Hæstiréttur íslands
Mál nr. 55/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Kröfulýsing
- Réttindaröð
- Riftun
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 20. febrúar 2014. |
|
Nr. 55/2014.
|
VBS eignasafn hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn þrotabúi HK húseigna ehf. (Benedikt Ólafsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Kröfulýsing. Réttindaröð. Riftun. Málsástæða.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um kröfu þb. H ehf. við slit V hf. Í málinu krafðist þrotabúið riftunar á þremur greiðslum sem inntar höfðu verið af hendi með millifærslum af bankareikningi þess inn á bankareikning V hf. Greiðslurnar áttu sér stað eftir að bú V hf. hafði verið tekið til slita. Í samræmi við það lýsti þb. H ehf. kröfu í bú V hf. með vísan til heimildar í 5. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og um rétthæð hennar var vísað til 3. töluliðar 110. gr. laganna. V hf. hafnaði ekki kröfunni sem of seint fram kominni þótt kröfulýsingarfrestur væri liðinn og vefengdi ekki þá heimild sem þb. H ehf. reisti kröfulýsinguna á. Hæstiréttur taldi V hf. því bundið við þá afstöðu og gæti það ekki við úrlausn dómstóla um ágreining aðila um hvort viðurkenna bæri kröfu þb. H ehf. borið fyrir sig að krafan nyti ekki rétthæðar samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu gættu var hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. janúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. janúar 2014 þar sem leyst var úr ágreiningi um kröfu varnaraðila við slit sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu varnaraðila hafnað en til vara að kröfu varnaraðila að fjárhæð 12.186.722 krónur verði skipað í réttindaröð sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Mál þetta er ágreiningsmál við slit sóknaraðila. Bú hans var tekið til slita 9. apríl 2010 og honum skipuð slitastjórn samkvæmt heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002. Kröfulýsingarfresti í bú hans lauk 12. nóvember 2010.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var bú varnaraðila, sem var dótturfélag sóknaraðila, tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2011 og var frestdagur við gjaldþrotaskiptin 1. desember 2010. Af hálfu varnaraðila var lýst kröfu í bú sóknaraðila 15. desember 2011, eða meira en ári eftir að kröfulýsingarfresti lauk. Í kröfulýsingu kom fram að kröfunni væri lýst með heimild í 5. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991, en um rétthæð hennar var vísað til 3. töluliðar 110. gr. laganna. Samkvæmt gögnum málsins var krafan tekin á kröfuskrá. Var henni hafnað með bréfi slitastjórnar 20. nóvember 2012 á grundvelli málsástæðna sem raktar eru í hinum kærða úrskurði, en meðal þeirra er ekki sú málsástæða að hún hafi borist eftir lok kröfulýsingarfrests. Í máli þessu krafðist varnaraðili þess í héraði að rift yrði þremur greiðslum, sem inntar höfðu verið af hendi með millifærslum af bankareikningi hans inn á bankareikning sóknaraðila 7. júlí 2010, 18. ágúst 2010 og 11. mars 2011, samtals að fjárhæð 17.586.722 krónur og að sóknaraðili yrði dæmdur til að greiða sér þá fjárhæð með tilteknum vöxtum. Reisti hann kröfur sínar á nánar tilgreindum ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991. Með hinum kærða úrskurði var kröfu varnaraðila um riftun tveggja fyrstnefndu greiðslnanna hafnað en fallist á kröfu hans um riftun síðastnefndu greiðslunnar að fjárhæð 12.186.722 krónur, sem fram fór eftir frestdag, á grundvelli 139. gr. laga nr. 21/1991. Þá var krafa varnaraðila að sömu fjárhæð ásamt nánar tilgreindum dráttarvöxtum viðurkennd við slit sóknaraðila og skyldi henni skipað í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991.
Eins og að framan greinir áttu þær greiðslur, sem varnaraðili krefst riftunar á, sér stað eftir að bú sóknaraðila hafði verið tekið til slita. Því til samræmis lýsti varnaraðili kröfu sinni með vísan til heimildar í 5. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991 og um rétthæð hennar vísaði hann til 3. töluliðar 110. gr. laganna. Sóknaraðili hafnaði ekki kröfunni sem of seint fram kominni þótt kröfulýsingarfrestur væri liðinn og vefengdi ekki þá heimild sem varnaraðili reisti kröfulýsinguna á. Við þá afstöðu er hann bundinn og getur ekki við úrlausn dómstóla um ágreining aðila hvort viðurkenna beri kröfu varnaraðila borið fyrir sig að krafan njóti ekki rétthæðar samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 91/1991. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, VBS eignasafn hf., greiði varnaraðila, þrotabúi HK húseigna ehf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. janúar 2014.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 22. febrúar 2013 og var það þingfest 15. mars sama ár. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar fimmtudaginn 5. desember sl. Sóknaraðili er þrotabú HK fasteigna ehf., Ránargötu 18, Reykjavík, en varnaraðili er VBS eignasafn hf., Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.
Sóknaraðili gerir eftirfarandi dómkröfur:
1. Að rift verði með dómi greiðslum sóknaraðila til varnaraðila samtals að fjárhæð 17.586.722 krónur, sem allar hafi verið greiddar út af bankareikningi sóknaraðila nr. 620508 í útibúi Landsbankans nr. 0117 með millifærslu inn á bankareikning varnaraðila nr. 701-26-000453 þannig:
a) 07.07.2010 2.400.000 krónur
b) 18.08.2010 3.000.000 krónur
c) 11.03.2011 12.186.722 krónur
2. Að varnaraðili verði dæmdur til að endurgreiða sóknaraðila, eða til að greiða sóknaraðila bætur að fjárhæð 17.586.722 krónur ásamt dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 2.400.000 krónum frá 07.07.2010 til 18.08.2010, af 5.400.000 krónum frá þeim degi til 11.03.2010, en af 17.586.722 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.
I
Eins og fyrr greinir er mál þetta ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila. Með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009 skipaði Fjármálaeftirlitið 3.mars 2010 bráðbirgðastjórn yfir varnaraðila, sem þá hét VBS fjárfestingarbanki hf. Varnaraðili var tekinn til slitameðferðar 9. apríl 2010 og skipuð slitastjórn skv. heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Samkvæmt lögum nr. 161/2002 gilda að meginstefnu reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um slitameðferðina. Frestdagur við skiptin er 3. mars 2010. Kröfulýsingarfresti lauk 12. nóvember 2010.
Sóknaraðili er þrotabú dótturfélags varnaraðila og var félagið tekið til gjaldþrotaskipta 18. mars 2011, en nánar grein verður gerð fyrir því hér síðar. Lýsti sóknaraðili kröfu í slitabú varnaraðila 15. desember 2011. Kom fram í kröfulýsingunni að kröfunni væri lýst með heimild í 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Um rétthæð kröfunnar var vísað til 3. tl. 110. gr. sömu laga. Var kröfugerð efnislega sú sama og rakin var hér að framan um riftun og endurgreiðslu eða greiðslu bóta vegna þriggja millifærslna af bankareikningi sóknaraðila yfir á bankareikning varnaraðila. Eru dagsetningar og fjárhæðir greiðslnanna tilgreindar hér að framan.
Kröfunni var hafnað með bréfi slitastjórnar 20. nóvember 2012 og vísað til þess að umræddar greiðslur væru tilkomnar vegna hlutdeildar sóknaraðila í rekstrarkostnaði sem hlotist hafi af þjónustu varnaraðila við sóknaraðila árin 2010 og 2011, samtals að fjárhæð 17.586.722 krónur. Um sé að ræða kostnað vegna húsaleigu, þjónustusamninga, skrifstofubúnaðar sem og annarra þátta, sem sjá megi á meðfylgjandi yfirliti. Ógreiddur kostnaður nemi 6.786.723 krónur. Hafnaði slitastjórn því að skilyrði væru til riftunar og hafnaði þar af leiðandi kröfunni. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar á ágreiningsfundi sem boðað var til um kröfuna 6. desember 2012 og er bókað í fundargerð að þar sem ekki hafi náðst sátt milli aðila á fundinum hafi málinu verið vísað til úrlausnar héraðsdóms. Ekki var í afstöðubréfi slitastjórnar eða í fyrrnefndri fundargerð vikið að því hver væri afstaða slitastjórnar til þess að kröfulýsing kom fram að loknum kröfulýsingarfresti og verður ekki annað séð en að krafan, sem ber númerið 277, hafi verið tekin á kröfuskrá.
Eins og fyrr er getið barst málið dómnum 22. febrúar 2013. Lagði sóknaraðili fram greinargerð sína 3. apríl 2013 og varnaraðili lagði fram greinargerð af sinni hálfu 29. maí 2013.
II
Ekki er um það deilt í máli þessu að sóknaraðili er dótturfélag í fullri eigu varnaraðila. Kemur fram í greinargerð sóknaraðila að varnaraðili hafi keypt félagið 10. júní 2008. Samþykktum félagsins hafi í kjölfarið verið breytt og tilgangur þess verið skráður: Fasteignaþróun, sala fasteigna, byggingastarfsemi, lánastarfsemi og önnur fjármálastarfsemi og skyldur rekstur.
Þá er heldur ekki um það deilt að hlutverk félagsins hafi verið að taka við fasteignum sem varnaraðili hafi keypt af viðskiptavinum sínum til lækkunar á skuldum þeirra og að taka við eignum sem varnaraðili hafði leyst til sín vegna fullnustu veðkrafna. Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að hlutafé félagsins hafi upphaflega verið 500.000 krónur en hafi verið aukið í 765.000.000 krónur 28. desember 2009. Samkvæmt ársreikningi hans hafi félagið tapað 213.000.000 krónum árið 2008 og 1.264.000.000 krónum árið 2009. Við upphaf gjaldþrotaskipta hafi eignir þrotabús sóknaraðila nær eingöngu verið fasteignir sem taldar hafi verið að markaðsverðmæti samtals 1.200.000.000 krónur. Veðkröfur sem lýst hafi verið í þrotabú sóknaraðila hafi verið samtals 1.578.000.000 krónur og almennar kröfur þess utan 3.787.000.000 krónur.
Ekki virðist heldur deilt um það að sóknaraðili hafi haft starfsaðstöðu í sama húsi og varnaraðili og að fram að þeim tíma sem þær greiðslur áttu sér stað sem deilt er um í málinu hafi hann ekki innt af hendi greiðslur til varnaraðila vegna þessa.
Er því lýst í greinargerð varnaraðila að allt frá því að hann hafi verið tekinn til slitameðferðar hafi markvisst verið unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu sóknaraðila og m.a. kannaðir möguleikar á nauðasamningum, allt í samráði við stærstu kröfuhafa sóknaraðila. Hins vegar hafi samningar við kröfuhafa ekki tekist og félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota. Allt frá því að varnaraðili hafi eignast hlutina í sóknaraðila hafi sóknaraðili fengið háar lánveitingar frá varnaraðila. Meginhlutverk sóknaraðila hafi verið að taka við fasteignum sem keyptar hafi verið af viðskiptavinum varnaraðila, til lækkunar skulda sem og að taka við eignum sem varnaraðili hafi leyst til sín vegna fullnustu krafna. Þegar eignunum hafi verið afsalað yfir til sóknaraðila þá hafi sá háttur iðulega verið hafður á að viðskiptaskuld sóknaraðila hafi verið hækkuð og hafi á endanum myndast himinhá viðskiptaskuld vegna yfirfærslu fasteignanna. Engar tryggingar hafi verið settar til handa varnaraðila við yfirfærslu eignanna yfir til sóknaraðila eða hafi farið neinar eiginlegar peningagreiðslur á milli aðila. Varnaraðili hafi einnig staðið að mestu straum af kostnaði vegna rekstrar þeirra eigna sem færðar hafi verið yfir til sóknaraðila. Er varnaraðili hafi verið tekinn til slitameðferðar, 9. apríl 2010, hafi forsendur sóknaraðila sem dótturfélags breyst varðandi fjárstuðning, daglegan rekstur og aðgang að ábyrgðum móðurfélagsins vegna fjármögnunar framkvæmda og rekstrar eigna. Starfsmönnum varnaraðila hafi væri fækkað umtalsvert í upphafi slitameðferðar en fjárhagsleg staða bankans hafi verið afar bágborin. Þeim verkefnum og utanumhaldi sem starfsmenn varnaraðila hafi sinnt áður við rekstur sóknaraðila og skipt hafi verið á milli fjölda starfsmanna bankans, hafi augljóslega þurft að sinna. Staðan hafi verið leyst þannig að keypt hafi verið utanaðkomandi þjónusta, auk annarrar sérfræðiþjónustu við rekstur og utanumhald sóknaraðila. Sóknaraðila sem sjálfstæðum lögaðila beri eðli málsins samkvæmt að greiða leigu og annan tilfallandi kostnað við rekstur félagsins eins og hverju öðru félagi í rekstri. Varnaraðili hafi talið að kröfuhöfum hans hafi ekki borið að taka á sig allan kostnað vegna reksturs sjálfstæðs lögaðila þrátt fyrir að hann væri í eigu varnaraðila. Farin hafi verið sú leið að sóknaraðili greiddi varnaraðila þann útlagða kostnað sem hann hafi greitt vegna kostnaðar og utanumhalds sóknaraðila á árinu 2010.
Fyrir liggur að sóknaraðili sótti um greiðslustöðvun 1. desember 2010. Var orðið við þeirri beiðni og hún framlengd einu sinni. Greiðslustöðvun rann út 15. febrúar 2012. Krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti var móttekin 15. mars 2012. Liggur því ekki annað fyrir en að 1. desember 2010 sé frestdagur við gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila, sbr. 2. gr. laga nr. 21/1991.
Í málinu liggur fyrir yfirlit bankareiknings sóknaraðila og kemur þar fram að greiddar voru 2.400.000 krónur til varnaraðila 7. júlí 2010. Í skýringardálki stendur „VBS rekstur HK“. Þann 18. ágúst sama ár voru millifærðar 3.000.000 krónur og stendur í skýringardálki „VBS Fjárfestingarbanki hf.“ Loks voru 11. mars 2011 millifærðar 12.186.722 krónur og stendur í athugasemdadálki „kostnaður VBS“.
Í málinu liggur fyrir blað sem ber yfirskriftina Hlutdeild HK í rekstrarkostnaði 2010. Eru þar taldir upp 31 kostnaðarliður samtals að fjárhæð 24.373.445 krónur. Þá er getið hinna umdeildu innborgana samtals að fjárhæð 17.586.722 krónur og að ógreiddur kostnaður sé 6.786.723 krónur. Ekki þykir ástæða til að rekja þennan lista nákvæmlega en stærsti útgjaldaliðurinn er sagður „laun og launatengd gjöld“ að fjárhæð 17.076.991 króna. Þá er liður sem nefnd er „önnur sérfræðiþjónusta“ að fjárhæð 1.162.077 krónur. Liðurinn „þjónustusamningur“ er að fjárhæð 2.624.588 krónur og „húsaleiga“ að fjárhæð 1.285.154 krónur.
III
Í upphafi greinargerðar sóknaraðila er því lýst yfir að ef krafa hans í málinu verði tekin til greina muni hann samþykkja almenna kröfu varnaraðila eins og henni hefði verið lýst í búið innan kröfulýsingarfrests að sama höfuðstól og sú fjárhæð yrði sem sóknaraðili ynni úr hendi varnaraðila, auk vaxta til 18. mars 2011.
Í greinargerð sóknaraðila greinir að hann telji að framangreindar greiðslur til varnaraðila feli í sér óeðlilegar ráðstafanir og að reglur laga nr. 21/1991 leiði til þess að þeim beri að rifta og að endurgreiða beri fjármuni þessa til þrotabúsins eða greiða búinu bætur að sömu fjárhæð.
Ekki er í greinargerð sóknaraðila gerð sérstök krafa um hvar skipa skuli framangreindum kröfum í skuldaröð en við munnlegan málflutning vísaði sóknaraðili til þess að byggt væri á því að krafan nyti stöðu búskröfu skv. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila eins og fram komi í kröfulýsingu hans.
Í greinargerð sóknaraðila kemur og fram að ljóst sé að sóknaraðili hafi verið dótturfélag varnaraðila og starfsemi félagsins hafi verið svo nákomin starfsemi varnaraðila að honum hafi verið fullkunnugt um fjárhag og gjaldfærni dótturfélagsins frá degi til dags.
Greiðslur samkvæmt a) og b) liðum í 1. tl. dómkrafna hafi verið inntar af hendi tæpum fimm og tæpum fjórum mánuðum fyrir frestdag. Hér sé um greiðslur að ræða til nákominna, þ.e. frá dótturfélagi til móðurfélags. Greiðslurnar séu óvenjulegar, þ.e. greiðslur af þessu tagi hafi ekki tíðkast milli aðila. Greiðslurnar hafi því verið ósanngjarnar. Greiðslurnar hafi jafnframt verið hærri en sanngjarnt hafi verið, miðað við tekjur af atvinnurekstrinum og önnur atvik. Þegar greiðslur þessar hafi átt sér stað hafi sóknaraðili á engan hátt verið fær um að standa í skilum við lánardrottna sína og því alls ekki gjaldfær í skilningi laga nr. 21/1991. Greiðslurnar séu því riftanlegar með vísan til 1. mgr. 133. gr. laga nr. 21/1991. Greiðslur þessar hafi skert greiðslugetu félagsins og hafi ekki verið eðlilegar eftir atvikum. Hér sé því um að ræða riftunarheimild með vísan til 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.
Greiðsla skv. c) lið 1. tl. dómkrafna hafi verið innt af hendi þremur mánuðum og ellefu dögum eftir frestdag, 26 dögum eftir að greiðslustöðvun sóknaraðila hafi lokið og sjö dögum áður en félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Ljóst sé að reglur XVII. kafla laga nr. 21/1991 hefðu ekki leitt til þess að krafan hefði greiðst við gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila. Ekki hafi verið nauðsynlegt að greiða til að komast hjá tjóni. Varnaraðila hafi verið fullljóst að félagið hafi verið í greiðslustöðvun og ákvörðun hafi þá þegar verið tekin um að óska eftir gjaldþrotaskiptum, enda hafi beiðni þar að lútandi verið sett fram þremur dögum síðar. Hér sé því um að ræða riftunarheimild með vísan til 139. gr. laga nr. 21/1991.
Telja verði að greiðslur þessar hafi í öllum tilvikum á ótilhlýðilegan hátt verið varnaraðila til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa sóknaraðila, enda hafi sóknaraðili verið ógjaldfær og varnaraðila verið það ljóst og þær aðstæður hafi leitt til þess að þessi ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg. Hér sé því í tilvikum allra þessara greiðslna um að ræða riftunarheimild með vísan til 141. gr. laga nr. 21/1991.
Ljóst sé að möguleikar kröfuhafa til að ná fullnustu krafna aukist nái riftun fram að ganga.
Byggt sé á ofangreindum málsástæðum sjálfstætt, hverri fyrir sig og í heild sinni sameiginlega.
Krafist sé endurgreiðslu þeirra fjárhæða sem rift verði með vísan til 133. og 134. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi þær greiðslur komið varnaraðila að fullum notum og orðið þrotabúi sóknaraðila til samsvarandi tjóns. Þar sem riftun verði viðurkennd samkvæmt 139. eða 141. gr. laga nr. 21/1991 sé krafist bóta eftir almennum reglum.
Í greinargerð sinni kveðst sóknaraðili byggja á ákvæðum laga nr. 21/1991 en n nánar tiltekið vísist til heimilda um riftun í 1. mgr. 133. gr., 1. mgr. 134. gr., 139. gr. og 141. gr. laganna. Krafa um endurgreiðslu styðjist við 1. mgr. 142. gr. sömu laga og krafa um bætur sé reist á 3. mgr. 142. gr. laganna. Krafa um vexti sé studd við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og krafa um málskostnað sé byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Varnaraðili byggir á því í greinargerð sinni að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila. Sé á því byggt að hinar ætluðu riftanlegu greiðslur geti ekki talist vera laun, annað endurgjald fyrir vinnu, eða eftirlaun í skilningi 133. gr. laga nr. 21/1991. Þótt ákvæðið væri túlkað með rúmum hætti telji varnaraðila útilokað að unnt sé að fella hinn margvíslega útlagða kostnað undir þær greiðslur sem taldar séu upp í ákvæðinu. Hafi sóknaraðili enda engin rök fært fyrir því í greinargerð sinni með hvaða hætti hann telji að greiðslurnar eigi undir ákvæði 133. gr. laga nr. 21/1991.
Til þess að fallast mætti á riftun á grundvelli tilvitnaðs lagaákvæðis verði sá sem krefjist riftunar að sýna fram á að greiðsla hafi verið „bersýnilega hærri en sanngjarnt [hafi verið]“. Eini rökstuðningur sóknaraðila fyrir riftun samkvæmt þessum lið í greinargerð hans sé að greiðslan sé „óvenjuleg“, þ.e. að greiðslur af þessu tagi hafi ekki tíðkast á milli aðila. Orðalagið „bersýnilega hærri“ gefi til kynna að mikið þurfi til að koma svo fallast megi á riftun.
Sé talið að felli megi greiðslurnar undir 133. gr. laga nr. 21/1991 og um sé að ræða bersýnilega hærri greiðslur en sanngjarnt hafi verið þá verði að telja fjárhæð endurgreiðslukröfunnar algerlega órökstudda og vanreifaða. Greiðslur þær sem riftanlegar séu samkvæmt umræddu lagaákvæði séu þess eðlis að greitt hafi verið of mikið og því beri í samræmi við ákvæðið að rifta þeim hluta greiðslunnar sem hafi verið hærri en sem eðlilegt geti talist. Í greinargerð sinni hafi sóknaraðili ekki fært nokkur rök fyrir því hvað geti talist eðlileg greiðsla fyrir þann kostnað sem hafi verið greiddur eða reynt að sýna fram á að um ofgreiðslu hafi verið að ræða.
Ef fjárhæðin sé hærri en eðlilegt sé samkvæmt ákvæðinu sem nemi allri greiðslunni, líkt og sóknaraðili virðist byggja á, þá væri í raun um gjafagerning að ræða sem ákvæði 133. gr. laga nr. 21/1991 taki ekki til.
Samantekið þá liggi fyrir að engin tilraun sé gerð til að rökstyðja hvað sé eðlileg fjárhæð til greiðslu og þar af leiðandi engin endurgreiðslukrafa afmörkuð og krafan því með öllu vanreifuð.
Af hálfu varnaraðila sé því mótmælt að til staðar sé grundvöllur sé til riftunar á með vísan til 134. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili telji að ekkert hinna sjálfstæðu riftunarskilyrða ákvæðisins sé fyrir hendi. Sóknaraðili byggi á því í greinargerð sinni að greiðslurnar hafi skert greiðslugetu félagsins og ekki verið eðlilegar eftir atvikum, en varnaraðili mótmæli þeim fullyrðingum sérstaklega. Í greinargerð sóknaraðila sé engan rökstuðning að finna fyrir því hvernig greiðslurnar hafi skert greiðslugetu skuldara verulega. Sé krafan því vanreifuð að því leyti. Það sama eigi við um þá fullyrðingu sóknaraðila að greiðslurnar hafi ekki verið eðlilegar eftir atvikum.
Varnaraðili telji að hinar umdeildu greiðslur hafi ekki skert greiðslugetu sóknaraðila verulega þar sem um sé að ræða óverulegar fjárhæðir með tilliti til tekna sóknaraðila og heildarskulda hans.
Greiðslurnar 7. júlí og 18. ágúst 2010 hafi samtals numið 5.400.000 krónum. Við upphaf gjaldþrotaskipta hafi eignir þrotabús sóknaraðila verið að markaðsverðmæti samtals 1.200.000.000 krónur og hafi lýstar veðkröfur í þrotabúið verið 1.578.000.000 krónur, en almennar kröfur 3.787.000.000 krónur. Í ljósi umfangs rekstrar þrotabúsins og fjölda eigna, geti hinar umdeildu greiðslur ekki hafa skert greiðslugetu sóknaraðila verulega í skilningi laganna. Rétt sé að geta þess að greiðslurnar hafi numið samtals 0,45% af eignum sóknaraðila og 0,1% af heildarskuldum hans við gjaldþrot. Sjá megi einnig af ársreikningum sóknaraðila að leigutekjur af eignum hafi numið á þriðja tug milljóna vegna ársins 2009.
Sönnunarbyrðin fyrir riftanleika ráðstöfunar hvíli á þeim sem haldi slíku fram og þurfi meira til að koma heldur en að um háa fjárhæð sé að ræða. Sóknaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn eða haldbær rök máli sínu til stuðnings og þar af leiðandi hafi hann ekki fært fram sönnur um riftanleika hinnar umdeildu ráðstöfunar varnaraðila.
Þótt fallist yrði á að umræddar greiðslur hafi skert greiðslugetu skuldara verulega verði að telja að greiðslurnar hafi þó verið venjulegar eftir atvikum og því ekki riftanlegar samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991. Greiðslurnar hafi varðað endurgjald vegna leigu, sérfræðikostnaðar, þjónustusamninga og annarra hefðbundinna útgjalda í atvinnurekstri. Eðlilegt og sanngjarnt verði að telja að sóknaraðili sem sjálfstæður lögaðili greiði fyrir rekstur félagsins. Óeðlilegt verði að teljast að slík þjónusta og rekstrarliðir hjá félagi í rekstri séu án endurgjalds og á kostnað kröfuhafa varnaraðila.
Varnaraðili hafni því ennfremur að greiðsla sem farið hafi fram 11. mars 2011 að fjárhæð 12.186.722 krónur sé riftanleg á grundvelli 139. gr. laga nr. 21/1991. Um sé að ræða endurgjald fyrir aðstöðu og útlagðan rekstarkostnað sem varnaraðili hafi greitt en slíkir útgjaldaliðir verði að teljast óumflýjanlegir þegar komi að rekstri líkt og sóknaraðili hafi verið í. Ef ekki hefði verið lagður út slíkur kostnaður sé augljóst að rekstur og utanumhald fasteigna í eigu sóknaraðila hefði stöðvast og verðmætustu eignir hans orðið umsjárlausar sem hefði leitt til verulegs óvissuástands auk þess sem það hefði getað leitt til verðmætarýrnunar þeirra. Hafi því verið um að ræða nauðsynlegan og eðlilegan kostnað til hagsbóta fyrir sóknaraðila sem eðlilegt hafi verið að hann bæri.
Sérstaklega skuli á það bent að stærsti hluti hins umdeilda rekstrarkostnaðar hafi farið í þjónustusamning og aðra sérfræðiþjónustu. Sá útlagði kostnaður hafi meðal annars falið í sér að gerður hafi verið samningur við aðila sem séð hafi um leigusamninga, viðhald eigna o.fl. tengt leigustarfsemi félagsins. Um hafi verið að ræða mikinn fjölda eigna og verði að telja að slík umsjá hafi verið til þess fallin að hámarka verðmæti eigna sóknaraðila og tryggja að tekjur vegna þeirra væru einnig hámarkaðar. Leigutekjur félagsins hafi verið helsta tekjustreymi sóknaraðila og því gríðarlega mikilvægt að haldið yrði vandlega utan um þær.
Áréttað skuli að varnaraðili telji eðlilegt og sanngjarnt að sóknaraðili sem sjálfstæður lögaðili greiði fyrir eigin rekstur. Líkt og áður segi verði að teljast óeðlilegt ef slík þjónusta og rekstrarliðir hjá félagi í rekstri séu án endurgjalds og á kostnað kröfuhafa varnaraðila. Slík niðurstaða væri í öllu falli verulega ósanngjörn í garð varnaraðila.
Þess skuli einnig getið að ef slíkur útlagður kostnaður af hálfu varnaraðila hefði ekki verið endurgreiddur af hálfu sóknaraðila, þá ætti varnaraðili í raun riftunar- og endurgreiðslukröfu á hendur sóknaraðila þar sem verið sé að greiða rekstrarkostnað annars lögaðila.
Að öllu framangreindu telji varnaraðili að nauðsynlegt hafi verið að greiða hinn umdeilda rekstrarkostnað til að komast hjá verðmætarýrnun á eignum sóknaraðila eða öðru tjóni.
Varnaraðili byggi ennfremur varnir sínar á því að málatilbúnaður sóknaraðila sé verulega vanreifaður og komi það niður á vörnum varnaraðila. Vísi varnaraðili m.a. til meginreglna réttarfars um skýran og ljósan málatilbúnað sem og 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í kröfulýsingu sóknaraðila sé engin grein gerð fyrir því hvers vegna um sé að ræða riftanlega ráðstöfun eða sé reynt með nokkrum hætti að heimfæra ráðstöfunina undir hin tilvitnuðu ákvæði riftunarreglna laga nr. 21/1991. Auk þess sé rökstuðningi verulega ábótavant, hvað varði með hvaða hætti skilyrðum hinna tilvitnuðu riftunarreglna sé fullnægt. Eingöngu sé um að ræða einhliða fullyrðingar sóknaraðila án nokkurs ítarlegs rökstuðnings. Telji varnaraðili greinargerð sóknaraðila sem hann hafi lagt fram undir rekstri málsins sama marki brennda.
Samkvæmt ofangreindu telji varnaraðili málatilbúnað sóknaraðila, að fram kominni greinargerð hans, svo verulega áfátt að slíkt leiði til frávísunar og því verði ekki komst hjá því að hafna kröfum hans þar sem málatilbúnaðurinn fullnægi ekki áskilnaði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Sé í þessu sambandi vísað til 2. mgr. 117. gr., 1. og 3. mgr. 177. gr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Þá sé því einnig mótmælt að byggja megi riftun á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991. Sé í því sambandi um frekari rök m.a. vísað til ofangreindrar umfjöllunar, en varnaraðili mótmæli því sérstaklega að ráðstöfun þessi hafi verið ótilhlýðileg. Byggi varnaraðili á því að hann hafi hagað sér í alla staði tilhlýðilega gagnvart sóknaraðila.
Varnaraðili telji það ósannað að ráðstöfunin hafi verið honum til hagsbóta en um sé að ræða, eins og áður greini, eðlilega kostnaðarhlutdeild sóknaraðila í rekstarkostnaði sem hlotist hafi af þjónustu varnaraðila við og í þágu sóknaraðila.
Þá telji varnaraðili að það sé rangt sem haldið sé fram að hálfu sóknaraðila í máli þessu, þ.e. að sóknaraðili hafi þegar verið orðinn ógjaldfær þegar hinar lægri greiðslur hafi farið fram á árinu 2010, enda beri sóknaraðili sönnunarbyrðina þar um. Slíkar sönnur hafi hann ekki fært fram.
Hafna verði því kröfu um riftun, endurgreiðslu eða greiðslu skaðabóta með hliðsjón af öllu ofangreindu.
Verði hins vegar fallist á riftunarkröfur sóknaraðila og að sóknaraðili eigi þar af leiðandi endurgreiðslu- eða bótakröfu á hendur varnaraðila, telji varnaraðili að eins og kröfum sé háttað í greinargerð sóknaraðila, að krafan skuli njóta stöðu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Í greinargerð sóknaraðila sé hvergi gerð krafa um hverrar stöðu endurgreiðslu- eða bótakrafa hans skuli njóta í slitabúi varnaraðila, verði fallist á riftunarkröfu hans.
Samkvæmt 177. gr. laga nr. 21/1991 sé sóknaraðila við þingfestingu ágreiningsmáls við slitameðferð gefinn kostur á að leggja fram greinargerð, þar sem komi fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar, ásamt frekari gögnum sem hann styðji málstað sinn við.
Sóknaraðili hafi í greinargerð ekki gert kröfu um hverrar stöðu í réttindaröð í slitabúi varnaraðila hann krefjist. Þar af leiðandi telji varnaraðili að einvörðungu sé heimilt að fallast á að skaða- eða endurgreiðslukrafa sóknaraðila njóti stöðu sem almenn krafa í slitabúi varnaraðila.
Sérstaklega skuli þess getið að þar sem vanreifun eða aðrar frávísunarástæður séu fyrir hendi þá sé þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Byggi það á dómsorðum Hæstaréttar í málum nr. 261/2013 og 262/2013. Rétturinn kveði þar á um að þar sem réttaráhrif þess að vísa kröfu frá dómi í máli sem fari eftir ákvæðum XXIV kafla laga nr. 21/1991 séu þau sömu og þegar kröfu sé hafnað, þá sé réttara að hafna kröfu sem sé haldin slíkum annmörkum.
Af hálfu varnaraðila sé vísað til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og þá sérstaklega 113. gr., 117. gr., 133. gr., 1. og 2. mgr. 134. gr., 139. gr., 141. gr., 142. gr., 3. mgr. 177. gr. og 2. mgr. 178. gr. laganna. Einnig sé vísað til 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Auk þess sé vísað til almennu skaðabótareglunnar. Málskostnaðarkrafa varnaraðila eigi sér stoð í 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt byggi á lögum nr. 50/1988.
V
Mál þetta er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila. Í samræmi við ákvæði 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gilda við slit fjármálafyrirtækis ákvæði XVIII kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Í 117. gr. laga nr. 21/1991 er því lýst hvernig kröfulýsing skuli gerð úr garði og kemur þar m.a. fram að hún skuli vera skrifleg og að í henni skuli kröfur tilgreindar svo skýrt sem verða megi, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð. Þá greinir að í kröfulýsingu skuli ennfremur greina þær málsástæður sem kröfuhafi byggi rétt sinn gagnvart þrotabúinu á, svo og önnur atvik sem þurfi að greina samhengis vegna. Í þessu samhengi þykir rétt að geta ákvæðis 1. mgr. 177. gr. laganna, sem er ein þeirra lagagreina fjallar um meðferð ágreiningsmála fyrir dómi, segir að dómari skuli gefa sóknaraðila máls kost á að leggja fram greinargerð þar sem komi fram til fullnaðar hverjar kröfur hann hafi uppi og á hverju þær séu byggðar. Varnaraðili hefur að sama skapi rétt á að leggja fram greinargerð af sinni hálfu.
Í 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 kemur fram að ef annað leiði ekki af ákvæðum laganna gildi almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um meðferð mála fyrir dómi samkvæmt umræddum kafla laganna. Af þessu leiðir m.a. að málatilbúnaður aðila þarf, að framkominni greinargerð, að standast sömu kröfur um skýrleika sem eiga við um stefnu í einkamáli og getið er um í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í d. lið þess lagaákvæðis er kveðið á um að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða megi dómkröfur stefnanda, svo sem fjárhæð kröfu í krónum o.s.frv. Í e. lið ákvæðisins er jafnframt kveðið á um að tilgreina skuli í stefnu svo glöggt sem verða megi málsástæður sem stefnandi byggi málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þurfi að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing skuli vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. Í f. lið er kveðið á um að í stefnu skuli greina svo skýrt sem verða megi tilvísun til helstu lagaákvæða eða réttarreglna sem stefnandi byggi málatilbúnað sinn á. Í framangreindum reglum felst að stefnandi máls, hér sóknaraðili, skal marka máli sínu skýran farveg strax í upphafi og getur almennt ekki síðar aukið við kröfur sínar eða byggt á nýjum málsástæðum nema til andsvara við málsástæðum gagnaðila síns. Í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 greinir að dómari megi ekki fara út fyrir kröfur aðila í dómi sínum eða úrskurði nema um atriði sé að ræða sem honum beri að gæta af sjálfsdáðum. Í 2. mgr. sama lagaákvæðis kemur fram að dómari megi ekki byggja niðurstöðu sína á málsástæðu eða mótmælum sem hefðu mátt koma fram en gerðu það ekki við meðferð málsins.
Við munnlegan flutning málsins vísaði sóknaraðili til þess að hann krefðist rétthæðar kröfu sinnar í samræmi við 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 eins og komið hafi fram í kröfulýsingu hans. Varnaraðili byggði á hinn bóginn á því að sóknaraðili hefði ekki byggt á umræddu lagaákvæði í greinargerð sinni til dómsins og því teldist hann hafa fallið frá kröfu sinni að þessu leyti.
Eins og fyrr er komið fram þá lýsti sóknaraðili kröfu sinni 15. desember 2011 en kröfulýsingarfresti lauk í bú varnaraðila 12. nóvember sama ár. Í kröfulýsingu var vísað til 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 um heimild til að lýsa kröfunni eftir lok kröfulýsingarfrests og krafist rétthæðar samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Fyrir liggur að slitastjórn varnaraðila tók umrædda kröfu á kröfuskrá. Í bréfi því sem slitastjórn ritaði dóminum þar sem tíundaður er ágreiningur sá sem borinn er undir dóminn er ekki lýst ágreiningi um það hvort kröfu sóknaraðila sé vanlýst. Verður þegar af þessum ástæðum að hafna röksemdum varnaraðila um að sóknaraðili teljist hafa fallið frá kröfu sinni um að fjárkrafa hans nyti stöðu samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, enda tengist sú staða kröfunnar í skuldaröð beint við heimild til að lýsa kröfu eftir lok kröfulýsingarfrests samkvæmt fyrrnefndum 5. tl. 118. gr. laganna.
Málatilbúnaður sóknaraðila eins og hann birtist í greinargerð hans er ítarlega rakinn í kafla III hér að framan. Þá hefur hér að ofan verið gerði ítarleg grein fyrir þeim lagaákvæðum sem hér eiga við um nauðsyn þess að málatilbúnaður sé skýr og bann við því að dómari megi í niðurstöðu sinni byggja á röksemdum sem hefðu mátt koma fram en gerðu það ekki.
Verður hér fyrst vikið að greiðslum sem tilgreindar eru í töluliðum 1 og 2 í kröfugerð sóknaraðila en þær áttu sér stað í júlí og ágúst 2010 eða fjórum og fimm mánuðum fyrir frestdag. Um riftanleika greiðslnanna vísar sóknaraðili í fyrsta lagi til 1. mgr. 133. gr. laga nr. 21/1991. Fallast verður á með varnaraðila að sóknaraðili hafi ekki fært fram fullnægjandi rök fyrir því af hverju umrætt lagaákvæði eigi við um samskipti aðila. Kemur fram í ákvæðinu að krefjast megi riftunar á greiðslu til nákominna á launum, öðru endurgjaldi fyrir vinnu eða eftirlaunum, ef greiðslan var bersýnilega hærri en sanngjarnt var miðað við vinnuna, tekjur af atvinnurekstrinum og önnur atvik. Aðeins verði rift að því leyti sem greiðslan hafi verið hærri en sanngjarnt hafi verið. Hefur sóknaraðili engin gögn lagt fyrir dóminn sem sýnt geta fram á hvernig þeim skilyrðum sem að framan eru talin geti talist fullnægt í málinu. Nægir hér að taka til dæmis að ákvæðið gerir ráð fyrir sönnunarfærslu um það að hvaða marki greiðsla hafi verið bersýnilega hærri en sanngjarnt hafi verið og riftun bundin við þann mismun. Er krafa sóknaraðila á þessum grunni vanreifuð og verður þegar af þeirri ástæðu að hafna því að hann geti rift framangreindum greiðslum á grundvelli þessa lagaákvæðis.
Í öðru lagi vísar sóknaraðili til þess að umræddar greiðslur séu riftanlegar á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Í ákvæðinu er heimiluð riftun á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var, eða greidd fjárhæð sem skert hefur greiðslugetu skuldara verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Í málinu liggur fyrir reikningsyfirlit vegna tiltekins bankareiknings í eigu sóknaraðila. Verða á grundvelli þeirra upplýsinga sem þar koma fram ekki dregnar ályktanir sem renna fullnægjandi stoðum undir það að umræddar greiðslur hafi skert greiðslugetu sóknaraðila verulega. Sóknaraðili byggir ekki á því í greinargerð sinni að greiðslurnar hafi verið framkvæmdar með óvenjulegum greiðslueyri eða að þær hafi átt sér stað fyrr en eðlilegt var. Verður þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar að telja að sóknaraðili hafi ekki fært fram fullnægjandi röksemdir fyrir því að krafa hans um riftun verði byggð á nefndu lagaákvæði.
Einnig skortir á að sóknaraðili hafi rökstutt með fullnægjandi hætti þá fullyrðingu sína að umræddar greiðslur til sóknaraðila hafi á ótilhlýðilegan hátt verið varnaraðila til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa þannig að riftun sé heimil með vísan til 141. gr. laga nr. 21/1991. Er fallist á með varnaraðila að málatilbúnaður sóknaraðila sé vanreifaður að þessu leyti. Verður að hafna því að riftunarkrafa hans verði með réttu byggð á þessum grunni.
Í 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið á um heimild til að rifta greiðslu skuldar sem átt hafi sér stað eftir frestdag, nema reglur XVII. kafla laganna hefðu leitt til þess að skuldin hefði greiðst við gjaldþrotaskipti, nauðsynlegt hafi verið að greiða til að komast hjá tjóni eða sá sem greiðslu naut hafi hvorki vitað né mátt vita að komið hefði fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti. Á sóknaraðila hvílir sönnunarbyrðin fyrir því að greiðsla á skuld hafi átt sér stað eftir frestdag en á varnaraðila hvílir sönnunarbyrði fyrir því að einhver þeirra undantekninga sem raktar eru í ákvæðinu eigi við. Í máli þessu liggur fyrir að greiðsla í reiðufé að fjárhæð 12.186.722 krónur átti sér stað 11. mars 2011, en að mati dómsins ber að leggja til grundvallar að frestdagur við gjaldþrotaskipti sóknaraðila sé 1. desember 2010. Greiðsla þessi átti sér því stað eftir frestdag. Af hálfu varnaraðila hefur því verið lýst að um hafi verið að ræða þátttöku í rekstrarkostnaði og endurgreiðslu útlagðs kostnaðar. Til stuðnings þessum fullyrðingum hefur varnaraðili lagt fram yfirlit það sem áður var vísað til. Sóknaraðili mótmælti við munnlegan málflutning sönnunargildi umrædds skjals. Engin önnur sönnunarfærsla hefur farið fram af hálfu varnaraðila til að sýna fram á hvers vegna fyrrgreindar undantekningar sem greindar eru í 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 eigi við og verður talið að honum hafi ekki auðnast slík sönnun. Verður þegar af þessum ástæðum tekin til greina krafa sóknaraðila á riftun umræddrar peningagreiðslu.
Þykir ekki valda vafa hér og er það í samræmi við ákvæði 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 að varnaraðila beri að greiða sóknaraðila bætur sem nemi fjárhæð umræddrar millifærslu. Þá verður og fallist á vaxtakröfu sóknaraðila enda sætti hún ekki andmælum af hálfu varnaraðila. Umrædd millifærsla átti sér stað eftir skipun skilanefndar varnaraðila. Hefur varnaraðili heldur ekki mótmælt því að hann sé nákominn sóknaraðila og að hann hafi hlutast til um það, sem eini eigandi sóknaraðila, að umrædd greiðsla væri innt af hendi. Verður því lagt til grundvallar að tjón sóknaraðila, sem rekja má til greiðslunnar, falli undir bótaábyrgð slitastjórnar og er því fallist á að kröfu sóknaraðila skuli skipa í skuldaröð samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Með hliðsjón af málsúrslitum verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 313.750 krónur.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Benedikt Ólafsson hrl.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Jón Ingi Þorsteinsson vegna Hróbjarts Jónatanssonar hrl.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómara.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Viðurkennd er riftun sóknaraðila, Þb. HK húseigna ehf., á greiðslu að fjárhæð 12.186.722 krónur, sem innt var af hendi 11. mars 2011, til varnaraðila, VBS eignasafns hf. Öðrum framangreindum riftunarkröfum sóknaraðila er hafnað.
Viðurkennd er við slitameðferð varnaraðila framangreind krafa sóknaraðila, þrotabús HK húseigna ehf., að fjárhæð 12.186.722 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. mars 2011 til greiðsludags, en fjárkröfunni að öðru leyti hafnað.
Framangreind fjárkrafa skal njóta stöðu í skuldaröð samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 313.750 krónur í málskostnað.