Hæstiréttur íslands
Mál nr. 467/2007
Lykilorð
- Samningur
- Ógilding
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 12. júní 2008. |
|
Nr. 467/2007. |
Jón Reynir Sigurðsson(Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn Ingvari G. Jónssyni (Anton B. Markússon hrl.) |
Samningur. Ógilding. Sératkvæði.
J keypti opinn trébát af I ásamt veiðiheimildum. Söluverð var 900.000 krónur. Samkvæmt mati dómkvaddra manna voru veiðiheimildir bátsins 7.500.000 króna virði. I krafðist þess að kaupsamningi aðila yrði breytt þannig að kaupverð yrði í samræmi við markaðsverð hins selda eins og það var við gerð kaupsamnings. Reisti I kröfu sína á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í dómi Hæstaréttar sagði að umræddur kaupsamningur væri á milli tveggja einstaklinga. Ekki væri á því byggt að I hefði á þeim tíma er kaupsamningur var gerður verið haldinn andlegum annmarka. Þá bæri að hafa í huga að um tvö ár liður frá sölunni þar til J var formlega krafinn um hærra verð fyrir hið selda auk þess sem framburður vitna styddu þá fullyrðingu J að I hefði verið gert ljóst fyrir kaupsamningsgerð að báturinn væri mun meira virði en kaupsamningurinn kvað á um. Þá lýsti vitni því að I og eiginkona hans hefðu í samtali við sig sagst vilja skipa málum á þennan veg. Þegar litið var til alls þessa var ekki fallist á með I að víkja bæri ákvæði kaupsamningsins til hliðar til hækkunar á kaupverði. Var J því sýknaður af kröfu I.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. september 2007. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara lækkunar á henni. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Málavextir, málsástæður og lagarök eru rakin í héraðsdómi, en málavextir eru í stuttu máli þeir að 22. nóvember 2003 keypti áfrýjandi af stefnda opinn trébát ásamt veiðiheimildum. Stefndi mun hafa látið smíða bátinn árið 1974, en lítið sem ekkert róið honum, en þó ætíð viðhaldið veiðiheimildum og greitt veiðileyfagjald. Áfrýjandi hafði hjálpað stefnda með bátinn, gert hann upp þar sem hann var í slæmu ásigkomulagi og leigt hann fyrir kaup og nýtt tæpa 6 sóknardaga af 21 sem bátnum var úthlutað á fiskveiðiárinu 2002/2003. Áfrýjandi sá um gerð kaupsamningsins, en vottar að honum voru eiginkonur málsaðila. Söluverð var 900.000 krónur. Í september 2003 var bátnum úthlutað 19 sóknardögum og fylgdu þeir við sölu bátsins. Samkvæmt mati dómkvaddra manna voru 19 sóknardagar 7.500.000 króna virði.
Stefndi hefur skýrt málatilbúnað sinn fyrir Hæstarétti þannig að skírskotun til þess að svikum og misneytingu hafi verið beitt við kaupsamningsgerð eigi ekki að líta á með öðrum hætti en til stuðnings sjónarmiðum um þá einu kröfu hans að kaupsamningi aðila verði breytt samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Hafi samningurinn verið ósanngjarn vegna atvika við samningsgerð, en ekki sé byggt á forsendubresti vegna síðar tilkominna atvika. Hækka beri kaupverð í samræmi við markaðsverð hins selda eins og það var við gerð kaupsamnings og vísar stefndi um það til framangreindrar matsgerðar.
Eins og greinir í héraðsdómi heldur áfrýjandi því fram að vilji stefnda hafi staðið til þess að selja sér bátinn og því sem honum fylgdi á undirverði. Hann kvað stefnda fyrst hafa viljað selja bátinn fyrir 600.000 krónur, en áfrýjandi hafi ítrekað sagt stefnda að hann vildi greiða honum hærri fjárhæð. Að lokum hafi þeir ákveðið að verðið skyldi vera 900.000 krónur. Eins og rakið er í héraðsdómi skírskotar áfrýjandi meðal annars til þess að mikil samskipti hafi verið milli fjölskyldna stefnda og áfrýjanda gegnum árin og hafi hann aðstoðað stefnda og eiginkonu hans á ýmsan hátt. Meira síðustu ár eftir því sem aldur fór að færast yfir þau hjónin, sem verið hafi barnlaus.
II.
Samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við það mat skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.
Óumdeilt er að samningur sá sem um ræðir var afar hagfelldur áfrýjanda. Það leiðir þó ekki eitt og sér til þess að honum skuli vikið til hliðar þannig að hækka beri kaupverð, hafi vilji aðila á samningstíma staðið til að skipa málum með þeim hætti. Í þessu sambandi ber að líta til þess að af hálfu stefnda hefur því ekki verið haldið fram að hann hafi á þeim tíma er samningur var gerður á einhvern hátt verið haldinn andlegum annmörkum. Hins vegar eru aðilar sammála um að honum hafi verið farið að förlast er hann gaf skýrslu fyrir dómi. Við þá skýrslugjöf sagði stefndi að hann myndi ekki sérstaklega eftir því er hann seldi bátinn og þá ekki heldur hvor samningsaðila hafi stungið upp á kaupverði hans. Kvaðst hann heldur ekki muna hvenær hann hefði orðið óánægður með kaupverðið. Um ástæðu málsóknarinnar sagði hann: „Það breyttist svo mikið í lögunum gagnvart, það var alltaf að breytast.“
Vitnið Björn Oddsson, sem sagði eiginkonu stefnda vera „fósturömmu“ eiginkonu sinnar, kvaðst hafa hitt áfrýjanda í ágúst 2003 og hafi áfrýjandi þá sagt að ákveðið hefði verið að hann myndi kaupa bátinn af stefnda. Hafi áfrýjandi nefnt að hann teldi að kaupverð yrði um það bil 6.000.000 krónur. Vitnið kvaðst því hafa talið síðar að kaupverðið hefði verið á þeim nótum. Vitnið kvaðst einnig hafa rætt lítillega við stefnda þá um sumarið um verðmæti bátsins og þess sem honum fylgdi. Hann hafi sagt stefnda það vera um 7-8.000.000 krónur. Hafi stefndi jánkað því, en talað um söluverð bátsins yrði annað hvort 90.000 eða 900.000 krónur. Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en „í kringum 2004“ sem stefndi hafi lýst yfir óánægju sinni með söluverðið. Vitnið kvaðst telja stefnda ekki hafa verið í stakk búinn til að gera kaupsamning við áfrýjanda á þeim tíma sem hann var gerður.
Vitnið Ómar Dýri Sigurðsson, bróðir áfrýjanda, kvað sig og fjölskyldu sína hafa nytjað tún stefnda og eiginkonu hans í yfir 20 ár. Hann skýrði frá samgangi milli fjölskyldna stefnda og áfrýjanda. Vitnið lýsti því að einhverju sinni í kaffi við slátt hafi þau verið „að tala um það að þau væru búinn að láta Jón hafa bátinn og það væru nú einhverjir ekki ánægðir með það“. Við það tækifæri hafi eignkona stefnda látið þau orð falla að „þetta væri búið og svona ætlum við að hafa þetta.“ Vitnið kvaðst telja að þegar samtal þetta átti sér stað hafi stefndi verið við góða heilsu.
III.
Umræddur kaupsamningur er á milli tveggja einstaklinga. Hann er ekki flókinn að efni til og má fallast á með stefnda að hann hefði að ósekju mátt vera ítarlegri. Þar er hið selda þó tilgreint sem „smábátur með sóknardaga“ og jafnframt kaupverð. Auk samningsaðila rituðu undir kaupsamninginn eiginkonur þeirra sem vottar. Hvorug þeirra gaf þó skýrslu fyrir dómi. Einnig er frásögn stefnda fyrir dómi um málsatvik ekki skýr. Þá er ekki á því byggt að stefndi hafi á þeim tíma er kaupsamningur var gerður verið haldinn andlegum annmarka en því verið lýst yfir af hans hálfu að heilsu hans hafi hrakað frá kaupsamningsgerð. Ber einnig að hafa í huga í þessu sambandi að um tvö ár liðu frá sölunni þar til áfrýjandi var formlega krafinn um hærra verð fyrir hið selda. Auk þess styður framburður vitna þá fullyrðingu áfrýjanda um að stefnda hafi verið gert ljóst fyrir kaupsamningsgerð að hið selda var mun meira virði en kaupsamningurinn kvað á um. Þá lýsti bróðir áfrýjanda, Ómar Dýri, því að stefndi og eiginkona hans hafi í samtali við sig sagst vilja skipa málum á þennan veg. Þegar litið er til alls þessa verður ekki fallist á með stefnda að víkja beri ákvæðum kaupsamningsins til hliðar og til hækkunar á kaupverði. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda.
Rétt þykir að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Jón Reynir Sigurðsson, er sýkn af kröfu stefnda, Ingvars G. Jónssonar.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Sératkvæði
Hjördísar Hákonardóttur
I
Aðilar gerðu 22. nóvember 2003 kaupsamning og afsal um bátinn Ingvar ÍS 770. Um var að ræða 2,11 brúttótonna trébát smíðaðan árið 1974. Tilgreint var að útgerðarflokkur væri „smábátur með sóknardaga“ og að báturinn væri seldur í því ástandi sem hann væri í og kaupandi hefði kynnt sér. Umsamið kaupverð var 900.000 krónur. Báturinn var í slæmu ásigkomulagi, en stefndi hafði ætíð viðhaldið veiðiheimildum með greiðslu veiðileyfagjalds. Óumdeilt er að 19 sóknardagar fylgdu bátnum. Einnig er upplýst að engin gögn um bátinn eða veiðiheimildirnar lágu frammi við söluna og aðilar leituðu ekki sameiginlega ráðgjafar fagaðila um tilhögun sölunnar og verðmæti hins selda. Samningurinn ber með sér að hann er saminn af áfrýjanda. Hann var undirritaður af báðum aðilum og vottaður af eiginkonum þeirra. Stefndi var 87 ára er kaupsamningurinn var gerður og eiginkona hans 90 ára.
Áfrýjandi bar fyrir dómi að stefndi hefði viljað að þeir héldu þessum samningi sín á milli. Hann kvaðst sjálfur hafa talað við Bát og búnað í Hafnarfirði og fengið þær upplýsingar að verðið „gæti verið eftir stærð og búnaði bátsins svona frá 5 til 7,5 milljón.“ Hann kvað þá hafa verið sammála um að þeir gætu sjálfir gert samninginn „þetta væri nú ekki svo stór gjörningur“ að þörf væri á því að borga 92 eða 94 þúsund krónur fyrir það að láta löggilta skipasölu sjá um hann. Hann kvað stefnda ekki hafa viljað fá hærra verð vegna þess að „hann gat ekki hugsað sér það að þau töpuðu eftirlaununum.“ Kvaðst áfrýjandi hafa spurt endurskoðanda sinn um þetta og hefði hann sagt að það væru rétt rúmar 900.000 krónur sem hjón mættu selja eign fyrir án þess að eftirlaun skertust. Sjálfur hefði stefndi nefnt fjárhæðina 600.000 krónur sem söluverð. Áfrýjandi sagði einnig frá því að hann hefði aðstoðað gömlu hjónin þegar þau höfðu sumardvöl fyrir vestan. Áfrýjandi kvaðst hafa vitað að bátnum fylgdu sóknardagar, en kvaðst hafa verið í þeirri trú að þeir væru óframseljanlegir og ónýtanlegir á öðrum báti. Hann hafi byrjað á að leiga bátinn til þess að fá útgerðarheimild og hafi tilkynning þar um verið send Fiskistofu 22. desember 2002. Til þess að gera bátinn haffæran hafi hann þurft að kaupa björgunarvesti og talstöð og laga stýrið og „vinna allskonar pappírsvinnu í kerfinu“. Kaupsamningurinn var gerður tæpu ári síðar. Þremur eða fjórum mánuðum eftir að gengið var frá honum kveðst áfrýjandi hafa staðið frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort hann ætti að endursmíða bátinn og þá leitað upplýsinga hjá Fiskistofu. Þá hafi komið í ljós að sóknardagarnir væru allt í einu orðnir 100% framseljanlegir, hann hefði þá ákveðið að láta smíða nýjan bát og færa veiðiheimildirnar á hann. Í maí mánuði hefðu reglur síðan breyst og verðmæti veiðiheimildanna aukist mikið. Í framhaldi af þessu kvaðst hann hafa boðið stefnda að greiða honum eitthvað meira. Stefndi hafi ekki viljað það og ekki viljað ræða það frekar.
II
Grundvöllur laga nr. 7/1936 um samninga lýtur að samningsfrelsi og skuldbindingargildi samninga. Með lögum nr. 11/1986 voru gerðar viðamiklar breytingar á III. kafla laganna til rýmkunar þeim skilyrðum sem uppfyllt þurfa að vera til þess að samningi, sem er bersýnilega ósanngjarn, verði vikið til hliðar, breytt eða hann ógiltur.
Stefndi krefst þess að sölunni verði vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga og breytt þannig að kaupverðið verði hækkað. Samkvæmt matsgerð Hilmars Sigurðssonar, viðskiptafræðings og löggilts fasteigna- og skipasala, 12. janúar 2007 var kaupsamningurinn ófullnægjandi, einkum fyrir það að ekki var gerð grein fyrir stöðu veiðiheimilda sem fylgdu, haffæri, skoðun, fylgihlutum og fleiru sem venja væri að tiltaka við slíka sölu. Þá var kaupverðið langt undir markaðsverði, en 19 sóknardagar á báti af þessari stærð voru metnir á 7.500.000 krónur. Fram kom einnig að sóknardagar hafi gengið kaupum og sölum án tillits til þess hvort bátur fylgdi. Bátar hafi verið verðlagðir sérstaklega miðað við stærð og ástand. Fyrir dómi bar matsmaðurinn að báturinn sjálfur hefði verið talinn lítils sem einskis virði. Taldi hann fráleitt að selja sóknardagana á 900.000 krónur á þeim tíma sem samningurinn var gerður. Matinu hefur ekki verið hnekkt. Í því er einnig fjallað um verðmætaaukningu er varð vorið 2004 vegna breytingar á lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, en ekki er á því byggt í málinu.
Sannað er að kaupverðið var mjög langt frá markaðsverði og atvik við gerð samningsins voru ekki með þeim hætti sem eðlilegt getur talist. Er þar vísað til þess að enginn hlutlaus aðili með þekkingu á viðskiptum af þessu tagi kom að gerð samningsins og engin skjöl um bátinn eða veiðiheimildir lágu frammi. Er hvort tveggja verðið og það að óeðlilega hafi verið staðið að samningsgerðinni staðfest með matsgerð sem ekki hefur verið hnekkt. Verður þetta að teljast sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að seljandinn var háaldraður maður, sem naut engrar sérfræðiráðgjafar, og skiptir í því sambandi ekki máli þó að heilsufar hans hafi verið „býsna gott miðað við aldur“ eins og áfrýjandi lýsti því. Áfrýjandi sóttist eftir því að kaupa bátinn og sá alfarið um samningsgerðina. Hann þekkti bátinn vel og hafði róið til fiskjar á honum. Hann hafði samkvæmt eigin framburði kannað markaðsverð og þann kost að láta fagaðila annast málið. Samkvæmt matsgerð var engin óvissa um verðmæti sóknardaga bátsins, eins og áfrýjandi byggir á. Við þessar aðstæður er ekki unnt að líta svo á að staða aðila hafi verið jöfn. Þykir í því sambandi ekki skipta máli þó að vitnið Björn Benedikt Oddsson, sem tengist fjölskyldu stefnda, hafi sagt við stefnda sumarið 2003 „að þessir dagar væru líklega 7-8 milljón króna virði.“ Loks eru engin gögn í málinu sem styðja að stefndi hafi í raun haft af því fjárhagslegan ávinning vegna ellilífeyris að lækka söluverð svo verulega frá eðlilegu markaðsverði, en áfrýjandi heldur því fram að það hafi verið aðalforsenda stefnda fyrir verðlagningunni. Þegar allt framangreint er virt þykja í máli þessu vera til staðar skilyrði fyrir því að samningi aðila frá 22. nóvember 2003 verði vikið til hliðar og söluverð hækkað til samræmis við verðmæti hins selda á þeim tíma sem samningurinn var gerður. Tel ég því að staðfesta eigi niðurstöðu hins áfrýjaða dóms og gera áfrýjanda að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 25. júní 2007.
Mál þetta var dómtekið 14. maí sl. Það höfðaði Ingvar G. Jónsson, Drápuhlíð 5, Reykjavík, þann 7. febrúar sl. gegn Jóni Reyni Sigurðssyni, Fjarðargötu 60 A, Þingeyri, Ísafjarðarbæ, þann 7. febrúar sl.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 7.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 22. nóvember 2003 til greiðsludags og málskostnað.
Stefndi krefst sýknu, en til vara þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaðar í báðum tilvikum.
I.
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hann hafi árið 1974 látið smíða bátinn Ingvar ÍS-770, opinn trébát, 2,26 brúttótonn, skipaskrárnúmer 9812. Heimahöfn hans hafi verið í Hafnarfirði næstu tvo áratugi eða allt til ársins 1986. Þá hafi stefnandi fengið stefnda, sem starfi sem atvinnubifreiðarstjóri, til að flytja bátinn til Þingeyrar, þaðan sem stefnandi sé ættaður, hafi átt sitt annað heimili og hafi dvalið löngum. Hafi hugur stefnanda staðið til þess að róa bátnum á sumrin sér til skemmtunar. Stefnandi tekur fram að hann hafi aldrei haft viðurværi sitt af fiskveiðum eða þáttum þeim tengdum.
Í kjölfar þessara flutninga hafi tekist góð kynni með aðilum. Hafi þau leitt til þess að í júlí 2002 hafi stefndi komið að máli við stefnanda og óskað eftir að taka bátinn á leigu. Stefnandi hafi tekið því vel og hafi Fiskistofu verið tilkynnt um breytingu á útgerð bátsins í samræmi við þetta, í desember 2002.
Stefndi hafi stundað handfæraveiðar á bátnum með annarri atvinnu fiskveiðiárið 2002-2003. Hafi hann veitt 1.529 kg af þorski og nýtt 5 daga og 23 klukkustundir af leyfilegum sóknardögum bátsins.
Með kaupsamningi og afsali 22. nóvember 2003 hafi stefndi keypt bátinn af stefnanda fyrir 900.000 krónur. Tekur stefnandi fram að kaupin hafi gengið hratt fyrir sig og hafi stefnanda, sem þá hafi verið 87 ára gamall, hvorki gefist tími né ráðrúm til að leita álits annarra á kauptilboðinu. Þá hafi hann hvorki notið leiðsagnar né sérfræðiaðstoðar í viðskiptunum. Stefndi hafi sjálfur séð um alla skjalagerð í tengslum við söluna, þar á meðal gerð kaupsamnings og afsals.
Eftir að niðjum stefnanda hafi verið tilkynnt um sölu bátsins til stefnda og þeir upplýstir um kaupverðið hafi þeim orðið ljóst að stefnandi hefði verið blekktur í viðskiptunum og krafist þess að þau gengju til baka. Hafi afstaða þeirra einkum byggst á því að við ákvörðun kaupverðs hafi ekki verið reiknað verðmæti 19 sóknardaga sem hafi verið bundnir við bátinn samkvæmt úthlutun í september 2003 vegna fiskveiðiársins 2003/2004. Áður en nokkur viðbrögð hafi orðið hafi þeir frétt að stefndi hefði látið smíða nýjan bát, sem hafi fengið sama nafn, númerið ÍS-70 og skipaskrárnúmerið 7537. Hafi stefndi flutt sóknarheimildir gamla bátsins á þann nýja og afskráð þann gamla. Smíði nýja bátsins hafi kostað um 10 milljónir króna samkvæmt upplýsingum stefnanda. Hafi þá þótt einsýnt að loku væri fyrir það skotið að kaupin gætu gengið til baka. Í stað þess hafi verið einblínt á að innheimta andvirði þeirra 19 sóknardaga sem voru bundnir bátnum við söluna, en þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni hafi stefndi verið ófáanlegur til að greiða fjárhæð sem nemi andvirði þeirra.
Stefnandi hafi beðið um dómkvaðningu matsmanns 15. maí 2006. Sá sem var dómkvaddur hafi ekki reynst starfanum vaxinn er til kastanna kom og því hafi þurft að dómkveðja annan mann og hafi það verið gert 10. október 2006, er Hilmar Sigurðsson, löggiltur fasteigna- fyrirtækja- og skipasali var kvaddur til starfans. Matsgerð hans sé dagsett 12. janúar sl. Þremur dögum síðar hafi lögmanni stefnda verið sent kröfubréf á grundvelli matsgerðarinnar. Þá hafi verið krafist dráttarvaxta og tilfallandi málskostnaðar. Stefndi hafi hafnað greiðsluskyldu og þetta mál því verið höfðað.
II.
Stefnandi lýsir málsástæðum og lagarökum sínum svo að stefndi hafi vitað er kaupin voru gerð í nóvember 2003 að bátnum fylgdu veiðiréttindi, en þagað yfir því og þannig beitt svikum við samningsgerðina. Til þess beri að líta að stefnandi hafi verið 87 ára gamall er kaupin voru gerð og verið fullkomlega grandlaus um þau verðmæti sem voru fólgin í veiðiréttindunum. Eins og atvikum sé háttað gefi auga leið að stefndi hafi notað sér fákunnáttu, einfeldni og góðvild stefnanda til þess að afla sér fjárhagslegra hagsmuna, þannig að bersýnilegur mismunur hafi verið á þeim og því endurgjaldi sem fyrir þá hafi komið.
Stefnandi hafi látið smíða bátinn árið 1974. Hafi hann haft brennandi áhuga á sjómennsku og þáttum henni tengdri. Þrátt fyrir mikinn og einlægan vilja í þessa veru sé það staðreynd að hann hafi lítið sem ekkert notað bátinn. Liggi fyrir að hann hafi aðeins einu sinni róið til fiskjar á honum þegar hann var gerður út frá Hafnarfirði. Að því undanskildu hafi báturinn annað hvort legið við bryggju eða verið geymdur í þar til gerðu húsnæði.
Þetta hafi ekki breytt því að allt frá því er stefnandi lét smíða bátinn hafi hann greitt samviskusamlega skatta og skyldur af honum á hverju ári, þar á meðal árlegt veiðileyfagjald og hafi báturinn því haldið veiðiheimildum. Sé saga veiðiheimilda á bátnum skilmerkilega rakin í bréfi Fiskistofu, sem liggi frammi í málinu. Þar komi fram að bátnum hafi verið úthlutað 23 sóknardögum fiskveiðiárin 1999-2001. Sóknardagakerfinu hafi verið breytt fiskveiðiárið 2001/2002 í þá veru að sóknardagar hafi orðið framseljanlegir og regla um 10% skerðingu hafi tekið gildi. Á þessum grundvelli hafi bátnum verið úthlutað 21 sóknardegi vegna fiskveiðiársins 2002/2003. Hinn 10 janúar 2003 hafi Fiskistofu borist tilkynning um breytta útgerðaraðild, undirrituð af stefnanda og stefnda og samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hjá stofnuninni hafi bátnum verið róið níu sinnum í ágústmánuði sama ár, tæpir sex sóknardagar hafi verið nýttir og aflinn verið 1.530 kg af óslægðum þorski. Í bréfi Fiskistofu sé vakin sérstök athygli á því að þetta sé eina nýting bátsins og heimilda hans frá 29. ágúst 1994. Þá komi fram í bréfinu að í september 2003 hafi bátnum verið úthlutað 19 sóknardögum í sóknardagakerfi, en veiðileyfi hafi ekki verið gefið út, þar sem haffæri bátsins hafi fallið niður 31. ágúst 2003. Hinn 7. janúar 2004 hafi Fiskistofu borist tilkynning um breytta útgerðaraðild, undirrituð af stefnanda og stefnda, ásamt kaupsamningi og afsali aðilanna, dagsettu 22. nóvember 2003. Á grundvelli þess hafi stefndi verið skráður eigandi bátsins. Að lokum segi í bréfinu að hinn 9. júní 2004 hafi sóknarheimildir bátsins verið fluttar til m.b. Ingvars ÍS 70, báts í eigu stefnda, á grundvelli endurnýjunar.
Stefnandi kveður vera ljóst, með framangreint í huga, að 19 sóknardagar hafi fylgt bátnum Ingvari Jónssyni ÍS 770 við sölu hans til stefnda 22. nóvember 2003. Að sama skapi blasi við að inn í söluverð bátsins hafi verðmæti sóknardaganna ekki verið reiknað. Aðal sönnunargagnið sem við njóti um þetta atriði sé matsgerð sem liggi frammi í málinu. Þar segi: „Sá samningur sem liggur til grundvallar þessari sölu er samt sem áður að okkar mati mjög ófullnægjandi og lítt tæmandi. T.d. má nefna að ekki er kveðið á um hvort veiðileyfi eða veiðiheimildir fylgi bátnum við sölu. eingöngu nefndur útgerðarflokkur. „Smábátur með sóknardaga“. Í kaupsamningum um báta er undantekningarlaust nefnt hvað fylgi bátnum við sölu, þ.e. veiðiheimildir og fylgifé. Ekki er um slíkt að ræða hér.“
Þá séu tilgreind í matsgerðinni þau gögn sem matsmaður telji nauðsynlegt að liggi frammi við skipasölu til að hagsmunir aðila verði tryggðir. Ekkert þeirra skjala hafi legið frammi við söluna. Þá segi í matsgerðinni að ef litið sé til þess kaupsamnings sem gerður var um bátinn 22. nóvember 2003 sé hann í veigamiklum atriðum ófullnægjandi. Það sem vegi augljóslega þyngst sé eins og áður segi það að ekki sé minnst á það hvaða veiðiréttindi fylgi bátnum við sölu, þ.e.a.s. ekki sé tekið fram hvort og þá hversu margir sóknardagar fylgi með í sölunni. Þessi réttur komi fram í gögnum frá Fiskistofu, sem augljóslega hafi ekki verið til staðar við kaupsamningsgerð. Engar upplýsingar virðist liggja frammi við kaupsamning um haffæri, skoðun eða aðra fylgihluti bátsins og ekki sé heldur minnst á afhendingarskilmála. Tekið sé fram í samningi að báturinn sé smábátur með sóknardaga. Þetta sé þeim mun undarlegra þegar höfð sé í huga verðlagning á hinni seldu eign. Síðast en ekki síst sé það mjög svo óeðlilegt að kaupandi skuli vera sá sem sér um frágang sölunnar, þegar haft sé í huga að um mjög svo mikla gagnkvæma hagsmuni sé að ræða fjárhagslega. Afar brýnt sé í svona tilfellum til að tryggja rétt bæði kaupanda og seljanda að fenginn sé þriðji aðili til að ganga frá sölusamningum og að sá hafi til þess réttindi og þekkingu.
Stefnandi kveður matsmann með þessu komast að þeirri niðurstöðu að salan hafi verið haldin verulegum annmörkum, einkanlega í þá veru að skort hafi upplýsingar sem hefðu gefið rétta mynd af verðmæti þeirra sóknardaga sem hafi fylgt bátnum. Auk þess hefði óháður aðili með réttindi til þess og þekkingu átt að sjá um söluna, en ekki stefndi sem kaupandi. Verði afstaða matsmannsins ekki túlkuð öðru vísi en svo að þar sem sérfróður aðili hafi ekki annast söluna hefði stefndi átt að hlutast til um að útvega þau gögn og afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar hafi verið í því skyni að tryggja hagsmuni beggja aðila. Hafi það verið hann sem falaðist eftir bátnum og gekk frá sölunni. Hafi stefndi ekki gefið viðhlítandi skýringar á því að nauðsynleg gögn lágu ekki frammi við söluna. Telur stefnandi það atriði eitt og sér staðfesta óheiðarleika og óskammfeilni sem stefndi hafi gert sig sekan um gagnvart stefnanda. Gefi auga leið að hann hafi komist yfir bát stefnanda með tilheyrandi veiðiheimildum með sviksamlegum hætti. Þegar við bætist að stefnandi hafi verið 87 ára gamall og treyst stefnda í blindni verði ekki um villst að stefndi haf sýnt af sér alvarlegan siðferðisbrest með því að blekkja gamlan mann í viðskiptum.
Stefnandi telur að öllu virtu að því verði slegið föstu að verulega skorti á til að það verð sem stefndi greiddi fyrir bátinn og veiðiréttindin geti talist sanngjarnt og eðlilegt. Með vísan til undirstöðuraka 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógildingu löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, geri stefnandi þá kröfu að kaupsamningi aðila verði vikið til hliðar og breytt þannig að kaupverð bátsins verði í samræmi við verðmæti hans ásamt þeim 19 sóknardögum sem fylgdu honum við söluna. Byggir hann á því að verðmæti bátsins hafi verið 8.400.000 krónur. Að frádregnum þeim 900.000 krónum sem kaupsamningurinn hljóðaði um, krefst stefnandi því 7.500.000 króna úr hendi stefnda. Um grundvöll greiðsluskyldu vísar hann til matsgerðarinnar, þar sem því sé slegið föstu að við söluna hafi ekki verið lagt mat á verðmæti veiðiheimildanna. Sé þar sérstaklega tekið fram að hafi svo verið sé það verðmat langt frá öllum reynslutölum. Væri nær að halda að það verð sem kaupsamningur og afsal hljóði um hafi einungis verið verðlagning bátsins sjálfs án veiðiréttar. Telji matsmaðurinn að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um bátinn og myndir af honum sé verðgildi hans sjálfs lítið sem ekkert umfram veiðirétt sem fylgdi honum. Sé það skoðun matsmannsins að ekki hafi skipt máli í þessu sambandi að báturinn hafi verið seldur án veiðileyfis, þar sem honum hafi verið úthlutað sóknardögum þrátt fyrir það. Samkvæmt upplýsingum sem matsmaður hafi aflað sér frá þessum tíma hafi verðlagning sóknardags miðast við stærð báts í brúttótonnum. Þannig hafi hver 6 brúttótonna varanlegur sóknardagur innan hvers fiskveiðiárs lagt sig á 1.150.000 krónur, hver 4,11 brúttótonna varanlegur sóknardagur á 790.000 krónur og hver 2,11 brúttótonna sóknardagur á 395.000 krónur. Er fjárhæðin 7.500.000 krónur fundin með því að margfalda síðastgreindu fjárhæðina með fjölda sóknardaga, þ.e. 395.000 krónur x 19. Þá kveðst stefnandi krefjast dráttarvaxta frá 22. nóvember 2003, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
III.
Stefndi lýsir málavöxtum svo að þeir stefnandi hafi verið kunningjar lengi og megi rekja kunningsskap þeirra allt til þess er stefndi var unglingur á æskuheimili sínu í Dýrafirði, er foreldrar hans hafi nytjað jörð stefnanda í sömu sveit. Síðustu tuttugu ár hafi samgangur þeirra verið meiri, í kjölfar þess að stefnandi og eiginkona hans fóru að koma til Dýrafjarðar árlega til dvalar í sumarhúsi sínu. Síðustu 10-12 ár hafi stefndi aðstoðað þau á ýmsan hátt, enda hafi aldur þeirra gert þeim erfiðara fyrir en ella með aðdrætti, viðhald sumarhússins og ferðalög almennt.
Stefnandi hafi átt greindan bát og komið með hann vestur til Þingeyrar árið 1986. Hafi stefnandi ekki haldið honum til veiða eftir það. Stefndi hafi sjósett bátinn í júlí 2002 í samráði við stefnanda og róið honum nokkrum sinnum út á Dýrafjörð og veitt í soðið, en ekki hafi verið veitt í atvinnuskyni. Um haustið hafi orðið samkomulag með aðilum um að stefndi tæki bátinn á leigu, en stefnandi hafi þá jafnframt getið þess að hann vildi að stefndi eignaðist bátinn, enda vildi hann að hann yrði gerður út frá Þingeyri. Er stefndi tók bátinn á leigu hafi verið ljóst að leggja þyrfti í töluverðan kostnað til að gera hann haffæran. Auk þess hafi stefndi keypt nauðsynleg tæki og búnað í þessu skyni, svo og veiðileyfi. Þann 22. desember 2002 hafi aðilar undirritað tilkynningu um breytta útgerðaraðild. Fiskistofa hafi tekið við tilkynningunni 10. janúar 2003.
Snemma árs 2003 hafi maður að nafni Einar hringt til stefnda og innt eftir því hvers eðlis samkomulag þeirra stefnanda væri um bátinn. Stefndi hafi sagt honum það og sent honum afrit nefndrar tilkynningar. Stefndi hafi sagt stefnanda og eiginkonu hans frá þessu símtali og þau þá getið þess að nefndum manni væri þetta óviðkomandi og umráðaréttur bátsins alfarið hjá stefnanda.
Stefndi hafi unnið að lagfæringum á bátnum vorið 2003 og búið hann til handfæraveiða. Hann hafi farið í nokkra róðra í júlí og ágúst, veitt 1.529 kg af þorski og nýtt 5 daga og 23 klukkustundir af leyfilegum sóknardögum. Farsvið bátsins hafi verið þröngt þar sem aðeins hafi verið hægt að halda honum til veiða innan Dýrafjarðar.
Þetta sumar hafi stefnandi imprað á því við stefnda á ný að stefndi eignaðist bátinn. Hafi orðið samkomulag með þeim um að stefndi fengi hann og það sem honum fylgdi fyrir 900.000 krónur, en stefndi hafi sagt stefnanda að hann teldi það of lágt verð. Stefnandi hafi þó verið ákveðinn í því að verð hans yrði ekki hærra og rökstutt það með því að hærra verð hefði áhrif á fjárhæð ellilífeyris síns og eiginkonu sinnar, auk þess sem stór hluti söluverðsins kæmi til með að „fara í söluhagnað.“ Þá hafi stefnandi vísað til þess að hann vildi hafa verðið lágt þar sem stefndi hefði liðsinnt honum með margvíslegum hætti. Stefndi kveðst hafa lýst því yfir að hann væri reiðubúinn að greiða meira fyrir bátinn en stefnandi hafi verið staðfastur í því að verðið yrði ekki hærra. Hafi verið gengið frá kaupsamningi og stefndi séð um það.
Stefndi segir að á þessum tíma hafi verið óvissa um verðgildi sóknardaga vegna nýtingarhlutfalls þeirra þar sem bátnum hefði ekki verið haldið til veiða á viðmiðunarárum sóknardaganna. Þá hafi stefndi fengið upplýsingar um að sóknardagarnir væru bundnir við bátinn og óheimilt að framselja þá til annars báts.
Stefndi segir bátakaupin hafa átt sér langan aðdraganda, þar sem stefnandi hafi rætt það við stefnda í marga mánuði að selja honum bátinn áður en kaupin voru gerð. Sé fjarri sanni að stefnanda hafi ekki gefist ráðrúm til að leita álits annarra á sölunni. Hafi hann sjálfur ákveðið að selja og haft skýrar ástæður fyrir ákvörðun sinni.
Stefndi kveðst hafa farið að grennslast fyrir um það í mars árið eftir hversu margir sóknardagar væru bundnir bátnum og hvert væri nýtingarhlutfall þeirra. Hafi hann fengið upplýsingar um það að 19 sóknardagar með 100% nýtingarhlutfall væru bundnir bátnum og að heimilt væri að selja þá eða leigja eða flytja þá óskerta á jafnstóran bát. Stefndi hafi þá ákveðið að smíða nýjan bát og samið um það við tilgreinda smiðju. Nýsmíðin hafi kostað 9.870.000 krónur fyrir utan nauðsynleg tæki og búnað. Stefndi hafi fært sóknardagana á nýja bátinn í lok maí 2004.
Stefndi segist enn hafa leitað eftir því við stefnanda sumarið 2004 og aftur sumarið eftir að fá að greiða honum meira fyrir bátinn, en stefnandi hafi ekki tekið það í mál. Í ársbyrjun 2005 hafi maður sem hafi sagst tengdur stefnanda hringt til sín og spurt um kaupin. Hann hafi beðið viðkomandi að hringja til sín aftur, þar sem hann væri á ferð milli Ísafjarðar og Þingeyrar, en ekki hafi orðið af því. Þetta símtal og fyrrgreint símtal árið 2003 hafi verið einu skiptin sem hann hafi fengið fyrirspurnir frá ættingjum eða venslafólki stefnanda vegna þessa máls.
Þá rekur stefndi lagabreytingar sem afnámu sóknardagakerfið og heimiluðu úthlutun krókaaflahlutdeildar í staðinn. Stefndi hafi sótt um það 6. júlí 2004 að Ingvar ÍS-70 yrði meðhöndlaður sem nýr bátur og að stefndi fengi að velja um krókaaflamark eða sóknardaga næstu tvö fiskveiðiár. Fiskistofa hafi fallist á þetta og stefndi valið krókaaflahlutdeild vegna nýsmíðinnar, þar sem fyrir hafi legið að vegna hennar hafi reiknigrunnur bátsins hækkað verulega frá því sem annars hefði orðið, ef ekki hefði komið til endurnýjunar.
Þann 17. nóvember 2005 hafi lögmaður fyrir hönd stefnanda krafist 17.000.000 króna greiðslu fyrir sóknardagana 19. Þetta hafi komið stefnda í opna skjöldu í ljósi fyrri samskipta aðilanna.
IV.
Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á grundvallarreglu samningaréttar um að gerða samninga skuli halda. Séu undantekningar frá þeirri reglu fáar og beri að túlka þær þröngt, enda gangi þær gegn samningafrelsi manna og skyldu þeirra til að halda löglega gerða samninga.
Kaupsamningur aðila í nóvember 2003 sé gildur samningur, þar sem kveðið hafi verið á um sölu bátsins Ingvars ÍS-770 ásamt öllu meðfylgjandi, þ.m.t. veiðiheimildum hans. Stefnanda hafi verið þetta fullljóst, enda hafi hann sjálfur ákveðið söluverð bátsins út frá eigin forsendum. Stefndi telji engar ógildingarástæður vera fyrir hendi, enda liggi ekkert fyrir um það að stefnandi hafi, er samningurinn var gerður, verið andlega vanheill eða ekki gert sér grein fyrir efni eða þýðingu samningsins. Þvert á móti hafi stefnanda verið fullkunnugt um hvað verið var að selja, hann hafi sjálfur komið að ákvörðun söluverðs og tilgreint sérstaklega ástæður fyrir þeirri ákvörðun og þar hafi engu breytt um að stefndi bauðst í upphafi og að minnsta kosti tvívegis síðar til að greiða meira fyrir hið selda. Sé því fjarri sanni að stefndi hafi á einhvern hátt notað sér einfeldni, fákunnáttu eða góðvild stefnanda í garð stefnda til að afla sér fjárhagslegra hagsmuna á kostnað stefnanda.
Af stefnu verði ráðið að stefnandi byggi dómkröfur sínar á ákvæðum 30. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógildingu löggerninga. Í fyrrnefnda ákvæðinu komi fram að löggerningur skuldbindi eigi þann mann, sem hann gerði, ef hann hafi verið fenginn til þess með svikum, og sá er tók við löggerningnum hafi sjálfur beitt svikum eða vitað eða mátt vita að löggerningurinn hafi verið gerður fyrir svik annars manns. Í stefnu sé því m.a. haldið fram að stefndi hafi þagað yfir því að bátnum Ingvari ÍS 770 fylgdu veiðiréttindi og þannig beitt svikum við samningsgerðina og komist yfir bátinn og þær veiðiheimildir er fylgdu honum með sviksamlegum hætti. Stefndi kveðst mótmæla þessum ásökunum harðlega og segir þær ekki eiga við nein rök að styðjast. Hafi stefnandi sjálfur fært í tal við stefnda að stefndi keypti bátinn af honum, sjálfur komið að ákvörðun verðs og tilgreint ástæður fyrir henni. Langur aðdragandi hafi verið að gerð kaupsamnings, þar sem stefndi hafi sjálfur haft bátinn á leigu um nokkurn tíma og rætt hafi verið um söluna í marga mánuði áður en til hennar kom. Í kaupsamningi komi skýrt fram að hið selda sé smábátur með sóknardögum, þannig að hvorugur aðila hafi verið þess dulinn hvað verið var að selja, ljóst hafi verið að veiðiréttindi bátsins fylgdu honum við söluna. Sé því rangt að stefndi hafi þagað yfir upplýsingum og beitt með því svikum við samningsgerðina. Hins vegar liggi það fyrir að þær upplýsingar sem samningsaðilar höfðu hafi gefið til kynna að verðmæti veiðiheimildanna væri óvisst, vegna óvissu um nýtingarhlutfall sóknardaganna, auk þess sem talið hafi verið að þeir væru bundnir bátnum og því óheimilt að flytja þá á annan bát.
Þá kveðst stefndi taka fram að eigi ákvæði 30. gr. laga nr. 7/1936 við varði það ógildingu samnings, en krafa stefnanda í málinu hljóði um breytingu á kaupverði.
Hvað varðar ákvæði 36. gr. sömu laga kveðst stefndi telja með vísan til þess sem rakið hefur verið, að það eigi ekki við í þessu máli. Stefnandi hafi ákveðið sjálfur að selja bátinn og við ákvörðun verðs litið til nokkurra þátta, m.a. hafi hann viljað að stefndi fengi bátinn fyrir minna en ella þar sem hann hefði með margvíslegum hætti aðstoðað stefnda og eiginkonu hans. Þó liggi fyrir að báturinn hafi verið í mjög lélegu ástandi og í raun verðlaus, þannig að verðmæti hans hafi fyrst og fremst legið í þeim veiðiheimildum sem tilheyrðu honum. Talið hafi verið óvíst hvert verðmæti þeirra væri, þar sem bátnum hefði ekki verið haldið til veiða í fjölda ára, fyrir utan tæpa sex daga í júlí og ágúst 2003. Nýtingarhlutfall sóknardaganna hafi verið óvíst og talið hafi verið að þeir væru ekki framseljanlegir af bátnum.
Við mat á því hvort víkja eigi samningnum til hliðar í heild eða að hluta verði að taka tillit til þeirra sjónarmiða er hafi legið til grundvallar sölunni af hálfu stefnanda. Þá verði að hafa í huga að aðdragandinn að kaupunum hafi verið nokkuð langur þannig að stefnandi hafi haft öll tök á að leita sér aðstoðar ef hann hefði verið í óvissu um efni eða þýðingu þess að selja bátinn til stefnda á því verði sem um var samið. Óeðlilegt sé að komið sé tæpum tveimur árum síðar með ósk um breytingu á fullgildum samningi og þá ekki síst í ljósi þess að stefndi hafi í tvígang boðið stefnanda frekari greiðslur vegna kaupanna, en því verið hafnað af hálfu stefnanda.
Stefndi kveðst ekki mótmæla því í sjálfu sér að gögn sem lágu frammi við söluna hafi verið fremur fátækleg. Ekki verði hins vegar séð að slíkt hefði skipt máli varðandi söluna, þar sem stefnanda hafi allan tímann verið ljóst hvað verið var að selja, m.a. að veiðiheimildir bátsins hafi fylgt við söluna, auk þess sem stefnandi hafi haft ákveðnar forsendur fyrir þeirri ákvörðun sinni að selja bátinn á því verði sem um var samið. Frekari gögn hefðu því væntanlega ekki breytt afstöðu stefnanda til sölunnar.
V.
Varakröfu sinni til stuðnings kveðst stefndi benda á að þegar metið sé verðgildi bátsins og aflaheimilda hans á söludegi verði jafnframt að taka tillit til þeirra forsendna er hafi legið til grundvallar söluverðinu af hálfu stefnanda, þ.á.m. til þess að stefnandi hafi tekið tillit til þess við ákvörðun söluverðs að stefndi hafi í fjölda ára aðstoðað stefnanda og eiginkonu hans með margvíslegum hætti í sumardvöl þeirra í Dýrafirði, án þess að taka fyrir það greiðslu. Sú staðreynd virðist hafa haft þau áhrif að stefnandi vildi selja bátinn fyrir lægra verð en hann hefði annars gert. Þá verði að hafa í huga að stefnanda hafi verið það ljóst við kaupin að verðmæti hins selda væri meira en söluverðið segði til um, þar sem stefnandi hafi tilgreint ákveðnar ástæður fyrir sölunni og stefndi hafi getið þess að hann vildi greiða meira fyrir bátinn. Stefnda hafi verið ljóst að verðmæti aflaheimilda bátsins og hans sjálfs væri meira en 900.000 krónur og þess vegna hafi hann getið þess þegar í upphafi að hann vildi greiða meira, en stefnandi hafi hafnað því. Tvívegis eftir það hafi stefndi boðið að greiða meira, en stefnandi hafnað því einnig. Krafa um greiðslu 17.000.000 króna tveimur árum síðar hafi því komið stefnda í opna skjöldu.
Þá kveðst stefndi benda á að í matsgerð dómkvadds matsmanns sé komist að þeirri niðurstöðu að verðgildi bátsins sjálfs hafi verið lítið sem ekkert umfram þann veiðirétt sem fylgdi honum á þeim tíma er hann var seldur. Síðar í matgerðinni segi að verðmæti sóknardaganna hafi verið 7.500.000 krónur á söludegi. Segi matsmaður að ef samningsaðilar hafi verið sammála um að sölusamningur um bátinn án veiðiréttar hafi verið 900.000 krónur megi álykta sem svo að sú fjárhæð bætist við mat á sóknardögum. Verðmæti bátsins á söludegi sé því 8.400.000 krónur. Stefndi kveður liggja fyrir að aðilar hafi ekki verðlagt bátinn án veiðiréttinda á 900.000 krónur, þannig að samkvæmt matsgerðinni sjálfri geti verð báts og aflaheimilda ekki verið meira en 7.500.000 krónur, þar sem matsmaður hafi metið bátinn sjálfan einskis virði.
Þá kveðst stefndi mótmæla dráttarvaxtakröfu stefnanda. Það hafi fyrst verið með bréfi 17. nóvember 2005 sem krafa hafi komið fram um viðbótargreiðslur vegna sölunnar. Stefnandi krefjist dráttarvaxta frá 22. nóvember 2003, en í samræmi við ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 verði ekki krafist dráttarvaxta fyrr en mánuður sé liðinn frá því að stefndi var sannanlega krafinn um greiðslu. Dráttarvaxta verði því ekki krafist fyrr en í fyrsta lagi frá og með 17. desember 2005.
VI.
Aðilar gáfu skýrslu fyrir dómi. Stefnandi kvaðst ekki muna eftir atvikum við samningsgerðina og ekki hvor aðilanna hefði stungið upp á kaupverðinu. Aðspurður af dómara hvers vegna hann vildi fá hærra verð en samið var um kvað hann svo margt hafa breyst í lögunum.
Stefndi skýrði frá því að kunningsskapur hefði farið að þróast með þeim stefnanda er hann fór að dvelja vestra á sumrin. Stefndi hefði veitt honum og eiginkonu hans ýmsa aðstoð, m.a. með því að hlynna að báti stefnanda og koma honum á flot að beiðni stefnanda, líklega sumarið 2002. Um haustið hefði hann vitað að bátnum tilheyrðu sóknardagar, en hann hefði ekki vitað betur þá en að þeir væru bundnir bátnum og óframseljanlegir. Sig hefði langað til að fjölga tekjustofnum sínum og hefði orðið úr að hann hefði útvegað bátnum haffæri. Kaupa hefði þurft björgunarvesti og talstöð og laga stýri. Hann hefði þurft útgerðarheimild og stefnandi gengið frá henni með honum. Nokkur bréfaskipti hefði þurft til að afla bátnum heimildar til veiða innan fjarðar. Hann hefði spurt stefnanda um haustið hvort hann vildi selja bátinn og hann jánkað því, en ár hefði liðið uns frá því var gengið. Foreldrar sínir hefðu lent í því að missa öll sín eftirlaun vegna sölu á eign. Stefnandi hefði verið áfram um að forðast það og hefði það haft áhrif á ákvörðun kaupverðs. Nánar spurður hvort hann hefði upplýst stefnanda um þessi hugsanlegu áhrif sölunnar sagði hann að gömlu mennirnir hefðu verið í góðu sambandi. Líklega hefði endurskoðandi sinn nefnt að þetta mætti vera rétt um 1.000.000 króna til að ekki kæmi til skerðingar á eftirlaunum eða lífeyri. Aðilar hefðu ekki rætt beinlínis hvers virði báturinn væri í raun og veru. Sig minnti að hafa hringt í fyrirtækið Bát og búnað í Hafnarfirði og fengið upplýst að svona bátur myndi vera að verðmæti um 5 til 7,5 milljónir króna. Kvaðst hann minnast þess að þeir stefnandi hefðu farið yfir það nokkrum sinnum hvernig þessu yrði best fyrir komið. Stefnandi hefði einnig viljað látið sig hafa bátinn með tilliti til þess að hann yrði þá gerður út frá Þingeyri.
Stefndi kvaðst minnast þess að hafa í tvígang boðið stefnanda meira fyrir bátinn eftir að salan átti sér stað, auk þess að hafa talað um það í upphafi að verðið væri of lágt. Stefnandi hefði viljað hafa þetta þeirra á milli og ekki viljað ræða hækkað verð. Aðspurður kvaðst hann hafa metið stefnanda við góða heilsu miðað við aldur og að sér hefði fundist hann hafa fullan skilning á þeim fjárhæðum sem rætt var um. Þá hefði alltaf verið ljóst að veiðiheimildir fylgdu bátnum.
Stefndi kvaðst í marsmánuði eftir að salan átti sér stað hafa kannað hjá Fiskistofu hvað hann gæti gert og þá komist að því að dagarnir væru framseljanlegir. Þá hefði hann ákveðið að láta smíða nýjan bát. Stórkostlegar breytingar hefðu orðið á fiskveiðistjórnarkerfinu, sem enginn hefði vitað fyrir og gert veiðiheimildirnar miklu verðmætari en þær hefðu verið.
Stefndi skýrði jafnframt frá því að eftir að hann var krafinn bréflega um 17.000.000 króna hefði hann komið að máli við stefnanda og hefði stefnandi þá sagt að þetta væri ekki lengur í sínum höndum.
Stefndi kvað ástæðu þess að aðilar gengu sjálfir frá kaupsamningi, sem hann sá um að semja, hefði verið sú að þeir hefðu ekki talið ástæðu til að kosta fé til samningsgerðarinnar.
Vitnið Björn Oddsson kveðst vera kvæntur fósturdóttur eiginkonu stefnanda og hafa þekkt stefnanda vel frá árinu 1974. Hann skýrði frá því að nokkrir hefðu verið búnir að tala við stefnda og biðja hann að vera ekki að hringla í stefnanda með kaup á bátnum. Stefndi hefði sagt sér áður en kaupin voru gerð að það stæði til að greiða um 6.000.000 króna fyrir bátinn. Seinna hefði verið farið að athuga hvað hefði verið greitt fyrir hann og komið í ljós að það hefðu verið 900.000 krónur. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að stefndi hefði boðið frekari greiðslur fyrir bátinn. Vitnið kvaðst álíta að stefnandi hefði í raun ekki haft hugmynd um verðgildi bátsins á þeim tíma sem hann var seldur.
Einnig kom fyrir dóminn vitnið Hilmar Sigurðsson, sem dómkvaddur var til að meta verðgildi bátsins og fleira. Staðfesti hann matsgerð sem liggur frammi í málinu. Hann kvað það hafa viðgengist lengi á þeim tíma sem samningurinn var gerður að sóknardagar gengju kaupum og sölum. Hann tók aðspurður fram að skilja ætti ummæli í matsgerð svo að það sé álit matsmanns að báturinn sjálfur hafi verið lítils sem einskis virði. Hafi það verið forsenda matsmanns að aðilar hafi samið um verð bátsins sjálfs sem 900.000 krónur og hafi við matið verið bætt við verðmæti sóknardaganna sjálfra.
Þá gaf Ómar Dýri Sigurðsson, bróðir stefnda, skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann hafa heyrt stefnanda segja að hann ætlaði að láta stefnda hafa bátinn og einhverjir yrðu ekki ánægðir með það. Kvaðst vitnið ekki hafa áttað sig á öðru en að stefnandi vissi vel hvað hann væri að gera. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað um verð bátsins.
VII.
Eins og að framan hefur verið rakið, staðhæfir stefndi að stefnandi hafi eindregið viljað selja sér framangreindan bát fyrir lítið og lægra verð en stefndi sjálfur hafi viljað greiða.
Stefnandi var 87 ára gamall er hann seldi bátinn. Hann hafði ekki nýtt þau atvinnuréttindi sem tilheyrðu bátnum, þ.e. svokallaða sóknardaga. Ekkert liggur fyrir um heilsu stefnanda er kaupin voru gerð, með tilliti til þess hvort dómgreind hans í fjárhagslegu tilliti hafi hugsanlega verið farin að skerðast eitthvað vegna aldurs. Með tilliti til aldurs hans, eðlis þeirra réttinda sem um er að tefla og þess að hann hafði ekki nýtt þau með nokkrum hætti sér til atvinnu eða fjárhagslegs ávinnings á annan hátt, má almennt ætla að manni í þessari stöðu hafi ekki verið fyrirfram ljóst að markaðsverðmæti þess réttar að mega sækja sjó til veiða í atvinnuskyni í 19 daga á ári á opnum trébáti, 30 ára gömlum, gæti numið 7,5 milljónum króna. Þegar hins vegar er litið til þess að stefndi hafði í hyggju að stunda veiðar sér til atvinnu og að samkvæmt skýrslu hans hér fyrir dómi var honum ljóst að báturinn með tilheyrandi réttindum var miklum mun verðmætari en kaupsamningur hljóðar um, verður að leggja til grundvallar að stefnandi hafi staðið höllum fæti við samningsgerðina gagnvart stefnda hvað varðar vitneskju um markaðsverðmæti veiðiréttinda sem tilheyrðu bátnum.
Eins og byggt er á af hálfu stefnda er það rík meginregla að gerða samninga beri að halda. Samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr.6. gr. laga nr. 11/1986, má þó víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Skal þá líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.
Hér að framan hefur verið rætt um stöðu samningsaðilja. Skriflegur samningur þeirra hljóðar efnislega um kaup á tilteknum smábáti með sóknardögum fyrir 900.000 krónur. Samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns var verðmæti sóknardaganna á þessum tíma 7.500.000 krónur. Af hálfu stefnda er byggt á því að í ákvörðun um verð hafi falist vilji stefnanda annars vegar til að ívilna stefnda vegna kunningsskapar og ýmiss konar aðstoðar í þágu stefnanda auk þess sem hann vildi að báturinn yrði gerður út frá Þingeyri og hins vegar hafi stefnandi séð sér hag í því að selja bátinn fyrir lítið til að þurfa ekki að greiða skatt af söluhagnaði og halda óskertum lífeyri. Eins og málið liggur fyrir er ekki nægilega sannað til að á því verði byggt að það hafi verið að hluta efni samnings aðila að stefnandi hafi viljað ívilna stefnda á einhvern þann hátt sem stefndi heldur fram og ekki heldur að stefndi hafi skuldbundið sig til að gera út frá Þingeyri um einhverja framtíð. Ekkert liggur heldur fyrir um það að stefnandi hafi aflað sér mats á því, eða lagt á það mat sjálfur, hvort og þá með hverri fjárhæð hann þyrfti að greiða skatt af söluhagnaði og hvort og þá að hverju marki lífeyrisgreiðslur til hans kynnu að skerðast vegna sölu bátsins. Hefur stefndi ekki freistað þess að leiða að því líkur að stefnandi hafi þannig haft hag af því og þá hve mikinn, að selja eign sína svo langt undir markaðsverði sem matsgerðin hljóðar um.
Fyrir liggur að atvik við samningsgerð aðila, að því er varðar samningu skjals um efni hans, voru með þeim hætti að stefndi tók að sér að annast hana sjálfur. Var það í sjálfu sér óvarlegt af hans hálfu í ljósi þess að hann heldur því fram að í samningnum hafi falist örlæti í sinn garð af hálfu stefnanda. Þrátt fyrir að stefnda væri ljóst að stefnandi seldi eign sína fyrir miklu minna verð en hann gat fengið, gætti hann þess samt sem áður ekki að það væri tekið fram í skjalinu af hálfu stefnanda og þá einnig hverjar ástæður þess væru. Tryggði stefndi sér enga sönnun um að stefnda væri fullljóst að verðið væri aðeins brot af markaðsverði. Var ekki vandað nægilega til samningar skjalsins af hálfu stefnda, sérstaklega með tilliti til þess hve það hljóðar um lágt verð fyrir hið selda. Má fallast á það sem segir í matsgerð að skjalið hafi verið ófullnægjandi í veigamiklum atriðum.
Þótt ekki sé beinlínis á því byggt sem málsástæðu af hálfu stefnanda er rétt að geta þess í þessu samhengi að svo virðist hafa atvikast eftir samningsgerðina að stefnda hafi lánast að gæta þess, m.a. með því að endurnýja bátinn, að atvinnuréttindi sem hann eignaðist með samningnum færu ekki forgörðum og hefur verðmæti þeirra vaxið verulega. Í matsbeiðni var farið fram á það að metið yrði núverandi verðgildi þess 30 tonna kvóta sem báti stefnanda, Ingvari ÍS 70 var úthlutað fiskveiðiárið 2004/2005. Í niðurstöðu matsmanns segir að ef miðað sé við áætlaða úthlutun krókaaflahlutdeildar og úthlutaðs krókaaflamarks á grundvelli krókaaflahlutdeildar fyrir Ingvar ÍS 770 sé markaðsverðið um 19.400.000 krónur miðað við 15. maí 2006, en markaðsverð krókaaflahlutdeildar og úthlutaðs krókaaflamarks á grundvelli krókaaflahlutdeildar, þann 15 maí 2006 ef miðað sé við heildarúthlutun á m.b. Ingvar ÍS 70, þ.e. endurnýjunar (svo í matsgerð, en á væntanlega að vera „vegna endurnýjunar“), sé um 43.600.000 krónur.
Þegar litið er til þess sem rakið hefur verið í þessum kafla um stöðu aðila, efni samnings þeirra, atvik að samningsgerð og að auki þess að hið selda hefur haldið verðmæti sínu og vel það eftir því sem best verður séð, verður fallist á það með stefnanda að víkja samningi aðila til hliðar og stefndi dæmdur til að þola breytingu á kaupverði bátsins til hækkunar, með vísan til fyrrgreinds ákvæðis 36. gr. laga nr. 7/1936 með síðari breytingum. Að þeirri niðurstöðu fenginni eru ekki efni til að leggja mat á það sérstaklega hvort stefndi hafi beitt svikum við samningsgerðina.
Við ákvörðun kaupverðsins verður byggt á mati hins dómkvadda matsmanns, en samkvæmt því var verðmæti sóknardaganna 19 á þeim tíma er samningurinn var gerður 7,5 milljónir, en verðmæti bátsins sjálfs án veiðiréttinda lítið sem ekkert. Ekki verður á því byggt að aðilar hafi samið um að verð bátsins án veiðiréttinda væri 900.000 krónur. Verður kaupverðið því ákveðið 7,5 milljónir króna. Stefndi hefur þar af greitt 900.000 krónur og standa eftir 6.600.000 krónur sem stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda.
Ekki verður fallist á að dæma dráttarvexti af þessari hækkun kaupverðsins frá samningsdegi. Verður kveðið á um að þessi hluti kaupverðsins beri almenna vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá dagsetningu kaupsamningsins til þess dags er mál var höfðað, en dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 4. mgr. 5. gr. sömu laga.
Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 1.200.000 krónur, þ.m.t. matskostnaður.
Dóminn kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 áður en dómur var kveðinn upp.
Dómsorð:
Stefndi, Jón Reynir Sigurðsson, greiði stefnanda, Ingvari G. Jónssyni, 6.600.000 krónur ásamt vöxtum af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. nóvember 2003 til 7. febrúar 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 1.200.000 krónur í málskostnað.