Hæstiréttur íslands
Mál nr. 270/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Dómstóll
- Félagsdómur
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 23. ágúst 1999. |
|
Nr. 270/1999. |
Vélstjórafélag Íslands (Einar Gautur Steingrímsson hdl.) gegn Reykjavíkurborg (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) |
Kærumál. Dómstólar. Félagsdómur. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Talið var að kröfur verkalýðsfélagsins V í máli, sem það hafði höfðað gegn R, ættu undir Félagsdóm eftir reglum 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Með vísan til 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var staðfestur úrskurður héraðsdómara um að vísa máli V frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. júlí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 1999, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfur hans til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.
Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991 er mælt svo fyrir að þau lög taki til dómsmála, sem hvorki sæta sérstakri meðferð eftir ákvæðum annarra laga né eiga undir sérdómstóla lögum samkvæmt. Félagsdómur er annar tveggja sérdómstóla ríkisins, sbr. 3. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sem tóku gildi 1. júlí 1998 og leystu meðal annars af hólmi ákvæði I. kafla laga nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, sem vísað er til í hinum kærða úrskurði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á með héraðsdómara að kröfur sóknaraðila eigi undir Félagsdóm eftir reglum 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Samkvæmt áður tilvitnaðri 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991 verður einkamál ekki rekið til að fá leyst úr þessum kröfum. Með skírskotun til 2. mgr. 24. gr. sömu laga verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Vélstjórafélag Íslands, greiði varnaraðila, Reykjavíkurborg, 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 1999.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 18. maí sl., er höfðað með stefnu, sem þingfest var 7. janúar 1999. Stefnandi er Vélstjórafélag Íslands Borgartúni 18, Reykjavík. Stefndi er Reykjavíkurborg, Ráðhúsi Reykjavíkur. Til réttargæslu er stefnt Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, Grettisgötu 89, Reykjavík.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi.
1. Að viðurkennt verði að stefnandi, Vélstjórafélag Íslands, fari með samningsaðild fyrir vélfræðingana Önnu Kristjánsdóttur, kt. 301251-2979, Arnar Laxdal Snorrason, kt. 060241-4229, Halldór Sigurðsson, kt. 110734-4339, Jóhann Kristjónsson, kt. 0607523119, Karl Karlsson, kt. 261235-7499, Kristin Gíslason, kt. 251145-4079, Kristin Héðinsson, kt. 040657-3479, Kristin Rafnsson, kt. 240754-4449, Markús J. Ingvason, kt. 021254-4019, Pétur Jónsson, kt. 100944-2949, Sigurjón Ásgeirsson, kt. 280361-4459, Sigurð E. Sigurðsson, kt. 210436-3759, Skúla K. Gíslason, kt. 130738-2659, Svein Rúnarsson, kt. 190854-5749, Sverri Sæmundsson, kt. 170645-3759, Þorstein I. Kragh, kt. 151236-3839 og Örn Tyrfingsson, kt. 051245-4669 við gerð kjarasamninga við Reykjavíkurborg vegna starfa þeirra sem vélfræðinga hjá Hitaveitu- Vatnsveitu- og Rafmagsveitu Reykjavíkur.
2. Að viðurkennt verði að stefnda, Reykjavíkurborg, sé skylt að halda eftir til greiðslu félagsgjalda til Vélstjórafélags Íslands 1% af heildarlaunum ofangreindra vélfræðinga frá 1. maí 1998.
3. Að viðurkennt verði að stefnda, Reykjavíkurborg, beri að greiða ársfjórðungslega, eftir á, 0,25% af fullum launum ofangreindra vélfræðinga í orlofsheimilasjóð Vélstjórafélags Íslands, af þeim launum vélfræðinganna sem þeir hafa áunnið sér frá 1. maí 1998.
4. Að viðurkennt verði að stefnda, Reykjavíkurborg, beri að greiða gjald í endurmenntunarsjóð Vélstjórafélags Íslands vegna ofangreindra vélfræðinga, sem nemur 0,22% af heildarlaunum þeirra frá 1. maí 1998.
5. Að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum gerir stefndi kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Réttargæslustefndi gerir kröfu um að honum verði tildæmdur málskostnaður í málinu. Að öðru leyti tekur hann undir dómkröfur stefnda.
Málavextir
Stefnandi lýsir málavöxtum svo að í janúarmánuði 1985 hafi 19 vélfræðingar sem störfuðu hjá Vatnsveitu-, Hitaveitu- og Rafmagnsveitu Reykjavíkur ritað bréf til stjórnar Vélstjórafélags Íslands og farið þess á leit við stjórn félagsins að kannaðir yrðu möguleikar þeirra á að komast á orkuverasamninga félagsins. Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar hafi þá farið með samningsmál þeirra og hafi starfsmönnunum þótt nauðsynlegt að stjórn Vélstjórafélagsins hæfi könnunarviðræður við Starfsmannafélagið um hvort samkomulag gæti náðst um það að Vélstjórafélag Íslands færi með samningsumboð þeirra. Í framhaldi af þessari beiðni vélfræðinganna hafi formaður Vélstjórafélags Íslands sent bréf, dagsett 7. mars 1985, til Starfsmannafélags Reykjavíkur með ósk þar um. Í bréfi dagsettu 11. mars 1985 hafi formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar tilkynnt formanni Vélstjórafélags Íslands að þetta væri ekki á valdi félagsins. Máli sínu til stuðnings hafi hann bent á 1. og 2. gr. samþykktar Borgarráðs Reykjavíkur frá því í september 1953 og 45. og 46. gr. reglugerðar um réttindi og skyldur borgarstarfsmanna frá 1967. Í 46. gr. reglugerðarinnar segi að öllum starfsmönnum borgarinnar og fyrirtækja hennar, sem háðir séu ákvæðum reglugerðarinnar, sé skylt að vera í Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar.
Formaður Vélstjórafélags Íslands hafi sent Borgarráði Reykjavíkur bréf, dagsett 31. maí 1985, og hafi farið þess á leit að Reykjavíkurborg viðurkenndi Vélstjórafélag Íslands sem réttmætan samningsaðila þessara manna. Með bréfi dagsettu 5. júní 1985 hafi borgarstjórinn í Reykjavík hafnað ósk formanns Vélstjórafélags Íslands, borgarráð teldi sér ekki fært að verða við erindinu enda væri samið um kjör umræddra starfsmanna við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Í framhaldi af þessu svari borgarstjórans í Reykjavík hafi vélfræðingarnir sent bréf, dagsett 14. júní 1985, til Launamálanefndar Reykjavíkur. Hafi þeir vakið athygli á því að allt frá stofnun Hitaveitu Reykjavíkur hefðu þeir verið í sama launaflokki eða jafnvel einum hærri en vélstjórar í raforkuverum Reykjavíkurborgar, enda með sömu menntun og störfin hliðstæð. Eftir að Landsvirkjun var stofnuð, en hún sé að hálfu í eigu Reykjavíkurborgar, hafi fljótlega orðið mikil breyting til hins verra í launamálum þeirra. Launabilið hefði síðan stöðugt breikkað. Sama þróun hefði átt sér stað varðandi samanburð á launum þeirra og launum þeirra vélfræðinga sem störfuðu hjá Hitaveitu Suðurnesja. Hafi þeim því þótt óviðunandi að eiga þess ekki kost að geta gengið í sitt fagfélag, Vélstjórafélag Íslands, í stað stéttarfélags sem Reykjavíkurborg hafi skipað þeim að vera í og hafi séð um kjarasamninga fyrir fjöldann allan af ófaglærðum launþegahópum.
Um þróun mála næstu fjögur árin er vísað til bréfs sem starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar hafi ritað borgarráði Reykjavíkurborgar þann 6. nóvember 1989. Bréfið hafi verið lagt fram á fundi borgarráðs Reykjavíkur þann 12. desember 1989, og hafi erindi vélfræðinganna þá verið hafnað.
Í bréfi til starfsmannastjóra Reykjavíkurborgar, dagsettu 2. apríl 1990, undirrituðu af 13 vélfræðingum Hitaveitu Reykjavíkur, komi fram hörð gagnrýni á launakjör vélfræðinga Hitaveitunnar í samanburði við launakjör annarra vélfræðinga sem hafi haft sams konar starfsemi með höndum. Hafi í þeim efnum aðallega verið vísað til starfandi vélfræðinga hjá Landsvirkjun. Með þessu bréfi vélfræðinganna hafi fylgt bréf frá Sverri Axelssyni, en hann hafi verið fulltrúi í fulltrúaráði við stofnun Landsvirkjunar árið 1965 og seinna í stjórn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Þá hafi hann átt sæti í fulltrúaráði Vélstjórafélags Íslands. Í bréfinu, sem dagsett sé 25. nóvember 1989, greini Sverrir frá því að Reykjavíkurborg hefði sagt upp starfsmönnunum við Elliðaár- og Sogsvirkjun frá og með 1. janúar 1966. Uppsagnirnar og framtíð starfsmannanna hefðu mikið verið ræddar í báðum hagsmunafélögum þeirra. Fljótlega hefði verið ljóst að Vinnuveitendasamband Íslands myndi fara með gerð samninga fyrir hönd Landsvirkjunar. Hinn 9. mars 1967 hafi þeir Halldór Jónatansson og Ingólfur Ágústsson síðan undirritað kjarasamning fyrir hönd Landsvirkjunar með fyrirvara. Strax hafi þótt sýnt að þeir starfsmenn sem hafi átt að starfa eftir samningnum hefðu mun betri kjör en þeir hefðu haft sem fastráðnir starfsmenn Reykjavíkurborgar.
Máli þessu hafi lítið sem ekkert verið hreyft í nálega 6 ár eða allt þar til að 18 vélfræðingar hjá Hitaveitu-, Rafmagnsveitu- og Vatnsveitu Reykjavíkurborgar hafi ritað starfsmannahaldi Reykjavíkur bréf, dagsett 17. maí 1996. Óskir vélfræðinganna hafi enn sem fyrr beinst að því að öll samningsbundin gjöld yrðu greidd til Vélstjórafélags Íslands og jafnframt að félagið færi með samningsrétt fyrir þeirra hönd. Afrit af bréfinu hafi verið sent Borgarstjóranum í Reykjavík, Starfsmannafélagi Reykjavíkur og formanni Veitustofnana. Bréfinu hafi hins vegar ekki verið sinnt. Efnislega sams konar bréf hafi verið sent Starfsmannahaldi Reykjavíkur þann 5. mars 1997 og afrit þess sent Borgarstjóranum í Reykjavík, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, formanni Veitustofnana og Vélstjórafélagi Íslands. Í þetta sinn hafi verið veittur svarfrestur til 30. apríl sama ár. Bréfinu hafi hins vegar ekki verið svarað fyrr en rúmum 9 mánuðum síðar eða 12. desember 1997.
Vélfræðingarnir hafi sagt sig formlega úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar með bréfi dagsettu 23. janúar 1998 og hafi afrit þess bréfs verið sent til starfsmannahalds Reykjavíkur. Á þessum tímapunkti hafi vélfræðingunum þótt ljóst að höfða yrði dómsmál til að fá rétt sinn staðfestan til skýlausrar inngöngu í Vélstjórafélag Íslands. Þeir hafi talið sig nokkrum sinnum hafa sagt sig úr félaginu en hafi viljað, formsins vegna, að slík yfirlýsing yrði afdráttarlaus.
Reykjavíkurborg hafi ekki sinnt erindi vélfræðinganna í nefndu bréfi og af þeim sökum hafi lögfræðingur Vélstjórafélags Íslands ritað bréf til starfsmannaþjónustu Reykjavíkurborgar, dagsett 9. mars 1998, og hafi kröfur vélfræðinganna verið þar ítrekaðar.
Í bréfi, dagsettu 8. apríl 1998, hafi framangreindu bréfi verið svarað af hálfu deildarlögfræðings starfsmannaþjónustu Reykjavíkurborgar fyrir hönd Reykjavíkurborgar. Enn og aftur hafi kröfum vélfræðinganna verið hafnað.
Með bréfi, dagsettu 12. maí 1998, hafi Vélstjórafélag Íslands, fyrir hönd vélfræðinganna, farið þess á leit við Borgarstjórann í Reykjavík að Reykjavíkurborg greiddi gjöld samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar við Reykjavíkurborg til Vélstjórafélags Íslands. Fyrstu greiðslur ættu að berast vegna maímánaðar í upphafi júnímánaðar. Hefðu greiðslurnar ekki borist fyrir 15. júní 1998 mætti búast við málssókn Vélstjórafélags Íslands á hendur Reykjavíkurborg án frekari fyrirvara.
Erindi Vélstjórafélags Íslands hafi verið svarað með bréfi dagsettu 2. júní 1998 undirrituðu af Borgarstjóranum í Reykjavík. Fram hafi komið í bréfinu að á fundi borgarráðs hefði verið samþykkt að vísa erindinu til borgarlögmanns og jafnframt hefði verið óskað eftir því að Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar kæmi að málinu.
Lögfræðingur Vélstjórafélags Íslands hafi sent Borgarstjóranum í Reykjavík bréf, dagsett 5. ágúst 1998. Í niðurlagi bréfsins segi að með bréfi dagsettu 2. júní 1998, undirrituðu af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra, kæmi fram að á fundi borgarráðs þann sama dag hefði verið samþykkt að vísa erindi Vélstjórafélags Íslands, dagsettu 12. maí 1998, til meðferðar borgarlögmanns. Þar sem liðnir væru rúmir tveir mánuðir frá dagsetningu umrædds bréfs og ekkert hefði enn heyrst frá borgarlögmanni, hafi verið tilkynnt að ef umræddar greiðslur hefðu ekki borist Vélstjórafélagi Íslands, við uppgjör til starfsmanna l. september 1998, myndi félagið neyðast til að höfða mál gegn Reykjavíkurborg án frekari fyrirvara. Engin svör hafi þó borist frá Reykjavíkurborg en með bréfi, dagsettu 22. september 1998, hafi Gestur Jónsson hrl. gefið upp það álit sitt, fyrir hönd starfsmannaþjónustu Reykjavíkurborgar, að stefndu bæri í engu að verða við kröfum stefnanda vegna starfa vélfræðinganna sautján. Stefnandi hafi ekki fallist á álit Gests Jónssonar hrl.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir á því að með því að viðurkenna ekki samningsaðild stefnanda vegna vélfræðinganna sautján, sem starfi hjá Hitaveitu- Vatnsveitu- og Rafmagnsveitu Reykjavíkur, hafi stefndi, Reykjavíkurborg, brotið gegn 72., 73. og 74. gr. stjórnarskrárinnar, auk 10. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 8. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sbr. A-deild Stjórnartíðinda nr. 10/1979 og 22. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. A-deild Stjórnartíðinda nr. 10/1979.
Úrsögn vélfræðinganna úr Starfsmannafélagi Reykjavíkur hafi átt sér stað í janúar 1998. Samkvæmt 4. gr. laga Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar skuli úrsögn úr félaginu vera skrifleg og geti fyrst tekið gildi 3 mánuðum eftir að hún berst félaginu. Vélfræðingarnir hafi sagt sig úr félaginu frá 1. febrúar 1998 að telja og hafi úrsögnin því verið virk þann 1. maí 1998. Frá 1. maí 1998 hafi vélfræðingarnir því verið félagsmenn Vélstjórafélags Íslands. Stefnandi telji sig því fara með samningsrétt vegna starfa vélfræðinganna enda segi í a-lið 1. mgr 2. gr. laga Vélstjórafélags Íslands, að tilgangur félagsins sé að gæta hagsmuna íslensku vélfræðinga-, vélstjóra- og vélavarðastéttarinnar og semja um kaup þeirra og kjör við vinnuveitendur.
Þá byggir stefnandi á því að með því að draga ekki félagsgjöld af vélfræðingunum sautján og skila þeim gjöldum til Vélstjórafélags Íslands og með því að greiða ekki ársfjórðungslega eftir á 0,25% af fullum launum vélfræðinganna í orlofssjóð Vélstjórafélags Íslands af þeim launum þeirra sem til hafi fallið eftir 1. maí 1998 og jafnframt með því að greiða ekki gjald í endurmenntunarsjóð Vélstjórafélags Íslands vegna ofangreindra vélfræðinga sem nemi 22% af heildarlaunum þeirra sem þeir hafi áunnið sér frá 1. maí 1998, þá hafi stefndi, Reykjavíkurborg, brotið gegn 65, 72., 73., 74. og 75. gr. stjórnarskrárinnar, auk 10. og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 8. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sbr. 1. nr. 10/1979 og 22. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. 1. nr. 10/1979.
Um heimild stefnanda til að höfða mál út af sakarefni þessu er vísað til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnanda í málinu eru ítarlega raktar í stefnu en ekki þykir ástæða til þess að rekja þær nánar í þessum þætti málsins.
Eins og áður greinir fór fram munnlegur málflutningur um framkomna frávísunarkröfu stefnda hinn 18. maí sl. og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar.
Í þessum þætti málsins krefst stefndi, Reykjavíkurborg, þess að málinu verði vísað frá dómi og krefst jafnframt málskostnaðar að mati dómsins.
Réttargæslustefndi, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, gerir kröfu um málskostnað.
Stefnandi, Vélstjórafélag Íslands, gerir þá kröfu að frávísunarkröfu verði hrundið.
Málsástæður stefnda fyrir frávísunarkröfu
Kröfu um frávísun máls þessa byggir stefndi í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi einungis stefnt Reykjavíkurborg til að þola dóm í máli þessu en ekki Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Dómkröfur stefnanda í máli þessu séu þess eðlis að þeim sé ætlað að binda Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og hljóti því að vera óhjákvæmilegt að stefna þeim aðila samhliða Reykjavíkurborg, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í bréfi Gests Jónssonar hrl., dags. 22. september 1998, á dskj. nr. 22 komi fram afstaða Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar til þeirra álitaefna sem hér um ræði. Það sé því ljóst að Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar eigi lögvarðra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins og útilokað sé að héraðsdómur geti, án aðildar þess félags, kveðið upp dóm sem hafi bindandi áhrif fyrir það. Fjölmargir dómar Félagsdóms staðfesti nauðsyn þess að það stéttarfélag sem fari með samningsumboð fyrir starfsmenn eigi aðild að málum fyrir dóminum. Vísar stefndi t.d. til úrskurðar Félagsdóms í máli nr. 9/1998, Stéttarfélag verkfræðinga gegn Reykjavíkurborg.
Stefndi reisir frávísunarkröfu sína í öðru lagi á því að ágreiningsefnið eigi ekki undir dómsvald héraðsdóms. Málið snúist um rétt Vélstjórafélags Íslands til þess að fara með samningsaðild fyrir vélfræðinga sem starfi hjá Reykjavíkurborg. Samkvæmt 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, dæmi Félagsdómur í málum um samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna samningsaðild þeirra nái. Með vísan til framanritaðs byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því að ágreiningsefni þetta eigi undir dómsvald Félagsdóms.
Sjónarmið réttargæslustefnda varðandi frávísunarkröfu.
Réttargæslustefndi telur að ekki sé unnt að fella dóm um kröfur stefnanda án þess að Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar sé aðili að málinu. Hann tekur undir kröfu stefnda um frávísun málsins og vísar til sjónarmiða er fram koma á dskj. nr. 22.
Málsástæður stefnanda varðandi frávísunarkröfu
Stefnandi mótmælir öllum kröfum stefnda og málsástæðum.
Stefnandi byggir á því að með úrgöngu vélfræðinganna úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar hafi sambandið rofnað milli aðilanna. Hefði því verið um aðildarskort að ræða hefði kröfum verið beint að félaginu. Af hálfu stefnanda sé viðurkennt að kjarasamningur sé í gildi þar til hann rennur út og engin krafa gerð um riftun hans. Félagsaðild sé hins vegar ekki sama og samningsaðild. Samningsumboð Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sé ekki lengur til staðar eftir úrgöngu vélfræðinganna úr félaginu.
Varðandi þá málsástæðu að málið eigi ekki undir héraðsdóm er á því byggt af hálfu stefnanda að málið snúist um samningsumboð og fjölmörg önnur atriði sem eigi ekki undir Félagsdóm þ.ám. varði það fjölmörg stjórnarskrárákvæði. Það sé því stjórnarskrárvarinn réttur stefnanda að geta vísað málinu til æðra dóms ef svo ber undir. Túlka beri þröngt ákvæði um að sakarefni heyri undir sérdómstól.
Niðurstaða
Fyrst ber að taka til umfjöllunar þá málsástæðu stefnda að mál þetta eigi ekki undir dómsvald héraðsdóms.
Í lögum um meðferð einkamála er ekki skilgreint til hvaða mála dómsvald héraðsdóms taki en samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 hafa dómstólar vald til þess að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til nema það sé skilið undan lögsögu þeirra samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli sínu.
Í 1. gr. laga nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði segir að héraðsdómstólar fari með dómstörf, hver í sínu umdæmi, í opinberum málum og einkamálum, þar á meðal við skipti, fógetagerðir og uppboð. Í 9. gr. sömu laga segir enn fremur að haldast skuli sérreglur laga um félagsdóm, kirkjudóm, landsdóm og siglingadóm, en sá síðastnefndi er nú liðinn undir lok.
Framangreind ákvæði laga nr. 92/1989 leiða til þess að skilgreina ber lögsögu almennu dómstólanna þannig að hún taki til þeirra dómsmála sem eiga ekki beinlínis undir aðra dómstóla samkvæmt lögum.
Verkefni Félagsdóms eru skilgreind í 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og í 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Umræddir vélfræðingar eru starfsmenn Reykjavíkurborgar og því opinberir starfsmenn. Eiga lög nr. 94/1986 því við um ágreininga málsaðila.
Í 1. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 segir að Félagsdómur dæmi í málum sem rísa á milli samningsaðila um samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna samningsaðild þeirra nái.
Fyrsta krafa stefnanda er sú að viðurkennt verði að stefnandi, Vélstjórafélag Íslands, fari með samningsaðild, sem Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar hefur farið með, fyrir umrædda vélfræðinga. Snýst mál þetta því um rétt stefnanda, Vélstjórafélags Íslands, til þess að fara með samningsaðild vélfræðinganna sem starfa hjá Reykjavíkurborg. Telja verður ljóst, samkvæmt skýru ákvæði 1. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, að slíkur ágreiningur eigi undir dómsvald Félagsdóms og eigi, með vísan til framanritaðs, því ekki undir dómsvald héraðsdóms. Aðrar kröfur stefnanda eru kröfur sem leiða beint af kröfu hans um viðurkenningu á samningsaðild og eiga því með sömu rökum undir dómsvald Félagsdóms.
Ber því, þegar af þessum sökum, með vísan til 2. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, að vísa máli þessu frá dómi.
Stefnandi greiði stefnda og réttargæslustefnda hvorum um sig 60.000 krónur í málskostnað.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Vélstjórafélag Íslands, greiði stefnda, Reykjavíkurborg, og réttargæslustefnda, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, hvorum um sig 60.000 krónur í málskostnað.