Hæstiréttur íslands
Mál nr. 63/2006
Lykilorð
- Vanreifun
- Verksamningur
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 21. september 2006. |
|
Nr. 63/2006. |
Berglín ehf. (Othar Örn Petersen hrl.) gegn Reykjavíkurborg (Anton B. Markússon hrl.) |
Vanreifun. Verktakasamningur. Frávísun máls frá héraðsdómi.
R, verkkaupi, rifti verksamningi aðila um jarðvinnu vegna meintra vanefnda B, verktaka. B krafði R um greiðslu vegna tilgreindra aukaverka auk skaðabóta vegna ólögmætrar riftunar R á verksamningi aðila. Í stefnu var ekki að finna útlistun á kröfu B um skaðabætur en boðað að slíkir útreikningar yrðu lagðir fram við þingfestingu. Það var ekki gert og var það ekki fyrr en við aðalmeðferð málsins að B lagði fram slíka útreikninga. Hafði R því ekki tækifæri til að fjalla um og taka afstöðu til skaðabótakröfu B í greinargerð sinni í héraði. Framlagðir útreikningar B voru ekki nægjanlega skýrir auk þess sem kröfugerð hans um greiðslur fyrir aukaverk var um margt óljós. Voru því slíkir annmarkar á málatilbúnaði B að málinu var vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. janúar 2006. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 14.810.031 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.250.031 krónu frá 1. nóvember 2003 til 29. júní 2004 en af 14.810.031 krónu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 418.157 krónum sem stefndi greiddi áfrýjanda 17. nóvember 2005. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað. Hann krefst málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti. Kemur krafa hans um málskostnað í héraði því ekki til álita hér fyrir dómi.
Mál þetta snýst um efndir á verksamningi um jarðvinnu áfrýjanda fyrir stefnda við Sundahöfn, en stefndi rifti samningi aðila vegna meintra vanefnda áfrýjanda. Samkvæmt stefnu í héraði nam upphafleg dómkrafa áfrýjanda á hendur stefnda 16.876.500 krónum. Var annars vegar um að ræða kröfu vegna aukaverka að fjárhæð 923.500 krónur en hins vegar 15.953.000 krónur vegna hagnaðarmissis í kjölfar riftunar stefnda á verksamningi aðila. Í stefnunni var krafan vegna aukaverka að nokkru skýrð og sundurliðuð. Hins vegar var þar ekki að finna útlistun á kröfu áfrýjanda um bætur vegna missis hagnaðar en þess einungis getið að sú fjárhæð sé „fundin með því að reikna út kostnað stefnanda við flutning á ákveðnu magni efnis og þá greiðslu sem honum bar skv. verksamningi. Sú tala er síðan margfölduð með því heildarefnismagni sem stefnanda var falið að hliðra skv. verksamningi aðila.“ Var sagt að hagnaðarmissir áfrýjanda næmi fyrrgreindri fjárhæð „sbr. dskj. 36.“ Við þingfestingu málsins var þetta skjal, sem ætlað var að sýna útreikninga þessarar kröfu, ekki lagt fram og frekari skýringar á kröfunni var ekki að finna í öðrum gögnum sem þá voru lögð fram. Það var ekki fyrr en við aðalmeðferð málsins að áfrýjandi lagði fram slíka útreikninga. Við það tækifæri breytti hann dómkröfu sinni þannig að krafa vegna missis hagnaðar lækkaði í 13.560.000 krónur, jafnframt því sem fram kom ný krafa vegna samþykktra reikninga að fjárhæð 326.531 króna. Nam höfuðstóll dómkröfu hans þá alls 14.810.031 krónu.
Í greinargerð sinni í héraði gerði stefndi athugasemd við að krafa áfrýjanda væri ekki studd gögnum og ítrekaði hann þetta í greinargerð sinni hér fyrir dómi. Við meðferð málsins í héraði viðurkenndi stefndi hins vegar greiðsluskyldu sína á 326.531 krónu ásamt tilgreindum vöxtum og var það sú fjárhæð sem hann var dæmdur til að greiða með hinum áfrýjaða dómi. Stefndi greiddi áfrýjanda þá fjárhæð með vöxtum 17. nóvember 2005.
Framangreind gögn, sem ætlað var að skýra kröfu áfrýjanda um missi hagnaðar af verkinu, voru ekki lögð fram fyrr en við upphaf aðalmeðferðar í héraði. Stefndi hafði því ekki tækifæri til að fjalla um þau og taka afstöðu til þeirra í greinargerð sinni í héraði. Þar að auki byggjast útreikningar áfrýjanda á einhliða áætlun hans ásamt töflum frá Heklu hf. um kostnað vegna reksturs tilgreindrar tegundar vinnuvéla eins og þeirrar sem áfrýjandi notaði við umrætt verk. Einnig er sumt óljóst í kröfugerð hans um greiðslur fyrir aukaverk. Samkvæmt framanrituðu voru slíkir annmarkar á málatilbúnaði áfrýjanda að ekki verður komist hjá því að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Með gagnstefnu 18. október 2004 hafði stefndi uppi gagnkröfu í héraði til sjálfstæðs dóms. Samkvæmt gögnum málsins virðist gagnsökin hafa verið þingfest 19. október 2004. Á dómþingi í málinu 28. sama mánaðar var bókað að veittur væri frestur „til greinargerðar í gagnsök“. Eftir þetta er ekkert að finna um gagnsökina í þingbók. Þá ber að nefna, að þrátt fyrir það sem að framan er rakið um breytingar á dómkröfu áfrýjanda við meðferð málsins í héraði, segir í þeim kafla dómsins þar sem fjallað er um málsástæður og lagarök áfrýjanda, að krafa hans vegna missis hagnaðar nemi samtals 15.953.000 krónum, en það er sú fjárhæð sem hann krafðist af þessu tilefni í stefnu. Í niðurstöðukafla dómsins er heildarkrafa hans sögð vera 16.876.500 krónur, sem er hin sama og upphafleg dómkrafa. Er meðferð málsins að þessu leyti aðfinnsluverð.
Þá athugast að deila málsaðila lýtur að slíkum álitaefnum að héraðsdómara hefði verið rétt beita heimild 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kveðja til tvo sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi.
Eftir atvikum er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2005.
Mál þetta var höfðað 28. júní 2004 og var dómtekið 9. maí sl. Málið var endurflutt 12. október sl. og tekið til dóms sama dag.
Stefnandi er Berglín ehf., Búðanesi 1, Stykkishólmi.
Stefndi er Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu, Reykjavík.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld og skaðabætur að fjárhæð 14.810.031 króna með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af 1.250.031 krónu frá 1. nóvember 2003 til 29. júní 2004 en af 14.810.031 krónu frá þeim degi til greiðsludags.Málskostnaðar er krafist að mati dómsins.
Stefndi, Reykjavíkurborg, krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Stefndi krefst þess jafnframt að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati réttarins.
Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Stefndi krefst þess jafnframt að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.
Málavextir
Í janúar 2003 bauð Reykjavíkurhöfn út verkið Ferging lands á Klettasvæði í Sundahöfn. Samkvæmt útboðslýsingu skyldi vinna verkið samkvæmt teikningum og verklýsingum og fólst í stórum dráttum í því að hliðra farghaugum úr grús frá fyrri fergingaráföngum og löndunarstað dæluskips og mynda 6 m og 3 m háa fergingarhauga vestur af væntanlegum Skarfabakka. Farghaugar skyldu síðan standa óhreyfðir í ca 3 mánuði þar til hægt hefði nægjanlega á sigi og þá komið að næsta áfanga verks.
Stefnandi gerði tilboð í verkið þann 9. febrúar 2003 og var lægstbjóðandi, en tilboð hans hljóðaði upp á 34.252.450 krónur.
Með bréfi dags. 17. febrúar 2003 fór stefndi þess á leit við stefnanda að hann staðfesti tilboð sitt. Hafði stefndi af því áhyggjur hve tilboðið var lágt og að stefnandi hefði ekki réttu tækin til verksins. Með bréfi dagsettu sama dag svaraði stefnandi því til að hann stæði við tilboð sitt. Myndi hann nota hjólskóflu til verksins að mestum hluta en ef verkið gengi ekki sem skyldi myndi hann gera viðeigandi ráðstafanir.
Þann 12. mars 2003 ákvað Innkauparáð að ganga að tilboði stefnanda. Óumdeilt er að tilboð stefnanda var lágt. Bendir stefndi á að tilboð stefnanda hafi numið um 42,3% af kostnaðaráætlun vegna hliðrunar grúss úr farghaug en 37,5% af kostnaðaráætlun vegna hliðrunar grúss úr dælugryfju.
Verksamningur var undirritaður milli stefnda, Reykjavíkurborgar, og stefnanda sem byggðist á útboðs-og verklýsingu, ásamt frekari gögnum sem tilgreind voru í samningnum og töldust hluti hans, m.a. Íslenskum staðli-ÍST-30. 4. útgáfu 01.01.1997. Greiðsla fyrir verkið var í samræmi við tilboð stefnanda 34.252.450 krónur með þeim breytingum sem leiða kynnu af ákvæðum samningsgagna.
Stefnanda bar að vinna verkið í samræmi við verkáætlun sem sett var fram í gr. 0.1.6. Verksamningur-verkáætlun í útboðslýsingu. Samkvæmt áætluninni var gert ráð fyrir því að stefnandi gæti byrjað verkið um leið og tilboði hans hefði verið tekið. Var gert ráð fyrir því að u.þ.b. fjórir mánuðir þyrftu að líða á milli verka stefnanda og að síðasti áfangi við farghaug nr. 9 yrði þannig unnin sumarið 2005.
Í útboðslýsingu er tekið fram að gerður sé fyrirvari um stærð og tímasetningu hvers áfanga sem geti breyst á framkvæmdatímanum vegna óljóss sighraða. Þær breytingar skyldi tilkynna stefnanda með tveggja til þriggja vikna fyrirvara. Samkvæmt samningnum var einnig sá möguleiki fyrir hendi að stefndi bætti við verkið fergingaráföngum vegna fergingar húsreita og skyldu einingarverð vegna slíkra viðbótarverka taka mið af einingarverðum tilboðs.
Samkvæmt grein 1.1.0 í verklýsingu skiptist verkið í 11-12 fergingaráfanga. Segir að stærð og staðsetning á hverjum fergingaráfanga komi fram á teikningu 001 og í töflu 003 sé yfirlit yfir áætlað magn, flatarmál, sig og meðalhliðrunarlengdir. Í þessari töflu komi einnig fram að í sumum tilvikum þurfi auk efnis úr fyrri farghaug að bæta við efni sem tekið sé úr gryfju sem dælt sé í efni með dæluskipi. Grúsinni sé dælt upp í gryfju í fjöruborðinu í þeirri landlínu sem sé fyrir hendi hverju sinni. Reiknað er með að dæluskipið geti afgreitt 1 til 3 farma á dag eða 2.000 m3 á dag að meðaltali.
Þá segir að verktaki ráði sjálfur vinnuaðferð, þ.e. hvort hliðrað sé með ýtu eða hjólaskóflu eða flutt með búkollum og vörubílum eða samblandi af þessu. Verktaki ráði einnig staðsetningu og gerð uppkeyrslurampa í samráði við verkkaupa en gæta skuli þess að rampinn minnki ekki sjálfan farghauginn. Verkið skuli vinna og skila í áföngum og ljúki hverjum áfanga með formlegri úttekt eftirlitsaðila og uppgjöri. Verktaka sé skylt að afkasta minnst 15.000 m3 á viku þegar hliðrun sé í gangi. Verktaki skuli skila fergingarsvæðum í fyrirfram tiltekinn kóta. Yfirborð skuli vera sléttað og snyrtilegt. Kostnaður vegna þess skuli vera innifalinn í einingarverðum fergingar.
Varðandi vinnusvæðið er tekið fram að samhliða þessu útboðsverki verði önnur verk í gangi á svæðinu sem tengist heildarverkinu, m.a. móttöku efnis á tipp og síðar byggingu bakka og ölduvarna, og beri verktaka að taka tillit til annarra verktaka við skipulagningu og framkvæmd hliðrunar farghauga.
Stefnandi kveðst hafa hafið vinnu við hliðrun úr farghaug nr. 1 þann 17. mars 2003. Hafi hann lokið þeim verkþætti á undan áætlun eða þann 17. apríl 2004, þrátt fyrir vanefndir stefnda um útvegun efnis. Hafi stefndi lofaði að það efni kæmi í næsta áfanga. Í fundargerð frá verkfundi nr. 2, sem haldinn var 7. apríl 2003, komi fram að afköst hafi verið 15.000 m3 á viku. Sé það í samræmi við verkáætlun.
Í lok júlí 2003, þegar farghaugur nr. 2 var að fullu siginn, hófst vinna við 2. áfanga með flutningi efnis í farghaug nr. 3. Þessum áfanga verksins lauk verktaki ekki við. Alls flutti verktaki 50.657m3. Samkvæmt verkáætlun útboðsgagna hafði verið ráðgert að haugurinn yrði u.þ.b. 85.000 m3. Vegna breytinga á verkinu var áfanganum skipt í tvennt. Fyrri hluti skyldi unninn í júlí en sá síðari í október.
Stefnandi heldur því fram að þegar vinna hófst við að hliðra efni úr farghaug nr. 2 í farghaug nr. 3, hafi stefndi enn vanefnt að útvega efni í samræmi við útboðslýsingu. Telur stefnandi ástæður þess vera að afkastageta Björgunar, sem stefnandi hafi falið að dæla grúsi í dælugryfju, hafi ekki verið í samræmi við útboðslýsingu. Ennfremur hafi verið verulegur misbrestur á því að landgerð væri yfirhöfuð lokið og land tilbúið til fergingar, sléttað í réttri hæð, eins og gert hafi verið ráð fyrir í útboðsgögnum.
Afhending stefnda á efni og vinnusvæðinu hafi því verið í ósamræmi við útboðsgögn og telur stefnandi sig eiga rétt á greiðslu þess aukna kostnaðar sem vanefndir stefnda hafi valdið honum vegna tafa á verkinu og mun óhagstæðara verklags en gert hafi verið ráð fyrir í útboðslýsingu m.a. lengri hliðrunarvegalengdar og nauðsyn á gerð fleiri uppkeyrslurampa.
Þann 24. júlí 2003 ritaði stefndi stefnanda bréf í því skyni að skilgreina verk vegna þriðja farghaugs. Þar kemur fram að áætlað magn áfangans verði 55.000 m3. Stefndi kveður hafa verið ljóst á þessu stigi að áfanginn yrði minni en verkáætlun útboðsgagna gerði ráð fyrir. Ástæður þess hafi verið, í fyrsta lagi, að fyrsti áfangi hafði orðið minni en til stóð, í öðru lagi hafi verið ljóst að ekki var hægt að bæta við efni úr dælugryfju þar sem dæluskip Björgunar hafi þá enn verið bundið við aðra vinnu á svæðinu. Í þriðja lagi hafi hluti af efninu úr farghaug 2 verið notaður til að byggja undir farghaug 3, en það verk hafi stefnandi unnið í tímavinnu, sbr. hér að neðan.
Í umræddu bréfi stefnda frá 24. júlí 2003 óskaði stefndi eftir því að stefnandi hæfi vinnu þann 29. júlí. Í bréfinu kemur fram að stefndi hafi fallist á vinnslu aukaverka af hálfu stefnanda. Svæðið undir væntanlegan farghaug 3 hafi þá verið óslétt og ekki komið í rétta hæð til að vera undirlag undir farghaug, þ.e. 3,7 m, sbr. verklýsingu í útboðslýsingu.
Ágreiningur var milli aðila um hvernig skil á landi til fergingar ættu að vera. Stefndi var ekki samþykkur þeim skilningi stefnanda að slétta þyrfti land undir fergingu. Taldi hann nægja að skila því grófjöfnuðu. Með því að samþykkja verk í tímavinnu kveðst stefndi hafa talið sig vera að sýna samstarfsvilja gagnvart stefnanda og stuðla að því að ekki yrðu tafir á verkinu. Stefnanda hafi verið ætlað að slétta svæðið frekar og hækka og hefja síðan vinnu við uppbyggingu farghaugs nr. 3.
Samkvæmt bréfinu, eins og stefndi lýsir efni þess, skyldi nyrsti hluti farghaugsins jafnframt hækkaður í 4,7 m sem sé 1 m hærra en undirstöður fargs skyldu vera samkvæmt útboðsgögnum. Um hafi verið að ræða verk við hliðrun á efni sem samkvæmt mælingu reyndist vera um 3.329 m3 af grús úr fyrri farghaug. Verkið skyldi unnið í tímavinnu. Þá komi einnig fram að stefndi muni leita til stefnanda vegna gerðar fyrirstöðugarðs á útmörkum auk tilfallandi flutnings efnis.
Stefnandi taldi að í fyrirmælum stefnda í umræddu bréfi fælust brot á verksamningi aðila enda um grundvallarbreytingu á verklagi að ræða að hans áliti. Með bréfi dags. 25. júlí 2003 fór stefndi fram á að stefnandi setti strax fram skriflegar skýringar með hvaða hætti hann teldi að stefndi bryti verksamning. Í bréfi stefnda var auk þess boðaður verkfundur þann 30. júlí 2003 til þess að ræða framkvæmd verksins og meint samningsrof.
Í bréfi stefnanda, dags. 28. júlí 2003, segir að augljóst sé að verkið sé á eftir áætlun og gæti haldið áfram að tefjast ef ekki séu gerðar ráðstafanir sem taki á vandanum í heild. Segir jafnframt að ef samið yrði við verktaka um að hann sæi um landgerðina, móttöku inndælts efnis og fergingu í tímavinnu þar til fergingu hauga nr. 3 og 4 sé lokið, þá mætti nýta tíma og tæki betur og skipta haugnum upp í fleiri hluta og ná þannig fram meiri hraða í fergingu.
Á verkfundi þann 30. júlí 2003 hafnaði stefndi þessum tillögum stefnanda. Segir í lið 2 í fundargerð að tímavinnu sé lokið en hún hafi falist í því að byggja undir nyrsta hluta farghaugs 3. Uppbygging hans hefjist 30. júlí 2003 í samræmi við útboðsgögn. Varðandi önnur mál kemur fram að 24. júlí hafi verkkaupi lagt fram formleg verkfyrirmæli þar sem hann taldi að verktaki sinnti ekki óskum verkkaupa um hliðrun á farghaug 2. Verktaki mótmælti þessu, segist munu fara eftir fyrirmælum en áskilur sér rétt til að leggja fram kröfur telji hann verkið vinnast á óhagstæðari máta en útboðsgögn segi til um. Verkkaupi lagði fram á fundinum ítarleg verkfyrirmæli og samþykkti verktaki að fara eftir þeim. Þá segir í lok fundargerðar að verktaka sé bent á að svo virðist sem hjólaskóflan henti ekki við flutning úr dælugryfju en sú vinna verði á dagskrá innan fárra vikna og því nauðsynlegt að verktaki sé búinn að leysa hvernig hann hyggst standa að verki.
Fyrir liggur að í kjölfar þessa varð uppi ágreiningur milli aðila Stefnandi kveðst, eftir þetta, hafa gert ítrekaðar athugasemdir við stefnda vegna vanefnda og verkfyrirmæla stefnda sem stefnandi hafi talið að væru bersýnilega í ósamræmi við samning aðila og útboðsgögn. Hafi stefnandi borið fram athugasemdir sínar á verkfundum og einnig við fulltrúa stefnda. Þeim tilmælum hafi hins vegar í engu verið sinnt af hálfu stefnda. Jafnframt hafi verið mikill misbrestur á því að athugasemdir stefnanda væru skráðar í fundargerðum verkfunda aðila.
Stefndi heldur því fram að á þessum tíma hafi farið að bera á verulegum samstarfserfiðleikum við stefnanda. Hafi hann m.a. ítrekað og einhliða farið fram á sérstakar greiðslur sem hafi ekki átt neina stoð í verksamningi. Hafi kröfum hans ítrekað verið hafnað af hálfu stefnda. Þá hafi stefnandi stöðugt kvartað yfir því að grús vantaði í dælugryfju. Þó hafi hann haft nægjanlegt efni í farghaug 2. Auk þess hafi hann ekki haft þann tækjabúnað sem þurfti til þess að sækja grús í gryfjuna og hafi stefndi ítrekað orðað það við hann.
Fram er komið að frestun varð á verkinu þegar landbrot varð þann 10. ágúst 2003.
Verkfundur var haldinn 26. ágúst 2003. Í fundargerð segir umverkstöðu að niðurtekt á farghaug 2 hafi lokið 24. júlí. Ekki liggi fyrir efni í dælugryfju og sé því hlé á verkinu. Uppbyggingu á farghaug 3 sé ekki lokið vegna skorts á efni. Líklegt sé að hægt verði að ljúka við farghaug 3 í lok október nk. Færsla á farghaug 3 sé áætluð í janúar eða febrúar. Endanleg stærð og staðsetning farghaugs 3 liggi ekki fyrir en líklegt sé að endanleg niðurstaða ligg fyrir í lok september. Kemur fram varðandi reikninga að búið sé að samþykkja greiðslur að upphæð 5.211.100 krónur sem sé um 15% af tilboði.
Stefnandi lítur svo á að vanefndir stefnda við útvegun efnis hafi leitt til þess að þann 24. ágúst kl. 21:00 stöðvuðust framkvæmdir stefnanda.
Vegna þessara samskiptaerfiðleika taldi stefnandi sig knúinn til þess að leita sér aðstoðar lögmanns til þess að gæta réttar síns. Sendi lögmaður stefnanda inn athugasemdir með bréfi dags. 26. ágúst 2003. Voru gerðar margvíslegar athugasemdir við efni fundargerða verkfunda nr. 1. og 3, eins og þær voru skráðar af stefnda. Þá var hluta meintra vanefnda stefnda lýst, m.a. áréttað að ekkert inndælt efni hefði verið afhent, auk þess sem því var sérstaklega mótmælt að stefndi gæfi út verkfyrirmæli sem væru í ósamræmi við útboðsgögn og samning aðila. Eðli málsins samkvæmt þyrfti að semja um allar breytingar frá gildandi samningi aðila. Með breytingum stefnda á verkinu vegna tafa við landgerð og skorts á inndældu efni hafi kostnaður við verkið hækkað verulega. Til þess að mæta því væri eðlilegast að stefnandi fengi forgang um alla tímavinnu og aukaverk sem tengdust verkinu. Stefndi svaraði ekki þessu bréfi.
Á verkfundi þann 26. ágúst 2003 kveður stefnandi aðila hafa farið yfir fyrirsjáanlegt tjón stefnanda við það að verkið stöðvaðist vegna vanefnda stefnda um útvegun efnis og mistaka við landgerð. Hafi stefnandi óskað eftir því á fundinum að honum yrði falin vinnan við landgerðina eftir að fyrri landgerð hafði runnið í sjó fram, m.a. til að lágmarka það tjón sem hann yrði fyrir vegna stöðvunar verksins.
Hafi stefnanda þá verið tjáð að stefndi hygðist bjóða fjórum aðilum verkið í formi verðfyrirspurnar og væri stefnandi einn þeirra aðila. Stefnandi hafi tekið þátt í verðkönnuninni en ekki fengið verkið. Hafi svo farið að tilboði E.T. ehf. hafi verið tekið í verkið, en það fyrirtæki hafði unnið á verktíma að ýmsum verkum sem stefnandi taldi að tilheyrðu verksamningi sem aukaverk og ítrekað boðist til að vinna sem aukaverk í samræmi við verksamning aðila. Því hafi hins vegar ávallt verið hafnað, án þess þó að stefnanda væru gefnar skýringar á því eða hann fengi upplýsingar um hvort stefndi hefði gert samning við E.T. ehf. um umrædd verk.
Stefnandi kveður tjón sitt af stöðvun verksins vegna landbrotsins því aldrei hafa verið bætt, að undanskilinni aukagreiðslu fyrir 10,5 tíma vegna tafa.
Stefnandi gerði kröfur um greiðslur vegna tafa og aukaverka þann 14. ágúst 2003. Með bréfi verkkaupa þann 27. ágúst 2003 var kröfum stefnanda hafnað að stórum hluta.
Í kjölfarið sendi lögmaður stefnanda inn bréf dags 26. sept. 2003, þar sem kröfur stefnanda um greiðslur vegna aukaverka voru skýrðar með nánari hætti.
Þar kom fram að í fyrsta lagi væri um að ræða kostnað sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna tafa við það að hann gat ekkert aðhafst vegna inndælingar á efni frá dæluskipi til landgerðar. Í öðru lagi hafi stefnandi þurft að breyta skipulagi sínu við verkið og útbúa mun fleiri uppkeyrslurampa vegna breytinga stefnda á skipulagi við landgerð, m.a. vegna vöntunar á efni í dælugryfju og landbrots. Í þriðja lagi krafðist stefnandi greiðslu vegna vinnu hans við sléttun á landi, en samkvæmt útboðsgögnum átti það að vera tilbúið til fergingar. Þá var þess getið að stefnandi hafi boðað eftirlitsmann stefnda á svæðið og bent á að framkvæmdir gætu ekki haldið áfram vegna þess að land væri ekki frágengið í samræmi við útboðsgögn, þ.e. sléttað í réttum hæðarkóta. Hafi eftirlitsmaður stefnda óskað eftir því að stefnandi myndi slétta svæðið svo vinna við farghaug nr. 3 gæti haldið áfram.
Var í bréfinu jafnframt óskað eftir að leiðrétting yrði gerð á fundargerð verkfundar nr. 4 og svo að fyrri athugasemdum yrði svarað. Liggur ekki fyrir að stefndi hafi svarað þessu bréfi.
Þann 29. september 2003 var stefndi boðaður á verkfund. Af hálfu stefnda var sett fram sú ósk að stefnandi hæfi störf að nýju 6. október 2003 við flutning á 30.000 m3 í farghaug nr. 3 í dælugryfju.
Þann 1. október 2003 ítrekaði stefnandi reikning sinn vegna aukaverka sem sendur hafði verið í ágúst. Stefndi hafnaði umræddum reikningi með bréfi, dags. 7. október 2003 og vísaði í fyrri svör sín.
Með bréfi dags. 14. október 2003 óskaði stefndi eftir því að stefnandi legði fram verkáætlun og hefði framkvæmdir að nýju þegar í stað. Stefnandi svaraði með bréfi, dags. 14. október 2003. Í bréfinu kemur fram að verktaki hafi mætt á vinnusvæðið þann 13. október en vegna þess að annar verktaki var við störf á svæðinu hafi ekki verið hægt að hefja framkvæmdir. Eftirlitsmanni stefnda hafi verið tilkynnt um þetta. Jafnframt krafðist stefnandi þess að tjón hans vegna tafa af völdum stefnda yrði bætt, hann fengi fullnægjandi teikningar af farghaug nr. 3 og að gengið yrði frá samningum vegna breyttra forsenda vinnu við farghaug nr. 3. Að lokum var upplýst að stefnanda væri ekkert að vanbúnaði að hefja framkvæmdir þegar ofangreint væri frágengið. Stefnandi ítrekaði ofangreint með bréfi dags. 15. október 2003.
Með bréfi dags. 3. nóvember 2003 hafnar stefndi ofangreindu. Jafnframt kemur fram að ef 15.000 rúmmetrar hafi ekki verið fluttir úr dælugryfju þann 11. nóvember verði litið svo á að stefndi hafi gengið frá verkinu. Í kjölfar þessa óskaði stefndi þess við Innkaupastofnun Reykjavíkur að gengið yrði frá formlegri riftun samningsins, sbr. bréf dags. 13. nóvember 2003. Innkaupastofnun Reykjavíkur rifti síðan verksamningnum þann 17. nóvember 2003.
Með bréfi þann 20. nóvember 2003 gerði stefnandi margvíslegar athugasemdir við bréf stefnda dags. 3. nóvember 2003, lýsir vanefndum stefnda og gerir áskilnað um riftun.
Með bréfi sem beint var til Innkaupastofnunar Reykjavíkur, dags. 17. desember 2003, rifti stefnandi samningi aðila vegna vanefnda stefnda. Var því bréfi svarað þann 5. janúar 2003, þar sem vísað var til þess að stefndi hefði þegar rift samningi aðila og að kröfum skuli beina til stefnda. Lögmönnum stefnanda var hins vegar ekki kunnugt um riftun stefnda þegar lýst var yfir riftun stefnanda.
Með bréfi dags. 5. apríl 2004 óskaði stefnandi eftir uppgjöri í kjölfar riftunar á ofangreindum verksamningi.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Málsástæður stefnanda eru þær að vanefndir stefnda og breytingar á umsömdu verki hafi valdið stefnanda verulegum aukakostnaði. Ennfremur hafi riftun stefnda á samningi aðila verið ólögmæt og hafi haft í för með sér enn frekara tjón fyrir stefnanda.
Þann 14. ágúst 2003 hafi stefnandi sett fram kröfur um greiðslu vegna aukaverka, vanefnda og breytinga stefnda. Stefndi hafi greitt hluta af kröfum stefnanda, þ.e. 231.000 krónur, en hafnað öðrum. Þann 1. október 2003 hafi stefnandi áréttað þær kröfur sem stefndi hafnaði, auk þess sem gerðar kröfur hafi verið uppfærðar vegna frekari aukakostnaðar. Kröfurnar eru eftirfarandi:
Biðtímagjald vegna inndælingar á efni í landfyllingu
|
27,25 klst. x 14.000 |
381.500 kr. |
|
Sléttun á landfyllingu skv. beiðni eftirlitsmanns 9 klst. x 14.000 |
126.000 kr. |
|
8 aukarampar við farghaug nr. 3. 1000m3 fyrir hvern ramp |
416.000 kr. |
|
Samtals |
923.500 kr. |
Samtals nemi fjárhæð reikningsins 923.500 krónum og sé gerð krafa um greiðslu þeirrar skuldar ásamt dráttarvöxtum í máli þessu.
Í gr. 21.3 í ÍST 30 komi fram að verktaki geti krafist greiðslu fyrir auknum kostnaði af völdum vanefnda verkkaupa m.a. á afhendingu efnis. Í útboðsgögnum segi að vegna farghaugs nr. 2 og 3 komi um 30% úr dælugryfju. Stefndi hafi hins vegar ekki útvegað neitt af því efni fyrr en mun seinna. Í kjölfar landbrots hafi stefndi skipað stefnanda að hefja vinnu við hliðrun á nýjum stað. Þetta tvennt hafi valdið verulegu óhagræði við framkvæmd verksins. Þannig hafi stefnandi þurft að gera mun fleiri uppkeyrslurampa en gert var ráð fyrir í tilboði hans, auk þess sem flytja þurfti efni aðra og lengri leið en samkvæmt útboðsgögnum.
Þá hafi framkvæmdir stöðvast að lokum með öllu vegna skorts á efni. Ljóst sé að slík stöðvun í miðjum áfanga sé í ósamræmi við verksamning aðila og hafi valdið stefnanda tjóni. Stefndi hafi skipað honum að hætta vinnu og vera tilbúinn til að hefja framkvæmdir að nýju að skipun stefnda, án nánari tímasetningar. Ljóst sé að slíkt verklag sé óviðunandi og í ósamræmi við venjur um framkvæmd útboðsverka.
Ennfremur hafi stefnda borið að skila landfyllingu sléttri í ákveðinni hæð, sbr. teikningu 001 í útboðsgögnum. Stefnandi hafi hins vegar sléttað landfyllinguna sjálfur að fyrirskipan eftirlitsmanns stefnda með tilheyrandi aukakostnaði og töfum á verkinu. Stefnandi reisi þessa kröfu sína einnig á því að um aukaverk að beiðni stefnda hafi verið að ræða, sbr. 16. gr. ÍST 30.
Að lokum hafi menn verið að vinna við landgerð undir farghaug nr. 3 þegar stefnandi vann við fergingu. Dæluskipið Sóley hafi dælt inn efni í landfyllinguna og á meðan á þeirri dælingu stóð hafi stefnandi ekkert getað aðhafst. Hafi það valdið umtalsverðum töfum og auknum kostnaði við verkið.
Í tengslum við ofangreint verði að hafa í huga að vanefndir stefnda hafi valdið því að stefndi hafi sífellt verið að gera breytingar á verkinu og hafa afskipti af framkvæmd þess. Samkvæmt útboðslýsingu og verksamningi aðila skyldi stefnandi, í samræmi við almennar venjur, hafa stjórn á vinnuaðferðum og verklagi. Stöðug afskipti stefnda hafi verið í ósamræmi við það og hafi valdið miklu óhagræði og töfum við framkvæmd verksins. Þá hafi stefnandi miðað tilboð sitt við það verk sem lýst sé í útboðslýsingu og þær áætlanir sem þar komi fram. Vissulega sé eðlilegt að ákveðin aðlögun eigi sér stað í verkefnum sem taki langan tíma en þegar þær breytingar séu orðnar svo miklar að forsendur og grundvöllur verksins hafi breyst, eins og í fyrirliggjandi máli, þá sé ljóst að verkkaupa, þ.e. stefnda, beri að greiða verktaka, þ.e. stefnanda, fyrir þann aukna kostnað sem þær breytingar hafi í för með sér.
Þá telur stefnandi að riftun stefnda á samningi aðila hafi verið ólögmæt. Þannig segi í gr. 25.5 í ÍST 30:1997 að verkkaupa sé heimilt að rifta samningi ef verktaki geri sig sekan um verulegar vanefndir á skuldbindingum sínum samkvæmt samningi og hafi ekki bætt úr þeim innan sanngjarns frests sem verkkaupi setur fram í skriflegri viðvörun.
Samkvæmt riftunaryfirlýsingu stefnda eru vanefndir stefnanda sagðar felast í því að hann hafi ekki hafið vinnu við verkið þann 3. nóvember 2003 samkvæmt fyrirmælum stefnda. Engin viðbrögð hafi borist stefnda og því sé litið svo á að stefnandi hafi fallist á sjónarmið stefnda.
Ákvörðun stefnanda um að hefja ekki vinnu þann 3. nóvember 2003 hafi að öllu leyti verið á ábyrgð stefnda vegna vanefnda hans á verksamningi aðila. Í bréfum stefnanda þann 20. ágúst 2003, 15. október og 20. nóvember 2003 hafði vanefndum stefnda verið lýst, án þess að fullnægjandi svör bærust frá stefnda. Sé ljóst að sú krafa verði ekki gerð til verktaka að þeir fylgi fyrirmælum verkkaupa sem eru í ósamræmi við verksamning og útboðsgögn. Forsendur og grundvöllur verksins höfðu tekið gagngerum breytingum án þess að verksamningur aðila væri uppfærður. Hér verði að hafa í huga að vanefndir stefnda höfðu þegar valdið stefnanda verulegu tjóni án viðunandi úrbóta af hálfu stefnda. Þá hafi viðbragðaleysi stefnda við ítrekuðum áskorunum stefnanda um útskýringar og úrlausn deilumála verið alvarlegt brot á reglunni um góð og greið samskipti og samvinnu samningsaðila. Stefnanda hafi því verið óskylt að verða við fyrirmælum stefnda.
Aðalkrafa stefnanda sé á því reist að stefnda beri að greiða aukinn kostnað stefnanda, sbr. reikning stefnanda til stefnda, dags. 1. október 2003, vegna vanefnda og breytinga stefnda á verkinu. Þá beri stefnda jafnframt að bæta stefnanda allt það tjón sem ólögmæt riftun hans hafi valdið. Telur stefnandi rétt, í því sambandi, að miða bótakröfu sína við mismun á fjárhagsstöðu sinni eins og hún hefði verið við réttar efndir og fjárhagsstöðu sinni eins og hún sé eftir ólögmæta riftun stefnda, þ.e. efndabætur. Hagnaðarmissir stefnanda hafi verið 15.953.000 krónur, sbr. stöðumat og uppgjör vegna verksins við riftun verksamnings á dskj. nr. 36. Sú fjárhæð sé fundin með því að reikna út kostnað stefnanda við flutning á ákveðnu magni efnis og þá greiðslu sem honum hafi borið samkvæmt verksamningi. Sú tala sé síðan margfölduð með því heildarefnismagni sem stefnanda hafi verið falið að hliðra samkvæmt verksamningi aðila.
Aðalkrafa stefnanda sundurliðist nánar með eftirtöldum hætti:
|
1. Reikningur dags. 1. nóvember 2003 |
923.500 kr. |
|
2. Hagnaðarmissir samkvæmt dskj. nr. 47 15.953.000 kr. -15% unnið verk, sbr. bls. 10 í dskj. nr. 37 2.393.000 krónur |
13.560.000 kr. |
|
3. Eftirstöðvar samþykktra reikninga sbr. dskj. nr. 37, bls. 6 efst |
326.531 kr. |
|
|
14.810.031 kr. |
Stefnandi vísar til almennra reglna skaðabóta-, verktaka- og kröfuréttar, um ábyrgð verkkaupa á greiðslu skulda og bótaábyrgð innan samninga vegna vanefnda og ólögmætrar riftunar verksamnings.
Um varnarþing er vísað til 33. gr. laga um meðferð einkamála.
Um dráttarvexti er vísað til III. kafla vaxtalaga, nr. 38/2001.
Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi mótmælir fram komnum kröfum og málsástæðum stefnanda. Eins og ítrekað komi fram í útboðsskilmálum vegna verksins sé það eðli þessa verks að þörf sé á sveigjanleika, einkum varðandi tíma, innbyrðis stærð áfanga og samskipti við aðra verktaka við vinnu á svæðinu. Þar komi einkum til að vitað hafi verið fyrirfram að margir óvissuþættir yrðu varðandi heildarframkvæmdir á svæðinu. Þannig hafi t.d. ekki verið vitað um sigtíma (1.1.0, 7. mgr.), unnið yrði að stækkun landsins samhliða verkinu (1.1.0, 1. mgr.), dæla yrði grús í dælugryfju meðan á fergingu stæði (1.1.0, 4. mgr. og 1.1.1) og aðrir verktakar yrðu að störfum á svæðinu (1.1.1). Þá gerir ÍST 30 (16.1) ráð fyrir heimildum verkkaupa til að breyta umfangi verks innan eðlilegra marka.
Í stórum útboðsverkum á borð við ferginguna í Sundahöfn sé nauðsynlegt að þeir verktakar sem starfi á svæðinu geti unnið saman og hafi samráð sín á milli. Stefnandi hafi átt í verulegum vandræðum með slíka samvinnu. Hafi öll framkoma stefnanda við stefnda, sem og við aðra verktaka á svæðinu, einkennst af ósveigjanleika hans, sem og reynsluleysi og misskilningi hans á útboðsskilmálum.
Þá hafi framsetning reikninga stefnanda verið óforsvaranleg. Hafi stefnandi ekki leitað umfjöllunar og samþykktar eftirlitsmanns eins og venja standi til og hafi ítrekað sent inn einhliða kröfur sem hafði áður verið hafnað.
Eins og framlögð gögn sýni hafi öll umræða stefnanda og lögmanns hans snúist um bótakröfur þegar komið hafi verið fram yfir mitt ár 2003. Bótakröfur sem hafi verið úr lausu lofti gripnar og kröfur um sérstakar greiðslur vegna verka sem stefnanda hafi borið að inna af hendi samkvæmt verksamningi. Stefnandi hafi reynt að fá verksamningi breytt. Telur stefndi ljóst að stefnandi hafi boðið of lágt í verkið og hafi ekki haft fullnægjandi tækjakost. Þá hafi stefnandi haldið því fram að verksamningur aðila væri uppnámi sökum breyttra teikninga og hirðuleysis stefnda við að svara fyrirspurnum. Hvort tveggja sé úr lausu lofti gripið.
Í stefnu sinni geri stefnandi ekki grein fyrir greiðslum vegna aukaverka, samtals 952.000,- sem getið sé á dskj. nr. 40, sbr. og dskj. nr. 44. Skekki þetta heildarmat á málinu.
Um aðalkröfu
Stefndi fer fram á að öllum kröfum stefnanda verði hafnað.
a.Biðtímagjald vegna inndælingar á efni í landfyllingu.
Stefnandi krefjist biðtímagjalds 27, 25 klst. vegna inndælingar á efni í dælugryfju, samtals 381.500 krónur. Vísi stefnandi til reiknings sem stefnda hafi verið sendur þann 1. október 2003. Þar komi fram að krafist sé tafabóta vegna tímabilsins 31. júlí til 24. ágúst 2003.
Þessi krafa eigi sér enga stoð í verksamningi aðila. Sé henni alfarið hafnað.
Samkvæmt verksamningi skuli greiða stefnanda fyrir tilflutt magn efnis en ekki samkvæmt tímagjaldi. Skipulag verksins sé á ábyrgð stefnda. Það komi fram í útboðsgögnum að unnið sé að stækkun landsins og að dæluskipið verði að störfum samhliða verkinu. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að fylgjast með komu dæluskipsins og skipuleggja tíma sinn í samræmi við þær komur, enda til þess ætlast í verksamningi. Þá sé í útboðsgögnum einnig tekið fram að aðrir verktakar verði við vinnu á svæðinu og að stefnda beri við skipulagningu vinnu sinnar að taka tillit til þeirra. Eðli málsins samkvæmt sé ekki gert ráð fyrir því að hver verktaki um sig eigi rétt á biðtímagjaldi þó svo að þeir verði að gera stutt hlé á vinnu sinni til að hliðra til fyrir öðrum verktaka, enda sé slíkur biðtími innan hóflegra marka. Af tilvitnuðum ákvæðum útboðsgagna hafi stefnanda mátt vera ljóst að vegna vinnu annarra verktaka á svæðinu gæti hann þurft að skipuleggja tíma sinn og hafa samráð við þessa aðila í því skyni að minnka líkur á töfum. Þá sé ljóst að biðtími sem sé samanlagt rúmlega ein klst. á sólarhring geti ekki talist óeðlileg töf miðað við eðli verksins og lýsingu þess í útboðsgögnum.
Samkvæmt upplýsingum stefnanda sjálfs, sbr. dskj. nr. 46, hafi hann verið við vinnu á vöktum allan sólarhringinn frá því að tímavinnu við aukaverk lauk kl. 1400 þann 30. júlí til kl. 2330 þann 10. ágúst, er landbrotið varð. Stefndi hafi greitt 10,5 klst. tafagjald vegna landbrotsins. Stefnandi hóf síðan aftur vinnu daginn eftir, kl. 1100, og hafi unnið á vöktum til kl. 2100 þann 24. ágúst, er efni í farghaug þraut. Ekki komi fram hér að neinar tafir hafi orðið á þessu tímabili. Ljóst sé að stefnanda hafi ekki tekist að færa neinar sönnur á það að hann hafi þurft að bíða meðan efni var dælt í landfyllingu.
Samkvæmt framansögðu sé ljóst að það sé á ábyrgð stefnanda að skipuleggja vinnu sína með tilliti til hagkvæmni og ráðfæra sig við aðra verktaka sem séu að störfum á svæðinu sem og að taka tillit til þeirra. Eðli málsins samkvæmt, sbr. og fyrirvara í verksamningi, sé ljóst að verktaki geti þurft að sýna sveigjanleika vegna vinnu annarra verktaka á svæðinu. Slíkt sé ekki á ábyrgð stefnda. Þá hafi stefnanda ekki tekist að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir neinum töfum, hvað þá tjóni, vegna uppdælingar á efni í landfyllingu, er rekja megi til aðgerða stefnda eða vanefnda hans á verksamningi þessara aðila. Beri því að hafna kröfum hans um tafabætur vegna þessa.
b.Krafa vegna sléttunar á landfyllingu.
Stefnandi hefur krafist 126.000 króna vegna 9 klst. vinnu við sléttun landfyllingar þann 2. ágúst 2003. Kveður hann þetta verk hafa verið unnið að fyrirskipan eftirlitsmanns.
Stefndi mótmælir þessari kröfu. Hann hafi engin slík fyrirmæli gefið. Stefndi hafi gefið verkfyrirmæli varðandi sléttun lands eru lutu að frágangi á farghaugi 2. Fyrirmælin séu frá 1. ágúst 2003 og þar sé farið fram á að stefnandi slétti í samræmi við útboðsgögn. Í lið 1.1.0, 9. mgr. í útboðsgögnum segi að yfirborði lands er komi undan fergingu skuli skilað sléttuðu og snyrtilegu. Kostnaður vegna þessa skuli innifalinn í einingarverðum fergingar. Jafnframt skyldi yfirborð farghauga vera nægjanlega slétt til þess að eftirlitsmaður stefnda gæti ekið uppá þá til að athuga með sigmerki.
Ef stefnandi hafi talið þörf á að slétta frekar yfirborð landfyllingar undir fergingarhaug 3 áður en hann flytur farghaug 2 þangað þá sé það hans mál. Stefnda beri einungis að skila landfyllingu grófjafnaðri. Stefndi krefjist því sýknu af þessari kröfu stefnanda.
c. Krafa vegna gerðar 8 aukarampa við farghaug nr. 3.
Stefnandi telji sig eiga rétt á sérstökum greiðslum vegna aukarampa. Samtals krefjist stefnandi 416.000 króna, eða sem samsvarar 1.000 m3 fyrir hvern ramp. Vísi stefnandi til þess að í kjölfar landbrots hafi stefndi óskað þess að hann hæfi vinnu við hliðrun á nýjum stað.
Þessi krafa eigi sér enga stoð í verksamningi aðila. Stefndi hafni alfarið þessari kröfu. Samkvæmt útboðsskilmálum sé greitt sem samsvari 1.000 m3 á hvern landáfanga (52.000 krónur) vegna uppkeyrslurampa. Þessir skilmálar gefi skýrt til kynna að verið sé að tala um greiðslu fyrir einn rampa á hvern landáfanga og að sá rampi skuli vera utan við skilgreind útmörk á farghaugnum og að magn það sem þurfi til að búa til rampann skuli í uppgjöri reiknast fast 1.000 m3 vegna landáfanga. Stefndi bendi á að vinnurampar sem lendi innan farghaugsins sjálfs séu hluti af haugnum, enda flytji verktaki það efni aðeins einu sinni. Þetta hafi verið útskýrt fyrir stefnanda bæði munnlega og skriflega.
Stefndi bendi á að eins og fram komi í verkfyrirmælum á dskj. nr. 13 sé þess farið á leit við stefnanda í kjölfar landbrots að hann vinni að uppbyggingu farghaugs nr. 3 á tiltekinn hátt. Vegna þessa hafi stefndi fallist á að greiða 84.000 krónur eða sem samsvari rúmlega 1 l/2 rampi aukalega til stefnanda. Komi þessi greiðsla til viðbótar við fastagreiðslu fyrir einn ramp eða 1.000 m3 eins og verksamningur geri ráð fyrir. Stefndi telur framangreindar greiðslur hafa komið fyllilega til móts við kröfur stefnanda vegna breyttra verkfyrirmæla. Hafi stefnandi engar sönnur fært fyrir því að hann eigi rétt á frekari viðbótargreiðslum úr hendi stefnda og beri því alfarið að hafna kröfum hans þar að lútandi.
d. Meintar vanefndir stefnda á afhendingu efnis úr dælugryfju.
Stefnandi hafi vísað til 21.3 gr. ÍST um að verktaki geti krafist greiðslu vegna aukins kostnaðar af völdum vanefnda verkkaupa m.a. á afhendingu efnis úr dælugryfju. Stefnandi hafi þó ekki gert neinar sérstakar fjárkröfur vegna þessara meintu vanefnda. Þá kveður stefnandi stöðvun framkvæmda vegna skorts á efni vera brot á verksamningi aðila.
Það komi fram í gögnum málsins að framangreint umkvörtunarefni stefnanda hafi verið tilefni umræðna milli samningsaðila.
Stefndi bendi á að á tímabilinu 31. júlí, þegar tímavinnu stefnanda lauk, og til 24. ágúst, er lokið var við að hliðra farghaug 2 yfir í farghaug 3, hafi verið nægjanlegt efni fyrir hendi. Þá sé bent á að stefnandi hafi unnið að verkinu allan sólahringinn frá 31. júlí til 24. ágúst. Verði því eigi séð að skortur á efni í gryfju hafi valdið stefnanda neinum töfum á þessu tímabili, en stefnandi hafi aðeins verið með eitt tæki er hann hafi notað til verksins.
Það sé ágreiningslaust af hálfu stefnda að sá verkhluti sem lauk þann 24. ágúst hafi orðið minni en upphaflega hafi verið áætlað sökum skorts á efni í dælugryfju. Verkhlutinn hafi einungis orðið 55.000 m3 en fergingu með grús úr dælugryfju samtals 30.000 m3 hafi verið frestað fram í október. Að mati stefnda samræmist þetta fyllilega ákvæðum verksamnings aðila. Þá hafi stefnanda verið gerð grein fyrir þessari tilhögun með löngum fyrirvara.
Í útboðsgögnum sé gerður fyrirvari um að stærð og tímasetning hvers áfanga geti breyst á framkvæmdatímanum. Þá komi og fram í ÍST 30, gr. 16.1, að verkkaupa sé heimilt að krefjast breytinga á umfangi verks innan eðlilegra marka, enda sé slíkt gert skriflega. Stærðir í verklýsingu byggist á áætlunum (1.1.0, 4. mgr.). Stefndi hafi gert grein fyrir umræddum breytingum í bréfi sínu til stefnanda þann 24. júlí 2003. Þar komi fram eftirfarandi:
„Átlað heildarmagn grúsar í 3ja áfanga er ca 55.000 m3 og hefur verktaki því 26 daga til að ljúka verkinu miðað við 29.7 en þann dag eða fyrr er reiknað með að lokið sé nyrstu 25 m landgerðar en sú vinna er unnin í tímavinnu sbr. neðanskráð.“
Í bréfinu komi jafnframt fram að verkið takmarkist við hliðrun úr haug. Ljóst hafi því verið að færsla á efni úr dælugryfju myndi tefjast. Á verkfundi þann 26. ágúst 2003 hafi stefndi gert grein fyrir því að þessi verkhluti, þ.e. færsla á grús úr dælugryfju, gæti hafist í október. Framangreindar breytingar á efnismagni einstakra verkhluta innbyrðis séu fyllilega í samræmi við þann sveigjanleika sem áskilinn sé í útboðsgögnum. Þessar breytingar hafi engin áhrif á heildarmagn þess efnis sem verksamningur aðila taki til og geti því ekki leitt til missis hagnaðar af hálfu stefnanda. Stefndi hafi gert stefnanda ítrekað grein fyrir þessu.
Stefndi bendi ennfremur á að stefnandi hafi hagnast vegna þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á innbyrðis stærð verkáfanga. Þegar tafir urðu í júlí á uppdælingu á grús úr dæluskipi og uppbyggingu lands undir fergingu hafi stefnandi fengið aukaverk í tímavinnu, m.a. að búa land undir fergingu og vinna við hluta af fergingaráfanga nr. 3. Hafi verið ágreiningur milli aðila um túlkun verksamnings og til að slíkt tefði ekki verkið hafi eftirlitsaðili samþykkt að tiltekinn hluti þess yrði unninn í tímavinnu. Hafi hann teygt sig afar langt, að mati stefnda, í því skyni að ná samkomulagi við stefnanda. Hafi sá samningur því verið mjög hagstæður stefnanda og hafi hann fengið fyrir þennan verkhluta sem samsvari 227 krónum fyrir hvern m3 í stað 52 króna samkvæmt verksamningi. Stefnandi geti í engu í stefnu sinni um framangreint aukaverk eða greiðslu fyrir það 805.000 króna sem þó hafi verið á mun hagstæðari kjörum en verksamningur aðila sagði til um.
e.Riftun verksamningsins.
Stefnandi kveður riftun stefnda á verksamningi ólögmæta og krefst efndabóta vegna missis hagnaðar, samtals 15.953.00 króna.
Stefndi mótmælir alfarið þessum kröfum stefnanda. Verkstöðvun stefnanda hafi verið ólögmæt. Hann hafi ekki hafið störf á vinnusvæðinu þann 13. október 2003, eins og um hafi verið rætt á verkfundinum þann 6. október 2003. Samkvæmt ÍST 30, grein 25.8 hafi verktaki einungis heimild til stöðvunar verks um stundarsakir að vanefnd verkkaupa sé veruleg og verktaki hafi áður gert verkkaupa skriflega viðvart og sett honum hæfilegan frest. Ekkert framangreindra skilyrða hafi verið fyrir hendi þegar stefnandi hafi ákveðið að hefja ekki verkið á umsömdum tíma. Hafi honum því verið óheimilt að stöðva verkið fyrirvaralaust. Stefndi bendi jafnframt á að þegar af þeirri ástæðu, að stefnandi hvarf af vettvangi án fyrirvara og skriflegrar viðvörunar, hafi verkstöðvun hans verið ólögmæt.
Þegar stefnandi hafi ekki hafið vinnu við verkið, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnda, teljist slíkt veruleg vanefnd á verksamningi aðila. Hafi stefnda því verið heimilt að rifta samningi þeirra, sbr. 25.5 gr. ÍST 30.
Stefndi taki fram að hin ólögmæta verkstöðvun stefnanda er leiddi til riftunar verksamningsins hafi valdið honum stórfelldu tjóni. Í kjölfar riftunarinnar hafi stefndi þurft að fá annan verktaka til að ljúka áfanganum og bjóða síðan verkið út að nýju. Af þessu hafi hlotist margra mánaða seinkun á öllum byggingaráformum Skarfabakka og um leið úthlutun lóða á baksvæði bakkans. Stefndi hafi rétt til dagsekta í samræmi við verksamning aðila og geti gengið að verktryggingu í því skyni að fá slíka greiðslu. Þá áskilji stefndi sér skaðabætur vegna tjóns sem hlotist hafi af hinu ólögmæta athafnaleysi stefnanda og broti hans á verksamningi.
Stefnandi haldi því fram að sér hafi ekki verið fært að hefja verkið þar sem annar verktaki hafi verið að störfum á svæðinu. Stefndi mótmæli þessari fullyrðingu. Annar verktaki hafi verið við vinnu á svæðinu eins og verksamningur aðila geri ráð fyrir. Hafi stefnanda borið að hafa samráð við hann ef nauðsyn krefði. Þá hafi eftirlitsmaður stefnda haft samband við verktakann sem hafi fært sig um set. Stefnandi hafi hins vegar horfið af vettvangi og hafi enga tilraun gert til að hefja verkið, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnda. Daginn eftir, 14. október, hafi stefndi skorað á stefnanda að hefja verkið. Með bréfi, dags. 3. nóvember 2003, hafi stefndi svarað spurningum stefnanda og jafnframt skorað á hann að hefja verkið og flytja 15.000 m3 fyrir 11. nóvember, en sæta riftun ella. Stefnandi hafi enga tilraun gert til að hefja verkið. Á minnisblaði eftirlitsmanns, dags. 12. nóvember 2003, og bréfi stefnda, dags. 13. nóvember 2003 til Innkaupastofnunar Reykjavíkur komi fram að stefnandi hafi ekki verið við vinnu á svæðinu. Stefnandi hafi ekki orðið við tilmælum stefnda um að hefja verkið og hafi stefndi því rift verksamningi aðila með bréfi, dags. 17. nóvember 2003.
Það sé ljóst af bréfaskiptum og fundum aðila að þeir hafi verið ósammála um túlkun ákvæða verksamningsins vegna greiðslu fyrir gerð rampa o.fl. Nánar sé gerð grein fyrir þessum ágreiningsefnum í bréfi stefnanda til stefnda, dags. 20. nóvember 2003. Öllum þessum fullyrðingum hafi verið svarað af hálfu stefnda með bréfi dags 3. nóvember 2003, sem og í fyrri bréfum stefnda. Ágreiningsefnin hafi varðað uppgjör vegna krafna um greiðslu aukaverka við fyrri áfanga og voru tilkomin vegna þeirra sérstöku aðstæðna er sköpuðust vegna landbrots og tafa á uppdælingu efnis. Ekkert hafi bent til þess að slíkar aðstæður myndu skapast við þann áfanga sem hafi átt að hefjast í byrjun október, enda verksvæði tilbúið og móttökugryfja full af efni til afgreiðslu. Í þessum áfanga hafi stefnandi átt að hliðra 30.000 m3 af efni úr haug og halda áfram uppbyggingu farghaugs 3. Stefndi hafi ítrekað við stefnanda að ekki væri ætlast til neins annars af stefnanda en að hann ynni verkið samkvæmt verksamningi aðila. Þegar hér var komið sögu virtist stefnda ljóst að stefnandi hafi í raun hvorki haft fjárhagslegt né tæknilegt bolmagn til þess að inna verkið af hendi. Eins og sjá megi af uppgjöri vegna aukaverks hafi það tekið stefnanda meira en fjórfalt lengri tíma að vinna aukaverk við hliðrun á grús úr haug en hann geri ráð fyrir í tilboði sínu. Þá hafi stefnandi ekki haft vélar og tæki sem hentuðu til hliðrunar grúss úr dælugryfju og hafi stefndi bent honum á það. Hafi stefnandi aldrei gert neina tilraun til þess að hliðra grús úr dælugryfju sem þó hafi verið full af efni. Stefnandi hafi ekki lokið við nema 15% verksins.
Stefndi telur sig hafa komið verulega til móts við uppgjörskröfur stefnanda m.a. með úthlutun aukaverka og greiðslna vegna tafa og gerðar aukarampa. Gagnstætt fullyrðingu stefnanda þá hafi stefndi svarað kröfubréfum hans jafnóðum. Þetta komi fram í gögnum málsins. Fullyrðingar stefnanda um vanefndir af hálfu stefnda séu því ekki á rökum reistar og algerlega ósannaðar.
Samkvæmt framansögðu sé riftun stefnda á verksamningi sínum við stefnanda fyllilega lögmæt. Þá sé krafa stefnanda um efndabætur ekki studd neinum gögnum, hvorki gögnum um launakostnað stefnanda, né rekstrarkostnað vegna tækja, eða öðrum bókhaldsgögnum, staðfestum af endurskoðanda fyrirtækisins. Beri því að sýkna stefnda af kröfu um efndabætur.
Um varakröfu
Komi til þess að Héraðsdómur telji að stefnanda beri einhverjar greiðslur eða bætur vegna framkvæmda á hinu umsamda verki fari stefndi fram á að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.
Stefndi, Reykjavíkurborg, byggi málatilbúnað sinn m.a. á almennum reglum skaðabóta- verktaka- og kröfuréttar, sem og ÍST 30.
Um dráttarvexti vísist til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.
Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Kröfugeð stefnanda er tvíþætt. Annars vegar er gerð krafa vegna aukaverka og biðtíma að upphæð 923.500 krónur. Hins vegar krafa um bætur vegna ólögmætrar riftunar stefnda á verksamningi aðila að upphæð 16.876.500 krónur.
Í framlögðu stöðumati og uppgjöri Jóns Þorvaldssonar vegna umrædds verks við riftun verksamningsins er verkinu lýst og framvindu þess. Segir þar að vinna stefnanda við umrætt verk hafi hafist 24. mars 2003. Verkið hafi falist í 14 sjálfstæðum og aðskildum verkáföngum. Vinnu við fyrsta áfanga hafi lokið 15. maí 2003. Fluttur var farghaugur nr. 1 og myndaður farghaugur 2. Lokaúttekt vegna þess hluta hafi farið fram í lok maí. Í lok júlí hafi farghaugur nr. 2 að fullu verið siginn og hófst vinna við 2. áfanga útboðsverksins með flutningi efnis í farghaug nr. 3. Þessum áfanga verks hafi verktaki ekki lokið vinnu við. Fram kemur í stöðumati að verktaki hafi flutt alls 50.657m3 en ráðgert hafi verið að farghaugur yrði um 85.000m3 samkvæmt útboðsgögnum. Þá segir að við eðlilegar aðstæður hefði þessum áfanga átt að ljúka á innan við 6 vikum að viðbættum töfum sem urðu þegar jarðvegur gaf sig undan farginu.
Tekur Jón saman greiðslur og uppgjör vegna verksins. Segir þar um uppgjör verks og greiðslur til verktaka að samningsverð sé alls 5.495.431 króna, aukaverk alls 952.000 krónur, verðbætur 17.200 krónur eða alls 6.464.631 króna. Heildargreiðslur til verktaka samkvæmt yfirliti séu alls 6.138.100 krónur og óuppgert sé því alls 326.531 króna. Óumdeilt er að sú fjárhæð sé hluti stefnukrafna í málinu.
Miðað við greiðslur til stefnanda samkvæmt verksamningi er ljóst að hluti aukaverka er talsverður, enda kemur fram í gögnum málsins og kom fram við yfirheyrslur að samþykkt voru ýmis aukaverk. Til dæmis er samkvæmt bréfi stefnda, 27. ágúst 2003 samþykkt greiðsla fyrir aukaverk vegna fjögurra rampa og greiðsla vegna tafa við landbrot. Þá bar Jón Þorvaldsson fyrir dómi að eftirlitsmaður hefði gert samkomulag við stefnanda um greiðslu fyrir um 60 klst. við að fylla land í rétta hæð þegar stefnandi hafi gert athugasemd um að það vantaði í landhæð í farghaugi 3.
Krafa stefnanda um greiðslu á 923.500 krónum vegna biðtíma og aukaverka kemur því til viðbótar þeim greiðslum sem getið er hér að framan.
Samkvæmt fylgiskjali með reikningi er krafa vegna tafa fyrir tímabilið 31. júlí til 24. ágúst 2003. Óskar Ásgeirsson, verkfræðingur og eftirlitsmaður verksins, bar fyrir dómi að hann líti svo á að stefnandi sé með þessari kröfu sinni að vísa til þess tíma sem skipið sé að dæla efni í land. Þá gefi yfir á tæki og menn og ekki sé hægt að vinna á meðan. Hann líti svo á að þetta hefði stefnandi mátt vita fyrir fram. Þá bar hann að stefnandi hefði sagst vera að vinna allan sólarhringinn á þessum tíma. Hafi hann ekki litið svo á að stefnandi hefði orðið fyrir töfum enda hafi hann haft næg verkefni í sambandi við landbrotið.
Í útboðslýsingu gr. 1.1.0 kemur fram að í sumum tilvikum þurfi auk efnis úr fyrri farghaug að bæta við efni sem tekið sé úr gryfju sem dælt sé í efni með dæluskipi. Grúsinni sé dælt upp í gryfju í fjöruborðinu í þeirri landlínu sem fyrir hendi sé hverju sinni. Reiknað er með því að dæluskipið geti afgreitt 1 til 3 farma á dag eða 2000m3 á dag að meðaltali. Þá segir í gr. 1.1.1 að samhliða þessu útboðsverki verði önnur verk í gangi á svæðinu sem tengjast heildarverkinu, m.a. móttöku efnis á tipp og síðar byggingu bakka og ölduvarna og beri verktaka að taka tillit til annarra verktaka við skipulagningu og framkvæmd hliðrunar farghauga.
Í ljósi útboðslýsingar verður að ætla að stefnandi hafi mátt gera sér grein fyrir því að dæluskip yrði við uppdælingu á grús daglega og að hann yrði að hagræða sinni vinnu í samræmi við það. Hefur hann ekki sýnt fram á að tafir sem urðu af þeim sökum hafi verið meiri en vænta mátti þegar litið er til aðstæðna á vinnusvæði og gert er ráð fyrir í útboðsgögnum eða að tafir hafi verið meiri en stefndi hefur þegar samþykkt. Er því ekki fallist á þessa kröfu stefnanda.
Stefnandi gerir kröfu um greiðslu fyrir sléttingu á landfyllingu samkvæmt beiðni eftirlitsmanns. Stefnandi gefur þá skýringu á þessari kröfu að hún sé til komin vegna vinnu við að slétta land undir farghaug nr. 3. Landið hafi ekki verið komið upp í hæðarkóta og hafði ekki verið sléttað og því hafi ekki verið fært um það á neinum hjólatækjum. Fram hafi komið ósk um að þeir sléttuðu farghaug nr. 2 en þeir hafi ekki verið komnir svo langt með verkið að hafa lokið því þegar upp úr verksamningi slitnaði.
Samkvæmt framburði Jóns Þorvaldssonar og Óskars Ásgeirssonar fyrir dómi var land undir farghaug 3 ekki komið í fulla hæð þegar stefnandi hóf vinnu við hann. Stefnandi gerði athugasemdir og var samþykkt af hálfu stefnda að hann fengi sérstaklega greitt fyrir að koma hluta farghaugsins í rétta hæð. Hins vegar er með öllu ósannað að eftirlitsmaður hafi farið fram á að land yrði sléttað undir farghaug 3. Ber því að hafna þessari kröfu.
Jón Þorvaldsson bar fyrir dómi að fergingarreitur 3 hefði ekki breyst frá því sem gert var ráð fyrir í útboðsgögnum. Hins vegar hafi, við landbrotið, brotnað úr honum. Enginn nýr fergingarreitur hafi orðið til. Stefnandi hafi verið að vinna í sama skilgreinda reitnum og forsendur sögðu til um. Er þetta ekki í samræmi við fullyrðingu stefnanda í stefnu um að honum hafi verið gert að hefja vinnu við hliðrun á nýjum stað. Telst þessi fullyrðing stefnanda ósönnuð.
Samkvæmt útboðslýsingu, sbr. gr. 1.1.0, virðist gert ráð fyrir einum uppkeyrslurampa við hvern landáfanga. Í verklýsingu segir að grúsarmagn það sem fari í uppkeyrslurampa reiknist fast í uppgjöri 1000m3. Þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á það í málinu að nauðsynlegt hafi verið að gera 8 aukarampa við farghaug 3 og ber því að hafna þessari kröfu hans.
Stefnandi telur riftun stefnda á verksamningi aðila ólögmæta og krefur stefnda því um skaðabætur að fjárhæð 16.876.500 krónur vegna meints tjóns hans. Ákvörðun hans um að hefja ekki vinnu 3. nóvember hafi að öllu leyti verið á ábyrgð stefnda vegna vanefnda hans á verksamningi aðila.
Í stefnu segir að stefnandi telji stefnda hafa gefið honum fyrirmæli sem voru í ósamræmi við verksamning og útboðsgögn. Forsendur og grundvöllur verksins hafi tekið gagngerum breytingum án þess að verksamningur aðila væri uppfærður. Þá hafi viðbragðsleysi stefnda við ítrekuðum áskorunum stefnanda um útskýringar og úrlausn deilumála verið alvarlegt brot á reglunni um góð og greið samskipti og samvinnu samningsaðila. Af þessum sökum hafi stefnanda verið óskylt að verða við fyrirmælum stefnda.
Í kafla um málsástæður stefnanda í stefnu er ekki gerð nánari grein fyrir því varðandi skaðabótakröfu stefnanda hvaða fyrirmæli það voru sem brutu í bága við verksamninginn eða hvað stefnandi eigi við þar sem segir að forsendur og grundvöllur verksins hafi tekið breytingum. Er hins vegar vísað til framlagðra bréfa stefnda, dags. 20. ágúst (sic, en á sennilega að vera 26.), 15. október og 20. nóvember 2003.
Í bréfi stefnanda, dags. 15. október 2003, segir að stefnandi hafi mætt á vinnusvæðið en þar hafi fyrirtækið ET verið við vinnu og hafi ekki lokið sínu verki á staðnum. Því hafi stefnandi ekki getað hafið vinnu sína. Kvað stefnandi ómögulegt að leggja fram verkáætlun meðan alger óvissa ríkti í verkinu og stefndi ennþá að vinna sjálfur við verkið og breyta því jafnóðum. Þá krafðist stefnandi skriflegrar staðfestingar stefnda á að tafir vegna inndælingar yrðu bættar. Vakti hann athygli á því að teikningar af farghaug 3 vantaði. Þá krafðist stefnandi þess að gengið verði frá samningum vegna breyttra forsenda á vinnu við farghaug 3. Að þessum skilyrðum uppfylltum taldi stefnandi sér ekkert að vanbúnaði að hefja störf við fergingu 3.
Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 26. ágúst 2003, kemur fram að stefnandi gerir athugasemdir við skráðar fundargerðir þar sem hann telur að þar skorti að skráð hafi verið sjónarmið hans um framkvæmd verks og framvindu þess o. fl.
Í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 20. nóvember 2003, er vikið að því að verksvæðið hafi ekki verið tilbúið er stefnandi ætlaði að hefja þar vinnu 13. október. Því er lýst að stefnandi telji verkið hafa breyst í grundvallaratriðum, t.d. hafi hæðarkóta verið breytt, land ekki tilbúið, efni úr móttökugryfju skort, verkframvindu í samræmi við áætlanir í útboðsskilmálum verið breytt. Miklar breytingar hafi orðið á verkinu af ástæðum sem varði eingöngu stefnda. Efni í dælugryfju hafi aldrei verið fyrir hendi. Vantað hafi teikningu af farghaug 3. Þá eru ítrekaðar kröfur um greiðslu fyrir aukaverk o.fl.
Í gr. 0.6.5 í útboðslýsingu segir að verði ágreiningur milli verktaka og verkkaupa um skilning á útboðsgögnum skuli verktaki þó eigi að síður framkvæma verkið samkvæmt fyrirmælum verkkaupa sbr. ÍST 30:1997 gr. 32. Rísi ágreiningur um mál þetta skal honum skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur. Þrátt fyrir þetta ákvæði fór stefnandi frá umræddu verki.
Eins og rakið er hér að framan hefur stefnandi haft uppi ýmsar kröfur á stefnda. Samkvæmt því sem fram hefur komið hefur stefndi orðið við sumum kröfum stefnanda. Engin grein er þó gerð fyrir þeim í stefnu. Öðrum kröfum stefnanda hefur stefndi hafnað og mótmælt fullyrðingum hans um vanefndir stefnda á verksamningi aðila. Gegn andmælum stefnda þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á í málinu, hvorki með skriflegum gögnum né skýrslum vitna, að fullyrðingar hans um vanefndir stefnda eigi við rök að styðjast eða að atvik hafi verið með þeim hætti sem hann heldur fram í þeim bréfum sem lögð hafa verið fram í málinu og vísað er til í stefnu. Er með öllu ósannað að stefndi hafi vanefnt verksamning aðila og ber því að sýkna hann af skaðabótakröfu stefnanda.
Samkvæmt framansögðu skal stefndi vera sýkn af kröfum stefnanda að öðru leyti en því að dæma ber stefnda til greiðslu á 326.531 krónu þar sem óumdeilt er að þá fjárhæð eigi stefndi eftir að greiða stefnanda, sbr. framlagt stöðumat og uppgjör, og að sú fjárhæð sé innifalin í stefnukröfu. Dráttarvextir dæmast frá 29. júní 2004 í samræmi við kröfugerð.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Reykjavíkurborg vegna Reykjavíkurhafnar, greiði stefnanda, Berglín ehf., 326.531 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. júní 2004 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.