Hæstiréttur íslands

Mál nr. 249/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 10

 

Miðvikudaginn 10. maí 2006.

Nr. 249/2006.

Sýslumaðurinn í Kópavogi

(Þorleifur Pálsson sýslumaður)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. maí 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 7. júní 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en kveðst ekki gera athugasemd við að verða gert að sæta nálgunarbanni gagnvart föður sínum.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. maí 2006.

Sýslumaðurinn á Kópavogi hefur í dag krafist þess að kærði, X, [kt. og heimilisfang], sem grunaður er um brot gegn 164. gr. og 1. sbr. 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16.00 mánudaginn 7. júní 2006 á grundvelli c og d liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991.

Í greinargerð sýslumanns segir að lögreglan í Kópavogi hafi verið kvödd að A um kl. 03.00 í morgun vegna eldsvoða í bifreiðum á bifreiðastæði hússins.  Er lögregla mætti á vettvang logaði mikill eldur í bifreiðinni B, sem er í eigu föður kærða.  Eldurinn barst síðan í tvær nærliggjandi bifreiðar.  Slökkvilið réði niðurlögum eldsins, en bifreiðarnar virðast allar ónýtar eftir brunann.  Vegna fyrri afskipta lögreglu af kærða lék grunur á um að kærði hefði átt þátt í bruna bifreiðanna og var hann handtekinn á heimili sínu nú í morgun.  Hefur kærði nú gengist við því að hafa lagt eld að bifreiðinni B, með því að brjóta hliðarrúðu hennar og kasta inn í hana logandi handklæði.  Þá leikur jafnframt grunur á um að kærði hafi í umrætt sinn gerst sekur um ölvunarakstur. Hefur hann ekki getað gefið neina skýringu á þessari háttsemi aðra en þá, að hann hafi verið föður sínum reiður þar sem hann sé sífellt að skipta sér af hans málum. (....)

Hjá lögreglunni er þegar til meðferðar mál nr. [...], er varðar ætlað brot kærða gegn 164. gr. almennra hegningarlaga nr 19, 1940.  Hefur kærði í því máli gengist við því að hafa þann 9. janúar sl. borið eld að blaðabunka í stofu íbúðar foreldra sinna að A.  Varð af íkveikjunni talsverður eldsvoði, sem olli almannahættu, verulegu eignatjóni á íbúðinni og innanstokksmunum hennar, og hættu á enn frekara tjóni hefði eldurinn náð frekari útbreiðslu, en hann var slökktur af slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.  Hefur kærði ekki gefið aðrar skýringu á íkveikjunni en þá að hann hafi reiðst föður sínum fyrir að reyna að koma honum í meðferð. (...)

Verknaðir kærða og rannsóknargögn málanna þykja gefa tilefni til að fram fari sérstök rannsókn á andlegum högum kærða samkvæmt d-lið 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19, 1991.  Hefur kærði fallist á að sæta geðrannsókn og gæti hún því farið fram á gæsluvarðhaldstímanum.

Kærði hefur frá árinu 1997 sjö sinnum gengist undir refsingu vegna brota gegn umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og almennum hegningarlögum.  Síðast hlaut kærði dóm í héraðsdómi Reykjaness þann 7. desember sl. vegna hótana gagnvart barnsmóður sinni.

Svo sem rakið hefur verið hefur kærði nú tvívegis, á tiltölulega stuttum tíma eða frá síðastliðnum áramótum, lagt eld að eignum foreldra sinna í og við A.  Kærði hefur með því valdið umtalsverðum eignaspjöllum á íbúð þeirra og bifreið, almannahættu og hættu á enn frekari spjöllum ef eldurinn hefði náð frekari útbreiðslu en raun varð á.  Teljast ætluð brot kærða varða við 164. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.  Megi vænta ákæru í málunum innan tíðar, en ætluð brot kærða geti varðað hann fangelsisrefsingu sannist sök hans.

Í gögnum málanna komi  fram að kærði eigi við fíkniefnavanda að etja og hafi tvívegis lagst inn á geðdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss vegna hans.  Honum hafi ekki tekist að vinna bug á fíkn sinni og noti ekki lyf samkvæmt læknisráði.  Þá þykja rannsóknargögn málanna benda til að kærði sé nokkuð hvatvís og reiðigjarn og taki reiði sína einkum út á föður sínum, með saknæmum og stórhættulegum afleiðingum.

Með hliðsjón af framangreindu þykir mega ætla að kærði haldi áfram sambærilegum brotum, sem beinast gegn hagsmunum foreldra hans, á meðan málum hans er ekki lokið, en þeim telst ekki lokið í skilningi c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, fyrr en dómur hefur verið kveðinn upp í þeim, sbr. 106. gr. sömu laga.  Þykir því sérstök ástæða til að koma í veg fyrir frekari sambærileg brot kærða og vernda hagsmuni foreldra hans gegn þeim.

Við fyrirtöku málsins í dag mótmælti kærði gæsluvarðhaldskröfunni.

Þrátt fyrir að íkveikjur kærða beinist fyrst og fremst gegn föður hans og sé ætlað að hafa áhrif á hann um að hætta afskiptum af kærða, verður að telja að af þessum íkveikjum hafi stafað almannahætta og kærði með þeim valdið töluvert miklum eignarspjöllum og þegar virt er að kærði er í andlegu ójafnvægi og ber mikinn heiftarhug til föður síns, verður ekki talið að nálgunarbann nægi til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot kærða eins og verjandi hans heldur fram. Fallist er á þau sjónarmið rannsóknara, að þegar litið sé til þess hve stuttur tími líði milli íkveikjanna og andlegs ástands kærða sé hætta á að kærði muni grípa til álíka aðgerða, sem eru með þeim hætti, að ekki eru einungis í hættu hagsmunir foreldra hans.

Það þykir því í ljósi þess, sem á undan er gengið vera skilyrði til þess, að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, til að koma í veg fyrir að hann haldi áfram brotastarfsemi meðan málum hans er enn ólokið og verður tíminn til 7. júní nk. að teljast hæfilegur til þess að fá lyktir í málið miðað við að kærður hefur játað brot sín greiðlega.  Hins vegar er ekki talið að d- liður 1. mgr. 103. gr. laganna eigi hér við, þar sem hér er ekki um að ræða beinar árásir, sem beinast að persónum manna.

Samkvæmt framangreindu er fallist á kröfu rannsóknara og skal kærði sæta gæsluvarðhaldi umkrafinn tíma og sæta geðrannsókn á þeim tíma eins og hann hefur samþykkt.    

Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

      Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 7. júní 2006, kl. 16:00.