Hæstiréttur íslands

Mál nr. 664/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 8

 

Mánudaginn 8. janúar 2007.

Nr. 664/2006.

Guðjón Gunnlaugsson

(Ólafur Thóroddsen hdl.)

gegn

Tryggva Gunnlaugssyni

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

G stefndi T til greiðslu skaðabóta fyrir að hafa með ólögmætum hætti „sölsað undir sig hlut“ G í tilteknu félagi. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var af Hæstarétti með vísan til forsendna, var talið að ekki væri ljóst af málatilbúnaði G hvort hann teldi sig enn vera eiganda að hlutum í téðu félagi eða hvort eignayfirfærsla hefði farið fram á þeim. Þá varð ekki ráðið af stefnu á hverju G reisti skaðabótakröfu sína og hvert hið skaðabótaskylda atvik væri. Þótti málatilbúnaður hans svo óljós og óskýr að hann fullnægði ekki kröfum e. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var málinu því vísað frá dómi ex officio.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2006, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi án kröfu. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði úr gildi felldur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Guðjón Gunnlaugsson, greiði varnaraðila, Tryggva Gunnlaugssyni, 175.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2006.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 28. nóvember sl., að loknum munnlegum málflutningi um frávísun málsins ex officio, var höfðað fyrir dómþinginu af Guðjóni Gunnlaugssyni, á hendur Tryggva Gunnlaugssyni, með stefnu þingfestri 25. apríl sl.

Dómkröfur stefnanda voru þær, að stefndi yrði dæmdur til þess að greiða stefnanda 4.249.735 krónur að viðbættum 519.412 krónum, eða samtals 4.769.147 krónum, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 25. apríl 2002 til greiðsludags.  Þá er þess krafist, að umkrafðir dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 12. gr. laga nr. 38/2001.  Þá er krafist málskostnaðar, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda voru þær aðallega, að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að viðurkennd yrði skuldajafnaðarkrafa, allt að 1.488.000, með dráttarvöxtum frá 29. júní, er komi til greiðslu á móti viðurkenndum kröfum stefnanda á hendur stefnda, verði að einhverju leyti fallist á þær.  Þá krafðist stefndi málskostnaðar, auk virðisaukaskatts, úr hendi stefnanda.

II

Málavextir eru þeir, að málsaðilar áttu báðir hlut í útgerðarfélaginu Eyfreyjunes ehf.  Upphaflegt hlutafé var 5.500.000 krónur og átti stefnandi 1.000.000 króna, en stefndi 3.500.000 króna.  Hringur Arason var eigandi að 1.000.000 króna hlut í félaginu, sem hann síðan, að því er stefnandi heldur fram hafi selt báðum málsaðilum í sömu hlutföllum og þeir áttu hlut fyrir, en stefndi kveður félagið hafa keypt hlutinn.

Stefnandi var stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins frá upphafi og fram til ársins 1998. 

Hinn 15. október 2000 tilkynnti stefndi Hlutafélagaskrá, að stefnandi hefði selt hluti sína í félaginu, gengið úr stjórn þess og prókúra hans hefði verið afturkölluð miðað við 1. júlí 2000.  Tilkynningin var aðeins undirrituð af stefnda.  Stefndi setti síðan félaginu nýjar samþykktir hinn 12. október 2000.

Stefnandi kveðst ekki hafa sætt sig við þetta og leitað til lögfræðings, sem ritað hafi stefnda bréf hinn 20. nóvember 2001.  Samkvæmt skattframtölum stefnanda árin 2000, 2001 og 2002 sjáist að stefnandi hafi aldrei fallist á sölu hlutar síns í Eyfreyjunesi ehf.

Lögmaðurinn sendi síðan ríkislögreglustjóra kærubréf hinn 28. apríl 2002.  Sýslumaðurinn á Eskifirði rannsakaði málið, en taldi að ágreiningurinn væri einkaréttarlegs eðlis og ekki væri ástæða til frekari aðgerða af hálfu ákæruvaldsins, sbr. bréf hans, dagsett 13. desember 2002.

Hinn 5. febrúar 2003 ógilti ríkissaksóknari þessa ákvörðun sýslumanns og lagði til frekari rannsókn. 

Hinn 29. júlí 2003 tilkynnti sýslumaður að rannsókn málsins væri hætt.

Í tengslum við rannsókn þess voru teknar skýrslur af málsaðilum, sem og bankastarfsmönnunum, Regínu Fanný Guðmundsdóttur og Þorbjörgu Ósk Pétursdóttur.

Stefndi staðhæfir að hann hafi keypt hlut stefnanda í Eyfreyjunesi ehf. og greitt fyrir hlutinn hinn 10. ágúst 2000.  Stefndi lagði inn á reikning stefnanda hinn 10. ágúst 2000 1.488.000 krónur.  Stefnandi heldur því fram að greiðsla þessi sé að hluta til greiðsla láns, sem hann hafi veitt félaginu með því að slysabætur sem hann fékk árið 1993 hafi verið greiddar til félagsins.  Endurgreiðsla á slysabótum hafi verið 488.000 krónur, en 1.000.000 króna hafi verið jöfnun milli aðila málsins vega kvótaleigu og annars, sem stefndi hafi hagnast á.

Stefnandi heldur því fram, að stefndi hafi ráðskast með málefni Eyfreyjuness ehf., eins og hann ætti félagið einn, eins og sjáist af miklum aflamarksfærslum á bát félagsins.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi ekki fengið arðgreiðslur úr félaginu, en stefndi hafi skert hag félagsins verulega.

Stefnandi kveðst hafa gert sér grein fyrir að verðmæti hlutar hans í félaginu væri mun meira þrátt fyrir að stefndi hafi rýrt hlut þess mikið og ljóst að hann hefði aldrei selt hlut sinn á því undirverði sem stefndi haldi fram. 

Hinn 1. mars 2005 var dómkvaddur matsmaður að beiðni stefnanda, til þess að meta verðmæti félagsins.  Er matsgerð hans dagsett 12. janúar 2006.

Stefndi heldur því fram, að stefnanda hafi gengið illa að reka fyrirtækið og hafi rekstur þess alla tíð verið afar erfiður.  Hafi stefndi látið félaginu í té aflamark án þess að greitt væri fyrir kvótaleigu.

Stefndi kveður, að um páskaleytið árið 2000 hafi stefnandi óskað eftir því að fara út úr félaginu og hafi hann hætt sem starfsmaður þess í maí sama ár, er hann hafi ráðið sig á bát frá Eskifirði.  Í kjölfarið hafi stefnandi haft samband við stefnda og óskað eftir að selja honum hlut sinn í félaginu.  Stefndi kveðst í upphafi aðeins hafa viljað greiða stefnanda nafnverð hlutarins, en stefnandi viljað selja á hærra verði.  Samkomulag hafi loks náðst um að greiðsla stefnda fyrir hlutinn yrði jafn há og skuldir stefnanda við bankann, eð 1.488.000 krónur.  Gengið hafi verið frá kaupunum í útibúi Landsbankans í Djúpavogi hinn 10. ágúst 2000 og hafi vitni verið að kaupunum.  Stefnandi kveðst hafa gert grein fyrir kaupum sínum á hlutafé stefnanda í skattskýrslu fyrir árið 2000, þar sem fram komi að hlutafjáreign hans hafi hækkað úr 3.500.000 krónum í 4.500.000 krónur.

Stefndi kveður rekstur Eyfreyjuness ehf. hafa batnað mikið síðan stefnandi seldi hlutinn og geri félagið ú út skip á Djúpavogi.

III

Stefnandi byggir kröfu sína á því, að stefndi hafi með ólögmætum og saknæmum hætti sölsað undir sig hlut hans í Eyfreyjunesi ehf.  Stefnandi hafi aldrei ritað undir tilkynningu til Hlutafélagaskrár, en stefnda hafi verið í lófa lagið að gæta þess að fá áritun hans, ef um sölu hefði verið að ræða.  Stefnandi bendir á, að stefndi hafi með höndum veruleg umsvif og sé félagsvanur sem oddviti í sinni heimabyggð.  Það sé og illskiljanlegt af hverju svo reyndur maður hafi sett félaginu nýjar samþykktir, en ekki gætt slíkra formsatriða.  Skýringin sé vitanlega sú, að aldrei hafi verið um neina sölu að ræða.  Krafan á hendur stefnda sé því reist á almennu skaðabótareglunni um saknæmt og ólögmætt atferli stefnda utan samninga og beri stefnda að bæta stefnanda tjón hans.

Stefnandi kveðst byggja á því, að samkvæmt niðurstöðu matsmanns hafi verðmæti félagsins hinn 1. júlí 2000 verið 21.249.696 krónur til 23.373.545.  Miði hann kröfu sína við hærri fjárhæðina.  Upphaflegur hlutur stefnanda hafi verið 1.000.000 krónur af 5.500.000 krónum í heildarhlutafé.  krafan sé því:

a)               23.373.545 kr./4500 x 1000 eða 4.249.735 krónur.

Vegna kaupa á hlut Hrings Arasonar, sem keyptur hafi verið af stefnanda og stefnda:

b)               23.373.545 kr./4500 x 1000 eða 519.412 krónur.

Samtals 4.769.147 krónur.

Stefnandi sé nú einn skráður eigandi í félaginu hjá Hlutafélagaskrá.  Bátur félagsins hafi verið seldur.  Að baki hlutum í félaginu séu því ekki sambærileg verðmæti og voru hinn 1. júlí 2000.  Krafa stefnanda geti því ekki orðið sú, að fá að nýju hluti sína í félaginu, heldur sé hún fjárkrafa.

Með því að stefnandi sé einn eigandi að hlutum í félaginu og með tilvísun til þess að stefndi kveðst hafa keypt hlut stefnanda, sé ljóst, að stefndi hafi fyrir endanlegt gertæki sitt rýrt hlut stefnanda.  Af þeim sökum dragi stefnandi ekki frá þær 1.000.000 krónur, sem hann hafi fengið til að bæta að nokkru fyrir ráðstöfun á kvóta og annars hinn 10. ágúst 2000.  Umfram skuldajöfnuð hér á, séu ekki gerðar kröfur á hendur stefnda vegna meðferðar hans á félaginu og kröfugerðin miðuð við niðurstöðu matsmanns um stöðu félagsins hinn 1. júlí 2000.

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, en tekið sé til þess að hluti vaxta sé fyrndur samkvæmt ákvæðum laga nr. 14/1905. 

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. og 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

IV

Stefndi gerir athugasemdir við málatilbúnað stefnanda.  Stefnandi byggi mál sitt á þeirri forsendu að hann hafi ekki selt stefnda hlut sinn í Eyfreyjunesi ehf. heldur hafi greiðsla stefnda til stefnanda verið vegna annars.  Samkvæmt því eigi stefnandi enn hlut sinn og gæti fengið viðurkenningardóm um eignarrétt sinn, sé honum það nauðsynlegt, og framselt hann.  Þrátt fyrir að stefnandi telji sig enn eiga verðmætin krefjist hann bóta fyrir hlutafjáreign sína, eins og hún var hinn 1. júlí 2000.  Ekki sé krafist bóta vegna verðrýrnunar meintrar hlutafjáreignar stefnanda, sem hlotist hafi af meðferð stefnda á félaginu eða meintra rangra tilkynninga til Hlutafélagaskrár.  Í samræmi við þetta hafi stefnandi ekki beðið matsmann álits á því hvort og þá hvaða verðrýrnun hefði orðið á meintum hlutum hans eftir hina umdeildu sölu.  Stefnandi taki það fram að hann geri ekki kröfu í málinu vegna meðferðar stefna á félaginu umfram meintan skuldajöfnuð.  Byggi stefnandi því hvorki á þeirri málsástæðu að stefnandi hafi rýrt hlut hans í félaginu né tiltaki þá hverjar þessar ráðstafanir hefðu átt að vera.  Þar sem málatilbúnaður stefnanda byggi á því að hann eigi rétt á bótum fyrir eign sem hann þó telji sig enn eiga og með því að tilgreina hvorki þá háttsemi sem leiða eigi til bótaskyldu stefnda né byggi á að slík háttsemi sé grundvöllur bótanna, sé stefnda ómögulegt að vita hvað leiða eigi til þess að honum beri að greiða skaðabætur.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því, að stefnandi hafi selt sér hlutabréf sín á 1.488.000 krónur.

Stefndi kveður skýringar stefnanda á því að stefndi hafi lagt 1.488.000 krónur inn á reikning stefnanda hinn 10. ágúst 2000 ekki vera réttar.  Það rétta sé að hinn 27. september 2000 hafi verið greiddar 453.032 krónur inn á reikning félagsins, en það sé rangt að stefndi hafi með greiðslu 10. ágúst 2000 verið að greiða lán stefnanda til félagsins.  Stefndi bendir á að á þeim tíma hafi verið liðin tæp sjö ár frá meintu láni án þess að nokkurn tíma hafi verið minnst á það af hálfu stefnanda.  Í öðru lagi sé með engu móti hægt að skilja hvers vegna stefndi ætti að greiða stefnanda 488.000 krónur, ef um væri að ræða lán með vöxtum í sjö ár, upphaflega að fjárhæð 453.032 krónur.  Ekkert samhengi sé á milli þessara tveggja talna sem styrki enn þá staðreynd að ekki hafi verið um endurgreiðslu á láni að ræða.  Í þriðja lagi sé málflutningur stefnanda verulega á reiki varðandi þessar 488.000 krónur.  Í stefnu, dagsettri 25. apríl 2006, sé því haldið fram að fjárhæðin sé slysabætur sem greiddar hafi verið sem lán inn á reikning félagsins.  Framburður stefnanda tæpum þremur árum áður, í lögregluskýrslu, dagsettri 7. júní 2003, bendi ekki til þess að um hafi verið að ræða endurgreiðslu á láni vegna slysabóta.  Í skýrslunni segi hins vegar að stefnandi segi, aðspurður um 1.488.000 króna greiðsluna, að 488.000 krónur hafi verið fjármunir sem hann hafi lagt til kvótakaupa árið 1993.  Ekki sé minnst á slysabætur í skýrslunni.

Stefndi kveður stefnanda hafa fengið greidd laun frá Eyfreyjunesi ehf. þrátt fyrir slysið og með því hafi myndast réttur félagsins til bóta vegna slyssins.  Því hafi ekki verið um að ræða lán þegar greiðsla bóta frá Tryggingastofnun ríkisins, 453.052 krónur, hafi verið lagðar inn á reikning Eyfreyjuness ehf. hinn 27. september 1993.

Stefndi telur skýringar stefnanda á eftirstöðvum kaupverðsins, 1.000.000 króna, vera haldlitlar.  Stefndi mótmælir því að Eyfreyjunes ehf., hvað þá stefnandi, hafi átt nokkra kröfu á hendur stefnda vegna þeirra atriða sem ýjað sé að í stefnu að sé vegna „kvótaleigu og annað sem stefnandi hafi hagnast á“.  Hið rétta sé að stefndi hafi lagt allt sitt undir til að reyna að bjarga rekstri fyrirtækisins og hafi m.a. látið því í té aflaheimildir og unnið kauplaust.

Augljósustu skýringuna á því, að stefnandi velji fjárhæðina 1.488.999 krónur, en ekki einhverja aðra lægri, sé að mati stefnda að finna í framburði stefnanda í áðurnefndri lögregluskýrslu.  Þar segi stefnandi: „Þetta var þannig að ég var kominn í vandamál í Landsbankanum á Djúpavogi upp á kringum eina og hálfa milljón... Ég bað Tryggva um að redda mér gagnvart bankanum, sem hann gerði með því að leggja eina milljón og fjögur hundruð áttaríu og átta krónur inn á viðskiptareikning minn.“  Stefndi telur að með þessu sé ljóst að stefndi hafi verið að greiða skuldir stefnanda í skiptum fyrir hlut hans í félaginu.

Stefndi bendir á, að skaðabótaskylda verði ekki byggð á því að stefnandi hafi í raun ekki selt hlut sinn í Eyfreyjunesi ehf. hinn 10. ágúst 2000.  Til þess að skilyrði skaðabóta samkvæmt almennu skaðabótareglunni sé fullnægt þurfi stefnandi að sýna fram á að ólögmætar og saknæmar athafnir stefnda hafi valdið honum tjóni sem sé sennileg afleiðing af gjörðum hans.  Hvert sem verðmæti hlutafjár stefnanda hafi verið við hina umdeildu sölu eða þann dag er stefnandi hafi gengið úr stjórn félagsins þá hafi rangar tilkynningar til Hlutafélagaskrár ekki einar og sér leitt til tjóns fyrir meinta réttmæta eigendur hlutafjárins.  Það sem hins vegar gæti leitt til tjóns fyrir stefnanda væru ólögmætar ráðstafanir stefnda við rekstur félagsins sem leitt hefðu til þess að hlutur stefnanda í því hafi verið minna virði en ef þessar ráðstafanir hefðu ekki verið framkvæmdar.  Það hvíli á stefnanda að sýna fram á að ráðstafanir stefnda við stjórn fyrirtækisins, eftir að hin umdeildu viðskipti áttu sér stað hinn 10. ágúst 2000, hafi rýrt verðmæti þess og þar með hlut stefnanda.  Hvergi sé í stefnu minnst á hvaða ráðstafanir þetta hafi verið sem talið sé að geti verið grundvöllur skaðabótaskyldu eða hvaða áhrif þær eigi að hafa haft á verðmæti meints hlutar stefnanda og geti stefndi ekki varist fjárkröfu sem byggi á svo vanreifuðum ávirðingum.  Þau atriði í matsgerð sem stefnandi vísi til í stefnu telur stefndi að varði atvik sem áttu sér stað áður en kaupin á hlutafé stefnanda hafi farið fram og tilkynnt hafi verið um að hann væri genginn úr félaginu.  Matsgerðin geti því ekki verið grundvöllur skaðabóta í þessu máli sem varði meintar afleiðingar þess að stefnandi hafi í raun ekki selt hlut sinn árið 2000. 

Stefndi byggir á því að skilyrði um ólögmæta háttsemi sé ekki fullnægt og verði því engar skaðabætur leiddar af hugsanlegu tjóni vegna slíkra athafna stefnda.

Verði talið að stefndi hafi ekki selt hlut sinn í Eyfreyjunesi ehf. hinn 10. ágúst 2000, verði að ganga út frá því að stefnandi eigi enn hlutinn með réttu og geti fengið viðurkenningardóm um eignarrétt sinn, sé honum það nauðsynlegt.  Hann geti þá selt hlutinn og eigi ekki rétt á hærri bótum en nemi meintri verðrýrnun hlutarins, þ.e. verðmæti hans 1. júlí 2000 að frádregnu núverandi verðmæti.  Jafnvel að þeirri forsendu gefinni, að verðmæti fyrirtækisins 1. júlí 2000 hafi verið í samræmi við niðurstöðu matsmanns, liggi ekkert fyrir um hvert verðmætið sé í dag.  Liggi því ekki fyrir hver meint verðrýrnun hlutafjáreignar stefnanda sé og þar með hvert tjónið sé.  Stefnanda hafi verið í lófa lagið að óska eftir því að hinn dómkvaddi matsmaður mæti þetta atriði en kosið að gera það ekki.  Því sé með öllu ósannað hvort og þá hversu miklu verðminni hlutur stefnanda sé nú miðað við 1. júlí 2000.

Stefndi byggir á því að ekki sé unnt að leggja niðurstöðu matsgerðar til grundvallar fjárhæð meints tjóns.  Jafnvel þótt unnt væri að miða tjón stefnanda við verðmæti félagsins 1. júlí 2000 sé ljóst að ekkert liggi fyrir um hvert verðmætið hafi verið.  Ástæðan sé sú að stefnandi byggi fjárhæð kröfu sinnar við mat dómkvadds matsmanns en ljóst sé að matið sé háð verulegum og augljósum annmörkum, sem leiði til þess að niðurstaða þess sé röng.

Stefndi byggir varakröfu sína á því, að jafnvel þótt stefndi væri skaðabótaskyldur séu dómkröfur allt of háar.  Grundvöllur dómkrafna stefnanda séu matsgerð dómkvadds matsmanns.  Matsmaður reki þrjár matsaðferðir í matinu.  Samkvæmt tveimur þeirra hafi félagið verið verðlaust.  Dragi það úr líkum á því að hlutur sá er stefnandi seldi 10. ágúst 2000 hafi verið mikils virði.

Þrautalending matsmannsins hafi verið að meta svokallað upplausnarvirði félagsins, sem byggi á því að unnt hefði verið að selja allar eignir félagsins á markaðsvirði samtímis, á viðkomandi tímapunkti, án nokkurs kostnaðar.  Jafnvel þó rétt væri að miða við upplausnarvirði fremur en aðrar aðferðir sé ljóst að verðmæti hins selda félags hafi verið minna en matsmaður geri ráð fyrir.  Byggir stefndi það á eftirfarandi ástæðum.

Í fyrsta lagi hafi stefndi flutt aflamark af skipi sínu, Öðlingi, á skip félagsins, Vigur, sem hafi verið greitt fyrir í því skyni að reyna að halda lífinu í rekstrinum, sem verið hafi erfiður.  Ef kvótaleiga hefði verið reiknuð á þann kvóta, eins og stefndi hafi í raun átt kröfu til, sé ljóst að afkoma Eyfreyjuness ehf. hefði verið mun verri en raun beri vitni og eiginfjárstaða mun verri og verðmæti þ.a.l. mun minni.  Ef komið hefði til þess að leysa félagið upp og selja eignir og greiða niður skuldir hefði stefndi átt kröfu á hendur félaginu sem greiða hefði upp áður en hafist yrði handa við að úthluta því sem væri til skiptanna, þ.e. upplausnarandvirðinu.

Í öðru lagi, þar sem stefndi leggi til kvóta, sé ljóst að í lok fiskveiðiársins 1998-1999, þ.e. í lok ágúst 1999 hafi verið búið að nýta allan kvóta tilheyrandi fiskveiðiárinu.  Því sé sú leiga, sem reiknuð sé til tekna hjá Eyfreyjunesi ehf. í ársreikningi 1999, leiga vegna fiskveiðiársins 1999-2000, þó svo að ekki sé búið að flytja kvótann af Vigur.  Þar af leiðandi sé ekki bæði hægt að leigja frá sér kvótann innan ársins og færa hann til eignar sem óveiddan.  Leiðir þetta að sjálfsögðu til þess að verðmæti félagsins sé stórlega ofmetið í matsgerðinni.

Í þriðja lagi, varðandi tekjuskattsskuldbindingu, reikni matsmaður 18% tekjuskatt en í raun hafi tekjuskattsprósentan á viðkomandi tíma verið 30%, sbr. lög nr. 133/2001.  Hér sé um verulegar fjárhæðir að tefla sem leiði til enn frekari lækkunar á hinu selda.

Telur stefndi að samkvæmt þessu sé mati hins dómkvadda matsmanns ábótavant í mikilvægum atriðum.  Ekki sé því unnt að byggja á því til grundvallar fjárhæð meints tjóns stefnanda.  Af þessu leiðir að tjón stefnanda sé a.m.k. mun minna en stefnandi geri ráð fyrir.  Samkvæmt greinargerð Ragnars Bogasonar endurskoðanda sé niðurstaðan sú að verðmæti hlutar stefnanda geti í mesta lagi verið á bilinu 2.316.347 krónur til 2.687.495 krónur.  Hafi þá ekki verið reiknað með vöxtum á ógreidda leigu aflamarks allt árið 1993 og séu tölurnar því síst of lágar. 

Stefndi byggir á því að ljóst sé að um lán hafi verið að ræða en ekki gjöf eða greiðslu á meintum skuldum stefnanda, verði ekki fallist á að greiðslan 10. ágúst 2000 hafi verið vegna viðskipta aðila með hlutafé í Eyfreyjunesi ehf., og að stefnandi hafi móttekið 1.488.000 krónur úr hendi stefnda fyrir hlut að verðmæti 1.000.000 króna.  Höfuðstóll kröfu stefnanda í því tilviki sé 1.488.000 krónur.  Dráttarvextir reiknist frá 20. júní 2006 þegar stefndi fái gagnkröfugerð þessa í hendur.  Framangreind krafa komi því til skuldajafnaðar öllum kröfum sem stefnanda kunni að verða dæmdar í málinu.

Sönnunarbyrði um að stefnandi hafi ekki átt að greiða til baka svo verulegar fjárhæðir sem hér um ræðir hvíli á honum, verði ekki talið að um greiðslu fyrir hlutafé hafi verið að ræða. 

Stefndi mótmælir sérstaklega kröfu um dráttarvexti frá 25. apríl 2002.  Krafan sé ekki rökstudd að neinu leyti og sé stefnanda algerlega ókunnugt um þau atvik sem leiða eigi til þess að fallist verði á kröfuna.  Beri því að vísa kröfunni frá dómi ef málinu verði ekki vísað frá í heild sinni eða ef sýknað verði að öllu leyti.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar og almennra reglna um skaðabætur utan samninga.

Gagnkröfu til skuldajafnaðar byggir stefndi á 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála

V

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu skaðabóta fyrir það sem hann kallar, að stefnandi hafi sölsað undir sig eign hans í útgerðarfélaginu Eyfreyjunes ehf., sem hann átti hlut í ásamt stefnda.  Byggir stefnandi kröfu sína á því að hann eigi kröfu á skaðabótum úr hendi stefnda á grundvelli almennra reglna um skaðabætur utan samninga.  Hefur stefndi hins vegar haldið því fram, að hann hafi keypt hlutinn af stefnanda og greitt honum fyrir hann.  Af framangreindri lýsingu málsástæðna stefnanda í stefnu er ekki ljóst hvort hann telji sig enn vera eiganda að hlutum í útgerðarfélaginu Eyfreyjunesi ehf. og byggi á því að svo sé, eða hvort byggt sé á því að eignayfirfærsla milli hans og stefnda hafi farið fram.  Af stefnu verður og ekki ráðið á hverju stefnandi byggi skaðabótakröfu sína, og hvert hið skaðabótaskylda atvik er.  Breytir þá engu þó fyrir liggi matsgerð um meint tjón stefnanda, þar sem stefnandi hefur ekki skýrt bótagrundvöllinn eða þátt stefnda í hinu meinta tjóni.  Er því með öllu óljóst hvert er sakarefnið, hvaða atvik búa að baki kröfunni og hvað felst í þeim atvikum sem leiða eiga til þess að krafan sé til.  Telst því málatilbúnaður stefnanda svo óljós og óskýr að hann fullnægir ekki kröfum e. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til þess að efnisdómur verði lagður á málið.  Ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá dómi ex officio.

Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnandi úrskurðaður til þess að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá dómi ex officio.

Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.