Hæstiréttur íslands

Mál nr. 112/2006


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skóli


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. september 2006.

Nr. 112/200.

Kristófer Atli Axelsson

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Líkamstjón. Skóli.

 

K, sagaði framan af þumalfingri, er hann var að nota hjólsög í kennslustund í Iðnskólanum í Reykjavík. Héraðsdómur sýknaði Í af bótakröfu K, enda þótti mega byggja á því að kennsla sú og þjálfun sem K fékk við notkun hjólsagarinnar hafi verið fullnægjandi til þess að óhætt væri að hann ynni það verk sem fyrir hann var lagt, þegar slysið varð. Var einnig talið að hjólsögin hafi verið í góðu lagi og öryggisbúnaður við sagarblaðið nægjanlegur. Var því ekki talið að K hefði tekist sönnun þess að aðrir en hann sjálfur bæri sök á slysinu. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóminn með vísan til forsendna hans. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2006. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.493.544 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 22. nóvember 2002 til 10. júní 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim tíma til greiðsludags, allt frádregnum 599.944 krónum sem Tryggingastofnun ríkisins greiddi áfrýjanda 23. nóvember 2005. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, verður hann staðfestur.

Samkvæmt 3. mgr. 130. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 166. gr. sömu laga, verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

              Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.                                                                                                                                                                                      

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2006.

I

   Mál þetta sem dómtekið var 13. janúar sl.  höfðaði Kristófer Atli Axelsson, kt. 171283-8099, Avestagatan 16, Spånga, Svíþjóð gegn íslenska ríkinu með stefnu birtri 7. júní 2004.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum  skaðabætur að fjárhæð kr. 3.493.544 með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 22. nóvember 2002 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags.

Til frádráttar kröfunni komi greiðsla Tryggingastofnunar ríkisins til stefnanda kr. 599.944.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi og að málskostnaður verði dæmdur eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að stefnukrafa verði lækkuð verulega og málskostnaður felldur niður.

Málið var upphaflega dómtekið 16. janúar sl. en endurupptekið, sbr. 104. gr. laga nr. 91/1991, hinn 13. janúar sl. og gerðu lögmenn aðila þá athugasemdir til viðbótar fyrri málflutningi.

II

Stefnandi hóf nám í tréiðnadeild í Iðnskólanum í Reykjavík síðla í ágúst 2002 og varð hinn 22. október fyrir slysi þar sem hann var að vinna við hjólsög. Stefnandi var að rista lista sem mun hafa verið um 40 cm langur og u.þ.b. 2,4 cm þykkur. Stefnandi ýtti á eftir listanum með eftirreku sem hann hélt á í hægri hendi en studdi við listann að svokölluðu ristilandi með vinstri hendi. Stefnandi lenti með þumalfingur þeirrar handar í sagarblaðinu og tók fremstu kjúku fingursins af við naglrótina. Örorkunefnd hefur metið að varanleg örorka stefnanda vegna slyssins sé 10% og varanlegur miski 8% og eru bótakröfur stefnanda, þ.m.t. þjáningabætur, byggðar á þessu örorkumati. 

III

Í upphafi námsins var stefnandi í áfanga sem nefndur er VGT 106. Í þeim áfanga eru kennslustundir í verklegu námi 168 sem dreifast á 7 vikur. Samkvæmt kennsluáætlun skólans fara 10 stundir í kynningu á deildinni, í fyrstu vélaæfingar 10 stundir, æfingaverkefni taka 50 stundir og smíði á verkfærakistu 70 stundir. Fleira er og kennt í þessum áfanga sem ekki er ástæða til að rekja. Í áttundu viku hefja nemendur nám í næsta áfanga, VGT 206C, og í upphafi hans er 60 stundum varið til þess að smíða stól og næstu 40 stundirnar fara til þess að smíða tröppu. Samkvæmt þessari tímaáætlun var stefnandi að smíða stól þegar slysið var, en sjálfur segist hann hafa verið að efna niður í tröppu.

Samkvæmt gögnum málsins hafði stefnandi fengið hinn 9. september 2002 tilsögn við notkun hjólsagar og eru á sérstöku blaði tilgreind 17 atriði sem tilsögnin náði til. Á blaðið kvitta bæði stefnandi og kennari hans, Magnús Ólafsson, fyrir að tilsögnin hafi farið fram. Á blaðinu er tilgreint að tilsögnin hafi m.a. náð til þess að „standa rétt að við sögun t.d. að teygja sig ekki yfir blaðið og koma ekki of nálægt blaðinu með óvarðar hendur“, „stilla blaðhlíf og kleyfi rétt“, „nota spyrnu, frávísara og spennifjaðrir“, og hafa hæfilegan hraða á framfærslunni. Nemendum var skipt í 6-8 manna hópa.

Þegar slysið varð var kallað á sjúkrabíl og lögreglu. Lögreglan mun hafa kvatt Vinnueftirlitið á staðinn og hefur skýrsla þess, dags. 22.10. 2002, verið lögð fram í málinu. Í umsögn Vinnueftirlitsins segir að vettvangur hafi verið óhreyfður þegar tæknifulltrúinn mætti og þar hafi fulltrúar lögreglunnar verið, en hinn slasaði hafi verið fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Í umsögninni segir síðan orðrétt:

Tildrög slyssins voru þau að Kristófer var að rista lista (30-40 sm. langan og u.þ.b. 5 sm breiðan) í borðsög. Hann ýtti á eftir listanum með eftirreku sem hann hélt á í hægri  hendi en studdi við hann með vinstri hendinni og fór þumalfingur vinstri handar í sagarblaðið og sagaði hann framan af fingrinum um naglrót.

Vinnubrögð og starfshættir. Þar sem hér er um nemanda að ræða má gera ráð fyrir að reynsluleysi og ef til vill skortur á kennslu eigi sinn þátt í slysinu.

Tæki og búnaður. Ekkert fannst athugavert við vélina og var hún búin nauðsynlegum öryggishlífum og til staðar var eftirreka.

Orsök slyssins er ekki augljós en hugsanlega gæti hún stafað af reynsluleysi og skorti á tilsögn við verkið.“

            Skýrslu Vinnueftirlitsins fylgir ljósprentun af þremur myndum sem teknar voru af hjólsöginni af Guðbrandi Árnasyni tæknifulltrúa. Engar mælingar er að finna í skýrslunni. Á myndunum sést hjólsögin og eftirrekan og einnig fjalarbútur sem sýnist vera fullsagaður. Þá sést sagarblaðið greinilega og kleyfirinn fyrir framan það en á hann er fest hlíf sem gengur aftur af kleyfinum og yfir og niður með sagarblaðinu sitt hvoru megin. Búnaðinum er þannig fyrir komið að kleyfirinn og hlífin eru stillt sérstaklega en þegar það hefur verið gert þá fylgir hvorttveggja með þegar hæð sagarblaðsins er stillt. Hlífin er að hluta nokkuð slitin af viðkomu við sagarblaðið þannig að hún nær ekki niður með blaðinu þar sem það gengur hæst upp en er heil aftast þar sem efninu er rennt undir hana. Hlífin nær stutt aftur fyrir sagarblaðið.

            Guðbrandur Árnason, tæknifulltrúi hjá Vinnueftirlitinu, kom fyrir dóminn og staðfesti skýrslu sína. Þær ljósmyndir sem hann tók á vettvangi voru bornar undir hann til þess að fá frekari skýringar á því sem á myndunum sést. Vitnið mundi ekki eftir því hvort á myndinni væri sá efnisbútur sem stefnandi var að saga eða neitt annað sem máli skiptir.

            Dómendur gengu á vettvang ásamt lögmönnum aðila 13. janúar sl. og skoðuðu hjólsögina undir leiðsögn kennaranna Magnúsar Ólafssonar og Skjaldar Vatnars Björnssonar sem báðir gáfu vitnaskýrslu í málinu. Vitnin sýndu dómendum sams konar stól og stefnandi hafði verið að efna í og efni af sömu þykkt og eiginleikum og þeir sögðu stefnanda hafa verið að saga. Reynt var eftir föngum að mæla hæð á sagarblaði og hlífinni yfir því með hliðsjón af þeim ljósmyndum sem að framan getur. Efnisþykktin er 2,4 cm, ristiland sagarinnar er 9,5 cm, sagarblaðið nær ca 4,7 cm upp fyrir sagarborðið, eða því sem næst upp á hálft ristilandið, og upp í hlífina er ca 3,7 til 4,5 cm. Áfastur við sögina er armur með hlíf sem ætluð er til þess að setja yfir sagarblaðið. Hún er nokkuð stór og getur náð vel aftur og fram fyrir blaðið. Á sitt hvorum enda hlífarinnar eru hjól, sem ná aðeins niður fyrir hlífina, og er hjólunum ætlað að hvíla á því efni sem sagað er hverju sinni, þ.e.a.s.að efninu er rennt undir hjólin.     

Í skýrslu lögreglu sem tekin var af stefnanda og Magnúsi Ólafssyni kennara á slysadeild 22. október er haft eftir Magnúsi að trébúturinn sem stefnandi var að saga hafi verið fremur lítill og að stefnandi hefði áreiðanlega gleymt sér og farið of langt með vinstri höndina. Sagt er að stefnandi hafi lýst atburðarásinni eins og Magnús og til viðbótar er eftir honum haft að hann hafi síðan fengið högg á vinstri höndina og þá séð að hann var slasaður á fingri.

IV

Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði byrjað nám í Iðnskólanum um tveimur mánuðum áður en hann varð fyrir slysinu. Hann hefði ekki haft reynslu af smíðum eða áður stundað nám í þeirri iðngrein, en lítillega unnið í byggingavinnu, þó ekki við vélar. Námið hefði frá upphafi verið verklegt og bóklegt jöfnum höndum. Verklega kennslan hefði farið fram í tveimur sölum og í öðrum þeirra hefðu allar vélarnar verið. Í byrjun hefði nemendum verið skipt í ca 8 manna hópa og þeim kennt á hverja vél fyrir sig. Kennarinn hefði byrjað að kenna þeim á vélarnar og nokkrir nemendur hefðu verið látnir prófa þær að kennaranum viðstöddum. Kennslan á hverja vél hefði staðið í nokkrar mínútur. Nemendur hefðu verið með blað fyrir hverja vél og átt að kvitta á það þegar vélin hefði verið sýnd. Stefnandi sagðist ekki muna eftir því að honum hefði verið sérstaklega kennt á hjólsögina sem slysið varð við og að hann hefði ekki fengið að prófa sögina. Stefnandi kannaðist við að hafa kvittað fyrir kennsluna á hjólsögina, en mundi ekki hvort farið hefði verið yfir öll atriðin sem á blaðinu eru tilgreind. Sumum atriðunum myndi hann eftir en ekki öllum. Í bóklegu kennslunni hefðu verið tímar sem hétu öryggisfræði, en stefnandi kvaðst ekki muna sérstaklega eftir því að fjallað hefði verið um öryggi við hjólsagir.

Daginn sem slysið varð hafi hann verið, að fyrirmælum Magnúsar Ólafssonar kennara, að sníða efni í tröppur og hefði hann átt ásamt öðrum nemanda að smíða ákveðinn hlut, þ.e. að rista átta spýtur og búta þær síðan niður, hvort tveggja eftir ákveðnum málum sem þeir hefðu fengið á blaði. Stefnandi kvaðst hafa stillt sögina til að saga spýturnar í ákveðna breidd, en hann hefði hins vegar ekki stillt hæðina á blaðinu. Stefnandi kvaðst ekki muna til þess að hafa þá eða áður fengið leiðbeiningar um hvernig ætti að stilla hæð sagarblaðsins. Ekki hefði þeim verið leiðbeint sérstaklega við þetta verkefni, en Magnús hefði verið í grenndinni og hægt að snúa sér til hans. Tveir og tveir nemendur hefðu unnið saman og hóparnir verið þrír eða fjórir og Magnús verið að sinna þeim öllum. Stefnandi kvaðst nokkrum sinnum áður hafa unnið við hjólsögina. Hann kvaðst hafa fengið lýsingu á öryggisatriðum varðandi allar vélarnar en mundi ekki hvort það var fyrir eða eftir slysið.

Stefnandi sagðist við verkið hafa séð að efni vantaði í eina spýtu. Þá hefði hann verið búinn að saga sjö. Þeir hefðu farið til Magnúsar og spurt hann að því hvar þeir gætu fengið efni til þess að saga þá áttundu. Magnús hefði vísað þeim á hillu með afgangsefni til að saga sem þeir hafi fundið. Af þeirri spýtu hefði aðeins þurft að saga einn sentimeter til þess að fá rétta breidd og þeir þá farið í það að rista spýtuna. Sá nemandi sem hafi verið með sér hafi tekið á móti efninu þegar það var fullsagað. Stefnandi kvaðst hafa byrjað að saga og verið með eftirreku í  hægri hendi og haldið spýtunni upp að landinu með þeirri vinstri. Spýtan hefði kippst til baka og komið högg. Hann hafi hrokkið við og einhvern veginn farið með fingurinn í blaðið. Þetta hefði allt gerst mjög snöggt. Stefnandi kvaðst ekki muna nákvæmlega hversu langt hann hafi verið kominn með að saga spýtuna, en kannske hann hafi verið hálfnaður. Stefnandi kvaðst ekki geta munað sérstaklega eftir því að nemendum hafi verið sagt að fara ekki með hendurnar inn fyrir hálfhring sem dreginn er um sagarblaðið. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa tekið sérstaklega eftir þessum hring eða heyrt minnst á orðið vítahring eða á hringinn hefði verið minnst í kennslu. Stefnandi sagði, þegar hann hefði hugsað til baka eftir slysið, að hann hefði munað eftir þessum hring sem hefði verið orðinn mjög snjáður og ekki vakið sérstaka athygli. Stefnandi kvaðst ekki hafa fengið fyrirmæli um að nota stoðklossa til að halda við spýtuna með vinstri hendi. Stefnandi sagði að þeim nemendum hefði verið bent á að hlífin yfir sagarblaðinu yrði alltaf að vera á sínum stað en kvaðst ekki geta munað að þeim hefði verið kennt að stilla hana og það  hafi hann ekki kunnað.

Stefnandi kannaðist ekki við að hann hefði runnið til þegar slysið varð. Stefnandi kannaðist ekki við að hafa sagt þegar lögregluskýrsla var tekin að hann hefði gleymt sér og farið of langt með höndina. 

Lögmaður stefnanda upplýsti að ekki hefði tekist að hafa upp á þeim nemanda sem vann með stefnanda við sögunina.

Vitnið Ingi Hilmar Thorarensen kom fyrir dóminn og skýrði frá því að hann hefði orðið fyrir slysi þegar hann var við nám í Iðnskólanum í Reykjavík. Samkvæmt yfirlýsingu vitnisins dags. 31. október 2005, sem hann staðfesti fyrir dóminum, þá var hann að saga efni í kassa í hjólsög,  þá sömu og stefnandi slasaðist við að því er vitnið taldi. Spýtan hefði staðið á sér og hann lent með höndina á sagarblaðinu og skorist lítils háttar á löngutöng. Vitnið fór á slysa- og bráðadeild Landspítalans og samkvæmt vottorði læknis þar gerðist þetta 17. september 2002 og hafi vitnið haft örlítið flipasár á góm löngutangar vinstri handar.   

Vitnið Magnús Ólafsson, brautarstjóri í tréiðnadeild Iðnskólans í Reykjavík, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Vitnið kvaðst vera trésmíðameistari, hefði stundað framhaldsnám í Svíþjóð í tækniskóla og kennaraháskóla og útskrifast þaðan árið 1978. Þar hefði hann byrjað að kenna en frá 1980 hefði hann kennt við Iðnskólann í Reykjavík, bæði bóklegar og verklegar námsgreinar. Nemendur byrjuðu yfirleitt nám í iðnskólanum þegar þeir væru á sautjánda ári.

Vitnið lýsti því að stefnandi hefði verið við nám í áföngum sem nefndust VGT 106C og VGT 206C, en þessir áfangar hafi verið samkeyrðir á þessum tíma, eins og vitnið orðaði það, og nemendur verið um þrjátíu talsins. Vitnið sagði stefnanda hafa verið búinn með áfanga 106 þegar slysið varð. Kennt hefði verið í hópum og í hóp stefnanda hefðu verið 7 nemendur. Vitnið taldi að 5-6 nemendur hefðu verið mættir daginn sem stefnandi varð fyrir slysinu. Á þessum tíma hefði skólinn byrjað í lok ágústmánaðar. Kennslan hefði farið fram eftir ákveðinni kennsluáætlun sem nemendur hefðu fengið í hendur í upphafi náms og hvor áfangi hefði verið um 168 kennslustundir og staðið í 7 vikur. Verkleg kennsla væri 24 kennslustundir á viku. Véla- og tækjafræði væri kennd sem bókleg námsgrein strax á fyrstu önn. Í byrjun væri nemendum kynntar vélar og öryggisatriði varðandi þær. Farið væri nákvæmlega yfir atriðin sem skráð væru á blaði og nemendur kvittuðu fyrir að hafa fengið þessa kennslu. Nemendur fengju ekki að vinna við viðkomandi vél nema að hafa fengið kennslu á vélina og kvittað fyrir, eins og stefnandi hafi gert að því er hjólsögina varðar. Vitnið sagði að kennslan á hjólsögina tæki u.þ.b. þrjú korter. Í fyrsta áfanga smíðuðu nemendur verkfærakistu og því væri heilmikil vélavinna samfara. Efnið í kistuna væri sagað í hjólsöginni. Vitnið sagði að stefnandi hafi verið, þegar slysið varð, að smíða stól og að saga efni í stólfæturna, 5 cm breitt og 40 cm langt. Samkvæmt kennsluáætluninni byrja nemendur á þessu verkefni í 8. viku námsins í áfanga 206. Á þessum tíma hafi hver nemandi verið búinn að nota hjólsögina nokkuð mikið og sér vitanlega hefði ekkert bent til þess að stefnandi skildi ekki hvernig sögina ætti að nota. Vitnið sagðist hafa staðið við hliðina á stefnanda þegar slysið varð en ekki séð það gerast. Hann hefði verið að leiðbeina öðrum nemendum og farið á milli þeirra. Vitnið sagði vélasalinn mjög fullkominn og aðstæður þar til fyrirmyndar. Hjólsögin hafi verið 1-2 ára og í fullkomnu lagi. Vitnið fór yfir þau atriði sem kennd eru varðandi notkun sagarinnar og sagði m.a. að fyrir nemendur væri lagt að standa vinstra megin við sögina og athuga að sagarblaðið væri í réttri hæð og kleyfirinn og blaðhlífin rétt staðsett. Nemendum væri kennt að nota eftirreku með hægri hendi og halda efninu með vinstri hendi upp að ristilandinu þar til komi að rauðum hring, sem minna ætti viðkomandi á að hann ætti ekki að fara lengra með fingurna heldur að sleppa vinstri hendinni af og halda áfram með eftirrekunni þar til fullsagað væri. Þessi hringur hefði verið og væri greinilega merktur á söginni, með æpandi rauðum lit, ca 20-25 sentimetra frá blaðinu. Merkingin væri endurnýjuð reglulega. Vitnið sagði slysið hafa gerst með þeim hætti að stefnandi hefði ýtt með þumalfingri vinstri handar fram fyrir rauða hringinn og haldið áfram að ýta og lent með fingurinn í blaðinu. Stefnandi hefði verið búinn að saga spýtuna í gegn annars hefði hann ekki lent með fingurinn í sagarblaðinu. Vitnið kvaðst hafa horft á spýtuna blóðuga þar sem búið hafi verið að saga hana. Spýtan hafi legið frammi í þó nokkuð langan tíma fyrir menn til þess að sjá. Vel megi vera að náð hafi verið í efnið sem stefnandi var að saga á afgangslager, en efnið hafi verið beinvaxið og fyrsta flokks. Margir nemendur hefðu unnið við vélina fyrr um daginn við sama verkefni og stefnandi. Vitnið kvaðst líklega hafa stillt vélina í upphafi og kannaðist ekki við að hafa stillt sagarblaðið of hátt og sagði að samkvæmt myndum sem Vinnueftirlitið hafi tekið af söginni eftir slysið, og voru sýndar vitninu, þá væri sagarblaðið ekki of hátt. Léttara væri að saga þegar tennur sagarblaðsins næðu upp fyrir efnið en þá lentu tennurnar ofan á efninu. Blaðið væri í hærra lagi en ekki vitlaust stillt og öryggisbúnaður hafi komið að fullum notum. Haft hafi verið við samband við lögregluna og hún síðan haft samband við Vinnueftirlitið.

Vitnið kvaðst kannast við að Ingi Hilmar Thorarensen hefði lent með fingur í sagarblaði. Ingi hafi sagt sér að hann hefði verið að fikta með puttana á svæði sem hann hafi vitað að hann hafi ekki mátt vera á. Vitnið sagði að stoðklossi væri ekki notaður við sögun eins og þá sem stefnandi vann við. 

Vitnið, Skjöldur Vatnar Björnsson, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Vitnið sagðist vera sviðsstjóri byggingarsviðs Iðnskólans í Reykjavík. Hann kvaðst vera húsgagnasmiður og með kennararéttindi frá Kennaraháskóla Íslands og hefði kennt við Iðnskólann í Reykjavík frá 1974. Vitnið kvaðst margoft hafa kennt þann áfanga sem stefnandi var í þegar slysið varð. Vitnið sagði að fyrstu fjórar vikurnar væri aðallega kennt á fjórar vélar og ein þeirra væri hjólsög. Farið væri hægt í kennslunni og meginþemað fyrstu tvo eða jafnvel þrjá mánuðina væri að fara í gegnum öryggisatriði og reynt væri að tryggja að nemendur slösuðu sig ekki. Á vélarnar væri kennt í hópum, einn nemandi ynni á vélina og hinir horfðu á og þannig til skiptis, svo væru vinnubrögðin gagnrýnd. Þannig væri farið hring eftir hring á milli vélanna. Á þeim tíma sem slysið varð hafi nemendur nokkrum sinnum í námi sínu verið búnir að nota hjólsögina. Vitnið sagðist ekki hafa verið viðstaddur þegar slysið varð. Á þeim tíma sem hann hefði kennt við skólann hefðu u.þ.b. 2000 nemendur stundað nám á byggingarsviðinu og líklega hefðu ekki orðið nema þrjú skráð slys. Atriði númer eitt við kennslu á hjólsögina sagði vitnið vera að nemandi færi aldrei með bera hönd of nálægt verkfærinu og ef hann gerði þetta á prófi félli hann skilyrðislaust. Þá væri lögð áhersla á stillingu sagarblaðs og hlífar þannig að hlífin kæmi nálægt því efni sem verið væri að saga hverju sinni og sagartennur næðu yfir efnið. Vinstri höndin ætti aldrei að fara inn fyrir rauða hringinn sem væri um sagarblaðið og sá hringur hefði örugglega verið á sínum stað þegar slysið varð. Fleiri atriðum lýsti vitnið sem ekki þykir ástæða til að rekja sérstaklega. Vitnið sagði að vinnueftirlitið kæmi iðulega í skólann til að skoða aðstæður.

V

            Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefnanda hafi aldrei verið kennt sérstaklega á hjólsögina heldur hafi hann verið í hópi nemenda sem hafi verið sýnt hvernig átti að nota hana. Þegar slysið varð hafi stefnandi verið búinn að saga sjö lista ca 40-50 cm langa, 4-5 cm breiða og ca 2 cm þykka og virst hafa kunnað vel til verka við það. Hann hafi vantað efni í áttunda listann sem hann hafi tekið úr afgangsefni og ekkert eftirlit hafi verið haft með því hvers konar efni það var. Stefnandi hafi aðeins verið búinn að saga efnið að hluta þegar það hafi kippst til, eins og högg hafi komið, og við það hafi hann lent með þumalfingurinn í sagarblaðinu. Því sé mótmælt af stefnanda að hann hafi fylgt efninu eftir að sagarblaðinu og þannig lent með fingurinn í því.

            Við verkið sem stefnandi hafi verið að vinna hafi engin sérstök kennsla farið fram áður en byrjað var á því og hvorki nægilegt eftirlit haft með verkinu né hvernig sá bútur var sem stefnandi hafi verið að saga í áttunda listann. Því sé mótmælt að sérstök athygli stefnanda hafi verið vakin á rauða hringnum umhverfis sagarblaðið í þetta sinn eða áður. Ekki hafi heldur verið aðgætt hvort sögin hafi verið rétt stillt. Sögin sjálf hafi verið í lagi en öryggisbúnaður ekki rétt stilltur. Blað sagarinnar hafi verið stillt of hátt eins og fram komi í greinargerð stefnda og verði á því að byggja í málinu sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991. Kennari stefnanda hafi sjálfur stillt sagarblaðið í þessa hæð og hafi hlífin um blaðið verið of hátt frá því efni sem stefnandi var að saga. Stefnandi hafi þannig lent með þumalfingurinn undir hlífinni sem ekki hefði gerst hefði hún verið rétt fyrir ofan efnið eins og hafi átt að vera. Hér beri að hafa í huga að skömmu fyrir slysið hafi annar nemandi lent með fingur í hjólsögina en engar ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu skólans til þess að koma í veg fyrir að slíkt endurtæki sig. Þetta slys hafi ekki verið tilkynnt svo sem skylt sé samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum. 

            Stefnandi hafi verið nemandi og átt rétt á því að njóta fyllsta öryggis og verndar á vinnustað sínum. Öll atvik verði að meta með það í huga stefnanda í hag. Þá verði að meta stefnda í óhag ef atvik málsins séu ekki að fullu upplýst en af hálfu skólans hafi engin sjálfstæð rannsókn verið gerð á slysinu. Þá beri þess að gæta að á hjólsöginni hafi verið annar búnaður til að tryggja að þeir sem unnu við sögina lentu ekki í sagarblaðinu. Spurning væri hvort hann hefði ekki átt að nota til að forða slysum og það sé ekki röksemd að sá búnaður sé óhentugur. Ef til hefði verið hægt að nota stoðklossa til að halda efninu upp að ristilandinu og það dregið úr slysahættu.

            Af hálfu stefnda eru ekki gerðar athugasemdir við örorkumat eða útreikninga stefnanda á tjóni sem eru á því byggðir, en þeir útreikningar voru lagðir fram við aðalmeðferð málsins. Kvaðst lögmaður stefnda treysta því að útreikningarnir væru réttir.   Stefndi benti á það að í munnlegum málflutningi byggði stefnandi á því að eitthvað hafi verið að því efni sem stefnandi var að saga þegar slysið varð, og það því ekki rétt valið. Ekki sé minnst á þetta í stefnu eða öðrum skjölum málsins og sé þessi málsástæða of seint fram komin. Einnig byggi stefnandi á því í munnlegum málflutningi að stefnandi hafi ekki sagað efnið að fullu en ekki sé minnst á það í stefnu.

            Stefnandi hafi átt nokkurt smíðanám að baki. Í iðnskólanum sé lögð mikil áhersla á öryggi og velferðar nemenda gætt í hvívetna. Kennsla á trésmíðavélarnar sé í ákveðnu ferli, fyrst sýnikennsla kennara og síðan sé hverjum og einum nemanda kennt sérstaklega á hverja vél. Fáir nemendur hafi verið í hópi stefnanda, eða um 7 talsins, en heimilt sé að hafa 12 nemendur í sama hópi. Stefnanda hafi verið kennt sérstaklega á hjólsögina eins og sjá megi af kennslugögnum sem hann hafi kvittað á ásamt kennara sínum. Bæði verkleg og bókleg kennsla hafi verið fullnægjandi.

Hjólsögin og öryggisbúnaður hennar hafi verið í fullkomnu lagi eins og fram komi í skýrslu Vinnueftirlitsins. Því hafi ekki verið ástæða til að nota hinn áfasta öryggisbúnað sem hjólsöginni hafi fylgt. Stillingar á söginni og sagarblaðinu hafi verið réttar. Stefnandi hafi haft umtalsverða reynslu af notkun hjólsagarinnar þegar slysið varð. Hann hafi þá verið nærri 19 ára og eldri en flestir nemendur. Kennari  hans hafi verið búinn að kenna í 23 ár og sé vakandi fyrir þeim hættum sem vélanotkuninni sé samfara. Ekkert sé komið fram um að slysið hafi orðið vegna vanrækslu eða vanbúnaðar og hafi stefnanda ekki tekist sönnun um hið gagnstæða, en sönnunarbyrðin hvíli á honum. Leggja verði til grundvallar frásögn kennarans, Magnúsar Ólafssonar, um að spýta sú sem stefnandi hafi verið að saga hafi verið gott efni og stefnandi hafi sagað hana í gegn. Stefnandi hafi því farið inn fyrir rauða hringinn með vinstri hönd sína sem sérstök áhersla sé lögð á að nemendur geri ekki. Stefnandi hafi þannig ekki farið eftir þeim leiðbeiningum sem hann hafi fengið, sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og beri einn sök á því hvernig fór. Engu breyti þótt annar nemandi hafi fengið lítils háttar skrámu við sögun áður en slysið varð en það óhappatilvik hafi ekki kallað á endurskoðun á kennslu eða verklagsreglum.

VI

            Á því sem komið er fram í málinu þykir mega byggja það að kennsla sú og þjálfun sem stefnandi fékk við notkun hjólsagarinnar hafi verið fullnægjandi til þess að óhætt væri að hann ynni það verk sem fyrir hann var lagt að vinna þegar slysið varð. Í fyrsta áfanga námsins hafði stefnandi notað hjólsögina við það að smíða verkfærakistu. Í því tilviki sem hér um ræðir var stefnandi búinn að saga sjö efnisbúta og var að saga þann áttunda og þannig kominn að lokum verkþáttarins. Við aðstæður sem þessar er ekki hægt að ætlast til þess að kennari fylgist með hverju handtaki hvers og eins nemanda. Á því verður að byggja að brýnt hafi verið fyrir nemendum að fara ekki með hendurnar inn fyrir rauða hálfhringinn sem dreginn var um blaðið, en vera kann að sú merking hafi verið eitthvað máð. Hér verður og að hafa í huga að hverjum sem er má vera augljóst að hætta stafar af sagarblaði hjólsagar sem er í notkun og að við þá notkun þarf að gæta fullrar varúðar.

Vinnueftirlitið gerði ekki athugasemd við hjólsögina eða búnað hennar, en athugunin sýnist samkvæmt skýrslu eftirlitsins hafa verið harla rýr í roðinu. Eftir skoðun dómenda á vélinni, enda þótt hún færi fram rúmum þremur árum eftir að slysið varð, verður ekki annað ályktað en vélin hafi verið í góðu lagi. Öryggisbúnað við sagarblaðið verður að telja hafa verið nægjanlegan, enda þótt sá öryggisbúnaður sem vélinni fylgdi hafi ekki verið notaður.

Þá er komið að því að skoða hvort stilling öryggisbúnaðarins við sagarblaðið hafi verið rétt í þeim skilningi að önnur stilling búnaðarins hefði getað komið fyrir slysið. Eins og fyrr getur er ekki mælingum Vinnueftirlitsins á stillingu búnaðarins fyrir að fara og er það miður. Verður því um hana að styðjast við þá skoðun sem dómendur gerðu á vettvangi. Byggja verður á því að þykkt efnisins, sem var óheflað, hafi verið því sem næst 2,4-2,5 cm eða u.þ.b ein tomma. Hæð ristilandsins mældist 9,5 cm og af myndunum þremur má draga þá ályktun að sagarblaðið hafi gengið upp á það mitt eða þar um bil eða náð 4,7 cm upp fyrir sagarborðið. Sá hluti hlífarinnar sem er óslitinn að neðanverðu og gengur aftur af sagarblaðinu nær niður með fram sagarblaðinu. Á gleggstu myndinni mælist sagarblaðið vera í hæðinni 14 mm og að hlífin gangi 2 mm niður með blaðinu, þ.e.a.s. niður á 1/7 hluta blaðsins. Sé gert ráð fyrir því að að blaðið hafi náð 4,7 cm upp fyrir sagarborðið þá er 1/7 hluti þess um 7 mm og verður ekki talið neitt athugavert við innbyrðis stillingu sagarblaðs og hlífar. Bilið upp í hlífina aftanverða hefur þá samkvæmt þessum mælingum verið 4 cm. Eins og fyrr greinir var efni það sem sagað var u.þ.b. 2,4 cm á þykkt og samkvæmt því hefur bilið frá yfirborði efnisins upp að hlífinni aftanverðri verið 1,6 cm. Það er svo lítið bil að meðalþumalfingur kemst tæpast undir hlífina nema fingurgómurinn allur liggi á efninu. Það er fullyrt af hálfu vitnisins Magnúsar Ólafssonar að ekkert hafi verið að því efni sem stefnandi var að saga og ekkert er upplýst um að á því hafi verið einhverjir gallar sem hafi getað átt þátt í því hvernig fór.

Það er upplýst og óumdeilt að við sögunina notaði stefnandi eftirreku í hægri hendi til þess að ýta efninu áfram og að hann hélt efninu að ristarlandinu með vinstri hendi. Segja má að notkun svokallaðs stoðklossa kynni að hafa minnkað líkurnar á því að slysið hefði orðið, þótt það sé engan veginn víst, en við sögun af þessu tagi mun notkun slíks hjálpartækis vera afar fátíð. Stoðklossanum hefði og átt að sleppa utan rauða hálfhringsins til þess að eðlilegs  öryggis væri gætt.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann hafi aðeins verið búinn að saga efnið að hluta, ef til vill til hálfs, þegar það hafi kippst til, eins og högg hafi komið, og við það hafi hann lent með þumalfingurinn í sagarblaðinu en því mótmælt að hann hafi fylgt efninu eftir að sagarblaðinu og þannig lent með fingurinn í því.

Þótt það sé ekki fyllilega sannað þá eru yfirgnæfandi líkur á að fullyrðing stefnanda um að hann hafi einungis sagað efnið að hluta sé ekki rétt. Kemur þar tvennt til. Í fyrsta lagi kannast enginn annar við að spýtan hafi aðeins verið söguð að hluta og ekki er að sjá hálfsagaða spýtu á myndum Vinnueftirlitsins þótt það geti ekki talist óræk sönnun. Í öðru lagi, ef svo hefur verið, þá verður ekki betur séð en fingurinn hafi í því tilviki þurft að fara eftir ósagaða hluta efnisins og ofan á því inn undir hlífina og í sagarblaðið þar sem tekið hefur framan af honum, en því er áður lýst að fingurinn hefði þurft að vera í ákveðinni stöðu ofan á efninu til þess að komast inn undir sagarhlífina. Hafi atburðarásin verið þessi þá er útilokað að gefa starfsmönnum stefnda það að sök hvernig fór heldur verður að telja um að ræða óhappatilvik eða óaðgæslu sem stefnandi einn verður að bera ábyrgð á.

Með hliðsjón af þeim mælingum sem dómendur framkvæmdu á vettvangi má segja að óhætt hefði verið að hafa sagarblaðið lægra stillt og þar með hlífina yfir því en eins og fyrr getur þá fylgdi hlífin sagarblaðinu. Það verður þó að telja viðurkennda venju að stilla sagarblað svo að það gangi upp úr efninu sem nemur hæð  sagartannanna og hver tönn komi þannig öll niður á það efni sem sagað er. Af myndum verður ráðið að sagartennurnar séu u.þ.b. 1 cm á lengd sem þýðir, sé við þessa venju miðað, að blaðið hefði mátt vera um 10 mm lægra án þess að hlífin legðist niður á efnið og yrði til trafala við sögunina. Er þá miðað við að bilið milli efnis og hlífar hafi verið 1,6 cm eins og að framan greinir. Þessi munur er svo lítill að ekki er hægt að byggja á því að stilling sagarblaðs og hlífar hafi verið röng.

Eins og atvikum öllum er háttað verður ekki gert ráð fyrir öðru en stefnandi hafi sagað spýtuna að fullu og við það farið með vinstri hönd inn fyrir rauða hringinn sem um sagarblaðið var og með fingurinn í sagarblaðið undir hlífinni sem yfir því var, en gera verður ráð fyrir því að frá sagarborðinu að hlífinni hafi verið um 4 cm eins og fyrr greinir. Átti fingur því greiða leið undir sagarblaðið ef svo hagaði til. Engar varúðarráðstafanir annarra en stefnanda sjálfs gátu komið í veg fyrir tilvik sem þetta. Niðurstaða dómsins er sú að stefnanda hafi ekki tekist sönnun þess að aðrir en hann sjálfur beri sök á því hvernig fór og verður samkvæmt því að sýkna stefnda í málinu.

 Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Stefnandi hefur fengið gjafsókn í málinu. Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hans, Friðjóns Arnar Friðjónssonar hrl., kr. 850.000 með virðisaukaskatti.

Dóm þennan kváðu upp Friðgeir Björnsson héraðsdómari og meðdómendurnir Bergmundur Elli Sigurðsson og Hallur Kristvinsson.

Dómsorð.

            Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Kristófers Atla Axelssonar.

Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hans, Friðjóns Arnar Friðjónssonar hrl., kr. 850.000 með virðisaukaskatti.