Hæstiréttur íslands

Mál nr. 144/1999


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Veðréttur


___

                                                                                                                 

Fimmtudaginn 7. október 1999.

Nr. 144/1999.

Sæunn Halldórsdóttir

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

gegn

þrotabúi Einars V. Tryggvasonar

(Andri Árnason hrl.)

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Veðréttur.

E gaf út veðskuldabréf til handhafa í desember 1994 með veði í 77 hektara lóð úr landi M. Var bréfið í eigu S, móður E. Bú E var tekið til gjaldþrotaskipta í mars 1996, en frestdagur við skiptin var 29. nóvember 1995. Krafðist þrotabú E þess að veðsetningunni yrði rift. Ekki var talið að S gæti borið fyrir sig að hún hefði verið í góðri trú um að fjárhagur E hefði verið traustur er veðskuldabréfið var gefið út. Þá voru ný gögn sem lögð voru fram ekki talin breyta þeirri niðurstöðu héraðsdóms að ekki hafi verið leitt í ljós að E hafi verið gjaldfær í desember 1994. Var niðurstaða héraðsdóms staðfest og veðrétti S í M samkvæmt veðskuldabréfinu rift.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. mars 1999. Hún krefst þess að dæmt verði að veðréttur hennar samkvæmt skuldabréfi útgefnu 14. desember 1994 að fjárhæð 2.000.000 krónur með veði í spildu úr landi Miðdals I í Mosfellsbæ standi óhaggaður. Hún krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til þess að Einar V. Tryggvason gaf út veðskuldabréf til handhafa 14. desember 1994 með veði í lóð úr landi Miðfells í Mosfellsbæ, um 77 hektara að stærð. Bréfið er í eigu áfrýjanda, móður útgefanda þess. Bú Einars var tekið til gjaldþrotaskipta 25. mars 1996, en frestdagur við skiptin var 29. nóvember 1995. Leitar stefndi eftir að fá veðsetningunni rift. Eru málavextir og málsástæður aðila raktar í héraðsdómi og að nokkru leyti einnig í dómi Hæstaréttar 1998, bls. 36 í dómasafni, en með honum var hnekkt úrskurði héraðsdóms um að málinu skyldi vísað frá dómi.

Fyrir Hæstarétti hafa málsaðilar gert grein fyrir stöðu eigna og skulda Einars V. Tryggvasonar í desember 1994, en ekki verður stuðst við skattframtal hans í þeim efnum. Hefur áfrýjandi jafnframt lagt fyrir Hæstarétt nokkur ný skjöl, en með þeim leitast hún við að sýna fram á að þrotamaðurinn hafi verið gjaldfær á áðurnefndu tímamarki er stofnað var til þess veðréttar, sem deilt er um í málinu, sbr. 2. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Umrædd gögn hagga í engu þeirri niðurstöðu héraðsdóms að ekki hafi verið leitt í ljós að Einar V. Tryggvason hafi verið gjaldfær í desember 1994.

Áfrýjandi vísar jafnframt til þess að hún hafi verið í góðri trú um að fjárhagur sonar hennar hafi verið traustur í desember 1994. Hún hafi verið orðin hnigin að aldri og ófær um að setja sig inn í flókin fjármál. Þessi málsástæða er haldlaus, en huglæg afstaða þess, sem hyggst nýta sér tryggingarréttindi, skiptir ekki máli samkvæmt 2. mgr. 137. gr.  laga nr. 21/1991.

Að þessu virtu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur. Skal áfrýjandi greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Sæunn Halldórsdóttir, greiði stefnda, þrotabúi Einars V. Tryggvasonar, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. desember 1998.

I.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 6. maí 1997 og dómtekið 18. þ.m.

Stefnandi er Þrotabú Einars V. Tryggvasonar, kt. 170242-4599, Miðdal Mosfellsbæ.

Stefnda er Sæunn Halldórsdóttir, kt. 070313-2359, Miðdal, Mosfellsbæ.

Stefnandi krefst þess, að rift verði með dómi veðrétti stefndu samkvæmt veðskuldabréfi nr. 01089, útgefnu 14.12.1994, að fjárhæð 2.000.000 króna, með veði í landspildu úr landi Miðdals I, Mosfellsbæ. Þá er krafist málskostnaðar.

Af hálfu stefndu er þess krafist, að kröfu stefnanda um riftun verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar.

Með úrskurði, uppkveðnum 26. nóvember 1997, var fallist á kröfu stefndu um vísun málsins frá dómi. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar, sem felldi þann dóm 7. janúar 1998 (mál nr. 5/1998), að hinn kærði úrskurður var felldur úr gildi og var lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

II.

Árangurslaust fjárnám var gert hjá Einari V. Tryggvasyni arkitekt, Miðdal, Mosfellsbæ 9. október 1995. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 25. mars 1996, var bú hans tekið til gjaldþrotaskipta. Frestdagur við skiptin var 29. nóvember 1995 og lauk kröfulýsingarfresti 16. júní 1996. Lýstar kröfur námu 30.192.188 krónum og voru samþykktar 300.000 krónur sem forgangskröfur, 29.840.622 krónur sem almennar kröfur og 51.576 krónur sem eftirstæðar kröfur. Veðhafar lýstu ekki kröfum í búið.

Í skýrslutöku hjá skiptastjóra 19. apríl 1996 kom fram af hálfu þrotamanns, að helstu eignir hans væru tvær landspildur í landi Miðdals í Mosfellsbæ. Samkvæmt þinglýsingarvottorði, dags. 11.7.1996, hvíldu á eigninni sex handhafaveðskuldabréf á 2. veðrétti, hvert að fjárhæð 2.000.000 króna, og handhafatryggingarbréf, að fjárhæð 15.000.000 króna á 4. veðrétti, auk aðfararveða, sem fengust greidd við uppboðssölu annarrar eignar, þ.á m. fjárnám fyrir 483.483 krónum á 1. veðrétti. Matsverð fasteignasala 25. ágúst 1996 nam 10.850.000 krónum.

Stefnda er móðir Einars V. Tryggvasonar og er hún eigandi þess veðskuldabréfs, sem krafa stefnanda lýtur að. Það er nr. 01089, útgefið 14. desember 1994,að fjárhæð 2.000.000 krónur, með veði í „Lóð úr landi Miðdals ca. 77 hektarar”. Það er til fimmtán ára með gjalddaga einu sinni á ári, í fyrsta sinn 1. janúar 1996. Einar V. Tryggvason er skuldari að bréfinu, sem var gefið út til handhafa og er óverðtryggt og vaxtalaust. Það var afhent til þinglýsingar 14. desember 1994 og innfært 30. sama mánaðar. Systir Einars V. Tryggvasonar og sonur eru eigendur fimm annarra veðskuldabréfa, samhljóða og samhliða hinu umstefnda.

Við fyrrgreinda skýrslugjöf þrotamannsins Einars V. Tryggvasonar hjá skiptastjóra voru ekki skráðar nánari upplýsingar um „veð vegna skuldabréfa”. Veðhafafundur 2. október 1996 var sóttur af lögmanni, sem kvaðst gæta hagsmuna systur þrotamannsins, sem ætti þrjú framangreindra skuldabréfa, og stefndu, sem ætti eitt þeirra. Hann greindi frá því, að umbjóðendur sínir hefðu fengið skuldabréfin sem endurgreiðslu á lánum til þrotamannsins. Við skýrslugjöf hjá skiptastjóra 7. nóvember 1996 bar hann, að sonur sinn ætti þau tvö veðskuldabréf, samtals að fjárhæð 4.000.000 króna, sem upp á vantaði. Aðspurður um ástæður veðsetninganna, kvað hann þær vera „vegna langvarandi lánveitinga móður sinnar og systur, sem spanni allt að tíu ár aftur í tímann frá deginum í dag að telja. Sonur hans fékk bréfin vegna vinnu og verðmætaaukningar landspildunnar í Miðdal I. Lánin voru allt frá 10.000 upp í 500.000 kr. Ekki hafi verið gefnar út neinar kvittanir eða uppgjör farið fram. Þá hafi farið fram nokkurs konar uppgjör, þegar bréfin voru gefin út, og var hugsunin sú að tryggja þessar lánveitingar, en aldrei hafi legið fyrir skriflegt uppgjör eða verið kvittað fyrir neitt. Þetta hafi m.a. verið gert í tengslum við skilnaðarmál, sem mætti stóð í á þeim tíma . . .”

III.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfu sína um riftun á því, að stofnun umrædds veðréttar hafi átt sér stað eftir að stofnað var til hinna meintu skulda og hafi verið sett til hagsbóta fyrir nákomna innan tuttugu og fjögurra mánaða frá frestdegi, sbr. 1. og 2. mgr. 137.gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. Þá hafi veðsetning þrotamanns leitt til minni fullnustumöguleika annarra kröfuhafa.

Ætluð skuld sé vegna óljósra og ótilgreindra lána stefnda til þrotamanns á allt að tíu ára tímabili fyrir veðsetninguna. Veðsetningin hafi átt sér stað í desember 1994, sem sé innan tólf mánaða frá frestdegi, 29. nóvember 1995. Stefnda sé nákomin þrotamanni í skilningi 2. tl. 1. mgr. 3. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Nái riftun fram að ganga leiði það til þess að andvirði verðmætustu eignar búsins renni til skiptanna og auki það fullnustumöguleika annarra kröfuhafa, en þrotamaður hafi verið ógjaldfær, þegar veðsetningin átti sér stað.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því, að veðsetning þrotamanns hafi verið ráðstöfun, sem á ótilhlýðilegan hátt hafi verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og leitt til þess, að eign þrotamanns hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Eign búsins hafi rýrnað sem nemi fjárhæð veðskuldabréfanna. Vegna náinna tengsla og langvarandi lánveitinga stefndu til þrotamanns hafi henni verið eða mátt vera ljós bágur fjárhagur þrotamanns og að veðsetningin væri til þess fallin að rýra möguleika annarra kröfuhafa til fullnustu og teljist því ótilhlýðileg, samkvæmt 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga.

IV.

Málsástæður stefndu og lagarök

Á því er byggt, að 1. og 2. mgr. 137. gr. gjaldþrotaskiptalaga eigi ekki við þegar af þeirri ástæðu, að um skuldauppgjör milli aðila hafi verið að ræða, en ekki skjalagerð eða málamyndagerning til hagsbóta fyrir stefndu, svo og því, að á þeim tíma sem veðsetningin hafi farið fram, eða í desember 1994, hafi Einar V. Tryggvason verið gjaldfær. Hann hafi verið störfum hlaðinn sem arkitekt við nokkur stór verk. Hins vegar hafi þrjú verktakafyrirtæki, sem hann vann fyrir, orðið gjaldþrota síðla árs 1995 og hafi það orðið til þess að koma honum á kné með rekstur hans.

Um þá málsástæðu stefnanda, sem er studd við 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga, er því haldið fram af hálfu stefndu, að ekki sé uppfyllt það skilyrði fyrir beitingu hennar, að sá, sem hafi haft hag af veðsetningunni, hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður, sem leiddu til þess, að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Ljóst sé, að þrotamaður hafi eigi verið ógjaldfær, er veðsetningin fór fram. Þá beri einnig að líta til þess, að stefnda sé 83 (þ.e. við ritun greinargerðar, en nú 85) ára og hvorki hafi hún nú né hafi haft á árinu 1994 nokkra möguleika á að leggja sjálfstætt mat á það, hvernig fjárhagslegum aðstæðum þrotamanns væri háttað á þeim tíma.

V.

Sem fyrr segir, gaf Einar V. Tryggvason skýrslu hjá skiptastjóra þrotabús síns 19. apríl 1996. Hann kvaðst þá hafa rekið arkitektastofu í Reykjavík í um tuttugu ár og mætti rekja fjárhagsörðugleika sína að mestu til þess, að á undanförnum fjórum árum hefðu fjórir stórir viðskiptamenn orðið gjaldþrota með þeim afleiðingum, að hann hefði ekkert fengið greitt fyrir vinnu sína í þágu þeirra. Um hafi verið að ræða verulegan hluta vinnu sinnar á þeim tíma, eða fyrir rúmar 14.000.000 króna. Hann upplýsti jafnframt, að úttekt hefði verið gerð á bókhaldi sínu fyrir einu og hálfu eða tveimur árum, líklega hjá fyrirtækinu Fyrirgreiðslunni, og þá hefði komið í ljós, að skuldir voru meiri en eignir.

Að beiðni skiptastjóra þrotabús Einars V. Tryggvasonar var tekin skýrsla af honum hér fyrir dómi 13. maí 1997. Af henni verður ráðið, að upphaf fjárhagsörðugleika hans verði rakið til gjaldþrots eins viðskiptamanna hans upp úr 1990. Hann kvað móður sína, stefndu í máli þessu, hafa hjálpað sér mikið í gegnum tíðina og lagt til ómælda peninga, sem hún hafi raunverulega ekki haft efni á.

Af skilyrðum þeim, sem sett eru samkvæmt 1. og 2. mgr. 137. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl., fyrir því að fallist verði á riftun á veðrétti eða öðrum tryggingarréttindum, lúta andmæli stefndu einvörðungu að því, að Einar V. Tryggvason hafi verið gjaldfær, er hann gaf út þann 14. desember 1994 veðskuldabréf að upphæð 2.000.000 króna.

Við aðalmeðferð málsins voru af hálfu stefndu lögð fram eftirtalin skjöl: a) Skattframtal Einars V. Tryggvasonar 1994, þar sem samtala eigna er 19.926.29 krónur og samtala skulda „samkvæmt yfirliti”, sem fylgir ekki, 16.844.248 krónur. b) Bráðabirgðaniðurstaða Óla Þorsteinssonar viðskiptafræðings um eigna- og skuldastöðu Einars V. Tryggvasonar miðað við 31.12.1994, sem sýnir samtölu eigna 17.642.528 krónur og samtölu skulda 19.067.916 krónur, en þar er ekki getið skulda við ættmenni, sem um ræðir í málinu. c) Ódagsett og óundirritað yfirlit yfir eignir og skuldir Einars V. Tryggvasonar í árslok 1994. Þar kemur fram, að auk eigna samkvæmt lið b) væru frekari eignir, s.s. land úr Miðdal I að matsvirði 5.425.000 krónur og leiga veiðiréttar í Brúará fyrir landi Miklaholts og helmingur veiðihúss við Brúará að raunvirði 1.150.000 krónur.

Við aðalmeðferðina staðfesti stefnda það, sem fram er komið um fjárhagslegan stuðning sinn við Einar V. Tryggvason, en hann bar, að skuld samkvæmt veðskuldabréfi því, sem hér um ræðir, væri ógreidd.

Af hálfu stefndu hefur ekki verið leitt í ljós, að þrotamaðurinn Einar V. Tryggvason hafi verið gjaldfær á umræddu tímamarki og það þrátt fyrir stofnun tryggingarréttindanna. Af því leiðir, að lagaskilyrði brestur fyrir því, að stefnda fái notið þeirrar tryggingar, sem veðrétti hennar var ætlað að veita.

Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú, að fallist er á kröfur stefnanda. Málskostnaður er ákveðinn 200.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Rift er veðrétti stefndu, Sæunnar Halldórsdóttur, samkvæmt veðskuldabréfi nr. 01089 að upphæð 2.000.000 króna, útgefnu 14. desember 1994, með veði í landspildu úr landi Miðdals I, Mosfellsbæ.

Stefnda greiði stefnanda, þrotabúi Einars V. Tryggvasonar, 200.000 krónur í málskostnað.