Hæstiréttur íslands
Mál nr. 180/2011
Lykilorð
- Virðisaukaskattur
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Verjandi
- Ómerking
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 8. desember 2011. |
|
Nr. 180/2011.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Kristín Edwald hrl.) |
Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Verjandi. Ómerking. Heimvísun.
X var ákærður ásamt þremur öðrum mönnum fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda sem framin voru í rekstri einkahlutafélagsins A. Hafði X verið skráður framkvæmdastjóri félagsins hluta þess tímabils sem um ræddi. Var X og einum meðákærðu, Y, skipaður einn og sami verjandinn í héraði. Í dómi Hæstaréttar sagði að í málum sem þessu hefði dæmdri sektargreislu samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 verið skipt niður milli ákærðu þegar fleiri en einn maður hefði verið sakfelldur fyrir brot. Hið sama væri talið gilda um sektargreiðslur samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Eins og mál þetta væri vaxið yrði að telja að hagsmunir X og Y rækjust á í svo þýðingarmiklum atriðum að óheimilt hefði verið að skipa þeim einn og sama verjandann, sbr. 5. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var héraðsdómur því ómerktur að því er varðaði X og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. mars 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að dómur héraðsdóms um sakfellingu ákærða verði staðfestur, en refsing hans þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Mál þetta var höfðað með ákæru 22. febrúar 2010 á hendur ákærða og þremur öðrum mönnum fyrir brot á 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir að hafa ekki afhent á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslur, hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti, fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna nánar tilgreinds einkahlutafélags sem einnig var ákært fyrir brot á lögum nr. 50/1988 og lögum nr. 45/1987. Í þinghaldi 29. júní 2010 var fallið frá ákæru á hendur einkahlutafélaginu. Í ákæru er rakið hvaða stöðum ákærðu gegndu fyrir einkahlutafélagið og kemur þar meðal annars fram að ákærði og annar meðákærði í héraði, Z, hafi á sama tíma verið skráðir framkvæmdastjórar hluta þess tíma sem hin ætluðu brot voru framin og að á sama tíma hafi enn annar ákærði í héraði, Y, verið starfandi framkvæmdastjóri fyrir félagið.
Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærði og hinir þrír meðákærðu sakfelldir fyrir þau brot sem þeim voru gefin að sök í ákærunni en því hafnað að leggja til grundvallar að áðurnefndur Y, sem er faðir ákærða, hafi verið starfandi framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins. Var talið sannað að ákærði hefði gegnt trúnaðarstöðum fyrir félagið og þótti engu breyta þótt hann hefði aðeins verið skráður sem slíkur til málamynda. Fyrir dómi hélt ákærði því fram að hann hefði engum störfum gegnt hjá félaginu heldur hafi hann aðeins skrifað undir þessa skráningu til að hjálpa föður sínum, en bú hans hefði á sínum tíma verið tekið til gjaldþrotaskipta. Hafi faðir hans haft frumkvæðið að þessu og þetta hafi aðeins átt að standa yfir í mjög skamman tíma.
Ákærða og Y, var í héraði skipaður einn og sami verjandinn. Í málum af því tagi sem hér um ræðir hefur dæmdri sektargreiðslu samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005, verið skipt niður milli ákærðu þegar fleiri en einn maður er sakfelldur fyrir brot. Hið sama hefur verið talið gilda um sektargreiðslur samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005. Eins og mál þetta er vaxið verður að telja að hagsmunir ákærða og meðákærða í héraði, Y, rekist á í svo þýðingarmiklum atriðum að óheimilt hafi verið að skipa þeim einn og sama verjandann, sbr. 5. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður af þessum sökum ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm að því er ákærða varðar og vísa málinu heim í hérað til þeirrar meðferðar sem þörf er á.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, en rétt er að ákvörðun um sakarkostnað í héraði að því er þátt ákærða varðar bíði endanlegs dóms þar.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur að því er varðar ákærða, X, og er málinu að því leyti vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristínar Edwald hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2011.
I
Málið, sem dómtekið var 5. janúar síðastliðinn, er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra útgefinni 22. febrúar 2010 á hendur „Y, kennitala [...], [...], [...], Z, kennitala [...], [...], [...], X, kennitala [...], [...], [...], Þ, kennitala [...], [...], [...], og A ehf., kennitala 500903-2010, Dugguvogi 6, Reykjavík, fyrirsvarsmaður Y, kennitala [...], fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í rekstri ákærða einkahlutafélagsins A (áður B), sem ákærði Y var starfandi framkvæmdastjóri fyrir, einnig stjórnarformaður frá 30.03.2007 og prókúruhafi frá 02.08.2006 og áður varastjórnarmaður til 30.03.2007, ákærði Z var stjórnarformaður, prókúruhafi og skráður framkvæmdastjóri fyrir til 30.03.2007, ákærði X var skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður fyrir til 30.03.2007, prókúruhafi frá 14.06.2006 og varastjórnarmaður frá 30.03.2007 til 18.04.2007, og ákærði Þ var skráður framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi frá 30.03.2007, með því að hafa:
1. Eigi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrir hönd félagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna janúar-febrúar 2007 til og með september-október 2007, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna tímabilanna september-október 2006 til og með september-október 2007, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, samtals að fjárhæð kr. 18.617.412, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Uppgjörstímabil: |
Vantalin skattskyld velta: |
Vangoldinn VSK: |
|
|
Árið 2006 september-október nóvember-desember Samtals: |
|
kr. 2.078.537 kr. 1.809.145 kr. 3.887.682 |
|
|
Árið 2007 mars-apríl maí-júní júlí-ágúst september-október Samtals: Samtals 2006 og 2007: |
kr. 12.107.412 kr. 36.579.465 kr. 12.543.949 kr. 27.110.757 kr. 87.424.245 kr. 87.424.245 |
kr. 2.394.141 kr. 7.647.918 kr. 804.467 kr. 5.236.379 kr. 14.729.730 kr. 18.617.412 |
|
2. Staðið skil á efnislega röngum skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tímabilanna júlí og ágúst 2006, og eigi staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna tímabilanna september 2006 til og með október 2007 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, í samræmi við fyrirmæli í III. kafla laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna tímabilanna júlí 2006 til og með október 2007, samtals að fjárhæð kr. 4.899.680 hvað varðar Z, samtals að fjárhæð kr. 5.187.096 hvað varðar X, samtals að fjárhæð kr. 14.488.547 hvað varðar Y og A ehf., og samtals að fjárhæð kr. 8.513.942 hvað varðar Þ, sem sundurliðast sem hér greinir:
Greiðslutímabil: Vangoldin staðgreiðsla Vangoldin staðgreiðsla
hvað varðar Z: hvað varðar X:
Árið 2006
júlí kr. 674.011 kr. 750.736
ágúst kr. 528.157 kr. 604.882
september kr. 628.717 kr. 652.565
október kr. 368.789 kr. 392.637
nóvember kr. 750.385 kr. 774.233
desember kr. 476.881 kr. 500.729
kr. 3.426.940 kr. 3.675.782
Árið 2007
janúar kr. 417.576 kr. 436.863
febrúar kr. 1.055.164 kr. 1.074.451
kr. 1.472.740 kr. 1.511.314
Samtals kr. 4.899.680 kr. 5.187.096
Greiðslutímabil: Vangoldin staðgreiðsla Vangoldin staðgreiðsla
hvað varðar Y hvað varðar Þ:
og A ehf.:
Árið 2006
júlí kr. 750.736
ágúst kr. 604.882
september kr. 652.565
október kr. 392.637
nóvember kr. 774.233
desember kr. 500.729
kr. 3.675.782
Árið 2007
janúar kr. 436.863
febrúar kr. 1.074.451
mars kr. 1.043.015 kr. 944.858
apríl kr. 303.290 kr. 205.133
maí kr. 684.501 kr. 586.344
júní kr. 1.430.302 kr. 1.332.145
júlí kr. 824.705 kr. 726.548
ágúst kr. 1.830.983 kr. 1.730.573
september kr. 1.582.022 kr. 1.483.865
október kr. 1.602.633 kr. 1.504.476
kr. 10.812.765 kr. 8.513.942
Samtals kr. 14.488.547 kr. 8.513.942
Framangreind brot ákærðu teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig:
a) 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 1. tölulið ákæru.
b) 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005 að því er varðar 2. tölulið ákæru.
Framangreind brot ákærða A ehf. samkvæmt ákæru teljast varða við:
c) 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt að því er varðar 1. tölulið ákæru, sbr. tilvitnuð ákvæði í a) lið að framan.
d) 9. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda að því er varðar 2. tölulið ákæru, sbr. tilvitnuð ákvæði í b) lið hér að framan.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Fallið var frá ákæru á hendur A ehf.
Ákærðu neita sök og krefjast sýknu, en til vara vægustu refsingar. Þess er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.
II
Fyrirtækið B ehf. var stofnað 9. september 2003 af ákærða Z og öðrum manni. Tilgangur þess var verktakastarfsemi, ráðgjöf, heildsala og smásala á byggingamarkaði. Sumarið 2005 keypti ákærði Y hlut félaga ákærða Z í félaginu og í mars 2007 keypti ákærði Þ hlut ákærða Z. Nafni félagsins var breytt í A ehf. 9. febrúar 2009. Málavextir varðandi málið, sem hér er til úrlausnar, eru þeir að skattrannsóknastjóri hóf í desember 2007 rannsókn á bókhaldi og skattskilum B ehf. vegna rekstrarársins 2006 til og með október 2007. Að lokinni rannsókn var málið sent efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra 2. desember 2008. Áður hafði það verið sent ríkisskattstjóra til endurákvörðunar opinberra gjalda. Rannsókn lögreglu, sem leiddi til útgáfu ákærunnar, er byggð á rannsókn skattrannsóknastjóra. Þá hefur verið aflað vottorða fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um trúnaðar- og stjórnunarstörf ákærðu fyrir félögin á þeim tímabilum sem í ákæru greinir. A ehf. var úrskurðað gjaldþrota 12. maí 2010.
III
Ákærði Y neitaði að hafa verið starfandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins eins og hann er ákærður fyrir en kannaðist við að hafa verið stjórnarformaður, prókúruhafi og varastjórnarmaður eins og rakið er í ákæru. Hann kvaðst hafa átt helming í fyrirtækinu og verið titlaður markaðsstjóri. Hann kvaðst hafa séð um verksamninga, leit að verkefnum og stjórn á verkstað. Hann hafi ekki séð um bókhald eða fjármál. Hann hafi þó haft prókúru og þess vegna greitt ýmsa reikninga. Þá kvaðst hann hafa komið að stjórn fyrirtækisins en hann hafi ekki verið framkvæmdastjóri eða stýrt því umfram það sem leiddi af framangreindum störfum. Hann kvaðst ekkert geta tjáð sig um skil á skattskýrslum og greiðslu opinberra gjalda á þeim tíma sem um ræðir ákæran nær til. Hann kvaðst hafa vitað að launagreiðslur voru í skilum og talið að aðrar greiðslur væru einnig í skilum. Meðákærðu, Z og Þ, hafi verið framkvæmdastjórar eins og rakið er í ákæru en meðákærði X, sem er sonur ákærða, hafi aldrei komið að rekstrinum þótt hann hafi verið skráður framkvæmdastjóri, en sú skráning hafi verið til málamynda.
Ákærði Z neitaði sök. Hann kannaðist við að hafa verið stjórnarformaður og prókúruhafi eins og rakið er í ákærunni en neitaði að hafa verið skráður framkvæmdastjóri. Ákærða var sýnd tilkynning til ríkisskattstjóra þar sem tilkynnt er að hann hafi verið tilkynntur sem framkvæmdastjóri félagsins. Hann kannaðist við að hafa ritað nafn sitt á skjalið en neitaði að hafa verið framkvæmdastjóri þess þrátt fyrir tilkynninguna. Hann kvaðst á sínum tíma hafa ráðið C, systurson sinn, sem framkvæmdastjóra og fylgst með rekstrinum í gegnum hann. Ákærði kvað aðalstarf sitt hjá félaginu hafa verið að stjórna verkunum. Eftir að C hafi verið sagt upp hafi meðákærði Y tekið við framkvæmdastjórn en meðákærði X hafi ekki komið að rekstrinum eða störfum hjá félaginu. Sjálfur kvaðst ákærði hafa verið stjórnarformaður auk þess að starfa við verkin. Ákærða var bent á að hann hafi verið skráður framkvæmdastjóri og kvað hann sér hafa verið ljóst hvað það þýddi í grófum dráttum. Hann ítrekaði að meðákærði Y hafi verið framkvæmdastjóri en gat ekki svarað því af hverju hann var ekki skráður sem slíkur. Meðákærði Y hafi tekið allar aðalákvarðanir en sjálfur hafi hann komið að þeim, þó aðallega þeim sem snertu verkin sem þeir voru að vinna. Sími félagsins hafi til dæmis verið stilltur á gemsa meðákærða. Ákærði kvað sig hafa grunað að eitthvað væri í ólagi með fjármálin hjá fyrirtækinu, þar á meðal með skattskil, eftir að C hætti og viljað fá fyrirtæki til að annast þau mál en það hafi meðákærði ekki viljað.
Ákærði X, sonur meðákærða Y, kannaðist við að hafa verið skráður í trúnaðarstöður hjá félaginu eins og rakið er í ákærunni en í raun hafi hann engum störfum gegnt fyrir það. Hann hafi látið skrá sig í þessar stöður til að hjálpa föður sínum þar eða hann hefði verið úrskurðaður gjaldþrota á sínum tíma. Þessar skráningar, sem voru að frumkvæði meðákærða, hafi bara átt að vera í stuttan tíma. Hann kvaðst aldrei hafa mætt á fundi hjá félaginu.
Ákærði Þ kvaðst hafa verið skráður framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi eins og rakið er í ákæru. Hann kvaðst á sínum tíma hafa keypt sig inn í félagið eftir að hafa haft samráð við meðákærða Y. Ákærði kvaðst hafa byrjað að vinna við tölvukerfi félagsins og hafi hann unnið við það áður en hann eignaðist hlut í því. Eftir að hann keypti hlutinn hafi hann og meðákærði átt félagið og rekið. Ákærði var framkvæmdastjóri og meðákærði stjórnarformaður. Í raun hafi þó meðákærði ráðið því sem hann vildi ráða og kvaðst ákærði ekki hafa gert sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgdi því að vera framkvæmdastjóri. Hann kvað bókhald ekki hafa verið fært og skattaskýrslum ekki skilað eftir að hann kom að félaginu. Ástæðan hafi verið sú að meðákærði Y vildi ekki láta sama fyrirtæki annast þetta og hafði gert það áður. Hafi það verið vegna tengsla þess fyrirtækis við meðákærða Z.
C, sem áður var getið um, bar að hafa verið framkvæmdastjóri B ehf. frá miðju ári 2005 til miðs árs 2006. Hann kvað þáverandi eigendur hafa ráðið sig. Sér hafi svo verið tilkynnt að verið væri að ráða nýjan framkvæmdastjóra og í framhaldinu hafi sér verið meinað um aðgang að gögnum félagsins. Við störfum sínum hafi tekið ákærði Y og hafi hann svo tekið við framkvæmdastjórn félagsins. C kvað vörsluskatta hafa verið greidda eins og bar að gera meðan hann var framkvæmdastjóri. Þegar C var framkvæmdastjóri hafi ákærði Z annast um ýmis verkleg störf hjá félaginu en ákærði Y annast ýmis störf og hann hafi svo tekið við fjármálunum þegar C lét af störfum.
D viðskiptafræðingur var fenginn til að aðstoða B ehf. við fjármál þess á sínum tíma. Var það ákærði Z sem fékk fyrirtæki vitnisins til þessa. Þetta var árið 2006 og í ársbyrjun 2007 voru lagðar fram tillögur til úrbóta í fjármálum félagsins. Ákærði vildi að farið yrði að tillögunum en meðákærði Y vildi það ekki. D kvaðst vita til þess að pappírsvinnan hjá félaginu hafi verið í höndum ákærða Y á þessum tíma en ákærði Z hafi meira sinnt verkum á vinnustað.
IV
Ákærðu neita allir sök en hafa viðurkennt að hafa gegnt formlega þeim störfum hjá B ehf., síðar A ehf., sem í ákæru greinir. Þeir hafi þó ekki gegnt þeim störfum í raun nema að litlu leyti, eins og rakið var í kaflanum hér að framan. Ákærði Y neitar þó alfarið að hafa verið starfandi framkvæmdastjóri eins og honum er gefið að sök. Þá hafa ákærðu ekki gert athugasemdir við fjárhæðir í ákæru en bent á að allar skattaskuldir hafi verið greiddar og hefur ákæruvaldið ekki andmælt því.
Með játningu ákærða Y, sem styðst við önnur gögn málsins, er sannað að hann var stjórnarformaður, prókúruhafi og varastjórnarmaður eins og rakið er í ákæru. Hér að framan var gerð grein fyrir störfum hans fyrir félagið. Af því má ráða að hann hefur tekið virkan þátt í stjórn þess, enda helmingseigandi. Hins vegar var hann aldrei ráðinn framkvæmdastjóri og þar af leiðandi var fyrirtækjaskrá ekki tilkynnt um hann sem slíkan. Í 1. mgr. 41. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 er gert ráð fyrir að stjórn félags geti ráðið framkvæmdastjóra og í næstu greinum þar á eftir er gerð grein fyrir starfsskyldum hans og ábyrgð. Af þeim ákvæðum verður ekki annað ráðið en að þar sé eingöngu átt við framkvæmdastjóra sem ráðinn er til starfa samkvæmt nefndu ákvæði. Ákærði var ekki ráðinn framkvæmdastjóri og þótt sýnt hafi verið fram á að margt í störfum hans kunni að jaðra við störf framkvæmdastjóra verður við úrlausn málsins ekki byggt á öðru en því sem liggur formlega fyrir og hafnar dómur því að leggja til grundvallar að ákærði hafi verið starfandi framkvæmdastjóri.
Ákærði Z hefur játað að hafa verið stjórnarformaður og prókúruhafi eins og rakið er í ákæru og styðst sú játning við gögn fyrirtækjaskrár. Gögn frá henni sýna og að hann var skráður framkvæmdastjóri eins og rakið er í ákæru og telst það því sannað þrátt fyrir neitun hans.
Ákærði X kannaðist við að hafa verið skráður í trúnaðarstöður hjá félaginu eins og rakið er í ákæru og gögn málsins styðja. Það er því sannað að hann hafi gegnt þessum stöðum í félaginu og breytir engu þótt hann hafi aðeins verið skráður til málamynda, en sá framburður hans fær stuðning í framburði meðákærðu eins og rakið var.
Ákærði Þ viðurkenndi að hafa verið skráður framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi eins og greinir í ákæru. Styðst játning hans við gögn málsins.
Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að ákærðu hafi, við störf hjá framangreindum félögum, gerst sekir um brot þau sem þeim eru gefin að sök í ákærunni, nema hvað ákærði Y verður sýknaður af því að hafa verið starfandi framkvæmdastjóri. Brot ákærðu eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Við ákvörðun refsinga ákærðu ber að taka tilliti til þess að skattaskuldir félaganna hafa verið greiddar. Þá hafa ákærðu, Þ og X, hrein sakavottorð og hinir tveir hafa aðeins verið sektaðir fyrir umferðarlagabrot. Ákærðu verða, hver um sig, dæmdir í 2 mánaða fangelsi sem bundið skal skilorði eins og greinir í dómsorði. Þá verður ákærða Y gert að greiða 2.650.000 krónur í sekt, ákærðu, Z og X, verður gert að greiða 1.600.00 krónur í sekt, hvorum um sig, og ákærða Þ 1.150.000 krónur. Í stað sektar kemur vararefsing eins og greinir í dómsorði.
Loks verða ákærðu dæmdir til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna eins og nánar greinir í dómsorði. Málsvarnarlaun verjanda A ehf. skulu greidd úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Ákærðu, Y, Z, X og Þ, sæti, hver um sig, fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu refsinga og þær falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins, haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði Y greiði 2.650.000 krónur í sekt og komi 68 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.
Ákærðu, Z og X, greiði, hvor um sig, 1.600.000 krónur í sekt og komi 52 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.
Ákærði Þ greiði 1.150.000 krónur í sekt og komi 40 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan 4 vikna.
Ákærði Y skal greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Garðars G. Gíslasonar hdl., 282.375 krónur.
Ákærði Z skal greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Ásmundar Vilhjálmssonar hdl., 420.425 krónur.
Ákærði X skal greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Garðars G. Gíslasonar hdl., 282.375 krónur.
Ákærði Þ skal greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Marteins Mássonar hrl., 420.425 krónur.
Málsvarnarlaun verjanda A ehf., Garðars G. Gíslasonar hdl., 62.750 krónur, skulu greidd úr ríkissjóði.
Málsvarnarlaun er ákvörðuð með virðisaukaskatti.