Print

Mál nr. 27/2003

Lykilorð
  • Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. október 2003.

Nr. 27/2003.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Haraldi Sigmari Árnasyni

(Árni Pálsson hrl.)

 

Virðisaukaskattur.

H var ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti. Talið var, m.a. með vísan til dóms Hæstaréttar 22. júní 2000, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 2387, að skattgreiðslur gangi fyrst upp í eldri skuldir, en álag og dráttarvextir væru lögbundnar greiðslur sem yrðu hluti skattskuldar. Var því ekki fallist á að innheimtumanni ríkissjóðs hafi borið að taka innborganir fyrst upp í höfuðstól skuldarinnar. Var talið að sú háttsemi að afhenda virðisaukaskatt ekki á lögmæltum tíma sætti viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Greiðslur H, sem að langmestu leyti voru inntar af hendi löngu eftir gjalddaga, gátu ekki haft áhrif á sakarmat og var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu H staðfest, en tekið var tillit til þeirra við ákvörðun refsingar. Við þá ákvörðun var og dregið frá sektarfjárhæð 10% álag til viðbótar virðisaukaskatti samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988 með áorðnum breytingum.

 

            Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. janúar 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar á héraðsdómi að teknu tilliti til þess að frá sektarrefsingu dragist álag að fjárhæð 198.113 krónur samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með síðari breytingum.

Ákærði krefst þess að honum verði gerð vægasta refsing, sem lög leyfa.

Ríkislögreglustjóri gaf út ákæru 20. september 2002 á hendur ákærða fyrir brot á 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 42/1995, og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum með því að hann hafi ekki staðið sýslumanninum á Akureyri skil á samtals 2.656.270 króna virðisaukaskatti sem ákærði innheimti á árunum 1997 til 2000. Er uppgjörstímabilunum og fjárhæðum nánar lýst í ákæru. Hefur ákærði játað sakargiftir með þeirri athugasemd að hann „telur sig hafa samið við sýslumann um greiðslur skuldarinnar eftir gjalddaga.“ Hann hefur haldið því fram að ákæruvaldið hafi átt að taka tillit til þeirra greiðslna, sem inntar höfðu verið af hendi fyrir útgáfu ákæru og nánar verður vikið að síðar, enda hafi sá háttur tíðkast fram að þessu. Við munnlegan málflutning í héraði var því lýst yfir af hálfu ákæruvalds að ekki væri lengur byggt á að brot ákærða væru meiri háttar. Var því fallið frá tilvísun í ákæru til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

 Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst 24. apríl 2001 og lauk 26. september 2001. Samkvæmt niðurstöðu hennar nam vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur 2. maí 2001 2.477.259 krónum auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar. Í niðurstöðu rannsóknarinnar var miðað við sömu uppgjörstímabil og fjárhæðir og fram koma í ákæru, að því undanskildu að þar var ekki fjallað um tímabilin janúar-febrúar, mars-apríl og maí-júní 1997, þar sem ákærði hafði greitt höfuðstól, álag og dráttarvexti virðisaukaskatts vegna þeirra tímabila áður en rannsókn hófst, og tekið var tillit til þess að hann hafði einnig greitt 106.209 krónur inn á höfuðstól virðisaukaskatts vegna tímabilsins júlí-ágúst sama árs. Námu þessar greiðslur, sem hann innti af hendi á tímabilinu 11. apríl 1997 til 4. júní 1999, samtals 290.739 krónum.

Eftir að rannsókn skattrannsóknarstjóra lauk greiddi skiptastjóri þrotabús ákærða til innheimtumanns ríkissjóðs 2.640.740 krónur inn á vangoldinn virðisaukaskatt. Fóru þær greiðslur fram á tímabilinu frá 27. september 2001 til 30. nóvember sama árs. Af þeirri fjárhæð var 1.394.856 krónum ráðstafað inn á höfuðstól skuldarinnar, en 1.245.884 krónum inn á dráttarvexti, álag og kostnað. Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til ríkislögreglustjóra 26. febrúar 2002. Þá nam vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur 1.082.403 krónum að teknu tilliti til framangreindra innborgana. Samkvæmt framansögðu höfðu því samtals 2.931.479 krónur verið greiddar inn á vangoldinn virðisaukaskatt, álag, áfallna dráttarvexti og kostnað áður en ákæra var gefin út í málinu.

Ákærði innti fyrrnefndar greiðslur sínar af hendi um tveimur árum áður en rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst og skiptastjóri greiddi innheimtumanni áðurnefnda fjárhæð um það bil ári áður en ákæra var gefin út. Að loknum munnlegum málflutningi 15. maí 2003 tók Hæstiréttur þá ákvörðun að fara þess á leit við ríkissaksóknara að áður en dómur yrði felldur í málinu léti hann í té upplýsingar um hvaða venjur hafi ríkt um ákæru í tilvikum þar sem eins stæði á og í þessu máli, frá því að lög nr. 42/1995 um breyting á lögum nr. 50/1988 tóku gildi. Var sérstaklega óskað eftir að fram kæmi hvort samræmis hafi verið gætt við ákæru í málum sem þessum um hvaða vanskil virðisaukaskatts væri ákært fyrir, hafi hann verið greiddur í fyrsta lagi fyrir upphaf skattrannsóknar, í öðru lagi fyrir upphaf lögreglurannsóknar og loks fyrir útgáfu ákæru. Ríkissaksóknari óskaði af þessu tilefni eftir upplýsingum frá ríkislögreglustjóra. Í svarbréfi hans 20. ágúst 2003 segir meðal annars að „með ákæru og síðar dómi Hæstaréttar í máli nr. 49/2000 sem gekk 22. júní 2000 varð nokkur stefnubreyting í meðferð skattamála hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans. Fram að þeim tíma hafði tíðkast að ákæra ekki vegna brota þegar sakborningur hafði greitt þrátt fyrir að um fullframin upplýst brot væri að ræða.” Um núverandi framkvæmd segir í niðurlagi bréfsins að „enginn greinarmunur er gerður við útgáfu ákæru hvenær greitt er á þeim tímabilum sem rannsókn beinist að og fullframning brota verði að vera helsta leiðarljósið um hvert hið meinta sakarefni er.” Við munnlegan málflutning skýrði ákæruvaldið fyrrnefnd ummæli í bréfinu svo að það hafi fyrst verið að gengnum þar greindum dómi Hæstaréttar sem umrædd stefnubreyting hafi orðið.

Fyrir Hæstarétti heldur ákærði því fram að ákæruvaldið hafi átt að taka tillit til þess í ákæruskjali að hann hafi verið búinn að greiða allan höfuðstól skuldarinnar áður en rannsókn lauk hjá skattrannsóknarstjóra og hafi innborganir hans numið nokkru hærri fjárhæð en höfuðstól virðisaukaskattskuldarinnar. Hafi innheimtumaður ríkissjóðs átt að taka þessar innborganir fyrst upp í höfuðstól skuldarinnar áður en þær voru teknar til greiðslu álags, dráttarvaxta og kostnaðar þannig að ákærði nyti innborgana sinna á sem hagfelldastan hátt. 

Það leiðir af eðli máls og er í samræmi við lög að skattgreiðslur gangi fyrst upp í eldri skuldir, en álag og dráttarvextir eru lögbundnar greiðslur, sem greiða ber eftir ákveðnum reglum, og verða hluti viðeigandi skattskuldar, sbr. dóm Hæstaréttar 22. júní 2000, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 2387. Verður því ekki fallist á með ákærða að innheimtumanni hafi borið að taka innborganir fyrst upp í höfuðstól skuldarinnar. Sú fjárhæð sem ákært er fyrir nær til höfuðstóls þess virðisaukaskatts, sem ógreiddur var er hann féll í gjalddaga, en samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 með áorðnum breytingum sætir sú háttsemi þar tilgreindum viðurlögum að afhenda ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatt sem maður hefur innheimt eða honum bar að innheimta. Greiðslur ákærða, sem að langmestu leyti voru inntar af hendi löngu eftir gjalddaga, geta ekki haft áhrif á sakarmat, en við ákvörðun refsingar verður tekið tillit til þeirra. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans um sakfellingu staðfest.

Fjárhæðin sem ákærði er sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á nemur samkvæmt framansögðu 2.656.270 krónum. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti taldi ákæruvaldið að við ákvörðun refsingar væri rétt að draga frá sektarfjárhæð 10% álag til viðbótar virðisaukaskatti samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988 með áorðnum breytingum, en þetta álag nemi 198.113 krónum. Í gögnum málsins kemur fram að álagið var greitt vegna uppgjörstímabila áranna 1997 og 1998 að undanskildu tímabilinu janúar-febrúar 1997, en ljóst er að ákærði greiddi lítið sem ekkert álag fyrir það tímabil. Í 2. málslið 1. mgr. 40. gr. fyrrnefndra laga segir að álag samkvæmt 27. gr. laganna skuli dragast frá sektarfjarhæð. Með vísan til þess verður fallist á að draga beri álagið frá sektinni. Eins og fyrr segir voru greiðslur af hálfu ákærða að langmestu leyti inntar af hendi löngu eftir gjalddaga. Þykir því ekki koma til álita að færa refsingu hans niður fyrir lágmark sektarrefsingar, sbr. 8. tölulið 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til þess sem að framan segir verður ákærði dæmdur til að greiða í ríkissjóð 5.100.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en ella skal hann sæta fangelsi í fimm mánuði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Haraldur Sigmar Árnason, greiði í ríkissjóð 5.100.000 króna sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í fimm mánuði.

          Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Árna Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. desember 2002.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 29. október s.l., er höfðað með ákæruskjali sýslumannsins á Akureyri, útgefnu 20. september 2002, á hendur Haraldi Sigmari Árnasyni, kt. 120149-2539, til heimilis að Fögrusíðu 7c, Akureyri;

,,fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt, með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum á Akureyri skil á virðisaukaskatti sem hann hafði innheimt í á árunum 1997, 1998, 1999 og 2000 samtals að fjárhæð kr. 2.656.270 og sundurliðast sem hér greinir:

 

Uppgjörstímabil:

 

Árið 1997

Janúar – febrúar                                  kr.                                  5.963

Mars – apríl                                          kr.                                53.896

Maí – júní                                             kr.                                34.276

Júlí – ágúst                                           kr.                              190.273

September – október                          kr.                                - 9.230

Nóvember – desember                       kr.                              450.233                            kr.                        725.411

 

Árið 1998

Janúar – febrúar                                  kr.                                29.350

Mars – apríl                                          kr.                              - 12.130

Maí – júní                                             kr.                              261.136

Júlí – ágúst                                           kr.                              198.768

September – október                          kr.                                46.867

Nóvember – desember                       kr.                              610.718                            kr.                     1.134.736

 

Árið 1999

 

Mars – apríl                                          kr.                                44.864

Maí – júní                                             kr.                              110.531

Júlí – ágúst                                           kr.                              159.074

September – október                          kr.                                78.153

Nóvember – desember                       kr.                              308.514                            kr.                        701.136

 

Árið 2000

Janúar – febrúar                                  kr.                                94.987                            kr.                          94.987

                                                               Samtals:    kr.              2.656.270

                                                                                                                                           ==============

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.“

Í þinghaldi þann 29. október s.l. féll fulltrúi ákæruvalds frá ákæru um brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Skipaður verjandi ákærða, Árni Pálsson hrl., krefst hæfilegrar þóknunar sér til handa.

 

I.

Þann 24. apríl 2001 sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins ákærða bréf þess efnis, að hafin væri rannsókn á skilum hans á innheimtum virðisaukaskatti.  Rannsóknin beindist að virðisaukaskattskilum ákærða vegna uppgjörstímabila á tekjuárunum 1997-2000.

Á umræddu tímabili stundaði ákærði sjálfstæða starfsemi, sem fólgin var í rekstri teiknistofu.

Við rannsókn skattrannsóknarstjóra kom í ljós, að ákærði hafði ekki staðið að fullu skil á þeim virðisaukaskatti, sem honum bar að standa skil á til innheimtumanns ríkissjóðs.  Einnig kom fram við rannsóknina, að kr. 2.640.740,- höfðu verið greiddar vegna virðisaukaskattskulda ákærða.  Þeim fjármunum var ráðstafað inn á uppgjörstímabil á árunum 1997 og 1998, þar af kr. 1.394.856,- inn á höfuðstól, en kr. 1.245.884,- inn á dráttarvexti, álag og kostnað.

Skattrannsóknarstjóri vísaði máli ákærða til Ríkislögreglustjórans með bréfi dags. 26. febrúar 2002.  Í framhaldinu höfðaði Ríkislögreglustjórinn mál þetta gegn ákærða.

 

II.

Ákærði viðurkenndi fyrir dómi, að hafa á árunum 1997-2000 ekki skilað virðisaukaskattsskýrslum á réttum tíma, en taldi sig hafa samið við sýslumann um greiðslu virðisaukaskattsins eftir gjalddaga. 

Jafnframt kom fram hjá ákærða, að hann væri búinn að greiða kr. 2.640.740,- vegna umræddra virðisaukaskattstímabila.  Er það í samræmi við framlögð rannsóknargögn. 

Með ofangreindum athugasemdum viðurkenndi ákærði brot sín eins og þeim er lýst í ákæru.

Ákærða bar skylda til þess, skv. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988, að afhenda á lögmæltum tíma virðisaukaskatt, sem hann innheimti.  Upplýst er að það gerði hann ekki á  árunum 1997-2000 í þeim mæli, sem rakið er í ákæruskjali.

Í framlagðri skýrslu, sem embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins tók af ákærða, kemur fram, að ákærði stóð ekki innheimtumanni ríkissjóðs skil á umræddum virðisaukaskattsfjárhæðum vægna fjárskorts.  Er því ljóst, að fullnægt er í málinu þeim huglægu refsisskilyrðum, sem fram koma í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988. 

Brot ákærða voru fullframin er hann afhenti ekki innheimtan virðisaukaskatt á lögmæltum tíma.  Skil á hluta skattsins eftir nefnt tímamark breytti engu þar um.  Þá gat ákærði á engan hátt samið sig undan umræddri lagaskyldu.

Með vísan til ofangreinds þykir sannað, að ákærði hafi framið brot þau, sem honum eru gefin að sök í ákæruskjali.   Varða brot ákærða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995.

Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins gekkst ákærði á árinu 1987 undir sátt vegna brots gegn umferðarlögum.  Þá var hann 2. febrúar 1997 dæmdur til greiðslu kr. 3.000.000,- sektar vegna brota gegn 1., 5., og 7. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1., 4. og 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988 um virðisaukaskatt.

Ákærði hefur nú öðru sinni verið fundinn sekur um brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988.  Hann hefur hins vegar greitt nálega allan höfuðstól þess virðisaukaskatts, er mál þetta varðar.  Að þessu athuguðu og með vísan til fyrirmæla nefndrar 1. mgr. 40. gr. þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin kr. 5.300.000,- og komi 5 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins.

Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ.m.t. þóknun til handa skipaðs verjanda, Árna Pálssonar hrl., er hæfilega telst ákvörðuð kr. 45.000,-.

Uppsaga dóms þessa hefur tafist nokkuð vegna starfsanna dómara.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, Haraldur Sigmar Árnason, greiði kr. 5.300.000,- í sekt til ríkissjóðs og komi 5 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins.

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Árna Pálssonar hrl., kr. 45.000,-.