Hæstiréttur íslands

Mál nr. 168/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 18. mars 2010.

Nr. 168/2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Júlíus Magnússon fulltrúi)

gegn

X

(Jón Þór Ólason hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sératkvæði.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. mars 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 9. apríl 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi allt frá 28. nóvember 2009, samkvæmt fimm úrskurðum Héraðsdóms Reykjaness. Með hinum fyrsta var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi samkvæmt c. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 allt til 18. desember 2009. Sá úrskurður var staðfestur með dómi Hæstaréttar 1. desember 2009 í máli nr. 682/2009. Með úrskurði 18. desember 2009 var varnaraðila gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 allt til 15. janúar 2010, þótt ekki verði séð að krafa sóknaraðila hafi þá verið reist á því ákvæði. Með úrskurðum héraðsdómsins síðastnefndan dag, 12. febrúar 2010 og hinum kærða úrskurði var gæsluvarðhald varnaraðila á ný reist á c. lið 1. mgr. 95. gr. laganna. Samkvæmt gögnum málins hafa verið gefnar út fimm ákærur á hendur varnaraðila fyrir ýmis konar brot. Óvíst er hvenær dómsmeðferð vegna þeirra lýkur.

Við meðferð þriggja síðustu úrskurða á undan hinum kærða úrskurði mun varnaraðili ekki hafa andmælt kröfum um áframhaldandi gæsluvarðhald heldur beinlínis óskað eftir að sitja í því áfram þar sem hann taldi sig vera betur í stakk búinn til að takast á við eiturlyfjafíkn sína í gæsluvarðhaldi. Hann telur á hinn bóginn nú nóg komið og vísar um það einkum til þess hversu lengi hann hefur sætt gæsluvarðhaldi; að fyrir liggi að rannsókn á málum hans sé lokið; að hann hafi verið samvinnuþýður við lögreglu; að hann hafi undanfarna mánuði sýnt vilja og getu til að vinna bug á eiturlyfjafíkn sinni; að hann verði ekki heimilislaus fái hann frelsi; að brotaferill hans kalli ekki á gæsluvarðhald meðal annars í ljósi þess að hann hafi ekki hlotið dóm um 16 ára skeið frá árinu 1991 til ársins 2007; að brot hans sem nú eru til meðferðar og hann hafi játað séu ekki svo stórvægileg að réttlæti gæsluvarðhald og að líta verði til 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í því sambandi. Rök sóknaraðila fyrir gæsluvarðhaldi eru nægilega rakin í hinum kærða úrskurði.

Þrátt fyrir að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa oft gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, verður ekki talið að sóknaraðili hafi sýnt fram á að ástand eða hagir varnaraðila séu nú með þeim hætti að fullnægt sé áskilnaði í c. lið ákvæðisins. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

                                      Sératkvæði

                                      Viðars Más Matthíassonar

                                                         setts hæstaréttardómara            

Ég fellst á með héraðsdómi að uppfyllt séu skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fyrir því að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi og tel því að staðfesta eigi hinn kærða úrskurð.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. mars 2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 9. apríl nk. kl. 16:00.

Í þinghaldi í dag mótmælti ákærði gæsluvarðhaldskröfunni og til vara að yrði á hana fallist þá verði gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 12. febrúar sl. hafi ákærða verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag kl. 16, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Ákærði hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli þess lagaákvæðis síðan 28. nóvember 2009.

Ákærði sætir nú ákærumeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjaness þar sem honum er gefið að sök fjölmörg afbrot, s.s. þjófnaði, stórfellda líkamsárás, fíkniefnabrot og umferðarlagabrot, sjá nánar meðfylgjandi ákæruskjöl. 

Ákærði hefur verið ákærður fyrir fjölmörg afbrot og vísast til meðfylgjandi ákæruskjala.

Ákærði á að baki nokkurn sakarferil.  Hann hefur frá árinu 1988 hlotið átta fangelsisdóma, einkum fyrir auðgunar- og fíkniefnalagabrot.  Hann hlaut 2 mánaða dóm skilorðsbundinn til tveggja ára 17. apríl 2007 og 30 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, 4. janúar 2008.  Ljóst er að verði ákærði sakfelldur fyrir ofangreind brot hefur hann rofið almenn skilorð þessara dóma.

Ákærði hefur verið atvinnu- og húsnæðislaus og var í mikilli neyslu fíkniefna. Ætla má að hann fjármagni fíkn sína með afbrotum, en við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfu 28. nóvember sl. kvaðst hann hafa stundað þjófnaðarbrot sökum fíkniefnaneyslu sinnar.

Ákærði hefur við síðustu fyrirtökur á gæsluvarðhaldskröfu ekki verið mótfallinn kröfu ákæruvaldsins um áframhaldandi gæsluvarðhald og beinlínis óskað eftir að sitja áfram í gæsluvarðhaldi á meðan mál hans væru til meðferðar fyrir Héraðsdómi þar sem að hann virtist vera að reyna að ná tökum á eiturlyfjafíkn sinni.

Það er mat lögreglustjórans á Suðurnesjum að skilyrðum c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt, enda er ákærði undir rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við og þá verður að ætla, í ljósi brotaferils hans undanfarið, að yfirgnæfandi líkur séu til þess að hann haldi áfram afbrotum gangi hann frjáls ferða sinna.

Þá liggur og fyrir mat Hæstaréttar Íslands með dómi nr. 682/2009 um að skilyrðum síbrotagæslu sé fullnægt og ekkert nýtt fram komið í málinu sem breytt getur því mati.

Það er því afar brýnt að lögregla og ákæruvald fái nú svigrúm til þess að ljúka ofangreindum málum fyrir héraðsdómi.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga

Niðurstaða:

Ákærði er búinn að sæta síbrotagæslu allt frá 28. nóvember 2009 og síðasta ákærumálið á hendur honum barst dóminum þann 29. janúar 2010 og var sameinað þremur eldri ákærumálum föstudaginn 5. febrúar 2010. Með vísan til þess sem að framan er rakið úr greinargerð lögreglustjóra, og ennfremur með hliðsjón af málsgögnum og áður tilvitnuðum svörum kærða fyrir dómi þykir ljóst að fram sé kominn rökstuddur grunur um að ætla megi að hann muni halda áfram afbrotum meðan málum hans er ekki lokið. Auk þessa er sýnt að rökstuddur grunur leikur á að kærði hafi rofið skilorð sem honum voru sett í dómi frá 17. apríl 2007 og 4. janúar 2008. Þegar litið er til þess sem að framan er rakið, og dóms Hæstaréttar frá 1. desember 2009 í máli nr. 682/2009, telur dómari að uppfyllt séu skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. 88/2008 til þess að verða við kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald. Er krafan því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákærði, X, kt. [...], [...], [...] heimilis skal sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó ekki lengur en til föstudagsins 9. apríl 2009 kl. 16.00.