Hæstiréttur íslands

Mál nr. 776/2017

Ólafur Árni Óskarsson (Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Bjarni Þór Óskarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Úthlutun söluverðs
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu Ó um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Suðurlandi um að hafna breytingu á frumvarpi til úthlutunar söluverðs fasteignar sem verið hafði í eigu Ó. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með kröfugerð sinni leitaði Ó ekki eftir tilteknum breytingum á hinu umþrætta frumvarpi, en af því leiddi að dómur í samræmi við hana fæli ekki í sér niðurstöðu um hvernig haga bæri úthlutun söluandvirðisins. Taldi Hæstiréttur kröfunni svo áfátt að þessu leyti að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. nóvember 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun sýslumannsins á Suðurlandi 14. febrúar 2017 um að hafna breytingu á frumvarpi til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar Gularás í Rangárþingi. Kæruheimild var í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og framangreind krafa hans tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Málavextir eru raktir í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram var sóknaraðili þinglýstur eigandi jarðarinnar Gularás í Rangárþingi eystra. Var jörðin seld nauðungarsölu 4. maí 2016 og var varnaraðili þar hæstbjóðandi með boð að fjárhæð 40.000.000 krónur. Sóknaraðili leitaði úrlausnar Héraðsdóms Suðurlands um gildi nauðungarsölunnar, sem hafnaði að fella hana úr gildi með úrskurði 15. nóvember 2016. Var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar 6. janúar 2017 í máli nr. 798/2016.

Hinn 16. janúar 2017 lagði sýslumaðurinn á Suðurlandi fram frumvarp til úthlutunar á söluverði jarðarinnar. Samkvæmt frumvarpinu voru teknar til greina kröfur varnaraðila sem byggðar voru á tryggingarbréfi á 1. veðrétti eignarinnar og tveimur veðskuldabréfum á 2. og 3. veðrétti hennar. Sóknaraðili lýsti yfir mótmælum við frumvarpi sýslumanns 30. janúar 2017 og voru þau mótmæli tekin til úrlausnar á fundi 14. febrúar sama ár. Á þeim fundi krafðist sóknaraðili þess að dráttarvaxtakröfu varnaraðila vegna veðskuldabréfanna á 2. og 3. veðrétti eignarinnar yrði hafnað og greiðslur til hans lækkaðar í samræmi við það. Sýslumaður hafnaði kröfu sóknaraðila um breytingu á frumvarpinu. Leitaði sóknaraðili í kjölfarið úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun sýslumanns og gerði þá kröfu að hún yrði felld úr gildi. Er málsástæðum sóknaraðila að baki þeirrar kröfu nánar lýst í hinum kærða úrskurði.

Sem fyrr greinir var kröfu sóknaraðila hafnað í hinum kærða úrskurði og gerir hann nú þá kröfu hér fyrir dómi að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og að tekin verði til greina krafa hans um að fyrrgreind ákvörðun sýslumannsins á Suðurlandi verði felld úr gildi. Með kröfugerð sinni leitar sóknaraðili ekki eftir tilteknum breytingum á hinu umþrætta frumvarpi sýslumanns. Af því leiðir að dómur í samræmi við hana felur ekki í sér niðurstöðu um hvernig haga beri úthlutun söluandvirðisins. Samkvæmt þessu er kröfunni svo áfátt að óhjákvæmilegt er að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands mánudaginn 27. nóvember 2017

Mál þetta, sem þingfest var 15. mars 2017 og tekið til úrskurðar 2. október 2017, barst dóminum þann 24. febrúar 2017 með beiðni, dags. síðast greindan dag. 

            Sóknaraðili er Ólafur Árni Óskarsson, kt. [...], Gularás, 861 Hvolsvöllur, en varnaraðili er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, 155 Reykjavík, kt. [...]. Fyrirsvarsmaður Landsbankans hf. er Steinþór Pálsson, framkvæmdastjóri, kt. [...], Bergstaðastræti 84, 101 Reykjavík.

            Kröfur sóknaraðila eru að felld verði úr gildi ákvörðun Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 14. febrúar 2017 um að hafna breytingu á frumvarpi til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar Gularás, fnr. 219-2354 og 219-2357, Rangárþingi. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður verður fram í málinu eða að mati réttarins.

            Kröfur varnaraðila eru að ákvörðun sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 14. febrúar 2017, um að hafna kröfu sóknaraðila um breytingu á frumvarpi til úthlutunar söluverðs eignarinnar Gularás, landnr. 163857, fnr. 219-2354, standi óbreytt. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

            Fyrir uppkvaðningu úrskurðar var gætt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

            Málavextir

            Samkvæmt framlögðum gögnum og málatilbúnaði aðila var sóknaraðili þinglýstur eigandi jarðarinnar Gularás, landnr. 163857, fnr. 219-2354. Fasteignin Gularás var seld nauðungarsölu 4. maí 2016 og varnaraðili var hæstbjóðandi.

            Þann 15. febrúar 2005 undirritaði sóknaraðili veðskuldabréf með fyrirsögninni „VEÐSKULDABRÉF Veð í bújörð“. Númer veðskuldabréfsins var tilgreint 0182-74-820365. Sóknaraðili var tilgreindur útgefandi veðskuldabréfsins og viðurkenndi hann með því að skulda varnaraðila kr. 12.200.000. Lánstími var 15 ár. Fyrsti gjalddagi var 1. mars 2005 og einn mánuður var milli gjalddaga. Lánið samkvæmt skuldabréfinu var bundið vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

            Þann 12. maí 2006 undirritaði sóknaraðili veðskuldabréf með fyrirsögninni„VEÐSKULDABRÉF Veð í fasteign“. Númer veðskuldabréfsins var tilgreint 0182-74-820674. Sóknaraðili var tilgreindur útgefandi veðskuldabréfsins og viðurkenndi hann með því að skulda varnaraðila kr. 5.000.000. Lánstími var 10 ár. Fyrsti gjalddagi var 1. júní 2006 og einn mánuður var milli gjalddaga. Lánið samkvæmt skuldabréfinu var bundið vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

            Þann 15. maí 2006 undirritaði sóknaraðili veðskuldabréf með fyrirsögninni „VEÐSKULDABRÉF Veð í fasteign“. Númer veðskuldabréfsins var tilgreint 0182-74-820676. Sóknaraðili var tilgreindur útgefandi veðskuldabréfsins og viðurkenndi hann með því að skulda varnaraðila kr. 1.100.000. Lánstími var 10 ár. Fyrsti gjalddagi var 1. júní 2006 og einn mánuður var milli gjalddaga. Lánið samkvæmt skuldabréfinu var bundið vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Til viðbótar tryggingar á skuldum lántaka var gefið út tryggingabréf nr. 0182-63-000118 þann 29.1.2004, að fjárhæð 1.500.000. Bréfið var tryggt með veði í Gularás, Rangárþingi eystra.

            Varnaraðili kveður að sóknaraðili hafi ekkert greitt til varnaraðila vegna framangreindra skuldabréfa frá og með 1. júní 2009.

            Sóknaraðili var í greiðsluskjóli hjá Umboðsmanni skuldara, skv. lögum nr. 101/2010 frá 6. apríl 2011 til 26. febrúar 2015. Varnaraðili sendi sóknaraðila greiðsluáskoranir vegna veðskuldabréfa nr. 0182-74-820365 og nr. 0182-74-820674 þann 26. ágúst 2015 og vegna veðskuldabréfs nr. 0182-74-820676 þann 23. september 2015. Beiðni varnaraðila um nauðungarsölu er dagsett 4. september 2015.

            Sóknaraðili bar nauðungarsöluna undir héraðsdóm og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi, en kröfum sóknaraðila var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands sem staðfestur var í Hæstarétti, sbr. mál réttarins nr. 798/2016 frá 6. janúar 2017.

            Samkvæmt frumvarpi sýslumannsins á Suðurlandi að úthlutunargerð á söluverði eignarinnar Gularás var hæsta boð kr. 40.000.000 og varnaraðili var hæstbjóðandi.

            Samkvæmt frumvarpinu skiptist söluandvirði með þeim hætti að kr. 400.000 renna í ríkissjóð, kr. 180.608 renna til Rangárþings ytra vegna fasteignagjalda, kr. 84.225 til TM vegna brunatryggingar, kr. 1.842.756 til varnaraðila vegna tryggingabréfs á 1. veðrétti, kr. 30.241.523 til varnaraðila vegna veðskuldabréfs á 2. veðrétti og kr. 7.250.888 til varnaraðila vegna veðskuldabréfs á 3. veðrétti. Samtals nam úthlutun til varnaraðila því kr. 39.335.167.

            Sóknaraðili lýsti yfir mótmælum við frumvarpið og sendi mótmæli sín til Sýslumanns fyrir frest þann er var tiltekinn í úthlutunargerðinni.

            Áður en ágreiningsfundur var haldinn lækkaði Gjaldheimtan fjárhæð krafna sinna skv. kröfulýsingu. Láðst hafði að færa inn innáborgun að fjárhæð 138.954 kr. sem og að dráttarvextir og vextir á kostnað voru dregnir frá sem féllu á kröfuna á meðan skuldari var í greiðsluskjóli frá 6. apríl 2011 til 3. mars 2015.

            Þann 14. febrúar 2017 var haldinn fundur í samræmi við 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991. Var mætt af hálfu beggja aðila þessa máls. Af hálfu varnaraðila voru lagðar fram athugasemdir vegna mótmælanna, þar sem varnaraðili hafði reiknað út kröfuna m.v. ef hún hefði ekki verið gjaldfelld öll þann 1. júní 2009, eins og fram kom í kröfulýsingu varnaraðila, heldur ef hún hefði verið gjaldfelld þann 26. september  2015, en dráttarvextir fallið á hvern og einn gjalddaga frá 1. júní 2009. Sóknaraðili mótmælti endurútreikningi varnaraðila og því að varnaraðili gæti lagt fram breytta kröfulýsingu, ef um slíkt væri að ræða. Varnaraðili mun hafa upplýst að ekki væri um breytta kröfulýsingu að ræða með endurútreikningnum, heldur að ekki hefði skipt máli hvenær krafan hafi verið gjaldfelld. Sóknaraðili mótmælti því að varnaraðili gæti breytt framsetningu kröfulýsingar sinnar og að þetta breytti ekki þeim ágreining sem væri uppi varðandi það að óheimilt væri af hálfu varnaraðila að leggja á dráttarvexti á meðan skuldari væri í greiðsluskjóli. Sýslumaður lýsti þeirri afstöðu sinni að hafna kröfu sóknaraðila um breytingu á frumvarpi til úthlutunar söluverðs eignarinnar og lýsti sóknaraðili því yfir að hann hyggðist leita úrlausnar Héraðsdóms Suðurlands um þá ákvörðun. Í málatilbúnaði sínum gerir sóknaraðili ekki glögga grein fyrir því með tölulegum hætti hvernig hann vill eða telur að sýslumanni hafi borið að breyta frumvarpi til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar.   

            Málsástæður sóknaraðila

            Sóknaraðili kveður málið vera höfðað skv. heimild í 3. ml. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. XII. kafla þeirra laga, en samkvæmt 3. ml. 1. mgr. 52. gr. laganna sé aðila að nauðungarsölu heimilt að leita úrlausnar héraðsdóms á ágreiningi um ákvörðun sýslumanns eftir ákvæðum XIII. kafla laganna.

A.      Varnaraðili hafi ekki heimild til að gjaldfella skuldabréf aftur í tímann.

            Sóknaraðili kveður að varðandi veðskuldabréf á 2. og 3. veðrétti þá hafi varnaraðili haft heimild til þess að gjaldfella skuldina fyrirvaralaust og án uppsagnar, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Þrátt fyrir að varnaraðila hafi verið heimilt að gjaldfella bréfið fyrirvaralaust þá þýði það hins vegar ekki að varnaraðila sé heimilt að gjaldfella bréfið aftur í tímann. Til þess sé engin heimild í skuldabréfinu eða lögum. Það væri í beinni andstöðu við meginreglu samningaréttar um tillitsskyldu í samningssambandi og líka brot gegn þágildandi 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá kröfu verði að gera til fjármálafyrirtækis að ef það gjaldfelli lánssamning, með þeim áhrifum að á skuld falli dráttarvextir, að skuldara sé tilkynnt um slíkt. Þrátt fyrir að kröfuhafa sé heimilt að gjaldfella án þess að gefa skuldara fyrirvara til að bregðast við, þá þýði það ekki að kröfuhafa sé heimilt að gjaldfella án þess að tilkynna skuldara um slíkt, eftir að gjaldfelling hafi átt sér stað. Þá verði einnig að gera þá kröfu til fjármálafyrirtækis að það geti sýnt fram á einhver gögn sem sýni fram á að gjaldfelling hafi raunverulega átt sér stað á þeim tíma sem fjármálafyrirtæki haldi slíku fram.

            Sóknaraðili kveðst ekki hafa fengið neina tilkynningu um gjaldfellingu skuldabréfsins á þeim tíma sem varnaraðili haldi fram að það hafi verið gjaldfellt. Kveðst sóknaraðili hafna því að varnaraðili hafi raunverulega gjaldfellt bréfið á þeim tíma. Ef að varnaraðili hafi raunverulega gjaldfellt bréfið á þeim tíma sem hann haldi fram ætti að vera leikur einn fyrir varnaraðila að leggja fram sönnun þess efnis. Takist sú sönnun ekki, þá sé einboðið að komast að þeirri niðurstöðu að gjaldfelling hafi ekki átt sér stað og hafna verði þá dráttarvaxtakröfu bankans. Gerðarþola hafi í það minnsta aldrei verið kynnt slík eindögun eða gjaldfelling skuldarinnar á þeim tíma sem varnaraðili haldi fram.

            Af þessu leiði að hafna beri dráttarvaxtakröfu varnaraðila og lækka greiðslur til hans, sem nemi dráttarvöxtum á veðskuldabréfum á 2. og 3. veðrétti, sem og skv. tryggingabréfi á 1. veðrétti.

B.      Varnaraðili hafi ekki heimild til að leggja á dráttarvexti á meðan skuldari var í greiðsluskjóli.

            Verði ofangreindum sjónarmiðum hafnað kveðst sóknaraðili byggja á því að varnaraðila hafi ekki verið heimilt að leggja dráttarvexti á kröfuna frá 6. apríl 2011 til 3. mars 2015, en á því tímabili hafi sóknaraðili verið í greiðsluskjóli hjá embætti umboðsmanns skuldara, skv. lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í  11. gr. laganna segi að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna sem feli í sér að lánardrottnum sé óheimilt að krefjast eða taka við greiðslu á kröfum sínum. Í 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu segi:

„Ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum. Sama á við ef greiðsla fer ekki fram vegna þess að skuldari neytir vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafa eða heldur af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar.”

            Kveður sóknaraðili að í málinu sé sú staða uppi, að skuldara hafi verið bannað skv. lögum að greiða af framangreindri skuld, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010. Verði honum því ekki um kennt að greiðslur bárust ekki, og sér í lagi þegar að honum hafi ekki einu sinni verið tilkynnt um gjaldfellingu kröfunnar. Samkvæmt þessu falli sú aðstaða sem gerðarþoli hafi verið í, að vera fyrirmunað að greiða af kröfum sínum, undir 7. gr. laga nr. 38/2001 um að hann haldi af lögmætri ástæðu eftir greiðslu. Því hafi varnaraðila verið óheimilt að krefjast dráttarvaxta frá 6. apríl 2011 til 3. mars 2015. Þetta hafi raunar verið staðfest með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 26. október 2016 í máli nr. E-203/2016 þar sem fallist hafi verið á viðurkenningarkröfu skuldara um að dráttarvextir féllu ekki á kröfuna á meðan hann var í greiðsluskjóli, en í því máli hafi einnig verið um synjun á greiðsluaðlögun að ræða.

            Kveður sóknaraðili að dráttarvaxtakröfur varnaraðila skv. skuldabréfi á 2. og 3. veðrétti séu því of háar og hafi sýslumanni borið að lækka kröfur varnaraðila með þetta fyrir augum. Hinu sama gegni um tryggingarbréf á 1. veðrétti.

            Verði komist að þeirri niðurstöðu að með hugtakinu „vextir“ í skilningi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 sé einnig átt við dráttarvexti og kröfu sóknaraðila um að varnaraðila sé óheimilt að leggja dráttarvexti á tímabili greiðsluskjóls sóknaraðila sé hafnað af hálfu dómsins, þá kveðst sóknaraðili byggja á því að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu varnaraðila í skilningi 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 að krefjast greiðslu vaxta á því tímabili sem sóknaraðili hafi verið í greiðsluskjóli. Sóknaraðila hafi verið bannað skv. lögum að greiða af skuldum sínum og þau skilaboð hafi verið ítrekuð af hálfu starfsmanna Umboðsmanns skuldara að ef hann greiddi kröfuhafa yrði greiðsluaðlögunarbeiðni hans hafnað samstundis.

C.      Vextir fyrndir

            Sóknaraðili byggir einnig á því að vextir, þ. m. t. dráttarvextir, eldri en 2. maí 2012 séu fyrndir. Ef ekki verður fallist á það kveðst sóknaraðili byggja á því að vextir, þ. m. t. dráttarvextir, sem séu eldri en 4. nóvember 2011 séu fyrndir.

            Sóknaraðili kveður að skv. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda taki þau lög einvörðungu til þeirra krafna sem stofnist eftir gildistöku laganna. Um fyrningu krafna varnaraðila fari því eftir lögum nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

            Samkvæmt 2. tl. 3. gr. eldri fyrningarlaganna fyrnist á fjórum árum kröfur um gjaldkræfa vexti. Skv. 5. gr. teljist fyrningarfrestur frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Raunar gildi einnig fjögurra ára fyrningarfrestur um vexti skv. fyrningarlögum nr. 150/2007, sbr. 1. mgr. 5. gr., sbr. og 3. gr. sömu laga.

            Samkvæmt kröfulýsingu varnaraðila hafi kröfur varnaraðila gjaldfallið þann 1. júní 2009. Í 2. mgr. 49. gr. laga nr. 90/1991 kveður sóknaraðili að mælt sé fyrir um að kröfulýsing slíti fyrningu á hendur gerðarþola berist hún sýslumanni fyrir lok fyrningartíma og krafan fáist greidd af söluverði. Kröfulýsing varnaraðila sé dags. 2. maí 2016. Séu því allir vextir varnaraðila, sem eru eldri en fjögurra ára frá því tímamarki fyrndir.

            Sóknaraðili kveður að í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 90/1991 sé mælt fyrir um að fyrningu peningakröfu sé slitið gagnvart gerðarþola ef beiðni um nauðungarsölu til að fullnægja henni berst sýslumanni fyrir lok fyrningartíma. Nauðungarsölubeiðni varnaraðila sé dags. 4. nóvember 2015. Í öllu falli séu því vextir af kröfum varnaraðila sem eru eldri en fjögurra ára fyrndir. Það tímamark sé 4. nóvember 2011.

            Sóknaraðili kveðst hafa farið í greiðsluskjól 6. apríl 2011 sem hafi lokið þann 3. mars 2015. Á því tímabili hafi varnaraðili ekki mátt leggja á dráttarvexti. Séu kröfur varnaraðila á 1., 2. og 3. veðrétti, skv. kröfulýsingum varnaraðila alltof háar. Varnaraðili eigi í besta falli aðeins rétt á dráttarvöxtum eftir 3. mars 2015, ef ekki verði fallist á sjónarmið sóknaraðila í kafla nr. A., sem og samningsvexti frá því tímamarki sem að vextir séu ekki fyrndir, í fyrsta lagi frá 4. nóvember 2011.

            Sóknaraðili kveðst einnig byggja á því að varnaraðili hafi tapað dráttarvaxtakröfum sínum fyrir tómlætis sakir.

D.      Innheimtukostnaður of hár

            Sóknaraðili kveður að varnaraðili geri kröfu um of háa innheimtuþóknun og beri að lækka þá fjárhæð verulega.

            Samkvæmt skuldabréfi á 2. veðrétti sé krafist innheimtuþóknunar að fjárhæð 434.000 kr. Þá sé einnig þar að finna liðinn „Kostnaður vegna uppboðs“ sem sé tiltekinn 120.496 kr. Einnig séu þar liðirnir, „Uppboðsbeiðni“ 7.440 kr., „Kröfulýsing“, 7.440 og „ritun greiðsluáskorunar“ 7.440 kr.

            Samkvæmt skuldabréfi á 3. veðrétti sé krafist innheimtuþóknunar að fjárhæð 393.560 kr. en þar sé einnig að finna liðinn „Kostn. kröfuhafa fyrir löginnh.“ að fjárhæð 72.055 kr. Einnig sé þar að finna liðina „Kröfulýsing“ sem sé 7.440 kr. og „Ritun greiðsluáskorunar“ 7.440 kr.

            Samkvæmt tryggingabréfi á 1. veðrétti krefjist varnaraðili innheimtuþóknunar að fjárhæð 179.527 kr. en þar sé einnig að finna liðinn „Kostn. kröfuhafa fyrir löginnh.“ að fjárhæð 84.915 kr. Jafnframt séu þar liðirnir „Kröfulýsing“ sem sé 7.440 kr. og „ritun greiðsluáskorunar“ 7.440 kr.

            Sé því kostnaður skv. þessu við það að krefjast uppboðs á fasteign sóknaraðila samtals 1.336.633 kr. sem sóknaraðili kveður alltof háan. Athygli veki að varnaraðili tiltaki sérstaklega hver sé kostnaður við ritun greiðsluáskorunar, uppboðsbeiðni og kröfulýsingar. Fyrir utan þessi atriði hafi varnaraðili þurft að mæta einu sinni við fyrirtöku hjá Sýslumanni, einu sinni við byrjun uppboðs hjá Sýslumanni og svo á uppboðið sjálft. Telur varnaraðili að eðlilegur kostnaður við það sé hefðbundið mótsgjald fyrir mætingu við fyrirtöku sem og við byrjun uppboðs. Þá geti varla hafa farið meira en 3-4 klst. í að mæta á sjálft uppboðið, sem sé í 30 mínútna akstursfjarlægð frá Selfossi.

            Vekur sóknaraðili athygli á því að skv. 24. gr. a. lögmannalaga nr. 77/1998 sé lögmanni óheimilt að áskilja sér endurgjald skv. 3. mgr. 24. gr. sömu laga af þeim hluta kröfu sem fallinn sé í gjalddaga vegna gjaldfellingar eftirstöðva skuldar sökum vanefnda á greiðslu afborgunar eða vaxta.

            Þá vísar sóknaraðili til þess að í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 segi að til peningakröfu skv. 1. mgr. teljist til „innheimtukostnaður og kostnaður af kröfu, undanfarandi fullnustuaðgerðum, nauðungarsölunni sjálfri og aðgerðum í tengslum við hana“. Með innheimtukostnaði og kostnaði við nauðungarsöluna sjálfa sé sýnilega átt við beinan kostnað við slíkt skv. tímagjaldi en ekki samninga lögmanns og kröfuhafa um tiltekið hlutfall af kröfu.

            Kveður sóknaraðili þar af leiðandi að krafa varnaraðila sé alltof há hvað þetta varðar og Sýslumanni beri að lækka hana verulega, eftir atvikum með því að kalla eftir tímaskýrslu.

            Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína á lögum nr. 90/1991 um nauðungarsölu, lögum nr. 75/1997 um samningsveð, lögum nr. 101/2010 um greiðsulaðlögun einstaklinga, lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, meginreglu samninga og kröfuréttar um tómlæti, lögum nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, þágildandi lögum nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, lögum nr. 75/1997 um samningsveð, lögum nr. 77/1998 um lögmenn, lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum 19. gr., þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, einkum 4. gr. og 6. gr, lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum  33. gr. og 36. gr., ólögfestri meginreglu samningaréttar um brostnar og rangar forsendur, ólögfestum meginreglum samningaréttar og kröfuréttar, þ. á m. meginreglunni um tillitsskyldu í samningssambandi sem og meginreglum um kröfuábyrgðir. Kröfu um málskostnað byggir sóknaraðili á 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að auki er vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á málskostnað.

            Um heimild til að skjóta máli þessu til úrlausnar héraðsdóms vísar sóknaraðili til XIV. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu en í 80. gr. laganna komi fram að hver sá sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta geti leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölunnar.

            Um varnarþing vísar sóknaraðili til 4. mgr. 3. gr. laga um nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

            Málsástæður varnaraðila

            1. Gjaldfelling skuldabréfs

            Varnaraðili byggir á því að afborganir sóknaraðila vegna veðskuldabréfa sem hvílt hafi á 2. og 3. veðrétti eignarinnar Gularás hafi verið í vanskilum síðan 1. júní 2009. Samkvæmt veðskuldabréfunum hafi varnaraðila verið heimilt, yrði dráttur á greiðslu afborgana, vaxta og/eða vísitöluálags, að gjaldfella skuldina fyrirvaralaust og án uppsagnar. Engin vafi sé á að búið sé að gjaldfella skuldir sóknaraðila samkvæmt umræddum veðskuldabréfum samkvæmt heimild í veðskuldabréfunum sjálfum. Varnaraðila sé heimilt að reikna dráttarvexti frá 1. júní 2009, skuldin hafi verið gjaldfelld og greiðsluáskorun með gjaldfelldum höfuðstól send til sóknaraðila.

Auk framangreinds bendir varnaraðili á að þó að miðað yrði við að gjaldfelling hafi ekki átt sér stað fyrr en mánuði eftir að greiðsluáskoranir hafi verið sendar til sóknaraðila, þá hefði það engin áhrif á úthlutunargerð sýslumannsins á Suðurlandi vegna nauðungarsölu eignarinnar Gularás. Sóknaraðili hafi ekki greitt afborganir af greindum veðskuldabréfum frá og með 1. júní 2009 og vextir reiknist á því tímabili í samræmi við ákvæði veðskuldabréfanna þar til bréfin teljast gjaldfelld. Sé miðað við síðastgreindar forsendur væri krafa varnaraðila samtals kr. 44.974.878, sbr. endurreikning varnaraðila.

            Varnaraðili kveður að í 4. mgr. 50. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu segi:

„Nú hefur kröfu verið lýst um greiðslu af söluverðinu eða hún kemur fram í beiðni um nauðungarsölu og sýnt er að hún fáist greidd að nokkru eða öllu, og skal þá sýslumaður leggja mat á það af sjálfsdáðum við gerð frumvarps með hverri fjárhæð og hvar í réttindaröð krafan verði viðurkennd að lögum á grundvelli framkominna gagna. Ef krafa er fyrnd eða hefur glatað réttarvernd að einhverju marki skal sýslumaður færa niður fjárhæð hennar í frumvarpi sem því nemur af sjálfsdáðum. Ef kröfu hefur ekki verið lýst fyrr en eftir þann tíma sem segir í 1. mgr. 49. gr. verður ekki úthlutað af söluverðinu til greiðslu málskostnaðar eða annars innheimtukostnaðar af henni.“

Með vísan til 4. mgr. 50. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, þess sem að framan er rakið og endurreiknings varnaraðila sem sýndur er í neðangreindri töflu, kveður varnaraðili fráleitt að halda því fram að lækka eigi kröfu varnaraðila sem nemi þeim dráttarvöxtum sem tilgreindir séu í kröfulýsingum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

8582-350

8582-351

8582-358

 

 

gjaldfelld:

gjaldfelld:

gjaldfelld:

 

26.09.15

 

26.09.15

 

23.10.15

 

hst

14.863.842

hst

5.426.319

hst

1.318.351

 

vx

4.732.384

vx

1.377.136

vx

226.175

 

drvx

8.903.781

drvx

2.879.822

drvx

642.378

 

kostn

72.055

kostn

72.055

kostn

84.915

 

434.000

393.560

179.527

 

1.987.347

7.440

485.030

7.440

289.557

7.440

 

120.496

7.440

7.440

 

7.440

3.645

6.954

 

7.440

890

2.061

500.000

 

 

827.080

 

 

3.646

 

1.220

2.061

 

 

5.689

 

 

30.487.354

10.168.307

2.476.461

8582-368

Uppreiknað trbr.

 

m. vx og kostn.

Samtala gjaldfallið:

hst

1.500.000

44.974.878

vx

drvx

196.719

kostn

137.437

146.037

8.600

 

1.842.756

 

 

            2. Vextir í greiðsluskjóli

            Hvað varðar vísun sóknaraðila til 11. gr. laga nr. 101, 2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga vill varnaraðili benda á að einungis sé mælt fyrir um að vextir falli ekki í gjalddaga á meðan frestun greiðslna stendur, en þeir séu áfram reiknaðir á tímabili greiðslustöðvunar og falli ekki niður við það eitt að falla ekki í gjalddaga á þessum tíma. Hvað varðar vísan sóknaraðila til 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu þá telur varnaraðili augljóst að ákvæðið eigi ekki við. Ákvæði 1. málsl. 7. gr. hafi fyrst verið lögfest með 13. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Í athugasemdum með 13. gr. í frumvarpi sem hafi orðið að lögum nr. 25/1987 segi eftirfarandi:

            „Í þessu ákvæði er lagt til að skuldara verði ekki gert að greiða dráttarvexti ef um viðtökudrátt af hálfu kröfuhafa er að ræða. Til þess að um viðtökudrátt geti verið að ræða þarf skuldari að hafa bæði vilja og getu til að greiða og hann þarf að hafa gert kröfuhafa löglegt greiðslutilboð eða lagt féð inn á geymslureikning skv. lögum nr. 9, 1978. Ákvæði þetta tekur einnig til þeirra tilvika er skuldara er rétt að halda að sér höndum um greiðslu, t.d. vegna vanefnda, eftir atvikum fyrirsjáanlegra vanefnda, af hálfu kröfuhafa.“

            Þá kveður varnaraðili að 2. málsl. 7. gr. eigi augljóslega ekki við heldur, enda sé sóknaraðili ekki að beita vanefndarúrræði, en í athugasemdum með 7. gr. í frumvarpi sem hafi orðið að lögum nr. 38/2001, segi m.a. „Tilgangurinn með 2. málsl. 7. gr. frumvarps þessa er því að breyta framkvæmd þessarar reglu á þann veg að verði greiðslufall skuldara vegna þess að hann neytir lögmætra vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafanum skuli ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum valdi atvik, sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt, því að greiðsla fer ekki fram.“

            Framangreindu til stuðnings bendir varnaraðili jafnframt á dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. E-3301/2015 og E-3626/2015. Í fyrrgreinda dóminum hafi m.a. sagt: „Loks er til þess að líta að er stefndi ákvað að draga til baka umsókn sína um greiðsluaðlögun féllu niður áhrif frestunar greiðslna samkvæmt 11. gr. laga nr. 101/2010. Var stefnanda heimilt að reikna vexti af fjárhæðinni frá öndverðu af þeim sökum.“ Þá hafi sagt í seinni dóminum „Í öðru lagi byggir stefnda á því að sýkna beri hana af kröfu stefnanda um dráttarvexti vegna þess tímabils sem umsókn Eiðs Gunnars um greiðsluaðlögun var til meðferðar hjá Umboðsmanni skuldara, með vísan til a-liðar 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga og 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 falla vextir á skuldir meðan á frestun greiðslna stendur, þó þannig að þeir falla ekki í gjalddaga á meðan. Ákvæði 7. gr. laga nr. 38/2001, sem lýtur að því tilviki að greiðsla fari ekki fram vegna atvika sem varða kröfuhafa, á ekki við í málinu. Samkvæmt framangreindu er því hafnað kröfu stefndu um sýknu af kröfum stefnanda að þessu leyti.“

            Kveður varnaraðili að enginn vafi ætti því að vera á því að ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga og 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu geti ekki leitt til þess að varnaraðila sé ekki heimilt að krefjast vaxta vegna þess tímabils er sóknaraðili hafi verið í greiðsluskjóli. 

            3. Fyrning vaxta

            Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðili hafi verið í greiðsluskjóli hjá Umboðsmanni skuldara, skv. lögum nr. 101/2010 frá 6. apríl 2011 til 26. febrúar 2015. Á því tímabili hafi varnaraðila verið óheimilt að krefjast greiðslu á kröfum sínum, gera fjárnám í eigum skuldara eða fá þær seldar nauðungarsölu, sbr. a. og c. liðir 1. mgr. 11. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010.

            Í 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga segi að vextir falli á skuldir meðan á frestun greiðslna standi, en þeir séu ekki gjaldkræfir. Samkvæmt 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sem sóknaraðili byggi málsástæðu sína um fyrningu vaxta á, segi að kröfur um gjaldkræfa vexti fyrnist á 4 árum. Þar sem vextir hafi ekki verið gjaldkræfir á því tímabili sem sóknaraðili var í greiðsluskjóli telur varnaraðili, með vísan til  2. tl. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, að þar sem vextir hafi ekki verið gjaldkræfir hafi þeir ekki getað glatast vegna fyrningar á því tímabili og fyrningarfrestur ekki liðið á þeim tíma. Fyrningarfrestur hafi hafist þegar varnaraðili hafi fyrst getað átt rétt til efnda, þann 26. febrúar 2015, þegar greiðsluskjóli hafi lokið. Sama niðurstaða hefði fengist eftir lögum nr. 150/2007, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra laga. Þar sem engin hluti vaxta hafi verið fyrndur þegar sóknaraðili hafi farið í greiðsluskjól geti þeir ekki talist hafa glatast fyrir fyrningu. Þá sé rétt að árétta að verðbætur fyrnist ekki á 4 árum samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

            Þá bendir varnaraðili jafnframt á að þó svo að vextir sem eru eldri en fjögurra ára, talið frá dagsetningu á beiðni varnaraðila um nauðungarsölu 4. nóvember 2015, teldust fyrndir og að engu leyti væri fallist á framangreind sjónarmið varnaraðila um fyrningarfrest, hefði það samt sem áður engin áhrif á úthlutunargerð sýslumannsins á Suðurlandi. Líkt og sjáist á endurreikningi varnaraðila, væri krafa varnaraðila samt sem áður kr. 40.568.205 og hefði það því engin efnisleg áhrif á úthlutunargerð sýslumannsins á Suðurlandi. Sama upphæð myndi úthlutast til varnaraðila.

            Væri miðað við að vextir eldri en 6. apríl 2011 væru fyrndir, þ.e. áður en sóknaraðili hafi farið í greiðsluskjól, væri krafa varnaraðila kr. 42.081.016, sbr. neðangreind tafla:

 

            Kveður varnaraðili að jafnvel þó að gengið væri svo langt að miða við að gjaldfelling hafi ekki átt sér stað fyrr en mánuði eftir dagsetningu greiðsluáskorana og vextir eldri en fjögurra ára væru fyrndir, hefði það samt sem áður engin áhrif á úthlutunargerð sýslumanns þar sem krafa varnaraðila væri kr. 40.090.563, en úthlutun til varnaraðila samkvæmt úthlutunargerð sýslumanns hafi numið kr. 39.335.167.

            Varnaraðili mótmælir sem órökstuddri málsástæðu sóknaraðila þess efnis að dráttarvaxtakrafa varnaraðila hafi glatast fyrir tómlæti og kveður að sér hafi ekki verið heimilt að innheimta kröfu sína á tímabili greiðsluskjóls sóknaraðila.

            4. Innheimtukostnaður

            Varnaraðili kveður innheimtukostnað sinn vera í fullu samræmi við innheimtulög nr. 95/2008, 24. gr. a. laga um lögmenn nr. 77/1998 og leiðbeinandi reglur fyrir lögmenn um endurgjald sem þeim er hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu.

            Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 sé með löginnheimtu átt við innheimtuaðferð á grundvelli 24. gr. a laga um lögmenn nr. 77/1998. Í 1. mgr. 24 gr. a lögmannalaga nr. 77/1998 segi að með löginnheimtu sé átt við innheimtuaðferð á grundvelli réttarfarslaga og markist upphaf hennar við aðgerðir sem byggðar eru á lögum um aðför nr. 90/1989, lögum um kyrrsetningu, lögbann o.fl., lögum um nauðungarsölu nr. 90/1991, lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og lögum um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991, eða tilkynningum sem samrýmast góðum lögmannsháttum. Upphaf löginnheimtu í máli þessu markist því við það tímamark þegar aðgerðir hafi hafist á grundvelli laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu þ.e. þegar greiðsluáskoranir hafi verið sendar til sóknaraðila skv. 9. gr. laganna. Greiðsluáskoranir vegna veðskuldabréfa nr. 0182-74-820365 og nr. 0182-74-820674 hafi verið sendar þann 26. ágúst 2015 og vegna veðskuldabréfs nr. 0182-74-820676 þann 23. september 2015.

            Kveður varnaraðili að í 2. mgr. 24. gr. a laga um lögmenn nr. 77/1998 segi að við löginnheimtu sé lögmanni óheimilt að áskilja sér endurgjald skv. 3. mgr. 24. gr. af þeim hluta kröfu sem fallinn er í gjalddaga vegna gjaldfellingar eftirstöðva skuldar sökum vanefnda á greiðslu afborgunar eða vaxta. Í athugasemdum með 7. og 8. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 60/2010 um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., lögum um nauðungarsölu, lögum um lögmenn og innheimtulögum, með síðari breytingum (réttarstaða skuldara), segi m.a. eftirfarandi: „Í fyrirhugaðri reglu 7. gr. frumvarpsins er lagt til að lögmönnum verði óheimilt að áskilja sér þóknun af gjaldfelldum höfuðstól kröfu, umfram þann hluta kröfunnar sem fallin var í gjalddaga við upphaf löginnheimtu og þess sem fellur í gjalddaga eftir þann tíma. Ef skuld sem kemur til innheimtu hjá lögmanni er gjaldfelld sökum vanskila getur lögmaður einungis tekið innheimtukostnað af þeim hluta kröfunnar sem kominn var í gjalddaga við upphaf löginnheimtunnar og svo af þeim hluta kröfunnar sem fellur í gjalddaga síðar, en ekki af þeim hluta hennar sem gjaldfelldur er sökum þeirra vanefnda sem orðið hafa á greiðslu afborgana og vaxta.“

            Samkvæmt heimild í 3. mgr. 24. gr. a laga um lögmenn nr. 77/1998, sbr. lög nr. 60/2010, hafi tekið gildi þann 1. júlí 2013 leiðbeinandi reglur fyrir lögmenn um endurgjald sem þeim er hæfilegt að áskilja umbjóðendum sínum úr hendi skuldara vegna kostnaðar af löginnheimtu peningakröfu. Samkvæmt 1. gr. hinna leiðbeinandi reglna taki þær ekki til útlagðs kostnaðar vegna ýmissa gjalda sem greiða þurfi vegna innheimtu peningakröfu og fjárhæðir séu tilgreindar án virðisaukaskatts. Í 2. gr. greindra leiðbeininga segi eftirfarandi:

„2. gr.

Hæfilegt endurgjald sem reiknast af fjárhæð þeirrar kröfu sem til innheimtu er telst vera:

Grunngjald 6.000,- kr. að viðbættu:

25% af fyrstu kr. 50.000,-

10% af næstu kr. 200.000,-

5% af næstu kr. 2.000.000,-

2% af því sem umfram er en þó aldrei hærri en kr. 350.000.

Hæfilegt endurgjald fyrir ritun greiðsluáskorunar, aðfararbeiðni, nauðungarsölubeiðni, gjaldþrotaskiptabeiðni, kröfulýsingar, afturkallanir og beiðni um vörslusviptingu, er 6.000,- kr.

Hæfilegt endurgjald fyrir frestun aðgerða í máli án mætingar, ítrekun vegna greiðslufalls samnings um uppgjör skulda og aðvörun um frekari innheimtuaðgerðir er kr. 1.000,-

Hæfilegt endurgjald fyrir fyrsta mót í máli sem tekið er fyrir hjá sýslumanni er kr. 10.000 en kr. 6.000,- í hvert sinn eftir það.“

            Kveður varnaraðili kröfulýsingar sínar að öllu leyti í samræmi við framangreint. Innheimtuþóknun sé reiknuð miðað við greiðslur sem fallnar séu í gjalddaga og ekki sé farið yfir hámark innheimtuþóknunar skv. 2. gr. hinna leiðbeinandi reglna. Kostnaður vegna gerðar uppboðsbeiðni, kröfulýsingar og ritun greiðsluáskorunar sé kr. 6.000 að viðbættum virðisaukaskatti, sbr. 2. gr. greindra leiðbeinandi reglna. Liðurinn kostnaður vegna uppboðs, sem finna megi á kröfulýsingu varnaraðila með kröfunúmerið 8582-000350, sé vegna nauðungarsölugjalds í ríkissjóð (kr. 58.000), aksturs (kr. 10.664) og vinnu lögmanns við að mæta við fyrstu fyrirtöku (kr. 12.400), við byrjun uppboðs (kr. 7.440) og við lokasölu (kr. 31.992), samtals 120.496 m/vsk.

            Kveður varnaraðili að fyrir því sé löng venja í íslenskri réttarframkvæmd að skuldara beri að bæta kröfuhafa innheimtukostnað sem leggist á hann vegna vanefnda skuldarans. Hafi og tíðkast að umræddur kostnaður hafi verið ákveðinn með gjaldskrám innheimtufyrirtækja. Þá hafi tíðkast um langan aldur að slíkar gjaldskrár tengi endurgjald við þá hagsmuni sem um er að tefla.

            Auk þess bendir varnaraðili á að 2. mgr. 24. gr. a laga um lögmenn nr. 77/1998  eigi í raun ekki við í málinu þar sem gjaldfelling hafi verið vegna nauðungarsölu á Gularási, en ekki vegna vanefndar á greiðslu afborgunar eða vaxta.

            Varnaraðili kveðst vísa til laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, laga um lögmenn nr. 77/1998, laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010, laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905, laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, meginreglna samningaréttar og kröfuréttar. Krafa um málskostnað sé studd við ákvæði XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 75. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og um virðisaukaskatt er vísað til laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt.

            Forsendur og niðurstaða

            Í máli þessu gerir sóknaraðili kröfur sínar um það að felld verði úr gildi ákvörðun Sýslumannsins á Suðurlandi um að hafna breytingu á frumvarpi til úthlutunar á söluverði umræddrar fasteignar. Að mati dómsins hefði farið betur á því að sóknaraðili gerði í dómkröfum sínum grein fyrir því hvaða breytingu sýslumaður hafi hafnað að gera á frumvarpinu, sbr. þá meginreglu laga um glögga framsetningu dómkrafna sem verður að telja að felist í d lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Allt að einu þykir bera að leysa úr málinu efnislega en varnaraðili hefur ekki krafist frávísunar.

            Fyrsta málsástæða sóknaraðila er sú að þrátt fyrir að óumdeilt sé að varnaraðila hafi verið heimilt að gjaldfella umrædd skuldabréf, þá hafi varnaraðila ekki verið það heimilt aftur í tímann en til þess séu engar heimildir. Varnaraðila hafi borið að tilkynna um gjaldfellingu þá er hún hafi verið gerð auk þess að ekkert liggi fyrir um að bréfin hafi raunverulega verið gjaldfelld.

            Í ákvæðum bréfanna segir berum orðum að verði dráttur á greiðslu afborgana, vaxta og/eða vísitöluálags þá sé varnaraðila heimilt að gjaldfella skuldina fyrirvaralaust og án uppsagnar og er um þetta í bréfunum vísað til 9. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Af ákvæðum þessum verður að mati dómsins ekki dregin sú ályktun að varnaraðila hafi borið að tilkynna um þetta sérstaklega fyrirfram eða að ekki hafi honum verið heimilt að byggja á gjaldfellingu allt frá því að vanskil urðu, en vanskilin eru óumdeild. Hefur sóknaraðili ekki vísað til sérstakra lagaákvæða um þetta að frátalinni almennt orðaðri reglu í 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en ekki verður þetta leitt af henni. Auk þessa hefur sóknaraðili ekki hrakið þá fullyrðingu varnaraðila að þó að miðað væri við að gjaldfelling hefði ekki komið til fyrr en mánuði eftir að greiðsluáskoranir hafi verið sendar til sóknaraðila, þá hefði það ekki haft nein áhrif á frumvarp sýslumanns. Verður þessari málsástæðu sóknaraðila því hafnað.

            Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi ekki haft heimild til að leggja dráttarvexti á kröfur sínar þann tíma sem sóknaraðili hafi verið í greiðsluskjóli. Vísar sóknaraðili hér til 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga, sem og til 7. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í 11. gr. laga nr. 101/2010 eru ekki fyrirmæli um að vextir falli ekki á kröfu meðan á greiðsluskjóli stendur, heldur aðeins að séu ekki gjaldkræfir á þeim tíma og segir m.a. berum orðum að þeir fallir á kröfur meðan á greiðsluskjólinu stendur. Í 7. gr. laga nr. 38/2001 segir að ef „atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum. Sama á við ef greiðsla fer ekki fram vegna þess að skuldari neytir vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafa eða heldur af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar.“ Það er mat dómsins að þetta ákvæði eigi hér ekki við, en augljóst er af lögskýringargögnum að ákvæðið lýtur að því er greiðsla fer ekki fram vegna atvika sem varða kröfuhafa, en jafnframt lýtur ákvæðið að því þegar kröfuhafi neytir vanefndaúrræða. Þá verður ekki fallist á þá málsástæðu sóknaraðila að það sé í andstöðu við 36. gr. laga nr. 7/1936 að varnaraðili hafi lagt dráttarvexti á kröfur sínar vegna þessa tímabils, enda lítt gerð grein fyrir þessari málsástæðu af hálfu sóknaraðila. Verður því þessari málsástæðu sóknaraðila hafnað.

            Í þriðja lagi byggir sóknaraðili mál sitt á því að vextir, þ.m.t. dráttarvextir eldri en 2. maí 2012 séu fyrndir, en til vara að þeir séu fyrndir sem eru eldri en 4. nóvember 2011. Um þetta ber að líta til þess að sóknaraðili var í greiðsluskjóli hjá Umboðsmanni skuldara frá 6. apríl 2011 til 26. febrúar 2015 eins og varnaraðili bendir á en það hefur ekki verið hrakið. Á þeim tíma var varnaraðila óheimilt að krefjast greiðslu á kröfum sínum, gera fjárnám í eigum skuldara eða fá þær seldar nauðungarsölu, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010. Verður að fallast á það með varnaraðila að þar sem vextirnir voru ekki gjaldkræfir á þessu tímabili þá hafi þeir ekki getað glatast vegna fyrningar á meðan og fyrningarfrestur því ekki getað liðið á þeim tíma. Enginn hluti vaxtakrafnanna var fyrndur þegar greiðsluskjól hófst og geta þeir því ekki hafa glatast fyrir fyrningu, en varnaraðili gat ekki átt rétt til efnda fyrr en 26. febrúar 2015 þegar greiðsluskjólinu lauk. Þá hefur sóknaraðili ekki hrakið þann málatilbúnað varnaraðila að jafnvel þó að vextir frá því fyrir 6. apríl 2011 væru teknir frá kröfum hans þá myndi það ekki hafa haft áhrif á það að krafa varnaraðila væri allt að einu hærri en sem nemur söluverði hinnar nauðungarseldu fasteignar. Verður því málsástæðum sóknaraðila um fyrningu hafnað.

            Í fjórða lagi byggir sóknaraðili á því að innheimtukostnaður eða innheimtuþóknun sé of hár og beri að lækka þann kostnað verulega. Vísar sóknaraðili í þessum efnum til 24. gr. a, 3. mgr. 24. gr. lögmannalaga nr. 77/1998 og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í 2. mgr. 24. gr. a laga nr. 77/1998 segir að við „löginnheimtu skv. 1. mgr. er lögmanni óheimilt að áskilja sér endurgjald skv. 3. mgr. 24. gr. af þeim hluta kröfu sem fallinn er í gjalddaga vegna gjaldfellingar eftirstöðva skuldar sökum vanefnda á greiðslu afborgunar eða vaxta.] 1)“  Upphaf löginnheimtu í málinu ber að miða við það er innheimtuaðgerðir hófust á grundvelli laga nr. 90/1991, þ.e. þegar greiðsluáskoranir voru sendar, en það var annars vegar 26. ágúst 2015 og hins vegar þann 23. september 2015. Á þeim tíma var allur höfuðsstóll bréfanna fallinn í gjalddaga eftir gjaldfellingu þeirra. Hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að innheimtan hafi verið í andstöðu við framangreint ákvæði 2. mgr. 24. gr. a laga nr. 77/1998 eða ákvæði leiðbeinandi reglna sem að framan var lýst og sem settar voru með heimild í 3. mgr. 24. gr. a nefndra laga. Verður því ekki fallist á að þessi málsástæða sóknaraðila geti orðið til þess að fallist verði á kröfu hans um að felld verði úr gildi framangreind ákvörðun sýslumanns um að hafna breytingu á nefndu frumvarpi til úthlutunar vegna nauðungarsölunnar. 

            Verður kröfum sóknaraðila samkvæmt þessu hafnað.

            Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðila kr. 1.410.351 í málskostnað en þá hefur verið tekið tillit til virðisaukaskattsef.

            Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Kröfum sóknaraðila, Ólafs Árna Óskarssonar, er hafnað.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila, Landsbankanum hf., kr. 1.410.351 í málskostnað.