Hæstiréttur íslands

Mál nr. 702/2009


Lykilorð

  • Ríkisstarfsmenn
  • Læknir
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 21. október 2010.

Nr. 702/2009.

Stefán Einar Matthíasson

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

og gagnsök

Ríkisstarfsmaður. Læknir. Ráðningarsamningur. Uppsögn. Skaðabætur.

S starfaði sem sérfræðingur á skurðlækningadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og rak jafnframt læknastofu utan sjúkrahússins. Hann var ráðinn sem yfirlæknir á tilgreindri deild LHS í júlí 2002 og ritaði af því tilefni undir tvö skjöl. Í öðru þeirra var meðal annars kveðið á um að hann myndi hætta stofurekstri utan sjúkrahússins fyrir árslok 2004 svo fremi sem aðstaða og starfsumhverfi til slíkrar starfsemi væri þá viðunandi innan veggja LHS að áliti samningsaðila. Snemma árs 2005 vöktu stjórnendur LHS máls á því við S að hann hætti rekstri læknastofu sinnar, en hann svaraði því til að fyrrgreind skilyrði væri ekki uppfyllt og honum það því óskylt. Ágreiningur reis á milli aðila sem leiddi til þess að LHS veitti honum áminningu og í kjölfarið var honum sagt upp störfum í nóvember 2005. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2006 var áminning LHS til S dæmd ólögmæt. Í kjölfarið leitaði S eftir því að uppsögnin yrði dregin til baka en því var hafnað. Hann höfðaði mál og krafði Í um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 139.144.180 krónur, sem svaraði til tekna hans í starfi við sjúkrahúsið í tíu ár og jafnframt um 10.000.000 króna í miskabætur. Í málinu var óumdeilt milli aðila að uppsögn S hjá LHS hafi verið ólögmæt. Ágreiningur þeirra snérist því einungis um bætur til handa S. Talið var að samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar yrði að ákveða S bætur að teknu tilliti til aðstæðna, launatekna og kosta hans á störfum, allt miðað við þann tíma, þegar hann lét af störfum. Til þess yrði að líta að hann hafi látið af stöðu dósents við læknadeild Háskóla Íslands eftir að hann lét af störfum hjá LHS og mætti líta svo á að þessi stöðumissir hafi tengst uppsögn hans úr starfi. Við ákvörðun skaðabóta vegna fjártjóns S yrði ekki litið fram hjá því að hann hafði samið við upphaf starfa hjá LHS að hann léti af rekstri eigin læknastofu í árslok 2004. Þrátt fyrir ágreining um hvort LHS hefði fyrir sitt leyti efnt þær skyldur sem samið hefði verið um, hafi S engan veginn geta vænst þess að njóta um ókomna framtíð óbreyttra kjara með annars vegar launum frá LHS og hins vegar tekjum og hagnaði af eigin rekstri. Þegar framangreint var virt voru bætur til S taldar hæfilega ákveðnar 5.000.000 krónur. Þá var ekki fallist á með S að stjórnendur LHS hefðu sýnt ásetning um að brjóta rétt á honum eða beitt hann misgerð, né að rýrð hefði verið kastað á starfsheiður hans sem sérfræðilæknis. Var kröfu um miskabætur því hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. desember 2009 og krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 149.144.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. desember 2006 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 8. febrúar 2010. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að hún verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

I

Eins og nánar greinir í héraðsdómi mun aðaláfrýjandi hafa verið ráðinn til starfa 1996 sem sérfræðingur á skurðlækningadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Ríkisspítalar tóku 1. janúar 1999 við allri starfsemi sjúkrahússins, þar á meðal réttindum og skyldum starfsmanna þess, og varð til í framhaldi af því Landspítali-háskólasjúkrahús. Ári síðar mun hafa verið sett á fót sérstök æðaskurðlækningadeild á skurðlækningasviði hins nýja sjúkrahúss og starfaði aðaláfrýjandi þar eingöngu við slíkar lækningar eftir það. Jafnframt mun hann hafa rekið læknastofu utan sjúkrahússins samkvæmt samkomulagi við yfirmenn þess.

Samkvæmt gögnum málsins tók stjórn sjúkrahússins í árslok 2001 þá ákvörðun að allir yfirmenn þar skyldu vera í fullu starfi og ekki starfa utan þess. Auglýsing um laust starf yfirlæknis æðaskurðlækningadeildarinnar var birt 3. febrúar 2002 og tekið sérstaklega fram að um fullt starf væri að ræða, sem veitt yrði frá 1. júlí sama ár. Tvær umsóknir bárust og var önnur þeirra frá aðaláfrýjanda. Í viðtölum við umsækjendur mun hafa komið fram að báðir umsækjendur hefðu uppi efasemdir um þann skilmála sjúkrahússins að læknar væru ekki með eigin rekstur utan þess og léði hinn umsækjandinn ekki máls á því að hætta rekstri læknastofu. Af þeim sökum mun hann ekki hafa komið frekar til álita. Aðaláfrýjandi mun á hinn bóginn hafa lýst sig fúsan til samninga, sem tókust 16. júlí 2002, og var hann ráðinn í stöðuna. Þann dag undirrituðu aðaláfrýjandi og framkvæmdastjóri lækninga við sjúkrahúsið tvö skjöl, annars vegar viljayfirlýsingu um almennar forsendur ráðningarinnar, þar sem kveðið var í níu töluliðum á um fjölda stöðugilda við deildina, heimild til aukaafleysinga, stærð legudeildar, stofnun æðarannsóknastofu, stöðu skrifstofustjóra og skrifstofumál, eflingu rannsókna, kennslu og vísindavinnu og stofnun sjálfstæðrar Rannsóknastofu æðasjúkdóma. Hins vegar var um að ræða minnisblað í sjö töluliðum um laun og kjör, sem væru forsendur ráðningar aðaláfrýjanda í stöðuna. Þar var meðal annars kveðið á um að hann myndi hætta „stofurekstri“ utan sjúkrahússins innan tveggja ára frá næstu áramótum „svo fremi sem aðstaða og starfsumhverfi til slíkrar starfsemi sé þá viðunandi innan veggja LSH að áliti samningsaðila“.

Snemma árs 2005 munu stjórnendur sjúkrahússins hafa vakið máls á því við aðaláfrýjanda að honum bæri að hætta rekstri læknastofu sinnar, en hann svarað því til að hann teldi fyrrgreind skilyrði í minnisblaðinu ekki hafa verið uppfyllt af hálfu sjúkrahússins og væri honum það því óskylt. Þessi ágreiningur varð tilefni bréfaskipta milli aðaláfrýjanda og stjórnenda sjúkrahússins, sem leiddu til þess að þeir veittu honum 31. október 2005 áminningu „vegna óhlýðni við lögleg boð og fyrirmæli yfirmanna“ með vísan til 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar var aðaláfrýjanda veitt færi á að bæta ráð sitt, en tekið fram að ítrekað brot í starfi kynni að varða uppsögn og þess krafist að hann legði fram innan tíu daga skriflega staðfestingu á uppsögn samnings síns við Tryggingastofnun ríkisins. Aðaláfrýjandi andmælti áminningunni og höfðaði mál 14. nóvember 2005 til að fá hana fellda úr gildi. Í bréfi til hans 21. sama mánaðar vísaði sjúkrahúsið til þess að fyrrgreind staðfesting, sem krafist hafi verið í áminningarbréfinu, hefði ekki borist og var honum tilkynnt að það áformaði að segja honum upp störfum. Aðaláfrýjandi svaraði með bréfi 23. nóvember 2005 og benti á að úr því að sjúkrahúsið hefði talið sér fært að semja við hann á sínum tíma um að hann mætti reka læknastofu í meira en tvö ár, þrátt fyrir ráðningu í stöðu yfirlæknis, yrði ekki séð hvað knýði á um þessa uppsögn meðan skorið væri úr því fyrir dómstólum hvort áminningin hafi verið lögmæt. Af þessum sökum skoraði hann á sjúkrahúsið að bíða með uppsögn þar til niðurstaða lægi fyrir, en ella áskildi hann sér rétt til skaðabóta. Sjúkrahúsið féllst ekki á þetta og sagði aðaláfrýjanda upp starfi 28. nóvember 2005 með þriggja mánaða uppsagnarfresti frá næstu mánaðamótum að telja. Með bréfi 7. desember sama ár var aðaláfrýjanda síðan tilkynnt að sjúkrahúsið félli frá kröfu um vinnuframlag hans í uppsagnarfresti og væri því óskað eftir að hann léti af störfum eins fljótt og kostur væri.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2006 var fyrrgreind áminning dæmd „ólögmæt“. Í framhaldi af því mun aðaláfrýjandi hafa leitað eftir því að fá uppsögnina dregna til baka, sem sjúkrahúsið hafnaði, en það undi þó við þennan dóm. Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta 19. febrúar 2007 og krafðist þess annars vegar að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða sér 139.144.800 krónur í skaðabætur, sem svari til tekna hans í starfi við sjúkrahúsið í tíu ár, og hins vegar 10.000.000 krónur í miskabætur. Í þinghaldi 11. september sama ár var fært til bókar að óumdeilt væri milli aðilanna að uppsögn aðaláfrýjanda hjá sjúkrahúsinu hafi verið ólögmæt. Ágreiningur þeirra snýst því einungis um bætur til aðaláfrýjanda.

II

Við ákvörðun bóta verður að líta til þess að aðaláfrýjandi naut réttinda og bar skyldur sem starfsmaður ríkisins samkvæmt lögum nr. 70/1996. Þótt hann hafi verið ráðinn með gagnkvæmum uppsagnarfresti mátti hann almennt búast við að fá að gegna starfi sínu þar til einhverjar sérstakar ástæður kæmu til, sem ýmist snertu hann sjálfan eða starf hans á þann veg að annaðhvort 43. gr. eða 44. gr. laganna yrði réttilega beitt um uppsögn hans. Við uppsögnina var aðaláfrýjandi 47 ára og hafði gegnt stöðu yfirlæknis í rúm þrjú ár. Fallist er á með héraðsdómi að ekki hafi annað komið fram en að aðaláfrýjandi hafi sinnt starfi sínu vel og kvartanir ekki komið vegna samskipta hans við sjúklinga. Einnig er fallist á að hann eigi ekki kost á sambærilegu starfi hér á landi, en af gögnum málsins verður ekkert ráðið um færi hans á atvinnu erlendis.

Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar verður að ákveða aðaláfrýjanda bætur að teknu tillit til aðstæðna, launatekna og kosta hans á störfum, allt miðað við þann tíma, þegar hann lét af störfum. Við ákvörðun um þetta skipta engu framlagðar matsgerðir dómkvaddra manna 23. október 2008 og yfirmatsmanna 9. júní 2009, sem aflað var undir rekstri málsins í héraði í tilefni af deilum aðaláfrýjanda við nýjan yfirlækni æðaskurðlækningadeildarinnar um tilhögun á samskiptum aðaláfrýjanda sem sjálfstætt starfandi sérfræðilæknis við deildina, enda risu þær deilur löngu eftir starfslok hans. Til hins verður á hinn bóginn að líta að aðaláfrýjandi lét af stöðu dósents við læknadeild Háskóla Íslands eftir að hann hætti störfum við sjúkrahúsið og má líta svo á að þessi stöðumissir hafi tengst uppsögn hans úr aðalstarfi.

Eftir gögnum málsins hefur aðaláfrýjandi starfað við eigin læknastofu frá því að hann lét af störfum hjá sjúkrahúsinu. Af rekstraryfirlitum vegna læknastofunnar og skattframtölum aðaláfrýjanda verður séð að launatekjur hans frá gagnáfrýjanda á árinu 2003 voru 11.898.557 krónur, laun vegna eigin starfsemi 1.722.450 krónur og hagnaður af rekstri stofunnar 5.571.974 krónur eða samtals 19.192.981 króna. Árið 2004 voru launatekjur frá gagnáfrýjanda 11.893.415 krónur, laun vegna eigin starfsemi 2.502.950 krónur og hagnaður af rekstri stofunnar 6.302.146 krónur eða samtals 20.298.511 krónur. Árið 2005 voru launatekjur frá gagnáfrýjanda 12.780.184 krónur, laun vegna eigin starfsemi 1.372.493 krónur og hagnaður af rekstri stofunnar 7.676.280 krónur eða samtals 21.828.967 krónur. Árið 2006 voru launatekjur frá gagnáfrýjanda 14.960.591 króna, þar af vegna svokallaðs frítökuréttar í starfi hjá sjúkrahúsinu 10.137.117 krónur, laun vegna eigin starfsemi 3.561.930 krónur og hagnaður af rekstri stofunnar 12.389.114 krónur eða samtals 30.911.635 krónur. Á árinu 2007 hafði aðaláfrýjandi frá gagnáfrýjanda tekjur að fjárhæð 1.299.524 krónur, laun vegna eigin starfsemi námu 4.039.124 krónum og hagnaður af rekstri stofunnar varð 12.694.505 krónur, en samtals voru þetta 18.033.153 krónur. Ekki liggja fyrir upplýsingar um tekjur aðaláfrýjanda eða rekstur læknastofunnar árin 2008 og 2009. Á hinn bóginn hafa verið lagðar fram upplýsingar um komur á læknastofuna árin 2006 til 2008, sem sýna að þeim fjölgaði úr 1.849 árið 2007 í 2.466 árið 2008.

Af framangreindu er ljóst að tekjur aðaláfrýjanda lækkuðu eftir að launagreiðslum til hans frá sjúkrahúsinu lauk, en í þeim samanburði verður ekki horft til greiðslu til hans á árinu 2006 vegna svonefnds frítökuréttar. Við ákvörðun skaðabóta vegna fjártjóns aðaláfrýjanda verður ekki litið fram hjá því að hann samdi sem áður segir við upphaf starfa hjá sjúkrahúsinu um að hann léti af rekstri eigin læknastofu í árslok 2004. Þótt ágreiningur hafi risið í tengslum við áminningu til aðaláfrýjanda 31. október 2005 um hvort sjúkrahúsið hafi fyrir sitt leyti efnt skyldur sínar, sem voru forsendur fyrir því að hann hætti eigin rekstri, gat hann engan veginn vænst þess að njóta um ókomna framtíð óbreyttra kjara með annars vegar launum frá gagnáfrýjanda og hins vegar tekjum og hagnaði af þeim rekstri. Þegar allt þetta er virt eru bætur til aðaláfrýjanda vegna tekjumissis hæfilega ákveðnar 5.000.000 krónur, sem beri vexti eins og í dómsorði greinir.

Þegar virt er krafa aðaláfrýjanda um miskabætur verður að líta til aðdraganda uppsagnar hans, framkvæmdar hennar og synjunar um að fresta henni, svo og starfsloka hans, sem rakið er að framan. Ekki verður fallist á að stjórnendur sjúkrahússins hafi þar sýnt ásetning um að brjóta rétt á honum eða beitt hann meingerð. Ekki verður heldur séð að nokkuð í þeirri atburðarás hafi verið til þess fallið að kasta rýrð á starfsheiður hans sem sérfræðilæknis. Eru því ekki efni til að taka til greina kröfu hans um miskabætur.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Gagnáfrýjanda verður gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjanda, Stefáni Einari Matthíassyni, 5.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. desember 2006 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. september sl., var höfðað með stefnu birtri 19. febrúar 2007 af Stefáni Einari Matthíassyni, Smáragötu 13, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík, til heimtu bóta vegna ólögmætrar uppsagnar.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 149.144.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. desember 2006 til greiðsludags. Stefnandi krefst þess einnig að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Af hálfu stefnda er þess aðallega krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að stefnukrafan verði lækkuð stórkostlega og að málskostnaður verði látinn niður falla.

I

Stefnandi lýsir málavöxtum þannig að hann hafi lokið embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1985. Hann hafi stundað framhaldsnám í Svíþjóð, fyrst í almennum skurðlækningum og í framhaldi af því í æðaskurðlækningum. Hann hafi lokið sérfræðiprófi í skurðlækningum árið 1991 og fengið sérfræðileyfi í Svíþjóð sama ár. Sérfræðileyfi í almennum skurðlækningum hafi hann fengið hér á landi árið 1992 og í æðaskurðlækningum ári síðar. Hann hafi lokið doktorsprófi í skurðlækningum frá Háskólanum í Lundi árið 1994. Eftir að hafa verið starfandi sérfræðingur í almennum skurðlækningum í Svíþjóð, og þó fyrst og fremst í æðaskurðlækningum við háskólasjúkrahúsið í Malmö, og yfirlæknir á sjúkrahúsinu í Hälsingborg, hafi hann ráðist til starfa á skurðlækningadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur árið 1996. Ráðningin hafi af fyrirsvarsmönnum stofnunarinnar verið hugsuð til að efla æðaskurðlækningar. Ríkisspítalar hafi tekið yfir réttindi og skyldur starfsmanna Sjúkrahúss Reykjavíkur og alla starfsemi þess frá og með 1. janúar 1999, og í kjölfar þeirrar skipulagsbreytingar hafi orðið nafnbreyting á stofnuninni sem síðan beri heitið Landspítali-háskólasjúkrahús (skammst. LSH). Hinn 1. janúar 2000 hafi æðaskurðlækningadeild orðið sérstök deild á skurðlækningasviði spítalans og hafi stefnandi eftir það eingöngu starfað við æðaskurðlækningar á stofnuninni.

Jafnframt hafi stefnandi starfað sjálfstætt í sérgrein sinni með því að reka læknastofu utan spítalans í samræmi við samkomulag þar að lútandi við yfirmenn spítalans.

Í febrúar 2002 hafi LSH auglýst lausa til umsóknar stöðu yfirlæknis við æðaskurðlækningadeild. Stefnandi, sem þá var starfandi sem sérfræðingur á deildinni, hafi sótt um starfið og 16. júlí 2002 hafi hann verið ráðinn til starfans. Í tengslum við ráðninguna hafi stefnandi og framkvæmdastjóri lækninga við spítalann ritað undir tvö skjöl. Annað þeirra sé viljayfirlýsing í 9 töluliðum, sem varði starfsaðstæður á deildinni, en hitt, sem hafi fyrirsögnina Minnisblað, sé í 7 töluliðum, og varði ráðningarkjör stefnanda.

Í síðarnefnda skjalinu séu svohljóðandi ákvæði í 4. - 7. tölulið:

4.            SEM mun hætta „stofurekstri“ utan LSH innan tveggja ára frá n.k.

áramótum að telja svo fremi sem aðstaða og starfsumhverfi til slíkrar starfsemi sé þá viðunandi innan veggja LSH að áliti samningsaðila og að uppfylltu # 5 og # 6.

5.            Að uppfylltu # 4 bætist við viðbótarþáttur skv. # 3.2.1.3 í kjarasamningi 10% vegna „...verkefna sem krefjast þess að læknir vinni eingöngu á viðkomandi sjúkrahúsi“ og viðbótarþáttur vegna „...sérstakra verkefna..“  verði 5%.

6.            Að uppfylltu # 4 bætast við afkastatengdar greiðslur vegna þeirra ferliverka sem þá verður sinnt innan LSH en áður voru unnin á „stofu“ af SEM. Samið skal um greiðslutilhögun á þeim tímapunkti eftir því greiðslukerfi sem upp kann að verða tekið fyrir slíka vinnu.

7.            Ef breytingar verða á kjarasamningi eða framkvæmd hans sem lúta að túlkun á vinnu utan og innan spítala skal semja um ofangreind atriði á ný.

Snemma árs 2005 hafi stjórnendur LSH hafið máls á því við stefnanda að honum bæri að hætta rekstri læknastofu sinnar.  Stefnandi hafi þá strax gert þeim grein fyrir að hann teldi að þau skilyrði sem fyrir því séu sett í 4. tölulið minnisblaðsins væru ekki uppfyllt af hálfu stofnunarinnar, og væri honum af þeirri ástæðu óskylt að hætta umræddum rekstri.

Um þennan ágreining hafi orðið allítarleg bréfaskipti milli aðila, sem hafi leitt til þess að stjórnendur LSH veittu stefnanda formlega áminningu með vísan til 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins með bréfi 31. október 2005. Í áminningunni hafi stefnanda verið gefið að sök að hafa óhlýðnast lögmætum fyrirmælum yfirmanna sinna með því að neita að hætta rekstri læknastofu sinnar.  Hafi honum verið veittur 10 daga frestur til „að bæta ráð sitt“, en að öðrum kosti mætti hann búast við uppsögn úr starfi.

Stefnandi hafi talið áminninguna ólögmæta og höfðað mál til að fá henni hnekkt. Stefnandi hafi sótt um flýtimeðferð málsins en ekki fengið. Hafi stefnandi skorað á stefnda að bíða með frekari aðgerðir í málinu þar til skorið hefði verið úr ágreiningi um lögmæti áminningarinnar. Stjórnendur LSH hafi svarað því erindi með því að segja stefnanda upp störfum fáeinum dögum eftir þingfestingu dómsmálsins. Uppsögnin hafi verið látin koma til framkvæmda þegar í stað og stefnanda gert að yfirgefa vinnustaðinn án tafar, en hann hafi fengið greidd full laun til loka þriggja mánaða uppsagnarfrests. 

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2006, í máli nr. E-7184/2005, hafi áminningin verið dæmd ólögmæt og LSH dæmdur til að greiða honum 800.000 krónur í málskostnað.

Stefndi hafi í kjölfar dómsins freistað þess að fá hina ólögmætu uppsögn dregna til baka og hafi viðræður farið fram milli fulltrúa aðila um það mál sumarið 2006 og fram á haust. Þannig hafi staðið á að 8. júní 2006 hafði Hæstiréttur dæmt að LSH hafi verið óheimilt að gera tilteknar breytingar á starfi annars yfirlæknis, Tómasar Zoëga, sem hafði neitað að hætta rekstri lækningastofu sinnar utan spítalans. Hafði Tómas neitað að gegna starfinu eftir umrædda „breytingu“, en eftir að hæstaréttardómurinn féll hafi spítalinn samþykkt að endurráða hann til síns fyrra starfs, án skilyrða, og muni hann enn reka lækningastofu sína samhliða því að gegna yfirlæknisstarfinu.

Í ljósi málsmeðferðar um endurráðningu Tómasar Zoëga hafi stefnandi talið liggja í augum uppi að spítalinn hlyti að meðhöndla máls hans með sama hætti og vinda þannig ofan af hinni ólögmætu uppsögn. Stjórnendur LSH hafi á hinn bóginn ekki fengist til þess og haldið því fram að þessi tvö mál væru ólík og allt eins líklegt að dómi héraðsdóms í máli stefnanda yrði áfrýjað. Svo hafi farið að lokum að spítalinn hafi ákveðið að una héraðsdóminum.

Hin ólögmæta uppsögn hafi valdið stefnanda bæði fjártjóni og miska. Hafi lögmaður stefnanda ritað LSH bréf 14. nóvember 2006 og krafist bóta vegna uppsagnarinnar. LSH hafi falið embætti ríkislögmanns að bregðast við bótakröfunni. Með bréfi ríkislögmanns 11. janúar 2007 hafi kröfum stefnanda verið hafnað sem of háum og því viðhorfi lýst að svo mikið bæri í milli hugmynda stefnanda og LSH að eðlilegast væri að leggja ágreininginn fyrir dómstóla til úrlausnar.

II

Stefnandi reisir skaðabótakröfu sína á því að brottvikning hans úr opinberu starfi hafi verið ólögmæt og sé það raunar viðurkennt af hálfu stefnda. Ágreiningur aðila snúist því eingöngu um bótakröfur stefnanda vegna hinnar ólögmætu uppsagnar.

Stefnandi telji að við ákvörðun bóta í málinu verði dómurinn að taka tillit til allmargra atriða. Eftirtalin atriði vegi hvað þyngst í þeim efnum: 

  1. Á uppsagnardeginum hafi stefnandi verið 47 ára gamall og hafði gegnt yfirlæknisstöðunni í rúm þrjú ár, en starfað mun lengur við stofnunina.  Aldrei hafði verið fundið að störfum hans á neinn hátt, og viðurkennt sé að hann sinnti starfi sínu afar vel og stofnuninni hafi aldrei borist kvartanir út af samskiptum hans við sjúklinga.
  2. Stefnandi hafi verið ráðinn ótímabundinni ráðningu í starf yfirlæknis. Hann hafi mátt samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gera ráð fyrir því að halda yfirlæknisstöðunni til loka venjulegs starfsaldurs opinberra starfsmanna. 
  3. Stefnandi hafi lokið sérfræðiprófi og doktorsprófi í sérgrein sinni. Auk þess hafði hann lokið þriggja anna námi í stjórnun og rekstri heilbrigðisstofnana. Eftir sameiningu stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík undir merkjum LSH eigi hann ekki kost á sambærilegu starfi hér á landi, þar sem eina sérhæfða æðaskurðlækningadeild landsins sé nú á LSH. Hin ólögmæta uppsögn sé einnig til þess fallin að draga verulega úr atvinnumöguleikum hans annars staðar.
  4. Stefnandi hafi sótt um stöðu sérfræðings við æðaskurðlækningadeild LSH, eftir að honum var sagt upp starfi yfirlæknis, en stofnunin hafi ráðið annan umsækjanda í starfið þrátt fyrir að stefnandi væri metinn hæfari umsækjandi af stöðunefnd Landlæknisembættisins. Svokallaðar röksemdir spítalans fyrir þeirri ráðningu hafi verið gersamlega haldlausar. Það ráðningarferli sýni svo ekki verði um villst að stjórnendur spítalans hindri í reynd möguleika stefnanda á að draga úr því tjóni sem uppsögnin óhjákvæmilega valdi honum.
  5. Stefnandi sé einnig dósent við læknadeild Háskóla Íslands. Aðgangur að aðstöðu á sjúkrahúsinu sé nauðsynlegur til þess að hægt sé að sinna því starfi. Í upphaflegri auglýsingu um dósentsstarfið árið 2003 hafi verið tekið fram, að „ .... dósentinn mun fá starfsaðstöðu á æðaskurðlækningadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH) með tilvísan til samninga LSH og HÍ frá 10.5.2001 og 28.6.2002 ....“  Þess hafi einnig verið getið til nánari útlistunar á kjörum að „laun eru samkvæmt kjarasamningi félags háskólakennara og fjármálaráðherra og raðast starf dósents í launaramma C.  Laun fyrir störf lækna á LSH eru í samræmi við kjarasamning fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Læknafélags Íslands ....“  Í auglýsingunni hafi ekki verið gerð krafa um að umsækjendur væru þá þegar í starfi á LSH. Eftir brottvikninguna hafi stefnanda verið gert nánast ókleift að sinna dósentsstöðunni á þann hátt sem hann hefur áður gert, þar sem stjórnendur LSH hafi synjað stefnanda um þá starfsaðstöðu á LSH sem tengd sé dósentsstarfinu.

Gerð sé krafa um bætur sem jafngildi tekjumissi í 10 ár frá því að launagreiðslum lauk, en stefnanda hafi verið greidd full laun til loka uppsagnarfrests þó svo að stjórnendur LSH hafi ekki talið ástæðu til að þiggja vinnuframlag hans á uppsagnarfrestinum.

Tekjur stefnanda í starfi yfirlæknis æðaskurðlækningadeildar hafi verið samsettar af ýmsum þáttum samkvæmt kjarasamningi. Allir æðaskurðlæknar á deildinni hafi unnið á vöktum og skipt með sér bakvöktum. Til viðbótar ávinni menn sér námsleyfi, sem þeir taki út á fullum launum rétt eins og þeir væru í fullri vinnu. Meðaltalstekjur á mánuði samkvæmt gildandi kjarasamningi Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra f. h. ríkissjóðs reiknist samkvæmt þessu þannig:

                Föst mánaðarlaun,

flokkur 400 - 4

569.434

Doktorsálag - 4%

19.073

Vaktaálag

413.988

Námsleyfi - 15 dagar á ári

25.250

Desemberuppbót

3.392

Töpuð lífeyrisréttindi - 11,5%

128.403

Samtals pr. mánuð

1.159.540

Gerð sé krafa um bætur vegna tekjumissis í 10 ár.  Samkvæmt þessu nemi sú krafa kr. 139.144.800.

Stefnandi hafi gert ítrekaðar tilraunir til að afstýra fjárhagstjóninu er hann leitaði samkomulagsleiða við spítalann um að hann yrði endurráðinn, en stjórnendur LSH hafi verið ófáanlegir til þess að færa málið í þann farveg.

Stefnandi hafi, eftir að hann hætti störfum hjá LSH, haft vinnutekjur sem sjálfstætt starfandi læknir. Slíkar tekjur hafi hann einnig haft meðan hann gegndi starfi sínu sem yfirlæknir. Ógerlegt sé að fullyrða hver tekjuþróun kunni að verða hjá honum í því starfi, en ekki sé óvarlegt að gera ráð fyrir að tekjur af læknastofurekstrinum verði minni í framtíðinni en þær hafa verið vegna þess hvernig staðið var að brottrekstri hans af spítalanum. Þessi sjálfstæði atvinnurekstur hafi lengst af verið rekinn undir nafninu Hippokrates sf. og hafi stefnandi verið einn þriggja eigenda þess félags. Félagið hafi verið sjálfstæður skattaðili sem greiddi stefnanda laun sem talin séu fram á skattframtali hans. Jafnframt hafi reksturinn skilað eigendum sínum hagnaði sem skattlagður hafi verið hjá félaginu, en hlutdeild stefnanda í hagnaðinum komi fram í töflunni hér fyrir neðan (tilgreind fjárhæð sýni hagnað fyrir skatta, til samræmis við launafjárhæðir):

Tekjuár:

Laun:

Bifreiðahlunnindi:

Hagnaður (fyrir skatta):

Samtals:

2003

1.722.450

   769.500

  7.552.657

10.044.607

2004

1.413.050

1.089.900

  8.544.652

11.047.602

2005

1.372.493

1.038.456

10.373.352

12.782.803

Í lok ársins 2005 hafi rekstrarforminu verið breytt.  Frá og með 1. janúar 2006 hafi læknastofa stefnanda verið rekin í formi samlagsfélags, SEM lækningar slf

Samningur Læknafélags Reykjavíkur við Tryggingastofnun ríkisins (TR) um greiðsluþátttöku TR í kostnaði við læknisaðgerðir, sem framkvæmdar séu á stofum eins og stefnandi reki, hafi afgerandi þýðingu í slíkum rekstri. Þeim sem starfi á grundvelli samnings við TR sé óheimilt að stunda sams konar starfsemi „utan samnings“ eins og það gjarnan sé kallað, þ.e. án þess að viðkomandi sjúklingar njóti þeirra kjara sem TR hafi samið um fyrir sjúkratryggða. Að auki, þegar vissum meðferðafjölda sé náð, sem mældur sé í fjölda eininga, dragi úr greiðsluþátttöku TR.  Þetta hafi í för með sér að um leið og tiltekinn einingafjöldi hafi verið greiddur hjá TR vegna þjónustu tiltekins læknis verði hann að veita verulegan afslátt af aðgerðum sem hann framkvæmi eftir það á sama reikningsári, eða allt að 80%. Í daglegu tali sé þessi aðstaða oft orðuð svo að læknar hafi tiltekinn „kvóta“ hjá TR. Eftir að honum sé náð hafi menn í raun engan hag af því að framkvæma verk á því reikningsári, enda hafi stofnunin skýrt samningana þannig að óheimilt sé að krefja sjúklinginn um hærri upphæð en þá sem hann þyrfti að greiða með fullri greiðsluþátttöku TR. Við þetta bætist svo önnur takmörkunarákvæði í samningnum, sem lúti að heildarfjölda eininga í hverri sérgrein. Eftir að þeim heildarfjölda sé náð í tiltekinni sérgrein verði læknar að veita að lágmarki 50% afslátt af læknisverkum sem unnin séu innan þess reikningsárs.

Miskabótakrafa stefnanda, samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, byggist á því að aðdragandi og framkvæmd uppsagnarinnar hafi falið í sér meingerð gegn persónu stefnanda í skilningi hinnar tilgreindu lagareglu, sem stefndi beri bótaábyrgð á. Um það vísi stefnandi einkum til eftirfarandi atriða: 

  • Áður en spítalinn hafi veitt stefnanda hina ólögmætu áminningu höfðu allar röksemdir hans komið fram sem héraðsdómur byggði úrlausn sína á.
  • Uppsögnin hafi verið framkvæmd án þess að spítalinn fengist til að bíða eftir niðurstöðu í dómsmálinu um lögmæti áminningarinnar.
  • Uppsögnin hafi verið látin koma til framkvæmdar frá sama degi og hún var tilkynnt stefnanda, þannig að honum hafi verið gert að yfirgefa vinnustaðinn nánast án þess að hann fengi ráðrúm til að kasta kveðju á nánasta samstarfsfólk sitt eða ganga frá nauðsynlegum málum gagnvart sjúklingum sínum innan stofnunarinnar. Aðgangi stefnanda að tölvum, netsambandi og gögnum varðandi sjúklinga sem hann hafði sinnt, hafi verið lokað umsvifalaust, svo og aðgangi hans að tölvupósti. Hafi stefnandi ekki fengið aðgang að honum fyrr en mörgum vikum síðar.
  • Hin meiðandi framkvæmd uppsagnarinnar hafi verið til þess fallin að kasta rýrð á starfsheiður stefnanda og lítillækka hann í augum bæði samstarfsmanna innan og utan læknastéttarinnar, og þá ekki síst sjúklinga sem leggi hald sitt og traust á sinn lækni í erfiðum úrlausnarmálum þar sem trúnaður og traust séu algert lykilatriði í öllum samskiptum.  
  • Viðbrögð stjórnenda LSH við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sýni að þeir skeyti engu um lögmæti gerða sinna og hafi frá fyrstu stigum máls-meðferðarinnar sýnt ásetning til að brjóta rétt á stefnanda, hverjar sem afleiðingar þess kunni að verða fyrir hann og eftir atvikum stofnunina.
  • Fyrir yfirlækni á besta aldri starfsævinnar sé aðgerð eins og sú sem stjórnendur LSH stóðu fyrir gagnvart stefnanda þess eðlis að hún raski verulega persónulegum högum hans um ófyrirsjáanlega framtíð.

Í ljósi þessa sé gerð krafa um miskabætur að fjárhæð 10.000.000 króna.

Um dráttarvaxtakröfu vísi stefnandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Gerð sé krafa um dráttarvexti frá þeim degi er einn mánuður var liðinn frá dagsetningu kröfubréfs. Stefndi hafi viðurkennt bótaskyldu en þrátt fyrir það hafi hann ekki séð ástæðu til að greiða það sem hann telji hæfilegar bætur vegna uppsagnarinnar.

Um málskostnaðarkröfu vísi stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

III

Stefndi mótmælir málavaxtalýsingu stefnanda að því leyti sem hún er í ósamræmi við það sem stefndi heldur fram í málinu.

Stefndi byggir sýknukröfu sína m.a. á því að ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni eða tekjutapi við að hætta störfum á spítalanum.

Stefnandi hafi ekki verið æviráðinn. Stefndi telji það ranga fullyrðingu hjá stefnanda að stefnandi hafi mátt, samkvæmt lögum nr. 70/1996, gera ráð fyrir að halda yfirlæknisstöðunni til loka venjulegs starfsaldurs opinberra starfsmanna. Samkvæmt ráðningarsamningi milli stefnanda og stefnda hafi gagnkvæmur uppsagnarfrestur verið 3 mánuðir.

Stefnanda hafi verið sagt upp störfum með bréfi, dags. 28.11.2005, en þar komi fram að uppsagnarfrestur sé 3 mánuðir og miðist við næstu mánaðamót. Stefnandi hafi fengið greidd laun út uppsagnarfrest sinn og að auki fengið greiddan áunninn frítökurétt þann 1.7.2006 kr. 7.386.428 og þann 1.8.2006 kr. 2.750.689.

Með bréfi Landspítala-háskólasjúkrahúss (LSH) dags. 7.12.2005 hafi stefnanda verið tilkynnt að spítalinn félli frá kröfu um vinnuframlag á uppsagnarfresti. Stefnandi hafi strax hætt störfum.

Stefnandi hafi sinnt áfram kennslu við Háskóla Íslands og einnig rekið áfram læknastofu sína, en þessum störfum hafði hann sinnt samhliða starfi á sjúkrahúsinu. Hagnaður af rekstri læknastofu stefnanda hafi að mati stefnda verið verulegur sbr. m.a. lýsingu hagnaðar í stefnu og á rekstraryfirliti.

Verulega hafi rýmkað um tíma stefnanda til að sinna öðrum störfum, m.a. stofurekstri sínum, við að hætta í starfi hjá LSH. Nauðsynlegt sé að hafa það mikilvæga atriði til hliðsjónar við úrlausn þessa máls.

Stefndi mótmæli því sem röngu og ósönnuðu að uppsögnin sé til þess fallin að draga verulega úr atvinnumöguleikum stefnanda annars staðar. Stefndi bendi á að stefnandi sé með mjög góða menntun og starfsreynslu og aldur stefnanda ætti fráleitt að verða honum fjötur um fót við atvinnuleit. Vísist í því sambandi til 2. mgr. 32. gr. laga nr. 70/1996. Þá sé á því byggt af hálfu stefnda að atvinnumöguleikar stefnanda í fagi hans séu verulegir bæði hérlendis og erlendis.

Stefndi mótmæli eftirfarandi setningu í stefnu „Stjórnendur LSH svöruðu því erindi með því að segja stefnanda upp störfum fáeinum dögum eftir þingfestingu dómsmálsins.“ Þeirri orsakatengingu sem þarna birtist sé mótmælt sem rangri.

Stefnandi mótmæli umfjöllun stefnanda um mál Tómasar Zoëga. Stefndi bendi á að Tómas hafi verið ráðherraskipaður og notið réttarstöðu samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga nr. 70/1996, en ekki stefnandi. Í tilfelli stefnanda hafi legið fyrir ráðningarsamningur með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Á því sé byggt að mál þessi séu algerlega ósambærileg.

Í stefnu komi m.a. fram hjá stefnanda að aldrei hafi verið fundið að störfum hans á neinn hátt og viðurkennt sé að hann hafi sinnt starfi sínu afar vel.

Stefndi bendi á að fundið hafi verið að því að stefnandi rækti ekki stjórnunarhlutverk sitt í samræmi við það sem krafist sé af öllum yfirlæknum LSH. Störf hans í skurðlækningum utan spítalans hafi haft í för með sér hagsmunaárekstra og komið í veg fyrir að hann beitti sér af heilum hug fyrir uppbyggingu í þessum sömu aðgerðum innan spítalans. Þá hafi verið fundið að því að stefnandi skyldi ekki að jafnaði vera til taks á spítalanum alla virka daga til þess að sinna stjórnun í jafn mikilvægri sérgrein sem æðaskurðlækningar eru. Stefnandi hafi hins vegar hafnað því að sinna yfirlæknisstarfi sínu í fullu starfi eins og gerð hafði verið krafa um hjá öllum yfirmönnum sjúkrahússins.

Stefndi mótmæli, sem röngum og ósönnuðum, öllum fullyrðingum stefnanda um að röksemdir LSH fyrir ráðningu í stöðu sérfræðilæknis við æðaskurðlækningadeild hafi verið gersamlega haldlausar og að ráðningarferlið allt sýni að stjórnendur spítalans hindri í reynd möguleika stefnanda á að draga úr tjóni vegna uppsagnarinnar. Vísar stefndi til rökstuðnings fyrir ákvörðun um ráðningu í starfið frá 28. september 2006.

Málsástæður stefnanda er lúti að dósentstarfi hans, sem hann muni eiga u.þ.b. 1 ár eftir af, snúi að mati stefnda að Háskóla Íslands. Því sé mótmælt að stefndi eigi aðild að umkvörtun stefnanda að þessu leyti en hann sé ráðinn af Háskóla Íslands í þetta starf en ekki af LSH. Þá geti enginn sem gegni tímabundinni kennslustöðu gefið sér fyrir fram að hann fái sjálfkrafa endurnýjun á starfi við læknadeild í lok starfstíma. Því sé mótmælt að stefnanda hafi verið gert ókleift að sinna dósentsstöðunni.

Í málinu liggi fyrir staðfesting stefnanda á því að hann hafi rekið læknastofu sína áfram en fullyrðing hans í stefnu, um að ekki sé óvarlegt að gera ráð fyrir að tekjur af læknastofurekstrinum verði minni í framtíðinni en þær hafi verið, sé algerlega ósönnuð.

Launaseðlar, sem stefnandi hafi lagt fram í málinu, veiti ekki vísbendingu um hvernig krafa hans sé fundin út og sé málatilbúnaður stefnanda að því leyti vanreifaður.

Bótakröfu stefnanda sé mótmælt að öllu leyti. Hún sé allt of há. Krafa stefnanda miðist við að hann fái full laun (með fyrirvara um útreikning stefnanda) í 10 ár. Telji stefndi að bótakrafa miðist við allt of langan tíma og sé í alls engu samræmi við dómaframkvæmd hér á landi í sambærilegum málum. Stefnandi geri jafnframt ráð fyrir því að ekkert komi til frádráttar kröfu hans sem sé fráleitt.

Útreikningi mánaðarlauna sem byggt sé á í stefnu sé mótmælt sem of háum. Stefndi mótmæli fjárhæð fastra mánaðarlauna eins og þau komi fram í stefnu sem of háum. Þau hafi numið þann 1.12.2005 kr. 555.545. Að sama skapi sé doktorsálag of hátt og sé því mótmælt sem of háu. Það sé ekki í samræmi við launaseðla stefnanda. Því sé mótmælt að vaktaálag reiknist til viðmiðunar útreikningum bótakröfu. Ekki sé hægt að jafna vaktaálagi við föst umsamin mánaðarlaun. Vaktaálag sé breytilegt og fari eftir aðstæðum hverju sinni. Stefnandi hafi enga vissu fyrir því að slíkar greiðslur hefðu haldið áfram. Helsta ástæða þess hversu háar þær hafi verið sé að deild þessi hafi verið undirmönnuð og sé ekki hægt að byggja á því að það ástand hefði orðið viðvarandi. Samanburður tekna á árunum 2004 og 2005 sýni lægri fjárhæðir en stefnandi miði við og af launaseðlum megi ráða að vaktaálag þetta hafi veri mjög mismunandi milli mánaða. Verði ekki á þetta fallist sé á því byggt að sú viðmiðunarfjárhæð sem fram komi í stefnu sé allt of há og ekki í samræmi við meðaltal ársins á undan uppsögn og enn síður ef miðað sé við árið 2004. Um námsleyfi stefnanda fari eftir ákvæði 8. kafla kjarasamnings Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Ákvæði greinar 8.1. veiti lækni rétt til að fá greiddan kostnað, þ.m.t. eðlileg námskeiðsgjöld, við námsferðir til útlanda í 15 almanaksdaga árlega eftir nánari ákvörðun vinnuveitanda. Inntak námsleyfis sé að viðhalda og bæta við þekkingu og hæfni læknis. Læknir geti átt slíkan rétt á meðan hann sé í starfi en ekki eftir að starfinu ljúki. Ljóst sé að greiðslur í námsleyfi séu bundnar því að um eiginlega námsferð sé að ræða og jafnframt að greiða kostnað sem til falli vegna námsferða. Skilyrði skorti því til að greiða fyrir námsleyfi eins og dómkrafa stefnanda miðist við. Því geti þessi hluti dómkröfu stefnanda ekki komið til greina. Þá séu gerðar athugasemdir við viðmiðunargrundvöll desemberuppbótar og tapaðra lífeyrisréttinda og á því byggt að hann miði ekki við réttan höfuðstól launa, sbr. framangreint. Telji stefndi að ekki sé hægt að miða laun og aðrar greiðslur við annan tíma en þegar stefnanda var sagt upp störfum og sé öðru mótmælt sem röngu.

Stefndi mótmæli kröfu stefnanda um miskabætur. Engar þær hvatir eða ástæður sem stefnandi nefni í stefnu hafi legið að baki uppsögninni og sé öðru mótmælt sem röngu. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að í ákvörðun LSH hafi falist ólögmætar meingerðir gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda í skilningi 26. gr. laga nr. 50/1993. Stefndi mótmæli þeirri fullyrðingu stefnanda að aðdragandi og framkvæmd uppsagnarinnar hafi falið í sér meingerð gegn persónu stefnanda í skilningi 26. gr. skaðabótalaga sem stefndi beri bótaábyrgð á. Ákvörðunin hafi miðast við að yfirmenn á LSH gegndu starfi sem svaraði til 100% starfshlutfalls. Myndu þeir ekki sinna öðrum störfum utan LSH en kennslu á háskólastigi eða störfum við háskóla. Sama hafi verið með setu í nefndum og ráðum á vegum opinberra aðila. Því sé mótmælt að óeðlilegt hafi verið að óska eftir að stefnandi léti strax af störfum. Í bréfi LSH 7. desember 2005  komi m.a. fram: „Þess er því óskað að þú látir af störfum. Jafnframt að þú látir af hendi og gangir frá aðstöðu, gögnum og öðrum þáttum er varða starf þitt á sjúkrahúsinu eins fljótt og frekast er kostur.“ Því sé mótmælt að uppsögnin hafi verið meiðandi. Því sé mótmælt að hún hafi verið til þess fallin að kasta rýrð á starfsheiður stefnanda og lítillækka hann í augum samstarfsmanna innan og utan læknastéttarinnar og í augum sjúklinga. Þá sé eftirfarandi aðdróttun harðlega mótmælt sem rangri: „Viðbrögð stjórnenda LSH við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sýna að þeir skeyta engu um lögmæti gerða sinna og hafa frá fyrstu stigum málsmeðferðarinnar sýnt ásetning til að brjóta rétt á stefnanda, hverjar sem afleiðingar þess kunni að verða fyrir hann og eftir atvikum stofnunina.“ Þá sé því mótmælt að aðgerðir stjórnenda LSH hafi raskað persónulegum högum stefnanda um ófyrirsjáanlega framtíð. Stefndi telji að ekki séu skilyrði í málinu til að dæma miskabætur og að ekki sé fullnægt skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í þessu tilviki.

Verði ekki á framangreint fallist sé á því byggt að miskabótakrafa sé allt of há og í engu samræmi við dómaframkvæmd hvorki gagnvart ríkinu né á almennum vinnumarkaði.

Þess sé krafist að allar tekjur sem stefnandi hefur haft frá uppsögn til enda þess tímabils sem dómstólar miði tímalengd kröfu stefnanda við, fallist þeir á hana, komi til frádráttar kröfu stefnanda. Eigi þetta m.a. við um öll laun sem stefnandi fékk á uppsagnarfresti en einnig sé gerð krafa um að greiðslur sem stefnandi fékk 1.7.2006, kr. 7.386.428, og 1.8.2007, kr. 2.750.689, komi til frádráttar kröfu stefnanda.  Þá sé gerð krafa um að allar aðrar tekjur sem stefnandi hefur á tímabili frá uppsögn til enda þess tímabils sem dómstólar miða tímalengd kröfu stefnanda við, fallist þeir á hana, komi til frádráttar kröfu stefnanda.

Af töflu í stefnu komi fram að hlutdeild stefnanda í hagnaði af læknastofunni nam kr. 12.782.803. Megi því ætla ef miðað sé við meðaltal að hagnaður vegna desembermánaðar 2005 hafi verið 1.065.234 og geri stefndi kröfu um að sú fjárhæð dragist frá kröfu stefnanda.

Stefndi bendi á að rekstrarhagnaður af læknastofu stefnanda tekjuárið 2005 hafi verið litlu lægri en heildartekjur stefnanda á sjúkrahúsinu á árinu 2005.

Af upplýsingum í stefnu megi ráða að stefnandi hafi reiknað sér mjög lág laun miðað við hagnað af starfsemi hans. Viðmiðun við slík laun til frádráttar bótakröfu stefnanda sé allt of lág.

Þess sé krafist að heildarhagnaður stefnanda af rekstri læknastofu hans hvert ár, eins og hann sé fyrir skatta þar til endanlegur dómur gangi í málinu, komi til frádráttar bótakröfu hans.  Stefndi telji ófært að miða við það  þessu máli að stefnandi hefði í framtíðinni getað rekið læknastofu samhliða fullu starfi hjá LSH. Í áætlunum spítalans hafi verið gert ráð fyrir að því ástandi myndi ljúka.

Því sé mótmælt sem röngu og ósönnuðu að „kvóti“ sá sem nefndur sé í stefnu vegna Tryggingastofnunar ríkisins hafi haft nokkur áhrif á tekjuöflun stefnanda (eða fyrirtækis hans). Bent sé á að „kvóti“ þessi sé ekki einstaklingsbundinn, heldur sé hann fyrir hópinn sem stundi sérgreinina. Þess vegna m.a. sé ekki hægt að sjá að slíkur „kvóti“ hafi nokkur áhrif til lækkunar tekna. Samningsstaða gagnvart Tryggingastofnun ríkisins komi þessu máli ekkert við. Hafnað sé skýringu stefnanda um þennan þátt málsins.

Á því sé byggt af hálfu stefnda að ekki sé fullnægt skilyrðum skaðabótaréttar fyrir bótakröfu stefnanda samkvæmt almennum reglum, skaðabótalögum né öðrum bótareglum. Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu sem bótakröfu hans viðkomi, m.a. um grundvöll kröfu, sök, ólögmæti, tjón, orsakasamband og sennilega afleiðingu. Því sé mótmælt að skilyrðum þessum sé fullnægt.

Vegna málskostnaðarkröfu sé vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Varakrafa um að skaðabótakrafa stefnanda verði lækkuð stórkostlega sé á því byggð að viðmiðunargrundvöllur mánaðarlauna sé of hár og 10 ára viðmiðun launa sé allt of löng. Þá sé gerð krafa um að frá bótakröfu stefnanda dragist öll laun stefnanda í uppsagnarfresti, greiðslur til stefnanda 1.7.2006, kr. 7.386.428, og 2.750.689 kr. þann 1.8.2006 og öll laun stefnanda og hagnaður stefnanda af rekstri hans sem miðist við það sama tímabil og dómstólar miði tímalengd bótakröfu stefnanda við í mánuðum talið, allt í samræmi við það sem fram komi hér að framan varðandi umfjöllun um aðalkröfu.

Miskabótakröfu sé mótmælt sem allt of hárri og þess krafist að hún verði lækkuð stórkostlega.

Stefnanda hafi borið skylda til að takmarka tjón sitt.

Stefndi vísi, varðandi varakröfu sína um lækkun, til allra sömu sjónarmiða og varðandi aðalkröfu.

Stefndi mótmæli dráttarvaxtakröfu stefnanda og upphafsdegi dráttarvaxtakröfu. Telji dómurinn að greiða beri dráttarvexti sé þess krafist að þeir miðist við síðara tímamark. Þá sé gerð krafa um að málskostnaður falli niður.

IV

Fyrir liggur að þann 31. október 2005 veitti Landspítali-háskólasjúkrahús stefnanda, sem var yfirlæknir á æðaskurðlækningadeild á skurðlækningasviði spítalans, áminningu skv. 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í kjölfar áminningarinnar, eða með bréfi dagsettu 28. nóvember s.á, var stefnanda svo sagt upp störfum.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2006, í máli nr. E-7184/2005, var áminningin sem LSH hafði veitt stefnanda 31. október 2005, dæmd ólögmæt. Með dóminum var þannig staðfest að brotinn hefði verið réttur á stefnanda og varðar það stefnda bótaskyldu eftir almennum sjónarmiðum skaðabótaréttar.

Fyrir liggur að stefnandi hefur frá því honum var gert að láta af störfum, sem yfirlæknir í desember 2007, starfað við eigin læknastofu, sem rekin var undir nafninu Hippokrates sf. til 1. janúar 2006 en eftir það undir nafninu SEM-lækningar slf.

Stefnandi krefst í máli þessu bóta sem nema tekjumissi, sem yfirlæknir, í 10 ár frá því að launagreiðslum lauk. Er þessi kröfugerð fjarri lagi og á sér enga stoð í dómvenju um bætur til handa þeim, er orðið hafa fyrir ólögmætri uppsögn. Dómvenjan er sú að bætur eru ákveðnar að álitum að teknu tilliti til aðstæðna, starfsmöguleika og launa.

Stefnandi naut réttinda og bar skyldur starfsmanna ríkisins samkvæmt lögum nr. 70/1996. Þótt hann hafi verið ráðinn með gagnkvæmum uppsagnarfresti mátti hann almennt treysta því að fá að gegna starfi sínu áfram til loka venjulegs starfsaldurs opinberra starfsmanna.

Stefnandi hafði gegnt yfirlæknisstöðunni í rúm þrjú ár, en starfað mun lengur við stofnunina. Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins um að fundið hafi verið að störfum hans annað en framburður Jóhannesar M. Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra lækninga, þar að lútandi. Verður því að telja ósannað að stefnandi hafi ekki sinnt starfi sínu vel. Þá liggur ekkert  fyrir um að kvartanir hafi borist út af samskiptum hans við sjúklinga.

Stefnandi var 47 ára á uppsagnardegi. Verður ekki talið að mönnum á þeim aldri sé almennt óhægt um vik að koma undir sig fótunum á ný á vinnumarkaði. Hins vegar er á það að líta að eina sérhæfða æðaskurðlækningadeild landsins er á LSH. Verður því að telja að stefnandi, sem er með sérfræðipróf og doktorspróf í æðaskurðlækningum auk stjórnunarnáms, eigi ekki kost á sambærilegu starfi hér á landi. Þá þykir mega fallast á að hin ólögmæta uppsögn sé almennt til þess fallin að draga úr atvinnumöguleikum hans erlendis.

Stefnandi hefur sótt um stöðu sérfræðings við æðaskurðlækningadeild LSH, en án árangurs, og þannig reynt að takmarka tjón sitt. Hins vegar þykir ekki sýnt að röksemdir spítalans fyrir því að ráða hann ekki til starfans hafi verið gersamlega haldlausar og að ráðningarferlið sýni svo ekki verði um villst að stjórnendur spítalans hindri í reynd möguleika stefnanda á að draga úr tjóni sínu vegna uppsagnarinnar.

Fyrir liggur að stefnandi var ráðinn af Háskóla Íslands í dósentstöðu við læknadeild og að samningur á milli Háskólans og LSH lá til grundvallar starfsaðstöðu dósents á spítalanum. Verður því ekki talið að stefnandi geti í máli þessu byggt á atvikum varðandi stöðu þessa. 

Stefnandi byggir á því að ekki sé óvarlegt að gera ráð fyrir því að tekjur af læknastofurekstrinum verði minni í framtíðinni en þær hafa verið vegna þess hvernig staðið var að brottvísun hans af spítalanum. Málsástæða þessi er ekki rökstudd og ekki studd neinum gögnum. Þykir hún því ekki geta komið til álita við mat á bótum. Þá verður heldur ekki talið að ábending stefnanda, um að samningur Læknafélags Reykjavíkur við Tryggingastofnun ríkisins geti haft afgerandi þýðingu í rekstri læknastofu eins og þeirrar er stefnandi rekur, eins og hún er fram sett, geti komið til álita við bótaákvörðun í málinu.

Með bréfi yfirlæknis æðaskurðdeildar LSH frá 25. september 2007 var stefnanda tilkynnt að allir sjúklingar sem vísað er til meðferðar á skurðdeildinni, sem og öðrum deildum, skuli metnir af sérfræðingum deildarinnar fyrir aðgerð. Að sama skapi skuli sérfræðingur, sem framkvæmir aðgerð eða telst ábyrgur fyrir gerð hennar, hafa með höndum eftirlit með sjúklingi eftir aðgerð.

Elín H. Laxdal yfirlæknir kveður ástæðu þess að hún ritaði umrætt bréf vera að ýmis óregla hafi verið á því hvernig tilvísunum var háttað frá sérfræðingum utan úr bæ, m.a. stefnanda, þ.e. hvort að ábendingar fyrir þræðingum væru skýrar og eins hvernig ætti að fylgja þeim eftir. Borið hafi á því að ætlast væri til að sjúklingar færu í eftirlit hjá tilvísandi lækni en samkvæmt stefnu spítalans eigi að bjóða öllum sjúklingum eftirlit eftir allar þær meðferðir sem veittar séu þar. Læknar á deildinni beri ábyrgð á meðferðum og árangri meðferða og hafi því óskað eftir að hafa eftirlit með þeim þætti meðferða sem lúti að innæðaþræðingum og opnum aðgerðum.

Ekkert liggur fyrir um að samskonar ákvörðun og sú sem fram kemur í téðu bréfi hafi verið tekin á öðrum deildum spítalans. Hefur stefndi því ekki hnekkt þeirri staðhæfingu stefnanda að ákvörðuninni hafi verið beint að honum. Hins vegar þykir, þegar litið er til framkominna skýringa á því að umrætt bréf var sent, ekki vera sýnt að orsakasamband sé á milli hinnar ólögmætu uppsagnar og ákvörðunarinnar. Þegar af þeirri ástæðu þykir ekki koma til álita að tekjuskerðing vegna hennar, sem yfirmatsmenn mátu 5%, komi til álita við ákvörðun bóta til handa stefnanda.

Stefnanda var sagt upp starfi sínu sem yfirlæknir með bréfi dagsettu 28. nóvember 2007 og tók uppsögnin gildi 1. desember s.á. Með bréfi, dags. 7. desember 2007, var fallið frá kröfu um vinnuframlag hans á uppsagnarfresti og þess óskað að hann léti af störfum.

Fyrir liggur að árið 2005 voru laun stefnanda frá ríkinu 12.780.184 krónur. Laun vegna eigin starfsemi voru 1.372.493 krónur, bifreiðahlunnindi 1.038.456 krónur og hagnaður af eigin starfsemi 10.373.352 krónur eða samtals 12.784.301 króna. Alls gera þetta 25.564.485 krónur. Árið 2006 voru laun hans frá íslenska ríkinu hins vegar 14.960.591 króna en það ár fékk hann greidd áunnin frítökurétt o.fl. að upphæð ríflega 10.000.000 króna. Laun vegna eigin starfsemi voru 3.561.930 krónur, bifreiðahlunnindi 950.400 krónur og hagnaður af eigin starfsemi 16.752.675 krónur eða samtals 21.265.005 krónur. Alls gera þetta 36.225.596 krónur. Árið 2007 voru laun stefnanda frá ríkinu 1.299.524 krónur. Laun vegna eigin starfsemi voru 4.039.124, bifreiðahlunnindi 1.012.426 og hagnaður af eigin starfsemi 17.166.189 eða samtals 22.217.739 krónur. Alls gera þetta 23.517.263 krónur. Inni í launatölum frá ríkinu eru laun stefnanda fyrir kennslu við HÍ u.þ.b. 1.000.000 króna á ári og u.þ.b. 1.300.000 krónur árið 2007. Ekki liggja fyrir í málinu upplýsingar um afkomu stefnanda árið 2008.

Að frátalinni greiðslu vegna frítökuréttar á árinu 2006 er ljóst að laun stefnanda hafa lækkað mjög í kjölfar hinnar ólögmætu uppsagnar. Hagnaður af eigin starfsemi hans hefur hins vegar aukist verulega.

Við mat á því hvort stefnandi hafi orðið fyrir tjóni verður, auk alls þess sem að framan er rakið og áhrif hefur á matið, að líta til þess að skattur af tekjum samlagsfélags, eins og stefnandi rekur, er lægri en af launatekjum. Þá verður að líta til þess að stefnandi fékk greidd laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti. Hins vegar þykir ekki koma til álita að áunninn frítökuréttur komi til frádráttar. Þykja bætur til handa stefnanda, að öllu framangreindu virtu, að álitum hæfilega ákveðnar 3.000.000 króna.

Það var ekki fyrr en með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, 29. júní 2006, sem endanlega lá fyrir að áminningin sem LSH hafði veitt stefnanda hefði verið ólögmæt og uppsögnin þar með. Þá liggur fyrir að með bréfi 7. desember 2007, þar sem þess var óskað að stefnandi léti af störfum, var þess jafnframt óskað að hann léti af hendi og gengi frá aðstöðu, gögnum og öðrum þáttum er varði starf hans á sjúkrahúsinu eins fljótt og frekast sé kostur. Að þessu virtu og öðrum gögnum málsins þykir ekki í ljós leitt að þannig hafi verið staðið að uppsögninni og starfslokum stefnanda að fyrir hendi séu skilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með áorðnum breytingum til að dæma stefnda til greiðslu miskabóta. Verður hann því sýknaður af þeirri kröfu stefnanda. 

Rétt þykir að stefndi greiði dráttarvexti af framangreindri fjárhæð frá 20. febrúar 2007 eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir niðurstöðu málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 2.000.000 króna í málskostnað að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Stefáni Einari Matthíassyni, 3.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. febrúar 2007 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 2.000.000 króna í málskostnað.