Hæstiréttur íslands

Mál nr. 236/2003


Lykilorð

  • Bifreið
  • Endurkrafa


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2003.

Nr. 236/2003.

Tryggingamiðstöðin hf.

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

gegn

Kristni Alexanderssyni

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

 

Bifreiðir. Endurkrafa.

Í febrúar 1997 ók K bifreið sinni í veg fyrir aðra bifreið þannig að af hlaust árekstur. Greiddi T hf. bætur og endurkröfunefnd samkvæmt 96. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 heimilaði endurkröfu að fjárhæð 327.370 krónur vegna ölvunar K við aksturinn. Krafðist T greiðslu þeirrar fjárhæðar í málinu og lagði fram skýrslur lögreglu og niðurstöðu rannsóknar um magn alkóhóls í blóði og þvagi K kröfum sínum til stuðnings. Magn vínanda í þvagsýni reyndist 2,79‰ en í blóði 2,42‰. Er lögregla kom að árekstrinum var K farinn af vettvangi en eiginkona hans var enn í bifreiðinni. Hafði lögregla tal af honum á heimili hans nokkru síðar. Var skráð eftir honum í lögregluskýrslu að hann hefði neytt lítils háttar áfengis fyrir aksturinn en ekki eftir að honum lauk. Um mánuði síðar gaf K skýrslu hjá lögreglu og kvaðst þá hafa drukkið um einn pela af sterku áfengi eftir að akstri lauk en áður en lögregla hafði tal af honum. Var talið að þar sem svo mikið áfengismagn hefði mælst í blóði K og  hlutfall vínanda í blóði og þvagi benti til að áfengis hefði verið neytt nokkru fyrir aksturinn og þar sem K hafi fyrst borið fyrir sig drykkju eftir aksturinn í skýrslutöku um mánuði eftir atburðinn, teldust fram komnar nægilegar líkur á því að hann hefði verið ölvaður við akstur í umrætt sinn. Þar sem K hefði ekki fært fram neina þá sönnun sem hnekkti þessum líkum yrði að taka kröfur T til greina. Með hliðsjón af efnahag K, fjárhæð tjóns, sem hann var krafinn um og öðrum atvikum var endurkrafan lækkuð með heimild í 2. mgr. 95. gr. umferðarlaga og var K dæmdur til greiðslu 100.000 króna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. júní 2003 og krefst þess að stefndi greiði sér 327.370 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. desember 2000 til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og honum dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti en til vara, að málskostnaður verði felldur niður, án tillits til gjafsóknar sem honum var veitt fyrir Hæstarétti.

Svo sem í héraðsdómi greinir varð sunnudaginn 9. febrúar 1997 árekstur með bifreið stefnda, sem hann ók, og annarri bifreið sem á móti kom þegar stefndi beygði viðstöðulaust í veg fyrir hina bifreiðina á gatnamótum. Lögregla var kvödd til og segir í frumskýrslu hennar að stefndi hafi verið farinn af vettvangi en eiginkona hans hafi setið í hægra framsæti bifreiðarinnar og tjáð þeim að stefndi hafi farið fótgangandi heim. Þau hafi verið að koma úr veislu á Hótel Loftleiðum og stefndi hafi ekið bifreiðinni og þau hafi bæði drukkið áfengi í veislunni. Henni var ekið heim og þar var haft tal af stefnda.

Samkvæmt lögregluskýrslunni kvaðst stefndi hafa ekið austur Breiðholtsbraut, komið að gatnamótunum á grænu ljósi og þá beygt til vinstri áleiðis norður Stöng. Hann hafi ekki séð hina bifreiðina og ekkert hafa orðið hennar var fyrr en áreksturinn varð. Honum var tjáð að hann væri grunaður um ölvun við akstur og því yrði að færa hann á lögreglustöðina vegna rannsóknar á því máli. Hann kvaðst sjálfviljugur koma með þeim og ganga frá málinu. Var hann færður fyrir varðstjóra, sem tók af honum skýrslu varðandi ölvun við akstur. Samkvæmt þeirri skýrslu, sem tekin var kl. 21.50, sagðist stefndi „hafa drukkið lítið af hvítvíni um kl. 17.00 í dag og annað áfengi ekki drukkið á þessum sólarhring.“ Kemur fram í skýrslunni að stefndi hafi verið spurður hvort hann hafi neytt áfengis eftir aksturinn og að hann hafi svarað þeirri spurningu neitandi. Stefndi staðfesti skýrsluna með undirritun sinni. Ekki var unnt að taka öndunarsýni af stefnda á staðnum þar sem hann blés svo veikt í mælinn, en hann gaf þar þvagsýni. Hann var færður á Sjúkrahús Reykjavíkur, þar sem tekið var úr honum blóðsýni til alkóhólrannsóknar. Magn vínanda í þvagsýni reyndist 2,79 ‰ en í blóði 2,42 ‰.

Stefndi var kallaður til skýrslugjafar að nýju hjá lögreglu 11. mars 1997. Þá sagðist hann hafa séð hina bifreiðina en misreiknað hraða hennar þannig að árekstur hafi orðið þegar hann beygði í veg fyrir hana. Þá sagði einnig, að hann hefði eftir áreksturinn „drukkið úr hálfum vodkapela og næstum klárað hann“, þar sem hann hafi verið miður sín yfir árekstrinum.

Málið fór til endurkröfunefndar samkvæmt 96. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sem sendi stefnda ábyrgðarbréf 11. desember 1998, en ekkert svar barst frá honum. Nefndin ákvað á fundi sínum 29. janúar 1999 að endurkröfu skyldi beitt með þeim rökum að með vísan til ölvunar ökumanns í umrætt sinn þætti tjóni þessu hafa verið valdið af stórkostlegu gáleysi í skilningi umferðarlaga.

Þegar horft er til lögregluskýrslna sem liggja fyrir í málinu, og þess ofangreinda áfengismagns sem mældist í blóði stefnda um kvöldið eftir áreksturinn, og þar sem hlutfall etanóls í blóði og þvagi bendir til þess að stefndi hafi drukkið þó nokkru áður en sýnin voru tekin, þykir stefndi með hliðsjón af 4. mgr. 45. gr. umferðarlaga verða að sýna fram á að hann hafi ekki verið óhæfur til að stjórna ökutækinu þegar áreksturinn varð, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Í málinu liggur fyrir skrifleg yfirlýsing frá nafngreindum manni sem kveðst hafa hitt stefnda í stigagangi að heimili hans umrætt kvöld og hafi stefndi verið í uppnámi og sagt honum frá árekstrinum. Af yfirlýsingunni verður ekki ráðið hvenær fundum þeirra á að hafa borið saman eða um ölvunarástand stefnda á þeim tíma. Þrátt fyrir að héraðsdómari hafi bent stefnda, sem er ólöglærður og flutti mál sitt sjálfur, á sönnunarbyrði hans í þinghaldi 5. desember 2002 og hvatt hann til að leiða vitni sem borið gætu um ástand hans umrætt kvöld, kvaddi stefndi hvorki fyrrgreindan mann fyrir dóm til skýrslugjafar né leiddi hann önnur vitni sem stutt gætu fullyrðingar hans. Liggja því ekki fyrir í málinu önnur sönnunargögn en skýrslur lögreglu og niðurstaða mælinga um alkóhólmagn í blóði og þvagi stefnda.

Stefndi fór af vettvangi án þess að ræða við ökumann hinnar bifreiðarinnar. Hann gat þess ekki í skýrslu sinni hjá lögreglu eftir áreksturinn að hann hefði neytt þess mikla áfengismagns eftir áreksturinn sem hann mánuði síðar sagði frá. Þvert á móti kvað hann aðspurður að hann hefði ekki neytt áfengis eftir aksturinn. Hann hefur ekki leitt líkur að þessari staðhæfingu sinni. Verður því að taka endurkröfu áfrýjanda til greina.

Stefndi og eiginkona hans eru bæði öryrkjar, sem byggja afkomu sína að langmestu leyti á örorkubótum og búa í félagslegri íbúð á vegum borgarinnar. Með hliðsjón af efnahag stefnda, fjárhæð tjóns, sem hann er krafinn um, og öðrum atvikum er líta ber til eftir 2. mgr. 95. gr. umferðarlaga, verður endurkrafan lækkuð. Þykir hæfilegt að stefndi greiði áfrýjanda 100.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, Kristinn Alexandersson, greiði áfrýjanda, Tryggingamiðstöðinni hf., 100.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 23. desember 2000 til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun lögmanns hans, 150.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2003.

Stefnandi málsins er Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, en stefndi er Kristinn Alexandersson, kt. 180139-4439, Írabakka 10,  Reykjavík.

Málið er höfðað með stefnu, dagsettri 9. ágúst 2002, sem birt var fyrir stefnda 14. sama mánaðar. Það var þingfest hér í dómi 10. september s.á.

Málið var dómtekið 4. febrúar sl. að afloknum munnlegum málflutningi.

Stefndi, sem er ólöglærður, flutti mál sitt sjálfur. Dómari gætti leið­beiningarskyldu.

Dómkröfur:

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 327.370 krónur, ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla, sbr. 11. gr., laga um vexti og verð­tryggingu nr. 38/2001, frá 23. desember 2000 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk þess sem stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.

Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.

Málsatvik eru þau, að stefndi var á leið suður Breiðholtsbraut á bifreið sinni, UJ 619 og sveigði til vinstri áleiðis austur Stöng í veg fyrir bifreiðina Þ-1367, sem ekið var norður Breiðholtsbraut. Stefndi fór af vettvangi, þegar eftir áreksturinn. Atvikið átti sér stað að kvöldi sunnudagsins 9. febrúar 1997, eða kl. 20:38, samkvæmt skráningu lögreglu, sem kvödd var á vettvang. Í lögregluskýrslu, sem gerð var í tilefni atburðarins, segir m.a. svo: Ökumaður A (þ.e. stefndi, innskot dómara) var farinn af vettvangi er við komum þangað en eiginkona hans Sigríður Jónsdóttir kt. 271132-3799 sat í hægra framsæti bifreiðarinnar. Tjáði hún okkur að maður hennar hafi farið gangandi heim frá vettvangi. Hún kvað þau hjónin hafa verið að koma úr veislu frá Hótel Loftleiðum og hafi maður hennar ekið bifreiðinni. Aðspurð kvað hún þau bæði hafa drukkið áfengi í veislunni. Sigríði var ekið til síns heima og þar haft tal af manni hennar. Kvaðst hann hafa verið ökumaður á bifreiðinni þegar áreksturinn varð og vera tilbúinn að koma með okkur og ganga frá málinu………

Farið var með stefnda á lögreglustöðina vegna gruns ölvun við akstur. Bókað er í skýrslu lögreglu, að skýrsla hafi verið tekin af stefnda um ölvunarakstur hans. Sú skýrsla liggur ekki fyrir í dóminum. Stefndi gaf á lögreglustöðinni þvagsýni til rannsóknar kl. 22:24. Hann var síðan færður á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur í Fossvogi, þar sem honum var tekið blóð kl. 22:55. Niðurstaða rannsóknar á blóð- og þvagsýnum leiddi í ljós, að áfengismagn í blóði stefnda mældist 2,42 prómill, en í þvagi 2,79 prómill.

Stefndi gaf skýrslu hjá lögreglu hinn 11. mars s.á.  Þar lýsir hann atburðarásinni svo, að hann lagt af stað frá Hótel Loftleiðum milli kl. 19:00 og 19:30 og ekið sem leið lá upp Breiðholtsbrautina að gatnamótum Stangar, þar sem áreksturinn varð. Hann hafi farið strax af vettvangi og haldið heimleiðis fótgangandi, án þess að ræða sérstaklega við ökumann hinnar bifreiðarinnar. Á heimleiðinni heim hafi hann gengið fram hjá söluturninum Leirubakka og ætlað að hringja þaðan, en hætt við það, þar sem hann hafði ekki pening. Þegar heim kom hafi hann reynt að hringja í dóttur sína og tengdason en þau hafi ekki svarað.  Meðan á þessum hringingum stóð hafi hann næstum klárað hálfan vodkapela. Síðan hafi liðið hálftími til þrjú korter þar til lögreglan kom. Stefndi sagðist einungis hafa drukkið léttöl á Hótel Loftleiðum að undanskildu einu hvítvínsglasi, sem hann hafi tekið í misgripum fyrir djúsglas. Hann hafi ekki fundið til áfengisáhrifa við aksturinn. Aðspurður um niðurstöðu blóðrannsóknar taldi stefndi að hún skýrðist af vodkapelanum, sem hann hafi drukkið skömmu áður en blóðsýni var tekið, en gat enga skýringu gefið á niðurstöðu þvagrannsóknarinnar.

Sigríður Jónsdóttir, eiginkona stefnda, gaf skýrslu hjá lögreglu 25. mars s.á.  Hún sagði þau hjón hafa farið að heiman um kl. 18:00 að Hótel Loftleiðum, en þeim hafi verið boðið þar í fimmtugsafmæli.  Þau hafi staðið við í u.þ.b. 2 klst. og haldið þá heim á leið og lent í árekstri. Eiginmaður hennar hafi ekið bílnum og hafi hún ekki séð að hann væri undir áhrifum áfengis og ekki hafa séð hann neyta áfengis fyrr um kvöldið. Hann hafi farið og leitað aðstoðar, eftir að áreksturinn átti sér stað, en hún hafi beðið í bílnum. Þegar hún kom heim í fylgd lögreglu hafi hún séð, að Kristinn var undir áhrifum áfengis.

Mál stefnda var lagt fyrir endurkröfunefnd skv. 96. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sem réð því til lykta á fundi 29. janúar 1999 með svofelldri ákvörðun: Ölvun 2,42 ‰. Tjónvaldi var sent ábyrgðarbréf dags. 11. desember 1998, þar sem honum var tilkynnt um að mál þetta væri til meðferðar hjá endurkröfunefnd og honum gefinn kostur á að tjá sig um það. Þá var í bréfinu sérstök athygli vakin á lækkunar­heimildinni í 2. mgr. 95 gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ekkert svar hefur borist frá tjónvaldi. Með vísan til ölvunar ökumanns í umrætt sinn þykir tjóni þessu hafa verið valdið af stórkostlegu gáleysi í skilningi umferðarlaga. Endurkröfu skal beitt. Fjárhæð kr. 327.370.

Stefnandi beindi málinu að nýju til endurkröfunefndar og óskaði eftir því, að málið yrði endurupptekið. Nefndin afgreiddi beiðni stefnanda á fundi 3. desember 2001 með svohljóðandi ályktun:  Mál þetta var afgreitt af nefndinni á fundi þann 29.01.99. Nefndinni hafa nú borist viðbótargögn frá Tryggingamiðstöðinni hf. með beiðni um endurupptöku málsins. Hin nýju gögn þykja ekki gefa tilefni til að endurupptaka mál þetta. Niðurstaða nefndarinnar frá 29.01.99 skal standa óbreytt. Endurkröfu skal beitt Fjárhæð kr. 327.370. 

Stefnandi sendi stefnda innheimtubréf, dags. 2 apríl 2002 og fylgdi því eftir með málsókn þessari, þar sem stefndi aðhafðist ekkert.

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir á því, að stefndi hafi valdið tjóni, sem nemi stefnufjárhæðinni. Endurkröfunefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu, að stefndi hafi sýnt af sér stór­kostlegt gáleysi í skilningi umferðarlaga, sbr. 2. mgr. 95. gr., með því að hafa að kvöldi 9. febrúar 1997 ekið bifreiðinni UJ-619 ölvaður og valdið tjóni. Því skuli stefnandi beita endurkröfurétti.

Stefnandi vísar til III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 með síðari breytingu til stuðnings dráttarvaxtakröfu sinni, en byggir málskostnaðarkröfu sína á 1. mgr. 130 gr. einkamálalaga nr. 91/1991 (eml.), en kröfu sína um virðisauka­skatt á tildæmda málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Stefnandi vísar enn fremur til laga um vátryggingasamninga nr. 20/1954, umferðarlaga, einkum 95. og 96 gr. og til almennra reglna skaðabótaréttar um ábyrgð tjónvalds á því tjóni, er hann veldur.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir á því, að hann hafi ekki gerst sekur um þá háttsemi, sem endurkröfunefnd byggi niðurstöðu sína á. Hann hafi ekki ekið ölvaður, né fundið til nokkurra áfengisáhrifa, enda ekkert áfengi drukkið. Hann hafi orðið miður sín við áreksturinn og farið af vettvangi illu heilli og haldið heim á leið og hafið þar áfengisdrykkju. Þetta atvik hafi fengið svo mjög á hann, þar sem hann hafi orðið valdið að slysi frá árinu 1958 og brugðist við áfallinu á rangan hátt, enda hafi hann ekki talið það saknæmt, hvorki á þeim tíma né nú.

Þá heldur stefndi því fram, að ökumaður bifreiðarinnar, sem hann lenti í árekstri við hafi ekið langt yfir löglegum hraða. Lögregla hafi látið hjá líða að kanna þetta atriði.

Stefndi lýsir aðstæðum svo, að hann sé illa haldinn af liðagigt og þurfi að aka á sér út búnum bíl, sbr. framlagt læknisvottorð. Bæði hann og eiginkona hans séu öryrkjar, sem byggi afkomu sína eingöngu á örorkubótum frá Tryggingastofnun ríkisins. Þau búi í félagslegri íbúð á vegum Reykjavíkurborgar. Þannig hafi áfallið verið þeim mun þyngra vegna þröngrar fjárhagsstöðu þeirra. Sjálfsábyrgð komi hart niður á efnalitlu fólki, þótt bifreiðin hafi verið húftryggð.

Stefndi bendir einnig á til styrktar sínum málstað, að lögregluyfirvöld hafi fellt niður mál á hendur honum vegna meints brots á umferðarlögum fyrir ölvunarakstur.

Loks vill stefndi mótmæla þeirri staðhæfingu endurkröfunefndar, að hann hafi ekkert tjáð sig fyrir nefndinni. Hann hafi tvisvar hafa haft samband við nefndina út af máli sínu og lýst þar sjónarmiðum sínum, sem ekkert hafi verið hlustað á.

Niðurstaða.

Í 2. mgr. 95 gr. umferðarlaga segir, að tryggingafélag eigi endurkröfurétt á hendur hverjum þeim, sem valdið hefur tjóni af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Endurkröfunefnd skal ákveða, hvort beita skuli endurkröfurétti, skv. 1. mgr. 96 gr. umferðarlaga. Í 5. kafla reglugerðar nr. 556/1993 er fjallað um endurkröfunefnd, starfsvið hennar og starfshætti. Þar segir, að nefndin skuli rekja ástæður þess, að endurkröfu skuli beitt og gera grein fyrir bótafjárhæðum og öðrum atriðum sem máli skipta, sbr. 19. gr. reglugerðarinnar.

Endurkröfunefnd byggði niðurstöðu sína á því, að stefndi hafi ekið ölvaður og þannig sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi umferðarlaga.  Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingu endurkröfunefndar um ölvunarakstur stefnda.

Stefndi var sannanlega undir áhrifum áfengis, þegar lögregla kom á heimili hans eftir áreksturinn og færði hann á lögreglustöð vegna gruns um ölvunarakstur. Einnig er upplýst, að áfengismagn í blóði hans mælist 2,42‰, en í þvagi 2,79‰. Eins og áður er lýst var  honum tekið blóð kl. 22:55, en þvagsýni gaf hann kl. 22:24.

Á hinn bóginn gefa gögn málsins ekki til kynna með ótvíræðum hætti, hvenær áreksturinn varð.  Í frumskýrslu lögreglu er tímasetning atburðarins skráð svo: Sunnudaginn 09.02. kl. 20.38.  Þessi tímaskráning er með öllu óskýrð. Hún gæti átt við þann tíma, þegar atvikið átti sér stað, eða þegar það var tilkynnt lögreglu eða loks þegar lögregla var komin á vettvang. Í frumskýrslunni er vísað til skýrslu, sem tekin var af stefnda, eftir að hann hafði verið færður á lögreglustöð. Sú skýrsla hefur ekki verið lögð fram í dóminum. Í lögregluskýrslu frá 11. mars 1997, sem tekin er rúmum mánuði eftir atburðinn, kvaðst stefndi hafa farið frá Hótel Loftleiðum kl. 19:00 til 19:30. Einnig segist honum þar svo frá, að lögregla hafi komið heim til hans hálftíma eða þremur stundarfjórungum á eftir honum og fært hann á lögreglustöð. Sérstaklega aðspurður hér fyrir dómi kvað stefnandi lögregluna hafa komið heim til hans u.þ.b. einni klukkustund eftir að áreksturinn varð. Blóð- og þvagsýni hafi verið tekin um 15 til 30 mínútum síðar.

Ráða má af vætti Sigrúnar Jónsdóttur, eiginkonu stefnda, hjá lögreglu, sem áður er getið, að þau hjón hafi haldið heim á leið frá Hótel Loftleiðum upp úr kl. 20:00.

Sé gert ráð fyrir því, að áreksturinn hafi orðið um eða upp úr kl. 20:30, líða u.þ.b. tvær klukkustundir, þar til stefnda er gert að gefa þvagsýni og enn lengri tími, þangað til honum er tekið blóð. Engin skýring hefur fengist á þessum langa drætti.

Þá er til þess að líta, að stefnandi hefur engin gögn lagt fyrir dóminn, sem sanna þá grundvallarmálsástæðu hans og endurkröfunefndar, að niðurstöður blóð- og þvagrannsókna sýni og sanni, að stefndi hafi verið undir áhrifum áfengis, þegar áreksturinn varð. Ekkert liggur þannig fyrir um það, hversu langur tími almennt líði frá neyslu, þar til áfengi hafi skilað sér í þvag viðkomandi í því magni, sem hér um ræðir. Því síður hefur stefnandi hafi lagt fram læknisfræðileg og líffræðileg gögn, sem taka mið af líkamsstærð og þyngd stefnda, sem hnekki þeirri staðhæfingu hans, að hann hafi ekki ekið undir áhrifum áfengis, heldur hafið neyslu þess eftir að akstri hans lauk.

Upplýst er, að lögregluyfirvöld felldu niður málssókn á hendur stefnda vegna meints ölvunaraksturs í umrætt sinn. Þessu sér ekki stað í gögnum málsins að öðru leyti en því, að stefndi heldur þessu fram í greinargerð sinni. Lögmaður stefnanda staðfesti þessa fullyrðingu stefnda og eins gekk dómari úr skugga um sannleiksgildi hennar.   Þessi ákvörðun lögreglu hefur enga beina þýðingu fyrir úrslit málsins hér fyrir dómi, þar sem aðrar sönnunarreglur gilda í opinberum málum en einkamálum.

Dóminum þykir á hinn bóginn, með vísan til þess, sem að framan er rakið, verulega skorta á það, að stefnanda hafi tekist að sanna með óyggjandi hætti, að stefndi hafi valdið umræddum árekstri með ásetningi eða stórkostlegu gáleysi með því að hafa ekið undir áhrifum áfengis eða með öðrum hætti, en það er skilyrði þess, að endurkröfu verði beitt gagnvart tjónvaldi.

Því ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda á hendur honum. Rétt þykir að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málsókn þessari.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Kristinn Alexandersson, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf.

Málskostnaður fellur niður.