Hæstiréttur íslands

Mál nr. 330/2009


Lykilorð

  • Endurkrafa
  • Stjórnsýsla
  • Bótanefnd skv. lögum nr. 69/1995


Fimmtudaginn 25. febrúar 2010.

Nr. 330/2009.

  Haukur Armin Úlfarsson og

  Valur Adolf Úlfarsson

  (Jón Magnússon hrl.)

  gegn

  íslenska ríkinu   

  (Skúli Bjarnason hrl.)

Endurkrafa. Stjórnsýsla. Bótanefnd skv. lögum nr. 69/1995.

Með ákvörðun bótanefndar 16. mars 2006 var Í gert að greiða tjónþolanum B bætur vegna líkamsárásar H og V. Í höfðaði mál og krafðist greiðslu úr hendi H og V. Byggði Í kröfu sína á 19. gr. laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, þar sem segir að ríkissjóður eignist rétt tjónþola gagnvart tjónvaldi ef ríkissjóður greiði bætur samkvæmt lögunum. Talið var að skilyrði slíkrar kröfu væri að viðkomandi tjónvaldur hafi átt þess kost að gæta hagsmuna sinna við meðferð kröfunnar fyrir dómi eða að öðrum kosti fyrir bótanefndinni, meðal annars með því að kynna sér þau gögn sem lægju til grundvallar kröfunni og tjá sig um þau áður en ákvörðun yrði tekin. Þar sem H og V hefðu ekki notið þessa réttar, áður en nefndin tók þá ákvörðun sem krafa á hendur þeim byggði á, var talið að hún gæti ekki orðið grundvöllur kröfu samkvæmt fyrrnefndu ákvæði. Þegar af þessari ástæðu voru H og V  sýknaðir af kröfu Í. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 16. júní 2009. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að krafan verði lækkuð. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði. 

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málsatvikum og málsástæðum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Svo sem þar kemur fram ákvað bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota 16. mars 2006, að ríkissjóður skyldi greiða Heimi Frederikssyni Bates skaðabætur vegna líkamsárásar áfrýjenda á hann 1. september 2002, 2.600.000 krónur. Höfðu þeir verið sakfelldir fyrir líkamsárásina, sem talin var varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með héraðsdómi 19. desember 2003. Í ákæru hafði áverkum tjónþolans Heimis verið lýst svo að hann hefði hlotið „mar eða yfirborðsrispur í húð og hálsi vinstra megin, blæðingu í vinstra auga og marðist víðs vegar um líkamann.“ Tekið var fram í forsendum dómsins að í læknisvottorði sem til var vitnað segði að „áverkar hans hafi virst minni háttar.“ Voru áfrýjendur hvor um sig dæmdir til greiðslu 75.000 króna sektar og til greiðslu sakarkostnaðar.

Lögmaður tjónþolans Heimis hafði fyrir hans hönd sent bréf 27. nóvember 2002 til lögreglustjórans í Reykjavík og dóms- og kirkjumálaráðherra vegna bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995. Í bréfinu kom fram sundurliðuð bótakrafa á hendur áfrýjendum 1.208.044 krónur auk lögmannsþóknunar 161.728 krónur eða samtals 1.369.772 krónur. Var tekið fram að krafan væri „kynnt bótanefnd skv. lögum nr. 69/1995 og ber að skoða bréf þetta sem formlega tilkynningu til nefndarinnar og beiðni um greiðslu úr ríkissjóði.“ Jafnframt var tekið fram að skaðabótakrafan væri lögð fram „skv. XX. kafla laga nr. 19/1991 á hendur hinum grunuðu.“ Í bréfi þessu var gerður fyrirvari „um hækkun bótakröfu síðar, eftir atvikum í hinu opinbera máli eða með höfðun einkamáls.“ Í ákæru lögreglustjórans í Reykjavík 28. janúar 2003 var síðan gerð krafa fyrir hönd tjónþolans Heimis um að áfrýjendur yrðu dæmdir „til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 1.369.772 auk dráttarvaxta ... “. Í héraðsdómi 19. desember 2003 í sakamálinu sem höfðað var með nefndri ákæru, var tekið fram að við aðalmeðferð málsins, sem mun hafa lokið 9. desember 2003, hafi lögmaður Heimis Frederikssonar Bates afturkallað skaðabótakröfu hans. Kom hún því ekki til dóms í málinu.

Í ákvörðun bótanefndar 16. mars 2006 kemur fram að fyrir nefndinni hafi legið örorkumat tveggja lækna 26. september 2004 um líkamstjón umsækjandans Heimis. Hafi lögmaður hans látið nefndinni örorkumatið í té með bréfi 15. desember 2004 ásamt fleiri gögnum og þá gert kröfu um að „umsækjanda yrðu úrskurðaðar hámarksbætur með vísun til 7. gr. laga nr. 95/1996.“ Hér er bersýnilega átt við 7. gr. laga nr. 69/1995. Örorkumat þetta er meðal gagna málsins. Þar kemur meðal annars fram að metinn sé 10 stiga varanlegur miski og 10% varanleg örorka vegna tognunaráverka á hægri öxl með nokkurri skerðingu á almennri færni og lífsgæðum eins og segir í matsgerðinni. Töldu læknarnir Heimi hafa hlotið þessa áverka við líkamsárás áfrýjenda 1. september 2002. Í ákvörðun bótanefndarinnar segir að þetta örorkumat hafi verið lagt til grundvallar ákvörðun hennar.

Með bréfum dóms- og kirkjumálaráðherra 9. febrúar 2006 var áfrýjendum skýrt frá því að ráðuneytinu hefði borist umsókn Heimis Frederikssonar Bates um greiðslu bóta á grundvelli laga nr. 69/1995. Væri þeim gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við umsóknina. Þeir svöruðu báðir með bréfum 16. febrúar 2006. Í bréfunum fjölluðu þeir lið fyrir lið um kröfugerð umsækjandans Heimis samkvæmt bréfinu 27. nóvember 2002 sem fyrr var getið. Þeir hafa haldið því fram að þeim hafi ekki verið kynnt viðbótarerindi umsækjandans til bótanefndarinnar 15. desember 2004 og þau gögn sem hann þá sendi nefndinni, meðal annars örorkumatið frá 26. september 2004. Þeir hafi því ekki haft tækifæri til að fjalla um þessi gögn áður en bótanefndin tók ákvörðun sína. Styðst þetta við gögn málsins og hefur raunar ekki verið andmælt af hálfu stefnda. Efnislega hafa áfrýjendur mótmælt því að atburðurinn 1. september 2002 hafi haft þær afleiðingar fyrir tjónþolann sem metnar eru með framangreindum hætti í örorkumatsgerð læknanna.

II

Í máli þessu krefst stefndi greiðslu úr hendi áfrýjenda á þeirri fjárhæð sem bótanefnd samkvæmt lögum nr. 69/1995 ákvað 16. mars 2006 að stefndi skyldi greiða tjónþolanum Heimi Frederikssyni Bates vegna líkamsárásar áfrýjenda 1. september 2002. Byggir stefndi kröfu sína á 19. gr. laganna þar sem segir að ríkissjóður eignist rétt tjónþola gagnvart tjónvaldi ef ríkissjóður greiði bætur samkvæmt lögunum. Talið verður að skilyrði slíkrar kröfu sé að viðkomandi tjónvaldur hafi átt þess kost að gæta hagsmuna sinna við meðferð kröfunnar fyrir dómi eða að öðrum kosti fyrir bótanefndinni, meðal annars með því að kynna sér þau gögn sem liggja kröfunni til grundvallar og tjá sig um þau áður en ákvörðun er tekin, sbr. að sínu leyti ákvæði í IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svo sem lýst var að framan nutu áfrýjendur ekki þessa réttar áður en nefndin tók þá ákvörðun sem krafan á hendur þeim byggist á. Hún getur því ekki orðið grundvöllur kröfu samkvæmt 19. gr. laga nr. 69/1995. Verða þeir þegar af þessari ástæðu sýknaðir af kröfu stefnda.

Áfrýjendur hafa ekki krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefndi verður dæmdur til að greiða þeim málskostnað í héraði sem ákveðst til hvors þeirra um sig eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Haukur Armin Úlfarsson og Valur Adolf Úlfarsson, eru sýknir af kröfu stefnda, íslenska ríkisins.

 Stefndi greiði áfrýjendum hvorum um sig 400.000 krónur í málskostnað í héraði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2009.

Mál þetta sem dómtekið var 3. mars sl., er höfðað með birtingu stefnu 4. september 2008.

Stefnandi er Ríkissjóður Íslands, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.

Stefndu eru Haukur Armin Úlfarsson, Keldulandi 21, Reykjavík og Valur Adolf Úlfarsson, Keldulandi 21, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 2.622.126 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 2.622.126 krónum frá 29. maí 2006 til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og að þeim verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Til vara er þess krafist að stefnukrafa verði stórlega lækkuð samkvæmt mati dómsins og að stefndu verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda auk virðisaukaskatts.

Þá er þess krafist, ,,verði um sakfellingu að ræða að hún verði sundurgreind samkvæmt mati dómsins í samræmi við aðild hvors stefnda um sig“.

Málsatvik.

Heimir F. Bates varð fyrir líkamsárás 1. september 2002 af hálfu stefndu. Í læknisvottorði Ólafs R. Ingimarssonar frá 17. september 2002, segir að Heimir hafi leitað á slysadeild 1. september 2002, kl. 1:30 eftir líkamsárás. Hann hafi komið á þangað með sjúkrabíl, en lent í átökum við Kaffi Sólon við tvo menn. Við skoðun hafi komið í ljós smámar eða yfirborðsrispur í húð og hálsi vinstra megin. Hann sé með ,,subconjunctival“ blæðingu ,,cranioanasalt“ í vinstra auga og hafi þar eilitla aðskotahlutstilfinningu, en að öðru leyti kvarti hann um verki í hægri öxlinni, sérstaklega ef hann hreyfi hálsinn og fengi hann þá geislandi verk niður í öxlina. Rétt hafi þótt að fá röntgenmynd af brjóstholi, þar sem hann hafi verið aumur yfir hægra rifjahylkinu, svo og hálshrygg vegna gruns um geislandi einkenni út í öxlina hægra megin.

Heimir kærði árásina til lögreglu næsta dag, 2. september og 27. nóvember 2002 sendi hann Lögreglustjóranum í Reykjavík og dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bótakröfu með fyrirvara. Með bréfi bótanefndar frá 9. mars 2004 var þess farið á leit við Heimi að bótanefnd yrði upplýst um stöðu málsins fyrir 1. apríl 2004, að öðrum kosti yrði litið svo á að umsóknin væri afturkölluð. Með bréfi 17. mars 2004 tilkynnti lögmaður hans til bótanefndar að enn væri verið að afla gagna og óskaði eftir fresti hjá bótanefnd.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. desember 2003, í máli nr. S-117/2003, voru stefndu í máli þessu dæmdir til refsingar fyrir líkamsárás á hendur Heimi. Í ákæru var þeim gefin að sök líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 1. september 2002, fyrir utan kaffihúsið Kaffi Sólon, Bankastræti 7a, Reykjavík, í félagi sparkað ítrekað í höfuð og líkama Heimis, þar sem hann lá í jörðinni, og stefndi, Valur Adolf sett fingur í auga hans og klipið í kynfæri hans, með þeim afleiðingum að Heimir hlaut mar eða yfirborðsrispur í húð og hálsi vinstra megin, blæðingu í vinstra auga og marðist víðs vegar um líkamann. Stefndi, Haukur, var dæmdur fyrir að hafa sparkað í Heimi, bæði í höfuð hans og líkama og stefndi, Valur, var dæmdur fyrir að hafa sett fingur í auga Heimis og klipið í kynfæri hans. Var þessi háttsemi stefndu talin varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við aðalmeðferð sakamálsins afturkallaði lögmaður Heimis bótakröfu þá er lögð hafði verið fram af hálfu hans. Héraðsdómi þessum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.

Matsgerð læknanna Guðjóns Baldurssonar og Guðmundar Björnssonar lá fyrir 26. september 2004. Í niðurstöðu matsgerðar þeirra kemur fram að Heimir hafi að mestu verið heilsuhraustur áður en árásin átti sér stað, en í henni hefði hann verið snúinn eða dreginn niður í jörðina og hafi auk þess fengið spörk í höfuð og ofanverðan skrokkinn.

Flestir áverkarnir hafi gengið til baka, en hann sé ennþá með óþægindi sem rekja verði til þessa áverka. Hann hafi margoft leitað til síns heimilislæknis, einnig hafi hann farið til bæklunarskurðlæknis og þá hafi hann verið í langri sjúkraþjálfunarlotu frá því skömmu eftir slysið og þar til í lok febrúar 2003. Svo virðist sem hann sitji uppi með varanleg mein eftir þennan áverka. Einkum sé um að ræða stirðleika í hægri öxl og hægra herðasvæði. Honum hafi batnað tímabundið við sjúkraþjálfunarmeðferðir en jafnan sótt í sama horfið þegar þeim ljúki. Bæklunarskurðlæknir hafi ekki talið að önnur meðferð en sjúkraþjálfun hafi komið honum að gagni. Matsmenn telji ekki að frekari læknismeðferð eða sjúkraþjálfun komi að gagni og því sé tímabært að leggja mat á varanlegar afleiðingar slyssins.

Við mat á tímabundnu atvinnutjóni styðjist matsmenn við frásögn Heimis, svo og þær upplýsingar sem fram komi í gögnum málsins. Hann teljist samkvæmt því hafa verið óvinnufær af völdum slyssins í samtals 2 vikur eða frá 1. september 2002-15. september 2002 í aðalstarfi en í aukastarfi, eða þar til hann hafi hafið aftur störf við dyravörslu, í ágúst 2003.

Við mat á þjáningartíma telji matsmenn sanngjarnt og eðlilegt að hann hafi verið veikur í skilningi skaðabótalaganna án þess að vera rúmliggjandi frá slysdegi 1. september 2002 þar til sjúkraþjálfun var lokið 21. febrúar 2003.

Stöðugleikapunktur miðist við lok þjáningartíma eða 21. febrúar 2003.

Við mat á varanlegum miska leggi matsmenn til grundvallar að um einkenni tognunaráverka á hægri öxl hjá rétthentum manni sé að ræða með þónokkurri skerðingu á almennri færni svo og lífsgæðum. Varanlegur miski með hliðsjón af ofangreindu teljist metinn 10%.

Lögmaður Heimis sendi bótanefnd bréf 15. desember 2004 þar sem óskað var eftir að bótanefnd úrskurðaði honum hæstu mögulegu bætur og 22. júlí 2005 var sent ítrekunarbréf til bótanefndar um bætur.

Stefndu sendu andmælabréf sín til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 16. febrúar 2006 og 16. mars 2006 ákvarðaði bótanefnd tjónþola, Heimi, bætur að fjárhæð 2.600.000 krónur. Lögmaður stefndu sendi bréf til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 31. mars 2006 þar sem þess var krafist að ákvörðunin yrði endurskoðuð. Með bréfi 24. apríl 2006 hafnaði bótanefnd endurupptöku málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi kveður að ríkisfjárhirsla hafi greitt bæturnar út til tjónþola að beiðni dómsmálaráðuneytisins 30. mars 2006, alls 2.622.126 krónur. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 69/1995 hafi ríkissjóður eignast  rétt tjónþola gagnvart tjónvöldum in solidum sem nemur fjárhæð greiddra bóta.

Í málinu liggur fyrir kröfugerð tjónþola, Heimis, þar sem farið er fram á 7.539.793 krónur og ákvörðun bótanefndar varðandi upphæð bóta. Í III. kafla ákvörðunar bótanefndar segir: ,,Með framangreindum héraðsdómi er sannað að umsækjandi varð fyrir tjóni vegna brots gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fullnægt er skilyrðum 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995 og um er að ræða tjón er II. kafli laganna tekur til “.

Um sök stefndu vísar stefnandi til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. desember 2003. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir.

Málástæður og lagarök stefndu.

Stefndu kveða aðkomu þeirra Hauks og Vals að átökum við tjónþola vera með mismunandi hætti og liggi fyrir að hvorki Haukur né Valur sé valdur að þeim áverkum sem meint örorka Heimis byggist á. Stefndu kveða niðurstöðu matsgerðar vera með ólíkindum og er á það bent að stefndu höfðu ekkert með þessa matsgerð að gera og var aldrei gefinn kostur á að koma að athugasemdum eða gera grein fyrir henni. Þá benda stefndu á að skaðabótakrafa Heimis hafi verið afturkölluð við aðalmeðferð sakamálsins, og eftir það hafi engin bótakrafa verið fyrir hendi.

Sýknukröfu sína byggja stefndu á því að skilyrði bótagreiðslu samkvæmt 6. gr. laga nr. 69/1995 um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, hafi ekki verið fyrir hendi. Í því sambandi er á það bent að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna skuli umsókn um bætur hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið. Veigamikil rök þurfi að vera fyrir hendi sem mæli með því að víkja frá ofangreindu skilyrði, sbr. 3. gr. mgr. ofangreindrar 6. gr. Svo sem fram komi í ákvörðun bótanefndar hafi lögmaður Heimis farið þess á leit á grundvelli ofangreindra laga að honum yrðu greiddar skaðabætur og nam krafan samtals 1.208.044 krónum. Með bréfi nefndarinnar til lögmanns Heimis frá 9. mars 2004 hafi nefndin óskað eftir upplýsingum um stöðu málsins og tjáð lögmanni hans að hefði svar ekki borist þann 1. apríl það ár, liti nefndin svo á að umsóknin væri afturkölluð. Það hafi síðan verið með bréfi 15. desember 2004 sem lögmaðurinn hafi látið nefndinni í té endurrit dóms, matsgerð og fleira.

Samkvæmt því sem að ofan er rakið úr úrskurði bótanefndar, hafi nefndin lýsti því yfir við lögmann Heimis að hún liti svo á að umsóknin væri afturkölluð, hefði svar ekki borist 1. apríl 2004. Ekkert svar hefði borist á þeim tíma og ekki borist fyrr en átta og hálfum mánuði síðar. Samkvæmt því hafi umsóknin verið afturkölluð og hafi fyrst komið fram með bréfi lögmannsins 15. desember 2004, en þá hafi verið liðin tvö ár, þrír og hálfur mánuður frá því brot var framið. Með því að tilkynna lögmanninum að nefndin liti svo á að beiðni hans væri afturkölluð, sé aðstaðan með sama hætti og hún hefði ekki borist og því verði nefndin að benda á og sýna fram á að veigamikil rök mæli með því að vikið sé frá því skilyrði að umsókn um bætur skuli hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið. Í ákvörðun bótanefndar sé ekki vikið að því einu orði að skilyrði hafi verið til að víkja frá ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995. Benda stefndu á að kröfugerð í máli þessu byggist á ákvörðun bótanefndar um að greiða bætur og verði því sú ákvörðun að standast ákvæði laga 69/1995, en geri það ekki.

Þá sé þess einnig að geta að sú krafa sem lögmaður Heimis hafi kynnt nefndinni hafi verið krafa um miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna auk kröfu um útlagðan kostnað. Krafan sem borist hafi nefndinni, þegar tveggja ára fresturinn var liðinn, hafi verið svo eðlisólík þeirri kröfu sem áður hafði verið kynnt, að um allt aðra kröfu hafi verið að ræða. Sú krafa hafði því ekki verið kynnt fyrir bótanefnd fyrr en með ofangreindu bréfi, sem kom fram löngu eftir að frestur til þess var liðinn, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 69/1995. Ákvörðun bótanefndar um að greiða bætur, engu að síður, bindi ekki stefndu.

Ljóst sé að stefnandi geti ekki eignast frekari kröfu en tjónþoli, Heimir, átti eða gat hugsanlega átt. Hann hafi gert kröfu á hendur stefndu og sú krafa hafi verið tekin upp í ákæru í málinu. Sú krafa hafi verið dregin til baka og gagnvart stefndu hafi engin dómkrafa verið fyrir hendi af hálfu Heimis, frá því að hún var dregin til baka og til þess tíma að stefna var gefin út í máli þessu. Almenni fyrningarfresturinn hafi á þeim tíma verið fjögur ár og jafnvel þótt um skaðabótakröfu hafi veið að ræða, liggi fyrir matsgerð og stöðugleikapunktur hafi verið 21. febrúar 2003 hjá Heimi, eða rúmum fimm árum áður en mál var höfðað á hendur stefndu. Jafnvel þótt um sök hafi verið að ræða, hafi sökin verið fyrnd þegar málið var höfðað og því eigi stefnandi ekki kröfu á hendur stefndu.

Þegar mál nr. S-117/2003 hafi verið til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur, hafi verið fallið frá kröfunni. Nú, fimm árum síðar, komi mál vegna skaðabótakröfu Heimis aftur til meðferðar hjá dómstólum, löngu eftir að atvik gerðust sem varða skaðabótakröfuna. Fyrir liggi að staða stefndu til að halda uppi vörnum og leiða fram vitni og leggja fram gögn sé til muna verri en hún hefði verið ef málið hefði haft eðlilega framvindu. Tjónþoli, Heimir, og lögmaður hans hafi ekki sinnt því að halda kröfunni fram með eðlilegum hraða. Stefndu höfðu ekki hugmynd um að hann hefði uppi kröfu eftir að hafa dregið bótakröfuna til baka og þá töldu stefndu að þau átök sem áttu sér stað hafi verið vegna framkomu Heimis sjálfs. Einnig telja stefndu að ekki liggi fyrir að þeir áverkar sem hann hafði, þegar hann fór í örorkumat hafi verið vegna þeirra ryskinga sem áttu sér stað milli stefndu og hans.

Ljóst sé að stefnandi hafi sýnt vítavert tómlæti varðandi mál þetta. Bótanefnd hafi tekið ákvörðun 16. mars 2006 um að greiða honum bætur. Frá því að sú ákvörðun hafi verið tekin og þangað til mál hafi verið höfðað hafi liðið tvö og hálft ár. Stefnanda hafi þó mátt vera ljós nauðsyn þess að höfða mál án tafar.

Þá kveða stefndu að fyrir liggi að Heimir hafi átt upptök að þeim átökum sem orðið hafi milli hans og stefndu. Hann hafi tekið ákveðna áhættu sem hann hafi ekki þurft að taka og verði því á grundvelli sjónarmiða um eigin áhættutöku svo og þeirrar áhættutöku sem starfi hans fylgi, að bera tjón sitt sjálfur.

Þá benda stefndu á að samkvæmt dómi í máli nr. S-117/2003 sé aðild stefndu að málinu mismunandi. Þegar af þeirri ástæðu komi ekki til greina að fallast á að þeir verði dæmdir in solidum til greiðslu umkrafinna skaðabóta. Í fyrsta lagi verði að sýna fram á að báðir stefndu beri ábyrgð á tjóni tjónþola. Í öðru lagi þurfi að gera grein fyrir með hvaða hætti og hvernig hvor stefndu hafi komið að málinu sem leiði til sakar þeirra. Í þriðja lagi verði að sýna fram á hvaða málsástæðum sé byggt varðandi solidariska ábyrgð stefndu. Málatilbúnaður stefnanda hvað þetta varði sé afar ófullkominn og í lýsingu í stefnu vanti þessi atriði algjörlega. Vegna þess hve málatilbúnaður stefnanda sé ófullkominn og vegna þess með hve mikilli ónákvæmni sé gerð grein fyrir málsástæðum ætti að vísa málinu frá ex officio.

Fyrir liggi í málinu að stefndi, Haukur, hafi verið dæmdur fyrir að hafa sparkað tvívegis í tjónþola, en ekki hafi verið sýnt fram á eða sannað að þau spörk hafi leitt til bótaskyldra áverka á tjónþola, Heimi. Hvað varði þátt stefnda, Vals, liggi fyrir samkvæmt ofangreindum dómi að hann hafi verið sýknaður af því að hafa sparkað í Heimi, en dæmdur fyrir að hafa klipið í kynfæri hans og sett fingur í auga hans. Útilokað sé því að stefndi, Valur, geti hafa valdið þeim bótaskylda áverka sem kröfugerð Heimis byggi á og samþykkt hafi verið af bótanefnd. Ekki hafi verið um sameiginlegar aðgerðir að ræða og hvor aðili um sig hafi komið með mismunandi hætti að þeim átökum sem um ræði. Þegar af þeim ástæðum komi ekki til greina að dæma þá in solidum fyrir tjón Heimis.

Það sé tjónþola að sanna að sá sem hann krefji um bætur hafi valdið sér tjóni. Þá verði að vera eðlilegt orsakasamhengi milli þess sem gerðist og þess tjóns sem á að hafa verið um að ræða. Í því tilviki sem hér um ræði liggi ekki fyrir nákvæmlega hver gerði hvað. Hvort það hafi verið fleiri aðilar en stefndu sem veittu honum áverka, eða hver þáttur hvors þeirra um sig var. Þó liggi fyrir að stefndi, Valur, geti ekki með neinum hætti hafa komið að því að valda honum því tjóni sem krafa í máli þessu byggi á.

Útilokað sé því að gera kröfu á hendur stefndu in solidum þar sem aðild þeirra að málinu sé með mismunandi hætti.

Því er gerð sú krafa að verði um sakfellingu að ræða, verði hún sundurgreind miðað við þátt hvors stefnda fyrir sig, en með því að haga málatilbúnaði sínum svo sem hér um ræði, skorti stefnu þann skýrleika sem nauðsynlegur sé til að leggja efnisdóm á málið.

Varðandi varakröfu sína hafa stefndu uppi allar sömu kröfur og varðandi aðalkröfu. Auk þess er bent á að tjónþoli, Heimir, verði að bera stóran hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar. Ljóst sé að hann veittist að stefnda, Hauki, og hafði hann í tökum og veitti honum verulegan líkamsáverka. Þá hafi stefndi, Valur, ekki komið að málinu nema til að hjálpa stefnda, Hauki.

Heimir sé bundinn við þá bótakröfu sem hann hafði uppi í sakamálinu sem dæmt var og ekki komi til greina að dæma stefndu í hærri bótagreiðslur en þar var gerð grein fyrir.

Þá er ítrekað að ekkert orsakasamhengi sé milli gerða stefndu og þess tjóns sem hann á að hafa orðið fyrir. Þannig liggi ekki fyrir og engin lýsing sé á því í stefnu hvað það hafi nákvæmlega verið sem leitt hafi til þeirrar tognunar sem sé forsenda bótagreiðslna til tjónþola, Heimis.

Niðurstaða.

Að mati dómsins er málatilbúnaður stefnanda nægilega skýr til að lagður verði efnisdómur á málið og verður því ekki vísað sjálfkrafa frá dómi.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota nr. 69/1995 greiðir ríkissjóður bætur vegna tjóns sem leiðir af brotum á almennum hegningarlögum í samræmi við ákvæði laganna, enda hafi brotið verið framið innan íslenska ríkisins. Greiða skal bætur vegna líkamstjóns samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna og einnig bætur vegna miska samkvæmt 3. gr. þeirra. Samkvæmt 9. gr. laganna skal greiða bætur samkvæmt lögunum þótt ekki sé vitað hver tjónvaldur er, hann sé óskahæfur eða finnist ekki.

Samkvæmt 6. gr. fyrrgreindra laga nr. 96/1995 er það skilyrði greiðslu bóta að brot sem tjón er rakið til, hafi án ástæðulauss dráttar verið kært til lögreglu og að tjónþoli hafi gert kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi brotamanns. Þá skuli umsókn um bætur hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot var framið.

Tjónþoli, Heimir, kærði líkamsárás stefndu til lögreglu daginn eftir að hún átti sér stað eða 2. september 2002 og bréf lögmanns tjónþola var sent til bótanefndar 27. nóvember 2002. Af hálfu lögmanns stefndu hefur verið á það bent að bótanefnd sendi tjónþola bréf 9. mars 2004, þar sem fram kom að ef svar bærist ekki fyrir 1. apríl 2004, yrði litið svo á að umsókn væri afturkölluð. Í málinu hefur verið lagt fram svarbréf lögmanns tjónþola til bótanefndar, frá 17. mars 2003, þar sem óskað var eftir frekari fresti og tilkynnt um að verið væri að afla gagna vegna örorkumats. Er því ekki unnt að fallast á að umsókn um bætur hafi verið afturkölluð af hálfu tjónþola, enda sendi hann aftur bréf til bótanefndar 15. desember 2004, eftir að matsgerð lá fyrir og bótanefnd tók erindi hans til afgreiðslu í kjölfar þess. Samkvæmt framangreindu var fullnægt skilyrðum 6. gr. laga nr. 96/1995 um bótagreiðslu.

Af hálfu stefndu hefur því og verið haldið fram að krafa um bætur hafi verið dregin til baka af hálfu tjónþola við meðferð sakmálsins fyrir héraði. Hafi því engin krafa verið fyrir hendi í málinu frá þeim tíma og þar til þess að stefna var gefin út. Er ekki á þessa málsástæðu stefndu fallist, enda liggur fyrir í málinu að umsókn um bætur var send bótanefnd innan lögmæltra tímafresta, hún var ekki afturkölluð og bótanefnd tók erindi tjónþola til afgreiðslu á grundvelli framkominnar umsóknar. Sú málsástæða stefndu að tjónþoli sé bundinn við þá kröfu sem hann gerði við meðferð sakamálsins á hendur stefndu, er með öllu órökstudd og er ekki á hana fallist.

Stefndu hafa og haldið því fram að krafa stefnanda hafi verið fyrnd þegar málið var höfðað. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 69/1995 eignast ríkissjóður rétt tjónþola gagnvart tjónvaldi sem nemur fjárhæð bóta, er ríkissjóður hefur greitt bætur. Krafa stefnanda fyrnist á 10 árum og var því ekki fyrnd þegar mál þetta var höfðað 4. september 2008.

Þá hafa stefndu haldið því að fram að sýkna beri þá af kröfu stefnanda vegna vítaverðs tómlætis af hálfu stefnanda.

Bótanefnd ákvarðaði tjónþola bætur 16. mars 2006, og hafnaði endurupptökubeiðni stefndu með bréfi 24. apríl 2006. Í janúar 2007 var innheimtubréf sent til stefndu og í febrúar 2007 var ítrekunarbréf sent til stefndu. Málið var svo þingfest í héraðsdómi 9. september 2008. Jafnvel þótt fallast megi á að heppilegra hefði verið að hraða gerð stefnu og þingfestingu málsins, eftir að ljóst var í kjölfar ítrekunarbréfs er stefndu var sent, að þeir ætluðu ekki að inna af hendi greiðslu, verður ekki talið að um svo vítavert tómlæti af hálfu stefnanda sé að ræða að sýkna beri stefndu af kröfum hans.

Af hálfu stefndu hefur því verið haldið fram, annars vegar að ekki hafi verið sýnt fram á að spörk stefnda, Hauks, hafi leitt til bótaskyldra áverka á tjónþola og hins vegar sé útilokað að stefndi, Valur, hafi getað valdið þeim bótaskylda áverka sem kröfugerð tjónþola var byggð á og samþykkt var af bótanefnd.

Með vísan til þeirrar sérfræðilegu matsgerðar sem lögð hefur verið fram í dóminum, læknisvottorða og vottorðs sjúkraþjálfara verður að telja að meiðsli þau sem tjónþoli, Heimir, hlaut umrædda nótt, hafi stafað af líkamsárás þeirri er stefndu voru ákærðir fyrir. Dómur í því máli féll 19. desember 2003 í héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem stefndu voru dæmdir til refsingar og háttsemi þeirra talin varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar með er ótvírætt að tjón Heimis varð vegna brota á almennum hegningarlögum og að skilyrðum 1. mgr. 1. gr. laga nr. 69/1995 sé fullnægt til greiðslu bóta úr ríkissjóði. Breytir engu í því sambandi þótt niðurstaða í sjálfu sakamálinu hafi verið sú að ósannað væri að stefndi, Valur, hefði sparkað í tjónþola, og að ósannað væri að stefndi, Haukur, hefði sparkað oftar en tvisvar sinnum í tjónþola. Verða hvorki lög nr. 69/1995 né réttarfarslög túlkuð þannig að skilyrði fyrir því að þolandi afbrots fái greiddar bætur samkvæmt lögunum sé að áfellisdómur liggi fyrir um hverja þá háttsemi sem ákært er fyrir hverju sinni, enda segir í 9. gr. laga nr. 69/1995 að greiða skuli tjónþola bætur samkvæmt lögunum þótt ekki sé vitað hver tjónvaldur sé. Þá er óumdeilt að stefndu stóðu báðir að árás á tjónþola og bera þeir því ábyrgð á tjóni hans in solidum.

Til sönnunar á tjóni tjónþola hefur m.a. verið lagt fram læknisvottorð Ólafs R. Ingimarssonar, vottorð Ólafs Stefánssonar læknis um óvinnufærni, læknisvottorð Sveinbjörns Brandssonar bæklunarskurðlæknis og matsgerð þeirra Guðjóns Baldurssonar og Guðmundar Björnssonar. Hvorki matsgerð né fyrrgreindum læknisvottorðum hefur verið hnekkt af hálfu stefndu. Að mati dómsins er tjón tjónþola nægilega sannað með framlögðum, fyrrgreindum gögnum.

Þá hafa stefndu á engan hátt sýnt fram á að tjónþoli skuli bera tjón sitt sjálfur vegna eigin áhættutöku.

Þegar allt framangreint er virt, er fallist á kröfu stefnanda, íslenska ríkisins á hendur stefndu og verða þeir dæmdir til greiðslu að fjárhæð 2.622.126 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 2.622.126 krónum frá 29. maí 2006 til greiðsludags.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði stefndu stefnanda in solidum 620.000 krónur í málskostnað, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D ó m s o r ð:

Stefndu, Haukur Armin Úlfarsson og Valur Adolf Úlfarsson greiði in solidum til stefnanda, ríkissjóðs Íslands, 2.622.126 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 29. maí 2006 til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda in solidum málskostnað, 620.000 krónur.