Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-139

Selló ehf. (Ingvar Þóroddsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Bjarni Þór Óskarsson lögmaður), Akureyrarkaupstað (enginn) og Vátryggingafélagi Íslands hf. (enginn)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Nauðungarsala
  • Veðskuldabréf
  • Veðbandslausn
  • Þinglýsing
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 22. apríl 2019 leitar Selló ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 9. sama mánaðar í málinu nr. 181/2019: Selló ehf. gegn Landsbankanum hf., Akureyrarkaupstað og Vátryggingafélagi Íslands hf., á grundvelli 1. mgr. 85. gr., sbr. 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni en Akureyrarkaupstaður og Vátryggingafélag Íslands hf. létu ekki málið til sín taka fyrir Landsrétti.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að felld verði úr gildi nauðungarsala á fasteign hans að Munkaþverárstræti 1 á Akureyri sem fram fór 6. febrúar 2018 að kröfu gagnaðilans Landsbankans hf. Sú krafa var reist á veðskuldabréfi að fjárhæð 12.000.000 krónur útgefnu 23. febrúar 2007 af Kraga ehf. til Landsbanka Íslands hf. en óumdeilt er að bréfið tilheyri nú gagnaðilanum. Til að tryggja greiðslu skuldarinnar var settur að veði eignarhlutur Kraga ehf. í fasteigninni Munkaþverárstræti 11 en honum var síðan afsalað til leyfisbeiðanda 24. ágúst 2008. Með viðauka við skuldabréfið 3. júlí 2009 voru veðréttindi samkvæmt því flutt af þeirri fasteign yfir á fasteignina að Munkaþverárstræti 1. Var viðauki þessi undirritaður af eiganda þeirrar fasteignar og tveimur fyrirsvarsmönnum Kraga ehf. sem einnig voru fyrirsvarsmenn leyfisbeiðanda. Með tveimur kaupsamningum sama dag milli leyfisbeiðanda og eiganda fasteignarinnar að Munkaþverárstræti 1 höfðu þeir makaskipti á þeirri eign og fasteigninni að Munkaþverárstræti 11. Þessir kaupsamningar og viðaukinn við skuldabréfið voru mótteknir samdægurs til þinglýsingar 14. júlí 2009. Reisir leyfisbeiðandi kröfu sína einkum á því að annmarkar hafi verið á þinglýsingu viðaukans sökum þess að hann hafi ekki samþykkt veðsetningu fasteignarinnar að Munkaþverárstræti 1 sem þinglýstur eigandi hennar og hefði því átt að vísa skjalinu frá þinglýsingu. Héraðsdómur hafnaði kröfu leyfisbeiðanda og var sú niðurstaða staðfest með fyrrnefndum úrskurði Landsréttar.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem litið hafi verið fram hjá réttindum hans sem þinglýsts eiganda fasteignarinnar að Munkaþverárstræti 1 við mat á gildi heimildar gagnaðilans Landsbankans hf. til að krefjast nauðungarsölu á eigninni, en fyrir liggi að samningur um kaup leyfisbeiðanda á þeirri fasteign og viðaukinn þar sem mælt var fyrir um flutning veðréttinda yfir á hana hafi verið afhentir til þinglýsingar sama dag. Telur leyfisbeiðandi að málið geti haft fordæmisgildi um forgangsáhrif þessara tveggja skjala við þinglýsingu, sbr. 15. gr., 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi svo einhverju nemi umfram fyrri dómsúrlausnir þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild  3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðni um kæruleyfi því hafnað.