háð honum, og einnig andlega, þar sem hún hafi leitað til hans er henni leið illa. Ákærði hefði tjáð henni að samband þeirra væri allt með vilja Guðs. A fæddi barn í september 2002 og þá hefði ákærði slitið öllu sambandi við hana í um það bil tvo mánuði og eiginmann hennar einnig auk þess að hann hætti að greiða „blessunina“, húsaleiguna. Í desember 2002 hefði ákærði sett sig aftur í samband við A og sagst elska hana ennþá heitt en viljað halda sig í fjarlægð vegna barneigna hennar. Kvað hún ákærða hafa sagt sér að ef hún færi ekki eftir vilja Guðs þá væri hún vanblessuð, sem fælist í því m.a. að enginn matur væri til í ísskápnum og einnig yrði skortur á andlegu og fjárhagslegu öryggi. Um áramótin 2002 og 2003 hefði verið ljóst að miklar breytingar væru fram undan hjá Byrginu og í kjölfarið hefðu tekið við erfiðir tímar í hjónabandi hennar sem leiddu til þess að hún fór frá eiginmanni sínum og leitaði skjóls í Byrginu að Efri-Brú. Þangað hefði hún líklega komið í júlí eða ágúst 2003 og dvalið þar í tvær vikur og verið í stöðugum viðtölum hjá ákærða vegna erfiðleika sinna. Þarna hefði ákærði farið að segja henni að fólkið í Byrginu talaði illa um hana og teldi að hún væri með lofgjörðarleiðtoganum sem héti [...]. Þá kvað hún ákærða hafa sagst vera að verja hana fyrir fólkinu af þessum ásökunum og í meðferðarviðtölum hefði ákærði farið að kynna fyrir henni BDSM-kynlíf með þeim orðum að hann og J hans ástunduðu BDSM-light sem væri létt afbrigði af slíku kynlífi. Hefði ákærði sagt að það væri vilji Guðs að konan væri undirgefin manninum og þess vegna myndi BDSM passa mjög vel þar sem maðurinn væri masterinn og konan væri undirgefin. Hann hefði sagt henni að BDSM-kynlíf hans væri fólgið í bindingum og notkun á svipum. Kvað hún ákærða oft hafa kysst hana og viljað eiga kynlíf með henni en hún sagst ekki vilja kynlíf með honum í Byrginu að Efri-Brú. Hefði ákærði verið mjög nærgætinn og tillitssamur vegna þessa mótþróa hennar. A kvaðst hafa farið aftur heim til eiginmannsins þar sem sonur hennar hefði slasast og í þeim tilgangi að lagfæra hjónabandið. Ákærði hefði komið strax heim til hennar og sagt henni að Guð væri búinn að sýna honum að ef hún myndi ekki skilja við mann sinn, þá yrðu börn hennar óvernduð og myndu lenda í fleiri slysum þar sem maðurinn hennar væri ekki frelsaður. Hefði hann gefið í skyn að það væri ekki rétt hjá henni sem frelsaðri konu að vera gift ófrelsuðum manni. Kvað hún ákærða hafa boðið henni heim til hans að Háholti 11 í Hafnarfirði og sýnt henni dýflissu sem hefði verið lítið herbergi í kjallara blokkarinnar sem tilheyrði íbúð ákærða. Gengið væri inn í dýflissuna í gegnum skáp sem væri í fremri geymslunni. Í dýflissunni hefði verið stórt aflangt borð og á því hefðu verið margvísleg kynlífstæki. Einnig hefði verið lítið búr og í enda herbergisins hefði verið plata á vegg með mörgum nöglum sem hægt var að nota til að binda fólk við. Kvað hún ákærða hafa sagst hafa hannað þessa dýflissu sérstaklega fyrir hana. Henni hefði liðið mjög illa þarna inni en hún hefði samt þurft að þóknast honum. Hefði hún farið úr fötunum að ofan og hefði ákærði bundið hana við plötuna til að hún kynntist því hvernig væri að vera bundin. Þá hefði hann kynnt hin ýmsu kynlífstæki fyrir henni, hvernig gervilimir væru notaðir og hvernig svipur væru notaðar.

Í lok september 2003 hefðu A og eiginmaður hennar flust til Hveragerðis og þá hefðu skapast betri tækifæri fyrir hana til að sækja samkomur og meðferðarviðtöl hjá ákærða í Byrginu. Fljótlega hefði ákærði látið hana fá myndbandsspólu sem fjallaði um BDSM-kynlíf, um konu sem var þjálfuð í að vera kynlífsþræll, slave. Myndin heiti Story of O og sýni að það sé eftirsóknarvert að vera gerður að slave. Hefði mynd þessi heillað hana. Þá hefði ákærði tjáð henni að hann væri Iron Master. Þá hefði ákærði ítrekað við hana að það væri deginum ljósara að Guð vildi að þau tvö væru saman en hann vildi vera tillitssamur við hana þar sem hún forðaðist kynlíf með honum vegna andlegra afleiðinga fóstureyðingarinnar, en hann vildi þjálfa hana í að vera „sub“. Hefði ákærði komið heim til A í Hveragerði og þar hefði ákærði byrjað að slá hana með svipum. Hefði hann slegið hana létt á ýmsa staði líkamans með ýmsum tegundum af svipum en hún verið nakin á meðan. Kvaðst hún hafa fundið fyrir sælutilfinningu af því að vera slegin og þarna hefði henni fundist gott að tilheyra ákærða. Hefði þetta gerst nokkrum sinnum á heimili hennar í Hveragerði og einnig hefði ákærði fengið hana til að eiga munnmök við sig þar sem hann fékk sáðlát. Henni hefði ekki fundist það gott en tilfinningin hefði verið góð, að hlýða ákærða. Á þessu tímabili hefði ákærði sent henni spurningalista með spurningum um BDSM sem gengu undir nafninu Grunnspurningar. Hefði ákærði beðið hana um að fylla listann út en á sama tíma hefði ákærði verið að senda henni margar BDSM-kynlífssögur. Þá kvaðst A hafa á þessu tímabili verið farin að eiga með ákærða BDSM-kynlíf í meðferðarviðtölum í Byrginu. Ákærði hefði skipað henni að fróa sér í tíma og ótíma, hvort sem hún hafi verið heima hjá sér eða í Byrginu. Þá hefði ákærði farið með A í bíltúra út í sveit. Í tvígang hefði hann bundið hana við bílinn, jeppabifreið, og síðan haft samfarir við hana aftan frá þar sem hún hefði verið bundin. Ákærði hefði í einstökum tilfellum sett klemmur á brjóst hennar í þessum bíltúrum og einnig fróað henni með víbratorum. Í þessum tilvikum hefði hann ætíð skipað henni að lúta vilja hans enda hefði hún verið orðin „subbinn“ hans. Í byrjun janúar 2004 hefðu hún og ákærði fjarlægst hvort annað, traust hennar til ákærða minnkaði og henni hefði verið farið að líða mjög illa yfir því hvernig komið væri fyrir meðferðarstarfinu í Byrginu. Hefði það endað með því að hún og ákærði slitu öllu sambandi. Þá hefði eiginmaður hennar verið ósáttur við ákærða þar sem ákærði skuldaði honum fjármuni. Endanleg slit þeirra hefðu verið í marsmánuði 2004. Í lok ársins 2005 kvaðst A hafa byrjað að sækja samkomur í Byrginu að Efri-Brú þar sem hún hafi verið orðin andlega lasin og hefði þurft á því að halda að sækja samkomur vegna erfiðleika í hjónabandi sínu. Á svipuðum tíma hefði K, frænka hennar, sem hafði verið í meðferð í Byrginu, komið til hennar og sagt frá því að ákærði hefði verið að kynna BDSM fyrir henni og reynt við hana í stuðningsviðtölum ákærða. Þá kvaðst hún hafa heyrt á þessum tíma sögusagnir af samneyti ákærða við C og B. Hefði þetta opnað augu hennar fyrir því hve ákærði hefði leikið tveimur skjöldum og hún hefði orðið frekar reið. Hún hefði sent honum e-mail og spurt hann hreint út um þessar sögusagnir og hefði ákærði svarað því að hann væri leiður og þreyttur á þessum sögusögnum. Kvaðst A hafa trúað honum. Í byrjun árs 2006 hefði hún farið reglulega á samkomur í Byrginu og þá hefði hún einnig farið að kynna sér betur BDSM á netinu. Í apríl hefði hún flutt af heimili sínu vegna erfiðleika í hjónabandinu og flutt í Byrgið. Hefði ákærði látið hana hafa lykil að íbúð hans að Efri-Brú, kofa númer eitt. Ákærði hefði haldið utan um hana og kysst og sagt henni hvað hann elskaði hana. Hefði hún dvalið í íbúð hans í tvo daga og síðan fengið almennt herbergi sem vistmaður á hótelinu. Hefði hún dvalið í Byrginu í allt að þrjár vikur og á þessu tímabili hefði hún fengið stöðugar ástarjátningar frá ákærða og hún verið daglega í viðtölum hjá honum. Hefðu þessi viðtöl oft endað á því að ákærði lét hana leggjast í sófann, hneppti frá fatnaði að ofan, þar sem hann sagði að andi myndi koma og ríða henni. Ákærði hefði sagt henni að gera samfarahreyfingar með þeim orðum að andi væri inni í henni. Hefði hún hlýtt honum í einu og öllu en fundist þetta óþægilegt. Smám saman hefði ákærði kveikt upp í henni þá löngun að vera hans „sub“ og Guð hefði sýnt honum að það væri rétt að J væri með þeim í kynlífi. Þá hefði ákærði boðið henni í sumarbústað hans og sagt að hún fengi næturleyfi til þess að fara. Hefði A farið í sumarbústaðinn á föstudagskvöldi eftir að börn ákærða og J voru sofnuð. Í bústaðnum hefðu hún, ákærði og J átt margra klukkustunda BDSM-kynlíf. Hefði A verið með það hlutverk að vera slave númer tvö og J slave númer eitt sem gerði það að verkum að A hefði hlýtt J í kynlífsathöfnunum. Kvað A næsta kvöld hafa verið með svipuðum hætti, þau þrjú hefðu átt BDSM-kynlíf í margar klukkustundir. Þetta hefði gerst sumarið 2006. Kvaðst A hafa farið úr Byrginu en verið stutt heima þar sem ástandið á heimilinu hafi verið óbærilegt. Á þeim tíma hefði ákærði sent henni mörg smáskilaboð með þeim orðum að hann elskaði hana mikið. Eftir þriggja vikna veru heima hefði hún aftur leitað til Byrgisins og fengið herbergi sem vistmaður. Ákærði hefði sagt henni að hann væri kominn með veiðileyfi á hana frá J og þá farið með hana út í skóg skammt frá Byrginu. Hefði hann fengið hana til að afklæðast með öllu og síðan slegið hana með svipu. Hefði ákærði tekið hana mjög harkalega aftan frá þannig að hún hefði fengið skrámur. Henni hefði fundist samfarirnar við ákærða vondar og óþægilegar en ekki kunnað við annað en að hlýða honum. Hefði þetta gerst í lok júlí eða byrjun ágúst en hún hefði verið í Byrginu þá í tvær vikur. Þarna hefði hana verið farið að gruna að ákærði ætti í kynlífssambandi við C. Síðasta kynlíf sem A kvaðst hafa átt með ákærða hafi verið þegar hann hefði farið með hana og J í bíltúr eina nóttina í ágústmánuði og farið með þær inn í skóg einhvers staðar fyrir austan fjall en kvaðst ekki vita hvert þau hefðu farið. Ákærði hefði verið á Van-bifreið í umrætt sinn og hann hefði sagt þeim J hvar hann hefði verið misnotaður af þremur konum áður fyrr og hefði ákærði fengið þær til þess að fara úr öllu að neðan. Ákærði hefði slegið þær með svipu í læri, rass og kynfæri. Ákærði hefði síðan beðið þær um að elskast, sem þær gerðu, og að því loknu hefði hann haft samfarir við þær báðar og þá eina í einu.

Þann 2. febrúar 2007 mætti A hjá lögreglu til að fara yfir tölvupóstsendingar sem fram fóru á milli ákærða og A. Kvaðst hún hafa í byrjun verið með póstfangið Þ en þurft að breyta því í ÞÞ á árinu 2003. Kvað hún ákærða hafa haft netfangið gummijons@simnet.is en hann hefði einnig verið með netfangið panel@visir.is Kvaðst A hafa áframsent allan póst sem hún hefði áður fengið frá ákærða á netfangið Þ yfir á nýja netfangið, ÞÞ. Voru skeytasendingar bornar undir A sem gaf skýringar á þeim. Verða hér rakin nokkur skeyti sem talin eru skipta máli. Skeyti þessi voru í tölvu A sem lögregla tók og rannsakaði.

Skeyti sent frá gummijons@simnet.is þann 15. nóvember 2003 til ÞÞ: „það að skrifa þér þessar línur er mér erfiðara en nokkuð annað og í raun þarf ég að taka á öllu mínu til að geta það. En ég elska þig og hef reynt að fremsta megni að mæta þér á þann hátt. En núna get ég sýnt þér þó ervitt sé hverssu rosalega ég elska þig. …þúsund kossar..Panel þinn luv.“ Skeyti sent 16. nóvember 2003 frá gummijons til ÞÞ sem innihélt Diploma No.1. Iceland en þar kemur fram á íslensku m.a.: „Þetta er viljayfirlýsing á að ég vil Sub&sex, ég er Sub/undirgefin og staðfesti það með undirskrif minni/Sub nafni. Þetta bréf er staðfesting að ástarleik/leiki, við……Svo sem: Ég heiti að veita handhafa þessa bréfs, mínum Master enda er hann sá eini sem veitir mér fullnægju kynferðislega…“ Þá er gert ráð fyrir að fyllt sé út í eyður á skjalinu um hjúskaparstöðu, langanir o.fl. Skjalinu fylgdi bréf þar sem leikaðferðir og reglur eru tíundaðar í hvívetna. Skeyti sent frá gummijons til ÞÞ þann 3. desember 2003: „Þú vilt mig ekki, ég skil þig ekki, en samt, leyfirðu mér ekki að gleyma þér. Af hverju? Varir mínar leiða þínar og þínar mínar, mig langar að taka þig, óviðbúna, líkami minn kallar á þig, vil fá þig, hold þitt, vökvann á milli barmanna,. hold við hold er mold, mitt og þitt, saman, limurinn djúpt, svo djúpt, ohaha… Ósvalanlegur þorsti að fá að binda þig, hefta þig, slá þig. Láta þig hungra eftir meiru, biðja um meira, tár fyrir mig. Ógurleg fullkomnun, elska, ást, þegar ég sá þig,...“ Skeyti var sent 2. desember 2003 frá gummijons til ÞÞ. Fylgiskrár voru fimm og báru skráarheitin „Góður Sub, Sub-flenging læri-kynfæri, Sub varberinn, Sub-Eftir gagnBang&Hang og Sub-í sníp train.“ Eru þetta allt myndir af stúlkum sem hafa verið bundnar á mismunandi vegu í kynlífsstellingum. Skeyti sent frá panel til ÞÞ þann 28. febrúar 2006 ásamt skrám sem bera heitin „B-light fræðsla ogtakmörk.doc, B-light samningur.doc, B-light upplýsingar ogfræðsla.doc, Hvað er B-light oghvað ekki.doc og Tilgangur munalosta.doc.“ Fyrsta skjalið er um tilgang munalosta, valda- og skynjunarbreytileika, öryggi, meðvitund, samþykki og umgengnisreglur sem eru aðalreglur B-light-gilda. Þá fylgdi skeytinu dæmi um samning milli Herra og ambáttar.  Skeyti er sent frá panel til ÞÞ þann 12. mars 2006 sem inniheldur reglur um það hvernig „slave“ ber að haga sér í návist Masters. Er þar verið að lýsa kynlífsathöfnum. Undirskriftin er Parson Cash. Þá liggja fyrir allmörg skeyti sem gummijons sendir til ÞÞ en skjölin bera með sér að hafa verið áframsend á netfangið ÞÞÞ. Er þar um að ræða kynlífssögur og ástarjátningar. Skeyti er sent 20. febrúar 2003 frá gummijons til ÞÞ með fylgiskjali, Grunnspurningar.doc. Er sá listi upp á fimm blaðsíður þar sem svara á ýmsum spurningum er snerta kynlíf og kynlífsathafnir, svo sem hvað viðkomandi hafi gert í kynlífi og hvað hann langi til að gera. Er spurningunum skipt upp í flokka eins og „Líkamsmeiðingar og gróf erting, bindileikir, pyntingar, skynbreytingar og skynsviptingar, samfarir, niðurlæging og sýniþörf, hlutverkaleikir og líkami þinn í dag.“

A kom aftur í skýrslutöku hjá lögreglu þann 29. mars 2007 og staðfesti fyrri framburð sinn. Var skýrsla sem ákærði gaf hjá lögreglu þann 1. febrúar 2007 borin undir hana. Kvað hún að við þá skýrslugjöf hefði ákærði brotið trúnað við hana þegar hann hefði rætt kynlífsvandamál hennar og eiginmanns hennar við aðra vistmenn. Þá ítrekaði A að hún hefði orðið ófrísk eftir ákærða í nóvember 2001 og hún, ákærði og J, kona hans, hefðu ástundað kynlíf saman. Þá kvaðst A hafa verið í tvígang í Byrginu í meðferð á árinu 2006.

Þann 14. júní 2007 gaf A aftur skýrslu hjá lögreglu og var beðin um að lýsa nánar með eins nákvæmum hætti og mögulegt væri, hversu oft eða reglulega hún og ákærði áttu kynmök og í hverju þau hefðu verið fólgin. Kvað A að hún og ákærði hefðu fyrst átt kynlíf saman í Z og hefði það verið í þrjú skipti. Í fyrsta skipti hefði ákærði klætt hana úr fötunum, strokið henni og komið henni til og síðan hefði hún legið á bakinu í sófanum í stofunni á meðan þau höfðu samfarir í trúboðastellingunni. A kvaðst hafa brotnað algjörlega saman eftir þetta. Í hin tvö skiptin hefðu þau átt kynlíf í stofunni en ekkert sérstakt sé í minningunni um þau skipti. Þegar hún kom í Byrgið árið 2003 hefðu þau haft kynmök tvisvar sinnum. Hún hefði ekki viljað eiga kynlíf með ákærða inni á Efri-Brú og því hefðu þau farið í bíltúr. Í annað skiptið hefði ákærði bundið hana við jeppabifreið og síðan tekið hana aftan frá eftir að hann var búinn að lemja hana með svipunni. Hefði þetta gerst rétt hjá sumarbústað föður ákærða í landi Búrfells í Grímsnesi. Kvað hún föður ákærða hafa komið að þegar þau voru nýbúin að hafa mök og hefði ákærði sagt föður sínum að hann væri að sýna A bústaðinn sem faðir hans ætti. A kvað BDSM-kynlíf hafa byrjað eftir að hún var flutt til Hveragerðis. Þar hefði ákærði bundið hana og slegið með svipu og þar hefði hún haft munnmök við ákærða. Sagði A að það fyrsta sem hún hefði séð um BDSM-kynlíf hefði verið þegar ákærði sýndi henni „dýflissuna“ í kjallaraherbergi að Háholti 11 í Hafnarfirði. Í það skipti hefði ákærði bundið hana upp við vegginn en hún hafi verið nakin að ofan. Það hefði verið áður en hún flutti til Hveragerðis. A kvaðst hafa yfirgefið heimili sitt vorið 2006, þar sem hún hafi sætt andlegu ofbeldi á heimilinu, og farið í Byrgið í meðferð en hún hafi verið mjög illa haldin á sálinni. Hún hefði strax farið í viðtöl hjá ákærða og BDSM-kynlíf þeirra hefði haldið áfram. Þá lýsir A kynlífsathöfnum þeirra á sama veg og í lögregluskýrslu þann 26. janúar s.á. um að ákærði hefði sagt henni að kynlífsandi væri að hafa við hana samfarir og að eiginkona ákærða hefði áhuga á að eiga kynlíf með henni. A kvaðst hafa farið í sumarbústað, raðhús, til ákærða og J  sem þau hefðu tekið á leigu við Laugarvatn. Hún hefði komið á föstudagskvöldi en börn þeirra hefðu verið sofandi. Kvaðst A hafa átt að vera „subinn“ þeirra. A lýsir nákvæmlega í skýrslunni þeim athöfnum sem ákærði lét hana framkvæma en kynlífsathafnir þeirra hafi staðið í nær tvær klukkustundir. Þá hefði ákærði átt kynlíf með A að J ásjáandi og fengið sáðlát. Undir morgun, þegar A fór frá þeim, var ákveðið að hún myndi koma í bústaðinn aftur um kvöldið, sem hún gerði. Kvað hún atburðarásina það kvöld hafa verið með svipuðum hætti og fyrra kvöldið nema að ákærði kvaðst ætla að taka hana með Ironinu. Kvaðst A hafa legið á bakinu á borðinu, nakin með fætur vel út glennta og bundið fyrir augun. Hefði hún fundið að ákærði stakk einhverju stóru inn í kynfæri hennar sem hefði valdið henni sársauka. Hefði J staðið fyrir aftan hana við höfðalagið og haldið um axlir og hendur hennar. Áður hafi ákærði verið búinn að sýna henni járnhringi, Iron-hringi, og sagt henni að þessir hringir færu utan um einhvers konar leðurhólk sem hann síðan byndi á sig þannig að limurinn væri inni í leðurhólknum. Eftir að ákærði setti Ironinn inn í kynfæri hennar hefði J tekið af henni augnbandið og það sem blasti við henni hefði verið óhugguleg sjón. Hún hefði séð hvar ákærði hafi verið búinn að setja á sig svarta böðulsgrímu og hefði henni brugðið mjög við þessa sýn. Síðar þessa nótt hefði J tekið hana með því að binda „strapp on“ um sig miðja með gervilim. A kvað ákærða og J hafa beðið hana um að koma aftur á sunnudagskvöldinu en A kvaðst ekki hafa getað það þar sem hún hafi verið uppgefin. Næsta kynlíf sem ákærði ogA áttu var úti í skógi rétt hjá Efri-Brú. A sagði að síðar um sumarið 2006 hefði J komið að Efri-Brú og gist hjá ákærða í kofa hans. Kvaðst A þá hafa farið tvær nætur í röð til ákærða og J og átt með þeim BDSM-kynlíf. Hafi börn þeirra hjóna sofið í kofanum og ákærði sett færanlegt skilrúm um rúm barnanna. Í þessi skipti hefði J verið slave 1 og hún slave 2. Í þessi skipti hefði ákærði bundið hana með reipi um lærin, upp magann og kringum brjóstin. Hendur hennar hefðu verið bundnar fyrir aftan bak. Hnútar hefðu verið á bandinu sem hafi verið frá lærinu um magann og brjóstin. Hefði ákærði slegið þær til skiptis með svipu og hefði hann haft samfarir við þær til skiptis. A kvaðst muna eftir bílferð með ákærða og J þar sem hann tók þær báðar. Þegar ákærði kom akandi að skóginum hefði þar verið stórt borð með áföstum bekk. Hefði hann látið J leggjast á borðið til þess að hún myndi finna fyrir áhrifum frá öndunum og ákærði hefði einnig látið hana gera það sama og J. Kvaðst A hafa lýst því kynlífi fyrr hjá lögreglu. A kvað ákærða hafa gefið sér farsíma þegar hún var í Byrginu í ágúst 2006. Þennan síma hefði ákærði keypt í Elko og væri hann af gerðinni Nokia. Þá hefði ákærði gefið henni hálsmen sem hann hefði keypt hjá úrsmiðnum á Selfossi. Þá hefði ákærði gefið henni hund þegar hún bjó í Hveragerði, Stóra Dan, sem hefði kostað 150.000 krónur. Hefði ákærði greitt hundinn þannig að hann hefði lagt inn á reikning hennar í þrjú skipti, samtals 150.000 krónur. Þetta hefði verið í október eða nóvember 2003. A kvað ákærða hafa verið pastor eða prest í Byrginu, hann hafi verið ráðgjafi og sá aðili sem bjó til meðferðaráætlun Byrgisins og verið forstöðumaður þess. Hún

 

A kom fyrir dóminn og kvaðst fyrst hafa komið í Byrgið þegar það starfaði á Vesturgötunni í Reykjavík, um 1997 að hana minnti. Þá hafi hún verið langt leidd af fíkniefnaneyslu. Þar hefði hún dvalið í um átta mánuði og orðið ófrísk á þeim tíma. Síðan hefði hún gefið Guði líf sitt og frelsast. Maður hennar, L, hefði líka verið á Vesturgötunni. Þaðan hefðu þau farið þegar það nálgaðist að hún eignast barnið en verið áfram í stuðningi með því að fara á samkomur og vera alltaf í tengslum. Hún hefði síðan farið aftur í Byrgið í Hlíðardalsskóla og verið í nokkra mánuði þar. Aftur hefði hún farið á Vesturgötuna en síðan fengið íbúð í Z í Hafnarfirði. Þá hefðu þau verið með herbergi í Rockville og L unnið þar mikið í íþróttahúsinu. Kvað hún samband sitt og ákærða hafa byrjað árið 2001. Ákærði hefði verið ráðgjafi hennar og pastor og hún því treyst honum mjög vel. Hún hefði leitað til hans með allt sem henni leið illa yfir og þar á meðal að maður hennar hefði ekki viljað kynlíf með henni. Í framhaldi hefðu þau ákærði farið að hafa samband með sms-sendingum  og ákærði farið að tjá henni að hann væri hrifinn af henni. Þetta hafi verið um sumarið 2001. Ákærði hafi sent henni mjög falleg smáskilaboð og ljóð og einnig sagt að þetta væri í fyrsta sinn sem hann liti á aðra konu síðan hann kynntist eiginkonu sinni. Ákærði hefði sagt sér að honum liði eins og hann væri aftur orðinn sextán ára. Þá hefði ákærði sagt sér að L þætti líklega bara vænt um hana en elskaði hana ekki. Í framhaldi hafi ákærði farið að koma mikið í heimsókn til hennar í Z auk þess að þau hafi hist mikið í viðtölum í Rockville. Ákærði hafi farið að tjá henni að hann þekkti alla punkta á líkama konunnar og hefði farið að strjúka henni og sýna henni þessa punkta en hún verið mjög stressuð yfir þessu öllu því hún hafi tekið mjög alvarlega trú sína á Guði og verið í mikilli togstreitu. Ákærði hefði sagt henni að hann hefði dreymt draum þar sem hann hefði séð hana nakta liggjandi á eldhúsborðinu þakta olíu. Það væri tákn fyrir heilagan anda og að Guð væri að sýna ákærða mikla lækningu sem mundi gerast ef þau hefðu mök. Lækningin væri í sæðinu og að þau yrðu að sameinast. Kvað A að sér hefði skilist að hún myndi læknast andlega og líka af c-veirunni en hún væri með c-lifrarbólgu. Þau hefði haft mök þarna þrisvar sinnum og henni hefði liðið mjög illa á eftir. Það hefði komið svo mikil „fyrirdæming“ í hana gagnvart Guði og manninum hennar. Þetta hefði gerst bæði heima hjá henni og í Byrginu. A kvaðst þá hafa verið í meðferðarviðtölum hjá ákærða. A kvaðst ekki hafa verið með getnaðarvarnir en ákærði hefði sagt henni að hann fyndi þegar konur hefðu egglos, hún hefði trúað því en orðið ófrísk. Það hefði hún uppgötvað í október 2001 og þá brotnað alveg niður. A kvaðst hafa hringt í ákærða og sagt honum frá því en hann sagt henni að hún réði hvað hún gerði. Hún hefði farið í fóstureyðingu og það hafi verið hræðileg upplifun. Kvaðst A hafa sagt ákærða frá fóstureyðingunni og einnig Garðari Sigursteinssyni geðlækni sem hún var í viðtölum hjá. A kvað sér hafa liðið hræðilega yfir því að taka annað líf og þá hefði hún falið þessa vitneskju fyrir eiginmanni sínum. Ákærði hefði séð til þess að maður hennar yrði að vinna þennan dag í Rockville. A kvaðst hafa þurft að biðja ákærða að sækja son hennar á leikskóla þegar hún vaknaði eftir aðgerðina, sem hann hefði gert. A kvaðst hafa orðið ófrísk aftur í janúar 2002 eftir mann sinn en hún hafi átt mjög erfitt andlega. Við hafi tekið mjög erfitt tímabil þar sem hún hefði verið í sjálfsmorðshugleiðingum og verið afar þunglynd. A kvaðst hafa síðan verið áfram í viðtölum hjá ákærða, ákærði hefði verið hennar pastor og ráðgjafi. Þau hefðu kysst áfram en ekki haft kynlíf. Á árinu 2003 hefði hún síðan flutt til Hveragerðis en hún hafi þá verið að fá sms-sendingar og tölvupóst frá ákærða, ástarjátningar og drauma en allt á rómantísku nótunum. A kvaðst hafa verið með netföngin ÞÞÞÞ og ÞÞÞÞÞ. Ákærði hefði verið með netfangið panel@visir.is og  gummijons@simnet.is. Á árinu 2003 hefði L, eiginmaður hennar, verið orðinn mjög erfiður í skapinu og þunglyndur og A liðið mjög illa. Búið hefði verið að loka Rockville og Byrgið komið upp að Ljósafossi. Á þeim tíma hafi ákærði verið byrjaður að útbúa geymsluna í Háholti. Samband hennar og ákærða hefði byrjað aftur með því að ákærði fór að segja henni sögur um BDSM auk þess að segja henni að hann væri að útbúa lítið herbergi í kjallaranum í Háholti og hann væri að því sérstaklega fyrir hana. Ákærði hefði sagst sjá í A að hún væri „sub“. Ákærði hefði boðið henni að sjá kjallarann og hún farið þangað að nóttu til. Inni í geymslunni hefði verið skápur sem hefði verið læstur með lás. Ákærði hefði opnað skápinn og þau gengið í gegnum hann og þar fyrir innan hefði tekið við svart herbergi. Inni í innra herberginu hefði verið langt borð með kynlífsáhöldum, mikið af víbratorum auk þess að þarna hefðu verið líkamsræktartæki frá manni hennar, sem hann hafði fengið þegar Rockville var að loka, og bekkur sem hægt var að sitja á. Í hinum endanum hafi verið spjald með pinnum á sem hægt var að binda mann við. A kvaðst hafa hitt ákærða nokkrum sinnum í geymslunni og ákærði sýnt henni hvernig áhöldin þar áttu að virka. Þau hefðu ekki haft samræði þar en hún hefði farið úr að ofan og neðan og ákærði slegið hana. Á þessum tíma kvaðst A hafa flúið heimili sitt og farið þá að Efri-Brú. A kvaðst hafa farið gagngert í Byrgið til að fá þar meðferð og aðstoð en hún taldi að það hafi verið fyrst í júlí sem hún kom í Byrgið og svo aftur um haustið 2003. Á þessum tíma hefði hún verið mjög tæp andlega, tæp á að hanga edrú og lifandi. A kvaðst hafa tekið þátt í lofgjörðinni í Byrginu en ákærði hefði fljótlega komið því svo fyrir að A einangraðist. Ákærði hefði rætt illa um [...], sem hefði verið vinur hennar, og hún því engin samskipti haft við hann og upplifað sig mjög einangraða á staðnum. A kvað vinnubrögð ákærða hafa verið þannig að ræða illa um fólk og vistmenn og koma óvild af stað milli fólksins þannig að það hefði leitað því meira til ákærða. Í Byrginu árið 2003 hefði hún verið í meðferð og ráðgjafi hennar og pastor hefði verið ákærði. Kvað hún öll viðtöl hennar og ákærða hafa verið kynferðisleg, kossar eða ástarjátningar. A kvaðst á þessum tíma hafa verið í mikilli togstreitu við Guð og ekki getað hugsað sér að hafa kynlíf í Byrginu sjálfu en þá hefði hún litið á Byrgið sem heilagan stað. Því hefði hún og ákærði farið í bíltúra og þrisvar sinnum hefðu þau farið í bíltúr þar sem ákærði hefði bundið hana og tekið. Það hafi gerst nálægt bústað föður ákærða og við Búrfell. Aðspurð kvað A að þetta hefði gerst í seinni veru hennar í Byrginu 2003. Eftir að hún var farin úr Byrginu og komin heim hefði ákærði lánað henni spólu með heitinu „Story of O“. A kvaðst hafa haldið áfram að fara upp að Efri-Brú og verið í viðtölum hjá ákærða en myndin hefði breytt hugarfari hennar. Sér hefði farið að finnast það eftirsóknarvert að vera „sub“ og myndin hefði heillað hana. Í framhaldi hefði hún farið að fá mikið af bréfum og kynlífssögum um BDSM og ákærði merkt sér hana þannig að hann væri hennar master og sagt henni frá Iron-master, El Toro og Monicu í London. Ákærði hefði sagt sér að ef konan væri undirgefin þá væri það að vilja Guðs. Ákærði hefði komið heim til hennar að Y á árinu 2003 með svipur og látið hana standa gleiða á ganginum og slegið hana með svipunum. Sér hefði þá þótt það svolítið gott og gott að finna sig undirgefna og hlýðna. Í framhaldi hefði hún haft munnmök við ákærða. Nokkrar þannig heimsóknir hefðu verið að Y. Þau hefðu einnig farið í bílferðir þar sem ákærði hefði sett klemmur á brjóstin á henni og fróað henni. A kvaðst á þessum tíma hafa verið lokuð kynferðislega en ákærði talið henni trú um að með BDSM-kynlífi þyrfti samræði ekki að eiga sér stað og þá væri hún heldur ekki að halda framhjá manninum sínum. Á þessum tíma hefði ákærði sagst elska hana út af lífinu og vera sá sem vildi vernda hana. A kvað að í ársbyrjun 2004 hefði hún viljað slíta sambandinu við ákærða og skrifað honum bréf þess efnis. Nokkru seinna hefðu þau rifist harkalega og eftir á að hyggja taldi A að ákærði hafi þá verið byrjaður í sambandi við B. A kvaðst hafa slitið sambandi við ákærða en hún og maður hennar hefðu farið á frumsýningu á myndinni um Rockville. Þar hefði hún hitt ákærða og fengið sms og tölvupóst frá honum í framhaldi þar sem hann kvaðst elska hana ennþá svona mikið og að hann væri alltaf að bíða, bara þolinmóður. Samband hennar og L hefði versnað mikið á þessum tíma og hann beitt hana miklu andlegu ofbeldi. Henni hafi liðið mjög illa á þessum tíma og líka yfir því að sækja ekki samkomur eða AA-fundi. A kvaðst því hafa aftur farið að sækja samkomur í Byrginu. Það hafi verið í lok árs 2005 eða byrjun árs 2006. Kvaðst A þá hafa heyrt sögur um að ákærði væri mjög mikið með B inni í herbergi og kvaðst A hafa komið eitt sinn að henni í rúminu inni hjá ákærða en ákærði sagt við sig að B væri mjög, mjög veik og hrædd við fólk og hann þyrfti að passa vel upp á hana. Kvaðst A hafa fundist það gott að fara á samkomur og hún hefði farið að syngja aftur í lofgjörðinni. Kvaðst hún hafa innt ákærða eftir þeim sögusögnum sem gengu um hann og stúlkur í Byrginu en hann hefði neitað þeim og sagst vera þreyttur á að heyra alltaf að hann ætti að vera að riðlast á stelpum í Byrginu. Kvaðst A hafa trúað ákærða, hann væri mjög sannfærandi og saklaus á svip. A kvað ástandið heima hjá sér hafa versnað mikið á þessum tíma og hún verið orðin mjög illa farin um vorið. Hún hefði farið að heiman og leitað í Byrgið. Hún hefði hringt í ákærða, hitt hann í Reykjavík og hann látið hana hafa lykil að kofanum sínum. Ákærði hefði þá sagt henni að hann elskaði hana ennþá og hún fengið á tilfinninguna að hún væri einhvers virði. Kvaðst hún hafa farið seint að kvöldi að heiman frá sér því ástandið hafi verið óbærilegt en hún hafi orðið að skilja börnin sín eftir heima. Þetta hafi verið um vorið 2006. Kvaðst A hafa verið fyrst í kofa ákærða, um tvo daga, en síðan flutt sig yfir í almennt herbergi. Á þessum tíma hefði samband hennar og ákærða hafist aftur. Kvað hún aðferðir ákærða hafa breyst þarna, hann hafi farið að tala mikið um anda og að hann væri með nokkra anda á sínum vegum. Þessir andar tækju líka konuna hans ef hann sendi þá til hennar. A kvaðst hafa farið þá í viðtöl í kofann til ákærða, sem hafi snúist um að ákærði hafi látið hana leggjast og afklæðast og sett einhverja hringi á þessa „punkta“, sagt henni að loka augunum og þá væri andi kominn inn sem átti að taka hana. Ákærði hefði kysst hana áfram og slegið í hana en hún hefði verið „subbinn“ hans aftur. Aðspurð kvað A að ákærði hefði, sennilega ekki fyrr en árið 2003, sagt henni frá sinni persónulegu reynslu sem snerist um að hann hefði verið misnotaður af konum sem hefðu kennt honum í raun allt í sambandi við BDSM. Þær hefðu látið hann vera heila nótt úti í skógi, þær hefðu slegið hann, ein hefði tekið hann á gaddavír eða eitthvað álíka. Minnti A að þetta hefðu verið tvær konur og móðir þeirra. Aðspurð kvað A ákærða hafa sagt sér frá eiginkonu sinni. Hún væri hans sub eða slave og hann væri dagsmaður, hann yrði að eiga kynlíf á hverjum degi. Árið 2006 kvað A ákærða hafa sagt sér að hann hefði mestan frið ef kona hans væri með í kynlífinu. Þá hefðu þau hist í sumarbústað eða raðhúsi og haft kynlíf saman.  J hefði sagt sér að það væri sú mesta sæla sem hún hefði kynnst að vera hans slave. Hún væri ofboðslega stolt af því auk þess sem hún væri með ör yfir bakið sem ákærði hefði skorið í hana viljandi. J væri með lokk við snípinn og í maganum.  A kvað ákærða hafa fengið sig til að setja lokk í naflann árið 2003 og hann hefði viljað að hún fengi sér lokk í snípinn. Í bústaðnum hefði ákærði slegið þær J mjög fast með svipu. Ákærði hefði haft mök við A auk þess sem hann hefði verið með alls konar víbratora sem hann hefði sett á þær til skiptis eða látið jafnvel víbratorinn vera á milli þeirra. Þetta hafi staðið yfir í marga klukkutíma. A kvaðst ekki hafa farið fyrr en undir morgun því hún mundi að fuglarnir voru byrjaðir að syngja. A kvað börn þeirra hjóna hafa verið í húsinu en þau hefðu ekki vaknað. A kvað það ekki hafa skipt máli að börnin voru þarna, því síðar þegar þau hafi verið saman í kofanum að Efri-Brú hafi börnin verið þar líka en ákærði hefði þá sett skilrúm fyrir, en börnin sofi mjög fast. Eftir fyrstu nóttina í bústaðnum á Laugarvatni vildu ákærði og J að A kæmi aftur næsta kvöld og þá átti hún að vera „slave“ númer 2 og J „slave“ númer 1 og sú sem réði yfir A. A kvaðst hafa komið aftur það kvöld og hefði allt farið mjög svipað fram og fyrra kvöldið. Þriðja kvöldið hefði verið frábrugðið því að J hefði spennt á sig gervilim og tekið A þannig. Ákærði hefði þá rætt mikið um Iron Master og kvaðst A hafa séð hringina og leðurhólkinn með berum augum. Ákærði hefði tekið A með Ironinu. Ákærði hefði sett hana upp á borð og bundið fyrir augun á henni. J hefði staðið fyrir aftan axlirnar á henni og haldið í hana og hún síðan fundið þegar ákærði fór inn í hana. Það hefði verið mjög sárt. Ákærði hefði tekið sig þarna með þessum hólk og þegar tekið var frá augunum á henni hefði henni brugðið mjög. Ákærði hefði verið með svarta böðulsgrímu. Þannig kynlíf hafi haldið áfram í margar klukkustundir og ákærði hefði tekið hana oft. A kvaðst hafa komið til ákærða og J nokkrum vikum síðar í kofann. Þá hefði J gist nokkrar nætur með börnin. Í það skipti hefðu börnin sofið í rúmi ákærða en ákærði sett skilrúm fyrir þannig að ef börnin vöknuðu þá myndu þau ekki sjá til þeirra, en þau hefðu ekki vaknað. Í það skipti hefði ákærði bundið A með ýmsum hnútum yfir lærin, yfir brjóstin og aftur fyrir, en hnútarnir áttu að virka á alla þessa punkta. Þarna hefðu þau einnig haft beint samræði. Kvaðst A hafa haft kynlíf í kofanum í tvö kvöld með ákærða.

A kvað ákærða hafa farið með hana og J í bíltúr og ætlað að sýna þeim staðinn þar sem hann var misnotaður af þessum konum. Það hefði verið seint um kvöld. A kvaðst hafa hitt þau við húsið sem ákærði var að byggja og þau síðan ekið í Van-bifreið sem ákærði átti. Þau hefðu ekið í skóg þar sem voru há tré og borð. Ákærði hefði sagt að það væri mikið af öndum í þessum skógi. Ákærði hefði látið J leggjast fyrst á borðið og hún hefði strax fundið fyrir andaverunum. Ákærði hefði sagt sér að leggjast einnig á borðið og sagt að það yrði alltaf að gera áður en farið væri inn í skóg. Síðan hefðu þau gengið inn í skóginn, ákærði fremstur og gengið hratt en hann hefði virst mjög kunnugur þar. Af og til hefðu þau stoppað og ákærði þá slegið þær með svipum. Ákærði hefði haft mök við þær báðar þarna og einnig látið þær kyssast. A kvaðst hafa farið í annan skóg með ákærða en til að fara þangað þurfti að aka í áttina að Þingvallavatni en hún hefði lýst því fyrir lögreglu. Í það skipti hefðu þau ákærði verið tvö. Ákærði hefði tekið hana í þessum skógi, mjög harkalega, og kvaðst hún hafa verið öll út í barri alls staðar á eftir.

Aðspurð um gjafir frá ákærða kvað A hann hafa gefið sér silfrað hálsmen, farsíma og hund. Sá hundur hefði kostað 150.000 krónur sem ákærði hefði greitt. Þá hefði ákærði gefið sér lokk í magann og hjartalaga hálsmen með steini. Þá hefði ákærði lagt peninga á reikning hennar en það hefði hann tengt mikið Guði. Ákærði hefði sagt að ef ísskápurinn væri tómur þá væri maður í vanblessun og ekki í góðum málum hjá Guði og þannig hefði ákærði getað stjórnað því hvort henni fyndist hún í góðum málum hjá Guði eða ekki. Ákærði hefði því lagt inn á reikning hennar peninga ef hana vantaði fyrir mat eða öðru og hefðu þessar greiðslur algjörlega tengst þeirra sambandi. Það hefði verið hluti af öllu að finna fyrir öryggi hjá ákærða en hann hefði ítrekað sagt henni að hún gæti alltaf leitað til hans. Ákærði hefði ýmist gert þetta að hennar beiðni en stundum án þess að hún nefndi það. Þegar A var í Z hefði ákærði kallað þetta „blessun“ sem hafi farið upp í húsaleigu. Þá hefði ákærði einnig lagt peninga inn á reikning L sem þá tengdist vinnu hans við íþróttaaðstöðuna í Rockville.

Aðspurð staðfesti A allar þær tölvupóstsendingar sem ákærði hefði sent henni og taldar hafa verið upp í lögregluskýrslum. Þá staðfesti A að hún hefði fengið skjal sent frá ákærða sem bar heitið „Grunnspurningar“ og hún hefði svarað þeim lista og endursent ákærða. A staðfesti að hún hefði haft netfangið ÞÞÞÞÞÞ.

Aðspurð um viðhorf A til þessa sambands hennar og ákærða kvaðst hún aldrei hafa staðið jafnfætis ákærða. A kvaðst stundum hafa upplifað sig sem mjög hrifna af ákærða og mjög háða honum. Hún hefði ekki getað sagt nei við hann. Hún kvaðst hafa upplifað hann sem sinn ráðgjafa, þann sem vissi betur, þann sem gat leiðbeint henni og kennt, og passað hana. Hún hefði fundið fyrir öryggi hjá honum og stundum fundist hún vera honum skuldbundin. Stundum hafi hún verið á milli tveggja elda þar sem ákærði hefði haft áhrif á eiginmann hennar sem gerði hann reiðan og því hefði hún verið í einhverri klemmu. A kvaðst líta svo á að hún hafi verið í meðferð í Byrginu haustið 2003 og sumarið 2006, sótt viðtöl til ákærða og ráðgjöf.

Afleiðingar þessa sambands kvað A vera að hún væri enn öll í klessu. Hún eigi mjög erfitt með að treysta fólki, hún eigi erfitt með að átta sig á trúnni gagnvart Guði, hún sé búin að leita mikið. Hún kvaðst efast um sjálfa sig, dómgreind sína, hafa lágt sjálfsmat og eiga erfitt með að einbeita sér. A kvaðst hafa farið í skóla sl. haust en skýrslutökur vegna þessa máls hefðu haft mikil áhrif á skólagönguna. A kvaðst alls ekki hafa náð sér og eiga erfitt. 

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu þann 1. febrúar 2007 vegna þáttar A. Kvaðst ákærði alfarið neita því að hafa verið í kynferðissambandi við A. Kvað hann A og mann hennar hafa komið fyrst í meðferð hjá honum í Byrgið í Hafnarfirði, að hann taldi árið 1997. Undir lok ársins hefðu þau síðan orðið starfsfólk hjá Byrginu. Þegar Byrgið hóf starfsemina í Rockville hefði L, maður A, unnið við uppbyggingu á íþróttaaðstöðu í Rockville og þau verið með íbúð á vegum Hafnarfjarðarbæjar í Z í Hafnarfirði. Þegar starfsemin flutti frá Rockville árið 2003 að Efri-Brú hefði verið ljóst að ekki væri íþróttaaðstaða að Efri-Brú og þá hefðu A og L hætt daglegri umgengni í Byrginu á hinum nýja stað. Kvaðst ákærði ekki hafa verið með A í meðferðarviðtölum í Rockville en hún hefði borið sín mál á borð fyrir hann er snertu daglegt amstur. A hefði aldrei óskað eftir viðtölum í Rockville þar sem hún hefði verið búin í meðferð Byrgisins og þá hafi hún verið orðin starfsmaður Rockville. Aðspurður almennt um vistmenn og meðferðarviðtöl kvað ákærði að hann kallaði aldrei á vistmenn í viðtöl, það væri til að efla sjálfsbjargarviðleitni þeirra að láta þá sjálfa óska eftir viðtölum. Aðspurður kvað ákærði A hafa trúað sér fyrir tveimur persónulegum málefnum sínum, það hefði verið kynferðisleg misnotkun er hún hafði orðið fyrir og hjónabandserfiðleikar hennar og L. Þegar framburður A var borinn undir ákærða kvað hann að A hefði rætt við hann um hjónabandserfiðleika þeirra hjóna en það hefði ekki verið í meðferðarviðtölum. Þá neitaði ákærði því að hafa greitt húsaleiguna að Z fyrir A og L. Hins vegar hefði hann greitt hluta rafmagnsreiknings í eitt sinn og hann hefði lagt peninga inn á reikning þeirra fyrir nauðsynjum sem hafi verið kallað „blessun“ ef um fjárstuðning var að ræða til skjólstæðinga Byrgisins. Þá kvað hann A hafa rætt um kynlífsvandamál hennar og L við alla og það hefði ekki verið neitt leyndarmál hjá henni. Þá neitaði ákærði að hafa sent A smáskilaboð utan einu sinni, sem hafi átt að vera uppörvun en ekki að hann hafi verið að dást að henni sem slíkri. Ákærði neitaði að hafa nokkurn tíma tjáð A ást sína en hún hefði gefið honum til kynna að hún væri hrifin af honum. Hann hefði verið búinn að þekkja A til lengri tíma en hún hefði komist upp á milli hjóna og því hefði hann haft varann á sér gagnvart henni, vegna hennar veikinda sem hefði verið þunglyndi. Ákærði neitaði því að hafa sagt A að sig hefði dreymt kynlífsdraum um hana, það væri algjört bull. Ákærði neitaði því að hafa nokkurn tíma aðstoðað A með verkefnavinnu heima hjá henni á meðan hún var í meðferð í Rockville. Ákærði kvaðst hafa farið tvisvar inn á heimili A og L í Z en L, H og J, kona hans, hefðu vitað af þessum ferðum. Í bæði þessi skipti hefði hann verið að gera við tölvu A og það hefðu liðið nokkrir dagar á milli. Ákærði mótmælti framburði H um að H hefði veitt því athygli að ákærði hafi farið að venja komur sínar á heimili þeirra A og L í Z en H hefði margsinnis séð hvar bifreið ákærða hafi verið í bílastæði þar, og kvað ákærði þetta fásinnu. Kvað ákærði að á þessum tíma hefði hann lánað A og L bifreið Byrgisins og síðan hefðu þau keypt bifreiðina af honum. Hann hefði svo þurft að taka bifreiðina af þeim aftur þar sem þau greiddu ekki af henni. Ákærði neitaði því að hafa nokkurn tíma sýnt A einhverja kynferðistilburði, s.s. með strokum og með því að nudda punkta á líkama hennar. Ákærði kvað A aldrei hafa verið í meðferð í Rockville og neitaði að hafa kysst hana í meðferðarviðtali þar. Ákærði neitaði þeim framburði A að hafa haft í þrjú skipti samfarir við hana á heimili hennar í Z í október 2001. Ákærði neitaði því að A hafi orðið ófrísk af hans völdum, hann hefði hins vegar vitað af fóstureyðingunni þar sem hún hefði beðið hann um að sækja sig eftir svæfinguna þar sem maður hennar hafi verið að vinna en hann hefði ekki getað það. Ákærði neitar framburði H um að ákærði hafi eitt sinn kallað hann inn í bifreið til sín fyrir utan Z og sagt honum að A hefði misst fóstur og því hefði hún beðið ákærða um að sækja drenginn hennar á leikskóla en L, maður A, mætti alls ekki vita um þetta. Ákærði kvað rangan framburð A um að hún hafi verið honum fjárhagslega og andlega háð þegar hún var í Rockville. Ákærði neitaði því að A hafi verið í viðtölum hjá honum er hún dvaldi í Byrginu að Efri-Brú í júlí/ágúst árið 2003 en hann kvaðst staðfesta að hún hafi dvalið þar vegna erfiðleika í hjónabandi hennar og L. Ákærði neitaði því að hafa kynnt BDSM fyrir A og sagðist aldrei nokkurn tíma hafa rætt það við skjólstæðinga Byrgisins. Ákærði neitaði því að hafa haft aðstöðu fyrir BDSM-kynlíf í kjallara að Háholti 11. Ákærði kvað A einu sinni hafa komið á heimili sitt að Háholti 11 í þeim tilgangi að fá lánaðan hjá honum peninga. J, kona hans, hefði vísað A niður í geymslu þar sem ákærði kvaðst hafa haft aðstöðu til að skera út leður en það væri hans áhugamál. Hann kvaðst hafa orðið við beiðni A og lagt peninga inn á reikning hennar en ekki sýnt henni eða kynnt henni þetta herbergi. Ákærði neitaði því einnig að hafa sýnt A tæki og tól til kynlífsathafna í kjallara að Háholti 11. Aðspurður um það hvort A hafi sótt samkomur í Byrginu í lok september 2003, kvað hann að svo hafi verið eftir að hún flutti í Hveragerði en hún hefði ekki sótt meðferðarviðtöl hjá honum. A hafi verið í söngsveit og því hefði verið eðlilegt að hún sækti samkomur á þessum tíma. Ákærði neitaði því að hafa látið A hafa geisladisk með myndinni Story of O, hann hefði sjálfur séð þessa mynd 17 ára gamall en A hefði gefið honum þessa kvikmynd á geisladiski vorinu áður og á sama tíma hefði hún sýnt honum heimasíðu sína, erlenda síðu, sem hafi verið um óskir hennar í kynlífi. Þá neitaði ákærði því að hafa látið A hafa spurningalista sem nefndist Grunnspurningar og beðið hana um að svara spurningunum eða látið hana hafa BDSM-kynlífssögur. Tók ákærði það sérstaklega fram að hann hefði á milli jóla og nýárs 2006 farið inn á BDSM.is og þar séð í fyrsta og eina skiptið nokkurs konar spurningalista um BDSM og svæsnar kynlífssögur. Ákærði kvaðst í eitt skipti hafa komið á heimili A og L að Y í Hveragerði en það hefði verið í þeim tilgangi að ljósmynda kertastjaka vegna heimasíðugerðar Byrgisins og þá hefði L verið heima. Vildi ákærði taka það fram að þegar að L hefði komið til hans nokkru áður, en á þessu tímabili, til að ræða við hann um hjónabandserfiðleika þeirra hjóna þá hefði hann hringt heim til A og heyrt að einhver var heima hjá henni og L þá sagt í símann: „Skrýtið hve oft hann er hjá þér þegar ég er ekki heima.“  Ákærði neitaði því að hafa komið heim til A í Hveragerði og átt með henni BDSM-kynlíf eða slegið hana með svipum. Hins vegar kvað hann A hafa gefið sér ljósmynd af henni og sagt að L hefði tekið myndina af henni hálfnaktri. Hefði honum sárnað og hann rifið myndina og hent henni. Ákærði neitaði því að hafa átt með A BDSM-kynlíf í meðferðarviðtölum í Byrginu. Hann hafi hvorki sagt henni að fróa sér né farið með hana í bíltúra út í sveit. Kvaðst hann muna að hafa í eitt sinn ekið A niður í Þrastarlund að kaupa bleiur og þá hefði hún fyrirvaralaust byrjað að fróa sér. Hann hefði beðið hana um að hætta þessu snarlega eða hún gæti gengið leiðina. Á leiðinni heim hefði A farið að gráta og spurt hvort hann gæti stoppað til þess að ræða hjónabandserfiðleika hennar og hann gert það við afleggjarann að sumarbústað föður síns á Búrfellsvegi skammt frá Ásgarði, og þar hafi faðir hans og sonur komið að þeim í samræðum. Neitaði hann að hafa farið með A í bíltúra út í sveit. Aðspurður um sumarbústaðaferð á afmæli ákærða kvaðst hann muna eftir því að hafa boðið A og L í 45 ára afmælisveislu sína í bústað vélstjóra skammt frá Laugarvatni, en frásögn A um hugmyndir um kynlífsathafnir með honum og J konu hans væru fráleitar. Kvað ákærði að á þessum tíma hefði Byrgið verið með búslóðageymslu í Hafnarfirði og hann staðið straum af þeim kostnaði fyrstu mánuðina. Í þessari geymslu hefði L fengið að geyma sín líkamsræktartæki og til að byrja með hefði L ekki greitt neina leigu. Ákærði hefði ákveðið að draga sig út úr greiðslubyrðinni vegna geymslunnar og hefði L tekið við afborgunum á leigu á búslóðageymslunni. Ákærði kvaðst ekki geta staðfest að A hafi byrjað að sækja samkomur í Byrginu í lok árs 2005 þar sem hann myndi það ekki, en það gæti vel hafa verið. Þá kvað ákærði það vel geta verið að hann hafi svarað A með e-mail að hann væri orðinn leiður á sögusögnum um að hann væri að riðlast á konum í Byrginu en taldi þó að það hafi frekar komið til tals þeirra í millum. Ákærði kvaðst aðspurður hafa leyft A að gista tvær nætur í kofa númer eitt þar sem hann hafi verið með íverustað. A hefði hringt í sig og ákærði í framhaldi beðið H að opna kofann fyrir A. Þar hafi A verið í tvær nætur en síðan fengið herbergi inni á hótelinu. Aðspurður um ástarjátningar frá ákærða til A, á meðan hún dvaldi í Byrginu, og viðtöl hjá honum daglega, sem hafi endað í sófa og hann sagt anda koma til að ríða A, kvað ákærði það fráleitt og ranga frásögn en hann vildi taka það fram að hann hafi á þessum tíma greint breytingar í hegðun A sem hafi lýst sér í því að hún hafi ætíð sest á gólfið með þeim orðum að svona vildi hún hafa það. Aðspurður um þá frásögn A að hún hafi farið í sumarbústað með ákærða og J konu hans og átt með þeim margra klukkustunda BDSM-kynlíf, kvað ákærði hana ranga. Þá hefði A ekki verið vistmaður í Byrginu á þessum tíma og því ekki þurft leyfi til að fara af svæðinu. Þá neitaði ákærði þeim framburði A að hann hafi farið með hana út í skóg, bundið hana og haft við hana samfarir á árinu 2006. Kvaðst ákærði hafa orðið fyrir kynferðislegum ágangi af hálfu A á öllum tímum sólarhringsins er hann hafi verið í Byrginu. Hann hafi hætt að svara banki hennar á hurð í kofa númer eitt um nætur eða snemma undir morgun. Hann hafi ákveðið að keyra á milli Hafnarfjarðar og Byrgisins á milli vinnudaga vega þessa en A hefði fylgst mjög grannt með ferðum ákærða. Kvað ákærði A eitt sinn hafa flett sig klæðum í vaktherbergi Byrgisins, sýnt sér áðurgreinda ljósmynd af henni hálfnakinni og gefið honum myndina Story of O. Þá kvaðst ákærði hafa rætt það við H í september 2006 að hann vildi ekki hafa A lengur í Byrginu. Ákærði kvað framburð A um bílferð með J og honum út í skóg í ágúst 2006 alrangan, þar sem hann hafi átt að hafa sagt þeim frá því að hann hefði verið misnotaður af þremur konum áður fyrr, og látið þær elskast áður en hann hafði samfarir við þær báðar. Kvaðst hann hafa ásamt J boðið A í bíltúr þar sem hann og J hefðu viljað hressa A við því að á þessum tíma hafi A verið langt niðri. Kvaðst hann hafa ekið með þær sem leið lá upp í Biskupstungur að Hjarðarlandi þar sem hann hefði verið ungur í sveit. Það hafi ekki verið stoppað í Hjarðarlandi og hann hefði ekið á Selfoss um Laugarás, niður Skeið, um Suðurlandsveg og að Esso þar sem þau hefðu keypt sér hressingu. Ákærði kvað J konu sína ekki hafa starfað í Byrginu síðustu fimm árin vegna barneigna en þar hefði hún starfað í sálgæslu og fyrirbænum og reyndar gengið í öll fyrirliggjandi störf, s.s. þýðingar. Í lok skýrslunnar hjá lögreglu vildi ákærði að það kæmi fram að þeir aðilar sem hefðu kært hann hafi leynt og ljóst grafið undan tilveru hans og starfsemi Byrgisins þar sem þeir hefðu ekki fengið sínu framgengt í því að hafa hlutina í Byrginu eftir þeirra geðþótta. Þá vildi hann taka það fram að A hafi átt við verulega mikil andleg og geðræn vandamál að stríða frá barnsaldri. 

Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 29. mars 2007 í þeim tilgangi að fara yfir tölvugögn A. Aðspurður um það hvort hann hafi verið í tölvusamskiptum við A er hún var í meðferð í Byrginu kvað ákærði að A hefði aldrei verið í meðferð í Byrginu. Kvað hann A og L hafa komið í Byrgið fyrir tilstuðlan H árið 1997 og þau hjón hafi aldrei tekið þátt í meðferðarprógrammi. L hefði unnið sem kokkur en A hefði sungið á samkomum og á sama tíma hugsað um barnið sitt. Síðar hefðu þau komið í Hlíðardalsskóla og í Rockville. Þau hefðu einungis búið um skamman tíma á Vesturgötunni en að öðru leyti búið í Hafnarfirði á vegum félagsmálastofnunar. Kvað ákærði að tölvusamskipti hans við A hefðu verið í tengslum við hópmeðferð sem hún átti að vinna. Ákærði kvaðst hafa verið með póstfangið byrgið@islandia.is og persónulega gummijons@islandia.is og gummijons@simnet.is eftir að islandia.is hætti. Kvað ákærði tölvusamskipti þeirra A hafa staðið í tvo til þrjá mánuði er hann hafi verið í Rockville. Hann hafi beðið hana um að ljúka vinnu sinni uppi í Rockville og hún þá komið þangað og klárað vinnu sína í tölvum Byrgisins. Ákærði neitaði því að hafa haft póstfangið panel@visir.is. Ákærði neitaði að hafa sent A ljósmyndir af nöktum konum eða upplýsingar um BDSM-kynlíf. Ákærði kvað M, starfsmann Byrgisins, hafa eitt sinn komið inn á skrifstofu H og þá hefði A verið að vinna í tölvu H en M séð á skjánum efni varðandi BDSM-kynlíf. Tölvur Byrgisins hafi verið LAN-tengdar og því hefðu allar tölvur verið samtengdar. Þetta hafi verið árið 2003. Á þessum tíma hefði ákærði verið kominn með póstfangið gummijons@simnet.is. Póstsendingar úr tölvu A voru bornar undir ákærða og kvaðst hann m.a. eiga ljóð sem fannst í tölvu A, móttekið 6. nóvember 2003. Neitaði ákærði að hafa sent ljóðið. Annað ljóð kvaðst ákærði eiga sem var móttekið í tölvu A 11. nóvember 2003 en hann kvaðst ekki hafa sent henni þá sendingu. Ákærði kvaðst ekki hafa sent A sendingu móttekna 15. nóvember 2003 og vildi taka það fram að hann væri lesblindur og þyrfti því iðulega að láta lesa yfir texta áður en hann sendi nokkuð frá sér. Ákærði neitaði að hafa sent aðrar 29 póstsendingar, sem bornar voru undir hann, sendar frá hans póstfangi til A. Gat ákærði ekki gefið neinar skýringar á þessum póstsendingum nema að því leyti sem hann hafi greint frá áður en allir vistmenn Byrgisins hefðu haft aðgang að tölvu hans og á þessum tíma hefði hann ekki verið með aðgangs- eða leyniorð inn í tölvuna.

Ákærði kom fyrir dóminn og kvað A hafa fyrst komið á áfangaheimili Byrgisins í nóvember 1997 en H hafi þá veitt því forstöðu. Hún hefði síðan flutt í Vogana en komið svo í Hlíðardalsskóla þar sem Byrgið hafi verið með starfsemi þá. Eiginmaður hennar hefði unnið þar sem vaktmaður. A hefði haldið til í Hlíðardalsskóla þar til starfsemin fluttist í Rockville en þá hefði hún flutt í Z í Hafnarfirði. Eiginmaður A hefði unnið með þeim í Rockville að uppbyggingu en ekki A. Í upphafi hefði A verið með í svokallaðri grúppumeðferð en vegna geðheilsu hefði hún hætt eftir tvö eða þrjú skipti. Á árunum 2003 og 2006 hefði A fengið að koma stuttan tíma yfir sumarið þar sem hún hefði flúið heimili sitt vegna ofbeldis. Hún söng í lofgjörðinni á þessum tíma. Árið 2006 hefði hún komið í Byrgið eftir heimilisofbeldi og var þá einnig í lofgjörðinni en óskaði líka eftir því að fá að vinna í Byrginu, sem ákærði kvaðst hafa neitað henni um þar sem hún þekkti ekki prógramm Byrgisins. Hefði A tekið því illa og orðið reið og leið. Í framhaldi hefði hún sýnt einhverja viðleitni og sótt tvo eða þrjá fyrirlestra til að fá starf sem ráðgjafi en það hefði ekki gengið upp hjá henni vegna andlegra erfiðleika. Ákærði kvaðst hafa vitað að A hafi verið mjög þunglynd og haustin henni erfið og hafi það verið svo frá því ákærði kynntist henni. Ákærði kvaðst vita þetta þar sem A hefði, á árinu 2000, sýnt honum vottorð frá Garðari Sigursteinssyni geðlækni í þeim tilgangi að fá örorkubætur. Aðspurður um veru A í Byrginu kvað ákærði hana aldrei hafa verið þar sem vistmaður og aldrei skráða í Byrgið. Skýringin á því að Byrgið hefði sent frá sér upplýsingar um þá sem væru ekki lengur skjólstæðingar Byrgisins, samkvæmt skjali númer 15, væri sú að það hefði alltaf þurft að skrá fólk inn svo hægt hefði verið að fylgjast með því hverjir voru á svæðinu og hverjir ekki. A hafi aldrei verið í meðferð í Byrginu. Ákærði kvað það rétt að A hefði verið um þrjár vikur í Byrginu á árinu 2003 og frá 26. maí til 17. júlí árið 2006. Rangt væri að hún hafi verið í Byrginu frá 1. janúar til 30. júní og frá 7. september til 14. september á árinu 2003 eins og gögnin bæru með sér. A og L, maður hennar, hefðu einmitt verið að flytja frá Z til Hveragerðis á þessum tíma og L hefði þá um jólin 2002 komið til sín og verið með miklar áhyggjur af konu sinni og hefði beðið sig um að ræða við A. Ákærði kvað A og L, mann hennar, hafa verið vinahjón þeirra hjóna og þau skipst á gjöfum um jól og afmæli. Sumarið 2003 hefði A verið mjög illa á sig komin. Ákærði kvaðst hafa átt viðtöl við hana, heima hjá henni í eitt af þessum fjórum skiptum sem hann kom á heimili hennar.  Eina skýringin sem ákærði kvaðst hafa um skráða veru A á árinu 2003, væri sú að þetta hafi verið svokölluð „örorkuskráning“ en fólk hefði reynt að vera einhvern tíma í Byrginu til að ná tali af Ólafi [lækni] til að fá örorku eða endurhæfingarörorku. Byrgið hafi verið mjög mikið misnotað á þennan hátt sem ákærði kvaðst hafa verið ósáttur við og því sent lista til Tryggingastofnunar til að tilkynna um þá vistmenn sem væru farnir á götuna en með örorkubætur frá Byrginu. Aðspurður kvað ákærði A aldrei hafa verið í viðtölum hjá sér, hún hafi komið í heimsókn og fengið sér kaffibolla. Hún hefði jú beðið um atvinnuviðtal. Maður hennar hefði einnig komið og beðið um vinnu sumarið 2006 en ekki fengið. A hefði búið kannski í einn mánuð eða jafnvel lengur árið 2006 með börnin sín en kvartað síðan við J, konu sína, yfir harðræði H. Aðspurður um vitnisburð vitna um að A hafi verið löngum stundum inni hjá ákærða og fólk hafi talið að hún væri í viðtölum, kvað ákærði hana hafa komið einu sinni til að biðja um vinnu.

Aðspurður um e-mail-sendingar úr tölvu ákærða 2003 til A á netfangið ÞÞÞÞÞ, þar sem skjal með heitinu „Grunnspurningar“ fylgdi með og var endursent frá A til ákærða þar sem búið var að svara spurningunum, kvað ákærði að þessu skjali hafi verið „plantað“ í hans tölvu. Vísar ákærði til þess að Bluetooth-búnaður hefði fundist í tölvu hans sem var þar án hans vitundar og hefði verið settur í tölvuna til að hægt væri að komast inn í hana og sækja þar gögn eða koma gögnum þar fyrir. Kvað hann skjalið sem fundist hefði í tölvunni hans hafa verið sett þar án hans vitundar enda hafi höfundur þess verið Dekas. Kvaðst ákærði viss um að A hefði komið þessu skjali fyrir í tölvunni sinni. Ákærði kvaðst hafa verið með netföngin gummijons@islandia.is og Gummijons@simnet.is þegar hann var í Rockville og birgid@islandia.is eftir að þau fluttu að Efri-Brú. Aðspurður kvaðst ákærði ekkert kannast við netfangið panel@visir.is. Kvað ákærði A hafa haft aðgang að tölvu H sem hafi verið tengd tölvu ákærða og A hafi oft verið í tölvu hans. Ákærði kvaðst ekki hafa hugmynd um hver hefði látið skrá netfangið panel á Byrgið en það hefði sjálfkrafa þá farið á tölvuna hans án hans vitneskju.

Aðspurður um gjafir frá ákærða til A kvaðst ákærði bæði hafa gefið A og þeim hjónum peninga, eins og mörgum öðrum, fyrir mat. Ákærði kvaðst yfirleitt hafa gefið kaupið sitt. Byrgið hafi nú verið þannig gert að fólk sem kom þangað hafi ekki haft mikið fé á milli handanna og þau heima fyrir látið kannski frekar gjafir, jólagjafir eða afmælisgjafir falla niður til að geta glatt þetta fólk, og A hafi fengið peninga frá honum. Ákærði kvaðst hins vegar ekki hafa gefið A hund eins og komið hafi fram. Aðspurður um greiðslur sem ákærði greiddi persónulega inn á reikning A frá árinu 2003, 584.000 krónur, kvaðst ákærði ýmist hafa gefið henni peninga eða lánað henni. Ákærði kvaðst ekki hafa verið að greiða fyrir neitt. Þá neitaði ákærði að hafa greitt húsaleigu fyrir A í Z. L, maður A, hefði verið að byggja upp íþróttaaðstöðuna í Rockville og hefði látið mestallt kaupið sitt í það og þess vegna hefðu þau verið fátæk og illa stödd með börn og varla átt fyrir mat. L hefði ekki verið með bankareikning svo hann hefði lagt þetta á reikning A. A hafi hins vegar aldrei endurgreitt neitt af þessu. Aðspurður um kaup á farsíma fyrir tæplega þrjátíu þúsund krónur þann 14. ágúst 2006, sem greiddur var með korti ákærða, kvaðst ákærði aldrei hafa gefið A síma og hún hafi þá farið í bókhald Byrgisins til að komast yfir kvittun fyrir símanum.

Ákærði var inntur eftir því hvort hann hafi einhvern tíma átt í kynferðissambandi við A og svarar hann því neitandi. Hann var einnig inntur eftir því sem kemur fram í vottorði Garðars Sigursteinssonar geðlæknis þar sem hann segir A hafa sagt frá því að hún hafi orðið þunguð eftir ákærða og farið í fóstureyðingu. Kvaðst ákærði neita því.

Þá var msn-spjall sem fannst í tölvu ákærða borið undir hann en þar voru ákærði og A að ræða ýmis persónutengd mál. Kvað ákærði skjalið vera rangt, búið væri að eiga við það og breyta því ásamt að færa til tímasetningar. Ákærði kvaðst í þessu spjalli hafa verið orðinn leiður á að ræða við A og svara henni sömu spurningunum um hvort hann væri vinur hennar eða óvinur og A hafi búið sjálf til svar í lok samtalsins sem ætti að vera frá ákærða. Þá væri stór hluti spjallsins breyttur. Síðustu setninguna hefði hann sagt löngu áður í spjallinu en þar segir: „frá hjartanu talar munnurinn og ég hefði varla trúað þessu, það sló mig þetta sms…frá þér og þannig slóstu burt allavega einn af þeim sem berjast fyrir þér,,þú valdir þannig að setja mig á einhvern stað sem þú sást,,ég vildi allt annað,,ég vildi vera nærri þér á minn hátt og þinn hátt, en ég get ekki tekið því elskan sem þú líktir mér við,,því það er rangt.“ Ákærði kvað þetta spjall hafa snúist um vináttu en A hafi fundist ákærði hafa snúið við sér bakinu, m.a. með því að vilja ekki ráða hana í vinnu eina ferðina enn í Byrginu, en skjalinu sé búið að breyta og textanum líka. Ákærði kvaðst hafa verið að reyna að koma A í skilning um að það væri rangt að vera að reyna að búa til samband. Þá kvað ákærði setningu sem virðist stafa frá honum, „Kaffi er gott, reykja er gott, ríða er gott, elska er vont“, ekki stafa frá honum henni hafi verið bætt við. Ákærði er minntur á að skjal þetta hafi verið í hans eigin tölvu og kvað hann það rétt en það væri búið að breyta skjalinu frá því sem upphaflega var en hann hafði engar skýringar á því hvernig það hefði gerst. Ákærði kvaðst hafa komist að því í gegnum C að í Byrginu væri manneskja sem væri að skoða heimasíður með BDSM-efni og hefði ákærði farið inn á síðuna og blöskrað það sem hann sá. Ákærði hefði strax látið H, sem væri vinur A, vita um slóðina en eiginmaður A hefði ekki vitað um þetta, orðið brjálaður og ákærði hefði tapað slóðinni. Ákærði var spurður um geisladisk sem lagður var fram í málinu og ber heitið „Saga Guðmundar“. Ákærði kvaðst, frá því hann stofnaði Byrgið, á þriggja til sex mánaða fresti hafa framsögu þar sem hann segði fólki sína sögu svo það vissi hver hann væri. Ákærði kvað þessa framsögu hafa verið tekna upp og hann hefði einn átt diskinn en upptakan hafi verið til þegar flutt var frá Rockville en þá hefðu allir þeirra hlutir verið settir í geymslu. Ekki fyrir löngu hefði verið brotist inn í geymsluna og hún rænd og þannig hafi þessi saga borist í hendur A sem ákærði kvaðst vita að hafi einnig komið kynlífsmyndbandinu á netið ásamt C. Geymsla þessi hafi verið á Efri-Brú og hefði G einnig haft lykla að geymslunni. Aðspurður um að bifreið ákærða hafi oft sést fyrir utan heimili A í Z kvaðst ákærði hafa lánað A bifreið sína. Svo hafi verið að L maður hennar hafi þurft að fara á þeirra bíl upp á Rockville og því hefði A verið bíllaus í bænum með lítið barn og því fengið bifreið hans lánaða. Hún hefði síðan keypt bifreiðina en ákærði tekið hann aftur af þeim þar sem þau greiddu ekki af henni. Þá neitaði ákærði aðspurður að hafa búið til skjal merkt „diplóma E þorró royal master“ eða að hafa sýnt vitnunum HH eða IIi það. 

H, kt. [...], [...]Reykjavík, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 31. janúar 2007. H kvaðst hafa leitað skjóls hjá Byrginu fyrst fyrir um tíu árum þegar Byrgið var með starfsemi í Vesturgötu í Hafnarfirði. Hefði hann starfað sem sjálfboðaliði eftir að Byrgið fór til Rockville. Hafi hann verið yfirumsjónarmaður með því að vistmenn færu eftir gildandi reglum. Kvaðst H hafa komið með A og L til Byrgisins þar sem þau hafi verið í mikilli neyslu. L hefði séð um mikla smíðavinnu og uppbyggingu, m.a. á íþróttaaðstöðu í Byrginu, og A hefði sótt lofgjörðir, samkomur og fyrirlestra í Rockville. Kvaðst hann hafa fylgst með A í Byrginu og hvernig henni hafi gengið í prógrammi en síðan tekið eftir því að ákærði hafi farið að boða hana í meðferðarviðtöl og hefði það vakið athygli hans hversu löng þessi viðtöl voru en þau hafi verið allt að þrjár klukkustundir og jafnvel á hverjum degi á tímabili. Þá hefði hann tekið eftir því að ákærði hafi farið að venja komur sínar á heimili þeirra A og L í Z. Kvaðst H oft hafa komið við heima hjá A og hafi hann margsinnis séð hvar bifreið ákærða hafi verið í bílastæði í Z. Hafi það verið í það minnsta í ein tuttugu skipti sem hann hafi séð bifreið ákærða fyrir utan heimili A og það á öllum tímum sólarhrings. Þar hafi hann verið farinn að gruna að ákærði og A ættu í nánu sambandi en hann hefði ekki viljað spyrjast fyrir um það. H kvað að þegar fór að líða á prógramm A hefði ákærði farið að ræða illa um hana við sig með ljótum orðum en það hefði verið háttur ákærða að þegar hann vildi að fólk umgengist ekki hvert annað þá færi hann að ræða illa um viðkomandi og þannig einangrað viðkomandi frá öðrum. H kvaðst minnast atviks er hann kom að Z en þá hefði ákærði verið þar fyrir utan og kallað á H og beðið hann að koma inn í bíl til sín. Þar hefði ákærði sagt honum að A hefði misst fóstur og því hafi hún beðið hann um að ná í strákinn hennar á leikskóla. Ákærði hefði tekið það sérstaklega fram að L mætti alls ekki vita af því að A hefði misst fóstur. H kvað A hafa komið í Byrgið að Efri-Brú á síðustu árum í nokkur skipti og kvaðst hann minnast þess að í eitt sinn hefði hún verið mjög veik en þá hefði hann ekki hugað nánar að sambandi hennar við ákærða þrátt fyrir að hún hafi verið mikið í kringum ákærða. Hins vegar hefði hann veitt því athygli að A hefði verið í nokkur skipti næturlangt í íverustað ákærða í kofa númer eitt. Þá hefði H einnig búið í kofa eitt en í íbúðinni við hlið ákærða.

H gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 26. júní 2007. Borinn var undir H sá framburður ákærða að undirrót kæru á hendur ákærða sé undan hans rifjum runnin ásamt kærendum í máli þessu og að H hefði fengið brotaþolana til að kæra gegn greiðslu. Kvað H þetta alrangt. H kvaðst hafa stutt ákærða í einu og öllu í meðferðarstarfinu í Byrgingu til margra ára. Aðspurður kvaðst H margsinnis hafa farið með ákærða í skartgripaverslun á Selfossi þar sem ákærði hefði keypt skartgripi. Kvaðst hann hafa séð hvar A hefði borið hálsfesti sem ákærði keypti á Selfossi en H hefði verið með ákærða í versluninni í umrætt sinn. 

H kom fyrir dóminn og kvaðst hafa þekkt foreldra A áður en hún kom í Byrgið.

Kvað hann ágætis vinskap hafa verið á milli sín og A þar til ákærði fór að taka hana í löng viðtöl þegar hún dvaldi í Rockville. Kvaðst hann hafa spurt ákærða eitt sinn að því hvers vegna hann væri með A í svo löngum viðtölum og hefði ákærði þá svarað því til að A væri svo veik. Þetta hafi sennilega verið á árunum 2001 til 2002. Kvað H aðra í Byrginu hafa veitt því athygli og rætt það hversu oft ákærði fór í heimsókn til A og ávallt hefði hann gefið þær skýringar að hann væri að fara að gera við tölvuna hennar. Kvaðst hann tvisvar eða þrisvar á þessum tíma hafa ætlað að heimsækja A þar sem hún bjó í Hafnarfirði en snúið við þar sem ákærði hefði verið í heimsókn hjá henni. H kvað A hafa komið í Byrgið á Efri-Brú á árinu 2003 þar sem hún hafi verið orðin mjög veik. Hún hafi þó ekki verið í neyslu. H kvaðst aðspurður ekki hafa orðið var við nein sérstök samskipti á milli ákærða og A eftir að hún kom að Efri-Brú en hann hafi séð þau saman í bifreið þá um sumarið í Reykjavík. Kvað H ákærða ekki hafa flutt að Efri-Brú fyrr en samskipti hans við B byrjuðu en þá hefði hann tekið niður giftingarhringinn. Aðspurður um gjafir til A frá ákærða minnti H að ákærði hefði gefið A hund á þessum tíma. Þá kvaðst H eitt sinn hafa verið með ákærða þegar hann fór í verslun á Selfossi og keypti nokkrar keðjur og hefði hann alla vega séð A með eina slíka. H kvaðst aðspurður hafa fengið vitneskju um hjónabandserfiðleika A og L frá ákærða en hann hefði yfirleitt komið því í kring að skapa óvild á milli vistmanna og starfsfólks. H kvaðst hafa búið í kofa tvö, sem væri hitt herbergið í þeim sumarbústað, og ákærði í kofa eitt. Kvað hann A ásamt J, eiginkonu ákærða, eitt sinn hafa verið í kofanum næturlangt en hann kvaðst ekki hafa heyrt neitt á milli þótt hljóðbært væri þar sem hann væri heyrnarskertur. H staðfesti þær skýrslur sem hann hafði áður gefið hjá lögreglu fyrir dóminum.

J, kt. [...], eiginkona ákærða, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 26. mars 2007. Kvaðst J ekki hafa gegnt neinum störfum fyrir Byrgið. Hún kvaðst hafa kynnst A í meðferð í Byrginu á Vesturgötunni fyrir um tíu árum. J kvað A ekki hafa komið á heimili hennar í Hafnarfirði en eftir að J flutti að Klausturgötu c 16, hefði A komið í eitt sinn í grillveislu og hafi það verið síðastliðið sumar. Aðspurð um kynlíf með ákærða og A segir J það ósatt. Aðspurð um bílferð ásamt ákærða og A kvað J það rétt að þau hefðu í ágúst 2006 farið í ökuferð en þá hefði J verið í heimsókn í Byrginu og ekki flutt inn í Klausturgötuna. A hefði verið að skilja við mann sinn og henni því verið boðið með í ökuferðina. Ekinn hafi verið einhver hringur um sveitina, stoppað á Selfossi í sjoppu og síðan farið í Byrgið. Kvað J rangt að þau hafi haft kynlíf í skógi í ágúst 2006.

J kom fyrir dóm og kvað það rangt að hún hafi tekið þátt í kynlífsathöfnum með ákærða og tveimur kærendum. J neitaði því að hafa tekið þátt í kynlífsathöfnum og BDSM-kynlífi ásamt A og ákærða í sumarbústað. J kvað það rétt að A hefði haft áhuga á að koma með krakkana í sumarbústað til hennar og manns hennar, þær hefðu verið ágætis vinkonur og síðast þegar hún kom heim til þeirra í grillveislu hefði A haft áhyggjur af því að H væri að ásælast hana. Aðspurð um teikningar af geymslu í kjallaranum að Háholti 11, kvaðst J muna eftir því að þar hafi verið geymdur stór skápur en þar hafi verið fremri geymsla og innri geymsla og þar hafi verið alls konar líkamsræktartæki sem H hefði geymt þar eftir að þau hættu í Rockville. J kvaðst ekki muna eftir neinu búri í geymslunni, henni dytti helst í hug að það gæti hafa verið gamla rúmið þeirra sem hafi verið reist upp við vegg.

Garðar Sigursteinsson geðlæknir, kt. 030457-2269, Grjótaseli 14, Reykjavík, gaf símaskýrslu fyrir dómi.  Kvaðst hann hafa unnið mjög mikið með áfengissjúklinga og vímuefnaneytendur og hafa unnið á áfengisdeild Landspítalans. Kvað hann A hafa byrjað í meðferð hjá sér einhvern tíma töluvert fyrir árið 2000. Ástæða komu hennar til hans hafi fyrst og fremst verið fylgiverkanir og í upphafi þunglyndi en þá hafi hún verið nýkomin úr neyslu. A hafi verið komin í nokkuð gott jafnvægi en haustið 2001 fari líðan hennar versnandi í dálítinn tíma. Hún hafi stundum verið í litlu jafnvægi og stundum kát og hress en oftast hafi hún verið haldin mikilli vanlíðan, kvíða og sektarkennd. Þetta hafi byrjað seinni part ársins 2001 og haldið áfram fram á næsta ár. A hafi farið í fóstureyðingu árið 2001 og þá hafi líðan hennar verið einna verst, hún hafi ekki verið í neinu jafnvægi lengi á eftir, í nokkur ár, og sé eins og fótunum hafi verið kippt undan henni. Garðar kvaðst vita það nú að samband hennar við ákærða hefði ekki klárast eftir að hún fór í fóstureyðinguna en fóstureyðingin og aðdragandinn að henni og þetta samband hafi lagst þungt á A. Aðspurður kvað hann A hafa verið nokkuð reglulega í meðferð hjá sér allar götur síðan. Garðar kvað A ekki sérstaklega leiðitama en hann haldi að samband hennar og ákærða hafi verið þannig að ákærði hafi haft mikil áhrif á hana og hans orð hafi vegið miklu þyngra en gerist almennt. Aðspurður um það hvort honum hafi verið kunnugt um andlegt ofbeldi á heimili A kvað hann erfiðleika hafa verið í sambandi hennar og L á þeim tíma sem samband A og ákærða hófst og kvaðst hann ekki geta útilokað að um andlegt ofbeldi hafi verið að ræða en á árinu 2006 hefði gengið mikið á í hjónabandi A og mikið ósamkomulag verið og hún þá flúið af heimilinu. Hvort það hafi verið vegna ofbeldis eða ótta við ofbeldi, það hefði jú gerst endurtekið af hálfu L á þeim tíma.     

Vitnið F, kt. [...], [...], Selfossi, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið upphaflega í Byrgið árið 2000. Kvaðst hann í upphafi hafa veitt viðtöl í tengslum við fjármál og leiðsögn en ákærði hefði séð mest um andlega leiðsögn. F kvað enga af kærendum hafa verið í meðferðarviðtölum hjá honum. Hann hefði eingöngu aðstoðað C með að koma lagi á fjármál sín og það hefði verið árið 2005. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa haft nokkra einustu hugmynd um að ákærði ætti í einhvers konar sambandi við aðrar konur í Byrginu. Aðspurður um skráningu A í Byrginu þá kvað F það virðast sem hún hafi verið skráð í meðferð frá 26. maí 2006 til 17. júlí 2006 og tilkynnt hefði verið að hún hafi verið í stuðningsmeðferð þar sem hún hefði komið að Efri-Brú vegna heimiliserja og umræður verið um að hún ætlaði að skilja. F kvaðst hafa skrifað undir stuðningsmeðferð en í raun hafi hún ekki verið í meðferð í Byrginu. Þeir hefðu tekið á móti henni eins og alltaf sé gert við skjólstæðinga Byrgisins. Þá hefði A komið einhvern tíma áður vegna heimiliserja en hann myndi ekki hvenær það hafi verið. A hefði þá ekki verið í neinni meðferð, hún hefði bara fengið húsaskjól en allt hefði verið gert fyrir hana. F kvaðst hins vegar ekkert geta sagt til um það hvort A hafi verið í viðtölum við ákærða, og trúað honum fyrir sínum málum, hann viti ekkert um það.

IV.

Í upplýsingaskýrslu lögreglunnar um samanburð á tölvugögnum kemur fram að í Soprano-tölvu, sem ákærði notaði á skrifstofu sinni í Byrginu og lögregla lagði hald á, var að finna möppu sem var merkt „Word-skjöl“ og innihélt skjal sem bar heitið „Grunnspurningar.doc“. Þegar skjalið var rannsakað kom fram að höfundur þess var „Gummi“ og það búið til 20. febrúar 2003. Skjalið var síðast vistað 20. mars 2003 klukkan 1.05. Við rannsókn á tölvupósti A kom fram að sama skjal móttók hún í tölvupósti þann 20. mars 2003 klukkan 01.06.25 eða 1.25 mínútum eftir að skjalið var síðast vistað í tölvu ákærða. Sendandi þeirrar sendingar var gummijons@simnet.is  Við yfirheyrslur í máli C kvað ákærði höfund þessa skjals vera A. Þá var að finna í pósthólfi A skeyti frá gummijons@simnet.is til ÞÞÞÞÞ þann 20. febrúar 2003 með skrá sem ber heitið „Grunnspurningar.doc“. A kvaðst hafa svarað þeim spurningalista og sent ákærða síðar en það skjal fannst í tölvu ákærða og kvað ákærði aðspurður það skjal stafa frá A. Ákærði neitaði fyrir lögreglu að vera með póstfangið panel@visir.is. Lögreglan fór fram á að Héraðsdómur Suðurlands kvæði upp úrskurð um að símafyrirtækinu Hive yrði gert að upplýsa um eiganda IP-tölu tölvunnar sem sendi frá því póstfangi. Í framhaldi kom fram að ákærði var skráður fyrir því netfangi og komu skeyti með því póstfangi úr tölvu með sömu IP-tölu og var í tölvu ákærða. Þrjú skeyti voru móttekin í tölvu A frá panel@visir.is, eitt skeyti þann 28. febrúar 2006 og tvö skeyti þann  12. mars 2006. Í skeyti sendu 28. febrúar 2006 voru fylgigögn merkt „B-light fræðsla og takmörk, B-ligh samningur, B-light upplýsingar og fræðsla, Hvað er B-ligh og hvað ekki“ og síðast „Tilgangur munalosta“. Við skoðun á þeim skjölum má glögglega sjá að þau snúast öll um kynlíf.

Ákærði hefur neitað því að A hafi nokkurn tíma verið til meðferðar í Byrginu. Í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting frá Byrginu til Tryggingastofnunar ríkisins, dagsett 22. júlí 2006, um að A væri ekki lengur skjólstæðingur í Byrginu og er komudagur tilgreindur 26. maí 2006 og brottfarardagur 17. júlí 2006. Þá liggur fyrir að A fékk greiðslu sem uppbót vegna dvalar á sambýli frá Tryggingastofnun ríkisins, 36.596 krónur, í júlímánuði 2006. A fékk uppbót frá Tryggingastofnun ríkisins tímabilið 1. júlí til 1. september 2000 vegna dvalar í Byrginu og þá er skráð í gagnagrunn TR að A hafi farið frá Byrginu 24. júlí 2006. Í heildarskrá frá Landlæknisembættinu yfir vistkonur Byrgisins frá 1997 til 2007 er skráður fjöldi daga í meðferð á vegum Byrgisins. Þar kemur fram að A hafi verið skráð þar frá 1. desember 1997 til 1. september 2000. Frá 1. janúar 2003 til 30. júní 2003 og frá 7. september 2003 til 14. september 2003 og frá 26. maí 2006 til 17. júlí 2006. Þá liggur fyrir í gögnum málsins staðfesting á því að A hafi farið í fóstureyðingu þann 20. nóvember 2001. Engin rök eru fyrir því að rengja upplýsingar Landlæknisembættisins um dvöl A í Byrginu og verður að telja þær upplýsingar trúverðugri en skráningu hjá Byrginu sjálfu, enda hefur komið fram að á þær skráningar er ekki treystandi.

A var látin teikna upp grunnmynd af sumarbústað þeim er hún kvaðst hafa átt kynlíf í með ákærða og konu hans. Kemur sú teikning heim og saman við ljósmyndir teknar úr sams konar bústað. A teiknaði einnig upp grunnmynd af geymslu í kjallara að Háholti 11 í Hafnarfirði þar sem hún kvaðst hafa farið með ákærða og hann slegið hana nakta. Inn á teikninguna merkti A meðal annars búr sem ákærði taldi að gæti verið gamalt rúm frá honum reist upp á endann. Kemur teikningin heim og saman við ljósmyndir sem teknar voru af geymslurýminu.

Þá liggur frammi frumrit kvittunar á Nokia gsm farsíma að fjárhæð 28.995 krónur þann 14. ágúst 2006 og er hún undirrituð af ákærða sem staðfesti þá undirritun rétta fyrir dóminum. Ákærði neitaði hins vegar fyrir dóminum að hafa gefið A umræddan síma og kvað hana hafa farið í bókhald Byrgisins til að komast yfir kvittunina. 

Í upplýsingaskýrslu lögreglunnar gerðri 13. ágúst 2007 kemur fram að lögreglan hafi farið með A á þá staði þar sem hún hefur lýst fyrir lögreglu að hún hafi átt kynlíf með ákærða. Vísaði A lögreglu á sumarbústað í eigu föður ákærða í landi Búrfells í Grímsnesi en A kvað ákærða hafa bundið hana aftan við bifreið ákærða og átt síðan kynlíf með henni aftan frá eftir að hafa slegið hana með svipu. Þá vísaði A lögreglu á skóg sem hún sagði vera rétt hjá Efri-Brú. Áður en komið var að Efri-Brú var ekið yfir brúna hjá Írafossvirkjun og upp Grafning. Í Hagavík vísaði A lögreglunni á skóg þar sem ákærði átti kynlíf með henni. Þá vísaði A lögreglunni á raðhús austan við þorpið á Laugarvatni, í Flataskógi þar sem hún hafði verið með ákærða og J konu hans. A kvaðst ekki vita hvar skóglendið væri þar sem ákærði hafði samfarir við hana og J konu sína en lýsti leiðinni fyrir lögreglu. Ók lögreglan með A samkvæmt leiðarlýsingu hennar og komu staðir sem hún benti á heim og saman við fyrri lýsingar hennar.

Þá liggur fyrir yfirlit frá Landsbanka Íslands um innborganir frá ákærða og frá Líknarfélaginu Rockville og Byrginu líknarfélagi ses., frá 20. september 2001 til 1. júní 2006, samtals 741.000 krónur. Á árinu 2001, 5000 krónur. Á árinu 2002, 10.000 krónur. Á árinu 2003 samtals 567.000 krónur, á árinu 2004 samtals 89.000 krónur, á árinu 2005 samtals 35.000 krónur og á árinu 2006 samtals 35.000 krónur. Ákærði lagði fram hjá lögreglu yfirlit yfir greiðslur sem hann kvaðst hafa lagt á bankareikning A og manns hennar L. Voru það samtals greiðslur að fjárhæð 298.000 krónur þannig: Á árinu 2003 190.000 krónur, á árinu 2004 samtals 73.000 krónur og á árinu 2006 samtals 35.000 krónur.

Í gögnum málsins liggur fyrir vottorð Garðars Sigursteinssonar geðlæknis þar sem segir m.a.: „Ofangreind hefur um árabil verið til meðferðar hjá undirrituðum vegna geðkvilla og tilfinningalegra vandamála. Meðferðin hefur falist í bæði viðtals- og lyfjameðferð. Haustið 2001 tjáði A mér að hún ætti í sambandi við Guðmund Jónsson, kenndan við Byrgið, að hans frumkvæði. Var hún á þessum tíma í áberandi slæmu jafnvægi, ýmist mjög kát eða niðurdregin og kvíðin sem oftar var og plöguð af sektarkennd. Þótti mér við þessar upplýsingar sem ég fengi þar skýringu á breytingum hjá henni sem ég hafði tekið eftir nokkru áður. Skömmu eftir að A sagði frá sambandi sínu við Guðmund, sagði hún mér frá því að hún væri þunguð af hans völdum. Var á þeim tíma illa haldin af vanlíðan, sektarkennd og kvíða. Mjög ráðvillt, en komst fljótt að þeirri niðurstöðu að hún yrði að fara í fóstureyðingu, sem hún svo gerði. Sleit jafnframt sambandinu við Guðmund. Allt þetta ferli hafði slæm áhrif á heilsu A, sem var með veruleg einkenni þunglyndis og þurfti á miklum stuðningi að halda. Var hún í miklu sambandi við undirritaðan á þessum tíma og var í þéttari viðtölum en áður. Upplifði sig mjög eina á þessum tíma, enda gat hún ekki talað um þetta við sína nánustu. Erfitt að segja til um hversu mikil langtímaáhrif þetta hafi verið á A, hún leið miklar þjáningar á meðan á þessu stóð og ljóst að þetta hefur haft truflandi áhrif á hana áfram og gerir enn í dag. 

Þá er í gögnum málsins tölvupóstur, skrifaður út úr innhólfi á netfanginu ÞÞÞÞ þann 15. nóvember 2005 og er sendandinn gummijons@simnet.is en þar segir meðal annars: „það að skrifa þér þessar línur er mér erfiðara..Panel þinn luv.“ Er það skjal rakið ofar í dómi þessum. Þá liggur fyrir skjal D.S.S.D. DIPLOMA No. 1 ICELAND, sem rakið er að ofan. Þá er afrit af tölvupósti sendum 3. desember 2003 frá gummijons@simnet.is til ÞÞÞÞÞ, þar sem verið er að lýsa kynlífsathöfnum, og tölvupósti sendum 4. desember 2003 á milli sömu aðila og er ljóð um elskendur, samningar og reglur um BDSM-kynlíf, sem rakið hefur verið, tölvupóstur sendur 12. mars 2006 frá panel@visir.is til ÞÞÞÞÞ undirritað Parson Cash þar sem verið er að lýsa hegðun undirlægju auk fjölda annarra tölvusendinga sem sannanlega eru sendar frá tölvunetfangi ákærða til A, en ákærði hefur neitað að hafa sent þau skeyti sem snúa að kynlífi á einhvern hátt. Einnig er í gögnum málsins bréf frá Byrginu, dagsett 22. júlí 2006, þar sem starfsmaður Byrgisins staðfestir brottför skjólstæðinga, þar á meðal A sem sögð er hafa komið 26. maí 2006 og farið 17. júlí 2006. Bréf merkt Grunnspurningar og sami listi þar sem spurningum hefur verið svarað eins og rakið er að framan, liggur fyrir í málinu. Upplýsingar um verudaga A í Byrginu fengnar frá Landlæknisembættinu liggja fyrir í málinu.

Ljósmyndir teknar eftir leiðarlýsingu A af lögreglu að sumarbústað undir Búrfelli, akstursleiðin til Hagavíkur við Þingvallavatn og mynd úr skóginum, þar sem A kvaðst öll hafa orðið úti í barri, en umræddur skógur er greniskógur, liggja fyrir í málinu. Einnig myndir af raðhúsalengju, sem eru orlofsíbúðir við Laugarvatn og samrýmast grunnteikningu frá A, myndir af útiborði og skóginum við Álfaskeið teknar eftir lýsingu A. Einnig liggur fyrir yfirlit yfir greiðslur frá ákærða á reikning A frá Landsbanka Íslands auk yfirlits frá ákærða um greiðslur til A. Þá liggur fyrir tölvupóstur frá panel@visir.is, dagsettur 28. febrúar 2006, til ÞÞÞÞÞ ásamt fylgigögnum um B-light-fræðslu og fleira sem rakið hefur verið að framan.

V.

Ákærði hefur verið sakaður um að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við A, þegar hún var vistmaður í Byrginu og sótti þar stuðningsmeðferð, samkvæmt  ákærunni eins og henni hefur verið breytt:

a)             Í nokkur skipti haustið 2003 á heimili A að Y, Hveragerði, og á vegi við Búrfell í Grímsnesi.

b)            Í nokkur skipti sumarið 2006 í sumarhúsi við Laugarvatn, í skóglendi í Hagavík við Þingvallavatn, á útivistarsvæði við Álfaskeið í Hrunamannahreppi og í Byrginu.

Við aðalmeðferð málsins féll sækjandi frá þeirri háttsemi sem greinir í a-lið ákærunnar að ákærði hafi haft samfarir við A í Byrginu á árinu 2003 þar sem hún kvaðst ekki hafa viljað hafa samfarir í Byrginu vegna trúar sinnar. Þá gerði sækjandi þá breytingu að háttsemin í b-lið ákærunnar, … á vegi við Búrfell í Grímsnesi …, hefði verið á árinu 2003 en ekki á árinu 2006 eins og segir í ákæru.

Ákærði hefur mótmælt því að A hafi verið vistmaður í Byrginu. Hún hafi verið sem starfsmaður þegar hún var í Rockville en hún hefði eingöngu leitað til Byrgisins sumarið 2003 og 2006 þar sem hún hafi verið að flýja erfiðar heimilisaðstæður. Hún hafi ekki verið skráð þar inn sem vistmaður og skýringin á því að tilkynnt hafi verið til Tryggingastofnunar um að hún væri farin frá Byrginu í júlí 2006, hafi verið sú að Byrgið hafi verið notað til að hún fengi örorkulífeyri. Hafi það stundum verið gert til að hjálpa þeim sem svo var ástatt um. Því hefði hún ekki þurft að fara eftir reglum Byrgisins, s.s. með fjarvistir o.fl. Ákærði neitaði því einnig að hafa nokkurn tíma haft samfarir við A eða verið í tölvupóstsambandi við hana utan þegar hún var að ljúka vinnu í Rockville á árinu 2003 og þá eingöngu í tengslum við vinnu hennar. Ákærði neitaði því að hafa verið með póstfangið panel@visir.is og þá neitaði hann því að hafa stundað BDSM-kynlíf með A. Ákærði kvað greiðslur frá sér til A hafa verið lán frá sér þar sem hún hafi verið illa stödd fjárhagslega og hún leitað til hans. Ákærði kvaðst þó einungis hafa lánað henni 298.000 krónur en ekki 726.000 eins og gögn málsins bera með sér fyrir árin 2003 til 2006. Ákærði neitaði að hafa keypt farsíma fyrir A en framlagður reikningur frá henni sýnir annað. Þá hefur ákærði mótmælt því að rekstur Byrgisins geti fallið undir hugtak 197. gr. almennra hegningarlaga „eða annarri slíkri stofnun“.

VI.

Saga A nær langt aftur fyrir það tímabil sem ákært er fyrir. Ljóst er að A þáði greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins vegna veru sinnar í Byrginu allt frá árinu 2000. Samrýmist það frásögn hennar um dvöl hennar í Rockville. Ákærði neitaði því að hafa verið í kynferðislegu sambandi við A á árunum 2000 til 2001 og því að hún hafi orðið ófrísk eftir hann. A kvaðst hafa skýrt geðlækni sínum frá því strax haustið 2001 og staðfesti Garðar Sigursteinsson geðlæknir það, bæði í vottorði sínu og fyrir dóminum. Þá liggur fyrir staðfesting frá Landspítalanum að A fór í fóstureyðingu í nóvember 2001. Engin rök eru til að vefengja þá frásögn hennar. Þá staðfesti H að hann hafi margsinnis séð bifreið ákærða, sem hefur einkanúmerið Pastor, fyrir utan heimili A að Z í Hafnarfirði. Ekki er þó ákært fyrir þessa háttsemi en hún rennir styrkum stoðum undir framburð A um síðara kynlífssamband þeirra. 

Þá ber að skoða það hvort A hafi verið í meðferð í Byrginu á árunum 2003 og 2006, eins og hún heldur fram, og þá verið háð ákærða að einhverju leyti og sótt meðferðarviðtöl hjá ákærða, og hann því misnotað freklega þá aðstöðu sína að hún var honum háð sem skjólstæðingur hans í trúnaðarsambandi.

A var, eins og hún hefur fullyrt og samrýmist gögnum málsins, í Byrginu þegar það starfaði í Rockville og einnig þar áður. Einn þáttur í meðferð Byrgisins var ýmis eftirfylgni, svo sem að kenna vistmönnum að aðlagast lífinu fyrir utan Byrgið á ný, meðal annars með því að sinna ýmsum störfum í Byrginu og þá ýmist í sjálfboðavinnu eða með laun sem fólgin voru í því að borga lægri leigu til Byrgisins. Þá liggur fyrir í málinu að fyrrum vistmönnum Byrgisins var ávallt heimilt að koma þangað í lofgjörðir og á samkomur þrátt fyrir að meðferð þeirra væri lokið. A leitaði skjóls í Byrginu í júlí/ágúst 2003 vegna erfiðleika í hjónabandi hennar. Hafði ákærði þá þekkt þau hjón allar götur frá árinu 1997. Samkvæmt gögnum Landlæknisembættisins og Tryggingastofnunar var A skráð frá 1. janúar 2003 til 30. júní 2003 í Byrginu og frá 7. september 2003 til 14. september 2003. Þrátt fyrir að A hafi ekki átti við fíkniefnavanda að stríða og verið í meðferð af þeim sökum var Byrgið, auk þess að vera meðferðarheimili vegna fíkniefnavanda, skráð sem kristilegt líknarfélag og rekið sem slíkt. Þá hefur ákærði kynnt sig sem pastor eða prest og meðferðarráðgjafa Byrgisins. Framburður A um að hún hafi leitað til Byrgisins, í samkomur og lofgjörðir, þegar hún flúði heimili sitt vegna erfiðleika, til þess að ná fótfestu og fá andlega aðstoð og stuðning frá ákærða, hefur verið mjög trúverðugur og samrýmist framburði margra vitna svo og gögnum málsins. Ákærði hefur ekki borið á móti því að A hafi verið í Byrginu á þeim tíma sem um ræðir. Verður því að telja sannað, með vísan til alls þess sem að ofan er sagt og þrátt fyrir neitun ákærða, að A hafi verið skjólstæðingur ákærða á þeim tíma sem greinir í ákæru og verið í trúnaðarsambandi við ákærða vegna andlegs ástands hennar, enda upplifði A sig sem skjólstæðing ákærða og vistmann í Byrginu á meðan hún dvaldi þar og einnig síðar þegar hún sótti þangað meðferðarviðtöl. Ekkert er fram komið sem gefur til kynna að A hafi mátt draga í efa að hún væri ekki undir sömu handleiðslu og aðrir skjólstæðingar Byrgisins þó svo að orsök veru hennar hafi ekki verið vímuefnavandi. Lítur dómurinn því svo á að lögfull sönnun sé fram komin um að A hafi verið skjólstæðingur ákærða og vistmaður Byrgisins þegar hún dvaldi þar, hvort sem hún var skráð inn eða ekki, enda var sú skráning á ábyrgð Byrgisins. Þá lítur dómurinn svo á að A hafi verið skjólstæðingur ákærða í trúnaðarsambandi eftir að hún fór úr Byrginu en sótti þangað handleiðslu og meðferðarviðtöl.

VII.

Ákæruliður II. Brot gegn B.

Skýrsla ákærða og vitna fyrir lögreglu og dómi.

B lagði fram kæru á hendur ákærða hjá lögreglu þann 15. janúar 2007 vegna kynferðisbrota er áttu sér stað er hún var vistmaður í Byrginu, Grímsnesi, á tímabili frá apríl 2004 fram til júní/júlí 2005. Kvaðst B hafa farið í meðferð í Byrgið þann 18. ágúst 2003 vegna fíkniefnaneyslu sinnar og hún hefði á þeim tíma verið í harðri neyslu á fíkniefnum. Kvaðst hún ekki hafa fengið inni á öðrum meðferðarstofnunum vegna biðraða og á þessum tíma hefði henni gefist kostur á að komast strax að í Byrginu. Kvaðst hún hafa farið á afeitrunardeildina í tvo til þrjá daga og eftir það hefði  hún verið með herbergi í Gula húsinu og verið þar í um það bil tvo til þrjá mánuði. Eftir veruna á afeitrunardeildinni hafi henni verið falið að þrífa og einnig hefði hún unnið í þvottahúsinu. Hún hefði fljótlega kynnst mörgum sem voru í meðferð og átt ágæt samskipti við það fólk. Þegar hún fór úr Gula húsinu hefði hún farið inn í aðalbygginguna og verið úthlutað herbergi númer 1. Stuttu eftir að hún var komin í það herbergi hefðu viðtöl hafist hjá ákærða. Viðtölin hafi verið inni á skrifstofu hans, en skrifstofa hans hefði verið á ýmsum stöðum þetta tímabil á svæðinu, meðal annars í herbergi númer 5, herbergi númer 10 og að lokum í kofa númer 1. Þá hefði hún sótt samkomur í Byrginu sem ákærði stýrði og hann hafi kallað sig prest og pastor fyrir vistmönnum. Kvað B að í fyrstu viðtölum hennar hefði ákærði greint henni frá því að hún myndi fara í nokkurs konar djúpmeðferð hjá honum og hefði ákærði varað hana við því að stúlkur sem hefðu farið í djúpmeðferð hefðu orðið hrifnar af honum eða ástfangnar. Þessi djúpmeðferðarviðtöl hefðu snúist um að hún hafi greint ákærða frá líferni sínu og mjög svo persónulegum málum þannig að hún hafi trúað honum fyrir sínum innstu málefnum. B kvað að þegar viðtölin hefðu færst inn í herbergi númer 5 hefði ákærði sagt henni að hann væri orðinn hrifinn af henni og hefði verið það í langan tíma. Hefði henni brugðið mjög við þessar ástarjátningar ákærða og ekki átt von á að slíkt myndi koma frá meðferðaraðilanum. Kvað hún ákærða hafa farið að trúa henni fyrir ýmsum málum úr hans einkalífi, eins og að hann hefði verið misnotaður kynferðislega á yngri árum auk þess að erfiðleikar væru í hjónabandi hans og að hann hygðist skilja við eiginkonu sína. Þegar þarna var komið sögu hafi ákærði verið byrjaður að senda henni smáskilaboð þess efnis að hún væri sú eina rétta fyrir hann, hann elskaði hana út af lífinu og Guð hafi sýnt fram á það að þau ættu að vera saman. Kvaðst B þarna hafa verið farin að treysta ákærða, trúað á játningar í hennar garð, haft sterkar tilfinningar til hans og fallið fyrir honum. Kvað hún fyrsta kynferðissamband þeirra hafa orðið í viðtali í herbergi númer 5. Þá hefði hún leyft ákærða að fróa henni. Hefði ákærði beðið hana um að leggjast á magann í rúmi í viðtalsherberginu, sem hún gerði og ákærði þá fróað henni utan fata. Kvaðst B ekki vera viss um tímasetningu á ofangreindu atviki en þau hafi hins vegar haft samfarir í fyrsta sinn nokkrum dögum eftir að N, sonur ákærða, fæddist en það hafi líklega verið frá 5. til 10. apríl 2004. Hafi það verið á Hótel Loftleiðum en hótelherbergið hafi verið skráð á nafn ákærða og hún taldi að samfarir þeirra hefðu verið sama dag og sonur ákærða fæddist eða kvöldið eftir. Á þessu tímabili kvaðst B hafa farið í helgarleyfi frá Byrginu og þá gist hjá móður sinni en eitt sinn hefði ákærði pantað hótelherbergi í Hótel Nordica. Er hún kom þangað hefði blómvöndur beðið hennar og kort frá ákærða sem á stóð: „Þú ert einstök  Þinn vinur Guðmundur Jónsson.“ Kvað hún þetta hafa gerst áður en þau hafi haft samfarir á Hótel Loftleiðum. Kvað B ákærða margsinnis hafa pantað hótelherbergi handa henni er hún var í helgarleyfum og hafi hún ekki verið í andlegu jafnvægi. Í þau skipti sem hún gisti á hótelherbergjum hefði ákærði litið til hennar og þau eytt talsverðum tíma saman í Reykjavík, s.s. á rúntinum, en ekki haft samfarir fyrr en í apríl 2004. Eftir það kvað B þau hafa haft kynlíf í Byrginu. Fljótlega eftir fyrstu samfarir þeirra í apríl 2004 kvað B viðtöl ákærða í Byrginu ekki hafa snúist um neinar meðferðaráætlanir eða meðferðarúrræði heldur um kynlífsathafnir þeirra. Þau hafi átt samfarir inni á viðtalsherbergi ákærða, í herbergi númer 10 og síðar í einu útihúsinu sem kallast „kofinn“. Kvað B að hún og ákærði hefðu stundað kynlíf í Byrginu allt fram að þeim tíma er hún yfirgaf Byrgið eða fram til júní/júlímánaðar 2005. Kvað hún að áður en hún fór frá Byrginu hefði það verið þannig að ákærði hefði neitað henni um viðtöl og komið illa fram við hana sem hafi lýst sér þannig að hann hafi látið eins og hún væri ekki til. B kvað sig hafa farið að gruna að ákærði og C væru í kynferðislegu sambandi þar sem C var meira og minna inni á viðtalsherbergi ákærða sem hafi verið herbergi númer 10. B kvaðst eitt sinn hafa komið að ákærða og C þar sem þau lágu nakin og sofandi undir ábreiðu í tvíbreiðu rúmi. Föt þeirra beggja hafi verið á stól við rúmið og nærbuxur ákærða á gólfinu við rúmið og þau hafi verið í viðtalsherbergi númer 10. Kvaðst B hafa komið í annað sinn inn í herbergið eftir að hafa opnað læstar dyrnar, kveikt ljósið og þá séð hvar ákærði og C hafi legið í rúminu. B kvaðst hafa vakið ákærða en hann þá ekki viljað kannast við að hafa vitað af C í rúminu fyrr en hún hefði vakið hann. Kvaðst B hafa komið að C og ákærða skömmu áður en ákærði fótbrotnaði en það mun hafa verið í janúar 2005. Kvaðst B hafa ákveðið að slíta öllu kynferðissambandi við ákærða í framhaldi en ákærði komið til hennar og beðist fyrirgefningar og hefði hún fyrirgefið honum. B kvaðst hafa átt í kynferðissambandi við ákærða eftir að hún yfirgaf Byrgið en hún hefði flutt á Selfoss og búið þar í sex mánuði. Kvað B að rétt áður en hún fór frá Byrginu eða skömmu eftir það hefði ákærði látið hana hafa spurningalista yfir kynlífsathafnir fólks eins og um BDSM. Ákærði hefði spurt hana hvort hún væri til í að stunda BDSM-kynlíf með honum og hefði hún leyft honum að binda sig og lemja sig með svipu nokkrum sinnum á bakhluta hennar og sömuleiðis á maga. Kvað hún BDSM-kynlífið hafa byrjað er hún bjó á Selfossi og síðar er hún var flutt til Reykjavíkur. BDSM-kynlífið hafi þau ástundað á heimili hennar og einnig nokkrum sinnum í sumarbústöðum í Grímsnesi. Í eitt sinn hefði ákærði verið með kynlífsdót í kynlífi þeirra á Hótel Geysi. Þá kvað hún ákærða hafa látið sig hafa dvd-geisladisk sem innihélt BDSM-kynlíf og hafi hann sagt henni að hita sig upp fyrir BDSM-kynlíf þeirra. Umræddur geisladiskur hafi áletrunina „STORY of O“.  Kvað B ákærða hafa í þessum kynlífsathöfnum sínum notað þvottaklemmur á brjóst hennar og kynfæri. Hann hafi spurt hvort hún vildi ekki láta setja hring á sníp hennar og ákærði hafi spurt hvort það væri ekki í lagi að hann skæri hana í bakið í þeim tilgangi að merkja hana sér. Kvaðst B hafa neitað honum um hvorutveggja. Þá kvað hún ákærða hafa viljað að hún tæki ljósmyndir af honum í samförum og hún hafi tekið tvær ljósmyndir af honum, þar sem hann hafi verið í samförum við hana, á gsm-farsíma hennar. B kvað ákærða hafi spurt hana hvort hún vildi hafa kynlíf með konu hans, J, en það hafi verið eftir að ákærði hefði sagt henni að J væri orðin hrifin af henni. B segir að hún hafi samþykkt að eiga kynlíf með J og hún hefði farið á heimili þeirra hjóna í Hafnarfirði. Það hafi gerst eftir að hún var farin úr Byrginu og flutt á Ö í Reykjavík. Kvaðst B hafa átt kynlíf með eiginkonu ákærða þrisvar eða fjórum sinnum. B kvaðst hafa brennt spurningalista þann er Guðmundur lét hana hafa er varðaði kynlífsathafnir fólks og hafa eytt þeim tveimur ljósmyndum er hún hafði tekið af þeim í samförum. B kvaðst hafa átt í kynferðissambandi við ákærða tvisvar sinnum eftir að Kompásþáttur Stöðvar 2 var sýndur rétt fyrir jólin 2006. Ákærði hefði þá sent henni smáskilaboð í farsíma hennar. B kvaðst upplifa sig þannig að ákærði hafi gróflega misnotað aðstöðu sína sem forsvarsmaður Byrgisins, sem prestur og pastor. Ákærði hafi notfært sér hennar stöðu á meðferðarheimilinu í nafni Drottins og allt framferði hans er laut að kynferðissambandi þeirra hafi verið í nafni Drottins. Hún hafi farið í meðferðina í Byrginu í þeim tilgangi að leita sér hjálpar og aðstoðar í lífinu en endað sem tilfinningalegt flak og þurft að byrja líf sitt upp á nýtt. Kvað hún ákærða hafa gert hana mjög háða honum. Ákærði hafi gefið henni gjafir, svo sem skartgripi, tvo bíla, húsgögn og annað slíkt. Ákærði hefði gert hana háða sér tilfinningalega, fjárhagslega og kynferðislega, sem hafi byrjað er hún var í Byrginu. B kvaðst hafa sagt vinkonu sinni frá því að hún ætti í kynferðissambandi við ákærða er hún var í Byrginu, O.

B gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 28. mars 2007 og var vitnisburður ákærða borinn undir hana. Kvaðst B hafa verið í kynferðissambandi við ákærða er hún var vistmaður í Byrginu og einnig eftir að hún hafði farið þaðan og flutt í íbúð sína að Ö Reykjavík. Kvaðst hún hafa verið komin andlega í þrot þegar hún kom í Byrgið, hún hefði treyst ákærða fyrir lífi sínu og eins og hún sjái hlutina nú þá hafi ákærði misboðið henni á allan hátt með tælingum í kynlíf. Kvað hún rangt hjá ákærða að hún hafi verið í viðtölum hjá E en E hafi verið vinkona hennar, enda hafi ákærði séð til þess að enginn fengi að ræða við hana nema hann sjálfur. Smátt og smátt hefði ákærði sannfært hana um að það væri rétt að þau ættu að vera saman. B kvað það ljóst að ef hún hefði verið hrifin af ákærða strax í upphafi þá hefði hún líklegast hlaupið strax í rúmið með honum en staðreyndin væri sú að hann þurfti að ganga á eftir henni á langan tíma þar til hann var búinn að sannfæra hana um að Guð hefði leitt þau saman. Kvaðst hún hafa treyst ákærða fyrir hennar persónulegu málefnum og þar á meðal hafi hún treyst honum og sagt frá því er henni hefði verið nauðgað. Kvað hún ákærða hafa notfært sér þá reynslu hennar gegn henni í rauninni í þeim tilgangi að byggja upp traust hennar gagnvart honum. Þá kvaðst B hafa búið í kofa 2 í nokkra mánuði eftir að ákærði flutti sjálfur í kofa númer 1. B kvaðst hafa komið í Byrgið annan hvern dag eftir að hún flutti á Selfoss til að hitta ákærða í kofa númer 1. Á þessum tíma hefðu C og Ó verið með lykil að kofanum og þau hafi ekki tekið neina sénsa á því að eiga kynlíf þarna að degi til en ákærði hafi allajafna komið til hennar að næturlagi á Selfoss. B kvað það ósannindi hjá ákærða er hann segist hafa verið hrifinn af bata hennar í Byrginu. Þarna hafi hann sagt henni að hann elskaði hana út af lífinu. Þá hefði ákærði lagt sig fram um að fá hana í meðferðarviðtöl til sín. B kvað sig og ákærða hafa verið í kynferðissambandi í langan tíma og í nokkur skipti átt BDSM-kynlíf og sé það í hróplegu ósamræmi við neitanir ákærða að allt í einu viðurkenni hann að hafa látið hana sem vinur hennar hafa myndina Story of O sem fjallar um BDSM-kynlíf. B kvað sig og ákærða hafa átt kynlíf með J, eiginkonu ákærða, og að J hafi einnig verið með líkamleg auðkenni. B kvaðst hafa verið í kynlífssambandi við ákærða í desember 2006, í tvígang, heima hjá henni, og hafi hann sent henni smáskilaboð þann 28. desember 2006 sem hún hafi greint lögreglu frá. Aðspurð um fjárhagslegan stuðning ákærða kvað hún ákærða hafa gefið henni hálskeðju sem átti að tákna það að hún væri hans eign vegna þess að hún vildi ekki leyfa honum að skera í bakið á henni og merkja hana sér þannig. B kvað ákærða hafa gefið henni fleiri skartgripi og einnig hafi ákærði borgað húsgögn og aðra innanstokksmuni á heimili hennar. Hann hafi dælt í hana peningum og keypt föt handa henni. Varðandi bílamálin kvað B að ákærði hefði gefið henni fyrri bílinn í afmælisgjöf í aprílmánuði 2004. Seinni bifreiðina hefði hann gefið henni líklegast árið 2004 eða 2005. Hann hafi greitt afborganir af bifreiðinni, tryggingar, bensín og allan kostnað af bifreiðinni. Hún hafi ekki greitt krónu í rekstur bifreiðarinnar. Ástæðan fyrir því að bifreiðin var skráð á nafn ákærða hafi verið að hún hafi verið það skuldum vafin að hún gæti ekki verið með bifreiðina skráða á sitt nafn svo ákærði hafi boðist til þess að hafa hana á sínu nafni. Síðar hefði hún látið ákærða fá bifreiðina en ákærði verið ósáttur við það og kvaðst myndu borga af bílnum áfram og sagt að það hafi verið óþarfi að hann fengi bílinn.

B gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 6. júní 2006. Var B beðin að lýsa því með hvaða hætti kynlíf hennar og ákærða hafi verið og hversu oft kynlíf þeirra hafi verið. B kvað fyrstu kynlífsathöfn hennar og ákærða hafa verið þegar hann hafi fróað henni í Byrginu í einu viðtalinu en hún hafi greint frá því atviki áður í skýrslutöku. Fyrsta kynlíf þeirra hafi verið á Hótel Loftleiðum í apríl 2004 og upp frá þeim tíma hafi hún og ákærði átt kynlíf nánast á hverjum degi fram að þeim tíma er ákærði byrjaði að gera hosur sína grænar fyrir C sem kom í meðferð að Efri-Brú. B kvað kynlíf hennar og ákærða hafa til að byrja með verið með eðlilegum hætti, þ.e.a.s. heilbrigt kynlíf eins og flest fólk stundi. Kynlíf þeirra hafi verið á hótelherbergjum, bæði á Hótel Nordica og Hótel Loftleiðum svo og á hóteli á Laugaveginum og á Hótel Geysi. Kynlíf þeirra hafi einnig verið að Efri-Brú þegar tækifæri gafst í viðtalsherbergi ákærða. B kvað þau einnig hafa átt kynlíf er hún bjó á Selfossi og þá hefði hún og ákærði byrjað að ástunda BDSM-kynlíf, í allt að fjögur skipti. B kvað að í þessu BDSM-kynlífi hefði ákærði bundið hana og slegið hana með svipu. Þá hafi ákærði troðið einhverjum hlut upp í kynfæri hennar sem hafi valdið henni eymslum og hræðslu en í þau skipti hafi hún verið með bundið fyrir augun. B kvað að þegar hún hafi séð hvað BDSM-kynlífið hafi farið að verða harkalegra hefði hún séð hvernig persónuleiki ákærða hefði breyst eins og að hann væri kominn í eitthvert hlutverk. Ákærði hefði spurt hana hvort hann mætti merkja sér hana með því að skera í bak hennar einhvers konar merki en hún hafi neitað honum um það. B kvað að þar sem harka hafi verið í BDSM-kynlífi hennar og ákærða hefði hún neitað honum um að ástunda BDSM-kynlíf en það kynlíf hafi verið fjórum sinnum. Eftir að hún neitaði að taka þátt í BDSM-kynlífsathöfnum með ákærða hefðu þau átt venjulegt kynlíf saman. B kvað ákærða hafa gefið sér þó nokkuð af skartgripum sem taldir voru upp í skýrslunni. Þá kvað hún ákærða hafa gefið sér húsgögn í hennar herbergi að Efri-Brú, kofa 2. Um væri að ræða tvær kommóður, sjónvarp, tölvuborð og tölvu, sófa, borð og ryksugu. Á heimili hennar að Ö hefði ákærði gefið henni og látið hana fá nýtt tölvuborð, rúm, tvær rúmdýnur, þrjár hillur, lítið borð, potta, blender, hnífapör og stofuborð. Þessa húsmuni kvað Br ákærða hafa keypt í Rúmfatalagernum í Reykjavík en hún segist ekki vita hvaðan tölvan sé komin og hún segir að þessa muni eigi hún enn að Ö. Kvað B fyrirkomulagið hafa verið þannig að hún hafi farið í Rúmfatalagerinn og valið þá muni sem hana vantaði og síðan hefði ákærði hringt og gengið frá greiðslu með greiðslukorti. Hún segist ekki vita hvaða greiðslukort ákærði hafi notað. B kvað ákærða hafa gefið sér tvær bifreiðar. Fyrri bifreiðin hafi verið þannig til komin að ákærði hafi gefið henni bifreið sem hafi verið af tegundinni Renault, vínrauð að lit. Þessi bíll hafi verið afmælisgjöf til hennar frá ákærða árið 2004 og þessa bifreið hafi hún ekki átt nema í stuttan tíma þar sem henni líkaði ekki við hana. Varðandi hina bifreiðina kvað B ákærða hafa farið með sig niður í bifreiðaumboðið B&L í Reykjavík og hann hafi spurt hvernig henni litist á Renault Magane Saloon, rauða að lit, ágerð 2004. Sagðist hún muna að skráningarnúmerið hafi verið VD en hún segist ekki muna tölustafina. B segir að bifreiðin hafi kostað um 2.200.000 krónur og ákærði hefði séð um greiðslu á bifreiðinni. Hún kvaðst ekki vita með hvaða hætti ákærði hafi greitt fyrir bifreiðina. B segir að bifreiðin hafi verið skráð á nafn ákærða þar sem hún skuldaði bílatryggingar og hafi verið í vanskilum. B segir að hún hafi notað þessa bifreið og greitt bensín þegar hún átti peninga. Að öðru leyti hafi ákærði borgað rekstur bifreiðarinnar, s.s. þjónustuskoðanir og tryggingar. B segir að hún hafi skilað ákærða bifreiðinni á haustmánuðum 2006 þar sem hún hafi verið búin að fá nóg af ákærða. Varðandi vinnuaðlögunina að Efri-Brú kvað B hana hafa verið hluta af meðferðaráætlun sjúklinga og hún hafi tekið þátt í vinnuaðlöguninni líkt og langflestir vistmenn að Efri-Brú. Vinnuaðlögunin hafi m.a. verið fólgin í að taka þátt í að þrífa hús og vinna í þvottahúsi.

B gaf aftur skýrslu hjá lögreglu 19. desember 2007. Var B innt eftir því hvort það hafi komið fyrir að samfarir hefðu verið hafðar við hana án þess að hún vissi hver hafi haft samfarir við hana. Játaði B því. Kvað hún ákærða hafa komið til hennar og talað hana inn á að gera þetta. Hún kvað þau hafa verið inni í stofu og ákærði hefði hringt í einhvern aðila. Þegar ákærði taldi að þessi aðili væri farinn að nálgast heimili hennar þá hefði hann sagt henni að fara inn í herbergi, leggjast á bakið og hann svo bundið fyrir augu hennar. Hún kvaðst hafa heyrt dyrabjölluna hringja og heyrt að einhver hafi komið inn. Þeir hefðu verið í smástund frammi að tala saman og síðan komið inn í herbergi. Þar hafi ákærði stjórnað öllu, þeir hafi skipst á að hafa samfarir við hana og ákærði hafi stjórnað hvernig það fór fram. Síðan hafi strákurinn farið og ákærði orðið eftir. B kvað þetta hafa gerst heima hjá henni að Ö en ekki muna dagsetninguna en það hafi verið eftir að hún flutti til Reykjavíkur. Hún hafi ekki verið komin með rúm, það hafi verið tvær dýnur á gólfinu þannig að hún taldi að þetta hafi gerst fyrri part eftir að hún flutti inn á Ö. Aðspurð hvað þetta hafi staðið lengi yfir, frá því að maðurinn kom inn, hafði við hana samfarir og þar til að hann fór, kvaðst B ekki vita það. Eftir að maðurinn var farinn hefðu hún og ákærði haft samfarir. Kvað hún strákinn aldrei hafa svarað ákærða neinu heldur bara hlýtt honum. Bundið hafi verið fyrir augu hennar. Aðspurð hvort hún kannist við P kvað hún hann vera fyrrverandi unnusta D og hún kannist lauslega við hann. B kvaðst lengi vel ekki hafa verið viss um hver það var sem kom og í raun ekki viljað vita það þar sem hún hafi upplifað mikla skömm og hún því reynt að ýta þessu frá sér. Hún hafi talað við D og hún hafi sagt henni að ákærði hafi verið að þjálfa P og hún gæti alveg trúað því að þetta hafi verið P en hún hafi heldur ekki viljað trúa því þar sem hann væri bara krakki. B gaf skýringuna á því að hafa ekki upplýst lögreglu um þetta atvik fyrr, vera mikla skömm yfir því að láta einhvern sofa hjá sér án þess að vita hver það væri.

B kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið búin að vera í margra ára djúpri fíkniefnaneyslu áður en hún kom í Byrgið. Hún hafi þá verið allslaus, búin að brenna allar brýr að baki sér og mjög illa farin andlega. Meðferðin í Byrginu hefði gengið mjög vel í fyrstu og henni fundist hún vera að öðlast líf að nýju. B kvaðst ekki hafa byrjað í föstum viðtölum hjá ákærða fyrr en um tveimur til þremur mánuðum eftir að hún kom í Byrgið. Fljótlega hefði hún farið daglega í viðtöl hjá ákærða og til að byrja með hefði ekkert óeðlilegt verið við þau viðtöl. B kvaðst fljótlega hafa farið að treysta ákærða og hefði hún í skjóli þess sagt honum frá mörgu sem hún hefði ekki treyst öðrum fyrir, m.a. að hún hefði áður orðið fyrir kynferðisbrotum. Í framhaldi hefðu viðtölin breyst, ákærði hefði farið að tjá henni að hann væri hrifinn af henni og að hún væri rétta konan fyrir hann. Sér hefði brugðið mjög við þessa yfirlýsingu ákærða. Ákærði hefði verið búinn að vara hana við því að stelpur yrðu hrifnar af honum í djúpviðtölunum og hún því ekki átt von á þessu. Í framhaldi hefði ákærði farið að ræða um sig og BDSM-kynlíf sem hann stundaði með konu sinni en hann væri að skilja við hana og hafi því flutt upp í Byrgi. Ákærði hefði sagt sér að hjónabandið hefði gengið illa sl. þrjú ár og hann lengi hugleitt að skilja við eiginkonuna en svo hefði hann fundið sig. Ákærði hefði sagt sér frá æsku sinni, að hann hefði verið sendur í sveit og minnti B að það hefðu verið húsfreyjan á heimilinu og dætur hennar sem hefðu bundið ákærða á gaddavírsrúllu og „voru eitthvað að ríða honum og eitthvað bara svona ógeð ég man það ekki nákvæmlega“. B kvaðst aldrei hafa heyrt um slíkt kynlíf áður og hefði brugðið við en jafnframt haft samúð með ákærða. Ákærði hefði farið að senda sér sms-skilaboð þar sem hann hefði tjáð henni hversu yndisleg, frábær og hrein hún væri fyrir ákærða, auk þess að ræða það í viðtölum. Ákærði hefði sagt henni að tilfinningar hans væru ekki kynferðislegar en samt hefði hann verið að senda henni smáskilaboð og tjá henni að hann vildi sofa hjá henni. B kvaðst ekki hafa lent í slíkri aðstöðu áður og því ekki vitað hvernig hún ætti að bregðast við. Síðan hefði ákærði farið að láta sig hafa peninga. Í fyrsta sinn sem ákærði hefði verið með kynlífsathafnir gagnvart henni var það í viðtali í herbergi 5 á hótelinu í Byrginu. Ákærði hefði sagt henni að leggjast á magann í rúmið og hann síðan farið að fróa henni utan klæða. B kvaðst hafa „frosið“ og ekki vitað hvað hún ætti að gera. Ákærði hefði einnig látið hana hafa spurningalista um BDSM-kynlíf en hún hefði ekki svarað honum. Tveir möguleikar voru í stöðunni, að vera áfram í Byrginu eða fara þaðan og fara aftur í neyslu því hún hefði ekki haft neinn annan stað til að fara á. B kvaðst oft hafa verið í kynferðissambandi við ákærða eftir þetta, í Byrginu, á Nordica hótel, á Hótel Loftleiðum og á hóteli fyrir ofan Mál & menningu á Laugaveginum, í sumarbústöðum, á Edduhóteli og heima hjá ákærða. Í byrjun hefðu þau haft samfarir oftar en einu sinni í viku. Kvað B kynlífsathafnir þeirra í Byrginu hafa verið í kofa 1 en ákærði hefði búið þar. Hún hefði verið flutt í kofa 2 en kofinn væri þannig að tvö herbergi væru í hverju húsi, kofi 1 og 2. Í fyrsta sinn sem þau áttu kynlíf saman var það á Hótel Loftleiðum um það bil sem sonur ákærða fæddist eða í byrjun apríl 2004. Þá hefði ákærði verið búinn að ræða það lengi við sig að eiginkona hans væri hrifin af B og kvaðst B hafa slegið til og hitt þau heima hjá ákærða í Hafnarfirði og þau þrjú átt kynlíf saman í svefnherberginu. Hefði það verið eðlilegt kynlíf, ekki BDSM-kynlíf. Þá kvaðst B hafa vitað um herbergið í kjallaranum heima hjá ákærða því hann hefði sýnt henni það. Gengið hefði verið inn í herbergið úr geymslunni í gegnum skáp. Herbergið hefði verið búið alls konar tólum og tækjum og þar hefði einnig verið einhver bekkur. Þau hefðu þó ekki haft neitt kynlíf þar. B var spurð hvers vegna ákærði hefði verið að leggja peninga inn á bankareikning hennar eftir að hún var farin úr Byrginu og kvað hún hann hafa verið að hjálpa sér, ýmist hefði hún leitað til hans en stundum hefði hann lagt óbeðinn inn á reikning hennar. Aðspurð um BDSM-kynlíf með ákærða kvað B það hafa gerst þrisvar eða fjórum sinnum. B kvaðst ekki hafa leyft ákærða að gera allt það sem hann vildi. Hún hefði leyft ákærða að slá sig með svipum og setja klemmur á geirvörturnar og barmana auk þess að binda hana niður við stól og nota einhver tæki en það hafi ekki verið neitt svakalegt. Sér hefði ekki hugnast slíkt kynlíf. B kvað þau ekki hafa verið byrjuð að stunda kynlíf þegar ákærði fór að láta hana hafa peninga. Aðspurð kvaðst B hafa verið í kynlífssambandi við ákærða eftir að hún flutti frá Byrginu og tvisvar sinnum hefðu þau átt kynlíf saman eftir að C kom fram í sjónvarpinu 2006. B kvað ákærða hafa látið sig hafa tvær bifreiðar. Fyrst hefði hann gefið henni Renaultbifreið að hana minnti, í kringum afmæli hennar 2004, en ákærði hefði afhent henni þá bifreið í Hafnarfirði. Þeirri bifreið hefði síðan verið skipt út og hún fengið nýrri tegund af Renault Megan Salon. Kvaðst B hafa verið á þeirri bifreið þegar hún fór úr Byrginu í maí 2005 og ekki þurft að borga af henni. B kvaðst hafa skilað þeirri bifreið síðan aftur til ákærða. B kvaðst hafa tekið eftir því þegar ákærði fór að ganga á eftir C í Byrginu, hegðunin hefði verið svipuð og þegar hann reyndi við hana fyrst. B kvaðst ekki muna hvenær það hafi verið en þó nokkrum mánuðum áður en hún fór úr Byrginu. Hún kvaðst hafa rætt þetta við ákærða en hann sagt henni að hún væri bara rugluð og afbrýðisöm. B kvaðst hafa viljað trúa ákærða, hann hefði verið maður sem væri búinn að vera í heiðarlegu starfi í mörg ár og því hefði hún reynt að trúa hans skýringum. Þau hefðu því haldið áfram að hittast. B kvað þau hafa rætt samband sitt þannig að hún ætti að flytja í húsið sem hann var að byggja, ákærði hefði ætlað að skilja við konu sína og síðan hefði ákærði sagst ætla að koma í þyrlu fyrir ofan Byrgið og biðja hennar og sýna öllum hversu ástfanginn hann væri af henni. B kvaðst aðspurð fyrst þegar hún kom í Byrgið hafa verið í afeitrunarhúsinu í um einn sólarhring, síðan hefði hún flutt í Gula húsið en hún mundi ekki hversu lengi hún bjó þar, þá hefði hún flutt í herbergi 1 á hótelinu og síðan farið beint í kofa 2 og búið þar þangað til hún fór úr Byrginu. Í fyrstu D búið í kofa 1, við hliðina á henni, en ákærði hefði flutt inn þegar  D fór. B kvað vera mjög hljóðbært á milli kofa og eitt sinn hefði hún heyrt stunur í C. C kvaðst hafa sagt Q vinkonu sinni frá sambandi hennar og ákærða. Kvaðst hún muna eftir að hafa rætt við Q um samband sitt eitt sinn þegar hún hlustaði á stunur í C í gegnum þilið. Aðspurð um kynlíf með ákærða og J konu hans, kvað B það hafa verið eftir að hún var flutt á Ö. Eftir að B flutti á Selfoss kvaðst hún hafa haldið áfram að fara í meðferðarviðtöl hjá ákærða í Byrginu en hún hefði ekki sótt samkomur. B kvaðst ekki hafa verið í meðferðarviðtölum hjá neinum öðrum en ákærða en hún hefði vitanlega rætt við aðra, svo sem vegna umsókna um endurhæfingarstyrki, og þá E. B var spurð hvort hún þekkti P og kvaðst hún hafa vitað um hann þar sem hann hefði verið kærasti D. B staðfesti fyrri framburð sinn um aðkomu P að málinu og að hann hefði komið á Ö þar sem hún bjó að beiðni ákærða og haft samfarir við hana þar. Hún kvaðst þá ekki hafa vitað hvaða maður það var sem kom til hennar, ákærði hefði hringt í manninn eftir að hann kom heim til hennar. B kvaðst hafa verið verr stödd, bæði andlega og líkamlega, þegar hún fór frá Byrginu en þegar hún kom þangað. Ástæðan hafi verið sú að þegar hana fór að gruna ákærða um að vera með C hefði hann barið hana niður andlega og talið henni trú um að það væri hún sem væri veik en ekki ákærði og eins veik og hún hefði verið á þessum tíma trúði hún því sem ákærði sagði henni. B kvaðst ekki hafa fengið neina aðstoð þegar hún fór úr Byrginu en hún hefði síðar gengið til Hjördísar Tryggvadóttur sálfræðings og í framhaldi farið í meðferð á Teigum. Eftir meðferðina þar kvaðst B hafa tekið þátt í svokölluðu Grettistaki sér til stuðnings. B kvaðst hafa byrjað aftur í neyslu þegar hún var í Byrginu en hún hefði notað amfetamín með ákærða. Ákærði hefði alltaf verið með amfetamín í bifreið sinni og freistað hennar. Hún hefði notað amfetamín áður en hún kom í Byrgið og verið mjög veik fyrir því. Ákærði hefði gefið sér amfetamín áður en hún fór í fyrsta skipti heim til hans og hafði samfarir með þeim J en ákærði hefði einnig fengið sér. Hún og ákærði hefðu eftir það fengið sér amfetamín í nokkur skipti. Þá hefði ákærði einnig blandað saman amfetamíni og kókaíni en í síðasta sinn sem hún hefði notað lyf með ákærða hefði verið um að ræða rítalíntöflur heima hjá henni á Ö. B kvaðst vera búin að vera edrú núna í nokkra mánuði og sér liði betur í dag.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu vegna kæru B þann 1. febrúar 2007. Neitaði ákærði að hafa verið í kynferðissambandi við B á því tímabili sem um ræðir og aldrei utan þess. Kvað ákærði ástæðu þess að B hafi komið í Byrgið í meðferð hafa verið gífurlega fíkniefnaneyslu hennar. Hún hafi andlega og líkamlega verið komin í þrot og verið grindhoruð. Kvað ákærði B hafa verið í meðferðarviðtölum hjá honum en einnig hjá E sem hafi verið einn af ráðgjöfum Byrgisins. Kvað hann meðferðarviðtölin hafa farið þannig fram að yfirleitt hefði þurft að leiðbeina henni varðandi lífið sjálft. Fyrst að hjálpa henni að greina rétt frá röngu og hjálpa henni með þolinmæðina, taka einn dag fyrir í einu og síðan byggja hana upp eftir langvarandi neyslu og nauðgun. Þessi viðtöl hafi farið fram á skrifstofum Byrgisins, vaktherbergi, fyrsta hálfa árið og síðan hafi hún farið í 60% prógramm, sem hafi í raun verið vinnuaðlögun og var skrifstofuvinna. Ákærði sagði að á þessum tíma hefðu þau orðið mjög góðir vinir þar sem þau gátu talað um allt og ekkert. Þá hefði B sagt ákærða að hún hefði viljað vera í afmælisveislunni hans þann 19. nóv. 2003 þar sem hún væri það tengd honum. Ákærða hafi fundist að þarna hafi B verið haldin „meðferðarsyndromi“ sem sé algengt meðal skjólstæðinga þar sem margir væru haldnir þeirri þráhyggju að allir væru ástfangnir. Kvað ákærði B hafa treyst honum fyrir persónulegum málefnum sínum í þessum meðferðarviðtölum en hann kvað það ekki hafa náð djúpt hjá henni í rauninni en hún hefði treyst ákærða fyrir því að henni hefði verið nauðgað. Ákærði kvaðst ekki hafa trúað B fyrir sínum persónulegu málum nema að því leyti að meðferðarviðtölin hafi snúist um traust skjólstæðings við hann. Ákærði kvað B hafa komið í viðtölin í vaktherberginu og fyrsta viðtalið hafi verið í janúarmánuði 2004 en þá hafi hún verið komin í starfsþjálfun. B hafi komið í viðtöl í herbergi númer 5 og einnig í herbergi númer 10, líkt og allir aðrir vistmenn Byrgisins, en í herbergi númer 10 hafi hann haft íverustað í Byrginu. Ákærði kvaðst hafa flutt í kofa númer 1 og verið með viðtöl þar en B hafi ekki sótt viðtöl þangað þar sem hún hafi þá verið flutt á Selfoss. Hins vegar hafi B komið í kofa númer 1 sem gestur og starfaði þar einnig við símavörslu. Ákærði kvaðst hafa fótbrotnað í janúar 2005 en þá hafi hann verið í herbergi númer 10 og í kjölfar slyssins hefði hann flutt starfsemi sína í kofa númer 1. Kvað ákærði B hafa verið duglega að sækja samkomur, lofgjörðir og fyrirlestra í upphafi meðferðar hennar. Hins vegar hafi það gerst að eftir að hún flutti burtu hefði hún ekki sótt samkomur, lofgjörðir eða fyrirlestra. Aðspurður um djúpmeðferðina sem B sagði lögreglu frá kvaðst ákærði í fyrsta lagi ekki kannast við þessa djúpmeðferð og í öðru lagi kannist hann ekki við að hafa varað hana við því að stúlkur hafi orðið hrifnar af honum í þessum djúpmeðferðarviðtölum, en hann hefði óttast að B væri haldin „meðferðarsyndromi“. Aðspurður um þann framburð B að hann hefði tjáð henni að hann væri orðinn hrifinn af henni, að hann hefði trúað henni fyrir persónulegum málum sínum, svo sem að hann hafi verið misnotaður á yngri árum og erfiðleikum í hjónabandi sínu, og að hann hafi sagst elska B út af lífinu, kvaðst ákærði ekki hafa tjáð B að hann væri hrifinn af henni heldur hafi hann hrifist af bata hennar í Byrginu. Kvaðst ákærði oft hafa þurft að útskýra hluti fyrir B mjög ítarlega þar sem hún oft og tíðum hafði ekki skilning á því sem verið var að ræða um. Kvað ákærði að allar þær konur sem höfðu lagt fram kærur á hendur honum hafi átt það sammerkt að hafa sótt mjög í að koma í viðtöl hjá honum, sem gerði það að verkun að viðtöl annarra vistmanna urðu færri og styttri að sama skapi. Þetta hafi átt sérstaklega við um B og síðan C. Ákærði kvaðst hafa veitt B fjárhagslegan stuðning á meðan hún dvaldi í Byrginu, líkt og hann hefði gert við marga aðra skjólstæðinga sína og þá óháð kynferði. Ákærði neitaði því að hafa fróað B í meðferðarviðtali í herbergi númer 5. Ákærði kvaðst eitt sinn hafa útvegað B næturgistingu í Reykjavík þar sem móðir hennar hefði ekki treyst sér til að taka hana heim til sín en það hafi verið á gistiheimili á Laugaveginum fyrir ofan verslun Bókabúðar Máls og menningar. Ákærði neitaði því aðspurður að hafa leigt hótelherbergi fyrir B í Reykjavík en hann hefði í gegnum tíðina farið með eiginkonu sinni á hótelherbergi í Reykjavík og þá tvisvar sinnum á ári. Þá héldu þau upp á trúlofunardag og giftingardag. Þau hafi reynt að gera þetta einu sinni að vori vegna trúlofunarinnar, og einu sinni að hausti haldið upp á giftingardag. Þá neitaði ákærði að hafa leigt fyrir B hótelherbergi á Hótel Loftleiðum eða á Hótel Nordica. Aðspurður um að ákærði hafi haft samfarir við B á Hótel Loftleiðum í apríl 2004 kvaðst ákærði aldrei hafa haft samfarir við B. Aðspurður um útprentanir frá Hótel Loftleiðum þar sem kemur fram að ákærði pantaði gistingu dagana 7. og 8. apríl 2004 kvaðst ákærði minnast þess að B hafi beðið ákærða að lána sér fyrir gistingu og þá að lána henni greiðslukort hans til þess að greiða eina nótt. Hann hafi gert það en segist ekki muna fyrir hvað hann hafi verið að greiða. Kvaðst ákærði viss um að greiðslukortið hafi tilheyrt honum persónulega. Aðspurður um þann framburð B að þau hafi haft samfarir á Hótel Loftleiðum þann dag er sonur ákærða fæddist kvað ákærði það kjaftæði, hann hafi aldrei haft samfarir við B auk þess sem hún hafi þá verið á gistiheimili í Reykjavík og verið samferða honum austur þann dag. Aðspurður um þann framburð B að ákærði hafi pantað hótelherbergi fyrir hana á Hótel Nordica og þegar hún hafi komið þangað hafi beðið hennar blómvöndur ásamt korti frá ákærða þar sem á var ritað: „Þú ert einstök. Þinn vinur Guðmundur Jónsson“ og að þetta hafi verið áður en þau höfðu samfarir á Hótel Loftleiðum, kvaðst ákærði minnast þess að hann hafi pantað hótelherbergi fyrir B á Hótel Nordica og keypt handa henni blómvönd með korti, eða bók, og skrifað á það texta með beiðni um að hún fengi þetta á herbergið. Telur ákærði að þetta hafi verið 26. febrúar til 29. febrúar 2004. Ákærði neitaði því, sem fram kemur í framburði B, að þau hafi haft samfarir í Byrginu eftir að þau hefðu haft samfarir á Hótel Loftleiðum í apríl 2004. Aðspurður um framburð B þess efnis að hún hafi komið að ákærða og C inni á viðtalsherbergi ákærða í Byrginu og að B hafi haft lykil að viðtalsherberginu kvaðst ákærði vilja skýra þessa uppákomu þannig að daginn áður hafi það verið ákveðið að hann myndi fara með B á Selfoss snemma morguninn eftir að semja um greiðslu sektar fyrir hana. Kvöldinu áður hafi C verið ásamt öðrum vistmönnum í heimsókn í herbergi hans nr. 10.  Á þessum tíma hafi hann verið á sterkum verkjalyfjum vegna fótbrotsins og þar sem vistmenn hafi verið seint um kvöld hjá honum og hann tilkynnt þeim að hann þyrfti að vakna snemma hafi hann ákveðið að fara að sofa og beðið þau sem í herberginu voru að slökkva á tölvunni og fara síðan þegar þau væru búin. Það næsta sem hann hafi vitað var að B hafi vakið hann með látum og bent honum á C, sem hafi legið í upprúlluðu teppi upp við vegg í sama tvíbreiða rúmi og hann, með þeim orðum til ákærða hvort konan hans vissi af þessu. Ákærði kvaðst ekki hafa áttað sig á því hvað B hafi átt við og litið þá til hliðar og séð hvar C hafi legið þarna við hlið hans. Ákærði var beðinn um að tjá sig um framburð B um spurningalista sem ákærði lét B fá, frásögn hennar um BDSM-kynlíf þeirra, á Selfossi og í sumarbústöðum, svo og geisladisk sem ákærði lét B hafa merktan „Story of O“. Kvað ákærði það allt saman rangt hjá B en vegna vináttu hans við B hefði hann látið hana fá geisladiskinn sem ákærði kvaðst hafa fengið frá A. Ákærði var spurður um framburð B um kynlífsathafnir þeirra, þvottaklemmur á brjóst og kynfæri, hring í sníp hennar og skurð á bak hennar í þeim tilgangi að merkja hana ákærða. Kvað ákærði þetta rangt hjá B og ekki vera svaravert. Spurður um þann framburð B að þau hefðu tvisvar haft samfarir eftir að Kompásþáttur Stöðvar 2 var sýndur rétt fyrir jólin 2006 og að ákærði hefði sent B smáskilaboð í farsíma hennar, kvaðst ákærði hafa verið í símasambandi við B og sent henni smáskilaboð, en það hafi ekki tengst kynlífi á nokkurn hátt. Neitaði ákærði að hafa haft samfarir við B eins og hún greini frá. Ákærði kannaðist við að hafa sent B smáskilaboð úr síma sínum eins og kemur fram á þeirri dagsetningu og tíma. Hins vegar kveðst ákærði ekki kannast við að hafa skrifað þau skilaboð þar sem setningin byrjar á: „En má mér ekki...“ Ákærði kvaðst ekki geta gefið neinar skýringar á því hvernig standi á því að það hafi verið bætt við smáskilaboð hans. Hann kveðst hafa farið í heimsókn til B þann 29.12.2006 að morgni og drukkið með henni kaffi, hann hafi stoppað stutt við og líklegast verið farinn klukkan 9.15. Ákærði kvaðst gruna að B hafi átt við farsíma hans þar sem B hafi í eitt sinn viðurkennt það fyrir honum að hún hafi lesið smáskilaboð í farsíma hans og látið talhólfskveðju inn á síma hans þar sem sagt var: „Hann er ekki við núna, heldur busy með annarri konu.“ Ákærði kvaðst hafa verið heima hjá sér að Klausturgötu 16, Grímsnesi, þegar hann sendi B áðurgreind smáskilaboð. Aðspurður um gjafir frá honum til B kvaðst ákærði kannast við að hafa einu sinni gefið henni hálsfesti úr stáli, rúmgafl og tvo rúmbotna sem hafi átt að henda úr Byrginu. Varðandi bílana kvað hann sig og H einu sinni hafa staðið fyrir samskoti. H hafi farið og keypt bíl handa B, þrifið hann og gert kláran. Ákærði hefði farið með B til Hafnarfjarðar, þar sem hann hafi afhent henni bílinn, sem hafi verið af gerðinni Renault Magane. Bíllinn hefði ekki reynst B vel, verið bilanagjarn þannig að B hafi ákveðið að skipta um bíl með því að setja Renault-bifreiðina upp í nýjan bíl. Ákærði og H hefðu liðsinnt henni við val á bíl hjá B&L og sagst verða henni innan handar þannig að hún myndi ekki setja sig í of miklar skuldir. Þar sem B hafi ekki haft getu til að kaupa bílinn og ekki getað skrifað upp á skuldabréf vegna bílakaupanna hefði hann ákveðið að skrá bílinn á sitt nafn. Kvað ákærði þetta hafa verið í lok 2004 eða byrjun árs 2005. Síðasta haust hefði B greint ákærða frá því að hún gæti ekki lengur greitt honum eða borgað af bifreiðinni, og óskað eftir því að ákærði tæki bílinn til baka, sem hann og gerði um það bil þremur vikum síðar.

Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 20. ágúst 2007 og var spurður nánar út í þann fjárhagslega stuðning sem hann hafði viðurkennt að hafa veitt B. Ákærði kvað að sá fjárhagsstuðningur hefði ekki verið reglulegur. Ákærði hefði byrjað að láta hana hafa peninga þegar hún hafði samband við ákærða, og þá sérstaklega þegar hún var farin úr Byrginu. Kvaðst hann hafa látið hana hafa peninga í þeim tilgangi að hún gæti keypt sér mat. Þá hefði hann látið hana fá einn rúmgafl úr Byrginu. Kvað ákærði það hafa verið mjög algengt að hann léti þáverandi skjólstæðinga hafa peninga fyrir nauðþurftum.

Ákærði gaf skýrslu fyrir dómi varðandi þátt B og kvað hana hafa verið mjög illa á sig komna þegar hún kom fyrst í Byrgið. Hefði B verið búin að vera í öllum fíkniefnum og verið í neyslu frá því hún var tólf ára. Ákærði kvaðst hafa þekkt B og fjölskyldu hennar frá því B var tveggja ára gömul. B hefði komið í Byrgið 8. ágúst 2003 og verið til 7. maí 2005 og verið illa stödd eftir nauðgun. Hún hefði ekki byrjað í viðtölum fyrr en eftir eins til tveggja mánaða veru í Byrginu. Hún hefði komið mjög oft í viðtöl, tvisvar til þrisvar í viku, og lagt „eignarhald á hann“, sem margir hefðu kvartað undan. Stundum hefði hún komið oftar. B hefði þurft nánast daglega umönnun og verið nánast eins og barn. B hefði oft sofið illa og því hefði ákærði sagt henni að fara bara upp á hótel og hún gæti þá hvílt sig inni á herberginu hans og horft á vídeó. Þannig hefði það komið til að þegar ákærði hafi eitt sinn verið nýkominn á svæðið og inn í herbergið sitt hefði H komið og séð B liggja þar í rúmi. B hefði síðan flutt á Selfoss í apríl 2005 og ekki komið í Byrgið í nokkrar vikur eftir það, og kvaðst ákærði margoft hafa kvartað yfir því við hana. Ákærði kvaðst í framhaldi hafa heimsótt B á Selfoss og fengið hana til að koma í stuðningsmeðferð þannig að hún kæmi í Byrgið í ákveðinn fjölda fyrirlestra í viku og skilaði stuðningsverkefni og fengi út á það stuðningsörorku. Hún hefði því fengið ákveðið prógramm og ákærði látið hana hafa starf á símanum. Hún hefði rækt það í þrjár vikur og þá flutt til Reykjavíkur. Ákærði kvað að stuðningsmeðferð B hefði falist í því að hún kæmi í að minnsta kosti þrjá fyrirlestra í viku, tvö viðtöl og alltaf á samkomur. Kvað hann B hafa átt erfitt með að mynda tengsl við fólk sem væri edrú og sífellt talað um að fara aftur í neyslu. B hafi verið frek og grimm og mikill hroki í henni og fólk átt erfitt með að nálgast hana. Ákærði kvað skýringuna á því að engar peningagreiðslur hafi verið til B á árinu 2005 heldur bara 2004 og 2006 vera þá að á tímabilinu 2005 hefði hún búið á Selfossi en í eftirfylgni hefðu þau í Byrginu frekar reynt að fara með viðkomandi í matarinnkaup frekar en að leggja peninga inn á reikning. Að láta fíkil hafa peninga sé svolítið hættulegt en hann hefði treyst B því hún hefði verið svo ákveðin í að vera edrú. Því hefði það verið svo að þegar ákærði og fleiri fóru saman  á Selfoss til að borða, ef vondur matur var í boði í Byrginu, þá hefðu þau ekki haft brjóst í sér til að sniðganga B og því boðið henni með. Aðspurður um það hvort ákærði hefði verið með B á hótelherbergjum í Reykjavík, neitaði ákærði því en kvaðst hafa hjálpað henni að útvega sér gistingu í Reykjavík því móðir hennar hefði stundum ekki getað tekið við henni. Ákærði hefði því hjálpað B við að finna ódýr gistiheimili því það kæmi að því að hún þyrfti að hleypa heimdraganum og fóta sig í Reykjavík, fara í verslanir og hitta fólk. Í fyrsta skipti sem B hefði þorað til Reykjavíkur hefði ákærði látið skilja eftir kort á herbergi hennar og litla bók sem á stóð „vinur“.  Ákærði kvað það hafa verið einangrun að vera á Efri-Brú og því hefði það verið liður í meðferðinni að fólk færi út og reyndi að ná fótfestu í lífinu og mynda sér skoðun um framtíðina. B hefði ekkert kunnað né getað þegar hún kom fyrst í Byrgið og henni hefði verið leyft að vera á skrifstofunni þar og gera færslur í tölvu en hún hefði verið eins og lítið barn. Ákærði var spurður um smáskilaboð sem send voru úr farsíma ákærða í farsíma B þar sem segir m.a.: „Nei vard barrylaus. Svo komu H Jenni og G og M……En má mér ekki langa til að elskast með thér,? thad er mitt allra besta kynlíf sem ég hef upplifad ad fá ad taka thig og elskast med thér.“ Ákærði kvaðst ekki hafa haldið því fram að skilaboðunum hafi verið breytt. Ákærði kvaðst hafa verið heima hjá sér rétt eftir að Kompásþátturinn var sýndur í sjónvarpinu, margir gestir hefðu verið og mikil læti og ákærði með mörg börn á heimilinu. Ákærði kvaðst vera með smá skrifstofuafdrep heima og hafa verið þar, þurft að víkja út úr því og eftir hefðu setið tveir einstaklingar. Daginn eftir hefði ákærði farið að velta því fyrir sér hvort hann hefði sent skilaboðin eða ekki, hann hefði hreinlega verið búinn að gleyma því. Í ljós kom að skilaboðin höfðu verið send en þá var búið að bæta við þau niðurlaginu: „… En má mér ekki langa til að elskast með thér,? thad er mitt allra besta kynlíf sem ég hef upplifad ad fá ad taka thig og elskast med thér.“ Taldi ákærði H, Jenna eða G hafa bætt þessari endingu við skilaboðin en hann kvaðst ekki hafa séð þá gera það. Ákærða var bent á að hann hefði ekki gefið þessa skýringu fyrir lögreglu og svaraði ákærði: „Nei það er nefnilega með þessa skýrslu hjá lögreglu sem að ég er alveg hreint hrikalega svekktur út í, ég bara skil hana stundum ekki sko.“ Ákærði kvað framburð B og P um að hann hefði átt kynlíf með þeim að Ö rangan. B hefði verið honum miklu meira en einhver kona í meðferð, hún hafi verið honum kær frá því hún var stelpa. Ákærði kvaðst ekki hafa gefið B bifreið heldur hefði hann skrifað upp á fyrir hana, fyrir utan að samskot hefði verið í Byrginu fyrir útborgun. Ákærði kvað sig og konu sína oft hafa skrifað upp á skuldabréf fyrir vistmenn með því fororði að þau tækju bifreiðarnar aftur ef viðkomandi gæti ekki greitt af þeim sjálfur. Í lok yfirheyrslunnar var ákærði spurður hvort hann hefði pantað hótelherbergi fyrir B. Kvaðst hann hafa gert það einu sinni. Ákærða var bent á að það lægju fyrir fleiri kvittanir sem tengdust honum frá hótelum og kvað hann á einni kvittun vera kortanúmer sem hann ætti ekki sjálfur og hann hefði alltaf pantað í gegnum síma og þá þurft að gefa upp kortanúmer. Aðspurður hvort B hafi átt í vandamálum með vín kvað ákærði svo ekki hafa verið en hann hefði alltaf látið tæma minibarinn þegar hann pantaði herbergi fyrir hana.

H, kt. [...] sjálfboðaliði í starfsemi Byrgisins að Efri-Brú, gaf skýrslu hjá lögreglu vegna þáttar B þann 31. janúar 2007. Kvaðst hann vel muna eftir því þegar B kom í Byrgið árið 2003 en hann hafi ekki þekkt hana áður. Fljótlega hafi borið á því að ákærði hafi lagt sig allan fram um að umgangast B, hann hafi farið með hana til innkaupa á dýrum fatnaði, ákærði hefði keypt handa henni tölvu, tölvuborð, skartgripi og þá hafi ákærði gefið B bifreið. B hafi ekki líkað sú bifreið og þá hefði ákærði farið með hana í B&L og keypt handa henni nýja bifreið úr kassanum. Kvað H ákærða og B hafa eytt löngum tíma saman, öllum stundum á milli þess sem ákærði hafi verið með samkomur og fyrirlestra. Kvað H að á tímabili hefði ákærði flutt upp í Byrgi frá konu sinni J og tekið niður giftingarhringinn og flutt inn í herbergi númer tíu á hótelinu, og fljótlega eftir það hefði hann veitt því athygli að B var næturlangt í herbergi tíu með ákærða. Kvaðst H muna að í einhver skipti hefði það komið fyrir að morgni að hann hefði séð hvar ákærði kom út úr herbergi númer 10 og kvaðst H hafa farið aftur með ákærða inn í herbergi hans og þá séð hvar B hefði legið í rúmi ákærða undir sæng. Kvaðst H hafa innt ákærða um ástæðu þess að B væri þar og hefði ákærði svarað að B hefði átt mjög erfitt um nóttina þar sem hún hafi verið að sjá púka. Síðan hefði það gerst á einhverjum tímapunkti að ákærði hefði flutt sig í kofa númer eitt og þar hefði hann verið með meðferðarviðtölin og einnig sofið þar. Kvað H það ekki hafa farið fram hjá neinum sem hafi verið í meðferðinni í Byrginu hvernig málum var komið á milli ákærða og B. Síðan kvað H það hafa gerst að C hafi komið í Byrgið en þá hefði B verið flutt í kofaíbúðina við hlið kofa ákærða. Þá hefði C farið að venja komur sínar í meðferðarviðtöl til ákærða og H séð fljótlega hvar C hefði farið að klæðast dýrum fatnaði en C hefði verið svokallaður skoppari og klæðaburður hennar í samræmi við það þegar hún kom í Byrgið. Kvaðst H hafa skynjað hversu vansæl B hefði orðið við þessar breytingar og B, reyndar einnig áður, farið að hrynja niður í vigt og verið orðin grindhoruð.

H gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 26. júní 2007. Var framburður ákærða um samskot þeirra H fyrir bifreiðakaupum handa B borinn undir hann. Kvað H það rangt að þeir ákærði hefðu staðið fyrir samskoti handa B, hins vegar hefði hann haft milligöngu, að beiðni ákærða, um að útvega bifreið fyrir B.

H kom fyrir dóminn og kvaðst ekki hafa þekkt B áður en hún kom að Efri-Brú. Allt hafi verið eðlilegt í fyrstu en síðan hefði ákærði farið að taka hana með sér í ökuferðir sem hafi staðið mjög lengi, jafnvel allan daginn og fram á kvöld. Hefði samband þeirra verið á allra vitorði í Byrginu. Þá kvaðst H hafa orðið vitni að því að B hafi verið hjá ákærða næturlangt. H kvaðst eitt sinn hafa séð ákærða koma út úr herbergi sínu á hótelinu og hann þá séð B í rúminu hans. Kvað H ákærða hafa byrjað að búa uppi á Efri-Brú um það leyti sem samskipti hans og B hófust en þá hefði hann einnig tekið niður giftingarhringinn. Aðspurður um gjafir til B kvað H ákærða sífellt hafa verið að kaupa föt á B og hann hefði keypt allt inn í herbergið fyrir hana í Byrginu og hafi einnig keypt allt inn í íbúðina hennar þar sem hún búi núna.  Kvaðst H hafa verið í för með ákærða þegar hann keypti húsgögn handa B þegar hún bjó í Byrginu en B hefði sjálf sagt honum að ákærði hefði keypt húsgögn fyrir hana í íbúð hennar. H kvað ákærða hafa beðið sig um að kaupa bifreið fyrir sig, sem hann hefði gert, og þá bifreið gaf ákærði B. Þeirri bifreið hefði síðan verið skipt út fyrir dýrari bifreið en H kvaðst ekki hafa verið viðstaddur þau viðskipti. Þá kvaðst H staðfesta það, sem kæmi fram í lögregluskýrslum hans, að ákærði hefði keypt á B dýran fatnað, tölvu og tölvuborð svo og skartgripi. H staðfesti lögregluskýrslur þær er hann hafði gefið hjá lögreglu.

J, kt. [...], eiginkona ákærða, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 26. mars 2007. Kvaðst hún lítið þekkja B en hún hefði vitað af henni í meðferð. Kvaðst hún fyrst hafa talað við B um jólaleytið árið 2005 en hún hefði hitt B í Hafnarfirði og boðið henni far upp í Byrgið á samkomu milli jóla og nýárs. Að öðru leyti hefði hún ekki verið í samskiptum við B á áðurgreindum tíma. Aðspurð kvað J B hafa komið á heimili þeirra ákærða að Háholti 11 í Hafnarfirði um sumarið 2006 og dvalið daglangt hjá henni þar sem B hefði liðið illa. J neitaði því að hafa tjáð ákærða að hún væri hrifin af B og að hafa átt kynlíf með henni. J neitaði því jafnframt að hafa átt kynlíf með B eins og B hefur sagt frá.

J gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 17. september 2007. Aðspurð um bréf, sem ritað var og sent ákærða í tölvupósti þann 16. júní 2006 og er talið stafa frá J og lýsa meðal annars samskiptaerfiðleikum þeirra, neitaði hún því að hafa ritað bréfið. Þá neitaði hún því ítrekað að hafa átt kynlíf með B.

J kom fyrir dóminn og skoraðist ekki undan vitnaskyldu.  Hún kvaðst ekki hafa verið starfsmaður í Byrginu né hafa komið að rekstri þess. Hlutverk ákærða hefði verið forstöðumaður, hann hefði haldið fyrirlestra, talað við fólk, ekið fólki, útréttað og gert svo margt. J kvaðst ekki hafa hugmynd um það hvort fleiri en ákærði hafi séð um meðferðarviðtöl, hún hefði séð um heimili þeirra ákærða og ekki verið inni í því sem var að gerast í Byrginu. J neitaði því aðspurð að hafa átt í kynferðissamböndum við kærendur í þessu máli og þá hafi hún aldrei verið í Ölfusborgum með C. Þá kvað hún einnig rangt eftir B haft að hún hafi komið á heimili J og átt í kynlífssambandi við J og ákærða þar.

Aðspurð um geymsluna í kjallaranum að Háholti 11, kvað J að geymslan hafi verið full af dóti frá H. Hann hefði fengið að geyma líkamsræktartæki frá Rockville í geymslunni. Aðspurð um búr sem kærendur segja að hafi verið í geymslunni kvaðst J ekki vita um neitt búr en það gæti hafa verið gamla rúmið þeirra. J neitaði fyrir dómi að hafa ritað bréf sem fannst í tölvu ákærða og bar heitið „ hæ.doc.“ og átti að vera undirritað af henni. Þá neitaði J aðspurð að hafa haft áhuga á eða tekið þátt í kynlífsathöfnum í sumarbústað í Ölfusborgum, á Hótel Ingólfi í Ölfusi og á Laugarvatni. Þá kvað hún skýrslu P ranga. Aðspurð um 5. apríl 2004 kvaðst J hafa eignast dreng þá rétt eftir miðnætti og farið heim daginn eftir af spítalanum. Hún mundi ekki til þess að ákærði hefði verið að heiman á því tímabili næturlangt en hann hefði stundum skroppið í Byrgið.  

Q, kt. [...], [...], Reykjavík, æskuvinkona B, gaf skýrslu þann 16. janúar 2007 hjá lögreglu þar sem hún var beðin um að greina frá vitneskju sinni um kynferðissamband B og ákærða. Kvaðst Q staðfesta það að B hefði sagt sér frá því að hún ætti í kynferðissambandi við ákærða á meðan hún dvaldi í Byrginu. Kvað hún þær B hafa verið í nokkuð stöðugu sambandi er B hafi verið í helgarleyfum og einnig hefðu þær verið í símasambandi þegar B var í Byrginu. Kvaðst Q fyrst hafa tekið eftir því að B hafi verið farin að klæða sig betur upp og hugsa betur um útlit sitt. Hún hefði farið að kaupa dýran fatnað og einnig að kaupa sér glæsilegan nærfatnað. Kvað hún B hafa sýnt sér naflahring og demantshring sem B sagði ákærða hafa gefið henni. Þá kvaðst hún einnig vita til þess að ákærði hefði látið B hafa bifreið til umráða sem hafi verið dýr og nýleg. Q kvaðst hafa hitt B í helgarleyfum frá Byrginu þar sem hún hefði dvalið á hótelherbergjum og hefði B sagt henni að ákærði greiddi fyrir hótelherbergin. Kvaðst Q halda að samband B og ákærða hafi byrjað nokkuð snemma eftir að B fór í meðferð í Byrginu og hún telur það víst að B hafi orðið ástfangin af ákærða. Merkti hún það á því hvergi útlit B hefði breyst. Q kvaðst hafa merkt ákveðnar breytingar hjá B eftir að C kom í Byrgið, þar sem B hafi verið farið að gruna að ákærði og C ættu í kynferðissambandi. Kvaðst Q minnast þess að B hefði hringt í hana seint um kvöld og hafi B verið mjög miður sín. Þá hefði B búið í íbúð við hliðina á íbúð ákærða. Í símtalinu hefði B sagt henni að C væri inni hjá ákærða og hafi hún heyrt hljóð berast á milli íbúðanna sem gæfi til kynna að ákærði og C ástunduðu kynlíf.  Kvað Q B hafa hringt í sig í lok meðferðar B í Byrginu og hún sagst vita til þess þá að ákærði hafi verið farinn að draga úr samskiptum við B. Q kvaðst aldrei hafa efast um sannleiksgildi orða B þar sem B hefði ávallt tamið sér að segja sannleikann. Því hefði það orðið B erfitt er hún varð þess áskynja að ákærði hafi verið byrjaður í kynlífssambandi við C og um tíma hafi Q verið farin að óttast um heilsu og líf B þar sem það hefði virst henni mjög erfitt að höndla áðurgreindar breytingar í sambandi sínu við ákærða.  Allt hafi þetta verið mjög erfitt fyrir B þar sem hún hefði umgengist börn ákærða og eiginkonu á meðan B var í meðferðinni í Byrginu.

Q kom fyrir dóminn og kvaðst hafa þekkt B frá því þær voru ellefu ára gamlar og væru þær vinkonur. Q kvaðst hafa fylgst með B á meðan hún var í meðferð í Byrginu og verið í stöðugu sambandi við hana en þær væru trúnaðarvinkonur. Kvað hún B oft hafa komið heim til hennar og þær farið saman í Kringluna. Eitt sinn hefði Q heimsótt B á hótel fyrir ofan bókabúðina á Laugaveginum. Q kvað B hafa verið mjög ástfangna af ákærða á þessum tíma. B hefði talið að hún væri búin að finna sinn rétta mann, hún hefði byrjað að ljóma og hafa áhuga á að klæða sig upp og gera hluti eins og ástfangnar stelpur gera. B hefði tjáð sér að maðurinn væri ákærði en Q kvaðst hafa vitað þá hver ákærði var. Þá hefði B sagt henni frá kynlífi hennar og ákærða, samtölum þeirra, þægindunum í Byrginu auk þess að B hefði sagt sér að ákærði vissi að B hefði sagt henni frá sambandi þeirra sem hefði verið bæði andlegt og kynferðislegt. Q kvað B hafa sagt sér, þegar hún hitti hana á hótelinu, að hún ætti von á ákærða seinna um kvöldið. Þetta samband hefði verið gríðarleg flækja fyrir B, ákærði hefði verið giftur auk þess að hún hefði lent í erfiðleikum með C. B hefði oft hringt í sig þegar hún var í herbergi við hliðina á ákærða og eitt sinn hefði hún hringt þar sem hún taldi sig heyra í C þar inni líka og hljóð eins og um kynlíf væri að ræða. Hún kvað B hafa trúað því sem ákærði segði en hún hefði átt erfitt þarna. Q kvað B hafa trúað því að um alvöru samband hennar og ákærða væri að ræða, henni hefði fundist í lagi að verða ófrísk og hún hefði rætt það að ákærði væri að fara frá konunni sinni. Q kvað B alltaf hafa verið í góðum tengslum við sig, móður sína, systur og ömmu, einnig á meðan hún var í meðferðinni. 

Vitnið K, kt. [...], [...], Reykjavík, gaf skýrslu fyrir lögreglu þann 23. janúar 2007. Þá kom vitnið einnig fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Er vitnisburður hennar varðandi þátt B rakinn í kaflanum um brot gegn C og er vísað til hans varðandi vitnisburð er snýr að þætti B.

P, kt. [...], gaf skýrslu hjá lögreglu 6. desember 2007. Kvað hann ákærða hafa hringt í sig og spurt hvort hann vantaði pening. Kvaðst P hafa svaraði því játandi. Ákærði hefði þá gefið honum upp heimilisfang, sem hafi verið á Ö, og beðið P um að hringja í sig þegar hann væri kominn að húsinu. Kvaðst P hafa gert eins og um var samið. Þegar hann var kominn upp hefði allt verið slökkt. Hann kvaðst hafa klætt sig úr fötunum, þeir báðir farið inn í herbergi og hann sofið hjá konu sem hann í rauninni hafi ekki séð hver var. Það hefði verið dimmt í herberginu og bundið fyrir augu konunnar. Kvaðst hann hafa vanist myrkrinu í herberginu og þá áttað sig á því frá glampa, sem kom frá glugganum, hver konan var. Kvaðst hann ekki hafa sagt neitt og þegar þessu var lokið þá hefði hann farið heim. Kvað hann ákærða einnig hafa verið í herberginu og tekið þátt í þessu með honum, þau hafi verið þrjú að. P kvaðst ekki vera viss um það hvenær þetta hefði gerst en það hafi verið eftir að hann og D hættu að vera saman og hann aftur fluttur til Reykjavíkur en áður en atvikið gerðist með C.  Kvað P ákærða hafa greitt sér 15.000 krónur fyrir.

P kom fyrir dóminn og skýrði frá á sama hátt og fyrir lögreglu.

VIII.

Í gögnum málsins liggur fyrir geisladiskur, lagður fram af B hjá lögreglu, merktur Story of O, sem ákærði hefur viðurkennt að hafa afhent B sem vini en kvaðst hafa fengið hjá A.

Þá liggja fyrir útprentanir frá Hótel Loftleiðum þar sem kemur fram að B hafi átt bókuð herbergi. Fyrst er að finna í gögnum að dagana 26. til 29. febrúar 2004 hafi B átt pantað herbergi á Nordica Hotel og var herbergið pantað af Guðmundi Jónssyni með síma [...]. Var kostnaðurinn, 27.750 krónur, greiddur með peningum. Aðfaranótt 8. mars 2004 átti B pantað herbergi á Hótel Loftleiðum og var herbergið pantað af Guðmundi Jónssyni og greitt með peningum, 7.400 krónum. Aðfaranótt 28. mars 2004 átti B pantað herbergi á Hótel Loftleiðum og var kostnaðurinn greiddur með peningum, 11.700 krónur. Þá átti B pantað herbergi á Hótel Loftleiðum aðfaranótt 8. apríl 2004 og var kostnaðurinn 6.200 krónur. Þann 13. apríl til 15. apríl 2004 var herbergi pantað fyrir B á Hótel Loftleiðum af Guðmundi Jónssyni og greitt með peningum, 14.200 krónur, og sími uppgefinn [...] og [? ] Aðfaranótt 3. janúar 2005 átti B pantað herbergi á Hótel Loftleiðum og var greitt með peningum, aðfaranótt 20. maí 2004 var herbergi pantað af „sj“ og greitt með peningum og loks aðfaranótt 21. maí 2004 var herbergi pantað af „sj“, en greiðslumáti kemur ekki fram.

Lögregla sendi fyrirspurn til Símans þann 7. febrúar 2007 þar sem óskað var eftir upplýsingum um send smáskilaboð úr farsíma Ý í farsíma V send 28. desember 2006 klukkan 23.50.56. Þá er óskað eftir svari við því hvort viðtakandi smáskilaboða geti bætt við eða breytt smáskilaboðum á einhvern hátt. Skilaboðin hljóða svo: „Nei vard batterylaus…. En má mér ekki langa til ad elskast med thér,? thad er mitt allra besta kynlif sem ég hef upplifad ad fá ad taka thig og elskast med thér.“ Sendandi er Gummi úr síma ákærða Ý þann 28. desember 2006. Þá segir í fyrirspurn lögreglunnar að sendandi skeytisins kannist ekki við að hafa skrifað tvær síðustu setningar skilaboðanna og að bætt hafi verið við textann.  Í svari Símans kemur fram að engin þekkt leið sé til að breyta eða bæta við slík skilaboð hjá móttökuaðila, nema áframsenda skilaboðin.

Lögreglan sendi fyrirspurn til Landlæknisembættisins um skráða innlögn B í Byrginu frá apríl 2004 til mánaðamóta júní/júlí 2005. Í innritunarskjali er komudagur skráður 18. ágúst en ártal vantar og brottför skráð 7. maí 2005. Í heildarskrá eru eftirfarandi skráningar: 1. Komudagur 2. febrúar 1999 og brottför 25. maí 1999. 2. Komudagur 4. júní 1999 og brottför 30. júlí 1999 og 3. Komudagur 18. ágúst 2003 og brottför 7. maí 2005.

Í reikningsyfirliti yfir bankareikning B frá Landsbanka Íslands koma fram innlagnir á reikning hennar, samtals 241.500 krónur, þar sem ákærði millifærir í samtals fjörutíu og fimm færslum. Ákærði lagði fram yfirlit sem hann vann upp úr reikningsyfirliti sínu, millifærslur af reikningi hans yfir á bankareikning Bog tekur fram að það sé vegna matarkaupa og nauðþurfta árin 2004 til 2006 auk lána til kaupa á inneign/frelsi fyrir síma B en Br hafi enn ekki endurgreitt þessi lán. Eru það greiðslur frá 20. júlí 2004 til 14. desember 2006, samtals 301.500 krónur.

Þá liggja fyrir í gögnum málsins endurrit af ellefu smáskilaboðum sendum úr farsíma ákærða í farsíma B á tímabilinu 22. desember 2006 til 11. janúar 2007 og í einu þeirra segir: „Ég elska thig dugleg stelpa“. Í upplýsingaskýrslu lögreglu vegna veru K kemur fram að hún hafi verið skráð í Byrgið frá 13. apríl 2004 til 19. febrúar 2005.

IX.

Ákæruliður III. Brot gegn C.

Skýrsla ákærða og vitna fyrir lögreglu og dómi.

C lagði fram kæru á hendur ákærða hjá lögreglu þann 22. desember 2006. Í skýrslu lögreglunnar segir C svo frá að hún hafi á árunum 1998 til 2004 verið í neyslu fíkniefna, þó með hléum, en hafi verið í gríðarlega harðri neyslu í eitt ár áður en hún fór í Byrgið 9. apríl 2006. Hún hafi meðal annars sprautað sig með fíkniefnum og hafi verið að leita sér að meðferðarúrræði og hafi þá heyrt látið vel af Byrginu. Í fyrstu hefði hún ekki haft mikil samskipti við aðra í Byrginu, hún hafi til að byrja með unnið í þvottahúsinu og farið í lofgjörð en verið mikið til ein. Hún hafi verið búin að vera í Byrginu í fjóra mánuði þegar hún fór fyrst í meðferðarviðtal hjá ákærða en áður en þau viðtöl byrjuðu hefði hún farið daglega á fyrirlestra hjá ákærða þar sem hann prédikaði sem prestur eða pastor eins og það sé kallað. C kvaðst hafa farið að treysta ákærða, sem hafi virst góður og traustur maður en hann hafi prédikað á mannamáli. Ákærði hefði prédikað að það væri algjörlega óheimilt að lifa kynlífi með öðru Byrgisfólki, ófrelsuðu fólki eða fólki af sama kyni. Í fyrsta meðferðarviðtalinu sem hún átti hjá ákærða hefði hún borið upp við hann áhyggjur sem hún hafði af því að hugsanlega yrði dóttir hennar sett í fóstur en ákærði hefði í því viðtali farið að segja henni frá flóknum fjölskyldutengslum sínum, fyrri hjónaböndum og börnum sínum og hafi hún tekið þessum upplýsingum eins og ákærði væri að trúa henni fyrir þeim. Þremur vikum síðar hefði hún farið aftur í viðtal til ákærða og eftir það hefði hann farið að senda henni smáskilaboð með spurningum um hvernig henni liði og boðið henni síðan í annað viðtal daginn eftir. Á þessum tíma kvað C sér hafa liðið illa en þegar hún kom í viðtalið hjá ákærða hefði hann farið að tala um hvað hún væri falleg og með falleg augu. Í því viðtali hefði ákærði sagt við hana: „Heilagur andi sagði mér að segja þér frá sögu minni.“ Í framhaldi hefði ákærði sagt henni frá því að hann hafi verið sendur í sveit sem barn þar sem hann hefði verið misnotaður af húsfreyjunni og dætrum hennar, hann hefði verið bundinn upp og látinn hafa samfarir við dóttur húsfreyjunnar á gaddavírsrúllu og annað slíkt. Eftir þetta viðtal kvaðst C hafa farið aftur í húsið þar sem hún bjó en stuttu eftir að hún var komin þangað hefði ákærði hringt í sig og spurt hana hvort henni hefði liðið illa eftir frásögnina og síðan sagt eitthvað á þá leið að „Heilagur andi gerir ekkert að tilefnislausu“, og í framhaldi farið að ræða BDSM-kynlíf við sig. Ætlaði ákærði að senda C spurningalista tengdan kvalalosta í kynlífi en þau ættu að hittast kvöldið áður. C kvað þau hafa hist daginn eftir og þá hefði ákærði afhent henni tölvudiskling sem á hafi verið listi með kynferðislegum spurningum sem hún hafi átt að svara til þess að ákærði og C gætu áttað sig á því hvað hún vildi. Í þessu samtali hefði ákærði rætt um samband hans við J konu sína, sem væri í molum, en þau væru saman vegna barnanna. Kvað hún ákærða hafa sagt sér að J vissi að hann væri BDSM-master, sem þýddi að hann tæki að sér stúlkur sem „sub“ en það væru stúlkur sem væru undirlægjur hans sem síðar yrðu „slave“ eða ambáttir hans. Í þessu viðtali hefði ákærði einnig sýnt sér bindimyndir af eiginkonu sinni, sem hafi verið af kynferðislegum toga en hann hefði einnig sýnt sér slíkt efni á netinu. Í þessu samtali hefði ákærði verið að kanna hvort hún hefði áhuga á því að fara í þjálfun hjá sér. Sagði C að ákærði hefði rætt við sig sem vin og einnig sem leiðbeinandi og verið að athuga hug hennar til þess að stunda kynlíf með sér. C sagði að þann 18. nóvember 2004 hefði hún síðan farið í viðtal á skrifstofu ákærða þar sem hann hefði skoðað ljósmyndir í tölvunni en spurt hana hvort hún væri til í að vera „submissive“ í þessum kynlífsfræðum þar sem hann væri master eða eins konar lærifaðir. C hefði svarað því til að hún væri forvitin um þessi mál, enda hefði ákærði verið búinn að fullvissa hana um að hún réði ferðinni og að þetta væri fyrir hana gert. C kvaðst á þessum tíma hafa treyst ákærða fullkomlega enda hefði hún verið búin að treysta honum fyrir öllu því mikilvægasta í lífi hennar, batanum í meðferðinni, forræði yfir dóttur sinni og velferð sinni. Því næst hefði ákærði rætt við sig um að hann kynni svo vel á líkama konunnar og í því samhengi sagt henni frá ákveðnu punktakerfi sem hann noti. Ákærði hafi sagt henni að leggjast á rúmið sem var inni í meðferðarherberginu og ákærði farið að nudda einhvern blett á mjóhrygg hennar og að því loknu hefði hann farið að kyssa blettinn og bakið á henni en síðan hefði hann tekið hana úr bol sem hún var í, snúið henni við og farið að kyssa hana. Í kjölfarið hefðu þau haft mök en það hefði verið í fyrsta sinn. Í framhaldi kvað C þau hafa átt í kynferðislegu sambandi í um tvö ár en í síðasta skipti hefðu þau hist og átt kynferðislegt samneyti 5. desember 2006. Þá hefðu þau hist á heimili hennar. C kvaðst bæði hafa stundað „venjulegt“ kynlíf með ákærða en einnig svokallað BDSM-kynlíf. Það hefði þó sífellt ágerst og orðið grófara og grófara eftir því sem á leið en C kvað ákærða stöðugt hafa rekið sig út í grófara kynlíf. Meðal annars hefði ákærði bundið hana upp á eldhúsborði heima hjá henni, en það hefði verið hluti af BDSM-kynlífi. Síðan hefði hann skorið hana með rakvélablaði, sjö rákir yfir bakið á henni, og síðan lamið hana með svipum og við það hefðu sárin opnast og myndast ör. Með þessu hefði ákærði verið að merkja sér hana og sagt henni hvað hann væri stoltur af henni. C kvaðst þó ekki hafa verið sátt við þessa skurði. Sagði C að þau hafi líklega hist að meðaltali fjórum sinnum í viku og oftast heima hjá henni. Í kjölfar sambandsins kvaðst C hafa farið að átta sig á því að ákærði hafi misnotað traust hennar en sagði að ákærði hefði einnig farið að einangra hana frá öðrum vistmönnum. Þá hefði hann sagt henni að hann væri að skilja við eiginkonu sína en hann hefði alltaf sagt að það myndi fara að gerast á hverri stundu en það hefði aldrei gerst. C kvaðst því hafa orðið meira og meira einangruð, enda hefði ákærði neitað að gera samband þeirra opinbert en ákærði hefði viljað bíða með það fram yfir skilnað við konu sína. C kvað ákærða hafa borið út róg um sig meðal fólks í Byrginu og því hafi hún átt sífellt erfiðara með að vera þar eða koma þangað enda hefði ferðum hennar þangað fækkað.

C mætti aftur í skýrslutöku hjá lögreglu þann 19. mars 2007 til að fara yfir tölvugögn sem C lagði fram við kæruskýrslu hennar og tengdust kæruefni hennar ásamt því að fara yfir ljósmyndir af munum er voru í íbúð hennar að X. Kvað C að ákærði hefði komið með þær myndir sem fundust í tölvu hennar af nöktum konum og þær ljósmyndir sem voru af konum í BDSM-kynlífsathöfnum en þær hafi verið á flakkara sem ákærði kom með til hennar og hún afritaði yfir í tölvuna hennar.  C segir að allar hreyfimyndir sem hún hafi tekið af sjálfri sér hafi verið teknar fyrir ákærða, hann hafi óskað eftir því við hana að hún sendi honum myndskeið. Farið var yfir myndskeið með C, sem fundust í tölvu hennar, og sagði C að þau hefði ákærði að miklu leyti sent henni úr farsíma hans en hún hefði einnig tekið myndir af sjálfri sér og sent í farsíma ákærða. Myndir úr möppu merkt „Ljósmyndir“ séu ljósmyndir sem hún hafi tekið af vídeóvél. Myndirnar séu teknar heima hjá henni og sýni ákærða og hana bundna. Nánar tilgreindar myndir segir C hafa verið teknar í og við Ford Econoline-bifreið ákærða og ákærði hafi tekið þessar ljósmyndir af henni og einnig sjáist hann á myndum. Þá séu þar ljósmyndir sem ákærði hefði tekið af henni bundinni. C segir að ljósmynd merkt DSC001161.JPG sé mynd sem hún hafi tekið af ákærða heima hjá henni og sýni ákærða fjötraðan. Þá voru ljósmyndir sem C kvað vera af sér og ákærða í BDSM-kynlífsathöfnum. Mynd merkt ég finni þig.jpg segir C vera ljósmynd af ákærða, sem hann hafi sent henni. C segir að þarna sé að finna ljósmyndir sem ákærði hafi tekið af sjálfum sér, andlitsmyndir, sem hann hafi síðan sent henni úr farsíma hans en hún hafi síðan fært inn í tölvu sína. C segir að myndir merktar thumd_00439.jpg til thumd_00449.jpg séu ljósmyndir úr farsíma ákærða sem hann sendi henni. Næst var farið yfir skrár, sem eru merktar videoskrár, af tölvu C. C segir að vídeóskrá sem er merkt _Title_3.mpg sé myndupptaka sem sé tekin inni á skrifstofu ákærða í útvarpshúsinu í Byrginu og upptakan sýni hvar ákærði sé að binda lim sinn og hún hafi síðan munnmök við lim ákærða. Á upptökum má sjá m.a. ljósmyndir af börnum ákærða. C segir að vídeóskrá sem er merkt Video 1.avi sé myndupptaka sem hún hafi tekið af ákærða í bifreið hans. C segir að vídeóskrá sem sé merkt Viedo 2.avi sé myndupptaka af vefmyndavél á heimili hennar og upptakan sýni hvar hún og ákærði séu í BDSM-kynlífsathöfnum. C segir að þrátt fyrir að myndgæðin séu dökk megi sjá þau í stofu hennar að X og einnig heyra samræður þeirra. Upptakan sýni kynlíf þeirra í rólu í stofunni og einnig megi sjá hvar hún leggst á gólfið og  ákærði notar þar til gerða samfaravél. Á upptöku má sjá hvar ákærði er með hatt á höfði. C segir að vídeóskrá sem er merkt Video3.avi sé framhald af 2.avi. C segir að vídeóskrá sem sé merkt Video4.avi sé myndupptaka af vefmyndavél á heimili hennar og upptakan sýnir hvar þau eigi BDSM-kynlíf með aðstoð samfaravélar í rólu.

Næst er farið í möppu sem er merkt „skjöl“. C kvað mikið af nánar tilgreindum skjölum vera frá ákærða komin. Næst er farið yfir disk frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem er merktur „Diskur 2 af 2“, og þar er að finna möppu merkta „Vídeóskrár 2“. Undir þeirri möppu er skrá er ber heitið „night session for queen sasha and her slave scorpius panther.avi“. C segir að þarna sé myndbandsupptaka af BDSM-kynlífi hennar og ákærða frá því annaðhvort í ágúst eða september 2006. Myndin sé tekin á heimili hennar að X  og sýni hlutverkaskipti í BDSM-drottnunarleik þar sem ákærði er undirgefinn aðili en hún í hlutverki drottnara.

C afhenti lögreglu farsíma sinn með símanúmerinu VV en hún kvað þar vera að finna smáskilaboð til hennar frá ákærða úr farsíma hans Ý. Þennan farsíma hefði ákærði gefið henni, líklega vorið 2006, en skilaboðin frá ákærða nái fram undir lok desember 2006. Var síminn skoðaður hjá tölvu- og rafeindadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í símanum var að finna m.a. möppu, merkta „Gallery“, en þar megi finna 6 undirmöppur sem hafa eftirfarandi heiti: Grafík, Myndskot, Myndir, Tónar, Upptökur og Þemu. Í möppunni „Myndskot“ séu sex skrár. Ein skrá er merkt „Guðmundur bílnum.3gp“ og er upptaka af síma ákærða, segir C, og að sögn hennar er ákærði þar að fróa sér. C segir að síðan hafi ákærði sent henni þetta myndskeið úr farsíma hans. Skrá merkt „Gummi.3gp“ upptaka af farsíma ákærða og á myndskeiðinu megi sjá karlmann fróa sér og síðan sé andlitsmynd af ákærða. C segir að ákærði hafi sent þetta myndskeið úr farsíma hans í hennar síma og að þetta myndskeið hafi verið þekkt meðal landsmanna sem „Den lille venn“. Skrá merkt „Hreyfimynd 001.3gp“ segir C vera myndskeið sem ákærði hafi tekið upp og sent henni í farsíma hennar og myndefnið sé ljósmynd af eiginkonu ákærða. Skrá merkt „kjjhgh(1).3gp“ upptaka af farsíma ákærða og á myndskeiði megi sjá karlmann fróa sér. C segir að ákærði hafi sent sér þetta myndskeið og í því megi heyra ákærða umla frygðunarlega. Skrá merkt „kk(1).3gp“ er upptaka sem C segist hafa tekið upp af sjálfri sér og vistað upptökuna í Gallery. Þegar mappan „Myndir“ er opnuð má þar finna 13 ljósmyndir. Fyrstu 7 ljósmyndirnar eru af dóttur C, tvær ljósmynd þar sem sjá má hvar þvottaklemmur eru á pung og lim karlmanns og C segir að hún hafi tekið þessa ljósmyndir heima hjá sér árið 2005 af kynfærum ákærða. Þá voru nokkrar myndir til viðbótar í möppunni sem C segir að hafi verið teknar á heimili hennar að X, Reykjavík, á árinu 2005 af ákærða berum að ofan, með grímu fyrir augum og með þvottaklemmur á kynfærum.

Í smáskilaboðum farsíma C fundust smáskilaboð úr farsíma ákærða, Ý, frá 6. nóvember til 30. desember 2006. C segir að í þessum sms-skilaboðum ákærða til hennar komi fram með skýrum hætti hvaða hug hann hafi borið til hennar og styðji jafnframt frásögn hennar um hve samband þeirra hafi verið mikið og náið. C segir m.a. að það komi bersýnilega fram sú ætlun að þau myndu giftast.

C gaf skýrslu hjá lögreglu þann 25. júlí 2007 og var beðin um að lýsa með eins nákvæmum hætti og hún gæti hversu oft og eða reglulega hún og ákærði áttu kynmök og í hverju þau voru fólgin. C kvað sig og ákærða hafa verið í kynferðissambandi í um það bil tvö ár. Cf segir að fyrsta kynlíf sem  hún hafi átt með ákærða hafi verið í Byrginu að Efri-Brú í herbergi nr. 10 þar sem ákærði hafði einkameðferðarviðtölin. Hún segist muna vel eftir fyrsta skiptinu sem hafi verið í meðferðarviðtali hjá ákærða. Ákærði hafi nuddað blett á baki hennar, mjóbakinu, þar sem hún hafi legið í rúmi hans. Síðan hefði hann snúið henni á bakið og byrjað að kyssa hana, afklætt hana og þau átt kynlíf í rúminu. Næsta kynlíf sem hún og ákærði hefðu átt hafi verið í kjallaraherbergi að Háholti 11, heimili ákærða, en hann hefði beðið hana um að hitta sig við bensínstöðina Esso í Hafnarfirði, sem hún hafi og gert. Hún og ákærði hefðu farið í Háholt 11, niður í kjallara og inn í geymslu. Í þeirri geymslu hefði ákærði verið með dýflissu. Til þess að komast inn í það rými hefði þurft að opna hurð á skáp sem hafi staðið upp við vegg. Í þessum skáp hafi verið gat á veggnum og þegar í gegnum gatið var komið hafi verið komið inn í stærri geymslu. Þar inni hafi verið ýmis tæki og tól til BDSM-kynlífsathafna. Í umrætt sinn hefði hún afklæðst öllum fötum og ákærði hefði prófað ýmsar tegundir af svipum. Hann hefði viljað að hún prófaði hvernig væri að vera lamin með svipu. C kvað ákærða hafa slegið hana með nokkrum tegundum af svipum en hann hafi ekki lamið hana fast. Að því loknu hefði ákærði riðið henni á gólfinu í herberginu. Þetta hafi gerst haustið 2004, líklegast í september. C teiknaði umrætt geymslurými og liggur sú teikning fyrir í gögnum málsins. Í næsta skiptið hefði hún átt kynlíf með ákærða í Ölfusborgum og það hefði verið haustið 2004 nokkru eftir kynlífið í Háholti 11. Í umrætt sinn hefði hún komið í Ölfusborgir til ákærða. Þegar hún kom í bústaðinn hefði J verið bundin á eldhúsborð, nakin, og með bundið fyrir augu. C kvaðst hafa fullnægt J og að því loknu hafi ákærði losað J og bundið hana ofan á stofuborð. Að því loknu hefði ákærði tekið bandið frá augum J og síðan haft samfarir við C að J ásjáandi. C tók það fram að hún og ákærði hefðu nokkrum sinnum farið í bústað í Ölfusborgum fram að þeim tíma er ákærði fótbrotnaði í Ölfusborgum. Í það skiptið hefði ákærði verið að bera inn farangur fjölskyldu sinnar og kvöldið áður hafi hún og  ákærði átt BDSM-kynlíf í sama húsi. C segir að nánast frá upphafi hafi kynlíf hennar og ákærða verið tengt BDSM en hún hafi margsinnis átt BDSM-kynlíf með ákærða og J, eiginkonu hans. Fyrst hafi hún og ákærði átt kynlíf að meðaltali um tvisvar sinnu í viku. Það hafi verið erfitt að koma kynlífinu við þar sem ákærði hafi búið í Hafnarfirði og hún í Byrginu. C segir að þegar tíminn hafi liðið hafi BDSM-kynlíf þeirra verið æ harðfengnara. Ákærði hafi beitt hana meira líkamlegu ofbeldi í BDSM-kynlífsathöfnunum og oftar en ekki þegar hún hafi verið fjötruð. Í þau skipti hafi hún ekki getað gert nokkurn skapaðan hlut annað en að bíða eftir að ákærði hætti. Það hafi ekki skipt máli þótt hún bæði ákærða um að hætta, hann hefði orðið fúll, hunsað hana algjörlega, haldið áfram og hætt þegar honum þóknaðist. Í þessu sambandi segist C m.a. vísa í kæruskýrslu hennar um það þegar ákærði skar hana í bakið. C kvaðst hafa fengið íbúð sumarið 2005 að X,  Reykjavík, og frá þeim tíma hafi hún og ákærði átt BDSM-kynlíf í hverri viku, allt að fimm sinnum í viku, og í þau skipti hafi ákærði komið í hennar íbúð. C kvað að framan af hafi hún verið hans undirlægja eða kynlífsþræll, „sub“, og hún hafi þóknast ákærða í einu og öllu eins og hennar hlutverk hafi verið í þeirra BDSM-kynlífi. Þegar hún hafi verið komin í íbúðina að X hafi hlutverkaskipan breyst í kynlífi þeirra. Smátt og smátt hefði ákærði breyst í undirlægju, „sub“. Í þessu sambandi segir C að myndband, sem sé þekkt í þjóðfélaginu og fór á netið, sýni í hnotskurn hvernig breyting hafi orðið í BDSM-kynlífi hennar og ákærða. Varðandi það myndband sem sýni BDSM-kynlíf hennar og ákærða segir C að þann dag hafi ákærði komið til hennar um miðjan dag, líklegast um kl. 15:00. Á þessum tíma hafi ákærði og fjölskylda hans verið flutt í húsið sitt í Grímsnesi og eftir það hefði ákærði komið til hennar að degi til þar sem erfiðara hafi verið að réttlæta veru hans annars staðar en að Efri-Brú eða heima í Grímsnesinu. C sagði að hún hafi fengið bifreið gefins hjá einum vistmanni Byrgisins en sá aðili hafi misst bílprófið. Fljótlega hefði ákærði aðstoðað hana við að fá aðra bifreið. Það hafi verið Getz, árgerð 2002, sem hún hafi keypt árið 2004. Vegna skuldastöðu sinnar hafi hún ekki verið með lánstraust og því hafi bifreiðin verið skráð á fyrrverandi tengdason ákærða sem heiti U. C segir að hún hafi borgað sjálf af bifreiðinni en ákærði hafi greitt fyrir hana m.a. föt.

Aðspurð hvort hún viti hver hafi netfangið panel@visir.is kvað hún það vera póstfang ákærða. Ákærði hefði sagt henni að ef hún ætlaði að senda honum eitthvað persónulegt þá ætti hún að senda honum póst á þetta póstfang. C segir að hún hafi eitthvað sent honum á panel@visir.is. C er spurð hvaða hlutverki ákærði hafi gegnt í meðferðarstarfinu að Efri-Brú og kvað hún hann hafa verið pastor eða prest í safnaðarstarfi, hann hafi boðað orð Guðs og prédikað á samkomum. Hann hafi stýrt meðferðarstarfi Byrgisins og sá eini sem hafi verið með einkameðferðarviðtöl í Byrginu sem ráðgjafi vistmanna. Ákærði hafi einnig verið forstöðumaður Byrgisins og borið ábyrgð á starfseminni.

C kom fyrir dóminn og skýrði að  mestu frá eins og að ofan greinir. Kvaðst hún hafa verið búin að vera á götunni í um það bil ár áður en hún fór í Byrgið og verið í mikilli neyslu. Heilsa hennar hafi verið hræðileg þegar hún kom í Byrgið en hún hafi verið búin að brenna allar brýr að baki sér. Í byrjun hefði hún ekki verið í samskiptum við neinn nema þann sem færði henni lyfin, en þurft hefði að vekja hana fyrstu sex dagana til að fá lyf. Nokkrir mánuðir hefðu liðið í Byrginu áður en hún fór að tala við ákærða en það hafi fyrst verið vegna vinnu hennar í þvottahúsinu. Fjórir til sex mánuðir hafi liðið frá því að hún kom í Byrgið og þar til hún fór fyrst í viðtal til ákærða. C kvaðst fyrst hafa rætt við ákærða þar sem hún hafði áhyggjur af dóttur sinni. Kvað hún ákærða þá hafa rætt um sig og lofað að bjarga málunum með stúlkuna hennar en hún kvaðst ekki muna hvað þau ræddu meira í þessu viðtali. C mundi ekki hvort það var í því viðtali eða síðar sem hún settist inn hjá ákærða og hann hafi farið að sýna henni BDSM-myndir og sagt að konan hans og hann stunduðu BDSM auk þess sem kona hans vissi að ákærði væri að þjálfa stelpur. Kvaðst C hafa farið úr þessu viðtali án þess að hafa sagt meira um það sjálf. Líklega hafi það verið í öðru viðtalinu hjá ákærða. Ákærði hefði lýst fyrir henni hvernig hann hafi verið misnotaður í sveit í þrjú sumur af konu og tveimur dætrum hennar, sem hafi bundið ákærða og fleira. Ákærði hefði leitað til Guðs vegna þessa og frelsast og fundist BDSM-light hjálpa sér. C kvað að í þessu viðtali hafi ákærði látið hana leggjast á rúm í viðtalsherberginu og viljað sýna henni blett á bakinu og þá prófað leðurreim á bakinu á henni og að lokum haft við hana samfarir. C kvaðst hafa verið öllum stundum með ákærða á meðan hún dvaldi í Byrginu. Hún hefði tekið að sér þýðingarvinnu fyrir ákærða auk þess að vinna í þvottahúsinu. Hún hefði fengið afslátt á leigunni fyrir vinnuna í þvottahúsinu en á C mátti skilja að eftir að ákærði hafi haft samfarir við hana hafi leigan verið felld niður. Þá kvað hún ákærða hafa greitt sér 100.000 krónur á mánuði fyrir að þýða fyrirlestra af netinu fyrir hann en greiðslan hefði verið fyrir að vera í þjónustu þarna og hefði hún einnig átt að fá eitthvað við altarið. Þannig væri Guð, kvað C, og þess vegna ætti fólk að gefa tíund svo hægt væri að borga fyrir gjafir Guðs til þjónustunnar. Þá kvaðst C hafa verið hjá ákærða í viðtalsherberginu, í kofanum, á hótelum, í jeppanum og í einbýlishúsinu, sem hafi verið útvarpshúsið, auk íbúðar í Reykjavík sem hún mátti vera í. Aðspurð neitaði C því að kynlíf hefði í byrjun orðið oft í viku, fyrstu skiptin með BDSM-kynlífi hafi verið með ákærða og konu hans í Ölfusborgum þar sem kona ákærða hefði verið bundin niður á borð en atvikið í kjallaranum heima hjá ákærða hafi í raun verið prufukeyrsla. Í kjallaranum í Hafnarfirði heima hjá ákærða hafi verið bindingabekkur, það hafi verið keðjur á veggnum, einhver nærföt úr keðjum, krókar hafi verið þar og spýtur þar sem búið var að negla útlínur mannslíkama á vegginn svo hægt væri að binda kóngulóarvef og festa manneskju þannig.  Hægra megin við það hafi verið búr auk þess að þar hafi verið alls konar tæki, „dildóar og egg og svipur“. Hafi hún átt að standa þarna mjög fáklædd og taka við svipuhöggunum.  Höggin hafi ekki verið mjög föst en stuttu seinna hafi ákærði verið kominn bara aftan að henni og inn í hana og fengið sáðlát. Í framhaldi hefði ákærði ekið sér heim. Þá lýsti C ferðinni í Ölfusborgir, þar sem eiginkona ákærða var bundin niður á borð, og kynlífi því sem hún átti þar. Aðspurð kvað C kynlíf þeirra hafa byrjað með nokkrum skiptum en síðan aukist og orðið allt að fimm sinnum í viku en það hafi verið misjafnt, stundum sjaldnar, allt frá sjötta mánuði eftir að hún kom í byrgið og þar til hún birtist í Kompásþættinum í sjónvarpinu í desember 2006. C kvaðst hafa ekið eða komið í Byrgið nánast á hverjum degi eftir að hún flutti í X, bæði vegna þýðingarvinnu sinnar fyrir ákærða auk þess að hún hafi tekið þátt í lofgjörðum. Aðspurð um það hvað fælist í lofgjörðum sagði C að í því fælist að vera líklega konan sem var í spádómnum frá Guði og sem ákærði myndi eignast og væri kölluð til starfa í Byrginu, en það hafi kallað á „sjortara“ sem voru þá bara stuttir drættir inni á baði eftir og fyrir fundi og þarna, og að vera fyrirmynd. Þannig hefði ákærði lagt línurnar. 

C kvað ákærða hafa verið farinn að flækja hana og líf dóttur hennar því hann hafi verið farinn að mæta inn á heimili hennar. Ákærði hefði haft lykla að íbúð hennar, sagst vilja giftast henni og elska hana. Ákærði hefði sagt henni að Guð hefði sýnt honum fyrir tíu árum mynd af henni í lofgjörðinni sem konu hans. Ákærði hefði sagst ætla að spreyja hana með demöntum og koma með þyrlu með bónorðið. Ákærði hafi verið farinn að flækja líf hennar stórlega og sífellt blandað Guði í þeirra mál, hún hafi verið „ný trúuð“ og gleypt við þessu öllu af því að þetta hafi verið það eina sem bjargaði henni. Sambandið hafi hins vegar farið algjörlega með hana, hún hafi meðal annars ekki getað sinnt dóttur sinni vegna þessa.  

C kvað það rétt að hún og ákærði hafi haft einhver kynmök tvisvar til fjórum sinnum í viku, tímabilið frá hausti 2004 til aprílmánaðar 2005 í Byrginu á meðan hún var vistmaður þar.

Aðspurð kvaðst Clítið hafa þekkt B og lítil samskipti hafa haft við hana á meðan hún var í Byrginu. Hún kvað þó vitneskju sína byggjast á söguburði í Byrginu um samskipti ákærða og B. Eftir að C fór úr Byrginu í júní 2005 kvaðst hún hafa verið í endurhæfingu í Byrginu, sem hafi falist í starfsþjálfun, hún hafi þurft að skila sér þar inn allavega þrisvar í viku, á fyrirlestra og til að þýða fyrir ákærða. C kvaðst þá alltaf hafa verið inni hjá ákærða, hún hafi þurft að uppfæra diska og skrifa lög inn á tölvuna hjá honum og sinna mörgu öðru. Ákærði hafi verið eina manneskjan sem hún hleypti að sér en hann hefði komið í veg fyrir að hún gæti átt í einhverju vináttusambandi við aðra með því að einangra hana. Ákærði hafi séð til þess að hún væri bara með honum og gæti bara treyst honum. Ákærði hefði meðal annars sagt öðrum í Byrginu að hún væri geðveik og gengi til geðlækna.

Þá kvaðst C hafa farið í brjóstastækkun sem ákærði hefði greitt fyrir sig. Ákærði hefði rætt við lýtalækninn og greitt aðgerðina með Visa-raðgreiðslum.

Aðspurð kvaðst C oft hafa fengið að nota síma ákærða og meðal annars sent úr honum smáskilaboð ef hún átti ekki inneign en neitaði að hafa sent sjálfri sér smáskilaboð úr síma ákærða. C kvaðst hafa ákveðið að geyma smáskilaboðin frá ákærða þó svo að hún hafi verið búin að eyðileggja skjá símans þar sem hún taldi að það mætti hjálpa henni síðar þar sem ákærði hefði verið með sífelldar hótanir um að hún yrði gerð burtræk frá Byrginu auk þess sem hann hefði talað um spádóma frá Guði ef hún myndi hætta með ákærða og að hún yrði þá dópisti og hóra.

Aðspurð um þær myndir sem C hefði lagt fram hjá lögreglu við rannsókn málsins kvað hún þær vera af ákærða. Þá neitaði C því að hafa breytt ljósmyndunum eða vídeómyndunum, kvaðst ekki kunna slíkt. C kvaðst einnig hafa haft fullan aðgang að tölvu ákærða í Byrginu þar sem hún hefði notað tölvuna vegna þýðingarvinnu sinnar. Hún neitaði því hins vegar að hafa sett efni ótengt ákærða í hans tölvu en hún hefði flutt efni úr tölvu ákærða yfir í sína tölvu með svokölluðum „flakkara“ en ákærði hefði sjálfur komið með hann til hennar að X. Þá neitaði C  því að hafa haft nokkuð með Bluetooth-búnað að gera sem ákærði kvað hana hafa komið fyrir í tölvu hans.

Aðspurð um vídeóupptöku af ákærða og C, sem fór á veraldarvefinn, kvað C alrangt að hún hafi byrlað ákærða smjörsýru þegar myndbandið var tekið en það myndband hafi verið gert í ágúst eða september 2006 með samþykki ákærða, enda hafi hann komið heim til hennar eftir það og skoðað myndbandið. Þá neitaði hún því að hafa sett rödd ákærða inn á myndbandið, kvaðst ekki kunna slíka tækni. Þá kvaðst C ekki hafa átt við neina af þeim myndum sem hún afhenti lögreglu við rannsókn málsins. Aðspurð um ljósmynd þar sem ákærði sést í forgrunninn en bifreið hans sést einnig og C, kvað hún ákærða hafa sjálfan tekið þá ljósmynd en hann hefði haldið á myndavélinni út frá sér og tekið myndina. Þá staðfesti C að hafa tekið myndskeið 1-10 og 22-27 sem liggja frammi í málinu en meðal annars sjáist vel á einu myndskeiðinu armbandsúr ákærða. Ákærði hafi alltaf gengið með þetta úr en hann hefði stundum skilið það eftir í pontu, gleymt því þar og einhver skósveina hans hlaupið og náð í það. Allir hefðu þekkt úrið.

C kvaðst hafa verið búin að ná sér vel frá neyslu þegar hún hóf kynlífssamband við ákærða. Líf hennar hafi hins vegar snúist á allt annan veg eftir að því lauk auk þess sem mál þetta hafi haft mikil áhrif á aðra í fjölskyldunni. C kvaðst hafa reynt að leita sér hjálpar og gengið til sálfræðinga og annarra ráðgjafa en hún sé nú ófær um að tjá tilfinningar sínar. Hún sé nú að fara í afplánum og kvaðst vera sátt við að fá þar tækifæri til að ná áttum. Aðspurð kvað C kynferðissambandið við ákærða algjörlega hafa skemmt alla meðferðarvinnu sem hún hafi verið byrjuð í. Ákærði hafi freistað hennar með amfetamíntöflum en hún ekki fallið á þeim tíma. Hún hafi hins vegar fallið í algjört rugl eftir Kompásþáttinn og meðal annars verið svipt sjálfræði um tíma.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu þann 6. febrúar 2007 vegna kæru C og neitaði að hafa nokkurn tíma átt í kynferðislegu sambandi við C. Ákærði staðfesti að C hafi verið í meðferð í Byrginu að Efri-Brú frá 9. apríl 2004 og líklegast fram í apríl 2005 en þá hefði öllum afskiptum Byrgisins verið lokið og hún ekki verið í neinni meðferð á vegum Byrgisins. Ákærði kvað að samkvæmt dagbókarfærslum vaktmanns í Byrginu hefði C verið vísað þaðan út 5. nóvember 2006. Ákærði kvað C hafa verið mjög illa farna eftir stöðuga tveggja ára neyslu þegar hún kom í Byrgið og fljótlega hefði þurft að færa hana á sjúkrahús vegna stöðugra blæðinga úr kynfærum eftir nauðgun. C hefði stundað meðferðarprógramm en tveimur mánuðum eftir komu hennar í Byrgið hefði hún stungið af en komið fljótlega aftur. Meðferðarprógrammið hafi verið fyrirlestrar og sjálfstyrking, sem m.a. var byggt upp á 12 spora kerfi AA-samtakanna. Eftir sex mánaða veru C í Byrginu hafi hún byrjað að sækja meðferðarviðtöl hjá honum og þá hefði endurhæfingarprógramm hafist hjá henni og hún sótt um að vera starfsmaður. Meðferðarviðtölin hafi fyrst og fremst snúist um að hún fengi dóttur sína til baka og hún fengi íbúð í Reykjavík. Ákærði kvaðst geta staðfest þá frásögn C að hún hefði fengið þær fregnir að dóttir hennar færi mögulega í fóstur en hún hefði sagt honum frá því í fyrsta viðtalinu hennar. Í því meðferðarviðtali hefði ákærði sagt C hvernig hann hefði byggt upp traust í sambandi við hans börn er hann hefði hætt að drekka og einnig tjáð henni að ef hún vildi ná bata í neysluvandamálum sínum þá myndi hann aðstoða hana. Þetta hafi komið í kjölfarið á samræðum þeirra vegna áhyggjanna sem C hafði vegna dóttur sinnar ef hún yrði sett í fóstur. Ákærði kvað C hafa dvalið hjá móður sinni í Reykjavík um jólin 2004 og þá hefði ákærði stundum tekið C með sér austur þar sem hún hafi verið að byrja að vinna við þýðingar á endurhæfingarprógrammi fyrir Byrgið. Það hafi síðan verið undir vor 2005 sem C hafi verið alfarin úr Byrginu þar sem hún hafi fengið íbúð á vegum Reykjavíkurborgar. Á þeim tíma hafi C þurft að koma í lofgjörðir og til að taka þátt í lofgjörðaræfingum að jafnaði tvisvar í viku yfir daginn. Ákærði kvaðst um haustið 2005 hafa verið undir stöðugu álagi og ásókn C sem hafi gert það að verkum að hann hafi þurft að minnka meðferðarviðtöl annarra vistmanna. Á þessum tíma hefði C sótt lofgjörðaræfingar og hún hafi tekið dóttur sína með sér austur en fljótlega hafi borist kvartanir til hans um að dóttir C væri þarna í reiðuleysi á meðan C var í lofgjörðarsöng. Hann hefði því ákveðið að láta C hafa lykil að viðtalsherbergi hans og íverustað í þeim tilgangi að dóttir hennar gæti verið inni í herbergi hans á meðan C væri í lofgjörðinni. Ákærði neitaði því aðspurður að hafa sagt C frá því að hann hafi verið notaður kynferðislega í sveit af húsfreyju og dætrum hennar eða að hafa rætt við hana um hjónaband sitt. Ákærði neitaði því einnig að hafa rætt um BDSM-kynlíf við C, sýnt henni myndir og sagt að hann væri að taka að sér stúlkur sem Sub eða slave. Ákærði neitaði að hafa gefið C gjafir en hann hefði greitt henni 1.200.000 krónur á ársgrundvelli fyrir að vinna að þýðingum fyrir hann persónulega. Ákærði neitaði að hafa keypt fatnað handa C, hins vegar hafi hann gefið henni fyrir einum gallabuxum fyrstu jólin sem C var í Byrginu. Þá hefði hann í tvígang lánað C fyrir fatnaði og greitt með símgreiðslu af Visa-reikningi sínum. Ákærði neitaði að hafa keypt farsíma handa C en hann hefði útvegað henni einn farsíma á meðan hennar sími var bilaður en hún síðan skilað símanum. Þá neitaði ákærði að hafa keypt bifreið handa C og kvaðst ekki hafa lánað henni peninga til bifreiðakaupa. Ákærði neitaði því að hafa sagt eða gefið í skyn við C að hann vildi að hún yrði nemandi hans, submissive, í BDSM-kynlífi og sagðist aldrei hafa átt kynlíf með C er hún var í meðferð í Byrginu að Efri-Brú. Ákærði kvað ósannan framburð C um að hann hafi þann 18. nóvember 2004 rætt BDSM-kynlíf við hana, rætt um og nuddað blett á baki hennar og haft við hana mök og þá í fyrsta sinn. Kvaðst ákærði hafa þennan dag verið að undirbúa afmælisveislu sína í sumarbústað að Laugarvatni sem hann hefði fengið afhentan þennan sama dag. Ákærði neitaði því að hafa átt í kynferðislegu sambandi við C í um tvö ár og að síðasta kynferðislega samneyti þeirra hafi átt sér stað þann 5. desember 2006 á heimili C. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa farið á heimili C þann dag. Kvaðst hann hafa komið þar í þrígang.  Í eitt skipti hafi hún haft samband við hann vegna þess að hún væri búin að fá hótun um nauðgun af fyrrum skjólstæðingi Byrgisins. Í kjölfarið hafi hann og tveir aðrir starfsmenn skipst á að athuga með C á heimili hennar. Þetta hafi verið um það bil hálfu ári eftir að hún flutti úr Byrginu. Í annað sinn hafi verið vegna bílaviðskipta hans en C hafi tekið að sér að þrífa bílaleigubíl er hann hafi verið á og þurfti að skila hreinum. Þetta hafi verið fyrir tæpu ári. Í síðasta skiptið er hann hafi farið inn á heimili C segir ákærði geta hafa verið þann 5. des. 2006 en hann segist ekki geta fullyrt það. Í umrætt sinn hafi hann fengið smáskilaboð frá C þar sem hún hafi beðið hann um að kaupa lyf handa dóttur hennar sem væri veik og einnig hafi hún beðið hann um að kaupa brauð, mjólk og annað til heimilisins. Hann hafi farið í verslun í Hólahverfi og síðan farið með þær nauðsynjavörur til C og dvalið í u.þ.b. 15 mínútur.

Ákærði kvað að í byrjun október 2006 hefði C spurt hann að því hvort hann vildi sitja fyrir í ljósmyndatökum en hún hefði sagst hafa mikinn áhuga á ljósmyndun og vildi reyna fyrir sér í því fagi. C hafi afhent honum bækling sem hafi innihaldið teikningar af konulíkömum í fjötrum, konum af asísku bergi brotnar. Ákærði hafi séð að þarna hafi verið myndir sem flokka mætti undir líkamsbindingar og hefði hann tekið bæklinginn með sér og sýnt konu sinni, J. Hann hafi ákveðið að skila bæklingnum til C og ætlunin hafi verið að gera henni það alveg ljóst að það kæmi ekki til greina að hann sæti fyrir á ljósmyndum hjá henni eins og ljósmyndirnar sýndu í bæklingnum. Ákærði segir að hann hafi komið í íbúð C að X á tímabilinu kl. 21:30 til 22:30 þennan dag. Hann hafi rætt við C og þegið hjá henni kaffisopa og hún hafi sýnt honum ljósmyndavél, vídeóupptökuvél á þrífæti, ferðatölvu, harðan disk og ferðageislaspilara. Síðan gerðist það að hann hafi fundið til vanlíðanar og farið í „blackout“, óminnisástand. Það næsta sem hafi gerst var að hann rankaði við sér um nóttina og þá hefði hann verið einn í íbúðinni, liggjandi í sófa í stofunni og verið klæddur í boxer-nærbuxur, í skyrtu og sokkum en gallabuxur hans hafi legið á gólfi við hlið sófans. Kvaðst ákærði hafa verið nokkuð lengi að átta sig á því hvað hafi gerst og hvernig væri komið fyrir honum og hann hafi séð að allur búnaður C hafi verið farinn úr íbúðinni. Hann hefði ekið að Efri-Brú um Nesjavallaleið og á leiðinni hefði honum verið óglatt og hann fengið svima. Kvaðst ákærði hafa farið í skrifstofu sína að Efri-Brú og verið þar kominn um klukkan sex en hann hefði átt að vera mættur til vinnu um klukkan sjö um morguninn. Hann hefði lagt sig en sofið til klukkan eitt um daginn og starfsmenn sagt honum að ekki hefði gengið að vekja hann um morguninn. Fljótlega eftir að hann vaknaði hafi hann tekið úr bakpoka sínum ýmislegt sem hann þurfti að nota við vinnu sína þann daginn og hann hafi í bakpoka sínum fundið áfengispela í einu hólfi pokans. Það hefði komið honum mjög á óvart að finna pelann, sem hafi verið vodkapeli, og við skoðun hans mátti sjá þykkan vökva, gulleitan. Það hafi verið smálögg í pelanum og hefði hann fundið við að þefa úr honum að innihaldið var smjörsýra en hann hefði þekkt það á lykt og útliti. Ákærði kvaðst ekki hafa sagt nokkrum frá þessu fyrr en eftir 19. nóvember 2006 en þá hefði C farið að senda honum mikið af klúrum smáskilaboðum og gefið í skyn að eitthvað hefði átt sér stað. Meðal annars hefði hann fengið eftirfarandi skilaboð þann 20. nóvember 2006: „Ekki reyna neitt thetta er allt a flakkara a öruggum stad.“ Við þessa sendingu hefði hann fengið sterkar vísbendingar um að eitthvað hefði gerst sem honum væri ekki kunnugt um.

Aðspurður um tölvusamskipti ákærða og C kvaðst hann hafa verið í tölvusambandi og í sms-samskiptum vegna þýðingarvinnu hennar. Aðspurður um netfang hans kvaðst hann hafa verið með netföngin gummijons@simnet.is og einnig notað netfangið gummijons@byrgid.is. Þessi netföng hafi hann notað í gegnum tíðina. Ákærði kvaðst vita að C hafi notað hans auðkenni til samskipta á spjallrásum á netinu. Ákærði neitaði því aðspurður að hafa sent C myndskeið, hreyfimyndir eða myndupptökur úr farsímum í samskiptum þeirra fyrir utan sms-skilaboðin, en C hefði sent ákærða ljósmyndir teknar af farsíma hennar en um væri að ræða nektarmyndir af henni sjálfri. Aðspurður um vídeóskrár og myndir af ákærða og C í tölvu hennar kvað ákærði rangt að myndir væru af honum þar. Ákærði staðfesti það sem kom fram hjá vitninu H að C hafi sótt meðferðarviðtöl hjá ákærða í herbergi nr. 10 á hótelinu en kvað C aldrei hafa sótt viðtöl í kofa númer eitt þar sem ákærði bjó um tíma. Ákærði staðfesti þó að B hefði búið í kofa númer tvö fyrstu þrjár vikurnar eftir að ákærði flutti í kofa númer eitt. Aðspurður um vitnisburð H um að C hafi verið svokallaður skoppari þegar hún kom fyrst í Byrgið, og síðan hefði það gerst að hún hefði farið að klæðast nýjum og dýrum fatnaði og hún og ákærði eytt miklum tíma saman á öllum tímum dagsins, kvað ákærði þann vitnisburð þvælu og rangan. Ákærði kvað, aðspurður, það rétt að C hafi gist í meðferðarherbergi hans númer 10 og í kofa eitt en þá hefði ákærði ekki verið á staðnum. Kvaðst ákærði vilja upplýsa að C hefði í eitt sinn skriðið upp í rúm hans er hann var sofandi fótbrotinn og undir áhrifum verkjalyfja en hann hefði ekki áttað sig á þessu fyrr en um morguninn er hann vaknaði og þá með hana við hlið sér í rúminu. Ákærði neitaði því að hafa sagt H að C ætti erfitt og hann leyfði henni þess vegna að vera hjá sér, er H spurði ákærða að því hvers vegna C gisti margar nætur hjá honum.

Ákærði gaf aftur skýrslu fyrir lögreglu þann 21. mars 2006 og voru þá gögn sem fundust í tölvu og farsíma C borin undir ákærða. Aðspurður í upphafi skýrslutökunnar neitaði ákærði að hafa verið í kynferðissambandi við C. Farið var yfir geisladisk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem er merktur diskur 1 af 2, og þegar sá diskur er opnaður er mappa merkt Gögn sem C afhenti í skýrslutöku.  Nokkur myndskeið voru skoðuð sem ákærði kvaðst ekki kannast við. Skrá merkt HR5 mynd 000.3gp (26. skrá) er opnuð og er ákærði beðinn að tjá sig um myndskeiðið. Ákærði kveðst hafi tekið upp þetta myndskeið og hann hafi sent eiginkonu sinni það á heimleið, enda hafi hann þá verið búinn að vera í burtu frá heimili sínu í fjóra daga. Kvaðst ákærði, þegar heim var komið, hafa hreinsað myndskeiðið út úr símanum sínum og fært það yfir á tölvu hans ásamt öðrum gögnum sem hann vildi geyma. Þetta myndskeið hafi þvælst með í tölvuna og neitaði hann að hafa sent C þetta myndskeið. Nokkur myndskeið voru opnuð af handahófi og við skoðun á þeim voru m.a. myndskeið sem C hafði tekið af sjálfri sér og er ákærði spurður hvort C hafi sent honum myndskeið um farsíma. Ákærði kvaðst kannast við að hafa séð sum þessara myndskeiða af C og sagði að hún hefði sent honum myndskeið og einnig eiginkonu sinni, J. Að auki hafi C komið fyrir í tölvu hans sams konar myndskeiðum. Þá kvaðst ákærði vita til þess C hafi eytt háum fjárhæðum til myndavélakaupa ásamt tæknibúnaði til myndgerðar, ásamt forritum sem hún hafi keypt af netinu. Næst var farið yfir möppu sem er merkt Ljósmyndir. Ákærði kvaðst kannast við sig þarna á tveimur ljósmyndum vegna húðflúrs á hægri öxl og telji hann að þessar ljósmyndir hafi verið teknar á heimili C að X. Aðspurður hvenær þessar myndir hafi verið teknar segist Guðmundur telja þær hafa verið teknar í sepember eða október. Aðspurður hvort þessar ljósmyndir megi tengja BDSM-kynlífsathöfnum og snertir kæruefni C segir ákærði þessar ljósmyndir megi tengja BDSM-kynlífsathöfnum þar sem hann sé bundinn og heftur en að öðru leyti segist ákærði vísa í fyrri framburð sinn. Þá voru vídeóskrár bornar undir ákærða. Skrá merkt „Title3.mpg“ var skoðuð og ákærði beðinn að tjá sig um innihald upptökunnar. Ákærði kvaðst ekki kannast við upptökuna. Kvað hann rétt að upptakan hafi verið gerð inni á skrifstofu hans í útvarpshúsinu í Byrginu en það sé ekki hann sem sé að binda upp liminn. Kvað ákærði að það hafi margsinnis verið brotist inn á skrifstofu hans í útvarpshúsinu, hurðarkarmar brotnir og gluggar spenntir upp og sjáist þau ummerki enn í útvarpshúsinu. Ákærði kvaðst ekki kannast við nánar tilgreind myndskeið sem honum voru sýnd. Þá var farið yfir mikið af word-skjölum sem tengdust BDSM-kynlífi en ákærði kvaðst ekki kannast við þau. Ákærði er beðinn að tjá sig um skjalið „Í Stórum dráttum hef ég farið yfir það með þér 17.11.05.doc“. Ákærði kvaðst þarna hafa verið að svara C en hún hafi bætt inn í textann sem sé rauðletraður. Um sé að ræða bréf C sem hún ritaði en það bréf væri bleikt að lit og hefði hann lagt það bréf fram í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu. Ákærði kvaðst þarna hafa verið að svara C með orðum Guðs vegna hennar þráhyggju sem komi fram í bréfi hennar. Skjalið Próf King and.doc kvaðst ákærði ekki hafa séð áður. Skjalið Spjallið okkar.doc kvaðst ákærði ekki hafa sent C áður. Skjöl með heitunum Tilgangur munalosta1.doc, Tilgangur munalosta2.doc og Tilgangur munalosta.doc voru borin undir ákærða sem kvaðst ekki kannast við þau.  

Þann 23. mars 2007 mætti ákærði aftur til skýrslutöku hjá lögreglu til að fara yfir skjöl sem lögð höfðu verið fram við rannsókn málsins. Ákærði lagði fram geisladisk og voru skjöl og myndir skoðaðar sem ákærði kvað stafa frá C og hún hefði sent sér í farsíma sinn og hann síðan sett í tölvuna sína, svo og hefði C plantað skjölum í tölvuna sína. Nokkrar myndir voru skoðaðar og kvað ákærði þetta vera ljósmyndir sem C hefði sent honum úr farsíma hennar í hans farsíma og þessar myndir væru hluti mynda sem C hefði sent honum, öðrum myndum hafi hann eytt strax en hann hefði ekki beðið C um þessar myndir. Ákærði segir að C hafi verið að senda honum ýmsar ljósmyndir af sér af þessum toga meira og minna allt árið 2006. Ákærði var spurður út í samskipti hans við C er lutu sérstaklega að sms-skilaboðasamskiptum. Ákærði kvað að vistmenn Byrgisins hefðu í gegnum tíðina fengið farsíma hans lánaðan til þess m.a. að senda sms-skilaboð þar sem fólkið hafi ekki átt innistæðu. C hafi oft fengið farsímann lánaðan og í eitt sinn hafi hún m.a. fengið farsíma hans lánaðan nokkrum mínútum fyrir samkomu. Síðan hefði C lagt sinn farsíma á áberandi stað á skrifstofu hans í þeim tilgangi að dóttir ákærða sæi síma C. Svo hefði farið að dóttir hans fann farsíma C, síminn hafi verið opinn og ljós á skjánum og við blöstu ástarjátningar hans til C. Þetta hafi gerst líklegast haustið 2005. Ákærði segir að C hafi einangrað hann og lagt mikla vinnu í að raska heimilisfriði, m.a. lamið á glugga á sumarbústað þar sem hann hafi verið með fjölskyldu sinni, en við þessi tilvik hafi C ætíð sent honum sms-skilaboð og hann þá þurft að svara þeim með þeim hætti að koma á ró. Síðustu sms-skilaboðin sem hann hafi fengið frá C hafi verið 19. nóvember 2006 en þá hafi komið röð sms-skilaboða frá henni um heimboð til hennar. Um tveimur dögum síðar hafi hann fengið sms-skilaboð frá C þess efnis að hún hefði allt á flakkara og hann skyldi ekki reyna að gera neitt. Eftir þann tíma hafi hann fengið nokkur sms-skilaboð frá C sem hafi verið hótanir en tvenn sms-skilaboðanna hafi verið á þá leið: „viltu semja“. Aðspurður um sms-skilaboð sem hann hafi sent C kvað ákærði að eftir 19. nóvember 2006 hafi hann svarað C  sms-hótunum hennar og svarað áðurgreindum tveimur sms-skilaboðum um samningstilboð.

Þá var farið yfir disk frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem er merktur Diskur 2 af 2 og þar er að finna möppu merkta Vídeóskrár 2. Undir þeirri möppu er skrá er ber heitið „night session for queen sasha and her slave scorpius panther.avi.“ Lagði C fram frumgerð upptökunnar sem var 34,02 mínútur að lengd og sýnir að sögn C hana og ákærða í BDSM-kynlífsathöfnum að X, heimili hennar. Ákærði kvaðst ekki vita til þess að hann sé þarna á upptökunni en samkvæmt auðkennum sem megi sjá þá sé þetta mögulega hann, þrátt fyrir að andlit hans sjáist ekki. Aðspurður kvaðst ákærði hafa tvö lítil húðflúr, annað á hægri öxl og hitt á vinstri upphandlegg. Ákærði kvað, eftir að hafa horft á myndbandið, að þar væri um kynlíf að ræða sem hann þekkti ekki og þarna væri verið að pína hann, þarna sé um kynferðislega misneytingu að ræða, enda ljóst að karlmaðurinn sé undir áhrifum lyfja og hlýði skipunum. Samkvæmt framburði C var myndbandsupptakan gerð á heimili C og sýnir hlutverkaskipti á BDSM-drottnunarleik þar sem ákærði sé undirgefinn aðili en C í hlutverki drottnara. Ákærði kvaðst ekkert hafa um þann framburð C að segja. Farið var yfir myndir og gögn úr farsíma C með ákærða. Ákærði neitaði að hafa gefið C farsíma. Skrá merkt „Gummi.3gp“ er skoðuð og segir ákærði það ljóst að þarna sé um að ræða samsett tvö myndskeið. Fyrra myndskeiðið hafi hann séð áður í yfirheyrslu og honum verið tjáð að það væri úr tölvu C. Varðandi seinni samsetninguna segir ákærði að þegar andlit hans sjáist þá hafi hann verið að koma í fyrirlestur í Byrginu, hann hafi komið of seint. Einn vistmaður með farsíma hafi tekið hann upp, myndskeið, þar sem andlit hans sjáist og hann hafi sagt „Ekki stanna nu“. Ákærði kveðst ekki muna hvaða vistmaður það hafi verið sem tók myndskeið af honum við Byrgið en það sé ljóst að hans mati að þarna hafi C sett þessi myndskeið saman og búið til eitt sem honum sé sýnt. Ákærði segir að C hafi einnig sett hljóð saman við upptökuna sem hún hafi búið til. Skráin „Hr.myndgummi.3gp.“er skoðuð og kveðst ákærði ekkert hafa um það að segja. Þá voru fleiri myndskeið skoðuð með ákærða og kvað hann C hafa bætt hljóðum inn á valdar myndir. Skrá merkt „kjjhgh(1).3gp“ er skoðuð og kvað ákærði sig gruna að hljóðinu í upptökunni hafi verið bætt inn í myndskeiðið. Þegar hann hafi verið fótbrotinn, í gifsi, hefði C borið í hann mat og í eitt sinn hafi hann rekið fót sinn í rúmgaflinn. Í umrætt sinn hafi hann rekið upp sársaukahljóð og hann segist kannast við það sársaukahljóð í umrætt sinn sem sé komið í myndskeiðið. Í lögregluskýrslunni eru talin upp 92 smáskilaboð úr farsíma ákærða í farsíma C á tímabilinu 6. nóvember 2006 til 30. desember 2006. Ákærði ber því ýmist við að hann muni ekki til þess að hafa sent sum skilaboðin, hann viðurkennir að hafa sent önnur og þá að aðrir hafi komist í síma hans og hljóti að hafa sent umrædd skilaboð. Verða nokkur skilaboð rakin hér. Sent 22. nóvember 2006: „Thad er margt sem thu kærir mig fyrir. En engin engill sjálf. Ég tred ekki framani thig thvi sem mér fanst miður vera hjá thér, og ég tók ekki myndir af ther/elsku minni né af okkur elskast til að nota gegn thér. Myndir tekknar i vantrausti og merkingu thess ords en ekki af ást og trausti. Thad er munurinn á okkur. Gud gefur mér tima og grædir sár, og thad var bara ein, bara thú, en thig skorti traust til ad trúa mér, threngdir ad og ég fór frá, kæfing ástarinnar í kapphlaupi sjálfs upphafningar thar sem engu skyldi vægt, nornaveidar og nornabál. Mér er sama um hótanir thínar. En ég kem og sæki thad sem thú telur mig, hræsnarann eiga heima hjá thér, thegar ég borga thér.“ Ákærði neitaði að hafa skrifað ofangreind skilaboð utan frá og með „Mér er sama um hótanir …“ Skilaboð send 23. nóvember 2006 klukkan 15.28: „Auddad langar mig ligaranum, á milli thina barma, með krilid mitt. Og vera thar um ókomna tid ef verid gæti án thess ad vera med læti.“ Skilaboð send 23. nóvember klukkan 18.37: „Vildi ad ég hefdi haft meiri tima, langadi ad fá mér latex-boxer buxur. Eg verd varla spennandi i kvöld, ég fæ thad i kvelli“ Ákærði neitar að hafa sent þessi skilaboð. Skilaboð send 30. nóvember 2006 klukkan 00.26: „Jú thad breytir tvi engin ad ég elska thig, thó svo thú finnir thad ekki. En ennn gæti verid ad sjálfseydingar hvöt sé í thér“ Ákærði kannaðist ekki við að hafa sent þessi skilaboð til C en kannaðist við að hafa sent þau til konu sinnar. Skilaboð send 1. desember 2006 klukkan 21.47: „I love you more an i can say. I love you more en tways 2morow i love you ore an i can saying ég hef ekki tekið adra framyfir thig.“ Ákærði neitar að hafa sent þessi skilaboð. Skilaboð send 9. desember 2006 klukkan 00.54: „Skilinn og ekki skilinn, hverju skiptir thad i dag. Thid hafid verid ad kasta hlut um klædi min. En skiftid engu lengur á milli ykkar af mér. Ég set annad númer i gang og slekk á thessu núna og mér kemur ekki við lengur thad sem thid bitist á um.“ Ákærði kvaðst hafa sent C þessi skilaboð og tilefnið hafi verið að hann var orðinn þreyttur á öllum þessum árásum á hann. Skilaboð send 9. desember 2006 klukkan 2.47: „ég legg inn, ég kem með thetta dót thitt i bæin á eftir, en thad kemst allt i póskassann. Ég sagdi ekki thessi ord um thig og hef aldrei gert. Ligar og Helgu tókst ad ljúga i thig og segja thér ad hyrda mig thvi hún væri skilinn vid mig, til ad yta undir bullid sitt, og thú hafdir lofad mér ad hætta smsast vid hana, thvi sagdi ég skilinn og ekki skilinn hverju skiptir thad. Hún segir thér ekki skilinn, thú trúir thvi samkvæmt sms um thinum til min med úldnum ordaforda, og segist elska mig, thad var thá astin sem thú syndir mér. Og hótarnir thinar voru ekki yndisthokkinn“ Ákærði kvaðst hafa sent C þessi skilaboð af sama tilefni og að ofan. Skilaboð send 9. desember 2006 klukkan 9.36: „Hún vill thad ekki, hentu thví ég tharf thad ekki og ég legg konur og bindingar á hilluna thær hafa ekki allt mitt lif reynst mér vel og alls ekki vinir. Nei ekki aldeilis ég var ad koma í bæin á fund.“ Ákærði neitaði að hafa sent C þessi skilaboð og kvaðst ekki hafa neinar skýringar á þeim. Skilaboð send 28. desember 2006 kl. 1.31: „Audvitad eru men reidir. Min megin lika thú segir okkur saman en svo er ég kærdur af thér fyrir kynferdislega áreittni og thú talar opinskátt um mina fortid í sjónvarpi. Vá who needs a love hugs from dad know. U and me“ Ákærði kvaðst hafa sent þessi skilaboð.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu þann 20. ágúst 2007 í þeim tilgangi að fara yfir gögn úr tölvu hans sem var haldlögð við rannsókn málsins. Í upphafi skýrslutöku var ákærði spurður að því hvort hann hafi í starfi sínu í Byrginu innt af hendi störf s.s. ráðgjafi, meðferðaraðili og trúarleiðtogi og kvað ákærði það vera rétt. Þá kvaðst ákærði vera búinn að greiða C persónulega á fjórtán mánaða tímabili á aðra milljón króna fyrir þýðingar sem hann hefði beðið hana að vinna. Ákærði staðfesti aðspurður að hafa verið í sumarbústað að Laugarvatni þann 18. nóvember 2004 þar sem hann hefði haldið upp á afmæli sitt auk þess að hafa verið þar í sumarbústað í byrjun ágúst 2006. Ákærði var beðinn að tjá sig um 35 ljósmyndir í möppunni sem er merkt Ljósmyndir í tölvu hans en ljósmyndirnar eru m.a. af C. Ákærði kvað ljósmyndirnar vera komnar til með marvíslegum hætti. Þær væru m.a. komnar til af sendingum úr farsímum í síma hans og J. Sumar ljósmyndirnar væru þarna komnar frá starfsmönnum Byrgisins, s.s. myndir af bíl. Einhverjar myndir af C væru komnar frá Ú sem var unnusti C til þriggja mánaða en Ú lét hann fá disk með ljósmyndum þegar Ú og C slitu samvistum. Þarna væru einnig ljósmyndir sem hann telur að C hafi sjálf sett inn á tölvuna hans. Ákærði var inntur eftir nokkrum skjölum sem talin eru stafa frá honum og tengjast kynlífi og kvaðst hann ekki kannast við þau eða taldi þau stafa upphaflega frá C sem hefði sent þau til hans og hann vistað þau skjöl eða myndir í heimilistölvu sinni.

Ákærði kom fyrir dóm og lýsti komu C í Byrgið svo að hún hefði verið mjög illa farin þegar hún kom þangað og hefði þá fljótlega verið flutt með sjúkrabifreið á sjúkrahús vegna afleiðinga nauðgunar en komið aftur eftir um tvær til þrjár vikur. C hefði fylgt prógrammi en ekki sótt viðtöl og ekki gert í sjö mánuði. Ákærði kvað upplýsingar um skráningu C í Byrginu samkvæmt heildarskrá Landlæknisembættisins frá 10. apríl 2004 til 31. maí 2004 og aftur frá 10. júní 2004 til 1. nóvember 2006 vera misskilning, að hún hafi ekki verið skráð út fyrr því hún hafi verið skráð í þeim tilgangi að fá örorkubætur. Eftir fyrstu sex mánuðina í Byrginu máttu vistmenn vera í framhaldsmeðferð þó svo að þeir byggju ekki á svæðinu ef þeir væru búnir að ná þeim grunni að þeir gætu verið sjálfbjarga. Telji vistmenn sig ekki vera tilbúna til að búa annars staðar mega þeir dvelja áfram en vinna annars staðar en þeir þurfi alltaf að tilkynna sig og koma á staðinn. C hefði farið í burtu um jólin 2005 og ákærði hefði hjálpað henni að fá íbúð hjá félagsmálayfirvöldum í Reykjavík. C hafi verið í vinnu hjá ákærða áfram og hjá Byrginu. C hefði viljað vera í Byrginu áfram þar sem hún taldi það hjálpa sér. Í fyrstu hefði C ekki verið á bifreið og því oft fengið far með honum. C hefði fylgst vel með ferðum hans í gegnum msn-samskipti við dóttur ákærða, hvenær hann væri að fara að heiman og jafnvel hringt í sig eftir að hann var farinn að heiman og þá fengið far með sér. Eins hefði verið á kvöldin þegar hún fór frá Byrginu en C hafi verið komin í sína íbúð að því er ákærða minnti í maí 2005. C hefði verið í vinnu áfram í Byrginu og unnið á skrifstofu ákærða. Hún hefði séð um að prenta út ýmis skjöl auk þess að sjá um þýðingar en hún hafi verið að þýða erlenda meðferðarkúrsa sem ákærði hugðist nota seinna í meðferð sem hann ætlaði sér að fara út í fyrir ungt fólk og fyrir börn á grunnskólaaldri. Þá hefði C einnig verið í lofgjörð og verið mjög dugleg þar. Þar þurfti hún að mæta á æfingu tvisvar til þrisvar í viku á kvöldin og allavega tvisvar til þrisvar þurfti hún að syngja, þannig að þetta gat verið hvert kvöld þess vegna, en það fór eftir því hvernig æfingarnar voru. Allra veðra var von yfir vetrartímann og því hefði C fengið lykil að húsakynnum ákærða, sem var skrifstofan, og mátti C þá leggja sig þar ef hún kæmist ekki heim. Þetta hafi verið hús 1, og við hlið hennar í húsi 2 hafi H búið. Mjög hljóðbært hafi verið á milli herbergja en hús 1 og hús 2 hafi verið tvö samliggjandi herbergi í sama húsi. Aðspurður um meðferðarviðtöl C kvað ákærði hana hafa komið í meðferðarviðtal á áttunda eða níunda mánuði eftir að hún kom í Byrgið. Þá var hún byrjuð sem sjálfboðaliði í þvottahúsi og einhverjum svona hreingerningum og öðru, líkaði það nú ekki vel en var dugleg samt. Þau viðtöl sem C hefði sótt hefðu ekki verið mörg, þau hefðu verið teljandi á fingrum annarrar handar, innan við fimm viðtöl, hún hefði sýnt alla takta þess að geta unnið vel, var opin og talaði um allt og ekkert. Ákærði kvaðst ekki geta tímasett það hvenær C hefði komið í síðasta viðtalið því ef þau voru að vinna tvö saman þá hefðu þau einnig rætt saman í leiðinni um hennar persónulegu mál. Ákærði taldi að C hefði verið í síðasta ráðgjafaviðtalinu hjá sér um svipað leyti og hún flutti að X, Reykjavík. Ákærði kvað C hafa grátið þá mikið yfir því að hún væri að missa forsjána yfir dóttur sinni og ákærði hefði aðstoðað hana við að fá umgengnisrétt. Kvað hann C ekki hafa verið í viðtölum hjá sér eftir að hún var flutt í X, hún hefði ekki þurft á aðstoð að halda þá. Þá hefði ákærði rekið hana úr Byrginu. Ákærði kvað C segja lítið um sjálfa sig og því þekki ákærði hana lítið, hún hafi til dæmis aldrei trúað honum fyrir sínum einkamálum og innstu málefnum í meðferðarviðtölunum. Þau hefðu rætt skólagöngu hennar, erfiðleika heima hjá henni og áhugamál hennar en aldrei neitt sem skipti máli andlega séð. Aðspurður um þýðingarvinnuna sem C átti að vinna kvað ákærði hana hafa fengið enskan manual sem hún hefði farið með heim til sín og ætlað að vinna þar á hennar tölvu. Þar til að ákærði fengi manualinn fullgerðan myndi hann leggja um 60.000 krónur inn á hennar bankareikning, sem hann hefði gert þannig að stundum hefði hann lagt inn 10.000 krónur og í eitt sinn allt að 60.000 krónum. Síðan hefði C endurgreitt sér þetta eftir að hún var rekin úr Byrginu en þá hefði hún verið að heimsækja karlmann í Byrgið. Ákærði kvaðst hafa verið að greiða lögreglustjórasektir og fleira fyrir C og hún hefði lagt 600.000 krónur inn á bankareikning Byrgisins um það leyti sem hún var að yfirgefa Byrgið en þeir peningar hefðu átt að fara inn á hans persónulega reikning og með því flækt skattarannsóknina sem færi fram á fjármálum Byrgisins. Aðspurður um gjafir til C kvaðst ákærði hafa gefið henni gamlan farsíma. Þegar C hafði fengið fyrstu örorkuna greidda, sem hafi verið um 800.000 krónur fyrir sex mánuði, hefði hún farið að kaupa sér föt en ákærði kvaðst ekki hafa komið nálægt því að útvega henni bifreið. Þá hefði ákærði ekki gefið henni húsgögn eða annað í íbúðina að X fyrir utan að C hefði fengið að hirða einhverja smámuni úr herbergi sínu í Byrginu. Byrgið hefði oft fengið gjafir frá ýmsu fólki, s.s. húsgögn, og þá hefðu vistmenn fengið að nýta sér það þegar þeir flyttu í eigin húsnæði. C hefði hins vegar ekki nýtt sér þennan möguleika en hún hefði farið í geymsluna í Háholti 11, þar sem fullt af dóti var frá Rockville, og fengið að hirða nokkra stóla og borð. Undir ákærða voru bornir tveir reikningar, dagsettir 26. maí 2005, frá Elco vegna kaupa á kæli- og frystiskáp, örbylgjuofni og kaffivél, samtals að fjárhæð 65.290 krónur. Á reikningunum kemur fram að þeir voru greiddir með Visa-greiðslukorti. Ákærði kannaðist við undirskrift sína á reikningunum en tækin voru send að X og viðtakandi var C. Ákærði kvað þetta hafa verið gjöf frá einstaklingum í Byrginu, innflutningsgjöf, og þeir sem hefðu mætt í innflutningspartíið hefðu fært henni þessa gjöf þar sem hún væri að flytja í tóma íbúð og hefði staðið sig vel í meðferðinni. Það væri viðtekin venja í Byrginu að vera með eftirfylgd í sex mánuði frá því að fólk flytti úr Byrginu og svo hefði verið með C. 

Aðspurður um brjóstaaðgerð sem C gekkst undir í september 2005  kvað ákærði C hafa sagt sér að hún þyrfti í einhverja lýtaaðgerð og óskað eftir fyrirframgreiðslu til að greiða fyrir aðgerðina. Ákærði kvaðst hafa samþykkt það en ekki hafa haft þá fjárhæð sem þyrfti, um 200.000 krónur, til reiðu. Ákærði kvaðst hafa samþykkt að draga af henni mánaðargreiðslu, 80.000 krónur, og greiða eftirstöðvarnar með raðgreiðslum, sem hann hefði og gert. Honum hafi verið sagt að hann þyrfti að fara í Domus Medica og skrifa undir samning. Hann hefði gert það en ekki haft þá hugmynd um að það væri brjóstaaðgerð sem C væri að fara í. Það eina sem ákærða sagðist hafa dottið í hug væri lýtaaðgerð vegna þess að C hefði lýti á maga og handlegg eftir stungusár en H hefði séð um að senda stelpurnar í geislameðferðir eða einhvers konar lýtaaðgerðir og hefði ákærði haldið að aðgerð C væri ein af slíkum aðgerðum. Ákærði kvaðst aldrei hafa spurt að því hvers konar aðgerð C væri að fara í og honum hefði ekki komið það við. Hann hefði komist að því síðar að um brjóstaaðgerð var að ræða. Þá hefði hann komist að því síðar að fyrirframgreiðsluna sem C fékk fyrir þýðingarnar hefði hún notað til að greiða brjóstaaðgerðina.     

Aðspurður ítrekað hvort ákærði hafi átt í kynferðissambandi við C kvaðst ákærði aldrei nokkurn tíma hafa átt í slíku sambandi við hana nema þegar hún hálfpartinn svæfði ákærða og notaði hann en þá átti ákærði við atburðinn sem tekinn var upp á myndband og sýndur á netinu. Ákærði kvað C hafa verið búna að hóta sér og konu sinni að láta eitthvað í blöðin en þau hafi aldrei vitað hverju C var að hóta. Þá hefði C farið að senda þeim kynlífsmyndir af sjálfri sér í farsíma þeirra. Þegar myndbandið hafi verið tekið hefði ákærði verið í óminnisástandi. Ákærði hefði komið áður, tvisvar eða þrisvar, inn á heimili C. Eitt skiptið hefði C beðið sig um að sækja lyf fyrir dóttur sína, sem ákærði hefði gert. Nokkrum dögum síðar hefði C hringt aftur og tjáð sér að hún hefði ekki fengið endurhæfingarörorku eins og tvær aðrar stúlkur í Byrginu. Þegar ákærði kom heim til hennar í það skiptið hefði C boðið sér kaffibolla eins og í hinum tveimur skiptunum sem hann kom á heimili hennar. Ákærði taldi þetta hafa verið í byrjun október 2006. Á myndbandinu komi fram dagsetningin 8. október en það sé falsað því F, hans hægri hönd, hefði komið að sér eins og druslu þann 6. október og það passi vel miðað við það hvernig ákærða leið eftir atvikið. Eftir að ákærði hafði drukkið kaffi smástund fór honum að líða skringilega en hann kannist við ástandið, það sé eins og að komast í vímu sem ákærði kvaðst þekkja frá fyrri tíð. Fimm eða tíu mínútum seinna kvaðst ákærði hafa verið kominn í óminni og samkvæmt upplýsingum sem hann hafi leitað sér þá sé til einhver tafla og jafvel smjörsýra sem geri það að verkum að menn eigi til að fara í óminni eða blackout. Þá sé hægt að láta fólk gera hvað sem er og það hlýði. Viðkomandi virki svolítið slompaður. Aðspurður um að ákærði tali við C í myndbandinu kvaðst ákærði telja að það sé líklega falsað, tekinn hafi verið upp ræðustúfur í Byrginu og spilaður inn á myndbandið. Ákærði kvaðst hafa verið að hlusta á myndbandið um nóttina fyrir aðalmeðferð og hnotið um eitthvað en hann muni ekki alveg hvernig þær setningar voru, enda hafi hann verið þreyttur þegar hann fór yfir myndbandið. Ákærði kvaðst hafa hringt í son sinn sem hafi verið fíkill í smjörsýru og hann hefði sagt sér að viðkomandi tali og sjái eðlilega undir áhrifum smjörsýru en hugurinn fylgi ekki máli. Ákærði kvaðst síðan hafa vakna þarna um nóttina, einhvers staðar á bilinu milli klukkan fimm til sex, og þá inni í stofu allsnakinn utan að vera með boxerbuxur á hælunum. Enginn hafi verið í íbúðinni og ákærði klætt sig, tekið bakpokann sinn, sem hann hafði yfirleitt með sér á ferðum, og keyrt í Byrgið. Tvívegis á leiðinni upp eftir hefði sér orðið mjög óglatt og hann kastað upp og hefði hann lagst fyrir þegar hann kom á skrifstofuna og sofnað. Þá kvaðst ákærði hafa fengið upplýsingar um að H hafi komið á tíu til fimmtán mínútna fresti og barið á dyrnar hjá honum og reynt að vekja hann, sem ekki hefði tekist. Ákærði hefði síðan vaknað um hádegi, mjög rykugur, farið í bakpoka sinn til að ná í gögn, þar sem hann átti að halda fyrirlestur eftir nokkrar mínútur, en fundið þar fleyg sem ákærði kannaðist ekki við og sem í reyndist vera smjörsýra. Þeim fleyg hefði ákærði komið til lögreglunnar. Ákærði kvað sig hafa verið undir áhrifum smjörsýru eða annarra efna þegar myndbandið var tekið og í kynlífi undir áhrifum þeirra efna þá geri viðkomandi sér ekki endilega grein fyrir því með hverjum hann er og því hafi hann allt eins haldið að hann væri að elska konuna sína. Ákærði var inntur eftir myndskeiði merktu númer átta á mynddiski þar sem maður er að binda upp lim sinn og C kveður vera ákærða sem sé inni á skrifstofu ákærða. Ákærði viðurkennir að þetta myndskeið sé tekið á skrifstofu sinni en neitar því að um hann sé að ræða. Aðspurður um tvo fæðingarbletti sem sjást á myndskeiðinu og samrýmast fæðingarblettum sem komu fram við líkamsskoðun á ákærða kvaðst ákærði ekki geta séð þá fæðingarbletti á myndinni. Ákærði kvað þær myndir sem liggja fyrir í málinu teknar þegar líkamsskoðun fór fram á honum, og lýsingu á einkennum ákærða í læknisvottorði ekki vera réttar. Vísar ákærði sérstaklega til þess að hann sé ekki með ör á kviðnum eins og segir í læknisvottorðinu en hann sé hins vegar með ör á mjöðminni eftir gaddavír sem hann hefði fengið sem unglingur í sveit og á það ör hefði læknirinn ekki minnst. Þá kvað ákærði manninn á myndskeiðinu vera með armbandsúr en ákærði hafi aldrei verið með armbandsúr, hann gangi ekki með úr. Ákærði neitaði því að það væri hann sem kæmi fram á þessu myndskeiði. Þá sé sú rödd sem heyrist á myndbandinu ekki hans rödd. Ákærði var inntur eftir ljósmynd sem liggur frammi í málinu, skjal nr. 46. Myndin sýnir C lítið klædda við Econoline-bifreið og ákærða í forgrunni. Ákærði kvað það rétt að um væri að ræða hans eigin bifreið en hann gæti ekki útskýrt myndina. C hefði aldrei verið með sér í þeirri bifreið en sú bifreið hefði oft verið lánuð til vistmanna til að fara í verslunarferðir. Kvað hann myndina falsaða þannig að mynd af honum sjálfum hafi verið bætt inn í aðra ljósmynd. Ákærði var inntur eftir myndskeiði þar sem sést í ákærða ásamt C og C segir m.a. „take it off“ og virðist vera tekin í sömu bifreið. Ákærði kvað þá mynd hafa verið tekna í Landrover-bifreið sem C hafi fengið far í heim úr vinnu. Ákærði var inntur eftir myndbandi, þar sem karlmaður var með kúrekahatt, og myndböndum merktum 17, 19 og 20 og kvað hann annan mann hafa leikið í þeim myndböndum sem myndi koma fyrir dóminn og staðfesta það. Aðspurður um skýringar á myndböndum þar sem rödd ákærða virðist heyrast kvað ákærði C hafa unnið í mörg ár í félagsmiðstöðvum við raddblöndun eða tækni, búa til teknó og gæti því hæglega verið með upptökur af ákærða frá Byrginu því hver einasti fyrirlestur í Byrginu væri hljóðritaður. Ákærði var næst inntur eftir þeim fjölda smáskilaboða sem voru send úr farsíma hans í farsíma C. Ákærða kvað sér teljast til að það hafi verið um þrettán smáskilaboð sem hann hefði sjálfur sent C þegar hann var að frábiðja sér það kjaftæði að hann væri að fleka stelpur í Byrginu. Sími hans ásamt tölvu hafi bara legið úti í húsi og hver sem var gat farið í síma hans. Kvað hann eitt tilvik hafa verið þannig að C hafi fengið síma hans lánaðan því hún þyrfti að senda vini sínum skilaboð. Í staðinn hefði hún sent skilaboð í sinn eigin síma og látið hann síðan liggja þar sem dóttir hans kom að honum fimm mínútum síðar og skoðaði skilaboðin og þá séð ástarljóð sem átti að vera frá ákærða til C. Ákærði var inntur eftir smáskilaboðum sem send voru 6. nóvember 2006 klukkan 21.09 og 20.29: „C, bara þig og aldrei aðrar“,  og svo á eftir: „þú ert sú fallegasta og langbesta sem ég hef talað við“.  Ákærði neitaði að hafa sent þessi skilaboð, hann hefði verið á fyrirlestrum á þessum tíma. Skilaboð send þann 22. nóvember 2006, klukkan 17:42, „ég hef ekki heimsótt kærustu enda engin til staðar og stendur ekki til og ég er ekki með dömu upp á dráttinn, þú varst önnur konan í 20 ár sem hreif daginn, hetjan mín og fleira sem er þarna í þessum skilaboðum. Við förum til Akureyrar í hádeginu á morgun ef heilsa þín leyfir.“ Ákærði kvaðst hafa sent konu sinni þessi skilaboð en ekki C. Skilaboð send 30. nóvember 2006, að verða hálf eitt um nóttina: „jú, það breytir því enginn að ég elska þig þó svo þú finnir það ekki en enn gæti það verið að sjálfseyðingarhvöt sé í þér.“ Ákærði kannaðist ekki við þessi skilaboð. Skilaboð send 9. desember 2006, „hún vill það ekki hentu því, ég þarf það ekki og ég legg konur og bindingar á hilluna, þær hafa ekki allt mitt líf reynst mér vel og alls ekki vinir, nei ekki aldeilis, ég var að koma í bæinn á fund“, kannaðist ákærði ekki við. Ákærði kvað mjög sennilegt að aðrir hafi verið að senda skilaboð úr hans síma. Ákærði nefndi dæmi þar sem hann hafi verið með fyrirlestur og H hefði setið fyrir framan sig og skyndilega orðið starsýnt á ákærða og sagst hafa verið að fá smáskilaboð frá honum. Í framhaldi hefðu þeir farið beint inn á skrifstofu ákærða og þar hefði sími hans verið heitur en engin skilaboð sjáanleg í símanum. Skilaboð, send 28. desember 2006, rétt eftir miðnætti: „ertu virkilega að trúa því ennþá, það var aldrei nein önnur, ég  átti nú alltaf erfitt með að trúa að þú segðir satt hvað varðar mig, að ég hafi haft hugmynd að ég ætti sjensa út um allan bæ og þú skjöldurinn, hvenær í Byrginu átti ég að perrast með stelpum, frábið mér þetta enda segi ég 20 sinnum á dag, guð fyrirgefi því þau vita ekki hvað þau gera.  En ég átti einhvern veginn þá einu Ósk að þú kæmir mér til hjálpar en ósk þessi virkar ekki heldur bara að biðja og hann þrumar af stað.“ Ákærði kvaðst ekki hafa sent ofangreind skilaboð.

Aðspurður um fund haldinn í Byrginu í nóvember 2006 með starfsmönnum Byrgisins kvað ákærði hafa komið í ljós að Bluetooth búnaður var í tölvu hans. Bæli hefði fundist í öðrum enda hússins eftir C, þar sem hún hefði lagt sig og stúlkuna sína og þóst vera farin þegar húsinu var læst. Kvaðst ákærði ekki geta fullyrt það en hann teldi að C hefði þá flutt gögn úr tölvunni hans, persónuleg gögn, gögn um sjúklinga, gögn um Visakortanúmer og password. Hún hefði getað flutt gögnin í gegnum Bluetooth-búnaðinn í tölvu sem hún hefði haft með sér. C hefði verið skjalafalsari þegar hún var í afbrotum og því kunnað til verka. C hafi verið búin að stimpla eitthvert sendinúmer inn í tölvu ákærða og í gegnum það hefði hún komist í gegn og sótt gögn. Ákærði neitaði því að hafa talað um á þessum fundi að einhver myndi fara inn í íbúð C og eyðileggja tölvugögn hjá henni. Ákærði kvaðst hafa látið hreinsa tölvuna sína eftir að hann uppgötvaði Bluetooth-búnaðinn og því hefði hann ekki fundist þegar  lögreglan rannsakaði tölvuna hans. Þá hefði hann líka látið setja aðgangsorð í tölvuna svo aðrir kæmust ekki í hana. Fram að þeim tíma hefði aldrei verið leyniorð inn í tölvuna. Eftir ákærða var haft úr lögregluskýrslu 27. febrúar 2006 að hann hafi hvatt fundarmenn til að skipta um aðgangsorð í tölvum sínum og að ákærði myndi gera það sama. Ákærði kvaðst ekki hafa átt við sig þar sem þetta sé rangt haft eftir sér í lögregluskýrslu.

Aðspurður af verjanda um gjafir til C eða annarra kvaðst ákærði alltaf hafa verið gefandi gjafir, peninga, síma, útvörp, borð og stóla. Ákærði kvaðst hins vegar ekki hafa gefið C bifreið. C hefði fengið bifreið að gjöf frá É, sem væri fyrrverandi vistmaður, sem C hefði síðan selt og keypt sér nýjan bíl. Ákærði kvaðst hafa gefið H margar gjafir, hann hefði verið hjá sér í tíu ár. Meðal annars hefði hann gefið honum tölvu og tölvuborð. Aðspurður um aðstöðuna fyrir ákærða í Byrginu kvaðst hann fyrst við komuna þangað hafa sett saman skrifstofu og herbergi þar sem hann hafði aðstöðu í herbergi 10. Það hefði bæði verið skrifstofa og viðtalsherbergi og eftir að hann fótbrotnaði hefði hann flutt sig í skála 1 og haft skrifstofuna þar ásamt því að sofa þar. Fyrsta mánuðinn eða fyrstu tvo mánuðina hefði B búið í skála við hliðina á honum, skála 2, en síðan hefði H flust þangað. Að skála ákærða hefði ákærði, H, Á dóttir ákærða og C haft lykla. C vegna þess að hún var í vinnu fyrir ákærða og vinnuaðstaðan var í skálanum og þurfti að komast inn ef ákærði var ekki á staðnum. Ákærði var spurður um skjöl sem bera nafnið „fallþróun“ og varða B og K og fundust í tölvu C, en höfundur var sagður Gummijons eða Gummi. Kvað hann C hafa stolið þeim skjölum úr tölvu sinni með flakkara. Þá gæti C hafa breytt höfundarheitinu á skjölunum. Aðspurður um það hvort ákærði hafi sagt C frá því í trúnaði að hann hefði verið misnotaður í æsku kvaðst ákærði hafa á nokkurra mánaða fresti verið með framsögu í Byrginu þar sem hann hefði þurft að segja frá sér til að auka traust fólks og til að fólk vissi hver hann væri, hvað hann gerði og hvað hann hefði gert. Hann hefði aldrei sagt neinum frá þessu í trúnaði, hann kvaðst hafa hlustað á fólk og bent því á lestrarefni en aldrei talað um sín einkamál.

Teikningar af geymslu í kjallara að Háholti 11, Hafnarfirði, voru bornar undir ákærða. Ákærði kvað teikningarnar vera réttar að því leyti að gat hefði verið á geymslunni og þar fyrir innan hefði verið annað herbergi. Ákærði kvaðst hafa fyllt innra hólfið af drasli, þegar hann flutti frá Rockville, ásamt fremri geymslunni. C, M og G, hefðu síðan komið og hjálpar sér að losa geymsluna.  Það sem teiknað væri inn á myndina sem búr hefði verið gamalt rúm sem sett hefði verið upp á gafl og upp í loft, rúm með rimlum á. Þá kvað ákærði skáp sem hafði verið settur fyrir gatið á milli geymslanna ævinlega hafa verið fullan af dóti, skautum, skíðaskóm og öðru þar sem kuldi barst úr innra hólfinu og til að loka þetta Rockville-drasl af þá hafði ákærði skápinn fyrir. Ákærði neitaði því aðspurður að hafa haft samband við vitnið P í því sambandi að hann hefði samfarir við C á heimili hennar að X

 

Vitnið Í, kt. [...], [...], Reykjavík, móðir C, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 24. febrúar 2007. Vitnið kvað C hafa farið í Byrgið í aprílmánuði 2004 en á þeim tíma hefði C verið í mikilli neyslu fíkniefna og mjög langt leidd í harðri neyslu. Vitnið kvað að á þessum tíma hafi verið mikil samskipti milli hennar og C sem hafi falist í því að hún hafi fylgst mjög mikið með C þar sem hún hafi óttast að missa hana. Vitnið kvaðst hafa fylgst með C frá upphafi er hún byrjaði í meðferð í Byrginu og kvað C hafi gengið mjög vel að ná tökum á lífi sínu. Á sumarhátíð Byrgisins um sumarið 2004 hefði vitnið séð hversu vel C hafi litið út og að henni liði greinilega vel í meðferðinni. Eftir sumarhátíðina hefðu ákveðnar breytingar orðið á C sem fólust í því að hún fór að klæðast dýrum fatnaði, dýrum gallabuxum, kjólum og yfirhöfnum. Einnig hafi borið á því að C hefði borið skartgripi. C hafi verið nokkurs konar „skoppari“ þegar hún fór í Byrgið, rytjulega klædd og nánast ekkert hugsað um útlit sitt, þannig að breytingin á klæðaburði C hafi vakið athygli margra er þekktu til hennar. Á þessum tíma hefði C ekki haft fjárhagslega burði til þess að kaupa sér dýran fatnað og því hefði það sætt undrun. Aðspurð um fatakaupin hefði C fyrst sagt fatnaðinn vera gjöf en síðan ekki viljað segja meira um gefandann. Þá hefði ákærði útvegað C bifreið til afnota og í raun teldi vitnið að ákærði hafi fjármagnað kaup bifreiðarinnar en bifreiðin hafi verið skráð á nafn fyrrverandi tengdasonar ákærða, U. Á árinu 2005 hefði C flutt úr Byrginu að X Reykjavík, en eftir sumarhátíðina 2004 hefði C sagt vitninu að hún færi að vinna við þýðingar fyrir ákærða og hann hafi einnig talað um að hún myndi sjá um bókhald og vinna einhver skrifstofustörf. Þegar C var flutt í X hefði C fengið tölvu frá ákærða til að vinna þýðingarnar fyrir hann. Þegar C var flutt í X hefði íbúð hennar fyllst af húsgögnum og heimilistækjum, s.s. örbylgjuofni, ísskáp, hjónarúmi, hillum, skápum og sófasetti. Vitnið kvað C hafa sagt sér í hvert sinn sem hlutur kom í íbúðina að hann kæmi frá ákærða. Þá hefði C, þrátt fyrir að vera flutt til Reykjavíkur, verið í lofgjörðinni í Byrginu og sungið á samkomunum, og hún hafi því þurft að fara oft í Byrgið vegna samkomanna. Einnig hefði C gist heilu helgarnar í Byrginu. Vitnið kvaðst þá oft hafa haft dóttur C hjá sér en C hefði einnig tekið hana stundum með sér í Byrgið. Vitnið kvaðst vita það fyrir víst að eftir að C var flutt í X hefði ákærði margsinnis verið hjá C. Kvaðst vitnið hafa passað dóttur C  alla jafna á fimmtudagskvöldum og hafi farið að gruna strax að X og ákærði væru í sambandi. Kvaðst vitnið hafa gengið á C hvort hún og ákærði væru í sambandi og í fyrstu hefði C neitað allri samvist við ákærða en síðar hafi hún viðurkennt það fyrir henni og fjölskyldu að hún ætti í kynferðissambandi við ákærða. Það hafi einnig verið þannig að dóttir C, AA, hafi farið að tala um að hún ætti tvo pabba og þegar stúlkan hafi verið spurð hver hinn pabbinn væri hafi hún svarað Guðmundur. Í  kvað það oft hafa komið fyrir að þegar hún hafi verið að passa AA á heimili sínu þá hafi C og ákærði komið með stúlkuna í pössun. Þá hafi það margsinnis komið fyrir að þegar hún og eiginmaður hennar, BB, hafi ætlað að heimsækja C í X hefði jeppabifreið ákærða verið fyrir utan og þegar þau hafi knúið dyra hafi C komið niður og sagt að hún gæti ekki tekið á móti þeim þar sem hún væri með gesti eða upptekin. Þá hefði C, annaðhvort í september eða október 2005, farið í silicon-brjóstastækkun í Domus Medica hjá Jens Kjartanssyni lýtalækni. Eftir aðgerðina hefði vitnið og BB náð í C í Domus og þegar þau þrjú hafi verið komin út í bíl fyrir utan Domus Medica hefðu þau séð hvar ákærði hafi gengið inn í Domus en fyrir aðgerðina hefði C tjáð henni að ákærði myndi greiða fyrir hana. Vitnið kvað C hafa sagt sér í júní 2006 að hún og ákærði myndu gifta sig sumarið 2007 og hún hafi staðið í þeirri trú að ákærði væri að byggja sumarhúsið í Grímsnesi fyrir þau tvö. Aðspurð hvaða afleiðingar það hafi haft fyrir C að þetta mál kom upp kvað vitnið að staða C í dag væri mjög slæm. C hafi fallið í neyslu fíkniefna í desember sl. þar sem hún hafi misst fótanna í tilverunni, líkamlega sé C mjög illa haldin, hún sé skinn og bein og vilji hennar til að lifa eðlilegu lífi sé nánast enginn.

Í kom fyrir dóminn og sagði frá á sama hátt og fyrir lögreglu. Kvað hún afleiðingar þess að C opnaði umræðuna um ákærða vera miklar fyrir hana. Hún væri mjög brotin og fyndist hún niðurlægð. Hún hafi grátið mikið fyrst eftir að hún fór í meðferð eftir Kompásþáttinn en þá hefði hún farið á geðdeild, áfengis- og fíkniefnadeildina. Hún hafi ekki viljað tala um málið og finnist hún ævinlega verða merkt þessu máli. Ekkert sé vitað um framtíð hennar nú en hún sé að hefja afplánun. Aðspurð um þá muni sem ákærði lét C hafa eftir að hún flutti að X kvað vitnið það hafa verið sófasett, sjónvarp, rúm, örbylgjuofn, potta, pönnur, brauðrist, allt keypt í Rúm­fata­lag­ernum af ákærða.

 

P, kt. [...], gaf skýrslu fyrir lögreglu þann 20. desember 2007. Kvaðst hann hafa farið heim til ákærða í Háholt 11, Hafnarfirði, í þrjú skipti og verið með C og ákærða heima hjá C í eitt skipti. Hefði C hringt í sig um nótt og sagt honum að ákærði og J væru að skilja og ákærði ætlaði að giftast C. Síðan hefði ákærði hringt og beðið hann um að hlusta ekki á C, hún væri orðin eitthvað skrýtin. Varðandi skiptið með C kvað P það hafa verið svipað og fyrra atvik nema honum hefði ekki verið borgað fyrir það. Ákærði hefði hringt í sig og spurt hvort hann vildi taka þátt í leik. Ákærði hefði gefið honum upp heimilisfang og beðið sig um að hringja þegar hann væri kominn á staðinn, sem og hann gerði. Þá hefðu ákærði og C verið þar fyrir og allt verið tilbúið. Hann hefði verið bundinn og „svipaður“ eða sleginn með svipu og haft samfarir við C á heimili hennar í X. Að því loknu hefði hann farið heim. P kvaðst ekki muna hvenær þetta hefði gerst þar sem langt væri um liðið.

P kom fyrir dóminn og kvaðst ekki muna aðdragandann vel en kvaðst muna að hann hefði rætt við ákærða í síma og hann látið sig vita hvað P ætti að gera. P kvaðst hafa farið heim til C og þar hafi farið fram svona leikur. C hefði bundið sig og svo hafi þetta verið hálfgerð goggunarröð. Ákærði hafi verið efstur og hann hafi verið með C og svo hefði hann verið lægstur þannig að C hefði bundið sig og „svipað“ hann. Kvaðst hann hafa séð ákærða „svipa“ C en hann mundi ekki sérstaklega eftir öðrum tækjum. Aðspurður um kynlíf í umrætt sinn kvað P bæði sig og ákærða hafa sofið hjá C. P kvaðst ekki muna hvenær þetta hafi verið en hann hefði verið hættur með D sem var um haustið 2005. Þetta hafi verið eftir það en áður en umræðan um Byrgið var komin í loftið. P kvaðst hafa farið heim til C eftir þetta en þá farið einn. C hefði hringt í sig og tilkynnt sér að ákærði ætlaði að skilja við J og giftast henni á næstu sumarhátíð í Byrginu. Sér hefði fundist þetta mjög skrýtið svo það hefði endað með því að hann hefði slitið símtalinu. Í framhaldi hefði hann fengið skilaboð frá ákærða um að C væri orðin eitthvað biluð og væri að reyna að fylla sig af einhverri lygi. P kvaðst hafa trúað ákærða þar sem honum þótti frásögn C mjög ólíkleg. C hefði síðan hringt aftur í sig og það hefði endað með því að hann hefði farið heim til hennar.

G kt. [...], [...], Akureyri, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 26. febrúar 2007 og kvaðst hafa komið í Byrgið 12. júlí 2004 og byrjað að vinna í eldhúsinu auk þess sem hann hefði séð um lofgjörðina í Byrginu og séð um tónlistarflutninginn þar. Þegar hann kom í Byrgið hefðu C, B og D verið þar í meðferð. Kvaðst hann strax hafa tekið eftir samskiptum B og ákærða en B hefði verið öllum stundum með ákærða. Hún hefði farið inn á skrifstofuna til ákærða um leið og hún vaknaði á morgnana og verið þar tímum saman og hún hefði farið í burtu með ákærða í bifreið hans. Sem dæmi hefðu vistmenn átt að vera komnir í rúm klukkan hálftólf en B hefði verið inni á skrifstofu hjá ákærða fram eftir nóttu. Í desember eða janúar hefðu orðið ákveðnar breytingar sem hann hefði séð á C. Kvaðst G hafa séð þá að C var mjög mikið í meðferðarviðtölum hjá ákærða og á sama tíma hefði dregið mjög úr veru B með ákærða. Kvaðst G hafa upplifað þetta þannig að mikil barátta hafi orðið á milli C og B sem fólst í því að þær reyndu að verða á undan hvor annarri inn á skrifstofu til ákærða. Einnig hefðu orðið miklar breytingar á útliti C í klæðaburði, sérstaklega með tilliti til þess að C hafði verið skoppari og ekki hugsað mikið um útlitið. Í nóvember eða desember hefði C farið að klæðast dýrum fatnaði og útlit hennar breyst mikið. Þetta hefði vakið athygli vistmanna því C hefði ekki átt fyrir sígarettum á þessum tíma, hvað þá dýrum fatnaði. Þegar leið á veturinn 2005 hefði B einangrast mjög frá ákærða og hún síðan flutt á Selfoss. Á sama tíma hefði C nánast komið í stað B hjá ákærða. C hefði á þeim tíma hagað sér eins og hún væri eiginkona ákærða, verið með lykla að öllu og stjórnað. Þá hefði D einnig reynt að ná athygli ákærða. D hefði gengið inn og út úr Byrginu þrátt fyrir að hún væri staðin að neyslu en ákærði þrátt fyrir það leyft henni að vera áfram í Byrginu, þvert ofan í reglur og ákvarðanir vaktmanna. Ákærði hefði reyndar breytt ákvörðunum vaktmanna um brottvísanir með þeim afleiðingum að reglur Byrgisins urðu ómarktækar og gerði starfsumhverfi vaktmanna mjög erfitt þar sem ákærði breytti ákvörðunum eftir eigin hentugleika hverju sinni.

G kvað stjórn meðferðarheimilisins hafa í raun farið úr böndunum smátt og smátt og verið algert stjórnleysi á síðasta ári. Það hefði sýnt sig að ákærði sinnti meðferðarstarfinu ekki sem skyldi, mikil óreiða varð á prógrammi meðferðarheimilisins og F hafi að sama skapi sinnt illa því hlutverki sem hann sá um og sneri að fjármálum Byrgisins. Þá kvað G að fundur hefði verið haldinn að beiðni ákærða í byrjun desember 2006 þar sem ákærði hefði rætt að það þyrfti að nálgast tölvu C og honum hafi skilist á ákærða að hann vildi nálgast gögn sem hann teldi að tengdust honum og C en það hafi verið eftir Kompásþáttinn. Þá kvað G að nokkrum dögum eftir að kæra C kom fram hefði ákærði beðið I að fjarlægja ýmis gögn og „formata“ tölvu ákærða upp á nýtt auk þess að eyða tölvupósti. G kvaðst hafa verið vitni að þessari beiðni ákærða svo og að I hefði orðið við beiðni hans.

G kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið í Byrgið 12. júlí 2004. Hefði hann séð um eldhúsið, birgðir, verið í lofgjörðinni og á vaktinni. Kvaðst hann hafa komið upphaflega til að afplána dóm en síðan ílengst. Kvaðst hann hafa verið í daglegum samskiptum við ákærða út af starfi sínu en ákærði hefði verið forstöðumaður og sett allar reglur og skipulagt dagskrá Byrgisins sem starfsmenn unnu svo eftir. F hefði verið helsti aðstoðarmaður ákærða. Aðspurður um samskipti C og ákærða, kvað G engin sérstök samskipti hafa verið fyrst þegar hann kom í Byrgið, hún hafi bara verið í meðferð eins og aðrir. G kvaðst hafa farið að spá í samskipti þeirra um áramótin 2004/2005 en þá hefði C nánast verið búin að hertaka tíma ákærða. C hefði verið í lofgjörðinni auk þess að hafa séð um einhverjar þýðingar fyrir ákærða sem hann vissi ekki meira um. Lofgjörðin hafi verið annað nafn á hljómsveit sem spilaði á samkomum. G kvað C hafa komið mikið í Byrgið eftir að hún fór þaðan þar sem hún þurfti að vera á samkomum en C hefði komið einu sinni í viku vegna þeirra. Hún hafi þó verið þarna inn og út alla daga. G kvaðst einnig hafa tekið eftir því að B hafi verið mikið með ákærða. Þá hefðu þær báðar farið mikið með honum í bílnum en umtalað hefði verið að þetta væri ekki hollt fyrir meðferðina. G kvaðst þó hafa fengið þær skýringar að þetta væri hluti af meðferðinni. Varðandi reglur hússins sem samdar höfðu verið af ákærða þá hefðu þær verið margbrotnar og hefði ákærði gert það. D hefði til dæmis fengið að vera í Byrginu þó svo að vaktmenn hafi veri búnir að vísa henni frá. Hún hefði bæði verið í neyslu auk þess að mæta ekki í dagskrá. G kvað að eftir sumarhátíðina 2005 hafi allt farið að verða losaralegra og lítil stjórn verið á Byrginu, samkomur hafi dottið niður þar sem ákærði, sem var prédikarinn, mætti ekki sjálfur á þær.

Jens Kjartansson lýtalæknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa framkvæmt brjóstaaðgerð á C í september 2005. Staðfesti Jens að það hefði verið ákærði sem kom á stofu hans og greiddi fyrir aðgerðina en greitt hefði verið með debetkorti að hluta og með raðgreiðslum en ákærði hefði komið og gengið frá greiðslum sama dag og aðgerðin fór fram.  Jens kvaðst ekki geta fullyrt hvort ákærði kom og gerði upp áður en aðgerðin var framkvæmd eða eftir aðgerðina en venja væri að greiðsla færi fram sama dag og aðgerðin er gerð.

CC, kt. [...], fyrrverandi starfsmaður verslunarinnar Adams og Evu, kom fyrir dóminn. Kvað hún verslunina selja undirföt og hjálpartæki ástarlífsins. Kvaðst hún muna að ákærði hafi komið í verslunina og átt viðskipti þar. Kvaðst CC ekki muna nákvæmlega kvað ákærði hefði keypt og ekki vitað hver viðskiptavinurinn var fyrr en hún hefði séð nafn Byrgisins á greiðslukorti sem hann greiddi með. Þá kvað hún viðskipti ákærða hafa verið nokkuð mikil miðað við aðra viðskiptamenn en hún gæti ekkert sagt til um fjárhæðir. Aðspurð kvaðst CC kannast við þann fatnað sem C hafi verið í á myndbandi sem sýnt hafi verið í sjónvarpinu en aðrar verslanir seldu einnig þannig fatnað. Aðspurð kvaðst CC ekki muna eftir því að C hafi komið í verslunina og ekki heldur hvaða vörur ákærði hefði keypt.

DD, kt. [...], [...], Reykjavík, ljósmyndari, kom fyrir dóminn. Ljósmynd, skjal 46,2 í gögnum lögreglu, af ákærða og C var borin undir DD og hann spurður hvort líkur væru á að myndin væri fölsuð eða „photoshopuð“ en ákærði hefur haldið því fram að myndin af honum sjálfum hafi verið skeytt inn á aðra mynd þar sem C sést fáklædd í hliðardyrum bifreiðar ákærða. Kvaðst DD ekki geta útilokað að myndin væri samsett en taldi það mjög ólíklegt. Ástæðu þess taldi hann vera þá að útlínur mannsins á myndinni væru þá mjög vel gerðar. Áferðin á myndinni sé mjög svipuð og lýsingin sé mjög svipuð.  Bæði vegna þess hversu dreifður og mildur ljósgjafinn sé, skýjaþekja sé frekar en beint sólarljós og líka bendi liturinn á ljósgjafanum til þess. Kvað hann að ef myndin væri skeytt saman þá væri það mjög vel gert og væri ekki á færi allra. Til þess að skeyta tvær myndir í eina eins og þessi mynd væri þá þyrfti færa manneskju því útlínur mannsins væru mjög fínar, t.d. hár hans auk þess að sú manneskja þyrfti að kunna skil á mismunandi ljósi og lýsingu. DD kvað fókus myndarinnar fara eftir gerð vélarinnar sem myndin væri tekin á og með lítið ljósop væri dýpri fókus. Því þyrfti ekkert athugavert að vera við fókus myndarinnar.

EE, kt. [...], nemi í Webmaster og með professional-gráðu í notkun á Photoshop o.fl., kom fyrir dóminn. Kvað hann Webmaster vera grafíska hönnun. Ofangreind ljósmynd var borin undir EE og hann inntur eftir því hvort myndin væri mögulega samsett úr tveimur myndum. Kvað hann svo geta verið. Taldi hann birtuskilyrðin, vinkil á búki ákærða og fókusinn í myndinni styðja þá skoðun sína. Kvað hann engan vanda vera fólginn í því að setja saman tvær myndir með góðu forriti og af manni sem kynni eitthvað fyrir sér í því. Auðvelt sé að breyta birtuskilyrðum. Aðspurður kvaðst EE ekki þekkja til ljósmyndunar almennt.                  

X.

Ákæruliður IV. Brot gegn D.

Skýrslur ákærða og vitna fyrir lögreglu og dómi.

Ákærða er gert að sök að hafa, á tímabilinu frá sumri 2004 til febrúarmánaðar 2005, þegar D, þá 17 ára gömul, var vistmaður í Byrginu og sótti þar meðferð vegna vímuefnamisnotkunar, og eftir að hún flutti úr Byrginu í febrúar 2005 og fram á árið 2006, en á þeim tíma sótti D kristilegar samkomur og meðferð, þar á meðal meðferðarviðtöl hjá ákærða í Byrginu, í allt að tíu skipti, haft við hana samræði og önnur kynferðismök í Byrginu, á Hótel Ingólfi í Ölfusi, á heimili ákærða að Háholti 11, Hafnarfirði, og í sumarbústað á Laugarvatni.

D lagði fram kæru á hendur ákærða hjá lögreglu þann 25. janúar 2007. D skýrir svo frá að hún hafi fyrst farið í Byrgið í september 2003 á ábyrgð og forsendum barnaverndaryfirvalda í Reykjavík og með samþykki móður hennar, þá 16 ára gömul. Hún hefði verið í talsverðri neyslu á fíkniefnum áður en hún fór í Byrgið. Í Byrginu hefði hún tekið þátt í lofgjörðinni, sótt samkomur, setið fyrirlestra og tekið þátt í því prógrammi er hafi verið boðið upp á, s.s. hestaferðum. Í febrúar 2004 hefði hún byrjað að sækja meðferðarviðtöl hjá ákærða. Til að byrja með hafi viðtölin verið sem ráðgjöf ákærða í þeim tilgangi að ná bata við neyslu hennar á fíkniefnum. Í þessum meðferðarviðtölum hefði hún trúað ákærða fyrir persónulegum málum sínum og það leið mislangur tími á milli viðtala. Hvert viðtal hafi tekið um það bil eina klukkustund. D kvað að í þessum viðtölum hefði ákærði farið að segja henni frá ýmsum hlutum er hentu hann í lífinu og trúað henni fyrir atvikum í  lífi sínu. D kvaðst hafa greint ákærða frá því að hún hefði kynnst BDSM-kynlífi áður en hún kom í Byrgið og þau rætt um BDSM-kynlíf um talsverðan tíma. Ákærði hefði greint henni frá áhuga hans á BDSM-kynlífi og þau deilt reynslu sinni. Þá hefði ákærði látið D hafa upplýsingabækling af netinu um BDSM og hann hafi einnig sýnt henni og sagt henni frá heimasíðu á netinu um BDSM sem væri www.hogtied.com. Ákærði hefði einnig látið hana hafa spurningalista á íslensku sem hún gæti notað á hennar „subba“. Þá hefi ákærði látið hana hafa skrifaðan geisladisk sem hafi innihaldið upplýsingar um BDSM-kynlíf, s.s. samning fyrir sub, spurningalista, upplýsingar um BDSM-light og reglur um BDSM-kynlíf. D kvaðst ekki hafa áttað sig á því á þessum tíma að það væri rangt hjá ákærða að ræða við hana um BDSM-kynlíf hans. Síðan, eftir nokkra mánuði, hefði ákærði boðist til að þjálfa hana upp í að vera Master í BDSM og hefði hún samþykkt það. Þjálfunin hefði byrjað sumarið 2004 og farið fram á vinnustað hennar, YY í [...], en hún hafi búið þar, heima hjá ákærða í Byrginu, í sumarbústöðum, einu sinni með fjölskyldu ákærða í kjallara á heimili Guðmundar í Hafnarfirði. D kvað þjálfunina hafa fyrst í stað farið í að búa til svipur og læra að „hnýta fólk“ og kynna sér aðferðir. Síðan hefði þjálfunin verið á þá vegu að verkleg þjálfun hafi tekið við sem hafi byrjað haustið 2004 fram til september 2005. Varðandi fjölda skipta í verklegu þjálfuninni kvað D að verklegir tímar hafi verið nokkrum sinnum og meðal annars oftar en einu sinni í íbúð ákærða í Hafnarfirði. Þrátt fyrir að D hafi flutt af Byrginu hefði hún haldið áfram að sækja meðferðina í Byrginu. Hún hefði sótt lofgjörðir og aðrar samkomur, haldið áfram meðferðarviðtölum hjá ákærða og byrjað eftirmeðferð sem ákærði hefði stýrt. D kvaðst hafa fram til september ástundað BDSM-kynlíf með ákærða og hefði eiginkona ákærða, J, tekið þátt í kynlífsathöfnum hennar og ákærða frá byrjun en hún hefði verið „subinn“ hans. Ákærði hefði sagt henni frá því að J væri hrifin af D í upphafi og að J hefði tekið þátt í þessum kynlífsathöfnum, m.a. í kjallarherbegi í íbúð ákærða og J í Hafnarfirði. Þar hefði ákærði verið búinn að útbúa eitt kjallaraherbergi sérstaklega til BDSM-kynlífsathafna. Einnig kvaðst D hafa í eitt sinn farið með fjölskyldu ákærða í sumarbústað, haustið 2004, og þegar börnin hafi verið sofnuð hefðu þau þrjú ástundað BDSM-kynlíf og þá hafi D verið í verklegri þjálfun sem master. Þessa helgi í sumarbústaðnum hefði það gerst í fyrsta sinn að J tók þátt í BDSM-kynlífi hennar með ákærða.  Aðspurð hvort J, eiginkona ákærða, hafi verið starfsmaður í Byrginu þann tíma sem hún hafi verið þar sagði D að J hafi séð um bænahópa en J hafi haft í nógu að snúast við uppeldi barna sinna. D segir að ákærði hafi þjálfað hana upp í að vera master, en ákærði hafi sjálfur verið master og haft viðurnefnið Iron Master. D kvaðst hafa orðið með tímanum mjög háð ákærða, bæði andlega og fjárhagslega. Hún sagði ákærða hafa greitt helming af bílprófi hennar. Ákærði hefði keypt bifreið, Renault Laguna, að upphæð kr. 1.000.000 króna, fyrir hana en bifreiðin hefði verið skráð á móður hennar og ákærði lofað að greiða af bifreiðinni og yfirtaka bílalánið en hann hefði svikið það með þeim afleiðingum að móðir hennar hafi setið uppi með eftirstöðvarnar. D kvaðst því nú skulda móður sinni um 300.000 krónur sem móðir hennar væri búin að greiða af bifreiðinni. D kvað fyrstu mánuði hennar í Byrginu hafa gert henni mjög gott, og reyndar allan þann tíma sem hún hafi verið þar, ef litið væri á hve dugleg hún hefði verið að taka þátt í því kristilega starfi sem boðið hafi verið upp á í Byrginu. Hins vegar hafi henni verið farið að líða mjög illa yfir því hversu mikið hún var orðin háð ákærða, sérstaklega þar sem ákærði hefði svikið og ekki staðið við orð sín og verk. Þar á hún við sem dæmi að hún hafi upplifað föðurtilfinningar frá ákærða en hann hafi stöðugt brugðist henni og þar í ofanálag hefði hann notfært sér  veikleika hennar í lífinu sem ráðgjafi hennar. Ákærði hefði  einnig sagt henni að hann myndi styðja hana í því að standa á eigin fótum, hann hefði látið hana fá verkefni sem hún bar ábyrgð á en hann hefði ekki staðið við loforð sín.

D segir að þegar á leið í meðferðarviðtölum ákærða hefðu þessi persónulegu viðtöl farið að snúast um allt annað en vanda hennar og úrlausn hans. Þessi viðtöl hefðu þróast út í að þau hafi meira og minna rætt um BDSM-kynlíf og hún hafi upplifað ákærða sem sinn besta vin þar sem hún hefði treyst honum fyrir öllu. D kvað ástæðuna fyrir því að það slitnaði upp úr öllum samskiptum við ákærða ekki ljósa. Hún segir að þar sem hún hafi verið flutt úr Byrginu en sótt lofgjörðir hefði ákærði hætt að svara símtölum hennar, hún hafi ekki fundið hann og ákærði hefði ekki svarað e-mailum hennar til hans. Enn fremur hefði ákærði neitað henni um áframhaldandi viðtöl og lokað á öll samskipti. Það hefði haft þær afleiðingar að hún missti fótanna í tilverunni og byrjaði í neyslu fíkniefna að nýju þar sem hún hafi verið brotin stúlka. Hún kvaðst eiga í talsverðum erfiðleikum í dag og hún sé nánast á götunni og fasta búsetu hafi hún ekki. D kvað að þegar hún hefði farið í Byrgið í upphafi þá hefði hún bundið vonir við að hún gæti öðlast annað og betra líf með því að notfæra sér þá þjónustu sem boðið var upp á í Byrginu. Sá tími sem hún hafi verið í Byrginu hafi verið hennar besti tími í lífinu þar sem henni hafi farið að ganga mjög vel. Miðað við þá atburðarás og atvik er hentu hana, sem hún hefur lýst hér að framan, þá er hún þess fullviss að kynni hennar af ákærða og veran með honum hafi orðið þess valdandi að hún missti fótanna með þeim afleiðingum að hún fór í ræsið að nýju, í neyslu og afbrot.

D gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 28. mars 2007 og kvað að þegar hún var í Byrginu þá hefði vistmönnum verið gefinn kostur á vinnuaðlögun í meðferðarprógrammi eftir ákveðin tíma og hún hefði í  vinnuaðlögun sinni verið látin vinna í þvottahúsi, sem vaktmaður og einnig sem ritari. Þá kvaðst D hafa verið í fleiri meðferðarviðtölum hjá ákærða en níu eins og ákærði haldi fram í lögregluskýrslu. D kvað ákærða hafa sýnt henni nokkurs konar viðurkenningarskjal þess efnis að hann væri og hefði viðurnefnið Iron Master.

Skýrsla var tekin af D hjá lögreglu þann 14. desember 2007. D kvaðst hafa búið með P, fyrrverandi unnusta sínum, í [...] í Ölfusi í um hálft ár eða níu mánuði árið 2006 og þá unnið á [...]. Aðspurð kvað D P hafa gist hjá henni þegar hún var í Byrginu og hefði ákærði lagt blessun sína yfir það. Kvaðst D hafa verið búin að vera í Byrginu í um eitt og hálft ár þegar P kom þangað. Kvaðst hún hafa verið búin að vera í verklegri þjálfun í um eitt og hálft ár áður en P kom.  D kvað ákærða og konu hans J hafa gist eina helgi í [...] þegar hún var að vinna þar. Hefði þá farið fram verkleg þjálfun D kvað þau hafa komið eftir miðnætti og þau hafi gert svona „venjulegt dæmi“, þau hafi talað saman, J hafi drukkið sitt rauðvín eins og venjulega. J og ákærði hefðu verið í aðalhlutverki. Ákærði hefði sýnt stólaleik sem hann sagðist nota á sýningum og hún og P hefðu verið samhliða. Í fyrstu hefðu þau verið fjögur saman og þá hafi J og P verið bundin saman og bundið fyrir augu þeirra. D og ákærði hefðu slegið þau með svipu og notað tæki á þau. Síðan hefðu þau verið bundin í sitt hvoru lagi, P hafi verið bundinn upp við hurðina með andlitið í hurðina og hann hefði verið „svipaður“. J hefði verið bundin í stól, gerð tilbúin og verið „svipuð“ og D hefði „dildóað“ hana. D hefði haldið áfram að „svipa“ P og leikurinn farið á fullt hjá þeim. J hefði viljað láta alls konar „dildóa“ í sig, láta „svipa“ sig og stólinn hefði verið færður til, hent á bakið, á hvolf og á hliðina og upp aftur. Hún og P hefðu orðið áhorfendur, D hefði bundið hann í rúmið, hann hefði ekki mátt hreyfa sig og átti að fylgjast með þar til þau kláruðu atriðið. Síðan hefði hún og ákærði farið að tala saman eftir leikinn og ganga frá. „Subarnir“ hefðu ekki mátt tala, bara horfa niður, ekki ná augnsambandi, þau áttu að stjana við þau og D sagði að hún og ákærði hefðu verið eins og kóngar þarna. Síðan hefðu þau farið. Kvað D þetta hafa staðið yfir nokkrar klukkustundir. D kvaðst ekki muna hvenær þetta gerðist en það hafi verið um vetur, hún hefði verið komin úr Byrginu og flutt í [...] en samt verið áfram í eftirmeðferð og mætt í prógramm í Byrginu. D kvaðst einnig hafa haft það hlutverk að vera „sub“ þegar hún var í þjálfun hjá ákærða. Kvaðst hún hafa farið, þegar hún var í Byrginu, í sumarbústaði með ákærða, J og börnum þeirra yfir eina helgi. D hefði átt að kynnast J vel yfir daginn en J hefði átt að hegða sér eins og „sub“ við D og átt að fá verðlaun um kvöldið. D sagði að þau hafi verið þrjár nætur í leik og í eitt skiptið hefði hún verið „sub“, til þess að prófa það. Það hefði verið þannig að borð var látið á bakið og D verið bundin við gaflana, við fætur á borðinu, og andlit hennar snúið í borðið. Ákærði hefði sett köngulóarreipi utan um hana, með ákveðnu hnútasystemi, og síðan hefði hún verið „svipuð“. J hefði verið bundin við gluggann, nakin, með andlitið út, í átt að öllum hinum bústöðunum. Ákærði hefði bundið D á grúfu, „svipað“ hana og notað tæki á hana, hjálpartæki, rafmagnstæki með einhverju kúptu ofan á. Þá kvað D að það væru 36 G-blettir á líkömum á konum. Ákærði hefði sett tækið á alla punktana og einnig sett dildó í kynfæri hennar og rafmagnsdót. Síðan hefði ákærði tekið J og D átti þá að haga sér eins og „sub“, ekkert augnsamband, undirgefin og hún hefði síðan leikið sér með J. Síðan hefði ákærði og J átt mök og eftir það hefði ákærði „svipað“ D sem henni hefði þótt óþægilegt. Það hefði verið vont og leiðinlegt og staðið yfir í nokkra klukkutíma. D sagði að eftir æfinguna hefði hún verið frosin og lítið langað í fleiri leiki. D kvað þau hafa farið í einn leik eftir þetta, kvöldið eftir. D kvaðst ekki geta tímasett þessa æfingu en þetta hefði verið önnur verklega æfingin og þá hefði hún verið búin að vera í mesta lagi níu mánuði í Byrginu. D kvaðst ekki hafa verið ginnkeypt fyrir þessu í byrjun en ákærði hefði platað hana út í þetta með því hugarfari að hann væri að hjálpa henni. Ákærði hefði sagt henni frá einhverri stelpu sem hafi verið þunglynd og ekkert annað hafi hjálpað henni. D sagði að hún hafi verið þunglynd og hún hefði haldið að þetta myndi hjálpa henni og því hefði hún samþykkt þetta. Kvað D ákærða hafa búið í Byrginu þegar þetta átti sér stað. Þetta skipti hafi líklega verið um haustið 2005, það hafi ekki alveg verið kominn vetur. Í seinna skiptið sem æfing var hjá þeim, eða kvöldið eftir, hefði J verið tekin fyrir. D kvað fyrstu verklegu æfinguna hafa verið á heimili ákærða að Háholti 11 í Hafnarfirði. Þá hefði hún farið heim til ákærða til að leita ráða hjá honum, allt hafi verið í rugli hjá henni og hana hafi vantað pening. Þá hefðu þau farið í leik og D átt að vera með J en hún hefði ekki nennt því þar sem hún hafi fengið ógeð af því að vera sub. J  hefði verið lokuð inni í búri í kjallaranum í Hafnarfirði og síðan hefði J verið bundin á lyftingabekk og hnútar hafi verið bundnir á hana. Ákærði hefði „svipað J, gert hana tilbúna og notað tæki á hana og svo átti D að ríða henni. D kvaðst hafa notað um sex tegundir af dildóum á hana og svipur en D hefði ekki viljað sleikja hana, hana hafi ekki langað til þess. J hefði fengið fullnægingu og átti að þakka fyrir sig og fá verðlaun með því að sleikja D en hún hefði heldur ekki viljað það. J hefði síðan skriðið á hnjánum og síðan verið lokuð inni í búri. D kvað hana og ákærða hafa rætt saman, talað um hvað væri rétt og hvernig þessi æfing hefði farið fram. D kvaðst ekki hafa fengið nein ráð og engan pening en ákærði hefði séð fyrir henni fjárhagslega, andlega og húsnæðislega.

D gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 29. júlí 2007 til að greina frá þeirri eftirmeðferð sem hún taldi sig vera í í Byrginu. Ákærði hefði rætt það við D að hún færi í eftirmeðferð og í ákveðin verkefni. Í hvert sinn sem D hefði loks náð í ákærða eða þegar þau hittust þá hefði allur tíminn farið í að tala um peninga, sem ákærði skuldaði fyrir bílinn, og BDSM. Það hefði farið tími í að finna tíma til að hittast og stunda BDSM auk þess að D hefði verið á kafi í skuldum og ekki fótað sig í lífinu. Hún hefði verið farin að missa áhugann á BDSM og ekkert hefði orðið úr eftirmeðferð fyrir hana. D kvað verklegu þjálfunina hafa verið skipulagðir fundir, á hótelum eða í sumarbústöðum um nætur og þau hefðu farið í BDSM-leiki og farið í allt sem þau voru búin að ræða um í sambandi við BDSM. Þau hefðu notað J sem „subinn“ hennar. Áður en verklega þjálfunin hófst, hafi þau verið búin að fara yfir þætti sem sneru að henni. Þessi þjálfun hefði farið fram á hótelinu í [...] þar sem D vann, heima hjá ákærða í kjallaranum og í sumarbústöðum. Góð aðstaða hafi verið í hótelinu þar sem D vann en ákærði hefði oft svikist um að koma þangað. Verkleg þjálfun hefði ef til vill verið í tíu skipti en það hafi oft verið mikið að gera hjá ákærða og hann því oft forfallast. D kvað ákærða hafa þjálfað sig í að vera „Masta“ en hún og ákærði hefðu ekki haft kynlíf saman heldur hefði þetta verið bundið við verklega þjálfun og allt verið faglegt.

D kom fyrir dóm og kvaðst fyrst hafa komið í Byrgið í september 2003 með heimild barnaverndaryfirvalda þar sem hún var eingöngu 16 ára. Fyrstu þrír mánuðirnir hefðu gengið misvel og hún ekki verið tilbúin að snúa sér að trúnni en um jólin hefði verið farið að ganga nokkuð vel. Kvaðst hún hafa farið að sækjast eftir því að komast í meðferðarviðtöl og fengið fyrsta persónulega viðtalið hjá ákærða í febrúar 2004. Viðtölin hefðu verið óhefðbundin að því leyti að vandamál hennar hefðu átt að leysast í gegnum trúna og hefðu þau einblínt á vandamál hennar úr æsku. Ákærði hefði sagt henni að hann vildi koma fram sem faðir, besti vinur eða bróðir og hún ætti að treysta honum. Það hefði hún gert og trúað öllu sem ákærði lagði upp með enda hefði hann verið andlegur leiðtogi. Kvaðst D hafa reynt að komast í eins mörg viðtöl og kostur var en mjög mikið hefði verið að gera hjá ákærða þar sem hann var eini ráðgjafinn. Yfir sumartímann hefði henni farið að ganga betur í lífinu og viljað fara að lifa því. Hún hefði því farið að taka meiri þátt í starfinu og gerst starfsmaður á svæðinu eftir að hún hafði verið í meðferð í sex mánuði. Þá hefðu viðtöl hennar og ákærða farið að vera mikið fyrir utan ráðgjafaviðtölin þar sem ákærði hefði viljað vera vinur hennar og inni í hennar lífi. Þá hefði umræðan einnig farið að snúast um kynlíf. D kvaðst hafa lent í slæmri kynferðislegri misnotkun áður en hún kom fyrst í Byrgið, sem hún hefði trúað ákærða fyrir, og því hefði kynlíf ekki verið ofarlega á baugi hjá henni. Hún og ákærði hefðu hist á kvöldin og í bíltúrum og á milli viðtalstíma hjá honum. Umræður um kynlíf hefðu snúist bæði um hennar kynlíf og hans kynlíf þar sem þau hefðu verið að byggja upp traust. D kvaðst hafa kynnst BDSM-kynlífi þegar hún var 13 og 14 ára og henni fundist það vont og ljótt en ákærði hefði talið henni trú um að það væri vilji Guðs, ákærði væri búinn að tala við Guð og Guð væri búinn að samþykkja þetta og þetta væri ekkert rangt, þetta væri bara ein aðferð til þess að fá kynferðislega útrás. Í lok sumarsins hefði ákærði sagt sér frá stúlku sem hafði verið í meðferð hjá ákærða, hún hefði verið mjög þunglynd og verið mjög lík D. D kvaðst sjálf hafa fengið þunglyndisköst en ákærði hefði sagt sér að BDSM-þjálfunin hefði læknað þá stúlku af þunglyndinu. Ákærði hefði sagt henni að ef hún vildi verða andlega heilbrigð yrði hún að prófa BDSM. Hún hefði því samþykkt það og í framhaldi hefði fagleg þjálfun hafist. Í þjálfuninni hefði falist að kynna sér aðferðir, búa til svipur, læra að „hnýta fólk“ og margt fleira og átti hún að útskrifast með diploma en ákærði hefði sýnt sér sitt diploma sem hann átti. Ákærði hefði sagt sér að í þessari grein væri keppt alveg eins og í öðrum íþróttagreinum og hann hefði útskrifast og væri þá að kenna fullt af fólki fyrir greiðslu. Aðspurð kvað D að nafn ákærða hefði staðið á diplomaskjalinu hans og Iron Master en skjalið hefði verið á ensku. D kvað verklega þjálfun hafa byrjað haustið 2004 og hefði í fyrstu verið í kjallaranum heima hjá ákærða í Hafnarfirði og í sumarbústað og J, kona ákærða, hefði alltaf verið með. Sumarbústaður þessi hefði verið á Laugarvatni en þar hefðu þau dvalið heila helgi. Aðspurð um það hvað fælist í verklegri þjálfu í BDSM kvað D þau í raun vera að gera allt sem þau hefðu verið búin að ræða um og allt sem þau höfðu kynnt sér. Þá notuðu þau líka aðferðir sem ákærði var búinn að kenna D og J hefði verið „sub“. D kvaðst hafa séð hvernig ákærði og J höguðu kynlífi sínu. Þá hefði D líka verið með J niðri í kjallara og D þá verið master hennar. Þegar þau voru í sumarbústaðnum hefði ákærði einnig gert æfingar á D. Í þeim æfingum hefðu þau verið að binda hvort annað og nota hjálpartæki sem voru sett bæði í endaþarm og leggöng. Börnin hefðu verið með í bústaðnum og þau byrjað æfingar eftir að börnin voru sofnuð. Þetta hafi verið haustið 2004. Vorið 2005 hefðu þau verið einu sinni með slíkar æfingar á vinnustað D en hún vann á hótelinu í [...]. Þar hefði ákærði verið, J og P, þáverandi kærasti D, og hún sjálf. Þar hefðu P og J verið notuð sem sub auk þess að ákærði og J hefðu verið með sýningaratriði, sem D og P hefðu horft á, og þau hefðu líka verið öll saman. D kvað þau oft hafa planað æfingartíma en þeir tímar fallið niður. Þá hefðu hún og ákærði talað saman og farið yfir hlutina. Á þeim tíma hefði D átt að vera byrjuð í eftirmeðferð en viðræður þeirra ákærða hefðu alltaf snúist um BDSM-kynlíf og þá hefði verið farið að halla undan fæti hjá henni. D kvaðst hafa flutt úr Byrginu í febrúar 2005 en sótt áfram samkomur þangað, lofgjörðir og fyrirlestra og þá hefði hún einnig átt að byrja í eftirmeðferð. Hún kvaðst hafa fengið verkefni og ákveðið plan sem  hún átti að gera í eftirmeðferðinni og láta ákærða fá en ekkert hefði orðið úr því þar sem þau hefðu eingöngu rætt um BDSM og bifreið hennar þegar þau hittust. Verkefni þessi hefðu átt að vera ýmis tilfinningaleg vinna og um framtíðaráætlanir en hún hefði ekki kunnað að vinna úr því þar sem hún hefði aldrei verið edrú án þess að vera inni á meðferðarstofnun. Aðspurð um það hvort um fleiri skipti hafi verið að ræða kvað D hana og kærasta sinn oft hafa farið og hitt ákærða og J en D hefði verið farin að missa áhugann á þessu lífi, allt annað hefði verið að í lífi hennar sem hún hefði þurft hjálp við. Ákærði hefði í framhaldi hætt að svara síma hennar og öðrum skilaboðum og hún átt erfitt með að ná til ákærða, en hún hefði ítrekað reynt það til að ræða eftirmeðferðina. Aðspurð kvað D sig hafa komið tvisvar heim til ákærða í BDSM-þjálfun, í annað skiptið hefðu þau verið uppi í íbúðinni en í hitt skiptið í kjallaranum. Aðspurð kvað D slíka þjálfun hafa eingöngu farið fram fjórum sinnum, í [...], í sumarbústaðnum og heima hjá ákærða. Önnur tilvik hefðu í raun fallið niður, þau hefðu rætt um BDSM, sýnt hnúta og svipur en ekki gert meira. D minnti að síðasta skiptið hefði verið á hótelinu í [...] sumarið 2005. J hefði verið með í öll skiptin en P í eitt skipti. Aðspurð um það hvort hún hefði vitað um það hvort ákærði hefði verið í sambandi við einhverjar konur sem voru í meðferð, kvaðst D ekki hafa gert sér grein fyrir því og hún hefði á þessum tíma ekki talið neitt rangt við það sem ákærði var að gera, enda hefði hann talið henni trú um það. Eftir að mál þetta hafi komið upp, kvað D sér hafa liðið illa og fundist málið allt ógeðslegt. D kvaðst hafa bara verið 16 ára og ekki haft frumkvæðið að þessu kynlífi og í rauninni ekki skilið hvað hafi verið í gangi og því bara tekið þátt í því. Hún sjálf hafði aldrei verið í eðlilegu kynlífssambandi á neinn hátt og hélt að þetta væri allt eðlilegt. Í september 2005 voru samskipti hennar og ákærða engin orðin og hún farið í drykkju og komin aftur á götuna um jólin 2005.  Aðspurð um bifreiðakaup kvað D ákærða hafa farið með sig í B&L í þeim tilgangi að kaupa ódýra bifreið. Málin æxluðust svo að móðir D hefði verið beðin að koma í umboðið og hún hefði skrifað undir öll gögn og bifreiðin verið skráð á hana. Ákærði hefði sagst ætla að taka lánið yfir og hann hefði greitt af því til að byrja með en hætt því svo. D kvaðst hafa reynt að borga af láninu en það síðan lent á móður hennar. D kvaðst hafa reynt að fá ákærða til að borga vanskil og hann hefði greitt eitthvað upp í þau en síðan hætt að greiða af bifreiðinni. D kvaðst sjálf eingöngu hafa greitt hálfa leigu til Byrgisins og ákærði hefði ekkert átt né þurft að greiða til móður hennar nema upp í skuldina á bifreiðinni. D kvaðst hafa verið á endurhæfingarörorku, þegar hún var í Byrginu, sem Tryggingastofnun greiddi beint inn á bankareikning hennar og hún síðan þurft að taka út peninga til að greiða fyrir leiguna í Byrginu, en hún hefði greitt 28.000 krónur á mánuði. D kvaðst hafa verið í vinnu í Byrginu, í þvottahúsinu, í eldhúsinu og á símanum, og þá fengið afslátt á leigunni. Dkvað ákærða hafa látið sig hafa geisladisk með spurningalista, reglum og upplýsingum um BDSM. D voru sýnd dómskjöl 17 og 18, sem eru spurningalistar og reglur, og kvað hún það vera sömu gögn og hún hefði fengið hjá ákærða. D kvaðst hafa fyllt spurningalistann út og afhent ákærða. Þá kvað D, aðspurð, ákærða hafa sagt sér frá kynlífsreynslu sinni frá því hann var unglingur þar sem konur hefðu misnotað hann.  Kvaðst ákærði segja henni þá sögu til að vinna traust hennar og trúnað. Þá kvað D ákærða hafa ætlað að gefa sér bifreiðina sem nefnd er fyrr í þessu máli auk þess að hann hefði gefið henni sófa, borð og alls konar dót.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu þann 6. febrúar 2006 vegna kæru D. Ákærði neitaði því strax við yfirheyrsluna að hafa verið í kynferðissambandi við D. Kvaðst ákærði hafa frétt af vandamálum D árið 2003 og þá hefði verið haft samband við móður hennar. Hefði móðir hennar fengið samþykki barnarverndaryfirvalda í Reykjavík, vegna ungs aldurs hennar, fyrir dvöl og kostnaði D í Byrginu. Aðspurður kvað ákærði það passa að D hefði byrjað í meðferðarviðtölum hjá honum í febrúar 2004. Dhefði gengið vel í Byrginu, tekið virkan þátt í prógrammi sem henni stóð til boða og eftir sex mánaða prógramm, sem væri endurhæfingarprógramm, hefði henni verið falið að vera vaktmaður. Vistmönnum hefði verið gefinn kostur á að gerast starfsmenn í meðferð sinni eftir sex mánuði ella yfirgefa Byrgið. Kvað ákærði meðferðarviðtölin við D að mestu hafa gengið út á samskipti hennar við föður hennar. D hafi fengið skörp þunglyndisköst og taldi ákærði að hún hefði komið samtals í níu meðferðarviðtöl. D hefði verið mjög ör í tali og gjörðum og hún hafi verið fljót að framkvæma það sem hún hugsaði þrátt fyrir leiðbeiningar um að fara sér hægar. D hefði síðan tekið bílpróf, hún hefði fengið sér stóran hund og byrjað með strák og hafi þetta verið of mikið fyrir hana að kljást við í tilverunni. Aðspurður neitaði ákærði því að D hefði sagt honum að hún hefði kynnst BDSM-kynlífi áður en hún kom í Byrgið en hún hefði sagt honum frá því að hún hefði eitt sitt fjötrað dreng í einhverju dóprugli. Ákærði neitaði því að hafa afhent D nokkur gögn er varði BDSM og nafnið Iron Master kvaðst hann kannast við úr einhverri teiknimyndasögu. Ákærði neitaði því aðspurður að hafa þjálfað D í BDSM. Ákærði kvað D hafa sótt lofgjörðir og komið í eitt viðtal með unnusta sínum og á sumarhátíðir eftir að hún fór úr Byrginu í júlí 2005. Aðspurður um sumarbústaðaferð kvaðst ákærði kannast við það að J hefði boðið D í sumarbústað í eigu félags skipstjórnarmanna að Laugarvatni í eitt sinn. Ástæðan hefði verið vegna náms D í hundaskóla. Öll fjölskyldan hefði verið í bústaðnum þá, þau hjón og fjögur börn á aldrinum tveggja til sautján ára. Aðspurður um gjafir frá ákærða til D kvaðst ákærði hafa lofað henni 10.000 krónum ef henni gengi vel í bílprófinu og það hefði verið raunin. Ákærði neitaði að hafa nokkuð komið að bifreiðakaupum D, móðir hennar hefði alfarið séð um þau kaup. Ákærði kvaðst, aðspurður, fyrst eftir að Kompásþáttur Stöðvar 2 var sýndur hafa farið í það að kynna sér þann takmarkalista sem kynntur var í þættinum, hann hefði þá farið á internetið til að kynna sér umrædda lista og á heimasíðu BDSM hefði hann séð í fyrsta sinn upplýsingar um BDSM-light.

Ákærði kom fyrir dóminn og kvaðst hafa frétt af erfiðleikum D á árinu 2003 og samband hefði verið haft við móður hennar og í framhaldi hefði D komið að Efri-Brú en leyfi hefði verið komið frá barnaverndaryfirvöldum og móður hennar. D hefði verið eins og aðrir fíklar þegar hún kom, ástand hennar hefði verið mjög slæmt, hún hefði verið grönn, örg og reið. Í fyrstu hefði hún verið í miklum mótþróa en ákærða síðan tekist að tala hana til þannig að hún gæfi lífinu séns. Í fyrstu þegar hún var á mótþróaskeiðinu hefði hún farið frá Byrginu en hringt síðar og fengið að koma aftur. D hefði þá tekið vel við sér, verið mjög dugleg að mæta í fyrirlestra og á sjötta eða sjöunda mánuði hennar hefði hún verið að ljúka hinni eiginlegu meðferð og þá farið í 50% prógramm. Þá hefði hún farið að læra á bíl. D hefði farið geyst af stað og hún hefði kynnst kærasta sínum, P, um haustið 2004. Hún hefði fengið leyfi til þess að leyfa honum að gista í Byrginu þó svo að það samræmdist ekki reglunum. Í framhaldi hefðu þau flust burt og D farið að vinna á einhverju hóteli. Erfiðleikar hefðu verið í sambandi D og P og þau D leitað til sín vegna þess. Ákærði kvaðst því hafa ákveðið að ræða við þau bæði og kanna forsögu P og þau því þess vegna komið saman í viðtal til hans. Aðspurður kvað ákærði D aðeins hafa komið í lofgjörð eftir að hún flutti í [...] og ekki komið mikið í Byrgið utan að hún hefði komið tvisvar í viðtal til að biðja um hjálp varðandi strákinn. Einhvern tíma hefði D flúið og þá fengið að vera í Byrginu en hann vissi ekki hvers vegna. Eftir það kvaðst ákærði ekki hafa vitað neitt um þau fyrr en hann sá reynslusögu D í Byrgisskjölum 2006. Aðspurður um það hvort D hafi komið í Byrgið eftir að hún var flutt þaðan, kvað ákærði það vel geta verið að hún hafi sótt lofgjörðir, fyrirlestra og samkomur, hann hefði ekki alltaf verið til staðar þar til að fylgjast með, enda búið þá í Hafnarfirði. Aðspurður um gjafir til D kvaðst ákærði hafa gefið henni 10.000 krónur þegar hún stóðst bílprófið. Aðspurður um 247.800 krónur, sem ákærði lagði inn á reikning móður D, kvað ákærði það hafa verið peninga D. Málið væri þannig vaxið að D hafi verið á örorkubótum og þegar hún vann í Byrginu hefði hún fengið sem endurgjald helming bótanna til baka. D hefði viljað kaupa dýran bíl og hefði móðir hennar gengið frá því. Ákærði kvaðst þá hafa lofað móður hennar að leggja endurgreiðsluna, sem D átti að fá, inn á reikning móður hennar til að tryggja að peningar D færu í bifreiðakaupin. Fyrsta greiðslan frá ákærða inn á reikning móður D, í kringum 160.000 krónur, hafi verið uppsafnað fyrir fimm eða sex mánuði sem D var búin að vinna sér inn án þess að fá endurgreitt frá Byrginu. Síðasta greiðslan frá ákærða hefði verið lán þar sem D hefði komið dópuð til sín og sagt móður sína komna í vandræði með greiðslur af bílnum. Ákærði kvað væntanlega einhver gögn til um það að greiðslur hefðu borist frá Féló eða tryggingunum til Byrgisins fyrir D. Ákærði neitaði aðspurður að hafa tekið þátt í nokkru kynlífssambandi við D ásamt P og J konu sinni. Ákærði kvað það hins vegar rétt að D hefði komið í sumarbústað til þeirra haustið 2004 en þar hefði hann verið ásamt konu og fjórum börnum. Aðspurður um fjölda viðtala sem D var í hjá ákærða kvað hann D hafa komið í fjögur viðtöl til sín, D og P komið í eitt viðtal og D vegna P í eitt viðtal eftir að hún var farin úr Byrginu. Ákærði kvaðst, aðspurður um msn-samskipti sín við D í maí 2004, hafa verið að örva D en jafnframt að ræða skrýtna hegðun B, þar sem hann hefði ekki mátt ræða, sérstaklega við kvenmenn, þá hefði hún orðið dýrvitlaus. Aðspurður um gjafir til D kvaðst ákærði eitt sinn hafa keypt sófasett í Ikea, tveggja sæta sófinn hefði farið í herbergi D en þriggja sæta sófinn í herbergi B. Þær hefðu svo báðar stolið sófunum þegar þær fóru úr Byrginu.

P, kt. [...], [...], Reykjavík, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 20. desember 2007. P kvað þau D hafa byrjað saman í lok október 2005 [2004] og verið saman í tíu til ellefu mánuði. Þegar þau byrjuðu saman hefði D verið í meðferð í Byrginu og hann því komið þar mikið. D hefði dregið hann á samkomur og hann hefði nánast flutt þangað. Kvað hann samskipti sín við ákærða hafa verið góð þegar hann dvaldi í Byrginu en ákærði hefði lagt blessun sína yfir veru hans þar þótt hann hefði ekki verið skráður vistmaður. Ákærði hefði hjálpað honum í erfiðleikum hans, greitt götu hans og reynst honum vel. Aðspurður um vitneskju hans um BDSM-kynlíf, kvað P D hafa sagt sér að hún væri í þessu en ekki með hverjum. Síðar kvaðst P hafa áttað sig á því hver væri með D í þessu en þá hefði hún verið að vinna á hótelinu í [...]. Ákærði, J og börn þeirra hefðu komið og gist á hótelinu en ákærði hefði þá tekið tveggja daga frí. D hefði þá sagt honum að þau ætluðu í leik. Kvaðst hann þá hafa fengið staðfestingu á því að ákærði eða þau hefðu verið að kenna D. Kennslan hefði verið fólgin í því hvernig ætti að binda um líkamann og nota svipur og hitta á ákveðna punkta líkamans sem örva. P kvaðst ekkert hafa haft á móti þessu en séð að D líkaði ekki áhugi hans á leiknum. Þá hefði ákærði rætt það við P að þjálfa hann í að verða Iron Master en D hefði orðið mjög fúl vegna þess og D hætt að taka þátt í þessu með honum. Aðspurður kvaðst P ekki hafa tekið þátt í þessum leikjum með D oftar, en hann hefði tekið þátt í þeim með ákærða eftir þetta atvik. Kvaðst P hafa farið heim til ákærða og J í Háholt í Hafnarfirði í þrjú skipti auk þess að hafa verið með C og ákærða heima hjá C í eitt skipti. P kvað þetta hafa verið í eina skiptið sem hann tók þátt í BDSM-leik með ákærða og D. Hann hefði bara vitað að D hafi verið í þessu, hún hefði alltaf farið leynt með það hver væri að kenna henni, hvert hún færi og hvað hún gerði. D hefði talað um að það væri verið að kenna henni og hún alltaf farið til einhvers en síðan komið heim og látið eins og ekkert hefði gerst. Staðfestingu á því að það var ákærði sem var að kenna henni hefði hann fyrst fengið á hótelinu. Aðspurður nánar út í leikinn á hótelinu kvað P hann og J t.d. hafa verið bundin saman. Ákærði hefði sýnt D hvernig ætti að slá svipunni á ýmsa staði líkamans, s.s. ekki þannig að það væri of gott og of vont. Þau hafi verið slegin með svipu, hann hafi verið klæddur í nærbuxur og J hafi verið í einhverjum búningi. Hann hafi síðan farið úr nærbuxunum. Þetta hafi eiginlega verið sýnikennsla en það hafi þannig séð ekki verið neitt kynferðislegt við þetta, engar samfarir heldur pyntingar. Þetta hefði gerst á hótelherbergi sumarið 2006 (2005) og hafi staðið yfir í allt að eina klukkustund í mesta lagi. Aðspurður kvaðst P reyna að hafa sem minnst samskipti við D, hann forðist hana, hennar vini og líferni hennar.

J, kt. [...] eiginkona ákærða, gaf skýrslu hjá lögreglu vegna kæru D. Aðspurð hvort hún hafi tekið þátt í kynlífsathöfnum ákærða og D neitaði J því og kvaðst ekki ástunda BDSM-kynlíf. J kvaðst hafa vitað af D í meðferð í Byrginu en verið í litlum samskiptum við hana og lítið þekkt hana. J kvað D aldrei hafa komið á heimili hennar að Háholti 11, Hafnarfirði, með hennar vitneskju. J kvað rétt vera að D hefði komið í heimsókn í sumarbústað til þeirra að Laugarvatni haustið 2004 og gist þar eina nótt. J og D hefðu farið í heita pottinn en ekki ákærði og þau hefðu ekki stundað kynlíf.

FF, kt. [...], móðir D, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 30. júní 2007. FF kvað D hafa verið 16 ára þegar hún var komin í harða neyslu á fíkniefnum og haustið 2003 hefði hún búið á götunni. Í september 2003 hefði D farið í meðferð að Efri-Brú. Kvaðst FF þess fullviss að vera D í Byrginu í byrjun hafi verið henni góð en það hefði breyst. D hefði tjáð sér að hún væri í meðferðarviðtölum hjá ákærða en D hefði einnig sagt henni að hún hefði pantað viðtöl hjá ákærða en hann ekki sinnt henni. FF kvaðst hafa rætt þetta við ákærða en ákærði brugðist þannig við að hætta að svara henni og hún því ekki náð í ákærða svo vikum skipti. Að endingu kvaðst FF hafa kvartað við mann sem kallaður var Dúddi. FF kvað D margsinnis hafa sagst hafa farið í bíltúra með ákærða og þá hefði D sagt henni að ákærði væri að kenna henni einhverja lexíu en ákærði hefði sagt FF sjálfur að hann væri að kenna D að hlusta á Guð og hún ætti að lesa sig til um Guð. FF kvað D hafa sýnt sér, tveimur eða þremur mánuðum eftir að hún byrjaði í meðferðinni, spurningablað þar sem D átti að lýsa sinni kynlífsreynslu og hefði henni þótt þetta óeðlilegt. FF kvaðst hafa gengið á D þegar mál Byrgisins voru í fjölmiðlum í desember 2006, hvort hún hefði lent í einhverju og hefði D þá neitað því en í janúar 2007 hefi D sagt henni að ákærði hefði verið að kenna henni og þjálfa hana í að vera í Dominer-hlutverki í BDSM-kynlífsathöfnum. Aðspurð um bílaviðskipti D kvað FF ákærða hafa keypt Renault Laguna-bifreið handa D en bifreiðin hefði verið skráð á FF sem greiddi af henni með Visaraðgreiðslum. Ákærði hefði hins vegar sannfært sig um að hún þyrfti ekki að greiða af bifreiðinni en síðan hefðu greiðslur lent á henni. Ákærði hefði greitt eitthvað inn á hana en síðan hætt að greiða af láninu.

FF kom fyrir dóminn og sagði svo frá að D hefði farið í Byrgið í september/október 2003. Þá hefði hún verið á götunni og verið mjög illa á sig komin líkamlega. Hún hefði verið komin með svarta díla um allan líkamann eftir sprautunálar og verið í sjálfsvígshugleiðingum. Í byrjun hefði gengið mjög vel í Byrginu. Sér hefði fundist meðferðarviðtöl D hafa verið á skrýtnum tímum, á kvöldin og nóttunni en ekki á hefðbundnum tímum frá átta til fimm, og svo kom fyrir að ákærði mætti ekki í viðtölin sjálfur í langan tíma. Aðspurð um bifreiðaviðskipti D kvað FF engan aðdraganda hafa verið að þeim viðskiptum kvað hana varðaði. D hefði hringt í hana og beðið sig um að koma í B&L þar sem ákærði væri að kaupa bifreið fyrir sig. Niðurstaðan hefði verið sú að bifreiðin var skráð á FF þar sem D var ekki orðin fjárráða en ákærði hefði ætlað að gefa D bifreiðina. FF kvaðst alls ekki hafa ætlað að fara að greiða af bifreið fyrir D en ákærði hefði sagt henni að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því. FF kvaðst því hafa skrifað undir þar sem hún hefði verið hrædd um að „rugga bátnum“ þar sem D hefði gengið vel í meðferðinni. Ákærði hefði greitt fyrstu afborganirnar af bifreiðinni, um 140.000 krónur. Síðan hefðu greiðslur lent á henni en D einnig reynt að borga af bifreiðinni. Aðspurð um afleiðingar þessa máls fyrir D kvað FF þetta allt saman hafa brotið hana gjörsamlega niður. Ákærði hefði haft marga mánuði til að brjóta hana niður. D hefði verið búin að eiga mjög erfitt líf þegar hún kom í Byrgið og hafi verið búin að berjast við þunglyndi en í Byrginu hefði verið tekið mjög vel á móti henni og hún byrjað að brosa aftur, og hefði verið haldið áfram á þeirri braut hefði það verið mjög gott. Aðspurð kvað FF félagsmálayfirvöld hafa greitt fyrir veru D í Byrginu, 55.000 krónur á mánuði, sem FF kvaðst hafa lagt inn á reikning Byrgisins í fimm eða sex mánuði. D hefði síðan greitt henni um 40.000 krónur á mánuði til að borga tryggingar af bílnum, afborganir og síðan greiðslur fyrir hundinn. Þá hefði ákærði greitt nokkrum sinnum inn á reikning FF.

XI.

K, kt. [...] [...] Reykjavík, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 23. janúar 2007. K kvaðst hafa farið inn á Byrgið í apríl 2004 og verið þar í 9 mánuði eða fram í janúar 2005. Lýsti K því fyrir lögreglu hvernig meðferðarviðtölin hjá ákærða hefðu snúist upp í það að ræða um kynlíf og BDSM-kynlíf. Kvaðst K eftir eitt viðtalið hafa ákveðið að forða sér úr Byrginu þar sem hún var orðin hrædd við ákærða og henni fundist stefna í það að ákærði ætlaði sér að niðurlægja hana og svívirða á mjög ógeðfelldan hátt. Þegar þarna er komið sögu kvað K að á þessu tímabili hefði hún átt mjög erfiða tíma vegna forræðismála hennar við barnsföður sinn og hún hafi fengið það á tilfinninguna að ákærði hefði verið að nýta sér allar upplýsingar sem hún hafi gefið honum, til dæmis um ofbeldi sem hún hafi gengið í gegnum áður fyrr. Hún hafi fengið það á tilfinninguna að ákærði hefði ætlað að nýta sér kynni hennar af ýmsum ofbeldismálum. K kvaðst hafa pakkað sínu niður og komið sér í burtu eins og áður greindi og hún hafi ekki gefið neinar skýringar á brotthvarfi sínu við ákærða. Hún hefði flutt á Selfoss og leigt íbúð að [...] um tíma. K kvað að þrátt fyrir að hún væri farin úr Byrginu hefði ákærði lagt að henni að sækja viðtöl hjá honum. Ákærði hefði boðist til að greiða bensínkostnað við ferðirnar og hún kvaðst hafa farið nokkrum sinnum á samkomur í Byrginu en ekki mætt í tvö viðtöl sem ákærði hefði boðað hana í. Hún hafi síðan flutt til Reykjavíkur og ekki haft frekari samskipti við ákærða eftir það, eða í janúar 2005. K kvaðst hafa hent  spurningalistanum og smásögunni sem ákærði lét hana hafa. 

K kvað C hafa komið inn á Byrgið á sama tíma og hún og hafi þær deilt herbergi í smátíma til að byrja með. K kvað að fljótlega hefði hún veitt því athygli að B hafi verið öllum stundum með ákærða, hann hafi farið með B í bíltúra og verið í burtu með henni jafnvel allan daginn. K kvaðst hafa séð hvar B hafi komið út frá næturstað ákærða á morgnana og það hafi því verið ljóst að hennar mati og annarra að ákærði og B ættu í nánu sambandi og B hafi ekið um á nýjum bíl. Þá kvað hún ákærða hafa sagt vistmönnum að B ætti í miklum erfiðleikum, illir andar sæktu á hana og hann væri með hana í sálrænni meðferð og það væri ástæðan fyrir því að hún þyrfti að vera hjá honum næturlangt, ef hann var spurður um ástæðu fyrir veru B hjá honum næturlangt. Síðan gerist það, segir K, að C hafi farið að venja komur sínar æði oft í viðtalsherbergi ákærða og á sama tíma hafi vera B minnkað hjá ákærða og K skynjað að B hafi verið bolað burt frá ákærða. K segir að C hafi farið að breytast í klæðaburði, ætíð í nýjum og dýrum fatnaði. Þá hefði K orðið þess áskynja að C hafi farið að vera næturlangt inni á viðtalsherbergi ákærða og komið frá honum að morgni úr kofanum. K kvað að þann tíma sem hún hafi verið í Byrginu hefði enginn karlmaður sem vistmaður verið í viðtalsmeðferðum hjá ákærða. Henni hafi ekki verið kunnugt um það. Hins vegar hefðu karlmenn leitað til ákærða, t.d. með flutning á milli herbergja í Byrginu og þar fram eftir götum en enginn sem hún vissi um hafi verið í viðtalsmeðferðum hjá ákærða.

K, kt. [...], [...], Reykjavík, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið í Byrgið í apríl 2004 og dvalið þar í tíu mánuði en áður hefði hún verið búin að vera í mikilli neyslu. Hún kvaðst hafa verið mjög reið, sérstaklega út af forsjárdeilu sem hún hafði verið í. Samskipti hennar við ákærða hefðu verið mjög góð, það hafi verið gott að tala við hann og hann verið mjög þolinmóður. Hún kvaðst hafa verið mjög illa farin þegar hún kom í Byrgið og ákærði hjálpað sér við að komast yfir það. Í fyrstu kvaðst K ekki hafa verið í neinum viðtölum en eftir nokkurn tíma hefði ákærði farið að ræða við sig. Í byrjun hefðu samtölin verið um forræðisdeilu hennar og um hennar líf svo sem kynlíf og hefði henni ekki fundist það óeðlilegt í byrjun. K mundi ekki hvort þessi samtöl hefðu verið einu sinni í viku eða oftar. Ákærði hefði síðan farið að ýja að einhverju um BDSM sem væri kynlíf sem ákærði fílaði. Þá væri ákærði master og að K gæti verið ágætis „sub“. Þannig gæti hún fengið útrás en hún hefði verið í ofbeldisfullu sambandi. Ef hún hefði einhverja þörf fyrir að láta refsa sér þá gæti hún gert það í gegnum svona kynlíf. K kvaðst hafa hugleitt þetta og hvort það væri rétt að hún gæti fengið útrás fyrir tilfinningar í gegnum slíkt kynlíf. K kvaðst ekki vita hvernig ákærði hefði hugsað sér framhaldið með hana en hann hefði sýnt henni einhvers konar svipur eða svipu með „mörgu leðri einhverju“, þvottaklemmur til að setja á brjóstin og krók sem hefði hangið í bita í loftinu. K kvaðst aldrei hafa tekið eftir þeim krók áður þrátt fyrir að hafa verið þar í mörgum viðtölum en ákærði hefði bent sér á hann. Hefði þetta verið í húsinu á móti. Þá kvað K ákærða hafa rætt um sitt kynlíf og að konan hans mætti halda framhjá honum með öðrum konum. K kvað að undir lokin hefði ákærði aðallega talað um BDSM-kynlíf  við hana og hefði hún orðið ringluð af því og fengið sjokk að lokum. Svipuna hefði átt að nota til að slá létt á kynfærin auk þess að hann hefði rætt um einhverja punkta á líkamanum sem væru næmir. Ákærði hefði sýnt sér klámmynd í herberginu um BDSM sem hefði verið vídeómynd. Þá hefði ákærði líka sýnt henni ljósmyndir í tölvunni, meðal annars af konu sem var bundin í eins konar hengirúmi og minnti K að búið hefði verið að hrækja á hana. Þetta hafi verið eins og pyntingar og hefði hún fengið hálfgert sjokk við þetta. Ákærði hefði einnig sýnt sér mynd af eiginkonu sinni og hefði hún verið klædd í einhver svört leðurföt sem voru einhvers konar undirföt. Ákærði hefði afhent henni spurningalista þar sem ýmissa spurninga var spurt, svo sem hvort eiturlyf væru partur af leiknum og sígarettur en listinn hefði snúist um það hvað mætti gera við mann og hversu langt mætti ganga. K kvaðst hafa farið með listann heim og átt að fylla hann út en það hefði hún aldrei gert. Listinn hefði eingöngu tengst BDSM-kynlífi. Aðspurð kvaðst K hafa heyrt af því að ákærði ætti í kynferðissambandi við B sem var í meðferð í Byrginu. Hún hefði aldrei séð það en þau hefðu farið mjög mikið saman út að borða og hún hefði komið út frá honum á morgnana, sem K kvaðst hafa séð nokkrum sinnum. B hefði verið mjög frek á ákærða og mjög afbrýðisöm. Hún hefði ruðst inn á meðan á viðtölum stóð en það hefði hún oft gert þegar K var í viðtölum. K kvað að sér hefði fundist þetta samband þeirra alltaf furðulegra og furðulegra en hún hefði ekki rætt það við B því þeim hefði aldrei samið sérstaklega vel í Byrginu. K kvað C hafa komið í Byrgið á mjög svipuðum tíma og hún sjálf og þær verið í fyrstu saman í herbergi. Þeim hefði heldur aldrei samið vel. K kvað að um það bil fimm eða sex mánuðum eftir að þær komu í Byrgið hefði C farið að vera meira og meira í viðtölum hjá ákærða og við það hefði B orðið afbrýðisöm út í hana. C hefði farið að klæða sig á allt annan hátt en hún gerði áður, en hún hefði verið svokallaður „skoppari“ þegar hún kom í Byrgið. Allt í einu hefði C verið orðin voða fín frú, í rándýrum fötum auk þess að hún var þá líka að koma út frá ákærða á morgnana. C hefði verið að hjúkra ákærða eða hugsa um hann og hefði hún nokkrum sinnum séð C koma út úr herbergi ákærða á morgnana. Ákærði hefði þá verið í skálanum. Ákærði hefði einhvern tíma fótbrotnað og þá hefði C verið alveg hjá honum.

GG gaf skýrslu hjá lögreglu þann 16. janúar 2007. GG kvaðst hafa farið í Byrgið í meðferð þann 4. október 2005 og verið þar fram til mánaðamóta júní/júlí 2006. Hún hefði verið í talsverðri neyslu á fíkniefnum og áfengisneyslu. Hún kvaðst strax hafa byrjað að sækja samkomur í Byrginu og tekið þátt í prógrammi sem er í boði á meðferðarstofnuninni. Upplýsti GG fyrir lögreglu hvernig meðferðarviðtöl hennar hjá ákærða hefðu snúist upp í umræður um kynlíf og BDSM-kynlíf.

GG kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið í Byrgið 4. október 2005 og verið þar í níu mánuði eða til mánaðamóta júní/júlí 2006. GG kvað meðferðarviðtölin hjá ákærða hafa byrjað með mjög eðlilegum hætti að því er hún taldi. Kvaðst hún hafa stungið af í desember en komið aftur tveim dögum síðar og í framhaldi byrjað í viðtölum hjá ákærða. GG skýrði dóminum frá því hvernig ákærði hefði smátt og smátt unnið trúnað hennar og traust og síðan reynt að telja henni trú um að hún ætti að stunda BDSM-kynlíf með honum og látið hana hafa spurningar um BDSM-kynlíf og fleira efni tengt því. Kvaðst GG hafa farið frá Byrginu um mánaðamótin júní/júlí 2005 þar sem henni hafi ekki verið vært þar lengur.

HH, kt. [...] [...], Reykjavík, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 16. febrúar 2006. HH kvaðst hafa farið í Byrgið um miðjan maí 2005 vegna neysluvandamála. Upplýsti hann lögreglu um aðkomu ákærða að málefnum hans og GG og vitneskju sína um tilraun ákærða til að fá GG til að stunda BDSM-kynlíf.

HH kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið í Byrgið um miðjan maí 2005 og farið í júní/júlí 2006. Kvaðst hann hafa byrjað sem vistmaður og síðan hefði hann verið orðinn vaktmaður. Lýsti HH fyrir dóminum veru sinni og afskiptum ákærða af ástarsambandi hans og GG. Þá lýsti hann einnig og staðfesti að hafa séð gögn hjá GG sem hún sagði að stöfuðu frá ákærða og tengdust BDSM-kynlífi. Þá lýsti HH því fyrir dóminum að ákærði hefði sýnt sér skjal þar sem ákærði var tilnefndur Iron Master. Hefði þetta verið einhvers konar diploma.

II gaf skýrslu hjá lögreglu þann 26. september 2007. Kvaðst hann aðspurður hafa verið í Byrginu í rúmlega ár eða á árunum 2005 og 2006 og starfað sem vaktmaður. Þá lýsti II því fyrir lögreglu að ákærði hefði sýnt honum og HH skjal sem á hefði staðið nafn ákærða og að hann væri Iron Master.

II  kom fyrir dóminn og kvað eins og í lögregluskýrslu að hann hefði verið í Byrginu á árunum 2005 til 2006 og verið vaktmaður.  Lýsti hann því fyrir dóminum að ákærði hefði sagt sér frá því að hann þjálfaði stelpur auk þess að hafa sýnt honum diploma um Iron Master. II kvað það hafa verið á allra vitorði að C hefði verið mikið ein inni hjá ákærða og mikið rætt um það. Eins hefði verið með B og A. Hann hefði aldrei séð C eða B á sama tíma þarna en það hefði komið fyrir að B hefði kannski komið í eina eða tvær vikur og síðan ekkert sést og þá hefði C alltaf verið hjá honum. II kvaðst ekki hafa séð neitt varðandi D en hann hefði þekkt A sem hefði verið eitthvað á sama tíma og hann í Byrginu og hún hefði verið ein með ákærða í skúrnum. Kvaðst hann hafa séð það sjálfur þar sem hann var mikið á ferðinni sem vaktmaður. Þetta hefði verið alveg undir lokin sem hann sjálfur var í Byrginu.

JJ, kt. [...], [...], Reykjavík, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 15. febrúar 2007. JJ kvaðst hafi farið í Byrgið í  meðferð í ágústmánuði 2005 vegna áfengisneyslu. Lýsti hún því að ákærði hefði greint henni frá því að hann hefði fengið sýn þess efnis að [...] væri ekki sá maður sem ætti að tilheyra henni. Ákærði hefði fengið sýn af þeim manni sem væri maðurinn hennar en það væri ekki [...]. Á samkomum, fyrirlestrum og í viðtölum hefði ákærði sagt ýmsa hluti, s.s. um heilagan anda sem talaði í gegnum hann og hún hefði farið að trúa því sem ákærði prédikaði. Þá lýsti JJ fyrir lögreglu hvernig ákærði hefði unnið trúnað hennar, meðal annars með því að segja henni kynlífssögur af honum sjálfum, hann hefði rætt um BDSM-kynlíf og reynt að telja henni trú um að hún ætti að stunda það.

JJ kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í Byrginu í um hálft ár frá ágúst 2005 til janúar 2006. Kvaðst hún hafa verið í meðferðarviðtölum hjá ákærða en engin regla hafi verið á þeim.  JJ lýsti atvikum fyrir dóminum hvað varðaði samskipti hennar og ákærða á sama hátt og fyrir lögreglu. Auk þess kvað hún ákærða hafa sýnt sér hringi sem hann setti á typpið á sér og þannig sé hann Iron Master. Þá hefði hann lýst fyrir henni fullnægingarblettum sem hann slái á með svipu. Auk þess hefði hann lýst fyrir henni, ef hún væri hans sub, hvernig hún yrði að vera tilbúin til að taka við honum þegar hann segði til eða einhverjum öðrum. JJ kvaðst bæði hafa hrifist af því sem ákærði sagði henni um kynlífið en einnig fundist það óhuggulegt þar sem það stangaðist á við orð Guðs en ákærði hefði verið hálfgerður Guð í augum hennar. Þá kvað JJ C hafa verið mikið í Byrginu, hún hefði sungið mikið auk þess að hafa verið mikið hjá ákærða. Það hefði B líka gert þegar hún var í viðtölum hjá ákærða. JJ kvað fólk stundum hafa komið í viðtöl eftir að það var farið úr Byrginu, það hefði D gert og stúlka sem hefði átt barn. JJ staðfesti lögregluskýrslu sína fyrir dóminum.

Í gögnum málsins liggur fyrir að JJ var skráð í Byrgið frá 25. ágúst 2005 til 4. janúar 2006.

I, kt. [...], [...], Selfossi, gaf skýrslu fyrir lögreglu þann 28. febrúar 2007. Kvaðst hann hafa séð um tölvumál Byrgisins. Hefði hann sett upp netkerfi sem vistmenn höfðu aðgang að og séð um alla tölvuvinnu í Byrginu og einnig í útvarpsstöðinni. Þá hefði hann frá lokum árs 2004 aðstoðað Ólaf Ólafsson lækni ásamt M við lyfjagjöf. Aðspurður um fund sem ákærði hefði boðað í Byrginu í lok árs 2006 kvaðst I kannast við það en tilefni fundarins hefði verið áhyggjur ákærða um að C hefði afritað gögn úr tölvu Byrgisins og tölvu ákærða og sett í hennar tölvu. I kvaðst hafa bent á að tilkynna það lögreglu en ákærði hefði verið með tillögu um að komast inn í íbúð C í þeim tilgangi að þurrka gögn út úr tölvunni hennar. Þá kvaðst I einnig hafa, að beiðni ákærða, hreinsað allt út úr tölvu ákærða í Byrginu, sett á flakkara og „formattað“ tölvuna upp á nýtt. Ákærði hefði síðan séð um að flytja aftur í tölvuna það sem hann vildi hafa þar. Kvað I þetta hafa verið í október 2006 eftir fyrrnefndan fund. Þá kvað I tölvutengingar hafa verið þannig að allar tölvur Byrgisins hefðu verið nettengdar þannig að hver sem var gat farið inn og sótt tónlist, fyrirlestra og glærur.

I kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að Efri-Brú árið 2003 og séð um tölvu- og tæknimál, séð um útvarpsstöð, verið aðstoðarmaður Ólafs læknis þegar hann var á staðnum, annast um lyfjamál líka og fleira. Ákærði hefði verið forstöðumaður og fór fyrir starfinu eins og stjórnarmenn í fyrirtækjum gera. Flestar ákvarðanatökur hefðu verið bornar undir ákærða. Þá hefði ákærði séð um prédikanir auk annarra sem að því komu. Ákærði hefði hins vegar séð um meðferðarviðtölin en aðrir komið að viðtölum sem sneru ekki beint að andlegum málefnum. Aðspurður um veru C, B og A í Byrginu, kvaðst I ekkert muna eftir þeim sérstaklega, þó hefði A verið eitthvað á fyrirlestrum á árinu 2006. I kvaðst aðspurður hafa verið á fundi með H, G, F og ákærða í Byrginu en M hefði ekki verið á þeim fundi. Á þeim fundi hefðu verið vangaveltur um það hvort C hefði komist yfir gögn Byrgisins, gögn sem gætu tengst skjólstæðingum Byrgisins en ákærði hefði boðað til fundarins. Umræður hefðu verið á fundinum um það hvort hægt væri að eyða gögnum úr tölvu C en C hefði verið með þá tölvu heima hjá sér. I kvaðst ekki geta staðfest að það hefði verið ákærði sem kvaðst vera með lykla að íbúð C nú fyrir dómi þó svo hann hafi fullyrt það í skýrslu fyrir lögreglunni. I kvað ákærða hafa haft samband við sig síðar og talið að búið væri að eiga við tölvuna hans í Byrginu og hefði beðið hann um að hreinsa tölvuna sem hann hefði gert með því að setja hana upp aftur. Allt hefði verið sett á flakkara og stýrikerfið sett upp aftur. I kvað hugbúnað fyrir Bluetooth hafa verið í tölvu ákærða en hann væri aðallega notaður í þeim tilgangi að tengjast tölvu í gegnum farsíma. Bluetooth-kubburinn hefði hins vegar ekki verið á tölvunni en USB-port hefði verið í vélinni. Við það að setja tölvuna upp aftur myndi þessi hugbúnaður hverfa. Aðspurður um það hvort hver sem er hefði haft aðgang að tölvum ákærða, kvað I að yfirleitt hefði verið kveikt á tölvu hans og þeir sem voru inni hjá ákærða hefðu ekki annað þurft en að setjast við tölvuna, þá væru þeir komnir inn. Ákærði hefði yfirleitt ekki stöðvað fólk í því að nota tölvuna hans. I kvaðst ekki minnast þess sérstaklega hvort eitthvert aðgangsorð hafi þurft í tölvu ákærða fyrr en eftir að tölvan var sett upp aftur, en hafi það verið þá var það bara gefið upp ef eftir því var spurt. Lykilstarfsmenn kvað I hafa verið F, KK, lækninn, M og H. H hefði haft lykla að vaktherberginu þar sem lyklar voru geymdir að öllum vistarverum. I kvað alkunna að þeir sem kæmust í tölvur gætu farið í skjöl, t.d. Word-skjöl, og breytt þeim að vild. I kvað tölvur Byrgisins hafa verið þannig uppsettar að sameiginlegt svæði hafi verið uppsett fyrir tónlist og myndefni sem sótt var t.d. á fyrirlestrum og samkomum, en hver tölva hefði haft lokuð svæði hver á sínum harða diski eða sér drifi, sem hefði þurft aðgangsorð að til að komast á í gegnum aðrar tölvur. Tölvurnar hefðu verið settar þannig upp að hver kæmist inn á valin svæði. Aðspurður um floppydisk, sem nefndur var í sambandi við að flytja gögn á milli tölva, kvað I að ekkert floppydrif hafi verið í tölvum ákærða frá árinu 2000 og hann teldi að slík drif væru ekki í tölvum í dag. Aðspurður um það hvers vegna hann hefði nefnt að það þyrfti floppydisk til að nálgast gögn í tölvu C, kvaðst hann ekki muna það en stórefaðist um að floppydrif væri í hennar tölvu.

H, kt. [...], [...], Stokkseyri, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 7. mars 2007 vegna fundar er haldinn var í Byrginu í október eða nóvember 2007. Kvað hann ákærða hafa kallað til fundar í útvarpshúsinu að Efri-Brú. Hefðu hann, ákærði, G, Hjálmar og I verið á þessum fundi. Kvað hann ákærða hafa beðið G um að fara inn í íbúð C til að nálgast tölvu hennar en I myndi síðan sjá um að eyða gögnum tölvunnar. Ákærði hefði sagst hafa áhyggjur af því að í tölvu hennar gætu verið gögn sem kæmu ákærða illa. Kvað H I hafa tekið erindi ákærða afar illa og verið frá vinnu daginn eftir vegna þess en ákærði gert lítið úr líðan I. Á fundinum hefði ákærði sagst vera með lykil að íbúð C svo ekki þyrfti að brjótast þar inn.

Fyrir dóminum kvað H eins um ofangreindan fund þannig að til hans hefði verið boðað af hálfu ákærða í lok október eða byrjun nóvember 2006. Ákærði hefði rætt um að hann vildi að það yrði farið inn heima hjá C, en ákærði hefði sagst vera með lykil að íbúð hennar, og ná þaðan tölvunni hennar í þeim tilgangi að rústa henni. Ákærði hefði sagt að C hefði verið búin að stela svo miklu af gögnum frá honum. H kvaðst ekki hafa áttað sig á beiðni ákærða því hann hefði á þessum tíma verið mikið heima hjá C. H kvaðst ekki vita hverjar lyktir urðu á fundinum þar sem hann hefði yfirgefið fundinn.

H var spurður fyrir dómi hvort hann vissi hvort ákærði hefði gengið með armbandsúr. H kvaðst hafa gefið ákærða armbandsúr þegar þeir voru í Rockville fyrir lífgjöfina. Þetta hafi verið úr af gerðinni Raymond Weil og hafi kostað 106.000 krónur. Ákærði hefði alltaf verið með úrið en skilað því til F eftir að kæran kom fram í máli þessu og F svo aftur skilað því til H sl. sumar. 

M, kt. [...], [...], 801 Selfossi, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 22. júlí 2007. Kvaðst hann hafa komið að Efri-Brú í ágúst 2003 en áður hefði hann verið í Rockville ásamt konu sinni LL. Kvaðst M hafa verið hægri hönd Ólafs Ólafssonar læknis og séð um lyfjagjafir vistmanna og læknisferðir þeirra. M kvaðst ekkert vita um kæruefni kærenda í máli þessu og ekki vita til þess að nokkuð óeðlilegt hafi verið við meðferðarviðtöl ákærða. M kvaðst hafa sínar grunsemdir um að allt málið væri tilbúið. Máli sínu til stuðnings kvaðst hann hafa verið eitt sinn á árinu 2006 að prenta út gögn fyrir ákærða, það hafi verið einni eða tveimur vikum eftir að H fékk tölvu, og A hefði einnig verið inni á skrifstofunni. A hefði setið áfram inni og hefði M fundist það skrýtið en hann hefði verið farið að gruna að ekki væri allt með felldu þar sem grunur var þegar kominn upp um að farið hefði verið í eða átt við tölvu ákærða. Þá fannst M skrýtið að B sem hefði aldrei talað öðruvísi en vel um ákærða, hefði allt í einu snúist gegn honum og þá hefði hann heyrt að D hefði gert þetta fyrir peninga. M kvaðst aldrei hafa trúað þessum áburði á ákærða.

M kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið í Byrgið í Rockwille í  september 2001 og þá í meðferð. Hann hefði klárað meðferðina á sex mánuðum og farið síðan að starfa þar, m.a. með því að aðstoða Ólaf Ólafsson lækni. Kvaðst M ekki hafa verið á launum í Byrginu og ekki þurft að greiða fyrir veruna þar á meðan hann starfaði við Byrgið. M kvað ákærða hafa verið forstöðumann og farið fyrir starfinu og séð um meðferðarviðtöl við vistmenn. Fleiri hefðu þó komið að meðferðarviðtölum í gegnum tíðina, bæði í Rockville og í smátíma uppi á Efri-Brú. Hlutverk M hefði verið að aðstoða fólk í lyfjameðferð og vera hægri hönd Ólafs í þeim málum. Aðspurður kvaðst M þekkja kærendur í máli þessu. A hefði verið með hann í grúppuviðtölum þegar hann kom fyrst í Rockville. D hefði yfirleitt verið stutt í einu, komið og farið, B hefði verið í töluverðan tíma. Kvað hann bæði B og C hafa verið í meðferðarviðtölum hjá ákærða og verið eitthvað í samvistum við hann. Þær hefðu fengið far með honum þegar þær voru farnar af Efri-Brú en þær hefðu viljað vera þar á daginn og taka þátt í prógrammi. C hefði eitthvað verið að vinna þar en þær hefðu komið töluvert upp eftir. Eitthvað hefðu þær verið að sækja meðferðarviðtöl en aðallega fyrirlestra. M kvaðst aðspurður ekki hafa orðið var við meint kynferðissamband kærenda við ákærða og ekki trúað þeim lygum sem hafi verið bornar á hann. Þá hefði hann verið að fá smáskilaboð eins og frá H. M kvaðst lengi hafa upplifað það í Byrginu að einhverjir væru að koma af stað úlfúð milli fólks og ekki gert sér grein fyrir því fyrr en eftir að mál þetta kom upp en hann hafi sterkan grun um að það hafi verið H. M lýsti fyrir dóminum hugrenningum sínum um að það hafi verið að undirlagi fárra manna að koma sök á ákærða og þykir ekki ástæða til að rekja þann vitnisburð frekar hér.

Aðspurður um það hvort H hefði gefið ákærða armbandsúr, kvaðst M vita til þess. M kvaðst ekki vita hvort ákærði hafi gengið með þetta úr, hann taldi ákærða hafa átt mörg úr. Stundum hefði ákærði verið með úr og stundum ekki, stundum hefðu úrin hans legið úti um hvippinn og hvappinn, uppi í pontu eða á borðinu hjá honum, annars kvaðst M ekki hafa fylgst með því. M var sýnt armbandsúr sem ákærði lagði fram í dóminum en M hafði tekið við því úri úr hendi ákærða eftir að kært var í málinu. M kvaðst ekki geta fullyrt hvort um sama úr væri að ræða. Kona sín hefði síðan afhent H úrið en ákærði hefði farið fram á það. Aðspurður um starfsmenn Byrgisins kvað M þunga starfseminnar hafa hvílt á ákærða og svo sér með fullri virðingu fyrir öðrum. Aðspurður um veru A í Byrginu kvaðst M ekki muna það en minnti að hún hefði verið skráð í meðferð á árinu 1997 en hann þyrði ekki að fara með dagsetningar. Hún hefði ekki verið í meðferð í Byrginu eftir það. Aðspurður um aðgang vistmanna að tölvum heimilisins og bifreiðum ákærða kvað F vistmenn og starfsmenn hafa haft ótakmarkaðan aðgang, bæði að tölvum og bifreiðum, Byrgið hefði verið rekið eins og eitt stórt heimili.

F, kt. [...] [...], Selfossi, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 30. júlí 2007. F kvaðst hafa kynnst Guðmundi fyrst árið 2000 þegar kona F fór í meðferð í Byrginu, hann hefði frelsast og tekið að sér endurbætur í Hvaleyrarbrautinni áður en starfsemi Byrgisins fór í Rockville og starfað í Byrginu síðan. Aðspurður kvað F vinnu ákærða í Byrginu hafa verið ómanneskjulega að öllu leyti, þar sem vinnuálag hafi verið gríðarlegt. Ákærði hefði þurft að ganga í öll störf í Byrginu. Ákærði hefði sótt fólk á götuna, sinnt viðtölum við þetta fólk, séð um að semja allt prógramm fyrir Byrgið, séð um allar samkomur í Byrginu og hannað um 80 prósent af öllum fyrirlestrum í Byrginu. F kvað ákærða hafa séð um viðtöl sem ráðgjafi, stýrt meðferðarstarfinu og borið ábyrgð á því. Ákærði hafi undirbúið samkomur og fyrirlestra og gegnt hlutverki sem pastor. F kvaðst ekki hafa haft nokkra vitneskju um að eitthvað misjafnt væri í gangi í Byrginu og ef hann hefði haft einhvern grun þá hefði hann verið fyrstur manna til að tilkynna um það. F kvaðst hafa aðstoðað C við að taka saman hennar fjármál, líklega í byrjun árs 2006, og samið við kröfuhafa en C hefði ekki gert neitt með það og því hefði F losað sig við möppu hennar. F kvaðst aldrei hafa orðið var við að nokkuð væri að í samskiptum kærenda í máli þessu og ákærða. Kvaðst F trúa því að mál þetta væri allt árás á ákærða, sprottið af hálfu fársjúkra einstaklinga.

MM kt. [...], fyrrverandi vistmaður í Byrginu, gaf skýrslu fyrir lögreglu þann 1. október 2007. Kvaðst MM hafa grun um að kærur á hendur ákærða hafi verið lagðar fram á röngum forsendum. Kvaðst hún hafa vitað að ákærði hefði átt í ástarsambandi við C og B en viti ekki um aðra kærendur. MM kvaðst vita að D hefði aldrei sofið hjá ákærða og kvaðst hafa spurt D hvers vegna hún hefði kært hann og D þá sagt sér að hún væri fjárhagslega- og andlega háð ákærða. Kvað hún einu vitneskju sína um ástarsambönd ákærða vera frá C og B komnar en ekki frá ákærða. Þá kvaðst hún aldrei hafa séð neitt sem benti til að um ástarsamband væri að ræða á milli þeirra. Ákærði hefði hjálpað þeim út í lífið og þær hefðu því eðlilega verið mikið í viðtölum hjá honum og þá eftir að þær voru fluttar frá Byrginu. Þá tjáði MM dóminum eins og hún hafði gert í lögregluskýrslu varðandi upplýsingarnar frá D. Aðspurð um gjafir frá ákærða kvað MM ákærða hafa gefið vistmönnum alls kyns gjafir og kallað það „blessun“ ef þau unnu verkin sín vel því ekki hafi verið mikið um peninga til að borga þeim laun.

NN, kt. [...] [...], Reykjavík, gaf skýrslu hjá lögreglu þann 3. október 2007.

Kvaðst NN hafa verið í Byrginu frá 28. september 2005 til 20. desember 2006. Kvað hún kærendur í máli þessu hafa verið í Byrginu á sama tíma og hún og kannaðist því við þær. Kvaðst NN engin samskipti hafa haft við kærendur utan D en hana hefði NN hitt á Hlaðgerðarkoti. Þar hefði NN tjáð sér að hún hefði ekki átt í kynferðissambandi við ákærða. Kvað NN ákærða og konu hans vera góða vini sína og þau alltaf stutt við bakið á henni í gegnum hennar erfiðleika.

NN kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í Byrginu frá ágúst 2005 til loka Byrgisins. Bar hún í flestu fyrir dóminum eins og fyrir lögreglu. Aðspurð hvort hún hefði orðið vör við að C gisti hjá ákærða, kvaðst NN vita að C hafi oft gist þar en kvaðst vita að það hefði aldrei verið þegar ákærði var á staðnum. Aðspurð hvernig NN vissi þetta, kvaðst hún alltaf hafa verið vakandi þegar ákærði fór og líka þegar hann kom, en hann hefði alltaf farið af staðnum mjög seint og komið mjög snemma. C hefði hins vegar setið um hann og þá á föstudögum en hún hefði alltaf þurft far með honum í og úr Byrginu þegar C söng í lofgjörðinni. NN kvaðst aðspurð hafa verið starfsmaður í Byrginu en einnig verið í meðferð þótt hún hafi verið starfsmaður. NN kvaðst hafa unnið á símanum og hafi það verið hluti af meðferðinni. B kvaðst NN ekki þekkja en A hefði komið mikið í Byrgið á sama tíma og NN var þar, plássi hefði verið haldið fyrir A þar sem miklir erfiðleikar hefðu verið í hjónabandi hennar. NN kvað það rétt að vistmenn sem væru farnir frá Byrginu hefðu komið þangað á samkomur.

E, kt. [...], til heimilis að [...], Selfossi, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa byrjað að starfa í Byrginu áður en það flutti í Rockville, sem sjálfboðaliði, sem ráðgjafi og við skrifstofumál og aðallega séð um félagsþjónustutengd mál og tryggingamál skjólstæðinganna. Kvað hún C hafa unnið að þýðingum fyrir ákærða og því verið mikið hjá honum. Hluti af meðferðinni hjá vistmönnum hafi verið að fá verkefni og hefði endurhæfing falist í því. E staðfesti að hafa afhent H armbandsúr sem ákærði hefði skilað til þeirra hjóna eftir að kæra brotaþola kom fram.

Ólafur Ólafsson, kt. 111128-3269, til heimilis að Hjarðarhaga 23, Reykjavík, fyrrverandi landlæknir, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa starfað sem einn af læknum Byrgisins. Hefði hann komið á viku til tíu daga fresti og skoðað þá sem voru nýkomnir auk þess að hafa verið með viðtöl við skjólstæðinga Byrgisins. Þá hefðu aðrir læknar komið að vistmönnum, sérfræðingar og heilsugæsla. Kvaðst Ólafur muna að hafa ritað vottorð fyrir C til að hún fengið endurhæfingarörorku. Ólafur kvað kærendur í máli þessu ekki hafa rætt sambönd sín og ákærða við sig. Aðspurður kvað Ólafur einstakling þurfa að vera í einhvers konar endurhæfingu eða iðjuþjálfun til að vottorð yrði skrifað fyrir hann í þeim tilgangi að fá endurhæfingarörorku. Þá færi sá einstaklingur einnig í viðtal og mat hjá nefnd sem væri á vegum Tryggingastofnunar og um þá örorku giltu mjög strangar reglur. Ákærði hefði ekkert með það að gera hvort vistmaður fengi samþykki fyrir endurhæfingarörorku hjá TR.

LL, kt. [...], [...], Selfossi, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa dvalið mikið í Byrginu. Aðspurð kvaðst LL ekki hafa neina vitneskju um samskipti kærenda og ákærða né vita um kynferðissamband þeirra. 

Ágúst Evald Jónsson, kt. 240567-3429, lögreglumaður kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa unnið með tölvur og farsíma ákærða og kærenda, við að ná gögnum úr þeim. Útskýrði Ágúst hvaða aðferðum hefði verið beitt við þá skoðun. Þá útskýrði Ágúst einnig ferlið þegar skjöl og myndir eru færð frá einni tölvu í aðra og möguleikana á að breyta skjölum í tölvu og þá hvaða upplýsingar viðkomandi skjal bæri með sér. Þá kvað Ágúst ekki möguleika á að breyta tölvupósti þegar hann er opnaður í tölvunni en um leið og hann væri áframsendur væri hægt að breyta honum svo og öðrum upplýsingum sem fylgdu honum.

 

Jón Hlöðver Hrafnsson, kt. 060862-2469, rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn. Skýrði hann fyrir dóminum með hvaða hætti tölva ákærða og aðrar tölvur ásamt farsímum voru rannsökuð og hvernig skjöl og myndir voru fengnar úr þeim.

XII.

Ákæruliður I. Niðurstaða.

Ákærði hefur neitað því, bæði fyrir lögreglu og fyrir dóminum, að hafa verið í kynlífssambandi við A og að hafa stundað BDSM-kynlíf með henni. A hefur lýst því svo fyrir lögreglu og dóminum að hún hafi haft samfarir við ákærða í nokkur skipti á heimili hennar að Y, Hveragerði, en A flutti til Hveragerðis í lok september 2003. Í gögnum málsins eru engin gögn sem styðja þá fullyrðingu Aog verður sakfelling þá eingöngu byggð á frásögn hennar fái hún stoð í öðrum gögnum málsins. Eftir að A flutti til Hveragerðis fór hún að eigin sögn að sækja samkomur og meðferðarviðtöl hjá ákærða í Byrginu. Kveður A að á þessum tíma hafi ákærði verið að senda henni efni varðandi BDSM-kynlíf. Ákærði hefur neitað því. Af gögnum málsins má sjá að ákærði sendi A tölvupósta frá 6. nóvember 2003 til 4. desember 2003 sem innihéldu kynlífsþanka, ástarjátningar og upplýsingar um BDSM-kynlíf. Á þessum sama tíma lagði ákærði einnig persónulega og í nafni Byrgisins inn á bankareikning A þó nokkrar peningafjárhæðir og þá oft í mánuði. Eru skýringar ákærða og mótmæli, sem hrakin hafa verið með gögnum, afar ótrúverðugar og er talið sannað, með frásögn A og gögnum sem styðja framburð hennar, sem var afar trúverðugur fyrir dómi, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í a-lið I. kafla ákærunnar eins og henni var breytt fyrir dómi, utan að sú breyting sem gerð var á ákærunni þykir of seint fram komin og verður ákærði ekki sakfelldur fyrir að hafa haft samræði við A á vegi við Búrfell í Grímsnesi á árinu 2003. Á þessum tíma var A skráð sem vistmaður á Byrginu frá 7. til 14. september 2003 en staðfest hefur verið að hún hélt áfram að taka þátt í lofgjörðum og samkomum eftir það og hefur því ekki verið mótmælt af ákærða. Út frá forsögu A má telja sannað að hún hafi verið ákærða háð, fjárhagslega og sem skjólstæðingur hans í trúnaðarsambandi. Verður ákærða gerð refsing fyrir þessa háttsemi hans.

Þá kemur til skoðunar hvort ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í b-lið 1. kafla ákærunnar. A var skráð sem vistmaður í Byrginu samkvæmt upplýsingum frá Byrginu 26. maí til 17. júlí 2006. Þrátt fyrir fullyrðingu ákærða um að A hafi verið að misnota aðstöðuna í Byrginu til að fá greiddan lífeyri er sú fullyrðing í mótsögn við öll gögn málsins sem styðja það að A hafi leitað til Byrgisins sér til aðstoðar og lækninga.  A lýsti kynlífsathöfnum sem hún átti með ákærða og J konu hans í sumarhúsi við Laugarvatn. A lýsti sumarbústaðnum og teiknaði upp fyrir lögreglu herbergjaskipan hússins og benti lögreglu á húsið. Kom teikning sem A gerði heim og saman við eins samliggjandi bústað á Laugarvatni. Ákærði staðfesti fyrir dóminum að hafa tekið slíkan bústað á leigu og dvalið þar.  Frásögn A um samræði og önnur kynferðismök við ákærða, í Hagavík við Þingvallavatn, á útivistarsvæði við Álfaskeið í Hrunamannahreppi og í Byrginu á árinu 2006, er afar trúverðug og með stoð í öðrum gögnum málsins þykja engin rök til að hafna henni. Skýringar ákærða hafa hins vegar verið afar ótrúverðugar og að engu hafandi. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið.

Ákæruliður II. Niðurstaða.

Ákærða er gefið að sök í ákæru, eins og henni var breytt, að hafa oft frá apríl 2004 til maí 2005 haft samræði og önnur kynferðismök við B þegar hún var vistmaður í Byrginu og sótti þar meðferð vegna vímuefnamisnotkunar. Kynlífsathafnirnar hafi oftast átt sér stað í Byrginu en einnig á hótelum í Reykjavík, þar á meðal í fjögur skipti á Hótel Loftleiðum, í nokkur skipti á Hótel Nordica og í eitt skipti á hóteli við Laugaveg 18. Ákærði hefur neitað sök.

B gaf skýrslur fyrir lögreglu í fjögur skipti. Þá kom B fyrir dóminn og sagði frá reynslu sinni. Ekki er vafi á að B var vistmaður í Byrginu tímabilið apríl 2004 til maí 2005 en það var staðfest í Heildarskrá frá Landlæknisembættinu. Þá fær framburður B stoð í gögnum málsins svo og framburði vitnanna H og K, sem m.a. urðu vitni að því að B dvaldi næturlangt í herbergi ákærða og með honum meðan B dvaldi sem vistmaður í Byrginu. Þá styður framburður K svo og vitnisburður P framburð B um BDSM-kynlíf sem ákærði stundaði en hann lét bæði P og K í té sams konar spurningalista um BDSM-kynlíf og hann lét B hafa. Þá er framburður P um að ákærði hafi beðið hann um að koma og hafa kynmök við konu að Ö í samræmi við framburð B um það atvik, enda kvaðst P hafa orðið þess áskynja hver konan var áður en hann yfirgaf íbúðina. Þá hafa skýringar ákærða á smáskilaboðum hans til B verið afar ótrúverðugar og að engu hafandi. Telst því sannað að hann hafi ítrekað sent henni hugleiðingar sínar og óskir um ástarsamband við hana og kynlífsathafnir eins og að framan hefur verið rakið.

Samræmi er í frásögn ákærða, vitnisins H og B sjálfrar um andlegt og líkamlegt ástand B við komu hennar í Byrgið í ágúst 2003 en hún var mjög illa á sig komin andlega og líkamlega. Þá eru engin rök til að hrekja framburð B, sem var afar trúverðugur fyrir dómi, um meðferðarviðtöl hennar hjá ákærða og hvernig hann fékk hana til að taka þá í kynlífi og BDSM-kynlífsathöfnum. Þá lýsti B því fyrir dómi að meðferðarviðtöl hennar hjá ákærða hafi verið í fullum trúnaði af hennar hálfu og hún trúað ákærða fyrir öllum sínum vandamálum. Þessi djúpmeðferðarviðtöl hefðu snúist um að hún hafi greint ákærða frá líferni sínu og mjög svo persónulegum málum þannig að hún hafi trúað honum fyrir sínum innstu málefnum. Ákærði hefur sjálfur upplýst fyrir dóminum að meðferðarviðtöl vistmanna hafi byggst upp á því að trúnaður ríkti á milli hans og skjólstæðinga hans. Verður því að telja sannað að B hafi verið háð ákærða í trúnaðarsambandi eins og greinir í ákæru.

Af þeim fjárframlögum sem ákærði lagði fram til B má ótvírætt draga þá ályktun að B hafi verið að einhverju leyti háð ákærða fjárhagslega og þurft á stuðningi hans að halda enda bárust greiðslur frá ákærða til hennar oft í mánuði, bæði á meðan B dvaldi í Byrginu svo og eftir að hún var farin þaðan og allt þar til í desember 2006. Þá hefur vitnið H staðfest að hann hafi haft milligöngu um að kaupa bifreið handa B sem ákærði afhenti henni sem gjöf og samræmist það framburði B sjálfrar.

Þá liggja fyrir staðfestingar frá Hótel Loftleiðum og Nordica Hótel um pantanir á hótelherbergjum, og í nokkrum tilvikum hefur sannanlega verið pantað og greitt af ákærða. Þrátt fyrir neitun ákærða verður að telja sannað með framburði B, sem er studdur gögnum málsins, og vitnisburði Q að ákærði hafi pantað hótelherbergi fyrir B og dvalið þar með henni. Er framburður ákærða um þetta ákaflega ótrúverðugur.

Með vísan til þess sem að ofan segir þykir sannað, svo hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann er sakaður um samkvæmt ákærulið II og verður hann sakfelldur fyrir hana.

Ákæruliður III. Niðurstaða.

Mikið af gögnum hafa verið lögð fram í máli þessu vegna kæru C. Er þar mikið magn ljósmynda sem ekki er talin þörf á að tíunda nákvæmlega hér nema að því leyti sem þær skipta máli við sönnunarmat í málinu og snerta sakarefnið og ákærða. Þá liggur fyrir mikið magn af vídeóupptökum og verða þau gögn eingöngu tíunduð sem snerta sakarefni og ákærða. 

Fyrst er að telja myndband er sýnt var á veraldarvefnum og að hluta í þætti Stöðvar 2, Kompás, í lok árs 2006. Ákærði hefur viðurkennt að það sé hann sem kemur fram í myndbandinu ásamt C. Ákærði hefur hins vegar haldið því fram að C hafi byrlað sér smjörsýru eða aðra ólyfjan í þeim tilgangi að gera hann að viljalausu verkfæri og hafa sjálf misnotað ákærða með þeirri háttsemi sem kemur fram í myndbandinu. Að mati dómsins er engum blöðum um það að fletta að um kynlífsathafnir er að ræða á milli C og ákærða í umræddu myndbandi. Ákærði ber við óminni en ásetningur hans hafi ekki staðið til að stunda kynlíf með C. Því til stuðnings afhenti hann lögreglu flösku með smjörsýru í sem hann kveðst hafa fundið í bakpoka sínum daginn eftir. Kvaðst hann strax hafa þekkt lit og lykt vökvans í flöskunni og því farið með hana til lögreglunnar, sem hann gerði þó ekki fyrr en eftir að hann hafði verið kærður til lögreglu. Telur dómurinn þennan framburð ákærða afar ótrúverðugan og verður þessi skýring ákærða virt að vettugi. Telur dómurinn sannað að ákærði hafi tekið þátt í þeim kynlífsathöfnum sem fram koma í myndbandinu, dómskjali númer 5, skjali 13 í skjalaskrá lögreglunnar.

Næst var dvd-diskur skoðaður, dómskjal 5, skjal merkt 2 bls. 3 í skjalaskrá lögreglu. Gögnin á disknum eru fengin úr fartölvu C, af flakkara, borðtölvu og farsíma hennar. Á disknum er að finna möppu merkta Gallery, sem var í farsíma C, og eru í henni myndir merktar „Guðmundur í bílnum.3gp., Gummi.3gp., HR.myndgummi3.gp., hreyfimynd001.gp., kjjhgh(1). 3gp.“ C kvað ákærða hafa sent sér þessar myndir úr farsíma hans í farsíma hennar og séu allar af ákærða að fróa sér. Við skoðun á þessum myndum er ekki talinn vafi á því að fyrsta myndbrotið sé af ákærða og er það af kynferðislegum toga þar sem greinilega má þekkja rödd ákærða. Myndskeið merkt „Gummi.3pg“ er talið vera sannanlega af ákærða en ákærði hefur neitað því þrátt fyrir að andlit hans sjáist greinilega á myndskeiðinu og skýringar hans ótrúverðugar. Myndir merktar „HR.myndgummi3.gp og  kjjhgh(1). 3gp“ eru nánast eins myndbönd af manni að fróa sér og er rödd ákærða greinileg á myndbandinu. Ákærði hefur haldið því fram að rödd hans hafi verið sett inn á myndbönd síðar en ekkert er komið fram af hálfu ákærða sem sannar það. Verður því að telja sannað að umrædd myndbönd séu af ákærða og að hann hafi sent þau C. Í möppu í farsíma C, sem bar heitið „Myndir“, var meðal annars að finna ljósmyndir merktar „Mynd008.jpg, Mynd009.jpg, Mynd010,jpg og Mynd011.jpg“. Myndir merktar 008, 010 og 011 voru af kynfærum manns með klemmum á pungnum. Enginn vafi er að mynd merkt 009 er af ákærða nöktum niður að mitti. C sagði þessar myndir teknar á heimili hennar af ákærða en ákærði hefur neitað því. Ekki er hægt að fullyrða að allar þessar myndir séu af ákærða sjálfum utan mynd númer 009.jpg, þó svo að allar séu þær teknar hver á eftir annarri.

Næst er skoðaður dvd-diskur, skjal 2, bls. 4 í skjalaskrá lögreglu, þar sem meðal annars er að finna möppu sem ber heitið „hreyfimyndir af tölvum3gp“. Er þar m.a. myndskeið merkt HR5mynd000.3gp. Kvað C ákærða hafa sent sér það myndskeið úr farsíma hans en þar er ákærði með kynlífslýsingar. Ákærði viðurkenndi fyrir dóminum að hafa sent það myndskeið en hann hefði sent konu sinni það en ekki C. Þá er mappa merkt „Ljósmyndir“ skoðuð. Er þar að finna ljósmyndir merktar frá 166_thumb.jpg,167 til 177_thumb.jpg. Kvað C þær myndir hafa verið teknar heima hjá henni af sér og ákærða bundnum. Við skoðun á myndunum má greinilega þekkja ákærða á myndum merktum 168 og 170. Ákærði staðfesti að þær myndir hafi verið teknar af honum en það hefði verið gert í tengslum við myndbandið sem fór á netið. Aðrar myndir eru það óskýrar að ekki verður af þeim ráðið hver sé á myndunum. Myndir merktar cache_228_DSC01283.jpg, cache_230_DSC01285.jpg, cache_123_DSC01286.jpg, cache_232_DSC01287.jpg, cache_233_DSC01288.jpg, hafa verið teknar í og við Ford Econoline-bifreið ákærða og hafi ákærði tekið þær ljósmyndir af henni og sjáist ákærði sjálfur á einni mynd. Ákærði neitaði því að hafa verið á staðnum og hafa tekið umræddar myndir. Kvaðst hann aldrei hafa verið með C í umræddri bifreið. Þá kvað hann þá ljósmynd þar sem hann sæist á myndinni ásamt C vera falsaða þannig að mynd af honum hefði verið skeytt inn á aðra mynd með C á. Tvö vitni voru leidd fyrir dóminn til að skýra myndina. DD ljósmyndari kvað mögulegt að skeyta tveimur myndum saman en það þyrfti nokkra kunnáttu til að geta nýtt sér tölvuforrit sem gerðu slíkt framkvæmanlegt. Þá kom fyrir dóminn EE sem kvað það lítið mál fyrir þá sem eitthvað kynnu á Photoshop-forritið að skeyta saman tveimur myndum eins og haldið væri fram í þessu máli. Ekki hefur verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti að myndin sé ófölsuð né að hún hafi verið fölsuð. Hins vegar má á myndinni sjá að inni í bifreiðinni er hattur, líkur þeim er ákærði ber oftast, og ákærði er hattlaus á myndinni. Þá verður að líta til þess að ákærði hefur haldið því fram að hann og C hafi aldrei verið saman í Econoline-bifreiðinni en á myndskeiði merktu „1 avi“ má sjá bæði ákærða og C inni í bifreiðinni. Fær framburður C stoð í því myndbandi en framburður ákærða er að sama marki ótrúverðugur. Ljósmyndir merktar DSC00116.JPG, 118, 120 og 121 eru sannanlega af ákærða en þar er ákærði nakinn og bundinn með grímu fyrir augu. Ákærði hefur ekki neitað því að umræddar myndir séu af honum en þær myndir voru í tölvu C. Ljósmynd merkt DSC001161.JPG er sannanlega af ákærða fjötruðum, tekin heima hjá C. Næst voru skrár skoðaðar merktar „videoskrár 1“ úr tölvu C. C segir að vídeóskrá sem er merkt _Title_3.mpg, sé myndupptaka sem sé tekin inni á skrifstofu ákærða í útvarpshúsinu í Byrginu og upptakan sýni hvar ákærði sé að binda lim sinn og hún síðan hefur munnmök við ákærða. Á upptökum má sjá m.a. ljósmyndir af börnum ákærða. Ákærði hefur neitað að umrætt myndband sé af honum. Á myndbandinu sést greinilega að karlmaðurinn er með armbandsúr, eins og það sem lagt var fram í dóminum og ákærði kvaðst hafa átt. Fyrr í skýrslutöku fyrir dómi kvaðst ákærði aldrei hafa gengið með armbandsúr. Þá sést skurður í nára og fæðingarblettur á maga mannsins, sem samrýmist lýsingu sem koma fram á myndum og tilgreind er í vottorði eftir læknisskoðun er fór fram á ákærða. Ákærði hefur staðfest fyrir dóminum að myndbandið sé tekið í útvarpshúsinu í Byrginu og þykir dóminum sannað, með vísan til ummerkja á myndbandinu, að umræddur karlmaður sé ákærði. Í vídeóskrá sem er merkt Viedo 2.avi er myndupptaka af vefmyndavél á heimili C og upptakan sýnir hvar hún og ákærði eru í kynlífsathöfnum. Á upptökunni má sjá karlmann með hatt og kynlíf er stundað með aðstoð einhvers konar samfaravélar sem sett er í stól. Samtal ákærða og C er skýrt á myndbandinu. Þó svo að myndgæðin séu ekki góð, má telja, svo hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa, að myndbandið sé tekið af ákærða og C í kynlífsathöfnum en myndbandið er tekið heima hjá C að hennar sögn.  Næst er farið í möppu sem er merkt „skjöl“. Við skoðun á skjölum með heitinu „Próf King Irons1 til Próf King Irons4“ og tveim skjölum merktum „Efni Próf King Irons“ og einu skjali merktu „Próf King And“ kemur fram að „Author“ eða höfundur skjalanna er ákærði. Efni þessara skjala er af kynferðislegum toga og snýst um BDSM-kynlíf. Eru þau talin, svo hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa, vera komin frá ákærða.

C hefur lýst því að ákærði hafi komið heim til sín í X eitt sinn og beðið annan karlmann að koma og hafa við hana samfarir ásamt ákærða. Ákærði neitaði því staðfastlega. Fyrir dóminn kom P og staðfesti hann frásögn C og kvaðst sjálfur hafa farið að beiðni ákærða heim til C og haft við hana samfarir ásamt ákærða. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að vitnisburður P sé rangur þó svo að hann muni ekki hvenær atvikið átti sér stað. Er því talið sannað að umrætt atvik hafi átt sér stað og að ákærði hafi skipulagt það.

C var skráð í Byrgið, samkvæmt heimildum frá embætti Landlæknis, frá 10. apríl 2004 til 31. maí 2004 og frá 10. júní 2004 til 1. nóvember 2006. Verður að líta svo á að C hafi verið skjólstæðingur Byrgisins og ákærða í trúnaðarsambandi á þessu tímabili þrátt fyrir að hún hafi verið komin með sitt heimili að X, Reykjavík, frá 1. júní 2005.

Með hliðsjón af öllu framansögðu og með vísan til framburðar C, sem var mjög trúverðugur fyrir dómi, framburðar vitna og þeirra skjala og mynda sem farið hefur verið yfir hér að framan og liggja fyrir í málinu, þykir lögfull sönnun fram komin um að ákærði hafi átt í kynlífssambandi við C með þeim hætti og á því tímabili sem lýst er í a-og b-liðum III. kafla ákærunnar. Verður  ákærða því gerð refsing fyrir þá háttsemi.

Ákæruliður IV. Niðurstaða.

Í gögnum málsins vegna þáttar D í máli þessu liggur fyrir staðfesting frá Landlæknisembættinu um veru D í Byrginu. Var hún skráð þar fyrst frá 1. október 2003 til 28. febrúar 2005. Frá 25. september 2005 til 1. október 2005. Frá 7. júlí 2006 til 19. júlí 2006. Frá 24. júlí 2006 til 29. júlí 2006 og síðast frá 26. september 2006 til 26. október 2006. Þá liggur fyrir uppdráttur D af skipulagi innra herbergis í geymslu að Háholti 11, Hafnarfirði. Þá liggur fyrir yfirlit frá Landsbanka Íslands af bankareikningi FF þar sem kemur fram að ákærði lagði þann 10. september 2004 162.800 krónur inn á reikning hennar, þann 7. október 2004 22.081 krónu, þann 23. desember 2004 23.000 krónur og þann 5. apríl 2005 40.000 krónur. Þá liggur fyrir geisladiskur með „B-light“ mynd.

Staðfest er að D var skjólstæðingur Byrgisins og ákærða frá 1. október 2003 til 28. febrúar 2005, um haustið 2005 og síðan þrisvar sinnum til viðbótar með hléum til október 2006. Var hún skráð sem vistmaður á því tímabili sem ákærði er sakaður um að hafa brotið gegn henni. D var í meðferðarviðtölum hjá ákærða sem skjólstæðingur hans og Byrgisins til loka febrúar 2005 en eftir það kveðst hún hafa sótt lofgjörð, samkomur og fyrirlestra til haustsins 2005 og hefur ákærði ekki andmælt því. Verður því að líta svo á að þrátt fyrir að D hafi verið flutt frá Byrginu þá hafi hún áfram litið á sig sem skjólstæðing ákærða í trúnaðarsambandi allt fram til haustsins 2005, enda var hún skráð þar vistmaður nokkra daga í september.

D lýsti bæði fyrir lögreglu og dóminum því ástandi sem hún var í þegar hún kom í Byrgið. Ákærði hefur einnig staðfest að hún hafi verið mjög illa á sig komin og fær vitnisburður þeirra beggja stoð í vitnisburði móður D, FF

Ákærði hefur neitað því að hafa átt í kynlífssambandi við D og hefur J einnig neitað því að hafa tekið þátt í kynlífsathöfnum eins og D hefur skýrt frá.

D hefur verið staðföst í framburði sínum, hjá lögreglu og fyrir dómi. Fær framburður hennar stoð í vitnisburði P en hann kvaðst hafa tekið þátt í kynlífsathöfnum að Ingólfshvoli með D. Þá kvaðst P hafa tekið þátt í fleiri kynlífsathöfnum með ákærða og öðrum brotaþolum í máli þessu. Staðfestir sá vitnisburður framburð D um að ákærði hafi stundað BDSM-kynlíf. Ákærði þjálfaði D og kenndi henni að vera Mastra eða Master í BDSM-kynlífsathöfnum. Þær kynlífsathafnir snúast ekki endilega um að tveir einstaklingar eigi kynlíf saman heldur allt eins pyntingar og drottnun í kynlífsathöfnum.

Þrátt fyrir að ákærði hafi ekki haft beint samræði við D þá telur dómurinn sannað, með framburði D og vitnisburði P sem fær einnig stoð í framburði annarra brotaþola í máli þessu, að ákærði hafi í allt fjórum sinnum stundað kynlífsathafnir með D frá haustinu 2004 til vors 2005, tvisvar sinnum í sumarbústað að Laugarvatni haustið 2004, í eitt skipti á heimili ákærða að Háholti 11, Hafnarfirði, og einu sinni á Hótel [...]. Hafi hann í þeim kynlífsathöfnum notað kynlífstæki, svipur, bönd og gervilimi sem notað hafi verið til að fara í endaþarm og leggöng eins og D hefur lýst. Þá hafi D þurft að horfa á ákærða hafa samræði við konu sína í „kennslu“ þessari. Fellur þessi háttsemi ákærða undir hugtakið „önnur kynferðismök“  eins og segir í 197. og 198. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hefur ákærði því gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í IV. lið ákærunnar með því að hafa í fjögur skipti, en ekki í allt að tíu skipti, haft við D önnur kynferðismök…, eins og nánar segir í ákærunni. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að kynferðismökin hafi átt sér stað í Byrginu en D sjálf hefur lýst því svo að fyrstu skiptin hafi verið í sumarbústað að Laugarvatni. Verður ákærði því hvorki sakfelldur fyrir þá háttsemi né að hafa haft samræði við stúlkuna í greind sinn.

Þegar ákærði braut gegn D í fyrsta sinn í sumarbústað á Laugarvatni um haustið 2004 var D aðeins 17 ára gömul. Verður litið til þess við ákvörðun refsingar.

XIII.

Ákærði var í forsvari fyrir meðferðarheimili fyrir einstaklinga sem hafa hrasað illa á lífsleiðinni og áttu nánast hvergi höfði sínu að halla þegar þeir leituðu til Byrgisins eftir aðstoð. Kærendur í máli þessu hafa allir lýst andlegu og líkamlegu ástandi sínu við komuna í Byrgið og hefur það verið staðfest af ákærða sjálfum og vitnum. Kærendur voru á aldrinum frá 17 ára til 28 ára þegar  ákærði framdi brot sín. Allar hafa konurnar lýst því að þær hafi verið mjög illa á sig komnar andlega þegar þær komu í Byrgið og hefði ákærði smátt og smátt unnið traust þeirra og trúnað. Þær hefðu trúað honum fyrir  innstu leyndarmálum sínum að áeggjan ákærða í þeim tilgangi að byggja upp traust milli ákærða og þeirra. Þá telur dómurinn sannað að ákærði hafi sagt þeim sögu af erfiðri kynlífsreynslu sinni í æsku í þeim tilgangi að sýna fram á einlægni sína og með þeirri aðferð aukið trúverðugleika sinn gagnvart kærendum. Þá var Byrgið kynnt og rekið sem kristilegt meðferðarheimili og meðferðin öll byggð á gildum kristinnar trúar sem kærendur sögðust allir hafa tekið mjög alvarlega. Því til stuðnings kvaðst A t.d. ekki hafa átt kynlíf með ákærða í Byrginu á árinu 2003, þar sem hún leit á Byrgið sem heilagan stað. Ákærði ýmist taldi kærendum trú um að það væri vilji Guðs að þeir þóknuðust honum eða að BDSM-kynlíf myndi hjálpa þeim að ná andlegum bata.

Þrátt fyrir að kærendur hafi verið farnir frá Byrginu þegar sum af brotunum gegn þeim voru framin, lítur dómurinn svo á að áframhaldandi meðferðarviðtöl kærenda eftir að veru þeirra í Byrginu lauk, þátttaka þeirra í lofgjörðum, samkomum og fyrirlestrum, svo og huglæg afstaða þeirra allra til ákærða, staðfesti að þeir hafi allir verið áfram í trúnaðarsambandi sem skjólstæðingar ákærða þar til yfir lauk. Af öllu því sem að framan er rakið varðandi kæru hvers og eins brotaþola, er talið sannað að ákærði misnotaði aðstöðu sína og fjárhagslega yfirburði, veikleika skjólstæðinga sinna og leit þeirra í trúna á Guð, í þeim tilgangi að fullnægja eigin hvötum og kynlífsfíkn.

Það er mat dómsins að ákærði hafi  unnið markvisst að því að fá kærendur til fylgilags við sig og virðist hann hafa valið sér fórnarlömb sem áttu mjög erfiða kynlífsreynslu að baki. Þá er það ákærða til refsiþyngingar að hann fékk í nokkrum tilvikum fleiri með sér til kynlífsiðkana ásamt viðkomandi stúlku og braut þá enn frekar gegn skjólstæðingi sínum.

Þá verður að telja að þau fjárframlög sem ákærði lagði fram til brotaþola séu langt umfram það sem  kalla megi eðlilegan fjárstuðning. Oftar en ekki greiddi ákærði nokkrum sinnum í mánuði til þolenda greiðslur sem skiptu þær miklu máli. Verður því einnig að telja að þær hafi verið ákærða háðar fjárhagslega að einhverju marki. Þá er ekki hægt að líta fram hjá því að bifreiðakaup ákærða og afnot brotaþola af bifreiðum er hann hafði milligöngu um að kaupa og afhenti þeim voru langt umfram það sem búast má við að forstöðumaður geri fyrir vistmenn sem engar tekjur höfðu né bolmagn til að standa straum af reglulegum afborgunum. Renna þessi fjárframlög stoðum undir það að brotaþolar hafa talið sig vera í einstöku trúnaðarsambandi við ákærða, enda hafa þær allar, fyrir utan D, sagt að þær hefðu haft væntingar um frekara samband í framtíðinni með ákærða.

Ákærði og nokkur vitni sem komu fyrir dóm lýstu því yfir að það væri trú þeirra að nokkrir einstaklingar stæðu að baki þeim kærum sem lagðar voru fram hjá lögreglu á hendur ákærða og hafi undirrótin verið persónuleg óvild einstakra manna. Ekkert er fram komið í málinu sem rennir stoðum undir þær fullyrðingar og er vörn ákærða að þessu leyti haldlaus. Verður ákærða því gerð refsing fyrir háttsemi sína sem réttilega er færð til refsiákvæða í ákæruskjali.

Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur ekki gerst brotlegur áður. Þá verður litið til þess að brotin var framin á löngum tíma auk þess að einn brotaþola var 17 ára þegar fyrst var brotið gegn henni. Á ákærði sér engar málsbætur. Brot ákærða voru ófyrirleitin og til þess fallin að valda veikum einstaklingum verulegum skaða. Samkvæmt því, og með vísan til 1., 2., 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. og 77. gr. laga nr. 19/1940, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár.

XIV.

Bótakröfur:

Í málinu liggja fyrir bótakröfur frá öllum kærendum. Krafðist ákærði að bótakröfunum yrði vísað frá dómi, til vara að hann yrði sýknaður af þeim og til þrautavara að þær yrðu lækkaðar verulega. Bótakröfurnar eru byggðar á 170. gr. laga nr. 19/1991 og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við mat á fjárhæð skaðabóta ber að líta til þess hversu alvarlegt brotið er, hvað brotamanni gekk til, huglægrar upplifunar brotaþola og loks til umfangs tjónsins. Í máli þessu braut ákærði gróflega allar skyldur sínar gagnvart brotaþolum og misnotaði sér veikindi þeirra og yfirburðastöðu sína. Ásetningur hans var mikill og brot hans stórfellt gagnvart varnarlausum sjúkum konum sem voru honum háðar um meðferð og árangur meðferðar.

Sveinn Andri Sveinsson hæstaréttarlögmaður krefst skaðabóta fyrir hönd A úr hendi ákærða, samtals að fjárhæð 2.500.000 krónur, auk vaxta frá því að hið bótaskylda tilvik átti sér stað í samræmi við II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, og dráttarvaxta skv. III. kafla sömu laga frá því að mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar. Ekki liggja fyrir nein gögn um afleiðingar brotsins fyrir A utan vottorðs og vitnisburðar geðlæknis hennar, Garðars Sigursteinssonar, sem kvað brotið hafa haft miklar andlegar afleiðingar fyrir hana. Forsaga A staðfestir að hún þarf mikinn andlegan stuðning og kvað hún sjálf fyrir dómi afleiðingar þessa sambands vera að hún væri enn „öll í klessu“, hún eigi mjög erfitt með að treysta fólki, hún eigi erfitt með að átta sig á trúnni gagnvart Guði og hún sé búin að leita mikið. Hún kvaðst efast um sjálfa sig, dómgreind sína, hafa lágt sjálfsmat og eiga erfitt með að einbeita sér. Þá hefði hún farið í skóla sl. haust en rannsókn þessa máls ein og sér haft mikil áhrif á skólagönguna. A kvaðst alls ekki hafa náð sér og eiga erfitt. Með vísan til þess er hér að framan er rakið, sem og vættis Garðars Sigursteinssonar geðlæknis, er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið A miklu andlegu tjóni. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti eins og í dómsorði greinir.

Þá gerir Sveinn Andri Sveinsson kröfu um skaðabætur fyrir hönd B úr hendi ákærða að fjárhæð 2.500.000 krónur auk vaxta frá því að hið bótaskylda tilvik átti sér stað, í samræmi við II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla sömu laga frá því að mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar. Fyrir liggur vottorð Hjördísar Tryggvadóttur sálfræðings þar sem kemur fram að B hafi sótt níu meðferðarviðtöl til hennar á tímabilinu 14. febrúar til 2. maí 2007. Í vottorðinu kemur fram að hjá B hafi gætt mikillar reiði í garð ákærða vegna brota hans og misnotkunar á trausti hennar í hans garð. Hún hafi fundið fyrir aukinni fíkn í vímuefni og neytt þeirra í eitt til tvö skipti. B hefði farið í sex vikna dagdeildarmeðferð á Teigi til að ná enn betri tökum á að halda sig frá vímuefnum. Fyrir dóminum kvaðst B hafa náð að vera án fíkniefna í nokkra mánuði og sér liði betur í dag. Með vísan til þess er hér að framan er rakið, sem og vottorðs Hjördísar Tryggvadóttur sálfræðings, er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið B miklu andlegu tjóni. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur. Sú fjárhæð ber vexti eins og í dómsorði greinir.

Sveinn Andri Sveinsson krefst skaðabóta fyrir hönd C úr hendi ákærða að fjárhæð 3.000.000 króna auk vaxta frá því að hið bótaskylda tilvik átti sér stað í samræmi við II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla sömu laga frá því að mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar. Fyrir liggur vottorð Odda Erlingssonar sálfræðings. Kemur þar fram að C hafi einungis mætt í eitt viðtal af fjórum sem hann hafði gefið henni. Hefði C ekki treyst sér í seinni tímana vegna vanlíðunar og fullyrti Oddi að C hafi liði of illa til að geta nýtt sér viðtöl á stofu. Viðtalanna var óskað í samvinnu við vímuefndadeild Geðdeildar Landspítala. Segir í vottorðinu að í þessu eina viðtali hafi komið fram að C hafi liðið mjög illa, hún hafi sýnt ýmis merki þess að hafa orðið fyrir mjög erfiðri lífsreynslu og vitnað þá í dvöl sína í Byrginu. Hún hefði sagst finna fyrir miklum breytingum á líðan og hegðun eftir dvölina í Byrginu og talað um að hún fyndi nú fyrir tilfinningalegum kulda, einangrunarþörf, depurð og kvíða. Einnig fyndi hún fyrir meiri reiði og óþolinmæði. Sjálfsásakanir hafi verið töluverðar. Fyrir dóminum var ljóst að C átti mjög erfitt, en hún var þá á leið í afplánun vegna afbrota er hún framdi eftir að mál þessi urðu opinber. Með vísan til þess er hér að framan er rakið, sem og vottorðs Odda Erlingssonar sálfræðings, er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið C miklu andlegu tjóni. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 2.000.000 króna. Sú fjárhæð ber vexti eins og greinir í dómsorði.

Sigurður Sigurjónsson hæstaréttarlögmaður gerir bótakröfu úr hendi ákærða fyrir hönd D, að fjárhæð 2.000.000 króna. Ekki er gerð krafa um vexti í ákæru. Engin gögn liggja fyrir um afleiðingar brotsins fyrir D en fyrir dómi sagði hún að sér fyndist hún skemmd eftir þetta, hún hafi verið 16 ára og ekki skilið hvað var að gerast. Eftir að hún hætti samskiptum við ákærða hefði lífi hennar hrakað en hún ekki kunnað að takast sjálf á við vandamál sín. Hún hafi verið komin aftur á götuna um jólin 2005. Með vísan til þess sem hér að framan er rakið, er það niðurstaða dómsins að framferði ákærða hafi valdið D miklu andlegu tjóni. Á hún rétt á skaðabótum vegna háttsemi hans á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993. Í ljósi atvika málsins eru bætur þessar hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna. Ekki liggur fyrir í málinu að ákærða hafi verið kynntar bótakröfurnar fyrr en við þingfestingu málsins þann 12. febrúar 2008.

Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað málsins sem er samkvæmt yfirliti samtals 1.596.458 krónur. Hann dæmist einnig til að greiða útlagðan kostnað, 20.800 krónur, vegna öflunar vottorðs frá Odda Erlingssyni sálfræðingi. Að auki verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Baldurssonar héraðsdómslögmanns, sem hæfilega teljast ákveðin 1.369.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk þóknunar réttargæslumanns þeirra A, B og C, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 700.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og réttargæslumanns D, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.      

Dóm þennan kveða upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari og meðdómendurnir Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Dómsuppsaga hefur dregist vegna umfangs málsins og mikilla anna dómara.

Dómsorð :

Ákærði, Guðmundur Jónsson, sæti fangelsi í þrjú ár. 

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 3.886.758 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Baldurssonar héraðsdómslögmanns, 1.369.500 krónur, auk þóknunar réttargæslumanns A, B og C. Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 700.000 krónur, og réttargæslumanns D, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts í öllum tilvikum.

Ákærði greiði A, miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. október 2003 til 12. mars 2008 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði B, miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. apríl 2004 til 12. mars 2008 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði C, miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2004 til 12. mars 2008 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði D, miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna.