Hæstiréttur íslands

Mál nr. 599/2011


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 10. maí 2012.

Nr. 599/2011.

K og

M

(Hjördís E. Harðardóttir hrl.

Valgerður Valdimarsdóttir hdl.)

gegn

A

(Berglind Svavarsdóttir hrl.

Sigríður Kristinsdóttir hdl.)

Börn. Forsjársvipting. Gjafsókn.

A krafðist þess að M og K yrðu svipt forsjá tveggja barna sinna. Samkvæmt niðurstöðu þriggja álitsgerða sem fyrir lágu í málinu voru M og K talin vanhæf til að sinna uppeldishlutverki sínu sökum andlegra annmarka. Þá var talið að beiting vægari úrræða en forsjársviptingar hefði ekki reynst duga til að tryggja velferð barnanna. Með vísan til niðurstöðu álitsgerðanna þriggja og skýrslu dómkvadds matsmanns fyrir héraðsdómi var talið að fullnægt væri skilyrðum a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til að svipta M og K forsjá barna sinna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 9. nóvember 2011. Þau krefjast þess að hafnað verði kröfu stefnda um að þau skuli svipt forsjá dætra sinna B og C. Þá krefjast þau málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Með hinum áfrýjaða dómi voru áfrýjendur svipt forsjá tveggja dætra sinna sem fæddar eru á árunum [...] og [...]. Samkvæmt 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skal við meðferð barnaverndarmála beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu. Skulu hagsmunir barns ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi liggja fyrir í máli þessu þrjú möt á forsjárhæfni áfrýjenda. Hið fyrsta er skýrsla sálfræðings í desember 2004, sem samin var að tilhlutan félagsmálayfirvalda á þáverandi dvalarstað þeirra í tilefni af því að þau áttu þá von á sínu fyrsta barni, en það hefur frá upphafi verið vistað hjá móðurafa sínum. Í annað skipti var forsjárhæfni áfrýjenda metin af sálfræðingi í skýrslu í júní 2010. Sú skýrsla var samin að beiðni stefnda vegna efasemda um að sú tilhögun að dætur áfrýjenda byggju á heimili þeirra, en sættu tilsjón af hálfu stefnda, væri nægjanleg til að tryggja öryggi og velferð barnanna. Loks var við meðferð máls þessa í héraði dómkvaddur sálfræðingur að beiðni áfrýjenda til að meta forsjárhæfni þeirra og hæfni  til að sinna börnunum með tilliti til þeirrar aðstoðar sem unnt væri að veita þeim af hálfu félagsmálayfirvalda á þáverandi dvalarstað þeirra. Þeirri matsgerð var skilað í maí 2011. Í öllum þessum álitsgerðum var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjendur væru sökum andlegra annmarka vanhæf til að sinna uppeldishlutverki sínu.

Andlegir annmarkar áfrýjenda eru ekki einir og sér næg ástæða til að svipta þau forsjá barna sinna, enda skal samkvæmt 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga leitast við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og eftir 2. mgr. 12. gr. er barnaverndarnefndum skylt að aðstoða foreldra við að gegna forsjárskyldum sínum. Það var og efnisleg niðurstaða fyrri álitsgerðanna tveggja að það sem úrslitum réði um hvort áfrýjendur gætu búið barni viðunandi aðstæður væri hversu miklum stuðningi yrði við komið og hvernig þeim tækist að nýta sér hann.

Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi. Af þeim er ljóst að allt frá fæðingu eldri dótturinnar hefur af hálfu stefnda öllum tiltækum ráðum verið beitt til að veita áfrýjendum þá aðstoð sem var á valdi stefnda að veita. Þessi aðstoð hefur hins vegar ekki dugað til, að hluta vegna þess að áfrýjendur hafa ekki verið fús til að eiga fulla samvinnu við barnaverndar- og félagsmálayfirvöld. Var það niðurstaða hins dómkvadda matsmanns að áfrýjendur „hafi mjög skerta hæfni sem foreldrar til að skapa börnum sínum eðlileg og þroskavænleg uppeldisskilyrði, þótt þau nytu verulegrar aðstoðar og stuðnings yfirvalda.“ Væru ástæður þess helstar “verulegir persónulegir annmarkar, greindarskortur, geðræn einkenni, persónuleikaraskanir og aðlögunarerfiðleikar, annars eða beggja foreldranna.“ Í skýrslu við aðalmeðferð fyrir héraðsdómi svaraði matsmaðurinn spurningu meðdómara um hvernig vanhæfni áfrýjenda myndi koma niður á börnunum á þá leið að innsæis- og skilningsleysi þeirra á þörfum barnanna, forystuleysi þeirra og úrræðaleysi væri slíkt að „verulega mikil hætta“ væri á „vanörvun“ barnanna. Þá svaraði matsmaður spurningu meðdómara um hvort hann teldi það nægilegt sem yfirvöld hefðu reynt að gera til aðstoðar áfrýjendum svo að hann teldi miðað við þær forsendur sem hann sæi fyrir sér í málinu það „nánast alveg fullreynt.“  Er fallist á að beiting vægari úrræða en forsjársviptingar hafi ekki reynst duga til að tryggja velferð barnanna, sbr. 7. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Telst stefndi því hafa  gætt meðalhófs í aðgerðum sínum.

Samkvæmt öllu framansögðu, einkum niðurstöðu framangreindra þriggja álitsgerða um forsjárhæfni áfrýjenda og skýrslu hins dómkvadda matsmanns fyrir héraðsdómi, verður talið að fullnægt sé skilyrðum a. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga til að svipta áfrýjendur forsjá dætra sinna. Því verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður áfrýjenda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, K og M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 500.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. október 2011.

Mál þetta, sem var tekið til dóms 21. september sl., var höfðað með stefnu þingfestri þann 8. desember 2010.

A, kt. [...], [...], [...], vegna barnaverndarnefndar A.

Stefndu eru K, kt. [...], og M, kt.[...], bæði til heimilis að [...].

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

Að stefndu, K og M, verði svipt forsjá dætra sinna, B, kt.[...], og C, kt. [...], sem nú séu vistaðar á heimili á vegum A. Ekki er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu.

Stefndu krefjast þess aðallega að dómkröfum stefnanda verði hafnað.

Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Fór aðalmeðferð fram þann 21. september sl. og var málið dómtekið að málflutningi loknum.

Atvikalýsing og aðdragandi máls.

Fyrir liggur í gögnum málsins að stefndu eignuðust dreng þann [...]. Með samkomulagi aðila var gerður samningur um langtímavistun hjá móðurafa drengsins og konu hans í kjölfar fæðingar drengsins. Er stefnda K gekk með drenginn fór D, þar sem stefndu bjuggu, fram á að gert yrði foreldrahæfnismat á stefndu og skilaði E ítarlegri skýrslu þess efnis þann 6. desember 2004. Í júní 2008 fluttu stefndu frá [...] til [...] en K var þá barnshafandi af eldri stúlkunni og átti von á sér í lok [...]. Fór stefnda K í mæðraskoðun á [...].

Með bréfi, dagsettu 10. júlí 2008, frá sjúkrahúsinu á [...] til F, kemur fram að stefndu hafi leitað, við mæðraskoðun, eftir stuðningi og ráðgjöf. Kemur fram að þau eigi langa og erfiða sögu að baki en bæði séu þau með þroskafrávik og séu öryrkjar. Þau hafi lítið stuðningsnet í kringum sig. Kemur fram í bréfinu að þau séu að undirbúa komu barnsins og séu öll af vilja gerð og séu leitandi eftir stuðningi. Þá er haft eftir stefndu að þau vilji vera í góðum tengslum og samvinnu við þá aðila sem komi að málum þeirra og þiggja þann stuðning sem nauðsynlegur sé til að veita barninu góða umönnun.

Með bréfi F, dagsettu 23. júlí 2008, til D, benti forstöðumaður deildarinnar D á að starfsmönnum hafi borist tvö símtöl frá ættingjum í [...] þar sem þeir lýstu yfir áhyggjum sínum af væntanlegri barnsfæðingu og möguleikum stefndu að annast barnið. Þá væri kominn fram vafi á því hvar þau ætluðu að setjast að.

Þann 29. júlí 2008 sendi G bréf til H vegna stefndu. Kemur fram í bréfinu að stefndu hafi búið í [...] fram í maí 2008 og K sótt mæðravernd á fyrstu dögum meðgöngunnar. Nokkrir fundir hafi verið haldnir um málefni fjölskyldunnar að frumkvæði mæðraverndar. Hafi það verið mat teymis sem vann að málinu að fjölskyldan myndi þarfnast daglegrar tilsjónar auk þess að ákveðið hafi verið að auka ungbarnaeftirlit í tvisvar í viku þegar móðir og barn útskrifuðust af fæðingardeildinni. Þá er haft eftir föður K og konu hans í bréfinu, að þau telji K verr í stakk búna til að annast nýbura nú en fyrir þremur árum. Þau séu bæði í óreglu og eigi í erfiðleikum með að sjá um fjármál sín. Fósturmóðir K hafi heimsótt hana á heimili hennar á[...] sem hafi verið sóðalegt og illa til haft. Þeim hafi verið bent á að losa sig við kettina þegar þau voru í [...], þeim runnið í skap og því flutt til [...].

Þann 18. ágúst 2008 gerði H áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga með samþykki stefndu. Fólst meðal annars í samkomulaginu að stefndu áttu að taka við starfsmanni ungbarnaverndar inn á heimilið á þriðjudögum og fimmtudögum. Taka við tilsjón inn á heimilið alla daga vikunnar og fara í viðtöl til starfsmanna barnaverndarnefndar eftir nánara samkomulagi. Gilti áætlunin til 5. september 2008. Samkvæmt dagál tilsjónarkonu gengu samskiptin vel fyrstu tvo dagana. Á þriðja degi hallaði undan hjá stefndu með þrif á heimili þeirra og næstu daga einnig með stefndu sjálf. M var skítugur svo og heimilið og roði á barninu á bleiusvæði. Eru þessar lýsingar áfram á stefndu og heimili þeirra næstu daga en þó dagamunur á þrifum en barnið yfirleitt vel haldið.

Í bréfi F til stefnanda, dagsettu 9. október 2008, kemur fram að það sé mat félagsráðgjafa [...] að hinir verðandi foreldrar þyrftu, sökum þroskaskerðingar, fjárhags- og félagsstöðu, á mikilli þjálfun að halda við umönnun barnsins. Þá segir að þegar hafi átt að hefja könnun í málinu hafi stefndu verið farin aftur til [...] og hafi K eignast barnið [...]. Þau hafi komið aftur til [...] 18. ágúst s.á. og þá verið gerð áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga sem þau hafi samþykkt en í henni hafi falist m.a. aukin þjónusta frá ungbarnavernd og tilsjón á heimilið. Frá þeim tíma hafi þau verið mikið á flakki og ekki verið á [...] frá 5. september s.á. Í gögnum málsins er að finna upplýsingar þar sem fram kemur að stefndu hafi mislíkað eitthvað við [...] og því ákveðið að eiga barnið í [...]. Þau hafi verið með fimm ketti og hund á heimili sínu á [...] og verið bent á að losa sig við kettina af ættingjum í [...] Eftir fæðingu barnsins hafi þau farið aftur til [...] þar sem þeim mislíkaði afskipti af þeim í [...]. Þá kemur fram að heimili þeirra sé sóðalegt og illa til haft. Stefndu hafi verið óráðþæg og lagst gegn öllum afskiptum og aðstoð þegar þau bjuggu í [...].

Í dagálum frá 17. desember 2008 til 8. janúar 2009 kemur fram hjá tilsjónarmanni að heimilið sé yfirleitt sóðalegt en stefndu þiggja yfirleitt aðstoð inni á heimilinu og með barnið. Þá kemur fram að 4. janúar 2009 hafi enginn komið til dyra, allt verið slökkt og læst og er svo einnig næstu daga til 8. janúar s.á.

Frá 16. janúar til 27. janúar 2009 eru dagálar þar sem kemur fram ýmist að heimili stefndu sé sæmilega hreint eða mjög skítugt, m.a. gólf. Barnið sé alltaf í göngugrind þegar tilsjónarmaður kemur á heimilið og rætt sé um mataræði við stefndu þar sem yfirleitt séu merki um óhollustu á heimilinu, gos, skyndibita og sælgæti. Þann 23. janúar verður ágreiningur á milli tilsjónarmanns og K vegna óþrifnaðar á heimilinu. Í dagálum frá 9. til 13. febrúar 2009 ganga samskipti tilsjónarmanns við stefndu vel. Kemur fram í dagálum að stefndu séu mikið í tölvu á meðan tilsjónarmaður er hjá þeim og K mikið í tölvuleikjum. Í dagálum frá 16.-26. febrúar 2009 ganga samskipti ágætlega og líðan barnsins góð. Í dagálum frá 9. mars til  28. ágúst 2009 kemur fram að samskipti tilsjónarmanns og stefndu voru góð og þeim leiðbeint á hverjum degi með þrif, þvotta og umönnun B. Tekið er fram að stefndu séu almennt mikið í tölvu þegar tilsjónarmaður kemur og hugleiðingar um að B fái ekki næga örvun fyrir hreyfiþroska. Á þessu tímabili eða þann [...] fæddist stefndu annað barn, C. Í september 2009 var skipt um tilsjónarmann þar sem sú sem á undan hafði verið var flutt burt úr bæjarfélaginu.

Í dagálum frá 25. september 2009 kemur strax fram að stefndu voru ósátt við nýjan tilsjónarmann. Fór strax í lok september að bera á því að þau svöruðu ekki dyrabjöllu þegar þau voru sótt heim af tilsjónarmanni, voru ekki heima né svöruðu síma. Í dagálum fyrir október og nóvember það ár kemur fram að B hafi verið veik og með langvarandi ljótan hósta. Hún sé mjög oft sitjandi í matarstól þegar tilsjónarmaður kemur og gólf séu skítug. Þá séu stefndu mikið í tölvu á meðan tilsjónarmaður stoppar. Þá kom fyrir í nóvember og desember að þau komu ekki til dyra eða svöruðu síma, þegar tilsjónarmaður kom, eða voru sofandi. Þá vildi stefnda K oft ekki tala við tilsjónarmanninn. Í desember 2009 kemur fram að B sé komin með púst vegna hóstans og var stefndu kennt að gefa B það. Í janúar og febrúar 2010 virðist vera mikið um veikindi og litast regluleg tilsjón af þeim. Þá virðist þrifnaður hafa farið í verra horf á þessum tíma. Í mars kemur fram í dagálum að íbúð stefndu sé mjög skítug og sérstaklega gólfin þar sem börnin leika sér. Þá séu rafmagnsleiðslur á gólfunum sem stelpunum geti stafað hætta af. Stefndu séu mikið í tölvum. Stefndu taki illa leiðsögn um það sem slysahætta stafar af á heimilinu. Þann 23. mars 2010 kemur t.d. fram að stefndu séu búin að fá aðra íbúð, sem þau fái afhenta um næstu mánaðamót, en illa gangi að pakka þar sem þau séu mikið í tölvunni. Þrátt fyrir þetta er tekið fram að stelpurnar séu hreinar og kátar. Þann 12. apríl 2010 kemur fram að stefndu höfðu ekki sótt lyf, sem voru ávísuð á B nokkrum dögum áður, en hún var að bíða eftir að fara í aðgerð á háls-, nef- og eyrnadeild. Upp úr 19. apríl 2010 fór að bera á samskiptaerfiðleikum milli tilsjónarmanns og K. Kemur fram að K eigi við miklar skapsveiflur að stríða og neitaði hún í tvær vikur að tala við tilsjónarmann.  Um miðjan maí lá fyrir að stefndu myndu flytja til [...] um mánaðamótin maí/júní. Kemur fram í dagálum á þeim tíma að íbúð þeirra sé skítug, stefndu mikið í tölvum og vanhöld á að B fari í leikskólann en veikindi voru borin við því. 

Fram kemur í trúnaðarbók stefnanda frá nóvember 2008 að stefndu séu flutt til [...] og séu að fá leigða íbúð hjá sveitarfélaginu. Um sé að ræða seinfæra foreldra. Bókað er að félagsmálastjóra sé falið að útbúa nákvæma áætlun um meðferð máls og ráða starfsmenn til að sinna eftirliti og ráðgjöf. Í bókun þann 13. janúar 2009 kemur fram að stefndu hafi verið ósátt við tilsjónarmann sinn að undanförnu. Þau hafi ekki hleypt henni inn til sín undanfarna daga og hafi sá tilsjónarmaður gefist upp. Kemur fram í þeirri bókun að K vilji hafa um það að segja hver verði tilsjónarmaður og vill að eftirlitið verði minna með heimilinu. Var bókað að félagsmálaráð teldi ekki ástæðu til að minnka eftirlit með heimilinu og var nýr tilsjónarmaður ráðinn í mars 2009. Í júlí 2009 barst stefnanda tilkynning um óreglu á heimili stefndu og óreiðu. Þann 2. september 2009 er bókað að B hafi ekki enn komið í leikskólann en hún hafi verið skráð í hann frá 11. ágúst og hafi stefndu borið við veikindum, að hún sé farin að bíta eða hún eigi ekki skó, allt eftir því við hvort þeirra var talað. Þann 6. október 2009 er bókað að B sé ekki enn byrjuð í leikskólanum. Í bókun 4. nóvember 2009 kemur fram að stefndu eigi tíma hjá tannlækni með B vegna tannskemmda en fjórar framtennur hennar séu skemmdar. Var B einnig greind með langvarandi lungnabólgu í nóvember 2009. Var bókað á fundinum að auka þyrfti stuðning við stefndu inn á heimilið. Þann 2. desember 2009 er bókað að B hafi mætt á leikskólann og sé að ljúka aðlögun en vanti hlý föt svo hún geti farið út. Þann 12. janúar 2010 er bókað að B hafi ekki komið á leikskólann í desember en hún hafi verið frekar veik og með erfiðan hósta. Þá hafi komið í ljós í desember að stefndu höfðu ekki leyst út lyf sem ávísað hafði verið á B í byrjun desember. Þá var bókað að gera þyrfti ráðstafanir til að koma B á leikskólann, sæju foreldrarnir ekki um að koma með hana þangað sjálfir. Þann 2. febrúar 2010 er bókað að B hafi mætt reglulega í leikskólann og sé mikil framför hjá henni í þroska. Stefndu séu komnir með stuðningsfjölskyldu. Þá segir að stúlkurnar séu báðar með leiðinlegan hósta en foreldrar hafi ekki notað púst eins og mælt hafi verið fyrir um frá læknum. Þann 2. mars 2010 er bókað að B hafi verið með mikinn hita og eyrnabólgu. Læknir hafi tilkynnt um að foreldrar hafi ætt af stað á bíl sínum til [...] með B fárveika í brjáluðu veðri um kl. 18.00 á fimmtudegi án þess að hringa á undan í lækni. Læknir hefði sinnt útkalli og komið á [...] ef foreldrar hefðu hringt á undan. Gerði læknirinn alvarlegar athugasemdir við getu foreldranna til að veita börnum sínum nauðsynlega umönnun og eftirlit. Þá er bókað að stefndu hafi óskað eftir því að fá fleiri sólarhringa í mánuði en þau höfðu, eða fjóra sólahringa í staðinn fyrir tvo, hjá stuðningsfjölskyldu og hafi það verið samþykkt. Þá er bókað að stefnanda hafi borist barnaverndartilkynning frá hjúkrunarfræðingi og lækni þann 12. mars 2010, þar sem lýst var áhyggjum um getu foreldra til að sjá um börnin. Þann 4. maí 2010 er bókað að B hafi farið í aðgerð á [...] 14. apríl s.á. og fengið rör í eyru og nefkirtlar teknir. Hún hafi átt að vera á lyfjum fram að aðgerð en einungis fengið einn skammt af fúkkalyfjum en ekki tvo eins og læknir hafði mælt fyrir um. Þá er bókað að tilkynnt hafi verið um drykkju á heimili stefndu helgina 17.-18. apríl 2010 þegar stelpurnar voru heima. Hafi börnin verið tekin af heimilinu í kjölfar þess og komið til frænku K og síðan til stuðningsfjölskyldu. Hafi K þann 18. apríl verið tekin fyrir ölvunarakstur. Eftir þetta atvik hafi samskipti verið erfið við stefndu og samstarf mjög erfitt. Segir í bókuninni að starfsmenn hafi haft ýmsar athugasemdir varðandi umönnun og aðbúnað stelpnanna, sem ekki hafi verið bætt úr. Þyki K afskipti starfsmanna vera orðin heldur mikil og sætti sig ekki við þá ráðgjöf sem fjölskyldunni standi til boða né sé hún tilbúin til að fá frekari aðstoð, svo sem sálfræðinga- eða geðlæknaviðtöl, fjármálaráðgjöf eða heimaþjónustu. Þá kemur fram hjá leikskóla B að hún hafi ekki verið eins glöð og fyrir páska og haft er eftir hjúkrunarfræðingi sem skoðaði telpurnar að C hafi ekki verið eins kát og í fyrri skoðun, hún hafi verið skítug og langt síðan skipt hafi verið á henni. Hafi verið gerð tillaga um að börnin færu í skammtímafóstur í nokkrar vikur á meðan foreldrar reyndu að lagfæra það sem laga þyrfti og ná andlegu jafnvægi en móðirin hafi verið alfarið á móti því. Þá kemur fram í trúnaðarbók að stefndu hafi ekki átt peninga fyrir mat þann 21. apríl 2010 það sem eftir lifði mánaðar. Var stefndu veitt lán til matarkaupa en þau ekki endurgreitt það. Stefndu hafi hafnað fjármálaráðgjöf sem þeim var boðin.

Þann 7. júní 2010 er bókað í trúnaðarbók að stefndu hafi ekki farið eftir áætlun um meðferð máls sem þau hafi undirritað á fundi með félagsmálaráði 4. maí 2010. Samvinna foreldra og barnaverndar hafi enn versnað. Vísbendingar séu um að stefndu hafi stundað drykkju á meðan börnin voru heima. Þá er bókað að B hafi ekki mætt í leikskólann daglega kl. 8.00 og brestir virðast vera komnir í samband foreldra. Fjárhagur þeirra fari versnandi og þau hafi ekki greitt leigu eða rafmagn í marga mánuði. Þá er bókað að K sé ákveðin í að flytja til [...]. Staðið hafi til að flutningur ætti sér stað um síðustu mánaðamót þó að allt væri í mikilli óvissu, s.s. með leiguíbúð, leikskólapláss og barnavernd. Hafi K alfarið hafnað að fresta flutningi og fá aðstoð við að finna hagstæða íbúð, leikskólapláss og undirbúa tilsjón varðandi barnavernd. Þá segir að komið hafi upp njálgur hjá B en móðir verið ósátt við fyrirmæli frá heilbrigðisstarfsmönnum um að öll fjölskyldan þyrfti að taka inn lyf við njálgnum o.fl. Var bókað á fundinum að stúlkurnar yrðu settar í fóstur í tvo mánuði skv. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í trúnaðarbókinni er einnig að finna tilkynningar vegna barnanna til barnaverndarnefndar, ummæli K á fésbók um starfsfólk barnaverndarnefndar, m.a. um að það ætti að stilla því upp við vegg „[...]“. Þá er samskiptaerfiðleikum við K lýst og fram koma áhyggjur M um neikvæðni K í sms-sendingum til stefnanda. Þann 27. apríl 2010 var gerð ný áætlun um meðferð máls fyrir stúlkurnar þar sem fyrri áætlun féll úr gildi þar sem stefndu voru drukkin með börnin á heimilinu þann 17. apríl s.á. Í nýrri áætlun var gert ráð fyrir að stefndu drykkju ekki áfengi með börnin á heimilinu, að þau færu eftir fyrirmælum lækna varðandi lyfjagjöf og farið yrði með B í leikskólann á réttum tíma. Þá voru frekari skilyrði tekin fram, svo sem samstarfsvilji stefndu, þrif á heimili og með börnin, matargjafir, fjárhagur stefndu, ölvunarakstur og fundarsókn stefndu hjá stefnanda. Í lok apríl 2010 eru bókanir um samstarfsvandamál milli K og stefnanda en K vildi ekki fá tilsjónarmann inn á heimilið. Þá voru ítrekaðar bókanir um þrif á heimili og börnum, lyfjagjöf hjá börnunum og leiðbeiningar um sálfræðiaðstoð fyrir K. Hafnar K nánast allri aðstoð sem henni er boðin og vill velja sjálf tilsjónarmann sem henni líki við. Rætt er um að setja börnin í tímabundið fóstur og samþykkir M þá ráðstöfun en K mótmælir því og kveðst ekki vera til samstarfs um þá ráðstöfun. Þá eru nokkrar athugasemdir um skapsveiflur K. Þá eru bókaðir nokkrir tölvupóstar frá M til stefnanda þar sem hann lýsir yfir áhyggjum sínum af K og að hann sé að gefast upp. Biður hann um að börnin verði skammtímavistuð þar sem ástandið á heimili þeirra sé slæmt og K ætli sér að drekka. Þann 11. maí 2010 er haft eftir M að K ætli sér suður en vilji ekki gefa upp hvar hún ætli að dvelja. Þá vilji hún ekki tilsjón inn á heimilið. Þá er enn fremur haft eftir M að K sé mikið í tölvunni og hann hafi þurft að sjá um börnin einn helgina sem þau voru fyrir sunnan. Þá kemur fram að K hafi tekið ákvörðun um að flytja suður án þess að hafa tryggt húsnæði eða aðstoð.

Aðfaranótt 22. maí 2010 sendi M sms-skilaboð á vaktsíma stefnanda þar sem hann sagði að þau væru að drekka og bað um að komið yrði þá um nóttina og börnin sótt. Sms-skilaboð þessi skiluðu sér ekki fyrr en daginn eftir. Aðfaranótt 23. maí 2010 sendi M nokkur sms-skilaboð á vaktsíma stefnanda og bað um að börnin yrðu sótt um nóttina þar sem stefndu væru að drekka og hann hugsi ekki um börnin þannig á sig kominn. Var farið inn á heimilið daginn eftir en ekki talin þörf á að taka börnin af heimilinu við svo búið. Í tölvupósti frá M til stefnanda segir að K sé hætt að skipta á börnunum. Í bókun 25. maí 2010 er haft eftir K að M hafi drukkið áfengi þrjú kvöld í röð yfir helgina. Þá er bókað að stefndu hafi ekki haft peninga fyrir mat út mánuðinn, en þrátt fyrir það kaupi þau sígarettur og bensín á bílinn. Þann 26. maí 2010 eru afskipti af fjölskyldunni m.a. vegna tilkynningar K um að B sé viðbeinsbrotin en deginum áður hafði hjúkrunarfræðingur farið á heimilið að ósk stefndu en M ekki viljað hleypa henni inn. Þá hafi íbúðin verið ógeðsleg og stelpurnar kámugar. Helgina 29.-30. maí 2010 fær stefnandi tilkynningu um miðja nótt um drykkju á heimili stefndu. Farið var á staðinn en ekki talin ástæða til neyðarúrræða þar sem allt virtist með kyrrum kjörum. Aðfaranótt 31. maí lét M stefnanda vita að þau væru bæði að drekka um nóttina en stelpurnar svæfu. Dagana 2.-3. júní 2010 eru bókuð mikil samskipti starfsmanna stefnanda og stefndu. Eru stefndu óráðþæg, B greinist með njálg og er K ekki samstarfsfús og heimili stefndu ekki sagt hæfa börnum. Þá er bókað að miklar áhyggjur séu af börnunum, að K aki ölvuð, vínlykt hafi verið af henni er hún kom í bankann um miðjan dag akandi auk þess sem verið var að koma stelpunum aftur og aftur fyrir í skammtímagæslu. Þá er bókað að K gefi C lyf við njálgi og þrífi ekki íbúðina auk þess sem virðist að M sé farinn af heimilinu án þess að láta vita hvar hann sé. Þá eru bókuð ítrekuð símtöl og sms-skilaboð frá M á hvaða tíma sólarhringsins sem er, dögum og vikum saman, bæði í vaktsíma stefnanda eða einkasíma.

Á fundi A var bókað að til að tryggja að B og C búi við viðunandi öryggi og uppeldisskilyrði úrskurði I að stúlkurnar verði settar í fóstur í tvo mánuði skv. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Jafnframt að starfsmaður barnaverndarnefndar hefji undirbúning að því að óska eftir áframhaldandi fóstri í fjóra mánuði til viðbótar fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra, ef foreldrar hafi ekki unnið að því að bæta úr stöðu sinni innan fjögurra vikna frá því að úrskurður var kynntur foreldrum. Þá kemur fram í bókun að stefndu hafi á fósturtímanum, umgengnisrétt einu sinni í viku en hafi ekki nýtt sér  hann sem skyldi.

Í gögnum málsins er ódagsett bréf, væntanlega til Barnastofu þar sem það er stílað á J, og undirritað, fjölskyldan. Þar er því lýst að stefndu hafi dvalið í [...] í mánuð  þegar yngri dóttirin var þriggja mánaða. Þau hafi baðað börnin þrisvar á þeim tíma, farið sjálf einu sinni í bað á þeim tíma, yngra barnið hafi verið með sveppasýkingu í tvær vikur áður en það hafi fengið eitthvað við því, börnin séu í sömu fötunum allan sólarhringinn, tvo til þrjá sólarhringa í senn, og aldrei skipt á rúmfötum þeirra, þær hafi ekki lök heldur sé teppi eða skítug sæng undir þeim. Þau séu mikið úti að keyra með stelpurnar í ótryggum bílstólum, tímum saman og fái stelpurnar þá ekki að borða né sé skipt á þeim. Þá fái eldri stelpan epladjús eða kók á pelann og sú yngri fái kalda pela. Þá séu grunsemdir um að brotnar framtennur í eldri stelpunni stafi af því að M hafi misst hana er hann hafi haldið á henni undir áhrifum áfengis. Þá sé yngri stelpan með sýkingu á bak við eyrun vegna óþrifnaðar og inni í eyrunum á þeim báðum sé mikil drulla, naflinn á yngri stelpunni sé skítugur og ekki hugsað um að þrífa þær þrátt fyrir ábendingar. Þá séu stílar mikið notaðir á eldri stelpuna að óþörfu þegar K sé pirruð út í stelpurnar og þær þá hristar vel. Þá er áhyggjum vegna drykkju stefndu lýst.

Í bréfi, dagsettu 30. nóvember 2009, frá L til stefnanda kemur fram að báðar stúlkurnar hafi fylgt meðalvaxtarkúrfu og hafi þær ætíð fengið góða skoðun. Tekið er fram í bréfinu að stefndu hafi verið bent á í gegnum tíðina að þau eigi ekki að gefa B stíla nema nauðsyn beri til. Ekki sé vitað hvort þau fari að þeim ráðum þar sem þau séu að mestu með stelpurnar ein á nóttunni. Þá kemur fram að þau hafi ekki alltaf mætt í tíma hjá lækni eða eftirlit þegar þau hafi átt tíma og verið með ýmsar afsakanir.

Í bréfi frá leikskólanum [...] þann 1. desember 2009 kemur fram að B hafi fengið pláss frá og með 12. ágúst 2009. Hún hafi fyrst komið á leikskólann  2. október 2010 í aðlögun og verið í fjörutíu og fimm mínútur.  Hún hafi komið næst í leikskólann 11. nóvember í hálftíma. Í nóvember hafi stelpan komið sex daga í leikskólann. Aðra daga hafi hún ekki komið og yfirleitt ekki verið látið vita af því. Þrátt fyrir margar ítrekanir um nauðsyn þess að barnið kæmi reglulega í leikskólann hafi stefndu ekki orðið við því.

Með bréfi, dagsettu 12. mars 2010, til stefnanda lýstu N hjúkrunarfræðingur og O, starfandi yfirlæknir, yfir áhyggjum sínum af velferð barnanna. Að þeirra áliti hefðu foreldrar B og C ekki getu til að veita börnum sínum nauðsynlega umönnun og eftirlit. Þá liggur fyrir samskiptaseðill frá L þar sem tekið er fram að áhyggjur séu af velferð barnanna og að foreldrar hafi ekki mætt með B í boðaðan tíma vegna veikinda hennar.

Áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga var gerð á milli aðila þann 5. maí 2010 til 1. júlí 2010, þar sem hlutverk stefndu var skilgreint og stuðningsúrræði barnaverndarnefndar.

Þann 31. maí 2010 er gerð af hálfu stefnanda einhliða áætlun um þvingun skv. 23. gr. barnaverndarlaga og ástæða íhlutunar sögð vera miklar áhyggjur af getu og hæfni foreldra til að sinna foreldrahlutverkinu. Foreldrahæfnismat frá árinu 2004 kveði á um að hæfni foreldranna sé ábótavant og þau þurfi mikla aðstoð í foreldrahlutverkinu. Mótþrói foreldra og skortur á samstarfsvilja við barnavernd sem og ítrekuð brot foreldra á áætlun um meðferð máls séu ástæða íhlutunar. Markmið áætlunar sé að tryggja að B og C búi við viðunandi öryggi og uppeldisskilyrði. Var börnunum komið í fóstur í framhaldi.

Þann 26. ágúst 2010 gekk úrskurður í [...] í málinu nr. U-1/2010 þar sem krafa sóknaraðila, A þess efnis að stúlkurnar B og C yrðu vistaðar á heimili á vegum sóknaraðila í fjóra mánuði frá og með 15. ágúst 2010 var tekin til greina.

Þann 14. júlí 2010 var gerður tímabundinn fóstursamningur frá 7. júlí til 15. ágúst 2010 við P og Q. Samkvæmt samningnum áttu foreldrar stúlknanna heimsóknartíma einu sinni í viku, þrjár klukkustundir í senn, frá klukkan 14.00 til 17.00. Stefndu sinntu ekki heimsóknartímum nema að litlu leyti og þrátt fyrir að þau hafi fengið viðbótarheimsóknartíma á afmæli B, [...], nýttu þau sér ekki þann rétt. Þá kusu þau frekar að fara í ferðalag daginn sem C átti afmæli heldur en að heimsækja hana.

Þann 31. ágúst 2010 var aftur undirritaður tímabundinn fóstursamningur við sömu fósturforeldra til 15. desember 2010. Var um umgengni vísað til fyrri fóstursamnings. Þá máttu stefndu hringja í fósturforeldra tvisvar í viku, mánudaga og fimmtudaga, milli kl. 18.00 og 20.00, til að fá upplýsingar um líðan stúlknanna.

Í ágúst 2010 er bókað í dagál að lögreglan á [...] hafi hringt með upplýsingar um að til hennar hafi komið stúlka og tilkynnt að K hafi í fjögur skipti á síðustu viku talað um að drepa fósturmæður dætra sinna og einhvern mann til viðbótar. Tilkynnandi sé orðin mjög hrædd við ástandið á K. Voru fósturforeldrar í kjölfarið látnir vita af hótunum K og var í framhaldi ákveðið að umgengni færi fram í safnaðarheimili [...] í stað þess að vera á heimili fósturforeldra og yrði tilsjónarmaður ávallt viðstaddur.

Í dagálum fram í lok október 2010 eru samskipti aðila bókuð og kemur þar fram að stefndu eru óráðþæg, hafna almennt samskiptum við barnaverndarnefnd og eru ósátt við afskipti hennar almennt. Þá kemur fram í gögnum stefnanda frá september 2010 að á ellefu vikum sem börnin höfðu verið í fóstri höfðu foreldrar einungis nýtt sér fimm og hálfa klukkustund af þrjátíu og sex mögulegum í umgengni við börn sín.

Í dagál stefnanda þann 18. ágúst 2010 kemur fram væntanlegt samstarf við barnaverndarnefnd [...] vegna búsetu stefndu. Stefndu hafi ekki mætt á boðaðan fund til þeirra en komið viku síðar, óhrein og illa lyktandi og ekki virst skilja eðli málsins. Hafi stefndu verið hvött til samstarfs á þeim fundi.

Þann 21. september 2010 undirrituðu aðilar áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Var tilgangurinn að hjálpa stefndu til að koma málum sínum svo fyrir að þau gætu fengið börnin aftur á heimilið. Var hlutverk stefndu þar tilgreint í átta liðum þannig: 1) Að vera í samstarfi við I. 2) Að laga fjárhagsstöðu sína og sýna fjárhagslegan stöðugleika. 3) Að taka á móti félagslegri heimaþjónustu á heimili sitt. 4) Að sýna fram á að þau geti haldið heimilinu ásættanlega hreinu og barnvænu. 5) Að sækja ráðgjöf til sálfræðings. 6) Að sækja uppeldisnámskeið. 7) Að sleppa allri áfengisdrykkju. 8) Að panta leikskólapláss í [...]. Er hver liður útlistaður nánar í áætluninni. Gekk sú áætlun ekki eftir þar sem stefndu voru ekki til samvinnu.

Í tölvupósti þann 6. desember 2010, frá S til stefnanda, kemur fram að stefndu hafi fengið úthlutað átta viðtölum að beiðni stefnanda. Kemur fram að þau hafi frestað fyrsta viðtalinu og nýr tími verið skráður. Þau hafi ekki mætt í það viðtal og nýr tími þá fundinn. Þau hafi ekki mætt í þann tíma og þau ekki svarað í síma þegar ítrekað var reynt að ná til stefndu. Þegar loks náðist í þau hafi þau afþakkað viðtöl hjá henni nema ætlunin væri að fara af stað með nýtt foreldrahæfnismat sem ekki var. 

Í skýrslu tilsjónarmanns sem fenginn var til að fara á heimili stefndu á tímabilinu kemur fram að tilsjónarmaður hafi farið fimm sinnum á heimili stefndu. Í fyrsta sinn hafi þau ekki opnað fyrir tilsjónarmanni. Þann 4. nóvember 2010 hafi tilsjónarmanni verið hleypt inn og heimilið virst vera í góðu lagi. Þann 11. og 18. nóvember hafi tilsjónarmanni ekki verið hleypt inn á heimilið. Þann 25. nóvember fór tilsjónarmaður inn á heimilið sem virtist í þokkalegu lagi utan að reykt var inn á heimilinu. Þá neitaði K að sýna tilsjónarmanni inn í herbergi í íbúðinni. Þann 2. desember 2010 komu stefndu sér undan að fá tilsjónarmann inn á heimilið og báru við að þau gætu ekki verið heima á þeim tíma sem umsjónarmaður komst.

Fram kemur í dagál 3. desember 2010 að stefndu hafi farið á SOS-námskeið hjá T

Í dagál kemur fram að stefndu hafi ekki komið í umgengni þann 16. desember sl. og borið við vondu veðri en þau hafi hins vegar farið í vinnu í sjoppu á [...] þann 17. desember þrátt fyrir stormviðvörun þann dag. Þá hafi þau ekki mætt í umgengni 23. desember og borið við vondu veðri. Þá kemur fram í símtölum M við stefnanda að hann geri sér ekki grein fyrir því að undir rekstri þessa máls hafi verið beðið um nýtt foreldrahæfnismat að beiðni lögmanns stefndu. Virðist honum ekki vera ljóst í hvaða tilgangi beðið var um nýtt mat og hver sé að biðja um það. Þá kemur fram þann 11. janúar 2011 í símtali frá fósturforeldrum að stefndu hafi ekkert heimsótt börnin í desember 2010 og ekki sent þeim jólagjafir.

Á fundi A þann 10. nóvember 2010 með stefndu og lögmanni þeirra var lögð fram tillaga um að stefndu afsali sér forsjá barnanna. Í greinargerð vegna kröfunnar segir að foreldrahæfni sé mjög ábótavant, foreldrahæfnismat hafi tvívegis farið fram, árin 2004 og 2010. Í fyrra matinu hafi matsmaður E sálfræðingur, komist að þeirri niðurstöðu að foreldrahæfni hjónanna væri mjög ábótavant. Þau væru engan veginn fær um að taka að sér það hlutverk að ala upp barn án utanaðkomandi aðstoðar. Staðfesti U það mat í matsgjörð sinni sem fór fram í byrjun árs 2010. Fengu stefndu andmælafrest og skilaði lögmaður þeirra greinargerð þess efnis þann 19. nóvember 2010. Höfnuðu stefndu alfarið að afsala sér forsjá barnanna. Á fundi stefnanda þann 22. nóvember 2010 var tekin ákvörðun um að krefjast þess fyrir dómi að stefndu yrðu svipt forsjá barna sinna. Kemur fram í bókun að barnaverndarnefnd telji að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barna sé alvarlega ábótavant og að fullvíst sé að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána vegna greindarskorts. Telji barnaverndarnefnd að öll vægari úrræði til úrbóta hafi verið reynd án viðunandi árangurs. Margítrekað hafi verið reynt að tryggja öryggi og velferð barnanna, en skort hafi verulega á samstarfsvilja foreldra. Frá því að úrskurður Héraðsdóms [...] var kveðinn upp þann 26. ágúst sl. hafi foreldrum ekki tekist að sýna fram á að þau séu tilbúin að þiggja þá aðstoð og eftirlit sem nauðsynlegt sé til að börnin geti dvalist hjá þeim.

Í ódagsettu bréfi frá leikskóla [...] kemur fram að B hafi byrjað í leikskólanum 25. ágúst 2010. Aðlögun hafi gengið vel, hún verið fljót að kynnast bæði börnum og starfsfólki, hún sé ánægð og glöð með að koma í skólann og leiti mikið eftir andlegri og líkamlegri athygli. Tengsl hennar við fósturforeldra virðast vera mjög góð. Borið hafi á kvíðaeinkennum hjá B þá daga sem hún hittir foreldra sína en hún hafi vitað að morgni sama dags að hún ætti að hitta foreldra sína. Þá er yfirlýsing frá dagmóður C um að henni virðist líða vel hjá fósturforeldrum og það gangi mjög vel með hana í daggæslu.

Í samantekt N, hjúkrunarfræðings hjá L, frá 26. maí 2010 segir að B hafi verið með viðvarandi eyrnabólgu frá desember 2009 til 14. apríl 2010 þegar hún fór í aðgerð þar sem rör hafi verið sett í eyrun. Ýmislegt hafi gengið á varðandi lyfjagjöf á þeim tíma. B hafi ekki alltaf verið gefin sýklalyf eins og átti að gera, en alvarlegast hafi þó verið þegar K hafi hætt að gefa henni lyfin þar sem hún hafi metið það svo að stúlkan væri orðin góð, án þess að fá á því faglegt mat. Afleiðingarnar hafi verið þær að barnið hafi farið hálf veikt í aðgerðina. Þá hafi B verið með viðvarandi hósta og fengið ávísun á púst þess vegna. K hafi leyst út annað pústið en hafi sjálf metið það svo að barnið væri ekki með astma og ekki leyst út síðara pústið. Þá hafi K farið með barnið í lítilli bifreið í mikilli ófærð og blindu til læknis án þess að tala við hann áður, frá [...] til [...]. Hafi henni verið ráðlagt af hjúkrunarfræðingi að gera það ekki en hún hunsað þær ráðleggingar. Þá hafi stefndu haft samband við hjúkrunarfræðing seint um kvöld og viljað fá skoðun á B þar sem þau grunaði að hún væri rifbeinsbrotin, og héldu að hún hefði rifbeinsbrotnað í leikskólanum nokkrum vikum fyrr. Þau hafi ekki mætt með barnið í skoðun morguninn eftir þrátt fyrir að hafa fengið tíma til þess. Þá kemur fram að þau hafi ekki mætt með stúlkurnar í fyrirfram ákveðna tíma á heilsugæslu í átta skipti án þess að láta vita um forföll. Þá séu ótalin þau skipti sem þau tilkynntu að þau myndu ekki mæta með stúlkurnar í eftirlit.

Í gögnum málsins liggur fyrir taugasálfræðimat V, gert í júní 2003. Kemur fram í samantekt og áliti að um sé að ræða vitsmunalega skerta, tæplega [...] ára stúlku, sem hafi mælst með jaðargreind í munnlegum yrtum prófþáttum en eðlilega greind í verklegum prófþáttum. Útkoman í heildina gæfi lága greindartölu. Hvað varði félagsþroska K, stjórnun á geðslagi og persónuleika séu hvatvísi, hömluleysi, einfeldni, skert dómgreind og lítið innsæi sláandi. Varðandi mat á því hvort K gæti unnið fyrir sér og séð sjálfri sér farborða, segir að hún hafi að mörgu leyti gott verkvit og sé gædd talsverðri útsjónarsemi og geti ráðið við ýmsa flókna hluti ef hún fái góðar leiðbeiningar. Hana vanti hins vegar getu til að geta unnið sjálfstætt þar sem hún eigi í nokkrum erfiðleikum með að skipuleggja og greina á milli aðalatriða og aukaatriða.

Í málinu liggja fyrir þrjú sálfræðimöt og mat á forsjárhæfni stefndu.

Fyrsta matið var unnið af E sálfræðingi og er dagsett 6. desember 2004. Fram kemur í matinu að K sé með lága greind og að M sé greindarskertur. Í niðurstöðum og mati segir m.a. að geðrænn óstöðugleiki K, neikvæð sjálfsmynd og erfiðleikar við að mynda heilbrigð og varanleg tengsl feli í sér þá hættu að hún geti ekki látið þarfir hvítvoðungsins hafa forgang fram yfir sínar þarfir, þegar það sé nauðsynlegt. Þessir persónuþættir, svo og sú afstaða sem hún lýsti í viðtölum við matsmann, bendi til þess að hún geti verið ófús til að þiggja stuðning og lúta leiðsögn um umönnun barnsins, en hafi tilhneigingu til að taka aðeins við því sem henni henti í það skiptið, en hafna annarri aðstoð sem óþarfa afskiptasemi. Þá segir einnig að maðurinn sé heldur minna greindur en konan og ósjálfstæður í sambandi þeirra. Hann sé ekki líklegur til að hafa mikið frumkvæði í umönnun barnsins og ekki fær um að axla neins konar heildarábyrgð á því sambandi. Hann sé þó líklegri en konan til að sætta sig við utanaðkomandi aðstoð og muni geta sinnt afmörkuðum umönnunarþáttum fái hann til þess leiðbeiningar og stuðning. Hann muni þurfa stöðugan stuðning að þessu leyti, þar sem líklegt sé að hann eigi erfitt með að átta sig á þeim breytingum sem verði hjá barninu með auknum þroska þess. Enn fremur segir að athugunin bendi til þess að forsjárhæfni þessa unga fólks sé verulega ábótavant. Því til viðbótar megi benda á að framfærslugeta þeirra sé líklega takmörkuð, svo og almenn kunnátta í heimilishaldi og persónulegri umhirðu. Í lokin segir að möguleikar þeirra foreldra sem séu veikburða í hlutverki sínu séu að stórum hluta komnir undir því hversu miklum stuðningi verði við komið og hvernig þeim og barninu takist að nýta sér hann. 

Þann 2. júní 2010 skilaði U sálfræðingur skýrslu um sálfræði-og foreldrahæfnismat á stefndu. Voru greindar- og persónuleikamöt ekki framkvæmd aftur á stefndu þar sem hann taldi engar vísbendingar vera til þess að niðurstöður yrðu breyttar frá mati E frá 2004. Við framkvæmd matsins fór U á heimili stefndu. Er tekið fram í matinu að heimili þeirra hafi verið illa þrifið og gólf verulega skítug. Þau hafi reynt að færast undan heimsókn matsmanns á tilsettum tíma og borið við veikindum, sem ekki hafi reynst alvarleg. Kemur fram að þau hafi, aðspurð um fóstur elsta barnsins, ekki haft innsæi í ástæður þess að þau misstu drenginn í fóstur. Spurð um áhugasvið þeirra kvaðst K vera [...] og hafa gaman af garðyrkju og því að elda og baka. Einnig að hún væri fædd sölumanneskja. Ekkert er haft eftir M um áhugasvið hans. Í heimsókn matsmanns var ekkert óeðlilegt að sjá í samskiptum eða framkomu foreldranna við stúlkurnar. Þær hafi verið öruggar og glaðlegar á heimilinu og við matsmann. Í samantekt og niðurstöðum tekur U fram að hann taki undir niðurstöðu E frá 2004 um að forsjárhæfni stefndu sé verulega ábótavant. Það virðist ljóst að án mikillar utanaðkomandi aðstoðar verði verkefnið að ala upp barn eða börn og koma til þroska þessum ungu hjónum ofviða. Á [...] hafi félagsþjónusta og ættingjar hins vegar unnið mjög gott starf í að setja upp það sem kalla megi stuðnings- og öryggisnet fyrir fjölskylduna. Nauðsynlegt verði þó að endurskoða með reglulegu millibili þau úrræði sem fjölskyldan nýtur og nýtir sér. Lagði U ekki til breytingar á forsjá stúlknanna en lagði til nánar tiltekin úrræði, þjónustu og eftirlit með fjölskyldunni. Þá segir hann að verði breytingar á högum stefndu, til dæmis ef þau flytjast búferlum, rofni allar forsendur sem að ofan voru gefnar í matinu. Það öryggisnet sem sé til staðar á [...] sé, eins og áður sagði, talið forsenda þess að stefndu haldi forsjá stúlknanna. Þannig sé alger samvinna af þeirra hálfu við félagsmálayfirvöld einnig lykilforsenda í því að framangreindar niðurstöður standist.

Á dómþingi þann 27. janúar 2011 var dómkvaddur matsmaður að kröfu stefndu. Var W sálfræðingur dómkvaddur til að gera sálfræði- og forsjárhæfnismat á stefndu. Var matið lagt fram í dómþingi þann 19. maí sl. Kemur fram í matinu að vinnan hafi gengið verr og hægar fyrir sig en stefnt hafi verið að, sem mátti rekja til ósamvinnu þeirra K og M en torvelt hafi verið að ná til þeirra auk þess sem þau hafi ekki alltaf mætt til matsmanns á boðuðum tímum. Loks hafi þau ekki verið til staðar á heimili sínu á umsömdum tíma þegar matsmaður hugðist skoða aðstæður á heimili þeirra. Matsmaður lagði fyrir stefndu nokkur greindar- og persónuleikapróf sem verða ekki rakin sérstaklega hér nema að litlu leyti.

Í niðurstöðum varðandi K segir að hún hafi mælst í neðra meðallagi og á afmörkuðum sviðum talsvert neðan við meðaltalsmörk við mat á greind hennar. Í niðurstöðum persónuleikaprófs K segir að fram komi að hún eigi við aðlögunarvanda að stríða, sem felist m.a. í samskiptaörðugleikum sem endurspeglist af tortryggni og jafnvel fjandsemi gagnvart meintum óvildarmönnum. Samhliða þessari mynd sé önnur sem K dragi upp þar sem hún sé m.a. mjög viðkvæm, með sterkan kvíða, spennu, áhyggjur, deyfð og dauðaóskir. Varðandi mat á kvíða og þunglyndi hjá K segir að í heild megi segja að framangreindir matslistar sýni verulega mikla spennu og kvíða, þunglyndi og vonleysi gagnvart framtíðinni. Í niðurstöðum í mati á reiðiviðbrögðum K segir að niðurstöðurnar megi túlka á þann veg að reiðivandamál hennar, eins og hún upplifi þau sjálf og meti, séu veruleg en kveikjan liggi síður í umhverfisþáttum en innra með henni sjálfri.

Í niðurstöðum varðandi M segir að hann falli í flokk mjög lágrar greindar, sem séu greindartölur neðan við 70. Niðurstöður greindarmælingar á M í heild sýni verulega skerðingu eða sem samsvari þroskahömlun. Í niðurstöðum við mat á persónuleika M segir að niðurstöður séu ómarktækar þar sem svörin séu yfirleitt handahófskennd og ósamrýmanleg. Við mat á kvíða og þunglyndi eru ómarktækar niðurstöður. Segir að ekki sé alveg ljóst hvernig túlka megi framangreinda lista í heild þar sem mat M virðist vera nokkuð sveiflukennt. Á spurningalista til sjálfsmats virðist hann hafa talsverðar áhyggjur, vera kvíðinn og líða fremur illa. Kvíðaeinkennin séu hins vegar ekki samfara einkennum þunglyndis því M hafni öllum slíkum einkennum og meti framtíðina af bjartsýni, þótt líklegt sé að hann sé fyrst og fremst bundinn nútíðinni. Við mat á reiðiviðbrögðum M segir að túlka megi niðurstöður á þann veg að reiðivandamál hans séu lítil sem engin. Það megi til sanns vegar færa að hann hafi sýnt takmarkaða reiðitjáningu á vinnslutíma matsins miðað við K

Við könnun á viðhorfi stefndu til foreldrahlutverksins talaði K fyrir þau bæði. Kvað hún styrkleika þeirra felast í því að þau vildu kenna dætrum sínum muninn á réttu og röngu og sýna þeim hlutina. Þau vildu ala þær upp og leika við þær og vera eins og hverjir aðrir foreldrar. Þau hafi rétt hjartalag og að þau gætu hugsað um þær. Það sem sé æskilegt í fari foreldra almennt sé að hafa hreint, bæði heimili og börn og sinna heimilisstörfum. Einnig þurfi að gera mat og það þurfi að kenna börnunum að elda mat og fleira. Þau megi heldur ekki komast upp með frekju. Helstu veikleika þeirra sem foreldra telja þau vera runna undan rifjum annarra, einkum félagsþjónustunnar á [...]. X hafi troðið alls konar vitleysu ofan í þau. Þau hafi heldur ekki fengið neitt frí frá stelpunum og enga pössun þegar þau fengu sér áfengi og því verið logið upp á þau að þau væru áfengissjúklingar. Eini raunverulegi veikleikinn sem tengist þeim beint sé sorgin yfir því að fá ekki dæturnar til sín. Aðspurð um að K væri að missa bílprófið vegna ölvunaraksturs, kvaðst hún hafa viljað missa prófið, þá myndu þau fá dæturnar heim til sín í umgengni þar sem þau væru bæði próflaus og svo hefði hún viljað ná sér niðri á X félagsmálastjóra með því að missa prófið, því hún stýrði umgengni þeirra við börnin. Þá kvað K nauðsyn á að kenna börnum aga, því annars öskri þau og grenji, það þurfi að gefa þeim stjörnu í umbun ef þau eru góð í viku og hagi sér vel í búðum. Spurð um framtíðina sögðust þau stefna að því að hætta bæði að drekka og reykja. Þau myndu einnig mála barnaherbergið og gera ekta dóta- og prinsessuherbergi. Þau myndu jafnframt fá leiktæki út í garð, húskofa og fleira. Þau sjái fyrir sér að uppeldið og framtíðin gangi vel fyrir sig. Þau myndu vera mikið með dætur sínar í göngutúrum.

Í samantekt um K kemur fram að hún falli að flokki neðri meðalgreindar (tornæmi). Einnig komi fram misstyrkur og seinþroski á afmörkuðum sviðum sem endurspeglist m.a. í lesblindueinkennum. Þá segir að margt í hennar hugarástandi og fari bendi til aðsóknarkenndar og hugrofseinkenna, auk þunglyndiseinkenna og persónuleikaraskana, m.a. andfélagslegra persónuleikaeinkenna.

Í samantekt um M segir að hann mælist í flokki vægrar þroskaheftingar. Megi gera ráð fyrir að slík þroskaskerðing liti alla hans hugsun og hegðun, þar með talið sjálfsmat og viðhorf.

Í niðurstöðukafla matsins segir að í heild sinni hafi vinnsla matsins gengið hægt fyrir sig þar sem foreldrarnir hafi verið ósamvinnuþýðir. Efnislegar niðurstöður sálfræðilegrar greiningar hafi sýnt mikil frávik, bæði hvað varði verulega greindarskerðingu föður og óvirkni hans gagnvart foreldrahlutverkinu og tengslum við börnin hvort tveggja í viðtölum og á vettvangi. Þá sé almennt úrræðaleysi hans mjög áberandi. Móðirin standi eitthvað betur greindarfarslega að vígi en faðirinn en greindarfar hennar beri engu að síður einkenni misstyrks og seinþroska á afmörkuðum sviðum og dyslexíu-einkenni séu til staðar. Útkoma persónuleikaprófa bendi til röskunar á andlegri starfsemi, ranghugmynda og aðsóknarkenndar (hugrofseinkenna). Samfara þessum einkennum sé mikil spenna, kvíði, þunglyndi, reiðivandamál og áberandi aðlögunarvandi hjá móður. Telur matsmaður, á grundvelli fyrirliggjandi álitsgerðar, að stefndu hafi mjög skerta hæfni sem foreldrar til að skapa börnum sínum eðlileg og þroskavænleg uppeldisskilyrði, þótt þau nytu verulegrar aðstoðar og stuðnings yfirvalda. Séu ástæður helstar verulegir persónulegir annmarkar, greindarskortur, geðræn einkenni, persónuleikaraskanir og aðlögunarerfiðleikar, annars eða beggja foreldra.

Í dagálum kemur fram að stefndu sýni eldri stúlkunni athygli í umgengni, en sinni yngri stúlkunni lítið sem ekkert. Þá kemur fram í dagál 23. mars 2011 að telpurnar hafi veikst og C farið á sjúkrahús. Þegar stefndu var tilkynnt um veikindin kvaðst K ætla á spítalann til að hitta barnið, hvað sem hver segði, enginn myndi geta stöðvað hana, hvorki kóngur né prestur, né lögregla. Þá krafðist M í símtalinu að börnin færu á annað fósturheimili. Var því hafnað og upplýsti þá M að þau myndu þá bara taka börnin, það gæti enginn stöðvað þau í því. Komu stefndu á spítalann skömmu síðar og þurfti, samkvæmt dagál, að kalla til lögreglu.

Í samantekt yfir umgengni stefndu við stúlkurnar tímabilið frá 2. desember 2010 til 21. september 2011 kemur fram að af  tuttugu og tveimur skiptum sem umgengni var ákveðin mættu stefndu í sextán skipti. Af þeim sextán skiptum mættu þau þrisvar sinnum of seint. Þá nýttu þau sér ekki aukaumgengni sem þau gátu fengið 23. desember 2010 og báru við veðurspá.

Við upphaf aðalmeðferðar málsins var lögð fram viðbót við matsgerð W þar sem hann hafði farið á heimili stefndu en úr því hafði ekki orðið við vinnslu matsgerðarinnar þar sem ekki var samstarfsvilji hjá stefndu. Kemur fram að heimili þeirra hafi verið hreint og snyrtilegt. Fór sú heimsókn fram þann 20. maí sl. Þá hafi verið á heimilinu hundur, tveir kettir og nokkrar stökkmýs í búri inni í hjónaherbergi sem sterk lykt stafaði frá. Kváðust stefndu vera með langtímaleigusamning og greiða 112.000 krónur í mánaðarleigu auk hita og rafmagns.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndu séu ófær um að sinna uppeldi og umönnun dætra sinna. Afskipti barnaverndarnefndar hafi byrjað haustið 2008 vegna B en hún sé fædd í [...]. Stefndu séu bæði þroskaskert og þurfi mikla aðstoð við uppeldi og umönnun barna sinna. Fyrir þann tíma hafi F haft með málefni stefndu að gera. Afskipti stefnanda hafi verið frá fæðingu yngri dótturinnar, C. Eftir að stefndu fengu íbúð á [...] hafi stefndu fengið tilsjón alla virka daga vikunnar nema þegar farið var í ungbarnaeftirlit. Stefndu hafi frá upphafi verið ósátt við tilsjón og ekki samvinnuþýð. Tilsjón hafi gengið þokkalega framan af, en í lok árs 2009 og byrjun árs 2010 hafi farið að bera á vandræðum hjá stefndu. Í framhaldi af úttekt á aðbúnaði stelpnanna í kjölfar tilkynningar til Barnaverndarstofu haustið 2009, upplýsinga frá Y og frá leikskólanum [...] hafi tilsjón verið aukin og verið einnig um helgar. Þá hafi stefndu fengið stuðningsfjölskyldu. Þá hafi komið upp tilvik þar sem stefndu hafi verið við drykkju heima hjá sér með börnin á heimilinu þrátt fyrir að í samningi við stefndu hafi verið tekið fyrir að þau neyttu áfengis með börnin heima. Þá hefði  K verið tekin ölvuð við akstur og börnin verið færð í framhaldi til stuðningsfjölskyldu. Eftir þessa uppákomu hafi öll samskipti orðið enn erfiðari milli stefndu og stefnanda.  Þá hafi orðið merkjanlegur munur á K og hún átt erfitt með skap. Fjárhagur stefndu hafi orðið erfiðari og þurftu þau á fjárhagsaðstoð frá stefnanda að halda. Ítrekað hafi verið gert samkomulag við stefndu um áætlun um meðferð máls en þau ekki farið eftir. Stefndu hafi ítrekað ekki farið eftir ráðleggingum um lyfjagjöf barnanna, bæði varðandi sýklalyf, púst og lyf vegna njálgs. Hafi því verið nauðsyn að setja börnin í tímabundið fóstur á meðan stefndu bættu ráð sitt. Þegar systurnar komu til stuðningsfjölskyldu 3. júní 2010 hafi  þær verið skítugar og svangar. C með brunasár á rassi sem vessaði úr og einnig með mikið kvef.

Stefnandi úrskurðaði þann 7. júní 2010 að telpurnar skyldu settar í fóstur í tvo mánuði og ef stefndu hefðu ekki unnið að því að bæta stöðu sína innan fjögurra vikna, skyldi óskað eftir áframhaldandi fóstri í fjóra mánuði til viðbótar fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra.  Stefndu hafi ekki fengist til samstarfs og ítrekað ekki verið heima eða neitað að hleypa starfsmanni stefnanda inn þegar tilsjón átti að fara fram. Málið var tekið fyrir að nýju hjá stefnanda og kveðinn upp úrskurður þann 16. júlí 2010 um að óska eftir áframhaldandi fóstri í fjóra mánuði til viðbótar fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra. Hafi úrskurður gengið þess efnis þann 26. ágúst 2010 að stúlkurnar yrðu vistaðar á heimili á vegum stefnanda í fjóra mánuði til viðbótar, frá og með 15. ágúst 2010. Stefndu hafi flutt til [...] um mánaðamótin júní/júlí 2010 og var þess vegna fundið fósturheimili fyrir dæturnar á [...] svo auðveldara væri fyrir stefndu að nýta sér umgengnisrétt sinn. Skv. fóstursamningnum, sem gerður var 14. júlí 2010, var umgengni stefndu við börnin rífleg, þ.e. einu sinni í viku þrjá tíma í senn frá kl. 14.00 til 17.00. Þá sé í samningunum einnig kveðið á um önnur samskipti. Stefndu geti hringt til fósturforeldranna milli klukkan 18.00 og 20.00 tvisvar í viku. Heimilt sé að senda börnum gjafir og mögulegt að koma á samtali stefndu og barnanna í gegnum netforrit með vefmyndavél í stað símtals þannig að stefndu myndu sjá barnið. Frá því að börnin fóru í fóstur hafi stefndu ekki verið til samvinnu um þá áætlun sem gerð var þann 31. maí 2010 og hefur ekki tekist að framfylgja áætluninni. Þá hafi stefndu illa sinnt umgengni við börnin, mætt of seint eða of snemma og ekki verið allan tímann eða ekkert mætt. Þá hafi K hótað starfsmönnum stefnanda lífláti svo og fósturforeldrum. Stefndu hafi komið í boðað viðtal hjá félagsþjónustunni í [...] 9. ágúst 2010. Kom þar fram að stefndu séu erfið í samstarfi, þeim gangi illa að skilja stöðu sína og af hverju afskipti væru höfð af þeim. Á fundinum lýstu stefndu því yfir að þau vildu ekki tilsjónarmann á heimili sitt og voru almennt ekki samstarfsfús. Til viðtalsins komu stefndu illa hirt, mjög skítug og af þeim hafi verið vond lykt. Í framhaldi hafi samstarf við stefndu verið mjög erfitt og þau ekki farið eftir meðferðaráætlun sem lögð hafi verið fyrir þau í þeim tilgangi að fá börnin aftur til sín.

Á fundi með stefnanda í nóvember 2010 hafi stefndu lýst því yfir að þau væru tilbúin til samvinnu við stefnanda og að tilsjón mætti koma hvenær sem væri og á hverjum degi til þeirra. Daginn eftir hafi þau ekki hleypt tilsjónarmanni inn á heimili sitt.

Stefndu hafi í engu tekist að framfylgja þeim áætlunum sem gerðar hafa verið og þau hafa sjálf gengist undir og hafa allar áætlanir því fallið úr gildi. Ítrekað hafi stefndu verið boðin fjármálaaðstoð en þau hafnað henni. Þau hafi ítrekað haldið því fram að nú muni þau vinna með barnaverndarnefnd, en síðan hafa þau ekki gert það og sýna engan vilja til samvinnu.  Vegna fjárhagserfiðleika stefndu hafi stefnandi greitt fyrir dekkjakaup stefndu.

Þá hafi stefndu ekki nýtt sér til fulls umgengnisrétt sinn við dætur sínar. Af þrjátíu og sex mögulegum tímum hafi þau nýtt sér fimm og hálfa klukkustund.

Mál stefndu var tekið fyrir á fundi 22. nóvember 2010, stefndu mættu ekki á fundinn en lögmaður þeirra mætti. Varð það mat stefnanda á fundinum að ekki væri forsvaranlegt að fela stefndu umsjá barnanna að nýju í ljósi fyrirliggjandi gagna. Að mati stefnanda dugi stuðningsaðgerðir á grundvelli barnalaga nr. 80/2002 ekki til að tryggja öryggi barnanna á heimili stefndu til frambúðar. Í framhaldi var ákveðið að höfða mál þetta til sviptingar á forsjá stúlknanna.

Þá byggir stefnandi á því að gerð hafi verið tvö foreldrahæfnismöt á stefndu. Hið fyrra var gert haustið 2004, af E sálfræðingi. Í forsjármati hans segi að forsjárhæfni stefndu sé verulega ábótavant og möguleikar stefndu séu að stórum hluta undir því komnir hversu miklum stuðningi verði við komið og hvernig þeim og barninu takist að nýta sér hann. Þetta mat var gert þegar stefndu áttu von á sínu fyrsta barni, en það hafi síðan farið í varanlegt fóstur skömmu eftir fæðingu. Það barn sé fætt [...]. Endurmat á foreldrahæfni stefndu hafi verið gert árið 2010 af U sálfræðingi. Niðurstaða U hafi verið sú sama og E. Hann segi í skýrslu sinni að það virðist ljóst að án mikillar utanaðkomandi aðstoðar verði verkefnið að ala upp barn eða börn og koma til þroska stefndu ofviða. Eins og fram komi í þessum forsjárhæfnismötum sé forsjárhæfni stefndu verulega ábótavant og möguleikar þeirra til að ala upp börn undir því komnir að þau njóti verulegrar aðstoðar við uppeldið. Stefndu hafi boðist veruleg aðstoð sem þau hafa ekki viljað þiggja. Stefndu séu bæði þroskaskert og þurfi mikla aðstoð við umönnun barnanna og heimilishald. 

Í greindarprófi, sem gerð hafi verið á stefndu árið 2004, segir að stefndu séu töluvert ólík. Varðandi K segi: „geðrænn óstöðugleiki hennar, neikvæð sjálfsmynd og erfiðleikar við að mynda heilbrigð og varanleg tengsl fela í sér þá hættu að hún geti ekki látið þarfir hvítvoðungsins hafa forgang fram yfir sínar þarfir þegar nauðsynlegt er“. Varðandi M segir: „hann er ekki líklegur til að hafa mikið frumkvæði í umönnun barnsins og ekki fær um að axla neinskonar heildarábyrgð í því sambandi.“  Meðal annars af þessum sökum séu uppi verulegar efasemdir um hæfni stefndu til að gegna foreldrahlutverki.

Krafa stefnanda um forsjársviptingu byggist einkum á því að ítrekað hafi verið leitast við að aðstoða stefndu við uppeldi barnanna, heimilishald og að taka á vandamálum sínum með það að markmiði að þau geti alið börnin upp og búið þeim heimili, en skv. þeim foreldrahæfnismötum sem gerð hafi verið og lögð séu fram sé foreldrahæfni stefndu ábótavant og þeim ómögulegt að ala upp börn án mikillar utanaðkomandi aðstoðar.

Ávallt hafi verið leitast við að eiga eins góða samvinnu við stefndu og mögulegt hafi verið. Stefndu hafi staðið til boða stuðningur barnaverndarnefndar en þau hafi ekki viljað þiggja hann og fara eftir leiðbeiningum sem þeim séu veittar. Að mati stefnanda hafi verið leitast við að beita eins vægum úrræðum gagnvart stefndu og unnt hafi verið hverju sinni, en óhjákvæmilegt hafi reynst að vista börnin utan heimilis sökum djúpstæðs vanda stefndu.  Stefnandi telji að stuðningsaðgerðir séu fullreyndar. Þau stuðningsúrræði sem stefnandi hafi yfir að ráða hafi ekki megnað að skapa börnunum þau uppeldisskilyrði sem þau eigi skýlausan rétt til. Önnur barnaverndarúrræði en forsjársvipting séu því ekki tiltæk nú, en brýna nauðsyn beri til að skapa börnunum það öryggi og þá umönnun sem þau hafi farið á mis við hjá stefndu. Að mati stefnanda hafi meðalhófsreglunnar verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki verið gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn hafi krafist.

Það séu frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Stefnandi telji það hafa sýnt sig að stefndu geti ekki búið börnum sínum þau uppeldisskilyrði sem þau eigi skýlausan rétt á. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldra og barna vegist á, séu hagsmunir barnanna þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir sé mælt um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992. Þá eigi reglan sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og í Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979.

Stefnandi telur að gögn málsins sýni, svo ekki verði um villst, að daglegri umönnun barnanna hjá stefndu verði stefnt í verulega hættu fari þau með forsjá þeirra. Gögn málsins sýni enn fremur að foreldrahæfni stefndu sé ábótavant. Heilsu og ekki síst þroska barnanna sé hætta búin fari stefndu með forsjá þeirra. Hagsmunir barnanna mæli eindregið með því að stefndu verði svipt forsjá þeirra og þau verði vistuð á heimili á vegum stefnanda, þar sem vel sé hlúð að þeim og réttur þeirra til viðunandi uppeldis og umönnunar er tryggður.

Með vísan til alls þess sem að framan er ritað, meginreglna í barnaverndarrétti, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga, og gagna málsins geri stefnandi þá kröfu að K og M verði svipt forsjá dætra sinna, B og C, sbr. d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, enda muni önnur og vægari úrræði ekki skila tilætluðum árangri.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndu krefjast þess að öllum kröfum stefnanda verði hafnað. Þá krefjast þau málskostnaðar úr hendi stefndu eins og málið væri eigi gjafsóknarmál. Í greinargerð stefndu kemur fram að þau búi í rúmgóðu raðhúsi við góðar aðstæður fyrir börnin í [...]. Við aðalmeðferð málsins upplýstist að stefndu höfðu misst það húsnæði nú í sumar og búi hjá vinum á [...] í [...]. Það húsnæði sé til bráðabirgða og ekki möguleiki að hafa börn þar. Stefndu segja skýringar á því að hafa ekki rækt umgengni við dætur sínar eftir að þær fóru í fóstur, þær að um langan veg hafi verið að fara, bifreið þeirra hafi oft bilað og K ekki treyst sér til að nýta almenningsfarartæki þar sem hún verði veik í slíkum farartækjum og fjárhagur þeirra leyfi ekki leigubíl svo langa leið. Þá segjast stefndu hafa verið samvinnufús. Stefnandi hafi óskað eftir að þau skrifuðu undir svokallaða „áætlun um meðferð máls“ þann 27. september sl. Stefndu hafi í fyrstu verið ósátt við nokkur atriði í áætluninni en síðan skrifað undir hana og skilað til skrifstofu [...] í byrjun október sl. Stefndu hafi fylgt ákvæðum samningsins og sótt t.a.m. námskeið um foreldrahæfni og þegið viðtöl hjá sálfræðingi. Auk þessa hafi þau heimilað eftirlit á heimili sínu. Nokkurt bakslag hafi þó komið í samstarfsvilja stefndu eftir að þeim var tilkynnt á fundi þann 10. nóvember sl. að starfsmaður I myndi leggja tillögu um forsjársviptingu fyrir fund barnaverndarnefndar en sú tilkynning hafi verið stefndu mikil vonbrigði. Barnaverndarnefnd hafi samþykkti í framhaldi að fara fram á forsjársviptingu og er mál þetta rekið í framhaldi af því. Stefnda neitar að hafa hótað fósturmæðrum barnanna sl. sumar. Þá hafi stefndu sótt SOS-námskeið sem þeim hafi staðið til boða. Þau hafi því fylgt meðferðaráætluninni sem þau undirrituðu í október sl. þótt einhverjir hnökrar hafi verið þar á.

Stefndu byggja á því að börnunum sé fyrir bestu að stefndu fari áfram með forsjá barnanna, enda séu þau foreldrar þeirra og til þess hæf ef þau njóta nokkurrar aðstoðar við umönnun barnanna frá barnaverndaryfirvöldum. Stefndu telji mikilvægt að börnin fái að alast upp með fjölskyldu sinni og ættingjum. Stefndu hafi alið börnin upp frá fæðingu þeirra uns þau voru vistuð utan heimilis fyrir nokkrum mánuðum og séu börnin tengd foreldrum sínum. Stefndu telji sig fær um að annast um börnin þó að þau geri sér einnig grein fyrir að þau þurfi stuðning og kennslu vegna margra hluta. Fái börnin að koma aftur inn á heimili stefndu standi þeim til boða slík aðstoð frá [...] og barnaverndaryfirvöldum þar.

Markmið barnaverndarlaga sé að tryggja að börn sem búi við aðstæður sem taldar séu geta stofnað heilsu þeirra eða þroska í hættu skuli fá nauðsynlega aðstoð. Leitast skuli við að ná þeim markmiðum með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu. Stefndu telji að ekki hafi verið sýnt fram á annað en unnt sé að ná fram þessu markmiði með þeim hætti að styðja við fjölskylduna með þeim úrræðum sem tæk eru. Um sé að ræða ung börn en ekkert hafi komið fram í gögnum málsins sem bendi til annars en að það sé vilji og ósk barnanna að eiga heimili hjá stefndu. Barnaverndaryfirvöldum beri ávallt að beita vægustu úrræðum til að ná fram markmiðum barnaverndarlaga og einungis skuli beita íþyngjandi ráðstöfunum ef lögmætum markmiðum laganna verður ekki náð með öðru og vægara móti. Stefndu hafi sýnt fram á batnandi samvinnu við barnaverndaryfirvöld og að þau séu nú tilbúin til að þiggja veitta aðstoð og verði því að telja það í samræmi við markmið laganna að börnin verði áfram í forsjá stefndu. Verður að telja það íþyngjandi ráðstöfun miðað við aðstæður og samstarfsvilja stefndu ef þau verði svipt forsjá barnanna.

Þá segja stefndu að fram komi í þeim foreldrahæfnismötum sem gerð hafi verið að stefndu þurfi þó nokkra aðstoð og stuðning við uppeldi og daglega umönnun barnanna. Þannig segi U í áliti sínu frá byrjun árs 2010, „... án mikillar utanaðkomandi aðstoðar verði verkefnið að ala upp barn eða börn og koma til þroska þessum ungu hjónum ofviða.“ Stefndu hafi gert sér ljóst að þeim sé nauðsynlegt að njóta aðstoðar við uppeldið til lengri tíma litið og séu tilbúin til að þiggja þá aðstoð sem í boði sé. Börnin muni að sjálfsögðu sækja leikskóla og skóla og fá með þeim hætti mikinn hluta þeirrar örvunar sem þeim sé nauðsynlegur en að öðru leyti sé unnt að veita foreldrunum stuðning og jafnframt eftirlit inn á heimilið eftir þörfum. Nú þegar sé slíkt eftirlit hafið af hálfu starfsmanns [...] þótt börnin séu enn vistuð utan heimils. Stefnandi hafi veitt stefndu aðstoð á meðan þau voru búsett á [...] en foreldrarnir hafi flutt til [...] sl. sumar. Verði að telja að ef þau geti alið upp börnin á heimili sínu á einum stað geti slíkt fyrirkomulag einnig gengið upp á öðrum stað. Stefndu hafi nú komið sér fyrir í góðri íbúð og hafi að því leyti góðar aðstæður til að taka við börnunum. Þau séu í umdæmi annarrar barnaverndarnefndar, en ekki verði annað séð en barnaverndarnefnd [...] geti veitt sambærilegan stuðning og gert hafi verið í [...], að minnsta kosti sé ekki ástæða til annars en láta reyna á það.

Þá segja stefndu að ljóst sé að þau hafi á tímabilum vantreyst starfsmönnum barnaverndarnefndar og ekki hlýtt fyrirmælum þeirra í einu og öllu. Stefndu séu frekar fljót að taka gagnrýni á neikvæðan hátt og verði að taka tillit til örorku þeirra í því sambandi. Verði því að stíga varlega til jarðar í samskiptum við þau og hugsanlega fá nýjan aðila að starfinu ef þeim sinnist við þá sem sinna eftirliti og slíku. Slík vandkvæði séu þó á engan hátt óyfirstíganleg og með aukinni reynslu starfsmanna barnaverndarnefndar af samstarfi við þau ættu slíkir árekstrar að verða sjaldgæfari. Stefndu séu bæði öryrkjar og þurfi að framfleyta sér af þeim bótum sem þau fái. Erfitt geti reynst að láta peningana duga út mánuðinn en það sé vandamál sem margar fjölskyldur á Íslandi eigi við að stríða þessa mánuðina.

Að lokum mótmæla stefndu því að það sé nauðsynlegt að hafa eftirlit á heimili stefndu allan sólarhringinn til þess að tryggja almennt öryggi barnanna eins og fram komi í niðurstöðu A. Ekkert hafi komið fram sem bendi til að börnunum stafi hætta af því að vera ein með stefndu. Stefndu hafi haldið heimilið sjálf um langan tíma og séu fullfær um að sinna einföldum heimilisstöfum og geti ennfremur sinnt umönnun barnanna upp að ákveðnu marki án utanaðkomandi aðstoðar, eins og verið hafði áður en börnin voru vistuð utan heimilis. 

Markmið barnaverndarlaga sé að tryggja að börn sem búi við aðstæður sem taldar eru geta stofnað heilsu þeirra eða þroska í hættu skuli fá nauðsynlega aðstoð. Leitast skuli við að ná þeim markmiðum með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu.  Barnaverndaryfirvöldum beri ávallt að beita vægustu úrræðum til að ná fram markmiðum barnaverndarlaga og einungis skuli beita íþyngjandi ráðstöfunum ef lögmætum markmiðum laganna verði ekki náð með öðru og vægara móti. Forsjársvipting sé alvarlegt inngrip og verði slík krafa ekki tekin til greina nema ríkar ástæður liggi þar að baki, enda sé hverju barni eðlilegt að alast upp hjá eigin foreldrum.

Stefndu vísa til barnaverndarlaga nr. 80/2002, sérstaklega til 2. gr., 4. gr., 2. mgr. 12. gr. og 47. gr. laganna. Varðandi málskostnaðarkröfu stefndu er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en stefndu skulu njóta gjafsóknar skv. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Forsendur og niðurstöður.

Í máli þessu er þess krafist að stefndu, K og M verði svipt forsjá dætra sinna, B og C. Er hér um að ræða foreldra sem báðir eru þroskaskertir að nokkru leyti, þó maðurinn sýnu meira en konan.

Í kaflanum málsatvik og aðdragandi máls er afskiptum barnaverndaryfirvalda af stefndu lýst og samskiptum þeirra. Af gögnum málsins liggur fyrir að allt frá því að stefnda K gekk með eldri telpuna, B, hafa barnaverndaryfirvöld haft áhyggjur af getu stefndu til að sinna ungbarni og ala upp þannig að öryggi og hagsmunum barnsins sé gætt í hvívetna. Ekki verður annað séð af gögnum málsins, sem er óþarft að rekja aftur í þessum kafla, en að stefndu hafi staðið til boða öll þau úrræði sem barnaverndarlög kveða á um allt frá því að stefnda K gekk með eldri stelpuna. Þeim hefur staðið til boða aukið ungbarnaeftirlit, aðstoð inni á heimili þeirra til að sinna nauðsynlegustu grunnþörfum barnanna, stuðningsfjölskyldur til að létta undir með þeim, sálfræðiaðstoð, fjármálaráðgjöf og fjárhagsaðstoð og leiðbeiningar í hvers kyns málefnum sem stefndu hafa þurft á að halda. Stefndu hafa hins vegar, meira og minna, verið mótfallin afskiptum barnaverndaryfirvalda og verið óráðþæg og ósamvinnuþýð. Þá hafa þau ekki sinnt dætrum sínum svo viðunandi sé, eða farið að ráðleggingum hjúkrunarfólks og lækna með lyfjagjöf, og K ákveðið sjálf hvort börn hennar hafi þörf fyrir ávísuð lyf eða ekki. Börnin hafa borið merki um vanþrif og vanrækslu varðandi örvun og þroska. Þá var leikskólapláss, sem B hafði fengið í ágúst 2009, ekki nýtt fyrr en í október það ár. Var auk þess leikskólaganga B afar gloppótt. Þá, með því einu og sér að sinna ekki fyrirmælum lækna og hjúkrunarfólks, eins og að ofan hefur verið rakið, stofna þau heilsu barna sinna í hættu. 

Þá liggja fyrir þrjú sálfræði- og forsjárhæfnismöt þar sem kemur fram að forsjárhæfni stefndu sé verulega ábótavant. Það sé ljóst að án mikillar utanaðkomandi aðstoðar verði það verkefni að ala upp börn og koma til þroska stefndu ofviða. Í mati U kemur fram að flytji stefndu frá [...] rofni allar forsendur fyrir því að stefndu sé mögulegt að ala önn fyrir dætrum sínum. Þannig sé alger samvinna af hálfu stefndu við félagsmálayfirvöld lykilforsenda fyrir því að börnin geti verið á heimili stefndu.

Stefnda K kom fyrir dóminn og lýsti verkaskiptingu þeirra hjóna á heimilinu og í uppeldinu og sýn hennar á uppeldi dætranna. Kvað stefnda K sér hafa verið farið að líða illa á [...], aðallega vegna getnaðarvarnastauks sem settur hafi verið í handlegg hennar. Það hafi þýtt að henni leið illa innan um fólk en hafi verið þvinguð til samskipta við annað fólk. Aðspurð um forgangsröðun á fjármunum, kvað K að fyrst og fremst yrði keyptur matur og séð til þess að börnin fengju alltaf nægan mat, síðan rafmagn og hita og síðan yrði að sjá til hvað yrði afgangs. K kvaðst vera með hund á heimilinu og þrjá ketti en ekkert mál væri að losa sig við dýrin ef nauðsyn bæri til. Aðspurð um áfengisneyslu sína kvaðst K sjaldan fá sér áfengi í dag, nema eitthvað sérstakt stæði til, matarboð, einu sinni til tvisvar í mánuði, og stundum ef henni liði illa, þá fengi hún sér kannski sex bjóra eða minna. Þá hafi hún ekið undir áhrifum áfengis á sínum tíma í þeim tilgangi að láta svipta sig ökuprófi, því þá væru meiri möguleikar á að umgengni við dæturnar færi fram á heimili stefndu. Aðspurð kvað stefnda allt í lagi að manneskja kæmi inn á heimilið og hjálpaði henni við húsverkin og keyrði stelpurnar í leikskóla. Stefnda K kvaðst vera tilbúin til að gera allt það sem í hennar valdi stæði til að fá börnin heim aftur, hún væri tilbúin til samstarfs við barnaverndaryfirvöld og að hafa tilsjónarmann inni á heimilinu, ganga til sálfræðings eða annað, bara til að geta haldið dætrunum. Stefnda gaf þá skýringu að hún hefði ekki farið með K á leikskólann á [...] vegna þess að henni hefði liðið ill þar, allir hefðu horft á hana og henni fundist talað um sig. Þá kvað hún tilsjónarmenn á [...] hafa vaðið of mikið yfir sig og því hefði hún verið ósátt við þá. Aðspurð hvers vegna þau hafi nú flutt frá [...], kvað K þau ekki hafa haft efni á húsaleigunni auk þess sem henni hafi liðið orðið illa þar. Aðspurð fyrir dóminum um það hvaða aðstoð hún þyrfti á að halda ef hún fengi stúlkurnar, kvaðst hún ætla til sálfræðings, henni hafi liðið illa sl. ár, og fara eftir leiðbeiningum hans. Þá hafi hún ekki fengið rétta aðstoð fram að þessu til liðsinnis við sig, en það væri allt í lagi að fá aðstoð inn á heimilið. Seinna þegar stúlkurnar færu í skóla og eltust, þá myndi hún hringja í aðstandendur og leita ráðlegginga. Aðspurð um matsgerðirnar sem liggja frammi í málinu kvað K umfjöllun um skapsveiflur hennar ekki vera réttar.

Þrátt fyrir yfirlýstan vilja stefndu núna, þá sýnir forsaga málsins að stefndu hafa ekki á fyrri stigum staðið við samkomulag eða yfirlýsingar sem þau hafa gefið til að getað haldið heimili fyrir dætur sínar. Þau hafa ítrekað ekki hleypt tilsjónarmanni inn á heimilið, ekki opnað, ekki svarað dyrabjöllu eða verið að heiman þegar þau hafi átt von á tilsjónarmanni til sín. Þá gátu stefndu, aðspurð fyrir dóminum, ekki, svo vel sé, skýrt út hvernig þau sjái framtíð dætra sinna í sinni umsjá, nema að þykja vænt um þær, aga þær og leika við þær. Þá er ljóst að stefndu hafa enga innsýn í vandamál sín. Tvívegis hefur stefndu mislíkað afskipti af dýrahaldi á heimili þeirra og flust búferlum vegna þess. Í dag segja þau það ekkert mál að losa sig við dýrin. Stefndu misstu húsnæði það sem þau höfðu í [...] vegna vanskila. Þau upplýstu ekki matsmann, sem kom á heimili þeirra, um þá stöðu sína. Það var fyrst fyrir dóminum að þau upplýstu að þau væru í húsnæðishraki en ein málsástæða stefndu er að þau hafi viðunandi húsnæði fyrir fjölskylduna. Þó svo að reynt hafi verið að styðja stefndu í því að nýta sér úrræði og aðstoð frá félagsmálayfirvöldum undir rekstri málsins, í þeim tilgangi að þau fái dætur sínar aftur til sín, hafa stefndu ekki farið að ráðum barnaverndaryfirvalda varðandi drykkju, dýrahald á heimilinu, tilsjón og ráðgjöf. Þá hafa stefndu ekki haft dug í sér eða getu til að sinna umgengni við dætur sínar, fyrst vikulega og síðan hálfsmánaðarlega, eftir að þær fóru í fóstur sumarið 2010. Á tímabili nýttu þau sér fimm og hálfa klukkustund af þrjátíu og sex mögulegum í umgengni. Þá hafa samskipti þeirra við fósturmæður stelpnanna verið brösug.

W sálfræðingur kom fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína. Kvað hann stefnda M hafa verið ljúfan og samvinnuþýðan við gerð matsins en geta hans við vinnslu matsins hafi mótast af greind hans en hann sé þroskaheftur. Þau próf sem hafi verið lögð fyrir hann geri ráð fyrir nokkuð hærri greind og niðurstöður hafi ekki verið marktækar. Hann hafi verið ákaflega tilþrifalítill og frásagnalítill um sjálfan sig og um sínar aðstæður. Stefnda K hafi verið margbreytilegri í viðmóti og skapi. Í upphafi hafi hún verið glöð í bragði en þegar á leið hafi hún orðið reið og frábrugðin matinu og oft hafi ekki verið hægt að ná til þeirra. Ef hann hafi náð til M hafi hann borið því við að K vilji ekki tala við hann eða vilji þetta eða hitt. Þá hafi þau verið skítug og vond lykt af þeim. Þau hafi ekki látið vita ef þau mættu ekki í boðaða tíma. Þá hafi þau ekki verið heima þegar hann kom á heimili þeirra en sá tími hafi verið ákveðinn af stefndu. Þá hafi hann komið síðar og enginn svarað. Aðkoman í þessi skipti að heimili þeirra hafi verið fráhrindandi, full illa lyktandi ruslatunna við innganginn, skítugir gluggar og allt á rúi og stúi í forstofunni. Eftir að hann skilaði matinu þá hafi hann náð sambandi við stefndu og hann farið á heimili þeirra. Þá hafi verið búið að taka heimilið í gegn. Aðspurður hvað hann teldi einkenna vanhæfni stefndu sem foreldra kvað hann vanrækslu, örvunarleysi, lítið innsæi og skilningsleysi stefndu á þörfum barnanna einkenna þau, forystuleysi, úrræðaleysi, hættu á vanörvun og almennt getuleysi til að halda utan um börnin einkenna þau. Verulegar brotalamir í aðbúnaði, uppeldi og allri umönnun á börnunum hafi verið hjá stefndu. Þá hafi stefndu ekkert stuðningsnet í kringum sig, sem geti hjálpað þeim eða stutt í foreldrahlutverkinu. Aðspurður um forsjárhæfni stefndu kvað W, að teknu tilliti til fyrri forsjárhæfnismata og af viðtölum hans við stefndu, stefndu hafa mjög skerta hæfni sem foreldrar.

Markmið barnaverndarlaga er að tryggja að börn sem búa við aðstæður sem taldar eru geta stofnað heilsu þeirra eða þroska í hættu skuli fá nauðsynlega aðstoð. Leitast skal við að ná þeim markmiðum með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu.  Barnaverndaryfirvöldum ber ávallt að beita vægustu úrræðum til að ná fram markmiðum barnaverndarlaga og einungis skal beita íþyngjandi ráðstöfunum ef lögmætum markmiðum laganna verði ekki náð með öðru og vægara móti. Forsjársvipting er alvarlegt inngrip og verður slík krafa ekki tekin til greina nema ríkar ástæður liggi þar að baki, enda er hverju barni eðlilegt að alast upp hjá eigin foreldrum.

Það er mat dómsins, og annað verður ekki séð af gögnum málsins, að þau úrræði sem barnaverndaryfirvöld ráða yfir, hafi verið reynd til þrautar en ekki komið að gagni fyrir stefndu þar sem þau hafa hafnað samstarfi, allavega frá því í byrjun árs 2010. Hefur meðalhófsreglunnar verið gætt í hvívetna af hálfu stefnanda og ítrekað reynt að beita vægustu úrræðum fyrir stefndu og börnin áður en til þess kom að setja börnin í fóstur. Þrátt fyrir yfirlýsingar stefndu í dag um að þau muni taka sig á, fái þau stelpurnar aftur til sín, telur dómurinn það fullreynt að stefndu nýti sér eða þiggi þá aðstoð og tilsjón sem þeim er nauðsynleg til að sinna foreldrahlutverki sínu og tryggja börnunum viðunandi aðstæður, haldi þau forsjá barnanna. Þá liggur fyrir að stefndu eru þroskaheft og hafa ekki innsýn í getuleysi sitt til að sinna uppeldi barna og ekki verður séð að þau muni frekar í dag og í framtíðinni þiggja þá aðstoð sem þeim er nauðsynleg til að geta alið önn fyrir börnun sínum.

Að framansögðu virtu er það niðurstaða dómsins að það þjóni hagsmunum B og C best að stefnanda verði falin forsjá þeirra.

Stefndu hafa fengið gjafsókn í máli þessu. Stefnandi gerir ekki kröfu um greiðslu málskostnaðar í málinu. Skal málskostnaður því felldur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Feldísar L. Óskarsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 727.900 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Dóm þennan kveða upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari og meðdómsmennirnir Oddi Erlingsson og Þorgeir Magnússon sálfræðingar.

Dómsorð:

Stefndu, K og M, eru svipt forsjá dætra sinna, B, kt. [...], og C, kt. [...].

Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns stefndu, Feldísar L. Óskarsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 727.900 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.