Hæstiréttur íslands

Mál nr. 57/2005


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Ávana- og fíkniefni
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. september 2005.

Nr. 57/2005.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Guðmundi Matthíasi Guðmannssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Líkamsárás. Ávana- og fíkniefni. Sératkvæði.

G var sakfelldur í héraðsdómi fyrir líkamsárás og kaup á fíkniefnum. Við ákvörðun refsingar var vísað til 77. gr. almennra hegningarlaga og hann dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Fyrir Hæstarétti krafðist hann sýknu af líkamsárásinni. Með vísan til forsendna héraðsdóms og til 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var héraðsdómur staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. febrúar 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst sýknu af ákærulið 1 í I. kafla ákæru 16. mars 2004 og að refsing verði að öðru leyti milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun sem ákveðst að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að því er varðar refsingu ákærða, Guðmundar Matthíasar Guðmannssonar.

Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, 507.640 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði og fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 410.850 krónur.

 

                                                                  


Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Ég er sammála meirihlutanum um annað en ákvörðun vararefsingar vegna sektar ákærða.

Í 4. mgr. 54. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er kveðið svo á að sekt sem ekki sé ákveðin af dómstólum og sakborningur hefur skriflega gengist undir hjá lögreglustjóra skuli afplánast með fangelsi samkvæmt töflu, þannig að tilgreindur dagafjöldi kemur fyrir tilgreindar fjárhæðir sekta. Eftir að héraðsdómur gekk var þessu lagaákvæði breytt með 1. gr. laga nr. 21/2005, og er nú svo ákveðið að sektir að fjárhæð 30.000 – 59.999 krónur skuli afplánast með 4 daga vararefsingu. Ákærði gerir með vísan til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 19/1940 kröfu um að vararefsing sektarinnar samkvæmt héraðsdómi, verði sektin staðfest, taki mið af þessari lagabreytingu og verði því 4 dagar í stað 5, sem þar var kveðið á um.

          Þrátt fyrir að nefnd lagaregla eigi samkvæmt orðum sínum ekki við um ákvarðanir dómstóla um vararefsingar sekta, þykir rétt vegna sjónarmiða um jafnrétti borgara fyrir lögum að beita ekki við dómsúrlausnir þyngri vararefsingum en taflan kveður á um, nema sýnt sé fram á að sérstök sjónarmið réttlæti slíkt. Með því að ekki eru nein slík sjónarmið uppi í þessu máli verður fallist á kröfu ákærða að þessu leyti. Tel ég að staðfesta beri refsiákvörðun héraðsdóms með breytingu að því er þetta varðar.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 16. desember 2004.

Mál þetta, sem var dómtekið 21. október sl., höfðaði sýslumaðurinn á Ísafirði 16. mars sl. með ákæru á hendur Guðmundi Matthíasi Guðmannssyni, [...], Suðurtanga 2, Ísafirði, X, Y, Z og Æ.  Málið var upphaflega höfðað gegn fleiri mönnum, en þættir þeirra hafa verið skildir frá undir rekstri þess og dæmdir sér í lagi.

Ákæran er svohljóðandi að því er varðar framangreinda ákærðu:

„I.

1.                (Mál nr. 18-2003-242)

Gegn ákærða Guðmundi Matthíasi fyrir líkamsárás og hótanir, með því að hafa föstudagskvöldið 4. apríl 2003 í bifreiðinni [...], veist að A í aftursæti bifreiðarinnar og hrist hana og slegið ítrekað í öxl hennar þegar bifreiðin var á ferð sem leið lá út Hafnarstætið og upp Pollgötu, hótað henni og fjölskyldu hennar lífláti og fylgt því eftir með ógnandi tilburðum og loks hrint A út úr bifreiðinni sem þá var á um það bil 10 km ferð við hringtorgið að gatnamótum Pollgötu og Hafnarstrætis á Ísafirði, með þeim afleiðingum að hún tognaði í baki, marðist lítillega á framhandlegg og bólgnaði yfir vinstra kinnbeini.

Telst þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 110. gr. laga nr. 82/1998 og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 125. gr. laga nr. 82/1998.

2.

Gegn ákærða X fyrir að liðsinna meðákærða Guðmundi Matthíasi við líkamsárás og hótanir, með því að aka bifreiðinni [...] á meðan á árás og hótunum stóð og verða ekki við ítrekuðum beiðnum A um að henni yrði hleypt út úr bifreiðinni og með því að hafa ekki numið staðar eftir að honum var ljóst að hún hafði fallið úr bifreiðinni né kannað ástand hennar.

 

Telst þetta varða við 217. og 233. gr. sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 10. gr. sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 186. gr. laga nr. 82/1998.

II.

(Mál nr. 18-2003-235)

gegn ákærða X fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 2. apríl 2003, ekið bifreiðinni [...] í Tungudalslegg Vestfjarðaganga í vesturátt á 117 km hraða á klukkustund, þar sem leyfður hámarkshraði var 60 km á klst.

Telst þetta varða við 2. mgr. sbr. 4. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 186. gr. laga nr. 82/1998.

III.

(Mál nr. 18-2003-333)

Gegn ákærða X fyrir að hafa aðfaranótt sunnudagsins 11. maí 2003, haft í vörslum sínum allt að einu grammi af hassi en lögreglumenn fundu leifar efnisins við leit undir ökumannssæti bifreiðarinnar [...] eftir að hafa haft afskipti af honum í porti við HV-heildverslun við Suðurgötu 9, Ísafirði.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

IV.

1.                                         (Mál nr. 18-2003-479)

Gegn ákærða X fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 13. júní 2003 á Brú í Hrútafirði tekið á móti allt að 43 grömmum af hassi til eigin nota, haft þau í vörslum sínum og falið þau undir mælaborði bifreiðarinnar [...] í þeim tilgangi að flytja þau til Ísafjarðar en lögregla lagði hald á afgang efnisins, alls 41,94 grömm við leit í bifreiðinni þann 14. júní 2003.

2. /---/

Telst háttsemin skv. ofangreindum 2 töluliðum varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

V.

1.                                                        (Mál nr. 18-2003-474)

 /---/

6.

Gegn ákærða Y, fyrir fíkniefnalagabrot, þ.e. fyrir hlutdeild í ofangreindu broti skv. 1. og 3. tölulið V. kafla ákærunnar með þátttöku í að koma á kaupum meðákærðu K og H á 100 grömmum af hassi af óþekktum aðila í Reykjavík þann 8. júní 2003.

7.

Gegn ákærða X, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa keypt allt að 15 grömm af hassi af ákærða K, til eigin neyslu, á Ísafirði skömmu fyrir 11. júní 2003.

8.

Gegn ákærða Guðmundi Matthíasi Guðmannssyni, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa keypt allt að 9 grömm af hassi af ákærða K, til eigin neyslu, á Ísafirði þann 11. júní 2003.

/---/

10.

Gegn ákærða Æ, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa keypt allt að 8 grömm af hassi af ákærða K, til eigin neyslu, á Ísafirði á tímabili nokkru fyrir 11. júní 2003.

11.

Gegn ákærða Z, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa keypt allt að 40 grömm af hassi af ákærða K, á Ísafirði nokkru fyrir 11. júní 2003.

/---/

Telst háttsemin skv. ofangreindum 12 töluliðum varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13, 1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlits­skyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002, sbr. þó  22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hvað varðar töluliði 4 og 6.

/---/

VII.

(Mál nr. 18-2003-151)

1.

Gegn ákærða Y, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa þann 21. febrúar 2003 keypt allt að 85 grömm af hassi og 13 grömm af amfetamíni af óþekktum aðila í Reykjavík, haft þau í vörslu sinni í bifreiðinni [...] til Ísafjarðar, neytt hluta þeirra á leiðinni en hluti þessara efna fannst í vörslum ákærða á dvalarstað hans að [...], þann 27. febrúar 2003 og var haldlagður, alls 69,58 grömm af hassi.

/---/

3.

Gegn ákærða Y, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa skömmu eftir 21. febrúar 2003 selt meðákærða Z, allt að 10 grömm af hassi á Ísafirði.

4.

Gegn ákærða Z fyrir að hafa skömmu eftir 21. febrúar 2003 keypt allt að 10 grömm af hassi af meðákærða Y á Ísafirði.

Telst háttsemin skv. þessum kafla ákæru varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

VIII.

(Mál nr. 18-2003-893)

1.

Gegn ákærðu G og Æ, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 19. september 2003, keypt allt að 90 grömm af hassi af óþekktum aðila í Reykjavík, ekið með það í bifreiðinni [...] til Ísafjarðar,  neytt hluta þess á leiðinni, en falið það sem eftir stóð í sætisbaki bifreiðarinnar, þar sem lögregla fann það og haldlagði við leit þann 20. september 2003, alls 87,47 grömm af hassi.

/---/

Telst háttsemin skv. tölulið 1 varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002

/---/

IX.

(Mál nr. 18-2003-878)

Gegn ákærða Æ, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 17. júní keypt allt að 2 grömm af marhiuana af óþekktum sölumanni í Reykjavík, ekið með það í bifreiðinni [...] áleiðis til Ísafjarðar, neytt hluta fíkniefnanna á leiðinni en haft afgang þess 0.38 grömm af marihuana og 0,05 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni í vörslum sínum þegar að lögregla stöðvaði för hans við Fossá á Barðaströnd og lagði hald á efnið og áhöld til fíkniefnaneyslu að kvöldi sama dags.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

X.

(Mál nr. 18-2003-955)

1.

Gegn ákærða Æ, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 26. september sl. keypt 100 grömm af hassi, ætlað til endursölu í hagnaðarskyni, af óþekktum söluaðila í Reykjavík og komið með efnið til Ísafjarðar í bifreið sem ekið var af ákærða Á, skorið það niður í sölueiningar í félagi við ákærða G og síðan fengið ákærða H til að selja efnið á tímabilinu frá 27. september 2003 til 7. október 2003 gegn greiðslu í formi fíkniefna og fyrir að hafa haft í vörslum sínum hluta ofangreinds efnis, þ.e. 3,04 grömm af hassi og 0,46 grömm af tóbaksblönduðu hassi sem ákærði var eigandi að og lögregla fann og haldlagði við húsleit að Pólgötu 4 þann 7. október 2003, þar sem fyrir voru ákærði ásamt meðákærðu G og H

/---/

7.

Gegn ákærða X, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 6. október 2003, keypt 2 grömm af hassi af ákærða H.

Telst háttsemin skv. þessum kafla ákæru varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlits­skyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 en skv. tölulið 2 og 4 við sömu lagaákvæði sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

XI.

Mál nr. 18-2003-109)

Gegn ákærða Y, til þess að sæta upptöku, skv. 2. mgr. 1. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, á Wave Leatherman hníf, eign ákærða sem haldlagður var við fíkniefnaleit í bifreiðinni [...] sem ekið var af ákærða, en hnífur þessi svaraði ODV kanabisprófi og hefur verið notaður til ólög­mætrar meðferðar fíkniefna.

Þess er krafist að:

a)

ákærðu verði dæmdir til refsingar í samræmi við refsiákvæði skv. tilgreiningum hvers kafla ákærunnar.

b)

að ákærði X verði auk annara refsinga dæmdur til sviptingar ökuréttar skv. II. kafla ákæru skv. 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.  Jafnframt er þess krafist að ákærði X fái punkta skv. 7. gr. sbr. viðauka reglugerðar nr. 431/1998 um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota fyrir brot sitt, sbr. 2. mgr. 101. gr. umferðarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 57/1997, og 8. gr. sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 431/1998 vegna uppsafnaðra punkta.

c)

að hin haldlögðu fíkniefni skv. III., IV., V., VI., VII., VIII., IX., og X. kafla ákæru verði gerð upptæk, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

d)

að haldlagðir peningar þ.e. söluandvirði fíkniefna skv. V. kafla ákæru alls kr. 120.000,- og skv. X. kafla ákæru alls kr. 108.000,- verði gert upptækt til ríkissjóðs, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

e)

að ákærði Y verði dæmdur til að sæta upptöku á Wave Leatherman hníf, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.“

             Með ákæru dagsettri 14. júlí sl. höfðaði sami sýslumaður nýtt mál á hendur ákærða Guðmundi Matthíasi, (mál nr. 18-2004-00136),

             „fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 7. mars 2004, inni á baðherbergi í íbúð að [...], slegið B með krepptum hnefa í hægra auga, hrint henni þannig að hún rakst utan í hurðarkarm og féll fram á gang og því næst sparkað í hana, allt með þeim afleiðingum að nefnd B hlaut mar og bólgu yfir hægra kinnbeini, eymsli hægra megin á enni, þreifieymsli við nærenda framhandleggjar vinstra megin og þreifieymsli í hryggvöðva frá vinstra herðablaði upp að hálsi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Í málinu gerir B kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu bóta að fjárhæð 167.310 krónur, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 7. mars 2004 til 8. júlí sama ár, en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“

Málið var sameinað þessu að ákvörðun dómara.

Með ákæru dagsettri 30. september sl. höfðaði sami sýslumaður nýtt mál gegn ákærða X, (mál nr. 18-2004-455),

„fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 27. júní 2004 ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,68‰) og með tvo farþega í farangursgeymslu bifreiðarinnar, frá Túngötu norður Fjarðarstræti til móts við Íshúsfélag Ísfirðinga, þar sem lögregla hafði afskipti af honum.

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 2. mgr. 73. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993 og nr. 23/1998.“

Málið var sameinað þessu að ákvörðun dómara.

I. 1.

Ákærðu neita báðir sakargiftum í I. kafla ákæru dagsettrar 16. mars sl.

A, kom á lögreglustöð þann 4. apríl 2003 klukkan 17:43.  Samkvæmt frumskýrslu lögreglu skýrði hún svo frá að ákærði Guðmundur Matthías hefði komið til sín, þar sem hún var stödd á Pizza 67 við Hafnarstræti hér í bæ.  Hún hefði að beiðni hans farið með honum út í bifreið, sem meðákærði X ók.  Er ökuferðin hófst hefði ákærði byrjað erindi sitt, með því að taka í hana og hrista hana og hóta henni að ráðast á og drepa ættingja hennar, léti hún ekki af kæru gegn C, unnustu ákærða.  Hefði hann sakað sig með röngu um að bera það út um þau C að þau neyttu fíkniefna og hafa kallað C nánar greindu ónefni.  Hún hefði beðið meðákærða að hjálpa sér og stöðva bifreiðina en hann hvorugu sinnt. Ákærði hefði opnað afturhurð bifreiðarinnar og gert sig líklegan til að hrinda henni út, kippt henni inn aftur, en síðan hrint henni út svo hún lenti illa á götunni.  Þá hefði hún verið stödd á hringtorgi sem er á mótum Pollgötu, Skutuls­fjarðar­brautar o.fl. gatna.  Ákærðu hefðu ekið á brott, en vegfarandi aðstoðað hana og ekið henni að Pizza 67, þaðan sem hún fór til lögreglu.

Framburðarskýrsla var tekin af A fyrir lögreglu klukkan 20:58 sama dag.  Þá lýsti hún atvikum svo um það hvernig hún lenti út úr bifreiðinni að er hún var stöðvuð vegna biðskyldu við hringtorgið, hefði hún opnað hurð hennar og ætlað að stíga út, en ákærði Guðmundur Matthías haldið í hana og hindrað hana í því.  Er bifreiðin hafi verið komin af stað hafi hann skyndilega opnað hurðina og kastað henni út.

Samkvæmt vottorði Ólafs Sigmundssonar læknis leitaði A til hans 7. apríl 2003.  Hún kvartaði yfir eymslum í hálsi og baki og einnig undan eymslum í báðum upphandleggjum.  Við skoðun var hún með lítinn marblett á hægri fram­hand­legg, um 2 cm í þvermál, lítilsháttar bólgu yfir vinstra kinnbeini en ekkert mar.  Hún hafði eymsli við þreifingu yfir réttivöðvum hryggjar við brjósthrygg, en ágætis hreyfi­getu í hryggsúlu.  Segir síðan að hún hafi haft einkenni um tognun í baki og fengið ráð­leggingar.

I. 2.

A skýrði svo frá fyrir dómi að ákærði Guðmundur Matthías hafi komið og beðið hana að tala við sig.  Þau ákærði Guðmundur Matthías hafi sest aftur í bifreiðina sem ákærði X hafi ekið.  Ákærði Guðmundur Matthías hafi borið á hana að hafa kallað sig og unnustu sína tilteknum ónefnum og tuskað hana til.  Hann hafi hótað henni að hann myndi kála henni eða ganga frá henni og fjölskyldu hennar. Hún hafi beðið ákærða X um að stöðva, en hann hafi ekki sinnt því.  Ákærði Guðmundur Matthías hafi sagt honum að stöðva ekki.  Hún hafi opnað afturhurð til að reyna að komast út úr bifreiðinni er hún staðnæmdist við hringtorgið, en þá hafi ákærði Guðmundur Matthías tekið í hana og ekki leyft henni það, en er bifreiðin hafi farið af stað hafi hann ýtt henni út, þannig að hún hafi fallið út með höfuðið á undan.

Ákærði Guðmundur Matthías ber að hann hafi grunað A um að breiða út ósannar sögur um hann og unnustu hans og fengið hana í þessa ökuferð til að ræða það.  Hún hafi neitað að hafa borið út sögur af þessu tagi.  Hann hafi einu sinni tekið í öxl hennar í bifreiðinni, en ekki lagt hendur á hana.  Hún hafi sjálf farið út úr bifreiðinni á ferð.  Hann hafi tekið í öxl hennar og fót til að reyna að hindra hana í því en hún hefði komist út og þá líklega dottið. Ákærði neitar eindregið að hafa hrint A út úr bifreiðinni.  Ákærði neitar að hafa hótað A, nema þá þannig að hann myndi spilla mannorði hennar eins og hún hefði spillt mannorði hans.  Hann kveðst kannast við að hafa notað orðin að „ganga frá henni“ í þessu sambandi og þá átt við að hann myndi ganga frá mannorði hennar.

Ákærði X ber að A hafi sett annan fótinn út úr bifreiðinni meðan hún var kyrrstæð, er hann beið eftir færi til að aka inn á hringtorgið.  Hann hafi samt sem áður ekið af stað en þá hafi hún farið út.  Hann hafi séð að ekkert væri að henni og því haldið áfram.  A og meðákærði hafi verið að rífast í bifreiðinni út af kjaftasögum.  Þau hafi bæði setið í aftursæti bifreiðarinnar.  Hann kveðst ekki hafa séð meðákærða leggja hendur á A, nema að hann hafi tekið í höndina eða öxlina á henni er hún fór út.  A hafi beðið sig um að stöðva bifreiðina, er hann var að leggja af stað inn í hringtorgið.  Hann segist þó hafa hugsað sér að aka henni þangað sem ökuferðin hófst.  Hann segist hafa séð að hún datt er hún fór út úr bifreiðinni, en ekki talið ástæðu til að stöðva, þar sem hann hafi séð að allt væri í lagi með hana.  Hann segir meðákærða ekki hafa hótað A, nema eitthvað á þá leið að hann myndi skemma mannorð hennar eins og hún hefði skemmt mannorð hans. 

Vitnið D ber að hafa verið að aka að hringtorginu er hurð vinstra megin á bifreið á undan honum hafi opnast.  Bifreiðinni hafi verið ekið með opna hurðina svolítinn spöl, en síðan hafi hún staðnæmst augnablik og stúlka fallið út.  Auðséð hafi verið að hún hafi ekki farið sjálfviljug út.  Í framburði sínum fyrir lögreglu notaði ákærði það orðalag að hún hefði komið fljúgandi út og staðfesti þá lýsingu fyrir dómnum. Hún hafi lent á bakinu.  Hann hafi stöðvað og talað við hana.  Hún hafi verið grátandi og kvartað um eymsli í baki.  Hún hafi sagt að sér hefði verið hent út úr bifreiðinni.  Hann hafi að beiðni hennar ekið henni að Sjallanum og skilið þar við hana. 

Vitnið E kveðst hafa verið farþegi í framsæti bifreiðar, sem hafi verið að koma að hringtorginu, er hún hafi séð að stúlka kom fljúgandi út úr bifreið og veltist í götunni.  Önnur bifreið hafi stöðvað hjá henni og tekið hana upp í.  Aðspurð sagði hún bifreiðina hafa verið á hægri ferð er stúlkan kom út úr henni. 

Vitnið F kveðst hafa verið inni á Pizza 67 með A og fleiri stúlkum er ákærði Guðmundur Matthías kom og bað A að fara með sér.  Hún hafi síðan komið til baka grátandi og talað um bakmeiðsl.  Vitnið kveðst ekki hafa séð áverka á henni og gat þess að A hefði fyrir þennan tíma kvartað um bakeymsl.  Hún hafi sagt að ákærði Guðmundur Matthías hefði hent henni út úr bifreiðinni. 

Vitnið C, unnusta ákærða Guðmundar Matthíasar, staðfesti að hafa beðið hann um að ræða við A, vegna söguburðar sem hún hefði ekki verið sátt við.

Fyrir dóminn kom vitnið G og kvaðst hafa orðið vitni að orðaskiptum milli L, systur ákærða Guðmundar Matthíasar, og A.  L hafi þá borið það á A að bera rangar sakir á ákærða og A sagt að hún iðraðist og að hún myndi draga kæruna til baka.  Vitnið kvaðst síðan hafa leitt A frá.  Þá hafi hún sagt:  „Ég var sko að ljúga þessu öllu saman, ég var sko að ljúga, ég er ekki búin að taka kæruna til baka /.../.“

Vitnið H gaf skýrslu fyrir dómi um þetta og bar að A hafi komið að fyrra bragði til sín og sagt að hún væri í ástarsorg og reið við ákærða Guðmund Matthías.  Hún hafi sagt að hún ætlaði að draga kæru á hendur honum til baka.

Framburður G og L var borinn undir A.  Hún kannaðist við að H hefði rætt við sig að nóttu til, er báðar voru ölvaðar og G verið vitni að hluta að samtalinu.  Hún kveðst ekki hafa sagt að hún væri að bera rangar sakir á ákærða Guðmund Matthías, en H hafi sakað hana um það.  Þá hefði hún ekki sagt að hún ætlaði að draga kæruna til baka.

I.3.

Ákærði Guðmundur Matthías kannast við að hafa notað orðin „ganga frá“ við A, en segir það hafa verið í því samhengi að hann myndi spilla mannorði hennar.  Framburður meðákærða er á sama veg.  Gegn neitun beggja ákærðu verður ekki talið nægilega sannað með framburði A að ákærði Guðmundur Matthías hafi hótað A og fjölskyldu hennar lífláti.  Verða ákærðu því sýknaðir af sakargiftum um brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga.

A ber að ákærði Guðmundur Matthías hafi verið búinn að tuska hana til inni í bifreiðinni áður en að hringtorginu kom.  Gegn neitun beggja ákærðu verður ekki talið að nægilegar sönnur hafi verið færðar fram fyrir því.  Verður ákærði Guðmundur Matthías því sýknaður af sakargiftum um að hafa veist að A og hrist hana og slegið ítrekað í öxl hennar þegar bifreiðin var á ferð sem leið lá út Hafnarstræti og upp Pollgötu og meðákærði jafnharðan sýknaður af því að hafa átt hlutdeild í því.

Samkvæmt framburði A opnaði hún afturhurð bifreiðarinnar er hún staðnæmdist vegna biðskyldu á mótum hringtorgsins og Pollgötu og ætlaði að stíga út en ákærði Guðmundur Matthías hindraði hana þá í því.  Ákærði X kveður A hafa opnað hurðina og ætlað að stíga út, en kveðst þó hafa ekið af stað inn í hringtorgið og ákærðu bera báðir að hún hafi síðan sjálf farið út meðan bifreiðin var á ferð.  Ákærði Guðmundur Matthías kveðst hafa reynt að hindra hana í því með því að taka í öxl hennar og fót, en A ber að hann hafi hindrað sig í að fara út meðan bifreiðin var kyrrstæð, en síðan hrint sér út er bifreiðin var komin á ferð.

Framburður systur ákærða Guðmundar Matthíasar og vitnisins G um orðaskipti við A um kæru hennar, þykir ekki hafa nein áhrif sem máli skipta um mat á framburði A.

Samkvæmt framburði vitnanna D og E kom A fljúgandi út úr bifreiðinni og byltist í götunni.  Tók fyrrnefnda vitnið sér­staklega fram að auðséð hefði verið að hún hefði ekki farið sjálfviljug út.  Framburður A um að ákærði Guðmundur Matthías hafi hrint henni út fær svo mikla stoð í lýsingu þessara vitna að ekki þykir varhugavert að leggja hann til grundvallar.  Verður þessi ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga fyrir að hafa hrint henni út úr bifreiðinni, með þeim afleiðingum að hún fékk lítilsháttar bólgu yfir vinstra kinnbeini og marðist lítillega á framhandlegg.  Samkvæmt læknisvottorði hafði hún einkenni um tognun í baki, en ekki liggur ljóst fyrir samkvæmt vottorðinu að hún hafi raunverulega tognað og verður því ekki slegið föstu.

Varhugavert er að telja sannað að ákærði X hafi haft ásetning til að liðsinna meðákærða í verki til að hrinda A út úr bifreiðinni.  Verður hann því sýknaður að sakargiftum um hlutdeild í broti gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.  Eins og ákæran er orðuð er honum gefið að sök að hafa liðsinnt honum einnig með því að stöðva ekki bifreiðina eftir að A  féll út.  Sú háttsemi fól ekki í sér hlutdeild í broti meðákærða, en var sjálfstætt brot gegn 1. mgr. 10. gr. umferðarlaga.  Eins og ákæru er háttað verður ákærði ekki sakfelldur fyrir það brot.  Verður þessi ákærði því alfarið sýknaður af sakargiftum í þessum þætti málsins.

II.1

Ákærði X neitar sök hvað varðar sakargiftir í II. kafla ákæru 16. mars 2004.  Hann lýsir atvikum þannig að hann hafi ekið á um 70 km/klst.  Önnur bifreið hafi ekið á eftir honum og komið fram úr.  Hljóti lögregla að hafa mælt hraða hennar. 

Tveir farþegar voru í bifreið ákærða og voru teknar skýrslur af þeim báðum hér fyrir dómi.  Hvorugt þeirra kvaðst muna eftir því hversu hratt ákærði hafi ekið.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglumannanna Jóns Svanbergs Hjartarsonar og Leifs Halldórssonar voru þeir á leið frá Flateyri til Ísafjarðar klukkan 17:33 2. apríl 2003 og voru komnir u.þ.b. 400 metra framhjá gatnamótunum til Suðureyrar er þeir sáu hvar tveimur bifreiðum var ekið á móti þeim á beinum vegarkafla í Tungudals­legg, greinilega mjög nærri hvor annarri, því að aðeins hafi sést í annað framljós þeirrar aftari.   Mátu þeir bil milli þeirra 30-40 metra.  Kveikt var á ratsjá og sýndi hún hraðann 123 km/klst.  Strokaði Leifur þá tölu út og opnaði ratsjána aftur og kom þá talan 121 km/klst, sem hann læsti á skjáinn.  Segir í skýrslunni að ákærði, sem ók fremri bifreiðinni, hafi ekki rengt hraðamælinguna.

Lögreglumennirnir komu báðir fyrir dóm og greindu frá atvikum mjög á sama hátt og í frumskýrslu sinni.  Vitnið Jón Svanberg kveðst viss um að ratsjáin hafi mælt hraða fremri bifreiðarinnar, þar sem hún hafi skyggt á þá aftari.  Hann hafi aðeins séð annað framljós þeirrar bifreiðar og gengið úr skugga um það á eftir að þau væru bæði í lagi.  Sömuleiðis sagði vitnið Leifur að aftari bifreiðin hafi verið í hvarfi aftan við bifreið ákærða.  

Samkvæmt frumskýrslu lögreglumannanna var ratsjáin prófuð fyrir mælinguna klukkan 17:00 og aftur klukkan 17:48.

II.2.

Ratsjármælingin, sem tveir lögreglumenn vitna um, er afar sterkt sönnunargagn.  Ekki liggur fyrir að neitt geti hafa haft áhrif á hana, annað en það að aftari bifreiðin hafi hugsanlega mælst, en ekki bifreið ákærða.  Báðir lögreglumennirnir bera að aftari bifreiðin hafi verið svo í hvarfi af bifreið ákærða að afar ólíklegt sé að þeir hafi mælt hraða hinnar aftari.  Með tilliti til þess og einnig þess að svo mikill munur er á þeim hraða sem mældist og þeim sem ákærði kveðst hafa verið á, að lögreglumönnunum hefði ekki átt að geta dulist hraðamunur bifreiðanna, ef um hann hefði verið að tefla, verður ekki talið varhugavert að leggja til grundvallar að ratsjáin hafi mælt hraða bifreiðar ákærða.  Verður hann því sakfelldur fyrir að hafa framið það brot sem í þessum kafla ákærunnar greinir og varðar við þar tilgreind ákvæði umferðarlaga.

III.

Undir rekstri málsins breytti ákæruvaldið sakargiftum í 7. tl. V. kafla ákæru 16. mars sl. þannig, að magn hass væri 10 grömm og magn í III. kafla 0,86 grömm.  Ákærði X kveðst játa að hafa framið þau fíkniefnalagabrot sem honum eru gefin að sök í þessari ákæru að henni svo breyttri.  Með játningu hans verður hann sakfelldur fyrir að hafa framið þau eins og í ákæru er lýst og varða við þar tilgreind laga- og reglugerðarákvæði.

IV.1.

Ákærði Y kom fyrir dóm við fyrirtöku málsins þann 26. maí sl. og kvaðst neita sök samkvæmt 6. tl. V. kafla ákæru.  Lýsti hann háttsemi sinni í þessum þætti þannig að hann hefði hlaupið út úr bifreið til að sækja þar greint efni og afhent það meðákærðu.  Þá hefði hann gefið upp símanúmer hjá líklegum seljanda sem ekki hefði náðst í.  Af hálfu ákæruvaldsins var fallist á að leggja þessa lýsingu ákærða til grundvallar og þess krafist að honum yrði refsað fyrir hlutdeild í broti K og H.  Ákærði veitti með þessari háttsemi liðsinni sitt til verknaðarins, þannig að varðar við tilgreind laga- og reglugerðarákvæði, sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga, en við ákvörðun refsingar verður litið til þess að liðsinni hans var smávægilegt.

             IV.2.

             Ákærði Y játaði hér fyrir dómi við sömu fyrirtöku að hafa framið þá háttsemi sem í 1. tl. VII. kafla ákæru greinir.  Með skírskotun til játningar hans verður hann sakfelldur fyrir að hafa framið þessa háttsemi sem varðar við tilgreind laga- og reglugerðarákvæði.  Ákærði kvaðst neita að hafa selt hass sem greint er í 3. tl. sama kafla ákæru.  Hann kvaðst hafa gefið eitthvað af hassi, en ekki selt neitt, enda ekki vantað peninga.  Hann kvaðst hafa játað fyrir lögreglu að hafa selt hassið, þar sem sér hefði verið sagt að honum yrði ella ekki sleppt úr haldi. 

             Ákærði var boðaður bréflega til aðalmeðferðar málsins, en sinnti ekki boðun­inni.  Lögreglumaðurinn Skúli Berg, sem yfirheyrði ákærða við rannsókn málsins, kom fyrir dóm og bar að ákærði hefði ekki verið á neinn hátt þvingaður til játningarinnar.  Ákærði Z, sem er ákærður fyrir að hafa keypt þetta hass, lét tilkynna forföll frá þingfestingu málsins. Hann var boðaður fyrir dóm á ný til aðalmeðferðar með fyrirkalli þar sem tekið var fram að útivist hans yrði metin sem viðurkenning á þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök, en sótti ekki þing og boðaði ekki forföll.  Að þessu öllu virtu verður ákærði Y sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum kafla ákæru og varðar við þar tilgreind laga- og reglugerðarákvæði.  Ákærði féllst á kröfu um upptöku í XI. kafla ákæru.

             V.

             Ákæruvaldið hefur breytt tilgreindu magni í 8. tl. V. kafla ákæru í 5 grömm.  Ákærði Guðmundur Matthías kveðst játa sakargiftir í þessum þætti að ákæru svo breyttri.  Með skírskotun til játningar hans verður hann sakfelldur fyrir þargreinda háttsemi, sem varðar við tilgreind laga- og reglugerðarákvæði.

             VI.1.

Ákærði Æ kom fyrir dóm við þingfestingu málsins og kvaðst aðeins hafa keypt tvö grömm af hassi en ekki allt að 8, eins og honum er gefið að sök í 10. tl. V. kafla ákæru.  Hann játaði sök samkvæmt VIII. kafla ákærunnar, en neitaði sakargiftum í IX. kafla.  Hann játaði sök samkvæmt 1. tl. X. kafla, að öðru leyti en því að þargreindur H hefði boðist til að selja efnið og ekki fengið neitt fyrir það.  Þá væri rangt að haldlagt efni sem greinir í þeim tölulið hafi verið í hans vörslu.

Ákærði Æ sótti ekki þing við aðalmeðferð málsins.

VI. 2.

K, sem m.a. sætti ákæru fyrir að selja ákærða Æ allt að 8 grömm af hassi, játaði sök samkvæmt ákæru að þessu leyti.  Þáttur hans var skilinn frá og hefur verið dæmdur sér í lagi.  K var ekki boðaður fyrir dóminn á ný til skýrslugjafar um þetta atriði við aðalmeðferð málsins.  Með hliðsjón af þessu þykir varhugavert gegn neitun ákærða Æ að sakfella hann í þessum þætti fyrir kaup á meiru en 2 grömmum af hassi.

Með skírskotun til játningar ákærða Æ verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem greinir í VIII. kafla ákæru.

Vitnið M skýrði svo frá við aðalmeðferð málsins að ákærði Æ hefði ekki verið þátttakandi í hasskaupum, en aðeins reykt hass ásamt sér og Z á leiðinni, sem greinir í IX. kafla ákæru.  Með skírskotun til þessa framburðar verður ákærði sýknaður af sakargiftum í þessum þætti.

Vitnið N gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins og kvað ákærða Æ hafa fengið sig til að selja hass fyrir sig og fengið greitt í formi efna, 1-2 stykki fyrir hver 10 sem hann hafi selt.  Hann hafi selt eitthvað um 80 stykki.  Hann hafi hins vegar sjálfur átt það hass sem fannst við húsleit.  Með skírskotun til þessa framburðar N þykir sannað að ákærði Æ hafi fengið hann til að selja fyrir sig hassið og fengið greitt í formi efna og verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í 1. tl. X. kafla ákæru er lýst, að öðru leyti en því að hann verður sýknaður af því að hafa haft í vörslum sínum 3,04 gr. af hassi og 0,46 grömm af tóbaksblönduðu hassi.

Háttsemi ákærða, sem hann er hér sakfelldur fyrir, varðar við tilgreind laga- og reglugerðarákvæði.

VII.

             Ákærði Z sótti ekki þing þrátt fyrir að honum væri birt fyrirkall þar sem þess var getið að fjarvist hans yrði metin sem viðurkenning á þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og að málið yrði dæmt að honum fjarstöddum, sbr. 126. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Með skírskotun til afstöðu ákærða sem hann hefur gefið til kynna með fjarveru sinni, verður hann sakfelldur fyrir að hafa framið þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og varðar háttsemi hans við þar tilgreind laga- og reglugerðarákvæði.

             VIII. 1.

B kom á lögreglustöðina á Ísafirði klukkan 04:58 aðfaranótt sunnudagsins 7. mars 2004 til að kæra líkamsárás.  Samkvæmt frumskýrslu lögreglu um frásögn hennar kvaðst hún hafa verið í gleðskap að [...], Ísafirði.  Hún hefði verið inni á baðherbergi ásamt þremur öðrum stúlkum og orðið sundurorða við eina þeirra, sem hefði ráðist á hana.  Þá hefði maður komið inn á baðherbergið og kýlt hana í andlitið, hent henni fram á gang og sparkað í hana.  Hún hefði fengið upplýsingar frá einum veislugesta um að árásarmaðurinn hefði verið ákærði Guðmundur Matthías.

Samkvæmt vottorði Þorsteins Jóhannessonar yfirlæknis leitaði B á slysadeild klukkan 5 þessa nótt.  Hún var með mar og bólgu yfir hægra kinnbeini og þreifieymsli á sama stað og eymsli hægra megin á enni, þó án sjáanlegra áverka.  Augnhreyfingar og skoðun augna var eðlileg og enginn grunur um brot á andlitsbeinum.  Hún kvartaði um eymsli í vinstra handlegg, með verki mest rétt neðan við olnboga og þreifieymsli voru við nærenda framhandleggjar vinstra megin en starfræn geta í lagi.  Miðlægt og í hæð við vinstra herðablað voru þreifieymsli og upp eftir hryggvöðva upp að hálsi. 

Í málinu liggur fyrir vottorð Elínar Hrannar Sigurjónsdóttur sjúkraþjálfara, dagsett 8. júní sl., þar sem kemur fram að hún hafi haft B í meðferð frá því í október 2003 vegna áverka og uppsafnaðra einkenna út frá þeim, sem hún hafi hlotið í bílslysi.  Hafi verið vel á veg komið að ná henni einkennalausri, en er hún hafi orðið fyrir árásinni 7. mars 2004 hafi þau komið að miklu leyti til baka auk þess sem hún hafi verið töluvert marin og aum ofan við vinstra herðablað.  Þá hafi hún tognað ofarlega í brjóstbaki.  Hún hafi átt erfitt með að athafna sig í vinnu og verið fljót að þreytast í baki og fá verki.  Enn sé verið að vinna í að ná henni góðri aftur.

VIII.2.

B skýrði svo frá hér fyrir dómi að hún hefði farið í gleðskap þessa nótt, sem hún muni ekki alveg hvar hafi verið.  Hún hafi farið með vinkonu sinni, O, inn á baðherbergi og þar hafi tvær aðrar stúlkur verið.  Hún hafi verið að ræða um fjarstadda vinkonu sína sem önnur þessara stúlkna hafi kannast við. Þeim hafi orðið sundurorða og orðið mjög æstar.  Þessi stúlka hafi rifið í hár hennar og hún ýtt frá sér á móti.  Næst muni hún að hafa fengið högg á hægra auga eða gagnauga og líklega rotast.  Því næst muni hún að hafa staðið upp og farið úr gleðskapnum.  Hún muni því ekki að sparkað hafi verið í sig, en sér hafi verið sagt það.

Ákærði ber að hafa heyrt læti inni á baðherbergi og farið þangað inn.  Hann hafi þá séð hvar stúlka var að slá til unnustu hans, C.  Hann hafi þá ýtt við stúlkunni svo hún féll aftur fyrir sig í baðkerið, tekið hana upp og sett hana út af baðherberginu.  Hann kveðst ekki hafa slegið stúlkuna eða sparkað í hana, en hafa ýtt í andlit hennar með opnum lófa.

Vitnið C kveðst hafa farið inn á baðherbergið með P.  Þar hafi verið tvær ókunnugar stúlkur og önnur þeirra rætt niðrandi um stúlku sem hún kannaðist við.  Þeim hafi þá orðið sundurorða og stúlkan hafi ýtt við sér svo hún féll í baðkerið.  P hafi hjálpað sér á fætur og þá hafi stúlkan ætlað að slá sig.  Þá hafi ákærði komið inn og tekið stúlkuna og fært hana frá og sett hana út og lokað hurðinni.  Eftir það hafi þau ákærði farið út og heim.  Þá hafi þau ekkert séð til stúlkunnar.  Nánar aðspurð sagði hún ákærða hafa ýtt við stúlkunni og geti vel verið að hún hafi þá fallið í baðkerið. 

Vitnið O kveðst hafa verið inni á baðherberginu með B og þar hafi stúlka ráðist að B og rifið í hár hennar.  B hafi ýtt við stúlkunni.  Síðan hafi einhver strákur komið inn og kýlt B í andlitið og síðan sparkað í bak hennar í fallinu, svo hún féll fram á gang.  Ítrekað aðspurð kvaðst O þó ekki muna lengur hvar högg og spörk lentu á B. 

Vitnið J kveðst hafa verið í gleðskapnum og séð hvar stúlka kom fljúgandi út af baðherberginu.  Hann hafi hugað að henni, hún hafi verið í geðshræringu og verið grátandi.  Hann hafi farið á eftir henni út.  Skömmu síðar hafi ákærði komið út og hafi stúlkan bent á hann og sagt hann hafa slegið sig. 

Vitnið I kveðst hafa verið í gleðskapnum þetta kvöld.  Einhver læti hafi verið inni á baðherberginu.  Ákærði hafi gripið um B og fleygt henni til.  Hún hafi lent á hurðarkarminum.  Vitnið kveðst ekki hafa séð annað og ekki hvort ákærði sló B.  Hann kvaðst þó við upprifjun framburðar síns fyrir lögreglu telja að ákærði hefði látið fótinn fylgja á eftir B, en þá frekar ýtt við henni með fætinum en sparkað í hana.  Hann kvaðst ekki muna til þess að hún hefði misst meðvitund.  Hann kveðst hafa farið á eftir henni út og fylgt henni á lögreglustöð og sjúkrahús.  B hefði bent á ákærða sem árásarmanninn er þau voru fyrir utan.

Vitnið P skýrði svo frá að hún hafi verið inni á baðherberginu.  Brotist hafi út rifrildi og slagsmál.  Hún hafi séð C lenda á gólfinu.  Ákærði hafi komið inn og sett stúlkuna út úr baðherberginu.  Hún kveðst hvorki hafa séð ákærða slá stúlkuna né sparka í hana. Framburður hennar fyrir lögreglu, þar sem hún sagði að ákærði hefði sparkað í B fyrir utan baðherbergis­dyrnar var rifjaður upp fyrir henni og sagði hún að þar hlyti að vera rétt eftir sér haft en hún myndi þetta ekki núna.

VIII.3.

Framburður vitna sem voru inni á baðherberginu er ekki samhljóða.  Þau voru öll eitthvað undir áhrifum áfengis og verður að taka tillit til þess við mat á framburði þeirra.  B man að hafa fengið högg í andlitið, en ekki hvað gerðist eftir það.  Með hliðsjón af framburði ákærða er ljóst að hann lagði hendur á hana, en hann kveðst hafa ýtt í andlit hennar með opnum lófa og síðan tekið hana og og sett hana út af baðherberginu.  Ljósmyndir af B, sem teknar voru á lögreglustöð um nóttina sýna mar í andliti hennar, sem lýst er í framangreindu læknisvottorði.  Þetta mar samrýnist því vel að hún hafi fengið högg í andlit og verður talið sannað að ákærði hafi greitt henni það, þótt hann segist aðeins hafa ýtt í andlit hennar.  Gegn neitun ákærða verður ekki talið óyggjandi sannað að hnefi hans hafi verið krepptur er hann greiddi henni höggið.  Ákærði ber að hafa sett B út fyrir dyr baðherbergisins.  Samkvæmt framburði I fleygði ákærði henni þá til og hún lenti á hurðarkarminum og samkvæmt framburði J kom hún „fljúgandi“ út af baðherberginu.  Með hliðsjón af þessu verður lagt til grundvallar að ákærði hafi beitt B verulegu líkamlegu valdi við þetta og að eymsli á handlegg og á baki samkvæmt framangreindu læknisvottorði stafi frá þeirri valdbeitingu.  Fram­burður vitna um að ákærði hafi sparkað í B er svo óskýr að gegn neitun hans verður ekki lagt til grundvallar að hann hafi gerst sekur um það.

Samkvæmt framansögðu verður ákærði sakfelldur fyrir að hafa slegið B hægra megin í andlit og hrint henni þannig að hún rakst utan í hurðarkarm og féll fram á gang, með þeim afleiðingum sem ákæra greinir.  Varðar þessi háttsemi við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

IX.

Ákærði X játar sök samkvæmt ákæru 30. september sl.  Með játningu hans, sem ekki er ástæða til að draga í efa að sé sannleikanum samkvæm verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er þar gefin að sök og varðar við þar tilgreind ákvæði umferðarlaga.

X.

Ákærði Guðmundur Matthías var þann 11. júní 2002 dæmdur í eins mánaðar fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir þjófnað.  Hann hefur nú rofið skilorð þess dóms og ber að taka hann upp og dæma ákærða refsingu í einu lagi samkvæmt reglum 77. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði er hér sakfelldur fyrir tvö brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.  Sú háttsemi hans að hrinda A út úr bifreið var sérlega háskaleg, jafnvel þótt leggja verði til grundvallar að bifreiðin hafi verið á mjög lítilli ferð.  Þá verður litið til þess að ekki verður á því byggt eins og málið liggur fyrir að A hafi fengið verulega áverka við byltuna.  Þá er ákærði einnig sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, með því að kaupa 5 grömm af hassi. 

Refsing ákærða ákveðst fangelsi í þrjá mánuði, sem rétt þykir að skilorðsbinda, þannig að hún falli niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.  Þá verður hann dæmdur til að greiða 40.000 króna sekt til ríkissjóðs vegna fíkniefnalagabrotsins og komi 5 daga fangelsi í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

XI.

Ákærði X hefur ekki sætt refsingum samkvæmt framlögðu sakavottorði.  Hann er hér sakfelldur fyrir tvö umferðarlagabrot og fyrir kaup og vörslur á samtals allt að 56 grömmum af hassi.  Með tilliti til samlagningarreglu 100. gr. umferðarlaga og að öðru leyti til 77. gr. almennra hegningarlaga verður ákærði dæmdur til greiðslu 350.000 króna sektar til ríkissjóðs og komi fangelsi í 35 daga í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja.

Ákærði hefur með umferðarlagabrotum sínum unnið til sviptingar ökuréttar, sbr. 101. og 102. gr. umferðarlaga.  Við ákvörðun hennar verður litið til þess að hann hefur samkvæmt framlagðri ökuferilsskrá safnað þremur staðfestum punktum. Við þing­festingu málsins var tekið fram af hálfu ákæruvaldsins að krafa um ökuréttar­sviptingu sérstaklega vegna uppsafnaðra punkta hafi fallið niður.  Í ákæru er þó bæði krafist sviptingar ökuréttar og að ákærða verði gerðir punktar vegna brotsins.  Verður því að taka tillit til ökuferils og punkta við ákvörðun sviptingartíma.

Brot ákærða gegn 37. gr. umferðarlaga sem hann er hér sakfelldur fyrir varðar fjórum punktum samkvæmt skrá í viðauka reglugerðar nr. 431/1998, sem sett er með heimild í 2. mgr. 101. gr. umferðarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 57/1997.  Samkvæmt 8. gr. nefndrar reglugerðar hefur ákærði, sem er með bráðabirgðaökuskírteini því unnið til þriggja mánaða sviptingar ökuréttar vegna uppsafnaðra punkta, sem bætist við þá sviptingu sem hann hefur unnið til með þeim brotum sem hann er hér sakfelldur fyrir.  Verður ákærði sviptur ökurétti í 16 mánuði frá birtingu þessa dóms að telja. 

XII.

Ákærði Y er hér sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, þ.e. hlutdeild í kaupum á hassi, þar sem þáttur hans er talinn smávægilegur, kaup á allt að 85 grömmum af hassi og 13 grömmum af amfetamíni og að hafa selt ein 10 g af hassinu.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði á ákærði nokkurn sakaferil að baki.  Sá hluti hans sem hér skiptir máli er að þann 7. maí 2001 var hann dæmdur í 8 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár fyrir hegningarlagabrot. Síðan hefur hann þrívegis verið dæmdur til samtals 180.000 króna sektargreiðslna fyrir umferðarlagabrot, síðast þann 22. september sl., er hann var dæmdur til greiðslu 90.000 króna sektar fyrir hraðakstur.  Ákærði rauf skilorð dómsins frá 7. maí 2001 með þeim brotum sem hann er hér sakfelldur fyrir, en þrátt fyrir það þykir rétt að láta hann haldast, en dæma ákærða refsingu nú sér í lagi.  Hana ber að tiltaka sem hegningarauka við dóminn sem ákærði sætti 22. september sl.  Refsing ákærða ákveðst með hliðsjón af þessu og því magni amfetamíns og hass sem um ræðir í þessu máli, 300.000 króna sekt til ríkissjóðs, sem hann skal greiða innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en ella sæta fangelsi í einn mánuð.

XIII.

Ákærði Æ hefur tvívegis sætt sektum fyrir fíkni­efnabrot, í fyrra sinnið 85.000 króna sekt þann 8. janúar 2002 og hið síðara 28.000 króna sekt þann 17. mars 2004.  Refsingu hans nú ber að tiltaka sem hegningarauka við síðargreindu refsinguna.  Ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir að hafa keypt allt að 90 g af hassi í félagi við annan mann og fyrir að hafa keypt 100 grömm af sama efni til endursölu í hagnaðarskyni sem hann fékk annan mann síðan til að selja fyrir sig gegn greiðslu í formi hass.  Þegar þetta er virt þykir refsing hans eiga að fara fram úr sektum.  Verður hann dæmdur í 45 daga fangelsi, sem rétt er að skilorðsbinda þannig að fullnustu refsingarinnar verði frestað og hún falli niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

XIV.

Ákærði Z er hér sakfelldur fyrir að hafa keypt um 50 grömm af hassi.  Hann hefur með þremur sáttum á árunum 2002-2004 sætt samtals 91.000 króna sektum fyrir fíkniefnabrot, síðast 28.000 króna sekt þann 8. september sl.  Ber að tiltaka refsingu hans sem hegningarauka við þá sektarrefsingu.  Ákveðst hún 150.000 króna sekt til ríkissjóðs, sem ákærði skal greiða innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en ella sæta fangelsi í 20 daga.

XV.

Gera ber upptækt allt hass og tóbaksblandað hass sem lögregla haldlagði við rannsókn framangreindra mála, eins og krafist er.  Þá verður fallist á kröfu ákæru­valdsins um upptöku Leatherman hnífs.  Andvirði fíkniefna hefur þegar verið gert upptækt með dómi, hvað varðar V. kafla ákæru.  Gera ber upptækar 108.000 krónur sem lögregla haldlagði vegna máls sem greinir í X. kafla ákæru.

XVI.

B gerir kröfu um miskabætur úr hendi ákærða Guðmundar Matthíasar að fjárhæð 120.000 krónur og vegna lögmannsþóknunar að fjárhæð 47.310 krónur auk virðisaukaskatts á þá fjárhæð, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. mars sl. til þess dags er mánuður var liðinn frá því að bótakrafan var kynnt ákærða., en dráttarvöxtum þaðan í frá til greiðsludags.  Bótakrafan er studd við 26. gr. skaðabótalaga.

Brotaþoli þykir eiga rétt til miskabóta úr hendi ákærða, sem þykja hæfilega ákveðnar 50.000 krónur.  Þá verður hann dæmdur til að greiða henni 40.000 krónur vegna lögmannskostnaðar að virðisaukaskatti meðtöldum.  Verður ákærði því dæmdur til að greiða henni samtals 90.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 50.000 krónum frá 7. mars 2004 til 8. júlí sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

XVII.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu Guðmundar Matthíasar, X og Æ, Hilmars Ingimundarsonar hrl., ákveðast 180.000 krónur.  Rétt þykir að fella ¼ hluta þeirra á ríkissjóð, en afganginn ber samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 að dæma þessa ákærðu til að greiða óskipt.  Ferðakostnaður verjandans greiðist úr ríkissjóði og af ákærðu óskipt með sama hætti.  Ákærði Guðmundur Matthías verður dæmdur til að greiða allan annan sakarkostnað vegna meðferðar málsins hvað varðar I. kafla ákæru 16. mars sl. og ákæru 14. júlí sl.  Ákærði X verður dæmdur til að greiða allan annan sakarkostnað vegna meðferðar málsins hvað varðar II. kafla ákæru dagsettrar 16. mars sl. og ákæru dagsettrar 30. september sl.  Ekki verður séð að sakarkostnaður hafi að öðru leyti fallið til á rannsóknar- og dómstigi málsins.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.  Dómsuppsaga hefur dregist, bæði vegna umfangs málsins og anna dómara við önnur dómstörf.  Að höfðu samráði við sækjanda og verjanda var ákveðið að taka málið ekki upp til endurflutnings.

Dómsorð:

Ákærði Guðmundur Matthías Guðmannsson sæti fangelsi í þrjá mánuði og greiði 40.000 króna sekt til ríkissjóðs. Fresta skal fullnustu fangelsisrefsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  Fangelsi í 5 daga komi í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði X greiði 350.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi fangelsi í 35 daga í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja.

Ákærði X er sviptur ökurétti í 16 mánuði frá birtingu þessa dóms að telja.

Ákærði Y greiði 300.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í einn mánuð.

Ákærði Æ sæti 45 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms að telja, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Z greiði 150.000 króna sekt til ríkissjóðs, innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í 20 daga.

Upptækt er hass og tóbaksblandað hass sem lögregla haldlagði við rannsókn framangreindra mála, Leatherman hnífur og 108.000 krónur.

Ákærði Guðmundur Matthías greiði B 90.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 50.000 krónum frá 7. mars 2004 til 8. júlí sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu Guðmundar Matthíasar, X og Æ, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 180.000 krónur, svo og ferðakostnaður hans, greiðist úr ríkissjóði að ¼ hluta en afganginn greiði ákærðu Guðmundur Matthías, X og Æ óskipt. Ákærði Guðmundur Matthías greiði allan annan sakarkostnað vegna meðferðar málsins hvað varðar I. kafla ákæru 16. mars sl. og ákæru 14. júlí sl.  Ákærði X greiði allan annan sakarkostnað vegna meðferðar málsins hvað varðar II. kafla ákæru dagsettrar 16. mars sl. og ákæru dagsettrar 30. september sl.