Hæstiréttur íslands
Mál nr. 200/2001
Lykilorð
- Peningaþvætti
- Ávana- og fíkniefni
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 8. nóvember 2001. |
|
Nr. 200/2001. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Bjarka Þór Hilmarssyni (Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) |
Peningaþvætti. Ávana- og fíkniefni. Aðfinnslur.
B var sakfelldur fyrir peningaþvætti samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa á rúmlega tveggja ára tímabili, í 66 skipti, tekið við samtals 12.106.500 krónum frá S og skipt þessum peningum fyrir S í erlenda mynt í íslenskum peningastofnunum, enda þótt hann vissi að peningarnir væru afrakstur S af fíkniefnasölu hans og að S hyggðist nota þá til frekari fíkniefnakaupa í útlöndum. Refsing B þótti hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi. Átalið var að rannsókn málsins hjá lögreglu fyrir útgáfu ákæru hefði ekki verið sem skyldi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Rikissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. maí 2001 og krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða, en þyngingar á refsingu hans.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara, að refsing hans verði verulega milduð og skilorðsbundin.
I.
Frumrannsókn máls þessa hófst af hálfu efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í nóvember 1999. Var ákærði yfirheyrður 9. desember 1999 að viðstöddum verjanda sínum. Honum voru þá kynnt gögn frá skattrannsóknarstjóra varðandi tekjur sínar árin 1997-1999. Jafnframt var honum kynnt að gjaldeyrisviðskipti í hans nafni hefðu verið könnuð, en niðurstaða þeirrar athugunar hefði verið sú, að frá 12. maí 1997 til 26. maí 1999 hefði hann keypt erlendan gjaldeyri í 68 skipti fyrir samtals 12.168.700 krónur samkvæmt yfirliti efnahagsbrotadeildar, sem lá frammi við yfirheyrsluna. Síðan segir í skýrslunni að ákærði hafi verið spurður, „eftir að honum hafa verið kynnt þau gögn er liggja að baki framangreindrar samantektar, hvort hann staðfesti að hafa gert þau viðskipti sem samantektin vísar til.“ Kvaðst hann staðfesta að hafa keypt umræddan gjaldeyri. Af hálfu verjanda ákærða var hins vegar fullyrt í málflutningi fyrir Hæstarétti, ómótmælt af hálfu ákæruvalds, að engin undirgögn hafi á þessum tíma legið fyrir með umræddu yfirliti, sem unnið hafði verið eftir upplýsingum frá Seðlabanka Íslands. Ber málið heldur ekki með sér að þessi gögn hafi legið fyrir, heldur þvert á móti, að þeirra hafi verið aflað síðar og voru þau ekki lögð fram með ákæru málsins við þingfestingu þess. Var þeirra aflað undir meðferð málsins í héraði, einkum eftir endurupptöku þess.
Auk ákærða var yfirheyrt við frumrannsóknina eitt vitni, sem tekið hafði við peningasendingu frá ákærða til Spánar. Sverrir Þór Gunnarsson, sem ákærði sagði í skýrslu sinni að hefði beðið sig um að kaupa mest allan umræddan gjaldeyri, var aldrei yfirheyrður við rannsókn þessa og lá ekkert fyrir um afstöðu hans til fullyrðingar ákærða við útgáfu ákæru.
Átelja verður þá rannsóknarhætti, sem hér voru viðhafðir og voru til þess fallnir að torvelda meðferð málsins fyrir dómi. Þar sem úr þessu var bætt undir meðferðinni og ekki verður talið að það hafi háð vörn af hálfu ákærða, eru ekki næg efni til að vísa málinu ex officio frá héraðsdómi.
II.
Ákærði bar þegar við upphaf rannsóknar og við aðalmeðferð málsins að hann hefði keypt umræddan gjaldeyri fyrir Sverri Þór Gunnarsson. Eftir að Sverrir Þór hafði komið fyrir dóm og neitað þessu að verulegu leyti dró ákærði í land og kvað hugsanlegt að hann hefði keypt eitthvað fyrir aðra. Héraðsdómur taldi hinn nýja framburð ákærða ótrúverðugan og hafnaði honum. Hefur ekkert komið fram, sem gefur tilefni til að ætla að það mat orki tvímælis. Þá er og staðfest niðurstaða héraðsdóms um þann framburð ákærða að hann hafi ekki skrifað undir allar þær umsóknir um gjaldeyri, sem frammi liggja í málinu.
Af hálfu ákærða er fyrir Hæstarétti einnig vísað til þess, að ekki liggi fyrir umsóknir hans í öllum þeim tilvikum, þar sem fyrir liggja kaupnótur banka með nafni hans. Á síðustu árum þekkist það í bönkum, að ekki sé ætíð krafist sérstakrar umsóknar í slíkum viðskiptum. Þegar litið er til þessa og framburðar ákærða hjá lögreglu og fyrir dómi áður en til endurupptöku málsins kom, þykir ekki varhugavert að telja sannað að hann hafi keypt þann erlenda gjaldeyri, sem kaupnótur, stílaðar á nafn hans, bera með sér.
Í héraðsdómi var talið sannað að ákærði hafi skipt samtals 12.069.000 krónum í erlenda mynt í 61 skipti fyrir Sverri Þór Gunnarsson á tímabili því, sem ákæra málsins tekur til. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti hefur verjandi ákærða krafist þess að dregið verði frá þessari fjárhæð andvirði peningasendinga ákærða með fyrirtækinu Western Union, samtals að fjárhæð 1.094.000 krónur. Falli þessar sendingar ekki undir verknaðarlýsingu ákæru um skipti á peningum í erlendan gjaldeyri, enda hafi verið um íslenska peninga að ræða. Fyrir liggja í málinu eyðublöð þau, sem ákærði útfyllti með sendingum þessum. Samkvæmt skilmálum á bakhlið slíkra eyðublaða verða viðeigandi peningasendingar greiddar í gjaldeyri viðtökulands á því gengi, sem í gildi er, þegar greiðsla fer fram. Að þessu athuguðu verður ekki fallist á ofangreinda kröfu.
III.
Í héraðsdómi er ítarlega fjallað um ákvæði 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og henni var breytt með lögum nr. 10/1997, forsögu ákvæðisins og tilgang. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar bakar sá maður sér refsingu, eins og þar er fyrir mælt, sem tekur við eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti samkvæmt almennum hegningarlögum. Einnig sá, sem geymir eða flytur slíkan ávinning, aðstoðar við afhendingu hans eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti. Samkvæmt 2. mgr. varðar það þyngri refsingu ef um ræðir ávinning af broti samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga.
Af hálfu ákæruvalds var tekið fram við málflutning fyrir Hæstarétti að fallist væri á niðurstöðu meirihluta héraðsdómara um að sú brotalýsing í ákæru, að ákærði hafi vitað, að Sverrir Þór hygðist nota umrætt fé til frekari fíkniefnakaupa í útlöndum, falli ekki undir 264. gr. almennra hegningarlaga, að öðru leyti en því sem háttsemin kunni að hafa stuðlað að því að ávinningur nýttist til áframhaldandi brotastarfsemi. Eru samkvæmt því ekki efni til frekari umfjöllunar um þessa niðurstöðu, sem fallist er á.
Telja verður sannað með skírskotun til forsendna héraðsdóms, að fé það, sem ákærði tók við af Sverri Þór Gunnarssyni á árunum 1998 og 1999 og skipti fyrir hann í erlendan gjaldeyri, hafi verið afrakstur af stórfelldri fíkniefnasölu hins síðarnefnda og þetta hafi ákærða verið ljóst, þannig að það atferli hans verði heimfært til 1., sbr. 2. mgr., 264. gr. almennra hegningarlaga. Til álita er, hvort kaup ákærða á gjaldeyri á árinu 1997 verði virt sem hluti brotastarfsemi hans á þessu sviði og felld undir ofangreind hegningarlagaákvæði í ljósi þess, að með dómi Hæstaréttar 22. febrúar 2001 var Sverrir Þór dæmdur fyrir stórfellt fíkniefnamisferli á árunum 1998 og 1999, en ekki 1997. Námu framangreind kaup ákærða á erlendum gjaldeyri á árinu 1997 samtals 3.193.400 krónum.
Í 1. mgr. 264. gr. hegningarlaganna er áskilið að um ávinning sé að ræða af broti samkvæmt þeim lögum. Þegar litið er til eðlis og tilgangs ákvæðisins þykir hins vegar ekki verða gerð sú krafa, að fyrir liggi, hvaða brot sé nákvæmlega um að ræða. Verður að meta í ljósi atvika hverju sinni, hvort sýnt sé nægilega fram á að ávinningur sé ekki af lögmætum toga, heldur stafi hann frá broti á lögunum. Í þessu máli ber að líta til þess að engar haldbærar skýringar hafa komið fram af hálfu ákærða á umræddum kaupum hans á gjaldeyri á þessum tíma. Til kaupanna var varið ríflega sexfalt hærri fjárhæð en sem nam tekjum ákærða umrætt ár. Sú staðreynd, að Sverrir Þór stóð ekki sjálfur að þessum kaupum, heldur fékk til þess liðsinni ákærða, hlýtur að vekja verulegar grunsemdir, einkum þegar litið er til sams konar athafna á árunum 1998 og 1999. Í ljósi þessa verður að telja hafið yfir skynsamlegan vafa, að umrædd kaup ákærða á erlendum gjaldeyri á árinu 1997 hafi verið af sama toga og þau, sem hann hélt áfram á árunum 1998 og 1999. Verður atferli ákærða á því tímabili, sem tiltekið er í ákæru, því virt í heild sem framhaldsbrot, eins og gert er í héraðsdómi.
Að framansögðu virtu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um sakfellingu ákærða staðfest.
Þegar litið er til umfangs brota ákærða, sem framin voru í samfellu á tveggja ára tímabili, svo og með hliðsjón af öðrum þeim atriðum, sem héraðsdómur byggði refsiákvörðun á, þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest og dæma ber ákærða til greiðslu áfrýjunarkostnaðar, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Bjarki Þór Hilmarsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Róberts Árna Hreiðarssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2001.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag að loknum endurflutningi, er höfðað með ákæru útgefinni af Ríkislögreglustjóra hinn 22. maí 2000 á hendur Bjarka Þór Hilmarssyni, Flókagötu 63, Reykjavík, kt. 101172-5039, „fyrir peningaþvætti með því að hafa á tímabilinu frá 12. maí 1997 til 26. maí 1999, í 66 skipti, tekið við samtals 12.106.500 krónum frá Sverri Þór Gunnarssyni, kt. 220572-4719 og að hafa skipt þessum peningum fyrir Sverri Þór í erlenda mynt í íslenskum peningastofnunum, en ákærði vissi að peningarnir voru afrakstur Sverris Þórs af fíkniefnasölu hans og að Sverrir Þór hugðist nota þá til frekari fíkniefnakaupa í útlöndum.”
Telur ákæruvaldið þessa háttsemi varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997 og 141. gr. laga nr. 82/1998.
Sækjandi krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu ákærða er þess krafist aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og sakarkostnaður felldur á ríkissjóð, en til vara að ákærði verði einungis dæmdur til vægustu refsingar sem lög frekast heimila. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegra málsvarnarlauna samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Aðalmeðferð máls þessa fór fram 18. janúar sl. Samhliða voru flutt þrjú önnur mál, sem öll fjalla um peningaþvætti á ávinningi af fíkniefnum, en þó með ólíkum verknaðarlýsingum, og öll tengdust sakamáli nr. 774/2000 sem dæmt hafði verið í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. júní 2000 og áfrýjað að hluta til Hæstaréttar. Þegar leið að dómsuppsögu hafði dómsuppkvaðningardagur hæstaréttarmáls nr. 312/2000 verið ákveðinn. Dómur var kveðinn upp í Hæstarétti 22. febrúar 2001. Það var álit dómsins og einnig a.m.k. sumra verjenda að eðlilegt væri að niðurstaða Hæstaréttar lægi fyrir áður en dómur gengi í peningaþvættismálunum og að verjendum væri gefinn kostur á að tjá sig í ljósi hennar. Meðal annars lýsti verjandi ákærða í þessu máli því yfir við munnlegan málflutning að ekki væri hægt að dæma málið nema að hæstaréttardómurinn lægi fyrir. Var ákveðið að endurupptaka öll málin. Mál þetta var endurupptekið 30. mars sl. og hafði endurupptaka þess þá ítrekað dregist vegna ástæðna sem tilgreindar eru í þingbók. Mótmælti verjandi nú endurupptökunni og taldi hana ekki lögmæta. Niðurstaða dómsins um þetta atriði er að endurupptaka málsins sé í fullu samræmi við 131. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Auk þess að eðlilegt hafi verið að gefa aðilum kost á að kynna sér hæstaréttardóm í máli nr. 312/2000 og tjá sig um atriði þar, sem bein áhrif kynnu að hafa á niðurstöðu þessa máls. Þá var málatilbúnaði ákæruvaldsins áfátt að því leyti að ekki höfðu verið lögð fram nein undirgögn vegna þeirra gjaldeyrisviðskipta ákærða sem málið snýst um og ákærði hefur játað né heldur þeir rannsóknarúrskurðir sem upplýsingaöflun um þau gjaldeyrisviðskipti hans var grundvölluð á. Samkvæmt ábendingu dómsins lagði sækjandi þessi gögn fram við endurupptöku málsins. Ákærði var ekki mættur til þinghaldsins, höfðu tilraunir sækjanda til að boða hann ekki borið árangur og verjandi kvaðst ekki vera í neinu sambandi við hann. Var sækjanda veittur stuttur frestur til að finna ákærða sem leiddi í ljós að hann var staddur í Danmörku. Var málinu þá frestað til dagsins í dag svo ákærða gæfist kostur á mæta. Hin nýju gögn eru í grundvallaratriðum í samræmi við það sem áður er komið fram og framburð ákærða. Tekið hefur verið tillit til ósamræmis til hagsbóta fyrir ákærða. Málið var flutt að nýju og dómtekið.
Málavextir
Upphaf máls þessa má rekja til þess að í september 1999 voru margir menn handteknir og í framhaldi af því ákærðir fyrir stórfelldan innflutning og sölu fíkniefna hér á landi. Við frumrannsókn þess máls var Seðlabanka Íslands gert skylt með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 2. júní 1999 að upplýsa lögreglu um gjaldeyriskaup fjölmargra aðila, þar á meðal ákærða Bjarka Þórs. Hinn 13. september 1999 beindi embætti lögreglunnar í Reykjavík því til embættis Ríkislögreglustjóra að rannsakað yrði hugsanlegt peningaþvætti og fleiri efnahagsbrot í tengslum við málið. Hinn 24. september 1999 var kveðinn upp annar úrskurður þar sem Seðlabanka Íslands var gert skylt að láta efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra í té upplýsingar um kaup nafngreindra aðila, þar á meðal ákærða, á erlendum gjaldeyri tímabilið 1. janúar 1997 til 23. september 1999. Meðal gagna málsins er tölvuútskrift frá Seðlabanka Íslands um gjaldeyriskaup skráð á ákærða frá og með 12. maí 1997 til og með 26. maí 1999, tilgreindar eru dagsetningar, fjárhæðir og viðkomandi bankastofnanir vegna kaupa í 68 skipti fyrir samtals 12.168.700 krónur. Þá liggja frammi kvittanir frá fyrirtækinu Western Union Money Transfer, sem staðfesta að ákærði hefur í samtals fimm skipti sent gjaldeyri fjórum nafngreindum aðilum. Lögregla yfirheyrði ákærða í desember 1999 vegna grunsemda um fíkniefnamisferli, peningaþvætti o.fl. Gögn frá Skattrannsóknarstjóra um tekjur ákærða árin 1996 til og með 1999 sýna að hann hefur öll árin notið félagslegrar aðstoðar og einungis árið 1997 hafði hann aðrar tekjur sem voru 60.000 krónur.
Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóminn ákærði, Bjarki Þór Hilmarsson, og tvö vitni, Sverrir Þór Gunnarsson og Grímur Thorarensen.
Þegar ákæra var kynnt ákærða Bjarka Þór Hilmarssyni fyrir dómi kannaðist hann við að hafa farið margar ferðir í banka til að skipta peningum fyrir Sverri Þór Gunnarsson, en kvaðst ekki geta staðfest hvort það hefði verið í 66 skipti eins og í ákæru greinir, einnig kvaðst hann ekki geta staðfest þá heildarfjárhæð sem hann er talinn hafa skipt, 12.106.500 krónur. Hann tók fram að tilgreind kaup á dönskum krónum á framlögðum lista yfir gjaldeyriskaup hans væru gerð fyrir hans eigið fé og hefði hann sent þær barnsmóður sinni og syni sem búa í Danmörku. Hann neitaði að hafa haft vitneskju um að þeir peningar sem hann skipti fyrir Sverri Þór væru afrakstur fíkniefnasölu eða um það til hvers ætti að nota þá, en kvaðst hafa talið það vera til bíla- og fasteignakaupa erlendis.
Við aðalmeðferð málsins skýrði ákærði svo frá að hann hefði á því tímabili, sem um getur í ákæru, haft milligöngu um að skipta íslenskum peningum í erlenda mynt og að senda peninga til útlanda. Kvaðst hann sem fyrr hafa gert þetta að beiðni Sverris Þórs Gunnarssonar æskufélaga síns og enga greiðslu hafa þegið fyrir. Enginn samningur hefði verið þeirra á milli um þessar ferðir. Sverrir Þór hefði haft samband við hann í sérhvert sinn og afhent honum íslenska peninga og beðið hann um að fara í banka og kaupa tiltekinn gjaldeyri, sem hann hefði gert og síðan afhent Sverri Þór gjaldeyrinn. Einnig hefði komið fyrir að hann hefði tekið við peningum frá Sverri Þór og sent þá til tilgreindra aðila erlendis. Ákærði kvaðst hafa gert þetta oft en ekki geta tilgreint nákvæmlega hversu oft. Hann vefengdi ekki að tilvikin hefðu verið um það bil 60. Kvaðst hann hafa álitið peningaskipti þessi tengjast innflutningi Sverris Þórs á bifreiðum og taldi líka að Sverrir væri að kaupa íbúðir erlendis. Ákærði kvaðst þó aldrei hafa spurt Sverri Þór um tilgang þessara gjaldeyriskaupa og Sverrir hefði heldur ekki gefið sér neinar skýringar. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað um hagi Sverris Þórs á þessu tímabili, en þó hafa vitað að hann hefði verið í íbúðabraski og unnið við viðgerðir á húsum. Ákærði kvaðst raunar ekki hafa haft mikið samband við Sverri Þór fyrir utan það sem hér um ræðir. Fram kom að hann hefði einu sinni séð hann í vinnu við húsaviðgerðir í vesturbænum. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvort Sverrir Þór væri í óreglu.
Ákærði gerði þær athugasemdir við framlögð gögn lögreglu um gjaldeyriskaup sín, að í nokkur skipti hefði verið um að ræða kaup á dönskum krónum sem hefðu verið frá sér persónulega til barnsmóður sinnar og sonar sem byggju í Danmörku, en um hefði verið að ræða gjafir og fjárstyrk. Taldi hann allar fjárhæðir í dönskum krónum hafa farið til þeirra. Einnig hefði hann í tvígang sjálfur sent peninga til Þórðar Mássonar, hefði það verið lán til hans frá sér. Í réttinum var farið yfir kaup ákærða á dönskum krónum. Hinn 27. október 1997 skipti hann fjórum sinnum: 108.200 íslenskum krónum, 200.100 krónum, 282.100 krónum og 109.300 krónum; hinn 4. mars 1999 skipti hann 2.700 krónum; hinn 12. mars 5.400 krónum; hann skipti tvisvar hinn 30. mars 1999: 247.100 krónum og 249.600 krónum; og loks þrisvar hinn 6. maí 1999: 12.000 krónum, 6.500 krónum og 10.900 krónum. Rifjaðist það þá upp fyrir ákærða að Sverrir Þór hefði verið í Danmörku á þessum tíma og hefðu peningarnir að mestu verið fyrir hann, en eitthvað örlítið farið til barnsmóður hans. Hann kvað son sinn eiga afmæli 12. mars og hefði hann skipt peningum í danskar krónur og sent honum þá og hann hefði skipt 4. mars 1999 og 6. maí 1999 peningum sem hann hefði sent barnsmóður sinni. Samtals eru þetta 37.500 krónur. Að öðru leyti kvaðst ákærði raunar ekki geta fullyrt nákvæmlega hver af áðurnefndum kaupum á dönskum krónum hefðu verið í þágu Sverris Þórs og hver í þágu sonar hans og barnsmóður. Hann kvað Sverri Þór hafa látið sig hafa peninga áður en hann fór út til Danmerkur og hefði hann geymt þá heima hjá sér.
Ákærði kvað það rétt vera sem fram kemur í yfirlitum lögreglu að hann hefði stundum skipt peningum oftar en einu sinni sama daginn. Ástæður þess hefðu bæði verið að hann hefði ekki viljað fara um götur Reykjavíkur með mikla peninga á sér og einnig hefði það komið fyrir að hann hefði ekki verið með nægilegt fé á sér eða inni á debetkortinu og þurft að sækja meira, eins og ákærði komst að orði. Í framhaldi af því nefndi ákærði að hann hefði í sumum tilvikum sent sama dag peninga bæði fyrir Sverri Þór og til barnsmóður sinnar og sonar. Ákærði staðfesti framlagðar kvittanir frá fyrirtækinu Western Union Money Transfer um að hann hefði hinn 28. ágúst 1998 sent manni að nafni Grímur Thorarensen jafnvirði 288.000 íslenskra króna til Ibiza og greitt 12.000 krónur í sendingargjald og að hann hefði hinn 7. júlí 1998 sent Sverri Þór Gunnarssyni til Hamborgar jafnvirði 566.000 íslenskra króna og greitt 24.000 krónur í sendingargjald. Ákærði kvaðst hafa sent þessa peninga að beiðni Sverris Þórs.
Ákærði kvaðst hafa verið í mikilli óreglu þau ár sem ákæra tekur til. Helst var á honum að skilja að hann hefði verið í óminnisástandi allan þennan tíma. Hann kvaðst hafa verið í fíkniefnum frá 17 ára aldri en tekið sig á árið 1997. Spurður hvenær hann hefði fallið aftur, kvað hann það hafa verið árið 1997, en þó hefði hann aðeins verið í áfengi frá þeim tíma. Hann kvaðst síðast hafa verið við vinnu á árinu 1997. Eftir það hefðu tekjur hans verið félagsleg aðstoð, sem numið hefði um það bil 50.000 til 60.000 krónum á mánuði. Ákærði kvaðst þó hafa getað styrkt barnsmóður sína og son þar sem hann hefði einnig fengið um það bil 1.700.000 krónur í slysabætur vegna bílslyss, líklega á árinu 1993 eða 1994, og hefði hann lagt bæturnar til hliðar. Slysið taldi hann hafa orðið árið 1991 eða 1992 og hefði það leitt til 10% örorku.
Við endurupptöku málsins voru borin undir ákærða undirgögn og kvittarir um gjaldeyriskaup þau sem tilgreind eru í ákæru. Þá kom fram hjá ákærða að hann kannaðist ekki við nafnritun á allar gjaldeyrisumsóknir. Tiltók hann sérstaklega í því sambandi að hann ritaði ætíð í nafnritun sinni bæði skírnarnöfn sín, en ekki Bjarki Þ eða Bjarki eins og væri á þeim skjölum er hann vefengdi nafnritun sína á. Auk þess væri stafagerðin í sumun tilvikum ekki eins. Ákærði staðfesti hins vegar lögregluskýrslu og fyrkall sem hann hafði undirritað með nafnritununum Bjarki Þ Hilmarsson og Bjarki Hilmarsson.
Lögregluskýrsla var tekin af ákærða 9. desember 1999. Bar hann þar að hann hefði keypt allan greindan gjaldeyri fyrir Sverri Þór Gunnarsson. Kvað hann það hafa farið þannig fram að Sverrir Þór hefði haft samband við hann og beðið hann um að fara fyrir sig í banka og kaupa gjaldeyri. Í framhaldi af því hefði Sverrir Þór afhent honum íslenska peninga, sem hann hefði farið með í banka og skipt í þann gjaldeyri sem Sverrir Þór hefði beðið um hverju sinni. Síðan hefði hann afhent Sverri Þór gjaldeyrinn. Kvað hann Sverri Þór alltaf hafa verið einan þegar hann hefði látið hann hafa peninga eða móttekið gjaldeyri hjá honum. Kvað hann aldrei hafa komið fram til hvers Sverrir Þór hefði ætlað að nota gjaldeyrinn. Spurður um peningasendingar með Western Union kvað hann þær einnig hafa verið að beiðni Sverris Þórs, utan tvær sendingar til Þórðar Mássonar sem hann hefði sent að beiðni Þórðar og þá lánað Þórði þá peninga sem þar um ræðir. Hann kvaðst ekkert kannast við Grím Thorarensen og taldi peningasendingu til hans hljóta að hafa verið fyrir Sverri Þór. Hann kvaðst aldrei hafa fengið borgað fyrir þessa snúninga. Farið var yfir tekjur hans árin 1997 til 1999. Árið 1997 fékk hann 60.000 krónur í verktakagreiðslur, öll árin naut hann félagslegrar aðstoðar og árið 1998 einnig húsaleigubætur, um aðrar tekjur var ekki að ræða. Ákærði staðfesti lögregluskýrsluna fyrir dóminum.
Vitnið Sverrir Þór Gunnarsson kvaðst hafa þekkt ákærða í æsku. Hann kvað þá lítil samskipti hafa nú og kvaðst ekki hafa sagt ákærða neitt um sína persónulegu hagi og ekki hafa verið í fíkniefnatengslum við hann. Vitnið aftók með öllu að hafa beðið ákærða Bjarka Þór nokkurn tímann að kaupa fyrir sig gjaldeyri eða skipta íslenskum peningum í gjaldeyri. Kvaðst hann engin slík samskipti hafa átt við hann. Hann kvaðst heldur ekki hafa beðið ákærða um að annast peningasendingarnar fyrir sig. Kvaðst hann telja líklegt að um hefði verið að ræða peningasendingar í tengslum við fíkniefnaviðskipti sín, sem einhver af félögum hans hefði annast, þótt hann vissi ekki hver það hefði verið. Aðspurður kvaðst hann telja líklegt að ákærði hefði verið á snærum einhverra samverkamanna sinna í fíkniefnaheiminum og sinnt viðvikum fyrir þá aðila. Hann kvað það geta verið að hann hefði fengið gjaldeyrinn til sín. Hann kvað þá ákærða eiga einhverja sameiginlega kunningja sem væru menn sem neyttu fíkniefna. Vitnið kvaðst hafa verið virkur í viðskiptalífinu á þessum tíma, hann hefði rekið tvö fyrirtæki, tilgangur annars hefði verið að kaupa íbúðir, gera þær upp og selja síðan aftur, en hitt hefði verið kjötvinnslufyrirtæki. Bifreiðainnflutning kvaðst hann ekki hafa stundað. Vitnið staðfesti þó framangreind gögn frá Western Union um sendingu til hans hinn 7. júlí 1998 að jafnvirði 566.000 íslenskra króna, sem hann kvað hafa verið vegna kaupa á bifreið í Þýskalandi, sem hann hefði síðar selt í Danmörku. Ekki kvaðst vitnið þó hafa beðið ákærða um að annast þessa sendingu og ekki geta tilgreint hvern hann hefði beðið um að gera það. Um áðurgreinda sendingu peninga til Ibiza hinn 22. ágúst 1998 sagði vitnið að hann hefði sjálfur verið staddur á Ibiza í greint sinn og óskað eftir peningunum til þess að greiða mönnum að nafni Herbjörn og Gunnlaugur fyrir fíkniefni sem hann hefði áður fengið frá þeim. Vitnið kvaðst hins vegar ekkert vita hvað þessir menn hefðu síðan gert við peningana, en taldi að þeir hefðu notað þá sér til uppihalds. Vitnið hefði ekki gefið skýrslu hjá lögreglu vegna þessa máls.
Að fengnum þessum framburði vitnisins Sverris Þórs átti sér stað samprófun í réttinum, þannig að ákærði var spurður um framburð vitnisins. Ákærði neitaði þá að svara spurningum. Ákærði kom enn fyrir eftir að vitnið hafði yfirgefið þingsalinn og kvað hann þá hugsanlegt að aðrir en Sverrir Þór kynnu að hafa beðið sig að senda peninga, þar sem þeir tveir ættu sameiginlega kunningja. Ákærði kvaðst hins vegar hafa verið meira og minna ofurölvi „í blackouti” það tímabil sem um ræðir. Þess vegna myndi hann raunar ekki hvort svo hefði verið og kvaðst ekki geta tilgreint þessa kunningja sem við sögu gætu hafa komið.
Vitnið Grímur Thorarensen kvaðst ekkert þekkja ákærða, en kannast lauslega við Sverri Þór Gunnarsson. Vitnið staðfesti að hann hefði tekið við framangreindri peningasendingu frá Íslandi til Ibiza hinn 22. ágúst 1998, en ítrekað aðspurður kvaðst hann ekki vita hvers vegna ákærði hefði sent féð eða hvaðan það stafaði. Vitnið kvaðst í greint sinn hafa verið í skemmtiferð á Ibiza ásamt mönnum er heiti Gunnlaugur, Herbjörn og Ívar, en ekki kvaðst vitnið vita föðurnöfn þeirra. Vitnið sagði þá hafa skort fé til uppihalds og því hefðu þeir fengið peningana senda. Vitnið sagði að Herbjörn eða Gunnlaugur hefðu átt að fá megnið af peningunum, en tilviljun ein hefði ráðið því að sendingin hefði verið stíluð á sitt nafn, þar sem hinir hefðu líklega verið vant við látnir, þeir hefðu verið að þvo þvottinn og hann hefði ratað betur um bæinn en þeir hinir. Vitnið kvaðst þó hafa fengið hluta af þessu fé þar sem Herbjörn hefði þá nýlega yfirtekið íbúð sem hann hefði verið með í Danmörku og hefði hann átt að fá frá honum tryggingafé vegna hennar. Vitnið kvað Sverri Þór einnig hafa verið á Ibiza um þetta leyti en þó líklega hafa verið farinn er peningarnir bárust. Framburður vitnisins fyrir dómi var í samræmi við það sem hann hafði áður borið hjá lögreglu og staðfesti hann skýrslu sína þar.
Niðurstaða
Ákærða er gefið að sök peningaþvætti með því að hafa á greindu tímabili skipt samtals rúmlega 12.000.000 íslenskra króna í erlenda mynt sem hann „vissi að [ ] voru afrakstur Sverris Þórs af fíkniefnasölu hans og að Sverrir Þór hugðist nota þá til frekari fíkniefnakaupa í útlöndum” eins og segir í ákæru. Er þetta talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga er lögð refsing við því að taka við eða afla sér eða öðrum ávinnings af hegningarlagabroti. Einnig að geyma eða flytja slíkan ávinning, aðstoða við afhendingu hans eða stuðla á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti. Hefur háttsemi þessi hlotið verknaðarheitið „peningaþvætti”. Um er að ræða nýmæli sett með lögum nr. 10/1997 um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 o.fl. (vegna samnings Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni og samnings um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum). Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 10/1997 kemur skýrt fram að saknæm háttsemi samkvæmt þessu ákvæði er ekki tæmandi talin í lagagreininni sjálfri og að túlka ber ákvæðið með hliðsjón af markmiðum og skilgreiningu tveggja alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að. Eru það samningur Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni frá 20. desember 1988, almennt nefndur „fíkniefnasamningurinn”, og samningur um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum frá 8. nóvember 1990, gerður á vettvangi Evrópuráðsins, almennt nefndur „þvættissamningurinn”. Eru þessir samningar fylgiskjöl með frumvarpinu og segir í greinargerðinni að frumvarpinu sé „ætlað að færa íslenska löggjöf til samræmis við skuldbindingar fíkniefnasamningsins og þvættissamningsins.” Peningaþvættisbrot er eðlislíkt eftirfarandi hlutdeild, sambærilegt við brot samkvæmt 4. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Með greindri lagabreytingu var peningaþvætti þó gert að sjálfstæðu refsiverðu broti, og tekur til ávinnings af allri refsiverðri háttsemi. Var því felld niður 173. gr. b almennra hegningarlaga, en sú grein tók einungis til þvættis í tengslum við fíkniefnabrot. Með því að gera peningaþvætti að sjálfstæðu broti varð hlutdeild í því broti og tilraun til þess einnig refsinæm. Sömu sjónarmið og skilgreiningar liggja að baki 264. gr. og voru fyrir setningu 173. gr. b á sínum tíma. Peningaþvætti getur tekið á sig ýmsar myndir eins og glöggt sést af orðalagi 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga en í megin dráttum er það hver sú starfsemi sem lýtur að því að fela uppruna og eiganda fjár sem er ávinningur af brotastarfsemi. Meginmarkmiðið með því að gera háttsemina refsiverða er að höggva að rótum afbrota með því að uppræta aðalhvata þeirra, þann ávinning sem af þeim kann að leiða. Stórfelld fíkniefnabrot sæta refsingu samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga og samkvæmt 2. mgr. 264. gr. er refsirammi hækkaður ef peningaþvættisbrot tengist slíku broti.
Af framburði ákærða og framlögðum gögnum er ljóst að á tímabilinu frá 12. maí 1997 til 26. maí 1999 skipti ákærði mjög oft íslenskum krónum í erlenda mynt. Við endurupptöku málsins kannaðist ákærði ekki við nafnritun sína á nokkar gjaldeyrisumsóknir, sbr. lýsingu á framburði hans hér að framan. Dómurinn telur þann framburð að engu hafandi og nægir að vísa til þess að það er augljóslega rangt að hann hafi ávallt skrifað nafn sitt Bjarki Þór Hilmarsson, þar sem hann skrifar Bjarki Hilmarsson undir fyrirkall og Bjarki Þ Hilmarsson undir lögregluskýrslu. Samkvæmt þessu er upplýst er að ákærði skipti íslenskum krónum í erlenda mynt alls 68 sinnum í bankastofnunum, samtals 12.168.700 íslenskum krónum. Ákæruvaldið tók tillit til þess framburðar ákærða að í tveimur tilvikum hefði hann skipt í banka og sent nafngreindum aðila samtals 62.200 krónur. Er hann því ákærður fyrir að hafa í 66 skipti tekið við samtals 12.106.500 krónum frá Sverri Þór Gunnarssyni og skipt í erlenda mynt. Þrátt fyrir að fjárráð ákærða hafi sannanlega verið afar rýr á þessum tíma og mjög ótrúverðugt, einkum vegna óreglu hans, að hann hafi þá átt afgangs fé frá árunum 1993 eða 1994, þykir dóminum að miða megi við þann framburð hans að sérstaklega tilgreindum fjárhæðum í fimm skipti, samtals kr. 37.500, hafi verið skipt í þágu fyrrverandi sambýliskonu hans og sonar enda um lágar fjárhæðir að ræða. Enn fremur kemur í ljós þegar fylgiskjöl eru skoðuð að rannsakandi hefur ýmist hækkað eða lækkað fjárhæðir á yfirlitinu þannig að ætíð standi á heilu hundraði. Þegar á heildina er litið er útkoman til hagsbóta fyrir ákærða. Endanleg niðurstaða er sú að hann er sakfelldur fyrir að hafa 61 sinnum skipt samtals 12.069.000 krónum í erlenda mynt.
Um er að ræða gjaldeyriskaup ákærða í fjölmörg skipti á tveggja ára tímabili hjá ýmsum peningastofnunum, stundum mörgum sinnum sama daginn og þá ýmist hjá sömu peningastofnun eða fleiri. Ákærði virðist ekki geta upplýst með vissu fyrir hvern hann skipti peningunum og í hvaða tilgangi það var gert, en við rannsókn málsins og í upphafi aðalmeðferðar hélt hann því fram af festu að það hefði verið fyrir Sverri Þór Gunnarsson og hann einan. Þessu hafnaði vitnið Sverrir Þór en tjáði réttinum að þrátt fyrir að hann hefði ekki látið ákærða hafa þá peninga sem um ræðir, þá væru líkur á því að gjaldeyriskaup ákærða hefðu með einum eða öðrum hætti tengst þeim fíkniefnaviðskiptum sem upplýst er að vitnið stóð að á þeim tíma og að ónafngreindir menn á hans vegum hefðu fengið ákærða til þeirra verka og að erindrekstur ákærða hefði staðið í tengslum við fíkniefnaviðskipti sín. Staðfesti hann að framangreind peningasending til Ibiza hinn 22. ágúst 1998 hefði tengst tilteknum fíkniefnaviðskiptum hans við nafngreinda menn og kannaðist við að hafa sjálfur fengið senda peninga til útlanda. Rakið hefur verið hvernig ákærði neitaði við samprófun, eftir að hann heyrði framburð vitnisins Sverris Þórs fyrir dómi, að gefa skýringu á þessu ósamræmi, og breytti síðar í þinghaldinu framburði sínum í þá veru að hugsanlegt væri að einhverjir aðrir en Sverrir Þór, eða sameiginlegir kunningjar þeirra, hefðu fengið sig til verkanna. Ákærði kvaðst þó ekki geta nafngreint þessa menn og gaf þá skýringu að hann hefði verið í óminnisástandi á því tímabili sem ákæra tekur til, eða meira og minna í „blackouti”, eins og hann orðaði það sjálfur fyrir dóminum. Á þessum tíma stundaði Sverrir Þór umfangsmikil viðskipti með fíkniefni, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. júní 2000 í málinu nr. S-774/2000 og Hæstaréttardóm í máli nr. 312/2000 frá 22. febrúar sl. Að öllu þessu virtu telur dómurinn sannað að peningar þeir sem um ræðir í ákæru, að frádregnum þeim upphæðum sem tilgreindar hafa verið, hafi stafað frá Sverri Þór Gunnarssyni og hafi verið afrakstur fíkniefnaviðskipta. Vitnið Sverrir Þór taldi sig ekki geta aðgreint hvað af því fé sem hann hafði undir höndum stafaði frá fíkniefnasölu og hvað væri komið úr fasteignaviðskiptum hans eða væru vinnulaun. Ljóst er af framangreindum dómi Hæstaréttar að hann var stórtækur í fíkniefnaviðskiptum og langstærstur hluti tekna hans var tilkominn vegna slíkra viðskipta. Er ljóst að velta þeirrar starfsemi hefur verið mjög mikil. Þykir í þessu sambandi ekki skipta máli hvort Sverrir Þór blandaði hugsanlega löglega fengnu fé saman við fé sem var ávinningur af fíkniefnaviðskiptum. Það er eðli peningaþvættisbrota að illa fengnu fé er blandað saman við lögmætan ágóða í þeim tilgangi að fela hið fyrrnefnda. Af þessu leiðir að brotamaður verður að bera halla af því ef hinn lögmæti hluti fjárins verður ekki skýrt aðgreindur þegar svo stendur á. Í þessu sambandi þykir því ekki skipta máli þótt Sverrir Þór kunni að hafa haft einhverjar tekjur sem voru löglega fengnar.
Ákærði hefur neitað að hafa þegið greiðslur fyrir þennan erindisrekstur, og neitað að hafa vitað að um peninga tengdum fíkniefnum væri að ræða. Fjárhæðir þær sem ákærði skipti úr íslenskum krónum yfir í erlendan gjaldmiðil voru yfirleitt yfir 100.000 krónum og allt upp í tæpar 500.000 krónur í hvert sinn. Ferðir ákærða í banka voru með köflum tíðar. Dómendur telja fjarstæðukennt að ákærði hafi gengið þessara erinda án nokkurs endurgjalds. Framburður ákærða um málsatvik hefur um margt verið misvísandi svo sem rakið hefur verið. Ljóst er af sakarferli ákærða, þrátt fyrir neitun hans þar um, að hann var fíkniefnaneytandi á þeim tíma sem ákæra tekur til, en ákærða var gerð refsing haustið 1997 fyrir að hafa í febrúar og apríl það ár brotið gegn fíkniefnalöggjöf og í ágúst árið 1998 gekkst hann undir sektargerð vegna fíkniefnabrots sem framið var í maí sama ár. Af vitnisburði hans og vitnisins Sverris Þórs um kunningjahóp þeirra er ljóst að hann hrærðist í heimi fíkniefna. Þeir Sverrir Þór voru bernskuvinir frá því að þeir höfðu verið saman í sveit og þeir höfðu fylgst að í skólagöngu eitthvað upp eftir grunnskóla. Ekkert í framburði ákærða styrkir þá fullyrðingu hans að hann hafi mátt ætla að Sverri Þór hefði þær tekjur af löglegum viðskiptum að þær skýrðu allt það fjármagn sem ákærði sendist með í banka til að skipta í erlendan gjaldeyri. Sú fullyrðing hans er ekki trúverðug að hann hafi ekki vitað að hann tók þátt í að skipta fjármagni sem tengdist fíkniefnaviðskiptum. Að öllu þessu athuguðu þykir ekki óvarlegt að telja sannað að ákærði hafi hlotið að vita að svo var.
Sú háttsemi ákærða, að skipta íslenskum peningum, sem sannað þykir að voru ágóði af fíkniefnaviðskiptum, fyrir annan aðila í erlendan gjaldeyri, fellur undir verknaðarlýsingu 1., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga 10/1997, um peningaþvætti. Með þeirri háttsemi stuðlaði ákærði að því að tryggja öðrum ávinning af broti, en helsta markmið laganna og alþjóðasamninganna tveggja var að uppræta aðalhvata afbrota eins og fíkniefnabrota, ávinninginn. Svo sem rakið hefur verið er talið sannað að ákærði hafi skipt samtals 12.069.000 krónum í erlenda mynt þótt hann hlyti að vita að féð sem hann skipti væri afrakstur fíkniefnabrota og hefur hann með þessari háttsemi fullframið brotið. Sakfellt er vegna 61 tilvika á tveggja ára tímabili. Suma daga fór hann margar ferðir í banka, stundum liðu fáir dagar á milli, oft um hálfur mánuður en stundum einn til þrír mánuðir. Telur dómurinn að hér sé um að ræða samfellda og samkynja háttsemi og er brotið því metið sem framhaldsbrot.
Í verknaðarlýsingu brots í ákæru er enn fremur tilgreint að ákærði hafi vitað að Sverrir Þór hygðist nota peningana til frekari fíkniefnakaupa í útlöndum. Sú háttsemi að skipta peningum í þeim tilgangi að þeir nýttust til fíkniefnakaupa er í eðli sínu hlutdeild í fíkniefnabroti fremur en peningaþvætti. Með því er verið að nota féð til afbrota, en við þvættisbrot er unnið að því að hylja tengsl fjárins við afbrotin. Í inngangi greinargerðar og umsögn um 4. gr. laga nr. 10/1997, sem varð 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, er lögð áhersla á það markmið ákvæðisins að uppræta ávinning af afbrotum og það að ákvæðinu sé ætlað að taka til hvers konar aðferða sem viðhafðar séu til undanskots ávinnings. „Í dæmaskyni má nefna að undir ákvæðið félli sú háttsemi að leyna, senda, millifæra t.d. af bankareikningum, umbreyta, veðsetja eða fjárfesta með ávinningnum” segir í greinargerðinni. Ekki er þar minnst á að undir þetta brot falli einhvers konar hlutdeild við að fremja fíkniefnabrot. Að svo sé er hins vegar nefnt í II. kafla greinargerðarinnar þar sem fjallað er um efni fíkniefnasamningsins og þvættissamningsins. Þar er vísað til þess að þvættisbrot séu skilgreind annars vegar í (b) (c) liðum 1. mgr. 3. gr. fíkniefnasamningsins og hins vegar í 6. gr. þvættissamningsins. Þar sem efnisatriði skilgreiningarinnar í fíkniefnasamningnum eru rakin, er í lokin talið til: „Að eiga hlutdeild í, sammælast um eða leggja á ráðin um, gera tilraun til, veita hjálp eða aðstoða við, auðvelda eða veita ráð til að fremja hvort heldur fíkniefnabrot eða brot sem felst í þvætti á ávinningi af fíkniefnabroti.” Íslensk þýðing fíkniefna- og þvættissamninganna er fylgiskjal með frumvarpinu. Af henni er ljóst að iv.-liður c-liðar 1. mgr. 3. gr. fíkniefnasamningsins, sem þessi tilvitnun úr greinargerðinni vísar til, tekur til hlutdeildar og tilraunar allra þeirra brota sem tilgreind eru í 1. mgr. 3. gr., þ.e. bæði fíkniefna- og þvættisbrota. Ofangreind tilvitnun virðist því ranglega hafa verið tilgreind í greinargerð með íslenska ákvæðinu sem sérstakt skilgreiningaratriði á þvættisbroti sem slíku. Í þvættissamningnum þar sem einungis er fjallað um þvættisbrot, eðli þeirra og aðferðir og annað þeim tengt, kemur skýrt fram í 1. tl. 1. gr. að „ávinningur” merkir „hvaða efnahagsleg gæði sem er, sem aflað er með afbroti.” Í 6. gr. þvættissamningsins eru þvættisbrot skilgreind sem margvísleg meðferð ávinnings eins og þar er nánar lýst í tl. 1-3 í 1. mgr. Í 4. tl. sömu málsgreinar er einnig sérstaklega nefnt hlutdeild, sammæli um, tilraun til eða hvers konar aðstoð við að fremja þau brot sem lýst er í greininni, þ.e. þeim þvættisbrotum sem skilgreind eru í tl. 1-3. Hugtakið „ávinningur” er aðeins notað í þvættissamningnum og í íslenska textanum, í fíkniefnasamningnum er hins vegar talað um „verðmæti” eða „eign” sem aflað er með fíkniefnabroti. Í athugasemdum við 4. gr. laga nr. 10/1997 er eingöngu vísað til 6. gr. þvættissamningsins varðandi skilgreiningu á þvætti og verknaðarlýsingu þvættisbrota og ekki er minnst á að fíkniefnabrot eða hlutdeild við að fremja þau geti talist brot samkvæmt ákvæðinu.
Samkvæmt öllu þessu er ekki fallist á þann skilning ákæruvaldsins að grundvöllur sé fyrir þeirri rúmu skýringu á 264. gr. almennra hegningarlaga, að það að skipta peningum í þeirri vitneskju að þá eigi að nota til fíkniefnakaupa falli sjálfstætt undir verknaðarlýsingu ákvæðisins. Þar kann að vera um að ræða hlutdeild í broti samkvæmt 173. gr. a laganna eða broti á löggjöf um ávana- og fíkniefni en ekki peningaþvætti. Ákært er fyrir peningaþvætti eingöngu. Er því ekki fallist á að þessi þáttur brotalýsingar í ákæru falli undir heimfærslu til 264. gr. almennra hegningarlaga, að öðru leyti en því sem háttsemi ákærða kann að hafa verið hjól í gangverki sem gerði kleift og vann að því að nýta ávinning af fíkniefnasölu til áframhaldandi brotastarfsemi. Hefur greind verknaðarlýsing því ekki að öðru leyti áhrif til sakfellingar í þessu máli.
Sérálit Finns Torfa Hjörleifssonar meðdómanda um síðastgreint atriði.
Finnur Torfi Hjörleifsson meðdómandi er sammála niðurstöðu dómsins um að sakfella ákærða og rökstuðningi hér að framan fyrir þeirri niðurstöðu, að því er tekur til vitneskju ákærða um að peningar þeir sem hann skipti fyrir Sverri Þór Gunnarsson hafi verið afrakstur fíkniefnaviðskipta. Hann er hins vegar ósammála meiri hluta dómsins um að ákvæði 1. mgr. 264. gr. almennar hegningarlaga taki ekki til fyrirfarandi aðstoðar við að fremja brot. Telur hann sannað, sbr. forsendur sakfellingar hér að framan, að ákærði hafi hlotið að vita að Sverrir Þór hugðist nota peningana til frekari fíkniefnakaupa, sbr. ákæru, og álítur að verknaður skv. þeirri vitneskju hans falli undir fyrrnefnt ákvæði, sbr. orðasambandið ,,...eða stuðlar á annan sambærilegan hátt að því að tryggja öðrum ávinning af broti.” Telur dómarinn að þessi skýring refsiákvæðisins fái styrkan stuðning af greinargerð með 4. gr. frumvarps til laga nr. 10/1997 og staflið (iv) í c-lið 1. mgr. 3. gr. fíkniefnasamningsins og 4. tl 1. mgr. 6. gr. þvættissamningsins. Þessa ágreinings er hér getið í samræmi við 3. mgr. 136. gr. laga nr. 19/1991.
Refsiákvörðun
Ákærði hefur unnið sér til refsingar. Ákærði er fæddur árið 1972. Samkvæmt sakavottorði hefur hann frá árinu 1990 alls 13 sinnum hlotið refsingar fyrir ýmis brot og einu sinni ákærufrestun, þar af hefur hann hlotið sjö dóma og sex sinnum gengist með sátt undir að greiða sektir, þá fyrstu áður en hann náði 18 ára aldri. Fyrsta dóm sinn hlaut ákærði í apríl 1991, þriggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár vegna þjófnaðar. Næst hlaut ákærði dóm í september á sama ári, sex mánaða fangelsi fyrir skjalafals og þjófnaðarbrot og var dómurinn frá því í apríl dæmdur með. Enn var ákærði dæmdur í mars 1992 í 30 daga fangelsi, hegningarauka, fyrir þjófnað. Þá var ákærði dæmdur tvívegis á árinu 1996, fyrst í september til sektargreiðslu fyrir umferðarlagabrot og síðan í desember í tveggja mánaða fangelsi fyrir áfengis- og fíkniefnabrot og sviptur ökurétti í 1 ár vegna lögreglustjórasáttar sem dæmd var með. Í september 1997 var hann dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir þjófnað. Í þeim dómi var reynslulausn sem ákærði hafði hlotið í mars sama ár dæmd með. Hæstiréttur staðfesti síðastnefndan dóm í apríl 1998. Loks hlaut hann dóm 27. ágúst 1999, 30 daga fangelsi skilorðsbundið í 2 ár fyrir fíkniefnabrot. Sáttirnar eru vegna brota á umferðarlögum, áfengislögum og lögum og reglum um ávana- og fíkniefni. Síðustu tvær sáttirnar eru frá því í október 1997 og ágúst 1998, báðar vegna fíkniefnabrota.
Samkvæmt framangreindu hefur ákærði fimm sinnum hlotið refsingu fyrir fíkniefnabrot. Ákærða er nú gerð refsing fyrir peningþvætti sem stóð yfir í tvö ár og samanstendur af 57 tilvikum. Refsingin er ákvörðuð sem hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við refsiákvarðanir samkvæmt dómi frá 8. september 1997, sbr. hæstaréttardóm frá 2. apríl 1998, sátt frá 21. október 1997, sátt frá 12. ágúst 1998 og dómi frá 27. ágúst 1999. Dómurinn lítur á brot það sem hann er nú ákærður fyrir sem framhaldsbrot. Hin skilorðsbundna refsing sem honum var gerð með dómi 27. ágúst 1999 er einnig tekin upp með vísan til 60. gr. sömu laga og dæmd með við ákvörðun þeirrar refsingar sem honum verður nú ákveðin og er að því leyti einnig litið til 77. gr. sömu laga. Enn fremur er litið til sakarferils að öðru leyti og þess að við brotið vann hann í félagi við aðra. Að öllu framansögðu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Vegna sakarferils ákærða þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Jóni H. Snorrasyni saksóknara hjá embætti Ríkislögreglustjóra.
Héraðsdómararnir Hjördís Hákonardóttir, Finnur Torfi Hjörleifsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson kváðu upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, Bjarki Þór Hilmarsson, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur.