Hæstiréttur íslands
Mál nr. 509/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Hald
- Vitni
|
|
Mánudaginn 18. nóvember 2002. |
|
Nr. 509/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Jón Einar Jakobsson hdl.) |
Kærumál. Hald. Vitni.
Hæstiréttur hafnaði kröfu X um að fá að leiða þrjú nafngreind vitni í máli, sem hún bar undir héraðsdóm til að fá leyst úr lögmæti halds, sem lagt var á dagbók í eigu hennar við rannsókn lögreglu á opinberu máli.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. nóvember 2002. Kærumálsgögn bárust réttinum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2002, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að henni yrði heimilað að leiða fjögur nafngreind vitni í máli, sem rekið er fyrir dóminum að tilhlutan hennar um lögmæti halds, sem sóknaraðili lagði á dagbók í eigu hennar 25. júlí 2002. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að sér verði heimilað að leiða þessi vitni.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2002.
Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 29. júlí krafðist sóknaraðili þess að dagbók í eigu hennar, sem lögreglan lagði hald á við leit á dvalarstað hennar 25. júlí sl., yrði skilað. Er sú krafa sóknaraðila studd við 79. gr. laga nr. 19/1991.
Sóknaraðili hefur óskað eftir því að fjögur nafngreind vitni verði leidd í málinu til að upplýsa um hvernig að haldlagningu dagbókarinnar var staðið tiltekið sinn. Er á því byggt að vitnisburður þeirra sé nauðsynlegur til að meta lögmæti haldlagningarinnar. Um sé að ræða misræmi milli þess sem fram kemur í skýrslum lögreglu og þess sem vitnin geti borið um. Þá liggi ekki fyrir hvort haldlagning hafi átt sér stað samfara handtöku eða sérstaklega síðar.
Varnaraðili mótmælir því að vitni þessi verði leidd þar sem úrskurður um lögmæti haldlagningar muni einungis snúast um lagaatriði, þ.e.a.s. hvort skilyrði til haldlagningar, samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 19/1991, hafi verið uppfyllt. Þau atriði sem sóknaraðili telji upp til stuðnings því að vitnaleiðslur fari fram séu allt atriði er varði lögmæti leitarinnar sem hafi verið hafnað að fjallað væri um samkvæmt dómi Hæstaréttar.
Ágreiningsefni þetta lagt í úrskurð dómsins.
Þau vitni sem sóknaraðili vill leiða fyrir dóm eru tilgreind í lögregluskýrslu og voru á staðnum þegar lögregla kom á vettvang. Byggir sóknaraðili á því að vitnisburður tilgreindra vitna hafi þýðingu varðandi leit og haldlagningu. Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 30. september sl. í málinu nr. 450/2002 var vísað frá þeirri kröfu sóknaraðila að úrskurðað yrði um lögmæti húsleitarinnar. Eftir stendur sú krafa sóknaraðila að úrskurðað verði um lögmæti haldlagningar á grundvelli 75. gr. laga nr. 19/1991. Við mat á því kemur til álita hvort skilyrðum 78. gr. laganna til haldlagningar hafi verið fullnægt. Umbeðnar vitnaleiðslur hafa ekki þýðingu varðandi úrlausn þar um og ber því að hafna þeim.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Umbeðnum vitnaleiðslum er hafnað.