Hæstiréttur íslands

Mál nr. 669/2007


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Vinnuslys
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. október 2008.

Nr. 669/2007.

Sigurður Ingvarsson

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

gegn

Hampiðjunni hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Vinnuslys. Gjafsókn.

S krafði H um bætur vegna reykeitrunar sem hann hafði orðið fyrir í kjölfar eldsvoða þar sem hann vann á verkstæði H. Hafði örorka S vegna þessa verið metin 35% og miski hans 20%. S byggði málatilbúnað sinn á því að eldsupptökin mætti rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanna H. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að af rannsókn lögreglu yrði ekki ráðið hver eldsupptökin hefðu verið. Hefði því ekki verið í ljós leitt að starfsmenn H hefðu sýnt af sér gáleysi við að hreinsa upp þynni, sem notaður var til að þrífa málningu af gólfi verkstæðisins, eða vanrækt að gæta þess hvort það hefði verið gert nægilega vel áður en logsuða hófst. Þá mátti ráða af framburði S og vitna um slökkvistarfið að verkstjóri S hefði ekki gefið starfsmönnum fyrirmæli um að slökkva eldinn. Þar sem S hafði ekki sýnt fram á að H hefði með saknæmum hætti stofnað til þeirra aðstæðna sem tjón S var rakið til var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. desember 2007 og krefst þess að stefndi greiði sér 13.586.717 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.320.390 krónum frá 24. júní 1999 til 24. ágúst 2004 og af 13.586.717 krónum frá þeim degi til 22. mars 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 524.640 krónum sem greiddar hafi verið 19. desember 2005. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Vátryggingafélagi Íslands hf. hefur verið stefnt til réttargæslu.

I

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi varð eldur laus skömmu eftir hádegi 24. júní 1999 á verkstæði J. Hinrikssonar hf. að Súðavogi 4 í Reykjavík, en áfrýjandi starfaði þar og var þá staddur skammt frá staðnum, þar sem eldurinn kom upp. Verkstjóri, sem var í bækistöð sinni, hringdi strax í slökkvilið kl. 13.35 og lét síðan skrifstofufólk fyrirtækisins vita um eldinn, en hélt að því búnu þangað sem hann logaði. Starfsmenn félagsins voru þá byrjaðir að slökkva eldinn með tiltækum brunaslöngum og slökkvitækjum, þar á meðal áfrýjandi. Þegar slökkvilið kom á vettvang kl. 13.44 höfðu starfsmennirnir slökkt eldinn að mestu. Vegna reykeitrunar voru áfrýjandi og fimm aðrir fluttir á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Hann hafði áður þjást af asthma og beinþynningu, sem versnaði eftir atburðinn. Læknar, sem fengnir voru til að meta heilsufarslegar afleiðingar þessa atviks fyrir áfrýjanda, töldu að rekja mætti hluta varanlegs miska og varanlegrar örorku hans af völdum lungnasjúkdómsins, þar með talinni beinþynningu, til reykeitrunarinnar, þótt sjúkdómurinn hefði að öllum líkindum versnað smám saman og valdið áfrýjanda sömu örorku án þess að þetta hefði komið til. Í málinu sækir áfrýjandi skaðabótakröfu, sem reist er á þessu mati, en ekki er ágreiningur með aðilum um tjón hans, heldur um ábyrgð á því.

II

Áfrýjandi reisir kröfu sína á því að saknæmi stefnda, sem tekið hafi í desember 1999 yfir réttindi og skyldur J. Hinrikssonar hf., komi fram á tvennan hátt. Í fyrsta lagi hafi eldsupptökin orðið fyrir vangá starfsmanna stefnda og því hafi verið um vinnuslys að ræða. Málning hafi hellst niður og hún verið hreinsuð af gólfinu með þynni, sem síðan hafi verið skolað burt með vatni. Eftir nokkra stund hafi starfsmenn farið að logsjóða á staðnum og neisti þá að öllum líkindum náð að kveikja eld í þynninum, sem ekki hafi verið nægilega vel þrifinn upp. Lögreglan hafi samdægurs rannsakað vettvang. Samkvæmt lögregluskýrslu hafi starfsmaður verið að logskera lás frá trollhlera í um 4 til 6 metra fjarlægð frá þeim stað, þar sem málningin hafði hellst niður skömmu áður. Eldurinn hafi skyndilega blossað upp í verkstæðinu og komist þar í skúrbyggingu úr viði, þar sem geymdir hafi verið vinnugallar starfsmanna og því töluverður eldsmatur. Vinnueftirlit ríkisins hafi ekki verið kallað til, heldur látið við rannsókn lögreglu sitja. Eldsupptök hafi ekki verið rannsökuð nægilega og megi sjá af framburði starfsmanna fyrir dómi að ekki liggi ljóst fyrir hvernig staðið hafi verið að hreinsun málningarinnar og þynnisins áður en logsuða hófst. Stefndi verði að bera halla af óvissu í þessum efnum.

Í öðru lagi beri stefndi sakarábyrgð á því að verkstjórinn hafi með framferði sínu og frumkvæði leitt starfsmenn fyrirtækisins út í stórhættulegt slökkvistarf. Samkvæmt 21. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sé verkstjóri fulltrúi atvinnurekanda og samkvæmt 86. gr. laganna hafi hann við þetta hættuástand átt að skipa öllum að hverfa af staðnum. Hann hafi brugðist þeirri skyldu, en þess í stað farið að ráða niðurlögum eldsins og aðrir starfsmenn, þar á meðal áfrýjandi, fylgt honum í því og litið á það sem skyldu sína.

III

Fram er komið að lögregla hafi rannsakað eldsvoðann strax að loknu slökkvistarfi. Við þær aðstæður verður ekki litið svo á að stefnda hafi verið þörf á að tilkynna atburðinn jafnframt til Vinnueftirlits ríkisins. Af rannsókn lögreglu og framburði áfrýjanda og vitna verður ekki ráðið með vissu um ástæðu þess að eldur varð laus. Ekki er í ljós leitt að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér gáleysi við að hreinsa upp þynni, sem notaður var til að þrífa málningu af gólfi verkstæðisins, eða vanrækt að gæta þess hvort það hafi verið gert nægilega vel áður en logsuða hófst. Áfrýjandi hefur því ekki sýnt fram á sök hjá stefnda að þessu leyti.

Í héraðsdómi er rakinn framburður áfrýjanda og vitna um slökkvistarfið. Af þeim verður ráðið að verkstjórinn hafi ekki gefið starfsmönnum fyrirmæli um að slökkva eldinn. Hann hafi heldur ekki verið fyrstur til að hefja slökkvistarf, heldur hafi aðrir nærstaddir starfsmenn orðið fyrri til. Meginregla er að fébótaábyrgð vegna tjóns þess, sem tekur þátt í björgunarstarfi, verði ekki lögð á eiganda þeirra hagsmuna, sem björgunarstarfið beinist að, nema sá hafi á saknæman hátt stofnað til þeirra aðstæðna, sem tjón björgunarmannsins verður rakið til. Í þessu máli hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að svo hafi verið. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Sigurðar Ingvarssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. september 2007, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigurði Ingvarssyni, kt. 101261-2559, Völvufelli 44, Reykjavík, gegn Hampiðjunni hf., kt. 590169-3079, Flatahrauni 3, Hafnarfirði, og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu með stefnu, sem birt var 16. febrúar 2007.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða 13.586.717 kr. ásamt 4,5% ársvöxtum af 1.320.390 kr. frá 24.06.1999 til 24.08.2004, en af 13.586.717 kr.  frá þeim degi til 22.03.2007, en ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Krafist er málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda, Hampiðjunnar hf., eru aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati réttarins, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur, enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.

Með yfirtöku stefnda, Hampiðjunnar hf., á J. Hinrikssyni hf. í desember 1999 tók félagið á sig réttindi og skyldur J. Hinrikssonar hf., þar á meðal vegna slyss stefnanda er hér um ræðir.

Helstu málavextir eru að eldur kom upp á verkstæði J. Hinrikssonar hf. að Súðarvogi 4 í Reykjavík, um klukkan 13:30 hinn 24. júní 1999.  Sagt er að málning hafi fyrir slysni fallið á verkstæðisgólfið árdegis þennan dag og verið hreinsuð upp með þynni.  Síðan hafi gólfið verið skolað með heitu og köldu vatni og vatnið síðan látið renna á gólfið í u.þ.b. eina og hálfa klukkustund.  Eftir hádegishlé hafi Björgvin Bjarnason verkstjóri byrjað að skera lás frá toghlera með logsuðutæki u.þ.b. fjórum til sex metrum frá þeim stað, þar sem málningin hafði hellst niður.  Eldur hafi skyndilega blossað upp og borist í skúr úr timbri á verkstæðisgólfinu sem m.a. geymdi vinnugalla starfsmanna og var því töluverður eldsmatur.  Þá segir í greinargerð stefnda:

Myndaðist mikill reykur inni á verkstæðinu.  Hljóp Björgvin verkstjóri í símann til að hringja á slökkviliðið, en aðrir starfsmenn ruku til og fóru að slökkva eldinn.  Höfðu starfsmennirnir slökkt eldinn að miklu leyti, þegar slökkviliðið og lögreglan komu á vettvang nokkrum mínútum síðar.  Lauk slökkviliðið slökkvistarfi kl. 13:44 (dskj. 3).  Ekki liggur ljóst fyrir hvað olli brunanum, en starfsmenn gátu sér þess til, að einhver gufa af þynninum kynni að hafa leynst í vinnugöllum í skúrnum eða í verkstæðisrýminu og neisti frá logsuðutækinu kveikt í gufunni.  Ekki var að sjá brunaferil á verkstæðisgólfinu (dskj. 3, ljósm. bls.10).  Hefur því ekki kviknað í málningu eða þynni á gólfinu.

Sagt er að sex starfsmenn, þar á meðal Björgvin verkstjóri og stefnandi, hafi verið fluttir á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna reykeitrunar.  Hafi þeir náð sér allir að fullu nema stefnandi, sem var veikur fyrir í lungum.

Í bréfi frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur til Gerðar Jónsdóttur, læknis við heilsugæslustöðina Efra–Breiðholti, dags. 16. júlí 1999, er greint frá því m.a. að stefnandi hafi komið á bráðamóttöku vegna gruns um reykeitrun 24. júní 1999.  Hafi hann kvartað um andþyngsli og verið greindur með „T58-Carbon monxide inhalation“.  Þá segir að vegna sögu um lungnasjúkdóm hafi verið ákveðið að hann yrði undir eftirliti yfir nótt á gæsludeild og hafi hann síðan útskrifast að morgni næsta dags við ágæta líðan.

Eftir slysið greinir stefnandi frá því að hann hafi þurft að leita mjög oft til lækna, ýmist á Landspítala eða annars staðar, vegna aukinna asthmakasta, þyngsla fyrir brjósti, mikillar mæði við áreynslu, nefstíflur og minnkað bragð- og lyktarskyn.  Hafi hann m.a. verið í eftirliti og meðferð hjá Steini Jónssyni, lækni og dósent í lyflækningum og lungnasjúkdómum.  Í læknisfræðilegri álitsgerð Steins, dags. 17. maí 2005, komist hann að þeirri niðurstöðu „að reykeitrunarslysið hafi komið af stað hjá stefnanda hratt versnandi langvinnum teppusjúkdómi í lungum sem hefur orsakað verulega skerðingu á starfsgetu og lífsgæðum“.

Með matsbeiðni, dags. 16. ágúst 2005, óskuðu stefndi og lögmaður stefnanda eftir að metnar væru afleiðingar vinnuslyssins.  Í matsgerð frá Gísla Ólafssyni og Ragnari Jónssyni læknum, dags. 27. nóvember 2005, kemur m.a. fram að örorka stefnanda vegna lungnasjúkdóms og afleiðinga hans, þ.m.t. beinþynning sé nálægt 50%.  Þeir meta áhrif slyssins til 35% örorku, en að hluta örorku stefnanda megi rekja til annarra þátta, s.s. reykinga og undirliggjandi lungnasjúkdóms.  Þá er miski stefnanda metinn 20%.

Með bréfi, dags. 28. desember 2005 til réttargæslustefnda, óskaði lögmaður stefnanda eftir því að réttargæslustefndi tæki afstöðu til bótaskyldu vegna slyssins úr ábyrgðartryggingu stefnda.  Með bréfi, dags. 26. janúar 2006, lýsti réttargæslustefndi því yfir að bótaskylda væri ekki fyrir hendi úr ábyrgðartryggingu J. Hinrikssonar hf. með þeim rökum, að starfsmenn hefðu brugðist við á eðlilegan hátt þegar málningin helltist niður, og þeir hreinsuðu upp þynninn og fóru ekki að vinna á svæðinu fyrr en að góðum tíma liðnum.  Því verði ekki séð að háttsemi starfsmanna hafi verið þannig að vinnuveitandi væri skaðabótaskyldur.

Með gjafsóknarleyfi, dags. 11. september 2006, var stefnanda veitt gjafsókn til að höfða mál þetta fyrir héraðsdómi.

Stefnandi byggir á því að um vinnuslysið hafi verið að ræða er orðið hefði vegna þess að þynnir, sem notaður var til að hreinsa upp „niðurhellta málningu“ var ekki nægilega vel þrifinn upp og starfsmenn fóru að logsjóða í rýminu án þess að gætt hefði verið nægilega að því að allri eldhættu hefði verið bægt frá.  Samkvæmt 4. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, eigi atvinnurekandi og/eða verkstjóri hans að stuðla að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustað.  Þegar eldurinn gaus upp hafi allir starfsmenn á staðnum fylgt verkstjóra sínum og reynt að ráða niðurlögum eldsins.  Á verkstæðinu hafi bæði verið brunaslanga og slökkvitæki til taks og hafi starfsmenn beitt þeim við slökkvistarfið.

Vísað er til þess að stefnandi hafði enga reynslu haft af slökkvistörfum.  Hann hafði ekki farið á brunavarnarnámskeið og engar reykgrímur hafi verið til staðar á verkstæðinu.  Verkstjórinn hafi þannig sett starfsmenn, og þar á meðal stefnanda, í beina og augljósa hættu, þegar ætlast var til þess af þeim að þeir reyndu að ráða niðurlögum eldsins í stað þess að forða sér út.

Bent er á að mistök, sem rakin verði til starfsmanna stefnda, hafi valdið því að eldurinn gaus upp á verkstæðinu.  Stefnandi hafi orðið að hlýða fyrirmælum yfirmanns síns, verkstjóra hjá stefnda, um að taka þátt í því að slökkva eldinn.  Stefndi ber því vinnuveitendaábyrgð á þeim skaða, sem stefnandi varð fyrir vegna mistaka starfsmanna stefnda, sbr. hina ólögfestu reglu um vinnuveitendaábyrgð í skaðabótarétti.

Greint er frá því að eftir slysið hafi stefnandi haft þrálát og versnandi einkenni teppusjúkdóms í lungum, sem lýsti sér fyrst og fremst í hósta með slímkenndum uppgangi og mæði við áreynslu og stundum í hvíld.  Stefnandi fái einnig köst nokkrum sinnum á ári, þar sem einkennin versni og fylgir þeim sýking í berkjum og efri loftvegum.  Þá segir að lungnastarfsemi stefnanda hafi versnað hraðar en búast hefði mátt við í langvinnum teppusjúkdómi, þrátt fyrir að hann hafi hætt að reykja.  Stefnandi hafi því þurft á kröftugri verkjameðferð að halda til að hafa hemil á einkennunum, bæði innúðalyfjum, sterakúrum í töfluformi og sýklalyfjum þegar það eigi við.

Vísað er til þess að í læknisfræðilegri álitsgerð Steins Jónssonar, læknis og dósents í lyflækningum og lungnasjúkdómum á Landspítala í Fossvogi, segi eftirfarandi: ,,Sigurður hefur frá slysinu haft þrálát og versnandi einkenni um teppusjúkdóm í lungum.  Einkennin eru fyrst og fremst hósti með slímkenndum uppgangi og mæði við áreynslu og stundum í hvíld.  Hann fær einnig köst nokkrum sinnum á ári þar sem einkennin versna og þeim fylgir sýking í berkjum og efri loftvegum.  Á þeim tíma sem síðan er liðinn hefur lungnastarfsemi hans versnað hraðar en búast má við í langvinnum teppusjúkdómi þó svo að hann sé nú hættur reykingum.  Fyrst var meðferðarsvörun góð og því líktist sjúkdómsástandi asthma, en á undanförnum árum hefur hann haft takmarkaða meðferðarsvörun og versnandi lungafunction.”  Þá segir svo í álitsgerðinni: ,,Það er niðurstaða mín að reykeitrunarslysið hafi komið af stað hjá honum hratt versnandi langvinnum teppusjúkdómi í lungum (J 44.1) sem hefur orsakað verulega skerðingu á starfsgetu og lífgæðum.“

Bent er á að matslæknarnir, Ragnar Jónsson og Gísli Ólafsson, hafi metið afleiðingar slyssins.  Í matsgerð þeirra, dags. 27. nóvember 2005, segi m.a. í samantekt og áliti: ,,Um er að ræða 43 ára gamlan karlmann sem verið hafði almennt hraustur nema farið var að bera á asthma bronchiale sem hafði greinst nokkrum árum áður og var hann á berkjuvíkkandi og bólgueyðandi innöndunarlyfjum og einnig sterkum lyfjum s.s. Prednisólon, og hafði verið í meðferð og eftirliti hjá heimilislækni sínum.  Hann hafði þó nokkra reykingasögu eða um 20 pakkaár fyrir slysið.  Þann 24.06.1999 lenti hann í slysi við vinnu sína hjá J. Hinriksson þar sem hann vann við logsuðu og fleira slíkt.  Það kom upp eldur nálægt þeim stað þar sem hann var að vinna en þynnir komst nærri logskurði og gaus upp mikill eldur sem fljótlega barst í vinnuskúr þar sem talsverður eldsmatur var, myndaðist strax mikill reykur sem var sérstaklega mikill þar sem Sigurður var að vinna því þar var lægra til lofts en annars staðar í vinnuskálanum.  Sigurður og fleiri starfsmenn fóru strax að reyna að slökkva eldinn og voru langt komnir með það þegar slökkviliðið kom.  Hann og 5 aðrir starfsmenn voru fluttir á slysadeild Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi vegna reykeitrunar.  Til að mæla magn reykeitrunar var mælt carboxyha-emoglobin í blóði hans og var það 1,9% við komu en efri viðmiðunarmörk eru 0,8%.  Var hann settur í tank með súrefni í yfirþrýstingi ásamt félögum sínum, ný mæling tekin eftir súrefnismeðferðina sýndi carboxyhaemoglobin 0%.  Hann var hafður yfir nótt á LHS ásamt 2 félögum sínum en útskrifaðist daginn eftir slysið.  Hann fór í sumarfrí í kjölfarið.“  Þá segir í matgerðinni að eftir slysið hafi lungnastarfsemi Sigurðar farið að versna töluvert.  Hann hafi reynt að hætta reykingum fljótlega eftir slysið en byrjað aftur nokkrum sinnum, þó verið í reykbindindi síðustu ár.  Hann hafi aftur hafið störf við suðuvinnu þegar hann kom úr sumarfríi og hafi vinnan reynst honum erfið.  Reykurinn af suðunni hafi farið mjög illa í hann og lungnastarfsemi hans virtist hafa verið farin að versna um það leiti  Að lokum segir svo í matinu: ,,Þegar lungnastafsemi Sigurðar er skoðuð með lungnaprófum þann 23.02.2005 (FVC = 2,80L – 58% of normal og FEV1 = 1,74 – 44% of normal) og borin saman við örorkustaðla Ameríska læknafélagsins AMA (sjá fylgirit).  Þá fellur hann í flokk 3 sem metinn er til 26-50% varanlegrar örorku.  Hann er með beinþynningu sem hefur ekki enn valdið örorku og má meta beinþéttnigildi hans til sem samsvarar 0-3% varanlegrar örorku en etv. hærra vegna lágs aldurs hans við greiningu beinþynningar, og er miðað við örorkustaðla Ameríska læknafélagsins. - Undirritaðir telja örorku Sigurðar vegna lungnasjúkdóms og afleiðinga hans þ.m.t. beinþynningu nálægt 50% og telja sanngjarnt að meta áhrif slyssins til 35% örorku en að hinn hluta örorkunnar megi rekja til annarra þátta ss. reykinga og undirliggjandi lungnasjúkdóms.  Undirritaðir telja að Sigurður hefði fengið asthmasjúkdóm, sem hefði að öllum líkindum versnað smátt og smátt og valdið jafn mikilli örorku og nú er, án tilkomu slyssins, en það hefði gerst síðar á ævi hans, þannig hafi hann verið veikur fyrir en slysið hafi hraðað sjúkdómsganginum og gert sjúkdóminn verri.  Litið er til þess að Sigurður er ómenntaður og á ekki auðvelt með menntun skv. upplýsingum frá hans heimilislækni sem telur hann með lesblindu, það háði honum ekki í fyrra starfi en getur háð honum talsvert við endurmenntun og við störf í framtíðinni.  Miska telja undirritaðir hæfilega metinn 20%.  Er þá miðað við fyrrnefndar miskatöflur AMA og tekið tillit til undirliggjandi lungnasjúkdóms.“

Af framangreindu telur stefnandi ljóst að matslæknarnir hafa metið varanlegan miska hans 20% og varanlega örorku 35%, samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993.

Stefnandi reisir kröfur sínar á því að hann hafi orðið fyrir verulegu líkamstjóni vegna vinnuslyssins, sem hafi orðið vegna mistaka starfsmanna stefnda hinn 24. júní 1999.  Líkamstjón hans vegna vinnuslyssins hafa verið metið til 35% varanlegrar örorku af þeim Ragnari Jónssyni og Gísla Ólafssyni.  Matið staðfesti að asthmasjúkdómur stefnanda varð svo slæmur sem raun ber vitni vegna vinnuslyssins.  Slysið hafi hraðað sjúkdómsganginum og gert sjúkdóminn verri og valdið því að stefnandi búi nú við 20% varanlegan miska og 35% varanlega örorku.

Tölulega sundurliðar stefnandi kröfu sína þannig:

 

Fjárkrafa samkvæmt skbl. nr. 50/1993:

Annað fjártjón skv. 1. gr.69.215 kr.

Þjáningabætur skv. 3. gr.(1.300*5270/3282*1 dags rúmlega)2.087 kr.

Þjáningabætur skv. 3. gr.(700*5270/3282*30 dags fótaferð)33.720 kr.

Varanlegur miski skv. 4. gr.(4.000.000*5270/3282*20/100)1.284.583 kr.

Varnaleg örorka skv. 5.-7. gr.(3.314.416*9,920*35/100)11.506.709 kr.

Mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð 6%690.403 kr.

Samtals13.586.717 kr.

 

Tímabil þjáningar var metið 1 mánuður þar af var stefnandi rúmliggjandi í 1 dag.  Varanlegur miski var metinn 20 stig (20%).  Viðmiðunarfjárhæðir þjáningabóta (700 kr. þegar tjónþoli hefur fótaferð og 1.330 kr. þegar tjónþoli er rúmliggjandi, sbr. 3. gr. skbl.) og miska ( 4.000.000 kr. skv. 4. gr. skbl., en stefnandi var yngri en 49 ára við slys) eru uppfærð miðað við breytingar á grunnvísitölu skbl. í maí 1993 (3282 stig) til þingfestingarmánaðar (febrúar 2997), sem er 5270 stig.

Varanleg örorka var metin 35%.  Tekjuviðmiðun er skv. 1. mgr. 7. gr. skbl., verðbætt skv. 2. mgr. 15. gr. skbl.  Viðmiðunartekjur eru verðbættar meðaltekjur stefnanda tekjuárin 1996-1998, skv. skattframtölum 1997-1999, miðað við breytingar á meðallaunavísitölu hvers tekjuárs til vísitölu ágústmánaðar 2004, þegar ekki var að vænta frekari bata hjá stefnanda eða stöðugleika hafði verið náð.  Nánar sundurliðast verðbættar tekjur stefnanda þannig:

Tekjur 1996 (skv. skattframtali 1997) kr. 1.919.632*252 stig (vísitala 08.2004) /147,8 stig (meðallaunavt. 1996) eða verðbættar tekjur ársins 1996 kr. 3.272.986,-

Tekjur 1997 (skv. skattframtali 1998) kr. 1.984.866*252 stig (vísitala 08.2004) /155,8 stig (meðallaunavt. 1997) eða verðbættar tekjur ársins 1997 kr. 3.210.438,-.

Tekjur 1998 (skv. skattframtali 1999) kr. 2.339.500*252 stig (vísitala 08.2004) /170,4 stig (meðallaunavt. 1998) eða verðbættar tekjur ársins 1998 kr. 3.459.824,-.

Verðbættar meðaltekjur tekjuáranna 1996-1998 nema þannig 3.314.416 kr. (3.272.986 + 3.210.438 + 3.459.824 / 3).

Tjónþoli var 42 ára og 257 daga að aldri þegar stöðugleika var náð þann 24. ágúst 2004 og því verður stuðull til margföldunar skv. 6. gr. skbl. 9,920, (10,083-(10,083-9,851)*257/365).

Vaxta skv. skbl. 50/1993 er krafist í fjögur ár aftur í tímann frá þingfestingardegi af þjáningar- og miskatjóni, en frá stöðugleikapunkti 24.08/2004 af varanlegri örorku og lífeyrissjóðsframlagi vinnuveitanda, og áfram til 22. mars 2007, en þá er krafist dráttarvaxta af stefnufjárhæðinni eða frá því að mánuður er liðinn frá því stefndi fékk sannanlega vitneskju um kröfuna, sbr. lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og er miðað við að sú vitneskja hafi átt sér stað á þingfestingardegi.

Stefndi byggir á því að bótaábyrgð á tjóni stefnanda fari eftir sakarreglunni.  Ekki sé sannað að starfsmenn J. Hinrikssonar hf. eigi sök á umræddu tjóni stefnanda.  Ósannað sé að starfsmenn J. Hinrikssonar hf. hafi brotið lög eða reglur um hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og slysið megi rekja til þess.  Þó að starfsmaður hafi misst málningu á verkstæðisgólfið við vinnu sína séu það ekki saknæm mistök heldur eins og hvert annað óhapp.

Vísað er til þess að málningin hafi verið hreinsuð upp með þynni og gólfið skolað með heitu og köldu vatni á eftir.  Vatnið hafi síðan verið látið renna á gólfinu í eina og hálfa klukkustund.  Um saknæma óvandvirkni hafi því ekki verið að ræða, enda hafi heldur ekki sést neinn brunaferill á verkstæðisgólfinu (dskj. 3, ljósm. bls 10), sem þýði að engar leifar af þynni eða málningu hafi verið skildar þar eftir, þegar starfsmennirnir hreinsuðu upp málninguna.

Reist er á því að hvorki hafi verið óvarlegt né saknæmt af verkstjóranum að hefja logskurð á umræddum toghleralás þremur klukkustundum eftir að málningin helltist niður og margsinnis var búið að skola gólfið með heitu og köldu vatni og vatn síðan látið renna yfir gólfið í samfellt eina og hálfa klukkustund.  Verði ekki séð að skylt hafi verið að grípa til einhverra frekari ráðstafana.

Byggt er á því að staðhæfing stefnanda, um að verkstjórinn hafi gefið honum fyrirmæli um að slökkva eldinn, sé röng.  Hið rétta sé að verkstjórinn hafi hvorki gefið stefnanda né öðrum starfsmönnum nein slík fyrirmæli.  Hins vegar hafi verkstjórinn hlaupið í símann til að hringja á slökkviliðið strax og eldurinn gaus upp.

Vísað er til þess að haft hafi verið eftir stefnanda í matsgerð ( dskj. nr. 15, bls. 5) að stefnandi og fleiri starfsmenn hefðu strax rokið til og farið að slökkva eldinn, þegar eldurinn kviknaði.  Það hefðu nánast verið ósjálfráð viðbrögð.  Ef þetta gerðist í dag myndi hann strax hlaupa út, en ekki fara að berjast við eldinn.  Þannig sé ljóst að stefnandi, sjálfviljugur og án fyrirmæla, setti sig í hættu af reyknum.  Ekkert hefði bannað honum að hlaupa strax út úr verkstæðishúsinu.

Hefði verkstjórinn í raun gefið starfsmönnum fyrirmæli um að slökkva eldinn, er staðhæft, að slík fyrirmæli verkstjóra hefðu ekki verið saknæm.

Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann hafi, hinn 24. júní 1999, verið staddur í eldri hluta hússins á verkstæðinu að Súðarvogi 4 á tali við mann, þegar þeir heyrðu að kallað var „eldur eldur“.  Hafi þeir hlaupið til og mannskapur þá verið kominn til að ráða niðurlögum eldsins.  Hafi hann þá rokið til að hjálpa við það.  Hafi hann tekið aðra brunslönguna og sprautaði á vegginn sem var fyrir ofan logann þar sem rafmagnstaflan fyrir húsið var á bak við og þar sem sjóminjasafnið og kaffistofan var staðsett.  Hafi hann kælt þann vegg.  Hafi hann talið að færi svo að eldurinn kæmist þangað yrði hann illviðráðanlegur.  Hann sagði að fimm eða sex menn hefðu unnið að slökkvistarfinu.  Ekki hefði langur tími liðið þar til slökkvilið hefði komið á staðinn, en þá hefði nánast verið lokið við að slökkva eldinn.

Spurt var hvar yfirmaður hans hefði verið staddur þegar á slökkvistarfinu stóð.  Stefnandi sagði að hann hefði verið með þeim þarna.

Stefnandi sagði að á staðnum hafi verið nokkrar brunaslöngur og nokkur slökkvitæki.  Hann sagði að starfsmönnum hefði ekki verið kennt á þessi slökkvitæki.  Þá hafi starfsmönnum ekki verið leiðbeint hvernig þeir ættu að bregðast við ef eldur brytist út.

Björgvin Bjarnason gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann hefði verið aðstoðarverkstjóri hjá J. Hinriksson hf. þegar umræddur bruni varð.  Hann sagði að aðdragandi brunans hafi verið sá að þynnir hefði helst niður en ekki málning.  Málning hefði ekki komið að sök.  Ef málning hefði helst niður hefði hún bara verið skafin upp.  Hann sagði að þynninum hefði verið skolað niður með vatni.

Björgvin kvaðst hafa verið upp í verkstjórakompu þegar eldurinn kviknaði.  Hann hafi litið út um glugga hjá sér og séð reykjarslæðu og hlaupið út.  Samtímis hefði hann mætt manni sem hefði ætlað að láta hann vita að eldur hefði kviknað.  Þegar hann kom fyrir hornið á byggingunni þá hafi hann séð eldinn og hringt í slökkviliðið.  Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði síðan hlaupið inn á skrifstofu og látið þá vita að kviknað hefði í eða hvort hann fór beint í slökkvistörfin.

Björgvin kveðst ekki hafa „sett menn í slökkvistarf“, starfsmenn hefðu verið þarna og gripið það sem var hendi næst til að slökkva eldinn.  Hann kvaðst ekki muna hvort menn hefðu verið byrjaðir að slökkva eldinn, þegar hann kom þarna að.  Vel megi vera að einhver hefði verið búinn að sprauta úr slökkvitæki eða byrjaður að gera eitthvað annað til að slökkva eldinn.  Hann sagði að þeir hefðu verið búnir að ráða niðurlögum eldsins þegar slökkvilið kom.

Vísað var til skýrslu Eiríks Beck rannsóknarlögreglumanns um brunann, en skýrslan er hluti af dskj. nr. 3.  Björgvin kvaðst hafa verið uppi í verkstjórakompu sinni þegar eldurinn kviknaði.  Hann taldi að lögreglumaðurinn hefði misritað ‘Björgvin’ fyrir ‘Benedikt’ en Benedikt [Sveinsson] hafi verið að vinna þarna niðri en ekki hann.

Björgvin kvaðst hvorki hafa hvatt menn til að verið inni við að slökkva eldinn né til að fara út.

Jens Oddsteinn Pálsson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann var starfsmaður hjá J. Hinriksson hf. þegar bruninn varð á verkstæðinu 24. júní 1999.  Hann sagði m.a. að það fyrsta sem hann hefði orðið var við varðandi brunann hafi verið að kallað var „eldur eldur“.  Hafi hann þá hætt því, sem hann var að gera, rokið til og reynt að hjálpa til við að slökkva eldinn.  Hann kvaðst hafa verið staddur hinum megin í húsinu þegar eldurinn braust út.  Einhver hefði kallað „náið í slökkvitækin og slöngurnar“.  Hafi þeir farið strax í það og byrjað svo að sprauta á eldinn með því sem þeir höfðu.  Hann kvaðst ekki muna hvar verkstjórinn var staddur en allir hefðu verið að reyna að gera sitt besta.  Þeir, sem ekki komust að og höfðu því ekkert að gera, hefðu farið út.

Ragnar Már Pétursson gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann var starfsmaður hjá J. Hinriksson hf. þegar bruninn varð á verkstæðinu 24. júní 1999.  Hann sagði m.a. að hann hefði verið inni á miðju gólfi við vinnu þegar eldurinn braust út.  Hann hefði ekki séð þegar hann kviknaði.  Hann kvaðst ekki vita hvers vegna eldurinn blossaði upp.  Hann hafi heyrt að einhver kallaði ‘eldur’ og litið til hliðar og séð eldinn.  Hafa hann þá farið til og leitað að einhverju til að slökkva með.  Engar fyrirskipanir hefðu verið gefnar; menn hefðu bara gengið í að reyna að slökkva eldinn.  Hann kvaðst ekki hafa séð hvar verkstjórinn var staddur.  Hann kvaðst hafa verið mjög stutt þarna inni, fljótlega farið út.  Hendur hans hefðu roðnað við slökkvistarfið og hann farið út til að skaðast ekki meira.  Hann hafi verið án vettlinga og hitinn frá eldinum haft þessi áhrif.

Ályktunarorð:

Ekki liggur ljóst fyrir hvers vegna eldur varð laus á verkstæði J. Hinrikssonar hf. hinn 24. júní 1999.  Samkvæmt skýrslu lögreglunnar var tilkynnt um eldinn til slökkviliðsins klukkan 13:35 og tilkynnt að slökkvistarfi væri lokið klukkan 13:44 umræddan dag.  Er þetta gerðist var stefnandi ekki lokaður inni í húsinu.  Hann var ekki í hættu að verða eldinum að bráð.  Aðdragandi og orsök þess að eldur kviknaði eru því ekki gildar forsendur ætlaðrar bótaskyldu stefnda á heilsutjóni, er stefnandi líður fyrir sökum reykeitrunar, er hann fékk við að slökkva eldinn.  Áhætta stefnanda fólst í veru hans í byggingunni við slökkvistarf eftir að eldur var laus.  Úrlausnarefnið er því hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð eða ekki á því að stefnandi vann við að slökkva eldinn.

Ekki liggur annað fyrir í málinu en að stefnandi hafi ákveðið það sjálfur að taka þátt í að slökkva eldinn.  Sjálfur hafði hann réttmæta ástæðu, vegna asthmasjúkdóms sem hann var haldinn, til að forða sér þegar í stað frá reykjarsvælu af völdum eldsins.  Staðlaust er með öllu að verkstjóri eða vinnuveitandi stefnanda hafi með beinum eða óbeinum hætti ætlast til þátttöku hans við að slökkva eldinn.

Samkvæmt framangreindu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

Með vísun til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, sem hæfileg þykir 249.000 krónur.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Hampiðjan hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Sigurðar Ingvarssonar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, 249.000 krónur.