Hæstiréttur íslands
Mál nr. 209/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Lögreglurannsókn
- Gagnaöflun
- Upplýsingaskylda
- Sératkvæði
|
|
Þriðjudaginn 16. maí 2006. |
|
Nr. 209/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn IP-fjarskiptum ehf. (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
Kærumál. Lögreglurannsókn. Gagnaöflun. Upplýsingaskylda. Sératkvæði.
L krafði I um upplýsingar um hverjir hefðu verið notendur tilgreinds vistfangs (IP-tölu) í tvö nánar tilgreind skipti. Var krafan sett fram á grundvelli heimildar í 3. mgr. 47. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti, eins og henni var breytt með 9. gr. laga nr. 78/2005, en ákvæðið mælir fyrir um skyldu fjarskiptafyrirtækja að láta slíkar upplýsingar af hendi án dómsúrskurðar í þágu rannsóknar opinbers máls. I hafnaði kröfunni á þeirri forsendu að lagaákvæðið bryti gegn 71. gr. stjórnarskrárinnar og krafðist L þá dómsúrskurðar og féllst héraðsdómur á kröfu L með hinum kærða úrskurði, en I var ekki gefið færi á að gæta hagsmuna sinna fyrir héraðsdómi. Byggði hann á því í fyrsta lagi að það stríddi gegn 1. og 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar að skylda fjarskiptafyrirtæki til að láta slíkar upplýsingar af hendi, í öðru lagi að væri það talið heimilt væri allt að einu skylt að áskilja dómsúrskurð áður en slík skylda yrði í tilteknu tilviki lögð á fjarskiptafyrirtæki og í þriðja lagi að gefa hefði þurft I kost á að gæta hagsmuna sinna við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Ekki var talið að efnisleg skilyrði 3. mgr. 47. gr. laga nr. 81/2003 færu gegn 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þá var talið að ekki yrði skorið úr um það í málinu hvort það stæðist að leggja framangreinda skyldu á fjarskiptafyrirtæki án dómsúrskurðar þar sem úrlausn um það álitamál fæli í sér lögspurningu og væri því í andstöðu við meginreglu 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Með vísan til forsendna dóms Hæstaréttar 15. febrúar 2006 í máli nr. 59/2006 var því hafnað að skylt hefði verið að gefa I færi á að gæta réttar síns við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Var krafa L því tekin til greina og I gert að veita L umkrafðar upplýsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2006, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að láta sér í té upplýsingar um hverjir hafi verið notendur tilgreinds vistfangs (IP-tölu) klukkan 22:53 og klukkan 22:58 þann 12. febrúar 2006. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að framangreindri kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Kröfu sína frávísun málsins frá Hæstarétti byggir sóknaraðili á því að kæra varnaraðila hafi borist héraðsdómi að loknum kærufresti. Í málinu liggur fyrir bréf héraðsdómara til lögmanns varnaraðila 10. apríl 2006, þar sem lögmanninum er kynnt niðurstaða hins kærða úrskurðar. Byggir varnaraðili á að honum hafi fyrst þá orðið kunnugt um úrskurðinn. Kæra hans er dagsett 12. apríl 2006 og árituð um móttöku hjá Héraðsdómi Reykjavíkur sama dag. Verður við það að miða að kæra hans hafi borist héraðsdómi innan þess frests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991, enda liggur fyrir að honum var ekki gefinn kostur á að sækja þing við meðferð málsins fyrir héraðsdómi.
Í 3. mgr. 47. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti er kveðið svo á að ekki megi án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti, önnur skjöl eða annála um sendingar sem um fjarskiptavirki fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Fjarskiptafyrirtæki sé þó rétt og skylt að veita lögreglu, í þágu rannsóknar opinbers máls, upplýsingar um hver sé skráður eigandi ákveðins símanúmers og/eða eigandi eða notandi vistfangs (IP-tölu). Þessari undanþágu frá því að dómsúrskurðar sé þörf var bætt í lögin með 9. gr. laga nr. 78/2005 en með 7. gr. sömu laga var gerð breyting á 3. mgr. 42. gr. laga nr. 81/2003 varðandi skyldu fjarskiptafyrirtækja, í þágu rannsókna opinberra mála og almannaöryggis, til að varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda. Skilja verður málflutning varnaraðila svo, að hann telji það brjóta gegn ákvæðum 1. og 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs að skylda fjarskiptafyrirtæki til að láta lögreglu í té upplýsingar um þessi efni. Sé það talið heimilt sé allt að einu skylt að áskilja dómsúrskurð, áður en slík skylda í tilteknu falli verði lögð á fjarskiptafyrirtæki. Loks byggir hann kröfu sína á að skylt hafi verið að gefa honum kost á að gæta hagsmuna sinna við meðferð málsins fyrir héraðsdómi. Bendir hann á að hann hafi með bréfi til sóknaraðila 31. mars 2006 synjað kröfu um upplýsingar og því hafi legið ljóst fyrir að hann vildi láta málið til sín taka, þegar dómsúrskurðar yrði leitað.
Í 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár segir meðal annars að ekki megi gera tilgreindar rannsóknir sem skerða friðhelgi einkalífs nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Eigi það sama við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns. Eins og að framan er rakið er það samkvæmt 3. mgr. 47. gr. laga nr. 81/2003 með síðari breytingum efnisskilyrði fyrir því að fjarskiptafyrirtæki sé skylt að veita lögreglu upplýsingar um hver sé skráður eigandi eða notandi vistfangs að slíkra upplýsinga sé beiðst í þágu rannsóknar opinbers máls. Sóknaraðili krafðist fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að forsvarsmönnum varnaraðila yrði með úrskurði gert skylt að veita nánar tilteknar upplýsingar um notendur vistfangs í tveimur tilvikum. Féllst héraðsdómari á þá beiðni með hinum kærða úrskurði. Framangreind efnisskilyrði 3. mgr. 47. gr. laga nr. 81/2003 fara ekki í bága við 71. gr. stjórnarskrár og hafa að geyma skýra lagaheimild fyrir lögreglu til að krefjast umbeðinna upplýsinga. Sóknaraðili leitaði eftir dómsúrskurði fyrir aðgerðum sínum og verður Hæstiréttur ekki krafinn álits á því hvort aðgangur að umræddum upplýsingum hefði verið lögreglu heimill án dómsúrskurðar, sbr. 75. gr. laga nr. 19/1991 og einnig meginreglu 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varnaraðili ber fyrir sig að skylt hafi verið að gefa honum kost á að gæta réttar síns fyrir héraðsdómi sem ekki var gert. Á sama álitaefni reyndi í dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2006 í máli nr. 59/2006. Með vísan til forsendna Hæstaréttar í því máli verður ekki fallist á þessa málsástæðu varnaraðila.
Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Varnaraðila, IP-fjarskiptum ehf., er skylt að veita sóknaraðila, lögreglustjóranum í Reykjavík, upplýsingar um hverjir voru notendur vistfangsins 85.197.217.68 þann 12. febrúar 2006 kl. 22.53 og 22.58.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar og
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Við erum sammála niðurstöðu og dómsorði meirihluta dómenda og forsendum aftur að 6. málsgrein í atkvæði meirihlutans. Í stað þess sem þar kemur á eftir teljum við rétt að forsendur hljóði svo:
Í 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár segir meðal annars að ekki megi gera tilgreindar rannsóknir sem skerða friðhelgi einkalífs nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Eigi það sama við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns. Upplýsingar um þau atriði sem krafa sóknaraðila beinist að, það er að segja hverjir verið hafi notendur tiltekins vistfangs (IP-tölu), eru þess eðlis að þær hljóta almennt að teljast fela í sér smávægilega skerðingu á friðhelgi einkalífs þess eða þeirra einstaklinga sem í hlut eiga enda er ekki um að ræða upplýsingar um innihald fjarskiptanna. Krafa sóknaraðila lýtur þar að auki aðeins að tveimur ákveðnum tímasettum tilvikum og upplýsinganna er leitað í þágu tilgreindrar opinberrar rannsóknar. Í fyrrgreindu ákvæði 3. mgr. 47. gr. laga nr. 81/2003, eftir breytinguna með lögum nr. 78/2005, er einmitt kveðið á um að víkja megi frá meginreglu ákvæðisins um að dómsúrskurðar sé þörf til að fjarskiptafyrirtæki sé skylt að veita lögreglu upplýsingar, þegar upplýsinga er leitað í þágu slíkrar rannsóknar. Verður ekki fallist á með varnaraðila, að það fari gegn 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrár að veita með lögum lögreglu aðgang að upplýsingum af því tagi sem málið greinir og ekki heldur að kveða svo á að þeirra megi afla án dómsúrskurðar.
Samkvæmt framansögðu var varnaraðila skylt að láta sóknaraðila umbeðnar upplýsingar í té, þegar sóknaraðili óskaði þeirra með bréfi 29. mars 2006. Þó að sóknaraðili hafi vegna synjunar varnaraðila ákveðið að leita dómsúrskurðar um skyldu hans í þessu efni, verður ekki fallist á að við það hafi hann öðlast sérstakan rétt til að taka til varna fyrir dómi um kröfuna.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík krefst þess að forsvarsmönnum IP-fjarskipta ehf., [kt.], verði með úrskurði gert skylt að veita lögreglunni upplýsingar um hverjir voru notendur eftirtalinna vistfanga á nefndum tíma:
-85.197.217.68 þann 12. febrúar 2006 kl. 22:58 og sömu IP-tölu 12. febrúar 2006 kl. 22:53.
Í greinargerð lögreglunnar í Reykjavík kemur fram að þann 20. mars sl. hafi A, [kt.], kært til lögreglu óheimila millifærslu á 1.800.000 kr. af bankareikningi sínum nr. [...]. Umrædd millifærsla hafi verið framkvæmd rafrænt í netbanka inn á reikning B, [kt.], mál nr. [...]. Sama dag hafi C kært til lögreglu tilraun til millifærslu af reikningi sínum í netbanka Íslandsbanka, mál nr. [...]. Kannaðist hann ekki við það vistfang sem notað var við tilraunina. Við athugun á vistfangaskráningum í netbönkum A og C kom í ljós að vistfang frá Íslandspósti hafði verið notað við innskráningu á reikninga þeirra þann 2. nóvember sl. Könnuðust bæði A og C við að hafa skráð sig inn á netbanka sína þann dag í tölvu Íslandspósts í tollafgreiðslu fyrirtækisins að Stórhöfða 42 í Reykjavík.
Mikilvægt sé í þágu rannsóknar málsins að upplýsa hver tengdist bankareikningi nr. [...] á greindum tímum.
Sakarefnið getur varðað refsingu samkvæmt 244. gr.almennra hegningarlaga.
Um heimild til rannsóknaraðgerðar er vísað til b-liðar 86. gr., sbr. 87. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sbr. 6. gr. laga nr. 86/2004 og 3. mgr. 47. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003. Í niðurlagi þeirrar málsgreinar segi að fjarskiptafyrirtæki sé rétt og skylt að veita lögreglu í þágu rannsóknar opinbers máls, upplýsingar um hver sé skráður eigandi ákveðins símanúmers og/eða eigandi eða notandi vistfangs (IP-tölu), sbr. 9. gr. laga nr. 78/2005.
Með vísan til framangreinds er fullnægt skilyrðum 87. gr. laga um meðferð opinberra mála, sbr. b-lið 86. gr. sömu laga til að veita lögreglu heimild til umbeðinna aðgerða eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Forsvarsmönnum IP-fjarskipta ehf., [kt.], er gert skylt að veita lögreglunni upplýsingar um hverjir voru notendur eftirtalinna vistfanga á nefndum tíma: -85.197.217.68 þann 12. febrúar 2006 kl. 22:58 og sömu IP-tölu 12. febrúar 2006 kl. 22:53.