Hæstiréttur íslands

Mál nr. 467/2003


Lykilorð

  • Ákæra
  • Ómerking héraðsdóms
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. febrúar 2004.

Nr. 467/2003.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Ákæra. Ómerking héraðsdóms. Frávísun máls frá héraðsdómi.

X. sem í héraði var dæmd fyrir ölvun við akstur, áfrýjaði málinu eftir að systir hennar viðurkenndi að hafa ekið bifreiðinni og gefið upp nafn X. Með því að sýnt þótti að X hafði verið höfð fyrir rangri sök var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. desember 2003 að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi, en til vara að ákærða verði sýknuð af kröfum ákæruvalds um refsingu og sviptingu ökuréttar.

Ákærða krefst aðallega ómerkingar héraðsdóms og að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins.

Málið var flutt skriflega fyrir Hæstarétti samkvæmt heimild í 1. mgr. 157. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 17. gr. laga nr. 37/1994.

Aðfaranótt 23. janúar 2003 stöðvaði lögreglan í Reykjavík akstur bifreiðarinnar [...]. Ökumaðurinn var handtekinn og færður til töku blóðsýnis vegna gruns um ölvun við akstur. Við handtöku og yfirheyrslu við rannsókn málsins hjá lögreglu framvísaði hann ekki skilríkjum en gaf upp nafnið X. Mun alkóhólmagn í blóði ökumannsins hafa mælst 1,20‰ að teknu tilliti til vikmarka. Ákæra var gefin út á hendur ákærðu X 24. febrúar 2003 fyrir ölvun við akstur áðurnefndan dag. Er ákærunni lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ekki var mætt af hennar hálfu við þingfestingu málsins 3. apríl 2003 og var málið tekið til dóms og dómur kveðinn upp samdægurs með heimild í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 19/1991. Var ákærða sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni var gefin að sök í ákærunni og gert að greiða 160.000 krónu sekt í ríkissjóð. Jafnframt var hún svipt ökurétti í 2 ár og dæmd til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þegar dómurinn var birtur ákærðu 6. maí 2003 kvaðst hún vera saklaus af sakargiftum. Taldi hún að systir sín, Z hefði verið ökumaðurinn. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 21. júlí 2003 viðurkenndi Z að hún hafi verið ökumaðurinn umrætt sinn og að hún hafi ranglega gefið upp nafn ákærðu við handtöku og yfirheyrslu hjá lögreglu. Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðar skýrslur lögreglumanna, sem afskipti höfðu af ökumanni bifreiðarinnar VY-170 þessa nótt. Ber þeim saman um að eftir að þeir sáu myndir af þeim systrum væri ljóst að ákærða hafi ekki verið ökumaður bifreiðarinnar heldur Z. Af framansögðu er í ljós leitt að ákærða hefur verið höfð fyrir rangri sök. Ber því með vísan til 1. mgr. 156. gr. laga nr. 19/1991 að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu frá héraðsdómi. 

Um greiðslu sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti fer eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur er ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi.

         Sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, X, fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.