Hæstiréttur íslands
Mál nr. 86/2016
Lykilorð
- Flóttamaður
- Vegabréf
- Skjalafals
- Refsiákvörðun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. janúar 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að sér verði ekki gerð refsing.
I
Mál þetta var höfðað með ákæru 8. janúar 2016 á hendur ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 1. sama mánaðar framvísað í blekkingarskyni við tollgæslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ítölsku vegabréfi með nafni annars manns sem reyndist vera falsað að hluta. Ákærði kveðst vera fæddur árið 1982 og vera Kúrdi að þjóðerni með íraskt ríkisfang.
Við yfirheyrslu hjá lögreglu 1. og 7. janúar 2016 greindi ákærði frá því að hann hefði farið frá Írak til Tyrklands og þaðan sjóleiðina til Grikklands um miðjan desember 2015. Þar hefði hann dvalið í 13 til 14 daga í þeim tilgangi að bíða eftir að fá fölsuð skilríki svo honum væri kleift að ferðast innan Evrópu. Hann hefði síðan haldið för sinni áfram flugleiðis 26. eða 27. sama mánaðar með stuttri viðkomu í Hollandi, en ákærði kom til landsins frá Amsterdam 1. janúar 2016.
Eftir að ákærði var handtekinn í kjölfar þess að framvísa fölsuðu vegabréfi óskaði hann eftir hæli sem flóttamaður hér á landi vegna aðstæðna sinna í Írak og mun sú beiðni vera til meðferðar hjá Útlendingastofnun.
Ákærða var með úrskurði 2. janúar 2016 gert að sæta gæsluvarðhaldi til 8. sama mánaðar. Eins og áður greinir var ákæra í málinu gefin út þann dag. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur og gert að sæta fangelsi í 30 daga, en til frádráttar refsingunni skyldi koma gæsluvarðhald sem hann sætti.
II
Ákærði hefur játað að hafa framið það brot sem honum er gefið að sök og tekur áfrýjun hans ekki til sakfellingarinnar. Aftur á móti vísar ákærði til þess að hann sé flóttamaður og telur að sér verði af þeirri ástæðu ekki refsað fyrir brot af þessu tagi.
Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna, sem íslenska ríkið gerðist aðili að 30. nóvember 1955, sbr. auglýsingu nr. 74/1955, skulu aðildarríki samningsins ekki beita refsingu gagnvart flóttamönnum vegna ólöglegrar komu þeirra til landsins ef þeir koma beint frá landi, þar sem lífi þeirra eða frelsi er ógnað, enda gefi þeir sig tafarlaust fram við stjórnvöld og beri fram gildar ástæður fyrir ólöglegri komu sinni. Þótt samningur þessi hafi ekki lagagildi hér á landi er unnt við ákvörðun refsingar að taka tillit til hans í ljósi þeirrar meginreglu íslensks réttar að leitast skuli við að skýra lög til samræmis við þjóðréttarskuldbindingar ríkisins. Í því sambandi er þess að gæta að ekki verður vefengt eftir gögnum málsins að ákærði kunni að teljast flóttamaður í skilningi samningsins, en beiðni hans um hæli er til meðferðar hjá Útlendingastofnun, eins og áður greinir. Verður að virða vafa um þetta ákærða í hag. Þá getur ekki skipt máli þótt ákærði hafi ekki ferðast hingað til lands beint þaðan sem lífi hans eða frelsi hafi verið ógnað, en ekki verður talið að hann hafi gert teljandi hlé á för sinni meðan hann beið eftir skilríkjum til að honum væri kleift að halda henni áfram. Loks er þess að gæta að höfð voru afskipti af ákærða þegar við komu til landsins og þykir því ekki skipta máli þótt hann hafi ekki sjálfur tafarlaust gefið sig fram við stjórnvöld hér á landi, en hann bar fram ástæður fyrir ólöglegri komu sinni þegar eftir handtöku. Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 17. desember 2015 í máli nr. 345/2015 eru ekki efni til að ákærða verði gerð refsing í málinu.
Rétt er að fella á ríkissjóð allan sakarkostnað á báðum dómstigum, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða í héraði eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi og málsvarnarlaun verjanda hans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærða, Hemen Osman Mustafa, er ekki gerð refsing í máli þessu.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi og málsvarnarlaun verjanda hans fyrir Hæstarétti, Unnars Steins Bjarndal hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 8. janúar 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af Lögreglustjóranum á Suðurnesjum í dag á hendur Hemen Osman Mustafa, fæðingardagur 1. mars 1982, íraskur ríkisborgari, „fyrir skjalafals, með því að hafa, föstudaginn 1. janúar 2016, framvísað við tollgæslu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, í blekkingarskyni, ítölsku vegabréfi nr. [...], á nafni A, f.d. [...], með gildistíma frá 25.06.2007 til 24.06.2017, sem reyndist breytifalsað, þ.e. falsað að hluta, í kjölfar þess að ákærði hafði verið stöðvaður af tollgæslunni vegna tollskoðunar.
Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. “
Ákærði krefst aðallega að honum verði ekki gerð refsing og að málskostnaður verði lagður á ríkissjóð en til vara er krafist vægustu refsingar og málskostnaðar.
Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Samkvæmt dómaframkvæmd þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 2. janúar sl. Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 ber ákærða að greiða sakarkostnað málsins. Um er að ræða þóknun verjanda hans, Theodórs Kjartanssonar hdl., sem er hæfilega ákveðin 250.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Hemen Osman Mustafa, fæðingardagur 1. mars 1982, sæti fangelsi í 30 daga. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 2. janúar sl. með fullri dagatölu.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Theodórs Kjartanssonar héraðsdómslögmanns, 250.000 krónur.