Hæstiréttur íslands

Mál nr. 77/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Fullnusta refsingar


Föstudaginn 9

 

Föstudaginn 9. febrúar 2007.

Nr. 77/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X, sem veitt hafði verið reynslulausn, skyldi á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga afplána 240 daga eftirstöðvar 2 ára fangelsisrefsingar, sem hann hafði hlotið með dómi héraðsdóms 20. apríl 2005.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. febrúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2007, þar sem varnaraðila var gert að afplána 240 daga eftirstöðvar reynslulausnar, sem honum hafði verið veitt frá 8. nóvember 2006. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, afpláni 240 daga eftirstöðvar tveggja ára fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómi Héraðsdóms Reykjaness 20. apríl 2005.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að  X, [kt.], verði gert að afplána 240 daga eftirstöðvar reynslulausnar dóms Héraðsdóms Reykjaness frá 20. apríl 2005, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun þann 8. nóvember 2006.

Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu verði hafnað og krefst verjandi þess að honum verði greidd málsvarnarlaun vegna þessa þáttar málsins úr ríkissjóði.

Í greinargerð rannsóknara kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar mál þar sem kærði sé grunaður um rán, frelsissviptingu og hlutdeild í hættulegri líkamsárás.

Að kvöldi 29. janúar sl. hafi kærandi, A, komið til lögreglu og greint þar frá að kærði og kærasta hans, meðkærða B, hefðu verið hjá sér nóttina á undan við neyslu fíkniefna.  Hafi kærandi svo ekið meðkærðu B heim, en kærði orðið eftir í íbúð kæranda að [...].  Er kærandi hafi komið til baka hafi hurð íbúðarinnar verið upp á gátt og hafi hann saknað fartölvu og fleiri muna úr íbúðinni.  Hafi hann verið í sambandi við meðkærðu B sem hafi sagt honum um kl. 22:00 um kvöldið að hún hefði haft uppi á fartölvunni og væri á leiðinni til hans og hafi hún aðspurð sagst vera ein.  Hún hafi svo komið til hans með tölvuna en svarað símanum og sagst þurfa að skreppa út í bíl.  Skömmu síðar hafi hann heyrt í karlmannsröddum á ganginum og séð hvar kærði hafi ruðst upp með butterfly hníf í hendinni ásamt tveimur karlmönnum og áðurnefndri meðkærðu.  Kvað hann þau hafa komið inn, bundið hann við stól í eldhúsi, bæði á höndum og fótum.  Þau hafi sett golfbolta í munninn á honum, límband yfir varirnar á honum og gúmmíhettu yfir höfuð hans.  Hafi þau svo lamið hann í höfuð og síðu og hafi hann verið laminn með járnkylfu, sem þau höfðu meðferðis í hné og höfuð.  Hann hafi svo fallið í gólfið og hafi þar verið sparkað í hann.  Þá hafi verið hellt yfir hann kveikjarabensíni og honum hótað.  Hafi kærandi greint svo frá að allir aðilarnir fjórir hafi haft sig í frammi við líkamsmeiðingarnar.  Hafi þau svo losað af honum böndin, en sagt honum að hreyfa sig ekki.  Hafi þau leitað að verðmætum í íbúðinni og haft á brott með sér ýmsa muni.  Hafi þau m.a. tekið kveikjuláslykla af bifreið hans, [...] og farið af vettvangi á bifreiðinni. 

Við komu til lögreglu hafi kærandi verið með sjáanlega áverka á hnakka og vinstri síðu og hafi verið haltur. Við skoðun á heimili kæranda hafi fundist teygðar, svartar einangrunarlímbandslengjur og bandspotti.  Í svefnherbergi hafi verið mikið umrót, fatnaður og munir á víð og dreif.  Sama kvöld hafi verið tilkynnt um árekstur og afstungu, þar sem bifreiðinni [...] hafi verið ekið á aðra bifreið og svo stungið af. 

Tekin hafi verið skýrsla af öllum kærðu í málinu sem auk framangreindra séu C, D og E.  Bendi rannsókn málsins til þess að kærði hafi í félagi við fjóra aðra farið á heimili kæranda.  Aðilar séu ekki fyllilega sammála um ástæðu fararinnar, en bendi rannsóknin til þess að kærandi hafi skuldað kærða pening og hafi átt að fara til að ógna kæranda.  Hafi kærði sjálfur greint svo frá í skýrslutöku hjá lögreglu að hann hafi verið með butterfly hníf í hendi, en kvaðst ekki hafa ógnað kæranda með honum.  Hafi kærði sagst hafa ásamt meðkærða C, skipað kæranda að setjast á stól og hafi meðkærða B bundið hann við stólinn.  Þá kannist kærði við að hafa hellt kveikjarabensíni yfir kæranda og hafi hann sagt við kæranda að hann vildi fá það sem hann skuldaði sér og kærandi þá sagt þeim að taka allt sem þeir vildu.  Hafi meðkærði C tekið upp járnstöng og beitt henni gegn kæranda.  Bendi rannsóknin til þess að í kjölfarið hafi ýmsir munir verið teknir af heimili kæranda, m.a. myndavél, verkfæri og bíllyklar, en meðkærði C sé grunaður um að hafa ekið bifreið kæranda af vettvangi.  Kærði hafi greint svo frá í skýrslutöku hjá lögreglu að hann hafi aðstoðað við að koma þeim munum sem ætlað sé að teknir hafi verið fyrir í íbúð hjá meðkærðu.

Í málinu liggi fyrir læknisvottorð, þar sem meðal annars komi fram að kærandi hafi verið með stóra kúlu hægra megin á hnakka og eymsli í hné, en fram komi í vottorðinu að áverkar geti samrýmst framburði kæranda af atvikum.

Sé litið svo á að kærði hafi rofið skilyrði reynslulausnar gróflega og á þann hátt að tilefni gefi til að honum verði gert að afplána eftirstöðvar refsingar.  Sterkur rökstuddur grunur sé þess efnis að meðal brota kærða á reynslulausnartíma séu rán, frelsissvipting og hlutdeild í hættulegri líkamsárás, brot gegn 252. gr., 2. mgr. 226. gr. og 2. mgr. 218.gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981.  Geti brotin að lögum varðað fangelsi allt að 16 árum.

Vísað sé til framangreinds, hjálagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005. 

Samkvæmt 3. mgr. 57. gr. hegningarlaga er reynslulausn bundin því almenna skilyrði að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á skilorðstímanum.  Samkvæmt reynslulausn Fangelsismálastofnunar sem kærða var veitt hinn 8. nóvember 2006, voru skilyrði reynslulausnar þau að hann gerðist ekki sekur um refsiverðan verknað á reynslutímanum og að hann sæti umsjón og eftirliti af hálfu Fangelsismálastofnunar á reynslutímanum og færi að fyrirmælum hennar. Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 getur dómstóll úrskurðað, að kröfu ákæranda, að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt gögnum málsins þykir ljóst að kærði fór í félagi við fjóra aðra á heimili kæranda þar sem kærandi var sviptur frelsi sínu, honum hótað og hann beittur ofbeldi. Framburðum kærða, meðkærðu og kæranda ber alls kostar ekki saman um þátt hvers og eins eða um tilgang heimsóknarinnar. Kærði hefur alfarið neitað sök í málinu en hefur þó viðurkennt að hann hafi farið á heimili kæranda í þeim tilgangi að hræða hann. Þá hefur hann viðurkennt að hafa á meðan þessu stóð krafist þess að kærandi greiddi sér skuld, en hann hefur borið að kærandi skuldaði sér mikla peninga.  Þá þykja gögn málsins benda eindregið til þess að kærði hafi átt aðild að því að taka verðmæti úr íbúð kæranda. Þá hefur hann viðurkennt að hafa helt kveikjarabensíni yfir kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal sá sem sviptir annan mann frelsi sínu sæta fangelsi allt að 4 árum. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal beita fangelsisrefsingu eigi skemur en í 1 ár og allt að 16 árum eða ævilangt, hafi frelsissvipting verið framin í ávinningsskyni. Samkvæmt 252. gr. sömu laga skal sá sem með líkamlegu ofbeldi eða hótun um að beita því þegar í stað tekur af manni eða neyðir út úr manni fjármuni eða önnur verðmæti sæta fangelsi eigi skemur en í 6 mánuði og allt að 10 árum.  Hafi mjög mikil hætta verið samfara ráninu getur refsingin þó orðið allt að 16 ára fangelsi. Samkvæmt framansögðu og fyrirliggjandi rannsóknargögnum þykir liggja fyrir sterkur grunur um að kærði í máli þessu, hafi með þátttöku sinni í að hóta og svipta kæranda frelsi í ávinningsskyni umrætt sinn, hafi hann  framið nýtt brot á reynslutíma, sem varðað getur 6 ára fangelsi sbr. 2. mgr. 226. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Þóknun skipaðs verjanda, Björgvins Jónssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 50.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, skal afplána 240 daga eftirstöðvar reynslulausnar sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunar 8. nóvember 2006. Þóknun skipaðs verjanda, Björgvins Jónssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 50.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.