Hæstiréttur íslands

Mál nr. 433/2001


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Þjófnaður
  • Ítrekun
  • Vanaafbrotamaður
  • Hegningarauki


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002.

Nr. 433/2001.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Sævari Arnfjörð Hreiðarssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Líkamsárás. Þjófnaður. Ítrekun. Vanaafbrotamaður. Hegningarauki.

S var ákærður fyrir líkamsárás og þjófnað. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu var staðfest. S átti langan og nær óslitinn sakaferil að baki og hafði ítrekað gerst sekur um auðgunarbrot. Var honum dæmdur hegningarauki, sbr. 78. gr. laga nr. 19/1940 og refsing hans ákvörðuð með hliðsjón af 71. gr., 72. gr. og 255. gr. sömu laga. S var dæmdur í fimm mánaða fangelsisvist.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. nóvember 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að honum verði ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.

Í málinu er ákærði sóttur til saka fyrir líkamsárás 20. janúar 1999 með því að hafa ráðist á húsráðanda að Aðalstræti 25, Ísafirði, og slegið hann hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að brot kom í hliðarvegg hægri augntóftar og vökvaborð myndaðist í hægri kjálkaholu. Er brot hans réttilega heimfært í héraðsdómi undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Þá er hann einnig sóttur til saka fyrir þjófnað sama dag með því að hafa stolið leðurjakka og tveimur  armbandsúrum og 15. maí 2001 þremur flíkum úr tiltekinni verslun. Ákærði á langan og nær óslitinn sakaferil að baki allt frá árinu 1974 og hefur ítrekað gerst sekur um auðgunarbrot, sbr. 71. gr., 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Sævar Arnfjörð Hreiðarsson, sæti fangelsi í fimm mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 21. september 2001.

Mál þetta, sem var dómtekið 7. september sl. að undangengnum munnlegum málflutningi, hefur sýslumaðurinn á Ísafirði höfðað hér fyrir dómi á hendur Sævari Arnfjörð Hreiðarssyni, kt. 230954-5939, Víkurbraut 6, Grindavík, með tveimur ákærum, hinni fyrri 15. mars 2001,

„fyrir líkamsárás og þjófnað, með því að hafa aðfaranótt 20. janúar 1999 þar sem hann var gestkomandi að Aðalstræti 25, Ísafirði, ráðist á húsráðanda Magna Viðar Torfason, kt. 050452-2639 og slegið hann hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að brot kom í hliðarvegg hægri augntóftar og vökvaborð myndaðist í hægri kjálkaholu og fyrir að hafa við sama tilefni stolið kven­manns­leðurjakka og tveimur gylltum kvenmannsarmbandsúrum í eigu Hallfríðar Frið­riks­­dóttur, kt. 210963-4649, sambýliskonu Magna Viðars, og kr. 2.500 í pen­ingum í eigu Magna Viðars.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Með síðari ákærunni var höfðað mál á hendur ákærða 15. maí 2001

„fyrir þjófnað, með því að hafa fimmtudaginn 15. mars 2001 stolið tveimur flíspeysum og úlpu úr versluninni Rúmfatalagerinn, Smáratorgi 1, Kópavogi, samtals að verðmæti kr. 5.970.

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Meðferð málanna fyrir dómi var sameinuð í þinghaldi 6. júní sl.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa.

Samkvæmt dagbók lögreglunnar á Ísafirði, miðviku­daginn 20. janúar 1999, var tilkynnt kl. 05:29 um ónæði að Aðalstræti 25, þar sem væri háreysti á neðri hæð hússins og hugsanlega slagsmál.  Lögreglumaður fór á staðinn og kom til baka og tilkynnti að hann hefði vísað ákærða út úr íbúðinni, þar sem þeir Magni Viðar Torfason myndu hafa verið að slást og báðir verið undir áhrifum áfengis.

Þann 20. janúar 1999 kl. 09.00 var lögreglan á Ísafirði kvödd að Hótel Ísafirði til að fjarlægja ölvaðan mann sem væri þar með háreysti og grunaður um þjófnað af svonefndum minibar.  Hittu lögreglumenn ákærða fyrir og færðu hann á lögreglustöð.  Fundust á honum áfengisflöskur sem hann var grunaður um að hafa stolið.  Um kl. 13:10 sama dag kom Magni Viðar Torfason á lögreglustöðina og kærði ákærða fyrir líkamsárás og þjófnað.  Lýsti hann atvikum svo að hann hefði skotið skjólshúsi yfir ákærða.  Hefðu þeir drukkið saman kvöldið áður og fram á nótt.  Að áliðinni nóttu hefði ákærði skyndilega staðið upp úr stól og gengið að kæranda þar sem hann sat í sófa og slegið hann í andlitið, fyrst einu þungu höggi hægra megin eða á hægra auga með krepptum hnefa og síðan mörgum öðrum höggum í andlitið.  Hann hefði ekki getað varist þessari skyndi­legu árás vegna ölvunar og ákærði meinað honum að komast í síma, en  haldið barsmíðum áfram.  Íbúar á efri hæð hefðu vaknað við hávaðann og hringt til lögreglunnar, sem hefði komið fljótt og skakkað leikinn.  Eftir að ákærði hefði verið farinn hefði hann uppgötvað að tveir eitt þúsund króna seðlar og einn fimm hundruð króna væru horfnir.  Þessir peningar hefðu verið faldir undir dúk á hillu í svefnherbergi. 

Kærandi leitaði á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði.  Liggur fyrir í málinu vottorð Þorsteins Jóhannes­sonar yfirlæknis, ritað 9. október 2000 upp úr nótum slysadeildar.  Segir þar að kærandi hafi komið á deildina 20. janúar 1999 um kl. 15:30 og sagt að nóttina áður hefði gestkomandi maður heima hjá honum slegið og sparkað í andlit hans.  Skoðun við komu hefði sýnt glóðarauga hægra megin.  Það hefði verið þroti og eymsli niður á hægri vanga, sjón og hreyfingar augna hefðu verið eðlilegar og hreyfing kjálka eðlileg.  Röntgenmynd hefði sýnt brot í hliðarvegg hægri augntóftar og vökvaborð í hægri kjálkaholu.  Til að hindra sýkingar hefði kæranda verið gefið sýklalyf og ráðlagt að koma á göngudeild tveimur dögum síðar en hann hefði ekki gert það og ekki leitað á slysadeild síðan vegna þessa máls.

Í upplýsingaskýrslu lögreglunnar á Ísafirði 5. mars 2099 [svo!] segir að þegar ákærði hafi vikið af lögreglustöð eftir yfirheyrslu 20. janúar 1999 kl. 16:50 hafi fundist í fórum hans kvenmannsleðurjakki og tvö kvenarmbandsúr.  Hafi hann ekki getað gert sannfærandi grein fyrir þessum hlutum að mati lögreglu.  Hafi þeir verið sýndir sambýliskonu kæranda, Hallfríði Friðriksdóttur, sama dag og hún kannast við hlutina sem sína eign og talið ljóst að ákærði hefði tekið þá ófrjálsri hendi af heimili hennar og kæranda aðfaranótt 20. janúar 1999.

Við skýrslutöku hjá lögreglu 20. janúar 1999 greindi ákærði frá því að kærandi hefði stolið peningum af sér, um 5.000 kr. og einnig ráðist á sig með barsmíðum svo að ákærði hefði orðið að taka á móti.  Hefði hann þá slegið kæranda þrjú högg í andlitið eftir að kærandi hefði slegið ákærða tvö högg í andlit.  Ákærði neitaði að hafa stolið leðurjakka og arm­bands­úrum úr íbúðinni, en kvað þessa muni í eigu dóttur sinnar.

Þann 15. mars 2001 var lögreglan í Kópavogi kvödd að Rúmfatalagernum við Smáratorg.  Á vettvangi hittu lögreglumenn fyrir Kjartan Á. Pálsson, verslunarstjóra, sem kvaðst hafa veitt því athygli er ákærði var að setja vörur í tösku.  Hafði Kjartan stöðvað för ákærða er hann var kominn með vörurnar út úr versluninnni.  Taskan var eign Rúmfatalagersins.  Í henni fundust tvær flíspeysur og svört úlpa, hver flík um sig að verðmæti 1.999 kr.  Taskan var að verðmæti 200 kr.  Verslunin tók vörurnar til baka en ákærða var leyft að hirða töskuna.

Ákærði sótti ekki þing er málið var þingfest.  Hann var síðan handtekinn samkvæmt fyrirmælum dómara og færður fyrir dóm.  Neitaði hann þá öllum sakargiftum og var málinu frestað til aðalmeðferðar.  Við aðalmeðferðina sótti ákærði ekki þing og tilkynnti ekki um for­föll.  Var litið svo á að hann kysi að tjá sig ekki frekar um sakarefnið og hefði ákveðið að neyta ekki réttar síns til að vera viðstaddur aðalmeðferðina.

Vitnið Magni Viðar Torfason lýsti atvikum svo hér fyrir dómi að hann hefði ætlað að leyfa ákærða, sem hefði verið húsnæðislaus, að gista nokkrar nætur.  Þeir hefðu neytt áfengis og einhverra pillna.  Vitnið hefði sofnað í sófa, en  vaknað við að ákærði sparkaði í höfuð þess.  Hefði vitnið vankast við þetta.  Það hefði reynt að rísa á fætur, en ákærði varnað því þess.  Nágranni hefði hringt til lögreglu.  Lögreglukona hefði komið og ákærði yfirgefið íbúðina í fylgd hennar.  Vitnið hefði verið bólgið í andliti og með sprungna höfuðkúpu eftir árásina.  Áverkarnir hefðu háð því í hálfan mánuð eða þrjár vikur.  Vitnið hefði saknað tvö til þrjú þúsund króna í peningum, sem hefðu verið geymdir á hillu fyrir ofan rúm þess.

Vitnið Hallfríður Ingibjörg Friðriksdóttir var statt inni í Ísafjarðardjúpi aðfaranótt 20. janúar 1999.  Segir vitnið að ákærði hafi hringt og sagt að kærandi hefði dottið og slasað sig.  Hafi ákærði sagst mundu aka kæranda á sjúkrahús.  Vitnið staðfesti að hafa átt leðurjakka og úr sem það fékk afhent á lögreglustöð.

Vitnið Kjartan Ágúst Pálsson bar að hafa séð ákærða taka vörur í Rúmfatalagernum og stöðvað för hans er hann hefði verið kominn út úr versluninni.  Vitnið minnti að meðal hins stolna hefðu verið sokkar og fleira, en sagði aðspurt að algengt væri að vörum væri hnuplað og að vel gæti verið að sig misminnti um það hvað tekið var í einstöku tilviki.

Ákærði og kærandi eru tveir einir til frásagnar um atvik að því að kærandi fékk þann áverka sem lýst er í vottorði Þorsteins Jóhannessonar yfirlæknis. Skýrslur kæranda fyrir lögreglu og fyrir dóminum eru mjög mismunandi um það hvernig ákærði hafi veitt því áverkann.  Sagði kærandi fyrir lögreglu að ákærði hefði greitt sér hnefahögg, en hér fyrir dómi bar hann að ákærði hefði sparkað í sig sofandi.  Kærandi tók það fram að hann hefði ekki verið vel á sig kominn til skýrslugjafar daginn eftir að hann fékk áverkann. 

Dómurinn telur nægilega sannað með framburði kæranda og með hliðsjón af framburði ákærða fyrir lögreglu að ákærði hafi veitt kæranda þennan áverka, þótt ekki verði gengið alveg úr skugga um nánari atvik að því.  Með tilliti til afleiðinga árásarinnar varðar hún ákærða refsingu samkvæmt 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. 

Kærandi hefur bæði fyrir lögreglu og dómi lýst því skilmerkilega hvar peningar hafi verið, sem hann segir ákærða hafa tekið.  Gegn neitun ákærða verður hins vegar ekki talið sannað að hann hafi tekið þessa peninga, þar sem ekkert liggur fyrir sem styður framburð kæranda.  Verður ákærði látinn njóta vafans um þetta ákæruatriði og sýknaður af því að hafa tekið peningana.  Ekki verður vefengt með skynsamlegum rökum að ákærði hafi stolið leður­­jakka og úrum sem fundust í fórum hans og vitnið Hallfríður Ingibjörg Friðriks­dóttir þekkti sem sína eign.  Varðar það honum refsingu sam­kvæmt 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði viðurkenndi þjófnað úr Rúmfatalagernum fyrir lögreglu.  Skýrði hann lögreglu svo frá að hann gæti ekki útskýrt það hvers vegna hann hefði stolið töskunni og fatnaðinum.  Hefði hann farið inn í Rúmfatalagerinn í þeim tilgangi að skoða vörur þar og síðan freistast til þess að stela.  Hefði þjófnaðurinn ekki verið fyrirfram ákveðinn.  Dómurinn telur að með framburði Kjartans Ágústs Pálssonar og með hliðsjón af játningu ákærða fyrir lögreglu séu nægilegar sönnur færðar á að ákærði hafi framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru 15. maí 2001 og varðar honum refsingu samkvæmt 1. mgr. 244. gr. almennra hegn­ingar­laga.

Ákærði á langan brotaferil að baki, allt frá árinu 1973 og hefur hlotið 37 refsidóma.  Þann 15. janúar 1999, þ.e. fimm dögum áður en hann veitti Magna Viðari Torfasyni áverkann, var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi og 200.000 kr. sekt fyrir umferðalagabrot, skjalafals og þjófnað.  Það mál var dæmt í Hæstarétti 3. júní 1999 og vísað frá héraðsdómi að hluta en ákærði dæmdur í sömu refsingu.  Síðan dómurinn var kveðinn upp 15. janúar 1999 hefur ákærði hlotið 5 dóma í héraði, síðast 25. maí 2001 og samtals verið dæmdur í 9 mánaða refsingu fyrir ýmis auðgunar- og umferða­rlagabrot.  Í dómnum frá 25. maí sl. var hann auk annars sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningar­laga. 

Refsingu ákærða ber að tiltaka sem hegningarauka samkvæmt reglum 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga.  Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að óhæfilegur dráttur varð á rannsókn máls sem ákæran frá 15. mars sl. varðar.  Til þyngingar horfir hins vegar að ákærði er vanaafbrotamaður, sbr. 72. gr. almennra hegningarlaga.  Eftir þessu ákveðst refsing ákærða fangelsi í tvo mánuði.  Dæma ber hann til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talinna málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar, hrl., 100.000 kr.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Dómsorð:

Ákærði, Sævar Arnfjörð Hreiðarsson, sæti hegningarauka, fangelsi í tvo mánuði. 

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar, hrl., 100.000 kr.