Hæstiréttur íslands

Mál nr. 594/2008


Lykilorð

  • Lögræði
  • Kærumál


Þriðjudaginn 11

 

Þriðjudaginn 11. nóvember 2008.

Nr. 594/2008.

A

(Helgi Jóhannesson hrl.)

gegn

Velferðarsviði Reykjavíkurborgar

(Gunnar Eydal hrl.)

 

Kærumál. Lögræði.

Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að A yrði svipt lögræði í tvö ár á grundvelli a. liðar 4. gr. og 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. október 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2008, þar sem sóknaraðila var gert að sæta sviptingu fjárræðis og sjálfræðis í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og skipuðum verjanda hennar dæmd þóknun fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í málinu liggur fyrir vottorð Birnu G. Þórðardóttur geðlæknis 3. október 2008 um heilsuhagi sóknaraðila, en það var ritað í tilefni af beiðni varnaraðila sama dag um að sóknaraðili yrði nauðungarvistuð til meðferðar á sjúkrahúsi samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Þá liggur fyrir vottorð Halldóru Jónsdóttur geðlæknis 15. október 2008, en efni þess er rakið í hinum kærða úrskurði. Með vísan til þessara vottorða og að öðru leyti forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Sú athugasemd er þó gerð að enda þótt því hafi verið lýst yfir við meðferð málsins í héraði að síðarnefnda læknisvottorðið væri ekki vefengt hefði héraðsdómara verið rétt, sbr. 11. gr. lögræðislaga, að kveðja geðlækninn fyrir dóm til staðfestingar á vottorðinu.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 120.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2008.

Með beiðni, sem dagsett er 22. þ.m. krafðist sóknaraðili, velferðarsvið Reykjavíkurborgar þess að varnaraðili, A, kt. [...], til heimilis í [...], yrði svipt sjálfræði og fjárræði í tvö ár vegna geðveiki.  Þá segir í beiðninni að varnaraðili sé ófær um að sjá um fjármál sín og eru þar tekin til ýmisleg dæmi um ráðleysu hennar í fjármálum. Var málið þingfest og tekið til úrskurðar í dag.  Um aðild sóknaraðila vísast til d- liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997.  Varnaraðili mótmælir kröfunni.

Fyrir liggur vottorð Halldóru Jónsdóttur geðlæknis, sem er ómótmælt, að A er samkvæmt formlegri sjúkdómsgreiningu haldinn geðrofaklofa (schizoaffekívri geðveiki) með miklum ranghugmyndum.  Segir þar að hún hafi ekki innsæi í sjúkdóm sinn og enga stjórn á fjármálum sínum.  Hafi hún vistast 20 sinnum á geðdeild síðustu fjögur ár.  Hún taki ekki læknismeðferð sjálfviljug og væri rétt að svipta hana sjálfræði ótímabundið, enda þurfi hún langtímameðferð.

Varnaraðili hefur komið fyrir dóminn og talað sínu máli.  Er það tal með aðsóknarblæ og mjög annarlegt.

Dómarinn álítur vafalaust af því sem rakið er hér að framan að varnaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og alls ófær um að ráða högum sínum og fé.  Þá álítur hann að skilyrði a- liðar 4. gr. lögræðislaga eigi við um varnaraðila og að þörf sé á því að svipta hann sjálfræði og fjárræði.  Ber að taka kröfu sóknaraðila til greina og ákveða að varnaraðili skuli sviptur sjálfræði og fjárræði í tvö ár.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði allan málskostnað, þ.m.t. 50.000 króna þóknun til talsmann varnaraðila, Helga Jóhannessonar hrl., að meðtöldum virðisaukaskatti, og 81.280 krónur í kostnað vegna læknisvottorðs.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

A, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík, er svipt sjálfræði og fjárræði í tvö ár.

Kostnaður af málinu, þóknun til talsmanns varnaraðila, Helga Jóhannessonar hrl., 50.000 krónur, svo og kostnaður vegna læknisvottorðs, 81.280 krónur, greiðist úr ríkissjóði.