Hæstiréttur íslands

Mál nr. 402/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 17

 

Föstudaginn 17. júlí 2009.

Nr. 402/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Gæsluvarðhald. A.liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 21. júlí 2009 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.   

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 21. júlí nk. kl. 16:00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að að morgni 14. júlí 2009 hafi lögregla verið við almennt eftirlit á Suðurlandsvegi og hafi ekið að [...]. Er lögregla hafi ekið að húsinu hafi hún séð hvar maður stóð við bifreiðina [...] en hann hafi farið inn í húsið þegar hann hafi orðið lögreglu var. Er lögregla hafi farið að bifreiðinni hafi hún séð flatskjársjónvarp í kassa. Þegar lögregla hafi farið að húsinu hafi hún hitt fyrir kærða X, og meðkærða Y. Lögregla hafi þekkt kærða, X, sem manninn sem hafði staðið við bifreiðina er hún kom á vettvang.  Aðspurður um hvers vegna hann hefði farið er hann varð lögreglu var kvaðst hann hafa ætlað að gera meðkærða Y viðvart.

Í ljós hafi komið að flatskjársjónvarpið við bifreiðina hafi komið úr innbroti á verkstæði Ormsson í Síðumúla sem tilkynnt hafði verið um fyrr um morguninn. Jafnframt hafi komið í ljós að í kerru sem verið hafði við bifreiðina hafi verið talsvert af munum úr því innbroti og úr innbrotinu í vélasvið Heklu að Klettagörðum sem einnig hafi verið tilkynnt um fyrr um morguninn. Á vettvangi hafi fundist mikið magn af ætluðu þýfi úr fleiri innbrotum sem komið hafa til kasta lögreglu. Þá hafi fundist mikið magn ætlaðs þýfis á vettvangi sem eftir sé að bera kennsl á, en miðað við magn ætlaðs þýfis á vettvangi tengist það fjölda innbrota. Kærðu hafi verið handteknir á vettvangi og færðir á lögreglustöð.

Kærði, X, hafi neitað sök og kvaðst ekki hafa átt þá í þeim innbrotum sem hluti munanna, sem fundust, hafa verið tengd við. Kvaðst hann ekkert kannast við munina sem fundust á vettvangi.

Meðkærði, Y, hafi neitað sök í skýrslutöku hjá lögreglu og kvaðst ekki hafa framið þau innbrot sem hluti munanna, sem fundust á dvalarstað hans, hafa verið tengd við.

Kærði sé undir rökstuddum grun um ítrekuð þjófnaðarbrot en slíkt brot varði fangelsi allt að 6 árum. Rannsókn máls þessa sé á frumstigi og sé ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Það þurfi að yfirheyra báða kærðu aftur og sé brýnt að þeir geti ekki haft áhrif  hvor á annan með því að ræða saman. Einnig þurfi að framkvæma húsleit á dvalarstað kærða í [...] og hugsanlega á fleiri stöðum til þess að athuga hvort þar sé frekara þýfi að finna en ljóst sé að gangi kærði laus gæti hann komið þýfi undan. Þá þurfi að ganga úr skugga um hvort fleiri aðilar tengist málinu og þá hafa upp á þeim en mikilvægt sé að kærði geti ekki haft áhrif á hugsanlega samverkamenn. Málið sé því enn á svo viðkvæmu stigi að hætt sé við því að kærði muni torvelda rannsókn málsins gangi hann laus. Málið sé mjög umfangsmikið og mikilvægt að lögregla fái nokkurra daga svigrúm til þess að ná utan um það.

Kærði eigi sakaferil að baki og þar á meðal í auðgunarbrotum.

Með vísan til framanritaðs, hjálagðra gagna og a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga um sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Lögregla hefur til rannsóknar fjölda þjófnaðarmála og beinist rannsókn m.a. að kærða, en hann hefur neitað sök. Rannsókn málsins er á frumstigi. Sakarefnið er talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot gegn ákvæðinu getur varðað fangelsi allt að 6 árum. Fallast ber á með lögreglu að rökstuddur grunur beinist að kærða um þátt eða hlutdeild í auðgunarbrotum. Þar sem annar maður er einnig undir grun verður að tryggja að þeim verði gert ókleift að hafa samband sín á milli og samræma skýrslur sínar.  Verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga um sakamál nr. 88/2008 svo sem greinir í úrskurðarorði.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi til þriðjudagsins 21. júlí nk. kl. 16:00. Kærði skal látinn í einrúmi á meðan gæsluvarðhaldinu stendur.