Print

Mál nr. 527/2016

Margrét Stefánsdóttir (Reimar Pétursson hrl.)
gegn
þrotabúi Ingvars Jónadabs Karlssonar (Guðjón Ármann Jónsson hrl.)
Lykilorð
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Gjaldþrotaskipti
  • Kaupmáli
  • Afsal
  • Riftun
  • Ógjaldfærni
Reifun

Bú I var tekið til gjaldþrotaskipta 2014. Þb. I krafðist riftunar á ráðstöfunum I til M samkvæmt kaupmála og afsölum í janúar 2009 en með þeim ráðstafaði I verulegum hluta eigna sinna án þess að nokkurt endurgjald hefði komið fyrir. Byggði þb. I riftunarkröfu sína m.a. á 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Taldi M að ekki væri hægt að byggja á því ákvæði þar sem hún taldi kröfurnar fyrndar þar sem meira en fjögur ár voru frá gerð kaupmálans sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að þrotabú gæti ekki í skilningi 1. mgr. 2. gr. laganna átt rétt til efnda á kröfu um endurheimt fjár við riftun fyrr en í fyrsta lagi þegar bú hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta og því hefði krafan ekki verið fyrnd þegar málið var höfðað. Þá taldi Hæstiréttur að öll skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 væru fyrir hendi það er að segja að ráðstafanirnar hefðu verið ótilhlýðilegar, að eignir I hefðu ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum hans, að I hefði að minnsta kosti orðið ógjaldfær við ráðstafanirnar og að M hefði verið grandsöm um ógjaldfærni I. Var því riftunarkrafa þb. I tekin til greina en vísað var frá héraðsdómi skaðabótakröfu búsins að áætlaðri fjárhæð vegna vanreifunar sbr. d. og e. lið 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júlí 2016 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hún krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hún verði sýknuð af kröfum stefnda. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi og Ingvar Jónadab Karlsson hófu sambúð árið 2002 en gengu í hjónaband 31. janúar 2009. Gerðu þau kaupmála 28. janúar 2009 og var hann móttekinn til skráningar í kaupmálabók sýslumannsins í Reykjavík 30. sama mánaðar. Sama dag afsalaði Ingvar þremur bifreiðum í sinni eigu til áfrýjanda. Með dómi Hæstaréttar 3. apríl 2014 í máli nr. 204/2014 var tekin til greina krafa Landsbankans hf. um að bú Ingvars Jónadabs yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Frestdagur við skiptin var 12. febrúar 2013 og lauk kröfulýsingarfresti 10. maí 2014. Samkvæmt skrá skiptastjóra um lýstar kröfur nam heildarfjárhæð þeirra 2.336.688.534 krónum.

Við skoðun skiptastjóra á eignum og skuldum búsins kom í ljós að þrotamaður hafði ráðstafað til áfrýjanda verulegum hluta eigna sinna án þess að nokkurt endurgjald kæmi fyrir. Á skiptafundi 1. október 2014 var ákveðið að láta reyna á gildi kaupmálans fyrir dómi og skiptastjóri höfðaði því dómsmál á hendur áfrýjanda fyrir héraðsdómi með stefnu birtri í Lögbirtingablaðinu 21. nóvember 2014. Var málið höfðað til riftunar á ráðstöfunum samkvæmt kaupmálanum 28. janúar 2009 og afsals á bifreiðum 30. janúar 2009. Enn fremur krafðist stefndi þess að áfrýjanda yrði gert að skila eignunum ella greiða stefnda bætur allt að fjárhæð 900.000.000 krónur.

Málið var þingfest 19. mars 2015. Ekki var sótt þing af hálfu áfrýjanda. Málið var dómtekið 26. mars sama ár en með úrskurði 17. júlí 2015 var því vísað frá héraðsdómi þar sem talið var að það hefði verið höfðað að liðnum málshöfðunarfresti samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með dómi Hæstaréttar 27. ágúst 2015 í máli nr. 495/2015 var frávísunarúrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Hinn 2. september 2015 gekk dómur í málinu þar sem fyrrgreindum ráðstöfunum var rift og áfrýjanda gert að afhenda stefnda eignirnar.

Með beiðni 1. október 2015 óskaði áfrýjandi endurupptöku málsins á grundvelli 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hinn 16. október 2015 var fallist á þá beiðni og málið endurupptekið. Hinn áfrýjaði dómur gekk 4. maí 2016.

II

            Krafa áfrýjanda um frávísun málsins frá héraðsdómi er byggð á tvíþættum grunni. Aðallega krefst áfrýjandi frávísunar á málinu í heild á þeim grundvelli að málið hafi verið höfðað á röngu varnarþingi. Verði ekki fallist á það krefst hún frávísunar fjárkröfu stefnda samkvæmt fjórða lið kröfugerðar hans.

            Mál til riftunar samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 á þeim ráðstöfunum sem fólust í kaupmálanum 28. janúar 2009 var heimilt að höfða í Reykjavík samkvæmt 41. gr. laga nr. 91/1991, enda kaupmálinn gerður þar, af aðilum búsettum þar og skráður í kaupmálabók sýslumannsins í Reykjavík 2. febrúar 2009. Þegar af þeirri ástæðu koma ekki til frekari skoðunar önnur ákvæði V. kafla laga nr. 91/1991 um varnarþing og er kröfu áfrýjanda um frávísun málsins á þeim grundvelli hafnað.

            Á hinn bóginn er fallist á það með stefnda að ekki fái samþýðst að gera  fyrirvaralausa kröfu um afhendingu þeirra verðmæta sem riftun tekur til, sbr. 144. gr. laga nr. 21/1991, en jafnframt fyrirvarabundna skaðabótakröfu áætlaðrar fjárhæðar á grundvelli 3. mgr. 142. gr. vegna þeirra sömu verðmæta, að því marki sem ekki reynist  mögulegt að skila þeim. Gerði stefndi upphaflega kröfu þessa efnis að fjárhæð 900.000.000 krónur en lækkaði hana undir rekstri málsins í héraði í 200.000.000 krónur. Engin haldbær útlistun hefur komið fram hjá áfrýjanda um hvernig sú fjárhæð sé fundin og engar eignir felldar út á móti samkvæmt kröfu hans um afhendingu eigna. Krafan í þessu horfi er vanreifuð með þeim hætti að á hana verður ekki felldur dómur og verður henni því vísað frá héraðsdómi, sbr. d. og e. lið 80. gr. laga nr. 91/1991.

III

            Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að hafna beri riftunarkröfum stefnda á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991.

            Stefndi byggir riftunarkröfur sínar í öðru lagi á riftunarreglu 141. gr. laga nr. 21/1991. Áfrýjandi telur að ekki sé hægt að byggja á því ákvæði þar sem kröfur stefnda um riftun kaupmálans séu fyrndar en um fyrningu þeirra fari eftir almennum fjögurra ára fyrningarfresti kröfuréttinda samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Telur áfrýjandi að upphaf frestsins beri að miða við þann dag þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda, sbr. 1. mgr. 2. gr. sömu laga sem hljóti að teljast vera við gerð kaupmálans.

Krafa um riftun ráðstöfunar þrotamanns eftir ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991 verður eðli máls samkvæmt ekki höfð uppi fyrr en bú þess, sem í hlut á, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Getur þrotabú því ekki í skilningi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 átt rétt til efnda á kröfu um endurheimt fjár við riftun fyrr en í fyrsta lagi á því tímamarki. Bú þrotamanns var tekið til gjaldþrotaskipta 27. febrúar 2014 og höfðaði stefndi málið þegar 21. nóvember sama ár. Samkvæmt því var krafa stefnda ekki fallin niður fyrir fyrningu þegar málið var höfðað.

Samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaður var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hag hafði af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg.

Við mat á skilyrðinu um ótilhlýðileika er til þess að líta að með umræddum ráðstöfunum 28. og 30. janúar 2009 afhenti þrotamaður, eiginmaður áfrýjanda, henni  stærstan hluta eigna sinna, sem samkvæmt kaupmálanum voru að andvirði 445.485.288 krónur, en líklegt er að gangvirði eignanna hafi verið töluvert hærra. Óumdeilt er að á því tímamarki námu skuldir hans að lágmarki 737.000.000 krónum og þær eignir sem hann hélt eftir voru að verðmæti tæpra 18.000.000 króna miðað við upplýsingar samkvæmt skattframtali 2009 vegna ársins 2008. Þær skýringar að til þessara ráðstafana hafi þrotamaður gripið vegna hjartasjúkdóms og áhættu við aðgerð sem þá stóð fyrir dyrum eru ekki trúverðugar, ekki síst í ljósi þess að því markmiði að tryggja hagsmuni áfrýjanda mátti ná með mun viðurhlutaminni ráðstöfunum svo sem  erfðafyrirmælum um heimild til setu í óskiptu búi á grundvelli II. kafla erfðalaga nr. 8/1962. Þá er til þess að líta að áfrýjandi var nákominn þrotamanni, sbr. 1. tölulið 3. gr. laga nr. 21/1991, og enginn vafi er á því að umræddar ráðstafanir hefðu verið riftanlegar á grundvelli 2. mgr. 131. gr. sömu laga stæðu tímafrestir því ekki í vegi. Við þær aðstæður eru löglíkur fyrir því að ráðstafanir teljist ótilhlýðilegar. Að þessu virtu eru skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 um ótilhlýðileika fyrir hendi.

Þá er það hafið yfir vafa að umræddar ráðstafanir leiddu til þess að eignir þrotamanns urðu ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum hans, sbr. skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 þar að lútandi.

Þessu næst ber að taka afstöðu til þess áskilnaðar lagagreinarinnar að þrotamaður hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar. Með vísan til fyrrgreindrar umfjöllunar um stöðu eigna samkvæmt skattframtali 2009 og óumdeildra skulda þrotamanns er ljóst að hann gat ekki, að minnsta kosti eftir umræddar ráðstafanir, staðið í fullum skilum við lánardrottna sína. Áfrýjandi hefur hins vegar bent á að hluti þeirra eigna sem ráðstafað var með kaupmálanum hafi verið veðsettar til tryggingar heildarskuldum þrotamanns við sinn helsta lánardrottin, Landsbanka Íslands hf., og sú veðsetning hafi ekki fallið niður við gerð kaupmálans. Hafi raunvirði hinna veðsettu eigna staðið að fullu til tryggingar umræddum skuldum og af því leiði að þrotamaður hafi eftir sem áður verið gjaldfær. Vísar áfrýjandi meðal annars um þetta til staðfestingar löggilts endurskoðanda, 28. september 2015, þess efnis að í árslok 2008 hafi raunverulegt verðmæti afsalaðs eignarhluta þrotamanns í Lífsvali ehf., sem veðsettur var bankanum með framangreindum hætti, numið 716.200.000 krónum. Þá vísar áfrýjandi til yfirlýsingar þess sama, 8. nóvember 2014, þar sem hann leggur til grundvallar að verðmæti 10% hlutar í Hveralandi ehf., sem jafnframt var veðsettur bankanum, hafi í árslok 2008 numið 489.044.353 krónum.  Samkvæmt kaupmálanum og skattframtali þrotamanns 2009 voru hinir veðsettu eignarhlutar í Hveralandi ehf. og Lífsvali ehf. hins vegar að verðmæti 167.614.808 krónur samtals. Framangreind síðar tilkomin gögn endurskoðandans, sem ekki var aflað á grundvelli ákvæða IX. kafla laga nr. 91/1991, fá ekki hnekkt því sem fram kemur um verðmæti eignanna í tilvitnuðum samtímagögnum, kaupmála og skattframtali. Þá var eignarhlutur í Karli K. Karlssyni einnig veðsettur Landsbanka Íslands hf. vegna skulda þrotamanns en samkvæmt kaupmálanum var eignarhluturinn að verðmæti 23.674.177 krónur. Þá hefur áfrýjandi vísað til þess að þrotamaður var dæmdur til að greiða ákveðnar fjárhæðir í fimm dómum vegna uppgjörs við bankann á framvirkum samningum gegn afhendingu á hlutabréfum í sjö erlendum félögum. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins annað verðmat á umræddum hlutum en þann dag er fyrrnefndir dómar féllu í Héraðsdómi Reykjavíkur eða 10. september 2012 en þá nam verðmæti þeirra 48.611.276 krónum. Aðrar marktækar upplýsingar liggja ekki fyrir samkvæmt gögnum málsins, þar með talið skattframtali þrotamanns 2009, um eignir sem áfram voru á hendi hans að kaupmálanum gerðum og þýðingu geta haft við mat á gjaldfærni hans á umræddu tímamarki. Að þessu virtu er það hafið yfir vafa að þrotamaður varð að minnsta kosti ógjaldfær, sbr. 141. gr. laga nr. 21/1991, við þær ráðstafanir sem fram fóru 28. og 30. janúar 2009.

Loks þarf að taka til þess afstöðu hvort áfrýjandi vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Hér að framan hefur þegar verið komist að þeirri niðurstöðu að umræddar ráðstafanir þrotamanns 28. og 30. janúar 2009 hafi verið ótilhlýðilegar í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991. Áfrýjandi hafði verið í sambúð með þrotamanni frá árinu 2002. Með umræddum gerningum fékk hún afhentar nær allar eignir hans að gjöf. Hafi hún í raun ekki þekkt til eigna- og skuldastöðu þrotamanns, svo sem hún heldur fram, bar henni að kanna stöðuna í hörgul áður en hún þáði gjöf af þessu tagi og undir þeim kringumstæðum sem um ræddi. Verður hún að bera hallann af slíku aðgæsluleysi og verður því lagt til grundvallar að hún hafi verið grandsöm um ógjaldfærni þrotamanns og ótilhlýðileika umræddra ráðstafana eigna hans til hennar.

Að öllu þessu gættu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um riftun ráðstafana samkvæmt kaupmálanum 28. janúar 2009 og afsali þrotamanns á þremur nánar tilgreindum bifreiðum sem fram fór 30. sama mánaðar og áfrýjandi dæmd til þess að skila stefnda umræddum verðmætum.

Krafa stefnda um greiðslu útlagðs kostnaðar vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi, 11.254.286 krónur, hefur ekki sætt sérstökum og tölulegum andmælum af hálfu áfrýjanda. Að því gættu verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi kröfu stefnda, þrotabús Ingvars Jónadabs Karlssonar, um að áfrýjandi, Margrét Stefánsdóttir, greiði honum 200.000.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum.

Að öðru leyti skal héraðsdómur vera óraskaður um annað en málskostnað.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 16.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2016.

Mál þetta, sem var dómtekið 19. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þrotabúi Ingvars Jónadabs Karlssonar, Suðurlandsbraut 30, Reykjavík á hendur Margréti Stefánsdóttur, áður með lögheimili að Vesturhlíð 9, Reykjavík, nú með heimili í Serbíu, með stefnu birtri í Lögbirtingablaðinu 21. nóvember 2014.

Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að rift verði með dómi ráðstöfunum Ingvars Jónadabs Karlssonar til handa stefndu samkvæmt kaupmála, dags. 28. janúar 2009, sem skráður var hjá sýslumanninum í Reykjavík þann 2. febrúar 2009, samtals að fjárhæð 448.076.288 kr. Nánar tiltekið er krafist riftunar á eftirfarandi ráðstöfunum samkvæmt tilgreindum kaupmála þar sem neðangreindar eignir voru gerðar að séreign stefndu:

i.                     Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Dvöl ehf., kt. 531006-0200.

ii.                    Ráðstöfun til stefndu á 25% hlutafjár í Dyrfjöllum ehf., kt. 621105-0780.

iii.                  Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Eignarhaldsfélaginu Land ehf., kt. 700300-2850.

iv.                  Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Eignarhaldsfélaginu Skólabrú 1 ehf., kt. 590602-2050.

v.                   Ráðstöfun Ingvars til stefndu á 100% hlutafjár í Eldborg ehf., kt. 571097-3389.

vi.                  Ráðstöfun Ingvars til stefndu á 25% hlutafjár í Fjárhirðum ehf., kt. 450503-3470.

vii.                Ráðstöfun til stefndu á 33,33% hlutafjár í Haukadal ehf., kt. 590804-2580.

viii.               Ráðstöfun til stefndu á 10% hlutafjár í Hveralandi ehf., kt. 460405-1060.

ix.                  Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Íslandssporti ehf., kt. 610685-0139.

x.                   Ráðstöfun til stefndu á 78% hlutafjár í Karli K. Karlssyni ehf., kt. 601289-1489

xi.                  Ráðstöfun til stefndu á hlutafé Hveralands ehf., kt. 460405-1060, í Landgerði ehf., kt. 450405-1400.

xii.                Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Landnemanum ehf., kt. 550405-1050.

xiii.               Ráðstöfun til stefndu á 16,90% hlutafjár í Lífsval ehf., kt. 531202-3090.

xiv.              Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Orkuveitur ehf., kt. 450503-2580.

xv.                Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Rann ehf., kt. 520598-2439.

xvi.              Ráðstöfun til stefndu á hlutafé Íslandssports ehf., kt. 610685-0139, í Skeifunni ehf., kt. 590269-0189.

xvii.             Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Skjöldólfsstöðum ehf., kt. 600808-0790.

xviii.           Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Skúlatúni 4 ehf., kt. 571104-3260.

xix.               Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Vatnajökli ehf., kt. 441295-2519.

xx.                Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Velsæld ehf., kt. 481106-1920.

xxi.              Ráðstöfun til stefndu á 12% hlutafjár í Virðingu hf., kt. 561299-3909.

xxii.             Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Vínandanum ehf., kt. 441298-2349.

xxiii.           Ráðstöfun til stefndu á 5% hlutafjár í Þverárfélaginu ehf., kt. 690307-0730.

xxiv.           Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni að Vesturhlíð 9, 105 Reykjavík, fnr. 223-7694.

xxv.            Ráðstöfun til stefndu á 50% eignarhluta í fasteigninni að Miðdal I, landnúmer 195718, Mosfellsbæ, fnr. 194-718.

xxvi.           Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni að Skipagötu 9, 600 Akureyri, fnr. 222-9324.

xxvii.         Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni að B-Tröð 12, Reykjavík, hesthús, fnr. 225-4925.

xxviii.        Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni 4th floor 31 Brechin Place, London.

xxix.           Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni 1st floor ¼ Brechin Place, London.

Stefnandi krefst þess í öðru lagi að rift verði með dómi ráðstöfunum Ingvars Jónadabs Karlssonar sem fólust í afsali 30. janúar 2009 til stefndu, á bifreiðum með skráningarnúmerin BX-M43, DA-970 og TS-502, samtals að fjárhæð 13.329.459 kr. Bifreiðar þessar voru umskráðar milli aðilanna þann 3. febrúar 2009.

Stefnandi krefst þess í þriðja lagi að stefndu verði gert að skila og afhenda til stefnanda þeim eignum sem tilgreindar eru í riftunarkröfum stefnanda í 1. og 2. kröfulið.

Stefnandi krefst þess í fjórða lagi, verði afhendingu eignanna skv. þriðja lið dómkrafna ekki komið við, að stefndu verði þá gert að greiða stefnanda 200.000.000 kr. eða aðra lægri fjárhæð með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá stefnubirtingardegi og til 8. janúar 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefnandi krefst í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefndu.

Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu.

                Stefnda krafðist þess einnig í greinargerð sinni að málinu yrði vísað frá dómi en dómurinn hafnaði þeirri kröfu 19. janúar 2016. Þá var gerð sú krafa að réttaráhrif dómsins yrðu felld niður og var henni hafnað um úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. janúar 2016 sem staðfestur var í Hæstarétti með dómi í málinu nr. 99/2016.

I

Stefnda og Ingvar Jónadab Karlsson hafa verið í sambúð frá árinu 2002. Þau gengu í hjónaband 31. janúar 2009. Hinn 28. janúar 2009 gerðu þau kaupmála og ber hann með sér að hann hafi verið skráður í kaupmálabók 30. janúar 2009 í Reykjavík. Hinn 16. febrúar 2016 barst hann til skráningar hjá allsherjarskrá kaupmála sem er í höndum sýslumannsins í Stykkishólmi og var þá sendur til auglýsingar í Lögbirtingablaðinu.

Með dómi Hæstaréttar 3. apríl 2014 í máli nr. 204/2014 var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2014, um að bú Ingvars Karlssonar skyldi tekið til gjaldþrotaskipta. Frestdagur skiptanna var 12. febrúar 2013. Auglýsing um innköllun til kröfuhafa var fyrst birt í Lögbirtingablaðinu 10. mars 2014 og lauk kröfulýsingarfresti 10. maí 2014. Fyrsti skiptafundur til umfjöllunar um lýstar kröfur var haldinn 22. maí 2014. Heildarfjárhæð lýstra krafna nemur tæplega 2.337.000.000 kr.

Við athugun skiptastjóra á ráðstöfunum þrotamanns, einkum með tilliti til riftunarreglna XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., kom í ljós að þrotamaður ráðstafaði til stefndu, núverandi eiginkonu sinnar, með kaupmála þeirra í millum og málamyndasölu, að mati skiptastjóra, verulegum og í raun mestum hluta eigna sinna án þess að nokkurt gagngjald hafi komið fyrir. Í skattframtölum þrotamanns fyrir framtalsárin 2008 og 2009 eru engar eða óverulegar skuldir tilteknar. Hið sama gildir um framtal stefndu vegna framtalsársins 2009. Á skiptafundi 1. október 2014 var ákveðið að láta reyna á gildi kaupmálans fyrir dómi. Skiptastjóri, fyrir hönd þrotabúsins, höfðaði því dómsmál á hendur stefndu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri í Lögbirtingablaðinu í nóvember 2014. Var málið höfðað til riftunar á ráðstöfunum samkvæmt kaupmála dags. 28. janúar 2009 og samkvæmt afsali á bifreiðum dags. 30. janúar 2009. Enn fremur krafðist stefnandi þess að stefndu yrði gert að skila eignunum ella greiða stefnanda tjónsbætur að fjárhæð 900.000.000 kr.

Málið var þingfest 19. mars 2015. Ekki var sótt þing af hálfu stefndu í málinu. Málið var dómtekið 26. mars sama ár en með úrskurði dags. 17. júlí 2015 var málinu vísað frá héraðsdómi þar sem talið var að það hefði verið höfðað að liðnum málshöfðunarfresti samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og fleira.

Stefnandi kærði niðurstöðuna til Hæstaréttar. Með dómi, dags. 27. ágúst sl. í máli nr. 495/2015, var frávísunarúrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Hinn 2. september 2015 gekk dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. E-1012/2015 þar sem áðurgreindum ráðstöfunum var rift og stefndu gert að afhenda stefnanda eignirnar. Að auki var stefndu gert að greiða 457.400 kr. í málskostnað.

Með beiðni, dags. 1. október 2015, óskaði stefnda endurupptöku málsins á grundvelli 137. gr. laga nr. 91/1991. Hinn 16. október 2015 var fallist á þá beiðni og málið endurupptekið.

II

Stefnandi byggir á því að ekkert gagngjald hafi komið fyrir hinar ráðstöfuðu eignir. Slíkt komi berlega fram í tilvitnuðum kaupmála varðandi þær eignir sem þar séu færðar til stefndu og megi á sama hátt sjá af sameiginlegu skattframtali hjónanna fyrir árið 2009 að ekkert gagngjald hafi komið fyrir hinar yfirfærðu bifreiðar enda stefnda tekjulaus með öllu. 

Áréttað sé að stefnda hafi, er hinar riftanlegu ráðstafanir áttu sér stað, og hafi um árabil, verið sambúðarmaki þrotamanns, en þau hafi gengið í hjúskap stuttu síðar. Stefnda hafi verið og sé því nákomin honum, sbr. 1. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991.

Stefnandi heldur því fram að kröfur, sem staðreyndar hafi verið fyrir dómi, hafi síðla árs 2008 numið yfir 737 milljónum króna, auk vaxta og kostnaðar. Þar af hafi krafa Landsbankans hf., sem óskaði eftir gjaldþrotaskipum Ingvars, numið að höfuðstól um 257 milljónum króna, auka vaxta og kostnaðar. Af þessu dregur stefnandi þá ályktun að Ingvar hafi ekki átt eignir umfram skuldir þegar þær eignatilfærslur sem krafist er riftunar á áttu sér stað, og að minnsta kosti engan veginn eftir þær ráðstafanir. Ingvar hafi því þegar verið ógjaldfær eða að minnsta kosti orðið það við ráðstafanirnar og það hafi stefnda vitað eða mátt vita. Samkvæmt gjaldþrotaskiptabeiðni Landsbankans hf. og úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur telst staðreynt að sú skuld sem þar var til umfjöllunar hafi hinn 22. september 2008 verið að höfuðstól um 257 milljónir króna auk vaxta og kostnaðar. Samkvæmt kröfulýsingu Landsbanka Íslands hf. (nú LBI hf.) var lýst kröfum á grundvelli fimm héraðsdóma þar sem þrotamaður var í fjórum málanna dæmdur til að greiða kröfuhafanum skuldir miðað við 14. október 2008, samtals a.m.k. að höfuðstól um 196 milljónir króna auk vaxta og kostnaðar. Loks var í kröfulýsingu Íslandsbanka lýst kröfu skv. dómi að fjárhæð um 284 milljónir króna að höfuðstól miðað við 29. desember 2008, auk vaxta og kostnaðar. Samtals er höfuðstóll þessara staðreyndu krafna, síðla á árinu 2008, yfir 737 milljónir króna auk vaxta og kostnaðar. Samkvæmt framangreindu sé ekki álitamál að mati stefnanda að þrotamaður átti ekki eignir umfram skuldir er eignatilfærslur þær er hér er krafist riftunar á voru gerðar, a.m.k. engan veginn eftir þær ráðstafanir.

Stefnandi byggir á því að þrotamaður hafi ekki, á þeim tíma sem framsalið og afsöl áttu sér stað, getað staðið í skilum gagnvart skuldbindingum sínum sem þegar hafi að stórum hluta verið fallnar í gjalddaga. Þrotamaður hafi því verið ógjaldfær eða a.m.k. orðið það við ráðstafanirnar og það hafi stefnda vitað eða í öllu falli mátt vita.

Samkvæmt 131. gr. laga nr. 21/1991 megi krefjast riftunar á gjöf eða gjafagerningi innan þar til greindra tímamarka. Samkvæmt 141. gr. laganna megi, án tilgreindra tímamarka, krefjast riftunar ráðstafana þrotamanns sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamanns verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaður hafi verið ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafi haft hag af henni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamanns og þær aðstæður sem hafi leitt til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Reglu 141. gr. laganna séu engin sérstök tímamörk sett sé skilyrðum hennar á annað borð fullnægt og á hún því við enda þótt nokkur tími líði frá hinni riftanlegu ráðstöfun og fram að gjaldþroti.

Stefnandi byggir á því að umrætt framsal, og afsal þrotamanns á flestum eignum sínum með kaupmálanum og síðan afsali bifreiðanna, sé riftanleg ráðstöfun á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991. Í fyrsta lagi hafi ráðstafanirnar leitt til þess að eignirnar hafi ekki verið til reiðu til fullnustu fyrir kröfuhafa þrotamanns. Þá hafi ekkert gagngjald komið fyrir eignirnar, svo sem að framan er rakið. Í öðru lagi hafi þrotamaður verið ógjaldfær á þeim tíma þegar ráðstafanirnar hafi farið fram eða að minnsta kosti orðið það með þeim. Í þriðja lagi hafi stefnda vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamanns enda honum nákomin. Framsal eignanna hafi enn fremur verið ótilhlýðilegt í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi hafi verið þegar framsölin hafi átt sér stað. Skuldir þrotamanns, m.a. vegna framvirkra samninga, höfðu aukist verulega í kjölfar falls íslensku bankanna, þar sem upphófst atburðarás sem hafi að lokum leitt til gjaldþrotaskipta á búi þrotamanns. Stefnandi byggir á því að þrotamaður hafi við þessar aðstæður séð sitt óvænna og brugðist við með því að koma svo til öllum eignum sínum undan fullnustu lánardrottna og stefnda tekið meðvitaðan þátt í þeim aðgerðum.

Samkvæmt því sem að framan er rakið beri að verða við dómkröfum stefnanda um riftun þessara ráðstafana.

Stefnandi krefst þess aðallega, að riftun frágenginni, að þeim eignum sem afsalað hafi verið verði skilað í þeim mæli sem þær séu enn til staðar, enda verði slíkum skilum komið við án óhæfilegrar rýrnunar verðmæta. Enn fremur að stefndu verði gert að jafna þá rýrnum með peningagreiðslum þar sem skilum verði ekki komið við eða eignir hafi rýrnað í verði. Framangreind krafa styðjist við 144. gr. laga nr. 21/1991.

Verði skilum ekki komið við gerir stefnandi þá kröfu að stefndu verði gert að greiða stefnanda tjónsbætur, skv. 142. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi henni verið kunnugt um riftanleika ráðstafana eins og stöðu og atvikum hafi verið háttað í upphafi árs 2009. Stefnandi byggir jafnframt á því að allt að einu, þó tjónsbætur yrðu ekki viðurkenndar, hafi umkrafin fjárhæð komið stefndu að notum og samsvari tjóni stefnanda og því beri stefndu að endurgreiða hana að fullu. Á því sé byggt að allar hinar riftanlegu ráðstafanir hafi komið stefndu að notum.

Að lokum tekur stefnandi fram að óformlegar viðræður, tilkynningar og tilraun til samninga um framangreindar ráðstafanir fóru fram gagnvart stefndu allt fram til 1. október sl. að endanleg ákvörðun um riftun kaupmálans var tekin á skiptafundi. Þegar almennri riftunaráskorun til stefndu var ekki svarað var stefnuvotti falið að birta stefndu formlega stefnu um riftun og endurkröfu verðmæta. Kom þá í ljós, hinn 24. október sl., með staðfestingu frá þjóðskrá, að stefnda og þrotamaður höfðu flutt heimilisfestu sína á tiltekið heimilisfang í Belgrad, Serbíu hinn 2. október sl. Frá þeim tíma hafi allra leiða verið leitað til að koma fram birtingu á stefnu, hún birt í Lögbirtingablaði hinn 7. nóvember sl. og þýdd á serbnesku og aðgerðir settar af stað til birtingar á uppgefnu heimili í Serbíu. Fljótlega hafi komið fram rökstuddar efasemdir um að tilgreining Þjóðskrár á heimili stefndu í Serbíu væri rétt og telur stefnandi nú, eftir mikla eftirgrennslan, hafið yfir allan vafa að uppgefið heimilisfang fyrirfinnist ekki.

Óþekkt heimilisfang, erfitt eða nánast ómögulegt aðgengi að þarlendum stjórnvöldum og, a.m.k. að svo komnu máli, óvissa um að stefnda hafi í raun flutt heimilisfestu sína til Serbíu, takmarkar mjög alla kosti til stefnubirtingar málsins í Serbíu þó reynd sé með öllum tiltækum ráðum.

Vaxtakröfur stefnanda byggi á því að stefndu beri að greiða vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi til 8. janúar 2015 en frá þeim degi sé krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Stefnandi vísar til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafa stefnanda um riftun og skil á hinu ráðstafaða eða endurgreiðslu byggist á XX. kafla laganna. Jafnframt er vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins. Um vexti og dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa stefnanda um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt er vísað til 89 gr., a- og b-liðar 1. málsgr. sbr og 2. mgr. laganna, varðandi birtingu stefnunnar í Lögbirtingablaði.

III

Stefnda byggir í fyrsta lagi á því, að krafa á hendur henni vegna kaupmálans sé fyrnd. Almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda sé 4 ár, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Fyrningarfrestur kröfu reiknist frá þeim degi er kröfuhafi hafi fyrst getað átt rétt til efnda, sbr. 2. gr. laganna, sem hljóti hér að teljast vera við gerð kaupmálans. Mál þetta hafi ekki verið höfðað fyrr en með birtingu stefnu liðlega 5 árum og 11 mánuðum eftir gerð kaupmálans. Því beri að sýkna stefndu af öllum kröfum í málinu.

Stefnandi virðist m.a. byggja á því að samkvæmt 131. gr. laga nr. 21/1991 megi krefjast riftunar á gjöf eða gjafagerningi innan þar greindra tímamarka. Frestdagur skipta á búi Ingvars var 12. febrúar 2013. Frestur samkvæmt ákvæði 131. gr. laga nr. 21/1991 hafi því verið liðinn þegar málið á hendur stefndu hafi verið höfðað. Ákvæðið komi því ekki til skoðunar í málinu.

Stefnda byggir á því að þær ráðstafanir, sem krafist hafi verið riftunar á, falli ekki undir 141. gr. gjaldþrotalaga. Fyrsta skilyrði 141. gr. sé að ráðstöfun hafi á ótilhlýðilegan hátt verið kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra. Stefnda telur að hún sé ekki kröfuhafi í skilningi laganna. Efnisleg skilyrði skorti því til þess að beita 141. gr. í málinu og beri á þeim grundvelli að sýkna stefndu.

Fallist dómstóllinn ekki á framangreint byggir stefnda á því að öðrum skilyrðum 141. gr. sé ekki fullnægt. Skilyrði fyrir beitingu 141. gr. laga nr. 21/1991 sé í öllum tilvikum að ráðstöfun teljist ótilhlýðileg.

Stefnda telur að um eðlilega ráðstöfun hafi verið að ræða, í ljósi veikinda og hjartaaðgerðar Ingvars. Stefnandi hafi engin gögn lagt fram til þess að hnekkja þessu. Því beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda. Ingvar J. Karlsson hafi ekki verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar

Annað skilyrði fyrir beitingu 141. gr. laga nr. 21/1991 sé að Ingvar hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar. Í stefnu sé byggt á því að höfuðstóll staðreyndra krafna á hendur Ingvari hafi síðla árs 2008 numið yfir 737 milljónum króna. Þar af hafi krafa Landsbankans hf., sem gjaldþrotaskiptabeiðni hafi byggst á, numið um 257 milljónum króna, auk vaxta og kostnaðar.

Stefnda byggir á því að Ingvar hafi hvorki verið ógjaldfær, né orðið það, við gerð kaupmálans. Við mat á því sé ekki fullnægjandi að líta eingöngu til eigna- og skuldastöðu Ingvars. Máli sínu til stuðnings bendir stefnda á að samkvæmt framlögðu yfirliti DFK Endurskoðunar ehf., hafi eignarhlutur Ingvars í Lífsvali ehf. numið a.m.k. 716,2 milljónum króna í árslok 2008, en þau bréf hafi verið sett til tryggingar skuldum Ingvars við Landsbankann hf. Stefnda kveður aðrar kröfur Ingvars hafa verið í skilum er gjaldþrotaskiptabeiðnin barst. Þannig sé því mótmælt sem ósönnuðu að Ingvar hafi verið ógjaldfær þegar ráðstöfunin var gerð, eða að minnsta kosti orðið það við ráðstöfunina. Þvert á móti hafi veð í eignum Ingvars, sem færðust yfir til stefndu við kaupmálann, nægt til þess að tryggja greiðslu skulda hans og rúmlega það. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því Ingvar hafi verið ógjaldfær eða orðið það við þær ráðstafanir sem krafist sé riftunar á og hafi farið fram í janúar 2009. Engin sönnun hafi komið fram um það. Því beri að sýkna stefndu.

Telji dómurinn að ofangreindum skilyrðum 141. gr. laga nr. 21/1991 sé fullnægt, komi til skoðunar það grundvallarskilyrði fyrir beitingu ákvæðisins að sá sem ráðstöfunar hafi notið hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni Ingvars.

Stefnandi virðist byggja á því að stefnda hafi verið grandsöm um ætlaða ógjaldfærni Ingvars þar sem hún hafi verið honum nákomin. Stefnda mótmælir því að þessu huglæga skilyrði ákvæðisins sé fullnægt og byggir á því að það eitt að hún hafi verið Ingvari nákomin nægi ekki í þessu skyni. Stefnda byggir á því að hún hafi hvorki vitað né mátt vita, að eiginmaður hennar tilvonandi gæti verið ógjaldfær. Hún hafi ekki talið sitt að spyrja spurninga um fjárhag hans. Hún hafi ekki þekkt til fjárhagslegrar stöðu Ingvars að öðru leyti en því sem hafi viðkomið daglegum rekstri heimilis. Af því hafi ekki mátt ráða að nein óveðursský hafi hrannast upp. Stefnda kveðst ekki hafa kynnt sér fjárhagsleg málefni er hafi varðað fyrirtækjarekstur Ingvars fram að því að kaupmálinn hafi verið gerður, enda enga ástæðu haft til fyrr en mál þetta hafi komið til. Engin gögn liggi fyrir í málinu sem hreki þetta. Stefnandi hafi engar sönnur fært fram um grandsemi stefndu, en sönnunarbyrði um slíkt hvíli á honum. Því beri að sýkna stefndu.

Stefnda byggir að lokum á því að ákvæði 141. gr. sé undantekningarregla. Hana beri að skýra þröngt og verði að skoða málsástæður stefndu í því ljósi. Einnig sé mikilvægt að höfð sé hliðsjón af því að um það bil 5 ár og 11 mánuðir liðu frá því að þær ráðstafanir, sem krafist sé riftunar á, hafi verið gerðar og þar til skiptastjóri hafi höfðað mál til riftunar á þeim, líkt og áður hafi verið rakið.

Þá verði að hafa í huga að erindi Landsbankans hf. vegna innlausna á hlutum í Lífsvali ehf., sem tekin hafi verið að veði vegna lána Ingvars við bankann, hafi ekki verið sent fyrr en 16. janúar 2012, eða þremur árum eftir gerð kaupmálans.

Enn fremur hafi rúm 4 ár liðið frá því að ráðstafanir þær, sem krafist sé riftunar á, hafi verið gerðar og þar til Landsbankinn hf. hafi krafist þess í febrúar 2013 að bú Ingvars yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

Þá hafi Ingvar sjálfur talið að tryggingarnar fyrir lánum Landsbankans hf., sem hafi falist í virði hluta Ingvars í Lífsvali ehf., nægðu til þess að greiða upp skuldir hans við bankann og rúmlega það. Sá skilningur hafi einnig verið staðfestur af endurskoðanda.

Hvað sem öðru líði yrði það bersýnilega ósanngjarnt ef öllum ráðstöfunum samkvæmt kaupmálanum yrði rift og eignir, sem stefnda hafi haft umráð yfir allan þennan tíma, yrðu teknar úr hennar vörslum, sbr. 145. gr. laga nr. 21/1991.

Málatilbúnaði stefnanda sé að öðru leyti mótmælt að svo miklu leyti sem hann samrýmist ekki málsvörnum stefndu, m.a. kröfu um greiðslu vaxta og dráttarvaxta á tjónsbætur.

Kröfu um sýknu styður stefnda við ákvæði laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Um málskostnað vísast til ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. einkum 129. og 130. gr. laganna.

IV

                Sýknukröfu sína byggir stefnda í fyrsta lagi á því að krafa á hendur henni vegna kaupmálans, sé fyrnd.

Í XX. kafla gjaldþrotalaga nr. 21/1991 er kveðið á um riftun ráðstafana þrotamanns. Meginreglan er sú að riftun sé heimil innan ákveðinna tímamarka. Samkvæmt 131. gr. laganna er t.d. unnt að rifta gjöf sem afhent er síðustu sex mánuði fyrir frestsdag, og skv. 132. gr. er heimilt að rifta sex mánuðum fyrir frestsdag ef þrotamaður hefur afsalað sér arfi á þeim tíma og fleira mætti nefna. Í 141. gr. laganna er ekki að finna nein tímamörk. Í 3. mgr. 142. gr. laganna er kveðið á um að ef riftun fer fram samkvæmt 141. gr. skuli sá er hefur hag af riftuninni greiða bætur eftir almennum reglum.

                Samkvæmt 9. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda fyrnist krafa um skaðabætur, það er aðrar bótakröfur en vegna líkamstjóns, á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga.

                Bú þrotamanns var tekið til opinberra skipta samanber dóm Hæstaréttar Íslands frá 3. apríl 2014 er staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 27. febrúar 2014. Telja verður að upphafstími fyrningarfrests eigi að miðast við dóm Hæstaréttar frá 3. apríl 2014 því að skiptastjóra var ekki unnt að hefjast handa við skiptin fyrr. Hann hafði ekki tök á því að kanna eignir búsins fyrr, þar með talið hvort kaupmáli væri til staðar. Mál þetta var höfðað með stefnu birtri sama ár eða 21. nóvember 2014 það er sjö og hálfum mánuði eftir að Hæstiréttur staðfesti gjaldþrotaúrskurðinn. Að þessu virtu er krafa stefndu um fyrningu hafnað.

                Stefnandi byggir á því að unnt sé að rifta kaupmálanum með vísan til 131. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 en þó aðallega með vísan til 141. gr. sömu laga. Því hafnar stefnda og telur að ákvæði 131. gr. og 141. gr. eigi ekki við. En ef talið yrði að ákvæði 141. gr. eigi við þá sé skilyrðum þess ákvæðis ekki fullnægt.

                Fallist er á það með stefndu að riftun kaupmálans verði ekki byggð á 131. gr. laga nr. 21/1991 þar sem frestur samkvæmt því ákvæði hafi verið liðinn þegar málið á hendur stefndu var höfðað.

                Stefnandi byggir aðallega á 141. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt því ákvæði má krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamanns verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaður var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamanns og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Stefnda telur að ákvæði þetta eigi ekki við og ráðstafanir þær sem verið sé að krefjast riftunar á falli ekki undir ákvæðið.

                Kaupmáli sá er krafist er ritunar á er gerður 28. janúar 2009 og skráður í kaupmálabók í Reykjavík 2. febrúar 2009. Ekki haggar það gildi kaupmálans þó að hann hafi hvorki verið skráður í allsherjarskrá kaupmála né birtur í Lögbirtingablaði fyrr en 16. febrúar 2016.

                Samkvæmt kaupmálanum, en hann er gerður vegna væntanlegs hjúskapar stefndu og þrotamanns, eru eignir þrotamanns gerðar að séreign stefndu. Eru það hlutir í tuttugu og þremur hlutafélögum og einkahlutafélögum að nafnverði samtals 237.535.047 kr. Fasteignir þrotamanns eru að fjárhæð 210.740.241 kr. að fasteignamati og skattmati hinna erlendu eigna. Þá er eign stefndu, fasteign að fasteignamati 23.220.000 kr., gerð að hennar séreign. Samtals renna til stefndu eignir þrotamanns að fjárhæð 448.275.288 kr. Þá var þremur bifreiðum afsalað til stefndu og var það skráð í Ökutækjaskrá hinn 3. febrúar 2009. Þær fasteignir samkvæmt skattframtalinu sem voru ekki gerðar að séreign stefndu með kaupmálanum, voru óverulegar miðað við eignastöðu þrotamanns, þ.e. lóðir að Litla Saurbæ að fjárhæð 281.334 kr., Eiðismýri 30 að fasteignamati 4.051.675 kr., Þóroddsstaðir að fasteignamati 2.300.000 kr. og hengivagn að matsverði 50.000 kr. Fyrir dómi kvað þrotamaður ástæðu kaupmálans hafa verið veikindi hans, en hann hafi veikst árið 2008 og þurft að fara í opna hjartaaðgerð. Hann kvaðst eiga þrjár barnsmæður og hafi hann talið það óábyrgt að ganga ekki frá sínum málum áður en hann færi í aðgerðina.

Verður nú vikið að skuldum þrotamanns við gerð kaupmálans og þá hvort hann var ógjaldfær eða hafi orðið það vegna kaupmálans sem gerður var.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 27. febrúar 2014, sem og gjaldþrotaskiptabeiðni Landsbankans hf., telst staðreynt að sú skuld sem þar var til umfjöllunar hafi hinn 22. september 2008 verið að höfuðstól um 257 milljónir króna auk vaxta og kostnaðar.

Þá var þrotamaður dæmdur í fimm samkynja málum þ.e. málunum nr. E-12445/2009, E-12446/2009, E-12447/2009 og E-12448/2009. Öll voru þessi mál milli þrotamanns og LBI hf. til að greiða Landsbankanum skuldir miðað við 14. október 2008 að minnsta kosti að fjárhæð 200 milljónir króna miðað við gengi á kaupmáladegi, auk vaxta og kostaðar. Í fimmta málinu, þ.e. E-12449/2009, var þrotamaður dæmdur til að greiða bankanum tæplega 200 millj. miðað við 10. október 2009. Lýstar kröfur vegna þessara dóma voru rúmlega 900 millj.

Þá voru til staðar tvær áritaðar stefnur þar sem þrotamaður bar óskipta (in solidum) ábyrgð, ásamt fleirum, fyrir skuld að fjárhæð rúmlega 283 milljónir miðað við 29. desember 2008 og 30 milljónir króna miðað við 11. nóvember 2008 auk vaxta og kostnaðar. Samkvæmt kröfulýsingaskrá eru þessar kröfur samtals að fjárhæð rúmlega 600 milljónir.

Stefnda mótmælir því að þrotamaður hafi verið ógjaldfær og vísar til staðfestingar endurskoðanda um eignir þrotamanns í Lífsvali ehf. í árslok 2008 þar sem eignarhluti hans í félaginu hafi numið að minnsta kosti 400 milljónum króna. Í ljósi þess að þrotamaður stóð í umfangsmiklum viðskiptum og ekkert liggur fyrir um ábyrgðir þær sem hvíldu á honum eða félögum í hans eigu, nægir yfirlýsing þessi ekki ein og sér til að sýna fram á gjaldfærni þrotamanns.

Að því virtu sem að framan greinir nemur höfuðstóll dæmdra krafan mun hærri fjárhæð en þeirri er þrotamaður ráðstafaði til stefndu með kaupmálanum 28. janúar 2009. Því er fallist á að uppfyllt sé skilyrði 141. gr. gjaldþrotalaga að þrotamaður var ógjaldfær eða varð það við gerð kaupmálans.

Ekki er fallist á að stefnda hafi verið grandlaus um ógjaldfærni maka síns. Stefnda var í sambúð með þrotamanni frá árinu 2002. Hún var að ganga í hjónaband með honum og fær svo að segja allar eignir hans sem séreign sína. Dómurinn telur það hafið yfir skynsamlegan vafa að stefndu hafi ekki verið fullkunnugt um eigna- og skuldastöðu þrotamannsins.

Telja verður að yfirfærsla þrotamanns á nánast öllum eigum sínum til verðandi eiginkonu sinnar hafi í ljósi skuldastöðu hans verið ótilhlýðileg. Með þessum ráðstöfunum mismunaði hann kröfuhöfum sínum. Þá eru skýringar hans fyrir dómi, um ástæður þess að kaupmálinn var gerður, ekki trúverðugar. Hann hefði með góðu móti getað tryggt afkomu eiginkonu sinnar, ef illa færi í aðgerðinni, á annan hátt en að afsala henni nánast öllum eigum sínum, sérstaklega í ljósi þess að nokkrir dómar höfðu fallið honum í óhag, svo sem að framan er rakið. Með þessum ráðstöfunum þrotamann voru eignir þrotamanns ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum og eignarstaða hans var verulega rýrð.

Stefnda telur að hún sé ekki kröfuhafi í skilningi laganna og því skortir efnisleg skilyrði fyrir því að beita ákvæðinu. Rétt er að stefnda er ekki kröfuhafi. Hins vegar hefur ákvæðið verið túlkað svo í íslenskum og norrænum rétti að ráðstöfunin þurfi ekki endilega að vera kröfuhafa til hagsbóta. Ráðstöfunin getur til dæmis verið engum til hagsbóta eða ábyrgðarmanni til hagsbóta, en skilyrði er að kröfuhafar búsins bíði tjón af ráðstöfuninni. Stefnda er nákomin þrotamanni og hún nýtur góðs af þessum ráðstöfunum hans og eins og atvikum máls þessa er háttað nýtur þrotamaður sjálfur góðs af þessum ráðstöfunum. Því er fallist á að þessu skilyrði ákvæðisins sé fullnægt.

Að þessu virtu er fallist á að skilyrðum 141. gr. gjaldþrotalaganna sé fullnægt. Þrotamaður mátti vita að gerð kaupmálans fól í sér ótilhlýðilega mismunum í þágu eiginkonu hans, sem hann sjálfur naut góðs af og hann varð sjálfur ógjaldfær við gerð hans. Hann mátti einnig vita að gerð kaupmálans leiddi til þess að minni eignir voru til fullnustu handa kröfuhöfum hans, en ekkert gagngjald kom fyrir eignirnar. Því er fallist á riftunarkröfur stefnanda, samanber 1. og 2. kröfulið sem og 3. kröfulið, um að stefndu verði gert að skila og afhenda stefnanda eignir þær sem tilgreindar eru í kröfuliðum 1 og 2.

Í fjórða lagi krefst stefnandi þess, að verði afhendingu eignanna skv. þriðja lið dómkrafna ekki komið við, verði stefndu gert að greiða stefnanda 200.000.000 kr. eða aðra lægri fjárhæð með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá stefnubirtingardegi til 8. janúar 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Við aðalmeðferð málsins lækkaði stefnandi fjárhæð bótakröfunnar úr 900.000.000 kr. í 200.000.000 kr. og breytti upphafstíma vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001. Svo sem að framan greinir gerði stefnda upphaflaga kröfu um frávísun málsins og byggði meðal annars á því krafa þessi væri vanreifuð og stefnandi hefði ekki á nokkurn hátt gert grein fyrir því á hverju umrædd dómkrafa væri byggð né lagt fram sannanir henni til stuðnings. Frávísun málins var hafnað. Að öðru leyti er ekki fjallað um kröfu þessa af hálfu stefndu.

Ljóst má vera að það er erfiðleikum bundið fyrir stefnanda að sýna fram á stöðu eigna þeirra er stefnda hefur haft umráð yfir allt frá gerð kaupmálsins. Sönnunarbyrðin hvílir því á stefndu sem í engu hefur gert grein fyrir eignunum. Því ber að taka bótakröfu stefnanda, svo sem henni var breytt við aðalmeðferð málsins, til greina, sem er miðað við umfang málsins stillt í hóf.

Með vísan til 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað svo sem greinir í dómsorði. Í 129. gr. sömu laga er talið upp hvað teljist til málskostnaðar. Fyrir liggur að skiptastjóri hefur haft mikinn kostnað og vinnu af því að höfða mál þetta. Það fóru fram óformlegar viðræður og sáttaumleitanir við stefndu varðandi eignir þær sem hér eru til umfjöllunar og var endanleg ákvörðun tekin á skiptafundi 1. október 2014 um að riftun kaupmálans. Daginn eftir fluttu stefnda og þrotamaður heimilisfang sitt til Belgrad í Serbíu. Samkvæmt gögnum málsins var mikil vinna lögð í að hafa upp á stefndu, meðal annars með því að ráða serbneska lögmannsstofu til að finna hana. Hafði lögmannsstofan ekki erindi sem erfiði þar sem heimilisfangið virtist ekki vera til staðar í Serbíu og ekki reyndist unnt að staðfesta raunverulega búsetustöðu stefndu þar í landi. Því er tekinn til greina málskostnaðarreikningur sá er stefnandi leggur fram í málinu.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Rift er neðangreindum ráðstöfunum Ingvars Jónadabs Karlssonar á eignum til handa stefndu, sem gerðar voru að séreign hennar samkvæmt kaupmála, dags. 28. janúar 2009, sem skráður var hjá sýslumanninum í Reykjavík þann 2. febrúar 2009, samtals að fjárhæð 448.076.288 kr.

i.              Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Dvöl ehf., kt. 531006-0200.

ii.             Ráðstöfun til stefndu á 25% hlutafjár í Dyrfjöllum ehf., kt. 621105-0780.

iii.            Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Eignarhaldsfélaginu Land ehf., kt. 700300-2850.

iv.            Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Eignarhaldsfélaginu Skólabrú 1 ehf., kt. 590602-2050.

v.             Ráðstöfun Ingvars til stefndu á 100% hlutafjár í Eldborg ehf., kt. 571097-3389.

vi.            Ráðstöfun Ingvars til stefndu á 25% hlutafjár í Fjárhirðum ehf., kt. 450503-3470.

vii.           Ráðstöfun til stefndu á 33,33% hlutafjár í Haukadal ehf., kt. 590804-2580.

viii.          Ráðstöfun til stefndu á 10% hlutafjár í Hveralandi ehf., kt. 460405-1060.

ix.            Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Íslandssporti ehf., kt. 610685-0139.

x.             Ráðstöfun til stefndu á 78% hlutafjár í Karli K. Karlssyni ehf., kt. 601289-1489

xi.            Ráðstöfun til stefndu á hlutafé Hveralands ehf., kt. 460405-1060, í Landgerði ehf., kt. 450405-1400.

xii.           Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Landnemanum ehf., kt. 550405-1050.

xiii.          Ráðstöfun til stefndu á 16,90% hlutafjár í Lífsval ehf., kt. 531202-3090.

xiv.          Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Orkuveitur ehf., kt. 450503-2580.

xv.          Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Rann ehf., kt. 520598-2439.

xvi.          Ráðstöfun til stefndu á hlutafé Íslandssports ehf., kt. 610685-0139, í Skeifunni ehf., kt. 590269-0189.

xvii.         Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Skjöldólfsstöðum ehf., kt. 600808-0790.

xviii.        Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Skúlatúni 4 ehf., kt. 571104-3260.

xix.          Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Vatnajökli ehf., kt. 441295-2519.

xx.          Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Velsæld ehf., kt. 481106-1920.

xxi.         Ráðstöfun til stefndu á 12% hlutafjár í Virðingu hf., kt. 561299-3909.

xxii.         Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Vínandanum ehf., kt. 441298-2349.

xxiii.        Ráðstöfun til stefndu á 5% hlutafjár í Þverárfélaginu ehf., kt. 690307-0730.

xxiv.       Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni að Vesturhlíð 9, 105 Reykjavík, fnr. 223-7694.

xxv.        Ráðstöfun til stefndu á 50% eignarhluta í fasteigninni að Miðdal I, landnúmer 195718, Mosfellsbæ, fnr. 194-718.

xxvi.       Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni að Skipagötu 9, 600 Akureyri, fnr. 222-9324.

xxvii.      Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni að B-Tröð 12, Reykjavík, hesthús, fnr. 225-4925.

xxviii.     Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni 4th floor 31 Brechin Place, London.

xxix.       Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni 1st floor ¼ Brechin Place, London.

Rift er ráðstöfunum Ingvars Jónadabs Karlssonar sem fólust í afsali 30. janúar 2009 til stefndu, á bifreiðum með skráningarnúmerin BX-M43, DA-970 og TS-502, samtals að fjárhæð 13.329.459 kr., en bifreiðar þessar voru umskráðar milli aðilanna þann 3. febrúar 2009

Stefndu ber að skila og afhenda stefnanda þeim eignum sem tilgreindar eru í riftunarkröfum stefnanda í 1. og 2. kröfulið.

Stefnda greiði stefnanda 200.000.000 kr. með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá stefnubirtingardegi og til 8. janúar 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 23.034.286 kr. í málskostnað.