Hæstiréttur íslands

Mál nr. 343/2001


Lykilorð

  • Vinnusamningur
  • Kjarasamningur
  • Opinberir starfsmenn


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. mars 2002.

Nr. 343/2001.

Andrea S. Harðardóttir

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

Ísafjarðarbæ

(Andri Árnason hrl.)

 

Vinnusamningur. Kjarasamningur. Opinberir starfsmenn.

A krafði sveitarfélagið Í um fæðispeninga vegna þátttöku sinnar í ferð grunnskóla­nemenda. Lagt var til grundvallar að umrædd ferð hefði verið ákveðin, undirbúin og kostuð af nemendunum sjálfum en skólinn veitt þeim aðstoð við fjáröflun, skipulagningu og framkvæmd ferðarinnar. Ekki yrði litið öðru vísi á en svo að nemendurnir hafi sjálfir, í skjóli lögráðamanna sinna, átt að bera alla fjárhagslega ábyrgð af ferðakostnaðinum, þ.m.t. ferðakostnaði A. Við úrlausn málsins var og til þess litið að skólastjóri grunnskólans hafði ekki falið A að fara í umrædda ferð. Kröfu A var samkvæmt þessu hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. september 2001 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 68.555 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júní 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í máli þessu greinir aðila á um hvort áfrýjandi eigi rétt á fæðispeningum úr hendi stefnda vegna þátttöku sinnar í ferð nemenda 10. bekkjar Grunnskólans á Ísafirði til Danmerkur vorið 1999. Af gögnum málsins, meðal annars framburði áfrýjanda fyrir héraðsdómi, er ljóst að skólastjóri grunnskólans fól ekki áfrýjanda að fara í umrædda ferð. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 20. júní 2001.

Mál þetta, sem var dómtekið þann 23. maí sl., að undangengnum munn­legum málflutningi, hefur Andrea Sigrún Harðardóttir, kt. 270668-5189, Fjarðar­stræti 7, Ísafirði, höfðað hér fyrir dómi þann 26. október sl. með stefnu á hendur Ísa­fjarðarbæ, kt. 540596-2639, Hafnarstræti 1, Ísafirði, til greiðslu 68.555 kr., með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júní 1999 til greiðslu­dags og málskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningi.

Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar samkvæmt fram­lögðum málskostnaðarreikningi, en til vara að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu.

Stefnandi er kennari við Grunnskólann á Ísafirði.  Skólaárið 1998-1999 kenndi hún í fyrsta sinn 10. bekkjarnemendum og var umsjónarkennari þeirra. Venja er að nemendur 10. bekkjar skólans fara saman í ferðalag í lok skólaárs og munu umsjónarkennarar jafnan hafa farið með þeim.  Ferðarinnar var ekki getið í námsvísi eða skóladagatali, en hennar var þó getið í skipulagi eða dagskrá maí­mánaðar.  Nemendur söfnuðu fé um veturinn til að standa straum af kostnaði við ferðina.  Stefnandi og Jóna Benediktsdóttir, samkennari hennar, aðstoðuðu nem­endur við fjáröflunarstarfið og fengu laun frá stefnda fyrir vinnu sína með nem­endum, sem svaraði 40 mínútum á viku.  Ferðin var farin dagana 17.-23. maí 1999.  Áður en hún hófst lá það fyrir að ekki hafði tekist að safna nægilegu fé til að standa straum af öllum kostnaði við hana og yrðu nemendur og fararstjórar, sem auk nefndra kennara voru úr hópi foreldra nemendanna, að greiða fæðis­kostnað sinn sjálfir.  Stefnandi og Jóna Benediktsdóttir kröfðust dagpeninga úr hendi stefnda áður en ferðin hófst.  Á fundi sem skólastjóri hélt með þeim þann 14.  maí 1999 var kröfunni hafnað.  Stefnandi og Jóna fóru í ferðina engu að síður og greiddi stefndi þeim laun, þ.á.m. fyrir yfirvinnu, meðan hún stóð.  Stefnandi höfðar þetta mál til innheimtu dagpeninga vegna fæðiskostnaðar.

Við aðalmeðferð málsins gáfu stefnandi, Kristinn Breiðfjörð Guð­munds­­son, skólastjóri, og vitnin Jóna Benediktsdóttir, Jónína Emilsdóttir og Guðný Þor­björg Ísleifsdóttir skýrslur fyrir dómi.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hún hafi farið í skólaferðalag á veg­um Grunnskóla Ísafjarðar og eigi, skv. ákvæðum í kjarasamningi Kennara­sam­bands Íslands, rétt á greiðslu fæðiskostnaðar þá daga sem ferðin stóð yfir.  Vísar hún til 5. kafla kjarasamnings KÍ.  Samkvæmt grein 5.5.1. í þeim samningi greiðast fargjöld á ferðalögum erlendis samkvæmt reikningi.  Í gr. 5.6.1. segir að annar ferðakostnaður greiðist með dagpeningum og samkvæmt gr. 5.6.2. eiga dagpeningar bæði að taka til fæðis – og húsnæðiskostnaðar.  Stefnandi krefst þess þáttar dagpeninga sem fellur utan við gistikostnað.  Um fæðiskostnað innanlands vísar hún til gr. 5.2. í kjarasamningi K.Í. 

Stefnandi kveður ferðir sem þessa ætíð áður hafa verið skráðar í námsvísi skólans.  Hafi þessi ferð verið farin með vilja og vitund forsvarsmanna skólans og því á hans ábyrgð. Til marks um það sé greiðsla sem stefnandi hafi fengið viku­lega fyrir 40 mínútna vinnu við undirbúning ferðarinnar.  Tilhögun hennar hafi verið borin undir forsvarsmenn skólans í upphafi og þannig samþykkt af þeim, enda verði slík ferð 15-16 ára barna ekki farin án þess.  Hún hafi verið á skipulagi skólans fyrir maímánuð og farin á starfstíma hans. Meðan á henni stóð hafi stefn­andi fengið greiddar 75 yfirvinnustundir fyrir gæslu og viðveru.  Þetta sanni, að ferðin hafi verið farin á vegum skólans.  Stefnandi bendir einnig á, að skólinn hafi útvegað báðum umsjónarkennurum forfallakennslu. Einhliða fullyrðing skóla­stjóra, áður en ferðin var farin, um að ekki yrðu greiddir dag­pen­ingar, sé í and­stöðu við þau ákvæði í kjarasamningi K.Í. sem rakin eru að framan, en samkvæmt honum beri að greiða dagpeninga á ferðalögum erlendis.

Stefnandi kveður ferðina hafa byrjað á Ísafirði 16. maí 1999 og brottför frá Keflavík verið kl. 9:30 daginn eftir.  Þar hafi verið lent aftur sunnudaginn 23. maí kl. 23.30 og komið heim til Ísafjarðar daginn eftir, kl. 14:00.  Fæðiskostnaður innan­lands hafi verið 3.700 kr. á dag í tvo daga og utanlands 88 SDR á dag á gengi 99,28 kr. í 7 daga, eða samtals 61.156 kr. vegna fæðiskostnaðar erlendis.

Stefndi byggir aðalkröfu sína á því, að ferðin hafi ekki verið á vegum Grunnskólans á Ísafirði.  Skólastjórn hafi ekki tekið ákvörðun um að senda nemendur, foreldra og kennara í þessa ferð. Því sé mótmælt, að slíkar ferðir séu ekki farnar nema með samþykki forsvarsmanna skólans. Skipti ekki máli í þessu sam­bandi, þó að skólastjórnin hafi ákveðið að haga skólastarfi þannig, að nem­enda­ferðinni yrði við komið. Þá mótmælir stefndi því að slíkra ferða hafi ætíð áður verið getið í námsvísi skólans. Fyrst hafi verið farið í ferð sem þessa, þ.e. utanlandsferð, árið 1998. Hvorki hennar né ferðarinnar 1999 hafi verið getið í námsvísi og skóladagatali/starfsáætlun sem honum fylgdi. Námsvísir sé sú skóla­námskrá sem skólastjórar skuli sjá um að sé gerð, sbr. 14. gr. laga nr. 66/1995 um grunn­skóla, og séu birtar í honum upplýsingar um allar ferðir sem hver bekkjardeild fer í á vegum skólans. Af 31. gr. sömu laga megi ráða, að stefnandi hafi verið einn af höfundum skólanámskrár. Ástæða þess að ferðanna var ekki getið í skólanámskrá sé sú, að þær hafi ekki verið farnar á vegum skólans.  Skipu­lag maímánaðar, þar sem ferðarinnar var getið, segir stefndi hvorki vera ígildi skóladagatals né starfsáætlunar.  Séu margvíslegir atburðir færðir á slíkt skipulag, t.d. á vegum foreldrafélags, sem skólinn standi ekki fyrir.  Hafi enga þýðingu að ferðar­innar var getið í þessu skipulagi.

Stefndi tekur einnig fram, að ef Danmerkurferðin hefði verið á vegum skólans hefði skólanum eigi verið unnt að gera nemendum að greiða sjálfir kostnað við hana.  Kveðst stefndi telja ferðina vera sams konar ferð og ferðir sem starfs­menn fyrirtækja taka sig gjarnan saman um að fara til útlanda, eða ferðir sem algengt er að menntaskólanemendur fara.  Ef tímasetning starfsmannaferða skarist við vinnutíma sé slíkt fyrirkomulag gjarnan borið undir vinnuveitanda sem bjóðist stundum til að taka þátt í hluta ferðakostnaðar. Slíkur stuðningur vinnuveitanda baki honum ekki greiðsluskyldu á grundvelli kjarasamninga.  Telur stefndi að því fari fjarri, að sá stuðningur sem stefnandi fékk til utanfararinnar, eða vitund og vilji forsvarsmanna skólans um ferðina, sýni fram á að skólinn hafi staðið fyrir henni.  Nokkrum vikum áður en hún var farin hafi skólastjóri hafnað munnlegri ósk stefnanda og samkennara hennar um greiðslu dagpeninga í ferðinni. Þrátt fyrir það hafi stefnandi farið með nemendum. Grunnskólinn hafi styrkt stefnanda til ferðar­innar með því að greiða henni laun í forföllum, auk yfirvinnu, en ekkert sam­komulag hafi verið gert um frekari greiðslu og fari því fjarri að þessi stuðn­ingur við ferðina sýni fram á það að skólinn hafi staðið fyrir henni, eða leiði á einhvern hátt til þess að stefnda verði talið skylt að greiða dagpeninga vegna hennar.

Varakrafa stefnda er sögð vera byggð á því, að stefnanda skuli einungis greitt fyrir útlagðan fæðiskostnað í ferðinni.  Samkvæmt gr. 5.6.2 í kjarasamningi Kennarasambands Íslands skuli dagpeningar notast til greiðslu ýmiss annars ferða­kostnaðar en vegna fæðis. Viðurkennt sé í stefnu, að krafa um dagpeninga­greiðslu byggi eingöngu á því, að stefnandi hafi þurft að greiða fyrir fæði sitt í nemendaferðinni.  Það brjóti gegn nefndu ákvæði kjarasamnings og sé einnig óeðli­legt, að stefnandi fái greidda fulla dagpeninga, eingöngu vegna fæðis­kostnaðar, þegar annar ferðakostnaður hafi verið greiddur.  Um fjárhæð útlagðs kostnaðar verði að líta til bréfs bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar til stefnanda dags. 9. október 2000, en þar komi fram að stefnandi og samkennari hennar hafi tjáð bæjar­stjóra á fundi 30. maí 2000 að þær hafi verið tilbúnar, þegar ferðin var farin, að fallast á greiðslu útlagðs kostnaðar, sem hefði numið um 20.000. kr.

Kröfu stefnanda um fæðiskostnað innanlands er mótmælt sem of hárri. Telur stefndi að miða beri við einn dag í fæði innanlands, en ekki tvo. 

Vaxtakröfu stefnanda er mótmælt sem of hárri og órökstuddri. Sé eðlilegt að miða upp­hafstíma dráttarvaxta við 14. mars 2000, sbr. 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, en krafa stefnanda hafi fyrst verið sett fram með bréfi dags. 14. feb. 2000. 

Stefndi vísar til almennra reglna samningaréttar og vinnuréttar og til grunn­skólalaga nr. 66/1995.

Í framburði Kristins Breiðfjörð Guðmundssonar skólastjóra og skriflegri greinargerð, sem hann ritaði fjármálastjóra stefnda 14. desember 1999 og liggur frammi í málinu, kemur fram að það sé ekki ákvörðun skólastjórnenda að senda foreldra, nemendur eða kennara í ferð sem þessa, en fyrirkomulag hennar og tíma­setning sé borin undir skólastjóra, sem gefi leyfi með ákveðnum skilyrðum.  Jafn­framt hafi skapast hefð um það að skólinn styðji við ferðir nemenda með því að greiða forföll kennara, sem fari með þeim, frá kennslu og einnig yfirvinnu vegna aukins álags og viðveru.  Einnig kom fram í framburði Kristins að hann hefði gert nemendum ljóst að þeir væru bundnir af reglum skólans í ferðinni, enda væri stjórn­endum skólans annt um orðstír hans og gerðu sér far um að halda agavaldi yfir nemendum í ferð sem þessari.

Í framburði stefnanda og Jónu Benediktsdóttur kom m.a. fram að þeim hefði ekki beinlínis verið falið að fylgja nemendum í vorferðina, en að rík venja væri að umsjónarkennarar fylgdu nemendum í vorferð þeirra og þær hefðu talið sér það skylt.  Stefnandi og Jóna aðstoðuðu nemendur við fjáröflun þeirra allt frá haustinu áður en ferðin var farin.  Var ákveðið þegar um haustið að stefna að því að fara utan.  Haldnir voru þrír fundir með foreldrum, einn að hausti og tveir að vori, til ákvarðanatöku og undirbúnings.  Nemendum tókst að safna töluverðu fé, en þegar ljóst var að það dygði ekki fyrir öllum ferðakostnaði leituðu stefnandi og Jóna eftir því að þær fengju dagpeninga til að standa straum af greiðslu fæðis­kostnaðar.  Var því endanlega neitað á fundi skólastjóra með þeim 14. maí.  Töldu þær sér ómögulegt að hætta við ferðina með svo skömmum fyrirvara, af tillits­semi við nemendur.

Líta verður á utanlandsferð grunnskólanemanna sem skemmtiferð þeirra í tilefni væntanlegra námsloka við skólann.  Er hún því ekki liður í námi þeirra, heldur þáttur í félagslífi þeirra tengdu því að þeir eru nemendur við skólann.  Samkvæmt framburði skólastjóra fengu stefnandi og Jóna Benediktsdóttir greitt úr hendi stefnda sem svaraði einni kennslustund á viku fyrir að aðstoða nemendur í félagslífi þeirra, sem eðlilegt var að mótaðist fyrst og fremst af fjáröflunarstarfinu.

Stjórnendum skólans var vel kunnugt um að ferðin yrði farin og að stefnandi og Jóna Benediktsdóttir færu með.  Er rakið hér að framan að skóla­stjórn­endur töldu sig styrkja nemendur til fararinnar með því að greiða kennur­unum laun í ferðinni, eins og mun hafa verið venja í ferðum nemenda á fyrri árum. 

Stefnandi skýrði svo frá að markmið nemenda hefði verið að safna fyrir öllum kostnaði við ferðina, þ.m.t. fæðiskostnaði.  Myndi fæðiskostnaður hennar hafa greiðst af söfnunarfénu ef það hefði hrokkið til.  Var stefndi krafinn um dag­peninga þegar ljóst var að nemendum hafði ekki tekist að að safna nægilega miklu fé.  Var þannig ljóst í öndverðu að ferðasjóði nemenda var m.a. ætlað að standa straum af ferðakostnaði stefnanda.

Eftir þessu ber að leggja til grundvallar að ferð nemenda 10. bekkjar hafi verið ákveðin, undirbúin og kostuð af þeim sjálfum, en skólinn hafi veitt þeim aðstoð við fjáröflun, skipulagningu og framkvæmd ferðarinnar, m.a. með því að fela stefnanda að aðstoða þá við fjáröflun og undirbúning og greiða laun hennar meðan ferðin stóð yfir.  Af því leiðir þó ekki að stefndi hafi bakað sér skyldu til að greiða stefnanda dagpeninga, nemendum til hagsbóta, enda tók stefndi af öll tvímæli um það áður en ferðin hófst að hann vildi ekki greiða þá. 

Samkvæmt þessu verður að telja að ferðin hafi ekki verið á vegum Grunn­skól­ans á Ísafirði, heldur ákveðins hóps nemenda við skólann.  Grunnskólinn lagði nemendum lið með ýmsu móti til að þeim yrði kleift að fara í ferðina og áskildi sér agavald yfir þeim meðan hún stæði.  Samt sem áður verður ekki litið öðru vísi á en svo að nemendur hafi sjálfir, í skjóli lögráðamanna sinna, átt að bera alla fjárhagslega ábyrgð af ferðakostnaðinum, þ.m.t. ferðakostnaði stefnanda sem fararstjóra, þrátt fyrir það að stefndi greiddi laun hennar meðan ferðin stóð yfir. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.  Rétt er að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Ísafjarðarbær, er sýkn af kröfum stefnanda, Andreu Sigrúnar Harðardóttur.

Málskostnaður fellur niður.