Hæstiréttur íslands

Mál nr. 161/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 20

 

Þriðjudaginn 20. mars 2007.

Nr. 161/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. mars 2007. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. maí 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hin kærða úrskurðar „og að upphafleg krafa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu dags. 16. þ.m. um að kærði sæti gæsluvarðhaldi til 24. maí n.k. verði tekin til greina.“

Sóknaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti. Kemur því ekki til álita krafa hans um að gæsluvarðhaldi verði markaður lengri tími en samkvæmt hinum kærða úrskurði.

Samkvæmt gögnum málsins er kominn fram sterkur grunur um að varnaraðili hafi átt þátt í innflutningi á umtalsverðu magni hættulegra fíkniefna, þannig að varðað geti við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi á meðan máli hans er ólokið. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að X [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 24. maí 2007, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild rannsaki nú innflutning á 3.741,90 g af kókaíni og 36,60 g af amfetamíni til landsins sem fundust við leit tollgæslu í bifreið á hafnarsvæði Samskipa í Reykjavík. Bifreiðin hafði nýlega verið flutt til landsins frá Þýskalandi og hafði fíkniefnunum verið komið fyrir í bifreiðinni. Grunur leiki á því að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu hér á landi. Lögregla hafi koið gerviefnum fyrir í bifreiðinni og hafi fylgst með henni síðan. Þann 6. febrúar hafi A leyst bifreiðina út úr tollgeymslu vöruafgreiðslu Samskipa og í kjölfarið látið flytja bifreiðina á bifreiðastæði við dvalarstað sinn. Þann 8. febrúar sl. hafi A svo ekið bifreiðinni að bænum [...] og þar hafi bifreiðinni svo verið ekið inní skemmu við [...] um hádegi þann 9. febrúar. Lögreglan telji að þar hafi A, ásamt þá óþekktum manni, losað fíkniefnin úr mælaborði bifreið­arinnar. A hafi verið handtekinn í kjölfarið á Kringlumýrarbraut vegna rannsóknar málsins og úrskurðaður í gæsluvarðhald í kjölfarið. Við áframhaldandi rannsókn málsins hafi grunur lögreglu beinst að kærða og verið talið að hann hafi losað fíkniefnin úr bifreiðinni ásamt A í umrætt sinn. Þann 1. mars sl. hafi kærði svo verið handtekinn vegna málsins og í framhaldinu úrskurðaður í gæsluvarðhald. Sé nánar vísað til gagna málsins. A hafi verið yfirheyrður vegna málsins og hann neiti sök.  Um afstöðu hans til sakarefnisins og nánar um framburð hans sé vísað til framburðar­skýrslna. Þá hafi kærði einnig verið yfirheyrður vegna málsins og við skýrslutökur hjá lögreglu hafi hann játað að hafa farið að [...] umrætt sinn og að hafa losað efnin úr mælaborði bifreiðarinnar ásamt A, þó sagðist hann hafa vitað að um gerviefni væri að ræða. Hann hafi sagt að sitt hlutverk hafi verið að losa gerviefnin úr bifreiðinni og eyða þeim. Um afstöðu hans til sakarefnisins og nánar um framburð hans sé vísað til framburðarskýrslna kærða. Ljóst sé af gögnum málsins að framburðir A í málinu séu í miklu ósamræmi við framburð kærða við skýrslutökur hjá lögreglu og önnur gögn málsins.

Rannsókn málsins miði áfram og framundan séu m.a. frekari yfirheyrslur af meintum samverkamönnum kærða og A. Sem stendur hafi ekki öll bankagögn borist lögreglu en munu berast á næstunni. Unnið sé að úrvinnslu gagna, þar á meðal símagagna. Rannsókn málsins sé umfangsmikil og verði flýtt eftir föngum. Kærði þyki vera undir sterkum rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 2. mars sl. Meint aðild kærða þyki mikil en hann sé talin tengjast móttöku fíkniefnanna og milligöngu. Einnig sé lagt til grundvallar að um sé að ræða mjög mikið magn sterkra og hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærða þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli ljúki með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr.: 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þegar legið hafi fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi að miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Sé ekki talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir, og sé talið að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé fullnægt í því máli sem hér um ræði.

Verið sé að rannsaka ætluð brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og megi ætla að ef þau sönnuðust, þá myndu þau geta varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 103.

gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.

Fram kemur í rannsóknargögnum að sterkur, rökstuddur grunur sé um að kærði hafi átt aðild að innflutningi til landsins tæpum 4 kg af kókaíni og rúmum 36 g af amfetamíni, í ágóða­skyni, en slíkt brot getur varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegn­ingarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Talið er að hann tengist, móttöku fíkniefnanna og milligöngu. Stendur umfangsmikil rannsókn lögreglu yfir og miðar henni áfram með eðlilegum hraða. Þegar litið er til alvarleika brots þess sem kærði er grunaður um, magns og styrkleika hins hættulega fíkniefnis, þykja skilyrði til þess að fallast á kröfu lögreglustjórans um gæsluvarðhald með tilliti til almannahagsmuna sbr. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Fram kom í máli fulltrúa lögreglustjóra að sá tími sem kröfu um gæsluvarhald væri markaður, væri ætlaður til meðferðar málsins í heild sinni, þ.e. lúkningar rannsóknar, ákvörðunar um saksókn og meðferðar fyrir dómi. Verður á kröfuna fallist eins og fram kemur í úrskurðarorði.

Sigríður Hjaltested settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

             Kærði, X, [kt], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. maí 2007, kl. 16:00.