Hæstiréttur íslands

Mál nr. 410/2002


Lykilorð

  • Börn
  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. febrúar 2003.

Nr. 410/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Börn. Kynferðisbrot. Miskabætur.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur barnabörnum sínum. Í héraðsdómi var framburður X talinn mjög ótrúverðugur en barnabarnanna trúverðugur. Var hann því fundinn sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök og gerð refsing fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var niðurstaða héraðsdóms um tveggja ára fangelsi og greiðslu miskabóta staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 2002 eftir ósk ákærða en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu, þyngingar refsingar og að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta, annars vegar til Y, 1.000.000 krónur, en hins vegar til Z, 2.000.000 krónur, með dráttarvöxtum eins og krafist var í ákæru.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds og frávísunar á miskabótakröfum. Til vara krefst hann þess að refsing verði verulega milduð og skilorðsbundin og miskabótakröfur lækkaðar.

Lögð hafa verið fram tvö ný skjöl fyrir Hæstarétt. Er annars vegar um að ræða bréf Stígamóta vegna Y 3. febrúar 2003. Segir þar að hún hafi fyrst komið í viðtal 6. júlí 2000 og síðan með hléum til haustsins 2002, en hafi verið í viðtölum nær vikulega síðan. Sjálfsmat hennar sé mjög lágt og hún finni til mikillar skammar og sektarkenndar. Eigi hún erfitt með að treysta fólki. Fyrirverði hún sig fyrir það ofbeldi sem afi hennar hafi beitt hana og upplifi sig sem óhreina og verri en annað fólk.

Hins vegar hefur verið lagt fram bréf Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings og forstöðumanns Barnahúss 15. janúar 2002 um fjögur viðtöl hennar við Z á tímabilinu 22. nóvember 2002 til 14. janúar 2003. Í því kemur meðal annars fram, að telpan hafi lýst mjög slæmri líðan sinni fyrstu vikurnar eftir atvik þau, sem um ræðir í málinu, og hafi hún verið hrædd og hissa á hegðan afa síns. Þrátt fyrir hugleiðingar telpunnar varð ekki heyrt að hún hefði sektarkennd vegna atvikanna eins og títt er um börn, sem sætt hafa kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Fram hefði komið hjá henni söknuður vegna þess að hún gæti ekki haft sama samband og fyrr við ömmu sína. Hún hafi sagt að hún gerði sér far um að gleyma þessum atvikum, en henni hafi ekki tekist það fyllilega þótt hún hugsi minna um það en fyrr. Að sögn móður hafi ekki orðið vart hegðunarbreytinga hjá telpunni eftir atvikin og í viðtölunum hafi ekki komið fram vísbendingar um slíkt.  Algengt sé að börn, sem sæti kynferðislegri áreitni eða ofbeldi finni fyrir vanlíðan og fái áhyggjur í tengslum við kynþroskaaldur. Telpan kunni því að hafa þörf fyrir fræðslu og hugsanlega viðtalsmeðferð síðar vegna atvikanna.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um sakfellingu og refsingu ákærða staðfest, sbr. og 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með síðari breytingum.

Þegar litið er til nýframlagðra gagna og þeirra atriða, sem rakin eru í héraðsdómi, verður staðfest niðurstaða hans um miskabætur, þó þannig að dráttarvextir af fjárhæðum skulu reiknaðir frá 9. nóvember 2001, en þá var mánuður liðinn frá því að ákærða voru birtar bótakröfur.

Staðfest er ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað sakarinnar, eins og nánar segir í dómsorði.

                                                         Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að miskabætur skulu bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. nóvember 2001 til greiðsludags.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns beggja brotaþola, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2002.

Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 17. desember 2001, „á hendur X, fyrir kynferðisbrot framin á heimili ákærða að [...], nema annað sé tekið fram:

I

Gegn sonardóttur sinni Y fæddri 1983 með því að hafa:

1)            Í byrjun janúar 1992 káfað á brjóstum hennar innan klæða.

2)            Á annan dag jóla 1998, þegar stúlkan var 15 ára, káfað á brjóstum hennar utan klæða. 

Telst þetta varða við 2. mgr. 200 gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 8. gr. laga nr. 40, 1992 og þágildandi ákvæði 209 gr. almennra hegningarlaga hvað varðar ákærulið I/1.

II

Gegn dótturdóttur sinni Z fæddri 1992 með því að hafa þriðjudaginn 10. júlí 2001 sleikt maga og kynfæri stúlkunnar og sett fingur inn í kynfæri hennar og að hafa síðar sama dag, í íbúð sonar ákærða að [...], sett lim sinn í kynfæri stúlkunnar eða að þeim.

Telst þetta varða við 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202 gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 8. gr. og 10. gr. laga nr. 40, 1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.” 

Gerðar eru tvær bótakröfur: 

Y krefst miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000 með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. desember 1999 til 9. nóvember 2001, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. 

Z krefst miskabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 með vöxtum frá 11. júlí 2001 til 9. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. 

Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara að honum verði gerð vægasta refsing er lög leyfa.  Hann krefst sýknu af bótakröfum, til vara að þær verði lækkaðar verulega. 

Ákæruliður I, 1 og 2.

Hér er fjallað um meint brot ákærða gegn sonardóttur sinni, Y, sem er fædd 1983.  Fyrra brotið á að hafa verið framið í byrjun janúar 1992, er Y gisti hjá ákærða og ömmu sinni.  Í kæruskýrslu hjá lögreglu, 23. júlí 2001, segir Y að þetta hafi gerst er hún var 9 ára gömul. 

Ákærði neitar sök.  Hann segir að ásakanir Y séu uppspuni og að fyrir henni vaki fjárkúgun.  Þá segir hann að þessi atburður geti ekki hafa átt sér stað í hornsófa, það hafi komið þarna hornsófi í júlí 1992, en enginn hornsófi hafi verið þarna áður.  Aðspurður neitaði hann að þetta hafi gerst, líka eftir að hornsófinn var kominn. 

Um síðara tilvikið margítrekaði ákærði að jólaboðin heima hjá honum hefðu alltaf verið á jóladag, en ekki á annan í jólum.  Frásögn Y um þetta sé líka tilbúningur og tilraun til fjárkúgunar. 

Fyrir dómi sagði Y að hún hefði sofnað í sófanum heima hjá ákærða og ömmu sinni.  Þetta hafi verið er hún var 9 ára gömul, að vetri til, fljótlega eftir jól.  Hún hafi sofnað í sófanum sem var þá í stofunni, hún kvaðst ekki muna eftir neinum öðrum sófa á þessum stað en hornsófanum.  Hún hafi verið í hvítri peysu.  Hún hafi vaknað við að afi hennar var með hendina inni í hálsmálinu á henni og á brjósum hennar.  Hún hafi stokkið upp og hafi rispast á milli brjóstanna af nöglunum á honum.  Hún hafi rokið út á peysunni og beðið þangað til hún sá að amma hennar var komin heim. 

Síðara tilvikið sagði Y að hefði gerst í jólaboði sem afi hennar og amma héldu alltaf.  Hún hefði komist að því eftir að hún gaf skýrslu hjá lögreglu að þau hefðu alltaf haldið slík boð á jóladag, en ekki annan í jólum, eins og hún hafði haldið.  Þetta hafi gerst þegar hún var 15 ára gömul.  Hún hafi verið að hjálpa ömmu sinni að taka af borðinu og þá hafi hún og ákærði verið tvö ein í eldhúsinu.  Hann hafi þá gripið utan um brjóstin á henni og sagt:  Þau hafa stækkað síðan síðast.  Hún hafi verið í bláum kínakjól, fermingarkjólnum sínum.  Y sagði að fram að þessu hafi hún og bróðir hennar alltaf suðað um að fá að gista hjá afa sínum og ömmu, en í umrætt skipti hafi hún ekki viljað það og farið heim með foreldrum sínum. 

Y sagði að eftir þessi áramót hafi foreldrar hennar sagt henni að þau ætluðu að skilja.  Það hafi verið henni aukið áfall.  Hún sagðist þá hafa verið í heimavistarskóla.  Henni hafi byrjað að ganga erfiðlega í námi í 7. bekk og alveg hætt að læra í 8. og 9. bekk.  Hún hafi misst áhuga á öllu, líka hætt að stunda íþróttir.  Vildi hún tengja þetta fyrra atvikinu hjá afa sínum.  Bætti hún við að hún hefði farið að missa stjórn á skapi sínu, rifist við móður sína og byrjað að drekka áfengi og neyta eiturlyfja.  Kvaðst hún hafa reynt sjálfsvíg. 

Y kvaðst hafa sagt systur sinni frá fyrra atvikinu fljótlega eftir að hún kláraði 10. bekk.  Þá hefði hún sagt geðlækni sem hún fór til frá þessu.  Móðir hennar hefði spurt hana beint hvort hún hefði orðið fyrir misnotkun.  Loks hefði hún sagt mömmu sinni frá þessu rétt áður en hún kærði.  Móðir hennar hefði þá kallað föður hennar til og sagt honum frá.

Aðspurð kvaðst hún ekki geta nefnt nein önnur áföll í lífi sínu.  Hún sagði að sig dreymdi þessi atvik og þau komi sífellt upp í huga hennar.  Hún væri nú í sambúð og ætti von á barni.  Þau væru bæði í [...]. 

Lögð var fram greinargerð Guðfinns P. Sigurfinnssonar, geðlæknis, dagsett 30. júlí 2001, þar sem hann lýsir Y.

[...]

Guðfinnur P. Sigurfinnsson kom fyrir dóm og staðfesti þessa greinargerð sína.  Hann kvaðst hafa hitt Y sjö eða átta sinnum á tímabilinu frá 20. júní 2001 fram í janúar 2002.  Taldi hann að kynferðislegt ofbeldi hefði verið stærsti þátturinn í því álagi sem hún hefur orðið fyrir í lífinu, fremur en annað álag og vonbrigði.  Taldi hann það geta átt sínar skýringar að þessi áreitni ákærða hafi haft mjög mikil áhrif á hana.  Sagði hann það þekkt að fólk sem hefði orðið fyrir ýmsum áföllum í lífinu yrði síðar fyrir einhverju sem fyllti mælinn.  Þá sagði hann einnig vel þekkt að sá sem yrði fyrir einhvers konar áreiti af hendi manns þætti það ekki í frásögur færandi fyrr en hann vissi eitthvað meira um árásarmanninn, vissi að hann væri varhugaverðari en viðkomandi hafði gert sér grein fyrir. 

A, faðir Y og sonur ákærða, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hann staðfesti að F, fyrrverandi eiginkona sin og móðir Y, hefði hringt í sig og beðið sig að koma og ræða við þær mæðgur í júlí í fyrra.  Hann hefði ekki komist fyrr en um nóttina og þá hefði Y sagt honum að hún hefði verið misnotuð.  Hún hefði sagt að það hefði verið tvisvar, fyrst þegar hún var á milli níu og tíu ára og síðan í kringum jólin 1998.  Hann sagði að það hefðu orðið miklar breytingar á Y frá því hún var barn.  Það hafi fyrst og fremst verið skapofsi.  Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hvenær þessar breytingar hafi orðið. 

A sagði að það hefði raunverulega ekki komið sér á óvart þegar hún sakaði föður hans, ákærða, um kynferðisbrot.  Hann hafi verið farinn að gruna eitthvað í þessa veru, einkum út af hegðun ákærða.  Hafi það einkum verið talsmáti hans sem vakti þessar grunsemdir. 

F, sem er móðir Y og fyrrverandi tengdadóttir ákærða, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hún lýsti dóttur sinn svo að hún hefði verið glaðlynd og kát sem barn og stundað íþróttir af kappi.  Um 9 til 10 ára aldur hafi skapgerð hennar byrjað að breytast og hún farið að verða uppstökk.  Þetta hafi ágerst stöðugt og er Y var orðin 16 ára hafi þær leitað til félagsráðgjafa.  Það hafi ekki borið árangur og því hafi verið leitað til geðlæknis.  Þá hafi hún stundað íþróttirnar illa, skipt oft um vinnu og vini og verið erfið í samskiptum. 

F kvaðst ekki hafa áttað sig á ástæðum þessa fyrr hún sá að margt í fari Y minnti hana á hvernig hún hefði sjálf verið, en hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku.  Því hafi hún spurt hana beint að því hvort hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun.  Y hefði brugðist mjög illa við fyrst og spurt hver hefði sagt það.  Síðan hefði hún sagt sér frá því.  Hún hefði ekki sagt nákvæmlega frá.  Þær hefðu hringt í A, föður Y, og hann komið til þeirra um nóttina.  F kvaðst hafa gert það fyrir Y að segja A frá þessu.  Hann hefði þá lýst því að hann ætlaði að fara til mömmu sinnar og systur daginn eftir.  Hann hafði sagt að það gæti verið að frænka Y hafi orðið fyrir einhverju líka. 

F sagði að Y hefði tvisvar sinnum reynt sjálfsvíg og verið lögð inn á sjúkrahús og inn á geðdeild í framhaldi af því.  Þetta samtal þeirra hefði verið skömmu eftir að hún fór inn á sjúkrahús í júlí í fyrra. 

D, systir Y, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hún kvaðst hafa búið [...].  Y hefði hringt í hana og þær rætt saman, þegar systir hennar hefði rifist heiftarlega við móður þeirra og flutt til vinkonu sinnar. D kvaðst þá hafa spurt Y hvers vegna hún færi ekki til ákærða og ömmu þeirra.  Þá hafi Y svarað:  “Til hvers, svo afi geti nauðgað mér?”  Y hafi þá sagt sér að ákærði hefði einhvern tíma leitað á hana.  Hún hefði vaknað upp við það að hann leitaði á hana.  Þær hafi ekki rætt það nánar í þetta sinn.  Það hafi verið nokkru fyrir páskana 2001 sem Y sagði henni frá þessu. 

Nánar kvaðst D vita að Y hefði farið út og ekki komið þar aftur fyrr en amma þeirra var komin heim.  Y hefði beðið sig að segja ekki frá þessu og hafi hún virt það þangað til Y hafði sjálf kært atvikið.

D lýsti því áliti sínu að þetta atvik gæti verið undirrótin að vandamálum Y.  Hún hafi byrjað snemma að reykja og drekka og einnig notað sterkari efni.  Hún hafi verið mjög þunglynd. 

Ákæruliður II. 

Ákærði neitar sök samkvæmt þessum lið.  Hann segir að Z hafi gist hjá honum og ömmu sinni þessa nótt.  Hún hafi verið á dýnu á gólfinu í svefnherbergi þeirra hjóna.  Z hafi komið upp í rúmið og þau kítlað hvort annað.  Hann kveðst hafa blásið á magann á henni, ekki kysst hana eða sleikt og ekki komið við kynfæri hennar.  Hún hafi verið í topp og nærbuxum og buxum.  Hann kvaðst ekkert hafa átt við buxur hennar eða nærbuxur, það geti verið að hann hafi ýtt toppnum eitthvað upp.  Hann sagði að þau hafi verið að gantast, þetta hafi verið leikur hjá þeim.  Í fyrstu skýrslu ákærða hjá lögreglu, að viðstöddum verjanda, er haft eftir honum að hann hafi farið að kyssa á henni magann, geirvörturnar, einn hafi hann kysst hana efst.  Nánar aðspurður segist ákærði hafa kysst efst á kynfæri hennar, eða þar sem hárin eigi að koma á kynfærum hennar. 

Nánar aðspurður neitaði ákærði að hafa beðið Z að koma upp í rúmið.  Eftir að þau hafi verið komin á fætur hafi Z spurt hann hvort hann ætti pening.  Hann hafi ekki átt neitt og ætlað að fara í banka [...].  Ákærði sagði að þau hefðu farið þangað og hann tekið út þær 500 krónur sem hann átti í bankanum.  Hann hafi látið Z hafa þessa aura og hún hefði keypt sér frostpinna og sælgæti. 

Ákærði sagði rangt það sem haft var eftir A, syni hans, að hann hafi sagt að Z yrði að fara með honum í bankann til að vera honum til halds og trausts vegna veikinda hans.  Þá neitaði ákærði því sem haft var eftir E, dóttur hans, að hann hafi sagt henni það sama.  Eftir að þau komu úr bankanum hafi þau Z farið heim til hans og síðan hefði Z farið í klippingu.  Í leiðinni hafi hann litið inn í íbúð sonar síns.  Hann hafi ekki gert neitt þar, bara athugað hvort ekki væri allt í lagi.  Staldrað þar við í nokkrar mínútur. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa vökvað blómin, kona sín sæi um það.  Ítrekað aðspurður neitaði hann að hafa farið inn og afklætt Z eins og lýst er í ákæru. 

Ákærði sagði að sonur sinn, A, hefði spunnið upp söguna um þetta.  Hún væri ekki komin frá barninu.  Lýsti hann nokkru ósætti þeirra feðga. 

Z gaf skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 2. ágúst 2001.  Hún var ekki leidd á ný við aðalmeðferð, en horft var á upptöku af skýrslutökunni.  Í skýrslunni kemur fram að hún hafi gist hjá afa sínum og ömmu.  Hún hefði sofið á dýnu á gólfinu hjá ömmu sinni.  A, móðurbróðir hennar, hafi gist þarna líka.  Hann hefði sofið á sófanum í stofunni.  Hún lýsti atvikum svo að hún hefði vaknað og farið á salernið.  Síðan hefði afi hennar, ákærði í málinu, sagt henni að koma upp í rúm til sín og byrjað að sleikja hana.  Hann hafi sleikt hana alls staðar, þó ekki hendur, fætur og höfuð hennar.  Hann hefði sleikt píkuna hennar og svolítið magann, en ekki lærin.  Hún hafi verið í nærbuxum og nærbol.  Hann hafi tekið hana næstum því úr nærbuxunum.  Síðar í skýrslunni kvað hún hann hafi komið “með puttann upp í píkuna” hennar og hún hafi meitt sig svolítið.

Eftir þetta hafi þau farið í banka og ákærði hefði gefið henni pening fyrir ís.  Hún hefði keypt ís og síðan hefðu þau farið inn til frænda hennar og konu hans, sem búa í sama stigagangi.  Ákærði hefði sett hana upp á eldhúsborðið og þar hefði hann tekið sig úr stígvélum, buxunum og nærbuxunum og sett typpið á sér upp í píkuna hennar.  Hún kvaðst hafa séð hann renna frá og hafa heyrt í buxnaklaufinni.  Hún kvaðst ekki hafa séð typpið, en fundið fyrir því.  Hún hafi legið á bakinu og verið að borða ís.  Aðspurð kvaðst hún ekki hafa fundið til, nema svolítið í hjartanu, eins og hún sagði.  Ákærði hefði sagt að hún skyldi ekki segja þetta neinum. 

Eftir að þau voru komin aftur inn til ákærða hafi móðir hennar hringt.  Hún hafi viljað hjóla heim, en móðir hennar hafi sagt henni að hjóla til hárskerans þar sem átti að klippa hana.  Hún hafi hjólað þangað og beðið lengi eftir móður sinni. 

Eftir nokkra umhugsun taldi Z að þetta hefði gerst á þriðjudegi.  Er skýrslan var tekin sagði hún að það væru að minnsta kosti tvær vikur síðan.  Hún hefði ekki hitt ákærða síðan. 

Z var skoðuð af læknum á Landspítala og Barnaspítala Hringsins 12. júlí 2001.  Í bréfi læknanna, Jóns R. Kristinssonar, barnalæknis, og Þóru F. Fischer, kvensjúkdómalæknis, segir m.a.:

„ ... Ekkert er athugavert að sjá við skoðun, hvergi ytri áverkamerki.  ...  Við skoðun kvensjúkdómalæknis kemur ekkert óeðliegt fram.  [...] Þannig kemur ekkert óeðlilegt fram við læknisskoðun, en skoðun þessi útilokar þó alls ekki, að stúlkan hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.”

B, eiginkona ákærða, gaf skýrslu hjá lögreglu.  Fyrir dómi skoraðist hún undan því að gefa skýrslu. 

A, faðir Y og sonur ákærða, gaf skýrslu fyrir dómi eins og áður er getið.  Hann gisti á heimili ákærða umrædda nótt.  Hann kvaðst hafa komið heim seint um nóttina og sofið fram undir hádegi.  Hann hafi verið í stofunni.  Hann hafi farið á salernið er hann vaknaði og þá séð að Z var að koma út úr hjónaherberginu.  Ákærði hafi komið stuttu síðar.  Þá hafi E, systir hans, hringt og viljað fá Z til sín til að leika við son hennar.  Þá hafi ákærði sagt að hún gæti það ekki núna af því að hún yrði að fylgja honum í bankann.  Þetta sama kvöld hafi fyrrverandi eiginkona hans, F, hringt í sig og þau átt það samtal sem getið er í umfjöllun um fyrri lið ákæru.  Morguninn eftir hafi hann talað við systur sína, móður Z. 

C, dóttir ákærða og móðir Z, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hún sagðist fyrst hafa heyrt um meint kynferðisbrot föður síns þegar bróðir hennar hringdi í hana og vildi hitta hana.  Það hafi verið mjög snemma á miðvikudagsmorgni í júlí 2001.  A hefði þá sagt sér frá sjálfsvígstilraun dóttur hans og af kynferðislegri áreitni ákærða, föður þeirra.  Hún hefði þá hugsað til þess að dóttir hennar hafði gist hjá ákærða og ömmu sinni þessa nótt.  Er C kom úr vinnu þennan dag kveðst hún hafa rætt við dóttur sína og spurt hana um kynferðislega áreitni og útskýrt fyrir henni hvað það væri.  Hún sagði að það hefði komið svipur á dóttur hennar þegar hún spurði hvort hún hefði orðið fyrir slíku, en hún hefði svarað neitandi.  Kvaðst C þá hafa sagt við Z að hún mætti alltaf segja foreldrum sínum frá slíku, þó einhver segði henni að hún mætti ekki segja frá.  Þá hafi Z sagt sér að ákærði hefði komið við hana þegar hún gisti hjá honum að hann hafi komið við og kysst á henni brjóstin.  Hann hefði líka komið við píkuna á henni og sleikt hana alla, sleikt brjóstin og líkamann, sleikt píkuna og komið við hana með fingrunum. 

C kvaðst hafa orðið fyrir miklu áfalli við þetta og hringt í fyrrverandi sambýlismann sinn, sem hefði haft samband við Borgarspítalann og Barnaverndarnefnd. 

C kvaðst ekki hafa heyrt hjá henni fyrr en hún gaf skýrslu í héraðsdómi að ákærði hefði komið við hana með kynfærunum. 

C sagði að Z hefði verið mjög önug fyrst eftir að þetta kom upp en hún hefði róast eftir að hún gaf skýrslu.  Hún hefði þó átt það til að lenda í stympingum við eldri bróður sinn.  Annars hefði hún ekki séð miklar breytingar. 

Hún kvaðst ekki hafa tekið eftir neinu í fari Z fyrst eftir að hún kom heim.  Það hafi hins vegar komið henni á óvart þegar hún hringdi heim til ákærða að fyrst var ekki svarað og síðan hefði ákærði sagt að hann hefði orðið að taka Z með sér í bankann af því að hann væri svo slæmur fyrir hjartanu.  Þá hafi það komið henni á óvart að Z vildi fara strax á hjólinu sínu á hárgreiðslustofuna, þó Z ætti ekki að hitta hana þar fyrr en eftir klukkutíma. 

C sagðist sjálf ekki hafa orðið vör við kynferðislega áreitni af hálfu föður síns gagnvart ungum stúlkum.  Hann hefði verið grófur í tali, klæminn við börn sín og barnabörn.  Þó sagði hún að eitt sinn hafi vinkona hennar, þremur árum eldri, verið hjá sér og þá hefði ákærði hlaupið á eftir henni um allt til að reyna að káfa á brjóstunum á henni.  Hún sagði að ákærði væri ofdrykkjumaður og að það hefði sett mark sitt á heimilislífið, aðstæður sínar og uppeldi.  Hún hafi alla tíð skammast sín fyrir ákærða.  Hún kvaðst muna eftir því að er hún var byrjuð í [...]skóla hafi ein bekkjarsystir hennar talað um manninn í [...] sem reyndi að lokka börn til að koma til sín.  Hún kvaðst hafa vitað um hvern var þar talað.  Hún kvaðst ekki hafa boðið neinum úr skólanum heim til sín því hún vildi ekki láta vitnast hver faðir hennar væri. 

Aðspurður kvað ákærði þessa frásögn C um að hann hafi verið að elta og klípa í brjóstin á vinkonu hennar, ekki vera rétta.  Hann kvaðst að minnsta kosti alls ekki geta munað eftir slíku. 

E, dóttir ákærða, gaf skýrslu fyrir dómi.  Hún kvaðst aðspurð hafa hringt á heimili ákærða á milli klukkan tólf og hálfeitt þann 10. júlí í fyrra.  Bróðir hennar, A, hefði svarað.  Hún hefði spurt eftir Z, en hún hefði fljótlega komið í símann.  E kveðst hafa beðið hana að leika við son sinn og hafi hún verið tilbúin til þess.  Síðan hefði ákærði komið í símann og sagt að Z ætti að fara í klippingu og að hún ætlaði að fara með honum í bankann.  A bróðir hennar hafi síðan keyrt þau á leikvöllinn og hana síðan í vinnuna. 

E kvaðst aldrei hafa orðið vör við að ákærði áreitti ungar stúlkur, en heyrt talað um það.  Hún sagði hins vegar að hann hafi oft verið með klámkjaft. 

Niðurstöður.

Í fyrri hluta fyrri liðar ákæru er atvik talið hafa átt sér stað í janúar 1992.  Var af hálfu ákærða mikið lagt upp úr því að hornsófi sem nú mun vera í stofunni á heimili hans, hafi verið keyptur í júlí 1992.  Lagði hann fram reikning fyrir sófa sem keyptur var í þeim mánuði.  Í skýrslum Y bæði hjá lögreglu og fyrir dómi kemur hins vegar fram að hún hafi verið 9 ára gömul er þetta atvik átti sér stað.  Þá kvaðst hún ekki geta fullyrt um hvers konar sófi var þá í stofunni.  Kvaðst hún ekki muna eftir öðru en þeim hornsófa sem þar sé nú. 

Gott samræmi er í skýrslum Y hjá lögreglu og fyrir dómi.  Hún er hispurslaus í frásögn sinni og telur dómurinn frásögn hennar mjög trúverðuga.  Framburður ákærða er á hinn bóginn fjarri því að geta talist sannfærandi.  Framburður hans lýtur einkum að óvissu í tímasetningum og hvort tiltekinn sófi hafi verið til staðar á ákveðnum tíma.  Svo og brigslyrðum um börn sín og barnabörn. 

Í öllum skýrslum sínum segir Y að hún hafi verið 9 ára gömul er fyrra atvikið átti sér stað.  Y var 9 ára gömul í janúar 1993.  Þá var umræddur hornsófi kominn í stofuna. 

Y skýrði systur sinni frá þessum atvikum í trúnaði vorið 2001 og til skýringar á því hvers vegna hún vildi ekki fara til afa síns og ömmu, eftir að henni hafði sinnast við móður sína.  Síðar sagði hún móður sinni frá þessum atvikum, eftir að móðir gekk á hana.  Báðir foreldrar Y bera að talsverðar breytingar hafi orðið á skapferli hennar um það leyti sem fyrra atvikið er talið hafa gerst. 

Engin vitni eru að áreitni ákærða önnur en Y sjálf.  Ákærði neitar sök, en framburður hans og útskýringar eru mjög ótrúverðugar.  Y er hins vegar staðföst og nákvæm í sinni skýrslu.  Telur dómurinn ekki varhugavert að leggja framburð hennar til grundvallar niðurstöðu, með þeim stuðningi sem hann fær, einkum í áðurgreindri skýrslu geðlæknis, en einnig í framburði ættingja og viðbrögðum ákærða.  Er hann fundinn sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir. 

Brot ákærða samkvæmt þessum lið eru í ákæru talin varða við 2. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga eins og þeim var breytt með lögum nr. 40/1992.  Er ennfremur vísað til þágildandi 209. gr. laganna varðandi fyrri hlutann. 

Brot ákærða sem lýst er í fyrri hluta þessa ákæruliðar fyrnist á fimm árum, sbr. 2. tl. 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga.  Er það því fyrnt og verður honum ekki gerð refsing fyrir það.  Síðari hluti þessa ákæruliðar varðar ákærða refsingu samkvæmt 2. mgr. 200. gr. eins og segir í ákæru. 

Um síðari lið ákærunnar er heldur ekki mörgum vitnum til að dreifa.  Hér blasir við að framburður ákærða er ekki trúverðugur.  Hann hefur orðið tvísaga um mikilvæg atriði varðandi gerðir sínar.  Hann hefur ekki gefið eðlilega skýringu á viðdvöl sinni og Z í íbúð sonar hans í [...] þennan dag.  Þá hefur hann ekki viljað kannast við skýringar sem hann gaf A og E um að Z yrði að fylgja honum í bankann vegna sjúkleika hans. 

Z gaf skýrslu fyrir dómi skömmu eftir atvikið og var hún yfirheyrð af sálfræðingi undir stjórn dómara.  Skýrsla hennar var nákvæm og samræmi í henni og komu fram atriði sem ekki hafði vaknað grunur um áður en skýrslan var tekin.  Er skýrsla hennar í heild afar trúverðug. 

Skýrsla Z er studd nokkuð af skýrslu A. 

Þá er frásögn hennar í samtali við móður sína í miklu samræmi við skýrslu hennar fyrir dómi.  Dómsskýrsla hennar er ítarlegri og þar koma fleiri atriði upp á yfirborðið. 

Skoðun læknis á Z leiddi ekki í ljós líkamlega áverka eða að höfð hefðu verið kynmök við hana, en útilokar ekki að hún hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. 

Ákærði kveðst fyrir dómi hafa blásið á maga stúlkunnar.  Hjá lögreglu sagði hann að hann hefði dregið niður buxur hennar og kysst á maga geirvörtur og þar sem hárin fara að vaxa við kynfærin, en því neitaði hann fyrir dómi.  Ákærði sagði í skýrslu hjá lögreglu að hann hefði vökvað blómin í íbúð sonar síns.  Fyrir dómi kvaðst hann ekki hafa gert neitt í íbúðinni nema líta eftir.  Kona hans sæi um að vökva. 

Að framan er rakinn framburður stúlkunnar þar sem hún lýsir því að ákærði hafi sleikt hana, að hún hafi ekki séð lim ákærða en fundið fyrir honum.  Þá hafi ákærði talað um að ekki mætti segja neinum frá. 

Að virtum þeim gögnum og skýrslum sem fram hafa komið er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi framið það brot sem lýst er í II lið ákæru, nánar þannig að hann hafi sleikt maga og kynfæri stúlkunnar, sett fingur inn í kynfæri hennar og einnig sett lim sinn að kynfærum stúlkunnar. 

Þetta brot ákærða samkvæmt síðari lið ákærunnar varðar við 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202 gr. almennra hegningarlaga. 

Fyrri brot ákærða hafa ekki áhrif við ákvörðun refsingar í þessu máli.  Hann hefur með brotum sínum gert freklega á hlut barnabarna sinna og brugðist trausti þeirra og foreldra þeirra.  Ákveða ber refsingu samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga.  Líta ber til þess að ákærði er kominn á eftirlaunaaldur, sbr. 4. tl. 70. gr. sömu laga.  Refsing hans er ákveðin fangelsi í tvö ár. 

Af hálfu brotaþola hafa verið settar fram miskabótakröfur eins og að framan greinir.  Ljóst er, að brot þau, sem sakfellt er fyrir í þessu máli, eru almennt til þess fallin að valda þeim, sem fyrir verða, margvíslegum sálrænum erfiðleikum og eiga stúlkurnar því rétt á miskabótum úr hendi ákærða.  Í málinu liggja ekki fyrir sérstök gögn um líðan og hagi stúlknanna utan framangreint vottorð geðlæknis um hagi Y.  Þrátt fyrir það þykir rétt að ákveða bætur til þeirra þannig að Y fái 300.000 krónur og Z 600.000 krónur.  Bera fjárhæðir þessar vexti frá þingfestingardegi eins og í dómsorði greinir.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað.  Málsvarnarlaun verjanda hans eru ákveðin 200.000 krónur.  Þóknun réttargæslumanns beggja brota­þola er ákveðin 125.000 krónur. 

Héraðsdómararnir Jón Finnbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Sigurður Tómas Magnússon kveða upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði greiði Y 300.000 krónur með dráttarvöxtum frá 15. janúar 2002 til greiðsludags.

Ákærði greiði Z 600.000 krónur með dráttarvöxtum frá 15. janúar 2002 til greiðsludags. 

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Brynjólfs Eyvindssonar, héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur, og þóknun Helgu Leifsdóttur, héraðsdómslögmanns, 125.000 krónur.