Hæstiréttur íslands

Mál nr. 164/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 21

 

Miðvikudaginn 21. mars 2007.

Nr. 164/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðahaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 15. maí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. mars 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að X, [kt.], með lögheimili að [heimilisfang], verði með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 15. maí 2007, kl. 16.00.

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að kærði hafi verið handtekinn þann 5. desember 2006 eftir að þáverandi sambýliskona hans A kallaði til lögreglu vegna ofbeldis sem hún hafði orðið fyrir af hálfu kærða. Hún hafi lýst atvikum svo fyrir lögreglu að kærði hafi aðfaranótt sunnudagsins 3. desember ráðist á hana þegar hún var að tala í síma rifið af henni símann og hent í burtu, og byrjað barsmíðar sem stóðu meginhluta nætur og fram á næsta dag auk þess sem kærði hafi nauðgað henni tvisvar sinnum og svipti hana öllum möguleikum á að leita sér aðstoðar

Þann 8. mars sl. hafi kærði verið ákærður fyrir brot sín gagnvart A, fyrir frelsissviptingu, stórfellda líkamsárás og nauðgun, sbr. meðfylgjandi ákæra. Málið verði þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 28. mars nk.

Eins og lýst sé í ákæru sé kærði grunaður um að hafa beitt A miklu ofbeldi og notað í því skyni m.a. búrhníf og kjötexi sem hann hafi beitt sem barefli og barið A með flötum blöðum þessara vopna.

Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði neitað því að hafa nauðgað A og svipt hana frelsi sínu en viðurkennt að hafa slegið A með krepptum hnefa á upphandleggi og á annað lærið en það hafi gerst í átökum á milli þeirra sem hafi hafist þegar A hafi ráðist á hann.

Í málinu liggi fyrir vottorð Neyðarmóttöku um þá áverka sem reyndust vera á A er hún kom til skoðunar þann 4. desember 2006 og greinargerð Þóru Steffensen réttarmeinafræðings þar sem fram komi að þeir áverkar sem A reyndist vera með samrýmist sögu þeirri sem hún hafi gefið hjá lögreglu. Í greinargerð Þóru komi fram að A hafi verið með mikla áverka um allan líkamann og hafi fengið a.m.k. þrjú högg á andlit, þar af tvö hnefahögg, fjölda högga með kjötexinni og högga sem veitt hafa verið með öðrum hætti, víðsvegar á líkamann og varnaráverka á framhandlegg og handarbökum.

Þann 6. desember hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a – liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til 20. desember. Þann dag hafi kærði verið fluttur í afplánun á 90 daga fangelsi sem hann hafi verið dæmdur í með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. apríl 2006, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Kærði ljúki afplánun dómsins þann. 20. mars kl. 08.00.

Sú krafa sé gerð að kærði verði látin sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, þar til dómur falli í héraðsdómi. Kærði sé grunaður um alvarleg hegningarlagabrot sem lögum samkvæmt varði allt að 16 ára fangelsi.

Almannahagsmunir krefjist þess að kærði verði í gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, og sé því til stuðnings vísað m.a. í dóma Hæstaréttar í málum nr. 521/2004, 563/2002 og 418/2005.

Rétt sé einnig að benda á að fordæmi sé fyrir því að maður sé úrskurðaður í gæsluvarðhald á ný eftir að afplánun lýkur, og þannig hafi staðið á sem greinir í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, og viðkomandi hafi setið í gæsluvarðhaldi vegna sama brots fyrir afplánun. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 69/2006 hafi Hæstiréttur fellt úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms á grundvelli c – liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála með vísan til 3. mgr. 10. gr. laga um fullnustu refsinga þar sem kærði hafi átt óafplánaðan fangelsisdóm. Að þeirri afplánun lokinni hafi kærði verið úrskurðaður áfram í gæsluvarðhald með vísan til c – liðar 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 144/2006. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.

Samkvæmt ákæru dagsettri 8. mars 2007, sem enn hefur ekki verið þingfest, er kærða gefið að sök brot samkvæmt 1. mgr. 226. gr., 2. mgr. 218. gr og 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, vegna stórfelldrar líkamsárásar, frelsissviptingar og kynferðisbrots. Kærði hefur nú afplánað þá refsingu sem hann hefur hlotið en brotaferill hans er rakin hér að framan. Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð ríkissaksóknara og rannsóknargögn bera með sér og þess að ætluð brot kærða geta varðað allt að 16 ára fangelsi teljist sök sönnuð, þykir nauðsyn bera til, með tilliti til almannahagsmuna, að kærði sæti gæsluvarðhaldi þar til máli hans er lokið. Samkvæmt því og með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, er fallist á kröfu ríkissaksóknara eins og hún er sett fram og skal kærði því sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 15. maí 2007, kl. 16.00.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði, X, [kt. og heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur fellur í máli hans en þó ekki lengur en til þriðjudagsins 15. maí 2007, kl. 16.00.