Hæstiréttur íslands

Mál nr. 301/2012


Lykilorð

  • Málskostnaður
  • Kærumál


                                     

Miðvikudaginn 23. maí 2012.

Nr. 301/2012.

 

Þórir Brynjúlfsson

(sjálfur)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Eiríkur Gunnsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaður.

Með úrskurði héraðsdóms var mál Í hf. á hendur Þ fellt niður og Í hf. gert að greiða Þ málskostnað. Þ krafðist þess að Í hf. yrði gert að greiða sér aðra og hærri fjárhæð í málskostnað. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu hins kærða úrskurðar um málskostnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. apríl 2012 sem barst héraðsdómi 24. sama mánaðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 3. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2012, þar sem mál varnaraðila á hendur sóknaraðila var fellt niður. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verði fellt úr gildi og varnaraðila gert að greiða sér  2.326.330 krónur.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili sundurliðar kröfu sína þannig að í fyrsta lagi séu 500.000 krónur vegna kostnaðar við að halda uppi vörnum og leita réttar síns í máli því sem niður var fellt með hinum kærða úrskurði, í annan stað 1.276.330 krónur að því er virðist vegna þess að bifreið sú sem fjármögnuð var með hinu umdeilda láni hafi fallið í verði meðan ágreiningur aðila var óleystur, í þriðja lagi 500.000 krónur vegna álags á málskostnað með vísan til 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 og loks 50.000 krónur vegna „kærukostnaðar“.

 Til stuðnings fyrsta lið kröfu sinnar vísar sóknaraðili, sem flutti mál sitt sjálfur, meðal annars til vinnu við gagnaöflun, skjalagerð, símkostnaðar og aksturskostnaðar. Sóknaraðili hefur engin gögn fært fram um að kostnaður hans af málinu hafi verið hærri en það sem héraðsdómari mat hæfilegt og verður kröfu um hækkun málskostnaðar því hafnað. Annar liður kröfu sóknaraðila tengist ekki kostnaði sem hann kann að hafa haft af rekstri málsins í héraði og verður því ekki dæmdur í þessu máli. Ekki eru efni til að beita álagi á málskostnað samkvæmt  2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Þórir Brynjúlfsson, greiði varnaraðila,  Íslandsbanka hf., 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2012.

Þetta mál var tekið til úrskurðar 30. mars 2012 um ákvörðun máls­kostn­aðar, samkvæmt 2. mgr. 105. gr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Það er höfðað af Íslandsbanka hf., kt. 491008-0160, Kirkjusandi 2, Reykjavík, með aðfararbeiðni, dagsettri 21. nóvember 2011, á hendur Þóri Brynjúlfssyni, kt. 221061-3069, Rekagranda 8, Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila voru þær að úrskurðað yrði að varnaraðila yrði gert að afhenda sóknaraðila Land Rover Range Rover sport, árgerð 2006, með fastanúmerið PI-801, með beinni aðfarargerð.

Að auki var krafist málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Þetta mál var þingfest 3. febrúar 2012. Hinn 15. febrúar kvað Hæstiréttur upp dóm þar sem talið var að greiðslutilkynningar lánveitanda í því máli og fyrirvaralaus móttaka hans á greiðslum lántaka í samræmi við þær tilkynningar hefðu jafngilt full­naðar­kvittunum. Jafnframt taldi Hæstiréttur það standa lánveitandanum nær en lántakanum að bera þann vaxtamun sem hlaust af ólögmætri gengistryggingu lánsins og að uppgjör vegna rangs lagaskilnings aðila, sem lá til grundvallar lögskiptum aðila þess máls, yrði í uppgjöri einungis leiðréttur til framtíðar.

 Vegna þessa dóms Hæstaréttar óskaði sóknaraðili eftir því að fresta þessu máli í því skyni að hann gæti lagt fram endurbætta útreikninga á vanskilum varnaraðila. Á dóm­þingi 30. mars sl. óskaði sóknaraðili eftir að fella málið niður. Varnar­aðili krafðist þá máls­kostn­aðar úr hendi sóknaraðila og var málið tekið til úrskurðar um þá kröfu.

Með vísan til c-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, ber að fella þetta mál niður.

 Með vísan til 2. mgr. 105. gr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, ber að dæma sóknaraðila til að greiða varnaraðila málskostnað. Við ákvörðun fjárhæðar hans verður meðal annars litið til þess að varnaraðili hafði skilað greinargerð þegar sóknaraðili óskaði eftir að fella málið niður, svo og þess að varnaraðili flutti mál sitt sjálfur en naut ekki aðstoðar lög­manns. Þegar málið er virt í heild sinni, meðferð þess og umfang, og áætlaður útlagður kostnaður varnaraðila, þykir hæfilegt að sóknaraðili greiði varnaraðila 100.000 krónur í máls­kostnað.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Þetta mál er fellt niður.

Sóknaraðili, Íslandsbanki hf., greiði varnaraðila, Þóri Brynjúlfssyni, 100.000 krónur í málskostnað.