Hæstiréttur íslands
Mál nr. 619/2014
Lykilorð
- Líkamsárás
- Sönnun
|
|
Fimmtudaginn 28. maí 2015. |
|
Nr. 619/2014.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Líkamsárás. Sönnun.
X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa sparkað í bak A og slegið hann einu höggi á munn þannig að hann skall í jörðina, hlaut högg á hnakkann og rotaðist, allt með þeim afleiðingum að hann missti hægri framtönn í efri gómi við rót og hlaut mar og yfirborðsáverka víðs vegar um líkamann. Með hliðsjón af framburði X, A og vitna fyrir dómi taldi Hæstiréttur að ekkert lægi fyrir í málinu sem tengdi X við brot það sem honum væri gefið að sök, nema framburður A sem hefði þó ekki getað staðhæft að afleiðingar ætlaðrar árásar X hefði verið þær sem í ákæru greindi. Ákæruvaldið hefði því ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíldi samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og væri ekki fram komin lögfull sönnun fyrir sekt X, svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa, sbr. 1. og 2. mgr. 109. gr. sömu laga. Var X því sýknaður af þeirri háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Þá krefst hann þess aðallega að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.
A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
I
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu höfðaði mál þetta með ákæru 22. október 2013. Var ákærða gefin að sök líkamsárás með því að hafa aðfaranótt 14. apríl sama ár, við veitingastaðinn [...] að [...], Reykjavík, sparkað í bak A, brotaþola í máli þessu, og slegið hann einu höggi á munn þannig að hann skall í jörðina, hlaut högg á hnakkann og rotaðist, allt með þeim afleiðingum að hann missti hægri framtönn í efri gómi við rót og hlaut mar og yfirborðsáverka víðs vegar um líkamann, auk bólgu á vinstri þumli. Var brotið talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með framhaldsákæru 17. desember 2013 var þess krafist að ákærða yrði gert að greiða brotaþola 3.320.510 krónur í skaðabætur.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og hann dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi og til að greiða skaðabætur og sakarkostnað.
Í frumskýrslu lögreglu 15. apríl 2013 kom fram að er lögregla kom á vettvang hafi drifið að fólk sem sagði farþega í bifreið hafa ráðist að dreng skömmu áður. Hafi lögregla rætt við farþegann, B, sem tjáði lögreglu að ráðist hafi verið að sér og hann slegið frá sér í sjálfsvörn, án þess þó að hafa hitt. Hafi hann verið sjáanlega rauður á ,,hnúa“ hægri handar og klæddur í svarta peysu með hvítum röndum niður á ermar. Lögregla hafi einnig rætt við brotaþola sem hafi verið blóðugur um munn, með brotna tönn og áverka í andliti. Hann hafi tjáð lögreglu að hann hafi verið fyrir utan veitingastaðinn þegar bifreið hafi verið ekið fram hjá honum. Einhver orðaskipti hafi átt sér stað milli sín og farþega í bifreiðinni. Farþeginn hafi stigið út úr bifreiðinni, sparkað í sig og slegið. Á vettvangi hafi lögregla rætt við C, sem sagði fyrrgreindan B hafa slegið brotaþola. Á sömu lund bar D dyravörður, sem sagðist hafa séð B ráðast á brotaþola og sparka í andlit hans.
Við rannsókn málsins hjá lögreglu gaf brotaþoli skýrslu er hann lagði fram kæru. Þá voru teknar skýrslur af ákærða og fimm vitnum sem voru á vettvangi umrætt sinn, þar á meðal þremur vinum brotaþola. Jafnframt var tekin skýrsla af fyrrgreindum B sem hafði þá réttarstöðu sakbornings.
Hjá lögreglu kvað ákærði strák sem ,,leit út fyrir að vera Asíubúi“ hafa byrjað slagsmálin. Hann hafi sparkað í sig og hafi ákærði slegið einhvern en hann vissi ekki hvern. Kvaðst hann hafa talið að það hafi verið fyrrgreindur strákur.
Brotaþoli lýsti atvikum á þann hátt hjá lögreglu að með honum umrætt sinn hafi verið fjórir vinir sínir, E, F, G og H. Ákærði og fyrrnefndur B hafi verið farþegar í bifreið sem var á vettvangi. Í kjölfar einhverra orðaskipta milli ákærða, sín og vina sinna hafi ákærði byrjað að ýta við sér. Síðan hafi ákærði sparkað í bak sitt og er hann hafi snúið sér við hafi ákærði slegið sig eitt högg á munninn. Hann hafi þá skollið á bílaplanið, fengið högg á hnakkann og rotast. Hvorki H, E, F né C kváðust hafa séð ákærða slá brotaþola, en E kvað B hafa kýlt sig. C kvaðst hafa séð B slá einhvern sem féll við það í jörðina. D, dyravörður á veitingastaðnum [...], kvaðst hafa séð strák í Adidas peysu sparka í höfuð stráks og reynt að ,,kýla í andlit hans í leiðinni“.
B lýsti atvikum á þann veg að glerflösku hafi verið hent í bifreið sem hann var farþegi í. Hann hafi farið út úr bifreiðinni og verið sleginn í andlitið. Hann kvaðst ekki hafa slegið brotaþola eða sparkað í höfuð hans og ekki vita hver gerði það.
II
Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi gáfu skýrslur sömu menn og áður er getið. Var framburður ákærða og vitnisins B fyrir dómi á sömu lund og hjá lögreglu. Ákærði áréttaði þann framburð sinn að á sig hefði ráðist ,,asískur“ strákur og hann teldi sig hafa slegið hann. Spurður um hvort það hafi verið G kvað hann það rétt vera.
Brotaþoli bar fyrir dómi að ákærði hafi slegið sig í andlitið. Hann kvaðst ekki hafa þekkt nöfn ákærða og B áður en atvik urðu. Spurður um hvernig hann væri viss um að ákærði hafi slegið sig í andlitið kvaðst hann ,,bara muna eftir honum“. Nánar spurður um hvað hafi orðið til þess að tönn hans brotnaði kvað hann það hafa gerst ,,í högginu frá honum ... þegar ég fór í skýrslutöku til lögreglu ... sagði dyravörður við lögregluna ... hafa séð B sparka í andlitið á mér ... ég býst við að tönnin hafi dottið úr þá ... það hefur örugglega ... gerst í högginu ...“ Spurður um hvaða höggi, svaraði brotaþoli að það hefði ,,örugglega gerst í sparkinu.“ Spurður um hvort hugsanlegt væri að tönnin hefði losnað við hnefahögg frá ákærða kvaðst hann ekki geta verið viss um það.
Vitnið C kvaðst fyrir dómi ekki hafa séð þá atburði sem ákæra lýtur að, en heyrt um það sem gerst hefði frá öðrum sem voru á vettvangi. Framburður vitnanna H og F fyrir dómi var á sama veg og hjá lögreglu og kváðust þeir ekki hafa séð hver hafi slegið brotaþola en vitnið H kvaðst hafa séð ákærða og B sparka í andlit hans þar sem hann lá í jörðinni. Þá kvað hann B hafa verið í svartri Adidas peysu. Vitnið E kvað bæði ákærða og B hafa slegið brotaþola. Aðspurður kvað hann B hafa sparkað í andlit hans, en ekki séð ákærða slá hann. Enn frekar spurður kvaðst hann einungis hafa heyrt að brotaþoli hefði verið sleginn.
Vitnið I lögreglumaður, sem ritaði frumskýrslu lögreglu um málið, bar fyrir dómi að dyravörður á vettvangi hafi sagt mann í svartri og hvítri Adidas peysu hafa sparkað í andlit brotaþola. Lögregla hafi borið kennsl á B sem setið hafi í farþegasæti bifreiðarinnar sem þarna var, en hann hafi verið klæddur svartri og hvítri Adidas peysu. Þá hafi hann verið rauður á hnúunum. Vitnið J lögreglumaður kvað að sér hafi verið sagt að B hefði ráðist á einhvern dreng. Hafi lögregla haft tal af honum, en hann hafi borið af sér sakir. Ástæða þess að lögregla hafi einungis rætt við hann hafi verið sú að dyravörður sem var á vettvangi hafi sagt hann hafa sparkað í eða ráðist að einhverjum dreng, en fleiri sem þarna voru hafi einnig bent á hann. Hafi dyravörðurinn þekkt B með nafni og bent á hann, en brotaþoli hafi ekki vitað hver hafi verið að verki. Kvaðst vitnið hafa tekið eftir því að B hafi verið rauður á hnúunum.
III
Eins og áður er rakið voru margir á vettvangi þegar atburðir þeir áttu sér stað, sem urðu tilefni ákæru. Fyrir meðferð málsins fyrir héraðsdómi hafði enginn þeirra sem báru vitni um atvik sagt ákærða hafi ráðist að brotaþola með þeim hætti sem í ákæru greinir, annar en hann sjálfur, heldur var fyrrgreindur B ítrekað nefndur í því sambandi. Ákærði játaði að hafa slegið einhvern sem var á vettvangi, en taldi það hafa verið annan en brotaþola. Við meðferð málsins fyrir dómi bar einungis vitnið H um að hann hafi séð ákærða veitast að brotaþola með tilgreindum hætti, sem ekki er ákært fyrir í málinu. Þá gat brotaþoli ekki fullyrt fyrir dómi að tönn hans hefði brotnað við högg það sem ákært er fyrir.
Samkvæmt framangreindu liggur ekkert fyrir í málinu sem tengir ákærða við brot það sem honum er gefið að sök, nema framburður brotaþola sem gat þó ekki staðhæft að afleiðingar ætlaðrar árásar ákærða hafi verið þær sem í ákæru greinir. Ákæruvaldið hefur því ekki axlað þá sönnunarbyrði er á því hvílir samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 og er ekki fram komin lögfull sönnun fyrir sekt ákærða, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, sbr. 1. og 2. mgr. 109. gr. sömu laga. Verður ákærði því sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Af því leiðir að skaðabótakröfu á hendur honum verður þegar af þeirri ástæðu vísað frá héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.
Eftir þessum úrslitum skal sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða eins og þau voru ákveðin í héraði og málsvarnarlaun verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Einkaréttarkröfu A er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, eins og þau voru þar ákveðin, svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 11. júlí 2014, er höfðað með ákæru, útgefinni 22. október 2013, á hendur X, kennitala [...], [...], [...], fyrir líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 14. apríl 2013, á bifreiðastæði við veitingastaðinn [...], [...], Reykjavík, sparkað í bak A, kt. [...], slegið hann einu höggi á munn þannig að hann skall í jörðina, hlaut högg á hnakkann og rotaðist, allt með þeim afleiðingum að A missti hægri framtönn í efri gómi við rót og hlaut mar og grunnt fleiður hægra megin á hnakka, grunnan skurð um miðja höku og skurði á neðri vör, mar og örlítið fleiður á báðum olnbogum, grunnt fleiður og mar undirliggjandi vinstra megin neðarlega á mjóhrygg, grunnt fleiður yfir vinstri flanka framanverðum og bólgur og mar á vinstri þumli.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 3.320.510 krónur, auk vaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, og málskostnaðar.
Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, til vara að honum verði ekki gerð refsing í málinu, en til þrautavara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Aðallega er krafist frávísunar bótakröfu, en til vara að bætur verði lækkaðar. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna sér til handa.
Málsatvik
Aðfaranótt sunnudagsins 14. apríl 2013 voru lögreglumenn staddir við veitingastaðinn [...] við [...] í Reykjavík, þegar þeim var greint frá því að slagsmál ættu sér stað framan við húsið. Þar reyndist hópur fólks vera saman kominn og var lögreglumönnum tjáð að farþegi í bifreið, sem var að aka á brott frá hópnum, hefði ráðist á pilt utan við veitingastaðinn. Lögreglumenn stöðvuðu akstur bifreiðarinnar og ræddu við farþega í henni, B. B sagðist hafa farið út úr bifreiðinni eftir að einhver í hópnum hefði kastað flösku í hana. Í kjölfarið hefði verið ráðist á hann og hann þá slegið frá sér í sjálfsvörn, án þess að hitta nokkurn. Kemur fram í skýrslu lögreglu að B hafi verið sjáanlega rauður á hnúa hægri handar. Þá kemur fram að hann hafi verið íklæddur svartri peysu með hvítum röndum niður ermar.
Lögreglumenn ræddu jafnframt við A á vettvangi, en hann var með áverka í andliti, auk þess sem blæddi úr munni hans og tönn hafði brotnað. A greindi frá því að hann hefði átt einhver orðskipti við farþega í bifreiðinni og hefði maðurinn komið út úr bifreiðinni og slegið og sparkað í hann. Rætt var við tvö vitni á vettvangi, C og D, dyravörð á veitingastaðnum, og kemur fram að þau hafi borið að B hefði veist að A.
Mánudaginn 15. apríl mætti A hjá lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna málsins. Kom fram hjá A að ákærði hefði einnig verið farþegi í bifreiðinni í umrætt sinn. Hann lýsti því að komið hefði til orðaskipta milli þeirra ákærða, sem hefði veist að honum í kjölfarið, sparkað í bak hans og slegið hann eitt högg á munninn svo að hann féll í jörðina, skall með höfuðið í jörðina og missti meðvitund.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 3. júní 2013 og kvaðst hann þá viðurkenna að hafa slegið einhvern í umrætt sinn, en ekki vita hvern. Kvaðst ákærði muna eftir sársauka sem hann fann fyrir við það að vinstri hönd hans small í andlit þess sem hann sló og hefði hann fengið sár á hnúann við þetta, sem hann bæri ör eftir. Kvaðst ákærði fram að þessu hafa talið að hann hefði slegið „Asíubúa“, sem hefði veist að honum þarna, en A „hafi bara verið rangur maður á röngum tíma“.
Í málinu liggur fyrir vottorð K, sérfræðings á slysa- og bráðamóttöku Landspítala, þar sem kemur fram að A hafi leitað á deildina umrædda nótt eftir að hafa verið kýldur tvívegis í andlit og fallið í jörðina. Hafi framtönn í efri gómi brotnað við þetta og fallið úr gómnum. A hafi verið með mikla verki í efri gómi og haft óþægindi yfir hnakka eftir fall í jörðina, auk þess sem hann hafi fundið til óþæginda í baki.
Þá liggur fyrir vottorð L tannlæknis um skoðun á brotaþola 14. apríl 2013 og kemur þar fram að tönn 11, þ.e. miðframtönn í efri gómi hægra megin, hafi ekki verið til staðar, auk þess sem gómur hafi verið mjög bólginn.
Við aðalmeðferð málsins kvaðst ákærði hafa verið að skemmta sér með B þetta kvöld og hefði stúlka komið að sækja þá á bifreið. Þegar þau óku á brott hefði flösku verið kastað að bifreiðinni. Þeir B hefðu þá farið út úr bifreiðinni og ryskingar hefðu upphafist. Ákærði kvað mann af asískum uppruna hafa sparkað í fótlegg sinn og hefði hann kýlt þennan mann til baka, sennilega í hægri kinn. Þeir B hefðu síðan farið aftur í bifreiðina og ekið á brott. Ákærði kvaðst hafa fengið sár á hnúana og ör eftir höggið sem hann veitti manninum. Hann kvaðst ekki hafa séð B slá neinn, en hann hefði þó ekki fylgst sérstaklega með því. Þá kvaðst hann ekki kannast við að hafa kýlt A, eins og honum væri gefið að sök. Hann kvaðst ekki hafa þekkt strákana sem voru þarna á vettvangi, en síðar fundið þá á facebook og taldi hann sig þekkja þar G sem þann mann sem hann hefði slegið.
A kvað hafa komið til orðaskipta á milli félaga sinna annars vegar og ákærða og B hins vegar. Hefðu ákærði og B komið út úr bifreiðinni og ákærði kýlt hann í andlitið og hefði höggið lent á munni hans. A kvaðst hafa misst meðvitund við þetta og ekki vita hvað gerðist eftir að hann féll í jörðina. Hann kvaðst þess fullviss að það var ákærði sem kýldi hann. Þeir hefðu staðið augliti til auglitis þegar það gerðist. Þá kvað hann rétt vera að ákærði hefði áður sparkað í bak hans, eins og hann hefði borið um hjá lögreglu. Hann kvaðst ekki minnast þess að B hefði sparkað í andlit hans, eins og vitni hefðu borið um, enda hefði hann misst meðvitund við höggið sem ákærði veitti honum. Hann kvaðst ekki geta fullyrt hvort hann missti framtönn við höggið sem ákærði veitti honum, eða spark sem hann hefði hlotið síðar. Þá kom fram hjá vitninu að hann hefði einnig verið kýldur af öðrum manni inni á veitingastaðnum, skömmu áður en þetta gerðist. Það hefði þó ekki verið þungt högg og hefði það lent á vanga hans öðrum hvoru megin. Hann hefði ekki hlotið neina áverka við það.
D, sem var við dyravörslu á veitingastaðnum í umrætt sinn, kvaðst hafa séð mann, íklæddan Adidas peysu, koma hlaupandi niður brekku og sparka í andlit pilts, sem hefði við þetta fallið í jörðina.
C, sem lögregla hafði rætt við á vettvangi, kvaðst hafa séð mann slá pilt, sem féll við það í jörðina, og hefði hún heyrt hjá fólki sem var þarna statt að árásarmaðurinn héti B.
B kvað þá ákærða hafa lent í orðaskaki við einhverja stráka þegar þeir voru á leið á brott á bifreið. Hefði flösku verið kastað í bifreiðina og þeir ákærði þá farið út úr henni. Hann kvaðst hafa verið sleginn þarna fyrir utan og hefði hóp fólks drifið að. Þeir ákærðu hefðu því hraðað sér aftur inn í bifreiðina og forðað sér á brott. Hann kvaðst ekki hafa verið að fylgjast með ákærða og ekki hafa séð hann slá neinn.
H kvaðst hafa séð B og ákærða hlaupa að A og E og veitast að þeim. Hann kvaðst hafa sótt bróður sinn, G, og félaga þeirra til aðstoðar. Hann hefði séð B slá E og kvaðst hann hafa sparkað í annan árásarmanninn. Þá kvaðst hann hafa séð annan mannanna sparka í andlit A þar sem hann lá í jörðinni, en ekki vera viss hvor þeirra það var. Vitnið kvaðst ekki hafa verið sleginn þarna. Hann kvað B hafa verið íklæddan svartri Adidas peysu með hvítum röndum.
E kvað ákærða og B hafa komið hlaupandi að þeim A og hefði B kýlt E í andlitið svo að hann féll við. A hefði líka verið kýldur, en E kvaðst ekki vita hvor mannanna veitti honum það högg. Hins vegar kvaðst hann hafa séð B sparka í A eftir þetta.
Þá gáfu skýrslu fyrir dóminum F, félagi brotaþola, lögreglumennirnir I og J, K læknir og L tannlæknir. Ekki eru efni til að rekja framburð vitnanna.
Niðurstaða
Ákærði kannast við að hafa veitt einhverjum hnefahögg í umrætt sinn, en neitar að hafa slegið eða sparkað í A. A hefur hins vegar staðfastlega borið að ákærði hafi slegið hann hnefahögg, sem lenti á munni hans, og að hann hafi misst meðvitund við höggið. Var framburður A við aðalmeðferð málsins afdráttarlaus að þessu leyti, og trúverðugur að mati dómsins. Á hinn bóginn var frásögn ákærða misvísandi og óljós við meðferð málsins, eins og rakið hefur verið. Þá fær lýsing A stoð í læknisfræðilegum gögnum sem liggja fyrir í málinu, auk þess sem fyrir liggur að ákærði hlaut sár á hnúum eftir hnefahögg í umrætt sinn. Verður frásögn A um atvik lögð til grundvallar í málinu. Telst með því sannað að ákærði hafi veist að A, sparkað í bak hans og slegið hann hnefahögg á munn, með þeim afleiðingum sem lýst er í læknisvottorðum og greinir í ákæru. Breytir engu um þessa niðurstöðu þótt ráðið verði af framburði vitna á vettvangi að félagi ákærða hafi jafnframt sparkað í A, en af vitnisburði verður ráðið að það hafi gerst eftir atlögu ákærða. Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemi hans þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í [...] og hefur hann ekki áður sætt refsingu. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að atlaga ákærða að A var tilefnislaus og alvarleg, en ákærði veitti A þungt hnefahögg í andlit. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga, en refsing verði bundin skilorði, sem í dómsorði greinir.
Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 3.320.510 krónur, auk vaxta, sem sundurliðast þannig:
- Áætlaður kostnaður vegna tannréttinga 645.000 krónur
- Útlagður kostnaður vegna tannréttinga 61.290 krónur
- Útlagður kostnaður 114.220 krónur
- Áætlaður kostnaður vegna tannígræðslu 2.000.000 krónur
- Miskabætur 500.000 krónur
Krafa um bætur samkvæmt 1. og 4. lið bótakröfu er byggð á áætlun og verður henni af þeim sökum vísað frá dómi. Krafa um bætur vegna útlagðs kostnaðar samkvæmt 2. og 3. lið er studd viðhlítandi gögnum og verður dæmd eins og hún er fram sett. Þá á brotaþoli rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sem þykja hæfilega ákveðnar 350.000 krónur. Bætur beri vexti sem í dómsorði greinir. Ákærði verður jafnframt dæmdur til að greiða brotaþola málskostnað, sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 269.825 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 38.800 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hildur Sunna Pálmadóttir, fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í 60 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 525.510 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 15. apríl 2013 til 13. febrúar 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags, og 150.000 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 269.825 krónur, og 38.800 krónur í annan sakarkostnað.