Hæstiréttur íslands

Mál nr. 233/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Endurupptaka
  • Gjaldþrotaskipti


                                     

Mánudaginn 7. maí 2012.

Nr. 233/2012.

Unnarstígur 8 ehf.

(Jón Gunnar Zoega hrl.)

gegn

tollstjóra

(enginn)

Kærumál. Endurupptaka. Gjaldþrotaskipti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var endurupptöku á máli þar sem U ehf. var úrskurðað gjaldþrota. Beiðni U ehf. var ekki talin uppfylla kröfur 2. málsliðar 1. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst héraðsdómi 4. apríl 2012 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2012 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um endurupptöku á máli, sem lauk með úrskurði 26. október 2011 um að bú hans væri tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og krafa hans um endurupptöku tekin til greina.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með beiðni 16. ágúst 2011 krafðist varnaraðili þess að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Var beiðnin reist á því að sóknaraðili ætti ógreidd opinber gjöld en árangurslaust fjárnám hefði verið gert hjá honum 25. maí 2011. Krafan ásamt fyrirkalli til sóknaraðila var birt 27. september sama ár fyrir nafngreindum manni sem sagt var í birtingarvottorði að hist hefði fyrir á heimili fyrirsvarsmanns sóknaraðili. Krafan var tekin fyrir á dómþingi 12. október 2011 og var þá ekki sótt þing af hálfu sóknaraðila. Eins og áður greinir var bú sóknaraðila tekið til skipta með úrskurði 26. sama mánaðar. Með beiðni sóknaraðila, sem barst héraðsdómi 14. febrúar 2012, var þess krafist að málið yrði endurupptekið, en kröfunni var hafnað með hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal meðal annars í beiðni um endurupptöku skýrlega greint frá því á hvaða málsástæðum, réttarheimildum og sönnunargögnum beiðnin sé reist, svo og hvenær og hvernig beiðanda varð kunnugt um málsúrslit. Ef endurupptöku er leitað eftir 2. mgr. 137. gr. laganna skal að auki rökstutt að fullnægt sé einhverju af þeim skilyrðum sem koma fram í ákvæðinu.

Sóknaraðili reisir beiðni sína um endurupptöku á því að fyrirkall á hendur honum hafi ekki verið birt fyrir þeim sem birta mátti fyrir. Því sé fullnægt skilyrðum a. liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991. Í beiðni sóknaraðila segir að fyrirsvarsmaður sóknaraðila hafi sett sig í samband við skiptastjóra, þegar hann fékk vitneskju um gjaldþrotaskiptin, til að fá þau felld niður, en sú viðleitni hafi engan árangur borið. Þá er aðeins tekið fram að fyrirsvarsmaðurinn hafi ekki fengið vitneskju um skiptin „fyrr en nú nýlega“. Með þessu móti hefur sóknaraðili ekki tilgreint nægjanlega hvenær og hvernig honum barst vitneskja um úrskurð um skiptin þannig að mat verði lagt á hvort fullnægt sé því skilyrði 2. mgr. 137. gr. laganna að beiðni um endurupptöku hafi borist innan mánaðar frá því beiðanda urðu málsúrslit kunn. Jafnframt er í engu getið hvaða vörnum sóknaraðili telur sig hafa getað teflt fram gegn því að búið yrði tekið til skipta. Samkvæmt þessu er beiðni sóknaraðila ófullnægjandi og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2012.

Að kröfu sóknaraðila, Tollstjóraembættisins, kt. 650269-7649, Tryggvagötu 19, Reykjavík, var bú varnaraðila, Unnarstígs 8 ehf., kt. 501207-1950, Suðurlands­braut 6, Reykjavík, tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 26. október 2011.  Með bréfi sem barst dóminum 14. febrúar 2012 krafðist varnaraðili endur­upptöku málsins og að úrskurður um gjaldþrotaskipti yrði felldur úr gildi. 

Varnaraðili krefst þess aðallega að beiðni um endurupptöku verði vísað frá dómi, til vara að henni verði hafnað. 

Málið var tekið til úrskurðar 14. mars sl. 

Krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila var tekin fyrir á dóm­þingi 12. október 2011 og var þá ekki sótt þing af hálfu varnaraðila.  Varnaraðili mót­mælir því að birting hafi verið réttmæt, birtingunni hafi verið haldið frá honum vís­vitandi.  Stefnuvottur hafi birt boðunina fyrir öðrum stefnuvotti, sem auk þess sé sonur hans.  Birtingin uppfylli ekki skilyrði laga nr. 91/1991.  Vísar hann til 3. mgr. 82. gr. og 83. gr. laganna.  Þá segir varnaraðili að það sé rangt í vottorðinu að viðkomandi hafi hist fyrir á staðnum, hann hafi farið með stefnuvottinum á birtingarstað. 

Varnaraðili kveðst hafa sett sig í samband við skiptastjóra þegar hann fékk vit­neskju um gjaldþrotaskiptin og reynt árangurslaust að fá málið leiðrétt.  Hann telur skilyrði 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 vera uppfyllt. 

Varnaraðili segir að svo gróft brot hafi verið framið á lögmætum réttindum sínum að heimilt sé að taka málið upp að nýju.  Sér sé ómögulegt að gæta réttinda sinna með öðrum hætti, en engar forsendur hafi verið til þess að kveða upp gjaldþrota­úrskurð. 

Sóknaraðili segir að varnaraðili skýri ekki frá þeim dagsetningum sem miða verði við þegar metið sé hvort skilyrði 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt. 

Þá segir sóknaraðili að skiptum á búinu sé lokið.  Því verði að líta til ákvæða 163. og 164. gr., sbr. 1. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991.  Af þeim ákvæðum leiði að ekki séu skilyrði til að taka skiptin upp að nýju. 

Þá telur sóknaraðili að varnaraðili hafi ekki reifað hvaða varnir hann geti haft uppi og sem hefðu leitt til þess að kröfunni hefði borið að hafna 26. október 2011. 

Niðurstaða

Í beiðni varnaraðila um endurupptöku skortir upplýsingar um ýmis atriði sem nauðsynlegt er að upplýst séu.  Hann segir t.a.m. ekki hvenær honum varð kunnugt um úrskurð um gjaldþrotaskipti. 

Varnaraðili fullyrðir að stefnuvottur hafi tekið son sinn með sér til að birta fyrir honum boðun til fyrirtöku gjaldþrotabeiðni.  Þessi fullyrðing er ekki studd frekari gögnum en tilvísun til nafna stefnuvotts og þess sem birt var fyrir.  Þá er ósannað að viðkomandi hafi ekki hist fyrir að Suðurlandsbraut 6, eins og vottorðið segir.  Að þessu virtu er ósannað að birting boðunar hafi ekki farið réttilega fram. 

Varnaraðili hefur ekki sýnt hvaða varnir hann vill hafa uppi og hefðu komið í veg fyrir að beiðni um gjaldþrotaskipti yrði tekin til greina.  Að þessu virtu verður að hafna beiðni um endurupptöku máls þessa. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni varnaraðila, Unnarstígs 8 ehf., kt. 501207-1950, um endurupptöku málsins nr. G-1166/2011, er hafnað.