Hæstiréttur íslands
Mál nr. 568/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Endurupptaka
- Útivistardómur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. ágúst 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að héraðsdómsmálið nr. E-592/2015 yrði endurupptekið. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að endurupptaka málsins verði heimiluð. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærðar úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili reist kröfu sína um endurupptöku framangreinds máls á c. lið 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991, þar sem sýkna hefði átt sóknaraðila að einhverju leyti eða öllu í málinu. Málsástæða þessi er of seint fram komin og kemur því ekki til álita við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. júlí 2016
Mál þetta barst dómnum 3. júní 2016 og var tekið til úrskurðar 7. júlí sl.
Sóknaraðili er Davíð Eldur Baldursson, Efstahjalla 21, Kópavogi. Varnaraðili er Íbúðalánasjóður, Borgartúni 21, Reykjavík.
Í málinu gerir sóknaraðili þá kröfu að einkamálið nr. E-592/2015, sem rekið var hér fyrir dómi milli aðila og lauk með dómi 23. júlí 2015, verði endurupptekið.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um endurupptöku einkamáls nr. E-592/2015 verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
I
Með birtingu stefnu 29. maí 2015 höfðaði varnaraðili einkamál gegn sóknaraðila, sem fékk númerið E-592/2015 hér fyrir dómi, og krafðist þess að ógiltur yrði með dómi samningur sóknaraðila, dagsettur 25. júní 2014, til greiðsluaðlögunar samkvæmt ákvæðum laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Þá krafðist varnaraðili jafnframt málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Við þingfestingu einkamáls nr. E-592/2015 hinn 3. júní 2015 varð útivist af hálfu sóknaraðila og lauk málinu með uppkvaðningu dóms 23. júlí 2015 þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um ógildingu samnings sóknaraðila til greiðsluaðlögunar og sóknaraðila gert að greiða 62.000 krónur í málskostnað.
Með erindi, dagsettu 2. júní 2016 og mótteknu degi síðar, fór sóknaraðili þess á leit við dóminn að mál nr. E-592/2015 yrði endurupptekið. Mál þetta var þingfest á grundvelli þess erindis 29. júní sl. eftir að sóknaraðili lagði fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 62.000 krónur, sbr. 3. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í þinghaldinu komu fram mótmæli af hálfu varnaraðila við endurupptökubeiðni sóknaraðila. Hinn 7. júlí sl. fór fram munnlegur málflutningur vegna þess ágreinings og var málið tekið til úrskurðar að honum loknum.
II
Sóknaraðili segir beiðni sína um endurupptöku einkamáls nr. E-592/2015 reista á 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Beiðnin hafi borist dómnum innan árs frá því málinu lauk og innan mánaðar frá því sóknaraðila, stefnda í einkamálinu, urðu málsúrslit kunn en sóknaraðila hafi fyrst orðið málsúrslit kunn þegar lögmanni hans barst dómsendurrit frá Héraðsdómi Reykjaness 31. maí sl.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að vísa hefði átt kröfum á hendur sóknaraðila frá dómi að hluta eða öllu leyti. Fyrir liggi að fjölmargir aðilar að samningi um greiðsluaðlögun frá 25. júní 2014 hafi með samningnum gefið eftir samningskröfur sínar. Aðrir samningsaðilar en sóknar- og varnaraðilar þessa máls hafi því nauðsynlega þurft að eiga aðild að einkamálinu. Í því sambandi bendir sóknaraðili á að dómkröfur varnaraðila í málinu hafi verið þær að ógiltur yrði með dómi samningur sóknaraðila, dagsettur 25. júní 2014. Því hafi ekki einungs verið krafist ógildingar á samningnum hvað varnar- og sóknaraðila varðaði heldur í heild. Dómur í málinu hafi því þannig haft áhrif á réttindi annarra lánardrottna sóknaraðila í skilningi laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Af því leiði að nauðsynlegt hafi verið að stefna öðrum aðilum að samningnum til þess að þola dóm. Að öðrum kosti hefði varnaraðili þurft að fá aðra samningsaðila til þess að standa að málssókninni með sér eða afla sér heimildar til þess að fara með hagsmuni þeirra.
Almennar reglur samningaréttar gildi um valkvæða samninga sem gerðir séu á grundvelli laga nr. 101/2010. Af þeim sökum eigi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 hér við, enda sé samningur um greiðsluaðlögun einkaréttarlegt samningsúrræði þótt opinber stofnun komi að samningsumleitunum. Hvort sem litið sé svo á að lánardrottnar sóknaraðila beri óskipta skyldu samkvæmt samningnum til eftirgjafar krafna eða eigi á grundvelli hans óskipt réttindi sé um einstaklegan, beinan og lögvarinn rétt að ræða til að taka til varna. Ekki geti því staðist að hægt sé að ógilda samninginn án þess að allir samningsaðilar fái færi á að gæta hagsmuna sinna. Önnur niðurstaða myndi stangast á við grunnrök samninga- og einkamálaréttar.
Samkvæmt framansögðu sé ljóst að vísa hefði einkamálinu nr. E-592/2015 frá dómi án kröfu. Skilyrði b-liðar 137. gr. laga nr. 91/1991 sé því uppfyllt í máli þessu. Dómnum beri því að fallast á kröfu sóknaraðila um endurupptöku einkamálsins.
Sóknaraðili bendir jafnframt á að greiðsluáskorun varnaraðila, dagsett 20. mars 2015, hafi aldrei borist honum. Þá hafi sá háttur verið hafður á birtingu stefnu í einkamálinu nr. E-592/2015 að hann hafi aldrei fengið stefnuna í hendur. Birtingar í þessum tilvikum hafi ekki verið í samræmi við reglur um birtingu stefnu í einkamáli, en þær reglur hljóti að gilda um tilkynningar og stefnu sem beina eigi að aðila með heimild í 2. mgr. 26. gr. laga nr. 101/2010. Því séu einnig uppfyllt skilyrði a-liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 fyrir endurupptöku málsins.
III
Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt samningi sóknaraðila um greiðsluaðlögun frá 25. júní 2014 hafi sóknaraðili átt að greiða upp lögveðskröfur frá 1. júlí 2014 til 1. október 2014. Frá 1. nóvember 2014 og út samningstímann hafi sóknaraðili átt að greiða af veðkröfum varnaraðila innan matsverðs 52.123 krónur, alls 32 greiðslur. Varnaraðili hafi átt veðkröfu í málinu að fjárhæð 11.450.000 krónur, auk veðkröfu utan matsverðs að fjárhæð 3.608.895 krónur, samtals 15.058.895 krónur. Samtals hafi varnaraðili því lýst kröfum að fjárhæð 15.058.895 krónur, en heildarskuldir sóknaraðila samkvæmt samningnum hafi numið 32.525.576 krónum. Samkvæmt samningnum og greiðsluáætlun, sem honum hafi fylgt, hafi sóknaraðili átt að greiða til varnaraðila mánaðarlega 52.123 krónur frá og með 1. nóvember 2014 til og með 1. júní 2017, með breytingum í samræmi við launavísitölu frá gildistöku samnings. Arion banka hf. hafi borið að miðla greiðslum samkvæmt samningnum til kröfuhafa samkvæmt ákvæði í 6. kafla hans.
Hinn 20. mars 2015 hafi varnaraðili sent sóknaraðila greiðsluáskorun vegna vanskila hans en engin viðbrögð hafi borist frá sóknaraðila. Sóknaraðili hafi ekki að neinu leyti staðið við greiðslur mánaðarlegra afborgana að fjárhæð 52.123 krónur til varnaraðila og því hafi varnaraðili höfðað einkamál á hendur honum til ógildingar á samningi sóknaraðila um greiðsluaðlögun. Vanskil sóknaraðila við varnaraðila hafi við höfðun málsins varað í sjö mánuði og numið 364.861 krónu, auk verðbóta.
Af hálfu varnaraðila sé vefengt að beiðni sóknaraðila um endurupptöku hafi borist dómara innan mánaðar frá því sóknaraðila, stefnda í einkamálinu, urðu málsúrslit kunn. Sóknaraðila hafi verið kunnugt um rekstur einkamálsins og hann hafi mátt vita að kveðinn yrði upp útivistardómur yrði ekki sótt þing af hans hálfu. Í þessu sambandi tekur varnaraðili fram að ósannað sé sóknaraðili hafi ekki búið á skráðu lögheimili sínu þegar einkamálið var höfðað.
Varnaraðili segir birtingu stefnu í einkamáli nr. E-592/2015 hafa farið þannig fram að birt hafi verið á lögheimili sóknaraðila, föstudaginn 29. maí 2015, kl. 18:00, fyrir aðila sem hist hafi þar fyrir. Stefnubirtingin hafi því verið í samræmi við ákvæði a-liðar 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991. Skilyrði a-liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 séu því ekki uppfyllt í málinu.
Af hálfu varnaraðila er því mótmælt að aðrir samningsaðilar en sóknar- og varnaraðilar þessa máls hafi þurft að eiga aðild að einkamálinu. Sú niðurstaða verði ekki leidd af orðalagi 2. mgr. 26. gr. laga nr. 101/2010. Um sé að ræða rétt hvers og eins lánardrottins og því eigi vísun sóknaraðila til 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 ekki við. Engin efni hafi því verið til þess að vísa kröfum á hendur sóknaraðila í einkamálinu frá dómi að hluta til eða að öllu leyti. Skilyrði b-liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 séu því ekki uppfyllt í málinu.
Samkvæmt öllu framangreindu beri dómnum að hafna beiðni sóknaraðila um endurupptöku einkamáls nr. E-592/2015 og úrskurða varnaraðila málskostnað úr hans hendi, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV
Beiðni sóknaraðila um endurupptöku einkamáls nr. E-592/2015 er reist á a- og b-liðum 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Beiðni sóknaraðila barst dómnum 3. júní sl. en dómur í einkamálinu var kveðinn upp 23. júlí 2015. Beiðnin barst því dómnum innan árs frá því málinu lauk í héraði, sbr. ákvæði 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991.
Varnaraðili heldur því fram að endurupptökubeiðni sóknaraðila hafi ekki borist dómara innan mánaðar frá því honum urðu málsúrslit kunn, sbr. ákvæði 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991, og þegar af þeirri ástæðu beri dómnum að hafna beiðninni. Samkvæmt framlögðu birtingarvottorði var stefna í einkamálinu nr. E-592/2015 birt af stefnuvottinum Kristján Ólafssyni á lögheimili sóknaraðila, stefnda í einkamálinu, föstudaginn 29. maí 2015, kl. 18:00, fyrir Helgu Snorradóttur, kt. 150458-2269, sem hittist þar fyrir. Af framlögðu skjali, sem frá fyrrnefndum stefnuvotti stafar, dagsettu 25. apríl 2015, má ráða að sóknaraðili hafi ekki verið búsettur á lögheimili sínu um það leyti sem stefna var þar birt. Þetta mátti og ráða af skýrslugjöf stefnuvottsins fyrir dómi. Stefnuvotturinn gat hins vegar engu slegið föstu um það hvort samskipti, sem hann kvaðst hafa átt við sóknaraðila símleiðis, hefðu verið vegna birtingar þeirrar stefnu sem hér um ræðir, en stefnuvotturinn kvaðst margoft hafa farið „... út af þessum manni á þennan stað.“ Að öllu þessu athuguðu þykir ekkert annað haldbært liggja fyrir í málinu en sóknaraðila hafi orðið málsúrslit kunn 31. maí sl., svo sem hann hefur haldið fram. Samkvæmt því og öðru framangreindu kom beiðni sóknaraðila um endurupptöku því fram innan þess frests sem í 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 greinir.
Fyrir liggur samkvæmt áðursögðu að stefna í einkamáli nr. E-592/2015 var birt á lögheimili sóknaraðila föstudaginn 29. maí 2015, kl. 18:00, fyrir Helgu Snorradóttur sem hittist þar fyrir. Birting stefnu með þeim hætti samrýmdist ákvæði a-liðar 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 513/2011. Verður því ekki fallist á endurupptökubeiðni sóknaraðila á grundvelli a- liðar 137. gr. laga nr. 91/1991.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga er markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Samningur sóknaraðila, dagsettur 25. júní 2014, til greiðsluaðlögunar samkvæmt ákvæðum laga nr. 101/2010 var í samræmi við þetta markmið laganna. Ekki verður séð að með samningnum hafi lánardrottnar sóknaraðila öðlast frekari rétt á hendur honum en þeir áttu fyrir gerð samningsins.
Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga getur lánardrottinn haft uppi kröfu um riftun eða ógildingu samnings um greiðsluaðlögun fyrir dómi í einkamáli á hendur skuldaranum. Af orðalagi ákvæðisins verður ekki ráðið að aðrir samningsaðilar en skuldarinn og sá lánardrottinn sem höfðar mál til ógildingar á samningi um greiðsluaðlögun þurfi að eiga aðild að því. Samkvæmt því og að framangreindu gættu var varnaraðila rétt að stefna sóknaraðila einum í máli því sem hann höfðaði til ógildingar á samningi sóknaraðila til greiðsluaðlögunar. Af þeirri niðurstöðu leiðir að ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 á hér ekki við. Voru samkvæmt öllu þessu engin efni til þess að vísa kröfum á hendur sóknaraðila í einkamálinu frá dómi að hluta til eða að öllu leyti. Skilyrði b-liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 eru því ekki uppfyllt í málinu.
Með vísan til þess sem að framan greinir er hafnað beiðni sóknaraðila um endurupptöku einkamáls nr. E-592/2015.
Eftir úrslitum málsins verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem hæfilega þykir ákveðinn, svo sem í úrskurðarorði greinir.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Beiðni sóknaraðila, Davíðs Elds Baldurssonar, um að málið nr. E-592/2015, verði endurupptekið, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Íbúðarlánasjóði, 100.000 krónur í málskostnað.