Hæstiréttur íslands

Mál nr. 132/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


Fimmtudaginn 23

 

  Fimmtudaginn 23. mars 2006.

Nr. 132/2006.

Hallgrímur Þór Gunnþórsson

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Hæfi dómara.

H sótti um starf við afgreiðslu í Héraðsdómi Reykjavíkur og hlaut ekki starfið. Krafðist hann rökstuðnings þeirrar ákvörðunar og undirritaði þáverandi skrifstofustjóri dómstólsins bréf til H þar sem ákvörðunin var rökstudd. H taldi rétti sínum hallað og stefndi Í til greiðslu bóta vegna þess að hann fékk ekki umrætt starf. Ákvað dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur að allir dómarar dómstólsins vikju sæti við meðferð málsins og var það í kjölfarið fengið dómaranum G til meðferðar, en hann á sæti við Héraðsdóm Reykjaness. Þann 1. febrúar 2006 var A, fyrrum skrifstofustjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur skipuð dómari við Héraðsdóm Reykjaness og krafðist H þess af þeim sökum að G viki sæti í málinu. Talið var að dómari væri sjálfstæður í dómstörfum sínum og leysti þau af hendi á eigin ábyrgð, sbr. meginreglu 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla og skyldi hann eingöngu fara eftir lögum við úrlausn máls og lúta þar aldrei boðvaldi annarra. Ekki var talið að þau starfstengsl sem myndast hefðu milli dómara málsins og fyrrum skrifstofustjóra Héraðsdóms Reykjavíkur væru til þess fallin að draga mætti óhlutdrægni héraðsdómarans með réttu í efa og var kröfu um að G viki sæti í málinu því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Markús Sigurbjörnsson og  Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. febrúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari viki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði tekin til greina. Þá krefst hann aðallega kærumálskostnaðar en til vara að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður verði látinn niður falla.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2006.

Mál þetta var þingfest 30. júní 2005og tekið til úrskurðar 2. þ.m.  Stefnandi er Hallgrímur Þór Gunnþórsson, Snorrabraut 40, Reykjavík en stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda 1.267.037 krónur í skaða- og miskabætur með vöxtum skv. II. kafla laga nr. 25/1987 frá 27. nóvember 2002 til 1. júlí 2001 en skv. II. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 1. ágúst 2006 en skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Málskostnaðar er krafist eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefnda krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

I.

Málavextir eru í stuttu máli þeir að stefnandi sótti um laust starf við afgreiðslu í Héraðsdómi Reykjavíkur sem auglýst var 28. október 2002.  Í umsókn sinni greindi stefnandi frá menntun sinni og starfsreynslu og því að hann væri 75% öryrki.  Í því sambandi minnti stefnandi á lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992 þar sem segir m.a. í 32. gr. að fatlaðir skuli eiga forgang að atvinnu hjá ríki og sveitarfélögum ef hæfni þeirra til starfsins er meiri eða jöfn hæfni annarra sem um starfið sækja.

Stefnandi hlaut ekki starfið og óskaði hann eftir skriflegum rökstuðningi Héraðsdóms Reykjavíkur. Arnfríður Einarsdóttir skrifstofustjóri í Héraðsdómi Reykjavíkur sendi stefnanda rökstuðning 8. janúar 2003.

Stefnandi telur rök Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir því að ráða hann ekki til starfsins í andstöðu við ákvæði laga um málefni fatlaðra og einnig í andstöðu við sjálfa auglýsinguna um starfið og þær forsendur sem þar voru gefnar um starfshæfni.  Stefnandi telur Héraðsdóm Reykjavíkur einnig hafa brotið ákvæði laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Meðal almennra starfsmanna Héraðsdóms Reykjavíkur, þ.e. aðrir starfsmenn en dómarar og löglærðir aðstoðar­menn þeirra, séu karlmenn í miklum minnihluta. Úr því kynjamisvægi hefði mátt bæta með ráðningu stefnanda.

Með bréfi dómsmálaráðuneytisins 20. janúar 2005 fékk stefnandi gjafsókn í málinu.

Með úrskurði 3. október 2005úrskurðaði dómstjórinn í Héraðsdómi Reykjavíkur að allir dómarar við dómstólinn skyldu víkja sæti í þessu máli og sendi Dómstólaráði málið til meðferðar. Þann 4. október 2006 fól Dómstólaráð undirrituðum dómara hjá Héraðsdómi Reykjaness málið til meðferðar skv. 6. mgr. 15. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.  Þingað var í málinu 22. nóvember 2006 og ákveðið að aðalmeðferð færi fram 2. febrúar 2006.  Í þinghaldi þann dag var bókað eftir lögmanni stefnanda:

 ,,Lögmaður stefnanda krefst þess að dómari víki sæti í málinu vegna þess að frá 1. febrúar síðastliðinn hafi Arnfríður Einarsdóttir, áður starfsmaður Héraðsdóms Reykjavíkur, verið skipuð dómari við Héraðsdóm Reykjaness.  Telur lögmaðurinn dómara þann sem fer með þetta mál af þessum sökum vanhæfan til þess að dæma í málinu.”

Í framhaldi af þessari bókun var málið tekið til úrskurðar.

II.

Héraðsdómari er sjálfstæður í dómstörfum og leysir þau af hendi á eigin ábyrgð samkvæmt meginreglu 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Skal hann eingöngu fara eftir lögum við úrlausn máls og aldrei lúta þar boðvaldi annarra.

Ekki er deilt um að héraðsdómari verður ekki vanhæfur stöðu sinnar vegna að fara með mál er varðar málefni annars dómstóls en þann sem dómarinn starfar við.  Ekki verður talið að þau starfstengsl sem myndast hafa nú milli dómara þessa máls og fyrrverandi skrifstofustjóra Héraðsdóms Reykjavíkur geti gefið réttmæt tilefni til þess að stefnandi megi draga óhlutdrægni héraðsdómarans í efa. Þykir ekki skipta máli í þessu sambandi að umræddur skrifstofustjóri hafi sem starfsmaður Héraðsdóms Reykjavíkur fært rök fyrir því að annar en stefnandi hlaut starfið. Verður því krafa stefnanda í þessum þætti málsins ekki tekin til greina.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari víkur ekki sæti í þessu máli.