Hæstiréttur íslands

Mál nr. 39/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
  • Res Judicata
  • Málskostnaður
  • Gagnsök


                                                   

Fimmtudaginn 4. febrúar 1999.

Nr. 39/1999.

Sigurnes hf.

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Þorsteini Guðnasyni

(Þorsteinn Einarsson hdl.)

Kærumál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi. Res Judicata. Málskostnaður. Gagnsök.

U, einkafirma Þ, hafði höfðað mál á hendur S til greiðslu söluþóknunar. Því máli var sjálfkrafa vísað frá dómi þar sem talið var að U skorti hæfi til þess að eiga sjálfstæða aðild að dómsmáli. Málskostnaður var ekki úrskurðaður. Þ höfðaði nú mál í eigin nafni gegn S. S gagnstefndi Þ vegna málskostnaðar sem S taldi sig hafa orðið fyrir í máli U gegn S en Þ krafðist frávísunar gagnsakar. Héraðsdómari féllst á þá kröfu. Talið var að í máli U gegn S, hefðu ekki verið skilyrði til að dæma Þ til greiðslu málskostnaðar samkvæmt 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og fæli úrskurður í því máli, þegar af þessum ástæðum, ekki í sér bindandi úrlausn um þá kröfu sem S hefði uppi í gagnsök. Þá var engan veginn talið leiða af 1. mgr. 129. gr. laga um meðferð einkamála, að krafa S um málskostnað í aðalsök gæti náð til kostnaðar hans af öðru dómsmáli. Var úrskurði héraðsdóms hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka gagnsökina til efnismeðferðar að nýju.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. janúar 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. febrúar sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 1999, þar sem gagnsök í máli varnaraðila gegn sóknaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdómara verði hrundið og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað.

I.

Samkvæmt gögnum málsins starfrækir varnaraðili einkafirma með heitinu Uns rekstrarráðgjöf og fæst meðal annars við sölu skipa. Sóknaraðili veitti honum 20. janúar 1997 umboð til einkasölu á fiskiskipi sínu, Brimi SU 383. Sóknaraðili ritaði varnaraðila bréf 30. mars sama árs, sem aðilana greinir á um hvað falist hafi í. Sóknaraðili telur sig hafa þar afturkallað að öllu leyti söluumboð handa varnaraðila, en varnaraðili telur á hinn bóginn að sóknaraðili hafi aðeins afturkallað umboð sitt til einkasölu. Í maí 1997 fól sóknaraðili Friðrik Arngrímssyni héraðsdómslögmanni að selja skipið fyrir sig. Nokkru eftir það hafði varnaraðili forgöngu um viðræður milli forráðamanna sóknaraðila og Jökuls hf. um kaup félagsins á skipinu. Í kjölfarið gerði Jökull hf. skriflegt tilboð í skipið og var skjalið undirritað af varnaraðila fyrir hönd félagsins. Sóknaraðili kveðst hafa litið svo á að varnaraðili kæmi fram í þessum viðskiptum fyrir Jökul hf., en varnaraðili kveðst hins vegar hafa talið sig vinna að sölu skipsins fyrir sóknaraðila. Samningur komst á um kaup Jökuls hf. á skipinu. Að tilhlutan sóknaraðila annaðist fyrrnefndur lögmaður gerð skjala vegna kaupanna, annarra en tilboðsins, sem áður er getið.

Einkafirma varnaraðila, Uns rekstrarráðgjöf, höfðaði mál 6. ágúst 1997 á hendur sóknaraðila til heimtu þóknunar að fjárhæð 7.003.125 krónur fyrir sölu á skipi hans. Eftir aðalmeðferð í því máli var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurður 25. maí 1998, þar sem því var vísað frá dómi sökum þess að stefnandann skorti hæfi til að eiga sjálfstæða aðild að dómsmáli. Í forsendum úrskurðarins sagði að málskostnaður yrði ekki dæmdur og var sú ákvörðun héraðsdómara áréttuð í úrskurðarorði. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar.

Með stefnu 29. júní 1998 höfðaði varnaraðili þetta mál í eigin nafni á hendur sóknaraðila til heimtu þeirrar þóknunar, sem fjallað var um í fyrra dómsmálinu, og var það þingfest 30. sama mánaðar. Sóknaraðili höfðaði gagnsök með stefnu á hendur varnaraðila, sem var birt 23. júlí 1998. Í gagnsökinni krafðist sóknaraðili greiðslu á 706.053 krónum, sem hann kvað vera kostnað sinn af fyrrnefndu máli einkafirma varnaraðila á hendur sér. Í stefnunni færði sóknaraðili í meginatriðum þau rök fyrir kröfu sinni að fyrra dómsmálinu hafi verið vísað frá vegna ástæðna, sem varði varnaraðila og hann beri ábyrgð á. Hafi varnaraðila verið saknæmt að höfða það mál eins og raun bar vitni og halda áfram rekstri þess í óbreyttu horfi eftir að sóknaraðili hafi gert athugasemd í greinargerð sinni um aðild einkafirma varnaraðila að því.

Í greinargerð um gagnsökina krafðist varnaraðili þess aðallega að henni yrði vísað frá dómi. Héraðsdómari féllst á þá kröfu með hinum kærða úrskurði.

II.

Varnaraðili var ekki aðili að fyrrnefndu dómsmáli, sem lauk með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 1998. Því hefði ekki verið fundin stoð í 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 að dæma varnaraðila sjálfan til greiðslu málskostnaðar í því máli, svo sem hann vísar nú til, enda snýr efni þess ákvæðis að málflutningsumboðsmanni málsaðila, en ekki fyrirsvarsmanni hans. Þegar af þessum ástæðum fól ákvörðun héraðsdómara um að dæma ekki málskostnað í því máli ekki í sér bindandi úrlausn um þá kröfu, sem sóknaraðili beinir nú með gagnsök sinni að varnaraðila. Standa því ákvæði 1. mgr. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 ekki gagnsökinni í vegi.

Samkvæmt greinargerð sóknaraðila í aðalsök í héraði gerir hann þar kröfu um málskostnað að skaðlausu úr hendi varnaraðila. Af 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 verður hins vegar engan veginn leitt að sú krafa geti náð til kostnaðar sóknaraðila af öðru dómsmáli, sem hann telur varnaraðila bera ábyrgð á. Eru þannig ekki efni til að vísa frá dómi kröfu sóknaraðila í gagnsök á þeirri forsendu að hún sé þegar til umfjöllunar í aðalsök.

Samkvæmt framansögðu eru ekki efni til að verða við kröfu varnaraðila um að gagnsök sóknaraðila verði vísað frá dómi. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka gagnsökina til efnislegrar meðferðar.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og er lagt fyrir héraðsdómara að taka gagnsök í málinu til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Þorsteinn Guðnason, greiði sóknaraðila, Sigurnesi hf., samtals 80.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.