Hæstiréttur íslands
Mál nr. 433/2016
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Kynferðisleg áreitni
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. maí 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur en að því frágengnu að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af henni, en að því frágengnu að fjárhæð hennar verði lækkuð.
Brotaþoli, A, krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
I
Upphaf máls þessa er að rekja til kæru brotaþola vegna ætlaðra kynferðisbrota ákærða gegn henni í byrjun árs 2013 en hann starfaði sem bifreiðastjóri hjá Ferðaþjónustu fatlaðra í [...] frá [...] 2012 til [...] 2013. Brotaþoli gaf skýrslu hjá lögreglu 20. mars sama ár og kvað þar ákærða hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi sem hún lýsti nánar. Í skýrslunni kom fram að hún hefði sætt ofbeldinu í fjögur skipti, það hefði í öllum tilvikum verið á fimmtudögum og vettvangur brotanna hefði verið nærri starfstöð [...] við [...] í [...]. Lögregla óskaði þegar eftir því að athugað yrði hvort bifreið eins og sú sem ákærði ók fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra hefði sést á öryggismyndavélum [...] á undanförnum fimmtudögum, síðast fimmtudaginn 14. mars 2013. Niðurstaða þeirrar athugunar var sú að vegna rangrar stillingar öryggismyndavélar væru engar upptökur til sem unnt væri að nota. Lögregla aflaði í janúar 2014 læknisfræðilegra gagna frá Tryggingastofnun ríkisins um brotaþola en í þeim kom fram að hún hefði lent í alvarlegu umferðarslysi árið [...], þá sex ára að aldri, og hlotið mikinn höfuðáverka. Hún væri með ,,mikla [...] og [...], aðallega vinstra megin.“ Meðal gagnanna var bréf læknis á Heilsugæslustöð [...] 4. mars 1999 en þar var því lýst að brotaþoli væri ,,mjög misþroska eftir alvarlegan höfuð- og heilaáverka“, lömuð vinstra megin og hafi ekkert vinstra sjónsvið. Þá var einnig aflað vegna rannsóknarinnar taugasálfræðilegs mats á brotaþola 20. mars 2014 og niðurstöðu geðrannsóknar á henni 24. sama mánaðar, en bæði þessi gögn voru unnin af öðru tilefni. Efni þessara gagna er að nokkru getið í hinum áfrýjaða dómi.
Lögregla tók skýrslu af ákærða föstudaginn 22. mars 2013 en þar neitaði hann þeim sökum sem á hann voru bornar. Hann upplýsti að hann hefði ekið brotaþola á fimmtudögum í um það bil einn mánuð og taldi að það hefði getað verið í fjögur skipti. Ákærði var spurður hvenær hann hefði ekið brotaþola síðast og kvað hann það hafa verið fimmtudaginn 14. mars. Hann lýsti þeirri ökuferð á þann veg að hann hefði fyrst sótt brotaþola og tvo fatlaða menn í [...] við [...] í [...] um klukkan 17.10 og ekið mönnunum á tvo tilgreinda staði í [...]. Þá hefði hann ekið að [...] þar í bæ og sótt þar tvo fatlaða menn og ekið þeim í [...] í [...] og svo í beinu framhaldi ekið brotaþola til heimilis hennar að [...] í [...].
Lögreglan ræddi 18. mars 2013 í rannsóknarskyni við móður brotaþola og tveimur dögum síðar við konu sem þá veitti sambýlinu við [...] forstöðu. Þá ræddi lögregla við yfirmann hjá Ferðaþjónustu fatlaðra í [...]. Um þessi samtöl ritaði lögregla upplýsingaskýrslur.
Með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 5. mars 2014 var brotaþola tilkynnt að rannsókn á ætluðum brotum ákærða hefði verið hætt, sbr. 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ástæður þess væru að sönnunarstaða í málinu þætti erfið og að frekari rannsókn myndi ,,ekki verða til þess að varpa skýrara ljósi á atburði.“ Brotaþoli kærði þessa ákvörðun 1. apríl 2014 til ríkissaksóknara sem felldi hana úr gildi 4. maí sama ár. Var niðurstaða ríkissaksóknara á því reist að rétt væri að afla frekari gagna og um það vísað til rannsóknarfyrirmæla sem fylgdu afstöðu hans. Var þar lagt fyrir lögreglustjóra að rannsaka málið frekar og bent á að brotaþoli og ákærði virtust sammála um að ákærði hefði ekið henni fjóra fimmtudaga í röð. Þyrfti að staðreyna ,,ferðir kærða umrædda fimmtudaga, þ.e. hvaða leið hann ók umrætt sinn, hverja hann átti að sækja og hvert hann átti að aka, en hugsanlega eru þessar upplýsingar til hjá Ferðaþjónustu fatlaðra í [...].“ Í fyrirmælunum kom einnig fram sú skoðun að ákærði hefði verið ,,mjög reikull“ í framburði sínum um það hvaða leið hann hefði ekið síðasta fimmtudaginn, hverja hann átti að sækja og hvert hann hefði ekið þeim. Þá þyrfti að hafa uppi á vitnum og ræða við þau. Meta þyrfti þroska og heilbrigðisástand brotaþola bæði hvað varðaði líkamlega og andlega fötlun. Nauðsynlegt væri að kanna sérstaklega hvort spenna þyrfti öryggisbelti fyrir hana vegna fötlunarinnar. Í lok fyrirmælanna var áréttað að fá þyrfti skýringu ,,á hinum óljósa framburði“ ákærða um ferðir hans síðasta fimmtudaginn, meðal annars hvers vegna hann hefði ekið brotaþola heim síðast.
Í kjölfar þessa tók lögregla skýrslur af ákærða og vitnum, þó ekki brotaþola, auk þess sem aflað var upplýsinga símleiðis. Virðist þessum hluta rannsóknarinnar hafa lokið um mitt ár 2014. Ákæra var gefin út 22. september 2015 og aðalmeðferð fór fram í héraði 1. apríl 2016, en þá voru liðin þrjú ár frá því ætluð brot voru framin. Samkvæmt gögnum málsins var, hvað sem leið áðurnefndum rannsóknarfyrirmælum ríkissaksóknara, engra upplýsinga aflað um akstur ákærða með brotaþola á öðrum fimmtudögum en 14. mars 2013.
II
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sýknaður af þeim hluta ákærunnar sem laut að sakargiftum um samræði og önnur kynferðismök við brotaþola, meðal annars um að hafa sett fingur inn í leggöng hennar. Var hann þannig sýknaður af ákæru um brot á 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hann var á hinn bóginn sakfelldur fyrir brot á 199. gr. sömu laga fyrir að hafa ,,káfað innanklæða á brjóstum og kynfærum brotaþola í eitt skipti þann 14. mars 2013, þótt ekki liggi fyrir hvort það hafi verið utandyra eða inni í bifreið á vegum Ferðaþjónustu fatlaðra.“
Fyrir Hæstarétti krefst ákæruvaldið staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing verði þyngd. Ákæruvaldið unir dómi að því leyti sem sýknað var. Kröfum ákærða er lýst að framan. Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti og með vísan til þess að ágreiningslaust er að ákærði hafi einungis ekið brotaþola fjórum sinnum, alltaf á fimmtudögum, og engar upplýsingar liggja fyrir um hvernig akstri var háttað í öðrum tilvikum en fimmtudaginn 14. mars 2013, hverfist málið um það hvort staðfesta eigi niðurstöðu héraðsdóms um að ákærði hafi þennan dag gerst sekur um þá háttsemi sem hann var sakfelldur fyrir í héraði.
Af hálfu ákærða voru lögð fram nokkur gögn í héraði um akstur hans áðurgreindan dag og hve ætla mætti að sá akstur hefði tekið langan tíma. Meðal gagnanna var svonefndur dagseðill frá Ferðaþjónustu fatlaðra vegna aksturs þann dag. Við meðferð málsins í héraði var lagt til grundvallar að ákærði hefði sinnt þeim akstri sem tilgreindur var á dagseðlinum. Síðasta verkefni þessa dags samkvæmt seðlinum var að sækja brotaþola og tvo nafngreinda menn í [...] og aka þeim á tvo tiltekna staði í [...] og henni að [...]. Ekki var þar getið um akstur með þá tvo sem við bættust samkvæmt því sem áður segir, en fyrrgreindur yfirmaður hjá Ferðaþjónustu fatlaðra staðfesti fyrir dómi að vel gæti verið að slík fyrirmæli um akstur hefðu verið gefin eftir upphaf ferðar, án þess að það hefði ratað inn á dagseðilinn. Hefur ákæruvaldið ekki hnekkt staðhæfingum ákærða um að hann hafi fengið fyrirmæli um akstur mannanna og sinnt þeim fyrirmælum á þann hátt sem áður greinir. Sá akstur sem sinna skyldi sem síðasta verkefni dagsins 14. mars 2013, að teknu tilliti til viðbótarakstursins, rennir engum stoðum undir það að ákærði hafi skilað brotaþola seinna til sambýlisins að [...] en eðlilegt mætti telja miðað við þá umferð sem gera má ráð fyrir milli klukkan 17 og 18 á fimmtudögum. Þá telst það eðlileg ráðstöfun að aka þeim sem sóttir eru í [...] við [...] og eiga áfangastað í [...] fyrst og síðar þeim sem ætlar að [...] í [...] ekki síst í ljósi þess að starfstöð Ferðaþjónustunnar og heimili ákærða var í [...].
Engin rannsókn fór fram á bifreiðinni sem ákærði ók á vegum Ferðaþjónustu fatlaðra, en fram kemur í gögnum málsins að um hafi verið að ræða bifreið af gerðinni [...]. Engar ljósmyndir hafa verið lagðar fram af afstöðu framsæta í bifreiðinni, en brotaþoli hefur borið að ákærði hafi káfað á sér innanklæða í bifreiðinni og hafi þau þá setið hvort í sínu framsæti hennar. Er því útilokað að leggja mat á hvort trúverðugt sé að ákærði hafi þar gerst sekur um þá háttsemi sem borin er á hann.
Ákæruvaldið lagði fram við flutning málsins í Hæstarétti tölvubréfasamskipti þess við Ferðaþjónustu fatlaðra 1. júní 2017 um skýringu á áðurnefndum dagseðli, sem lagt hefur verið til grundvallar í málinu að sýndi akstur ákærða 14. mars 2013. Með vísan til skýringanna lýsti ákæruvaldið því að ekki væri víst að ákærði hefði ekið brotaþola þennan dag, en atvik hefðu allt að einu getað gerst á öðrum fimmtudegi. Hefði kröfugerð ákæruvaldsins alltaf miðast við þann möguleika.
III
Eins og áður greinir fór aðalmeðferð málsins fram í héraði þegar liðin voru þrjú ár frá því að ætluð brot voru framin. Nokkur þeirra vitna, sem gáfu skýrslu fyrir dómi, báru fyrir sig að muna atvik illa þar sem svo langt var um liðið. Einkum var óljóst hvenær árs brotið var framið og hvenær brotaþoli hefði átt að vera komin til sambýlisins að [...] eftir að hafa verið í [...] og þar með hvort ákærði hefði skilað henni seinna en eðlilegt gat talist. Ekki var nýtt heimild c. liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 til þess að taka skýrslu fyrir dómi af brotaþola við rannsókn málsins, sem þó var brýnt vegna þroskaskerðingar hennar. Slík skýrsla hefði verið betur til þess fallin að upplýsa um atvik máls, en sú skýrsla sem tekin var við aðalmeðferðina þremur árum síðar.
Samkvæmt framansögðu er nú uppi óvissa um hvort ákærði ók brotaþola 14. mars 2013. Akstur ákærða með brotaþola aðra fimmtudaga hefur ekkert verið rannsakaður, þrátt fyrir fyrirmæli ríkissaksóknara þar um og kemur samkvæmt framansögðu ekki til álita að leggja til grundvallar að ætlað brot hafi verið framið á öðrum degi en þeim sem sakfelling héraðsdóms miðast við. Þá skortir á að unnt sé að meta hvort aðstæður í bifreið þeirri sem ákærði ók hafi verið með þeim hætti að hugsanlegt sé að hann hafi beitt brotaþola kynferðislegu áreiti þar. Með vísan til framangreindrar óvissu er ekki fram komin nægileg sönnun svo sem áskilið er í 109. gr. laga nr. 88/2008 um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hann var sakfelldur fyrir í héraðsdómi. Verður hann því einnig sýknaður af sakargiftum sem lúta að broti á 199. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 verður einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá héraðsdómi.
Sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraðsdómi verður allur felldur á ríkissjóð.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Einkaréttarkröfu A er vísað frá héraðsdómi.
Sakarkostnaður eins og hann var ákveðinn í héraði greiðist allur úr ríkissjóði.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 1.240.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. apríl 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var 1. apríl 2016, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 22. september 2015, á hendur X, kennitala [...], [...], [...], „fyrir nauðgun og kynferðislega áreitni, með því að hafa á tímabilinu frá byrjun árs 2013 til 14. mars 2013, í fjögur skipti, haft samræði og önnur kynferðismök við [A], kennitala [...], og káfað innanklæða á brjóstum hennar og kynfærum, utandyra í [...] og í bifreið á vegum Ferðaþjónustu fatlaðra í [...] sem ákærði ók, og við það notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar.“
Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. og 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
A krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.000.000 króna með vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 14. mars 2013 þar til mánuður er liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafa þessi, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. sömu laga. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á málskostnað.
Ákærði krefst þess aðallega að verða sýknaður af refsikröfum ákæruvalds og að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara krefst hann þess að honum verði ekki gerð refsing í málinu, og að bótakrafan verði lækkuð verulega en til þrautavara að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda.
I
Málsatvik
Mál þetta hófst með því að brotaþoli, sem er andlega fötluð, mætti til lögreglu þann 20. mars 2013, þar sem tekin var af henni skýrsla að viðstöddum lögmanni og móður brotaþola, vegna gruns um kynferðisbrot gagnvart henni. Skýrði brotaþoli þar svo frá að nafngreindur maður sem starfaði við að aka bifreið fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra, hefði káfað á brjóstum og kynfærum hennar innan klæða. Í framhaldi af því hafi ákærði klætt sig og brotaþola úr fötum, byrjað að fróað sér en jafnframt haft við hana samræði. Hafi þetta gerst alls fjórum sinnum.
Ákærði kom til skýrslutöku hjá lögreglu tveimur dögum síðar. Borinn var undir ákærða framburður brotaþola og kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa framið þá háttsemi og neitaði alfarið sök og hefur neitað sök í síðari skýrslum hjá lögreglu og fyrir dómi.
Með bréfi, dagsettu 5. mars 2014, var brotaþola tilkynnt af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að rannsókn málsins hefði verið hætt vegna erfiðrar sönnunarstöðu. Með bréfi, dagsettu 1. apríl 2014, var ákvörðun lögreglustjóra kærð til ríkissaksóknara. Með bréfi, dagsettu 4. maí 2014, frá ríkissaksóknara til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, var lagt fyrir lögreglu að rannsaka sérstaklega hver hafi fest brotaþola í öryggisbelti bifreiðarinnar og að rannsaka ferðir ákærða á fimmtudögum og hafa uppi á vitnum sem hafi verið í bifreiðinni þá daga.
Í málinu liggja fyrir vitnisburðir ákærða og brotaþola og annarra sem kallaðir voru til skýrslutöku fyrir dómi. Fyrir liggur bótakrafa brotaþola sem móttekin var hjá lögreglu þann 17. apríl 2013 og birt fyrir ákærða þann 30. júlí 2013. Þar að auki liggur fyrir taugasálfræðilegt mat á brotaþola, dags. 20. mars 2014, framkvæmt af dr. B taugasálfræðingi, geðrannsókn sem framkvæmd var á brotaþola, dags. 24. mars 2014, af C geðlækni, vottorð D, sérfræðingi í kvenlækningum, dags. 31. mars 2016, og skráðar upplýsingar frá vistheimili brotaþola auk bréfs ríkissaksóknara, dagsett 29. mars 2016. Þá voru lögð fram gögn af hálfu verjanda um veðurfar á þeim tíma sem ákæra málsins nær yfir, upplýsingar um umferð og umferðartíma auk ljósmynda af meintum brotavettvangi.
II
Skýrslur fyrir dómi.
Ákærði, X, kom fyrir dóminn og neitaði sök. Kvað hann kynni sín af brotaþola hafi verið þau að hún hafi verið farþegi í bifreið sem hann hafi ekið á vegum Ferðaþjónustu fatlaðra þar sem hann starfaði á tímabilinu [...] 2012 og fram í [...] 2013. Hafi hann ekið brotaþola í fjögur skipti í byrjun árs 2013, í öllum tilfellum á fimmtudögum. Hafi hann alltaf sótt brotaþola samkvæmt áætlun kl. 17:15 í [...] á [...]. Fyrst hafi hann keyrt tvo farþega í [...] í [...] og síðan brotaþola og hafi hann þá verið einn með henni. Aldrei hefði verið keyrður „aukarúntur“ eða brotaþoli farið úr bifreiðinni fyrr en hún hafi verið komin að [...] í [...]. Hafi síðasti akstur hans með brotaþola verið 14. mars 2013. Við [...] hafi starfsmaður komið út og tekið á móti brotaþola sem hafi sjálf gengið út úr bifreiðinni. Kvaðst ákærði aðspurður ekki hafa komið of seint með brotaþola heim, og ef það hafi gerst hafi það verið vegna tafa í umferð eða tafa vegna annarra farþega.
Beðinn um að lýsa samskiptum sínum við brotaþola kom fram að þau hafi engin verið fyrir utan það að hann hafi keyrt hana og fest á hana bílbelti eins og aðra farþega en hafi þó kynnt sig fyrir henni með fullu nafni. Hafi brotaþoli alltaf setið frammi í bifreiðinni en þau hafi ekkert rætt saman. Hann hafi engin kynferðisleg samskipti átt við brotaþola eða snertingar nema ef það hafi gerst að hann hafi rekið í hana olnboga þegar hann var að festa brotaþola í bílbelti. Þá hafi hann ekki átt neitt við fatnað hennar eða verið með sérstakar óskir um klæðnað hennar. Aðspurður um hvaða upplýsingar hann hafi haft um þroska brotaþola kvaðst hann engar hafa fengið en hafa séð að eitthvað var að henni í hendinni en ekkert vitað um hennar andlegu hlið. Aðspurður kvaðst hann hafa fengið nöfn farþega á lista en engar upplýsingar um fötlun þeirra.
Beðinn um að lýsa nánar síðustu ferð hans með brotaþola kvaðst ákærði hafa fengið símtal frá yfirmanni ferðaþjónustunnar þar sem hann hafi verið beðinn um að koma við í [...] og taka þar upp í bílinn tvo einstaklinga. Áður hafi hann keyrt tvo aðra einstaklinga upp í [...] og [...], síðan hafi hann ekið að [...] í [...] þar sem hann hafi sótt fyrrgreinda tvo einstaklinga sem hann hafi keyrt í [...] í [...]. Hafi þeir verið í hjólastólum og hann þurft að aðstoða þá nokkuð sem hafi tekið tíma. Þaðan hafi hann ekið [...] og rakleitt að [...]. Spurður hvort hann hafi keyrt nálægt starfstöð [...] eða að hafa ekið á afvikinn stað, svaraði ákærði því neitandi. Aðspurður hvort hann hafi farið inn á heimilið að [...] svaraði ákærði því neitandi, hann hafi ekki heimild til þess en hafi komið inn í anddyrið þegar hann hafi verið að sækja vistmenn, en hann hafi aldrei sótt brotaþola þangað. Hann hafi því aldrei farið inn á heimilið að [...] eða rætt við starfsmenn þar. Þá kvaðst ákærði ekki kannast við að hafa kallað brotaþola „gullmola“ og hafði ekki skýringu á framburði vitna hjá lögreglu um það eða að hafa beðið brotaþola um að vera í flegnum bol.
Fram kom hjá ákærða að hann væri fjölskyldumaður og hafi málið tekið mikið á hann og fjölskyldu hans.
Vitnið A, brotaþoli í máli þessu, kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Fram kom að hún byggi að [...] í [...] en færi í vinnu á hverjum degi að [...] í [...] auk þess sem hún sækti [...] á [...] alltaf á fimmtudögum. Ferðaðist hún á nefnda staði með Ferðaþjónustu fatlaðra og hafi ákærði þessa máls stundum sótt hana en þá bara í [...].
Brotaþoli bar að ákærði hefði brotið gegn henni. Ákærði hafi þuklað brjóst hennar, sem ákærði hafi kallað „kókoshnetur“ og kynfæri hennar innan klæða með hendi en áður hafi ákærði girt niður buxur hennar og reynt að losa peysu hennar. Hafi ákærði stungið puttanum inn í „kvísuna“ á henni. Spurð hvort ákærði hefði stungið einhverju öðru inn í „kvísuna“ svaraði brotaþoli því neitandi. Spurð hvort þetta hafi gerst oft taldi brotaþoli að þetta hefði gerst í mesta lagi tvisvar, einu sinni inni í bifreiðinni og einu sinni fyrir utan bifreiðina. Þegar atvikið hafi gerst inni í bifreiðinni hafi hún setið frammi í. Hafi ákærði setið í sínu sæti en hún mundi það ekki vel en það hafi gerst nálægt [...]. Aðspurð kvað hún það hafa verið þröngt að athafna sig.
Beðin um lýsa því hvernig atvikum hafi verið háttað fyrir utan bifreiðina, kvaðst brotaþoli hafa losað öryggisbelti sitt sjálf og gengið út, en hún hafi ekki verið komin heim. Beðin um að lýsa því hvar þau hafi verið, bar brotaþoli að þau hafi verið í grasi, í laut, hún hafi ekki þekkt staðinn neitt. Spurð hvort ákærði hefði farið úr fötum sínum svaraði brotaþoli því neitandi en hún sjálf hafi verið í flegnum bol. Brotaþoli bar aðspurð að það hafi verið napurt úti og rökkur.
Aðspurð hvort ákærði hefði óskað eftir því að hún væri í einhverjum ákveðnum fötum, bar brotaþoli að ákærði hefði óskað eftir því einu sinni að hún væri í gegnsæjum fötum. Spurð hvort ákærði hefði beðið hana að koma í flegnum fötum svaraði brotaþola því játandi, svo að hann gæti betur séð brjóstin á henni og „vinkonu“.
Aðspurð hvort hún hafi séð typpi ákærða kvaðst brotaþoli einu sinni hafi séð typpi hans. Hafi það verið þegar ákærði var að „hleypa litla vininum út til þess að anda“. Hafi ákærða verið mál „að losa vininn“ og gleymt að setja „vininn“ alveg inn í buxurnar. Hafi það gerst fyrir utan bifreiðina en hún sjálf hafi þá verið inni í bifreiðinni. Taldi brotaþoli að þetta hafi gerst einhvers staðar hjá [...], „þar sem hann losaði þvagið“. Þegar ákærði hafi komið inn aftur hafi hún séð typpið á ákærða. Hún hafi ekki komið neitt við það og ákærði ekki komið neitt við hana með typpinu. Spurð hvort það væri rétt að ákærði hefði ekki sett typpið inn í kynfæri hennar, kvað hún það rétt. Spurð hvort hún hafi séð sæði koma úr typpi ákærða bar brotaþoli að hafa séð það einu sinni. Hafi það gerst þegar ákærði hafi verið að fróa sér inni í bifreiðinni og hafi hún þá allt í einu séð eitthvað detta, eins og lítið kusk. Hafi hún dustað það af, enda haldið það vera kusk, en í raun hafi það verið sæði frá honum. Beðin um að lýsa því nánar þegar ákærði hafi verið að fróa sér, bar brotaþoli að það hafi verið: „Voða gaman hjá honum þá“. Sjálf hafi hún á meðan verið inni á kaffihúsi „eða eitthvað“ til að fara á salerni. Hafi þetta verið rétt hjá [...] niðri í bæ. Spurð hvernig hún hafi vitað að ákærði hafi verið að fróa sér, kvaðst brotaþoli hafa fattað það. Spurð hvort hún hafi ekki séð það svaraði hún því þannig að hún hafi séð það af „öllum hvítu frjóunum“. Ítrekað spurð hvort hún hafi séð þegar ákærði fróaði sér, svaraði brotaþoli því neitandi.
Borin var undir brotaþola skýrsla hennar hjá lögreglu þar sem fram kom að ákærði hafi verið að fróa sér og síðan „stungið beint inn í hana“. Brotaþoli var spurð hverju ákærði hafi stungið inn í hana og sagði brotaþoli þá að ákærði hafi stungið inn „litla vininum“. Beðin um að segja frá því bar brotaþoli að ákærði hafi kallað hana einhverjum fáránlegum nöfnum sem hún væri búin að gleyma. Hafi móðir hennar sagt að það hafi verið „gullmolinn sinn“. Hún kvaðst ekki muna þetta en hún hafi setið frammi í bifreiðinni þegar þetta hafi átt sér stað og hafi hún fengið hitakóf og orðið sveitt. Spurð hvort það hefði gerst að ákærði hafi sett typpið inn í kynfæri hennar eða ekki sett typpið inn í hana svaraði brotaþoli: „hann reyndi það“ en hafi ekki getað það.
Brotaþoli var spurð hvort hún og ákærði hafi rætt eitthvað saman á meðan ákærði hafi ekið henni á milli staða. Svaraði brotaþoli því neitandi, hún hafi ekki haft kjark til þess að ræða við hann. Spurð hvort hún myndi eftir tveimur nafngreindum einstaklingum sem hefðu verið í bifreiðinni þann 14. mars 2013 mundi hún það og bar jafnframt að hún myndi eftir því að hafa ekki verið keyrð beint heim heldur verið að rúnta niðri í bæ. Spurð hvort hún myndi eftir því að ákærði hefði komið inn á [...], svarði brotaþoli því neitandi. Þá hafi ákærði ekki sett hana í bílbelti eða losað hana og bílstjórar hjálpi henni ekki inn og út úr bifreiðinni.
Vitnið E, móðir brotaþola kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Bar vitnið að F, forstöðukona að [...], hafi hringt í sig og beðið sig að koma þar sem brotaþoli hafi þurft að ræða við vitnið. Hafi brotaþoli lýst fyrir henni og F að ákærði hefði verið að þukla og káfa á henni. Einnig hafi hún nefnt að ákærði hafi farið með fingur inn í „vinkonu hennar“. Hafi brotaþola liðið illa þegar hún sagði frá, farið hjá sér og verið feimin. Hafi brotaþoli lýst því að ákærði hefði brotið gegn henni og síðar sagt vitninu að ákærði hefði reynt að setja typpið inn í kynfæri hennar. Hafi vitnið hringt í lögreglu að hana minnti á mánudegi. Tveimur dögum síðar hafi verið tekin skýrsla af brotaþola.
Spurð hvort brotaþoli hafi síðar lýst nánar fyrir henni atburðum bar vitnið að brotaþoli hafi ekki farið mjög náið út í það en að atvik hafi átt sér stað bæði inni í bifreiðinni og fyrir utan hana. Hafi vitnið spurt brotaþola hvernig hún hefði farið úr buxunum inni í bifreiðinni og brotaþoli þá lýst fyrir henni hvernig sætinu hefði verið hallað og hún mjakað sér til og frá. Einnig hafi brotaþoli lýst því hvernig ákærði hefði „rennt henni út úr bifreiðinni og tekið báðar buxurnar niður“ og hafi brotaþoli þurft að fróa ákærða. Þá hafi brotaþoli lýst því að ákærði hafi viljað setja „vininn“ inn en það hafi ekki gengið. Vitnið hafi hins vegar passað sig á því vegna minnis brotaþola að spyrja ekki beinna eða óbeinna spurninga um atvik eða að fara nánar út í þau, enda væri mikilvægt að það kæmi frá brotaþola. Eftir skýrslutöku af ákærða hjá lögreglu hafi hún kallað saman alla ættingja vistmanna á [...] og upplýst þá um atvik.
Vitnið var spurt hvort það hefði hitt ákærða og bar vitnið að hafa hitt hann í febrúar 2013 við eldhúsið að [...] og hafi ákærði þá sagt í tilefni af því að brotaþoli og systir hennar hafi verið að fara til [...]: „Þið verðið sko að passa þennan gullmola vel.“ Þá bar vitnið að kynfæri brotaþola hafi í eitt sinn verið „eldrauð“ og vitnið talið að brotaþoli væri að fá sveppasýkingu, enda gjörn á að fá sveppasýkingu. Vitnið vissi ekki hvenær þetta hefði verið en það hefði verið á fimmtudegi því að þá kæmi brotaþoli almennt seinna heim en venjulega þar sem hún væri í [...].
Vitnið bar að brotaþoli væri ekki kynferðislega virk og atvikin hafi tekið mikið á hana og væri hún mjög breytt í hegðun eftir þetta og til dagsins í dag. Brotaþoli væri mjög óörugg og lífsgleði hennar væri farin.
Vitnið G, starfsmaður á [...] kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Bar hún að þann dag sem hún hafi uppgötvað að ekki hafi allt verið í lagi, hafi ákærði komið með brotaþola inn í forstofu „dansandi“, hress og kátur. Hafi þetta verið um fimmleytið. Þegar ákærði hafi verið farinn hafi brotaþoli sagt: „[G], ég á að koma í fleginni blússu á morgun“. Hafi hún spurt hana af hverju og brotaþoli þá sagt: „Þá er þægilegra fyrir [X] að koma við mig.“ Hafi hún tekið eftir því að föt brotaþola hafi verið ofan í nærbuxum vinstra megin en brotaþoli hafi ekki mátt í vinstri hendi og geti bara girt sig hægra megin. Hafi þetta verið augljóst þar sem brotaþoli hafi verið í pilsi og að það hafi verið hásumar, en þannig væri hún ekki klædd um vetur. Hún hafi ekki áður orðið vör við þetta. Hafi hún farið með brotaþola inn í herbergi og hringt í móður hennar og yfirmann en ekki rætt frekar við brotaþola um málið. Um kvöldið þegar hún hafi verið að hátta brotaþola hafi brotaþoli hins vegar sagt henni frá því að ákærði hafi verið að káfa á henni og hvar hann hafi káfað, og hafi það verið á brjóstum og kynfærum og einnig hafi brotaþoli sagt henni hvar bifreiðin hefði stoppað og hafi það verið við [...] á [...] og hafi ákærði keyrt þar niður á milli húsa. Einnig hafi brotaþoli sagt: „Ég þarf líka að gera við hann“, en hafi ekki útskýrt það frekar. Hafi brotaþoli sagt við vitnið að hún og ákærði færu stundum út úr bifreiðinni og hafi ákærði farið inn á brjóst og kynfæri hennar. Bar vitnið að hún hafi lagt trúnað á frásögn brotaþola, enda þekkt hana í 12-13 ár á þeim tíma sem hún hafi unnið á [...].
Vitnið var spurt hvort það vissi hversu oft ákærði hefði keyrt brotaþola og bar vitnið að það hafi verið mjög oft. Þá hafi henni fundist skrítið að ákærði hefði alltaf komið seint með brotaþola og ákærði borið því við að hann hefði verið að keyra aðra heim á undan en það hefði ekki verið þannig. Hefði ákærði átt að koma með brotaþola um kl. 16:00-16:30. Vitnið var þó ekki visst um nákvæma tímasetningu hvenær brotaþoli hafi átt að koma heim úr [...]. Til væri skráning um hvenær vistmenn eigi að koma en ekki væri skráð hvenær vistmenn komi í raun.
Vitnið H, fyrrverandi starfsmaður á [...], kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Bar hún að brotaþoli hafi upplýst hana um samskipti hennar og ákærða. Hafi brotaþoli sagt að það hafi verið spennandi akstursferðir með ákærða og hafi brotaþoli sagt að sér væri heitt á brjóstunum þar sem ákærði hafi fiktað við brjóst hennar. Taldi vitnið að þetta hafi verið um sumar eða byrjun vors en kvaðst ekki vera viss og var heldur ekki viss hvaða vikudag þetta gæti hafa verið en nefndi föstudag eða miðvikudag. Hafi brotaþoli sagt henni frá þessu sama dag og ákærði hefði verið of seinn heim með brotaþola og hafi hún verið búin að hringja í ákærða vegna þess, enda væru það starfsreglur að liðu meira en fimmtán mínútur frá því að vistmenn ættu að vera komnir, væri hringt. Hafi hún þá fengið þær upplýsingar frá ákærða að brotaþoli væri í bíltúr og hafi það ekki verið óvenjulegt þar sem brotaþoli hefði gaman af því að sitja fremst og rúnta um. Hún hefði hins vegar þurft að hringja aftur í ákærða eftir tuttugu mínútur og þegar ákærði hafi komið með brotaþola hafi hann sagt: „[H] mín, þú ætlar ekki að klaga mig.“ Spurð hvort hún vissi klukkan hvað þetta hafi verið var vitnið ekki visst.
Vitnið var spurt hvort það hafi haft mikil samskipti við ákærða og kvað hún þau hafi verið nokkur þegar ákærði hefði komið til að aðstoða með hjólastóla og þessháttar, en þá kæmi hann bara inn í forstofu. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vart við neitt óeðlilegt nema í þetta eina sinn og hafi brotaþoli þá verið rauð á brjóstunum. Lögregluskýrsla var borin undir vitnið þar sem það lýsti því þegar brotaþoli hefði verið að tala um „[X] sinn“ og sagst þurfa að koma í flegnum bol. Mundi vitnið það ekki en taldi að það hefði munað þetta betur við skýrslutöku hjá lögreglu.
Vitnið I, starfsmaður á [...], kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Var hann beðinn um að gera grein fyrir samskiptum ákærða og brotaþola. Bar vitnið að það hafi verið algengt að brotaþoli hafi komið seinna heim en dagskrá hafi sagt til um, oft skeikað hálftíma til fjörutíu mínútum. Hafi starfsfólki almennt ekki þótt þetta óeðlilegt. Hins vegar hafi hann þann 13. mars 2013 skráð í skilaboðaskruddu [...] að brotaþoli hafi sagt honum með bros á vör að ákærði hafi beðið brotaþola að koma í flegnum bol daginn eftir í vinnuna. Honum hafi fundist þetta óeðlilegt þar sem brotaþoli hafi ekki átt frumkvæði að þessháttar áður, enda með lélegt skammtímaminni. Hafi hann farið með brotaþola inn á herbergi og hafi brotaþoli þá sagt að eitthvað hefði gerst, einhverjar snertingar en hafi gert lítið úr því og hann ekki metið það meira en einhvers konar áreiti. Hafi hann kallað til F, yfirmann [...], sem hafi í framhaldi af því rætt við brotaþola. Sjálfur hafi hann verið frá vinnu í nokkra daga eftir þetta.
Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vitni að því að ákærði hafi viðhaft orð um brotaþola eða séð ákærða koma inn fyrir anddyri [...]. Hann mundi eftir tveimur til þremur tilfellum þegar brotaþoli hafi verið illa girt á hálfs árs tímabili en gat ekki sagt nánar til um hvenær. Spurður hvort hann hafi upplifað breytingar á brotaþola kvað hann svo ekki vera og taldi ekki að hún hafi hlotið af andlegan skaða, en brotaþoli hafi verið undir miklu álagi og þreytt vegna þessa máls og þurft að hitta marga og hafi meðal annars sagt að hún vildi verða lögfræðingur vegna allra samskipta hennar við þá.
Vitnið F, fyrrverandi forstöðukona á [...], kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Vitnið bar að brotaþoli hafi í eitt sinn verið pirruð og hafi annar starfsmaður tekið á móti brotaþola en hafi kallað hana til. Hafi brotaþoli reynst vera pirruð yfir því að ákærði hafi alltaf verið að segja henni að vera í flegnum bol og hafi ekki skilið hvers vegna. Hafi hún rætt við brotaþola vegna þessa og hvort ákærði hafi sagt eitthvað meira en muni ekki nákvæmlega hvað hafi þá komið fram. Hafi starfsmenn verið beðnir að fylgjast með, enda hefði ferðum ákærða með brotaþola oft seinkað, en það hefði almennt ekki verið óvenjulegt, en þó hafi seinkunin verið lengri með ákærða þegar brotaþoli hafi verið að koma úr [...]. Hafi brotaþoli þá yfirleitt verið að koma um það bil korter fyrir sex. Vitnið hafi vitað að fleiri voru sóttir í sömu ferð og þeim væri ekið heim fyrst, en vissi ekki hvar þeir hafi búið en talið það vera í leiðinni. Brotaþola hafi hins vegar þótt gaman að keyra með bílstjórum sem hafi nýtt sér ferðirnar og komið við á öðrum stöðum.
Spurð hvort hún hafi sjálf haft einhver afskipti af ákærða kom fram hún hafi átt mörg samskipti við ákærða í anddyri [...] og stundum hefði ákærði komið aðeins lengra inn í spjall. Í eitt skiptið fyrir atvik málsins hafi ákærði spurt vitnið hvernig minni brotaþola væri háttað og hvort brotaþoli myndi mikið eða hvort eitthvað væri að marka sem hún segði. Hafi henni þótt þetta skrítið en minni brotaþola væri þannig að það kæmi yfirleitt aftur og ef hún myndi ekki, væri hún ekki að búa neitt til.
Vitnið staðfesti að hafa undirritað skilaboð dagsett 18. mars 2013. Hafi hún skrifað þetta á mánudegi eftir að framangreind atvik hafi komið upp. Hafi brotaþoli lýst fyrir henni hvernig ákærði hefði káfað á brjóstum hennar og klofi og fleiru eins og fram kæmi í skilaboðunum, en vitnið mundi ekki hvað fleira hafi verið rætt. Þá komi fram í skilaboðunum að brotaþoli hefði rætt við annan starfsmann á fimmtudegi fyrir helgina, eða þann 14. mars, og skýrt þeim starfsmanni frá því sama. Hefði saga brotaþola verið óbreytt að morgni 18. mars og hún þá ákveðið að hringja í móður brotaþola.
Vitnið bar að seinna hefði komið upp að eitthvað meira hefði gerst. Hafi hún ekki viljað fara náið út í það en sumir hefðu verið að spyrja brotaþola of leiðandi spurninga og hún því ekki tekið of mikið mark á öllu sem hafi verið sagt eftir að málið fór af stað. Þannig hafi brotaþoli til dæmis ekki verið viss hvar hefði verið stoppað. Brotaþoli myndi hins vegar ekki ljúga. Spurð hverjir hefðu verið að spyrja of leiðandi spurninga, kom fram að það hafi verið móðir brotaþola og annar starfsmaður [...] sem hafi leitt til þess að brotaþoli hafi farið að ræða mikið um málið. Eftir það hafi brotaþoli farið að ræða um að bifreiðin hafi verið stoppuð og ákærði verið að leika með typpið á sér í bifreiðinni.
Vitnið J kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Bar vitnið að hafa í eitt sinn orðið vitni að samskiptum brotaþola og ákærða í anddyri [...]. Hafi ákærði leitt brotaþola inn eða stutt á öxl hennar og hafi brotaþoli verið í miklu uppnámi. Hafi ákærði beðið þau að sjá um þennan „gullmola“. Hafi virst sem brotaþoli kærði sig ekki um snertingu ákærða. Vitnið gat ekki staðfest hvaða dag þetta hefði verið. Upplifði vitnið, sem á börn á sama vistheimili, að brotaþoli væri að koma seint heim miðað við það að hún væri búin að vinna kl. 16:00. Vitnið þekkti að öðru leyti ekki dagskrá brotaþola.
Vitnið K kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Vitnið, sem á sjálft börn á vistheimilinu að [...], bar að hafa í eitt sinn orðið vitni að samskiptum brotaþola og ákærða í anddyri [...]. Hafi ákærði leitt brotaþola inn og sagt: „Takið þið nú ekki við þessum gullmola“. Hafi ákærði hlegið og fundist þetta eitthvað sniðugt. Hafi „hnussað“ í brotaþola sem hafi verið reið og hún strunsað inn í herbergi sitt og væri það ólíkt henni, enda væri brotaþoli yfirleitt kát og glöð. Í annað sinn hafi hún verið stödd í eldhúsinu að [...] og þá hafi brotaþoli allt í einu sagt: „Ég veit ekki hvað þetta er með þennan [X], hann vill bara káfa á mér.“
Vitnið L, yfirmaður hjá Ferðaþjónustu fatlaðra í [...], kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Fram kom að vitnið hefði ekki aðra vitneskju um samskipti ákærða og brotaþola en að ákærði hefði stundum keyrt hana á vegum Ferðaþjónustunnar og yfirleitt í sömu bifreið. Staðfesti vitnið að enginn staðsetningarbúnaður væri í bifreiðunum en ferðatilhögun væri yfirleitt svipuð og lægi fyrir kvöldinu áður. Þó kæmi fyrir að ferðatilhögun væri breytt og vel gæti verið að hringt hafi verið í ákærða þegar hann hafi verið á ferðinni í [...] og hann beðinn um að sækja aðra farþega en hann gæti ekki staðfest það, það væri ekki skráð á dagseðil en hefði líklega verið skráð á vinnuseðil ákærða. Þá kom fram að ákærði hefði samkvæmt skráningu Ferðaþjónustunnar verið að keyra tvo aðila í [...] þann 14. mars 2013.
Vitnið C geðlæknir kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Aðspurður um þroska brotaþola kom fram að hann leyndi sér ekkert og ekki þyrfti sérfræðimenntun til þess að átta sig á því hver hann væri. Staðfesti vitnið geðrannsókn sem hann framkvæmdi á brotaþola dags. 24. mars 2014, sem hafi verið framkvæmd að beiðni lögreglunnar á [...] vegna gruns um kynferðisbrot í öðru máli. Komi niðurstaða hans heim og saman við niðurstöðu dr. B, taugasálfræðings, um að ólíklegt sé að brotaþoli geti sagt frá þeim atburðum sem hér eigi undir, nema að hafa upplifað atburðina sjálf og byggi frásögn hennar frekar á tilfinningum en minni. Aðspurður upplýsti vitnið að auðvitað væri hætta á því að einstaklingur sem væri svona skertur andlega væri leiðitamur í frásögn sinni en brotaþoli hafi sagt frá atburðum með sama hætti í endurtekin skipti.
Vitnið B taugasálfræðingur kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Staðfesti vitnið skýrslu sína um brotaþola, dagsetta 20. mars 2014, sem liggur fyrir í málinu. Hafi brotaþola verið vísað í taugasálfræðilegt mat hjá vitninu af C geðlækni í þeim tilgangi að fá mat á vitsmunahæfni brotaþola. Ekki væri um beint greindarmat að ræða en greind brotaþola lægi í 5. hundraðsröð, sem þýddi að 95% af hennar jafnöldrum væru með meiri greind og 5% með minni greind. Beri brotaþoli greindarskerðinguna með sér strax frá fyrstu kynnum. Fram kom að móðir brotaþola hefði verið viðstödd á meðan viðtöl fóru fram. Aðspurt hvort brotaþoli hafi upplýst vitnið um málsatvik þessa máls kom fram að vitnið hafi ekki verið beðið um að kanna það sérstaklega en það hafi komið fram óbeint þegar brotaþoli hafi sagt frá kynferðislegu atviki og vitnið taldi að brotaþoli hefði verið að segja frá einhverju sem hún hefði upplifað sjálf. Aðspurt hvort gagnálykta mætti á þann hátt að ef frásögn brotaþola væri breytileg þá hefði brotaþoli ekki upplifað atvikið sjálf svaraði vitnið því þannig að erfitt væri fyrir brotaþola að búa til sögu og segja hana alltaf eins, enda myndi hún ekki muna hvað hún hefði sagt áður.
Vitnið D kvensjúkdómalæknir gaf símaskýrslu fyrir dómi. Vitnið staðfesti vottorð sitt, dagsett 31. mars 2016, sem liggur fyrir í málinu. Vitnið var beðið um að skýra hvað fælist í orðum vottorðsins um: „Meyjarhaft með þröngu opi, kem aðeins einum fingri inn fyrir. Meyjarhaft órofið.“ Fram kom hjá vitninu að alltaf sé eitthvert gat á meyjarhafti þannig að tíðablóð komist út, en þetta hafi verið lítið gat. Spurt hvort sú staðreynd að meyjarhaft hafi verið órofið gæti sagt til um það hvort getnaðarlimur hafi verið settur inn í fæðingarvef konu, taldi vitnið að það væri mjög ólíklegt að það hafi gerst þegar gatið væri þetta lítið. Þá þyrfti getnaðarlimur aðeins að fara rétt inn fyrir fæðingarveginn til þess að rjúfa meyjarhaftið, enda liggi meyjarhaftið alveg fremst í fæðingarveginum, við innganginn að leggöngum. Spurt hvort órofið meyjarhaft myndi útiloka að getnaðarlimur hafi farið í fæðingarveginn bar vitnið: „Já ég myndi segja það,“ en ekki væri hægt að útiloka að fingur hafi verið settur inn í fæðingarveginn án þess að meyjarhaftið hefði rofnað. Aðspurt bar vitnið að enginn „strengur“ hafi verið í meyjarhafti brotaþola.
III
Niðurstöður
Samkvæmt gögnum málsins var tekin skýrsla af ákærða tveimur dögum eftir að brotaþoli tilkynnir um málið hjá lögreglu, auk þess sem fram fór leit að meintum brotavettvangi og athugað hvort öryggismyndavélar væru á þeim stöðum. Þá voru teknar upplýsingaskýrslur af fjórum aðilum í mars 2013. Málið var síðan fellt niður þann 5. mars 2014. Ekki fór fram nein líkamsrannsókn á brotaþola fyrr en síðar og þá í tengslum við grun um kynferðisbrot gangvart brotaþola í öðrum og óskyldum málum. Ekki fór fram nein rannsókn á fötum brotaþola eða var rannsakað nánar um ferðir ákærða með brotaþola. Ríkissaksóknari felldi ákvörðun lögreglustjóra um niðurfellingu málsins úr gildi og lagði fyrir lögreglu með bréfi þann 4. maí 2014 að rannsaka hvort brotaþoli þyrfti aðstoð við að spenna sig sjálf í öryggisbelti. Ákærði bar að hafa fest brotaþola í öryggisbelti líkt og aðra farþega hans en brotaþoli bar að bílstjórar hjálpuðu henni ekki í öryggisbeltið. Ekkert kom frekar fram um þetta atriði í málinu og virðist það ekki hafa verið rannsakað frekar.
Ríkissaksóknari óskaði einnig eftir því að rannsakað yrði nánar með ferðir ákærða og brotaþola á fimmtudögum, sérstaklega í þeim tilgangi að staðreyna frásögn ákærða um hvaða leið hann hafi ekið, hverja hann átti að sækja og hvert átti að aka. Verður ekki séð að þetta hafi verið rannsakað nánar. Um ferðir ákærða og brotaþola verður að styðjast við frásögn ákærða um að hann hafi í öllum tilfellum sótt brotaþola upp í [...] á [...] kl. 17:15, ekið með tvo aðra farþega upp í [...] og þaðan keyrt með brotaþola að heimili hennar á [...] í [...]. Ákærði bar að síðasta ferð hans með brotaþola hafi verið fimmtudaginn 14. mars 2013, og hafi hann þá auk þess keyrt tvo farþega í [...], síðan sótt tvo aðra farþega í hjólastól að [...] í [...] og keyrt þá í [...] í [...]. Hafi hann þurft að aðstoða þá farþega og því verið seinni fyrir en ella að keyra brotaþola að [...] þann dag.
Samkvæmt framangreindu var ekki aflað allra tiltækra gagna í málinu og er það aðfinnsluvert og ekki í samræmi við ákvæði 3. mgr. 18. gr., 53. og 54. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Nokkur af þeim vitnum sem komu fyrir dóminn báru að það hafi vakið athygli þeirra að ákærði hafi oft komið of seint með brotaþola heim að [...]. Aðspurð fyrir dómi vissu vitnin þó ekki hvert ákærði hefði átt að sækja brotaþola eða á hvaða tíma en einhverjir nefndu kl. 16:00. Vitni báru jafnframt að þetta hefði í raun ekki verið neitt óvenjulegt þar sem brotaþoli hefði haft gaman af því að rúnta með bílstjórum. Brotaþoli bar að ákærði hefði bara sótt hana upp í [...] en ekkert annað og mundi vitnið eftir því að tveir nafngreindir einstaklingar hafi verið í bifreiðinni þann 14. mars 2013. Vitnið F bar að ákærði hefði sótt brotaþola í [...] og hafi yfirleitt verið að koma þaðan u.þ.b. korter fyrir sex og hafi hún vitað að fleiri voru sóttir í sömu ferð þótt hún hafi ekki vitað hvert þeim hafi verið ekið. Fær framburður ákærða stoð í framburði vitna um ferðir hans og brotaþola.
Ákærði bar fyrir dómi að hafa aldrei notað orðið „gullmoli“ um brotaþola eða að hafa beðið brotaþola að koma í flegnum bol. Brotaþoli bar að móðir hennar hefði sagt henni að ákærði hefði notað orðið „gullmoli“. Móðir brotaþola bar að ákærði hefði sagt þetta um brotaþola og vitnin J og K báru að hafa heyrt ákærða segja það orð þegar hann kom með brotaþola að [...], þótt þau hafi ekki getað staðfest hvenær það var. Brotaþoli bar að ákærði hefði beðið hana að koma í flegnum fötum. Vitnið G bar að brotaþoli hafi sagt þann dag sem málið hafi komið upp, að hún ætti að koma í fleginni blússu til þess að þægilegra væri fyrir ákærða að koma við hana. Vitnið H bar hjá lögreglu og staðfesti að hafa munað það betur þá en nú, að brotaþoli hafi verið að tala um að hún þyrfti að koma í flegnum bol og nefnt nafn ákærða í því sambandi. Vitnið I bar fyrir dómi að hafa skráð í skilaboðaskjóðu [...] þann 13. mars 2013, að brotaþoli hefði nefnt að hún yrði að koma í flegnum bol daginn eftir að beiðni ákærða. Er neitun ákærða um þessi atriði gegn framburði fjölda vitna, ekki trúverðug. Þá er heldur ekki trúverðug frásögn ákærða fyrir dómi um að hann hafi eingöngu komið inn í anddyrið að [...] og aldrei rætt við starfsmenn, enda kom annað fram í vitnisburði H og F auk þess sem ákærði og G starfsmaður [...], virðast hafa haft einhver samskipti þar.
Í skýrslu brotaþola hjá lögreglu þann 20. mars 2013 kom fram að ákærði hefði afklætt þau bæði, káfað á brjóstum og kynfærum brotaþola og sett fingur í kynfæri hennar. Hafi þetta gerst fyrir utan bifreið Ferðaþjónustu fatlaðra í [...], einhvers staðar hjá [...]. Hafi ákærði brotið fjórum sinnum gegn brotaþola, í öll skiptin á fimmtudögum. Jafnframt hefði ákærði fróað sér fyrir utan bifreiðina og sett typpi sitt í kynfæri brotaþola og fengið sáðlát, á brotaþola sjálfa að hún hélt.
Í skýrslu brotaþola fyrir dómi kom fram að ákærði hefði brotið gegn henni í mesta lagi tvisvar, einu sinni inni í bifreið Ferðaþjónustu fatlaðra og einu sinni fyrir utan bifreiðina. Um atvikið fyrir utan bifreiðina bar brotaþoli eins og áður að það hafi verið nálægt [...]. Brotaþoli bar nú að ákærði hefði ekki afklætt sig sjálfur og þá kom ekkert fram um að ákærði hefði fróað sér fyrir utan bifreiðina. Brotaþoli hafi hins vegar séð typpi ákærða þegar hann var fyrir utan bifreiðina að kasta af sér þvagi en hún sjálf hafi þá verið inni í bifreiðinni en ákærði gleymt að setja „vininn“ í buxur og hún séð hann þegar ákærði kom inn í bifreiðina. Hún hafi ekki komið við typpið og ákærði ekki komið neitt við hana með typpinu. Síðar í skýrstöku af brotaþola fyrir dómi kom fram að brotaþoli hafi séð sæði koma úr typpi ákærða, án þess að fram hafi komið að það hafi lent á brotaþola og hún hafi vitað að ákærði hafi verið að fróa sér. Ítrekað spurð hvort brotaþoli hafi séð ákærða fróa sér svaraði brotaþoli því neitandi.
Brotaþoli bar fyrir dómi að ákærði hefði stungið inn í hana „litla vininum“. Áður spurð fyrir dómi hvort ákærði hefði stungið einhverju öðru inn í kynfæri hennar en fingri hafði brotaþoli svarað því neitandi. Jafnframt var hún spurð hvort það væri ekki rétt að ákærði hefði ekki sett typpið í kynfæri hennar og svaraði hún þá að það væri rétt. Enn spurð um hvað væri rétt og hvort ákærði hefði sett getnaðarlim sinn inn í kynfæri hennar, kom fram að ákærði hefði reynt en hafi ekki getað það. Hefur brotaþoli þannig verið margsaga og er því ekki trúverðug um þann þátt málsins er snýr að samræði þótt hún hafi verið staðföst í frásögn sinni um að ákærði hafi stungið puttanum inn í kynfæri hennar og hefur hún jafnframt verið staðföst um að ákærði hafi þuklað brjóst hennar og kynfæri innan klæða.
Í skýrslu D kvensjúkdómalæknis fyrir dómi kom fram að ólíklegt væri að getnaðarlimur hafi verið settur í fæðingarvef brotaþola þar sem gat á meyjarhafti hennar, sem var órofið, hafi verið það lítið að í raun hafi það verið útilokað en ekki væri þó hægt að útiloka að fingur hafi verið settur inn í fæðingarveginn án þess að meyjarhaftið hefði rofnað.
Samkvæmt 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari hvort nægileg sönnun sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn.
Með vísan til framangreinds þykir vera uppi sá vafi í málinu að ekki sé hafið yfir skynsamlega vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi að hafa haft samræði eða önnur kynferðismök við brotaþola, þar á meðal að setja fingur í leggöng hennar. Verður ákærði því sýknaður af broti gegn ákvæðum 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði hefur borið að hafa ekki sýnt brotaþola nokkurn áhuga svo sem með því að kalla hana „gullmola“ eða að hafa beðið brotaþola að koma í flegnum fötum. Að mati dómsins er frásögn hans um þessi atriði ótrúverðug eins og fram hefur komið og jafnframt framburður hans um að hann hafi engin samskipti haft við starfsmenn [...], en meðal annars kom fram að ákærði hafi spurt vitnið F hvernig minni brotaþola væri háttað og hvort brotaþoli myndi mikið eða hvort eitthvað væri að marka sem hún segði. Því er framburður hans um að hann hafi ekki vitað neitt um þroska brotaþola og bara séð að eitthvað var að annarri hendi brotaþola mjög ótrúverðugur, enda fór þroski brotaþola að mati dómsins ekki milli mála, en ákærði hafði í nokkur skipti setið einn með brotaþola í bifreið Ferðaþjónustu fatlaðra, frá [...] og í [...], og hefði því átt að vera þroski hennar ljós. Þá kom einnig fram hjá C geðlækni og B, taugasálfræðingi að ekki þyrfti sérfræðimenntun til þess að átta sig á þroska brotaþola.
Brotaþoli var staðföst og trúverðug um þennan þátt málsins um að ákærði hafi káfað á brjóstum hennar og kynfærum og hafi meðal annars kallað brjóst hennar „kókoshnetur“. Í skýrslum C geðlæknis og B taugasálfræðings fyrir dómi kom fram að ólíklegt væri að brotaþoli gæti sagt frá þeim atburðum sem hér ættu undir, nema að hafa upplifað atburðina sjálf og byggi frásögn hennar frekar á tilfinningum en minni og myndi brotaþoli eiga í erfiðleikum með að búa til þá sögu og segja hana alltaf eins.
Í skilaboðum milli starfsmanna [...] frá 18. mars 2013 skrifar vitnið F að hún hafi talað við brotaþola þann morgun um það mál sem hefði byrjað 13. mars 2013. Hefði brotaþoli lýst fyrir henni að ákærði hefði káfað á brjóstum hennar og klofi en vitnið mundi ekki hvað fleira hafi verið rætt, en seinna hefði komið upp að eitthvað meira hefði gerst. Móðir brotaþola bar fyrir dómi að brotaþoli hafi lýst fyrir henni hvernig ákærði hefði þuklað og káfað á brotaþola. Vitnið G bar fyrir dómi að brotaþoli hafi sagt henni að ákærði hafi verið að káfa á henni og hvar. Vitnið I vitnaði um að þann 13. mars 2013 hafi hann farið með brotaþola inn í herbergi og hafi brotaþoli þá sagt honum frá því að eitthvað hafi gerst, einhverjar snertingar en hann hafi gert lítið úr því og ekki metið það meira en einhvers konar áreiti. Vitnið K bar að hafa verið stödd í eldhúsinu að [...] þegar brotaþoli hafi sagt: „Ég veit ekki hvað er með þennan [X], hann vill bara káfa á mér.“
Ákærði bar sjálfur að fimmtudaginn 14. mars 2013 hafi hann þurft að sækja tvo farþega í hjólastólum sem hann hafi þurft að aðstoða og hafi því verið seinn heim með brotaþola. Vitnið H bar að hafa hringt í ákærða í tvígang þar sem hann hafi verið mjög seinn. Hafi brotaþoli sagt vitninu frá, eftir að hafa komið of seint heim, að henni væri heitt á brjóstunum þar sem ákærði hefði verið að fikta við brjóst hennar og hafi brotaþoli verið rauð á brjóstunum.
Að mati dómsins telst sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa með staðföstum framburði brotaþola um þennan þátt málsins og framangreindum vitnisburði fjölda vitna, gegn ótrúverðugum framburði ákærða hvað þennan þátt varðar, og að teknu tilliti til ákvæða 126. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi káfað innanklæða á brjóstum og kynfærum brotaþola í eitt skipti þann 14. mars 2013, þótt ekki liggi fyrir hvort það hafi verið utandyra eða inni í bifreið á vegum Ferðaþjónustu fatlaðra. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi og er háttsemin réttilega heimfærð undir 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
IV
Refsing
Ákærði er fæddur í [...] árið [...]. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði aldrei orðið uppvís að refsiverðri háttsemi fyrr sem ber að virða honum til málsbóta. Á hinn bóginn er horft til 6. og 7. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til refsiþyngingar. Ákærði skipulagði verknaðinn á þann hátt að krefjast þess að brotaþoli klæddist með ákveðnum hætti. Brot ákærða beinist gegn andlega fötluðum einstaklingi, sem vegna þroska síns hefur átt erfitt með að skilja hvað í verknaðinum fólst. Þá mátti brotaþoli treysta því að hann væri í öruggum höndum meðan hann ferðaðist með ákærða, og hefur ákærði því brotið gegn þeim trúnaði og trausti sem brotaþoli mátti vænta af honum.
Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði og þykir, með vísan til sakaferils ákærða, þess hvernig staðið var að rannsókn málsins og með tilliti til þess hversu mikið mál þetta hefur dregist án þess að ákærða verði þar um kennt, mega ákveða að fullnustu refsingarinnar skuli frestað og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
V
Einkaréttarkrafa
Af hálfu brotaþola hefur verið gerð sú krafa að ákærði greiði henni 2.000.000 króna í miskabætur. Ákærða var birt framkomin krafa þann 30. júlí 2013.
Með broti því sem ákærði er sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér bótaábyrgð gagnvart brotaþola, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við ákvörðun miskabóta verður horft til þess að ákærði hefur með broti sínu brotið gegn trúnaði og trausti sem brotaþoli mátti vænta í ferðum sínum með ákærða, sem hefur að mati dómsins aukið á andlegar afleiðingar brotsins. Ekki liggja fyrir nein gögn í málinu um andlegar afleiðingar brotaþola af brotum ákærða og af vitnisburði vitna fyrir dómi verður ekki frekar um það ráðið.
Miski brotaþola þykir hæfilega metinn 600.000 krónur og ber að dæma ákærða til þess að greiða brotaþola þá fjárhæð ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.
VI
Sakarkostnaður
Samkvæmt 216. gr., sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 217. og 218. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða í ljósi niðurstöðu dómsins gert að greiða ¼ hluta sakarkostnaðar málsins, sem er samkvæmt yfirliti ákæruvaldsins 116.087 krónur auk 40.000 króna reiknings frá Læknastofu D, en ¾ hlutar greiðast úr ríkissjóði. Þá verður ákærða gert að greiða ¼ hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans fyrir dóminum, Þorsteins Einarssonar hrl., 1.636.800 krónur, og ¼ hluta þóknunar til réttargæslumanns brotaþola, Kolbrúnar Garðarsdóttur hdl., 613.800 krónur, en ¾ hlutar framangreindra málsvarnarlauna og þóknunar greiðast úr ríkissjóði. Við ákvörðun málsvarnarlauna og þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Dóm þennan kveða upp héraðsdómararnir Bogi Hjálmtýsson, Ástríður Grímsdóttir og Kristinn Halldórsson.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, skal sæta fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A, miskabætur að fjárhæð 600.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga, frá 14. mars 2013 til 30. ágúst 2013, en frá þeim degi með dráttarvöxtum til greiðsludags, samkvæmt 9. gr. sömu laga.
Ákærði greiði ¼ hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 1.636.800 krónur, en ¾ hlutar af þeirri fjárhæð greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði greiði ¼ hluta sakarkostnaðar, sem er þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Kolbrúnar Garðarsdóttur héraðsdómslögmanns, 613.800 krónur, en ¾ hlutar af þeirri fjárhæð greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði greiði ¼ hluta annars sakarkostnaðar, 156.087 krónur, en ¾ hlutar af þeirri fjárhæð greiðist úr ríkissjóði.