Hæstiréttur íslands
Mál nr. 520/2004
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Sönnunargögn
- Ítrekun
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 19. maí 2005. |
|
Nr. 520/2004. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Davíð Ben Maitsland og(Jón Egilsson hdl.) Rúnari Ben Maitsland(Ólafur Sigurgeirsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Sönnunargögn. Ítrekun. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Sératkvæði.
R og D voru ákærðir fyrir fíkniefnabrot framin í ágóðaskyni á árinu 2002, með því að R hafi staðið fyrir innflutningi frá Þýskalandi á alls 27 kg af kannabis, flutt hingað til lands í 10 ferðum af flugfarþegum um Keflavíkurflugvöll, þeirra á meðal af F alls 7 kg í jafnmörgum ferðum, og af farþega í skipi um Seyðisfjarðarhöfn í einni ferð, en í samráði við R hafi D í sjö skipti tekið við alls 23 kg af þessum innfluttu fíkniefnum, sem síðan hafi verið seld. Talið var sannað að þjóðverjinn S hafi skipulagt innflutning fíkniefnanna, útvegað þau á árinu 2002, og þau verið flutt hingað til lands af nánar tilgreindum einstaklingum og ákærðu R og D lagt þar á ráðin. Hafi R átt stærri hlut í innflutningi fíkniefnanna með samskiptum sínum við S. Hafi D tekið við fíkniefnum í 6 skipti og R staðið fyrir innflutningi á þeim ef frá er talið eitt tilvik þar sem aðeins var fyrir að fara framburði þjóðverjans K hjá lögreglu og fyrir dómi í Þýskalandi. Með því að ekki naut framburðar við aðalmeðferð málsins eða nægra annarra sönnunargagna sem studdu þennan framburð K þóttu ekki efni til sakfellingar. Refsing D var ákveðin fangelsi í þrjú ár, en R fangelsi í fjögur og hálft ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson, Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari og Viðar Már Matthíasson prófessor.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. desember 2004 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærðu en þyngingar á refsingum.
Ákærði Davíð Ben Maitsland krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins en refsing verði ella milduð.
Ákærði Rúnar Ben Maitsland krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.
I.
Svo sem nánar greinir í héraðsdómi er mál þetta höfðað með ákæru ríkissaksóknara 30. mars 2004 á hendur þeim og þýskum manni, Claus Friehe, fyrir fíkniefnabrot framin í ágóðaskyni á árinu 2002. Þar er ákærða Rúnari Ben Maitsland gefið að sök að hafa staðið fyrir innflutningi frá Þýskalandi á alls 27 kg af kannabis, flutt hingað til lands í tíu ferðum af flugfarþegum um Keflavíkurflugvöll, þeirra á meðal af Claus Friehe alls 7 kg í jafnmörgum ferðum, og af farþega með skipi um Seyðisfjarðarhöfn í einni ferð, en í samráði við ákærða Rúnar Ben hafi ákærði Davíð Ben Maitsland í sjö skipti tekið við alls 23 kg af þessum innfluttu fíkniefnum, sem síðan hafi verið seld. Fíkniefnin og ferðirnar eru sundurliðuð í ákæru í 11 töluliðum.
Málið var þingfest 19. apríl 2004 og mættu ákærðu þar ásamt skipuðum verjendum sínum. Friehe kvaðst þá ekki neita sakargiftum og vísaði til framburðar síns hjá lögreglu mánuði fyrr. Ákærðu Davíð Ben og Rúnar Ben neituðu báðir sök í málinu. Því var frestað til 30. sama mánaðar. Í þinghaldi þann dag kvaðst Friehe alfarið vilja játa sakargiftir í málinu og fór fram á að með þátt hans yrði farið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Það var gert með heimild í 24. gr. laganna og þáttur hans var skilinn frá máli bræðranna, en aðalmeðferð í því hafði verið ákveðin 24. júní 2004. Gerði ákæruvaldið kröfu til þess að skýrsla yrði tekin af Friehe áður en aðalmeðferð hins málsins færi fram, þar sem hann myndi væntanlega fá reynslulausn áður en til hennar kæmi og miklar líkur væru á að hann færi þegar úr landi, en miklu varði fyrir ákæruvaldið að skýrsla yrði tekin af honum fyrir dómi. Héraðsdómur féllst á kröfu sækjanda með vísan til 2. mgr. 129. gr. laga nr. 19/1991 og var ákveðið að skýrsla yrði tekin af Friehe 5. maí 2004. Samdægurs, 30. apríl, var kveðinn upp dómur í máli hans. Þar kom fram að hann hefði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2003 verið dæmdur í fangelsi fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot þau sem hann nú væri sakfelldur fyrir hafi verið framin fyrir uppsögu þess dóms. Var refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi 6 mánuði. Við uppkvaðningu lýsti dómfelldi því yfir að hann yndi dómi.
Dómfelldi kom fyrir dóm sem vitni í máli bræðranna 5. maí 2004 og gaf þar skýrslu sína, sem rakin er í héraðsdómi. Eins og þar er einnig rakið leitaðist ákæruvaldið við að fá þrjú þýsk vitni fyrir dóminn til viðbótar, en tókst aðeins að fá eitt þeirra, Wiebke Wollet, til þess að gefa skýrslu í síma við aðalmeðferð. Þessir þrír þjóðverjar hlutu allir refsidóma í heimalandi sínu fyrir að hafa staðið að innflutningi fíkniefna hingað til lands, Wiebke Wollet 6. nóvember 2003, Reinhold Schröder 11. nóvember 2003 og Hendrik Kuhn 22. janúar 2004.
Með dóminum í Þýskalandi 6. nóvember 2003 var Wollet sakfelld fyrir brot þau sem greinir í ákæruliðum 3, 5 og 10 í máli þessu, að hafa flutt um Keflavíkurflugvöll 3 kg 5. apríl 2002, önnur 3 kg 26. sama mánaðar og 1 kg 19. september sama árs, og afhent ákærða Davíð Ben efnin í tveimur fyrri ferðunum en ákærða Rúnari Ben í þeirri þriðju. Hún var auk þess sakfelld fyrir fleiri brot tengd fíkniefnum. Í dómnum segir að málavextirnir byggist á trúverðugri játningu ákærðu og ekkert bendi til þess að hún hafi tekið sökina á sig að óréttu. Þvert á móti sé framburður hennar í samræmi við niðurstöður lögreglurannsóknar, sérstaklega niðurstöður símahlerana. Við refsiákvörðun var metið ákærðu í hag að hún hafði með skýlausri játningu sinni aðstoðað verulega við að upplýsa brotin, þar á meðal brot Reinholds Schröder. Hún hlaut fangelsi 2 ár.
Reinhold Schröder var með dóminum í Þýskalandi 11. nóvember 2003 sakfelldur fyrir brot þau sem greinir í öllum ákæruliðum máls þessa, auk fleiri brota. Segir í forsendum dómsins að hann hafi haft frá fyrri tímum sambönd við viðtakendur á Íslandi, bræðurna ákærðu í máli þessu, en ákærða Rúnari Ben hafi hann kynnst í fangelsi á Íslandi. Þeir hafi setið þar báðir vegna brota á ávana- og fíkniefnalögum og í gegnum ákærða Rúnar Ben hafi Schröder fengið upplýsingar um fíkniefnamarkaðinn á Íslandi. Segir og að hann hafi ætlað að fara til Íslands til þess að athuga sölumöguleika þar og taka upp persónulegt samband við Maitsland-bræðurna sem viðtakendur væntanlegra hasssendinga, en við komuna til landsins hafi honum verið vísað frá. Hafi hann þá ákveðið að fá burðardýr til flutninganna. Í forsendum dómsins eru ákærðu nefndir sem viðtakendur fíkniefnisins, oftast sem Maitsland-bræðurnir, en ákærði Davíð Ben einn er nefndur viðtakandi í ferð Wollet 5. apríl og ákærði Rúnar Ben viðtakandi í ferð hennar 19. september. Í niðurstöðu dómsins kemur fram, að Schröder hafi viðurkennt framkomna málavexti, sem hann hafi útskýrt í smáatriðum á trúverðugan og mótsagnalausan hátt og vegna framkomu hans við aðalmeðferð málsins þyki ekki ástæða til að vefengja framburð hans, sem auk þess sé í samræmi við frekari niðurstöður rannsóknarinnar. Refsing hans var ákveðin fangelsi 6 ár.
Í dóminum yfir Hendrik Kuhn 5. ágúst 2003 í Herfurðu á Saxlandi var hann sakfelldur í tveimur ákæruliðum fyrir að hafa sótt peninga til Íslands, þar sem hann í fyrra skiptið hitti „ ...báða tengla Schröders, tvíburabræðurna „Davíð“ og „Rúnar“. Þeir komu að minnsta kosti tvisvar sinnum til ákærða á hótelið og færðu honum verulegt peningamagn í íslenskum gjaldeyri, í plastpokum. Ákærði sem skv. orðum Schröders hefði átt að fá peningana í evrum skipti svo upphæðinni í evrur í nokkrum bönkum borgarinnar.“ Í öðrum ákærulið var hann sakfelldur fyrir brot það sem greinir í ákærulið 7 í máli þessu, flutninginn á 13 kg af fíkninefnum fyrir Schröder 20. júní, sem hann hafi afhent „ ...mönnunum tveimur, þeim „Davíð“ og „Rúnari“.“ Hann hafi fengið aftur frá þeim verulegar peningaupphæðir, í smáskömmtum og í mismunandi gjaldeyri, sem hann hafi skipt yfir í evrur, og verið sem áður vitandi vits að þeir voru afrakstur úr fíkniefnaviðskiptum. Í niðurstöðu dómsins segir að málavextir byggist á játningu Kuhn sem sé í heild sinni trúverðug en einnig á skjölum, sem lesin hafi verið í heyranda hljóði. Hann hlaut í refsingu fangelsi 2 ár og 9 mánuði. Hann áfrýjaði dómnum til landsréttar í Bielefeld, sem kvað upp dóm 22. janúar 2004 og vék til hliðar til bráðabirgða síðari ákæruliðnum um að hafa sótt fé til Íslands, og breytti refsingunni í 2 ár og 6 mánuði.
II.
Í forsendum héraðsdóms er vísað til fjölmargra símahlerana lögreglu á seinni hluta árs 2002. Þær þykja heildstætt veita vísbendingar um að ákærðu hafi tengst sölu og dreifingu fíkniefna.
Claus Friehe var handtekinn kl. 16.52 við komuna til Keflavíkur 7. nóvember 2002, þegar fíkniefnaleitarhundur í tollsal sýndi honum mikinn áhuga. Hann reyndist hafa efni utan á sér í beltisstað, en sagðist vera blaðamaður að rannsaka sakamál sem tengdi anga sína víða og liður í þeirri rannsókn sinni væri að koma hingað til lands með það sem hann væri með innanklæða. Lögreglan tók hann til yfirheyrslu og þá skýrði hann svo frá: „Ég kom hingað til lands með þau fíkniefni er haldlögð voru af lögreglunni við komu mína að beiðni manns í Þýskalandi er heitir Reinhold Schröder. Ég átti að taka rútuna frá Keflavík til Reykjavíkur, þegar til Reykjavíkur væri komið átti ég að fara á Hótel Frón. Ég var búinn að panta herbergi á því hóteli áður en ég kom hingað til lands. Frá hótelinu átti ég að hringja í Reinhold Schröder og tjá honum frá því að ég væri kominn á hótelið. Í framhaldi af því átti ég að hringja í Davíð, ... og hann myndi síðan koma á hótelið og sækja fíkniefnin.“
Í framhaldi af frásögn Friehe hófst lögreglan handa við að kanna Hótel Frón og koma þar fyrir hlustunarbúnaði. Segir í skýrslu lögreglunnar að Friehe hafi hringt kl. 19:38:47 í síma Schröders í Þýskalandi og kl. 20:49:41 í síma ákærða Davíðs Ben og sagt honum að hann gæti komið til að ná í efnið og hann skyldi hafa peninga með sér. Í framhaldi af því hafi ákærði Rúnar Ben komið og heimsótt Friehe á herbergi hans og hafi ákærði Rúnar Ben verið tekinn höndum kl. 21.13 og Friehe verið færður til vistunar í fangageymslu.
Fyrir liggur endurrit símahlerunar 7. nóvember 2002 kl. 19:39:17 í númeri í Þýskalandi, þar sem lögreglan ætlar að ræði saman þeir Claus Friehe og Reinhold Schröder. Friehe kvartar þar yfir ferðalaginu og „þeir labbi þarna um með hund“ og síminn hafi ekki virkað þegar hann ætlaði að hringja í viðmælandann. Hann fari svo á hótelið og þvoi aðeins svitalyktina af sér og svo hringi hann í „hann þennan“. Þá segir Schröder: „Ég er búinn að hringja í hann. Hann bíður óþreyjufullur ...“ Svo er talað um peningagreiðslu, og litlu síðar segir Schröder: „ ... þetta er toppvara sem þú kemur með“. Sama dag var sími ákærða Rúnars Ben hleraður og í endurriti sem tímasett er kl. 20:50:57 ætlar lögreglan að ákærðu tali saman. Þar hringir ákærði Davíð Ben í bróður sinn og spyr hvort hann geti kíkt á hann í snatri, það sé svolítið áríðandi og hann verði að tala við hann. Ákærði Rúnar Ben féllst á að koma til hans. Einnig liggur fyrir endurrit af hlerun á samtali Friehe í herbergi hans 7. nóvember 2002 við þann sem lögreglan ætlar ákærða Rúnar Ben. Samtalið fór fram á ensku og fjallar um viðskipti með fíkniefni. Friehe ávarpar þar viðmælanda sinn sem Davíð, en er leiðréttur af viðmælandanum, sem segir Rúnar á móti og Friehe biðst þá afsökunar á mistökunum. Ákærðu eru eineggja tvíburar og nauðalíkir í útliti.
III.
Í héraðsdómi eru efnisatriði framangreindra dóma í Þýskalandi yfir Wollet, Kuhn og Schröder rakin ýtarlega. Þar er og rakinn framburður ákærðu og vitnanna Friehe og Wollet, sem gáfu skýrslur fyrir héraðsdómi. Skýrsla vitnisins Wollet var gefin í gegnum síma samkvæmt 3. mgr. 49. gr. laga nr. 19/1991 og lýtur því ekki mati samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laganna.
Við mat á sök ákærðu verður litið til dóms Hæstaréttar 23. október 2003, þar sem ákærði Rúnar Ben var sakfelldur fyrir að hafa að kvöldi 7. nóvember 2002 veitt viðtöku fíkniefnum frá Friehe. Er á því byggt að ákærði hafi þá staðið í fíkniefnaviðskiptum við Schröder, sem hafi verið í föstum skorðum. Fram er komið að ákærði Rúnar Ben og Schröder þekktust og afplánuðu saman refsingu í fangelsi hér á landi fyrir fíkniefnabrot síðari árshelming 2001.
Af framangreindum símhlerunum og tímasetningum þeirra, svo og hlerun samtals á herbergi Friehe á gistiheimilinu Fróni, áður en ákærði Rúnar Ben var þar handtekinn að kvöldi 7. nóvember 2002, er ljóst að Friehe hefur hringt í Schröder í Þýskalandi eftir komuna til landsins þann dag, og síðan í ákærða Davíð, sem hringdi í bróður sinn og fékk hann til að fara til fundar við Friehe í sinn stað.
Gögn málsins bera með sér að ferðir þær sem greindar eru í ákæruliðum voru farnar af þeim sem þar segir. Vegna þess sem að framan er rakið og þegar litið er til framburðar vitnanna Friehe og Wollet fyrir héraðsdómi, sem studdur er framburði fyrir dómi í Þýskalandi í framangreindum málum, sem metinn er samkvæmt 46. gr. laga nr. 19/1991, svo og lögregluskýrslum, er fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að gögn málsins sýni að Schröder hafi skipulagt innflutning fíkniefnanna, útvegað þau á árinu 2002, og þau hafi verið flutt hingað til lands af tilgreindum einstaklingum og ákærðu báðir hafi lagt þar á ráðin. Gögn þessi sýna einnig að ákærði Rúnar Ben hafi átt stærri hlut í innflutningi efnanna með samskiptum sínum við Schröder, en ákærðu hafi tekið við fíkniefnunum, ákærði Davíð Ben meðan ákærði Rúnar Ben sat í fangelsi til 18. maí 2002, en annar hvor þeirra eftir það. Er því sannað að ákærði Davíð Ben hafi í samráði við ákærða Rúnar Ben gerst sekur um að taka við fíkniefnum þeim er greinir í liðum 1 6 í ákæru og að ákærði Rúnar Ben hafi staðið fyrir innflutningi á efnunum sem greinir í liðum 1 6 og 8 11. Eru brotin réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Hins vegar er einungis fyrir að fara framburði Hendriks Kuhn hjá lögreglu og fyrir dómi í Þýskalandi, sem studdur er af sambærilegum framburði Schröder, um lið 7 í ákæru, sem varðar flutning Kuhn á 13 kg af fíkniefnum um Seyðisfjarðarhöfn sem hann segir báða ákærðu hafa tekið við í Reykjavík. Þessi vitni komu ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og ákærðu höfðu ekki færi á að spyrja þau eða láta spyrja, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 og d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur túlkað ákvæði d-liðar 3. mgr. 6. gr. sáttmálans svo, að heimilt sé að líta til vitnaskýrslna sem þessara til stuðnings öðrum sönnunargögnum. Þar sem ekki nýtur framburðar við aðalmeðferð málsins eða nægra annarra sönnunargagna sem styðja þennan framburð þykja ekki efni til sakfellingar ákærðu samkvæmt þessum lið ákærunnar og verða þeir sýknaðir af honum.
Með vísan til þessarar niðurstöðu svo og þess er í héraðsdómi greinir um ákvörðun refsingar ákærðu er refsing ákærða Davíðs Ben hæfilega ákveðin fangelsi 3 ár og ákærða Rúnars Ben fangelsi 4 ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhaldsvist eins og í héraðsdómi greinir.
Ákærðu greiði allan kostnað af áfrýjun málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði Davíð Ben Maitsland sæti fangelsi 3 ár. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhaldsvist hans í 22 daga.
Ákærði Rúnar Ben Maitsland sæti fangelsi 4 ár og sex mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og málsvarnarlaun skulu óröskuð.
Ákærði Davíð Ben greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 300.000 krónur, og ákærði Rúnar Ben málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur. Annan áfrýjunarkostnað málsins greiði ákærðu óskipt.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
I.
Svo sem í héraðsdómi greinir er ákærðu gefið að sök að hafa framið fíkniefnabrot í ágóðaskyni á árinu 2002, þar sem ákærði Rúnar Ben Maitsland hafi staðið fyrir innflutningi frá Þýskalandi á alls 27 kg af kannabis, flutt hingað í tíu ferðum af flugfarþegum um Keflavíkurflugvöll og af farþega með skipi um Seyðisfjarðarhöfn í einni ferð, en í samráði við ákærða Rúnar Ben Maitsland hafi ákærði Davíð Ben Maitsland tekið við í sjö skipti alls 23 kg af fíkniefnunum, sem flutt hafi verið til landsins og síðan seld. Fíkniefnin, sem ákærði Rúnar Ben hafi keypt af Reinhold Schröder, hafi verið flutt til landsins í þessum 11 ferðum á tímabilinu 8. mars til 3. október 2002. Ferðirnar eru taldar upp í ákærunni og þá greint frá dagsetningu hverrar ferðar, hve mikið magn fíkniefna á að hafa verið flutt í hverri þeirra, hver flytjandi efnanna hafi verið, hvar hann hafi komið til landsins og hver hafi tekið við efnunum í Reykjavík í fyrstu sjö tilvikunum.
Dómkröfum fyrir Hæstarétti er lýst í atkvæði meirihluta dómenda.
Ákærðu hafa báðir neitað sök. Málið snýst um sönnun sakargifta á hendur þeim. Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar skal hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Sama regla er orðuð svo í 2. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem leiddur var í lög á Íslandi með lögum nr. 62/1994, að hver sá sem borinn sé sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum. Í lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er kveðið svo á í 45. gr. að sönnunarbyrði um sekt sakbornings og atvik, sem telja megi honum í óhag, hvíli á ákæruvaldinu. Í 46. gr. laganna kemur fram að sönnunarskyldan gildi „um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti“. Skal dómari meta hverju sinni hvort nægileg sönnun sé komin fram um þessi atriði, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburðir og önnur sönnunargögn.
Til þess að refsikröfur ákæruvalds í þessu máli verði teknar til greina í samræmi við verknaðarlýsingu ákærunnar, þarf ákæruvaldið meðal annars að sanna með lögfullum hætti að hver einstök ferð sem talin er upp í ákærunni hafi verið farin og að fíkniefni af þeirri gerð sem þar greinir hafi verið flutt til landsins og þá í því magni sem greinir við hverja ferð, að ákærði Rúnar Ben hafi staðið fyrir innflutningnum, að ákærði Davíð Ben hafi tekið við fíkniefnum í sjö skipti í því magni sem ákæran greinir hvert sinn, að þetta hafi hann gert í samráði við ákærða Rúnar Ben, að efnin hafi verið flutt til landsins í ágóðaskyni og loks að efnin hafi verið seld og þá væntanlega hér á landi þó það sé ekki tekið fram berum orðum í ákærunni.
Sanna verður atvik að hverri hinna 11 ferða sérstaklega. Sönnunargögn sem lúta að einni tiltekinni ferð eða móttöku efna duga ekki til að sanna aðrar. Ekki er nægilegt að sanna að einhverjar ótilteknar ferðir hafi verið farnar eða ótilgreind viðskipti með fíkniefni hafi átt sér stað.
II.
Svo sem fram kom í málflutningi ákæruvalds fyrir Hæstarétti er mál þetta að mörgu leyti sérstakt. Ekkert af þeim fíkniefnum sem ákæran greinir hefur fundist og ekki nýtur við neinna sönnunargagna í málinu um hvað orðið hafi af þeim. Engin gögn eru um að þau hafi verið seld hérlendis og heldur ekki um fjárráð ákærðu í tengslum við sölu þeirra, en söluandvirði slíks magns af fíkniefnum er talið nema mörgum tugum milljóna króna. Í forsendum meirihluta héraðsdóms er sagt að mál ákæruvalds byggi að mestu á framburði þeirra aðila sem hafi sagst hafa afhent ákærðu fíkniefnin hér á landi. Minnihluti héraðsdóms telur einsýnt að lögfull sönnun teljist ekki fram komin í málinu, nema framburður þessara einstaklinga og Reinhold Schröder fyrir dómi í Þýskalandi verði metinn eins og meirihluti héraðsdóms geri. Fallist verður á þessa greiningu meiri- og minnihluta héraðsdóms á sakarefni málsins svo sem nánar verður vikið að hér á eftir. Áfellisdómur yfir ákærðu getur í málinu eingöngu byggst á framburði þessara einstaklinga.
III.
Rannsókn málsins hófst haustið 2002 og var Claus Friehe handtekinn við komu til landsins 7. nóvember 2002 með fíkniefni eins og rakið er í héraðsdómi. Þeir Claus Friehe og ákærði Rúnar Ben voru sakfelldir í Héraðsdómi Reykjavíkur 25. júní 2003 fyrir þann innflutning. Ákærði Rúnar áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar, sem staðfesti hann 23. október 2003 í máli nr. 289/2003. Brotið 7. nóvember 2002 er að sjálfsögðu ekki til meðferðar hér, heldur eldri brot, sem öll eru því marki brennd, eins og áður sagði, að meint vitneskja um þau byggist svo til eingöngu á frásögnum annarra einstaklinga sem taldir eru hafa tekið þátt í þeim, Claus Friehe, Wiebke Wollet og Hendriks Kuhn sem flytjenda efna til Íslands og Reinhold Schröder sem seljanda þeirra í Þýskalandi. Í héraðsdómi er því lýst, að einungis eitt þessara vitna, Claus Friehe, kom fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar, en annað, Wiebke Wollet, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins í gegnum síma frá Þýskalandi. Upplýsingar um frásagnir hinna tveggja, Reinhold Schröder og Hendrik Kuhn, eru í hinum áfrýjaða dómi byggðar á endurritum þýskra dóma í málum þeirra, þar sem þeir játuðu sakargiftir og báru um þátttöku ákærðu í brotunum. Bar Schröder meðal annars að ákærði Rúnar Ben hafi tekið við efnum hér á landi á tímabili er honum var það ómögulegt vegna fangavistar sinnar, sem vikið verður að síðar. Þá er einnig í dóminum gerð grein fyrir framburði Wiebke Wollet í dómsmáli á hendur henni, þar sem hún játaði sakir.
Samkvæmt d. lið 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, skal hver sá sem sökum er borinn um refsiverða háttsemi fá að spyrja vitni eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Þessa réttar nutu ákærðu ekki að því er snertir framburð Reinhold Schröder og Hendrik Kuhn. Játningar þessara manna eða framburður að öðru leyti fyrir þýskum dómstólum hafa því ekki sönnunargildi í þessu máli. Framhjá þessu verður ekki komist með því að vísa til þess, að dómari meti sönnunargildi gagna sem þetta varða samkvæmt 46. gr. laga nr. 19/1991, enda yrði rétturinn til að gagnspyrja vitni lítils virði ef slíkt teldist heimilt. Eftir standa þá framburðir Claus Friehe og Wiebke Wollet. Í atkvæðum meiri- og minnihluta héraðsdóms er vikið að mati á trúverðugleika þessara vitna. Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 verður, vegna hinnar stjórnarskrárbundnu reglu um sönnunarbyrði ákæruvalds í opinberum málum, að telja Hæstarétt geta að vissu marki lagt mat á vitnisburði, þegar áfellisdómur í héraði byggir á þeim. Að minnsta kosti verður rétturinn að gæta að því, að vitnisburður geti af almennum ytri aðstæðum verið til þess fallinn að fella sök á ákærðan mann og fái, ef svo er talið, næga stoð í öðrum sönnunargögnum máls. Mörg fordæmi eru fyrir slíku mati Hæstaréttar. Hvorugt þessara vitna kvaðst þekkja ákærðu í sundur, en þeir eru eineggja tvíburar. Þykir það ekki hafa þýðingu í þessu efni þó að Wiebke Wollet telji sig hafa getað greint ákærðu hvorn frá öðrum eftir útliti gleraugna sem annar hafi borið. Þá kvaðst Claus Friehe ekki vita af eigin raun neitt um innihald pakkanna sem hann flutti til landsins eða þyngd þess sem í þeim var. Það hefur því ekki næga stoð í framburði hans eða öðrum gögnum málsins, sem segir í forsendum héraðsdóms, að ákæruvaldið hafi í ákærunni miðað við neðri mörk þess magns, sem þetta vitni hafi fullyrt að hafa flutt til landsins. Taka má undir það sem segir í sératkvæði í héraðsdómi um mat á trúverðugleika framburða þessara vitna miðað við aðstæður og önnur gögn málsins. Verjendur ákærðu bentu á að um væri að ræða vitni, sem hefðu játað á sig þátttöku í meintum brotum ákærðu og geti slík vitni hugsanlega viljað leyna því hver hafi verið raunverulegur móttakandi efnanna hér á landi. Hvað sem því líður er ljóst, að vitnisburður slíkra vitna getur ekki talist hafa sama sönnunargildi og vitna sem ekki tengjast sakarefni neitt sjálfir.
Þetta ræður þó ekki úrslitum við mat á sönnunargildi framburðar þessara vitna. Þar ræður meiru sú staðreynd að hvort þeirra um sig gaf eingöngu vitnisburð um sínar eigin ferðir með fíkniefni til landsins. Framburður annars þeirra hefur ekki sönnunargildi um ferðir hins. Í hvoru tilvikinu um sig er því um að ræða framburð eins vitnis, sem stangast á við framburð ákærðu. Orð standa gegn orðum. Framburður eins vitnis gegn neitun ákærðs manns getur ekki dugað til sönnunar í sakamáli, nema vitnisburður fái nægilega stoð í öðrum sönnunargögnum máls. Svo sem fyrr segir er því ekki að heilsa í þessu máli. Sakfelling ákærðu verður því ekki byggð á þessum grunni.
IV.
Nauðsynlegt er að víkja að nokkrum öðrum atvikum málsins sem þykja varða sönnunarfærslu ákæruvalds og mat á sekt ákærðu.
Í héraðsdómi er nefnt að ákærði Rúnar Ben hafi afplánað fangelsisrefsingu á árinu 2002, en verið leystur úr haldi 18. maí það ár. Hann var því innan fangelsisveggja, þegar sex fyrstu ferðirnar, sem ákæran greinir, voru farnar. Hann var allt að einu ákærður og sakfelldur í héraði fyrir að hafa staðið fyrir þessum innflutningi. Engin sönnun hefur verið færð fram í málinu um, hvernig hann á að hafa gert þetta úr fangelsinu. Þó að ekki sé útilokað að slíkt geti átt sér stað verður að gera þá lágmarkskröfu til sönnunarfærslu í sakamálum að einhver rannsókn eða að minnsta kosti skýring sé færð fram af hálfu ákæruvalds um slíka athafnasemi úr fangelsum. Slíku er ekki að heilsa í þessu máli.
Í héraðsdómi er vikið að fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 23. október 2003 og ætlaðri þýðingu hans fyrir þetta mál. Þar hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu, að ákærði Rúnar Ben hafi staðið í fíkniefnaviðskiptum við Schröder sem hafi verið í föstum skorðum. Verði ekki annað ráðið af dóminum en að þau tengsl hafi verið vegna fíkniefnaviðskipta er hafi staðið yfir í einhvern tíma fyrir 7. nóvember 2002. Er þetta talið styðja niðurstöðuna um sakfellingu ákærðu í þessu máli. Í II. kafla atkvæðis meirihluta Hæstaréttar er vikið að sakarefni því sem um var fjallað í nefndum hæstaréttardómi og greint frá símhlerunum sem áttu sér stað, í tengslum við það brot. Segir í III. kafla atkvæðisins að við mat á sök ákærðu í þessu máli verði litið til dómsins um að ákærði Rúnar Ben hafi staðið í fíkniefnaviðskiptum við Schröder, sem hafi verið í föstum skorðum.
Símtölin sem hleruð voru í tengslum við brotið 7. nóvember 2003, og rakin eru að hluta í II. kafla atkvæðis meirihluta dómenda, vörðuðu í sjálfu sér aðeins það brot. Var dómur felldur um það í Hæstarétti 23. október 2003. Sé lagt til grundvallar í þessu máli það sem þá var sagt, að ákærði Rúnar Ben hafi staðið í fíkniefnaviðskiptum við Schröder, sem hafi verið í föstum skorðum, leysir það ákæruvaldið ekki undan skyldunni um að sanna hvert einstakt tilvik, sem ákært er fyrir í þessu máli, með lögfullum hætti. Ályktun um að ákærður maður hafi stundað ótilgreind afbrot í fortíðinni getur ekki valdið því, að sakfella megi hann fyrir þau, án þess að sönnun sé færð fyrir hverju einstöku broti eða með orðalagi 46. gr. laga nr. 19/1991, að „nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti“.
Við rannsókn málsins voru símar ákærðu hleraðir svo sem grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Þessar símhleranir áttu sér allar stað eftir að hin meintu brot voru framin og geta því aðeins haft óbeint gildi fyrir sönnunarfærslu ákæruvalds. Til þess að byggja dóm á gögnum af þessu tagi verður að mínu áliti að tilgreina efni þeirra samtala sem talin eru hafa þýðingu fyrir sönnunarfærslu um sekt ákærðu. Að mínu mati getur ekki talist nægilegt, eins og meirihluti Hæstaréttar gerir, að telja samtölin, án slíkrar tilgreiningar, veita heildstætt vísbendingar um fíkniefnafbrot og enn síður ef vísbendingarnar eru ekki um afmörkuð brot heldur aðeins um að ákærðu hafi tengst brotum á þessu sviði. Fellst ég á niðurstöðu í sératkvæði héraðsdóms um að ekkert verði ráðið með vissu um ákæruefnin af efni símtalanna sem lögreglan hleraði.
Í héraðsdómi eru ákærðu meðal annars sakfelldir fyrir að hafa selt fíkniefnin sem málið greinir. Þetta eru þeir taldir hafa gert í ágóðaskyni. Meirihluti Hæstaréttar kemst að sömu niðurstöðu að því er þær sendingar snertir sem hann telur sannaðar. Engin sönnunarfærsla hefur farið fram í málinu um þetta. Vissulega má telja líklegt að ákærðu hafi selt efnin í ágóðaskyni ef sannað þykir að þeir hafi staðið að kaupum á þeim hingað til lands. Slíkar líkur geta hins vegar ekki leyst ákæruvaldið undan sönnunarskyldu um þessi atriði sakargifta á hendur ákærðu.
V.
Svo sem hér hefur verið rakið tel ég að ákæruvaldið hafi ekki sannað að fíkniefni sem ákæran greinir hafi verið flutt til landsins í þeim ferðum sem þar eru taldar. Jafnvel þótt það yrði talið sannað, hefur hvorki sannast að ákærði Rúnar Ben hafi staðið fyrir slíkum innflutningi né að ákærði Davíð Ben hafi tekið við fíkniefum í þeim tilvikum sem hann er sakaður um. Loks er, hvað sem þessu líður, ósannað að ákærðu hafi flutt fíkniefni sem ákæran greinir til landsins í ágóðaskyni og að þeir, annar eða báðir, hafi selt slík efni. Ákæruvaldið hefur því að mínu mati ekki fært fram í málinu lögfulla sönnun um að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem í ákæru greinir og tel ég því að sýkna beri þá af sakargiftunum. Ég er sammála meirihluta réttarins um staðfestingu á ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og málsvarnarlaun en tel að málsvarnarlaun skipaðra verjenda fyrir Hæstarétti ættu að ákveðast 400.000 krónur til hvors þeirra.
Af endurritum úr héraðsdómi af yfirheyrslu yfir vitninu Claus Friehe kemur fram, að dómendur hindruðu verjanda ákærða Davíðs Ben í að bera upp spurningar sem vörðuðu trúverðugleika vitnisins og telja verður að hafi verið nauðsynlegur þáttur í málsvörninni. Er þetta aðfinnsluvert.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 23. september sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 30. mars 2004, á hendur Davíð Ben Maitsland, kt. 230772-5179, Grettisgötu 2, Reykjavík og Rúnari Ben Maitsland, kt. 230772-3989, einnig til heimilis að Grettisgötu 2, Reykjavík, ,,fyrir fíkniefnabrot framin í ágóðaskyni á árinu 2002 þar sem ákærði Rúnar Ben Maitsland stóð fyrir innflutningi frá Þýskalandi á alls 27 kg af kannabis, flutt hingað í tíu ferðum af flugfarþegum um Keflavíkurflugvöll, þar á meðal á... Claus Friehe alls 7 kg í sjö ferðum, og af farþega með skipi um Seyðisfjarðarhöfn í einni ferð, en í samráði við ákærða Rúnar Ben Maitsland tók ákærði Davíð Ben Maitsland í sjö skipti við alls 23 kg af fíkniefnum sem flutt voru til landsins samkvæmt framangreindu og síðan seld. Fíkniefnin, sem ákærði Rúnar Ben keypti af Reinold Schröder, voru flutt til landsins eins og hér greinir:
1. Þann 8. mars 1 kg flutt af á... Claus Friehe um Keflavíkurflugvöll en ákærði Davíð Ben tók við fíkniefnunum í Reykjavík.
2. Þann 28. mars 1 kg flutt af á... Claus Friehe um Keflavíkurflugvöll en ákærði Davíð Ben tók við fíkniefnunum í Reykjavík.
3. Þann 5. apríl 3 kg flutt af Wiebke Wollet um Keflavíkurflugvöll en ákærði Davíð Ben tók við fíkniefnunum í Reykjavík.
4. Þann 19. apríl 1 kg flutt af á... Claus Friehe um Keflavíkurflugvöll en ákærði Davíð Ben tók við fíkniefnunum í Reykjavík.
5. Þann 26. apríl 3 kg flutt af Wiebke Wollet um Keflavíkurflugvöll en ákærði Davíð Ben tók við fíkniefnunum í Reykjavík.
6. Þann 10. maí 1 kg flutt af á... Claus Friehe um Keflavíkurflugvöll en ákærði Davíð Ben tók við fíkniefnunum í Reykjavík.
7. Þann 20. júní 13 kg flutt af Hendrik Kuhn um Seyðisfjarðarhöfn en ákærði Davíð Ben tók við fíkniefnunum í sama mánuði í Reykjavík ásamt ákærða Rúnari Ben.
8. Þann 18. júlí 1 kg flutt af á... Claus Friehe um Keflavíkurflugvöll.
9. Þann 12. september 1 kg flutt af á... Claus Friehe um Keflavíkurflugvöll.
10. Þann 19 september 1 kg flutt af Wiebke Wollet um Keflavíkurflugvöll.
11. Þann 3. október 1 kg flutt af á... Claus Friehe um Keflavíkurflugvöll.”
Er háttsemi ákærðu, Davíðs Ben og Rúnars Ben, talin varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, sbr. lög nr. 32/2001.
Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Ákærði, Davíð Ben Maitsland, neitar sök. Af hálfu verjanda er þess aðallega krafist, að ákærði verði sýknaður af refsikröfum ákæruvalds. Til vara er gerð krafa um að ákærði verði sýknaður að hluta, að brot hans varði við lög um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og að honum verði ákvörðuð vægasta refsing er lög leyfa. Í því tilviki er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist, er ákærði sætti á meðan á rannsókn málsins stóð, dragist frá tildæmdri refsingu. Þá er krafist greiðslu málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Ákærði, Rúnar Ben Maitsland, neitar sök. Af hálfu verjanda er þess aðallega krafist, að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds. Til vara er gerð krafa um vægustu refsingu. Þá er krafist greiðslu málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Málsatvik:
Samkvæmt gögnum málsins bárust lögregluyfirvöldum á Íslandi, um mitt ár 2002, upplýsingar frá lögregluyfirvöldum í Þýskalandi um að grunur léki á um að fíkniefni væru skipulega flutt til Íslands frá Þýskalandi. Var Wiebke Wollet sérstaklega tilgreind og greint frá því að hún hefði flutt efni til landsins. Að baki innflutningi á fíkniefnunum var talinn standa maður búsettur í Þýskalandi að nafni Reinold Schröder. Lögregluyfirvöldum á Íslandi bárust síðar á árinu 2002 frekari upplýsingar um rökstuddan grun um innflutning fíkniefna til landsins, sem talin voru tengjast umfangsmiklu fíkniefnamáli sem í rannsókn væri hjá lögreglu í Þýskalandi. Samkvæmt þeim gögnum hafði rannsókn á því fíkniefnamáli staðið um talsverðan tíma og var málið talið teygja anga sína víða. Samkvæmt þeim upplýsingum er lögregla í Þýskalandi veitti var talið að Schröder hefði reglulega sent fíkniefni til Íslands með svokölluðum ,,burðardýrum”, eftir að hann hefði losnað úr fangelsi á Íslandi eftir að hafa afplánað þar dóm vegna fíkniefnabrots. Var talið að á meðan Schröder afplánaði dóm sinn á Íslandi, hafi hann komist í samband við tiltekna einstaklinga er hafi tengst fíkniefnaviðskiptum á Íslandi. Eftir miðjan september 2002 bárust lögreglu upplýsingar um að líklegt væri að Iris Regina Kogge væri á leið til Íslands með fíkniefni og væri hún að flytja efnið á vegum Schröder. Við komu til landsins fundu tollverðir á Keflavíkurflugvelli fíkniefni er fest höfðu verið utan á líkama hennar. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2002 var Kogge dæmd til að sæta fangelsi í 3 mánuði, með því að hafa í ágóðaskyni flutt til landsins 947,83 g af hassi, sem í hagnaðarskyni þótti hafa verið ætlað til söludreifingar á Íslandi. Við yfirheyrslur hjá lögreglu lýsti Kogge yfir, að hún vildi ekki aðstoða lögreglu með því að gefa upp hverjir hefðu skipulagt innflutning efnanna til landsins, þar sem hún væri hrædd við afleiðingar sem það myndi hafa í för með sér gagnvart þeim einstaklingum er stæðu að baki innflutningnum.
Lögregluyfirvöldum á Íslandi bárust 2. október 2002 upplýsingar að utan um að Claus Friehe væri á leið til Íslands á vegum þeirra aðila er stæðu að innflutningi fíkniefna til landsins. Ekki væri reiknað með að Friehe væri með fíkniefni meðferðis í þeirri ferð, heldur léki grunur á að hann væri að láta reyna á hvort hann yrði stöðvaður í ferðinni vegna gruns um fíkniefnainnflutning. Af hálfu lögreglu var fylgst með ferðum Friehe á Íslandi 3. október 2002 án þess að afskipti væru höfð af ferðum hans. Hélt Friehe af landi brott 6. október 2002. Þá bárust lögregluyfirvöldum upplýsingar frá lögregluyfirvöldum í Þýskalandi um að Hendrik Kuhn væri á leið til Íslands en grunur léki á að hann tengdist fíkniefnainnflutningi til Íslands. Kuhn kom til landsins 10. október 2002 og fylgdist lögregla með ferðum hans hér á landi. Samkvæmt skýrslu lögreglu var honum m.a. fylgt eftir að heimili ákærða, Davíðs Ben, að Grettisgötu 2 í Reykjavík. Kuhn hélt af landi brott 13. október 2002, án þess að lögregla hefði afskipti af honum hér á landi. Friehe kom aftur til landsins 14. október 2002 og fylgdist lögregla með ferðum hans að Hótel Borg í Reykjavík. Ekki voru höfð afskipti af Friehe á Íslandi og hélt hann af landi brott 17. október 2002.
Fimmtudaginn 7. nóvember 2002 kom Friehe til landsins með flugi frá Frankfurt í Þýskalandi. Þegar hann kom að grænu tollhliði á Keflavíkurflugvelli sýndi fíkniefnaleitarhundur honum áhuga. Aðspurður af tollvörðum kvaðst Friehe hingað kominn sem blaðamaður og framvísaði hann blaðamannaskírteini því til sönnunar. Við leit á honum komu í ljós pakkar sem voru festir á líkama hans með límbandi. Við nánari athugun reyndist efni það sem Friehe hafði meðferðis vera 890,73 g af amfetamíni og 979,56 g af hassi. Í upphafi kvaðst Friehe vilja greina frá öllu því er tengdist fíkniefnunum og aðstoða lögreglu við að upplýsa um aðra málsaðila. Kvaðst hann hafa komið til landsins með fíkniefnin að beiðni Schröder. Þegar til Reykjavíkur kæmi hafi hann átt að fara að Hótel Fróni, þar sem hann hafi átt pantað herbergi. Í framhaldi af því hafi hann átt að hringja í tiltekið símanúmer. Lögregla kom fyrir hlustunarbúnaði í herbergi Friehe, auk þess sem símahlerunum var beitt. Þá lét lögregla útbúa tvo gervipakka sem samsvöruðu þyngd þeirra fíkniefna sem Friehe hafði komið með. Friehe hringdi því næst í það númer er hann hafði fengið fyrirmæli um að hringja í og kom ákærði, Rúnar Ben, í kjölfarið á hótelherbergið. Var ákærði, Rúnar Ben, handtekinn af lögreglunni. Í kjölfar þessara atburða viðurkenndi Friehe að hafa flutt til landsins fíkniefni í fleiri ferðum. Af hálfu ákæruvalds var ákveðið að gefa þegar út ákæru á hendur Friehe og ákærða, Rúnari Ben, fyrir fíkniefnabrot það sem framið var 7. nóvember 2002. Var Friehe ákærður fyrir að hafa flutt efnin til landsins til söludreifingar í ágóðaskyni. Ákærða, Rúnari Ben, var gefin að sök þátttaka í innflutningnum með því að hafa í ágóðaskyni ætlað að taka við efnunum úr hendi Friehe og ætlað þau til söludreifingar á Íslandi. Fyrir héraðsdómi gerði verjandi ákærða, Rúnars Ben, kröfu um að málinu yrði vísað frá dómi, þar sem tilgreina hefði átt í ákæru öll þau brot er grunur léki á um að ákærði, Rúnar Ben, hefði framið. Með úrskurði héraðsdóms 23. maí 2003 var þeirri kröfu hafnað. Fyrir héraðsdómi greindi Friehe frá því að hann hafi starfað sem blaðamaður auk þess að vera með eigin fréttastofu, en hann hafi átt í persónulegum fjárhagserfiðleikum. Fyrrverandi nágranni hans í Þýskalandi, maður að nafni Schröder, hafi lánað sér peninga og boðið honum að endurgreiða skuldina með því að flytja fíkniefni fyrir sig til Íslands. Hafi hann vitað að Schröder hefði áður verið dæmdur fyrir fíkniefnainnflutning til Íslands og m.a. setið í fangelsi á Íslandi af þeim sökum. Alls hafi Friehe farið 8 ferðir til Íslands, fyrst í mars 2002, og flutt 1 til 2 kg af fíkniefnum til landsins í 7 ferðum. Hafi hann átt að fá greiddar 3.000 5.000 evrur fyrir hverja ferð. Hafi hann gengið sjálfur frá fíkniefnum þeim er hann hafi flutt til landsins og límt þau á líkama sinn fyrir hverja ferð. Hafi Schröder sagt honum að efnið yrði sótt af tvíburabræðrunum Davíð Ben og Rúnari Ben Maitsland. Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi neitaði ákærði, Rúnar Ben, sök. Héraðsdómur taldi ríkra sönnunargagna njóta við í því, þar sem m.a. samtöl Friehe og ákærða, Rúnars Ben, á Hótel Fróni hefði verið hleruð af lögreglu. Taldi héraðsdómur þau samtöl ótvírætt sýna að ákærði Rúnar Ben hefði staðið í viðskiptum með fíkniefni við Schröder, sem Friehe hefði séð um að flytja til landsins. Hafi viðskiptin greinilega verið í föstum skorðum, enda hafi Friehe getað afhent ákærða, Rúnari Ben, fíkniefnin á staðnum en greiðsla fyrir þau hafi átt að vera samkomulagsatriði við Schröder, eins og fram hafi komið í einu samtalinu. Þótti héraðsdómi framburður ákærða, Rúnars Ben, í hæsta máta ótrúverðugur, sem og skýringar hans og í engu samræmi við rannsóknargögn málsins. Yrði því ekki á framburði hans byggt í málinu. Hins vegar þóttu samtölin staðfesta, sem og framburður Friehe, að ákærði, Rúnar Ben, hafi verið þátttakandi í innflutningi á fíkniefnum sem hafi verið ætluð til söludreifingar á Íslandi. Voru brot beggja talin stórfelld og varða við 173. gr. a. laga nr. 19/1940. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2003 var Friehe dæmdur til að sæta fangelsi í 2 ár og sex mánuði fyrir brot sitt. Ákærði, Rúnar Ben, var dæmdur til 5 ára fangelsisvistar fyrir sinn þátt í brotinu. Ákærði, Rúnar Ben, áfrýjaði héraðsdómi til Hæstaréttar Íslands, sem með dómi sínum 23. október 2003 staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um 5 ára fangelsisvist ákærða. Í dómi Hæstaréttar er vísað sérstaklega til samtals Friehe við ákærða, Rúnar Ben, á hótelherberginu á Hótel Fróni, sem lögregla tók upp á segulband eftir að hafa komið fyrir hlustunarbúnaði í herberginu. Ummæli ákærða, Rúnars Ben, í samtalinu þótti Hæstarétti verða að skilja svo, að ákærði, Rúnar Ben, hafi ekki verið reiðubúinn að greiða Schröder strax fyrir fíkniefnin, þar sem efni í síðustu sendingu hefði verið ábótavant, og hafi ákærði áður viljað ganga úr skugga um gæði þeirra. Örugglega yrði ráðið af orðum hans, að hann hygðist selja efnin, áður en hann afhenti Friehe peninga, sem Friehe ætti síðan að skipta í erlenda mynt og færa Schröder. Að því gættu var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms, að ákærði, Rúnar Ben, hafi staðið í fíkniefnaviðskiptum við Schröder, sem verið hefði í föstum skorðum.
Með ákæru ríkissaksóknara 30. mars 2004 var Friehe ákærður fyrir fíkniefnabrot með því að hafa á árinu 2002 í 7 ferðum til Íslands flutt til landsins alls 7 kg af kannabis. Voru brot hans talin varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002. Við rannsókn og meðferð málsins viðurkenndi Friehe að hafa farið hinar tilgreindu ferðir og flutt umrætt magn fíkniefna til landsins og í flestum tilvikum að hafa afhent það ákærða, Davíð Ben. Í ljósi játningar Friehe lá fyrir að unnt væri að fara með þátt hans skv. 125. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Með vísan til játningar Friehe var ákveðið að kljúfa þátt hans frá aðalmálinu, þannig að unnt væri að fara með það sér í lagi. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2004, var Friehe, á grundvelli skýlausrar játningar sinnar, dæmdur til að sæta fangelsi í 6 mánuði fyrir ofangreind fíkniefnabrot sín.
Með dómi héraðsdóms í Itzehoe-Schöffengericht í Þýskalandi, uppkveðnum 6. nóvember 2003, var Wollet dæmd í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi, fyrir hlutdeild í ólöglegri verslun með ávana- og fíkniefni. Í dómi héraðsdóms, er frammi liggur í íslenskri þýðingu, kemur fram sú frásögn Wollet, að hún hafi kynnst Schröder á vetrarmánuðum 2001 til 2002. Hafi Schröder verslað með hass sem hann hafi látið flytja til Íslands með ,,burðardýrum”. Hafi Wollet vantað fjármuni eftir sambúðarslit. Hafi hún rætt við Schröder um að afla sér fjármuna með því að flytja fyrir hann fíkniefni. Hafi Schröder heimsótt Wollet á heimili hennar í Itzehoe þar sem þau áform hafi verið rædd nánar. Að samkomulagi hafi orðið að Wollet fengi í sinn hlut 1.000 evrur fyrir hvert kg af hassi, sem hún flytti til Íslands. Þar fyrir utan hafi Schröder átt að greiða fyrir útlagðan kostnað Wollet, s.s. fyrir flugmiða, gistingu og vasapeninga. Wollet hafi 5. apríl 2002, ásamt dóttur sinni, flogið frá Hamborg, í gegnum Kaupmannahöfn, til Íslands. Hafi hún haft í fórum sínum 3 kg af hassi, sem hafi verið fest á líkama hennar. Efnið hafi Schröder afhent Wollet í íbúð hennar í Itzhoe. Wollet hafi afhent efnið Davíð Ben Maitsland, sem hafi afhent henni söluandvirðið í íslenskum krónum. Þeim fjármunum hafi hún skipt yfir í evrur og hafi fjárhæðin numið um 10.000 evrum. Wollet hafi á ný, 26. apríl 2002, farið með flugi frá Hamborg til Íslands. Eins og í fyrri ferð sinni hafi hún fest á líkama sinn 3 kg af hassi, sem hún hafi fengið frá Schröder. Í það skiptið hafi Wollet farið ein til Íslands. Fíkniefnin hafi hún afhent Davíð Ben og fengið a.m.k. 10.000 evrur sem söluandvirði efnisins. Wollet hafi ákveðið að fara ekki fleiri ferðir til Íslands, en að beiðni Schröder hafi hún þrátt fyrir það tekið að sér að flytja fyrir hann 1 kg af hassi. Í þá ferð hafi Wollet farið frá Hamborg 19. september 2002. Á Íslandi hafi hún afhent fíkniefnin Rúnari Ben Maitsland. Hafi hún þá tekið við söluandvirði nokkurra fíkniefnaviðskipta, sem hún hafi afhent Schröder í Þýskalandi. Að mati héraðsdómara þótti játning Wollet trúverðug og ekkert benda til að hún hafi tekið á sig sök að óréttu. Þótti framburður hennar í samræmi við niðurstöður lögreglurannsóknar, sérstaklega niðurstöður símahlerana.
Með dómi héraðsdóms í Herford í Þýskalandi, uppkveðnum 5. ágúst 2003, var Kuhn dæmdur í tveggja ára og níu mánaða fangelsi, fyrir hlutdeild í ólöglegri verslun með ávana- og fíkniefni. Í dómi héraðsdóms, er frammi liggur í íslenskri þýðingu, kemur fram, að Kuhn hafi kynnst Schröder í byrjun árs 2002. Á þeim tíma hafi fjárhagsleg staða Kuhn verið bágborin. Schröder hafi þá um nokkurn tíma verslað með fíkniefni, en það hafi Kuhn verið kunnugt um. Að þráfaldri beiðni Schröder hafi Kuhn látið til leiðast og ákveðið að flytja fíkniefni fyrir Schröder. Þar sem Kuhn hafi einu sinni verið handtekinn á Íslandi vegna fíkniefnabrots hafi hann ekki tekið í mál að fljúga til Íslands með fíkniefni. Hins vegar hafi hann fallist á að sækja þangað peninga fyrir Schröder og hafi hann í því skyni farið til Íslands á tímabilinu 17.-19. maí 2002. Hafi hann flogið frá Hamborg, í gegnum Kaupmannahöfn, til Íslands. Á Íslandi hafi Kuhn hitt báða tengiliði Schröder á Íslandi, tvíburabræðurna Davíð Ben og Rúnar Ben, en þeir hafi a.m.k. tvisvar sinnum komið á hótelherbergi Kuhn og fært honum verulega fjármuni. Kuhn hafi í kjölfarið skipt þeim peningum yfir í evrur og hafi fjárhæðin numið um 20.000 evrum. Eftir þessa ferð Kuhn til Íslands hafi fjárhagsstaða hans versnað og hafi hann m.a. skuldað Schröder tiltekna fjármuni. Hafi Kuhn, að beiðni Schröder, ákveðið að flytja verulegt magn fíkniefna til Íslands. Kuhn hafi ákveðið að flytja efnið í bifreið sem hann hafi átt. Fyrir milligöngu tiltekins einstaklings hafi Kuhn fengið frá Schröder 13 kg af hassi, sem Kuhn hafi komið fyrir í bifreiðinni. Kuhn hafi lagt af stað frá Þýskalandi 19. júní 2002, farið til Íslands með ferju og komið til baka heim 4. júlí 2002. Á Íslandi hafi Kuhn afhent fíkniefnin tvíburabræðrunum Davíð Ben og Rúnari Ben. Hafi hann fengið frá þeim fjármuni er hafi samsvarað um 90.000 evrum og hafi hann afhent þá Schröder er heim hafi verið komið. Kuhn hafi síðan í október 2002 flogið til Íslands fyrir Schröder. Hafi hann fengið afhentar um 3.000 evrur frá Davíð Ben og Rúnari Ben og komið þeim skv. fyrirmælum Schröder til nafngreinds manns sem hann hafi hitt í Hollandi. Að mati héraðsdómara í Herford þótti frásögn Kuhn af atvikum fullsönnuð og byggjast á játningu Kuhn sem þótti trúverðug. Dómi héraðsdóms Herford var áfrýjað til Landgericht í Bielefeld, sem með dómi 30. janúar 2004 dæmdi Kuhn til að sæta fangelsi í 2 ár og sex mánuði. Staðfesti áfrýjunardómstóllinn dóm héraðsdóms Herford að öðru leyti en varðandi ákvörðun refsingar.
Með dómi Landgericht Bielefeld í Þýskalandi, uppkveðnum 11. nóvember 2003, var Schröder dæmdur í sex ára fangelsi, fyrir ólögleg viðskipti með fíkniefni. Í dóminum, er frammi liggur í íslenskri þýðingu, er gerð grein fyrir högum Schröder um miðbik 9. áratugarins. Þar kemur fram hvernig Schröder hafi tengst viðskiptum með fíkniefni allt frá 1997, er hann hafi verið dæmdur í 5 ára fangelsi í Frakklandi vegna innflutnings á fíkniefnum frá Spáni til Frakklands. Í dóminum er gerð grein fyrir ferð Schröder til Íslands 14. janúar 2001 er hann hafi verið handtekinn vegna fíkniefnabrots. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hafi hann verið dæmdur í 12 mánaða fangelsi vegna þess. Eftir að hann hafi verið laus úr fangelsisvistinni á Íslandi hafi hann í janúar 2002 mælt sér mót við Friehe, sem hann hafi þá þekkt um nokkurn tíma. Hafi Friehe skuldað Schröder fjármuni, sem Schröder hafi viljað fá endurgreidda. Hafi það m.a. komið til þar sem Schröder hafi þurft að greiða fyrir þau u.þ.b. 5 kg af hassi sem lagt hafi verið hald á á Íslandi, en hin haldlögðu fíkniefni hafi Schröder keypt af manni að nafni Albert de Vries. Þeim manni hafi hann kynnst í fangavistinni í Frakklandi. Hafi orðið að samkomulagi milli Schröder og Friehe, að Friehe myndi flytja fíkniefni fyrir Schröder til Íslands og með því endurgreiða skuld sína við Schröder. Í þessari stöðu hafi Schröder snúið sér til de Vries, sem hafi sagt honum að hann hefði aðgang að fíkniefnasölum og gæti því útvegað honum hass eftir þörfum. Hafi þeir ákveðið að Schröder myndi sjá um flutning á fíkniefnunum til Íslands og sölu þeirra þar. Schröder hafi frá fyrri tímum átt sambönd við viðtakendur á Íslandi og eru nöfn Davíðs Ben og Rúnars Ben Maitsland sérstaklega nefnd í því sambandi. Schröder hafi orðið ljóst að hann gæti ekki flutt efnin sjálfur til Íslands, eftir að honum hafi verið vísað til baka eftir tilraun til að komast inn í landið. Þá hafi honum orðið ljóst að hann yrði að fá ,,burðardýr” til að flytja efnin til landsins. Fyrsta ferðin til Íslands hafi verið farin af Friehe 8. mars 2002. Eftir að Schröder hafi fengið 2 kg af hassi frá de Vries, hafi hann aðstoðað Friehe við að líma fíkniefnin utan á líkama sinn. Að því loknu hafi hann ekið Friehe út á flugvöll í Hamborg, en þaðan hafi Friehe flogið um Kaupmannahöfn til Íslands. Friehe hafi afhent Davíð Ben og Rúnari Ben fíkniefnin, skipt söluandvirðinu yfir í evrur og komið til baka með um 10.000 evrur. De Vries hafi afhent Schröder 5 kg af hassi í lok mars 2002. Friehe hafi flutt 2 kg af því hassi með flugi frá Hamborg um Kaupmannahöfn til Íslands 28. mars 2002. Aftur hafi viðtakendurnir á Íslandi verið Davíð Ben og Rúnar Ben. Á grundvelli kunningsskapar við Wollet, hafi Schröder fengið hana til að flytja 3 kg af hassinu til Íslands 5. apríl 2002. Þau efni hafi Wollet afhent Davíð Ben. Í apríl 2002 hafi de Vries á ný afhent Schröder 5 kg af hassi. Af því hafi Friehe flutt 2 kg frá Hamborg til Íslands og á ný afhent Davíð Ben og Rúnari Ben. Á sama hátt hafi Wollet flutt 3 kg af hassinu til Íslands 26. apríl 2002. Þau efni hafi verið afhent Davíð Ben. Friehe og Wollet hafi sem fyrr skipt söluandvirðinu yfir í evrur á Íslandi og afhent Schröder. De Vries hafi enn á ný útvegað 5 kg af hassi. Af því hafi Friehe flutt 2 kg til Íslands 10. maí 2002 og önnur 2 kg 18. júlí 2002. Efnin hafi sem fyrr verið afhent Davíð Ben og Rúnari Ben. Eftir að de Vries hafi afhent Schröder frekari fíkniefni hafi Friehe flutt efni til Íslands í tveimur ferðum, 1 kg af hassi í hvorri ferð, í september og október 2002. Efnin hafi á Íslandi verið afhent Davíð Ben og Rúnari Ben. Friehe hafi síðan verið handtekinn 7. nóvember 2002 við komu til Íslands, með 1 kg af hassi. Í september 2002 hafi Schröder farið með 1 kg af hassi úr sendingu frá de Vries til Wollet. Eins og í fyrri ferðum hafi Wollet flutt efnið til Íslands, en ferðin hafi verið farin 19. september 2002. Efnin hafi verið afhent Rúnari Ben. Í dómi Landgericht kemur fram að í byrjun árs 2002 hafi Schröder mælt sér mót við Kuhn, en þeir hafi kynnst ríflega 6 árum áður. Hafi Schröder óskað eftir því við Kuhn að hann myndi flytja fyrir sig fjármuni frá Íslandi til Þýskalands. Þar sem Kuhn hafi átt í talsverðum fjárhagserfiðleikum hafi hann fallist á það. Hafi Kuhn flogið til Íslands 17. maí 2002. Þá hafi Schröder verið kunnugt um að Kuhn ætti eldri flutningabifreið, sem hann hefði breytt í húsbíl. Að beiðni Schröder hafi Kuhn fallist á að flytja fíkniefni í bifreiðinni til Íslands. Hafi Schröder bókað far með ferju frá Danmörku til Íslands. Schröder hafi verið í fríi seinni hlutann af júní 2002 og hafi hann af þeim ástæðum fengið tilgreindan einstakling til að aðstoða Kuhn við að koma fíkniefnunum fyrir í bifreiðinni. Viðkomandi einstaklingur og Kuhn hafi ákveðið að koma 13 kg af hassi fyrir í bifreiðinni. Kuhn hafi síðan farið til Íslands með ferjunni, en á Íslandi hafi hann afhent Davíð Ben og Rúnari Ben efnið. Í dómi Landgericht kemur fram að Schröder hafi útskýrt málavexti á trúverðugan og mótsagnalausan hátt. Var ekki talin ástæða til að vefengja framburð hans. Þá þótti framburðurinn í samræmi við aðrar niðurstöður rannsóknar málsins, s.s. framburð Wollet og Kuhn. Dró dómurinn trúverðugleika framburða Wollet og Kuhn ekki í efa. Hafi þau greint frá atvikum, sem þau hafi vitað um, í smáatriðum og á sannfærandi og mótsagnalausan hátt. Í þeim tilvikum er þau hafi ekki talið sig geta munað atvik, hafi þau lagt sig fram um að segja rétt frá. Til dæmis hafi ekkert bent til að þau hafi reynt að koma óréttmætri sök á Schröder.
Þar sem fyrir lá að Friehe yrði veitt reynslulausn úr fangelsi áður en til aðalmeðferðar í þessu máli kæmi og að hann myndi þegar hverfa af landi brott var ákveðið, með vísan til 2. mgr. 129. gr. laga nr. 19/1991, að tekin yrði skýrsla af honum fyrir dómi fyrir aðalmeðferð málsins. Fór sú skýrslutaka fram 5. maí 2004. Er ákæra var send héraðsdómi var tilgreint af hálfu ákæruvalds að það hygðist leiða sem vitni í málinu Schröder, Wollet og Kuhn. Að beiðni ákæruvalds gaf héraðsdómur út vitnakvaðningar á hendur þessum aðilum til að mæta fyrir dóminn, en þau eru öll búsett í Þýskalandi. Var aðalmeðferð málsins þá fyrirhuguð 24. júní 2004. Fyrir milligöngu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins var 11. maí 2004 send réttarbeiðni til yfirvalda dómsmála í Þýskalandi með beiðni um að hlutast yrði til um að vitnakvaðningarnar yrðu birtar. Þar sem svör höfðu ekki borist tímanlega frá Þýskalandi var ákveðið að fresta aðalmeðferð málsins til 23. september 2004, til að leita eftir því á nýjan leik að vitnakvaðningar yrðu birtar ytra. Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til ríkissaksóknara 2. júní 2004 var gerð grein fyrir því að ráðuneytinu hefði borist upplýsingar um Schröder og Kuhn. Þar kemur fram að þeir séu báðir að afplána dóma í þýskum fangelsum. Hafi þeir báðir hafnað flutningi til Íslands. Samkvæmt íslenskri þýðingu á bréfi ríkissaksóknara í Hamm í Þýskalandi, frá 14. júní 2004, er það niðurstaða ríkissaksóknarans að þar sem fanginn Schröder hafi neitað að veita samþykki sitt fyrir framsali til Íslands til að bera vitni, sé ekki unnt að framselja hann til landsins. Í gögnum málsins liggur einnig fyrir í íslenskri þýðingu yfirlýsing Schröder um að hann sé ekki reiðubúinn til að gefa skýrslu í gegnum síma. Efnislega samhljóða bréf liggur fyrir í gögnum málsins frá aðalsaksóknaranum í Bielefeld í Þýskalandi, frá 22. júní 2004, varðandi fangann Kuhn. Þá kvaðst Kuhn ekki vera reiðubúinn til að gefa skýrslu í gegnum síma skv. yfirlýsingu er hann gaf fyrir aðalsaksóknaranum. Kuhn gaf skýrslu fyrir lögreglunni í Itzehoe 21. maí 2003 vegna málsins að beiðni lögreglunnar í Reykjavík. Þá yfirheyrslu annaðist rannsóknarlögreglumaðurinn Andreas Schack. Rannsóknarlögreglumennirnir, Kristinn Sigurðsson og Jens Hilmarsson, voru viðstaddir yfirheyrsluna. Tekin var lögregluskýrsla af Wollet vegna málsins hjá lögreglunni í Itzehoe 20. maí 2003, að beiðni lögreglunnar í Reykjavík. Þá yfirheyrslu annaðist einnig rannsóknarlögreglumaðurinn Andreas Schack. Rannsóknarlögreglumennirnir Kristinn Sigurðsson og Jens Hilmarsson voru einnig viðstaddir þá yfirheyrslu. Er vitnakvaðning var birt fyrir Wollet kvaðst hún reiðubúin að gefa skýrslu í gegnum síma vegna málsins, en hún kvaðst ekki vera reiðubúin að koma til Íslands til að bera vitni í málinu. Í ljósi þeirrar afstöðu Wollet var ákveðið að hún gæfi skýrslu í gegnum síma við aðalmeðferð málsins.
Davíð Ben Maitsland
Ákærði Davíð Ben var handtekinn af lögreglu 26. nóvember 2002. Var hann síðar sama dag úrskurðaður í gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar í Reykjavík. Við meðferð málsins hjá lögreglu og fyrir dómi hefur ákærði neitað sök. Hefur hann staðfastlega haldið því fram að frásagnir vitna, að því marki er þau tengi hann við fíkniefnabrot, séu rangar.
Ákærði kvað Friehe einu sinni eða tvisvar hafa komið að heimili sínu að Grettisgötu 2 í Reykjavík, í þeim erindagjörðum að leita eftir bróður ákærða, meðákærða Rúnari Ben. Ákærði hafi ekki verið heima og því aldrei hitt Friehe. Þá hafi Friehe hringt í ákærða einu sinni eða tvisvar, í þeim erindagjörðum að leita eftir meðákærða. Að öðru leyti hafi ákærði aldrei hitt eða rætt í síma við Friehe og kvaðst hann alfarið mótmæla öllum staðhæfingum Friehe í þá veruna. Þá kvaðst hann ekki kannast við að hafa hitt Friehe á hóteli í Reykjavík um miðjan apríl 2002, svo sem Friehe hafi haldið fram. Því þá síður hafi ákærði farið til Þýskalands í apríl 2002 í þeim erindagjörðum að greiða fíkniefnaskuld við Schröder. Kvaðst hann hafa farið til Hamborgar í apríl á árinu 2002 og gist á Hótel Atlantic. Ferðin hafi verið skemmtiferð, en ákærði hafi verið einn á ferð.
Ákærði kvaðst hafa hitt Kuhn einhverju sinni, en þeir hafi farið saman út að borða. Er fyrir ákærða voru spilaðar símahleranir úr rannsókn málsins kvaðst hann í fyrstu ekki kannast við að hafa nokkru sinni rætt við Kuhn í síma og kvað allar tilgátur lögreglu í þá veruna byggðar á misskilningi af hálfu lögreglu. Síðar við rannsókn málsins viðurkenndi hann að hafa rætt við Kuhn í síma og skýrði efni símtalanna með þeim hætti að þau hafi ekki tengst fíkniefnaviðskiptum. Ákærði kvað yfirlýsingar Kuhn um tengsl sín við ákærða og samskipti þeirra á milli að öllu leyti rangar og úr lausu lofti gripnar.
Wollet kvaðst ákærði aldrei hafa heyrt nefnda, hvað þá hitt. Kvað hann yfirlýsingar Wollet um tengsl hennar við ákærða og samskipti þeirra á milli rangar að öllu leyti og úr lausu lofti gripnar.
Ákærði kvaðst ekki kannast við Schröder. Kvað hann yfirlýsingar Schröder fyrir lögreglu og dómstólum í Þýskalandi um tengsl sín við ákærða rangar.
Fyrir ákærða voru spiluð fjölmörg símtöl er lögregla hleraði við rannsókn málsins og taldi hafa átt sér stað á milli ákærðu. Ákærði kvaðst kannast við raddir ákærðu í samtölunum og kvaðst viðurkenna að símtölin hafi átt sér stað. Skýrði hann efni samtalanna með öðrum hætti en lögregla gaf í skyn og kvað þau í engum tilvikum hafa tengst viðskiptum með fíkniefni. Ákærði kvaðst hafa verið notandi að farsímanúmerinu 868-4310. Kvaðst hann við yfirheyrslur lögreglu ekki kannast við símanúmerin 846-2661, 846-2679, 846-6862, 846-5487 eða 867-1957. Er fyrir hann voru spilaðar upptökur samtala á milli símanúmeranna 868-4310 og 867-1957 kvaðst hann þó kannast við að ákærði hafi verið að ræða við meðákærða. Ákærði kvaðst ekki kannast við símanúmerið 846-4349. Er fyrir hann var spiluð upptaka af samtali úr því símanúmeri 10. október 2002, kvaðst hann þó kannast við að hafa í því tilviki rætt við Kuhn. Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins voru spilaðar upptökur af samtölum í síma. Hefur lögregla m.a. ályktað að um væri að ræða samtöl ákærða við meðákærða. Eru þau samtöl endurrituð á skjölum sem merkt eru í rannsóknargögnum sem nr. 17.1. bls. 13, 40 og 87. Ákærði kvaðst ekki þekkja raddir á hljóðupptökunum.
Ákærði kvaðst kannast við miða er lögregla hafi lagt hald á við húsleit að Austurbergi 16 í Reykjavík 8. nóvember 2002, en miðinn er auðkenndur nr. 4 í munaskrá lögreglu. Kvað hann miðann hafa að geyma upplýsingar um bankanúmer og eiganda þess reiknings. Kvaðst hann ekki vita hvenær hann hafi fengið miðann í hendur eða hvernig hann hafi verið til kominn. Hafi hann óvart stungið miðanum undir dýnu hjá móður sinni. Kvaðst hann ekki geta sagt til um tilgang miðans. Þá kvaðst ákærði vera eigandi að öðrum miða, sem lögregla lagði hald á í sama skipti að Austurbergi 16. Er miðinn auðkenndur nr. 5 í munaskrá lögreglu. Á miðanum koma fram upplýsingar um fjárhæð, nafn og bankanúmer viðtakanda á Spáni. Ákærði kvað sér hafa verið gefinn miðinn, en ekki muni hann hvort hann hafi átt að leggja fjármuni inn á reikninginn eða að taka út af honum. Þá kvaðst ákærði ekki muna hver hafi látið hann fá miðann í hendur. Ákærði þvertók fyrir að reikningurinn eða fjármunir tengdir honum hafi staðið í tengslum við fíkniefnaviðskipti. Ákærði kvað tékkhefti, er hafi verið lagt hald á af lögreglu við leit á heimili ákærða að Grettisgötu 2 í Reykjavík 26. nóvember 2002, hafa verið í eigu Aðalsteins Sigurðssonar. Kvaðst hann ekki kannast við símanúmer er hafi verið rituð á bakhlið tékkheftisins. Tékkheftið hefur verið auðkennt nr. 6 í munaskrá lögreglu. Á bakhlið heftisins er m.a. ritað nafnið Davíð og símanúmerið 846-2679 og nafnið Rúnar og símanúmerið 846-5487.
Ákærði kvaðst kannast við að hafa á árinu 2002 keypt evrur í bönkum á Íslandi fyrir nærri 640.000 krónur. Kvað hann ástæðuna hafa verið tengda kaupum á fötum og leikjum, t.a.m. pókerspili. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa farið þess á leit við Aðalstein Sigurðsson, að Aðalsteinn myndi leggja evrur að andvirði 641.625 krónur inn á tiltekinn bankareikning. Kvað hann framburð Aðalsteins í þá veruna rangan.
Rúnar Ben Maitsland
Ákærði Rúnar Ben var handtekinn af lögreglu 7. nóvember 2002, í tengslum við sakarefni er dæmt var í Hæstarétti Íslands 23. október 2003. Við meðferð málsins hjá lögreglu og fyrir dómi hefur ákærði neitað sök. Hefur hann staðfastlega haldið því fram að frásagnir vitna, að því marki er þau tengi hann við fíkniefnaviðskipti, séu rangar.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu 27. nóvember 2002 kvað hann mann á sínum vegum hafa hitt Friehe við komur Friehe til landsins 8. og 28. mars, 10. maí og 12. september 2002. Að öðru leyti kvaðst ákærði neita að tjá sig um það efni, þ.á m. hver hafi hitt Friehe greint sinn eða hvort fíkniefnum hafi verið veitt viðtaka. Ákærði kvaðst þó vilja greina frá því að hann hafi hitt Friehe á Hótel Klöpp við komu til landsins 12. september 2002. Hafi Friehe verið með 1 kg af hassi, sem ákærði hafi ekkert greitt fyrir. Ákærði kvað engan á sínum vegum hafa hitt Friehe við komuna 19. apríl 2002. Kvaðst hann ekki geta sagt til um hvort einhver hafi hitt Friehe við komuna 18. júlí 2002. Að lokum kvaðst ákærði ekki muna hvort hann hafi hitt Friehe við komu til landsins 3. október 2002. Við aðalmeðferð málsins neitaði ákærði fyrir dómi að tjá sig um samskipti sín og Friehe.
Ákærði kvaðst kannast við Schröder, en þeir hafi báðir afplánað dóma í fangelsi á Íslandi á sama tíma. Kvaðst ákærði neita að tjá sig að öðru leyti um hvort fíkniefnatengsl hafi verið á milli sín og Schröder, eftir að Schröder hafi losnað úr fangelsi á Íslandi.
Ákærði kvaðst ekki kannast við Wollet. Kvað hann framburð Wollet í þá veruna rangan og allt er lyti að yfirlýsingum hennar um að hún hafi flutt fíkniefni til Íslands til að afhenda ákærðu.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu kvaðst ákærði þekkja Kuhn frá fyrri tíð. Kvað hann framburð Kuhn í þá veruna að hann hafi flutt fíkniefni til Íslands og afhent ákærðu rangan. Við aðalmeðferð málsins kvaðst hann ekki muna eftir að hafa nokkru sinni hitt Kuhn.
Undir ákærða var borinn miði er lögregla lagði hald á við húsleit að Austurbergi 16 í Reykjavík 8. nóvember 2002, en miðinn er auðkenndur nr. 4 í munaskrá lögreglu. Kvað hann miðann ekki á neinn hátt tengdan fíkniefnaviðskiptum og gaf þá skýringu helsta á tilvist hans að hann tengdist verslun með símavarning. Undir ákærða var borinn miði, sem lögregla lagði hald á í sama skipti að Austurbergi 16. Er miðinn auðkenndur nr. 5 í munaskrá lögreglu. Á miðanum koma fram upplýsingar um fjárhæð, nafn og bankanúmer viðtakanda á Spáni. Ákærði kvað Aðalstein Sigurðsson, að beiðni ákærða, hafa lagt peninga inn á umræddan reikning. Að öðru leyti kvaðst ákærði neita að tjá sig um þá peningasendingu.
Ákærði kvaðst hafa verið með símanúmerið 867-1957. Við yfirheyrslur hjá lögreglu kvaðst hann einnig um tíma hafa verið notandi að farsímanúmerunum 846-2661, 846-2679 og 846-5487. Kvaðst hann ekki muna hvort hann hafi verið með númerið 846-6862. Fyrir ákærða voru spiluð fjölmörg símtöl er lögregla hleraði við rannsókn málsins. Fyrir ákærða voru spiluð þrjú samtöl frá 4. október 2002 í símanúmerið 867-1957. Kvaðst ákærði þar hafa rætt við Friehe í síma. Er fyrir ákærða var spilað samtal frá 5. október 2002 úr símanúmerinu 867-1957 kvaðst hann kannast við sína rödd í því samtali. Ekki kvaðst hann kannast við erlendan viðmælanda sinn. Ákærði kvaðst mótmæla þeim grun lögreglu að viðmælandinn væri Schröder og að samtalið hafi varðað fíkniefnaviðskipti. Er frekari atriði voru borin undir ákærða varðandi samtalið, kvaðst hann neita að tjá sig um efni þess. Er fyrir ákærða var spilað samtal frá 6. október 2002 úr símanúmerinu 867-1957 kvaðst hann kannast við sína rödd í því samtali. Kvaðst hann ekki þekkja erlendan viðmælanda sinn. Fyrir ákærða var spilað samtal frá 8. október 2002 úr símanúmerinu 867-1957. Kvaðst ákærði þekkja sína eigin rödd, en ekki viðmælanda síns. Fyrir ákærða voru spiluð tvö samtöl frá 10. október 2002 úr símanúmerinu 867-1957, þar sem annar aðili er erlendur viðmælandi. Kvaðst ákærði þar í bæði skiptin hafa rætt við Kuhn. Þá var fyrir ákærða spilað annað samtal frá 10. október 2002 úr símanúmerinu 867-1957, en lögregla kvaðst hafa grun um að í samtalinu hafi ákærði rætt við meðákærða. Kvaðst ákærði neita að tjá sig um hverjir hafi verið að ræða saman og um hvaða efni. Fyrir ákærða var spilað samtal frá 11. október 2002 úr símanúmerinu 867-1957. Kvaðst ákærði þar hafa rætt við Kuhn. Fyrir ákærða voru spiluð samtöl frá 12. og 23. október og 2. nóvember 2002 úr símanúmerinu 867-1957. Kvaðst ákærði þar í öll skiptin hafa rætt við meðákærða. Að öðru leyti kvaðst ákærði ekki vilja tjá sig um efni samtalanna. Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins voru spilaðar upptökur af samtölum í síma. Hefur lögregla í einu tilviki ályktað að um væri að ræða samtal ákærða við meðákærða. Er það samtal endurritað á skjali sem merkt er í rannsóknargögnum sem nr. 17.1. bls. 13. Ákærði kvaðst ekki þekkja raddir á hljóðupptökunni.
Vitni
Claus Friehe kvaðst hafa kynnst Schröder í Þýskalandi á árinu 1999, en þeir hafi búið í nágrenni hvor við annan. Í lok árs 2001 hafi Schröder innt Friehe eftir því hvort hann vildi vinna sér inn pening. Kvað Friehe að á þeim tíma hafa staðið illa á hjá sér fjárhagslega og hafi hann m.a. skuldað Schröder fjármuni. Hafi Friehe þá verið kunnugt um að Schröder hefði verið dæmdur í Þýskalandi og Frakklandi vegna fíkniefnaviðskipta. Einnig að Schröder hefði verið handtekinn á Íslandi vegna fíkniefnaviðskipta og verið dæmdur vegna þeirra þar. Af þeim ástæðum hafi Schröder ekki átt þess kost að ferðast til Íslands. Hafi Friehe ákveðið að flytja fyrir Schröder fjármuni milli Íslands og Þýskalands tengda fíkniefnaviðskiptum Schröder á Íslandi. Síðar hafi Friehe ákveðið að flytja fíkniefni til Íslands á vegum Schröder. Hafi Friehe flutt fyrir Schröder fíkniefni í ferðum 8. og 28. mars, 19. apríl, 10. maí, 18. júlí, 12. september og 3. október 2002. Í öllum tilvikum hafi Friehe flogið til Íslands frá Hamborg um Keflavíkurflugvöll. Sami háttur hafi jafnan verið hafður á. Schröder hafi afhent Friehe fíkniefnin í Þýskalandi, en þar hafi Friehe límt þau á líkama sinn. Pakkningarnar sem Schröder hafi afhent Friehe hafi verið mismunandi þungar, stundum 1 kg og stundum 2 kg. Ekki hafi hann opnað þær áður en hann hafi límt þær á líkama sinn. Kvaðst Friehe hafa fengið upplýsingar um það frá Schröder að hann ætti að setja sig í samband við ákærða Davíð Ben við komuna til Íslands. Þó væri það tvíburabróðir hans, ákærði Rúnar Ben, sem stjórnaði fíkniefnaviðskiptunum á Íslandi. Hafi Friehe jafnan hringt í ákærða Davíð Ben við komu til Íslands, sem í kjölfarið hafi nálgast efnin hjá Friehe. Yfirleitt hafi Friehe afhent efnin á því hóteli er hann dveldi hverju sinni. Friehe hafi næsta dag tekið við peningum í íslenskri mynt fyrir fíkniefnin frá ákærða Davíð Ben. Í kjölfarið hafi Friehe skipt íslensku krónunum yfir í evrur, áður en hann fór með fjármunina til Þýskalands. Þar hafi hann hafi afhent þá Schröder.
Friehe kvað Schröder hafa gert honum grein fyrir því að ákærði Davíð Ben myndi taka við fíkniefnunum á Íslandi. Honum hafi ekki orðið ljóst fyrr en eftir handtöku 7. nóvember 2002, að tvíburabróðir ákærða Davíðs Ben hafi komið að móttöku fíkniefnanna á Íslandi á síðari hluta árs 2002. Hann hafi aldrei séð þá bræður saman. Ekki hafi hann afhent efnin öðrum aðilum á Íslandi. Aðspurður kvaðst Friehe hafa fengið uppgefin mismunandi símanúmer sem hann hafi átt að hringja í við komu til Íslands til að ná sambandi við ákærða Davíð Ben. Friehe hafi ávallt hringt í ákærða Davíð Ben úr símanúmerinu 170-2168817. Við aðalmeðferð málsins voru spilaðar fyrir Friehe hljóðupptökur af samtölum úr símahlerunum lögreglu. Kvaðst Friehe þar bera kennsl á samtöl er hann hafi átt við Schröder og að því er hann hafi talið ákærða Davíð Ben.
Wiebke Wollet kvað Schröder hafa leitað eftir því við sig hvort hún væri reiðubúin að flytja fíkniefni til Íslands. Hafi hún lýst sig reiðubúna til þess og í þeim erindagjörðum flogið frá Hamborg í Þýskalandi til Íslands 5. apríl 2002. Með í för hafi verið dóttir hennar 12 ára. Í förinni hafi hún að beiðni Schröder flutt 3 kg af hassi til Íslands. Ekki hafi hún vigtað efnið, en Schröder hafi sagt henni að um væri að ræða 3 kg. Efnið hafi hún sótt til Schröder einhverjum dögum fyrir brottför. Á Íslandi kvaðst Wollet hafa hringt í Schröder og tilkynnt honum að hún væri komin heilu og höldnu til landsins. Jafnframt hafi hún gert honum grein fyrir á hvaða hótelherbergi hún hafi dvalið. Hafi Schröder sagt henni að maður að nafni Davíð myndi koma til að sækja hassið. Það hafi gengið eftir síðar sama kvöld og hafi hún afhent ákærða Davíð Ben allt hassið. Ákærði Davíð Ben hafi komið tvisvar eða þrisvar sinnum á hótelherbergið til Wollet á meðan á dvöl hennar hafi staðið á Íslandi og afhent henni peninga. Fyrir brottför hafi hún skipt þeim yfir í evrur og hafi hún afhent Schröder fjármunina eftir að til Þýskalands hafi verið komið. Wollet kvaðst hafa farið aðra ferð til Íslands á vegum Schröder til að afhenda fíkniefni. Hafi hún aftur flutt 3 kg af hassi. Atburðarás hafi verið sú sama og áður og hafi ákærði Davíð Ben komið og nálgast fíkniefnin hjá Wollet á hótelherbergi hennar. Aftur hafi Wollet flutt fjármuni, sem ákærði Davíð Ben hafi afhent henni, til Schröder í Þýskalandi. Enn hafi hún farið til Íslands með fíkniefni fyrir Schröder. Sú ferð hafi verið farin 19. september 2002, en þá hafi hún einungis flutt 1 kg af hassi. Schröder hafi látið Wollet í té símanúmer er hún skyldi hringja í við komu til landsins. Er hún hafi hringt í það númer hafi viðmælandi hennar virst argur yfir símtalinu og látið henni í té annað símanúmer er hún skyldi hringja í. Í gegnum það símanúmer hafi hún mælt sér mót við manninn á veitingastað. Á veitingastaðinn hafi komið maður er hafi litið út eins og ákærði Davíð Ben, en viðkomandi hafi sagt að hann væri bróðir ákærða Davíðs Ben. Hafi hún afhent manninum, sem hafi kallað sig Rúnar, fíkniefnin. Síðar í ferðinni hafi ákærði Rúnar Ben afhent Wollet fjármuni er hún hafi flutt til Þýskalands og afhent Schröder. Ekki hafi hún átt samskipti við aðra aðila á Íslandi en ákærðu Davíð Ben og Rúnar Ben vegna flutnings á fíkniefnum þangað. Fyrir Wollet voru spiluð samtöl um símanúmerið 867-1957, sem áttu sér stað 27. september 2002. Samtölin eru afrituð í rannsóknargögnum málsins á skjölum nr. 17.1. bls. 3 og 4. Fyrir lögreglu kannaðist Wollet við að hafa þar rætt við ákærða Rúnar Ben. Við yfirheyrslur fyrir dómi kvaðst Wollet muna eftir símtalinu en mjög langt væri síðan það hafi átt sér stað. Kvaðst hún því ekki muna hver hafi verið viðmælandi hennar í símtalinu.
Við yfirheyrslur hjá lögreglu kvaðst Hendrik Kuhn hafa þekkt Schröder lengi. Hafi honum verið kunnugt um að Schröder hefði stundað verslun með fíkniefni, m.a. með því að láta einstaklinga flytja slík efni til Íslands. Í byrjun árs 2002 hafi Schröder nefnt hvort Kuhn væri reiðubúinn að fljúga til Íslands og flytja fjármuni þaðan til Þýskalands. Fjármunina hafi Schröder sagt vera tilkomna vegna fíkniefnaviðskipta. Kuhn hafi farið slíka ferð í fyrsta skipti 17. 19. maí 2002. Tvíburabræðurnir, ákærðu Davíð Ben og Rúnar Ben, hafi síðan afhent Kuhn fjármuni er þeir hafi sagt að tilheyrðu Schröder. Þá hafi hann afhent Schröder við komu til Þýskalands. Um mánuði síðar hafi Schröder innt Kuhn eftir því hvort hann væri reiðubúinn til að flytja fyrir sig fíkniefni til Íslands í húsbíl Kuhn, Mercedes árgerð 1965, með skráningarnúmerið HF-GG-626. Hafi Kuhn lýst sig reiðubúinn til að fara í slíka ferð. Hún hafi verið farin í júní 2002. Í upphafi hafi staðið til að flytja 50 kg af hassi. Schröder hafi bókað ferð fyrir Kuhn með ferju er hafi farið frá Danmörku til Íslands. Schröder hafi verið í fríi um miðjan júní 2002 og hafi Schröder ákveðið að tilgreindur einstaklingur skyldi koma fíkniefnunum til Kuhn. Á brottfarardegi hafi viðkomandi einstaklingur komið með 13 kg af hassi, en því hafi verið komið sérstaklega fyrir í kassa úr blikki sem Kuhn hafi síðan lokað með logsuðu. Eftir viku siglingu hafi Kuhn komið til Íslands. Frá þeim stað er ferjan kom að landi hafi hann ekið til Reykjavíkur. Rétt fyrir utan Reykjavík hafi hann hringt í ákærðu, Davíð Ben og Rúnar Ben, til að mæla sér mót við þá. Hafi þeir sagt honum að aka niður að höfn og að þeir myndu hitta hann þar. Þangað hafi bræðurnir báðir komið og hafi Kuhn fylgt þeim eftir á húsbílnum. Hafi þeir haldið að fjölbýlishúsi í úthverfi Reykjavíkur, en þeir hafi sagt að móðir þeirra væri íbúi í húsinu. Í kjölfarið hafi hann afhent bræðrunum kassann með fíkniefnunum. Um tveim dögum síðar hafi Kuhn hitt þá bræður við Reykjavíkurhöfn á nýjan leik. Þar hafi ákærði Davíð Ben afhent honum fjármuni. Hafi hann hitt ákærða Davíð Ben í nokkur skipti til viðbótar þar sem ákærði Davíð Ben hafi afhent honum peninga. Þeim hafi Kuhn skipt yfir í evrur. Eftir að hafa dvalið á Íslandi í um 10 daga hafi Kuhn ekið aftur austur á land. Ferjuna hafi hann tekið til baka til Danmerkur og þaðan haldið til Þýskalands þar sem hann hafi afhent Schröder fjármuni þá sem hann hafi fengið afhenta á Íslandi.
Aðalsteinn Sigurðsson kvaðst þekkja ákærðu báða frá fyrra fari. Að beiðni ákærða Davíðs Ben, hafi hann á fyrri hluta árs 2002 farið í banka og millifært um 300 -400.000 krónur inn á reikning tiltekins aðila í útlöndum. Á þeim tíma hafi hann verið í mikilli óreglu og neyslu fíkniefna og myndi því lítið eftir atburðum að öðru leyti. Kvaðst hann hafa viðurkennt háttsemi sína hjá lögreglu þar sem hann hafi borið kennsl á undirritun sína, t.a.m. undir gjaldeyrisumsókn er væri í rannsóknargögnum málsins. Ákærði Davíð Ben hafi látið vitnið fá miða með upplýsingum um hvert senda ætti peningana.
Rannsóknarlögreglumennirnir, Sólberg Bjarnason, Kristinn Sigurðsson og Jens Hilmarsson, komu fyrir dóminn. Staðfestu þeir allir þátt sinn í rannsókn málsins og gerðu grein fyrir henni að ákveðnu leyti.
Niðurstaða:
Ákæruefni það er hér er til meðferðar ber að með þeim hætti, að lögregluyfirvöld á Íslandi og í Þýskalandi höfðu á árinu 2002 til rannsóknar umfangsmikil fíkniefnaviðskipti, sem talin voru teygja anga sína víða. Á haustmánuðum 2002 hafði lögreglustjórinn í Reykjavík aflað fjölda rannsóknarúrskurða vegna gruns um að hluti fíkniefnaviðskiptanna færi fram hér á landi. Eftir ábendingu lögregluyfirvalda í Þýskalandi var Iris Regina Kogge handtekin með 947,83 g af hassi við komu til landsins 26. september 2002. Var hún af lögreglu grunuð um að flytja fíkniefni til Íslands fyrir Reinold Schröder, sem búsettur var á þeim tíma í Þýskalandi. Við meðferð málsins játaði Kogge skýlaust sök sína, en neitaði að tjá sig um hvort hún hefði verið að flytja fíkniefni fyrir tiltekna einstaklinga. Í kjölfar handtöku ákærða, Rúnars Ben, og Claus Friehe, við komu þess síðarnefnda til landsins 7. nóvember 2002, gerði Friehe grein fyrir komum sínum til landsins á árinu 2002 og afhendingu fíkniefna til ákærðu. Þær frásagnir leiddu til þess að íslensk lögregluyfirvöld leituðu til yfirvalda í Þýskalandi um samstarf við yfirheyrslur ytra yfir Wiebke Wollet og Hendrik Kuhn, sem ásamt Friehe voru talin hafa flutt fíkniefni til landsins. Mál ákæruvalds byggir að mestu á framburði þessara aðila um afhendingu fíkniefna til ákærðu, fyrir milligöngu Schröder. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2001 var Schröder dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa 14. júní 2001 flutt til landsins 5.0303,97 g af hassi. Játaði Schröder sök sína fyrir dómi. Lögregla hefur ekki lagt hald á fíkniefni úr þeim ferðum er ákæra í þessu máli tilgreinir. Í málinu liggja fyrir upplýsingar frá Flugleiðum um ferðir Friehe og Wollet milli landa, en þær bera með sér að þau hafi komið hingað til lands með flugi í þau skipti er ákæra miðar við. Þá liggur fyrir í gögnum málsins farþegalisti ferjunar Norrænu, sem kom til Seyðisfjarðarhafnar 20. júní 2002. Samkvæmt listanum var Hendrik Kuhn á meðal farþega í þeirri ferð og hafði meðferðis ökutæki af gerðinni Mercedes, með skráningarnúmerið HF-GG-626.
Ákærðu, Davíð Ben og Rúnar Ben, hafa báðir neitað sök í málinu. Bera þeir báðir að framburðir vitna, að því leyti er þeir tengi þá við ólögleg viðskipti með fíkniefni, byggi á tilbúningi sem ekki sé fótur fyrir. Fullyrðingar Friehe um að hann hafi afhent ákærðu fíkniefni við komu til landsins í 7 ferðum á tímabilinu 8. mars til 3. október 2002, séu rangar. Þá séu fullyrðingar Wollet um að hún hafi gert slíkt hið sama í 3 ferðum til landsins á tímabilinu 5. apríl til 19. september 2002 einnig rangar. Enn fremur kannast þeir ekki við að Kuhn hafi afhent þeim fíkniefni, sem hann hefur í skýrslu hjá lögreglu og fyrir dómstólum í Þýskalandi fullyrt að hann hafi gert við komu til landsins í júní 2002. Ákærði Davíð Ben hefur lýst yfir að hann kannist ekki við Schröder að öðru leyti en því að hann hafi farið með honum út að borða en ákærði Rúnar Ben kvaðst hafa afplánað dóm í fangelsi hér á landi á sama tíma og Schröder. Að öðru leyti hafi hann ekki haft nein tengsl við þann mann.
Við mat á sök ákærðu er horft til þess að ákærði Rúnar Ben var með dómi Hæstaréttar 23. október 2003, í málinu nr. 289/2003, sakfelldur fyrir fíkniefnabrot, er hann að kvöldi 7. nóvember 2002 veitti viðtöku fíkniefnum frá Friehe. Er það niðurstaða Hæstaréttar að ákærði hafi þá staðið í fíkniefnaviðskiptum við Schröder sem hafi verið í föstum skorðum. Verður ekki annað ráðið af dómi Hæstaréttar en að þau tengsl hafi verið vegna fíkniefnaviðskipta er hafi staðið yfir í einhvern tíma fyrir 7. nóvember 2002. Friehe hefur með skýlausri játningu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 30. apríl 2004 verið sakfelldur fyrir innflutning fíkniefna til landsins í þeim ferðum og í þeim mæli er ákæra í þessu máli miðar við og að hafa afhent ákærðu fíkniefnin. Í skýrslu er Friehe gaf fyrir héraðsdómi fyrir aðalmeðferð málsins lýsti hann háttsemi sinni á trúverðugan hátt. Enda þótt framburður Friehe hafi tekið breytingum á meðan á lögreglurannsókn stóð hefur hann að mestu verið samhljóða framburði hans fyrir héraðsdómi. Er framburðurinn afdráttarlaus um innflutning fíkniefnanna en hann hefur þó ekki getað fullyrt um nákvæmt magn þeirra. Í því ljósi hefur ákæruvald kosið að miða við neðri mörk þess magns er hann hefur fullyrt að hann hafi flutt til landsins.
Fyrir milligöngu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins leitaði ákæruvaldið eftir því að vitnin Wollet, Kuhn og Schröder kæmu fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Sú umleitan bar ekki árangur og lýstu yfirvöld í Þýskalandi yfir, að Kuhn og Schröder kæmu ekki fyrir dóminn og myndu ekki gefa skýrslu um sakarefnið í gegnum síma. Þá lýsti Wollet yfir að hún væri ekki reiðubúin að koma til Íslands, en hún gæti gefið skýrslu í gegnum síma.
Wollet lýsti fyrir héraðsdómi komum sínum til landsins í apríl og september 2002 og hvernig hún hafi, að fyrirmælum Schröder, afhent ákærðu fíkniefni. Er framburður hennar skýr í því efni og ber einungis að meta m.t.t. þess að hún gaf skýrslu í gegnum síma. Er framburður hennar í samræmi við skýrslu er hún gaf hjá lögreglu í Þýskalandi, að viðstöddum lögreglumönnum Kristni Sigurðssyni og Jens Hilmarssyni. Íslensk lögregluyfirvöld leituðu eftir því við lögreglu í Þýskalandi að tekin yrði skýrsla af Kuhn. Fyrir lögreglu í Þýskalandi hefur Kuhn greint frá komu sinni til Íslands 20. júní 2002 og afhendingu á 13 kg af hassi til ákærðu. Er ferðinni lýst af nákvæmni og ljóst að ekki er á færi annarra en kunnugra að gefa slíka lýsingu á staðháttum. Viðstaddir þá yfirheyrslu voru lögreglumennirnir Kristinn Sigurðsson og Jens Hilmarsson.
Samkvæmt 3. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991 metur dómari hvort framburður vitnis hjá lögreglu eða öðrum rannsóknaraðila hafi sönnunargildi og þá eftir atvikum gildi hans, ef vitnið hefur ekki komið fyrir dóminn og þess hefur ekki verið kostur við meðferð málsins. Ákæruvald hefur án árangurs leitast við að fá vitnin Wollet og Kuhn til að bera um sakarefnið fyrir dómi hér á landi. Í ljósi þess og afstöðu yfirvalda í Þýskalandi er það niðurstaða dómsins, að byggt verði á framangreindu ákvæði 3. mgr. 48. gr., eins og hér háttar til. Verður því um mat á sök ákærðu stuðst við framburði Kuhn og Wollet hjá lögregluyfirvöldum í Þýskalandi, en þeir eru í samræmi við skýlausar játningar þeirra fyrir dómstólum þar í landi.
Í málinu liggja fyrir dómar Landgericht Bielefeld í Þýskalandi og héraðsdómstólanna í Itzehoe-Schöffengericht og í Herford í Þýskalandi, en dómarnir eru allir uppkveðnir á árinu 2003. Er um að ræða dóma yfir áðurnefndum Wollet, Kuhn og Schröder, þar sem þau eru m.a. sakfelld fyrir brotin sem ákært er fyrir í þessu máli. Í framangreindum dómum er tekið sérstaklega fram, að Wollet, Kuhn og Schröder hafi öll lýst atvikum í smáatriðum og á trúverðugan og mótsagnalausan hátt. Þótti t.a.m ekkert benda til að Wollet hafi tekið á sig sök að óréttu. Í þeim tilvikum er þau hafi ekki talið sig getað munað atvik, hafi þau lagt sig fram um að segja rétt frá. Enda þótt þessir framburðir séu ekki gefnir hér fyrir dómi eru dómarnir sönnunargögn sem dómurinn leggur á mat á grundvelli 46. gr. laga nr. 19/1991 um frjálst sönnunarmat. Er fullt samræmi í framburðum þessara einstaklinga og hafa þau með játningum sínum, að því leyti er þær tengjast sakarefni þessa máls, öll játað á sig þungar sakir og verið ákvörðuð refsing með hliðsjón af þeim.
Að mati dómsins eru framburðir ákærðu beggja hjá lögreglu og fyrir dómi misvísandi og í heild ótrúverðugir. Hafa þeir báðir gefið ótrúverðugar skýringar á atvikum og ýmist kannast eða ekki kannast við tiltekin atvik eða aðila. Í yfirheyrslu hjá lögreglu 27. nóvember 2002 hefur ákærði Rúnar Ben kannast við komur Friehe til landsins í flestum þeim ferðum er ákæra miðar við og viðurkennt að Friehe hafi í einni slíkri ferð verið með 1 kg af hassi, sem ákærði ,,hafi ekkert greitt fyrir”. Kvað ákærði einhvern á sínum vegum hafa hitt Friehe við komur til landsins, en ekki vildi hann upplýsa hver sá einstaklingur hafi verið. Yfirlýsingar ákærðu tengdar fjölmörgum símahlerunum lögreglu eru margar ósennilegar og varpa rýrð á trúverðugleika þeirra. Sem dæmi þar um er í nokkrum tilvikum hafið yfir vafa að ákærðu eru að ræða saman í síma. Er slíkar upptökur voru spilaðar fyrir ákærðu í dóminum vildu þeir ekki kannast við eigin raddir úr upptökunum. Eins og áður greinir eru í rannsóknargögnum málsins fjölmargar símahleranir, er lögreglu annaðist á seinni hluta árs 2002. Ekki er ástæða til að rekja efni einstaka símahlerana hér, en þær þykja heildstætt veita vísbendingar um að ákærðu hafi tengst sölu og dreifingu fíkniefna.
Með vísan til þess er hér að framan er rakið er það niðurstaða dómsins, að þau gögn er hann hefur við að styðjast og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan, veiti í heild sinni fullnægjandi grundvöll að sakfellingu ákærðu. Þykja þau þannig slá föstu að fíkniefni hafi á árinu 2002 skipulega verið flutt til landsins frá Þýskalandi og að þau hafi í kjölfarið verið afhent ákærðu sem hafi síðar selt þau. Fíkniefnin hafi Schröder útvegað í Þýskalandi og látið tilgreinda einstaklinga flytja þau til Íslands. Ákærði Rúnar Ben afplánaði fangelsisrefsingu á árinu 2002, en var leystur úr haldi 18. maí það ár. Gögn málsins slá föstu að meðákærði Davíð Ben hafi fram til þess dags annast samskipti við þá einstaklinga er fluttu efni til Íslands og tekið við fíkniefnum úr þeirra fórum. Dóminum þykir fullsannað að ákærðu hafi báðir lagt á ráðin um innflutninginn og skipulagt hann hér á landi með dreifingu og sölu fíkniefnanna. Fær sú niðurstaða m.a. stoð í framburðum vitnanna Friehe, Wollet og Kuhn og yfirlýsingum er Wollet og Kuhn hafa gefið í tengslum við meðferð sinna mála í Þýskalandi. Í þá átt hníga einnig yfirlýsingar sem Schröder hefur gefið í tengslum við meðferð sinna mála í Þýskalandi.
Ákærði Rúnar Ben er einn ákærður fyrir að hafa staðið fyrir innflutningi á alls 27 kg af kannabis til landsins. Varðar það brot hans við 173. gr. a. laga nr. 19/1940. Meðákærði Davíð Ben er hins vegar ákærður fyrir að hafa tekið við 23 kg af fíkniefnunum hér á landi, en ekki fyrir að hafa staðið fyrir innflutningi efna að öðru leyti. Varðar sú háttsemi ákærða einnig við 173. gr. a. laga nr. 19/1940.
Refsingar:
Ákærði Davíð Ben var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 1992 dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Að öðru leyti hefur hann ekki áður sætt refsingum svo kunnugt sé. Brot ákærða í þessu máli eru veruleg, en hann hefur verið sakfelldur fyrir að hafa tekið við 23 kg af kannabis, er síðar hafi verið seld. Með hliðsjón af magni fíkniefnanna og hinum skipulögðu brotum er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 4 ár og 6 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald frá 26. nóvember 2002 til 17. desember 2002, alls 22 dagar.
Ákærði Rúnar Ben á að baki talsverðan brotaferil. Frá árinu 1990 hefur hann margsinnis verið dæmdur, ýmist vegna brota á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni. Að auki hefur hann á þessu tímabili gengist undir sektargreiðslur vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni. Að því er dóma fyrir fíkniefnabrot varðar var hann á árinu 1992 dæmdur í 12 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974. Með dómi héraðsdóms 27. júní 2000 var hann dæmdur í 4 ára fangelsi fyrir brot gegn 173. gr. a. laga nr. 19/1940. Loks var hann með dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti Íslands 23. október 2003, dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir brot gegn 173. gr. a. laga nr. 19/1940. Í þeim dómi var reynslulausn er hann fékk 18. maí 2002 á eftirstöðvum refsingar 480 dögum dæmd með. Ákærði hefur í þessu máli verið sakfelldur fyrir innflutning á 27 kg af kannabis, sem síðan voru seld. Brot þessi eru hegningarauki við dóm Hæstaréttar frá 23. október 2002 og ber því að ákvarða ákærða refsingu með hliðsjón af 78. gr. laga nr. 19/1940. Sakaferil ákærða ber vott um einbeittan brotavilja en hann hefur ítrekað verið dæmdur fyrir brot gegn 173. gr. a. laga nr. 19/1940. Með vísan til þess og þess mikla magns fíkniefna er hann er nú sakfelldur fyrir innflutningi á er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Ákærði var úrskurðaður í gæsluvarðhald á meðan á rannsókn þessa máls stóð. Ákæruvald klauf frá þessu máli brot ákærða 7. nóvember 2002. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2003, sem staðfestur var í Hæstarétti Íslands 23. október 2003, kom gæsluvarðhald það er ákærði sætti undir rannsókn málsins að fullu til frádráttar tildæmdri refsingu hans.
Um málsvarnarlaun og sakarkostnað fer svo sem í dómsorði greinir.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi.
Símon Sigvaldason héraðsdómari sem dómsformaður kvað upp dóminn ásamt meðdómendunum Guðjóni St. Marteinssyni og Sigríði Ólafsdóttur héraðsdómurum.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Davíð Ben Maitsland, sæti fangelsi í 4 ár og 6 mánuði. Til frádráttar refsingu komi 22 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða, frá 26. nóvember til 17. desember 2002.
Ákærði, Rúnar Ben Maitsland, sæti fangelsi í 5 ár.
Ákærði, Davíð Ben, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 400.000 krónur.
Ákærði, Rúnar Ben, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.
Annan sakarkostnað greiði ákærðu sameiginlega.
Sératkvæði Guðjóns St. Marteinssonar
Um lýsingu málavaxta vísa ég til þess sem rakið er að framan.
Ákærðu neita báðir sök. Mikilvæg vitni, sem ákæruvaldið ætlaði að leiða undir aðalmeðferð málsins, fengust ekki til að koma fyrir dóm. Síðar verður vikið að því hvort framburður þessara aðila í Þýskalandi sé tækur sem sönnunargagn í máli þessu.
Ákærða Rúnari Ben er gefið að sök að hafa keypt 27 kg af kannabis af þýskum manni, Reinhold Schröder.
Í ákærunni er því lýst hvernig efnið var flutt hingað til lands og selt. Engin gögn liggja fyrir um það hvað varð um fíkniefnin hér á landi og enginn kaupandi hefur verið yfirheyrður.
Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins um það að ákærðu hafi selt fíkniefnin eins og þeim er gefið að sök í ákærunni.
Ekki liggja fyrir nein gögn um það að fjárráð ákærðu hafi verið slík á þeim tíma, sem í ákæru greinir, að þau gætu gefið vísbendingar eða styrkt grunsemdir ákæruvalds um sölu jafn mikils magns fíkniefna og hér um ræðir.
Eins og rakið var í málavaxtalýsingu voru fjölmörg símtöl hljóðrituð undir rannsókn málsins. Allar fóru hljóðritanirnar fram eftir framningu hinna meintu brota. Ekkert verður með vissu ráðið af efni símtalanna, þótt taka megi undir með meirihluta dómenda um að ákærðu eigi hlut að máli í mörgum símtalanna. Efni símtalanna verður með engu móti spyrt þannig saman við önnur rannsóknargögn málsins, að unnt sé að ráða af þeim að ákærðu hafi framið brot þau, sem þeim eru gefin að sök í ákæru.
Eins og komið hefur fram hlaut ákærði Rúnar Ben dóm fyrir fíkniefnabrot, sbr. Hæstaréttarmálið nr. 289/2003. Það er álit mitt að ekkert annað verði ráðið af þessum dómi Hæstaréttar, en það sem lýtur að sakarefni þess máls, sem þar var dæmt.
Ég tel að ekkert verði með vissu ráðið um meint brot ákærðu af öðrum gögnum málsins, sem lagt var hald á undir rannsókn málsins. Má þar nefna miðann sem vikið er að í áliti meirihluta dómenda, en líkt og símtölin var lagt hald á þessi gögn löngu eftir framningu hinna ætluðu brota. Ákæruvaldið hefur ekki sýnt fram á það hvort og þá hvernig þessi gögn tengist hinum ætluðu brotum.
Samkvæmt því, sem nú hefur verið rakið, tel ég hvorki þau sönnunargögn, sem nú hefur verið vikið að, né önnur sýnileg sönnunargögn, svo sem staðreyndir um komu fólksins, sem í ákæru greinir hingað til lands, duga til sakfellis ákærðu gegn eindreginni neitun þeirra en dóm skal reisa á sönnunargögnum, sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. meginreglu 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991.
Taka má undir með meirihluta dómenda að framburður ákærðu hafi að ýmsu leyti verið óstöðugur og ótrúverðugur en það hefur ekki áhrif á sönnunarbyrði ákæruvaldsins.
Í ákærunni er þremur einstaklingum lýst, sem sagðir eru hafa flutt fíkniefnin hingað til lands í alls ellefu ferðum. Er ákærða Rúnari Ben gefið að sök að hafa keypt öll fíkniefnin af Reinhold Schröder. Einungis Claus Friehe kom fyrir dóminn undir rekstri máls þessa. Þá var tekin skýrsla símleiðis af Wiebke Wollet. Í málinu hafa verið lagðir fram þýskir dómar yfir þeim einstaklingum, sem koma við sögu í ákæru, utan Claus Friehe. Er þessum dómum lýst í niðurstöðum meirihluta dómenda og vísast til þess, sem þar var rakið.
Einsýnt er að lögfull sönnun í máli þessu telst ekki fram komin, nema framburður þessara einstaklinga fyrir dómi í Þýskalandi verði metin eins og meirihluti dómsins gerir. Ég er ósammála þeirri leið og tel hana ófæra eins og hér stendur á af ástæðum sem nú verða raktar.
Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar ber öllum réttlát málsmeðferð, eins og lýst er í ákvæðinu. Þá segir í d-lið, 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli eigi njóta minni réttar en þess, að hann fái að spyrja eða láta spyrja vitni, sem leidd eru gegn honum. Séð skuli um það að vitni, sem bera honum í vil, komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd eru gegn honum. Í þessu felst krafa um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi og að vitni skuli koma fyrir dóm í því máli, þar sem skorið er úr um sekt eða sýknu sakbornings.
Þar sem vitnisburður þessara aðila ræður úrslitum um sekt eða sýknu í málinu, tel ég að vitnisburðurinn sé ekki tækur sem sönnunargagn í máli þessu. Það að meta vitnisburð þessara einstaklinga fyrir dómi í Þýskalandi, eins og meirihluti dómsins gerir, tel ég andstætt meginreglu 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og d-lið 3. mgr., 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og jafnframt andstætt meginreglu 1. mgr., 48. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála og því beri að hafna þessum framburði sem sönnunargagni í málinu.
Claus Friehe var ákærður í þessu máli, en þáttur hans dæmdur sérstaklega. Hann á að baki langan sakarferil í Þýskalandi og hefur hann hlotið 12 dóma fyrir ýmiss konar afbrot. Nemur samanlögð refsivist hans samkvæmt þessum dómum tæplega 10 ára fangelsi. Frá upphafi rannsóknar málsins og fram til þess að hann gaf skýrslu fyrir dómi fyrir aðalmeðferð máls þessa er framburður hans mjög á reiki um ýmislegt, til að mynda framburður hans fyrir dóminum um efnismagn og efnistegund. Þá þekkir hann ákærðu ekki í sundur og er ekki viss um við hvorn þeirra hann átti samskipti í einstök skipti. Vitnisburður Claus Friehe er því að ýmsu leyti ótrúverðugur. Hvorki liggja fyrir næg sýnileg sönnunargögn, né komu önnur vitni fyrir dóminn til að styðja ótrúverðugan vitnisburð Claus Friehe þannig að unnt sé að leggja hann til grundvallar sakfellingu á hendur ákærðu að því er varðar þá þætti ákærunnar, þar sem Claus Friehe kemur við sögu.
Vitnið Wiebke Wollet gaf skýrslu fyrir dóminum símleiðis frá Þýskalandi. Hún og Reinhold Schröder eru ein til frásagnar um hinn meinta fíkniefnainnflutning hennar. Þau eru því bæði mikilvæg vitni í málinu, sem hefðu þurft að koma fyrir dóm. Þessi vitni fengust ekki fyrir dóm af ástæðum sem áður eru raktar og var tekin skýrsla af Wiebke Wollet í síma. Það að hún skyldi ekki koma fyrir dóm rýrir gildi vitnisburðar hennar en hefur ekki úrslitaáhrif enda voru verjendur hinna ákærðu viðstaddir og gátu tryggt hagsmuni sinna skjólstæðinga á þann hátt sem þeim er tryggður að lögum.
Wiebke Wollet er eina vitnið, sem borið hefur fyrir dóminum um ætlaðan fíkniefnainnflutning sinn, eins og honum er lýst í ákærunni. Þau sýnilegu sönnunargögn sem rakin voru eða önnur gögn málsins styðja ekki vitnisburð hennar á þann hátt, gegn neitun ákærðu, að unnt sé að leggja hann til grundvallar, þannig að lögfull sönnun teljist fram komin.
Hvorki Reinhold Schröder né Hendrik Kuhn komu fyrir dóminn. Samkvæmt 3. mgr., 48. gr. oml. skal dómari meta sönnunargildi skýrslna, sem gefnar hafa verið fyrir lögreglu eða öðrum rannsóknaraðila, sé þess ekki kostur að fá vitni fyrir dóm. Vitnin sem ekki tókst að fá fyrir dóm kusu að gefa ekki vitnisburð í málinu, en það var þeim heimilt samkvæmt þýskum lögum að neita að koma fyrir dóm hér á landi. Fjarvera þeirra helgast því ekki af ómöguleika, svo sem af andláti eða að ekki hafi tekist að hafa uppi á þeim. Af þessum sökum liggja aðeins fyrir skýrslur af þessum aðilum sem sakborningum í Þýskalandi. Það að þessi vitni skyldu ekki hafa fengist til að koma fyrir dóm í þessu máli, eins og rakið hefur verið, dregur mjög úr vægi framburðar þeirra, væri á annað borð fært að virða hann sem sönnunargagn í málinu svo sem meirihluti dómenda gerir en ég tel ekki tæka leið eins og rakið var. Þá þykir það ekki ráða úrslitum, eins og hér stendur á við mat þessara vitnisburða, þótt hann hafi verið gefinn fyrir dómi í Þýskalandi, enda augljóst að ekki er unnt að leggja mat á trúverðugleika þessara vitna, nema fá þau fyrir dóm í þessu máli og verður ekki byggt á mati dómara í Þýskalandi um þetta. Þá breytir engu í þessu sambandi þótt íslenskir lögreglumann væru viðstaddir er lögregluskýrsla var tekin af Hendrik Kuhn í Þýskalandi.
Ætluð fíkniefnasamskipti ákærðu og Hendrik Kuhn byggjast nánast að öllu leyti á upplýsingum frá Þýskalandi. Að mínu áliti hefur engin eiginleg sönnunarfærsla farið fram hér fyrir dómi um þessi ætluðu samskipti. Sakarefni á hendur ákærðu að því er varðar ætluð fíkniefnasamskipti ákærðu og Wiebke Wollet og Claus Friehe byggist einkum á frásögn þeirra Wollet og Friehe gegn neitun ákærðu en því er áður lýst að önnur sönnunargögn duga ekki til stuðnings vitnisburði þeirra til að lögfull sönnun teljist fram komin.
Að öllu ofanrituðu virtu, og að öllum öðrum gögnum málsins virtum og með vísan til þess sem sagði um framburð einstaklinga hjá lögreglu og/eða fyrir dómi í Þýskalandi, og gegn eindreginni neitun beggja ákærðu og með vísan til 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er ósannað að ákærðu hafi gerst sekir um háttsemi þá sem í ákæru greinir og ber því að sýkna þá.
Ég er sammála niðurstöðu meirihluta dómsins um málsvarnarlaun, þótt ég telji í samræmi við ofanritað að þau eigi að greiðast úr ríkissjóði.