Hæstiréttur íslands

Mál nr. 383/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Réttindaröð
  • Innstæða


                                              

Miðvikudaginn 19. júní 2013.

Nr. 383/2013.

Conseq Invest plc.

Conseq Investment Management AS

CVI GVF (Lux) Master S.a.r.l.

Fondo Latinoamericano de Resevas

LMN Finance Ltd.

Ohio National Life Assurance Corporation

rde Fund LP

rde Fund V-B LP

rde Fund VI-A LP

rde Fund VII-B LP

Therde Fund VIII LP

Therde Fund IX LP/Therde Fund IX-A LP

rde Investment Partners LP

rde Investment Partners (Offshore) Master LP

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Morgan Stanley Senior Funding Inc.

(Heiðar Ásberg Atlason)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Réttindaröð. Innstæða.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem staðfest var sú ákvörðun slitastjórnar L hf. að viðurkenna við slit félagsins kröfu M með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafan var reist á fé sem C hafði lagt inn í L hf. en krafan hafði verið framseld til M eftir að henni var lýst við slitameðferðina. Með vísan til fyrri dóma Hæstaréttar og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins var talið ótvírætt að umrætt fé teldist vera í innstæða í skilningi 1. málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta en ekki var talið skipta máli að C hefði verið lánastofnun. Þá var C ekki talið vera aðildarfélag í skilningi 3. gr. og 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og var C ekki undanskilið tryggingarvernd af þeim sökum. Með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtækja nyti krafan því forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit L hf. og var ekki fallist á sjónarmið M þess efnis að sá forgangur bryti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2013, þar sem staðfest var ákvörðun slitastjórnar LBI hf. um að viðurkenna við slit félagsins kröfu varnaraðila að fjárhæð 3.851.216.876 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðilar krefjast þess að hafnað verði að krafa varnaraðila standi í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit LBI hf. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila óskipt kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Conseq Invest plc., Conseq Investment Management AS, CVI GVF (Lux) Master S.a.r.l., Fondo Latinoamericano de Resevas, LMN Finance Ltd., Ohio National Life Assurance Corporation, Värde Fund LP, Värde Fund V-B LP, Värde Fund VI-A LP, Värde Fund VII-B LP, Therde Fund VIII LP, Therde Fund IX LP/Therde Fund IX-A LP, Värde Investment Partners LP, Värde Investment Partners (Offshore) Master LP, greiði óskipt varnaraðila, Morgan Stanley Senior Funding Inc., 750.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2013.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 16. apríl sl., var þingfest 24. maí 2012.

Sóknaraðilar eru Conseq Invest plc., Fitzwilton House, Wilton Place, Dublin, Írlandi, auk annarra þeirra kröfu­hafa sem tilgreindir eru að ofan sem umbjóðendur Kára Hólmars Ragnarssonar hdl., og Bayerische Landesbank, Brienner Straβe 18, München, Þýskalandi, auk annarra þeirra kröfu­hafa sem tilgreindir eru að ofan sem umbjóðendur Fanneyjar Hrundar Hilmarsdóttur hdl.

Varnaraðili er Morgan Stanley Senior Funding Inc., 1585 Broadway, New York, Bandaríkjunum.    

Sóknaraðilar krefjast þess að kröfu varnaraðila nr. 200910-1202 á kröfuskrá LBI hf. verði hafnað sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð LBI hf. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar ásamt álagi vegna virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess að staðfest verði sú ákvörðun slitastjórnar LBI hf. að krafa varnaraðila í slitabú LBI hf., númer 755 í kröfuskrá, að fjárhæð 3.851.216.876 kr. og að jafnvirði 20.154.997,26 sterlingspunda, skuli hafa stöðu forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, við slitameðferð LBI hf. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar auk virðisaukaskatts að viðbættu álagi á málskostnað samkvæmt 1. og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991.   

Málsatvik

Í málinu deila aðilar um hvort krafa varnaraðila við slitameðferð LBI hf. sé forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ágreiningurinn lýtur að stöðu kröfunnar með tilliti til laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta en samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 44/2009, skulu kröfur um innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 teljast til krafna sem njóta rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. og 6. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

Hinn 26. ágúst 2008 komst á samningur um að Chelsea Building Society legði 10.000.000 sterlingspunda inn á reikning hjá útibúi Landsbanka Íslands hf., nú LBI hf., í London. Í tilefni þessara viðskipta gaf útibú bankans út svokallaða staðfestingu á innláni (deposit confirmation) til Chelsea Building Society. Hún er ódagsett, en þar segir að bankinn staðfesti móttöku innláns félagsins. Þá segir að samningsdagur (contract date) sé 26. ágúst 2008, reikningur sé nr. 20000332 og númer viðskipta (deal number) sé 584425. Innlánsfjárhæð (deposit) frá 26. ágúst 2008 til 13. október 2008 sé 10.000.000 sterlingspunda, vextir (interest) séu 5,52% ársvextir í 48 daga og fjárhæð til greiðslu á gjalddaga (balance due on maturity) sé 10.072.591,78 sterlingspund. Annar og sams konar samningur komst á milli sömu aðila fyrir milligöngu miðlara þann 5. september 2008. Í staðfestingu Landsbanka Íslands hf. vegna þeirra viðskipta (deposit confirmation) segir að bankinn staðfesti móttöku innláns Chelsea Building Society. Þá segir að samningsdagur (contract date) sé 5. september 2008, reikningur sé nr. 20000332 og númer viðskipta (deal number) sé 586565. Innlánsfjárhæð (deposit) frá 5. september 2008 til 29. október 2008 sé 10.000.000 sterlingspunda, vextir (interest) séu 5,57% ársvextir í 54 daga og fjárhæð til greiðslu á gjalddaga (balance due on maturity) sé 10.082.405,48 sterlingspund. Chelsea Building Society er breskt byggingafélag (building society), en það félagaform á sér ekki beina samsvörun hér á landi. Óumdeilt er að félagið hafði starfsleyfi sem lánastofnun árið 2008 og tók við innstæðum frá almenningi sem féllu undir tryggingakerfi innstæðueigenda í Bretlandi.

Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., nú LBI hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd á grundvelli 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Með gildistöku laga nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002, var bankinn síðan tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Hinn 29. apríl 2009 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn yfir bankann sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur honum. Gaf hún út innköllun til skuldheimtumanna 30. apríl 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 30. október 2009.

Með kröfulýsingu, sem móttekin var af slitastjórn þann 22. október 2009, lýsti Chelsea Building Society kröfu að fjárhæð 20.000.000 sterlingspunda við slitameðferðina, auk vaxta og kostnaðar. Var kröfunni lýst sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Slitastjórn samþykkti kröfuna með breytingum. Höfuðstóll kröfunnar, 20.000.000 sterlingspunda, var samþykktur að öllu leyti sem forgangskrafa á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991, en breyting var gerð á vöxtum.

Chelsea Building Society lagði fram mótmæli gegn afstöðu slitastjórnar, sem lutu að vöxtum, en af hálfu sóknaraðila, sem lýstu almennum kröfum samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferðina, var viðurkenningu slitastjórnar á því að krafa Chelsea Building Society nyti forgangs samkvæmt 112. gr. sömu laga mótmælt. Chelsea Building Society og aðrir þeir sem mótmælt höfðu afstöðu slitastjórnar til krafnanna voru boðaðir til sérstaks fundar til að jafna ágreining þann 29. mars 2010. Ekki tókst að leysa úr ágreiningi um kröfuna á fundinum. Chelsea Building Society framseldi kröfuna í kjölfarið til varnaraðila og staðfesti slitastjórn framsalið þann 12. nóvember 2010. Þann 1. mars 2012 var haldinn fundur vegna ágreinings um kröfuna. Af hálfu varnaraðila og sóknaraðila voru fyrri mótmæli ítrekuð og þar sem ekki tókst að leysa ágreining um kröfuna ákvað slitastjórn að beina ágreiningsefninu til Héraðsdóms Reykjavíkur, sem gert var með bréfi, dags. 2. maí 2012, og vísað til 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Upphaflega átti Landsbanki Íslands hf., nú LBI hf., aðild að málinu til varnar en undir rekstri málsins komust slitastjórn og varnaraðili að samkomulagi um fjárhæð hinnar samþykktu kröfu og lauk aðild LBI hf. að málinu í kjölfarið.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila Conseq Invest plc. o.fl.

Sóknaraðilarnir Conseq Invest plc. o.fl. vísa til þess að málið varði fjárfestingarviðskipti milli Landsbanka Íslands hf. og Chelsea Building Society, sem sé bresk lánastofnun er taki við innlánum frá almenningi. Hún hafi starfsleyfi þar að lútandi frá breska fjármálaeftirlitinu og falli undir hið breska tryggingakerfi innstæðueigenda. Krafa varnaraðila eigi rætur sínar í þessum viðskiptum og hafi verið framseld honum. Krafan sé annars eðlis en þær kröfur sveitarfélaga og opinbers háskóla sem Hæstiréttur hafi nýlega talið til forgangskrafna, sbr. dóma Hæstaréttar 28. október 2011, m.a. í máli nr. 311/2011. Hæstiréttur hafi síðar staðfest þessa ályktun með því að óska eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um eðli sérstaklega umsaminna fjárfestingarviðskipta milli tveggja fjármálafyrirtækja, sbr. úrskurð Hæstaréttar 15. desember 2011 í máli nr. 169/2011. Dómar Hæstaréttar frá 28. október 2011 geti ekki haft fordæmisgildi í þessu máli.

Sóknaraðilar byggja á því að ekki sé nauðsynlegt að kanna til hlítar hið rétta eðli viðskiptanna þar sem ljóst sé að kröfur varnaraðila séu beinlínis undanskildar tryggingavernd samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Sér í lagi sé á því byggt að:

1)                  gagnaðili Landsbankans í viðskiptunum hafi verið lánastofnun sem taki sjálf við innlánum frá almenningi og af þeirri ástæðu geti fjárfestingar varnaraðila ekki talist tryggðar innstæður (og varnaraðili hafi sönnunarbyrði um að slík trygging sé fyrir hendi) og/eða:

2)                  kröfur varnaraðila teljist vera í formi verðbréfs og séu því undanskildar í innstæðuskilgreiningu laga nr. 98/1999.

Varðandi hið fyrrnefnda vísa sóknaraðilar til þess að Chelsea Building Society sé lánastofnun sem taki við innlánum, með höfuðstöðvar innan Evrópska efnahagssvæðisins, og krafan tengist ætluðum innstæðum hjá Landsbankanum fyrir eigin reikning félagsins. Þegar af þessari ástæðu séu þau viðskipti sem krafan byggi á ekki til þess fallin að njóta verndar samkvæmt lögum nr. 98/1999. Sóknaraðilar byggja á ákvæði 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um að undanskilin tryggingu séu „innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja, svo og móður- og dótturfyrirtækja þeirra, fyrir þeirra eigin reikning“. Hvað varðar umfang umræddrar undantekningar byggja sóknaraðilar á því að í athugasemdum með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 98/1999 sé staðfest að hugtakið aðildarfyrirtæki í 6. mgr. 9. gr. nái „ekki einungis til viðskiptabanka og sparisjóða heldur einnig til annarra lánastofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu“. Því verði að telja undanþáguna taka til allra tegunda fjármálastofnana. Þá byggja sóknaraðilar á því að ákvæði 6. mgr. 9. gr. laganna verði að túlka í samræmi við tilskipun 94/19/EB en samkvæmt 2. gr. tilskipunarinnar verði aðildarríki að undanskilja allar innstæður lánastofnana frá vernd innstæðutryggingarsjóða. Undanþágan í 2. gr. sé samkvæmt orðanna hljóðan skyldubundin og aðildarríkjunum ekki heimilt að veita slíkum kröfum tryggingavernd, ólíkt valkvæðu undanþágunum í viðauka I. Sóknaraðilar vísa einnig til skilgreiningar á hugtakinu lánastofnun í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB, sem sé sambærileg skilgreiningu tilskipunar 2006/48/EB. Þá byggja sóknaraðilar á því að allar lánastofnanir sem taka við innlánum innan Evrópska efnahagssvæðisins verði að eiga aðild að tryggingarsjóðum innstæðueigenda. Því verði að túlka tilvísun laga nr. 98/1999 til aðildarfyrirtækja sem tilvísun til allra lánastofnana. Sóknaraðilar vísa til dóms Hæstaréttar 2. júní 2010 í máli nr. 184/2010 og taka fram að í ljósi áhrifa tilskipunar 94/19/EB og hæstaréttardómsins, útiloki sú staðreynd að kröfuhafinn sé lánastofnun og aðili að innstæðutryggingakerfi, líkt og Landsbankinn, alla möguleika á því að kröfu hans verði veittur forgangur. 

Um það að krafan sé undanskilin tryggingavernd sem verðbréf vísa sóknaraðilar til þess að í innstæðuskilgreiningu laga nr. 98/1999 komi fram að trygging laganna nái ekki til „skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa“. Telja sóknaraðilar að fjárfesting Chelsea Building Society hafi verið „í formi verðbréfa“ í þessum skilningi. Lagaleg skilgreining á verðbréfum í íslenskum rétti sé í raun innleiðing á skilgreiningu á framseljanlegum verðbréfum í tilskipun 2004/39/EB. Þannig séu skilyrði þess að um verðbréf sé að ræða m.a. að krafan sé framseljanleg og að hægt sé að eiga viðskipti með þau á fjármagnsmarkaði. Hins vegar sé engin krafa gerð um sérstakt form svo að um verðbréf sé að ræða. Almennt sé litið svo á samkvæmt tilskipun 2004/39/EB að fullnægjandi sé að hægt sé að framselja gerninginn, þ.e. ekki þurfi að sýna fram á að slíkt hafi verið gert. Þá sé hugmyndin um að hægt sé að eiga viðskipti með gerninginn á fjármagnsmarkaði afar rúm og hvorki sé nauðsynlegt að sýna fram á að eiginleg viðskipti hafi farið fram á formlegum markaði sem lúti eftirliti né á formlegu markaðstorgi fjármálagerninga. Ljóst sé að bæði Chelsea Building Society og Landsbankinn séu virkir á fjármagnsmörkuðum, og hafi einmitt samið um viðskiptin á fjármagnsmarkaði, og ekkert bendi til þess að fjárfestingin hafi verið óframseljanleg. Við munnlegan málflutning lagði lögmaður sóknaraðila áherslu á dóm Hæstaréttar 22. mars 2013 í máli nr. 722/2012, sem væri ráðandi fordæmi um hugtakið verðbréf.

Hvað sem líður ákvæðum um undantekningar frá tryggingavernd telja sóknaraðilar að kröfur varnaraðila geti ekki réttilega talist innstæður. Eðli gagnaðila viðskiptanna bendi til þess að viðskiptin séu sambærileg viðskiptum sem Fjármálaeftirlitið hafi hafnað að séu innstæður. Þótt slitastjórn hafi kallað kröfur varnaraðila „heildsöluinnlán“ leiði eðli varnaraðila sjálfs og viðskiptanna til þess að kröfurnar séu sambærilegar þeim sem nefndar hafi verið „peningamarkaðsviðskipti/lán“ í slitameðferðum gömlu bankanna, þar sem gagnaðili viðskiptanna sé fjármálafyrirtæki. Slitastjórnir Glitnis og Kaupþings, svo og Fjármálaeftirlitið og Héraðsdómur Reykjavíkur, hafi hafnað því að slíkar kröfur séu innstæður. Sóknaraðilar taka m.a. fram að heitin „peningamarkaðsinnlán“ eða „heildsöluinnlán“ hafi ekki lagalega merkingu, þau séu hvergi skilgreind í lögum eða dómaframkvæmd og notkun þessara hugtaka hafi því ekki þýðingu við úrlausn málsins.

Sóknaraðilar vísa m.a. til þess að sú lagalega skilgreining sem um sé deilt í málinu komi fram í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, sem byggð sé á tilskipun 94/19/EB. Hæstiréttur hafi staðfest að skilgreiningin á innstæðum í lögum nr. 98/1999 sé byggð á og verði að túlka í samræmi við tilskipunina. Sóknaraðilar telja að túlkun á skilgreiningunni geti ekki farið fram í algjöru tómarúmi, þar sem skilgreiningin innihaldi hringvísun, auk þess sem merking tiltekinna þátta í skilgreiningunni sé óljós. Sóknaraðilar byggja á því að viðskipti bankastofnana á millibankamarkaði eða peningamarkaði geti með engu móti talist „hefðbundin almenn bankaviðskipti“. Unnt sé að beita textaskýringu á innstæðuskilgreininguna til þess að komast að rökréttum skilningi á því hvað aðskilji innstæður frá öðrum kröfum. Þar sé einkum átt við að túlka verði tilvísun til „innláns“ eða „credit balance“ í samhengi við orðalagið „funds left in account“ í tilskipuninni. Tilvist bankareiknings í nafni innstæðueigandans sé þannig eitt af þeim atriðum sem einkenni innstæður. Þessi afstaða styrkist enn fremur sé litið til markmiðsskýringar.

Fremur en að beita einhvers konar bókstafsskýringu telja sóknaraðilar rétt að beita markmiðsskýringu við túlkun á innstæðuskilgreiningunni. Þannig verði að líta til tilgangs og markmiðs laga nr. 125/2008, laga nr. 98/1999 og tilskipunar 94/19/EB, og túlka skilgreininguna með þeim hætti að þeim grunntilgangi löggjafans, að aðgreina innstæður frá öðrum kröfum á hendur banka, verði náð. Markmið tilskipunarinnar hafi samkvæmt inngangsorðum hennar verið að tryggja neytendavernd og tryggja stöðu einstaklinga og lítilla fyrirtækja. Með hliðsjón af þessum markmiðum fái ekki staðist að hinum íslenskum lögum sé ætlað að vernda sérstaklega umsamin fjárfestingarviðskipti fjármálafyrirtækja og einkafyrirtækja sem teljist fagfjárfestar. Markmið laga nr. 125/2008 hafi ekki heldur verið að veita slíkum fjárfestum vernd, heldur miklu fremur að vernda bankakerfið og koma í veg fyrir tafarlaust hrun hagkerfisins, einkum með því að leitast við að koma í veg fyrir „bankaáhlaup“. Því sé ljóst að forgangi innstæðna hafi verið ætlað að vera vernd fyrir „sparifjáreigendur“ og þá einstaklinga og fyrirtæki sem höfðu, og þurftu að hafa, aðgang að fjármunum á bankareikningum sínum. Chelsea Bulding Society hafi augljóslega ekki verið sparifjáreigandi í neinum skilningi, ekki átt bankareikning og ekki haft aðgang að fjármunum hjá Landsbankanum fyrr en á fyrir fram umsömdum gjalddaga lánsins. Félagið hafi því alls ekki getað tekið peninga sína út og þannig gert „áhlaup“ á bankann. Varnaraðili hafi enga vernd þurft frá ríkinu.

Sóknaraðilar telja óumdeilt að ekki séu allar kröfur á hendur bönkum innstæður og að heiti samnings ráði ekki úrslitum um hvert sé eðli hans. Hinni lagalegu skilgreiningu á innstæðum sé ætlað að aðgreina innstæður frá öðrum kröfum. Þetta verði einungis gert með því að benda á þá þætti innstæðna sem séu ólíkir öðrum kröfum á hendur bönkum. Sóknaraðilar telja að meðal grundvallareinkenna sem almennt eigi við um innstæður séu: a) að um sé að ræða peningaupphæð sem innstæðueigandinn greiði til banka til geymslu og/eða til þess að nýta sér greiðsluþjónustu og almenna bankaþjónustu, b) féð sé geymt á sérstökum bankareikningi sem opnaður sé í nafni innstæðueigandans, c) innstæða sé venjulega aðgengileg innstæðueigandanum þegar hann óski, d) greiðslustaður innstæðu sé hjá skuldaranum, þ.e. hjá bankanum, e) um innstæðuna gildi staðlaðir skilmálar sem samdir séu einhliða af bankanum og þessum skilmálum kunni bankinn að breyta með tilkynningu til innstæðueigenda. Sóknaraðilar telja ekkert þessara einkenna eiga við um hinar umdeildu kröfur varnaraðila. Þá leggja sóknaraðilar áherslu á að eðli kröfuhafans sem stundaði viðskiptin hafi veruleg áhrif.

Jafnvel þótt dómstólar fallist ekki á að kröfur varnaraðila séu beinlínis undanskildar tryggingavernd eða að þær geti ekki talist innstæður vegna eðlis varnaraðila, telja sóknaraðilar þrátt fyrir það að ekki sé um innstæður að ræða, að teknu tilliti til heildstæðs mats á einkennum viðskiptanna, samanborið við eðli innstæðna. Vísa sóknaraðilar að þessu leyti til atriða er snerta lánveitandann, markmið viðskiptanna, aðkomu peningamarkaðsmiðlara, að um einstaklega umsamin viðskipti hafi verið að ræða, að engin gögn bendi til þess að Chelsea Building Sociey hafi átt bankareikning hjá Landsbankanum vegna viðskiptanna, auk þess sem sóknaraðilar vísa til bókhaldslegrar meðferðar/flokkunar viðskiptanna og greiðslustaðar. Þá kveða sóknaraðilar það hvíla á varnaraðila að sýna fram á að krafa hans geti talist innstæða þrátt fyrir allt framangreint og leggja fram gögn því til sönnunar.

Sóknaraðilar fallast ekki á þá niðurstöðu Hæstaréttar að lög nr. 125/2008 standist. Hvað sem því líður eigi dómstólar að túlka lögin eins þröngt og mögulegt sé. Kæmust dómstólar að þeirri niðurstöðu að fjárfestingar varnaraðila væru innstæður fæli sú afstaða í sér rýmkun á gildissviði innstæðuforgangsins, sem myndi eitt og sér leiða til þess að lögin stæðust ekki stjórnarskrá og mannréttindasáttmála, einkum reglur um meðalhóf.

Sóknaraðilar vísa m.a. til laga nr. 125/2008, laga nr. 44/2009, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, laga nr. 130/2004, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Sóknaraðilar vísa einnig til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sérstaklega 65. og 72. gr. og meginreglna í stjórnskipunarrétti, mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 10/1979, meginreglna að þjóðarétti og íslenskum rétti hvað varðar neyðarrétt, laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, tilskipunar 2001/24/EB og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um málskostnað styðja sóknaraðilar við XXI. kafla laga nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaksatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988, en þeir séu ekki virðisaukaskattskyldir hér á landi og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi varnaraðila. 

Málsástæður og lagarök sóknaraðila Bayerische Landesbank o.fl.

Í greinargerð sóknaraðilanna Bayerische Landesbank o.fl. er tekið fram að þar séu einungis helstu málsástæður þeirra nefndar en að öðru leyti sé vísað til málatilbúnaðar annarra sóknaraðila og tekið að öllu leyti undir sjónarmið þeirra. 

Í greinargerðinni er vísað til þess að Chelsea Building Society sé lánastofnun í skilningi Evrópuréttar og hafi starfsleyfi frá breska fjármálaeftirlitinu, m.a. til að taka við innlánum frá almenningi. Sem lánastofnun sé félaginu skylt að enskum rétti og Evrópurétti að vera aðili að tryggingakerfi innstæðna og innstæður viðskiptavina þess séu tryggðar af breska tryggingakerfinu. Sóknaraðilar byggja á því að lánastofnanir geti ekki átt tryggðar innstæður og því geti kröfur slíkra stofnana ekki notið forgangsréttar. Samkvæmt 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 séu „aðildarfyrirtæki“ undanskilin tryggingavernd. Aðildarfyrirtæki merki hér fjármálafyrirtæki sem sé aðili að tryggingakerfi innstæðueigenda. Sóknaraðilar telja ljóst að ákvæði þetta feli í sér innleiðingu á hinni skyldubundnu undanþágu frá tryggingavernd sem fram komi í 2. gr. tilskipunar 94/19/EB. Af ákvæðinu megi vera ljóst að ríkjum sé skylt að undanþiggja innstæður lánastofnana fyrir eigin reikning frá tryggingavernd. Með öðrum orðum sé ríkjum óheimilt að veita innstæðum lánastofnana slíka vernd. Önnur niðurstaða um túlkun á 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 myndi því leiða til grímulauss brots á EES-rétti. Sú niðurstaða fái ekki staðist enda sé annar skýringarkostur tækur.

Sóknaraðilar taka fram að lánastofnunum innan Evrópska efnahagssvæðisins sé skylt að vera aðilar að innstæðutryggingakerfum. Þannig jafngildi tilvísun tilskipunarinnar til lánastofnana því að vísað væri til aðildarfyrirtækja í þeim skilningi sem sóknaraðilar telji að sé réttur. Þetta sé eðlileg og sanngjörn regla, enda verði ekki séð að rök standi til þess að kröfur banka á aðra banka séu tryggðar með sama hætti og kröfur innstæðueigenda. Trygging slíkra krafna myndi enda gera virkni tryggingakerfanna nánast ómögulega, enda geti viðskipti á millibankamarkaði hljóðað upp á gríðarlegar upphæðir og slík trygging myndi snögglega klára allt fé sem væri til reiðu í innstæðutryggingakerfum. Sé á hinn bóginn miðað við lágmarkstryggingu innstæðna samkvæmt tilskipuninni og íslenskum lögum, þ.e. 20.000 evrur, sé jafnframt ljóst að sú fjárhæð hafi ekkert vægi sem trygging á millibankaviðskiptum, vegna þess hversu háar fjárhæðir séu þar á ferðinni. Þar sem Chelsea Building Society sé lánastofnun og aðili að tryggingakerfi innstæðna séu kröfur varnaraðila undanskildar tryggingavernd og þar með forgangsrétti samkvæmt lögum nr. 98/1999.

Sóknaraðilar byggja á því að þótt ekki verði fallist á að varnaraðili geti ekki átt forgangskröfu vegna 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, séu hinar umdeildu kröfur ekki innstæður í þeim skilningi sem máli skipti. Þau heildsölu- eða peningamarkaðsviðskipti sem krafa varnaraðila byggi á séu í grundvallaratriðum eðlisólík innstæðum og geti því ekki talist til þeirra. Byggja sóknaraðilar að þessu leyti bæði á atriðum varðandi kröfuna sjálfa og tilurð hennar, t.d. á því að samningurinn hafi orðið til á heildsölufjármagnsmarkaði, samið hafi verið sérstaklega um skilmála viðskiptanna og að enginn bankareikningur hafi verið stofnaður. Sóknaraðilar byggja jafnframt á tilgangi viðskiptanna og formi þeirra, sem líkist í öllum meginatriðum lánssamningum eða öðrum fjárfestingum, frekar en innstæðum. Þá byggja sóknaraðilar á því að líta verði til aðila viðskiptanna við heildstætt mat á eðli þeirra. Sóknaraðilar taka einnig fram að m.a. vegna þess að hér sé um að ræða eins konar millibankaviðskipti, geti dómar Hæstaréttar frá 28. október 2011 ekki skorið úr því hvort krafa varnaraðila teljist innstæða í þeim skilningi sem máli skipti.  

Í nánari umfjöllun um framangreind atriði segir m.a. í greinargerð sóknaraðila að umrædd viðskipti hafi þjónað þeim tilgangi að vera skammtímafjárfesting fyrir kröfuhafann, fremur en leið til þess að varðveita handbært fé, að þau kjör sem varnaraðila buðust hafi ekki verið í boði fyrir hinn almenna inlánseiganda og að varnaraðili og fyrirrennari hans séu sérfræðingar og fagfjárfestar í gjörólíkri stöðu en hefðbundnir innlánseigendur. Sóknaraðilar vísa einnig m.a. til þess að greiðslustaður kröfunnar hafi verið hjá kröfuhafa, sem samrýmist ekki innlánsviðskiptum, og að ekki hafi verið sýnt fram á að Landsbankinn hafi greitt tryggingagjöld til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda í tengslum við viðskipti af þessu tagi né að viðskiptin hafi verið flokkuð sem innstæður af hálfu bankans. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að fjármunirnir hafi verið geymdir á bankareikningi í eigu kröfuhafans, en krafa um sérgreindan reikning komi skýrt fram í frumtexta tilskipunar 94/19/EB og komi einnig fram í öðrum ákvæðum íslenskra laga, t.d. 4. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þá hafi innstæður ekki fyrir fram ákveðinn gjalddaga heldur séu fjármunirnir einfaldlega til reiðu fyrir innstæðueigandann.

Sóknaraðilar vísa til þess orðalags 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, að innstæða verði til „í hefðbundinni almennri bankastarfsemi“, og byggja á því að orðalagið vísi einungis eða einkum til millifærslu. Sé þörf á að meta hvort viðskiptin sjálf hafi verið hluti af heðbundinni almennri bankastarfsemi byggja sóknaraðilar á því að með orðalaginu sé átt við hefðbundin innlánsviðskipti, en hér hafi ekki verið um slík viðskipti að ræða. Um „almenna“ starfsemi hafi ekki verið að ræða heldur millibankaviðskipti. Lánastarfsemi banka, þ.e. sú starfsemi þegar banki aflar sér lánsfjár og semur um kjör lánanna við sérhvern lánveitanda, geti ekki talist hefðbundin almenn bankastarfsemi í tengslum við innstæður, svo sem ákvæði laga nr. 98/1999 geri kröfu um. Sóknaraðilar vísa til þess að lagaprófessorar hafi komist að sambærilegri niðurstöðu í álitsgerð sem fyrir liggi í málinu. Sóknaraðilar telja að sama niðurstaða leiði af markmiðsskýringu með hliðsjón af tilgangi laga nr. 98/1999, svo og með hliðsjón af lögum nr. 125/2008. Peningamarkaðsviðskipti og sambærilegir gerningar milli banka og fjárfesta geti ekki talist meðal þeirra viðskipta sem umræddum lögum hafi verið ætlað að vernda samkvæmt tilgangi þeirra. Sóknaraðilar vísa einnig til þess að dómstólum sé rétt að túlka ákvæði um forgang innstæðna þröngt m.t.t. þess að um sé að ræða undantekningarákvæði, sem feli auk þess í sér takmarkanir á stjórnarskrárbundnum réttinum.

Sóknaraðilar taka fram að Hæstiréttur hafi staðfest, í dómum um heildsöluinnlán breskra sveitarfélaga 28. október 2011, að nauðsynlegt sé að líta til þess hverjir séu aðilar málsins og hver hafi verið markmið viðskiptanna. Í því samhengi byggja sóknaraðilar enn á því að Chelsea Building Society sé lánastofnun og fjármálafyrirtæki og hafi starfsleyfi sem slíkt. Þá benda sóknaraðilar á að peningamarkaðslán/innlán fjármálafyrirtækja hafi ekki verið flutt yfir í nýju bankana við skiptingu þeirra í árslok 2008, enda hafi verið litið svo á að ekki væri um innstæður að ræða.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að krafan geti talist innstæða, og falli þannig innan lagaákvæða um forgang innstæðna, byggja sóknaraðilar á því að lagaákvæðunum verði ekki beitt, enda séu þau í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár, mannréttindasáttmála Evrópu og EES-samningsins. Þrátt fyrir dóma Hæstaréttar 28. október 2011 sé ljóst að Hæstiréttur hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort forgangur krafna á borð við kröfu varnaraðila geti staðist stjórnarskrá. Telja sóknaraðilar að forgangur kröfu varnaraðila færi út fyrir mörk hinnar stjórnskipulegu meðalhófsreglu. Þá byggja þeir á því að sönnunarbyrði um eðli kröfunnar og stöðu hennar í skuldaröð hvíli á kröfuhafanum, í fyrsta lagi vegna þess að sönnun standi honum nær, í öðru lagi á grundvelli almennra reglna um sönnunarbyrði og í þriðja lagi vegna þess að samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991, m.a. 117. gr., hvíli sú skylda á kröfuhafa að lýsa kröfu sinni með fullnægjandi hætti við slitameðferðina.

Sóknaraðilar vísa m.a. til 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu um vernd eignarréttar, og óskráðra reglna um lögmætar væntningar. Þá vísa þeir til 65. gr. stjórnarskrárinnar, 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 26. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um jafnræði, sbr. einnig 11. gr. stjórnsýslulaga og meginreglur EES-réttar, sem birtist m.a. í 4. gr. EES-samningsins, sbr. 40. gr. og ákvæði tilskipunar 2001/24/EB. Þá vísa sóknaraðilar til meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar og stjórnsýsluréttar, sbr. einnig 12. gr. stjórnsýslulaga og meðalhófsreglu EES-réttar, sbr. m.a. 45., 56. og 58. gr. EES-samningsins. Þá vísa sóknaraðilar til 15. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 4. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og til meginreglna þjóðaréttar og íslensks réttar um neyðarrrétt. Sóknaraðilar vísa einnig til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, einkum XVII. kafla um rétthæð krafna, og ákvæða laga nr. 125/2008, 44/2009 og 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Einnig vísa þeir til laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, reglugerðar nr. 120/2000 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og tilskipunar 94/19/EB. Kröfu um málskostnað styðja sóknaraðilar við XXI. kafla laga nr. 91/1991. Um kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun vísa þeir til laga nr. 50/1998 um virðisaukaskatt og taka fram að þeir séu ekki virðisaukaskattskyldir hér á landi og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili vísar til þess að við mat á því hvort um innstæður geti verið að ræða, sem njóti forgangs, þurfi fyrst og fremst að líta til viðskipta viðkomandi aðila og því næst hvort viðkomandi aðili sé undanskilinn tryggingavernd samkvæmt lögum um innstæðutryggingar. Séu viðskiptin innan þess ramma sem lögin setji og Hæstiréttur hafi skilgreint í dómum réttarins 28. október 2011, sem varnaraðili vísar til sem „neyðarlagamálanna“, sé hafið yfir vafa að um innstæður sem njóti forgangs sé að ræða.

Varnaraðili tekur fram að að Chelsea Building Society hafi verið bresk lánastofnun. Innstæður fyrirtækisins tilheyri flokki heildsöluinnlána og séu í engu frábrugðnar þeim innlánum sem deilt hafi verið um í neyðarlagamálunum, sem Hæstiréttur hafi staðfest að njóti stöðu forgangskrafna við slit Landsbankans, sbr. dóma Hæstaréttar 28. október 2011 í málum nr. 276-277/2011, 300-301/2011, 310-314/2011 og 341/2011. Innstæður fyrirtækisins njóti því stöðu forgangskrafna.

Varnaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu sóknaraðila að hugtakið „heildsöluinnlán“ sé hvergi skilgreint í lögum eða dómaframkvæmd og hafi enga þýðingu við meðferð málsins. Við meðferð neyðarlagamálanna hafi verið byggt á nánar tiltekinni skilgreiningu sem ekki hafi verið hafnað af hálfu Hæstaréttar. Dómar Hæstaréttar staðfesti að hugtakið hafi vissulega þýðingu að því leyti að slík innlán njóti tryggingaverndar svo lengi sem eigendur þeirra séu ekki sérstaklega undanskildir tryggingavernd. Slitastjórn hafi kallað innlán varnaraðila „heildsöluinnlán“ og þau hafi enn fremur öll sömu einkenni og þau innlán sem verið hafi til umfjöllunar hjá Hæstarétti. Heiti samningsins fari þannig saman við eðli hans. 

Varnaraðili tekur fram að um skilgreininguna á innstæðu vísi 6. gr. laga nr. 125/2008, og síðar 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, til laga um innstæðutryggingar, en skilgreininguna sé nánar tiltekið að finna í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Við túlkun á hugtakinu skuli fara eftir orðalagi 3. mgr. 9. gr. Því geti eðli innstæðueiganda ekki haft nein áhrif á túlkun innstæðuhugtaksins. Þetta hafi þegar verið staðfest í dómaframkvæmd Hæstaréttar og af EFTA-dómstólnum. Hæstiréttur hafi enn fremur staðfest að eingöngu sé hægt að undanskilja þá aðila tryggingavernd sem séu berlega undanskildir samkvæmt ákvæðum laga um innstæðutryggingar. Varnaraðili tekur fram að þar sem Hæstiréttur sé nú þegar búinn að staðfesta að innlán eins og þau sem hér er deilt um falli undir framangreinda skilgreiningu, snúi ágreiningurinn í málinu raunverulega að því hvort Chelsea Building Society geti átt forgangskröfu í slitabú fjármálastofnunar eða ekki.

Varnaraðili tekur fram að skilgreiningin á innstæðu feli í sér þrjú hugtaksskilyrði sem öll séu uppfyllt í málinu. Þannig séu innstæður Chelsea Building Society í fyrsta lagi til komnar vegna innlána, eins og það hugtak hafi verið túlkað af Hæstarétti. Í öðru lagi hafi móttaka innlána Chelsea Building Society verið hluti af hefðbundinni almennri bankastarfsemi Landsbankans og í þriðja lagi hafi Landsbankanum borið að endurgreiða Chelsea Building Society innlánin samkvæmt skilmálum eða samningi. Þar sem innstæður Chelsea Building Society uppfylli öll hugtaksskilyrði laga um innstæðutryggingar, og félagið sé ekki undanskilið tryggingavernd samkvæmt ákvæðum sömu laga, sé ljóst, samkvæmt skýrum fordæmum Hæstaréttar, að innstæður þess falli undir hugtakið „innstæða“ í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga um innstæðutryggingar.

Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila þess efnis að dómar Hæstaréttar í neyðarlagamálunum hafi ekki fordæmisgildi í þessu máli. Innlán Chelsea Building Society séu heildsöluinnlán sem hafi öll sömu einkenni og heildsöluinnlánin sem deilt hafi verið um í neyðarlagamálunum og undirliggjandi skjöl og málsatvik séu í einu og öllu sambærileg. Staðfestingar Landsbankans á innstæðum Chelsea Building Society séu fullkomlega sambærilegar við staðfestingar Landsbankans á innstæðum í neyðarlagamálunum. Þá liggi sama starfsleyfi Landsbankans og sami samstarfssamningur milli Landsbankans og Heritable Bank Ltd. til grundvallar innlánum varnaraðila annars vegar og innlánum í neyðarlagamálunum hins vegar. Landsbankinn hafi greitt af slíkum innlánum til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Þá sé rangt hjá sóknaraðilum að áhersla Hæstaréttar hafi verið á aðila viðskiptanna. Áherslan hafi þvert á móti verið á einkenni viðskiptanna. Hæstiréttur hafi áréttað að aðildin skipti ekki máli nema viðkomandi aðili hafi sérstaklega verið undanskilinn tryggingu. Nú hafi Hæstiréttur jafnframt, með dómum 27. apríl 2012 í málum nr. 189/2012 og 190/2012, tekið með afgerandi hætti af skarið um að dómar Hæstaréttar 28. október 2011 í máli nr. 311/2001 og sex öðrum málum, hafi fordæmisgildi að því er varðar heildsöluinnlán eins og deilt sé um í þessu máli. Þá  sé ljóst af dómunum að engu máli skipti um forgang krafna varnaraðila hvers eðlis starfsemi Chelsea Building Society sé, til að mynda hvort um opinberan aðila eða einkafyrirtæki sé að ræða.

Varnaraðili vísar til þess að sóknaraðilar telji upp nokkur „grundvallareinkenni“ sem þeir telji að eigi almennt við um innstæður. Hæstiréttur hafi þegar hafnað öllum þessum fullyrðingum og staðfest að umrædd atriði hafi enga þýðingu við mat á því hvort um innstæðu í skilningi laga um innstæðutryggingar sé að ræða. Þá séu ótækar þær órökstuddu fullyrðingar sóknaraðila um markmið Chelsea Building Society með innlánum sínum og að um einhvers konar millibankalán eða peningamarkaðsviðskipti hafi verið að ræða, enda hafi sóknaraðilar ekki fært neinar sönnur fyrir þeim og þeim rökum sem sóknaraðilar haldi fram hafi þegar verið hafnað af Hæstarétti í neyðarlagamálunum. Það breyti ekki eðli viðskiptanna, og hafi á engan hátt í för með sér að ekki hafi verið um að ræða hefðbundna almenna bankastarfsemi, þótt gagnaðili bankans hafi verið lánastofnun. 

Varnaraðili tekur fram að sóknaraðilar leggi megináherslu á að innstæður Chelsea Building Society séu peningamarkaðslán og eigi því ekki að njóta forgangs. Í ljósi dómaframkvæmdar Hæstaréttar og sérstaklega dóms EFTA-dómstólsins 22. nóvember 2012 í máli nr. E-17/11, sé hafið yfir vafa að þessi málatilbúnaður sóknaraðila sé með öllu haldlaus, enda hafi EFTA-dómstóllinn staðfest að engu máli skipti fyrir túlkun innstæðna og mat á forgangi þeirra hvort um sé að ræða peningamarkaðslán eða heilsöluinnlán. Hvað sem því líði séu innstæður Chelsea Building Society heildsöluinnlán en ekki peningamarkaðslán. Varnaraðili kveður þær ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins, sem sóknaraðilar vísa til, enga þýðingu hafa í þessu máli, en þær takmarkist alfarið við flutning innlána til hinna nýju banka og hafi ekkert með forgang innlána að gera. Þá fari því fjarri að afstaða slitastjórna Glitnis og Kaupþings hafi eitthvert vægi í þessu máli. Röksemdum þeirra hafi þegar verið hafnað, auk þess sem þær byggi á viðskiptum sem séu ósambærileg viðskiptunum í þessu máli. Þá hafi tilvísun sóknaraðila í álitasgerð fræðimanna ekki sönnunargildi í málinu, auk þess sem hún fjalli ekki um sambærileg atriði og hér séu til úrlausnar. Varnaraðili mótmælir fullyrðingum sóknaraðila er varða bókhald Landsbankans en tekur fram að ljóst sé að bankinn hafi litið á heildsöluinnlán sem innstæður, líkt og staðfest hafi verið í neyðarlagamálunum. Þá sé ljóst að bankinn hafi greitt iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, en þetta hafi einnig verið staðfest í neyðarlagamálunum.

Vegna sjónarmiða sóknaraðila um að kröfur varnaraðila séu verðbréf og falli því utan skilgreiningarinnar á innstæðu tekur varnaraðili fram að sömu röksemdir hafi komið fram í málflutningi sóknaraðila í neyðarlagamálunum. Hæstiréttur hafi hafnað þeim og staðfest að innstæðustaðfestingarnar, sem séu að öllu leyti sambærilegar við innstæðustaðfestingar varnaraðila í þessu máli, gætu ekki talist til framseljanlegra kröfuréttinda í skilningi laga um verðbréfaviðskipti. Þannig séu slíkar kröfur ekki í formi verðbréfs í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Þær innstæðustaðfestingar sem fyrir liggi í málinu eigi ekkert skylt við verðbréf sem verslað sé með á fjármagnsmarkaði. Þetta séu einfaldlega kvittanir um millifærslu og móttöku fjármuna, sem feli ekki í sér eignarheimildir vegna innstæðnanna. Slík skjöl séu ekki framseljanlegir gerningar í eðli sínu og geti því ekki gengið kaupum og sölum á fjármagnsmarkaði, enda felist engin réttindi til innstæðunnar í eignarhaldi kvittunarinnar sem slíkrar. Slík kvittun geti því ekki talist verðbréf eins og hugtakið sé skilgreint í lögum um verðbréfaviðskipti. Sem dæmi megi nefna að ef Chelsea Building Society hefði viljað framselja innstæður sína hjá Landsbankanum til þriðja aðila hefði þurft að útbúa sérstakan og aðgreindan samning um slíkt framsal með sama hætti og einstaklingur á Íslandi hefði þurft að gera. Kröfur varnaraðila geti ekki talist verðbréf í skilningi laga um verðbréfaviðskipti, hvort sem miðað sé við eldri eða núgildandi lög.

Varnaraðili kveður þá fullyrðingu sóknaraðila ranga, að Chelsea Building Society sé sem lánastofnun undanskilin tryggingavernd samkvæmt 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Varnaraðili vísar til þess að aðildarfyrirtæki að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta séu skilgreind í 3. gr. laganna. Þar komi skýrt fram hvers konar fyrirtæki teljist til aðildarfyrirtækja og séu þar með undanskilin tryggingavernd. Samkvæmt skýru ákvæði 3. gr. sé félag á borð við Chelsea Building Society ekki aðildarfélag. Þá kveði 3. gr. jafnframt á um að aðildarfyrirtæki þurfi að hafa staðfestu hér á landi, en Chelsea Building Society hafi ekki staðfestu hér á landi og hafi aldrei haft. Þegar af þeirri ástæðu geti það aldrei talist til aðildarfyrirtækis samkvæmt lögunum. Lögin undanskilji eingöngu aðildarfyrirtæki Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og dótturfyrirtæki þeirra. Varnaraðili vísar einnig til þess að samkvæmt 3. gr. laganna skuli Fjármálaeftirlitið halda skrá yfir aðildarfyrirtæki að sjóðnum og árið 2008, þegar atvik máls áttu sér stað, hafi Chelsea Building Society ekki verið aðildarfyrirtæki samkvæmt skránni. Dómur Hæstaréttar 2. júní 2010 í máli nr. 184/2010 hafi ekkert fordæmisgildi hér, enda hafi eigandi kröfunnar þar verið aðildarfyrirtæki að sjóðnum.

Varnaraðili vísar til þess að samkvæmt 21. gr. laga nr. 98/1999 sé lögunum ætlað að innleiða ákvæði tilskipunar 94/19/EB í íslenskan rétt.  Megináhersla hafi verið lögð á að tilskipunin hefði eins víðtækt gildissvið og mögulegt væri, en til að vega á móti hinni víðtæku skilgreiningu væru bæði skyldubundnar og valkvæðar undantekningar fyrir hendi. Meðal annars hafi aðildarríkjum verið heimilað að undanskilja ákveðnar tegundur innstæðna eða ákveðna hópa innstæðueigenda frá tryggingavernd samkvæmt 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar. Þessar valkvæðu undantekningar séu tæmandi taldar í viðauka I við tilskipunina og þar séu meðal annars innstæður fjármálastofnana taldar upp í 1. tölulið. Ísland hafi kosið að undanskilja ekki slíkar innstæður frá tryggingavernd við innleiðingu tilskipunarinnar. Í núgildandi lögum séu innstæður í eigu fjármálafyrirtækja aftur á móti undanskildar tryggingavernd, sem þær hafi ekki verið þegar atvik málsins áttu sér stað. Það sé alveg ljóst, sama hvers konar lögskýringu sé beitt, að fjármálafyrirtæki hafi ekki verið undanskilin tryggingavernd samkvæmt þágildandi lögum, enda feli hvers kyns lögskýringar í sér að túlkun viðkomandi lagaákvæða þurfi að falla innan merkingarfræðilegs ramma þeirra. Í ljósi þess að löggjafinn taldi þörf á að undanskilja sérstaklega innstæður fjármálafyrirtækja með breytingalögum nr. 79/2012, sé ljóst að samkvæmt eldri lögum hafi innstæður fjármálafyrirtækja notið tryggingaverndar. Þá hafi enga þýðingu í þessu samhengi að Chelsea Building Society lúti eftirliti og hafi starfsleyfi útgefið af breska fjármálaeftirlitinu.

Vegna tilvísunar sóknaraðila til 2. gr. tilskipunar 94/19/EB tekur varnaraðili fram að slíkt ákvæði sé ekki að finna í lögum um innstæðutryggingar. Ekki sé unnt að víkja skýrum ákvæðum landsréttar til hliðar með vísan til túlkunarreglna. Þó vissulega skuli skýra lög og reglur til samræmis við EES-samninginn að svo miklu leyti sem við á, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993, sé um að ræða skýringarreglu og hún lúti takmörkunum sem slík, sbr. orðalagið „að svo miklu leyti sem við á“, sem þýði einfaldlega „eftir því sem kostur er“. Ákvæðinu verði því aðeins beitt þar sem mögulegt sé að skýra landsrétt til samræmis við viðkomandi EES-reglu. Ákvæðinu verði hins vegar ekki beitt til að víkja ákvæðum landsréttar til hliðar, ef ekki er unnt að skýra þau til samræmis við EES-rétt. Lögskýring geti aldrei gengið lengra en texti viðkomandi ákvæðis leyfi.

Samkvæmt skýrum ákvæðum laga um innstæðutryggingar séu einungis ákveðin félög undanskilin tryggingavernd, en þar falli Chelsea Building Society ekki undir, og ákvæði Evróputilskipunar, annars eðlis, sem ekki hafi verið innleidd, verði ekki beitt. Þá geti lögskýringargögn á borð við athugasemdir með frumvörpum ekki leitt til þess að fella inn í ákvæði atriði sem rýmki gildissvið þess til muna og falli ekki innan merkingarfræðilegs ramma þess. Undir 3. gr. laga nr. 98/1999 falli eingöngu viðskiptabankar, sparisjóðir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu með staðfestu hér á landi, og það sé því skýrt samkvæmt texta ákvæðisins að lánastofnanir, sem ekki hafi staðfestu hér á landi, teljist ekki til aðildarfyrirtækja. Samkvæmt framangreindu geti sú staðreynd að Chelsea Building Society sé lánastofnun og aðili að innstæðutryggingakerfi í Bretlandi á engan hátt gert það að verkum að félagið teljist aðildarfyrirtæki á Íslandi samkvæmt lögum um innstæðutryggingar. 

Varnaraðili mótmælir sjónarmiðum sóknaraðila um þýðingu úrskurðar Hæstaréttar 15. desember 2011 í máli nr. 169/2011, enda hafi dómur EFTA-dómstólsins 22. nóvember 2012 í máli nr. E-17/11 staðfest í eitt skipti fyrir öll að eðli viðkomandi innstæðueiganda skipti ekki máli við túlkun á innstæðuhugtakinu og mat á forgangskröfum. Vegna sjónarmiða sóknaraðila um stjórnskipulegt gildi laga nr. 125/2008 tekur varnaraðili fram að gildi laganna hafi verið margstaðfest í Hæstarétti. Niðurstaða um að innstæður varnaraðila njóti forgangsréttar myndi fela í sér nákvæmlega sömu afstöðu til gildissviðs innstæðuforgangs laga nr. 125/2008 og fram hafi komið í neyðarlagamálunum. Fulllyrðingar sóknaraðila um að sú afstaða fæli í sér „rýmkun á gildissviði innstæðuforgangsins“ séu bæði órökstuddar og haldlausar. Þá tekur varnaraðili fram að gæta verði samræmis í túlkun laga nr. 125/2008.

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðilar beri sönnunarbyrði í málinu. Um það vísar varnaraðili í fyrsta lagi til þess að Hæstiréttur hafi þegar staðfest að kröfur á borð við kröfu varnaraðila séu innstæður sem njóti trygggingar og forgangs. Þá hafi varnaraðili þegar fært fullnægjandi sönnur á kröfur sínar gagnvart slitastjórn Landsbankans, sem viðurkennt hafi þær sem forgangskröfur. Það séu hins vegar sóknaraðilar sem mótmæli forgangi krafnanna, á þeim grundvelli að þær séu ekki innstæður. Þeir beri vitanlega sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu og hafi ekki tekist sú sönnun.

Um kröfu sína um álag á málskostnað vísar varnaraðili til 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum c-lið 1. mgr. 131. gr. Tekur varnaraðili fram að málatilbúnaður sóknaraðila sé til þess fallinn að flækja málið verulega að óþörfu og gera það mun umfangsmeira en efni séu til, auk þess sem nýleg og skýr fordæmi Hæstaréttar séu virt að vettugi. Sóknaraðilar endurtaki að miklu leyti sömu röksemdir og settar hafi verið fram af þeim sjálfum í neyðarlagamálunum og sem Hæstiréttur hafi þegar hafnað með öllu. Sóknaraðilar viti því mæta vel að búið sé að dæma um stærstan hluta málsástæðna þeirra og þeim hafi verið hafnað. Þá haldi sóknaraðilar enn til streitu þeirri afstöðu sinni að lög nr. 125/2008 brjóti gegn stjórnarskrá, mannréttindasáttmála Evrópu og EES-samningnum, þrátt fyrir að þeir viðurkenni að Hæstiréttur hafi þegar tekið afstöðu til þessara málsástæðna. Slíkur málatilbúnaður, sem settur sé fram gegn betri vitund að mati varnaraðila, sé með öllu óforsvaranlegur og ámælisverður og kosti varnaraðila og dóminn bæði fjármuni og tíma, fullkomlega að óþörfu. Verði því að telja að öll skilyrði 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt og full ástæða sé til að dæma sóknaraðila til greiðslu álags á málskostnað. Komi til þess að fallist verði á kröfur sóknaraðila telur varnaraðili að rétt sé að dæma sóknaraðila engu að síður til að greiða málskostnað með hliðsjón af framangreindu, sbr. einnig 3. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.   

Um lagarök vísar varnaraðili til ákvæða laga nr. 21/1991, 2/1993, 62/1994, 98/1999, 38/2001, 161/2002 og 125/2008. Þá vísar varnaraðili til ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 65. og 72. gr., og alþjóðasamninga um mannréttindi sem Ísland er aðili að. Þá er um málskostnað vísað til 17., 19., 67., 80., 1. mgr. 130. gr. og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, og um virðisaukaskatt á málskostnað til laga nr. 50/1988.  

Niðurstaða

Í málinu deila aðilar um hvort krafa varnaraðila við slitameðferð LBI hf. sé forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ágreiningurinn lýtur að stöðu kröfunnar með tilliti til laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta en samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 44/2009, skulu kröfur um innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 teljast til krafna sem njóta rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Þessa réttarstöðu er að rekja til 6. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., þar sem mælt var fyrir um að við skipti á búi fjármálafyrirtækis nytu kröfur vegna innstæðna samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Slitastjórn LBI hf. hefur viðurkennt kröfu varnaraðila sem forgangskröfu en sóknaraðilar krefjast þess að þeim forgangi verði hafnað.

Eins og málið liggur fyrir þarf fyrst að taka afstöðu til þess hvort krafa varnaraðila uppfylli skilyrði til að teljast vera innstæða í merkingu 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Teljist það skilyrði uppfyllt þarf jafnframt að taka afstöðu til þess hvort þær undanþágur sem fram koma í 2. málsl. 3. mgr. 9. gr. og 6. mgr. 9. gr. laganna eigi við. Ef sú er raunin telst krafan undanskilin tryggingavernd laganna og þar með þeim forgangi sem viðurkenndur hefur verið við slitameðferðina, enda verður að túlka 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 svo að einungis tryggðar innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 njóti forgangs, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar 2. júní 2010 í máli nr. 184/2010 og dóm Hæstaréttar 22. mars 2013 í máli nr. 722/2012. 

Við úrlausn framangreindra álitaefna verður að horfa til þess hvernig ákvæði laga nr. 98/1999 hljóðuðu fyrir þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 79/2012. Að því marki sem líta ber til eiganda kröfunnar við túlkun ákvæðanna verður að horfa til Chelsea Building Society, sem lagði það fé sem um ræðir inn til Landsbanka Íslands hf., en félagið framseldi kröfuna til varnaraðila eftir að henni var lýst við slitameðferðina. Óumdeilt er að Chelsea Building Society hafði starfsleyfi sem lánastofnun árið 2008 og tók við innstæðum frá almenningi sem féllu undir tryggingakerfi innstæðueigenda í Bretlandi.

Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 ræðir meðal annars um skyldu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til að greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu úr innstæðudeild sjóðsins þegar aðildarfyrirtæki er að áliti Fjármálaeftirlitsins ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu sem viðskiptavinur hefur krafið fyrirtækið um endurgreiðslu eða skil á í samræmi við þá skilmála er gildi. Hugtakið innstæða var skilgreint með svohljóðandi hætti í 1. málsl. 3. mgr. 9. gr., þar til ákvæðinu var breytt með lögum nr. 79/2012: „Með innstæðu skv. 1. mgr. er átt við innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum.“ Lög nr. 98/1999 voru einkum sett í því skyni að fullnægja þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum og leiða hér á landi í lög efni tilskipana 94/19/EB um innstæðutryggingar og 97/9/EB um tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Fyrrnefnda tilskipunin hafði áður leitt til breytinga á þágildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. 18. gr. laga nr. 39/1996, sem gerðar voru í því skyni að lögfesta meginatriði tilskipunarinnar hér á landi, sbr. athugasemdir við það frumvarp sem varð að lögunum.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Af því leiðir að skýring hugtaksins innstæða í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB getur skipt máli þegar skorið er úr um hvort það fé sem um er deilt teljist innstæða í skilningi 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Í 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar er hugtakið „deposit“ skilgreint sem „any credit balance which results from funds left in an account or from temporary situations deriving from normal banking transactions and which a credit institution must repay under the legal and contractual conditions applicable, and any debt evidenced by a certificate issued by a credit institution“. Í íslenskri þýðingu tilskipunarinnar hljóðar 1. mgr. 1. gr. svo: „innlán: innstæða sem er tilkomin vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og lánastofnun ber að endurgreiða með skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum, svo og kröfur útgefnar af lánastofnun í formi verðbréfa.“

Líkt og rakið er í lýsingu málsatvika er kröfu varnaraðila að rekja til þess að Chelsea Building Society lagði inn fé á reikning hjá útibúi Landsbanka Íslands hf., nú LBI hf., í London. Nánar tiltekið sömdu þessir aðilar hinn 26. ágúst 2008 um að Chelsea Building Society legði 10.000.000 sterlingspunda inn á reikning útibús bankans. Í tilefni þessara viðskipta gaf útibúið út svokallaða staðfestingu á innláni (deposit confirmation) til Chelsea Building Society. Annar sams konar samningur komst á milli viðkomandi aðila þann 5. september 2008 og liggur fyrir sambærileg staðfesting á innláni vegna hans. Efni umræddra staðfestinga er nánar rakið að framan en af þeim og öðrum fyrirliggjandi gögnum er ljóst að þeim lögskiptum sem hér um ræðir var háttað með sambærilegum hætti og í ýmsum þeirra mála sem Hæstiréttur leysti úr með dómum réttarins 28. október 2011, sbr. einkum dóma í málum nr. 310/2011, 311/2011, 312/2011, 313/2011 og 314/2011. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að þeir kröfuhafar sem um ræddi hefðu átt innlán hjá Landsbanka Íslands hf. sem telja bæri innstæðu samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og að sú innstæða nyti tryggingaverndar samkvæmt ákvæðum laganna.

Með vísan til framangreindra dóma verður að telja ótvírætt að það fé sem hér er um deilt teljist vera innstæða í skilningi 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, nema ef talið verður að það leiði til annarrar niðurstöðu að það var lánastofnun sem lagði féð inn. Um það atriði skal í fyrsta lagi tekið fram að í úrskurðum héraðsdóms, sem staðfestir voru að þessu leyti meðal annars „með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar“ í dómum Hæstaréttar 28. október 2011 í málum nr. 276/2011 og 277/2011, var tekið fram að af skilgreiningu laga nr. 98/1999 yrði ekki ráðið að það skipti máli hver væri eigandi innstæðu, fyrir utan þá sem sérstaklega væru undanþegnir tryggingavernd samkvæmt lögunum. Í dómi Hæstaréttar 27. apríl 2012 í máli nr. 189/2012, sem snerti viðskipti með sömu einkenni og um ræðir í þessu máli, hafnaði rétturinn síðan því sjónarmiði að það hefði þýðingu að varnaraðili í því máli væri einkarekið fyrirtæki en ekki opinber aðili.

Með úrskurði Hæstaréttar 15. desember 2011 í máli nr. 169/2011 leitaði rétturinn ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindum atriðum, einkum skýringu á hugtakinu innstæða í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB. Inntak fyrstu spurningar Hæstaréttar var hvort fé sem ein fjármálastofnun afhendi annarri geti talist innstæða í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar þótt féð hafi ekki verið fært sem innstæða í bókum viðtakandans, það hafi ekki verið lagt inn á sérstakan reikning á nafni þess er féð afhenti, engin sérstök skilríki hafi verið gefin út fyrir móttöku fjárins og ekki hafi verið greitt af því iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Í svari EFTA-dómstólsins, sbr. dóm 22. nóvember 2012 í máli E-17/11, er meðal annars tekið fram að orðalag tilskipunarinnar bendi ekki til þess að það að innstæðueigandi sé lánastofnun eigi að hafa nokkur áhrif á hvort féð skuli teljast innstæða í skilningi 1. mgr. 1. gr. Hins vegar geti eðli lánveitanda sem lánastofnunar valdið því að innstæður hans hjá annarri lánastofnun njóti ekki tryggingaverndar samkvæmt tryggingakerfi tilskipunarinnar. Vísar EFTA-dómstóllinn í því sambandi til 2. gr. tilskipunarinnar en þar sé skýrlega kveðið á um þá meginreglu að innstæður annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning séu sjálfkrafa og almennt undanskildar endurgreiðslu úr innlánatryggingakerfum. Þar sem tilskipunin takmarki berum orðum gildissvið meginreglunnar um rétt til endurgreiðslu innstæðna og nefni í því sambandi meðal annars lán milli lánastofnana, verði að líta svo á að viðskipti eins og þau sem lýst sé í spurningu Hæstaréttar, rúmist innan þeirrar skilgreiningar á hugtakinu innstæða sem fram komi í 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Samkvæmt framangreindu megi gera greinarmun á þrengri skilgreiningu innstæðuhugtaksins (functional definition) sem taki til tryggðra innstæðna samkvæmt tilskipuninni og rýmri skilgreiningu þess (technical definition) sem taki einnig til innstæðna án tillits til tryggingaverndar. Það sé landsdómstólsins að meta að hvaða marki reglur landsréttar vísi til EES-réttar, þegar reglur landsréttar, sem einungis stjórni aðstæðum innanlands, byggist á sömu eða sambærilegum lausnum og EES-réttur. Samkvæmt því sé það landsdómstólsins að taka afstöðu til þess hvorri skilgreiningunni eigi að beita í sambandi við þær reglur landsréttar sem um ræði í málinu.

Í dómi Hæstaréttar í framangreindu máli, þ.e. dómi Hæstaréttar 17. janúar 2013 í máli nr. 169/2011, var lagt til grundvallar að það fé sem um ræddi teldist innstæða í rýmri merkingu innstæðuhugtaks tilskipunar 94/19/EB. Að því gættu að lög nr. 98/1999 væru einkum sett til að leiða í lög efni tilskipunarinnar og með vísan til 3. gr. laga nr. 2/1993 var lagt til grundvallar að það eitt að féð væri tilkomið vegna millibankaláns útilokaði ekki að það gæti talist innstæða í skilningi 9. gr. laga nr. 98/1999, eins og það ákvæði var fyrir breytingu með lögum nr. 79/2012. Rétturinn taldi hins vegar ekki efni til þess í málinu að taka afstöðu til þess hvort viðkomandi lánveiting gæti í skilningi laga nr. 98/1999 talist innstæða í merkingu þess hugtaks. Í dómi Hæstaréttar 22. mars 2013 í máli nr. 722/2012 leit rétturinn aftur til áðurnefnds ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, að því gættu þó að lánsskuldbindingar í því máli og máli nr. 169/2011 væru að ýmsu leyti ólíkar. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu, m.a. með vísan til 3. gr. laga nr. 2/1993, að krafan sem um var deilt uppfyllti skilyrði til að teljast vera innstæða í rýmri merkingu 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, eins og sú grein hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012. Hins vegar var talið að lánssamningarnar sem um ræddi væru verðbréf í skilningi 2. málsl. 3. mgr. 9. gr. sömu laga og kröfur á grundvelli þeirra væru því undanskildar tryggingavernd og þar af leiðandi forgangi samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Með vísan til framangreinds ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, þeirrar þýðingar sem Hæstiréttur hefur samkvæmt framansögðu gefið álitinu og 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar við túlkun á innstæðuhugtaki 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, og með vísan til 3. gr. laga nr. 2/1993, telur dómurinn að leggja verði til grundvallar, að sú staðreynd að Chelsea Bulding Society var lánastofnun, geti ekki breytt því að féð sem félagið lagði inn hjá Landsbanka Íslands hf. og um er deilt teljist innstæða í skilningi 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, eins og sú grein hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012. Samkvæmt hugtakanotkun í áðurnefndum dómi Hæstaréttar 22. mars 2013 í máli nr. 722/2012 telst krafa varnaraðila því uppfylla skilyrði til að teljast vera innstæða í rýmri merkingu 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Eftir stendur þá það álitamál hvort krafan teljist engu að síður undanskilin tryggingavernd laga nr. 98/1999, og njóti þar af leiðandi ekki stöðu forgangskröfu, vegna ákvæða 2. málsl. 3. mgr. 9. gr. eða 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, sem marka hina þrengri merkingu innstæðuhugtaksins í lögunum.

Í 2. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, eins og greinin hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012, kom fram að tryggingin næði ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar væru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa. Líkt og áður er lýst var þeim lögskiptum sem deilan lýtur að háttað með sambærilegum hætti og í þeim málum sem lauk með dómum Hæstaréttar 28. október 2011 í málum nr. 310/2011, 311/2011, 312/2011, 313/2011 og 314/2011. Þar var þeirri málsástæðu hafnað að þær kröfur sem um ræddi væru í formi verðbréfs. Í úrskurðum héraðsdóms var sérstaklega fjallað um þá staðfestingu á innláni (deposit confirmation) sem fyrir lá, sem er sams konar og fyrirliggjandi staðfesting sama banka í því máli sem hér er til úrlausnar, og komist að þeirri niðurstöðu að hún félli ekki undir hugtakið verðbréf og umrædd undanþága ætti því ekki við.  Hæstiréttur staðfesti niðurstöðuna að þessu leyti með vísan til forsendna, sbr. þau orð að samkvæmt því sem fram kæmi í dómnum og öðrum dómi réttarins „og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar“, væri staðfest sú niðurstaða hans að viðkomandi kröfuhafi hefði átt hjá bankanum innlán sem telja bæri innstæðu samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og að sú innstæða nyti tryggingaverndar laganna. Í ljósi þessara skýru fordæma eru engin efni til að komast að annarri niðurstöðu hér en þar, enda myndi slíkt leiða til ólíkrar niðurstöðu um sambærileg skjöl. Samkvæmt því verður að telja ótvírætt að sú krafa sem um er deilt sé ekki undanskilin tryggingavernd samkvæmt 2. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Getur tilvísun sóknaraðila til dóms Hæstaréttar 22. mars 2013 í máli nr. 722/2012 engu breytt um þýðingu framangreindra fordæma, en samningarnar sem þar var um deilt eru umtalsvert frábrugðnir þeim samningum sem hér um ræðir og tekin var afstaða til í áðurnefndum dómum.  

Í 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, eins og greinin hljóðaði fyrir setningu laga nr. 79/2012, kom meðal annars fram að undanskilin tryggingu samkvæmt 1. mgr. 9. gr. væru „innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja, svo og móður- og dótturfyrirtækja þeirra, fyrir þeirra eigin reikning“. Þar var jafnframt að finna undanþágu er tengist peningaþvætti, sem ekki skiptir máli hér. Sóknaraðilar telja að skýra verði framangreinda undanþágu 6. mgr. 9. gr. svo, m.a. í ljósi tilskipunar 94/19/EB, að hún taki til þeirrar kröfu sem hér um ræðir, enda hafi Chelsea Building Society verið lánastofnun og átt aðild að tryggingakerfi innstæðueigenda í Bretlandi. Af hálfu varnaraðila er hins vegar m.a. vísað til þess að hugtakið aðildarfyrirtæki sé skilgreint í 3. gr. laga nr. 98/1999 og skýrt sé að Chelsea Building Society falli ekki þar undir.   

Líkt og áður er rakið í umfjöllun um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, sbr. dóm 22. nóvember 2012 í máli E-17/11, kemur fram í 2. gr. tilskipunar 94/19/EB sú meginregla að innstæður annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning séu sjálfkrafa og almennt undanskildar endurgreiðslu úr innlánatryggingakerfum. Nánar tiltekið segir í 2. gr.: „The following shall be excluded from any repayment by guarantee schemes: - subject to Article 8 (3), deposits made by other credit institutions on their own behalf and for their own account“. Samkvæmt því sem áður er rakið leiðir 2. gr. til þess að þótt innstæður lánastofnana falli undir 1. mgr. 1. gr., þ.e. hina rýmri skilgreiningu innstæðuhugtaksins, eru þær almennt undanskildar tryggingavernd samkvæmt 2. gr. og falla því utan hinnar þrengri skilgreiningar hugtaksins í tilskipuninni. Tók EFTA-dómstóllinn fram að það væri landsdómstólsins að meta hvorri skilgreiningunni ætti að beita í sambandi við þær reglur landsréttar sem á reyndi. Sem fyrr segir er óumdeilt að Chelsea Building Society var lánastofnun og telja verður ótvírætt að krafan sem um er deilt falli utan hinnar þrengri skilgreiningar innstæðuhugtaksins í skilningi tilskipunar 94/19/EB. Álitamálið er hins vegar hvað felist í þeim reglum landsréttar sem á reynir, nánar tiltekið hvort 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 feli í sér sams konar takmörkun og 2. gr. tilskipunarinnar. Í því sambandi skal tekið fram að ákvæði 2. mgr. 7. gr. og 1. tölul. I. viðauka tilskipunarinnar, um heimild aðildarríkja til að undanskilja innlán frá fjármálastofnunum tryggingavernd, verða ekki talin hafa þýðingu í þessu sambandi. Um það vísast til stöðu Chelsea Building Society sem lánastofnunar, en fjármálastofnun er fyrirtæki sem ekki er lánastofnun, sbr. áðurnefnt ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Álitamálið er þannig bundið við það hvort 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 verði talin fela í sér þá réttarstöðu, sem 2. gr. tilskipunarinnar var ætlað að koma til leiðar, þ.e. að innstæður lánastofnana væru að meginreglu til sjálfkrafa og almennt undanskildar endurgreiðslu úr innlánatryggingakerfum aðildarríkja.

Meginatriði tilskipunarinnar voru upphaflega lögfest hér á landi með lögum nr. 39/1996, um breytingu á lögum nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði. Í 3. mgr. 78. gr. laga nr. 113/1996, sem fólu í sér endurútgáfu laganna um viðskiptabanka og sparisjóði, sagði meðal annars að undanskildar tryggingu væru „innstæður í eigu annarra viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana fyrir þeirra eigin reikning“. Í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 39/1996 var m.a. vísað til þess að slíkar innstæður yrðu samkvæmt tilskipuninni ávallt að vera undanþegnar tryggingu.

Af því sem áður er rakið um efni 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 er ljóst að ákvæðið fól í sér talsverða breytingu á framangreindri undanþágu. Í stað þess að undanskilja innstæður „viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana“ undanskildi lagaákvæðið innstæður „aðildarfyrirtækja“. Hugtakið aðildarfyrirtæki kemur víða fyrir í lögunum og er skilgreint í 3. gr., sem fjallar um aðild að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Þar segir nánar tiltekið: „Viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, sem hafa staðfestu hér á landi, skulu eiga aðild að sjóðnum.“ Í kjölfarið kemur fram að þessi fyrirtæki verði „hér eftir nefnd aðildarfyrirtæki“ í lögunum. Eftir breytingar sem gerðar voru á 3. gr. með lögum nr. 108/2006 kemur fram að hið sama gildi um útibú framangreindra aðila á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og í Færeyjum. Í 3. gr. er loks mælt fyrir um að Fjármálaeftirlitið skuli halda sérstaka skrá um aðildarfyrirtæki.

Óumdeilt er að Chelsea Building Society var ekki aðili að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Félagið var ekki með staðfestu hér á landi og eins og málið liggur fyrir verður raunar ekki talið að fyrir liggi með afdráttarlausum hætti að félagið hefði fallið undir þá upptalningu sem fram kemur í 3. gr. þó það hefði haft staðfestu hér á landi, en sú upptalning nefnir sem fyrr segir viðskiptabanka, sparisjóði, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðra sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti. Loks liggur fyrir að félagið var ekki á þeirri skrá sem Fjármálaeftirlitið heldur yfir aðildarfyrirtæki samkvæmt 3. gr. Samkvæmt þessu er útilokað að fella félagið undir hugtakið aðildarfyrirtæki í 6. mgr. 9. gr., eins og það er skilgreint í 3. gr., ef lögin eru skýrð samkvæmt orðanna hljóðan. Eftir stendur þá hvort mögulegt sé, meðal annars í ljósi tilskipunar 94/19/EB, að túlka 6. mgr. 9. gr. með svo víðtækum hætti að Chelsea Building Society falli engu að síður undir ákvæðið, til dæmis með þeim hætti að 6. mgr. 9. gr. taki til innstæðna allra lánastofnana.

Að mati dómsins er svo rúm túlkun ekki fær enda eru framangreind ákvæði laga nr. 98/1999 afar skýr og afdráttarlaus um að undanþágan sem hér um ræðir taki til innstæðna nánar tiltekinna aðila, sem síðan eru skýrlega upptaldir í lögunum. Til að álíta undanþáguna taka til þeirra innstæðna sem hér er um deilt þyrfti í reynd að líta fram hjá ákvæðum laga nr. 98/1999 og leggja til grundvallar umtalsvert öðruvísi og víðtækari undanþágureglu en þar er berum orðum mælt fyrir um. Er raunar ekki einboðið hver sú regla ætti þá nákvæmlega að vera og ekki dómsins að móta slíka nýja reglu. Hvað sem tilskipun 94/19/EB og 3. gr. laga nr. 2/1993 líður, verður ekki fram hjá því litið að ákvæði laga nr. 98/1999 innihéldu ekki sams konar undanþágu og 2. gr. tilskipunarinnar og ekki verður hjá því komist að beita ákvæðum 3. gr. og 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 eins og þau hljóðuðu, enda hafa orð ákvæðanna ótvíræða merkingu og gefa ekkert svigrúm til að hliðra þannig til að Chelsea Building Society falli undir þau með skýringu samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993. Hér vísast meðal annars til dóms Hæstaréttar 9. desember 2010 í máli nr. 79/2010. Þar var tekið fram að þótt lögskýring samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið taki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði, svo sem framast er unnt, gefin merking sem rúmast innan þeirra og næst kemst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu, geti slík lögskýring ekki leitt til þess að litið verði fram hjá orðum íslenskra laga. Þar var síðan lagt til grundvallar að orð 10. gr. laga nr. 25/1991, sem á reyndi, hefðu ótvíræða merkingu og gæfu ekkert svigrúm til að hliðra þeirri ábyrgð sem þar væri mælt fyrir um með skýringu samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993. Í síðari dómum hefur með sama hætti verið vísað til þess að lögskýring samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 geti ekki leitt til þess að litið verði fram hjá orðum íslenskra laga, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar 24. janúar 2013 í máli nr. 10/2013. Að því er varðar sérstaklega samband 9. gr. laga nr. 98/1999 og tilskipunar 94/19/EB skal einnig bent á að í áðurnefndum dómi Hæstaréttar 22. mars 2013 í máli nr. 722/2012 leiddi munur á orðalagi 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. laganna og 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB til þess að skilgreining laganna á innstæðuhugtakinu var talin rýmri en tilskipunarinnar. Var sá munur ákvæðanna þó mun minni en á 6. mgr. 9. gr. laganna og 2. gr. tilskipunarinnar og síðarnefndi munurinn hlýtur því enn frekar að leiða til þess að innstæðuvernd laganna teljist að þessu leyti rýmri en tilskipunarinnar.   

Að því er varðar þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum má að endingu benda á að deilan í málinu er milli einkaréttarlegra lögaðila og lýtur að því hvort 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sem vísar til laga nr. 98/1999, tryggi kröfu eins þeirra forgang samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Umrædd tilvísun 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 til laga nr. 98/1999 var gerð án þjóðréttarlegrar skuldbindingar til slíks samkvæmt EES-rétti og í tilvikum sem þessum er það landsdómstóla að meta að hvaða marki reglur landsréttar vísi til EES-réttar, sbr. áðurnefnt ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins.         

Þau lögskýringargögn sem tengjast 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 geta ekki heldur leitt til rýmri túlkunar en samkvæmt orðanna hljóðan. Þótt nefnt sé í skýringum við ákvæðið í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögunum, að undanþágan sé í samræmi við ákvæði eldri laga um viðskiptabanka og sparisjóði, er sem fyrr segir ljóst að lagaákvæðið sem slíkt fól skýrlega í sér breytingu frá eldra ákvæði. Eins er ljóst að þótt orðið lánastofnun komi fyrir í umræddum skýringum felur sú umfjöllun í sér tilvísun til lánastofnana í verðbréfaþjónustu, til samræmis við þá afmörkun laganna á hugtakinu aðildarfyrirtæki, sem einnig er vísað til á sama stað. Þetta verður enn ljósara þegar horft er til skýringa við 3. gr., sem bera jafnframt með sér að hugtakinu var ekki ætlað að ná til allra lánastofnana samkvæmt þágildandi lögum. Þannig er tekið fram í skýringum við 3. gr. að ekki þyki rétt að lánastofnanir sem starfi samkvæmt lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, eigi aðild að sjóðnum nema því aðeins að viðkomandi lánastofnun nýti sér heimildir laga til að stunda verðbréfaviðskipti. Við þetta má enn fremur bæta að við setningu laga nr. 125/2008 voru gerðar breytingar á 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, þar sem bætt var við tveimur málsliðum er þrengdu þá undanþágu sem í ákvæðinu felst, sbr. b-lið 8. gr. laga nr. 125/2008, en rétt eins og í þeim hluta ákvæðisins sem fyrir var er þar byggt á hugtakinu aðildarfyrirtæki án þess að nokkuð gefi til kynna að það beri að skilja með öðrum hætti en að framan er lýst. Samkvæmt framangreindu verða lögskýringargögn ekki skilin svo að 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 hafi verið ætlað að undanskilja innstæður allra lánastofnana og geta í öllu falli ekki breytt því að lagaákvæðið verði skýrt samkvæmt orðanna hljóðan, enda er það samkvæmt framansögðu skýrt og ótvírætt. Af sömu ástæðum getur markmiðsskýring ekki leitt til annarrar niðurstöðu.

Framangreindu til frekari stuðnings skal bent á að í ýmsum þeirra mála sem Hæstiréttur leysti úr með dómum réttarins 28. október 2011 var lagt til grundvallar að skýra yrði 9. gr. laga nr. 98/1999 samkvæmt orðanna hljóðan. Í úrskurðum héraðsdóms í þeim málum sem lauk með dómum Hæstaréttar í málum nr. 300/2011 og 301/2011 var til að mynda gengið út frá því að vilji löggjafans hafi verið sá að allir aðrir aðilar og öll önnur innstæðuform en þau sem berlega væru undanskilin í lögunum nytu tryggingaverndar samkvæmt þeim. Ekki yrði séð að nein rök hnigju til annars en að skýra lagaákvæðið í samræmi við hljóðan þess. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu héraðsdóms, að um tryggða innstæðu væri að ræða, með skírskotun til forsendna, með sams konar hætti og áður er lýst.

Loks verður með vísan til dóma Hæstaréttar 28. október 2011, m.a. í máli nr. 340/2011, ekki fallist á sjónarmið sóknaraðila í þá veru að sá forgangur sem krafa varnaraðila nýtur á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009 og áður 6. gr. laga nr. 125/2008, brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Með umræddum dómum var skýrlega leyst úr álitamálum um stjórnskipulegt gildi framangreinda lagaákvæða um forgang innstæðna og því hafnað að þau færu í bága við stjórnarskrána og mannréttindasáttmála Evrópu. Í ljósi dómanna eru engin efni til annars en að leggja til grundvallar að framangreind skýring samkvæmt orðanna hljóðan á þeim ákvæðum laga nr. 98/1999, sem 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 og áður 6. gr. laga nr. 125/2008 vísa til, rúmist innan marka stjórnarskrárinnar og fjölþjóðlegra samninga um mannréttindi sem Ísland hefur undirgengist.         

Samkvæmt öllu framansögðu uppfyllir krafa varnaraðila skilyrði til að teljast vera innstæða í merkingu 1. málsl. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og er ekki undanskilin tryggingavernd laganna samkvæmt 2. málsl. 3. mgr. 9. gr. eða 6. mgr. 9. gr. laganna. Á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009, nýtur krafan því þeirrar rétthæðar samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 sem viðurkennd hefur verið við slitameðferð LBI hf., en ekki er deilt um fjárhæð kröfunnar. Samkvæmt því verður að staðfesta ákvörðun slitastjórnar LBI hf., svo sem varnaraðili krefst.

Með hliðsjón af úrslitum málsins, sbr. og 1. mgr. 130. gr. og 2. málsl. 2. mgr. 132 gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður sóknaraðilum óskipt gert að greiða varnaraðila málskostnað. Ákveðst hann hæfilegur 800.000 kr. og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ekki þykja efni til að gera sóknaraðilum að greiða varnaraðila álag á málskostnað samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.

Af hálfu sóknaraðila Conseq Invest plc. o.fl. flutti málið Kári Hólmar Ragnarsson hdl. en af hálfu sóknaraðila Bayerische Landesbank o.fl. Fanney Hrund Hilmarsdóttir hdl.

Af hálfu varnaraðila flutti málið Heiðar Ásberg Atlason hrl.

Eiríkur Jónsson, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Staðfest er sú ákvörðun slitastjórnar LBI hf. að krafa varnaraðila, Morgan Stanley Senior Funding Inc., að fjárhæð 3.851.216.876 krónur, skuli hafa stöðu forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, við slitameðferð LBI hf.

Sóknaraðilar, Conseq Invest plc., Conseq Investment Management AS, CVI GVF (Lux) Master S.a.r.l., Fondo Latinoamericano de Resevas (F.L.A.R.), LMN Finance Ltd., Ohio National Life Assurance Corporation, Värde Fund LP, Värde Fund V-B LP, Värde Fund VI-A LP, Värde Fund VII-B LP, Therde Fund VIII LP, Therde Fund IX LP/Therde Fund IX-A LP, Värde Investment Partners LP, Värde Investment Partnes (Offshore) Master LP, Bayerische Landesbank, Commerzbank AG og Die Sparkasse Bremen AG, greiði óskipt varnaraðila 800.000 krónur í málskostnað.