Hæstiréttur íslands

Mál nr. 145/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 6

 

Þriðjudaginn 6. apríl 1999.

Nr. 145/1999.

Sýslumaðurinn í Kópavogi

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir fulltrúi)

gegn

Hallbirni Einari Guðjónssyni

(Þorsteinn Pétursson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Niðurstaða héraðsdóms um framlengingu gæsluvarðhalds á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 var staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. mars 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. mars. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. mars 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 30. apríl nk. kl. 12:30. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði fellur úr gildi eða gæsluvarðhaldi markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.

Með dómi Hæstaréttar 15. mars sl. var staðfestur úrskurður héraðsdóms um gæsluvarðhald yfir varnaraðila til 30. mars 1999 á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en hann var þá undir ákæru vegna sjö þjófnaðarbrota og fíkniefnabrots, auk þess sem hann hafði áfrýjað dómi héraðsdóms þar sem hann var sakfelldur fyrir ýmis brot gegn umferðarlögum og almennum hegningarlögum. Þann 25. mars sl. gaf sýslumaðurinn í Hafnarfirði út ákæru á hendur varnaraðila fyrir tvö brot gegn 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ekki verður raskað því mati að skilyrði fyrrnefnds ákvæðis séu uppfyllt og engin efni eru til að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en gert er í hinum kærða úrskurði. Verður hann því staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. mars 1999.

Sýslumaðurinn í Kópavogi hefur krafist þess að framlengd verði gæsluvarðhaldsvist Hallbjörns Einar Guðjónssonar, kt. 191156-2189, sem var þann 6. mars sl. úrskurðaður í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness. Var kærði þá úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag og sá úrskurður staðfestur í Hæstarétti 15. mars sl.

Sem áður er krafa sýslumanns sett fram með skírskotun til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Kærði hlaut 10 mánaða fangelsisdóm 27. nóvember 1998 og áfrýjaði hann honum til Hæstaréttar, þar sem málinu er ólokið.Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur gefið út ákæru á hendur kærða fyrir sjö þjófnaðarbrot og fíkniefnabrot. Var það mál tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. mars sl. Þá hefur sýslumaðurinn í Kópavogi gefið út ákæru dags. 25. mars sl. á hendur kærða fyrir tvö þjófnaðarbrot. Kærði bíður því dóms í Hæstarétti, Héraðsdómi Reykjavíkur og Héraðsdómi Reykjaness þar sem síðasta ákæra hefur verið móttekin.

Kærði er síbrotamaður. Hann hefur alls komist 46 sinnum á sakaskrá, oftast fyrir brot á 155. gr. og 244. gr. alm. hgl. Telja verður líkur á að kærði haldi áfram brotastarfsemi gangi hann laus. Verður því fallist á kröfur sýslumanns og kærði úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald með skírskotun til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður honum því gert að sæta gæsluvarðhaldi til 30. apríl 1999 kl. 12:30 eða þar til dómur gengur í máli hans í Hæstarétti.

Gunnar Aðalsteinsson, héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði,  Hallbjörn Einar Guðjónsson, sæti gæsluvarðhaldi allt til 30. apríl 1999 kl. 12:30.