Hæstiréttur íslands
Mál nr. 402/2010
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Upptaka
- Skilorð
|
Þriðjudaginn 21. desember 2010. |
Nr. 402/2010. |
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Upptaka. Skilorð.
Með héraðsdómi hafði X verið sakfelld fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á kókaíni frá Dóminíska lýðveldinu, um Bandaríki Norður Ameríku, til Íslands, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Brot þetta hafði ákærða framið í félagi við unnusta sinn, Y. X játaði að hafa flutt til landsins fíkniefni en andmælti því magni fíkniefna sem tilgreint var í ákæru og að innflutningurinn hafi verið í ágóðaskyni. X áfrýjaði málinu í því skyni að refsing hennar yrði milduð. Hæstiréttur taldi að ekki hefði tekist sönnun um annað en að ákærða hefði einungis talið að um væri að ræða innflutning til dreifingar á þeim fíkniefnum sem hún sjálf fékk afhent frá Y og kom fyrir í líkama sínum, um 60 grömm af 24% sterku kókaíni, en dómurinn hafnaði því að líta til skýrslna ákærðu og Y fyrir lögreglu þar sem skýrslurnar voru ýmist ekki bornar undir þau fyrir dómi eða með ófullnægjandi hætti, sbr. og 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008. Við ákvörðun refsingar var meðal annars litið til þess að ákærða hefði gerst sek um brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og að hún hefði ekki áður gerst sek um refsivert brot. Var refsing hennar ákveðin skilorðsbundið fangelsi í þrjá mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 15. júní 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd og að héraðsdómur verði staðfestur um upptöku ávana- og fíkniefna.
Ákærða krefst þess að refsing hennar verði milduð og hún bundin skilorði. Einnig krefst hún þess að gæsluvarðhaldsvist komi að fullu til frádráttar dæmdri refsingu.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærðu samkvæmt 1. kafla ákæru gefið að sök að hafa ásamt einum af meðákærðu í héraði, Y, staðið að innflutningi á 817,54 g af kókaíni frá Dóminíska lýðveldinu, um Bandaríki norður Ameríku, til Íslands ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Hafi ákærðu falið efnin í líkömum sínum og síðan flutt þau þannig til landsins, sem farþegar með sitt hvoru fluginu, ákærða frá New York en Y frá Boston. Í ákæru er því lýst að Y hafi lagt á ráðin um innflutninginn, þar með talið um fjármögnun og ferðatilhögun, og sótt fíkniefnin hjá óþekktum manni í Dóminíska lýðveldinu. Hann hafi fengið ákærðu „til verksins“ og hafi þau eftir komuna til Íslands farið saman að Hótel Fróni og fjarlægt fíkniefnin úr líkömum sínum. Fíkniefnin hafi svo fundist við leit á dvalarstað Y.
Eins og greinir í héraðsdómi er ákæran í mörgum fleiri liðum og varðar fleiri menn en ákærðu og Y. Við meðferð málsins í héraði játaði hann greiðlega sök samkvæmt öllum liðum ákærunnar sem hann varða. Var hann dæmdur samkvæmt því.
Ákærða hefur viðurkennt að hafa gengist inn á að hafa flutt til Íslands fíkniefni falin í líkama sínum. Á hinn bóginn andmælir hún því að magn fíkniefna sem hún flutti inn hafi verið það sem greinir í ákæru og að innflutningurinn hafi verið til söludreifingar í ágóðaskyni. Hún reisir vörn sína einkum á því að hún hafi fyrir innflutninginn ekki vitað hvort Y hafi einnig haft efni í líkama sínum og því ekki heldur um magn þeirra efna sem hann hafi innbyrt. Ákærða kvað Y vera unnusta sinn og hafi hann boðið henni í frí til Florida og Dóminíska lýðveldisins. Skömmu áður en þau hafi átt að fara heim hafi hún samþykkt að flytja fíkniefni fyrir Y sem hafi sagt henni að hún yrði að gera það hans vegna, en hún hafi ekki vitað fyrir hverja fíkniefnin voru flutt. Hún hafi átt að afhenda honum efnin er til Íslands væri komið og skipta sér svo ekkert frekar af málum. Fyrir dómi kvað Y ákærðu ekki hafa verið viðstadda er hann fékk fíkniefnin afhent, enda er ákærða ekki ákærð fyrir þann þátt í broti hans. Sagði hann ákærðu ekki hafa vitað að hann væri sjálfur að flytja fíkniefni til Íslands. Tók hann fram að hann hafi jafnframt ákveðið að ákærða færi ekki með sér í flugi til landsins þar sem hann hafi ekki viljað bendla hana við innflutninginn. Þá verður ekki ráðið af svörum hans að ákærða hafi verið viðstödd er hann kom efnunum, sem vafin voru í plast, fyrir í líkama sínum. Y lýsti því að hann hafi byrjað að gleypa poka með efnunum í daginn áður en þau yfirgáfu Dóminíska lýðveldið. Það hafi gengið brösuglega og því hafi hann tekið þá ákvörðun að fá ákærðu til koma fíkniefnum fyrir í líkama hennar. Hann hafi beitt ákærðu þrýstingi með því meðal annars að segja að hann myndi lenda í miklum vandræðum og vera jafnvel í mikilli hættu ef hún hjálpaði sér ekki. Aðspurður kvað hann ákærðu ekki hafa vitað að hann væri sjálfur að flytja efni frá Dóminíska lýðveldinu. Hún hafi á hinn bóginn vitað að hann hafi ekki getað komið efnunum, sem hún tók við, fyrir í líkama sínum vegna iðraverkja.
Ákærða, sem er af erlendu bergi brotin, talar ekki góða íslensku. Samkvæmt bókun í þingbók við aðalmeðferð í héraði mun túlkur, sem boðaður hafði verið til þings, ekki hafa mætt en í hans stað hafi verið fengin án fyrirvara önnur manneskja til aðstoðar við túlkun. Svör ákærðu við aðalmeðferðina eru afar ruglingsleg. Ekki verður séð að við þinghaldið hafi verið gengið eftir því að fá þau skýrari. Þá verður heldur ekki ráðið að við dómsmeðferðina hafi verið bornar undir ákærðu skýrslur hennar hjá lögreglu með fullnægjandi hætti um þau atriði sem máli skipta og kunna að vera henni í óhag. Þá var Y ekki spurður fyrir dómi um skýrslur sínar hjá lögreglu varðandi 1. kafla ákærunnar. Samkvæmt þessu og með vísan til 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ekki litið til skýrslna þeirra hjá lögreglu við sönnunarfærslu fyrir samverknaði þeirra við innflutning á 817,54 grömmum af kókaíni. Eins og hér háttar til verður að miða við að Y hafi ekki viljað að ákærða tæki þátt í innflutningi fíkniefnanna og hafi hann leynt háttsemi sinni fyrir henni. Hefur því ekki annað og meira sannast um háttsemi ákærðu en að hún hafi einungis talið að um væri að ræða innflutning á þeim fíkniefnum sem hún sjálf fékk afhent frá Y og kom fyrir í líkama sínum. Af fyrrgreindum framburði ákærðu beggja fyrir dómi má ráða að ákærða hafi vitað að efnin væru ætluð til dreifingar.
Í ákæru er ekki getið um magn þeirra fíkniefna sem ákærða hafði í líkama sínum, en hún kveður að um „tvær kúlur“ á stærð við tómata hafi verið að ræða. David Erik gaf skýrslu á sömu lund, en talaði um „tvo golfbolta“ í þessu sambandi og taldi hann að um 15% af efnunum hafi verið að ræða. Megnið af haldlögðum efnum var í kúlum af tveimur stærðum. Minni kúlurnar voru kókaín af styrkleikanum 38 til 67%, en þær stærri af styrkleikanum 24% sem samsvara mun á 27% af kókaínklóríði. Samkvæmt framburði Jakobs Kristinssonar dósents, er annaðist rannsókn á efnunum, mun meðalstyrkur kókaíns, sem hann hefur rannsakað í sambærilegum málum, vera um 48%. Samkvæmt gögnum málsins um rannsókn á magni fíkniefnanna verður fallist á vörn ákærðu að því leyti, að hún verður dæmd samkvæmt játningu sinni fyrir að hafa ásamt Y staðið að innflutningi á um það bil 60 grömmum af 24% sterku kókaíni.
Ákærða hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar fyrir brot gegn 2. gr, sbr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Með hliðsjón af því að ákærða hefur ekki áður gerst sek um refsivert brot og að teknu tilliti til styrkleika þess efnis sem hún er sakfelld fyrir að hafa flutt inn til landsins, verður refsing hennar ákveðin fangelsi í þrjá mánuði sem bundin verður skilorði eins og í dómsorði greinir. Komi til fullnustu hennar skal, samkvæmt 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, dragast frá með fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist ákærðu er hún sætti 30. desember 2009 til 8. janúar 2010.
Staðfest verða ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og sakarkostnað hvað ákærðu varðar.
Samkvæmt 4. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærða, X, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Komi til fullnustu refsingarinnar skal dragast frá með fullri dagatölu gæsluvarðhaldsvist ákærðu frá 30. desember 2009 til 8. janúar 2010.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna og sakarkostnað að því er ákærðu varðar skal vera óraskað.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. apríl sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 31. mars 2010 á hendur Y, kennitala [...], Bretlandi, Z, kennitala [...], [...], Reykjavík, X, kennitala [...], [...], Reykjavík, og Þ, kt. [...], [...], Reykjavík, fyrir eftirtalin hegningar- og fíkniefnalagabrot, framin á árinu 2009, nema annað sé tekið fram:
I.
Gegn ákærðu Y og X fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa sunnudaginn 27. desember staðið saman að innflutningi á 817,54 g af kókaíni frá Dómíníska lýðveldinu, um Bandaríki Norður Ameríku, til Íslands, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Ákærðu földu fíkniefnin í líkama sínum og fluttu þau þannig til landsins til Keflavíkurflugvallar, ákærða X sem farþegi með flugi FI-614 frá New York og ákærði Y sem farþegi með flugi FI-630 frá Boston. Ákærði Y lagði á ráðin um innflutning fíkniefnanna, þar með talið fjármögnun og ferðatilhögun, fékk meðákærðu X til verksins, sótti fíkniefnin hjá óþekktum manni í Dóminíska lýðveldinu og afhenti ákærðu X hluta þeirra á hótelherbergi í sama landi. Eftir komuna til landsins fóru ákærðu saman að Hótel Fróni, Laugavegi 22a, Reykjavík, og fjarlægðu þar fíkniefnin úr líkömum sínum. Fíkniefnin fundust svo við leit lögreglu mánudaginn 29. desember á dvalarstað ákærða Y að [...] í Reykjavík.
Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001.
II.
Gegn ákærða Y fyrir eftirtalin brot:
1. Peningaþvætti, með því að hafa aflað sér ávinnings að fjárhæð kr. 1.200.000 með sölu og dreifingu ótiltekins magns ávana- og fíkniefna sem ákærði flutti sjálfur til landsins frá Bandaríkjum Norður Ameríku á árunum 2008 - 2009, en hann lét svo afhenda meðákærðu Z peningana til geymslu að [...] í Reykjavík í desembermánuði, sbr. ákærulið IV/1.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. og 3. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 149/2009, sbr. áður 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 141. gr. laga nr. 82/1998, 2. gr. laga nr. 32/2001 og 4. gr. laga nr. 10/1997.
2. Fíkniefnalagabrot, framin þriðjudaginn 29. desember á bifreiðastæði í Skeifunni í Reykjavík:
2.1. Afhent meðákærðu Z 5,35 g af kókaíni, sem var hluti af þeim fíkniefnum sem greinir í ákærulið I. auk 2,94 g af marihúana, er ákærðu voru stödd í bifreið ákærða.
2.2. Skömmu síðar, við verslun B.T., afhent meðákærða Þ um 6 g af kókaíni sem var hluti af þeim fíkniefnum er greinir í ákærulið I., í sölu- og dreifingarskyni.
Teljast brot þessi varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001.
III.
Gegn ákærða Þ fyrir eftirtalin brot:
1. Fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudagskvöldið 29. desember á dvalarstað sínum að [...] í Garðabæ, haft í vörslum sínum 13,28 g af kókaíni ætluðu til sölu og dreifingar, sem lögreglan fann við húsleit og við leit á ákærða, þar af 6 g af sama efni sem ákærði móttók frá meðákærða Y þann 29. desember á bifreiðastæði í Skeifunni í Reykjavík, sbr. ákærulið II/2.2.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni.
2. Peningaþvætti, með því að hafa í desembermánuði afhent meðákærðu Z kr. 1.200.000 í reiðufé til geymslu að [...] í Reykjavík, sem hann vissi að var ávinningur meðákærða Y af innflutningi og sölu fíkniefna hér á landi, sbr. ákærulið IV/1.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 149/2009, sbr. áður 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 141. gr. laga nr. 82/1998, 2. gr. laga nr. 32/2001 og 4. gr. laga nr. 10/1997.
IV.
Gegn ákærðu Z eftirtalin brot:
1. Peningaþvætti, með því að hafa í desembermánuði á heimili sínu að [...] í Reykjavík móttekið kr. 1.200.000 í reiðufé sem hún vissi að voru ávinningur meðákærða Y af innflutningi og sölu fíkniefna hér á landi, geymt peningana á heimili sínu, þar til peningarnir fundust við húsleit lögreglu á heimili hennar mánudaginn 30. desember.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 7. gr. laga nr. 149/2009, sbr. áður 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 141. gr. laga nr. 82/1998, 2. gr. laga nr. 32/2001 og 4. gr. laga nr. 10/1997.
2. Fíkniefnalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 29. desember móttekið 5,35 g af kókaíni og 2,94 g af maríhúana frá meðákærða Y á bifreiðastæði í Skeifunni í Reykjavík, sbr. ákærulið II/2.1 og haft fíkniefnin í vörslum sínum á heimili sínu á sama tíma og greinir í ákærulið IV/1, sem ákærða framvísaði lögreglu við húsleit.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni.
Ákæruvaldið gerir eftirfarandi dómkröfur:
1. Að ákærðu verði dæmd til refsingar.
2. Að ákærðu verði dæmd til greiðslu alls sakarkostnaðar.
3. Að framangreind 836,17 g af kókaíni og 2,94 g af maríhúana, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni.
4. Að samtals kr. 1.200.000 í reiðufé sem fannst við húsleit að [...] í Reykjavík, sbr. ákærulið IV/1 verði gerðar upptækar með vísan til 1. mgr. 69. gr. almennra hegningaralaga nr. 19/1940, áður 3. mgr. 69. gr. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 60/1980, og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Verjandi ákærða Y gerir þær dómkröfur að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að gæsluvarðhaldsvist komi til frádráttar refsingu. Þá er gerð krafa um málsvarnarlaun.
Verjandi ákærðu X krefst þess að ákærðu verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa, sem jafnframt verði skilorðsbundin að öllu leyti. Þá komi gæsluvarðhaldsvist sem ákærða sætti við rannsókn málsins til frádráttar dæmdri refsingu. Loks krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa.
Verjandi ákærða Þ gerir þær dómkröfur að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa vegna háttsemi sem lýst er í ákærulið III.1, en sýknaður af ákærulið III.2. Þá krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa.
Verjandi ákærðu Z gerir þær dómkröfur að ákærða verði sýknuð af ákærulið IV.1. Vegna ákæruliðar IV.2 er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa, sem jafnframt verði skilorðsbundin að öllu leyti. Þá er gerð krafa um málsvarnarlaun.
Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins hafði lögregla eftirlit með ákærðu Þ og Y síðla árs 2009 vegna grunsemda um að þeir stæðu að innflutningi og sölu fíkniefna. Þann 27. desember 2009 kom Y til landsins með flugi frá Boston. Sama morgun kom ákærða X einnig til landsins með flugi frá New York. Þann 29. desember fylgdu lögreglumenn Y eftir þar sem hann ók um á bifreið sem ákærða Z var skráður eigandi að, en Z var farþegi í bifreiðinni. Á bifreiðastæði við verslunina BT í Skeifunni steig Y út úr bifreiðinni og hitti þar Þ. Sást hvar Þ afhenti Y hvítan poka. Ók Y því næst bifreiðinni að heimili Z við Rauðarárstíg þar sem Z yfirgaf bifreiðina og hafði poka meðferðis, en Y ók bifreiðinni áfram að [...]. Voru Y og X í kjölfarið handtekin í íbúð í húsinu þar sem þau höfðu dvalist um hríð. Við leit í íbúðinni fundust ætluð fíkniefni, sem vógu samtals 816,5 grömm. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði reyndust sýni úr efninu sem haldlagt var innihalda kókaín.
Sama kvöld voru Þ og Z handtekin á heimilum sínum. Í íbúð Þ fundust 12,29 grömm af kókaíni, auk þess sem 0,99 grömm af sama efni fundust í buxnavasa ákærða. Í íbúð Z fundust 5,34 grömm af kókíni og 2,94 grömm af marihuana. Þá fundust 1.200.000 krónur í reiðufé í fataskáp í herbergi sem A hafði til afnota í íbúðinni.
Ákærðu Y, Þ og Z játa sök samkvæmt ákæruliðum II.2.1 og II.2.2, III.1 og IV.2. Hér á eftir verður rakinn framburður ákærðu og vitnisburður fyrir dómi að því er varðar aðra ákæruliði. Verður framburður ákærðu hjá lögreglu reifaður jafnhliða eftir því sem efni eru til, en skýrslur þeirra voru teknar upp á hljóð- og myndband og eru upptökur meðal gagna málsins.
Ákæruliður I.
Ákærði Y játaði að hafa flutt 817,54 g af amfetamíni hingað til lands með þeim hætti sem lýst er í ákæru, en kvað innflutninginn ekki hafa verið í ágóðaskyni. Ákærði sagðist hafa skipulagt flutning fíkniefnanna hingað til lands, en hann hefði ekki komið að fjármögnun eða skipulagningu að öðru leyti.
Ákærði lýsti samskiptum sínum við mann að nafni B, sem ákærði sagði skulda sér fé, en B hefði fengið ákærða til að fjárfesta í fyrirtæki sem hann hefði sagst reka. Hefði B sagst geta endurgreitt ákærða það fé sem hann hefði reitt af hendi með helmings hagnaði ef ákærði tæki að sér að flytja inn fíkniefni fyrir hann. Hefði B jafnframt beitt ákærða þrýstingi með því að hóta að opinbera kynlífsmyndband þar sem ákærði kom við sögu. Hefði ákærði að tilhlutan B í tvígang flutt fíkniefni hingað til lands, síðla árs 2008 og í ársbyrjun 2009. Hefði B lagt 1.260.000 krónur inn á bankareikning ákærða fyrir vikið. Hann hefði hins vegar enn átt peninga inni hjá B, sem hefði hvatt hann til að fara eina ferð enn með fíkniefni. Hefði B haft í hótunum við hann vegna þessa og hefðu hótanirnar m.a. beinst að X, kærustu ákærða. Ákærði sagði þau X hafa farið til Florida í byrjun desember 2009 og hefðu þau upphaflega ætlað að vera þar í fríi. Hann hefði hins vegar verið í símasambandi við B sem hefði þrýst á hann að sækja fyrir sig pakka með kókaíni til Dóminíska lýðveldisins. Ákærði sagðist hafa óttast um öryggi þeirra X og því ákveðið að gera þetta. Hefðu þau X haldið til Dóminíska lýðveldisins og dvalist þar í hótelíbúð skammt frá Puerto Plata. Hefði hann ekki sagt X hver væri tilgangur ferðarinnar. Ákærði sagðist hafa farið til Puerto Plata og sótt fíkniefnin eins og lagt hefði verið fyrir hann. B hefði verið búinn að ganga frá greiðslu fyrir fíkniefnin. Hann hefði sótt þau á mótel. Pakkinn hefði verið falinn undir kodda í svefnherbergi. Herbergið hefði verið mannlaust og hann hefði engan hitt. Hann hefði tekið pakkann með sér í hótelíbúðina þar sem þau X dvöldust. Fíkniefnunum hefði verið pakkað í plastumbúðir og hefðu sumar pakkningarnar verið þannig að þær átti að gleypa, en öðrum átti að koma fyrir í holrými líkamans. Ákærði sagðist hafa skipulagt heimferðina þannig að þau X flygju hvort með sinni flugvélinni til Íslands. Hann hefði ekki viljað flækja X í þetta mál. Daginn fyrir brottför hefði hann byrjað að gleypa pakkningarnar með fíkniefnunum. Hann hefði hins vegar ekki getað komið öllu efninu niður. Því hefði hann beðið X um að flytja það sem eftir var af efninu og hefði hún fallist á það. Hún hefði komið fíkniefnunum fyrir í líkama sínum. Þau hefðu verið á hótelherberginu þegar þetta átti sér stað. Ákærði lýsti því næst heimferðinni. Þau X hefðu komið til Keflavíkur hvort með sínu flugi að morgni 27. desember. Þau hefðu leigt herbergi á Hótel Fróni í Reykjavík, þar sem þau losuðu fíkniefnin úr líkömum sínum. Síðan hefðu þau farið með fíkniefnin í íbúðina við Snorrabraut.
Ákærði sagði það hafa verið ákveðið á síðustu stundu að X flytti fíkniefni til Íslands. Hún hefði gert það fyrir hann vegna þess að hún var kærastan hans og hann bað hana um það. Hann hefði sagt henni að hann fyndi fyrir miklum sársauka og að hann væri í miklum vanda ef hann gæti ekki flutt fíkniefnin. Hann hefði haft mikinn iðraverk þar sem hann hefði verið búinn að gleypa svo mikið af fíkniefnum og hefði hann sagt X frá því. Hún hefði verið hrædd þar sem hann hefði sagt henni að ef þetta tækist ekki væri hann í miklum vanda og hættu. Hún hefði falið í líkama sínum fíkniefni sem pakkað var í tvær kúlur á stærð við golfbolta. Ákærði giskaði á að þetta hefðu verið tæplega 15% af heildarmagni fíkniefnanna.
Ákærði sagðist hafa greitt allan ferðakostnað þeirra X. Hann hefði keypt flugmiða og pantað hótelherbergi eftir fyrirmælum B. Hann hefði átt að afhenda B, eða fulltrúa hans, fíkniefnin eftir að þau komu til landsins, en verið handtekinn áður en af því varð.
Ákærða X neitaði sök við þingfestingu málsins og kvaðst ekki hafa staðið að innflutningi með meðákærða Y. Þá gerði ákærða athugasemd við magn fíkniefna sem tilgreint er í ákæru og hafnaði því að hafa flutt efnin til landsins í ágóðaskyni. Ákærða sagði þau Y hafa farið saman í frí til Florida og Dóminíska lýðveldisins. Hún hefði ekki haft vitneskju um fíkniefnin fyrr en rétt áður en þau ætluðu heim. Y hefði beðið hana um að flytja pakka með fíkniefnum og hefði hún samþykkt að hjálpa honum. Hún hefði ekki vitað um hvers konar fíkniefni var að ræða. Hún hefði ekkert fengið greitt fyrir þetta. Y hefði beðið hana að koma með í þessa ferð og hann hefði greitt ferðakostnað þeirra beggja. Ákærða sagðist ekki hafa vitað að Y var sjálfur að flytja fíkniefni til Íslands. Þá hefði hún ekki vitað hvaða magn fíkniefna hún flutti. Þetta hefðu verið tvær kúlulaga pakkningar á stærð við tómat. Ákærða sagðist ekki hafa reiknað með því að fá greitt fyrir að flytja fíkniefnin, en hins vegar hefði ákærði, sem væri kærasti hennar, aðstoðað hana fjárhagslega, t.d. með því að greiða fyrir hana leigu og því um líkt.
Vitnið Jakob Kristinsson gaf skýrslu fyrir dóminum, staðfesti matsgerð sem hann hafði unnið og gerði grein fyrir niðurstöðum um styrkleika efnissýna sem rannsökuð voru.
Vitnið C kom fyrir dóminn og lýsti samskiptum sínum við ákærða og B. Vitnið sagði B hafa sagt sér að hann ætti von á fíkniefnasendingu með aðstoð Y og myndi hann nota andvirði fíkniefnanna til að greiða skuld sína við vitnið og fleiri. Sagðist C hafa verið vitni að því að þeir B og Y rifust vegna þessara mála og að B hefði haft í hótunum við Y tækist hann ekki þessa ferð á hendur.
Vitnið Kjartan Ægir Kjartansson rannsóknarlögreglumaður sagði B hafa verið yfirheyrðan vegna framburðar ákærða Y um þátt hans í málinu. Rannsókn lögreglu hefði hins vegar ekki leitt í ljós tengsl B við innflutning fíkniefnanna sem um ræðir. Meðal gagna málsins eru lögregluskýrslur sem teknar voru af nefndum B við rannsókn málsins, sem vitnið vísaði til.
Ákæruliðir II.1, III.2 og IV.1.
Ákærði Y sagði þær 1.200.000 krónur sem haldlagðar voru á heimili Z vera peninga sem hann hefði beðið Þ að fara með til hennar. Hann hefði skuldað Z næstum 1.000.000 króna vegna bankaláns sem hún hefði tekið fyrir hann á sambúðartíma þeirra. Hann hefði átt þetta fé inni hjá Þ og beðið hann um að koma því til Z. Ákærði sagðist hafa gert ráð fyrir því að Þ hefði fengið þetta fé við að selja fíkniefni. Þá sagðist ákærði hafa dvalið á Margarita Island sumarið 2009 og hefði hann aðstoðað Þ við að komast í samband við aðila þar sem útveguðu honum fíkniefni. Hann hefði látið Þ þessar upplýsingar í té gegn því að hann myndi gera eitthvað fyrir ákærða í framtíðinni. Féð sem um ræðir hefði verið greiðsla fyrir þessa aðstoð sem hann veitti Þ.
Við skýrslutöku hjá lögreglu 7. janúar sl. kom fram hjá ákærða að hann hefði skuldað Z fé vegna láns sem hún hefði tekið fyrir hann. Hefði lánið numið 800.000 krónum á sínum tíma og hefði hann ætlað að greiða það til baka með vöxtum. Að auki hefði hann sjálfur átt um 400.000 krónur af fénu, sem Z hefði átt að geyma fyrir hann. Sagði ákærði í fyrstu að peningarnir hefðu verið hjá Z í einhver ár. Síðar sagðist hann hafa látið Z fá peningana í desember 2009 áður en hann fór til Bandaríkjanna. Ákærði sagðist hafa fengið hluta af þessum peningum frá B. Þá hefði hann fengið lánaða peninga hjá vini sínum í Bandaríkjunum. Fyrir dómi sagði ákærði það rétt sem kæmi fram í skýrslu hans hjá lögreglu að peningarnir sem fundust á heimili Z hefðu verið ætlaðir til greiðslu á láni sem móðir Z hefði tekið fyrir hann vegna bifreiðakaupa árið 2004. Hefði endurgreiðslan átt að nema nálægt 1.000.000 króna.
Við skýrslutöku hjá lögreglu 15. janúar sl. var ákærða kynnt að Þ hefði sagst hafa afhent Z þetta fé. Ákærði staðfesti þá að það væri rétt. Ákærða var kynntur framburður Þ um að peningarnir væru afrakstur sölu fíkniefna sem ákærði hefði flutt til landsins. Sagði ákærði það ekki vera rétt, heldur væru þessir peningar afrakstur sölu fíkniefna sem Þ hefði komið með til landsins. Þá væri rangt sem komið hefði fram hjá Þ að hann hefði fengið þessa peninga hjá aðilum sem hefðu selt fíkniefni fyrir Y. Ákærði var spurður að því fyrir dóminum hvort hann hefði vitað til þess að peningarnir væru andvirði fíkniefnasölu. Sagðist ákærði ekki hafa haft staðfestar upplýsingar um það, en grunað að svo gæti verið.
Ákærði Þ sagðist hafa farið með þessar 1.200.000 krónur til Z að beiðni Y. Þetta hefðu verið peningar sem hann skuldaði Y. Hann hefði fengið þá að láni annars staðar til að geta greitt Y. Þetta fé væri ekki tilkomið vegna sölu fíkniefna. Ákærði sagðist ekki muna hvenær í desember hann kom fénu til Z. Hann hefði beðið Z um að geyma þessa peninga fyrir Y.
Ákærði kannaðist við að hafa farið til Margarita Island síðla sumars 2009 og fengið þar afhent 165 g af kókaíni, sem hann hefði flutt hingað heim. Hefði Y aðstoðað hann við að útvega efnið ytra. Ákærði sagðist hafa selt fíkniefnin eftir að heim kom og greitt fyrir þau eftirá.
Borið var undir ákærða það sem komið hafði fram hjá honum við skýrslutöku hjá lögreglu 14. janúar sl., að peningarnir sem hann hefði afhent Z væru tilkomnir vegna sölu á fíkniefnum sem Y hefði áður komið með til landsins. Fyrir dómi sagði ákærði þetta ekki hafa verið rétt. Þetta hefði verið löng skýrslutaka og allt farið að renna saman hjá sér. Hann hefði ekki skýringar á því hvers vegna hann sagði þetta við skýrslutökuna.
Ákærða Z sagði peningana sem haldlagðir voru á heimili hennar vera fé sem Y hefði skuldað sér. Hún hefði lánað honum fé til bifreiðakaupa þegar þau bjuggu saman á árinu 2004. Þ hefði komið með þessa peninga til hennar í byrjun desember. Hún sagðist ekki vita hvernig þessir peningar voru tilkomnir. Ákærða sagðist hafa falið peningana af „paranoju“ þegar hún vissi að von var á lögreglu, en hún hefði verið hrædd um að lögreglan myndi stela þeim af henni. Aðspurð sagðist hún ekki hafa lagt peningana inn í banka vegna þess að hún treysti ekki bönkum. Þá sagðist hún ekki vita til þess að peningarnir væru tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Ákærða tók fram að hún ætti við andleg veikindi að stríða og hefði þjáðst af ranghugmyndum og þunglyndi.
Við skýrslutöku hjá lögreglu 30. desember sl., sagði ákærða lögreglu hafa haft símasamband við sig eftir miðnætti og viljað að hún kæmi að sækja bifreið sína, sem Y hefði haft til umráða þegar hann var handtekinn. Sagðist hún þá hafa vitað að lögreglan myndi koma á heimili hennar. Hún hefði tekið peningana og beðið meðleigjanda sinn Premyslav um að geyma þá fyrir sig. Hún teldi þetta hafa verið í kringum 1.000.000 króna og hefði hún verið að geyma þessa peninga fyrir Y. Spurð um þetta fyrir dómi sagðist ákærða ekki hafa munað á þessu augnabliki að Y skuldaði henni fé.
Vitnið A sagði Z hafa beðið sig um að geyma peningana sem haldlagðir voru vegna þess að hún hefði vitað að lögreglan var á leiðinni. Hann hefði orðið við beiðni hennar og geymt peningana inni í skáp í herbergi sínu.
Vitnið Snorri Birgisson rannsóknarlögreglumaður lýsti aðkomu sinni að málinu, en hann annaðist húsleit á heimili ákærðu Z. Ekki er ástæða til að rekja framburð vitnisins.
Niðurstaða
Ákæruliður I.
Ákærði Y játar að mestu leyti sök samkvæmt I. ákærulið. Hann kveðst þó ekki hafa flutt fíkniefnin til landsins í ágóðaskyni og ekki hafa komið að því að fjármagna kaup þeirra. Þegar litið er til þess magns fíkniefna sem ákærði flutti til landsins ásamt ákærðu X verður því slegið föstu að efnin hafi að verulegu leyti verið ætluð til söludreifingar hér á landi, enda hefur ákærði ekki borið því í mót. Svo sem rakið hefur verið hefur ákærði jafnframt borið að andvirði sölu fíkniefnanna hefði átt að renna til hans, en hann hafi verið peningalaus vegna misheppnaðra fjárfestinga. Þykir samkvæmt þessu sannað að ákærði hafi flutt fíkniefni til landsins í ágóðaskyni. Ákærði hefur viðurkennt að hafa alfarið skipulagt ferðatilhögun þeirra X. Hann hefur jafnframt borið að hafa greitt allan ferðakostnað þeirra, s.s. vegna flugferða, hótelgistingar og uppihalds. Hefur X borið á sama veg og ákærði um þessi atriði. Þykir með þessu sannað að ákærði hafi komið að fjármögnun innflutnings fíkniefnanna svo sem lýst er í ákæru. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa fengið X til að flytja hluta efnisins, eins og þar er rakið, og ber X á sama veg um það. Ákærði hefur borið að hann hafi tekist á hendur innflutning fíkniefnanna vegna þrýstings sem hann hafi orðið fyrir af hálfu nafngreinds manns. Jafnvel þótt lagt yrði til grundvallar að atvik að þessu leyti hefðu verið með þeim hætti sem ákærði lýsir myndi það þó hvorki leysa hann undan refsingu í málinu né leiða til refsilækkunar.
Ákærða X neitar sök. Ákærða viðurkennir að hafa flutt fíkniefni til landsins, en segir það ekki hafa verið í því magni sem í ákæru greinir. Þá hafi hún ekki framið brotið í ágóðaskyni. Ákærðu ber saman um að X hafi að beiðni Y falið tvær pakkningar með fíkniefnum í líkama sínum og flutt hingað til lands svo sem lýst er í ákæru. Segist ákærða ekki hafa vitað að Y flutti einnig fíkniefni í líkama sínum í umrætt sinn. Ákærði Y lýsti því fyrir dóminum að hann hefði innbyrt fíkniefnin með erfiðismunum í sólarhring fyrir brottför þeirra frá Dóminíska lýðveldinu og hafi hann verið á hótelherbergi þeirra meðan á þessu stóð. Þá hefur Y borið að X hafi tekið að sér að flytja fíkniefni þar sem hann hefði sagt henni að hann fyndi fyrir miklum iðraverk eftir að hafa gleypt svo mikið af fíkniefnum. Þykir framburður X um að henni hafi verið ókunnugt um þetta afar ótrúverðugur og verður honum hafnað. Þegar litið er til þess magns fíkniefna sem ákærðu fluttu til landsins gat X ekki dulist að fíkniefnin væru ætluð til söludreifingar hér á landi og að innflutningurinn væri þannig í ágóðaskyni.
Samkvæmt framansögðu telst sannað að ákærðu hafi staðið að innflutningi fíkniefnanna sem um ræðir til landsins með þeim hætti sem lýst er í ákæru og telst háttsemi þeirra þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákæruliðir II.1., III.2. og IV.1.
Ákærðu, Y, Þ og Z, játa sök samkvæmt ákæruliðum II.1, III.2 og IV.1. Með vísan til játningar ákærðu, sem samrýmist gögnum málsins, verða ákærðu sakfelld samkvæmt þessum liðum ákæru og er háttsemi þeirra þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákæruliðir II.2.1 og 2.2, III.1 og IV.2.
Ákærðu hafa gefið misvísandi skýrslur um tilurð þess fjár sem fannst á heimili Z og um það hver var eigandi þess.
Við skýrslutöku hjá lögreglu 14. janúar sl. bar Þ að hann hefði farið með peningana sem um ræðir til Z að beiðni Y og hefði verið um að ræða afrakstur sölu fíkniefna sem Y hefði flutt hingað til lands. Þá bar Z við skýrslutöku 30. desember sl. að hún hefði verið að geyma þessa peninga fyrir Y. Ákærði Y bar á hinn bóginn við skýrslutöku hjá lögreglu 7. janúar sl. að um væri að ræða fé sem hann hefði skuldað Z. Hefði hann fengið hluta af því frá B, en hluta hefði hann fengið að láni hjá félaga sínum í Bandaríkjunum. Við skýrslutöku 15. janúar sl. sagði ákærði það hins vegar rétt að Þ hefði komið þessum peningum til Z og væru þeir afrakstur sölu fíkniefna sem Þ hefði flutt til landsins. Ákærði bar á sama veg um þetta fyrir dómi við aðalmeðferð málsins, en tók fram að hann hefði grunað að um afrakstur fíkniefnasölu væri að ræða, en hefði ekki staðfestar upplýsingar um það. Þá báru Þ og Z að um hefði verið að ræða peninga sem Y skuldaði Z. Gaf Z þá skýringu á breyttum framburði sínum að hún hefði ekki munað eftir því við skýrslutöku hjá lögreglu að Y skuldaði henni fé. Þ sagði jafnframt að ekki væri rétt sem hefði komið fram hjá honum við skýrslutöku hjá lögreglu að um afrakstur fíkniefnasölu hefði verið að ræða. Hann hefði sagt þetta vegna þess að skýrslutakan hefði tekið langan tíma og hefði allt verið farið að renna saman hjá honum.
Þegar skýrslur ákærðu eru virtar þykir dóminum einsýnt að þau hafi samræmt framburð sinn fyrir dómi. Ákærði Y hefur viðurkennt að hafa í tvígang síðla árs 2008 og snemma árs 2009 flutt fíkniefni hingað til lands. Ákærði Þ bar við skýrslutöku hjá lögreglu að féð sem hann fór með til Z hefði verið afrakstur sölu fíkniefna sem Y hefði flutt hingað til lands og að Z hefði átt að geyma þessa peninga fyrir Y. Z bar á sama veg við skýrslutöku, að hún hefði verið að geyma þetta fé fyrir Y. Bar skýrslum ákærðu Þ og Z hjá lögreglu því saman í aðalatriðum. Skýrslur ákærða Y hjá lögreglu voru hins vegar misvísandi og í andstöðu við skýrslur meðákærðu. Ákærðu Þ og Z hafa ekki gefið trúverðuga skýringu á breyttum framburði sínum fyrir dómi. Þykir sá framburður ótrúverðugur og verður ekki á honum byggt. Að virtum framburði Þ og Z hjá lögreglu þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að féð sem um ræðir hafi verið afrakstur sölu fíkniefna sem ákærði Y flutti hingað til lands og að Þ hafi komið þeim peningum til geymslu hjá Z. Ákærða Z hefur lengi verið í nánu sambandi við Y og liggur fyrir í málinu að hún hefur fengið afhent fíkniefni frá honum. Þykir sýnt að henni hafi ekki getað dulist tilurð fjárins sem Þ afhenti henni til geymslu fyrir Y, enda voru þau viðbrögð hennar, að hlutast til um að fela peningana þegar hún vissi að von væri á lögreglu, til marks um að hún hafi vitað að um afrakstur fíkniefnaviðskipta var að ræða. Samkvæmt framansögðu verða ákærðu Þ og Z sakfelld samkvæmt ákæruliðum III.2 og IV.1 og telst háttsemi þeirra þar rétt færð til refsiákvæða.
Ákærða Y er í ákærulið II.1 gefið að sök peningaþvætti með því að hafa aflað sér ávinnings með fíkniefnaviðskiptum svo sem nánar er rakið, sem hann hafi svo látið afhenda Z í desember 2009. Með ákvæði 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. l41. gr. laga nr. 82/1998, 2. gr. laga nr. 32/2001 og 4. gr. laga nr. 10/1997 var mælt fyrir um refsingu fyrir viðtöku og öflun ávinnings af broti gegn almennum hegningarlögum, þ.m.t. fíkniefnabroti, og aðstoð við að umbreyta ávinningi í því skyni að fela ólöglegan uppruna hans. Annars vegar var því mælt refsivert að maður njóti ávinnings af broti sem annar hefði framið og hins vegar var lögð refsing við ýmsum aðferðum sem unnt er að viðhafa til að aðstoða við undanskot á ávinningi afbrota, án skilyrðis um að viðkomandi hefði nokkurn ábata af aðstoðinni. Nokkrar breytingar urðu á ákvæði 264. gr. almennra hegningarlaga með 7. gr. laga nr. 149/2009. Meðal annars er nú skýrt kveðið á um það í 2. mgr. 264. gr. að sá sem framið hefur frumbrot og fremur jafnframt brot samkvæmt 1. mgr. sömu greinar, þ.e. peningaþvætti, skuli sæta sömu refsingu og þar greinir og verði þannig um tvö sjálfstæð brot að ræða. Lög nr. 149/2009 tóku hins vegar ekki gildi fyrr en 1. janúar 2010 og tekur ákvæðið því ekki til háttsemi sem ákærða Y er gefin að sök í ákæru, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærði því sýknaður af þessum ákærulið.
Ákærði Y er fæddur í október 1966. Sakaferill ákærða hefur ekki áhrif á refsingu. Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að hann flutti hingað til lands talsvert magn fíkniefna sem ætlað var til sölu í ágóðaskyni. Refsing verður tiltekin eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar skal koma gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 30. desember 2009 til 15. janúar 2010.
Ákærða X er fædd í janúar 1982. Ákærða hefur ekki sætt refsingu svo að vitað sé. Ákærða átti í ástarsambandi við ákærða Y og verður við það miðað að hann hafi fengið hana til verknaðarins. Að þessu virtu þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Til frádráttar refsingu skal koma gæsluvarðahald sem ákærða sætti frá 30. desember 2009 til 8. janúar 2010.
Ákærði Þ er fæddur í janúar 1977. Samkvæmt sakavottorði var ákærði árið 1996 dæmdur í 45 daga fangelsi skilorðsbundið fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þá var ákærða í þrígang gerð sektarrefsing fyrir fíkniefnabrot árin 2008 til 2009. Þann 28. janúar 2010 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Verður refsing því ákveðin sem hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Þá verður refsing tiltekin eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði, en rétt þykir að ákveða að fullnustu 3 mánaða refsingarinnar skuli frestað og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærða Z er fædd í júlí 1973. Sakaferill hennar hefur ekki áhrif á refsingu. Refsing verður tiltekin eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni eru upptæk gerð 836,17 g af kókaíni og 2,94 g af maríhúana.
Með vísan til 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, áður 3. mgr. 69. gr. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 60/1980, og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, skal ákærði Y sæta upptöku á 1.200.000 krónum í reiðufé, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar hdl., 916.150 krónur og 255.692 krónur í annan sakarkostnað.
Ákærða X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., 702.800 krónur og 177.733 krónur í annan sakarkostnað.
Ákærði Þ greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hjálmars Blöndal hdl., 476.900 krónur og 128.193 krónur í annan sakarkostnað.
Ákærða Z greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Einars Huga Bjarnasonar hdl., 389.050 krónur.
Þóknun lögmanna er ákvörðuð með virðisaukaskatti og er hún fyrir vinnu undir rannsókn málsins og dómsmeðferð.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda María Stefánsdóttir aðstoðarsaksóknari.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Ákærði Y sæti fangelsi í 18 mánuði en frá refsivist hans skal draga gæsluvarðhald frá 30. desember 2009 til 15. janúar 2010.
Ákærða X sæti fangelsi í 10 mánuði en frá refsivist hennar skal draga gæsluvarðhald frá 30. desember 2009 til 8. janúar 2010.
Ákærði Þ sæti fangelsi í 6 mánuði, en fullnustu 3 mánaða refsingarinnar skal frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærða Z sæti fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Upptæk eru gerð 836,17 g af kókaíni og 2,94 g af marihúana.
Ákærði Y sæti upptöku á 1.200.000 krónum sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.
Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hauks Arnar Birgissonar hdl., 916.150 krónur og 255.692 krónur í annan sakarkostnað.
Ákærða X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., 702.800 krónur og 177.733 krónur í annan sakarkostnað.
Ákærði Þ greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hjálmars Blöndal hdl., 476.900 krónur og 128.193 krónur í annan sakarkostnað.
Ákærða Z greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Einars Huga Bjarnasonar hdl., 389.050 krónur.