Hæstiréttur íslands

Mál nr. 251/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ákæra
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                                                                              

Þriðjudaginn 29. apríl 2014.

Nr. 251/2014.

Ákæruvaldið

(Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Óskar Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Ákæra. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem ákæru á hendur X var vísað frá dómi. Með dómi Hæstaréttar var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Talið var að ákæran uppfyllti skilyrði c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og að verknaðarlýsing hennar væri fullnægjandi, enda væri óhjákvæmilegt að lýsa afleiðingum ætlaðra árása, sem áttu að hafa verið tvær sama daginn, með þeim hætti sem gert var í ákæru. Þá var ekki talið að vísa bæri frá ákæru vegna ætlaðs húsbrots og eignaspjalla á þeim forsendum að málshöfðunarskilyrði a. liðar 2. töluliðar 242. gr. og 3. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 væru ekki uppfyllt. Lægi enda skýrlega fyrir að húsráðandi hefði við skýrslugjöf lögreglu farið fram á refsingu á hendur ákærða vegna þess sem gerst hefði.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. apríl 2014 sem barst héraðsdómi samdægurs og réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Suðurlands 2. apríl 2014 um að vísa máli sóknaraðila á hendur varnaraðila frá dómi að því er varðar ákæru lögreglustjórans á Selfossi 13. október 2013. Kæruheimild er í a. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði dómsins um frávísun verði fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka áðurgreinda ákæru til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í ákærunni sem vísað var frá héraðsdómi er ákærða gefin að sök líkamsárás, húsbrot og eignaspjöll með því að hafa 2. desember 2012 veist að fyrrverandi sambýliskonu sinni og barnsmóður og aftur sama dag ruðst heimildarlaust og í óleyfi inn í tilgreinda íbúð og veist þar aftur að henni ,,allt með þeim afleiðingum að [hún] hlaut mar á hægri handlegg, bláma á hægri upphandlegg, hrufl og yfirborðssár á hægri upphandlegg, mar og sár á vinstri upphandlegg og framhandlegg, yfirborðssár framanvert á hálsi, mar og bólgu á enni ofan við vinstra auga og eymsli víða um líkamann.“  Um frávísun er í rökstuðningi héraðsdóms vísað til þess að skort hafi á að því væri lýst í ákæru við hvora af framangreindum tveimur líkamsárásum brotaþoli hafi fengið þá áverka sem þar er lýst og hvort áverkarnir væru til komnir vegna beggja árásanna eða aðeins annarrar.

Í málinu liggur frammi læknisvottorð 2. desember 2012, þar sem fram kom að brotaþoli hafi leitað á slysa- og bráðamóttöku þann dag. Hún lýsti því þar að hún hefði orðið fyrir líkamsárás af hendi barnsföður síns. Síðar sama dag hafi hún aftur komið á  slysa- og bráðamóttökuna þar sem hún lýsti annarri árás af hendi barnsföðurins. Í niðurlagi vottorðsins var greint frá skoðun á brotaþola og þeim áverkum sem á henni voru. 

Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafa fyrirmæli c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 verið skýrð svo að lýsing á þeirri háttsemi sem ákærða er gefin að sök í ákæru verði að vera svo greinargóð og skýr að hann geti ráðið af henni hvaða háttsemi hann er sakaður um og hvaða ákvæði refsilaga hann er talinn hafa gerst brotlegur við. Mega ekki vera slík tvímæli um hverjar sakargiftir eru að með réttu verði ákærða talið torvelt að taka afstöðu til þeirra og halda uppi vörnum. Ítrekað hefur komið fram í dómum réttarins, meðal annars í dómi 10. desember 2012 í máli nr. 703/2012 og 4. apríl 2014, í máli nr. 206/2014 að nánar ráðist af atvikum máls hvaða kröfur eru gerðar til skýrleika ákæru og að í sumum tilvikum hátti svo til að ekki sé unnt að greina hvar og hvenær ætlað brot ákærða hefur verið framið, svo sem eins og þegar refsiverð háttsemi er falin í hliðstæðum athöfnum í nánum tengslum í tíma og rúmi.

Verknaðarlýsing ákæru í máli þessu er skýr að teknu tilliti til sakargifta. Eðli máls samkvæmt var óhjákvæmilegt að lýsa afleiðingum hinna ætluðu líkamsárása ákærða í einu lagi eins og gert var. Ekki verður heldur séð að ákærða hafi verið óhægt um vik að taka afstöðu til sakargiftanna og halda uppi viðhlítandi vörnum, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

Um frávísun ákæru vegna ætlaðs húsbrots og eignaspjalla er til þess vísað í rökstuðningi héraðsdóms að húsráðandi íbúðarinnar að  [...],[...], hafi ekki krafist þess að mál yrði höfðað á hendur ákærða vegna þeirra brota og sé því ekki fullnægt málshöfðunarskilyrðum a. liðar 2. töluliðar  242. gr. og 3. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við skýrslugjöf húsráðandans hjá lögreglu 3. desember 2012, þar sem hann gaf meðal annars skýrslu vegna ætlaðs húsbrots og eignaspjalla ákærða, kvaðst hann halda heimili í íbúðinni. Spurður um hvort hann færi fram á refsingu á hendur ákærða vegna þess sem gerst hefði svaraði hann játandi. Í því fólst krafa um að sakamál yrði höfðað á hendur ákærða vegna brotanna.  

Að þessu virtu og með því að varnaraðili hefur ekki fært önnur haldbær rök fyrir kröfu sinni um frávísun þess hluta málsins er lýtur að ákæru 13. október 2013 verður hið kærða ákvæði dómsins fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því leyti.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hið kærða ákvæði dóms Héraðsdóms Suðurlands 2. apríl 2014 um frávísun ákæru 13. október 2013 er fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því leyti.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 2. apríl 2014.

Mál þetta, sem þingfest var 31. október 2013, er höfðað með þremur ákærum útgefnum af lögreglustjóranum á Selfossi, á hendur X, kt. [...], [...], [...].

Með ákæru, dags. 13. október 2013, er málið höfðað á hendur ákærða

„fyrir líkamsárás, húsbrot og eignaspjöll

með því að hafa að morgni sunnudagsins 2. desember 2012, að [...] á [...], veist að [...], kt. [...], fyrrverandi sambýliskonu og barnsmóður sinni, og slegið í höfuð hennar.

og aftur með því að hafa síðar sama dag, ruðst heimildarlaust og í óleyfi inn í íbúð í fjölbýlishúsinu að [...] á [...], með því að brjóta gler í útidyrahurð, og veist þar að [...], tekið hana hálstaki og slegið undir höku hennar,

allt með þeim afleiðingum að [...] hlaut mar á hægri handlegg, bláma á hægri upphandlegg, hrufl og yfirborðssár á hægri upphandlegg, mar og sár á vinstri upphandlegg og framhandlegg, yfirborðssár framanvert á hálsi, mar og bólgu á enni ofan við vinstra auga og eymsli víða um líkamann.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 217. gr., 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa

Í málinu gerir Jónína Guðmundsdóttir hdl. kröfu f.h. brotaþola um að ákærði [sic.] verði með dómi gert að greiða samtals kr. 623.075 í skaðabætur, með vöxtum skv. 1. mgr 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, frá 2. desember 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sbr. 9. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, auk málskostnaðar.“

Með ákæru, dags. 4. mars 2014, er málið höfðað á hendur ákærða

I.        fyrir gripdeild: (007-2013-30881)

með því að hafa fimmtudaginn 16. maí 2013 dælt eldsneyti á bifreiðina [...] á bensínstöð N1 á Ártúnshöfða í Reykjavík að andvirði kr. 19.301,- og ekið henni brott án þess að greiða fyrir eldsneytið.

Telst háttsemi ákærða varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19. 1940

II.        fyrir gripdeild: (007-2013-30881)

með því að hafa föstudaginn 24. maí 2013 dælt eldsneyti á bifreiðina [...] á bensínstöð N1 á Ártúnshöfða í Reykjavík að andvirði kr. 19.937,- og ekið henni brott án þess að greiða fyrir eldsneytið.

Telst háttsemi ákærða varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19. 1940

III.      fyrir hótanir gegn [...], kt. [...] f.v. sambýliskonu sinni og barnsmóður: (033-2013-5007)

a.

með því að hafa í september 2013 sent [...], kt. [...] neðangreind sms skeyti:

“ef tu dregur kærurnar til baka og bydur mig afsokunar.  Ta kannski mun ég ekki eydileggja tig.” 

“ég mun ekki gera aftur það sama og ég gerði þegar þú reiðst [...] heima hjá mommu.  Það verður svo mikið verra held ég [....] ég held í alvöru að ég eigi eftir að bregðast mikið verr við.”

“ég ætla að meida tig horan tín.  Og kyktu á deildu helvítis pólska oged.  Tu ert fokking daud druslan tin.”

og þannig hótað henni líkamsmeiðingum og velferðarmissi og voru hótanir ákærða til þess fallnar að vekja ótta hjá [...] um líf sitt og velferð.

b.

með því að hafa mánudaginn 2. september 2013 í símtali við ofangreinda [...] viðhaft grófar líflátshótanir í garð hennar, þannig að mikill ótti vaknaði hjá [...] um líf sitt og velferð.

Telst háttsemi ákærða samkvæmt báðum stafliðum III. liðar ákæru varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940

IV.       fyrir líkamsárás: (033-2014-215)

með því að hafa fimmtudaginn 16. janúar 2014 fyrir utan [...] á [...] ráðist að framangreindri [...], tekið hana hálstaki og kýlt í höfuðið þannig að hún féll til jarðar, hrækt á hana og sparkað í hana liggjandi, með þeim afleiðingum að [...] hlaut eymsli í höfði, mar og vöðvaeymsli í hálsi, roða aftanvert á vinstra læri og eymsli í vinsta læri.

Telst háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

V.        fyrir líkamsárás: (033-2014-333)

með því að hafa á sömu stund og stað og frá greinir í ákærulið II  einnig ráðist að [...], kt. [...], slegið hana einu höggi í andlitið með þeim afleiðingum að [...] skall aftur fyrir sig á húsvegg og hlaut bólgur á vinstri vanga, roða í húð, þrota á gagnauga og glerungsbrot á endajaxli (tönn 26)

Telst háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

VI.       fyrir umferðarlagabrot: (033-2014-214)

með því að hafa fimmtudaginn 16. janúar 2013 ekið bifreiðinni [...] að [...] á [...], sbr. ákæruliði IV og V og síðan að [...] á [...], óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa amfetamíns og metamfetamíns.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

VII.     fyrir brot á nálgunarbanni gagnvart [...], kt. [...] sem lögreglustjóri setti á þann 17. janúar 2014 í kjölfar þeirra atburða sem lýst er í ákærulið IV og Héraðsdómur Suðurlands staðfesti þann [...] sl. í máli nr. [...] en samkvæmt umræddu nálgunarbanni var ákærða óheimilt með öllu að nálgast [...] eða hafa samband við hana á nokkurn hátt: (033-2014-256, -297, -319, -543)

a.         með því að hafa 19.01.2014 kl. 19:18 sent [...] smáskilaboð í farsíma hennar

b.         með því að hafa 21.01.2014 kl. 22:40 sent [...] smáskilaboð í farsíma hennar

c.         með því að hafa 22.01.2014 kl. 11:27 sent [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

d.         með því að hafa fimmtudaginn 23. janúar 2014 fengið þriðja aðila til að senda [...] þrjú SMS skilaboð, kl. 18:20, 18:22 og 19:21 til að bera [...]  skilaboð frá ákærða og fyrir að hafa síðdegis sama dag fengið sama aðila til að senda [...] skilaboð á Facebook í sama skyni.

e.         með því að hafa 23.01.2014 sent [...]  sjö smáskilaboð í farsíma hennar, kl. 03:25, 03:27, 07:15, 07:19, 15:10, 23:22 og 23:23.

f.          með því að hafa 24.01.2014 sent [...] þrjú smáskilaboð í farsíma hennar, kl. 08:31, 10:00 og 10:12

g.         með því að hafa miðvikudaginn 5. febrúar 2014 farið á vinnustað [...]  í þeim tilgangi að ræða við hana, en [...] var þá nýfarin úr vinnu.

h.         með því að hafa fimmtudaginn 6. febrúar 2014 sent [...] 5 smáskilaboð í farsíma hennar, kl. 07:51, 07:56, 07:57, 08:01 og 08:04.

Telst háttsemi ákærða samkvæmt a.-f. og h. stafliðum VI. liðar ákæru varða við 1. mgr. 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og háttsemi ákærða samkvæmt staflið g í VI. lið ákæru varða við 1. mgr. 232. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til að sæta sviptingu ökuréttar frá 03.03.2014 að telja, samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur

vegna ákæruliðar I gerir Guðbjörn Sigvaldason kröfu f.h. N1 kt. 540206-2010 um að ákærða verði með dómi gert að greiða kr. 19.301,- í  bætur auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi þann 16. maí 2013, en síðan dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

vegna ákæruliðar II gerir Guðbjörn Sigvaldason kröfu f.h. N1 kt. 540206-2010 um að ákærða verði með dómi gert að greiða kr. 19.937,- í bætur  auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi þann 24. maí 2013, en síðan dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

vegna ákæruliðar IV gerir Jónína Guðmundsdóttir hdl., kröfu f.h. brotaþola að ákærða verði með dómi gert að greiða bætur að fjárhæð kr. 600.000,- með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. janúar 2014 til þess dags er mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu þessarar, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar að skaðlausu verði brotaþola ekki skipaður réttargæslumaður með dómi.“

Með ákæru, dags. 12. mars 2014, er málið höfðað á hendur ákærða

„fyrir brot á nálgunarbanni gagnvart [...], kt. [...], fv. sambýliskonu og barnsmóður ákærða, sem lögreglustjóri setti á þann 17. janúar 2014 og Héraðsdómur Suðurlands staðfesti þann [...]sl. í máli nr. [...] en samkvæmt umræddu nálgunarbanni var ákærða óheimilt með öllu að nálgast [...] eða hafa samband við hana á nokkurn hátt: (033-2014-704 & 033-2014-846)

1.         með því að hafa 13.02.2014 kl. 09:03 sent [...] skilaboð á Facebook

2.         með því að hafa 13.02.2014 kl. 09:23 sent  [...]  skilaboð á Facebook

3.         með því að hafa 14.02.2014 kl. 12:22 sent  [...]  skilaboð á Facebook

4.         með því að hafa 14.02.2014 kl. 05:56 sent  [...]  skilaboð á Facebook

5.         með því að hafa 15.02.2014 kl. 04:39 sent  [...]  skilaboð á Facebook

6.         með því að hafa 15.02.2014 kl. 05:51 sent  [...]  skilaboð á Facebook

7.         með því að hafa 15.02.2014 kl. 19:00 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

8.         með því að hafa 15.02.2014 kl. 19:02 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

9.         með því að hafa 16.02.2014 kl. 20:17 sent  [...] 2 smáskilaboð í farsíma hennar

10.       með því að hafa 16.02.2014 kl. 22:41 sent  [...] 2 smáskilaboð í farsíma hennar

11.       með því að hafa 17.02.2014 kl. 08:37 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

12.       með því að hafa 17.02.2014 kl. 13:24 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

13.       með því að hafa 17.02.2014 kl. 13:27 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

14.       með því að hafa 17.02.2014 kl. 13:55 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

15.       með því að hafa 17.02.2014 kl. 15:15 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

16.       með því að hafa 17.02.2014 kl. 17:30 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

17.       með því að hafa 18.02.2014 kl. 08:47 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

18.       með því að hafa 19.02.2014 kl. 07:39 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

19.       með því að hafa 19.02.2014 kl. 07:41 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

20.       með því að hafa 19.02.2014 kl. 07:44 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

21.       með því að hafa 19.02.2014 kl. 08:38 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

22.       með því að hafa 20.02.2014 kl. 03:08 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

23.       með því að hafa 21.02.2014 kl. 10:21 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

24.       með því að hafa 21.02.2014 kl. 18:18 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

25.       með því að hafa 22.02.2014 kl. 02:41 sent  [...]  3 smáskilaboð í farsíma hennar

26.       með því að hafa 22.02.2014 kl. 02:43 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

27.       með því að hafa 22.02.2014 kl. 02:45 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

28.       með því að hafa 22.02.2014 kl. 02:47 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

29.       með því að hafa 22.02.2014 kl. 02:48 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

30.       með því að hafa 22.02.2014 kl. 02:53 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

31.       með því að hafa 22.02.2014 kl. 02:55 sent  [...]  smáskilaboð í farsíma hennar

32.       með því að hafa 22.02.2014 kl. 03:03 sent  [...]  2 smáskilaboð í farsíma hennar

33.       með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 22. febrúar 2014 tvisvar sinnum ekið um  [...]  á  [...] og stöðvað bifreiðina skamma stund fyrir framan  [...], sjá ákærulið 25.

34.       með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 22. febrúar 2014 hringt einu sinni í símanúmer [...], en umrætt sinn var símtali ákærða ekki svarað.

Telst háttsemi ákærða samkvæmt 1 – 32 lið ákæru varða við 1. mgr. 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en við 1. mgr. 232. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 að því er ákærulið 33 varðar.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Undir meðferð málsins hefur ákæruvaldið óskað eftir að lagfæra ákæru dags. 4. mars 2014 þannig að í ákærulið IV falli út orðin „og kýlt í höfuðið“, í ákærulið V eigi að standa „ákærulið IV“ í stað „ákærulið II“ og í ákærulið VI eigi að vera vísað til ársins 2014 en ekki ársins 2013. Þá hefur ákæruvaldið óskað breytingar á þessari ákæru þannig að í ákærulið V komi í stað orðanna „skall aftur fyrir sig á húsvegg“ orðin „hnaut við“ og sætir breytingin engum andmælum af hálfu ákærða. Þá hefur ákæruvaldið fallið frá staflið g í ákærulið VII í ákæru dags. 4. mars 2014. Jafnframt hefur ákæruvaldið fallið frá ákærulið 33 í ákæru dags. 12. mars 2014.

Eftir framangreindar leiðréttingar og breytingu ákæruskjala er afstaða ákærða til sakargifta eftirfarandi:

Ákærði hefur neitað sök skv. ákæru dags. 13. október 2013 og hafnað þar fram kominni einkaréttarkröfu.

Vegna ákæru dags. 4. mars 2014 hefur ákærði neitað sök skv. ákæruliðum I og II, játað sök skv. ákæruliðum a og b III, játað sök skv. ákærulið IV, játað sök skv. ákærulið V, neitað sök skv. ákærulið VI, játað sök skv. ákæruliðum a, b og c VII en tekur fram að hann hafi þó ekki vitað að nálgunarbann hafi tekið gildi, játað sök skv. d lið VII en tekur fram að hann hafi ekki vitað að hann mætti ekki fá þriðja aðila til að hafa samband við  [...], játað sök skv. ákæruliðum e og f VII en getur þess að sum skilaboðin séu svo löng að þess vegna hafi þau orðið fleiri en efni stóðu til, játað sök skv. ákærulið h VII en þó þannig að um hafi verið að ræða ein skilaboð sem hafi skipst niður í fimm skilaboð í símanum. Ákærði hefur samþykkt bótakröfu vegna ákæruliðar I en án vaxta og dráttarvaxta, og hafnað bótakröfu vegna ákæruliða II og IV.

Vegna ákæru dags. 12. mars 2014 hefur ákærði játað sök.

Af hálfu ákæruvalds eru gerðar þær kröfur sem að ofan greinir.

Af hálfu bótakrefjenda eru gerðar þær kröfur sem að ofan greinir, þó þannig að vegna einkaréttarkrafna [...] er ekki lengur höfð uppi krafa um málskostnað heldur krafa um þóknun vegna skipaðs réttargæslumanns hennar, Jónínu Guðmundsdóttur hdl.

Af hálfu ákærða var við aðalmeðferð lýst þeim kröfum að ákæru dags. 13. október 2013 verði vísað frá dómi, en til vara að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en vegna ákæru 4. mars 2014 krefst ákærði sýknu af ákæruliðum I, II og VI, en að öðru leyti krefst ákærði vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá hafnar ákærði einkaréttarkröfum N1 hf. og krefst sýknu af einkaréttarkröfum  [...]. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlaun til handa skipuðum verjanda ákærða sem greiðist úr ríkissjóði, sem og annar sakarkostnaður.

Ákærur dagsettar 4. mars og 12. mars 2014 voru þingfestar 4. mars og 13. mars 2014 undir málanúmerunum  [...]  og  [...], en voru sameinaðar máli nr. [...] og verða hluti þess máls.

Aðalmeðferð málsins fór fram 18. mars 2014 og var málið dómtekið að henni lokinni.

Málavextir

Samkvæmt rannsóknargögnum vegna ákæru dags. 13. október 2013 barst tilkynning til lögreglu á Selfossi að morgni 2. desember 2012 um að maður væri að brjóta sér leið inn í íbúðarhúsið að  [...] á  [...]. Þar var ákærði skráður til heimilis á þeim tíma, ásamt foreldrum sínum, en jafnframt var þar skráð til heimilis brotaþoli, [...], barnsmóðir ákærða, hér eftir kölluð brotaþoli, ásamt barnungum syni þeirra, [...]. Jafnframt var lögreglu tjáð í síma af  [...], föður ákærða, að ákærði hefði ekki verið búsettur þar síðustu 3 vikur eftir samvistaslit ákærða og brotaþola, en að brotaþoli og [...] væru búsett á heimilinu.

Fór lögregla á vettvang og hitti þar brotaþola, [...] og  [...] og á sama tíma kom ákærði á staðinn. Er m.a. haft eftir brotaþola í frumskýrslu að ákærði hafi komið þar að um morguninn og ráðist að henni með höggum og spörkum. Hafi hann tekið hana tökum og slegið í höfuð. Hafi hann veist að henni þar sem hún hafi haldið á barninu og slegið hana ofan á höfuð. Ekki kemur fram í frumskýrslu að [...] hafi lýst því að ákærði hafi veist að brotaþola. Í skýrslunni er haft eftir ákærða að hann hafi veist að brotaþola og tekið hana kverkataki. Ekki er lýst í skýrslunni áverkum á brotaþola.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu vegna þess atburðar á  [...] sem lýst er í ákæru 13. október 2013 kemur fram að [...] hafi haft samband við lögreglu á Selfossi kl. 16:40 þann 2. desember 2012 og tilkynnt að ákærði væri kominn að húsinu og væri að ganga á íbúðir til að hafa upp á [...]. Þegar lögregla kom á staðinn hafi verið brotin rúða í útidyrahurð og glerbrotin innandyra. Innandyra hafi ákærði verið ásamt brotaþola og  [...] ásamt drengnum  [...]. Hafi ákærði verið mjög æstur og hafi  [...] haldið honum. Hafi brotaþoli staðið hjá mjög skelkuð og drengurinn verið grátandi. Var ákærði handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Er haft eftir brotaþola og  [...] að þau hafi orðið vör við að ákærði væri kominn og væri að ganga á íbúðir og hafi hann virst mjög æstur. Hafi hún svo orðið vör við að hann væri kominn upp á hæðina og farið að banka hjá nágranna. Svo hafi hann farið að berja í efstu rúðu útidyrahurðarinnar nokkrum sinnum, en svo farið að sparka í neðstu rúðuna og hún brotnað eftir 4-5 spörk. Hafi þá ákærði teygt sig inn og opnað innan frá og ruðst inn og rokið beint í brotaþola sem hafi haldið á drengnum. Ýtt henni inn í eldhús þar sem hann hafi tekið hana kverkataki. [...]  þá gengið á milli og stoppað ákærða sem hafi þá róast lítillega. Aftur hafi ákærði tryllst stuttu seinna og þá slegið brotaþola einu höggi á kjálkann vinstra megin. Hafi þá  [...]  gripið aftur inn í og haldið ákærða uns lögregla kom. Segir í frumskýrslu að brotaþoli vilji kæra líkamsárás og  [...]  leggja fram kæru vegna húsbrots.

Í rannsóknargögnum er vottorð Bjarka Steins Traustasonar þáverandi læknanema á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, dags. 2. desember 2012, en þar kemur fram að brotaþoli hafi í tvígang leitað á bráðamóttöku HSU þann dag. Í fyrra sinnið kemur fram að hún kveðist hafa orðið fyrir líkamsárás af hálfu barnsföður síns. Hafi barnsfaðirinn komið þar sem hún hafi búið hjá foreldrum hans og brotið upp útihurðina. Hann hafi tuskað hana til, slegið hana með krepptum hnefa í andlit og höfuð, lagst ofan á hana með hnén ofan á bringu hennar. Hafi þetta verið milli kl. 7 og 8 þá um morguninn. Aftur segir að brotaþoli hafi leitað á bráðamóttöku um kl. 19. Haft eftir brotaþola að hún hafi aftur orðið fyrir líkamsárás af hálfu ákærða. Hafi hann tekið sig kyrkingartaki og tuskað hana til og hrint henni á skáp. Er því lýst í vottorðinu að við kerfakönnun hafi brotaþoli sagst vera aum í öllum skrokknum, verki í rifbein, hafi höfuðverk, sé illt í úlnlið vinstri handar, illt í hnúum hægri handar, enni og kjálka. Þá sé verkur í góm og mjóbaki. Við skoðun komi í ljós mar og blámi á hægri upphandlegg, hrufl og yfirborðssár eftir skarpan hlut á hægri upphandlegg sem hún kveði vera eftir hillu sem henni hafi verið hrint á. Á vinstri handlegg er tilgreint mar og sár á upphandlegg og framhandlegg. Þá segir yfirborðssár framanvert á hálsi og mar og bólga á enni ofan við vinstra auga. Þá eru sögð þreifieymsliparavertebralt L2-L4“ en ekki grunur um beinbrot. Eru áverkar ekki greindir eftir því hvort þeir séu raktir til fyrri eða seinni árásar.

Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu. Kom þar fram að um morguninn 2. desember 2012 hafi ákærði sparkað upp útidyrahurðinni, rifið í hár hennar, sett hana upp við vegg og svo hafi hún legið á gólfinu. Hann hafi öskrað á hana, rifið í föt hennar og sett hnéð í bringu hennar. Þá lýsir hún því að ákærði hafi komið þar sem hún hafi setið með barnið í fanginu og kýlt hana fjórum sinnum í höfuðið. Kvað ákærða hafa sett brotaþola upp að vegg, hrint henni utan í skáp og tuskað hana til. Þá hafi hann kýlt hana með krepptum hnefa ofan á höfuðið fjórum sinnum. Um seinna tilvikið ber brotaþoli í skýrslunni að ákærði hafi sparkað u.þ.b. fimm sinnum í rúðu í útidyrahurð á  [...]  og hafi hún brotnað við það. Hafi hann brotið sér leið inn í íbúðina. Hafi hann reynt að kyrkja hana, gripið um háls hennar og hún ekki náð að anda, svo gengið með hana inn í eldhús. Þá bar brotaþoli að ákærði hafi greint sinn kýlt hana undir hökuna virkilega fast.

Ákærði kvaðst hjá lögreglu hafa ráðist á brotaþola að  [...], tekið hana hálstaki og öskrað á hana. Þá hafi hann slegið hana einu föstu höggi aftan á höfuðið með flötum lófa á meðan hann var inni í húsinu. Að öðru leyti hafi hann ekki ráðist á hana, en hún hafi dottið utan í kommóðu og mögulega hafi hann rekið olnboga í hana einhvern tíma en það hafi ekki verið viljandi. Vegna seinna tilviksins kvaðst ákærði hafa brotið sér leið inn í íbúðina að  [...]  og tekið brotaþola þar hálstaki og slegið hana undir hökuna, en ekki fast.

Við rannsókn málsins var jafnframt tekin skýrsla af  [...] sem var að  [...] umrætt sinn og var jafnframt húsráðandi að  [...]. Lýsti hann því að ákærði hefði ráðist á brotaþola í bæði skiptin og jafnframt að hann hafi brotið sér leið inn á heimili vitnisins að  [...]. Er haft eftir vitninu að hann segist fara fram á refsingu í málinu.

Samkvæmt rannsóknargögnum vegna ákæruliða I og II í ákæru dagsettri 4. mars 2014 barst lögreglu kæra frá N1 hf. dags. 8. júní 2013, vegna tveggja tilvika þar sem tekið hafi verið eldsneyti á bensínstöð N1 við Ártúnshöfða í Reykjavík, annars vegar 16. og hins vegar 24. maí 2013, án þess að greiða fyrir eldsneytið. Segir í kæru að í bæði skiptin hafi verið um að ræða bifreiðina  [...]. Fylgir mynddiskur með kærunni og sést þar maður dæla eldsneyti á téða bifreið 16. maí 2013 eftir að hafa átt eitthvað við sjálfsalann, mögulega með einhverskonar greiðslukorti. Segir í kæru að upptaka vegna seinna tilviksins hafi farið forgörðum. Var tekin skýrsla af ákærða hjá lögreglu vegna þessa og kannaðist við að hafa verið sá sem sést dæla eldsneytinu á upptökunni. Hafi hann greitt fyrir eldsneytið með VISA plús korti sínu og séu þetta mistök hjá N1. Neitaði að hafa tekið eldsneyti án þess að greiða. Margir hafi haft aðgang að bifreiðinni á þessum tíma. Ekki kvaðst ákærði kannast við seinna tilvikið. Samkvæmt útprentun úr ökutækjaskrá 25. júní 2013 var ákærði eigandi bifreiðarinnar frá 28. mars 2013 til 17. apríl 2013 en  [...] frá 2. júní 2013. Ekkert segir þar um tímabilið frá 17. apríl 2013 til 2. júní s. á.

Samkvæmt rannsóknargögnum vegna ákæruliðar VI í ákæru dags. 4. mars 2014 var haft samband við lögreglu 16. janúar 2014 kl. 15:44 vegna ákærða. Var sagt að ákærði hefði komið akandi að  [...] á téðri bifreið og lagt þar hendur á fólk. Væri ákærði að aka burt frá húsinu meðan símtalið við lögreglu átti sér stað og segir í frumskýrslu að lögregla hafi heyrt vélardrunur bifreiðarinnar. Fór lögregla strax að heimili ákærða að  [...] og sá þar bifreiðina í hlaði og voru vatnskassi og vélarhlíf mjög heit og vart hægt að snerta vatnskassann vegna hita. Var þá klukkan 15:52. Þegar lögregla gekk að húsinu var bílskúrshurðin opnuð og var ákærði þar innandyra og virtist æstur og eirðarlaus. Var honum kynntur grunur um akstur undir áhrifum. Segir að hann hafi rokið inn í húsið og brugðist illa við. Hafi lögregla farið á eftir ákærða inn og komið að honum þar sem hann hafi verið að þamba úr bjórdós. Kemur fram að blóðsýni hafi verið tekið kl. 16:25 og þvagsýni látið í té kl. 16:08. Í matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði kemur fram að í þvagsýni hafi fundist amfetamín og metamfetamín auk þess að í blóði hafi fundist metamfetamín 65 ng/ml, en ekki hafi amfetamín verið í mælanlegu magni í blóðinu. Segir að ekki sé unnt að segja til um hvenær neysla metamfetamíns hafi átt sér stað, en amfetamín sé þekkt umbrotsefni þess. Miðað við niðurstöður mælinga í blóði og þvagi hafi neyslan að öllum líkindum átt sér stað síðasta sólarhringinn fyrir sýnatöku. Við skýrslutöku 3. mars 2014 hjá lögreglu neitaði ákærði að tjá sig um málið. Var ákærði þann dag sviptur ökurétti til bráðabirgða og honum kynnt það samdægurs.

Ekki þykja vera efni til að gera sérstaklega grein fyrir því sem fram kom við rannsókn lögreglu á þeim sakargiftum sem ákærði hefur játað. 

Vegna framangreindra brota hefur ákærði sætt gæsluvarðhaldi frá 7. mars 2014 skv. dómi Hæstaréttar Íslands uppkveðnum  [...].

Framburður við aðalmeðferð

Ákærði skýrði svo frá við aðalmeðferð að hann og brotaþoli hafi verið hætt samn þegar atvik þau gerðust sem um er fjallað í ákæru dags. 13. október 2013. Hafi hann samt átt heima að  [...] og alltaf verið þar með lögheimili, en ekki hún. Hún hafi skipt um lás á húsinu í leyfisleysi. Verið þar inni með öðrum manni, sem sé óforsvaranlegt að mati ákærða, en foreldrar hans búi þarna. Við það hafi ákærði reiðst og farið inn og maðurinn hafi ráðist á hann með hníf. Sýndi ákærði ummerki eftir átök við manninn á líkama sínum í réttinum. Hafi þeir slegist. Hafi brotaþoli orðið einhvern vegin á milli og dottið á eikarkommóðu við klósetthurðina. Kvaðst ekki muna þetta nákvæmlega. Hafi þau tekið saman fljótlega eftir þetta og hafi það staðið í meira en hálft ár. Ákærði hafi ekki ráðist á hana og ekki slegið til hennar, enda aldrei lagt á hana hendur, en hann hafi reiðst mjög, enda hafi brotaþoli verið nýbúin að biðja hann um að giftast sér. Ákærði kvaðst hafa vitað að hún væri að hitta þennan mann og hann héti [...]. Ákærði kannaðist við að hafa gefið framburð hjá lögreglu en myndi ekki vel hvað hann hefði sagt. Kvaðst telja mjög ósennilegt að hafa slegið brotaþola umrætt sinn. Kannaðist við að hafa slegið laust með flötum lófa aðeins í hnakkann á brotaþola, en ekki fast. Kannaðist ekki við að hafa tekið brotaþola hálstaki. Kvað brotaþola aðallega hafa verið reiða. Erindi ákærða á Lambhagann umrætt sinn hafi verið að skila syni þeirra, sem hafi verið úti í bíl á meðan. Brotaþoli hafi farið út og sótt drenginn meðan ákærði hafi enn verið að kljást við  [...]. Ákærði hafi svo farið, mætt lögreglunni, snúið við og farið á eftir henni og rætt við hana. Vegna atviksins á  [...] síðar sama dag kvað ákærði að hann hafi verið á rúntinum á  [...]. Séð þá bíl í sinni eigu, sem móðir ákærða hafi verið skráð fyrir, fyrir utan  [...]. Litið upp og séð á þriðju hæð að brotaþoli og  [...], með barnið, hafi verið að ganga inn. Hafi fokið í ákærða við þetta. Hafi hann farið til þeirra og opnað dyrnar með miklum látum þannig að það hafi brotnað rúða, en það hafi þó ekki verið ætlunin. Hurðin hafi skollið upp og rúðan brotnað við það. Að líkindum hafi hurðin verið ólæst. Hafi ákærði talað við brotaþola. Hafi ákærði ekki verið með nein sérstök læti. [...]  hafi falið sig inni á klósetti og hringt á lögreglu og svo hafi ákærði verið handtekinn. Vegna framburðar síns hjá lögreglu um þetta kvaðst ákærði hafa sagt að rúðan hafi brotnað þegar hann hafi verið að opna með látum. Ekki hafi honum verið boðið inn. Hann hafi farið inn vegna þess að barnið hans hafi verið þarna í óleyfi og brotaþoli hafi áður verið látin vita að hún ætti ekki að vera með barnið þarna meðan ákærði væri svona reiður, en hún eigi vanda til þess að gera allt sem hún viti að hann vilji ekki að hún geri. Kvaðst ákærði ekki hafa vitað nákvæmlega hver ætti heima þarna fyrst en strax hafi komið í ljós að [...] ætti heima þarna. Kvaðst hafa séð þau fara inn í íbúðina og þannig vitað hvar þau væru. Ákærði hafi gert sér grein fyrir að honum hafi ekki verið boðið þarna inn. Hann hafi aðallega verið að sækja drenginn. Hann hafi bara viljað fá drenginn og fara með hann út. Ekki hafi komið til neinna átaka og hafi bara verið orðaskipti. Vegna framburðar síns hjá lögreglu kvaðst ákærði ekki hafa slegið brotaþola en tekið eitthvað í hana. Kannaðist ekki við að hafa slegið brotaþola undir höku og kvaðst ekki vita skýringu á framburði í lögregluskýrslu um það. Gæti mögulega hafa rekist í höku brotaþola. Ekki mundi ákærði eftir því að hafa tjáð sig um þetta á annan veg fyrir dómi við fyrirtöku kröfu um nálgunarbann. Ekki mundi ákærði eftir að hafa sparkað upp hurðinni á  [...]  en hann hafi tekið í húninn. Rúðan hafi brotnað og fannst ákærða það hafa gerst þegar hurðin hafi skollið í vegginn.

Engan ásetning kvaðst ákærði hafa haft til að skaða brotaþola. 

Ákærði kvað vera óbreytta afstöðu sína um að játa alla háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru dags. 12. mars 2014.

Vegna liða nr. I og II í ákæru dags. 4. mars 2014 kvað ákærði að í því atviki sem lýst er í ákærulið I, þ.e. þann 16. maí 2013, hafi ákærði sett kortið sitt í bensínsjálfsalann. Hafi hann stimplað inn og svo hafi hann verið að taka dæluna út og lagst einhvern veginn utan í dæluna eða eitthvað og sett stútinn í bílinn og dælt. Svo hafi hann sett stútinn á sinn stað að lokinni dælingu og ekið burt og talið sig hafa greitt. Hafi hann ekki vitað að dælan sjálf hafi „overwrightað“ kortið þegar hafi ýst á gula takkann sem hann hljóti að hafa ýtt óvart á, en ekki hafi hann ýtt viljandi á takkann. Takkinn merki að maður vilji greiða inni. Þetta hafi bara verið óvart og kvaðst ákærði vera tilbúinn að greiða fjárhæðina. Hafi verið hringt í ákærða frá N1 og starfsmaður þar staðfest að hann hafi séð ákærða greiða og þetta væru sennilega mistök N1. Áður hafi hann stolið eldsneyti, en þetta tilvik hafi ekki verið annað en mistök. Skuldin sé inni á heimabankanum en hann hafi ekki enn greitt hana. Ekki kannaðist ákærði við að hafa fengið bréf frá N1 vegna þessa. Vegna atviks 24. maí 2013 sem lýst er í ákærulið II í nefndri ákæru 4. mars 2014 kvað ákærði að hann hafi ekki verið þar sjálfur, en einhver annar geti vel hafa verið á bílnum. Hann hafi gjarnan lánað bifreiðina svo lengi sem hann hafi fengið greitt bensín. Hafi ákærði hvorki dælt því eldsneyti sem þar er lýst né verið á umræddri bensínstöð þann dag. [...], kallaður  [...], hafi oftast verið á bílnum á þessum tíma, en hann hafi verið besti vinur ákærða á þessum tíma. Það hafi verið rangt hjá sér sem hann hafi áður borið að bíllinn hafi verið seldur þegar þetta var, en hið rétta sé að bíllinn hafi lent í tjóni þremur dögum síðar og verið seldur nokkrum dögum eftir það. Ekki hafi ákærði ekið bifreiðinni eftir 27. maí 2013.

Vegna ákæruliða III a og b í ákæru 4. mars 2014 kvaðst ákærði standa við játningu sína en tók fram að engin meining hafi verið að baki. Þetta hafi bara verið einhver afbrýðisemi eða bræði.

Vegna ákæruliðar IV og V í ákæru 4. mars 2014 kvaðst ákærði standa við játningu sína.

Vegna ákæruliðar VI kvaðst ákærði enn neita sök. Hafi hann ekki verið undir áhrifum við aksturinn en verið vel undir áhrifum þegar hann hafi verið tekinn á heimili sínu seinna um daginn. Kvaðst hafa farið til brotaþola  [...] og komið illa fram við hana, sparkað m.a. í fót hennar, farið svo heim til foreldra sinna, farið inn í herbergi og tekið 30 svefntöflur, teygað hluta af viskípela og svo þegar hann hafi séð lögregluna fyrir utan hafi hann klárað „spíttið“ sitt þannig að ekki myndu finnast á honum áhrifin. Hafi þetta verið um hálft gramm. Hafi ákærði tekið inn töflurnar vegna eftirsjár yfir því að hafa komið illa fram við brotaþola. Hafi hann svo haldið á lítilli bjórflösku þegar lögregla hafi komið inn og verið búinn að drekka einn sopa af henni. Ekkert hafi hann verið búinn að taka inn af metamfetamíni og amfetamíni fyrir aksturinn. Ekki kvaðst ákærði rengja það að efni hafi fundist í blóðsýni. Dágóður tími hafi liðið frá því akstri lauk uns ákærði hafi verið handtekinn, á að giska 20-30 mínútur, kannski bara minna.

Vegna ákæruliðar VII í ákæru 4. mars 2014 kvaðst ákærði standa við játningu sína. Kvaðst þó ekki hafa vitað að nálgunarbannið hafi tekið gildi við fyrstu þrjá liðina og að hann hafi ekki vitað að hann mætti ekki fá þriðja aðila til að bera brotaþola skilaboð. Kvaðst ekki hafa lesið textann um nálgunarbann þegar honum hafi verið birt það þann 17. janúar 2014. Megininntak skilaboðanna hafi verið um barn þeirra og tilraunir hans til að fá brotaþola atur og sameina fjölskylduna.

Ákærði lýsti því að hann sækti tíma hjá sálfræðingi á Litla Hrauni og væri að ná tökum á lífi sínu.

Vitnið [...], brotaþoli, barnsmóðir og fyrrverandi sambýliskona ákærða, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún hafi komið heim til foreldra ákærða að [...], þar sem hún hafi búið, en hún hafi gist annars staðar um nóttina. Hafi hún fengið [...], sem hún hafi verið að hitta á þessum tíma, með sér því hún hafi allt eins átt von á ákærða og leiðindum. Ákærði hafi svo komið og sparkað upp hurðinni og rokið inn. Hafi hann öskrað á hana. Hafi ákærði gripið um hausinn á henni og skellt henni utan í vegg, nokkuð fast og hafi hún fengið kúlu. Næst muni hún að hafa legið í gólfinu og ákærði ofan á henni með hnéð í bringuna á henni og verið að tuska hana eitthvað til. Þá hafi  [...] rifið ákærða af henni. Hafi þeir rifist. Hafi hún farið út í bíl og sótt barnið. [...]  hafi verið með hníf þegar hún hafi komið aftur inn. Hún hafi farið inn í herbergi með barnið og lokað. Svo hafi ákærði komið inn í herbergið og kýlt ofan á hausinn á henni þrisvar sinnum eða svo. Þeir hafi rifist meira og svo hafi ákærði farið. Þá hafi lögreglan komið. Ákærði hafi kýlt hana undir hökuna eftir að hún hafi staðið upp. Svo hafi ákærði kýlt hana ofan á hausinn rétt áður en hann hafi farið. Hún kvaðst hafa meitt sig og verið mjög hrædd. Ákærði hafi verið mjög æstur. Hún hafi farið til  [...] eftir þetta þar sem ákærði hafi ekki vitað hvar hann ætti heima. Seinni partinn, þegar þau hafi verið heima hjá  [...], hafi verið læti og  [...]  litið út um gluggann og séð ákærða að banka á allar íbúðir að leita að þeim. Hafi  [...] strax hringt á lögreglu. Nágranni hafi upplýst ákærða hvar  [...] ætti heima og hafi þá ákærði farið að hamast á hurðinni og sparkað í neðstu rúðuna þangað til hún hafi brotnað. Þá hafi ákærði teygt sig í lásinn og opnað sjálfur og komið inn. Þá hafi vitnið verið í eldhúsinu með barnið og verið komin á gólfið og vonað það besta. [...]  hafi stoppað ákærða þegar hann hafi komið inn. Þeir hafi rifist og ákærði verið að hóta einhverju. Hafi ákærði viljað taka barnið. Hafi vitnið rétt ákærða drenginn en hann ekki viljað vera hjá ákærða og vitnið þá tekið drenginn aftur. Hafi ákærði kýlt hana undir hökuna með hnefa og það hafi verið mun fastara högg en fyrr um daginn í [...] og hafi hún þá haldið á barninu á handleggnum. Ákærði hafi stuttu síðar tekið hana hálstaki og verið að kyrkja hana, en ekki mundi hún hvort hún hafi þá haldið á drengnum. Hún hafi ekki náð andanum og  [...] hafi tekið ákærða af henni og í sömu andrá hafi lögreglan komið og handtekið ákærða. Kvaðst vitnið líða mjög illa og vera á róandi lyfjum og vera hrædd og kvíðin. Kvaðst aðspurð ekki vera undir áhrifum við skýrslugjöfina en vera stressuð og taka lyf sem virki allan sólarhringinn. Kvaðst muna eftir að hafa lent utan í hillu í  [...] þegar hún hafi dottið. Mundi ekki á hvora hliðina hún hafi dottið, en hún hafi meitt sig. Vissi ekki hvaðan  [...]hafi fengið hnífinn en hann hafi líklega verið með hann. Aðspurð kvaðst vitnið hafa séð ákærða sparka í hurðina á  [...]. Hún hafi dottið utan í innréttingu þegar ákærði hafi tekið sig hálstaki á  [...]. Ekki hafi  [...] og ákærði tekist á á  [...]. Kvaðst vitnið hafa misst tvo-þrjá daga úr vinnu eftir þetta og ekki fengið laun vegna þeirra. Vitnið kvaðst vera hætt að vinna vegna vanlíðunar eftir atvik milli hennar og ákærða í janúar 2014. Hún hafi ekki spáð í hvort ákærði hafi verið undir áhrifum en hann hafi verið voða reiður. Aðspurð kvaðst vitnið ekki vita hvort ákærði hafi verið undir áhrifum við aksturinn sem lýst er í ákærulið VI, en hann hafi fyrst og fremst virst æstur en hún héldi að hann hafi verið búinn að fá sér eitthvað.

Vitnið  [...] kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hafi fylgt brotaþola heim 2. desember 2012 því hún hafi verið hrædd þar sem ákærði hafi verið að koma með barn þeirra. Þetta hafi verið snemma morguns. Hafi hún beðið vitnið að bíða í stofunni svo að ákærði sæi hann ekki. Svo hafi ákærði komið og byrjað á að brjóta upp útidyrahurðina. Svo ráðist á brotaþola. Vitnið hafi togað ákærða af henni þegar hann hafi verið að berja hana. Þeir hafi tekist á. Vitnið hafi haft hníf og sagt ákærða það, en ekki hafi hann beitt vopninu. Ákærði hafi brotið muni og hent niður myndum. Barnið hafi verið úti í bíl hjá ákærða og hafi brotaþoli farið og sótt það. Hafi ákærði lamið brotaþola meðan hann hafi haldið á drengnum. Hafi vitnið svo ýtt ákærða fram og hafi ákærði farið fljótlega eftir það. Þau hafi þá hringt á lögreglu. Nánar aðspurður kvað vitnið að ákærði hafi legið klofvega yfir eða ofan á brotaþola og verið að kýla hana með krepptum hnefum í sitt hvora hliðina. Hafi hann náð a.m.k. tveimur til þremur höggum áður en vitnið hafi náð að stöðva þetta. Svo þegar ákærði hafi lamið brotaþola þegar hún hélt á barninu hafi ákærði lamið hana með krepptum hnefa ofan á hausinn. Kannaðist ekki við að ákærði hafi þá slegið undir höku brotaþola. Brotaþoli hafi ekki blandast inn í átök sem hafi orðið milli vitnisins og ákærða. Kannaðist ekki við að brotaþoli hafi dottið utan í hillu í  [...]. Ákærði hafi verið mjög æstur og „upptjúnaður“, verið óeðlilega æstur. Verið ákærði virst í annarlegu ástandi. Aðspurður kvaðst vitnið ekki muna eftir að hafa séð áverka á brotaþola eftir þetta. Hafi þau farið á lögreglustöð og til læknis og svo heim til vitnisins. Seinni partinn, á að giska um fjögurleytið, hafi vitnið orðið var við hávaða og hurðaskelli í blokkinni. Hafi litið út og séð þá spegilmynd ákærða í gleri og hafi hann greinilega verið að leita að vitninu. Hafi vitnið hringt á lögreglu. Hafi ákærði svo brotið upp hurðina eða sparkað neðstu rúðunni úr hurðinni og brotið hana. Ekki hafi vitnið séð þetta, en hafi heyrt þetta. Hafi ákærði svo opnað dyrnar og gengið inn í íbúðina. Hafi ákærði byrjað á að ráðast á brotaþola. Hafi vitnið strax skorist í leikinn og stoppað ákærða sem hafi verið rosalega æstur. Hafi ákærði sagst vera að vara vitnið við því að félagar ákærða væru á leiðinni til vitnisins að lemja vitnið. Hafi ákærði aftur ætlað að ráðast á brotaþola og náð a.m.k. einu höggi á kinn brotaþola, sjálfsagt nokkuð föstu, áður en vitnið hafi stoppað þetta. Mundi ekki eftir að hafa séð ákærða slá brotaþola undir hökuna. Vitnið hafi ýtt ákærða inn í eldhúsið og þá hafi lögregla komið á staðinn og yfirbugað ákærða. Aðspurður um hvaða ofbeldi hann hafi séð ákærða beita brotaþola á  [...]  kvaðst vitnið hafa séð ákærða hlaupa að henni og rífa í hana og svo síðar kýlt í andlitið á henni. Hafi brotaþoli haldið á drengnum á meðan ákærði hafi kýlt hana. Vitnið kvaðst ekki hafa séð þegar ákærði hafi komið inn í íbúðina en þá hafi vitnið verið á baðherberginu. Hafi verið gler út um allt í forstofunni. Þegar ákærði hafi komið inn hafi brotaþoli verið mitt á milli stofu og eldhúss. Ekki hafi vitnið séð greinilega áverka á brotaþola eftir atvikið á  [...]. Mundi ekki eftir að hafa séð ákærða taka brotaþola hálstaki en hann hafi tekið eitthvað í hendur hennar og föt. Ekki kannaðist vitnið við að brotaþoli hafi dottið á  [...]. Kvaðst ekki hafa tekið eftir áverkum á brotaþola eftir atvikið á [...]. Vitnið staðfesti skýrslu sína hjá lögreglu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða berja eða sparka í hurðina, hann hafi einungis heyrt það. Hafi ákærði greinilega barið í efstu rúðuna í hurðinni og hafi það heyrst greinilega. Vitnið kvað útihurðina hafa verið læsta. Hægt sé að teygja sig gegnum neðstu rúðuna brotna og opna innan frá. Aðspurður kannaðist vitnið við frásögn sína í skýrslu að ákærði hafi tekið brotaþola hálstaki strax eftir að hann kom inn í íbúðina á  [...] og hafi vitnið séð þetta. Kvað vitnið þetta rifjast upp fyrir sér við að vera spurður út í lögregluskýrsluna og sjá þetta skýrt fyrir sér. Kvað vitnið rétt eftir sér haft í lögregluskýrslu að ákærði hafi slegið brotaþola undir höku og kvaðst muna þetta nú. Hafi þetta verið með krepptum hnefa. Kvaðst vitnið nú muna það sem það hafi lýst í lögregluskýrslu sinni, eftir að hafa verið kynnt það. Greinilega hafi vitnið ekki munað nógu vel fyrr í skýrslugjöfinni þegar vitnið hafi lýst höggi á kinn.

Vitnið  [...] kom fyrir dóm við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann kannaðist við ákærða en þekkti hann ekki beint. Ákærði hafi bankað upp á heima hjá vitninu á  [...]. Hafi unnusta vitnisins svarað. Hafi verið spurt um einhvern dreng. Svo hafi ákærði bankað aftur og þá hafi vitnið farið til dyra. Hafi ákærði spurt hvort vitnið vissi hvar íbúð  [...]  væri. Hafi vitnið svarað því og bent ákærða þangað. Örskömmu síðar hafi heyrst öskur og brothljóð og læti. Síðan hafi barnsgrátur bæst við og hafi þá vitnið ákveðið að hringja á lögreglu. Ekki hafi vitnið séð ákærða ganga að íbúðinni. Ákærði hafi virst rólegur og verið kurteis. Þetta hafi verið um kvöldmatarleytið sennilega. Ekkert hafi vitnið skipt sér frekar af þessu.

Vitnið Hermundur Guðsteinsson lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann rámaði í atvik 2. desember 2012. Um hafi verið að ræða tvö atvik, fyrst í  [...]. Hafi verið hringt á lögreglu og óskað aðstoðar vegna manns sem hafi komið og sparkað niður hurð og ráðist á fólk. Við komu á staðinn hafi sést ummerki um átök. Hafi lögregla hitt brotaþola og mann að nafni  [...]. Hafi sá verið eitthvað blóðugur á fingri og sagt að það hafi verið eftir hníf sem hann hafi verið með. Ákærði hafi komið á staðinn og verið mikill hiti milli manna. Hafi brotaþoli og  [...]  sagt á staðnum að ákærði hafi komið og hjólað í brotaþola. Hafi  [...]  sagst hvorki hafa beitt hnífnum né ógnað með honum. Hafi málin verið sjötluð á staðnum. Ákærði farið sína leið og þau hin orðið eftir. Vegna seinna tilviksins kvað vitnið að  [...]  hafi hringt og sagt að ákærði væri kominn að húsinu og væri að leita að þeim. Skömmu síðar hafi komið símtal frá nágranna sem hafi sagst hafa heyrt brothljóð, öskur og læti. Þegar lögregla hafi komið á staðinn hafi verið brotin rúða í opinni útidyrahurð og ákærði og  [...]  staðið upp við eldhúsvaskinn. Brotaþoli hafi verið í stofu með grátandi barn. Hafi ákærði verið handtekinn. Brotaþoli hafi virst vera hrædd og ákærði æstur. Ekki gat vitnið sagt til um hvort fólkið hafi verið undir áhrifum. Staðfesti vitnið lögregluskýrslu sem vitnið vann.

Vegna ákæruliðar VI í ákæru 4. mars 2014 kvað vitnið að það hafi verið hringt á lögreglu og ekki hafi verið talað í símann á hinum endanum, en vitnið hafi heyrt að eitthvað mikið væri þar í gangi. Hafi vitnið flett upp símanúmerinu og séð að það var brotaþoli og svo hafi heyrst eitthvað garg og nafnið „[...]“ og svo hafi heyrst karlmannsrödd sem hafi spurt „af hverju ertu alltaf að særa mig?“ eða eitthvað slíkt. Svo hafi símtalið slitnað. Einni til tveimur mínútum síðar hafi komið annað símtal þar sem brotaþoli hafi kynnt sig og sagt ákærða hafa komið þar að og lagt á sig hendur og væri hann nú að fara í burtu á bláum  [...]. Hafi vitnið heyrt vélardrunur gegnum símann eins og bíll væri þaninn og ekið burtu. Vegna fyrri kynna af forsögu milli ákærða og brotaþola hafi lögregla rokið af stað. Hafi vitnið farið ásamt Ívari Bjarka lögreglumanni að heimili ákærða við  [...]. Við komu þangað hafi blái  [...]  verið þar fyrir utan og vart hægt að snerta vatnskassann vegna hita. Hafi bílskúrshurðin opnast þegar þeir hafi gengið að húsinu og ákærði verið þar innst inni og mjög æstur og „tens“. Hafi ákærða verið kynnt tilefni komu þeirra. Hafi svo ákærði rokið inn í íbúðina og vitnið farið á eftir og þegar vitnið hafi komið að ákærða hafi hann verið að þamba bjór, sem hann hafi svo lagt frá sér óviljugur. Hafi ákærði svo verið handtekinn og fluttur á stöð þar sem tekið hafi verið þvagsýni sem hafi gefið jákvæða svörun fyrir ákveðnum efnum. Hafi þeim fundist hann vera ör. Ekki hafi vitnið séð ákærða neyta annars en umrædds bjórs. Aðeins nokkrar sekúndur hafi liðið frá því ákærði fór inn úr bílskúrnum þar til vitnið kom að honum við bjórþambið, á að giska 4-5 sekúndur. Frá seinna símtali hafi aðeins liðið fáar mínútur þar til vitnið hafi verið kominn að heimili ákærða við  [...], kannski 4-6 mínútur. Vitnið staðfesti lögregluskýrslu og m.a. tímasetningar í henni.

Vitnið Olivera Ilic lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hafa komið að málum 2. desember 2012. Fyrst hafi verið kallað á lögreglu í  [...]  á heimili foreldra ákærða. Við komu lögreglu hafi ákærði verið farinn en brotaþoli og  [...]  verið inni. Hafi verið dáldið á rúi og stúi innandyra. Svo hafi ákærði komið. Á endanum hafi málinu lokið á staðnum með því að ákærða hafi verið vísað á burt og hann lofað að haga sér. Ákærði hafi sagt að hann hafi verið að koma með son þeirra brotaþola til hennar og ræða við hana. Hafi ákærði viðurkennt að hafa tekið brotaþola kverkataki eða eitthvað svoleiðis. Hafi ákærði virst vera rólegur og séð eftir því að mál væru komin í þessa stöðu og verið svekktur og sár út í brotaþola og vantreyst  [...]  vegna sonar síns. Seinni part sama dags hafi  [...]  hringt heiman frá sér á  [...] þar sem þau hafi þá verið og hafi hann sagt að ákærði væri fyrir utan að ganga á íbúðir og væri að leita þeirra. Jafnframt hafi íbúi hringt á lögreglu. Hafi lögregla farið á staðinn og þegar vitnið kom á staðinn hafi aðrir lögreglumenn verið komnir og búnir að handtaka ákærða sem hafi verið fluttur á stöð. Hafi brotaþoli og  [...]  sagt að ákærði hafi komið og gengið eitthvað í skrokk á brotaþola. Hafi  [...] haldið ákærða þar til lögregla kom. Neðsta rúðan í útidyrahurðinni á  [...]  hafi verið brotin. Ekki vissi vitnið hvort útihurðin hafi verið læst eða ekki.

Vitnið Heiðar Bjarndal fyrrverandi lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hafa komið að málum 2. desember 2012 á  [...]. Hafi vitnið komið eftir að brotist hafi verið inn í íbúðina. Hafi þeir sótt ákærða og farið með hann á lögreglustöð. Eftir það hafi vitnið sótt bifreið ákærða að hans ósk og farið með hana á lögreglustöð. Neðsta rúða í útihurð hafi verið brotin. Hafi ákærði verið í eldhúsi og sóttur þangað. Ekki hafi vitnið rætt við fólk á vettvangi. Ákærði hafi verið æstur þegar vitnið kom á vettvang, en aðrir rólegri, sérstaklega  [...].

Vitnið Guðbjörn Sigvaldason starfsmaður N1 kom fyrir dóminn við aðalmeðferð.  Kvaðst vitnið hafa verið vaktstjóri á bensínstöð N1 á Ártúnshöfða og hafi séð atvikið eftir á í myndavélakerfinu, að [...] [...]  jeppa hafi verið lagt við dælu og ökumaður sett eða þóst setja kort í sjálfsalann en ekki gert neitt meira. Tekið kortið og ýtt á gulan takka sem merki að greiða inni. Hafi viðkomandi lokið dælingu og ekið burt. Þetta hafi gerst tvisvar í maí. Hafi vitnið reynt að hringja í símanúmer en ekki hafi verið svarað og hafi vitnið sent bréf eftir það. Hafi verið gefinn 10 daga frestur í bréfinu til að ganga frá skuldinni. Hafi verið send inn kæra eftir þá 10 daga. Myndbandsupptaka sé til af öðru tilvikinu, en hin hafi ekki vistast. Kvaðst vitnið hafa séð báðar upptökurnar. Hafi verið um að ræða sömu bifreið með sama skráningarnúmeri. Hafi vitnið séð ökumanninn á báðum upptökum. Nokkurn vegin hafi verið unnt að sjá hver ökumaður væri. Hafi vitnið án vafa þekkt viðkomandi sem sama mann á báðum upptökum. Hafi viðkomandi verið eins klæddur í bæði skiptin. Hafi vitnið rætt við mann þennan í síma og hafi hann kannast við mistökin og lofað að koma og borga en ekki staðið við það. Eftir það hafi viðkomandi samþykkt að fá sendan greiðsluseðil fyrir þessu. Vitnið kvaðst hafa þekkt viðkomandi m.a. á peysunni, líkamsvexti og gleraugum.

Vitnið Ívar Bjarki Magnússon lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hafa komið að málum 16. janúar 2014. Hafi borist tilkynning til lögreglu um líkamsárás á  [...] og hafi vitnið farið að heimili ákærða við  [...]  ásamt öðrum lögreglumanni þar sem ákærði hafi tekið á móti þeim. Þá hafi ákærði verið í bílskúrnum. Ákærði hafi virst fremur óstöðugur og í ójafnvægi. Fremur æstari en vant er. Ekki hafi vitnið greint að ákærði hafi verið undir áhrifum. Þegar tilkynningin hafi borist lögreglu hafi vitnið, sem svaraði þó ekki símanum, heyrt að mikil læti hafi verið á hinum enda línunnar. Ekki kvaðst vitnið muna til þess að ákærði hafi sett eitthvað í sig eftir að lögregla hafi komið á staðinn, a.ö.l. en því að í skýrslu komi fram að ákærði hafi verið að drekka bjór. Vitnið staðfesti lögregluskýrslur.

Vitnið Bjarki Steinn Traustason læknakandidat gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð. Kom fram að brotaþoli  [...]  hafi leitað á bráðamóttöku á  [...]  í tvígang  þann 2. desember 2012, fyrst að morgni til og seinna um kl. 19. Kvaðst hafa orðið fyrir líkamsárás af hálfu barnsföður, hafi sagst búa hjá foreldrum hans og hann hafi komið þangað og brotið upp útidyrahurð og tuskað hana til og slegið með krepptum hnefa í andlit og höfuð og lagst ofan á hana með hnén í bringu hennar. Við skoðun verið marin og blá á hægri upphandlegg, með hrufl og yfirborðssár á hægri upphandlegg eftir skarpan hlut sem hún hafi sagt vera eftir hillu sem henni hafi verið hrint á. Á vinstri handlegg hafi verið mar og sár, bæði upp- og framhandlegg. Yfirborðssár eða roðarönd þvert yfir framanvert á hálsi, og mar og bólgu á enni ofan við vinstra auga. Þreifieymsliparavertebralt“ eða sitthvoru megin við hryggsúlu í lendhrygg en ekki hafi verið grunur um beináverka. Allir áverkarnir hafi komið fram við skoðun í seinna skiptið. Ekki hafi verið ástæða til að rengja það að allir áverkarnir væru til komnir þennan sama dag. Hafi t.a.m. ekki verið kominn gróandi í yfirborðsáverkana og ekki komið fram mar. Aðspurður kveðst vitnið hafa verið læknanemi á umræddum tíma, staddur á sjötta ári náms. Ekki mundi vitnið til að eldri sjúkrasaga hefði verið könnuð.

Vitnið Kristín Magnúsdóttir deildarstjóri Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði gaf skýrslu við aðalmeðferð gegnum síma. Kom fram hjá vitninu að um hafi verið að ræða leit ólöglegra ávana- og fíkniefna í blóðsýni og þvagsýni. Í þvagi hafi fundist amfetamín og metamfetamín. Í blóðsýni hafi ekki fundist amfetamín í mælanlegu magni þ.e.a.s. verið undir mæliþröskuldi rannsóknastofunnar, sem séu 20 ng/ml. Í blóði hafi mælst metamfetamín 65 ng/ml. Magnákvörðun í blóði sé gerð með gasgreiningu með massaskynjara. Aðspurð hvort unnt væri að áætla hversu langt hafi verið frá því neysla hafi hafist kvað vitnið ekki unnt að fullyrða hvenær neysla metamfetamíns hafi átt sér stað, en amfetamín sé þekkt umbrotsefni og mjög líklegt að amfetamínið sem mælst hafi í þvaginu sé niðurbrotsefni metamfetamíns sem hafi verið neytt. Ekki unnt að segja hvenær sú neysla hafi hafist, en að öllum líkindum átt sér stað síðasta sólarhringinn fyrir sýnatöku. Nánast útilokað að neyslan hafi átt sér stað 20 mínútum fyrir sýnatöku, en þá myndi aldrei mælast slíkt í þvagi og niðurbrotsefnið amfetamín líka. Ólíklegt að neyslan hafi verið 30 mínútum fyrir sýnatöku. Ekki væri hægt að útiloka klukkutíma. Nær útilokað að þessar niðurstöður hefðu fengist ef neyslan hafi aðeins átt sér stað 15-20 mínútum fyrir sýnatöku. Magn efnis í þvagsýni sé ekki tilgreint, enda geti þvag verið misþunnt og erfiðara að túlka styrk efnis í því. Venjulega sé ekki tilgreindur styrkur efnis í þvagi. Metamfetamín geti greinst í blóði, eftir neyslu gegnum nef, tiltölulega fljótt, mögulega 5-10 mínútum eftir neyslu, þó ólíklegt sé, en að svo skömmum tíma liðnum myndi efnið ekki mælast í þvagi. Tiltölulega háar tölur hafi verið í þvagi þó það komi ekki fram í matsgerð. Aðspurð kvað vitnið að miðað við að blóðsýni hafi verið tekið kl. 16:25 og þvagsýni látið í té kl. 16:08 og inntaka fíkniefna ekki verið fyrr en kl. 15:44, að þá geti ekki staðist að fíkniefnanna hafi einungis verið neytt eftir kl. 15:44. Það standist ekki og sé útilokað að neysla þess sem greindist í þvagi hafi öll átt sér stað eftir kl. 15:44.

Vitnið Kristín Ólafsdóttir, deildarstjóri á Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, gaf skýrslu við aðalmeðferð gegnum síma. Kom fram hjá vitninu að metamfetamín og amfetamín hafi fundist í þvagsýni. Í blóðsýni hafi mælst metamfetamín. Amfetamín sé umbrotsefni metamfetamíns og allt bendi til þess að þannig sé amfetamínið til komið í málinu, að virtum styrk amfetamíns í þvagi sem hafi verið u.þ.b. 7%, sem sé mjög mikið. Ekki kvaðst vitnið geta afmarkað það nánar að neysla efnanna hafi átt sér stað síðasta sólarhring fyrir sýnatökuna. Kvað ekki mögulegt að efnin hafi eingöngu verið tekin inn síðustu 20-30 mínútur fyrir sýnatöku, en þetta byggi á rannsókn þvagsýnisins. Fullyrti vitnið að það væri alveg útilokað. Verkaskipting milli vitnisins og Kristínar Magnúsdóttur hafi verið þannig að önnur skrifi matsgerð og hin lesi yfir. Greiningin sjálf hafi verið gerð af öðrum starfsmönnum en þær Kristín útbúi matsgerðina. Metamfetamín geti greinst misfljótt í blóði eftir neyslu. Sé efninu sprautað í æð þá greinist efnið undir eins, en ef efnið er tekið gegnum nef þá greinist það mjög hratt og mælist hár styrkur innan við 30-60 mínútur frá neyslu. Líklegt að hægt væri að greina efnið í blóði 5-10 mínútum eftir inntöku gegnum nef. Aðspurð kvað vitnið að miðað við að blóðsýni hafi verið tekið kl. 16:25 og þvagsýni látið í té kl. 16:08 og inntaka fíkniefna ekki fyrr en kl. 15:44, að þá geti ekki staðist að fíkniefnanna hafi einungis verið neytt eftir kl. 15:44. Það standist ekki og sé útilokað að neysla þess sem greindist í þvagi hafi öll átt sér stað eftir kl. 15:44.

Vitnið Jórunn Viðar Valgarðsdóttir heimilislæknir gaf skýrslu gegnum síma við aðalmeðferð og skýrði frá því að brotaþoli  [...]  hafi komið til sín og liðið mjög illa og verið kvíðin yfir því að gefa skýrslu fyrir dómi að ákærða viðstöddum. Hafi vitnið útbúið vottorð um þetta. Kom fram að vitnið hafi hitt brotaþola a.m.k. 3-4 sinnum þannig að framburður vitnisins væri ekki einungis byggður á einu viðtali.                  

Forsendur og niðurstaða

Meginkrafa ákærða vegna ákæru 13. október 2013 er að henni verði vísað frá dómi. Vísar ákærði í þessum efnum til þess að í ákærunni sé lýst tveimur árásum en afleiðingarnar séu ekki sundurgreindar. Líkamsárás skv. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sé tjónsbrot. Jafnframt sé ekki gerð grein fyrir því í ákærunni hvaða íbúð átt sé við í fjölbýlishúsinu á  [...]. Geri þetta hvort tveggja ákærða erfitt um vik að verjast sakargiftum. Þá vísar ákærði til þess að ekki sé höfð uppi með nægilega skýrum hætti krafa um málshöfðun af hálfu þess sem misgert hafi verið við vegna húsbrots og eignaspjalla og því sé ekki fullnægt málshöfðunarskilyrðum a liðar 2. mgr. 242. gr. og 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Það er álit dómsins að ekki hafi það komið að sök við varnir ákærða að ekki sé getið um númer íbúðar þeirrar á  [...] sem ákærða er gefið að sök að hafa ruðst heimildarlaust inn í, en berlega hefur komið fram að ákærða er þetta fulljóst. Þykir um þetta mega líta til 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvað varðar aukaatriði brots.

Í ákæru er því ekki lýst við hvora af framangreindum tveimur líkamsárásum brotaþoli hafi fengið þá áverka sem þar er lýst, eða hvort áverkarnir séu til komnir vegna beggja árásanna eða aðeins annarrar. Þá kemur ekki fram í ákæru hvernig lýstir áverkar á brotaþola koma heim og saman við þá háttsemi sem ákærða er gefin að sök, en í háttsemislýsingu er vísað til þess að ákærði hafi, auk þess að veitast að brotaþola, slegið í höfuð hennar, tekið hana hálstaki og slegið undir höku, en engu er þar t.a.m. lýst um það hvernig hún hafi fengið áverka á handleggjum og eymsli víða um líkamann. Ákærði hefur vísað til þess að líkamsárás skv. 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga sé tjónsbrot. Ekki er þó skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins að sannað sé að líkamsárás hafi leitt til beinna líkamsáverka þess sem fyrir árás verður. Á hinn bóginn skiptir það verulegu máli við mat á líkamsárás í sakamáli hverjir áverkar eru og hvernig þeir séu tilkomnir. Verður að vera unnt að tengja háttsemislýsingu við þá áverka sem lýst er í ákæru. Að framangreindu virtu þykir ákæran vera þannig úr garði gerð, hvað varðar meintar líkamsárásir, að ekki sé uppfyllt það skilyrði að greint sé svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af, sbr. 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008, einkum c lið ákvæðisins, en með þessu er ákærða jafnframt gert óhæfilega erfitt um varnir og þykir bera að vísa ákærunni frá dómi af þeim sökum.     

Fyrir liggur að í frumskýrslu lögreglu þar sem fjallað er um ætlað húsbrot og eignaspjöll er haft eftir [...] að hann leggi fram kæru vegna húsbrotsins. Þá kemur fram í framburðarskýrslu  [...], dags. 3. desember 2012, að hann fari fram á refsingu. Hefur dómurinn hlustað á hljóðritun af framburði vitnisins og er þar sérstaklega vísað til þess að vitnið krefjist refsingar vegna húsbrots. Hvergi segir berlega í skýrslugjöf  [...]  að hann krefjist þess að mál verði höfðað á hendur ákærða vegna húsbrots eða vegna eignaspjalla. Er samkvæmt þessu ekki fullnægt málshöfðunarskilyrðum framangreindra lagaákvæða í 242. og 257. gr. almennra hegningarlaga, sem þykir óhjákvæmilegt að skýra eftir orðanna hljóðan.

Verður samkvæmt framansögðu að vísa frá dómi í heild sinni ákæru dags. 13. október 2013.

Vegna ákæruliða I og II í ákæru 4. mars 2014 hefur ákærði neitað sakargiftum. Hefur hann borið að í seinna skiptið, þ.e. 24. maí 2013, hafi hann alls ekki verið á ferð heldur hafi einhver annar verið á bifreiðinni. Þá hefur vitnið Guðbjörn Sigvaldason, starfsmaður N1, borið um það fyrir dómi að á upptökum hafi nokkurn vegin mátt sjá hver ökumaður væri og hafi vitnið séð á þeim að um hafi verið að ræða sama mann. Fyrir liggur að ekki eru til upptökur af seinna skiptinu, en ákærði hefur kannast við að vera sá maður sem sést á upptöku af fyrra tilvikinu. Gegn neitun ákærða þykir þó vera ósannað, þrátt fyrir framburð vitnisins Guðbjörns, að ákærði hafi verið á ferð í seinna sinnið. Vegna fyrra skiptisins, þ.e. 16. maí 2013, hefur ákærði borið að hann hafi dælt eldsneyti á bifreiðina og sett kort sitt í sjálfsalann, en fyrir einhver mistök hafi ekki farið greiðsla af korti hans fyrir eldsneytið, mögulega vegna þess að hann hafi af vangá ýtt á tiltekinn hnapp sem ætlaður sé til að gefa til kynna að viðskiptavinurinn vilji greiða inni. Gegn þessum framburði ákærða hefur ákæruvaldið ekki fært fram sönnun um að ásetningur ákærða hafi staðið til þess að taka eldsneytið án þess að greiða fyrir það, en til þess er að líta að engin vitni voru að atburðinum. Getur ekki breytt þessu að mynddiskur hafi verið lagður fram með rannsóknargögnum málsins, en sækjandi óskaði ekki eftir því að upptakan yrði sýnd í réttinum, aukinheldur að mat dómsins er það að upptakan skeri ekki úr um sök ákærða að þessu leyti, en dómurinn hefur kynnt sér upptökuna.

Ber því að sýkna ákærða af sakargiftum í ákæruliðum I og II í ákæru 4. mars 2014.

Ákærði hefur skýlaust játað sakargiftir skv. ákæruliðum III, IV og V í ákæru 4. mars 2014. Þykja játningar ákærða trúverðugar og í samræmi við gögn málsins og ekkert sem dregið geti úr gildi þeirra. Þykir engu breyta framburður ákærða um að ekki hafi búið með honum alvara með hótunum sínum, enda hótanirnar til þess fallnar að vekja hjá brotaþola ótta eins og lýst er í ákvæðum 233. gr. almennra hegningarlaga. Eru brot ákærða samkvæmt ákæruliðum þessum rétt færð til refsiákvæða.

Vegna ákæruliðar VI í ákæru 4. mars 2014 hefur ákærði ekki haft uppi athugasemdir vegna þeirrar efnagreiningar á blóð- og þvagsýnum sem ákæra byggir á, en hann hefur á hinn bóginn borið að hann hafi neytt efnanna eftir að akstri lauk. Fyrir liggur skv. gögnum málsins og framburði lögreglumannanna Ívars Bjarka Magnússonar og Hermundar Guðsteinssonar að akstur ákærða hófst ekki seinna en kl. 15:44 þennan dag og var ákærði handtekinn nokkrum mínútum síðar eftir að akstri lauk. Ekki þykir útilokað að ákærði hafi náð að koma í sig einhverjum fíkniefnum og/eða lyfjum sem og áfengi eftir að akstrinum lauk og áður en hann var handtekinn. Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins og framburði framangreindra tveggja lögreglumanna að ákærða var dregið blóð kl. 16:25 og að hann lét í té þvagsýni kl. 16:08 sama dag. Samkvæmt framburði vitnanna Kristínar Magnúsdóttur og Kristínar Ólafsdóttur er útilokað að fíkniefni sem greindust í þvagsýni ákærða, sem hann lét í té kl. 16:08, sé aðeins tilkomið vegna neyslu eftir kl. 15:44 þegar aksturinn hófst samkvæmt gögnum málsins. Þykir þannig sannað að ákærði hafi haft umrædd efni í líkama sínum við aksturinn og þannig verið óhæfur til akstursins eins og lýst er í ákærunni. Er háttsemi ákærða rétt færð til refsiákvæða.

Ákærði hefur játað alla háttsemi skv. ákærulið VII í ákæru 4. mars 2014, sem og í ákæru 12. mars 2014. Hann hefur þó tekið fram vegna ákærunnar 4. mars 2014 að honum hafi ekki verið ljóst að nálgunarbann hafi tekið gildi, að honum hafi ekki verið ljóst að honum væri óheimilt að setja sig í samband við brotaþola fyrir tilstilli þriðja manns, sem og að smáskilaboðin hafi orðið fleiri en efni hafi staðið til þar sem símtækið hafi af tæknilegum ástæðum skipt stærri og færri skilaboðum í fleiri og smærri. Hefur ákærði gert sömu athugasemd vegna brota á nálgunarbanni sem lýst er í ákæru 12. mars 2014, þ. e. um fjölda skilaboðanna. Vegna þessa þykir rétt að geta þess að óumdeilt er að ákærða var kynnt nálgunarbannið 17. janúar 2014 og að hann ritaði undir það þann dag. Segir berlega í textanum, sem ákærði ritaði undir, að nálgunarbann sé ákveðið af lögreglustjóranum á Selfossi, að það verði borið undir héraðsdóm til staðfestingar og að málsmeðferð fyrir héraðsdómi fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar. Er því hafnað að ákærða hafi ekki verið þetta kunnugt. Þá kveður ákærði að honum hafi ekki verið ljóst að ekki væri honum heimilt að setja sig í samband við brotaþola fyrir tilstilli þriðja manns eins og lýst er í d lið ákæruliðar VII í ákæru 4. mars 2014. Rétt er að líta til þess að í framangreindri ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann segir m.a. að ákærða sé óheimilt að vera í sambandi við brotaþola með þar nánar tilgreindum hætti og svo segir „eða með öðrum hætti“ og er þetta í samræmi við skilgreiningu á nálgunarbanni í 1. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Væri það í algeru ósamræmi við tilgang nálgunarbanns ef fara mætti í kringum það með því að fá þriðja mann til að bera skilaboð til þess sem á að njóta verndar nálgunarbanns. Var nálgunarbannið staðfest með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands þann  [...]. Þá þykir það engu breyta í þessu samhengi að símtæki ákærða kunni af tæknilegum ástæðum að hafa skipt skilaboðunum niður í fleiri og styttri boð, en fyrir liggur að skilaboðin stafa öll frá ákærða. Eru brot ákærða skv. umræddum ákæruliðum rétt færð til refsiákvæða.

Samkvæmt framansögðu hefur ákærði unnið sér til refsingar.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða hófst sakaferill hans á árinu 2005 er honum var gerð fjársekt fyrir ávana- og fíkniefnabrot, en tvær slíkar hefur hann fengið til viðbótar, þ.e. á árunum 2006 og 2007. Þá var ákærði sektaður fyrir of hraðan akstur og akstur án þess að hafa ökuskírteini sitt meðferðis á árinu 2006, auk þess að vera sektaður sama ár fyrir akstur sviptur ökurétti. Þá var ákærði sektaður fyrir þjófnaðarbrot á árinu 2007. Loks var ákærði dæmdur til að greiða 200.000 kr. fjársekt þann 7. júní 2012 fyrir brot gegn 44. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 og önnur umferðarlagabrot. Sakaferill ákærða hefur ekki bein áhrif á ákvörðun refsingar hans nú.

Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir endurteknar hótanir og líkamsárás og margendurtekin brot gegn nálgunarbanni gagnvart barnsmóður sinni og fyrrverandi sambýliskonu, auk líkamsárásar gagnvart annarri konu, auk aksturs undir áhrifum ávana og fíkniefna. Við ákvörðun refsingar þykir bera að líta til 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk 3. mgr. 70. gr. sömu laga, en jafnframt þykir mega líta til töluliða nr. 6 og 8 í 1. mgr. 70. gr. laganna, en ástetningur ákærða til ófriðar gagnvart brotaþola þykir hafa verið styrkur og einbeittur auk þess að framferði hans eftir brotin hefur ýmist borið merki iðrunar eða forherðingar. Þá ber jafnframt að líta til hreinskilnislegrar játningar ákærða vegna þeirra liða þar sem það á við.

Að öllu framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði, en fært þykir að fresta fullnustu þriggja mánaða af refsingunni og skal sá hluti falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hliðsjón af fjölda og eðli brota ákærða þykir ekki fært að skilorðsbinda refsinguna að fullu. Frá óskilorðsbundna hluta refsingarinnar ber að draga gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 7. mars 2014 með fullri dagatölu, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga. 

Þá ber jafnframt að gera ákærða fésektarrefsingu vegna brots hans gegn ákvæðum 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 og er fésektin hæfilega ákveðin kr. 70.000 og skal hún greiðast innan 4 vikna frá uppkvaðningu dómsins en ella sæti ákærði fangelsi í 6 daga. Þá ber jafnframt að svipta ákærða ökurétti skv. tilvitnuðum ákvæðum 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 59/1987 og er ákærði sviptur ökurétti í 3 mánuði frá 3. mars 2014 að telja. 

Með því að ákæru 13. október 2013 hefur í heild sinni verið vísað frá dómi kemur þar fram sett einkaréttarkrafa brotaþola ekki til álita og er henni vísað frá dómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

Í einkaréttarkröfu brotaþola  [...] vegna atvika sem lýst er í ákæru 4. mars 2014 segir að ákærði hafi gerst sekur um fólskulega líkamsárás og valdið brotaþola líkamstjóni. Hafi þetta haft í för með sér óþægindi og röskun á daglegu lífi og högum brotaþola og hafi ákærði eftir þetta ítrekað raskað ró brotaþola með stanslausu áreiti. Er vísað til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem og sakarreglunnar. Þykir brotaþoli eiga rétt til miskabóta úr hendi ákærða. Að virtum atvikum og sambandi ákærða og brotaþola þykja bæturnar hæfilega ákveðnar kr. 250.000 og skulu bera vexti eins og í dómsorði greinir, en ekki liggur fyrir að ákærða hafi verið kynnt bótakrafan fyrr en við þingfestingu ákærunnar þann 4. mars 2014.

Við aðalmeðferð féll niður þingsókn af hálfu bótakrefjandans N1 hf. og ber að fella kröfurnar niður skv. 2. ml. 2. mgr. 174. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærði hefur ekki verið sakfelldur fyrir öll þau brot sem honum voru gefin að sök í málinu og þykir rétt skv. 2. ml. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 að fella hluta sakarkostnaðar á ríkissjóð. Við aðalmeðferð vísað sækjandi til gagna málsins vegna kröfu um greiðslu sakarkostnaðar. Rétt er að ákærði greiði að fullu útlagðan sakarkostnað vegna rannsóknar á þeim sakargiftum sem hann hefur verið sakfelldur fyrir, þannig nánar kr. 71.646 vegna rannsóknar á sakargiftum í lið VI í ákæru 4. mars 2014, kr. 37.100 vegna læknisvottorðs vegna ákæruliðar IV í ákæru 4. mars 2014, kr. 19.004 vegna læknisvottorðs vegna ákæruliðar V í ákæru 4. mars 2014, kr. 50.200 vegna verjanda við yfirheyrslur vegna ákæruliðar VII í ákæru 4. mars 2014. Þá ber að ákveða að ákærði greiði tvo þriðju hluta þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., en alls þykir þóknunin hæfilega ákveðin kr. 600.000 að meðtöldum virðisaukaskatti, sem og tvo þriðju hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Óskars Sigurðssonar hrl., en alls þykir þóknun hans hæfilega ákveðin kr. 800.000 að meðtöldum virðisaukaskatti.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákæru 13. október 2013 er vísað frá dómi, þ.m.t. einkaréttarkrafa  [...].

Einkaréttarkröfur N1 hf. falla niður.

Ákærði, [...], sæti fangelsi í 5 mánuði. Fresta ber fullnustu þriggja mánaða af fangelsisrefsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Frá óskilorðsbundna hluta refsingarinnar skal draga með fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 7. mars 2014.

Ákærði greiði kr. 70.000 í fésekt til ríkissjóðs innan 4 vikna, en sæti ella fangelsi í 6 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í 3 mánuði frá 3. mars 2014.

Ákærði greiði  [...] kr. 250.000 með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. janúar 2014 til 4. apríl 2014, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði alls kr. 1.111.283 í sakarkostnað, þ.m.t. tveir þriðju hlutar málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða, Óskars Sigurðssonar hrl., sem alls eru ákveðin kr. 800.000 að meðtöldum virðisaukaskatti, sem og tveir þriðju hlutar þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola  [...], Jónínu Guðmundsdóttur hdl., sem alls er ákveðin kr. 600.000 að meðtöldum virðisaukaskatti, en mismunurinn greiðist úr ríkissjóði.