Hæstiréttur íslands
Mál nr. 217/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Barnavernd
- Vistun barns
- Gjafsókn
|
|
Mánudaginn 17. maí 2010. |
|
||
|
|
Nr. 217/2010.
|
A og B (Berglind Svavarsdóttir hrl.) gegn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Gunnar Eydal hrl.) og C (enginn) |
||
Kærumál. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að dóttir A og B skyldu vistuð utan heimilis með heimild í 1. mgr. 28. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 6. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2010, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dóttir sóknaraðila, varnaraðilinn C, skuli vistuð á heimili á vegum varnaraðilans Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til 9. júní 2010. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kröfu varnaraðilans Barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að varnaraðilinn C verði vistuð á heimili á vegum fyrrnefnda varnaraðilans í sex mánuði frá 9. desember 2009 verði hafnað. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Varnaraðilinn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Varnaraðilinn C hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Ekki er fram komið að neinir þeir annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá stjórnvöldum sem haft geti áhrif á niðurstöðu þess. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Varnaraðilinn Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefur ekki krafist kærumálskostnaðar og fellur hann niður. Ríkissjóði verður gert að greiða gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A og B, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, samtals 200.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur26. mars 2010.
Mál þetta barst dóminum með kröfubréfi sóknaraðila þann 9. febrúar 2010. Þess er krafist að varnaraðili C, kt. [...], verði vistuð á heimili á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur í 6 mánuði frá 9. desember 2009 að telja. Krafa þessi er reist á 1. mgr. 28. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Varnaraðilar A og B krefjast þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefjast þau málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Varnaraðili C tekur undir kröfugerð sóknaraðila, þó þannig að hún krefst þess að hún verði vistuð á fósturheimili á vegum sóknaraðila í allt að tólf mánuði frá úrskurðardegi. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Málavextir:
Varnaraðili, C, er á 17. aldursári. Hún lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna, þeirra A og B, sem eru varnaraðilar máls þessa. Stúlkan hefur verið vistuð utan heimilis frá 28. janúar 2009 með og án samþykkis foreldra. Hún hefur verið búsett á fósturheimili frá 28. september 2009 en var áður vistuð á Vistheimili barna.
Mál C hefur verið til meðferðar hjá sóknaraðila frá því í janúar á 2009. Tilefni þess var tilkynning frá slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss um alvarlega kynferðislega misnotkun varnaraðila B á dóttur sinni. Af því tilefni ræddu starfsmenn sóknaraðila við stúlkuna, þann 19. janúar 2009. Önnur tilkynning sama efnis barst sóknaraðila, þann 21. janúar 2009, en þá var tilkynnt undir nafnleynd. Þá kom einnig fram grunur um misnotkun af hálfu varnaraðila A. Á fundi með starfsmönnum sóknaraðila, þann 23. janúar 2009, greindi C frá því að faðir hennar, varnaraðili B, nauðgaði henni, hefði við hana samfarir og léti hana hafa við sig munnmök. Hún sagði misnotkunina hafa átt sér stað frá því hún var 11 ára og ætti sér stað reglulega, síðast líklega þremur vikum fyrr. Þá sagðist stúlkan telja móður sina, varnaraðila A, vita af þeim aðstæðum. Taldi hún einnig að systir hennar, sem væri 17 ára og byggi á heimilinu, hefði orðið fyrir misnotkun af hálfu föður. Hún sagði misnotkun af hálfu móður ekki hafa átt sér stað en að móðir sín hefði slegið sig nokkrum sinnum. Þá greindi telpan frá því að hún hefði verið að fíkta við að neyta áfengis og vímuefna. Í kjölfarið var henni boðið að fara á vistheimili barna og samþykkti hún það.
Málið var sent lögreglu til rannsóknar þann 3. febrúar 2009. Lauk rannsókninni, þann 1. október 2009, með tilkynningu ríkissaksóknara þess efnis að það sem fram hafi komið við rannsóknina hafi ekki verið nægilegt eða líklegt til sakfellis og málið því fellt niður.
Á vegum sóknaraðila var framkvæmt sálfræðilegt mat á varnaraðila C. Skýrsla sálfræðings er dagsett 28. apríl 2009. Í niðurstöðum kemur fram að greining á vandamálum C sé erfið, sérstaklega þar sem ekki er staðfest að hún hafi lent í misnotkun. Þá segir „Ljóst er að C og fjölskylda eru mjög sköðuð af máli þessu hvernig sem sannleikurinn er. Á þessu stigi er algerlega óráðlegt að stúlkan fari heim við óbreyttar aðstæður enda mun slíkt ekki vera gert í samvinnu við hana og myndi einnig vera skaðlegt stúlkunni og hættulegt heilsu hennar. Fjölskyldan nú er mjög reið við stúlkuna og ekki hægt að senda hana heim í þær aðstæður.“
Eftir að málið hafði verið fellt niður hjá ríkissaksóknara hafa varnaraðilar, foreldrar C, beitt sér fyrir því að hún flytti aftur heim til þeirra. Þau höfðu áður samþykkt tímabundna vistun en beittu sér fyrir því að á tímabili vistunar yrði unnið markvisst að því að hún færi í göngudeildarmeðferð eða væri lögð inn á BUGL. Þá hafa þau gert kröfu um umgengni móður við stúlkuna.
Í bréfi til sóknaraðila, dags. 29. júní 2009, sem undirritað er af fimm fagmenntuðum starfsmönnum barna- og unglingageðlækningadeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss (BUGL) segir að nauðsynlegt sé að C fái heildræna meðferð vegna þeirra sálfélagslegu og geðrænu erfiðleika sem hún virðist eiga við að etja og að meðferðin sé á einni hendi á hverjum tíma fyrir sig. Beina bréfritarar því til sóknaraðila að allt of langur tími hafi liðið án þess að C hafi fengið viðhlítandi alhliða greiningu og meðferð og leggja til að hún verði lögð inn á legudeild BUGL. C hefur verið andvíg því að leggjast inn á BUGL og því hefur ekki orðið af innlögn. Sumarið 2009 hóf C viðtöl á BUGL og hjá Barnahúsi.
C óskaði eftir því að vera vistuð áfram utan heimilis til 1. september 2009 á meðan meðferðarvinnu væri ólokið. Þessi ósk C var tekin fyrir á fundi sóknaraðila, þann 8. september 2009. Höfðu varnaraðilar, foreldrar C, komið með tillögu þess efnis að hún myndi vistast áfram utan heimilis í 6 mánuði hjá móðurbróður sínum eða ef til vill öðrum ættingjum. Lögmaður stúlkunnar kvað hana ekki tilbúna til að samþykkja þá tillögu og óskaði eftir því að henni yrði fundið fósturheimili til 18 ára aldurs. Veittu foreldrar C munnlegt samþykki á fundinum fyrir áframhaldandi vistun hennar utan heimilis til 6 mánaða. Þann 30. september 2009 undirrituðu varnaraðilar, foreldrar C, samþykki fyrir vistun hennar utan heimilis frá 8. september 2009 til 8. mars 2010. Stúlkan undirritaði sjálf samþykki fyrir vistun þann 14. september sl. og flutti á fósturheimilið fjórum dögum síðar. Frá 11. september sl. hefur C neitað að mæta í frekari viðtöl á BUGL.
Þann 22. október 2009 hittu varnaraðilar fósturmóður C, D, á skrifstofu sóknaraðila. Upplýsti fósturmóðir foreldra um hagi og aðstæður C á heimili hennar. Lýsti fósturmóðir líðan C, sagði henni líða vel, hún hefði nóg fyrir stafni og héldi reglusemi hvað varðar áfengi og mat. Sögðust varnaraðilar sjá fyrir sér að telpan yrði flutt heim til þeirra fyrir jólin, fyrst búið væri að fella kynferðisbrotamálið niður. Þau sögðust ekki sjá lengur tilgang með vistun C utan heimilis.
Frá því telpan fór í fóstur hefur hún samþykkt að hitta móður sína í nokkur skipti. Í eitt skiptanna kom E systir hennar með í umgengni. Umgengni var fyrst 22. september 2009 á Vistheimili barna. Mæðgunum hefur verið gefinn kostur á handleiðslu í tenglum við umgengni. Þá var sálfræðingur viðstaddur í tvö skipti þegar mæðgurnar hittust. Hefur stúlkan verið treg til umgengni við móður sína og lýst vanlíðan fyrir og eftir fundi þeirra.
Varnaraðilar, foreldrar C, afturkölluðu samþykki sitt fyrir vistun telpunnar utan heimilis með bréfi til sóknaraðila, 24. nóvember 2010. Af því tilefni ræddi lögmaður C við hana til að fá fram afstöðu hennar. C samþykkti ekki undir neinum kringumstæðum að snúa aftur heim til foreldra sinna. Af þeim sökum gerði lögmaður C kröfu um að sóknaraðili myndi úrskurða um að C yrði vistuð utan heimilis á grundvelli 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í framhaldinu var neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga beitt og sendi sóknaraðili lögmanni varnaraðila bréf þess efnis.
Starfsmenn sóknaraðila kölluðu eftir upplýsingum frá Barnahúsi með bréfi þann 27. nóvember 2009. Í svarbréfi frá Barnahúsi kemur fram að C hafi frá því 16. júní sl. sótt 11 meðferðarviðtöl til F sálfræðings í Barnahúsi.
Þann 9. desember 2009 var málið tekið fyrir á fundi sóknaraðila. Þar mættu varnaraðilar, A og B, ásamt lögmanni sínum og lögmaður C. Varnaraðilar samþykktu ekki áframhaldandi vistun C utan heimilis og kröfðust þess að hún kæmi heim eða yrði vistuð á BUGL. Fyrir lá að stúlkan óskaði eftir því að vera áfram í vistun utan heimilis. Kvað sóknaraðili, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, upp úrskurð þann 9. desember 2009, með vísan í a-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, þess efnis að varnaraðili, C, skyldi kyrrsett á fósturheimili á þeirra vegum í allt að 2 mánuði frá þeim degi að telja.
Fram hefur komið að C samþykkir ekki undir neinum kringumstæðum að flytja aftur heim til foreldra sinna. Þrátt fyrir að hafa undirritað samþykki sitt fyrir vistun á fósturheimili til 8. mars 2010 hefur C tjáð sig um það við lögmann sinn og starfsmenn sóknaraðila að hún vilji helst af öllu vera í fóstri til 18 ára aldurs. C hefur ekki dregið ásakanir sínar á hendur föður til baka og hefur tjáð sig um það að hún vilji alls ekki hitta hann, að svo stöddu. Þá hefur hún lokað á í bili að hitta stórfjölskylduna. C hefur sæst á að hitta móður sína og systur einu sinni í mánuði. Umgengni hefur hins vegar gengið upp og ofan og hefur telpan lýst mikilli vanlíðan vegna hennar.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila:
Krafa sóknaraðila um að telpan verði vistuð í 6 mánuði á fósturheimili á vegum sóknaraðila, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. a-liður 1. mgr. 27. gr. sömu laga, byggir á því að telpan eigi við alvarlega geðheilsubresti að etja auk sálfélagslegra vandamála sem henni hefur ekki tekist að sigrast á.
Sóknaraðilar byggja á því að stúlkan hafi borið föður sinn þungum sökum um að hafa beitt sig grófu kynferðisofbeldi. Þrátt fyrir að ekki hafi verið gefin út ákæra, þar sem sönnunarstaða málsins fullnægi ekki skilyrðum laga um meðferð sakamála um líkindi til sakfellingar, verði ekki hjá því litið að telpan hefur aldrei dregið ásakanirnar til baka. Þvert á móti sé hún staðföst í frásögn sinni. Þá telur sóknaraðili að varnaraðilar hafi sýnt takmarkaða innsýn inn í vanda telpunnar og reynt með handafli að stýra faglegri vinnslu sóknaraðila í málinu. Þannig hafi varnaraðilar ítrekað neitað að samþykkja úrræði til handa telpunni nema gengið sé að kröfum þeirra um tiltekin skilyrði. Þau skilyrði hafi undantekningarlaust rekist á við vilja telpunnar og í sumum tilvikum faglegt mat sóknaraðila. Við vinnslu máls þessa sé sóknaraðila gert skylt að taka tillit til sjónarmiða og óska telpunnar, með hliðsjón af aldri hennar og þroska, sbr. 2. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Telpan sé nú á sautjánda aldursári og hafi lýst skýrum og einbeittum vilja til að vera áfram á því fósturheimili hvar hún dvelst, á meðan hún tekst á við vanda sinn. Sóknaraðili kveðst telja að ekki sé skynsamlegt að þvinga telpuna til búsetu hjá forsjáraðilum, varnaraðilum máls þessa, þvert á staðfastan vilja hennar. Sóknaraðili telur að brýnir hagsmunir telpunnar kalli á það úrræði að hún verði vistuð á heimili á vegum sóknaraðila á meðan unnið sé að frekari greiningu á vanda hennar og úrræða leitað sem henti þeim vanda.
Þar sem varnaraðilar hafi dregið til baka samþykki sitt fyrir vistun utan heimilis gerir sóknaraðili þá kröfu að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að C verði vistuð á heimili á vegum sóknaraðila í 6 mánuði, frá 9. desember 2009 að telja, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. og a-liður 1. mgr. 27. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök, varnaraðila A og B
Í greinargerð lögmanns varnaraðila A og B kemur fram að þau telji rót þessa máls séu andleg veikindi dóttur þeirra. Þau mótmæla staðhæfingum um að faðir C hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi og vísa til þess að ríkissaksóknari hafi fellt niður mál hans í kjölfar lögreglurannsóknar. Telja þau að C hafi spunnið upp þessa og aðrar sögur um fjölskyldu sína til að ganga í augun á vini sínum G. Hún hafi hins vegar ekki reiknað með öflugum viðbrögðum hans og málið hafi því farið í allt annan og alvarlegri farveg en hún hafi ætlað í upphafi. Þá hafi verið of seint að vinda ofan af lygunum, nema viðurkenna þær og verða sér þannig til minnkunar í augum G. Þessu til stuðnings benda varnaraðilar á mikið ósamræmi í frásögn hennar undir vinnslu málsins og kveðast engan veginn geta fallist á að stúlkan hafi verið staðföst í frásögn sinni eins og sóknaraðili haldi fram.
Þá byggja varnaraðilar á því að í málinu liggi fyrir skýrt álit fagaðila um að C eigi við mikla andlega erfiðleika að etja. Fagaðilar hafi lagt til að hún yrði lögð inn á barna og unglingageðdeild Landsspítala Íslands, en af því hafi ekki orðið. Átelja varnaraðilar að sóknaraðili hafi látið nægja að vísa málinu til Barnahúss, en nú 14 mánuðum eftir að C hafi verið tekin af heimili sínu og vistuð á vegum sóknaraðila, liggi ekki fyrir fagleg greining eða mat á andlegri heilsu C.
A, móðir C, kom fyrir dóm. Ítrekaði hún það sem fram hefur komið í gögnum málsins að þau foreldrar hennar telji það að C hefur hafnað allri fjölskyldu sinni og komið með tilhæfulausar ásakanir á hendur föður sínum, til komið af alvarlegum sjúkleika hennar. C þurfi á hjálp fagmanna að halda til að vinna bug á sjúkdómi sínum. Gagnrýndi varnaraðili sóknaraðila fyrir að hafa aðhafst svo lítið sem raun beri vitni í þeim efnum. Lýsti hún því að krafa þeirra hjóna byggði á því að þau vilji sameina fjölskylduna og veita dóttur sinni þá umhyggju og hjálp sem hún þarfnist.
Varnaraðilar kveðast telja að rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993, hafi verið brotin í máli þessu. Sóknaraðili hafi aldrei gert neinn reka að því að kanna fjölskylduhagi og aðbúnað á heimili í ljósi hinna alvarlegu ásakana af hálfu C. Sérstaklega gagnrýna varnaraðilar að sóknaraðili skyldi ekki hefja könnun á högum og aðstæðum systur C, sem hafi verið undir lögaldri og hafi líka átt að hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi af hálfu föður þeirra að sögn C. Þá gagnrýna varnaraðilar sóknaraðila fyrir að hafa ekki séð neitt tilefni til að kanna af hverju C vildi ekki hitta neina ættingja sína eða neinn úr stórfjölskyldunni, s.s. ömmu sína, systkin, systkin móður o.s.frv. Ef rétt væri að faðir hennar hefði gert henni illt ætti það ekki að hafa áhrif á samskipti hennar við alla stórfjölskylduna.
Þá telja varnaraðilar að málshraðaregla stjórnsýsluréttarins ekki hafa verið virt af hálfu sóknaraðila, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þessu til stuðnings kveðast varnaraðilar hafa óskað eftir læknisaðstoð fyrir dóttur sína með bréfi 30. janúar 2009. Þrátt fyrir það og margítrekaðar beiðnir þar um hafi barnið ekki fengið neina aðstoð í marga mánuði. Það hafi ekki verið fyrr en í júní 2009 sem hún hafi farið í fyrsta meðferðarviðtalið á BUGL og í sama mánuði í fyrsta meðferðarviðtalið í Barnahúsi.
Varnaraðilar byggja á því að sóknaraðili hafi gengið mun lengra en aðstæður krefji í máli þessu og hafi með því brotið gegn 12. gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf.
Að öðru leyti vísa varnaraðilar til ákvæða barnaverndarlaga nr. 80/2002, sérstaklega VI. og XI. kafla og III. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Um málskostnað vísa varnaraðilar til 1. mg. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 61. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök varnaraðila C
Í greinargerð varnaraðila C kemur fram að c hafi kosið að samþykkja búsetu á fósturheimili á vegum sóknaraðila, enda sé samskiptum hennar við foreldra hennar, alvarlega ábótavant. Kröfugerð hennar byggi á sömu málsástæðu og úrskurður sóknaraðila frá 9. desember 2009, þ.e. að hún eigi rétt á þeirri ákvörðun á grundvelli sjálfsákvörðunarréttar. Það þjóni hagsmunum hennar best í ljósi aðstæðna að vera áfram í fóstri til loka skólaárs.
Varnaraðili vísar til þess að sjálfsákvörðunarréttur sinn byggi á 6. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003. Ákvæðið kveði á um að foreldrum beri að hafa samráð við barn sitt áður en málefnum þess sé ráðið til lykta eftir því sem aldur og þroski barnsins gefi tilefni til. Þessi réttur byggi jafnframt á 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. auglýsingu nr. 18/1992, þar sem mælt sé fyrir um að aðildarríki skuli tryggja barni, sem myndað geti eigin skoðanir, rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varði og skuli tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.
Varnaraðili, C, mótmælir þeirri málsástæðu sóknaraðila í kröfugerð, að hún eigi við alvarlegan geðheilsubrest að etja, auk sálfélagslegra vandamála, sem rangri og órökstuddri. Úrskurður sóknaraðila frá 9. desember 2009 byggi í engu á geðheilbrigði varnaraðila eða sálfélagslegum vandamálum að öðru leyti. Um þetta vísar lögmaður varnaraðila til vottorðs Gísla Baldurssonar, geðlæknis, þar sem vísað sé til einkenna á tilfinningasviði í formi kvíða og þunglyndiseinkenna hjá varnaraðila. Einnig vísar hann til vottorðs H, sálfræðings, þar sem fram komi greinileg merki þunglyndis sem og áfallastreituröskunar. Er því mótmælt að þessum einkennum verði jafnað við alvarlegan geðheilsubrest og eða alvarlega sálfélagsleg vandamál.
Varnaraðili kveðst sækja meðferðarviðtöl hjá sálfræðingi í því skyni að vinna bug á þunglyndi, kvíða- og streitueinkennum. Hún stundi nám í framhaldsskóla og tónlistarskóla og sinni námi sínu vel. Henni líði vel á fósturheimilinu og hafi aðlagast þar daglegu lífi. Séu umsagnir allra aðila er koma að málefnum hennar jákvæðar. Engin vísbending sé í gögnum málsins að andlegt heilbrigði C sé með þeim hætti að það réttlæti sviptingu sjálfsákvörðunarréttar.
Um lagarök vísar varnaraðili, C, til IV. kafla barnaverndarlaga, nr. 80/2002, meginreglna barnalaga, nr. 76/2003 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Krafa um málskostnað byggi á 60. gr. barnaverndarlaga, sem kveði á um að aðili máls skuli hafa gjafsókn fyrir dómi.
Niðurstaða:
Til úrlausnar fyrir dómi er krafa sóknaraðila um að varnaraðili C verði áfram vistuð utan heimilis til 9. júní nk. Krafan er sett fram með heimild í 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Eru því ekki efni til skoðunar dómsins á málsmeðferð sóknaraðila samkvæmt stjórnsýslulögum, sbr. málsástæður varnaraðila, A og B, þar að lútandi.
Aðdraganda og öllum afskiptum sóknaraðila af málefnum varnaraðila C er ítarlega lýst í gögnum málsins. C er á 17. aldursári, greind og dugleg stúlka sem gengur vel í skóla og tónlistarnámi. Hún hefur slitið á öll tengsl við fjölskyldu sína, þrátt fyrir ákafar tilraunir móður, o.fl. í fjölskyldunni, til að byggja upp tengslin á ný. C kom fyrir dómara og greindi frá einarðri afstöðu sinni þess efnis að hún óskaði eftir að fá að dvelja áfram á fósturheimilinu. Leitt hefur verið sterkum líkum að því að C þurfi á geðlæknisfræðilegri meðferð að halda. Gegn staðfastri höfnun hennar á slíkri meðferð hefur ekki af henni orðið. Þó hefur C sótt 11 viðtöl hjá sálfræðingi Barnahúss og gerð hefur verið sálfræðileg greining á henni. Aðila málsins greinir ekki á um að C þurfi á geðlæknisfræðilegri eða sálfræðilegri meðferð að halda en ágreiningur er um hvort sóknaraðili eða varnaraðilar, foreldrar stúlkunnar, séu færari um að koma því í kring. Hefur sóknaraðili greint í kröfu sinni þann tilgang með vistun, að unnið verði að frekari greiningu á vanda hennar og úrræða leitað sem henti þeim vanda.
Krafa varnaraðila C um að dómurinn úrskurði um vistun í 12 mánuði frá uppkvaðningu hefur ekki verið rökstudd sérstaklega. Varnaraðilar, A og B, mótmæltu kröfunni en sóknaraðili mótmælti henni ekki. Eru ekki efni til að taka þessa kröfu til greina.
Verður að fallast á að mat sóknaraðila á aðstæðum varnaraðila C sé málefnalegt og að ekki sé gripið til harkalegri aðgerða en tilefni er til. Verður ekki annað séð en að aðgerðir sóknaraðila séu og hafi verið í samræmi við meginreglur 1. og 4. gr. laga nr. 80/2002. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002 verður í úrskurðarorði mælt fyrir um vistun varnaraðila á fósturheimili eins og sóknaraðili krefst.
Málskostnaður fellur niður. Varnaraðilar hafa gjafsókn samkvæmt 61., sbr. 60. gr. laga nr. 80/2002. Þóknun lögmanns varnaraðila, A og B, er ákveðin 280.000 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Þóknun lögmanns varnaraðila, C, er ákveðin 100.000 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Unnur Gunnarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R D
Varnaraðili, C, skal vistuð á heimili á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur til 9. júní 2010.
Málskostnaður fellur niður.
Málflutningsþóknun lögmanns varnaraðila, Berglindar Svavarsdóttur, hæstaréttarlögmanns, 280.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Málflutningsþóknun lögmanns varnaraðila, Margrétar Gunnlaugsdóttur, héraðsdómslögmanns, 100.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.