Hæstiréttur íslands

Mál nr. 375/2009


Lykilorð

  • Samningur
  • Gagnkrafa
  • Skuldajöfnuður
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 25. febrúar 2010

Nr. 375/2009.

Maresco A/S

(Berglind Svavarsdóttir hrl.)

gegn

Samskipum hf.

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

Samningar. Gagnkröfur. Skuldajöfnuður. Sératkvæði.

M hafði uppi skaðabótakröfu gagnvart S hf. til skuldajafnaðar, en kröfuna taldi félagið eiga rót að rekja til rangrar vigtunar á rækju 15. júlí 2007 af hálfu starfsmanna S, sem sáu um affermingu á rækjunni fyrir M og vigtun á henni. Við kaup og sölu á rækjunni hefði M í báðum tilvikum miðað við það magn sem það hefði fengið uppgefið hjá S hf., sem reyndist vera 24.164 kg of mikið. M hefði því orðið fyrir tjóni og taldi mistök S hf. við vigtunina saknæma. M byggði einnig á meginreglum laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup um skaðabætur vegna galla. Talið var að krafa M væri svo vanreifuð að ekki hefði verið sýnt fram á að félagið ætti gilda kröfu á hendur S hf. sem væri svo skýr og ótvíræð að það gæti neytt skuldajafnaðar. Var kröfu M því hafnað.

Dómar Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 8. maí 2009, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 24. júní 2009. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 3. júlí 2009. Áfrýjandi krefst þess að tekin verði til greina gagnkrafa hans til skuldajafnaðar að fjárhæð 175.000,80 danskar krónur miðað við 11. nóvember 2007. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í héraðsdómi er ekki ágreiningur um réttmæti kröfu stefnda að teknu tilliti til innborgunar áfrýjanda svo sem krafan ber með sér.

Áfrýjandi hefur uppi skaðabótakröfu til skuldajafnaðar, en þá kröfu telur hann eiga rót að rekja til rangrar vigtunar iðnaðarrækju úr færeyska togaranum Arctic Viking 15. júlí 2007. Starfsmenn stefnda sáu um vigtunina en togarinn er í eigu P/f Líðins í Kollafirði í Færeyjum. Áfrýjandi, sem keypti rækjuna af eiganda togarans og seldi hana svo til Íspóla ehf. miðaði í báðum tilvikum við það magn, sem hann fékk uppgefið hjá stefnda, sem reyndist 24.164 kg of mikið. Þurfti hann að endurgreiða kaupanda 3.044.664 krónur. Að því gerðu taldi hann að hann hefði ofgreitt seljanda, P/f Líðin, fjárhæð sem væri hærri en gagnkrafa hans. Hann hafi orðið fyrir tjóni og sé krafa hans skaðabótakrafa sem hann geti haft uppi á hendur stefnda. Hann reisir málatilbúnað sinn á því að stefnda hafi orðið á mistök við vigtunina, sem séu saknæm, og einnig á meginreglum laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup um skaðabætur vegna galla, sem hann telur eiga við.

Stefndi hefur viðurkennt að rangt hafi verið vigtað en mótmælir því að það sé vegna saknæmrar háttsemi starfsmanna hans eða af öðrum ástæðum, sem leitt geti til skaðabótaskyldu hans.

Áfrýjandi hefur ekki reifað í málinu hvers konar samning hann gerði við stefnda um uppskipunina og heldur ekki hvaða reglur gilda um hugsanlegar vanefndir á þeim samningi. Hann hefur ekki leitast við að upplýsa í málinu hvaða háttsemi starfsmanna stefnda hafi verið saknæm og ekki hvort aðrar reglur geti átt við um skaðabótagrundvöllinn. Vegna þessarar vanreifunar á gagnkröfunni hefur hann ekki sýnt fram á að hann eigi gilda kröfu á hendur stefnda sem sé svo skýr og ótvíræð að hann geti neytt skuldajafnaðar við kröfu stefnda.

Með vísan til þessa verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Maresco A/S, greiði stefnda, Samskipum hf., málskostnað fyrir Hæstarétti, 400.000 krónur.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að stefnda hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að áfrýjandi myndi leggja vigtartölur við uppskipunina úr togaranum M/V Arctic Viking 15. júlí 2007 til grundvallar í viðskiptum sínum við seljanda farmsins. Tjón hans getur því ekki talist vera sennileg afleiðing í skilningi skaðabótaréttar af hinni röngu vigtun stefnda á aflanum. Þar með skortir að mínum dómi grunnforsendu fyrir að hann geti beint skaðabótakröfu vegna hins ætlaða tjóns síns að stefnda. Þegar af þessari ástæðu er ég sammála meirihluta dómenda um að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm og dæma stefnda þann málskostnað fyrir Hæstarétti sem í atkvæði þeirra greinir.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 14. janúar sl., er höfðað með birtingu stefnu 23. júní 2008.

Stefnandi er Samskip hf., Kjalarvogi 7-15, Reykjavík.

Stefndi er Maresco A/S, Sydvestkajen 7G, Hirtshals, Danmörku.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 356.614 danskar krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.682 dönskum krónum frá 31. ágúst 2007 til 30. september 2007, en af 356.614 dönskum krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innágreiðslu að fjárhæð 90.957 danskar krónur hinn 21. janúar 2009.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst þess að viðurkennd verði skuldajafnaðarkrafa sín á hendur stefnanda að fjárhæð 175.000,80 danskar krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. nóvember 2007 til greiðsludags, er komi til greiðslu á móti viðurkenndum kröfum stefnanda, að því marki sem fallist verði á þær.

Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Málsatvik

Stefnandi hefur annast fyrir stefnda farmflutning milli Danmerkur og Íslands og þjónustu því tengda. Hann hefur gert stefnda reikninga vegna þessarar þjónustu og kveður stefnandi reikning að fjárhæð 356.614 danskar krónur vera vangoldinn, en nánar er um að ræða reikning dags. 31. ágúst 2007 að fjárhæð 5.682 krónur vegna geymslukostnaðar, reikning dags. 30. september 2007 að fjárhæð 210.038 danskar krónur vegna affermingar úr togaranum M/V Arctic Viking 19.-21. september 2007, og reikning dags. 30. september 2007, að fjárhæð 140.894 danskar krónur vegna farmflutnings með skipinu Helgafelli. Stefndi hefur ekki gert athugasemdir við réttmæti eða fjárhæðir framangreindra reikninga, en telur að frá framangreindum reikningsfjárhæðum skuli draga kröfu sem hann telur sig eiga á hendur stefnanda. Krafa þessi sé tilkomin með þeim hætti að stefndi telji stefnanda hafa vigtað ranglega rækjur við affermingu úr togaranum M/V Arctic Viking 15. júlí 2007, en rækjurnar hafði stefndi keypt af Arctic Viking og selt þær áfram til Íspóla ehf., 17. ágúst 2007. Við söluna hafi stefndi lagt til grundvallar vigtun stefnanda sem verið hafi röng, og því hafi Íspólar ehf. fengið 24.164 kg minna af rækjum en stefndi taldi sig vera að selja fyrirtækinu. Að sama skapi hafi stefndi greitt hærra verð fyrir rækjurnar frá M/S Arctic en honum hafi borið og stefndi hafi orðið að sæta lækkun á reikningskröfu sinni á hendur Íspólum ehf. um 3.044.664 íslenskar krónur. Stefndi hafi gefið út kreditreikning til Íspóla ehf. fyrir þeirri fjárhæð og krefst þess að fjárhæðin í dönskum krónum komi til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda samkvæmt ofangreindum reikningum.

Stefndi greiddi inn á kröfu stefnanda 21. janúar 2009, 90.957 danskar krónur.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína um greiðslu ofangreindra reikninga frá árinu 2007 á meginreglum kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga sbr. og 62. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Óumdeilt sé að stefndi þáði þá þjónustu frá stefnanda sem reikningarnir eru fyrir og stefndi hafi ekki mótmælt fjárhæðum eða réttmæti reikninganna.

Stefnandi hafni því að nokkuð skuli koma til frádráttar reikningum á grundvelli skuldajafnaðar. Fyrir liggi að viðskipti hafi tekist með stefnda annars vegar og togaranum M/V Arctic Viking og áhöfn hans um kaup stefnda á rækjum af togaranum. Stefnandi, Samskip hf., hafi ekki verið aðili að þeim viðskiptum, en hafi séð um að vigta rækjurnar. Stefndi hafi svo selt rækjurnar áfram til fyrirtækisins Íspóla ehf. Það fyrirtæki hafi greitt fyrir það magn sem fyrirtækið hafi fengið afhent, en það hafi reynst minna en stefndi hafi talið. Þurfti stefndi því að lækka reikningsfjárhæð til Íspóla ehf. um nánar tilgreinda fjárhæð og gefa út kreditreikning. Stefnandi, Samskip hf., geti ekki borið ábyrgð á því að stefndi hafi greitt meira en félaginu bar með réttu að gera í viðskiptum sínum við M/V Arctic Viking og jafnframt því að hafa afhent Íspólum ehf. minna en það sem því bar. Eina aðkoma stefnanda að málinu hafi verið að vigta rækjurnar án þess að nokkur ábyrgð á viðskiptum milli ótengdra aðila fylgdi þeirri vigtun. Stefndi eigi því enga kröfu á hendur stefnanda á framangreindum grundvelli, heldur verði að beina kröfu, þ.e. skaðabóta- eða auðgunarkröfu, einvörðungu að M/V Arctic Viking sem viðsemjanda sínum í framangreindum kaupum á þeim grundvelli að hafa fengið minna af rækjum afhent en greitt var fyrir.

Verði fallist á að stefnandi skuli sæta ábyrgð á því að stefndi greiddi M/V Arctic Viking of mikið fyrir hinar seldu rækjur vegna rangrar vigtunar, byggir stefnandi á að raunverulegt tjón stefnda vegna þessa sé ósannað. Fyrir liggi að miða verði gagnkröfu stefnda, og þar með tjón hans, við þann mismun sem var á greiðslum stefnda til M/V Arctic Viking, annars vegar miðað við það magn sem lagt var til grundvallar í umræddum kaupum og hins vegar réttilega vegið magn. Sá verðmunur skuli þá koma til skuldajafnaðar, en ekki sá verðmunur sem varð vegna framangreinds í viðskiptum stefnda við Íspóla ehf. Áréttar stefnandi að stefndi geti aðeins dregið frá kröfu stefnanda raunverulegt tjón sitt, sem rekja megi til háttsemi stefnanda. Þar sem ekkert liggi fyrir um það atriði, þ.e. verðmun samkvæmt framangreindu í viðskiptum stefnda við M/V Arctic Viking, sé skuldajafnaðarkröfu stefnda mótmælt sem ósannaðri.

Loks byggir stefnandi á því að jafnvel þótt fallist væri á skuldajafnaðarkröfu stefnda samkvæmt framangreindu sé sú krafa mun lægri en krafa stefnanda á hendur stefnda um greiðslu á umkröfðum reikningum miðað við gengi dönsku krónunnar gagnvart þeirri íslensku. Þannig nemi höfuðstóll kröfu stefnanda á hendur stefnda 356.614 dönskum krónum, en gagnkrafa stefnda um 3 milljónum íslenskra króna. Verði hvað sem öðru líði að dæma stefnda til að greiða stefnanda þennan mismun með dráttarvöxtum.

Stefnandi krefst dráttarvaxta frá gjalddögum umkrafinna reikninga, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi kveður að stefnandi hafi um árabil annast farmflutning á rækjum fyrir sig. Stefnandi hafi affermt rækjur úr skipinu M/V Arctic 15. júlí 2007. Rækjurnar hafi stefndi selt beint áfram til fyrirtækisins Íspóla ehf. Ofangreind sending hafi annars vegar innihaldið 5 kílóa rækjuöskjur og hins vegar rækjupoka að misjafnri þyngd. Venjan hafi verið sú við affermingu að stefnandi vigti hvern poka fyrir sig svo að nákvæmur kílóafjöldi liggur fyrir. Af ástæðum sem stefnda sé ekki kunnugt um hafi stefnandi gert þau mistök við affermingu og vigtun umrætt sinn, að hver rækjupoki um sig var ekki vigtaður, heldur látið duga að vigta nokkra poka og sá kílóafjöldi margfaldaður með fjölda poka samkvæmt talningu starfsmanna stefnanda. Framangreind mistök hafi valdið því að rækjurnar voru vigtaðar þyngri en þær í raun voru. Stefndi hafi því greitt hærra verð fyrir rækjurnar frá M/V Arctic en honum hafi borið. Stefndi hafi síðan selt rækjurnar áfram til Íspóla ehf., og hafi umsamið verð til þeirra verið í samræmi við vigtun stefnanda. Starfsmenn Íspóla ehf. hafi síðan komist að því að í þremur gámum af rækjum hafi vantað samtals 24.164 kg. Vigtun stefnanda hafi því skeikað um þennan kílóafjölda. Stefndi hafi því ekki séð sér annað fært en að gera kreditreikning til Íspóla ehf., að fjárhæð 3.044.664 krónur. Með bréfi frá 10. október 2007 hafi stefndi tilkynnt stefnanda um að hann gerði kröfu til stefnanda um að hann bætti sér það tjón sem hann hafi sannanlega orðið fyrir vegna rangrar vigtunar stefnanda og var meðfylgjandi reikningur að fjárhæð 3.044.664 krónur.

Stefndi byggir á því að hann hafi orðið fyrir tjóni sem stefnandi beri skaðabótaábyrgð á, samkvæmt sakarreglunni. Stefnandi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi, sem falist hafi í rangri vigtun. Tjón stefnda verði rakið til gáleysis stefnanda við vigtun á rækjunum.

Þá er krafa stefnda jafnframt byggð á því að vigtun stefnanda á rækjunum hafi verið hluti af þjónustu sem stefndi keypti af stefnanda, sú þjónusta hafi verið haldin galla í skilningi 17. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, stefndi eigi þar með rétt á skaðabótum samkvæmt 40. gr. sömu laga. Með háttsemi sinni hafi stefnandi farið út fyrir það sem kallast megi venjulegt eða eðlilegt í viðskiptum af þessu tagi. Því til stuðnings megi nefna að stefnandi hafi um árabil vigtað rækjur fyrir stefnda og vigtunin hafi aldrei farið fram með þessari aðferð, enda hafi afleiðingar orðið þær að skeikað hafi heilum 24.164 kílóum af rækjum. Stefndi hafi því þurft að greiða meira en honum bar fyrir rækjurnar. Stefnandi viðurkenni sjálfur að hafa vigtað 417.185 kíló af rækjum, en einungis hafi verið 393.021 kíló í gámnum  þegar farmurinn var afhentur Íspólum ehf. Upplýsingar um magnið hafi komið frá stefnanda sjálfum og hafi því stefndi getað litið svo á að upplýsingarnar væru réttar, stefndi hafi því greitt fyrir 417.185 kíló af rækjum. Eftir söluna til Íspóla ehf., hafi komið í ljós að stefnandi hafi einungis afhent 393.021 kíló. Geti stefndi því litið svo á sem 24.164 kíló af rækjum hafi glatast í meðförum stefnanda.

Krafa stefnda um skaðabætur byggist á 40. gr. laga um lausafjárkaup, en þar segi að kaupandi geti krafist skaðabóta vegna þess tjóns sem hann bíði vegna galla á söluhlut, nema seljandinn sanni að þá megi rekja til hindrana sem nefndar eru í 27. gr. laganna. Þá segi í a-lið 3. mgr. 40. gr. að kaupandi geti ávallt krafist skaðabóta ef gallann eða tjónið megi rekja til mistaka eða vanrækslu seljanda. Þar sem vigtunaraðferð stefnanda megi jafna við mistök eða vanrækslu sé ljóst að stefndi eigi rétt á skaðabótum.

Fjárhæð skuldajafnaðarkröfunnar er byggð á því að stefndi hafi lagt fram kvittanir fyrir endurgreiðslu á andvirði 24.164 kílóa af rækjum, upp á 3.044.663 krónur, eða 175.000,80 danskar krónur. Hafi hann þar með sýnt fram á raunverulegt tjón sitt.

Stefndi byggir á því að skilyrði skuldajafnaðar séu uppfyllt. Krafa stefnda sé tilkomin með þeim hætti að stefnandi beri skaðabótaábyrgð á tjóni stefnda. Skilyrði skuldajafnaðar um að gagnkrafa og aðalkrafa séu gagnkvæmar, sambærilegar og hæfar til að mætast, hvað greiðslutíma varðar, séu uppfyllt. Þá séu skilyrði skuldajafnaðar um gilda, skýra og ótvíræða kröfu, sömuleiðis uppfyllt hér. Skilyrði skuldajafnaðar séu því uppfyllt og beri að taka kröfu stefnda til greina að öllu leyti.

Niðurstaða

Í málinu er ekki uppi ágreiningur um réttmæti eða fjárhæðir reikninga þeirra er stefnandi krefur stefnda um greiðslu á, heldur snýst málið um réttmæti skuldajafnaðarkröfu stefnda.

Ekki verður annað ráðið af málatilbúnaði aðila en að ágreiningslaust sé með aðilum að stefnandi hafi um árabil annast farmflutning á rækjum fyrir stefnda og vigtun á rækjunum við affermingu. Í tilviki því sem mál þetta lýtur að, vigtaði stefnandi rækjur fyrir stefnda, sem stefndi hafði keypt af Arctic Viking, við affermingu úr togaranum M/V Arctic Viking. Ábyrgð á því að stefnda sé gefin upp rétt þyngd á farminum hvílir á stefnanda, sem vigtar farminn.

Greiddi stefndi M/V Arctic Viking fyrir það magn rækju sem stefnandi gaf upp við vigtun, en síðar kom í ljós að stefndi fékk afhent minna magn en hann greiddi fyrir. Tjón stefnda felst því í mismuni á því verði sem stefndi greiddi fyrir rækjuna til Arctic Viking og því verði sem stefndi hefði greitt, ef rétt hefði verið vigtað. Kröfu vegna þess mismunar getur stefndi haft uppi til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda, þar sem það er hið raunverulega tjón sem stefnandi ber ábyrgð á og rekja má til háttsemi hans. Í málinu liggur hins vegar ekkert fyrir um hver mismunurinn var og því alveg ósannað hvert raunverulegt tjón stefnda var vegna hinnar röngu vigtunar stefnanda.

Með vísan til framangreinds er gagnkröfu stefnda til skuldajafnaðar hafnað og verður stefndi dæmdur til greiðslu stefnufjárhæðar auk dráttarvaxta eins og í dómsorði greinir.

Í ljósi atvika málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Maresco A/S greiði stefnanda Samskipum hf., 356.614 danskar krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.682 dönskum krónum frá 31. ágúst 2007 til 30. september 2007, en af 356.614 dönskum krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innágreiðslu að fjárhæð 90.957 danskar krónur hinn 21. janúar 2009.

Málskostnaður fellur niður.