Hæstiréttur íslands
Mál nr. 545/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 29. september 2009. |
|
Nr. 545/2009. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Sævar Lýðsson fulltrúi) gegn X (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. september 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. október 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. september 2009.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur gert þá kröfu að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði á þá leið að X, sem er litháískur ríkisborgari kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. október nk. kl. 16.00.
Kærði er talinn hafa brotið gegn a. lið 1. mgr. 57. gr., sbr. 4. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Krafa um gæsluvarðhald er byggð á b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.
Kærði mótmælir gæsluvarðhaldskröfunni krefst þess að gæsluvarðhaldskröfunni verði hafnað en samþykkir að sæta farbanni. Til vara krefst kærði þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að kærði hafi verið stöðvaður af landamæralögreglu við komu með flugi frá Kaupmannahöfn að kvöldi föstudagsins 25. september sl. Með komu sinni til landsins hafi hann brotið gegn ákvörðun Útlendingastofnunar frá 19. september 2007, sem staðfest hafi verið með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þann 16. apríl 2008 um brottvísun kærða frá Íslandi og endurkomubann til landsins næstu 10 ár.
Kærði hafi verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness þann 7. desember 2007 fyrir að rjúfa tilgreint endurkomubann og hafi sá dómur verið staðfestur af Hæstarétti Íslands 18. mars 2008, sbr. dóm réttarins nr. 4/2008.
Lögreglustjóri kveður rannsókn málsins á lokastigi og teljist því nauðsynlegt að kærði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til þess að tryggja nærveru hans þar til dómur fellur í máli þessu, þar sem ætla megi að hann muni annars reyna að komast úr landi.
Með vísan til framangreinds, b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, a-lið 1. mgr. 57. gr., sbr. 4. mgr. 42. gr. laga nr. 96/2002, telji lögreglustjóri brýna hagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 9. október 2009 kl. 16:00.
Niðurstaða.
Með því sem nú hefur verið rakið og með hliðsjón af framlögðum gögnum þykir hafa verið sýnt fram á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn ákvæðum a. lið 1. mgr. 57. gr., sbr. 4. mgr. 42. gr., laga um útlendinga nr. 96/2002.
Kærði er erlendur ríkisborgari en hefur þau tengsl við landið að barn hans og barnsmóðir eru búsett hérlendis. Hefur hann skýrt komu sína til landsins með því að hann hafi langað til að dvelja hjá fjölskyldu sinni. Þrátt fyrir þessi tengsl þykir rökrétt að ætla að kærði muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus. Skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því uppfyllt. Vegna eðlis ætlaðs brots kærða, þykir ekki nægilegt að gera kærða að sæta farbanni. Verður því, með vísan til alls framanritaðs og rannsóknargagna málsins, fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 9. október 2009 kl. 16:00.